Categories
Greinar

Framsókn gegn sýklalyfjaónæmi

Deila grein

29/05/2019

Framsókn gegn sýklalyfjaónæmi

Ríkisstjórnin kynnti í dag að Ísland stefndi fyrst ríkja að banni á dreifingu á matvælum með sýklalyfjaónæmum bakteríum. Þetta hefur verið mikið baráttumál Framsóknar eins fólk hefur eflaust tekið eftir. Í febrúar héldum við fjölmennan opinn fund þar sem Lance Price, prófessor við Washington háskóla og Karl G. Kristinsson prófessor við Háskóla Íslands og yfirlækni við sýklafræðideild Landspítalans fjölluðu um þá ógn sem heiminum stafar af sýklalyfjaónæmi. Spár vísindamanna sýna að ef ekki er brugðist við af mikilli festu þá muni um 10 milljónir deyja af völdum sýklalyfjaónæmra baktería árið 2050, fleiri en af völdum krabbameins.

Einstök staða í íslenskum landbúnaði
Á Íslandi búum við að einstakri stöðu þar sem sýklalyfjanotkun er með því minnsta sem þekkist í heiminum. Vandamálið felst nefnilega að hluta til í því að á mörgum verksmiðjubúum meginlandsins er sýklalyfjum bætt í fóður til að koma í veg fyrir sýkingar og auka vöxt búfjár. Það þekkist ekki hér þar sem sýklalyf eru einungis gefin undir handleiðslu dýralækna.

Lýðheilsa og dýraheilbrigði
Þessi framsókn Íslands gegn sýklalyfjaónæmi er tengd því sem oft er kallað hráa-kjöts-málið. Við í Framsókn höfum lagt gríðarlega áherslu á það í vinnu við þingsályktun og lagafrumvarp að tryggja það að lýðheilsa þjóðarinnar og heilbrigði dýra séu eins og best verður á kosið og að íslenskur landbúnaður keppi á jafnréttisgrundvelli við innflutt matvæli. Við höfum óttast að óheftur innflutningur matvæla frá svæðum með stórum verksmiðjubúum þar sem dýraheilbrigði er fyrir borð borið myndi refsa íslenskum matvælaframleiðendum fyrir að framleiða hágæða matvæli og einfaldlega knýja þá til að draga úr gæðum í framleiðslu. Með þeim aðgerðum sem boðaðar hafa verið er íslenskur landbúnaður í sókn en ekki vörn. Þess ber að geta að bann við sýklalyfjaónæmum bakteríum í matvælum nær ekki aðeins til kjöts heldur einnig annarra matvæla, svo sem grænmetis.

Aukið eftirlit á markaði
Viðbótartryggingar eða vottorð verður að leggja fram við innflutning matvæla og verður sérstakt átak gert í því að kanna að þessar viðbótartryggingar séu réttar. Auk þess verður aukið eftirlit á markaði til að tryggja það að við getum treyst því að þau matvæli sem standa okkur til boða standist þær kröfur sem neytendur gera. Átak verður gert í upprunamerkingum til að neytendur viti hvaðan matvælin koma.

Lífsgæði að geta gengið að hreinum matvælum
Það er ákaflega ómaklegt hvernig íslenskum bændum hefur verið stillt upp sem andstæðingum neytenda og hefur verslunin beitt því áróðursbragði óspart í baráttu sinni fyrir óheftum innflutningi á kjöti. Það er ljótur leikur. Það eru hagsmunir allra að við getum treyst því að þær matvörur sem við leggjum til munns séu ósýktar. Í því felast mikil lífsgæði að geta gengið að hreinum og góðum landbúnaðarafurðum. Þessu hafa Íslendingar áttað sig á og á síðustu mánuðum hefur meðvitund Íslendinga um mikilvægi gæða þess sem við látum ofan í okkur stóraukist. Við í Framsókn viljum þakka öllum þeim sem hafa stutt okkur í baráttunni sem við sjáum nú verða að veruleika í öflugri framsókn gegn sýklalyfjaónæmi.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og dýralæknir.

Greinin birtist fyrst á frettabladid.is 29. maí 2019.

Categories
Fréttir

Banna á dreifingu matvæla sem innihalda kampýlóbakter, salmónellu og fjölónæmar bakteríur

Deila grein

29/05/2019

Banna á dreifingu matvæla sem innihalda kampýlóbakter, salmónellu og fjölónæmar bakteríur

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður, segir í yfirlýsingu í gær, að Ísland geti „verið í fararbroddi í aðgerðum til að draga úr útbreiðslu sýklalyfjaónæmis með banni á dreifingu matvæla sem í greinist sýklalyfjaónæmar bakteríur“. Meginstefið í áherslum Framsóknarmanna er að ná því fram að banna ætti dreifingu matvæla sem innihalda kampýlóbakter, salmónellu og fjölónæmar bakteríur.
Þegar hrákjötsfrumvarpið var lagt fyrir Alþingi í vetur bókaði þingflokkur Framsóknarmanna fyrirvara um málið og hefur verð unnið eftir í meðferð málsins í atvinnuveganefnd Alþingis. Fyrirvararnir snúa að því að:

  • sömu gæðakröfur verði gerðar til innfluttra matvæla frá Evrópska efnahagssvæðinu og gerðar eru til íslenskrar matvælaframleiðslu.
  • lýðheilsa beri ekki skaða af innflutningi vegna sýktra matvæla.

„Framsóknarflokkurinn hefur í vetur tekið sér stöðu og verið óhræddur við að benda á þá ógn sem við stöndum frammi fyrir hvað varðar fjölónæmar bakteríur. Fjölmennur fundur var haldinn á Hótel Sögu þar sem okkar helsti sérfræðingur Karl G. Kristinsson, prófessor í sýklafræði við læknadeild Háskóla Íslands, og yfirlæknir við sýkla- og veirufræðideild Landspítalans, fór yfir staðreyndir málsins. Auk þess sem við fengum Lance Price, prófessor George Washington-háskóla, og stjórnanda rannsóknaseturs skólans sem rannsakar ónæmi gegn sýklalyfjum. Hann brýndi fyrir fundarmönnum að verja þyrfti þá sérstöðu sem við búum við á Íslandi. Á grunni sérstöðunnar ættum við möguleika á að banna dreifingu á matvælum sem innihalda fjölónæmar bakteríur til að verja lýðheilsu manna og heilbrigði búfjár í landinu,“ segir Halla Signý.

Categories
Fréttir

Orkunýting og áframhaldandi þróun umhverfisvænna lausna

Deila grein

28/05/2019

Orkunýting og áframhaldandi þróun umhverfisvænna lausna

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður, ræddi í sérstakri umræðu um tækifæri garðyrkjunnar á Alþingi, mikilvægi þess að stjórnvöld skapi greininni eðlilegt starfsumhverfi til að keppa á markaðnum.
„Skapa þarf hvata til nýsköpunar í framleiðsluaðferðum, framleiðslutegundum til áframhaldandi þróunar umhverfisvænna lausna, hvort sem er varðandi orkunýtingu eða aðra framleiðsluþætti,“ sagði Líneik Anna.
Kolefnisfótspor og önnur umhverfisáhrif íslensks grænmetis og annarra afurða garðyrkjunnar eru miklu minni en þess innflutta.
„Þar fyrir utan gæti í stærra samhengi orkunýtingar innan lands, fæðuöryggis og umhverfisþátta, verið skynsamlegt að greiða verð á raforku niður til garðyrkjunnar ásamt því að styðja á einhvern hátt við alla matvöruframleiðslu garðyrkjubænda,“ sagði Líneik Anna.
Ræða Líneikar Önnu Sævarsdóttur, á Alþingi 20. maí 2019.

Categories
Fréttir

Kolefnisfótspor matvælaframleiðslu skiptir mannkynið allt máli

Deila grein

28/05/2019

Kolefnisfótspor matvælaframleiðslu skiptir mannkynið allt máli

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður, fór yfir í sérstakri umræðu, um tækifæri garðyrkjunnar, á Alþingi, á dögunum, stefnu stjórnvalda í stuðningi við garðyrkjubændur.
Stjórnvöld vinna að auknu framboði „og neyslu á garðyrkjuafurðum í samræmi við lýðheilsustefnu stjórnvalda og auka vitund almennings um hollustu og heilbrigða lífshætti,“ sagði Halla Signý.
„Hlýnun jarðar er talið vera eitt stærsta vandamál sem mannkynið stendur frammi fyrir um þessar mundir. Kolefnisfótspor matvælaframleiðslu skiptir mannkynið allt máli, hvernig matvæla við neytum og hvar tækifærin liggja. Forskot íslenskrar framleiðslu í grænmeti er umtalsverð miðað við innflutta framleiðslu. Það er mikilvægt að huga að tækifærum í þeim málum, bæði út frá fjárhagslegum kostnaði og umhverfissjónarmiðum. Útiræktun grænmetis er á undanhaldi og spurning er hvort það væri vilji til þess að taka upp beingreiðslur fyrir útiræktun, t.d. gegn niðurfellingu tollverndar.“
Ræða Höllu Signýjar Kristjánsdóttur, alþingismanns, á Alþingi 20. maí 2019.

Categories
Fréttir

Þrefaldað framlög til sérstakrar íslenskukennslu

Deila grein

27/05/2019

Þrefaldað framlög til sérstakrar íslenskukennslu

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, skrifar grein, er birtist í Fréttablaðinu 27. maí, þar sem hún ræðir að hlúa þurfi mun betur að námsframvindu ungmenna með annað móðurmál en íslensku. Skólasókn og brottfall innflytjenda í framhaldsskóla er algengara en annarra nemenda samkvæmt alþjóðlegu menntakönnunarinnar PISA.
„Áskoranir þessara nemenda eru margþættar en tungumálið er óneitanlega sú stærsta,“ segir Lilja Dögg, „höfum við þegar gripið til beinna aðgerða til að bæta þjónustu með því að þrefalda framlög til sérstakrar íslenskukennslu.“
„Þingmenn eru tilbúnir í þessa vegferð og vilja bæta þá þjónustu sem við veitum börnunum okkar. Við erum opið og framsækið samfélag sem vill nýta hæfileika allra þeirra sem búa hér. Í sameiningu og samvinnu munum við vinna að umbótum á menntakerfinu, til heilla fyrir samfélagið allt,“ segir Lilja Dögg.

Categories
Fréttir

Grunnstoð samfélagsins

Deila grein

27/05/2019

Grunnstoð samfélagsins

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, skrifar grein í Fréttablaðinu 15. maí s.l. um áherslu Sameinuðu þjóðanna á mikilvægi fjölskyldunnar er kemur að aðgerðum í loftslagsmálum.
„Stór verkefni eru fram undan til að Ísland nái markmiðum sínum í þeim efnum og ljóst að þeim verður ekki náð nema með átaki samfélagsins í heild. Þar hefur ekki skort þátttöku íslenskra barna og unglinga sem meðal annars hafa skipulagt loftslagsverkföll á Austurvelli og víðar um landið síðustu mánuði. Þrátt fyrir að kolefnisfótspor hverrar fjölskyldu sé lítið í stóra samhenginu er ljóst að fjölskyldur landsins munu í sameiningu gegna risastóru hlutverki í baráttunni fram undan,“ segir Ásmundur Einar.
„Við hvert fótmál bíða foreldra og barna þeirra nýjar hindranir og áskoranir, miserfiðar. Við þurfum öll á aðstoð að halda á einhverjum tímapunkti. Til þess að vel takist til þurfum við að búa til samfélag sem veitir hana þegar hennar er þörf og styður betur við þessa dýrmætustu einingu okkar, fjölskylduna. Það er einmitt á meðal markmiða heildarendurskoðunar á þjónustu við börn og fjölskyldur þeirra sem nú stendur yfir í félagsmálaráðuneytinu í samvinnu þvert á ráðuneyti, við Samband íslenskra sveitarfélaga og með liðsinni þingmanna úr öllum flokkum,“ segir Ásmundur Einar.

Categories
Greinar

Sameinað Alþingi

Deila grein

27/05/2019

Sameinað Alþingi

Staða innflytjenda í menntakerfinu var nýverið til umræðu á Alþingi og var málshefjandi umræðunnar Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir. Umræðurnar snerust mikið til um stöðu barna og ungmenna með annað móðurmál en íslensku. Rannsóknir benda til þess að ein helsta áskorun íslensks menntakerfis sé staða slíkra nemenda en hlúa þarf mun betur að námsframvindu þeirra. Niðurstöður alþjóðlegu menntakönnunarinnar PISA staðfesta mikilvægi þess, skólasókn innflytjenda í framhaldsskóla er minni en annarra nemenda og vísbendingar eru um að brottfall sé algengara meðal þeirra og aðsókn í háskóla minni.

Áskoranir þessara nemenda eru margþættar en tungumálið er óneitanlega sú stærsta. Stjórnvöld leggja nú sérstaka áherslu á að efla íslenskuna á sem flestum sviðum. Fyrir Alþingi liggur þingsályktunartillaga þess efnis og inniheldur hún heildstæða aðgerðaáætlun í 22 liðum. Í henni er meðal annars lagt til að þeir sem búsettir eru á Íslandi og hafa annað móðurmál en íslensku, börn jafnt sem fullorðnir, fái viðeigandi og jafngild tækifæri til íslenskunáms og stuðning í samræmi við þarfir sínar. Að auki hefur verið settur á laggirnar starfshópur sem Jóhanna Einarsdóttir, prófessor í menntunarfræðum ungra barna, fer fyrir. Sá hópur mun móta heildarstefnu í málefnum barna með annað móðurmál en íslensku. Einnig höfum við þegar gripið til beinna aðgerða til að bæta þjónustu með því að þrefalda framlög til sérstakrar íslenskukennslu.

Það sem var ánægjulegast við þessa sérstöku um­ræðu í þinginu var sá einhugur sem ríkir um að gera betur í málefnum barna með annað móðurmál en íslensku. Sú þverpólitíska samstaða um að gera betur í þessum efnum er dýrmæt og þótti mér vænt um að heyra innlegg þeirra þingmanna, úr öllum flokkum, sem lögðu sitt af mörkum til hennar. Þingmenn eru tilbúnir í þessa vegferð og vilja bæta þá þjónustu sem við veitum börnunum okkar. Við erum opið og framsækið samfélag sem vill nýta hæfileika allra þeirra sem búa hér. Í sameiningu og samvinnu munum við vinna að umbótum á menntakerfinu, til heilla fyrir samfélagið allt.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 27. maí 2019.

Categories
Fréttir

Treystum ekki vísindamönnum um sýklalyfjaónæmar bakteríur – en um aðgerðir við hlýnun jarðar gegnir öðru máli!

Deila grein

24/05/2019

Treystum ekki vísindamönnum um sýklalyfjaónæmar bakteríur – en um aðgerðir við hlýnun jarðar gegnir öðru máli!

Hjálmar Bogi Hafliðason, varaþingmaður, segir í yfirlýsingu í dag að nú mæti „unga fólkið okkar á Austurvöll í kröfugerð og krefst aðgerða í loftslagsmálum. Vísindamenn segja okkur að bregðast þurfi við hlýnun Jarðar. Við hlustum, treystum og trúum vísindamönnum vegna gjörða mannsins.“
Síðan segir Hjálmar Bogi, „á sama tíma segja vísindamenn okkur að ein helsta ógn við heilsu mannkyns eru sýklalyfjaónæmar bakteríur. Sem finnast m.a. í kjöti og dýraafurðum víða á Jörðinni. Þó í afar litlum mæli hér á landi. Því ættum við ekki að hlusta, treysta og trúa vísindamönnum í því máli? Hvers vegna að taka hagsmuni verslunar og viðskipta framar lýðheilsu fólks og heillar þjóðar?“

Categories
Fréttir

„Vil bjóða þetta fólk velkomið til Íslands“

Deila grein

23/05/2019

„Vil bjóða þetta fólk velkomið til Íslands“

Hjálmar Bogi Hafliðason, varaþingmaður, ræddi í störfum þingsins, í vikunni, mikilvægi þess að Íslendingar tækju vel á móti hópi flóttafólks frá Sýrlandi en þeim hefur verið búinn dvalarstaður á Blönduósi og á Hvammstanga. Segir Hjálmar Bogi að það væri til mikils að vinna að nýta komu þeirra og dvöl til að auðga okkar eigin menningu og samfélag.
„Við búum í samfélagi þjóða, tökum þátt í vaxandi heimi þar sem fjölmenning ryður sér til rúms,“ sagði Hjálmar Bogi.
Ræða Hjálmars Boga Hafliðasonar, varaþingmanns, á Alþingi 21. maí 2019.

„Hæstv. forseti. Í síðustu viku komu hingað til lands um 50 flóttamenn og var þeim búinn dvalarstaður á Blönduósi og á Hvammstanga þar sem heimamenn í samstarfi við ríkið undirbjuggu komu þeirra og tóku á móti þeim. Hér er um að ræða flóttafólk frá Sýrlandi sem hefur dvalið í Líbanon undanfarin ár, níu fjölskyldur og um 30 börn. Ég vil hvetja önnur sveitarfélög til að gera slíkt hið sama. Við eigum að taka þessu fólki fagnandi og nýta okkur komu þeirra og dvöl til að auðga eigin menningu og samfélag, enda er það markmið flestra flóttamanna að snúa aftur til síns heima.
Það er í mörg horn að líta hjá litlu samfélagi og mikilvægt að vanda sig, svo sem hvernig íslenskukennslu er háttað. Ef okkur Íslendingum auðnast að vökva framandi menningu og blanda við okkar eigin mun okkur farnast vel. Við búum í samfélagi þjóða, tökum þátt í vaxandi heimi þar sem fjölmenning ryður sér til rúms. Okkur birtust sömuleiðis fyrir skemmstu fréttir um það að aldrei í sögunni hafa fleiri einstaklingar verið á hrakhólum innan eigin landa vegna átaka, ofbeldis eða náttúruhamfara. Samkvæmt nýrri skýrslu voru um 42 milljónir manna á vergangi í eigin landi um síðustu áramót. Útgefendum skýrslunnar eru alþjóðleg samtök sem sérhæfa sig í málefnum fólks á hrakningi innan eigin lands og norska flóttamannaráðið. Fjallað er um málið á vefsíðu Heimsljós, upplýsingaveitu utanríkisráðuneytisins um þróun og mannúðarmál.
Spyrjum okkur sjálf eins og Kant gerði: Viljum við að þær lífsreglur sem við setjum okkur verði jafnframt að hinu almenna lögmáli, ekki aðeins fyrir okkar kynslóð heldur líka þá næstu? Ætli stjórnmálamaður dagsins í dag hafi kjark til þess sem þarf? Ég vil nota þetta tækifæri til að bjóða þetta fólk velkomið til Íslands.“

Categories
Greinar

Stærsti sigurinn að vera með

Deila grein

23/05/2019

Stærsti sigurinn að vera með

„Stærsti sig­ur­inn er að vera með.“ Þannig hljóðaði fyrsta kjör­orð Íþrótta­sam­bands fatlaðra (ÍF) sem fagnaði 40 ára af­mæli um nýliðna helgi. Það er óhætt að segja að ÍF hafi sann­ar­lega lagt sitt af mörk­um til þess að efla íþrótt­astarf fatlaðs fólks í sam­fé­lag­inu og skapa því þann virðing­arsess sem það hef­ur í dag. Við stofn­un fé­lags­ins voru það ekki viðtek­in viðhorf að fatlað fólk ætti er­indi í íþrótt­ir. Áhugi al­menn­ings var tak­markaður og fátt fatlað fólk stundaði íþrótt­ir. Með til­komu ÍF átti þetta eft­ir að breyt­ast og þegar litið er til baka þá hafa af­rek fatlaðs fólks á íþrótta­vell­in­um vakið ein­læga aðdáun og virðingu.

Íslensk­ir kepp­end­ur tóku fyrst þátt í Ólymp­íu­móti fatlaðra árið 1980 og síðan hef­ur Ísland átt kepp­end­ur á slík­um mót­um og sent þátt­tak­end­ur til keppni í Evr­ópu og á heims­meist­ara­mót. For­svars­menn ÍF sýndu einnig mikla fram­sýni og skiln­ing á mik­il­vægi íþrótta fyr­ir alla.

Ekki geta þó all­ir orðið af­reks­menn og sum­ir vilja ein­ung­is vera með því að þeir finna það á lík­ama og sál að iðkun íþrótta hef­ur góð áhrif. Þá eru áhersl­ur ÍF á hreyfi- og fé­lags­færni barna á tím­um snjall­væðing­ar aðdá­un­ar­verðar og til eft­ir­breytni. Það er vitað að ein­angr­un og skort­ur á fé­lags­færni get­ur dregið úr mögu­leik­um ein­stak­linga til þess að eiga inni­halds­ríkt og sjálf­stætt líf. ÍF hef­ur brugðist við þess­um áskor­un­um sam­tím­ans af virðingu og skiln­ingi og lagt sig sér­stak­lega fram við að bjóða upp á góða leiðsögn og leiðbein­ing­ar varðandi iðkun íþrótta. Um leið hef­ur verið hlúð að fé­lags­leg­um tengsl­um sem styrkt hafa sjálfs­virðingu og sjálfs­mynd þátt­tak­enda. For­eldr­ar, systkini, afar og ömm­ur hafa einnig fengið hvatn­ingu til þess að taka þátt og hef­ur það haft upp­byggj­andi og já­kvæð áhrif á alla í fjöl­skyld­um viðkom­andi.

ÍF hef­ur alltaf verið vak­andi fyr­ir straum­um sam­fé­lags­ins á hverj­um tíma. Auk­in sam­vinna milli al­mennra íþrótta­fé­laga og ÍF hef­ur leitt af sér áhuga­verða og skemmti­lega þróun þar sem fatlaðir og ófatlaðir eiga sam­leið í íþrótt­um. Allt ger­ir þetta sam­fé­lagið betra.

Ég vil þakka ÍF hjart­an­lega fyr­ir sam­vinn­una og fram­lag þess til að styrkja ís­lenskt sam­fé­lag á liðnum árum. Ég hlakka til að fylgj­ast með iðkend­um ganga á vit nýrra æv­in­týra, minni á kjör­orðið og hvet sem flesta til að vera með.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 23. maí 2019.