Categories
Fréttir

Óháð úttekt á Landeyjahöfn

Deila grein

12/03/2020

Óháð úttekt á Landeyjahöfn

Opnun Landeyjahafnar árið 2010 markaði mikil tímamót í samgöngumálum íbúa og fyrirtækja í Vestmannaeyjum. Fyrsta árið nær tvöfaldaðist farþegafjöldi Herjólfs á og fyrir ári síðan var annað framfaraskref stigið þegar fargjöld íbúa í Vestmannaeyjum voru lækkuð og sama gjald tryggt, óháð í hvora höfnina er siglt.
Landeyjahöfn var frá upphafi hönnuð með nýtt skip í huga og til stóð að taka hvort tveggja í notkun á sama tíma, nýja höfn og nýtt skip sem yrði sérhannað fyrir höfnina með a.m.k. 1,5 metra minni djúpristu en gamli Herjólfur. Til stóð að semja um smíði á nýju skipi á síðustu mánuðum ársins 2008 en eftir hrun bankanna voru ekki lengur forsendur til þess. Það hefur legið fyrir að Landeyjahöfn myndi ekki nýtast að fullu fyrr en ný sérhönnuð ferja hæfi þangað siglingar og að ekki yrði hægt að þróa höfnina að fullu fyrr en reynslan af siglingu slíkt skips lægi fyrir.
Nýr Herjólfur hóf siglingar síðastliðið sumar. Skipið hefur þegar sannað gildi sitt, stjórnhæfni þess er góð og ferðum hefur fjölgað. Þá hefur Vestmannaeyjabær tekið við stjórn rekstrarins. Ákveðinni óvissu hefur því þegar verið eytt. Endanlegri þróun Landeyjahafnar er þó ekki lokið og er skiljanlegt að Vestmannaeyinga sé farið að lengja eftir því. Ég hef áður sagt og stend við það að ég hef hug á því að þeirri þróun ljúki sem fyrst. Það er í samræmi við vilja Alþingis sem ályktaði í desember síðastliðnum að hefja óháða úttekt á Landeyjahöfn í samræmi við samgönguáætlun fyrir árin 2019–2033 og fimm ára samgönguáætlun fyrir árin 2019–2023 og að henni verði lokið eigi síðar en 31. ágúst 2020.
Ráðuneytið auglýsti því með svokölluðu örútboði eftir óháðum sérfræðingum til að rýna gögn Vegagerðarinnar og rannsóknir sem hafa verið gerðar á Landeyjahöfn og koma með vel rökstuddar og skilgreindar tillögur til úrbóta sem væri hægt að framkvæma strax eða prófa í líkani. Örútboð er fljótvirk útboðsaðferð og í samræmi við innkaupareglur.
Tillögurnar verða nýttar til að sníða útboð til endurbóta á höfninni. Mikilvægt er að úttektin einskorðist ekki aðeins við gögn og rannsóknir varðandi dýpi Landeyjahafnar heldur verði einnig litið til annarra þátta sem geta haft áhrif á nýtingu hafnarinnar. Ég bind vonir við að hægt verði að ráðast strax í úrbætur að lokinni úttektinni. Ef í ljós kemur að rannsaka þurfi einstaka lausnir betur, verður það gert. Það yrði annað sjálfstætt verk.
Það er brýnt að vandað verði til verka þegar aflað er svara um hvað þurfi að gera til að tryggja að Landeyjahöfn geti þjónað hlutverki sínu að fullu. Svörin þurfa að byggja á skilningi á þeim flóknu aðstæðum sem eru við höfnina og vandaðri greiningu. Það mun skila mestum árangri til framtíðar. Áfram veginn.
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og formaður Framsóknar.
 
 
 

Categories
Fréttir

Mik­il­væg­asta sam­fé­lags­verk­efnið á þess­um tíma­punkti er að tryggja að skólastarf rask­ist sem minnst

Deila grein

11/03/2020

Mik­il­væg­asta sam­fé­lags­verk­efnið á þess­um tíma­punkti er að tryggja að skólastarf rask­ist sem minnst

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknar, segir í yfirlýsingu í gær að rétt viðbrögð ráði mestu um áhrif áfalla. „Yfirvofandi hættu þarf að mæta með mikilli röggsemi, en einnig er mikilvægt er að horfa á samhengi hlutanna svo fyrstu viðbrögð verði ekki þau einu. Fyrsta skrefið í baráttunni við kórónaveiruna sem orsakar COVID-19 snýr að heilsuvernd, enda nauðsynlegt að hefta útbreiðslu hennar.“

Mennta­kerfið: Kennsla held­ur áfram
„Eitt mik­il­væg­asta sam­fé­lags­verk­efnið á þess­um tíma­punkti er að tryggja að skólastarf rask­ist sem minnst. Skóla­stjórn­end­ur og kenn­ar­ar hafa sýnt mikla yf­ir­veg­un við þess­ar óvenju­legu aðstæður, þar sem mark­miðið er að halda uppi starf­sem­inni eins lengi og unnt er. Í upp­færðum áætl­un­um skól­anna er gert ráð fyr­ir ýms­um aðstæðum; hlut­verki kenn­ara í fjar­kennslu og heima­námi ef sam­komu­bann tek­ur gildi, líðan nem­enda og stuðningi við þá sem mest þurfa á að halda. Von­andi þarf ekki að grípa til þeirra aðgerða sem hafa verið und­ir­bún­ar, en það er mjög traust­vekj­andi að vita af þeirri und­ir­bún­ings­vinnu sem þegar hef­ur verið unn­in,“ segir Lilja Dögg í grein í Morgunblaðinu í gær.

Vet­ur­inn er að hopa og fram und­an eru jafn­dæg­ur að vori. Ég er sann­færð um að í sam­ein­ingu náum við tök­um á COVID-19. Við verðum að for­gangsraða í þágu sam­fé­lags­ins, því eins og John Stu­art Mill sagði: „Þegar til lengd­ar læt­ur, velt­ur gildi rík­is­ins á mann­gild­um þegn­anna.“

Categories
Fréttir

Sigurður Ingi þakkar viðbragðsaðilum og almenningi fyrir viðbrögðin

Deila grein

11/03/2020

Sigurður Ingi þakkar viðbragðsaðilum og almenningi fyrir viðbrögðin

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og formaður Framsóknar, segir í yfirlýsingu í gær að kortlagning sé í gangi um auknar hafnarframkvæmdir til að byggja undir framtíðartekjur og útflutning. „Í fluginu erum við að horfa til öryggissjónarmiða og að opna fleiri gáttir til landsins. Í vegaframkvæmdum eru fjölmörg verkefni tilbúin og hægt að klára á styttri tíma. Á næstunni mun ég leggja fram frumvarp um samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir sem getur stuðlað að enn öflugri fjárfestingargetu til framtíðar.“
Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í gær aðgerðir til að bregðast við kólnun í íslensku efnhagslífi og áhrifum af COVID-19 veirunni. Það eru fordæmalausar aðstæður þar sem óvissan er mikil. Ljóst er að forsendur fjármálastefnunnar eru brostnar og ný áætlun væntanleg um miðjan maí. Sigurður Ingi kynnti, ásamt forystumönnum hinna stjórnarflokkanna, tillögur á fundi í Ráðherrabústaðnum. Þær fela það meðal annars í sér að veita á fyrirtækjum sem lenda í tímabundnum rekstrarörðugleikum lengri fresti til að standa skil á sköttum og opinberum gjöldum.
Sigurður Ingi þakkaði viðbragðsaðilum hvernig tekið hefði verið á útbreiðslu COVID-19 veirunnar og almenningi fyrir viðbrögðin. Hann ítrekaði að fólk ætti að reyna að lifa sem eðlilegustu lífi innan breyttra aðstæðna en taka tillit til regla og leiðbeininga heilbrigðisyfirvalda um smitvarnir og hreinlæti. Hann treysti heilbrigðiskerfinu til að takast á við heilbrigðisvána en aðgerðir ríkisins væru miðaðar að því að taka utan um fyrirtækin í landinu.

Categories
Fréttir

Hver er arðsemi repjuræktunar?

Deila grein

11/03/2020

Hver er arðsemi repjuræktunar?

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, hefur skipað starfshóp um ræktun og nýtingu orkujurta, s.s. repju. Verkefni hópsins er að kanna forsendur fyrir stórtækri og sjálfbærri ræktun orkujurta á Íslandi til framleiðslu á lífdísil og öðrum afurðum, t.d. fóðurmjöli, áburði og stönglum.
„Efling akuryrkju, ræktun orkujurta og nýting repjuolíu getur dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda á margvíslegan hátt. Rannsóknir sýna að hægt er að framleiða hér á landi lífdísil úr repjuolíu sem nýta megi sem eldsneyti á þorra þeirra véla sem gerðar eru fyrir dísilolíu úr jarðolíu. Íslensk framleiðsla sparar innflutning og vinnsla afurðanna skapar atvinnu og eykur sjálfbærni,“ segir ráðherra.
Samgöngustofa og þar á undan Siglingastofnun hefur um langt skeið unnið að rannsóknum á ræktun orkujurta á Íslandi og nýtingu þeirra. Gerðar hafa verið tilraunir með repjuræktun sem hafa gefist vel. Ræktun og notkun repjuolíu væri hagkvæm um leið og hún hafi jákvæð áhrif á umhverfið.
Tilraunir Samgöngustofu benda til þess að repjudísill gefi við brennslu sambærilega orku og hefðbundin dísilolía. Stór markaður er fyrir repjuolíu sem lífdísil, en íslenski fiskiskipaflotinn brennir til dæmis árlega alls um 160 þúsund tonnum af dísilolíu. Reynslan hefur sýnt að hver hektari lands í repjurækt gefur af sér um eitt tonn af repjuolíu. Miðað við 10% íblöndun þyrfti því að rækta repju á um 16.000 hekturum lands.
Sömuleiðis metur Samgöngustofa ávinning felast í ræktun repju í landgræðslu. Tækifæri felast í aukinni akuryrkju sem hefur náð nokkurri hylli íslenskra bænda á undanförnum árum og áratugum. Ræktun á innlendu fóðri sem áður var talin utan seilingar fyrir Íslendinga, hefur verið stunduð með ágætum árangri í öllum landshlutum og verður sífellt stærri þáttur í fóðuröflun bænda. Það eykur möguleika landbúnaðar og gæti orðið mikilvæg nýsköpun hér á landi. Ávinningurinn fer eftir því landi sem valið er en hann er mestur á ógrónu landi svo sem á íslenskum söndum.
Meginverkefni sérfræðingahópsins er annars vegar að greina framleiðslu og framleiðsluverð repjuræktunar ásamt flutningskostnaði og öðrum kostnaði við ræktunina, þ.m.t. hver væru hagkvæmustu ræktunarsvæði landsins. Hins vegar að leggja mat á mögulegan markað fyrir repjuafurðir og markaðsverð. Það verður einnig hlutverk hópsins að vinna að því að uppfylla markmið í þingsályktun Alþingis frá árinu 2017 um að árið 2030 verði 5-10% eldsneytis íslenska skipaflotans íblandað lífeldsneyti.
Starfshópurinn mun skila tillögum og drögum að aðgerðaáætlun fyrir lok september á þessu ári.

Categories
Fréttir

„Við leggjum áherslu á gott samstarf og góð viðbrögð“

Deila grein

10/03/2020

„Við leggjum áherslu á gott samstarf og góð viðbrögð“

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun að beita sér fyrir markvissum aðgerðum til að mæta efnahagslegum áhrifum COVID-19. Aðgerðirnar miða að því að draga úr tjóni, tryggja að neikvæð áhrif á atvinnulíf og efnahag vari sem skemmst og skapa aðstæður fyrir öfluga viðspyrnu í kjölfarið. Þá var tilkynnt að vegna gjörbreyttra efnahagslegra forsendna yrði fjármálaáætlun lögð fram í maí.
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og formaður Framsóknar, sagði á blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar í morgun:

„Við erum að gera þetta til að reyna að taka utan um þennan vanda. Heilbrigðiskerfið mun taka utan um heilbrigðisvána. Aðgerðir ríkisins munu taka utan um fyrirtækin í landinu og stjórnvöld munu eiga samstarf við sveitarfélög og fyrirtæki í landinu. Við leggjum áherslu á gott samstarf og góð viðbrögð. Þá er staða okkar býsna góð þegar því er lokið.“

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknar, segir í grein í Morgunblaðinu í dag:

„Rétt viðbrögð ráða mestu um áhrif áfalla. Yf­ir­vof­andi hættu þarf að mæta með mik­illi rögg­semi, en einnig er mik­il­vægt er að horfa á sam­hengi hlut­anna svo fyrstu viðbrögð verði ekki þau einu. Fyrsta skrefið í bar­átt­unni við kór­óna­veiruna sem or­sak­ar COVID-19 snýr að heilsu­vernd, enda nauðsyn­legt að hefta út­breiðslu henn­ar. Sam­hliða þarf að huga að efna­hags­leg­um og ekki síður fé­lags­leg­um viðbrögðum. Nei­kvæð efna­hags­leg áhrif veirunn­ar eru ein­hver þau mestu sem alþjóðakerfið hef­ur séð í lang­an tíma. Þess vegna þarf um­fang efna­hagsaðgerða rík­is­stjórn­ar­inn­ar að vera veru­legt.“

Lífsgæði varin
COVID-19 faraldurinn mun hafa bein áhrif á atvinnulíf og stöðu ríkissjóðs. Geta þjóðarbúsins til að takast á við vandann er góð, en þó er ljóst að hagkerfið er berskjaldað fyrir ytri áhrifum af þeim toga sem hér um ræðir. Þegar má merkja áhrif faraldursins í efnahagslífinu.
Markviss og traust viðbrögð skipta sköpum við aðstæður sem þessar. Til að verja íslenskt efnahagslíf mun ríkisstjórnin beita sér fyrir eftirfarandi aðgerðum:

  1. Fyrirtækjum sem lenda í tímabundnum rekstrarörðugleikum vegna tekjufalls verði veitt svigrúm, t.d. með lengri fresti til að standa skil á sköttum og opinberum gjöldum.
  2. Skoðað verði að fella tímabundið niður tekjuöflun sem er íþyngjandi fyrir fyrirtæki í ferðaþjónustu, t.d. gistináttaskatt sem verður afnuminn tímabundið.
  3. Markaðsátaki verður hleypt af stokkunum erlendis þegar aðstæður skapast til þess að kynna Ísland sem áfangastað, auk átaks til að hvetja til ferðalaga Íslendinga innanlands.
  4. Gripið verði til ráðstafana sem örvað geta einkaneyslu og eftirspurn, t.d. með skatta- eða stuðningskerfum.
  5. Aukinn kraftur verði settur í framkvæmdir á vegum opinberra aðila á yfirstandandi ári og þeim næstu.
  6. Efnt verði til virks samráðs milli stjórnvalda og samtaka fjármálafyrirtækja um viðbrögð þeirra við fyrirsjáanlegum lausafjár- og greiðsluörðugleikum fyrirtækja í ferðaþjónustu.
  7. Innstæður ÍL-sjóðs í Seðlabankanum verði fluttar á innlánsreikninga í bönkum til að styðja við svigrúm banka og lánardrottna til að veita viðskiptamönnum sínum lánafyrirgreiðslu.

Fjármálaáætlun frestað
Sökum gjörbreyttra efnahagshorfa eru forsendur gildandi ríkisfjármálastefnu brostnar og er vinna við endurskoðun stefnunnar hafin. Fjármálaráðherra mun fara þess á leit við Alþingi að hún verði tekin til umfjöllunar samhliða fjármálaáætlun, sem verði frestað. Áætlunin ætti að óbreyttu að koma fram fyrir 1. apríl en stefnt er að því að leggja hana fram eftir miðjan maí, enda hafi þá nauðsynlegar forsendur skýrst.
Samhliða vinnu við endurskoðun fjármálastefnu er unnið að sérstöku fjárfestingarátaki sem felur í sér verulega hækkun á fjárfestingastigi ríkissjóðs á næstu árum. Áætlunin gerir m.a. ráð fyrir sölu Íslandsbanka að hluta eða öllu leyti á áætlunartímabilinu, en þó eingöngu ef aðstæður til sölu eru hagfelldar. Á vorþingi verður lagt fram frumvarp um afmarkaðar samstarfsfjárfestingar í vegamálum og þannig stuðlað að enn öflugri fjárfestingargetu til framtíðar.

Categories
Fréttir

„Stundum erum við kaþólskari en páfinn“

Deila grein

10/03/2020

„Stundum erum við kaþólskari en páfinn“

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og formaður Framsóknar, var spurður um undirboð í ferðaþjónustu á Alþingi í liðinni viku.
Sagði Sigurður Ingi að undirboð í ferðaþjónustu á Íslandi hafi farið vaxtandi og hafi haft mjög neikvæð áhrif. Það hefur verið vinna í gangi hvaða leiðir séu til til að koma í veg fyrir undirboð með einhverjum hætti. Margt í ferlinu er flókið og hafa rútufyrirtæki getað á grunni alþjóðlegs regluverks unnið á grunni gistilandaheimild sem er gefin út af landinu sem rútufyrirtækið er frá. „Hér hefur það verið túlkað í tollalögum þannig að þetta sé heimilt til eins árs.“

„Stundum erum við kaþólskari en páfinn í því að framfylgja einhverjum evrópskum regluverkum og sjáum ekki fyrir okkur leiðirnar út úr því.“

Sigurður Ingi sagði aðgerðir er eru á borðinu hjá Dönum og þeir hafa verið að innleiða átt hann fund með kollega mínum, danska ráðherranum, og íslenskir sérfræðingar eru komnir í beint samband við danska samgönguráðuneytið um að fylgja þeim eftir þeirra aðgerðum hér á landi.
„Ég er aftur á móti þeirrar gerðar að ég vil leita allra leiða þegar við erum að verja íslenska hagsmuni og jafnvel stundum aðeins að skora á hólm hið evrópska regluverk. En þegar land eins og Danmörk, sem er innan Evrópusambandsins, gerir það, þá hef ég sagt: Ég vil fylgja þeirra fordæmi. Við erum að fylgjast mjög náið með því hvernig þeir vinna þetta og við erum að setja upp sambærilegt prógramm. Undirbúningur þeirra var þannig að þeir höfðu dálítið samband við þessi fyrirtæki og komu upplýsingum á framfæri um hvað þeir ætluðu að gera. Kannski eru viðbrögðin því orðin meiri nú þegar þó svo að regluverkið sé ekki farið að bíta.“

Categories
Greinar

Gerum það sem þarf

Deila grein

10/03/2020

Gerum það sem þarf

Rétt viðbrögð ráða mestu um áhrif áfalla. Yf­ir­vof­andi hættu þarf að mæta með mik­illi rögg­semi, en einnig er mik­il­vægt er að horfa á sam­hengi hlut­anna svo fyrstu viðbrögð verði ekki þau einu. Fyrsta skrefið í bar­átt­unni við kór­óna­veiruna sem or­sak­ar COVID-19 snýr að heilsu­vernd, enda nauðsyn­legt að hefta út­breiðslu henn­ar. Sam­hliða þarf að huga að efna­hags­leg­um og ekki síður fé­lags­leg­um viðbrögðum. Nei­kvæð efna­hags­leg áhrif veirunn­ar eru ein­hver þau mestu sem alþjóðakerfið hef­ur séð í lang­an tíma. Þess vegna þarf um­fang efna­hagsaðgerða rík­is­stjórn­ar­inn­ar að vera veru­legt.

Heil­brigði og fólkið okk­ar
Óvær­an hef­ur veru­leg áhrif á allt dag­legt líf okk­ar. Sum­ir verða veik­ir, en all­ir þurfa að breyta hegðun sinni og venj­um; for­gangsraða með hliðsjón af eig­in heilsu og annarra og skil­greina hvað skipt­ir mestu máli. Heil­brigðis­yf­ir­völd hafa staðið sig vel. Þau sýna ábyrgð og leggja nótt við dag við að rekja smit­leiðir, miðla upp­lýs­ing­um og halda veirunni í skefj­um. Sam­fé­lagið allt hef­ur lagst á ár­arn­ar með yf­ir­völd­um, sett sjálfu sér strang­ar regl­ur og dregið tíma­bundið úr nán­um sam­skipt­um. Hundruð ein­stak­linga í sótt­kví hafa verndað heilsu annarra og lág­markað álag á heil­brigðis­kerfið með ein­angr­un sinni. Það er lofs­vert fram­lag.

Aðgerðunum fylg­ir þó veru­leg­ur kostnaður, bæði beinn og óbeinn. Hjól hag­kerf­is­ins hægja á sér og geta stöðvast ef stjórn­völd eru ekki með aug­un á veg­in­um og fót­inn á bens­ín­gjöf­inni. Rík­is­stjórn­in er meðvituð um þessa hættu og hef­ur und­ir­búið mót­vægisaðgerðir sem hrint verður í fram­kvæmd á rétt­um tíma, í sam­starfi við lyk­ilaðila, fag­stétt­ir, at­vinnu­líf og sam­tök.

Mennta­kerfið: Kennsla held­ur áfram
Eitt mik­il­væg­asta sam­fé­lags­verk­efnið á þess­um tíma­punkti er að tryggja að skólastarf rask­ist sem minnst. Skóla­stjórn­end­ur og kenn­ar­ar hafa sýnt mikla yf­ir­veg­un við þess­ar óvenju­legu aðstæður, þar sem mark­miðið er að halda uppi starf­sem­inni eins lengi og unnt er. Í upp­færðum áætl­un­um skól­anna er gert ráð fyr­ir ýms­um aðstæðum; hlut­verki kenn­ara í fjar­kennslu og heima­námi ef sam­komu­bann tek­ur gildi, líðan nem­enda og stuðningi við þá sem mest þurfa á að halda. Von­andi þarf ekki að grípa til þeirra aðgerða sem hafa verið und­ir­bún­ar, en það er mjög traust­vekj­andi að vita af þeirri und­ir­bún­ings­vinnu sem þegar hef­ur verið unn­in.

Efna­hags­lífið: Inn­spýt­ing og súr­efni
Ófærð og ít­rekuð óveður hafa verið tákn­ræn fyr­ir krefj­andi aðstæður í efna­hags­líf­inu í vet­ur. Ofan á þung­an vet­ur bæt­ist heilsu­far­sógn­in sem nú steðjar að og vafa­laust þykir mörg­um nóg. En það dug­ar lítt að sitja með hend­ur í skauti og bíða vors­ins. Við þurf­um að ráðast í al­menn­ar og sér­tæk­ar aðgerðir, þar sem áfallið er bæði á fram­boðs- og eft­ir­spurn­ar­hliðinni. Virðiskeðja alþjóðahag­kerf­is­ins hef­ur verið rof­in. Fyr­ir nokkr­um vik­um benti ég á brýna þörf á heild­stæðri efna­hag­hags­áætl­un sem næði til innviðafjár­fest­inga, at­vinnu­lífs og fjár­mála­kerf­is­ins. Viðbrögðin við þeim hug­mynd­um voru afar ánægju­leg og á skömm­um tíma hafa litið ljós fram­kvæmda­áætlan­ir. Í góðu ár­ferði und­an­far­inna ára höf­um við greitt niður skuld­ir, safnað í góðan gjald­eyr­is­forða og komið okk­ur í kjöraðstæður til að bregðast við vand­an­um sem nú blas­ir við okk­ur. Við erum í dauðafæri að auka innviðafjár­fest­ing­ar og styrkja með þeim sam­fé­lagið til fram­búðar. Við get­um fært at­vinnu­líf­inu aukið súr­efni með al­menn­um aðgerðum, lækkað trygg­ing­ar­gjald fyr­ir­tækja og end­ur­skoðað gistinátta­skatt. Á sama hátt eiga sveit­ar­fé­lög að leggj­ast á ár­arn­ar, til dæm­is með end­ur­skoðun fast­eigna­gjalda sem hafa skilað veru­lega aukn­um tekj­um vegna hækk­andi eigna­verðs. Við eig­um óhikað að grípa til aðgerða til hjálp­ar ferðaþjón­ust­unni, sem glím­ir við for­dæma­laus­ar aðstæður. Tugþúsund­ir ein­stak­linga hafa at­vinnu af ferðaþjón­ustu og grein­in hef­ur skapað yfir 40% af gjald­eyris­tekj­um þjóðarbús­ins.

Útlána­vext­ir fjár­mála­kerf­is­ins hafa ekki lækkað í takt við meg­in­vexti Seðlabanka Íslands. Þetta verður að breyt­ast og huga verður að greiðslu­frest­um fyr­ir­tækja sem lenda í vand­ræðum vegna ástands­ins. Pen­inga­mála­yf­ir­völd og rík­is­sjóður verða að ganga í takt svo aðgerðirn­ar heppn­ist sam­fé­lag­inu til heilla. Þá ætti bank­inn einnig að auka laust fé í um­ferð og end­ur­skoða niður­greiðslu­fer­il skulda rík­is­sjóðs Íslands. Hlut­deild­ar­lán sem fé­lags- og barna­málaráðherra hef­ur kynnt geta einnig haft mik­il áhrif, unnið með hag­kerf­inu og aðstoðað fólk til að eign­ast eig­in íbúð.

Vet­ur­inn er að hopa og fram und­an eru jafn­dæg­ur að vori. Ég er sann­færð um að í sam­ein­ingu náum við tök­um á COVID-19. Við verðum að for­gangsraða í þágu sam­fé­lags­ins, því eins og John Stu­art Mill sagði: „Þegar til lengd­ar læt­ur, velt­ur gildi rík­is­ins á mann­gild­um þegn­anna.“

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar­.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 10. mars 2020.

Categories
Greinar

Stígamót á tímamótum

Deila grein

10/03/2020

Stígamót á tímamótum

Nú eru 30 ár liðin frá stofn­un Stíga­móta. Stíga­mót voru stofnuð sem Sam­tök kvenna gegn kyn­ferðisof­beldi. Aðdrag­andi þess var að það voru nokkr­ir sjálf­boðaliðahóp­ar kvenna sem höfðu komið að álíka mál­um og ákváðu að taka hönd­um sam­an og stofna sam­tök­in. Stíga­mót, staður­inn þar sem stíg­ar mæt­ast, voru svo stofnuð á bar­áttu­degi kvenna árið 1989. Þarna var stigið stórt og mik­il­vægt skref í rétt­inda­bar­áttu kvenna. Núna starfa Stíga­mót sem ráðgjaf­ar- og stuðnings­miðstöð fyr­ir bæði kon­ur og karla sem hafa verið beitt hvers kyns kyn­ferðisof­beldi.

Takk, takk

Mig lang­ar til að nota þenn­an vett­vang til að segja: Takk, þið kon­ur sem stiguð þetta skref, takk fyr­ir hönd þeirra kvenna sem fengu þarna tæki­færi til að stíga fram og létta af sér þungri byrði og fengu áheyrn og þar með bata. Takk, þið kon­ur sem stiguð þetta skref og stöðvuðuð þá þögg­un sem viðhöfð var á þess­um tíma í sam­fé­lag­inu okk­ar. Fyr­ir 30 árum hafði þessu mál­efni ekki verið sinnt af heil­brigðis­kerf­inu og lítt af dóms­kerf­inu þrátt fyr­ir að sann­ar­lega mætti finna viður­lög vegna kyn­ferðis­legs of­beld­is í lög­um. Þá þurftu þeir sem lentu í kyn­ferðis­legu of­beldi að klífa sex­tug­an ham­ar­inn í leit að rétt­læti. Enn er við ham­ar­inn að eiga en umræðan hef­ur skilað okk­ur fram á veg­inn.

Umræðan bæt­ir sam­fé­lagið

Fyrsta ára­tug Stíga­móta unnu þau að mik­il­væg­asta verk­efn­inu en það var að standa upp og opna þessa umræðu og berj­ast þar með fyr­ir bættu sam­fé­lagi og að umræðan um kyn­ferðisof­beldi væri opin og viður­kennd. Þegar sú umræða fór af stað tók sam­fé­lagið við sér og sem bet­ur fer í dag hafa fé­lags­mála- og heil­brigðis­yf­ir­völd styrkt sitt um­hverfi í átt að heil­brigðari umræðu í þess­um mál­um. Umræðan hef­ur líka opnað á af­leiðing­ar of­beld­is­ins og þar með opnað á fjöl­breytta meðferð til að styrkja þolend­ur til að lifa með því.

Þrátt fyr­ir að mark­mið Stíga­móta hafi náðst með því að opna þessa umræðu í þjóðfé­lag­inu og viður­kenna skelfi­leg­ar af­leiðing­ar þessa of­beld­is þá verður sam­fé­lagið stöðugt að halda þess­um bolt­um á lofti. Við náum því senni­lega seint að upp­ræta kyn­ferðis­legt of­beldi úr sam­fé­lag­inu en stöðug umræða held­ur því niðri og forðar okk­ur frá þögg­un og meðvirkni með of­beld­inu.

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 10. mars 2020.

Categories
Greinar

Skaðinn ferðast með fólki milli kynslóða

Deila grein

09/03/2020

Skaðinn ferðast með fólki milli kynslóða

Það er réttur hvers einstaklings að fá að lifa frjáls og geta notið sín. Margir einstaklingar þurfa að þola ofbeldi daglega og jafn vel í mörg ár. Þeir einstaklingar eru ófrjálsir, fastir í fjötrum hótana og sársauka. Heimilið á að vera griðarstaður en ekki ógn og hindrun. 2017 leituðu þúsund sér aðstoðar vegna heimilisofbeldis og ofbeldis í nánum samböndum. Það eru sláandi tölur. Við getum ekki lokað augunum fyrir þessum staðreyndum. Rjúfa þarf vítahring ofbeldis með öllum ráðum og dáð svo skaðinn ferðist ekki með fólki milli kynslóða.

Skömmin

Algengt er að þolendur upplifi neikvæðar tilfinningar eins og skömm, sektarkennd og sjálfsásakanir. Ef ofbeldið á sér stað innan veggja heimilisins eru afleiðingarnar oft enn djúpstæðari, sérstaklega ef þolandinn er barn. Þolendur ofbeldis eru fjórum sinnum líklegri að glíma við geðröskun en þeir sem ekki hafa upplifað ofbeldi. Löggjafanum ber siðferðileg skylda til að gera allt sem í hans valdi stendur til að verja þolendur heimilisofbeldis enn betur en nú er gert.

Inngrip opinberra aðila

Fyrir Alþingi liggur þingsályktunartillaga um upplýsingamiðlun um heimilisofbeldismál. Starfshópur á vegum dómsmálaráðherra er ætlað að móta tillögur að bættu verklagi um miðlun um heimilisofbeldismál milli félagsmálayfirvalda, heilbrigðisyfirvalda, menntamálayfirvalda og lögreglu. Raunveruleikinn er sá að þolendur heimilisofbeldis veigra sér oft við að tilkynna lögreglu um ofbeldi. Þess vegna er brýnt að þeir aðilar sem starfa náið með íbúunum geti tekið frumkvæði að því að grípa inn í með viðeigandi hætti og ávallt með samþykki þolanda. Þó verklagsreglur ríkislögreglustjóra hafi reynst vel og tryggt samstarf lögreglu við önnur stjórnvöld, er ljóst að formfesta þarf samstarfið í hina áttina, þ.e. milli félagsmálayfirvalda, heilbrigðisyfirvalda og menntastofnana til lögreglu. Liður í því er að koma á skýrari forvirkum lagaheimildum til að miðla viðkvæmum upplýsingum.

Hagsmunir barnsins í fyrirrúmi

Þegar grunur leikur á að barn hafi verið beitt ofbeldi eða orðið vitni að því þarf að tryggja að skilyrði um þátttöku og samþykki brotaþola hamli stjórnvöldum ekki að grípa inn í. Starfshópurinn mun einnig kanna hvort þörf sé að skilgreina betur tilkynningarskyldu stjórnvalda, sem hafa afskipti af málum til barnaverndarnefndar. Kerfin þurfa að geta talað saman með hagsmuni barnsins að leiðarljósi. Í þessu samhengi má einnig nefna að nauðsynlegt er að koma á fót úrræði fyrir börn sem hafa orðið fyrir heimilisofbeldi eða orðið vitni að því. Í dag eru starfrækt úrræði fyrir fullorðna einstaklinga, eins og Bjarkarhlíð, sem hefur gefið góða raun en ekkert sambærilegt úrræði er til fyrir börn.

Silja Dögg Gunnarsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Suðurkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á visir.is 9. mars 2020.

Categories
Greinar

Norður­landa­ráð styður lýð­ræðis­öfl í Pól­landi

Deila grein

06/03/2020

Norður­landa­ráð styður lýð­ræðis­öfl í Pól­landi

Hátt í fjórir af hverjum tíu innflytjendum á Íslandi eru frá Póllandi. Þetta eru nálægt því tuttugu þúsund manns, fleiri en allir íbúar Reykjanesbæjar eða Akureyrar. Þó ekki væri nema af þessari ástæðu ættu málefni Póllands að vera ofarlega í hugum Íslendinga. Pólverjar eru jafnframt fjölmennasti hópur innflytjenda í Noregi og Danmörku og í Svíþjóð búa næstum 100 þúsund Pólverjar. Stjórnmálamenn í þessum löndum eru enda mjög uppteknir af þróun mála í þessu stóra og fjölmenna nágrannalandi sínu.

Vilji fyrir auknum samskiptum

Árið 2020 fer Ísland með formennsku í Norðurlandaráði, samstarfi þjóðþinga Norðurlanda. Greinarhöfundur gegnir embætti forseta Norðurlandaráðs en Oddný G. Harðardóttir er varaforseti. Í fyrra var sænski þingmaðurinn Hans Wallmark í forsetaembættinu. Í nóvember áttum við Wallmark fund með Tomasz Grodzki, forseta öldungadeildar pólska þingsins, í tengslum við Eystrasaltsþingið sem haldið var í Ríga í Lettlandi. Grodzki átti frumkvæði að fundinum, en lítil sem engin samskipti hafa verið milli Norðurlandaráðs og pólska þingsins frá árinu 2015. Í þingkosningunum sem fram fóru í október það ár beið flokkur Grodzkis, Borgaraflokkurinn, ósigur og þjóðernis- og íhaldsflokkurinn Lög og réttur náði meirihluta á þinginu og tók við stjórnartaumunum í Póllandi.

Lýðræðisþróun í Póllandi áhyggjuefni

Framferði nýju valdhafanna í Póllandi hefur valdið okkur í Norðurlandaráði og mörgum öðrum áhyggjum á síðustu árum. Umdeildar breytingar á dómskerfinu, afskipti valdhafa af störfum fjölmiðla og afstaðan til hinsegin fólks er á skjön við skoðanir og hugsjónir mínar og flestra norrænna stjórnmálamanna.

Gömul tengsl endurvakin

Í þingkosningum sem fram fóru í október í fyrra hélt ríkisstjórnin meirihluta sínum í neðri deild pólska þingsins, en missti tökin á öldungadeildinni. Borgaraflokkurinn, sem er stærsti flokkur stjórnarandstöðunnar, hefur með Grodzki í fararbroddi verið fljótur að endurvekja gömul tengsl þingsins sem slitnuðu eftir kosningarnar 2015. Meðal annars var Norðurlandaráði boðið til Póllands til að taka aftur upp þráðinn í samstarfinu. Þess vegna fer ég fyrir þriggja manna sendinefnd sem ætlar að heimsækja pólska þingið 9.-10. mars nk. Með mér í för verða formenn landsdeilda Finnlands og Noregs í Norðurlandaráði, þeir Erkki Tuomioja og Michael Tetzschner.

Falsfréttir og öryggismál

Á fundum með Grodzki þingforseta og fleiri pólskum þingmönnum ætlum við meðal annars að ræða stöðu pólskra innflytjenda á Norðurlöndum en jafnframt upplýsingaóreiðu og falsfréttir, sem er hluti af áherslumálum formennsku Íslands í Norðurlandaráði. Einnig verður rætt um öryggismál og sérstaklega stöðuna í Úkraínu og almennt um samstarf Póllands við Norðurlönd og Eystrasaltsríkin.

Silja Dögg Gunnarsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Suðurkjördæmi og forseti Norðurlandaráðs.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 5. mars 2020.