Categories
Fréttir Uncategorized

Haustfundur miðstjórnar Framsóknar

Deila grein

05/09/2022

Haustfundur miðstjórnar Framsóknar

Landstjórn Framsóknar samþykkti í vor að boða til haustfundar miðstjórnar í Norðvestur kjördæmi og var 12. – 13. nóvember fyrir valinu. Fundurinn verður haldinn í Edinborgarhúsinu og hefst kl. 10:00 á laugardagsmorgun og stendur fram yfir hádegi á sunnudeginum. Kvöldverðarhóf verður á laugardagskvöldinu.

Hægt verður að fá gistingu á Hótel Ísafirði og Holt Inn.

Hægt er að panta gistingu á Hótel Ísafirði með því að senda tölvupóst á  lobby@hotelisafjordur.is kóðinn er „fundur Framsóknar“. 

Til að bóka á Holt Inn senda tölvupóst á holtinn@holtinn.is „Framsókn“. 

Upplýsingar um gistinguna:

Hótel Ísafjörður:

•              tveggja manna herbergi 20.000.- m/morgunmat nóttin

•              eins manns herbergi 16.500 m/morgunmat nóttin

https://isafjordurhotels.is/

Holt Inn:

•              Um þrjár herbergistegundir er að ræða, verðin eru eftirfarandi með morgunmat: 15.173.-, 16.618.- og 19.508.- 

Við hvetjum fólk til að panta sem fyrst til þess að hægt sé að bregðast við ef tryggja þarf fleiri herbergi.

Aðalmenn í miðstjórn eru vinsamlegast beðnir um að staðfesta komu eða forföll til skrifstofu Framsóknar í síma 540-4300 eða á netfangið framsokn@framsokn.is. Mikilvægt er að vita um forföll í tíma til að geta boðað varamenn á fundinn.

Á haustfundi skal taka félagsstarf flokksins á komandi starfsári sérstaklega til umræðu. 

Fastanefndir miðstjórnar munu flytja skýrslu um störf sín og jafnframt skulu miðstjórnarmenn kjósa úr sínum hópi til eins árs í senn:

a) fjóra fulltrúa í fræðslu- og kynningarnefnd Framsóknarflokksins og tvo til vara og

b) fjóra fulltrúa í málefnanefnd Framsóknarflokksins og tvo til vara.

Fræðslu- og kynningarnefnd. 

Hana skipa formaður sem framkvæmdastjórn skipar og fjórir meðstjórnendur skv. a-lið gr. 10.4. Hlutverk nefndarinnar er að skipuleggja og hafa umsjón með framkvæmd kynningar- og fræðslumála Framsóknarflokksins.

Málefnanefnd. 

Hana skipa formaður sem framkvæmdastjórn skipar og fjórir meðstjórnendur skv. b-lið gr. 10.5. Hlutverk nefndarinnar er að skipuleggja og hafa umsjón með málefnastarfi og stefnumótunarvinnu Framsóknarflokksins.

Miðstjórnarmenn eru hvattir til að gefa kost á sér í þessar nefndir og senda framboð á netfangið framsokn@framsokn.is.

Framsókn

Categories
Fréttir

Hálf öld frá einvígi aldarinnar

Deila grein

05/09/2022

Hálf öld frá einvígi aldarinnar

Um þessar mundir eru 50 ár liðin frá því að skákeinvígi aldarinnar fór fram í Laugardalshöll milli þeirra Bandaríkjamannsins Bobby Fischers og Sóvíetmannsins Boris Spasskís. Þessara tímamóta var minnst í sal Skáksögufélagsins á Hótel Natura en einvígið er að mörgum talið einn hápunkta kalda stríðsins en skákmennirnir tveir tefldu röð skáka í Reykjavík í júlí og ágústmánuði árið 1972.

,,Einvígi Fischers og Spasskys um heimsmeistaratitilinn í skák árið 1972 í Reykjavík hafði meiri áhrif heldur en nokkur óraði fyrir, bæði í heiminum öllum en ekki síst hér á Íslandi. Það var ekki aðeins að Ísland og Reykjavík urðu þekkt heldur varð gróskan í skákheiminum meiri en nokkur gat vænst,‘‘ sagði Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptráðherra meðal annars við tilefnið.

Þá greindi ráðherra einnig frá áforum ríkisstjórnarinnar í samstarfi við Reykjavíkurborg um að halda opna samkeppni um minnisvarða um einvígið. Einnig verður tímamótanna einnig minnst með vitundavakningu um skák í skólum, málþingi og sérstakri afmælishátíð sem nær hápunkti dagana 25 .- 30. október þegar fram fer heimsmeistaramótið í Fischer-slembiskák.

Á myndunum hér fyrir neðan má sjá þau: Lilju D. Alfreðsdóttur, menningar- og viðskiptaráðherra, Einar Þorsteinsson, formann Borgarráðs, Gunnar Björnsson, formann Skáksambands Íslands, Guðna Ágústsson, fyrrverandi ráðherra, Sæmund Pálsson – Sæma Rokk, vinur og lífvörður Bobby Fischer og Guðmund G. Þórarinsson, fyrrverandi formann Skáksambands Íslands. 

Fréttin birtist fyrst á stjornarradid.is

Myndir: Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Categories
Fréttir Greinar

Ingvar Gíslason

Deila grein

31/08/2022

Ingvar Gíslason

Minningargrein

Í dag kveðjum við mæt­an mann, Ingvar Gísla­son. Ingvar hóf ung­ur að árum af­skipti af stjórn­mál­um. Hann skipaði sér í raðir Fram­sókn­ar­fólks, þá 18 ára mennta­skóla­nemi á Ak­ur­eyri, á stof­nári lýðveld­is 1944. Fyr­ir hon­um átti að liggja að helga krafta sína starfi Fram­sókn­ar­flokks­ins og veita stefnu flokks­ins braut­ar­gengi í ræðu og riti. Ingvar sat 26 ár á Alþingi, 1961-1987. Hann var mennta­málaráðherra 1980-1983 og voru það einkum tvö verk­efni er biðu úr­lausn­ar hans öðrum frem­ur á þeim tíma, mál­efni Rík­is­út­varps­ins og Þjóðar­bók­hlöðunn­ar og sam­ein­ing Lands­bóka­safns og Há­skóla­bóka­safns. Ingvar vann að end­ur­skipu­lagn­ingu RÚV, nýju út­varps­húsi og frum­varpi til út­varps­laga. Eins má nefna lög um Lána­sjóð ís­lenskra náms­manna sem voru stórt skref á þeim tíma. Ungu fólki var þá gert kleift að sækja nám víðsveg­ar um heim­inn þar sem nú var lánað fyr­ir skóla­gjöld­um.

Ingvar sagði svo sjálf­ur frá að hann hefði litið á sig og raun­ar hvern og einn alþing­is­mann sem varn­ar­mann sjálf­stæðis og full­veld­is Íslands á grund­velli stjórn­ar­skrár lýðveld­is­ins.

„Þótt tím­inn sé hraðfleyg­ur er of langt gengið að trúa því að mann­leg til­vera sé eins og fljúg­andi fis í svipti­vind­um. Ekki af­neita ég for­laga­trú, en póli­tísk nauðhyggja leiðir menn af­vega. Sann­leik­ur­inn er sá að með skyn­semi, gætni og guðshjálp ræður maður­inn sín­um næt­urstað. Ég vona af ein­lægni að for­usta Fram­sókn­ar­flokks­ins sé fær um að til­einka sér þessa of­ur­ein­földu fílósófíu rosk­inna og reyndra manna. Hún er í fullu sam­ræmi við heim­speki alþýðumanns­ins, bú­and­karls­ins og smá­borg­ar­ans.“

Ingvar var ein­arður stuðnings­maður sterks at­vinnu­lífs um land allt og þess að dreifa at­vinnu­tækj­un­um með það fyr­ir aug­um að skapa líf­væn­leg skil­yrði á hverj­um byggi­leg­um stað á Íslandi.

„Það er skoðun Fram­sókn­ar­manna og sem bet­ur fer margra annarra góðra Íslend­inga, að þrátt fyr­ir lands­stærð okk­ar miðað við fólks­fjölda, þá séu staðhætt­ir slík­ir hér á landi, að við höf­um ekki efni á því, hvorki í nútíð né framtíð, að van­rækja nokk­urn þann blett lands­ins, sem í byggð er og í byggð má verða. Það er lífs­skil­yrði þess­ari þjóð og skyldu­kvöð henn­ar, að hún haldi öllu sínu landi í byggð og hagi svo stjórn­ar­stefnu sinni, að því marki verði náð. Það er ekki annað en fals­kenn­ing, að við eig­um ein­hver önn­ur úrræði betri til lífs­bjarg­ar í þessu landi en að byggja upp at­vinnu­líf sveita, kaup­túna og þorpa um­hverf­is landið.“

Á fundi ungra Fram­sókn­ar­manna, eft­ir að þing­mennsku hans var lokið sagði Ingvar m.a.: „Miðju­flokk­ur á hvorki að vera eins og bjöllu­kólf­ur sem sveifl­ast ým­ist til hægri eða vinstri eða eins og vís­ir á ónýtri klukku sem alltaf bend­ir í eina átt. Öðru nær. Miðju­flokk­ur á að vera kjarn­inn í flokka­kerf­inu, eins kon­ar seg­ull. Þangað eiga hreyf­ing­ar sam­tím­ans að leita, þangað á straum­ur­inn að liggja. Þar á að skilja á milli þess sem er gott og fram­sækið og þess sem er illt og aft­ur­virkt, þess sem er já­kvætt og þess sem er nei­kvætt.“

Við Fram­sókn­ar­fólk minn­umst Ingvars með virðingu og fær­um ætt­ingj­um hans ein­læga samúðarkveðju við lát hans.

Sig­urður Ingi Jó­hanns­son,

formaður Fram­sókn­ar.

Categories
Fréttir

Unnur Þöll endurkjörin formaður SUF

Deila grein

31/08/2022

Unnur Þöll endurkjörin formaður SUF

47. Sambandsþing ungra Framsóknarmanna var haldið í Kópavogi um helgina.

Unnur Þöll Benediktsdóttir var endurkjörin formaður sambandsins. Unnur Þöll hefur gegnt embættinu í eitt ár en hún er varaborgarfulltrúi Framsóknar og var kosningastjóri B-listans í Reykjavík í síðustu sveitastjórnakosningum þar sem þau unnu stóran sigur.

Ný stjórn og varastjórn var kosin á þinginu og samanstanda þær af 24 ungum einstaklingum alls staðar að af landinu.

Þingið samþykkti í heildina fjórtán ályktanir. Ein af þeim fjallaði um hækkun fæðingarstyrks til námsmanna. Einnig var ályktað um aukið fjármagn til forvarna gegn sjálfsvígum, að lækka eigi fasteignaskatta og að 1. desember verið gerður að opinberum frídegi, ásamt fleirum.

Ályktanir þingsins

Sigurður Ingi Jóhannsson, Unnur Þöll Benedikstdóttir og Ásmundur Einar Daðason.

Myndir: Samband ungra Framsóknarmanna

Orri Hlöðversson, Halla Karen Kristjánsdóttir, Valdimar Víðisson, Brynja Dan og Willum Þór Þórsson.
Categories
Fréttir

Lilja fundaði með Douglas Jones

Deila grein

30/08/2022

Lilja fundaði með Douglas Jones

Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra og Douglas Jones undirráðherra Bandaríkjanna í málefnum Evrópu og Evrasíu, funduðu um málefni norðurslóða og samstarf landanna ásamt Geir Oddssyni ræðismanni Íslands í Grænlandi. Fundurinn var hluti af ferð ráðherra á Grænlandsþing Hringborðs norðurslóða sem fór fram um helgina í Nuuk á Grænlandi. 

Á fundinum var ræddu þau um mikilvægi áframhaldandi góðrar samvinnu þjóðanna, um tækifæri á Norðurslóðum og í því samhengi hvernig þjóðirnar geta stutt við sjálfbæra uppbyggingu í Grænlandi. Þá var innrás Rússa í Úkraínu einnig rædd. 

,,Ísland og Bandaríkin hafa átt farsælt viðskipta- og stjórnmálasamband í gegnum tíðina. Það er mikilvægt að auka samvinnu okkar á alþjóðavettvangi á grundvelli sameiginlegra hagsmuna og gilda,” sagði Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra eftir fundinn.

Fréttin birtist fyrst á stjornarradid.is 29. ágúst 2022.

Mynd: Stjórnarráðið

Categories
Greinar

Norðurslóðir á krossgötum

Deila grein

30/08/2022

Norðurslóðir á krossgötum

Mál­efni norður­slóða skipta Ísland höfuðmáli en mál­efni svæðis­ins hafa á und­an­förn­um árum notið sí­vax­andi at­hygli ríkja heims­ins. Ísland hef­ur gert sig gild­andi í norður­slóðamál­efn­um. Þannig veitti Ísland Norður­skauts­ráðinu for­ystu á ár­un­um 2019-2021 og Hring­borð norður­slóða (e. Arctic Circle) hef­ur und­ir for­ystu fyrr­ver­andi for­seta Íslands, herra Ólafs Ragn­ars Gríms­son­ar, fest sig í sessi sem alþjóðleg­ur vett­vang­ur norður­slóðamála með þátt­töku fjöl­margra ríkja. Um liðna helgi tók ég þátt í sér­stöku Græn­landsþingi Hring­borðs norður­slóða þar sem um 400 þátt­tak­end­ur frá 25 lönd­um komu sam­an til þess að ræða lofts­lags­vána og mál­efni norður­slóða.

Alls voru um 50 mál­stof­ur á þing­inu þar sem meðal ann­ars var fjallað um viðskipti, ferðaþjón­ustu, námu­vinnslu, mat­væla­vinnslu, vöru­flutn­inga og framtíðar­sýn út frá lofts­lags­breyt­ing­um og græn­um lausn­um. Í ræðu minni lagði ég meðal ann­ars áherslu á mik­il­vægi þess að sam­tím­inn lærði af þeim mis­tök­um sem nor­rænt fólk gerði á Græn­landi á 13.-14. öld­inni þegar gengið var of nærri viðkvæmu um­hverfi með of­beit og of­nýt­ingu nátt­úru­auðlinda, sem meðal ann­ars er talið hafa valdið því á end­an­um að nor­rænt fólk gafst upp á Græn­lands­bú­set­unni.

Á norður­slóðum búa alls um fjór­ar millj­ón­ir manna í átta ríkj­um en um tí­undi hluti þeirra eru frum­byggj­ar. Flest­ir lifa í nokkuð miklu ná­vígi við nátt­úr­una líkt og við Íslend­ing­ar þekkj­um vel af eig­in raun. Sam­fé­lög­in hafa að miklu leyti byggt af­komu sína á nýt­ingu nátt­úru­auðlinda, allt frá sjáv­ar­fangi og fugl­um til jarðefna­eldsneyt­is og málma. Þær um­hverf­is­breyt­ing­ar sem eiga sér stað hafa í för með sér viðamikl­ar áskor­an­ir fyr­ir sam­fé­lög á norður­slóðum, þar sem sum sam­fé­lög hafa minni viðnámsþrótt en önn­ur til þess að tak­ast á við þær.

Það er mik­il­vægt að spornað sé við nei­kvæðum áhrif­um þess­ara breyt­inga en að sama skapi tryggt að þau tæki­færi sem geta fal­ist í þeim verði nýtt með sjálf­bær­um hætti þar sem huga þarf að um­hverf­is- og ör­ygg­isþátt­um sem og fé­lags­leg­um og efna­hags­leg­um þátt­um. Sjálf­bærni verður að vera meg­in­stef í öll­um aðgerðum á norður­slóðum til að bregðast við þeim vanda sem fylg­ir hlýn­un jarðar og af­leiðing­um lofts­lags­breyt­inga – og þar gegn­ir auk­in sam­vinna og sam­starf ríkja á norður­slóðum lyk­il­hlut­verki. Fjár­fest­ing­ar og viðskipti eru þar mik­il­væg verk­færi til þess að tak­ast á við áhrif lofts­lags­breyt­inga og þar get­ur Ísland beitt sér með góðum ár­angri og miðlað af þekk­ingu sinni og reynslu til annarra ríkja á svæðinu.

Lilja Dögg Al­freðsdótt­ir, viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst á mbl.is 30. ágúst 2022.

Categories
Fréttir

Lilja tók þátt í Grænlandsþingi Hringborðs Norðurslóða

Deila grein

29/08/2022

Lilja tók þátt í Grænlandsþingi Hringborðs Norðurslóða

Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra tók þátt í Grænlandsþingi Hringborðs norðurslóða sem fór fram um helgina í Nuuk á Grænlandi um helgina. Um 400 þátttakendur frá 25 löndum komu saman til þess að ræða loftslagsvána og málefni norðurslóða. 

Alls voru um 50 málstofur á þinginu þar sem meðal annars var fjallað um viðskipti, ferðaþjónustu, námuvinnslu, matvælavinnslu, vöruflutninga og framtíðarsýn út frá loftslagsbreytingum og grænum lausnum. 

Ráðherra var með framsögu og tók þátt í umræðum um viðskipti og fjárfestingar á Norðurslóðum ásamt Naaja Nathanielsen fjármála- og jafnréttisráðherra Grænlands, Dr. Thani bin Ahmed Al Zeyoudi, ráðherra erlendra viðskipta hjá Sameinuðu Arabísku furstadæmunum, Benedikt Gíslasyni bankastjóra Arion banka, Verner Hammeken framkvæmdastjóra Royal Arctic Line og Hugh Short framkvæmdastjóra PT Capital. 

Lilja lagði áherslu á mikilvægi þess að samtíminn lærði af þeim mistökum sem norrænt fólk gerði á Grænlandi á 13-14. öldinni þegar gengið var of nærri viðkvæmu umhverfi með ofbeit og ofnýtingu náttúruauðlinda, sem meðal annars er talið hafa valdið því að á endanum að norrænt fólk hafi gefist upp á Grænlandsbúsetunni.  

„Sjálfbærni á að vera meginstef í öllum aðgerðum á Norðurslóðum til að bregðast við þeim vanda sem fylgir hlýnun jarðar og afleiðinga loftslagsbreytinga. Mikilvægt er að auka samvinnu og samstarf ríkja á Norðurslóðum þegar kemur að sjálfbærum viðskiptum og fjárfestingum. Það væri gagnlegt að stofna vettvang sem leiðir saman ríki í þeim tilgangi,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir, menningar og viðskiptaráðherra. 

Mynd: Artic Circle

Þá tók ráðherra þátt í málstofu Hr. Ólafs Ragnars Grímssonar, fyrrverandi forseta Íslands og stjórnarformanns Hringborðs norðurslóða um Norðurslóðasetur, um framtíðarheimili Hringborðs norðurslóða og safns um norðurslóðir.

Fréttin birtist fyrst á stjornarradid.is 29. ágúst 2022.

Categories
Greinar

Ferðaþjónustan styrkir ytri stöðu íslenska þjóðarbúsins

Deila grein

29/08/2022

Ferðaþjónustan styrkir ytri stöðu íslenska þjóðarbúsins

„Ekki þarf nein­um blöðum um það að fletta, að frá lands­ins hálfu eru skil­yrði svo góð, sem hugs­ast get­ur, til þess að hingað ferðist fjöldi fólks á hverju ein­asta sumri. Hér er ein­kenni­leg og marg­háttuð nátt­úru­feg­urð, sem flest­ir hafa heill­ast af er hingað hafa komið. Íslend­ing­ar verða nú að fara að gera sér það ljóst, hvort þeir vilja að landið verði ferðamanna­land eða ekki.“Þessi brýn­ing var rituð í leiðara Morg­un­blaðsins 19. ág­úst árið 1920 eða fyr­ir rúm­um 100 árum.

Staðreynd­in í dag er sú að ferðaþjón­ust­an er einn af burðarás­um í ís­lensku efna­hags­lífi.

Staða og horf­ur ferðaþjón­ustu

Hag­vaxt­ar­horf­ur á Íslandi hafa verið að styrkj­ast og þjóðhags­spá­in ger­ir ráð fyr­ir 5,9% hag­vexti í ár. Eft­ir mik­inn sam­drátt í upp­hafi far­ald­urs­ins er það ferðaþjón­ust­an enn á ný sem dríf­ur hag­vöxt­inn áfram. Í ár hafa 870 þúsund ferðamenn heim­sótt landið og þá voru kom­ur þeirra í júlí­mánuði fleiri en í sama mánuði árið 2019. Áfram er gert er ráð fyr­ir kröft­ug­um bata ferðaþjón­ust­unn­ar, út­flutn­ings­tekj­ur haldi áfram að aukast og stuðli þannig að stöðugra gengi ís­lensku krón­unn­ar. Bók­un­arstaða er al­mennt góð, bæði inn í haustið og fram á næsta sum­ar. Það eru vissu­lega áskor­an­ir í haust og vet­ur sem snúa m.a. að verðlags­hækk­un­um og verðbólgu bæði hér á landi og í helstu markaðslönd­um okk­ar og hvaða áhrif það mun hafa á ferðagetu og ferðavilja fólks til lengri og skemmri tíma.

Ytri staða þjóðarbús­ins sterk

Sjálf­bær ytri staða þjóðarbúa skipt­ir höfuðmáli í hag­stjórn. Þjóðríki verða að hafa viðskipta­jöfnuðinn í jafn­vægi til lengri tíma. Lyk­il­breyt­ur eru okk­ar hag­kerfi hag­stæðar um þessi miss­eri. Hrein skuld­astaða rík­is­sjóðs nem­ur 28,5% af lands­fram­leiðslu, gjald­eyr­is­forðinn nem­ur um 25,5% og á sama tíma eru er­lend­ar skuld­ir rík­is­sjóðs inn­an við 5%. Þetta er gjör­breytt staða frá því sem áður var. Gjald­eyr­is­forði þjóðarbús­ins hef­ur vaxið veru­lega í kjöl­far þess af­gangs sem hef­ur verið á viðskipta­jöfnuðinum í kjöl­far vaxt­ar ferðaþjón­ustu ásamt því að aðrar lyk­ilút­flutn­ings­grein­ar hafa átt mjög góðu gengi að fagna. Gjald­eyr­is­forðinn var á bil­inu 5-10% lengst af og oft skuld­sett­ur.

Árið 2012 fór Seðlabank­inn að kaupa gjald­eyri til að byggja upp óskuld­sett­an gjald­eyr­is­forða til að bæta viðnámsþrótt hag­kerf­is­ins. Gjald­eyr­is­forðinn jókst frá 2008-2012 en hann var skuld­sett­ur með neyðarlán­um frá Alþjóðagjald­eyr­is­sjóðnum og Norður­lönd­un­um í kjöl­far fjár­mála­hruns­ins. Alls ekki ákjós­an­leg staða. Viðmiðin sem Seðlabank­inn not­ar við ákvörðun á lág­marks­stærð forða byggj­ast á sögu­leg­um for­send­um, sem taka meðal ann­ars mið af því að skapa trú­verðug­leika um pen­inga­stefnu og til að mæta ör­ygg­is­sjón­ar­miðum í ut­an­rík­is­viðskipt­um og horfa til þátta er varða fjár­mála­stöðug­leika og láns­hæfi rík­is­sjóðs.

Straum­hvörf í ytri jöfnuði vegna út­flutn­ings á ferðaþjón­ustu

Ytri staða þjóðarbús­ins stóð oft á tíðum tæpt. Fyr­ir tíu árum áttu sér stað straum­hvörf á viðskipta­jöfnuðinum með til­komu sterkr­ar ferðaþjón­ustu. Fyr­ir lítið opið hag­kerfi er nauðsyn­legt að hafa styrk­ar út­flutn­ings­stoðir. Viðskipta­af­gang­ur­inn hef­ur einnig gert líf­eyr­is­sjóðum kleift að dreifa sparnaði fé­laga og byggja mynd­ar­lega sjóði er­lend­is. Á tím­um kór­ónu­veirunn­ar var hag­fellt að vera með gjald­eyr­is­forða sem gat jafnað mestu sveifl­ur. Stefna stjórn­valda er að um­gjörð hag­kerf­is­ins sé sem sterk­ust og stöðug til að Ísland sé sam­keppn­is­hæft um fólk og að það sé eft­ir­sókn­ar­verður staður sem ungt fólk kýs að dvelja á til framtíðar. Þjóðríki sem hafa mikl­ar út­flutn­ings­tekj­ur, stönd­ug­an gjald­eyr­is­forða og góðan inn­lend­an sparnað eru í mun sterk­ari stöðu til að kljást við óvænt ytri áföll og njóta betri láns­kjara á alþjóðleg­um fjár­mála­mörkuðum.

Stefn­an og áskor­an­ir í ferðaþjón­ustu

Eitt helsta for­gangs­verk­efnið nú í nýju menn­ing­ar- og viðskiptaráðuneyti er að móta nýja og öfl­uga aðgerðaáætl­un á sviði ferðamála á grunni Framtíðar­sýn­ar og leiðarljóss ís­lenskr­ar ferðaþjón­ustu til 2030. Þar er lögð áhersla á sjálf­bærni á öll­um sviðum. Mik­il­vægt er að leggja áherslu á ávinn­ing heima­manna um allt land, í því sam­bandi er dreif­ing ferðamanna lyk­il­atriði. Mikið er í húfi, t.a.m. betri nýt­ing innviða, bætt bú­setu­skil­yrði og lífs­gæði heima­manna, betri rekstr­ar- og fjár­fest­ing­ar­skil­yrði fyr­ir­tækja og fjöl­breytt­ara at­vinnu­líf um land allt. Greitt milli­landa­flug skipt­ir í þessu sam­hengi miklu máli og hafa ánægju­leg­ar frétt­ir borist af því að und­an­förnu með stofn­un flug­fé­lags­ins Nicea­ir sem mun fljúga beint frá Ak­ur­eyri og þýska flug­fé­lagið Condor mun hefja viku­legt flug frá Frankfurt til Ak­ur­eyr­ar og Eg­ilsstaða frá maí til októ­ber á næsta ári. Það eru ýms­ar áskor­an­ir sem at­vinnu­lífið og stjórn­völd þurfa að ráðast í í sam­ein­ingu til að styrkja innviði og um­gjörð grein­ar­inn­ar, meðal ann­ars mennt­un og styrkja stöðu ís­lensk­unn­ar í þess­ari at­vinnu­grein.

Loka­orð leiðarans góða frá ár­inu 1920 eru eft­ir­far­andi: „Íslend­ing­ar þurfa einnig sjálf­ir að læra að meta bet­ur land sitt og þá feg­urð, sem það hef­ir að bjóða.“ Þarna hafa orðið mikl­ar breyt­ing­ar og hef­ur ásókn Íslend­inga í að ferðast um sitt eigið land auk­ist mikið.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ferðamálaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar

Greinin birtist fyrst á visir.is 27. ágúst 2022.

Categories
Fréttir

Undirrituðu samstarf um faggildingu

Deila grein

26/08/2022

Undirrituðu samstarf um faggildingu

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, og Ulf Hammarström, forstjóri sænsku faggildingarstofunnar SWEDAC, undirrituðu í dag endurnýjað og uppfært samkomulag um samstarf á vettvangi faggildingar. Samkomulagið styður við sameiginlega sýn Norðurlandanna á vegum norrænum ráðherranefndarinnar um að gera Norðurlöndin að sjálfbærasta og samþættasta svæði heims árið 2030. Faggilding gegnir í því sambandi lykilatriði við að efla samkeppnishæfni og efla traust og fagþekkingu innan norrænu hagkerfanna.

,,Faggilding eykur samkeppnishæfni atvinnulífsins og því er afar ánægjulegt að þessi samningur sé loksins kominn í höfn. Margir hafa komið að undirbúningum og þakka ég þeim sérstaklega fyrir,“ segir Lilja Dögg. 

Faggilding er formleg viðurkenning stjórnvalds á því að tiltekinn aðili sé hæfur til að vinna tiltekin verkefni varðandi samræmismat á framleiðslu vöru eða þjónustu. Með faggildingu er þannig tryggt að aðilar sem framleiða vörur eða þjónustu í samræmi við tilteknar opinberar kröfur eða tiltekna staðla geti fengið framleiðslu sína vottaða og þannig tryggingu fyrir því að framleiðslan uppfylli þær kröfur sem gerðar eru til hennar.

Stjórnvöld hafa á undanförnum árum unnið að því að efla faggildingarstarfsemi hér á landi m.a. með því að tryggja að faggildingarsvið Hugverkastofunnar (ISAC) uppfylli viðeigandi kröfur í Evrópureglum með framkvæmd jafningjamats.

Jafningjamat tryggir að faggildingar framkvæmdar hér á landi af faggildingarsviði Hugverkastofunnar verði viðurkenndar á EES-svæðinu og gerir samstarfssamningurinn íslensku faggildingarstofunni ISAC kleift að nálgast faglegan og tæknilegan stuðning við framkvæmd faggildingar hjá einni af stærstu faggildingarstofum í Evrópu. Aukið samstarf Norðurlandanna á þessu sviði sem og öðrum mun efla tengsl og styrkja faglegan grundvöll fyrir starfsemi stjórnvalda.

Fréttin birtist fyrst á stjornarradid.is

Mynd: Stjórnarráðið

Categories
Fréttir

Ánægjuleg heimsókn þingflokks Framsóknar í Hveragerði

Deila grein

25/08/2022

Ánægjuleg heimsókn þingflokks Framsóknar í Hveragerði

Vinnufundur þingflokks Framsóknar fór fram í Veisluhöllinni í Hvergerði fimmtudaginn 25. ágúst. Eftir hádegismat í Gróðurhúsinu, Mathöll Sunnlendinga, heimsótti þingflokkurinn bæjarskrifstofur Hveragerðisbæjar. Helga Kristjánsdóttir, skrifstofustjóri tók á móti hópnum og fór yfir sögu bæjarins. Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir, forseti bæjarstjórnar og oddviti Framsóknar í Hveragerði fór yfir verkefnin framundan. Í lok vinnufundar kynnti Þórir Haraldsson, framkvæmdastjóri Heilsustofnunar NLFÍ starfsemi stofnunarinnar og framtíðarform um uppbyggingu á svæðinu.