Categories
Fréttir

„Ekki verið að færa aukið vald yfir orkumálum Íslands til Evrópu“

Deila grein

20/05/2019

„Ekki verið að færa aukið vald yfir orkumálum Íslands til Evrópu“

Silja Dögg Gunnarsdóttir, alþingismaður, fór yfir í ræðu á Alþingi, 14. maí s.l., ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn. Í ræðu sinni rakti Silja Dögg mikilvægi þess að orka verði í eigu almennings og að sú ákvörðun sé í höndum íslenskra stjórnmálaflokka, ekki í höndum Evrópusambandsins. Framsóknarflokurinn væri skýr með þetta atriði og að mikilvægt væri að aðrir flokkar myndu skýra sína afstöðu. Einnig fór Silja Dögg yfir að með orkupakkanum væri ekki verið að taka ákvörðun um það hvort leggja eigi sæstreng eða á annan hátt framselja valdheimildir íslenskra yfirvalda til slíkrar ákvarðanatöku. Ítrekaði hún að ekki verið væri að taka ákvörðun um framsal valds til ACER. Fram kom hjá Silju Dögg að  meginbreytingin frá orkupakka tvö í þrjú væri að Orkustofnun hafi auknar heimildir til eftirlits á raforkumarkaði, Orkustofnun væri íslenskt stjórnvald og verði það áfram, ekki afgreiðslustofnun eða útibú frá ACER.
Í lok ræðu sinnar sagði Silja Dögg að hlustað hafi verið á gagnrýnisraddir og að þær hafi hjálpað mikið til við að bæta málið. „Framundan er vinna við orkupakka fjögur og fimm. Við þurfum að vera vel vakandi við þá vinnu og gæta hagsmuna okkar í hvívetna. Einnig er mikilvægt að tryggja að eignarhald orkufyrirtækja verði áfram hjá hinu opinbera, opinberum fyrirtækjum. Við þurfum að ljúka við orkustefnu sem er á teikniborðinu og gerð eigendastefnu fyrir Landsvirkjun og Landsnet sem og að uppfæra stjórnarskrá okkar og þá á ég við auðlindaákvæðið og heimildir um valdaframsal. Að mínu mati myndi það styrkja málið verulega ef sett yrði inn ákvæði í frumvarp um sæstreng er varða þjóðaratkvæðagreiðslu,“ sagði Silja Dögg.
Ræða Silju Daggar Gunnarsdóttur, alþingismanns, 14. maí.

„Hæstv. forseti. Umræðan um þriðja orkupakkann hefur dregið athygli þjóðarinnar að stefnumörkun í orkumálum, eignarhaldi auðlinda sem og utanríkismálum. Sú umræða hefur verið holl og skiptir máli til framtíðar. Við þurfum að tryggja að orkan verði í eigu almennings. Við þurfum að breyta lögum um vatnsréttindi og eignarhald á jörðum til að tryggja innlent eignarhald. Við ættum einnig þótt fyrr hefði verið að beita okkur fyrir því að aðeins verði um einn taxta að ræða fyrir dreifingu raforku. Allt sem nefnt hefur verið er íslensk pólitík. Þessar ákvarðanir eru í höndum íslenskra stjórnmálaflokka, ekki í höndum Evrópusambandsins. Það er líka í okkar höndum hvort við ætlum að halda áfram EFTA-samstarfinu. Það er í okkar höndum hvort við viljum leggja sæstreng. Það er í okkar höndum hvort við viljum vera áfram aðilar að samningi um Evrópska efnahagssvæðið.
Herra forseti. Það er tími til kominn að íslenskir stjórnmálaflokkar stígi fram og geri grein fyrir hvar þeir standa í þessum málum. Það er alveg á hreinu hvar Framsóknarflokkurinn stendur. Við viljum tryggja eignarhald almennings á orkufyrirtækjum, að Landsvirkjun verði áfram í opinberri eigu og trygga innlent eignarhald á jörðum og vatnsréttindum. Við viljum að eitt og sama verð sé á dreifingu raforku fyrir alla. Við viljum styrkja þennan sameiginlega grunn og eignarhald, til að mynda sjáum við fyrir okkur að sameina Landsnet og Rarik. Við teljum að orkuauðlindin sé ein af mikilvægustu forsendum velmegunar í landinu og því þarf að tryggja að allar ákvarðanir í orkumálum verði í höndum Íslendinga. Framsóknarflokkurinn telur tengingu við raforkukerfi Evrópu með sæstreng ekki þjóna hagsmunum landsmanna.
Umræðan um orkupakka þrjú í þjóðfélaginu hefur verið lífleg. Talsvert hefur borið á rangfærslum um hvert sé raunverulegt innihald pakkans. Sumir hafa haldið því fram að innleiðum við þriðja orkupakkann væri Alþingi að samþykkja eftirfarandi:

1. Að afsala okkur yfirráðum yfir auðlindum okkar með því að færa ACER, eftirlitsstofnun Evrópu, valdheimildir.

2. Að orkupakkinn skyldi okkar til að leggja sæstreng, virkja og flytja orku til erlendra ríkja.

3. Með því að neita að leggja sæstreng myndi íslenska ríkið skaðabótaskylt á grundvelli fjórfrelsis EES-samningsins þar sem orka er skilgreind sem vara samkvæmt honum og því væri bann við lagningu sæstrengs brot á viðskiptafrelsi Evrópska efnahagssvæðisins.

4. Þá halda sumir því fram að innleiðingu á orkupakka þrjú feli í sér einkavæðingu orkufyrirtækja.

Hæstv. forseti. Um þetta vil ég segja að það er eðlilegt að fólk velti slíku fyrir sér enda um mikla hagsmuni að ræða. Það er gott að svo margir hafi áhuga á málinu því að þá náum við að kalla fram margar hliðar og rannsaka málið út frá þeim. Því fór hv. utanríkismálanefnd vandlega yfir þessar fullyrðingar, fékk til sín fjölda gesta og umsagnir sérfræðinga og annarra sem höfðu eitthvað til málanna að leggja. Yfirferð nefndarinnar er vandlega skjalfest í nefndarálitinu, sem að mínu mati er mjög gott og ítarlegt. Þar er gerð grein fyrir niðurstöðu meiri hlutans sem er sú að ofangreindar fullyrðingar standist ekki skoðun. Það er ekki verið að brjóta gegn stjórnarskrá og um það er enginn lagalegur ágreiningur. Með orkupakkanum er ekki verið að taka ákvörðun um það hvort leggja eigi sæstreng eða á annan hátt framselja valdheimildir íslenskra yfirvalda til slíkrar ákvarðanatöku. Það er ekki verið að taka ákvörðun um framsal valds til ACER. Það er ekki verið að taka ákvörðun um að aðrir en íslensk stjórnvöld hafi forræði um nýtingu orkuauðlinda. Það er ekki verið að taka ákvörðun um að íslensk stjórnvöld þurfi að selja auðlindir sínar eða missi forræði á slíkum eignum sínum. Það er ekki verið að taka ákvörðun um að íslensk stjórnvöld þurfi að selja eða einkavæða raforkufyrirtæki í sinni eigu. Ríkið er ekki skaðabótaskylt á grundvelli fjórfrelsisins ef það neitar að leggja sæstreng.
Herra forseti. Annar punktur sem mikið hefur verið ræddur í tengslum við málið er hvers vegna við séum að samþykkja orkupakkann þar sem við erum ótengd evrópskum raforkumarkaði, hann skipti okkur engu máli. Við ættum auðvitað að hafna honum á þeim forsendum og senda málið til baka til sameiginlegu EES-nefndarinnar, það sé hin rétta leið, eins og sumir vilja kalla það.
Þá er rétt að spyrja: Myndi höfnun á pakkanum þjóna hagsmunum Íslendinga betur en að samþykkja hann með framlögðum fyrirvörum? Er höfnun raunverulegur valkostur í ljósi samstarfs okkar í EFTA og gagnvart EES-samningnum?
Ísland gekk í EFTA árið 1970 og Ísland varð aðili að Evrópska efnahagssvæðinu árið 1994, fyrir 25 árum síðan. Að flestra mati voru þessar ákvarðanir framfaraskref. Þegar við samþykktum EES-samninginn var skoðað vandlega hvort upptaka samningsins bryti stjórnarskrá okkar. Svo var ekki. Það kom í ljós við vinnslu málsins að 102. gr., þar sem kveðið er á um að ríkið geti hafnað tilskipunum, er fyrst og fremst öryggisventill. Yfir þetta er farið mjög vandlega í nefndaráliti meiri hlutans. Greinin er tæki í samningsferlinu í nefndinni fyrir ríki til að skapa sér ákveðna samningsstöðu innan nefndarinnar. Það er ástæða fyrir því að engin fordæmi eru fyrir því í 25 ára sögu samningsins að ríki hafni tilskipunum eftir að ríki hafa lokið vinnu í sameiginlegu nefndinni og komið sér saman um niðurstöðu. Að gera slíkt væri misbeiting á réttindum okkar innan EFTA.
Herra forseti. Í meirihlutaáliti hv. utanríkismálanefndar er vandlega farið yfir þessa þætti eins og fyrr segir. Nefndin fékk m.a. á sinn fund títtnefndan Carl Baudenbacher, fyrrverandi forseta EFTA-dómstólsins. Hann útskýrði m.a. að innan sameiginlegu EES-nefndarinnar hvílir sú ábyrgð á fulltrúum að leggja sig fram við að viðhalda góðri framkvæmd samningsins. Þessi regla er kölluð favor contractus upp á latínu og skiptir mjög miklu máli. Herra Baudenbacher talaði um að höfnun myndi án efa skaða hagsmuni íslenska ríkisins verulega og rökstuddi það mjög ítarlega. EFTA-ríkin verði að tala einni röddu gagnvart EES. Ísland er bundið hollustuskyldu gagnvart samstarfsríkjum sínum. Samstarf okkar byggist á gagnkvæmu trausti og náinni samvinnu þjóða og því gera bæði Liechtenstein og Noregur ráð fyrir því að við séum heil í okkar samstarfi og að við afléttum hinum stjórnskipulega fyrirvara í orkupakka þrjú sem þau hafa þegar gert.
Þannig að svarið er, herra forseti: Ástæða þess að við kjósum að innleiða reglur um orkumarkað með fyrirvörum er að við erum aðilar að innri markaði Evrópu og höfum verið það í 25 ár.
Sameiginlega EES-nefndin er sá vettvangur þar sem þjóðir geta aðlagað regluverkið aðstæðum í heimalandinu, fengið undanþágur og annað slíkt. Þjóðþing hafa ítrekaða aðkomu að því ferli eins og gerðist í okkar tilfelli og er einmitt rakið í nefndarálitinu þegar vinnan stóð við að innleiða orkupakka þrjú. Í starfi sameiginlegu nefndarinnar liggur sveigjanleikinn en ekki í því að hafna reglum þegar aðlögun hefur átt sér stað.
Hvenær og hvers vegna hófst þessi vegferð Íslendinga með innleiðingu á reglum um evrópskan orkumarkað? Hún hófst árið 2003 þegar við innleiddum orkupakka eitt. Með þeirri innleiðingu hófst í raun markaðsvæðing raforkukerfisins. Afleiðing þeirrar vegferðar var m.a. aukin samkeppni á markaði, aukin neytendavernd og lægra orkuverð til heimila, svo eitthvað sé nefnt. Nokkrum árum síðar, árið 2009 var orkupakki tvö innleiddur og hann er nú í gildi. Í svari hæstv. utanríkisráðherra við fyrirspurn frá hv. þm. Óla Birni Kárasyni á þskj. 1315 á yfirstandandi löggjafarþingi kemur m.a. fram hvers vegna þessi ákvörðun var tekin og margt reyndar fleira varðandi alla orkupakkana þrjá og fjögur og fimm. Í svarinu er bent á ákvæði 2. mgr. 194. gr. sáttmálans um starfshætti Evrópusambandsins, sem við erum reyndar ekki aðilar að en er grunnurinn að EES-samningnum að hluta til, þar sem fram kemur að ráðstafanir samkvæmt málsgreininni séu með fyrirvara um rétt aðildarríkis til að ákvarða með hvaða skilyrðum orkulindir þess eru nýttar, hvaða orkugjafa það velur og almenna tilhögun orkuafhendingar. Stefán Már Stefánsson, sem kom fyrir hv. utanríkismálanefnd og skilaði áliti, ítrekaði gildi 194. gr. sáttmálans og benti á að þar sem Ísland væri ekki í Evrópusambandinu mætti ætla að reglur Evrópusambandsins gengu ekki lengra hvað okkur varðar sem erum ekki aðilar að Evrópusambandinu.
Herra forseti. Rétt er að undirstrika að með innleiðingu orkupakka þrjú fellur orkupakki tvö úr gildi. En hvað er í pakkanum? Þar eru gerðir varðandi jarðgas en Ísland fékk undanþágu frá þeim. Það er krafa um eigendaaðskilnað flutningsfyrirtækja. Ísland fékk undanþágu. Það eru ítarlegri ákvæði um sjálfstæði raforkueftirlits, nýmæli, m.a. um sjálfstæði frá aðilum á markaði og stjórnvöldum. Hnykkt er á þeim sterka neytendarétti sem einkennir alla orkupakkana og felst m.a. í skýrum rétti neytenda til að velja sér orkusala að vild, skipta hratt og auðveldlega um orkusala sem og að fá ítarlegar upplýsingar um orkunotkun og verðlagningu.
Fyrir okkur Íslendinga er meginbreytingin frá orkupakka tvö í þrjú sú að Orkustofnun fær auknar heimildir til eftirlits á raforkumarkaði. Það liggur ljóst fyrir að Orkustofnun er íslenskt stjórnvald og verður það áfram, ekki afgreiðslustofnun eða útibú ACER. Yfir þetta höfum við farið mjög vandlega í hv. utanríkismálanefnd. Þetta er alveg skýrt. Hv. þm. Ari Trausti Guðmundsson fór vandlega yfir þetta í sinni ræðu.
Hér á landi starfa nokkur orkufyrirtækja á samkeppnismarkaði og um starfsemi þeirra gilda samkeppnislög eins og áður segir. Svo er ágætt að undirstrika það að hér á landi erum við einnig með raforkulög sem skipta máli í samhengi hlutanna. Ég tel að við getum verið sammála um að styrking Orkustofnunar sé hið besta mál.
Í þessu samhengi er rétt að nefna þær áhyggjur sem margir hafa haft varðandi þann fyrirvara sem Ísland setur gagnvart tilskipun 713/2009 sem snýr að ACER. Í fyrsta lagi var sleginn sá varnagli að leggja fram frumvarp sem kveður á um að ekki verði lagður sæstrengur án samþykkis Alþingis og endurskoðun á lagagrundvelli reglugerðarinnar.
Í öðru lagi, til að skerpa á sérstöðu Íslands sem eyju með ótengt raforkukerfi við meginland Evrópu, sendu Miguel Arias Canete, orkumálaráðherra Evrópu og Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra Íslands, frá sér sameiginlega yfirlýsingu, dags. 20. mars á þessu ári. Í yfirlýsingunni kemur fram að gildandi ákvæði þriðja orkupakka ESB hafa engin áhrif á fullveldi ríkisstjórnar Íslands yfir orkuauðlindum Íslands og að ákvörðunarvald um raforkustrengi milli Íslands og innri raforkumarkaðar ESB liggi alfarið hjá íslenskum stjórnvöldum. Yrði sæstrengur lagður í framtíðinni hefði ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, ákvörðunarvald um málefni sem ná yfir landamæri en ekki ACER líkt og samþykkt hefði verið í aðlögunartexta sameiginlegu EES-nefndarinnar, sem endurspeglar sjálfstæði stofnana EFTA undir tveggja stoða kerfi EES-samningsins.
Í þriðja lagi varðandi fyrirvarana þá lögðu EFTA-ríkin sem eiga aðild að EES-samningnum, ríkin þrjú, Ísland, Noregur og Liechtenstein, fram sameiginlega yfirlýsingu í sameiginlegu EES-nefndinni, 8. maí sl., þar sem sérstaða Íslands hvað varðar innri raforkumarkaði ESB er enn frekar áréttuð. Í yfirlýsingunni kemur fram að ákvæði þriðja orkupakkans hafi engin áhrif á full yfirráð ríkjanna yfir orkuauðlindum sínum, ráðstöfun þeirra og hagnýtingu. Ákvarðanir um samtengingu raforkukerfa þeirra og orkukerfs innri markaðar ESB væri ávallt á forræði þeirra. Komi til lagningar sæstrengs í framtíðinni sé fyrirkomulagið þannig að ESA úrskurði um ágreiningsmál varðandi Ísland en ekki ACER. Það er í fyllsta samræmi við tveggja stoða kerfi EES-samningsins.
Þetta eru lykilskjöl í málinu, herra forseti. Með þessum yfirlýsingum og frumvarpi um sæstreng frá hæstv. iðnaðarráðherra er tryggt að fyrirvarar Alþingis halda til framtíðar. Þeir hafa óumdeilanlega lagalegt gildi, þjóðréttarlegt gildi, og því er afar mikilvægt við afgreiðslu málsins að árétta að þeir séu forsenda afgreiðslu málsins.
Nefnt hefur verið að fyrirvarar muni ekki halda þrátt fyrir allt og sumir byggja þá skoðun sína á hráakjötsmálinu svokallaða. Þessi tvö mál er ekki sambærileg. Í kjötmálinu komust dómstólar að þeirri niðurstöðu að Ísland hefði ekki innleitt samningsskuldbindingar sínar samkvæmt ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar með réttum hætti. Innleiðing á Íslandi var gerð þannig að frumvarp til laga vegna innleiðingar var lagt fram á Alþingi nokkrum sinnum. Þegar það var loks samþykkt eftir nokkrar tilraunir var það í nokkuð breyttri mynd frá því sem upphaflega var lagt til, til að innleiða umræddar gerðir. Þarna voru gerð mistök af hálfu Alþingis. Þetta var ekki rétt gert. Nú erum við að tala um allt aðra hluti.
Niðurstaða mín er sú að við höfum búið þannig um hnútana í þessu máli að fyrirvarar muni örugglega halda. Við erum í raun ekki bara komin með belti og axlabönd eins og við í Framsóknarflokknum höfum lagt mikla áherslu á frá upphafi, heldur erum við komin með, ja, hvað skal segja, álímdan hártopp, smekkbuxur og nýja skó.
Herra forseti. Það er ekki verið að færa aukið vald yfir orkumálum Íslands til Evrópu. Ekkert slíkt felst í þriðja orkupakkanum og málið snýst því ekki um það. Sérstaða Íslands með einangrað raforkukerfi er áréttuð með lagalegum fyrirvara í þingsályktunartillögunni sjálfri og í sameiginlegri tilkynningu utanríkisráðherra Íslands og framkvæmdastjóra orkumála hjá framkvæmdastjórn ESB, ásamt bréfi dags. 8. maí sl. frá EFTA-ríkjunum sem ég hef áður fjallað um.
Við höfum hlustað á gagnrýnisraddir. Þær athugasemdir hafa hjálpað til við að bæta málið. Fram undan er vinna við orkupakka fjögur og fimm. Við þurfum að vera vel vakandi við þá vinnu og gæta hagsmuna okkar í hvívetna. Einnig er mikilvægt að tryggja að eignarhald orkufyrirtækja verði áfram hjá hinu opinbera, opinberum fyrirtækjum. Við þurfum að ljúka við orkustefnu sem er á teikniborðinu og gerð eigendastefnu fyrir Landsvirkjun og Landsnet sem og að uppfæra stjórnarskrá okkar og þá á ég við auðlindaákvæðið og heimildir um valdaframsal. Að mínu mati myndi það styrkja málið verulega ef sett yrði inn ákvæði í frumvarp um sæstreng er varða þjóðaratkvæðagreiðslu.
Ég vil þakka formanni nefndarinnar fyrir afar gott utanumhald í störfum nefndarinnar, gott skipulag, góða upplýsingagjöf til nefndarmanna og nefndarmönnum utanríkismálanefndar fyrir samstarfið. Ég tel, varðandi þær efasemdir sem sum okkar kunna að hafa haft í upphafi við vinnslu málsins, að við höfum fengið gott pláss til að fara yfir þær og fá svör við þeim spurningum sem á okkur brunnu, þannig að ég get ekki annað en hrósað formanni nefndarinnar og nefndarmönnum fyrir mjög gott samstarf og ítarlega yfirferð.
Að lokum vil ég gera orð formanns Framsóknarflokksins, Sigurðar Inga Jóhannssonar, sem hann ritar í grein í Kjarnanum í dag að mínum þar sem hann segir, með leyfi forseta:
„Það er mikilvægt þegar kemur að auðlindum Íslands að tryggja full yfirráð þjóðarinnar yfir þeim. Það er mikilvægt að við hugsum um hagsmuni heildarinnar — í bráð og lengd. Það er einnig mikilvægt að við tökum ákvarðanir um hagsmuni þjóðarinnar á réttum forsendum. Að við göngum ekki inn í stjórnmál reiðinnar, stjórnmál óttans, og gerum þau að okkar lögheimili og varnarþingi.““

Categories
Greinar

Vöxtur í alþjóðlegu menntasamstarfi

Deila grein

19/05/2019

Vöxtur í alþjóðlegu menntasamstarfi

Íslend­ing­ar hafa í gegn­um ald­irn­ar verið víðförl­ir, sótt sér mennt­un og leitað sókn­ar­færa víða. Dæmi um ís­lenska mennta- og lista­menn sem öfluðu sér þekk­ing­ar er­lend­is eru Snorri Sturlu­son sem á 13. öld fór til Nor­egs og Svíþjóðar, Ein­ar Jóns­son mynd­höggv­ari sem á 19. og 20. öld­inni dvaldi í Kaup­manna­höfn, Róm, Berlín og Am­er­íku og Gerður Helga­dótt­ir, einnig mynd­höggv­ari, sem nam við skóla í Flórens og Par­ís.

Það er já­kvætt hversu marg­ir velja að læra er­lend­is. Við eig­um að hvetja ungt fólk til að afla sér þekk­ing­ar sem víðast og skapa því viðeig­andi um­gjörð sem ger­ir því það kleift. Í störf­um mín­um sem mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra legg ég mikla áherslu á að styrkja ís­lenskt mennta­kerfi, til dæm­is með því að bæta starfs­um­hverfi kenn­ara, en ekki síður að við horf­um út í heim og rækt­um góð sam­skipti við aðrar þjóðir á sviði mennta-, vís­inda- og menn­ing­ar­mála. Und­an­farið hafa náðst ánægju­leg­ir áfang­ar á þeirri veg­ferð sem fjölga tæki­fær­um okk­ar er­lend­is.

Merk­ur áfangi í sam­skipt­um við Kína

Í vik­unni var í fyrsta sinn skrifað und­ir samn­ing við Kína um aukið sam­starf í mennta­mál­um. Samn­ing­ur­inn mark­ar tíma­mót fyr­ir bæði ís­lenska og kín­verska náms­menn en hann stuðlar að gagn­kvæmri viður­kenn­ingu á námi milli land­anna og eyk­ur sam­starf á há­skóla­stig­inu. Kína hef­ur gert hliðstæða samn­inga við rúm­lega 50 önn­ur ríki, þar á meðal við hin nor­rænu lönd­in. Rúm­lega 30 kín­versk­ir náms­menn stunda nú nám á Íslandi en um 30 Íslend­ing­ar stunda nám í Kína á ári hverju en ís­lensk­ir há­skól­ar eiga þegar í marg­vís­legu sam­starfi við kín­verska há­skóla.

Vægi ut­an­rík­is­viðskipta í lands­fram­leiðslu á Íslandi er um­tals­vert, eins og hjá öðrum litl­um opn­um hag­kerf­um. Greiður aðgang­ur að er­lend­um mörkuðum er lyk­il­atriði hvað varðar hag­sæld og efna­hags­legt ör­yggi til fram­búðar. Mik­il­vægi Kína sem framtíðar­vaxt­ar­markaðar í þessu sam­hengi er veru­legt. Marg­vís­leg tæki­færi fel­ast í sam­skipt­um við Kína og viðskipti milli land­anna hafa auk­ist und­an­far­in ár. Þjón­ustu­út­flutn­ing­ur til Kína hef­ur auk­ist um 201% en heild­arþjón­ustu­út­flutn­ing­ur Íslands um 46% frá ár­inu 2013. Ljóst er að fjöl­mörg tæki­færi eru í sam­starfi ríkj­anna hvað varðar mennt­un, viðskipti, rann­sókn­ir og ný­sköp­un.

Vís­inda- og rann­sókna­sam­starf við Jap­an

Vilji er til þess að efla tengsl Íslands og Jap­ans á sviði mennta- og vís­inda­mála og var ákveðið á fund okk­ar Masa­hi­ko Shi­bayama, mennta­málaráðherra Jap­ans, ný­verið að hefja vinnu við gerð ramma­sam­komu­lags um rann­sókna- og vís­inda­sam­starf ís­lenskra og jap­anskra há­skóla. Að auki hafa lönd­in ákveðið að halda sam­eig­in­lega ráðherra­fund vís­inda­málaráðherra um mál­efni norður­slóða árið 2020. Þess má geta að jap­anska er næst­vin­sæl­asta er­lenda tungu­málið sem kennt er í Há­skóla Íslands en japönsku­deild­in hef­ur verið starf­rækt síðan árið 2003. Einnig er mik­ill áhugi á menn­ingu og sögu Jap­ans við Há­skóla Íslands.

Viðskipti við Jap­an hafa verið nokkuð stöðug en mik­ill áhugi er á vör­um frá Íslandi. Þar má nefna sjáv­ar­út­vegsaf­urðir, lamba­kjöt og snyrti­vör­ur. Ljóst er að jap­anska hag­kerfið er öfl­ugt með stór­an heima­markað, sem hægt er að efla enn frek­ar á kom­andi árum.

Horft til Suður-Kór­eu

Ísland og Suður-Kórea munu auka sam­starf sitt í mennta-, vís­inda- og þró­un­ar­mál­um í fram­haldi af fundi mín­um með Kim Sang-Kon, mennta­málaráðherra og vara­for­sæt­is­ráðherra Suður-Kór­eu, árið 2018. Afrakst­ur þess fund­ar er í far­vatn­inu en vinna við form­legt sam­komu­lag milli ríkj­anna um sam­vinnu í mennta­mál­um er á loka­metr­un­um. Mun það meðal ann­ars ná til kenn­ara­mennt­un­ar og tungu­mála­náms ásamt því að lönd­in hvetji til frek­ari nem­enda­skipta og sam­vinnu milli há­skóla. Suður-Kórea hef­ur getið sér gott orð fyr­ir þrótt­mikið og öfl­ugt mennta­kerfi og hag­kerfi lands­ins er eitt það þróaðasta í heimi.

Auk­um sam­starf við Breta

Við leggj­um áherslu á að efla sam­starf við Bret­land á sviði mennta- og vís­inda­mála óháð niður­stöðu Brex­it. Á fundi með Chris Skidmore, ráðherra há­skóla-, ný­sköp­un­ar- og vís­inda­mála Bret­lands, ný­verið ræddi ég mögu­leika á lækk­un skóla­gjalda fyr­ir ís­lenska náms­menn í Bretlandi. Íslensk stjórn­völd leggja áherslu á að jafn­ræði ríki meðal landa á evr­ópska efna­hags­svæðinu þegar kem­ur að skóla­gjöld­um í breska há­skóla eft­ir Brex­it. Þetta myndi þýða mögu­lega lækk­un á skóla­gjöld­um fyr­ir ís­lenska náms­menn við breska há­skóla en sem stend­ur greiða ís­lensk­ir nem­end­ur hærri skóla­gjöld við breska há­skóla en náms­menn frá ríkj­um Evr­ópu­sam­bands­ins. Slíkt væri til þess fallið að auka tengsl land­anna enn frek­ar og skapa frek­ari hvata fyr­ir ís­lenska náms­menn til að líta til Bret­lands.

Já­kvæð áhrif

Íslenska mennta­kerfið á í um­fangs­miklu sam­starfi við fjöl­mörg ríki í Evr­ópu, Asíu, Norður-Am­er­íku og víðar. Okk­ur miðar vel áfram í að auka alþjóðlegt mennta­sam­starf og eru fram­an­greind dæmi um aukið sam­starf við ein stærstu hag­kerfi ver­ald­ar gott dæmi um slíkt. Ég er sann­færð um að ávinn­ing­ur­inn fyr­ir ís­lenskt sam­fé­lag verði veru­leg­ur og muni hafa já­kvæð áhrif á lífs­kjör Íslands til framtíðar.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 18. maí 2019.

Categories
Greinar

Grunnstoð samfélagsins

Deila grein

15/05/2019

Grunnstoð samfélagsins

Í dag er alþjóðlegur dagur fjölskyldunnar en Sameinuðu þjóðirnar tileinka 15. maí ár hvert málefnum hennar. Ástæðan er sú að þótt fjölskyldur séu jafn ólíkar og þær eru margar eru þær grunnstoð samfélagsins og erfitt að finna aðra einingu innan þess sem gegnir jafn þýðingarmiklu og flóknu hlutverki.

Í ár leggja Sameinuðu þjóðirnar sérstaka áherslu á mikilvægi fjölskyldunnar þegar kemur að aðgerðum í loftslagsmálum en undanfarið hafa loftslagsbreytingar af mannavöldum verið í brennidepli. Stór verkefni eru fram undan til að Ísland nái markmiðum sínum í þeim efnum og ljóst að þeim verður ekki náð nema með átaki samfélagsins í heild. Þar hefur ekki skort þátttöku íslenskra barna og unglinga sem meðal annars hafa skipulagt loftslagsverkföll á Austurvelli og víðar um landið síðustu mánuði. Þrátt fyrir að kolefnisfótspor hverrar fjölskyldu sé lítið í stóra samhenginu er ljóst að fjölskyldur landsins munu í sameiningu gegna risastóru hlutverki í baráttunni fram undan.

Á flóknum tímum sem þessum, í bland við hraða og annríki nútímans, eru þannig gerðar sífellt meiri kröfur til fjölskyldna. Eitt mikilvægasta verkefni þeirra er uppeldi og umönnun barna en fjölskyldan er best til þess fallin að veita barni þá ást og það öryggi sem það þarf til þess að verða á fullorðinsaldri virkur þátttakandi í samfélaginu. Það er svo aftur ekki aðeins hagur hverrar fjölskyldu heldur samfélagsins alls. Þetta mikilvæga verkefni er hins vegar allt annað en auðvelt. Við hvert fótmál bíða foreldra og barna þeirra nýjar hindranir og áskoranir, miserfiðar. Við þurfum öll á aðstoð að halda á einhverjum tímapunkti. Til þess að vel takist til þurfum við að búa til samfélag sem veitir hana þegar hennar er þörf og styður betur við þessa dýrmætustu einingu okkar, fjölskylduna. Það er einmitt á meðal markmiða heildarendurskoðunar á þjónustu við börn og fjölskyldur þeirra sem nú stendur yfir í félagsmálaráðuneytinu í samvinnu þvert á ráðuneyti, við Samband íslenskra sveitarfélaga og með liðsinni þingmanna úr öllum flokkum. Í þágu barna, fjölskyldna og samfélagsins alls – enda leiða sterkar fjölskyldur til betri framtíðar fyrir alla. Til hamingju með daginn!

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 15. maí 2019.

Categories
Greinar

Mikilvægir sendiherrar alla ævi

Deila grein

15/05/2019

Mikilvægir sendiherrar alla ævi

Í ferð minni til Kína í vik­unni var skrifað und­ir samn­ing sem mark­ar tíma­mót fyr­ir ís­lenska og kín­verska náms­menn. Gild­istaka hans fel­ur í sér gagn­kvæma viður­kenn­ingu há­skóla­náms milli land­anna og mun auðvelda til muna nem­enda­skipti milli ís­lenskra og kín­verskra há­skóla. Á fundi þar ræddi ég við sam­starfs­ráðherra minn, Chen Baos­heng, mennta­málaráðherra Kína, um mik­il­vægi mennta­sam­starfs land­anna og þau sókn­ar­færi sem í þeim fel­ast.Íslenskt mennta­kerfi hef­ur margt fram að færa fyr­ir er­lenda náms­menn sem sýn­ir sig meðal ann­ars í fjölg­un um­sókna þeirra í ís­lenska há­skóla. Rúm­lega 30 kín­versk­ir náms­menn stunda nú nám á Íslandi en um 30 Íslend­ing­ar stunda nám í Kína á ári hverju. Íslensk­ir há­skól­ar eiga þegar í marg­vís­legu sam­starfi við kín­verska há­skóla og hef­ur Há­skóli Íslands meðal ann­ars gert sam­starfs­samn­inga um nem­enda­skipti við fimmtán há­skóla í Kína. Kína hef­ur gert hliðstæða samn­inga um viður­kenn­ingu próf­gráða við rúm­lega 50 önn­ur ríki, þar á meðal við Norður­landa­rík­in og hafa þeir stuðlað að auknu aðgengi og flæði milli há­skóla­stofn­ana þeirra. Fyr­ir fá­menna þjóð er aðgengi að námi og viður­kenn­ing á því sér­stak­lega mik­il­væg. Náms­fram­boð hér á landi er fjöl­breytt en fyr­ir þau sem hyggj­ast ganga mennta­veg­inn er heim­ur­inn all­ur und­ir. Því er meðal ann­ars að þakka að náms­gráður hafa í aukn­um mæli verið staðlaðar og sam­ræmd­ar milli landa.

Skipt­inem­ar verða á sinn hátt sendi­herr­ar þeirra ríkja þar sem þeir dvelja, þó dvöl­in sé ekki löng geta tengsl­in varað alla ævi. Dæm­in sanna að skipti­nám verður oft kveikja að mun dýpri og lengri sam­skipt­um og það bygg­ir brýr milli fólks og landa sem ann­ars hefðu aldrei orðið til. Við sem þjóð búum að slík­um tengsl­um því með þeim ferðast þekk­ing, skiln­ing­ur og saga. Á því er síðan hægt að byggja fleira og stærra. Ég bind von­ir við að gagn­kvæm viður­kenn­ing há­skóla­náms hvetji nem­end­ur, bæði hér heima og í Kína, til að skoða þá kosti sem bjóðast í há­skól­um land­anna. Það hafa orðið gríðarleg um­skipti í kín­versku sam­fé­lagi á und­an­förn­um ára­tug­um og þau hafa skapað fjölda­mörg tæki­færi fyr­ir aukna sam­vinnu.

Lilja Dögg Al­freðsdótt­ir, mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 15. maí 2019.

 

Categories
Fréttir

„Menntun er undirstaða samkeppnishæfni Íslands“

Deila grein

15/05/2019

„Menntun er undirstaða samkeppnishæfni Íslands“

Alex B. Stefánsson, varaþingmaður, ræddi mikilvægi menntunar í störfum þingsins, á Alþingi, í gær. Breytingar í tækni hafa áhrif á líf okkar dagsdaglega, algríma og gervigreind ráða ríkjum. Áskorun samfélagsins er að skapa „menntatækni framtíðarinnar, börnunum okkar og öllum til góða“.

„Virðulegur forseti. Á hverjum morgni hlaupa börn spennt af stað í grunnskóla landsins til að mennta sig fyrir framtíðina. Við útskrift úr grunnskóla hafa þau eytt um 65% ævi sinnar í að undirbúa sig fyrir áskoranir framtíðarinnar. Það er alla vega það sem við ætlum menntakerfinu að gera, en er það raunin?
Síðastliðinn áratug hefur heimurinn umturnast vegna hinna ýmsu tækniframfara sem ekki sér fyrir endann á. Þær breytingar hafa áhrif á það hvernig við högum lífi okkar. Ein mest áberandi birtingarmynd þeirra framfara er snjallsímarnir sem flestir eru orðnir órjúfanlegur þáttur í daglegu lífi. Breytingar hafa ekki bara breytt lífi okkar því að varla er til sá iðnaður sem ekki hefur breyst af tækninnar völdum. Nú er talað um að við séum gengin af stað í fimmtu iðnbyltinguna þar sem algríma og gervigreind ráða ríkjum.
Með leyfi forseta:
„Í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir 2019 og 2023 er lögð áhersla á að námsefni þurfi að standast samanburð við það sem best gerist á öðrum tungumálum og vera þannig úr garði gert að það veki áhuga á íslenskum veruleika og íslenskri tungu.“
Herra forseti. Menntun er undirstaða samkeppnishæfni Íslands á alþjóðavísu og því mikilvægt að við breytum þessu landslagi, byggjum upp stefnu og framtíðarsýn fyrir menntakerfið, sem tryggir að kynslóðir sem koma á eftir okkur fái bestu mögulegu menntun sem völ er á, framtíðarsýn sem endurspeglar breytingar fjórðu og fimmtu iðnbyltingarinnar. Aðeins með þeim hætti getum við sagt að við séum að undirbúa börnin okkar fyrir framtíðina. Tökum höndum saman, stígum þetta framfaraskref og sköpum menntatækni framtíðarinnar, börnunum okkar og öllum til góða.“

Categories
Greinar

Orkuauðlindir Íslands – verkefni íslenskra stjórnmála

Deila grein

14/05/2019

Orkuauðlindir Íslands – verkefni íslenskra stjórnmála

Á haust­mán­uðum var ályktað á mið­stjórn­ar­fundi Fram­sókn­ar: „Orku­auð­lindin er ein af mik­il­væg­ustu for­sendum vel­meg­unar í land­inu. Mið­stjórn Fram­sókn­ar­flokks­ins áréttar mik­il­vægi þess að allar ákvarð­anir í orku­málum verði í höndum Íslend­inga og minnir á að stjórn­ar­skrá Íslands leyfir ekki fram­sal rík­is­valds til erlendra stofn­ana. Aðstæður Íslands í orku­málum eru gjör­ó­líkar þeim sem liggja til grund­vallar orku­lög­gjöf ESB og því er óskyn­sam­legt að inn­leiða það reglu­verk hér. Auk þess hefur Ísland enga teng­ingu við orku­markað ESB og Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn telur slíka teng­ingu ekki þjóna hags­munum lands­manna. Því skal fá und­an­þágu frá inn­leið­ingu þriðja orku­pakk­ans.“

Eft­ir­lit Orku­stofn­unar
Síðan þá hefur málið verið til stöðugrar umræðu. Utan­rík­is­ráð­herra fund­aði með fram­kvæmda­stjóra orku­mála hjá ESB og rit­uðu þau sam­eig­in­lega yfir­lýs­ingu um að orku­kerfi Íslands væri án teng­ingar og und­ir­strikað að það félli ekki undir ACER (Orku­stofnun ESB) heldur væri um tveggja stoða kerfi þar sem Orku­stofnun færi með eft­ir­lit og dóms­mál færu til EFTA-­dóm­stóls­ins, ekki ACER.

Við ráðum þessu ein­fald­lega sjálf
Í grein minni sem birt­ist á Kjarn­anum um páska lagði ég áherslu á að málið væri til með­ferðar hjá þing­inu og brýndi þing­menn til að skoða málið vand­lega og hlusta á þær áhyggjur sem almenn­ingur hefð­i.

Eftir grand­skoðun þings­ins hefur verið búið þannig um hnúta að við erum ekki að fram­selja vald yfir íslenskum orku­auð­lindum til yfir­þjóð­legra stofn­ana. Við ráðum þessu ein­fald­lega sjálf, Íslend­ing­ar.

Stöndum vörð um íslenska hags­muni
Það sem hefur verið kallað eftir af þjóð­inni er að íslenskir stjórn­mála­menn standi vörð um íslenskar orku­auð­lindir og það fyr­ir­komu­lag sem hefur ríkt hér sem felst einna helst í því að orku­fyr­ir­tækin eru að langstærstum hluta í sam­fé­lags­legri eigu. Það hefur einnig verið mjög skýrt ákall um að erlendir aðilar geti ekki gert stórinn­kaup á íslensku landi. Það er því ljóst að þær áhyggjur sem margir hafa snúa að íslenskri póli­tík. EES-­samn­ing­ur­inn og ESB koma þar hvergi nærri. Við höfum hlustað á áhyggju­raddir og því hefur verið stigið lengra í því að vernda íslenska hags­muni.

Hvernig aukum við traust­ið?
Málið snýst því, eins og ég rit­aði í grein minni um páska, um traust á stjórn­mála­mönnum og stjórn­sýslu. Og hvernig aukum við traust í íslensku sam­fé­lagi? Jú, við aukum það með því að hlusta á rök ann­arra, hlusta á almenn­ing, greina áhyggj­urn­ar, leita lausna og ræða málin til hlítar og taka ákvarð­anir sam­kvæmt bestu fáan­legum upp­lýs­ingum og með hags­muni þjóð­ar­inn­ar, allr­ar, að leið­ar­ljósi.

Ábyrgð eða ábyrgð­ar­leysi?
Fram­sókn stendur vörð um hags­muni Íslend­inga. Það höfum við áður gert í stórum málum og er þar skemmst að minn­ast bar­áttu flokks­ins gegn því að íslensku almenn­ingur tæki á sig skuldir einka­bank­anna með Ices­a­ve. Við stöndum vörð um hags­muni heild­ar­inn­ar. Ef það er ástæða til að setja EES-­samn­ing­inn í upp­nám þá munu ábyrg stjórn­völd gera það. En þá aðeins að ástæða sé til. Aldrei eiga stjórn­völd að sýna af sér svo ábyrgð­ar­lausa hegðun að fórna mik­il­væg­asta milli­ríkja­samn­ingi Íslend­inga nema að ástæðan sé svo rík að slíkt verði ekki umflú­ið.

Við gefum ekki eftir full­veldi okkar
Eng­inn getur án sam­þykkis Alþingis og þess vegna íslensku þjóð­ar­innar lagt raf­orku­sæ­streng. Við gefum ekki eftir full­veldi okk­ar. Með fyr­ir­vörum Alþing­is, sem vísa bæði í yfir­lýs­ingar utan­rík­is­ráð­herra og orku­mála­stjóra ESB ann­ars vegar og hins vegar yfir­lýs­ingar sam­eig­in­legu EES-­nefnd­ar­innar höfum við bæði póli­tískar, þjóð­rétt­ar­legar og laga­legar yfir­lýs­ing­ar, máli okkar til stuðn­ings.

Fram­sókn stendur vörð um eign þjóð­ar­innar
Við þurfum hins vegar að nýta okkur áhuga og áhyggjur margra til að setja póli­tíska umræðu í gang um lög og reglur á Íslandi. Í því skyni mun Fram­sókn standa vörð um eign þjóð­ar­innar í Lands­virkj­un. Hún verður ekki bútuð upp og seld – ekki með okkar sam­þykki. Við munum berj­ast fyrir því að á Íslandi sitji allir við sama borð þegar kemur að kostn­aði við dreif­ingu raf­orku úr okkar sam­eig­in­legu auð­lindum sem eru í eigu þjóð­ar­inn­ar. Við viljum styrkja þennan sam­eig­in­lega grunn og eign­ar­hald t.a.m sjáum við fyrir okkur að sam­eina Lands­net og RARIK. Allt eru þetta mál­efni sem íslensk stjórn­mál og íslenska þjóðin ræður hvernig farið verður með. Eng­inn ann­ar.

Nærum ekki ótt­ann
Það er hættu­leg braut að ætla að gera EES-­samn­ing­inn að óvini. Það er hættu­leg braut að næra umræð­una með tor­tryggni og ótta. Og ótta við hvað? Jú, við það sam­starf sem við höfum átt við nágranna­þjóðir okkar í Evr­ópu. Ég er ekki með þessu að mæla ESB bót. Það er félags­skapur sem Ísland á að standa utan við.

EES-samningurinn hefur hins vegar fært okkur Íslend­ingum mikil lífs­gæði. Við­skipta­hags­munir okkar eru aug­ljósir en samn­ing­ur­inn hefur ekki síður áhrif á unga Íslend­inga sem geta stundað nám í háskólum um alla Evr­ópu þaðan sem þeir snúa heim með þekk­ingu og reynslu sem er íslensku sam­fé­lagi nauð­syn­leg og verður mik­il­væg­ari með hverju árinu sem líð­ur.

Lífs­gæði fram­tíð­ar­kyn­slóða
Ísland er í mik­illi og harðn­andi sam­keppni um ungt fólk og krafta þess. Ég full­yrði það að án EES-­sam­starfs­ins væri erf­ið­ara að byggja upp þau lífs­gæði á Íslandi sem ráða í fram­tíð­inni því hvar ungt og metn­að­ar­fullt fólk velur sér að vinna og búa með fjöl­skyldum sín­um.

Við horfum fram á breytta tíma þar sem atvinna tekur stökk­breyt­ing­um, þar sem menntun og nýsköpun mun skipta gríð­ar­miklu máli. Við þurfum að skapa verð­mæt­ari störf sem ganga ekki á auð­lindir nátt­úr­unnar heldur nýta þær á sjálf­bæran hátt er fram­tíð Íslands. Og þá erum við að tala um fram­tíð Íslands – hvernig hún verður best tryggð fyrir kom­andi kyn­slóð­ir.

Stjórn­mál skyn­sem­innar
Það er mik­il­vægt þegar kemur að auð­lindum Íslands að tryggja full yfir­ráð þjóð­ar­innar yfir þeim. Það er mik­il­vægt að við hugsum um hags­muni heild­ar­innar – í bráð og lengd. Það er einnig mik­il­vægt að við tökum ákvarð­anir um hags­muni þjóð­ar­innar á réttum for­send­um. Að við göngum ekki inn í stjórn­mál reið­inn­ar, stjórn­mál ótt­ans, og gerum þau að okkar lög­heim­ili og varn­ar­þingi.

Við höfum hlust­að. Við höfum kallað til sér­fræð­inga. Hlustað á álit. Við höfum kom­ist að nið­ur­stöðu. Hags­munir Íslands eru tryggðir með fyr­ir­vörum og aðgerðum sem eru skrif­aðar eftir ráð­gjöf helstu sér­fræð­inga og taka til­lit til þeirra áhyggju­radda sem hafa verið uppi í sam­fé­lag­inu.

Sigurður Ingi Jóhannsson, for­maður Fram­sóknar og sam­göngu- og sveit­ar­stjórn­ar­ráð­herra.

Greinin birtist fyrst á kjarninn.is 14. maí 2019.

Categories
Fréttir

Heilsa og velferð manna og dýra

Deila grein

13/05/2019

Heilsa og velferð manna og dýra

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður Framsóknar og Þórarinn Ingi Pétursson, varaþingmaður Framsóknar, skrifuðu grein 8. maí á visir.is þar sem þau fylgdu eftir varnaðarorðum varðandi innflutning á kjöti til Íslands frá virtum vísindamönnum, innlendra og erlendra.
„Með því að opna á innflutning á hráu kjöti, eins og heildsalar og ákveðin stjórnmálaöfl þeim hliðholl, hafa krafist væru íslensk stjórnvöld einfaldlega að gera tilraun sem allar líkur eru á að endi illa. Varðar það bæði sýkingar í matvælum og einnig áður nefnt sýklalyfjaónæmi sem virtar alþjóðlegar stofnanir og vísindamenn telja að muni draga fleiri jarðarbúa til dauða árið 2050 en ógnvaldurinn krabbamein. Viljum við slíka tilraunastarfsemi? Og vill verslunin stunda slíka tilraunastarfsemi í skiptum fyrir fleiri krónur í kassann?,“ segja greinarhöfundar.
„Samkeppni er öllum holl en hún verður að vera skynsamleg fyrir lýðheilsu þjóðarinnar og verður að tryggja að íslenskir bændur keppi á jafnréttisgrundvelli við innfluttar vörur. Þær varnaðaraðgerðir sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra leggur til í frumvarpi sínu sem liggur fyrir Alþingi eru í rétta átt en betur má ef duga skal. Stíga verður stærra skref sem felur í sér hreint og klárt bann við dreifingu matvæla sem sýkt eru af salmonellu og kampýlóbakter og innihalda sýklalyfjaónæmar bakteríur yfir ákveðnu marki“, segja Halla Signý og Þórarinn Ingi.

 

Categories
Greinar

Höfum við gengið til góðs götuna fram eftir veg?

Deila grein

13/05/2019

Höfum við gengið til góðs götuna fram eftir veg?

Ég er stoltur og ánægður með árs­reikn­ing Hafn­ar­fjarðar árið 2018. Fjár­hags­staða sveit­ar­fé­lags­ins hélt áfram að styrkj­ast á árinu og skulda­við­mið sem var 135% í árs­lok 2017 er 112% í árs­lok 2018, eða undir skulda­við­miðum sam­kvæmt reglu­gerð um fjár­hags­leg við­mið og eft­ir­lit með fjár­málum sveit­ar­fé­laga.

Allar lyk­il­tölur sem skipta mestu máli eru jákvæð­ar. Rekstr­ar­nið­ur­staða fyrir afskriftir og vexti er 3,9 millj­arðar á móti 3,5 millj­örðum í áætlun og 3,6 millj­örðum frá fyrra ári. Þetta eru bæði A og B hluti, eða allt sveit­ar­fé­lag­ið. Með öðrum orð­um, við erum betur sett til að borga ennþá meira niður skuldir í fram­tíð­inni og láta fólkið í sveit­ar­fé­lag­inu njóta góðs af.

Fjár­fest­ingar í innviðum og þjón­ustu
Miklar fjár­fest­ingar voru í innviðum og þjón­ustu á liðnu ári og námu fjár­fest­ingar um 5,3 millj­örð­um. Þar ber helst að nefna bygg­ingu nýs skóla í Skarðs­hlíð fyrir um 2,1 millj­arð og hjúkr­un­ar­heim­ilis fyrir 850 millj­ón­ir. Kostn­aður við fram­kvæmdir vegna íþrótta­mann­virkja að Ásvöll­um, Kaplakrika og við Keili námu alls um 696 millj­ón­um. Keyptar voru íbúðir í félags­lega hús­næð­is­kerfið fyrir um 500 millj­ón­ir.

Hafa ber í huga þegar rætt er um kaup á félags­legu hús­næði að sveit­ar­fé­lagið situr uppi með for­tíð­ar­vanda í þeim mála­flokki sem nú er loks verið að taka á; vanda sem ekki var tekið á þegar þess þurfti. Þrátt fyrir að félags­legu hús­næði í Hafn­ar­firði hafi fjölgað mikið und­an­far­ið, blasir sú dap­ur­lega stað­reynd við okkur að á árunum 2009-2016 var ekki fjár­fest í félags­lega hús­næð­is­kerf­inu í Hafn­ar­firði. Sami fjöldi íbúða var árið 2008 og árið 2016. Vand­inn er því upp­safn­aður og á þeim vanda bera þeir einir ábyrgð sem á þeim tíma stjórn­uðu.

Ný lán
Í umræð­unni hefur því verið haldið á lofti að skuldir sveit­ar­fé­lags­ins séu að aukast og verið sé að taka ný lán sem eru umfram afborg­anir árs­ins. Það er vissu­lega rétt að tekin voru ný lán á árinu vegna upp­gjörs við Brú líf­eyr­is­sjóð, sem eru um 2 millj­arðar og um 1,4 millj­arður vegna bygg­ingar hjúkr­un­ar­heim­il­is. Auk þess var tekið lán fyrir 500 millj­ónir vegna fjár­fest­inga Hús­næð­is­skrif­stofu í félags­legu hús­næði. Greiðslur lang­tíma­skulda námu alls 1,6 millj­arði eða um 200 millj­ónum umfram afborg­anir sam­kvæmt lána­samn­ing­um.

Ég hef trú á því að hægt verði að gera enn betur á kjör­tíma­bil­inu, þegar kemur að nið­ur­greiðslu skulda. Það er sú leið sem er heilla­væn­leg­ust fyrir sveit­ar­fé­lagið og íbúa þess.

Ágúst Bjarni Garðarsson, for­maður bæj­ar­ráðs Hafn­ar­fjarð­ar.

Greinin birtist fyrst á kjarninn.is 12. maí 2019.

Categories
Greinar

Tíminn líður hratt á gervihnattaöld

Deila grein

13/05/2019

Tíminn líður hratt á gervihnattaöld

Gleði­banka­menn sungu frumraun okkar Íslend­inga í Júró­visjón árið 1986. Það ár var ekki bara merki­leg­ilegt fyrir okkur Íslend­inga með góðu júró­visón­lagi heldur fyrir heims­byggð­ina alla. Það ár var leið­toga­fundur hald­inn í Höfða milli Ron­ald Reagan, for­seta Banda­ríkj­anna og Mik­haíl Gor­batsjev, leið­toga Sov­ét­ríkj­anna. Slíkur við­burður var sögu­legur enda höfðu þessi ríki þá átt í ára­löngum átökum kennda við kalda stríð­ið. Hér til lands­ins komu um eitt þús­und frétta­menn hvaðan af úr heim­in­um. Þeir töl­uðu og skrif­uðu fréttir af þessum merki­lega fundi um gjörvall­ann heim­inn. Á nær ótelj­andi stjórn­varp­stöðvum og á fjöl­mörgum tungu­málum fluttu frétta­menn stór­merki­legar fréttir frá Íslandi.

Ímyndum okkur heim þar sem við fengum engar fréttir af Júró­vison. Ekk­ert væri fjallað um önnur lög, fyrir hvað þau standa eða lista­menn­ina sem flytja þau. Í slíkum frétta­lausum heimi hefði fólk aldrei fengið að upp­lifa von­ar­glæt­una sem sam­ræður og sam­tal leið­tog­anna í Höfða sköp­uðu og lögðu síðar grunn að enda­lokum kalda stríðs­ins. Fréttir og frétta­mennska eru horn­steinn heil­brigðar lýð­ræð­is­þró­un­ar. Menn­ing okk­ar, listir og sköpun þarfn­ast einnig umfjöll­unar og sýni­leika. Hver veit af list nema hann heyri og sjái list­sköp­un?

Oft er talað um fjöl­miðla sem fjórða vald­ið. Slíka nálgun má rétt­læta, vegna þess að öll þekk­ing er byggð á upp­lýs­ing­um. Með örri tækni­þróun og til­komu ver­alda­vefs­ins verður hins vegar vanda­mál að ekki eru allar upp­lýs­ingar byggðar á þekk­ingu. Þó til­koma fals­frétta sé í eðli sínu ekki ný af nál­inni og svo­kall­aðar gróu­sögur hafi lengi fylgt mann­legu sam­fé­lagi, þá hefur magnið marg­fald­ast af röngum upp­lýs­ingum sem haldið er að almenn­ingi. Slík aukn­ing er nú víða um hinn vest­ræna heim að grafa undan lýð­ræð­is­legri grund­vall­ar­virkni sem eftir upp­lýs­inga­öld­ina hefur byggst á sann­reyn­an­legri þekk­ingu. Nú sem aldrei fyrr er starf frétta­manna – vítt og breytt um sam­fé­lagið og landið allt – okkur nauð­syn­legt svo við getum tekið mál­efna­lega afstöðu í þeim fjöl­mörgu málum sem snerta sam­fé­lag­ið.

Eins og stjórn­mála­menn kenna sig við hægri eða vinstri, þá þarf almenn­ingur að fá tæki­færi til að sann­reyna hvort þeir eða til­lögur þeirra séu skyn­sam­leg­ar. Aðrar nor­rænar þjóðir hafa fyrir löngu síðan áttað sig á mik­il­vægi þess að styrkja sjálf­stæða og vand­aða frétt­um­fjöll­un. Nú loks­ins árið 2019 er rík­is­stjórn sem hræð­ist ekki sjálf­stæða og vand­aða frétta­mennsku, heldur styður í orðum og gjörðum þennan mik­il­væga grund­völl vest­rænnar sið­menn­ing­ar. Hag­rænn stuðn­ingur við fjölda frétta­manna, frekar en fjölda frétta er lík­leg til að auka fjöl­miðla­læsi, styðja við þekk­ing­ar­auka sam­fé­lags­ins og tryggja lýð­ræðis­vit­und og virkni á 21. öld­inni.

Alex B. Stefánsson, varaþingmaður og for­maður SIG­RÚNAR – Félags ungra Fram­sókn­ar­manna í Reykja­vík.

Greinin birtist fyrst á kjarninn.is 11. maí 2019.

Categories
Greinar

Umferðaröryggi í forgangi

Deila grein

10/05/2019

Umferðaröryggi í forgangi

Það er sárt að hugsa til allra þeirra sem eiga um sárt að binda vegna alvarlegra slysa í umferðinni. Það er því það minnsta sem við getum gert að nýta þær upplýsingar sem við eigum um slys til að bæta öryggi okkar í umferðinni og koma í veg fyrir slys.

Í gær stóð ráðuneytið fyrir morgunverðarfundi um umferðaröryggi með yfirskriftinni Víti til varnaðar. Þar var meðal annars kynnt nýtt slysakort Samgöngustofu þar sem hægt er að sjá yfirlit yfir þau slys sem verða á vegum landsins. Mikilvægt er að nýta þá tölfræði sem til er svo hægt sé að auka forvarnir og bæta vegakerfið og stuðla þannig að jákvæðri þróun í umferðaröryggi og fækkun slysa.

Gríðarlegar breytingar hafa orðið á notkun vegakerfisins á örfáum árum. Á aðeins fimm árum hefur umferðin á þjóðvegunum aukist um ríflega 40%. Mest hefur hún aukist á Suðurlandsvegi austur að Jökulsárlóni þar sem hún hefur nánast tvöfaldast, langmest að vetrarlagi.

Það eru miklir hagsmunir í húfi. Síðustu árin hafa að meðaltali hátt í 200 manns slasast alvarlega eða látið lífið árlega sem ekki er ásættanlegt. Umferðarslys og óhöpp eru talin kosta yfir 50 milljarða á ári, og er þá ekki talinn sá sársauki og sorg sem slysunum fylgja. Því legg ég áherslu á að mannslíf og heilsa séu ávallt höfð í öndvegi og öryggi metið framar í forgangsröðun en ferðatími. Á umferðarþyngstu þjóðvegum þarf að halda áfram að aðskilja akstursstefnur en sú aðgerð hefur skilað góðum árangri og má nefna að umferðarslysum á Reykjanesbrautinni hefur fækkað um 40% frá því að akstursstefnur voru aðskildar. Þar vitum við nú þegar að slíkar upplýsingar nýtast til að auka umferðaröryggi.

Síaukinn umferðarþungi kallar á nýframkvæmdir, meira viðhald og auknar öryggisaðgerðir. Uppbygging samgöngumannvirkja er stór þáttur í því að bæta umferðaröryggi í ört vaxandi umferð. Auknu fjármagni hefur verið veitt til ýmissa framkvæmda til að flýta vegabótum og aukinn kraftur verður settur í yfirlagnir á vegum, malbik, viðhald malarvega og styrkingar. Allar slíkar framkvæmdir auka umferðaröryggi.

En betur má ef duga skal.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarmálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 10. maí 2019.