Categories
Greinar

Nauðsynlegar umbætur á húsnæðismarkaði

Deila grein

05/02/2016

Nauðsynlegar umbætur á húsnæðismarkaði

Elsa-Lara-mynd01-vefurÁ sumarþingi 2013 samþykkti Alþingi þingsályktunartillögu í 10 liðum. Um var að ræða aðgerðaáætlun sem fól það m.a. í sér að taka á skuldavanda heimila, auka stöðugleika og gagnsæi á húsnæðislánamarkaði og vinna að framtíðarskipan húsnæðismála, þar á meðal úrbótum á leigumarkaði.

Einn liður tillögunnar fjallaði um að félags – og og húsnæðismálaráðherra ætti að skipa verkefnastjórn um framtíðarskipan húsnæðismála. Verkefnastjórnin hafi m.a. það hlutverk að koma með tillögur að nýju húsnæðislánakerfi með það í huga að tryggja virkan leigumarkað og skilvirk félagsleg úrræði fyrir þá sem slíkt þurfa.  Verkefnastjórnin skilaði af sér tillögum árið 2014. Út frá þeirri vinnu komu síðar frumvörp sem nú er unnið að  í velferðarnefnd þingsins.

Aukum framboð og stuðning

Um er að ræða fjögur frumvörp, sem öll varða leigumarkaðinn. Margar umsagnir hafa borist um málin og eru flestar þeirra jákvæðar. Því ber að þakka því viðamikla samráði sem málin fóru í gegnum, við vinnslu þeirra. Unnið er hratt og vel að því að klára þessi mál svo þau verði sem fyrst að mikilvægum húsnæðisumbótum. En um hvað fjalla þessi frumvörp?

  1. Frumvarp til laga um almennar íbúðir felur í sér að byggja samtals 2.300 íbúðir á þessu ári og næstu þremur árum fyrir efnaminni leigjendur. Markmiðið er að fólk geti búið í öruggu húsnæði og að leigan fari ekki yfir 20-25% af ráðstöfunartekjum.
  2. Frumvarp til laga um húsnæðisbætur felur í sér stóraukinn stuðning fyrir leigjendur. Þar eru frítekjumörk hækkuð verulega og húsnæðisstuðningur miðast við fjölskyldustærð. Ætlunin er að jafna stuðning milli ólíkra búsetuforma svo einstaklingar og fjölskyldur hafi raunverulegt val um búsetuform.
  3. Frumvarp um breytingu á lögum um húsnæðissamvinnufélög hefur það markmið að styrkja rekstur húsnæðissamvinnufélaga, auka gagnsæi í rekstri þeirra og koma á auknu íbúalýðræði.
  4. Frumvarp um breytingu á húsaleigulögum sem felur í sér aukin réttindi leigjenda og leigusala. Auk þess er verið að skerpa á atriðum, sem deilumál hafa orðið um í leigusamningum undanfarin ár.

Fjölgun á leigumarkaði

En hvers vegna eru þessi frumvörp svona mikilvæg fyrir einstaklinga og fjölskyldur á leigumarkaði? Hvers vegna er svona mikilvægt að þau nái fram að ganga? Jú það er vegna þess að

  • það er staðreynd að veruleg fjölgun hefur átt sér stað á leigumarkaði frá árinu 2008. Þannig voru 20,8 % heimila á Íslandi á leigumarkaði árið 2014, samanborið við 12,9 % árið 2008.
  • leigjendur á almennum leigumarkaði eru líklegastir til að hafa verulega íþyngjandi húsnæðiskostnað, samanborið við aðra hópa á húsnæðismarkaði. Það er um verulega íþyngjandi húsnæðiskostnað er að ræða þegar 40% eða hærra hlutfalli af ráðstöfunartekjum er varið í húsnæðiskostnað.

Auk þessa er óhætt að halda því fram að þær aðgerðir sem farið hefur verið í frá árinu 2008 og kostað 237 milljarða, hafa ekki komið til þessa hóps sem umrædd frumvörp eiga að ná til. Um er að ræða útgjöld til Íbúðarlánasjóðs, í vaxtabætur, sérstakar vaxtabætur og til niðurfellingar á verðtryggðum húsnæðisskuldum heimilanna.

Lækkum húsnæðiskostnað

Sumir vilja halda því fram að auknar húsnæðisbætur muni hækka leiguverð. Sem mótvægisaðgerð við þau sjónarmið var ákveðið að lækka fjármagnstekjuskatt á leigutekjur um 4 %, en þeirri aðgerð er m.a. ætlað að draga úr hækkunaráhrifum bótanna á leiguverð. Í umsögn Seðlabankans um málið segir að umrætt frumvarp muni skila sér í lægri húsnæðiskostnaði fyrir einstaklinga og fjölskyldur á leigumarkaði. Það passar vel við þær athugasemdir sem ráðgjafafyrirtækið Analityca hefur lagt fram um málið.

Heildarsamhengið mikilvægt

Þegar umrædd húsnæðisfrumvörp hafa verið afgreidd þá taka verðtryggingarmálin við. Í því samhengi þarf að horfa til vaxtabyrði lána og greiðslubyrði fólks af húsnæðislánum. Festa þarf í sessi hvata til húsnæðissparnaðar, t.d. í formi séreignasparnaðar. Jafnframt þarf að endurskoða þau úrræði sem sett eru fram í greiðslumati. Óhætt er að halda því fram að ríkisstjórn Framsóknar – og Sjálfstæðisflokksins vinni að heilum hug fyrir heimili landsins. Hvort sem um er að ræða þau heimili sem falla undir séreignastefnuna, heimili á leigumarkaði eða þau heimili sem falla undir húsnæðissamvinnufélög. Það er markmið ríkisstjórnarinnar að landsmenn hafi raunverulegt val um búsetuform og því er mikilvægt að allar þessar aðgerðir nái fram að ganga.

Elsa Lára Arnardóttir

Greinin birtist í Morgunblaðinu 5. febrúar 2016.

Categories
Fréttir

Ekki saknæmt athæfi að vera fávís eða illa upplýstur

Deila grein

03/02/2016

Ekki saknæmt athæfi að vera fávís eða illa upplýstur

24671716596_29475601b0Hæstv. forseti. Það er fagnaðarefni að heyra að Bankasýsla ríkisins skuli ætla að kanna sölu Landsbankans á Borgun. Sá sem hér stendur sendi Bankasýslunni formlegt erindi í fyrra þar sem farið var fram á það að söluverð hlutarins í Borgun yrði metið en Bankasýslan treysti sér þá ekki til að verða við erindinu.

Það veitir ekki af því að taka þetta mál og athuga það vegna þess að ljóst er að forustumenn Landsbankans hafa orðið margsaga í þessu máli. Upphaflega sagði bankastjórinn að landsbankamenn hefðu ekki getað metið hlut Borgunar almennilega en gat þess samt að söluverðið væri hagstætt. Seinna í ferlinu lét hann það flakka að Samkeppniseftirlitið hefði herjað mjög á Landsbankann um að selja þennan hlut en það hefur komið í ljós að það er ekki rétt.

Nú halda landsbankamenn því fram að þeir hafi ekki getað vitað um svokallaðan hvalreka, eða á ensku „windfall“, sem varði það að Visa Inc. keypti evrópska hluta Visa.

Nú er það ekki saknæmt athæfi að vera fávís eða illa upplýstur, en hitt er annað mál að í þessu tilfelli er það rándýrt fyrir almenning í landinu. Það bárust nefnilega vísbendingar snemma árs 2014 á opinberum fréttamiðlum um þennan hvalreka sem væntanlegur var. Þá var líka getið um áhrif af sölu Visa Europe til Visa Inc. í árshlutareikningum og upplýsingum Visa Inc. þar sem þetta kemur fram.

Hafi menn í Landsbankanum ekki vitað af þessu bendir það til þess að þeir séu ekki mjög vel starfi sínu vaxnir og ættu að finna sér eitthvað annað að gera. Hafi þeir hins vegar búið yfir þessum upplýsingum og látið hjá líða að nýta þær er sama niðurstaða auðfengin. Stjórn Landsbankans á að víkja út af þessu máli.

Þorsteinn Sæmundsson — í störfum þingsins 2. febrúar 2016.

 

Categories
Fréttir

Er ferðamannastraumurinn bóla sem gæti sprungið?

Deila grein

03/02/2016

Er ferðamannastraumurinn bóla sem gæti sprungið?

Sigurður Páll Jónsson 005Hæstv. forseti. Ferðamennska hefur stóraukist hér á landi undanfarin ár og er það ánægjuleg þróun þó að sumum þyki nóg um. En staðreyndin er sú að um 30% af landsframleiðslu kemur úr ferðamannageiranum. Auknum ferðamannastraumi fylgir aukið álag á alls konar þætti, suma fyrirséða og aðra ófyrirséða. Aukið álag á landsvæði hefur þegar komið í ljós og hafa stjórnvöld brugðist við að hluta til með breytingum á lögum um náttúruvernd. Álag á vegi landsins hefur aukist og kemur það aðallega niður á umferðaröryggi sem meðal annars hefur birst í auknum fjölda umferðarslysa hjá ferðamönnum sem ekki eru vanir íslensku gatnakerfi með of mörgum einbreiðum brúm, mjóum vegum auk malarvega og fleira.
Álag á vegi jókst einnig til muna eftir að strandsiglingar ríkisins voru aflagðar og þungaflutningar voru færðir á gatnakerfið. Það mætti að mínu mati taka snúning á því í umræðunni hvort flutningur á þungavöru um strendur landsins væri betur kominn sjóleiðis til að minnka álag á vegi. Dreifing ferðamanna um landið þyrfti að vera meiri og koma ferðafólks hefur nær eingöngu verið í gegnum Keflavík sem stýrir fólki meira um suðvesturland.
Egilsstaðaflugvöllur er kostur sem gera á tilraun með í vor með móttöku ferðamanna í sex mánuði fyrst í stað og ætti það að dreifa álaginu á landið og auka umsvifin fyrir austan og norðan. Það verður spennandi að sjá hvernig það gengur.
Koma farþegaskipa hefur aukist, en stærri hafnir landsins eru betur í stakk búnar að taka á móti þeim. Þó hefur minni farþegaskipum fjölgað og er ágætisreynsla að skapast í hringferðum slíkra skipa í kringum landið með viðkomu á ýmsum stöðum. Er ferðamannastraumurinn bóla sem gæti sprungið? Spyr sá sem ekki veit. Gakktu hægt um gleðinnar dyr, segir einhvers staðar, en þó örugglega og glaðlega.
Sigurður Páll Jónsson — í störfum þingsins 2. febrúar 2016.

 

Categories
Fréttir

Umsögn Seðlabankans jákvæð

Deila grein

03/02/2016

Umsögn Seðlabankans jákvæð

Elsa-Lara-mynd01-vefurHæstv. forseti. Þessa dagana vinnur hv. velferðarnefnd þingsins með húsnæðisfrumvörp hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra. Í gær birti Seðlabankinn umsögn sína vegna þessara mikilvægu mála. Það er skoðun bankans að áhrif frumvarpanna verði í samræmi við þau markmið sem frumvörpunum er ætlað að ná, þ.e. að koma til móts við húsnæðiskostnað leigjenda. Það er skoðun bankans að áhrif frumvarpanna verði í samræmi við markmið þeirra að lækka húsnæðiskostnað þeirra sem eru á leigumarkaði með auknum húsnæðisbótum og auknu framboði á húsnæði fyrir efnaminni leigjendur. Um frumvarp um húsnæðisbætur segir í umsögn Seðlabankans, með leyfi forseta:
„Það felur í sér að þær fjölskyldur sem njóta kostnaðarþátttöku ríkisins samkvæmt frumvarpinu munu með tímanum þurfa að ráðstafa nokkru minni hluta tekna sinna en ella til húsnæðis og þar af leiðandi hafa meira til ráðstöfunar í aðrar neysluvörur og sparnað.“
Í umsögn Seðlabankans um almennar íbúðir fyrir efnaminni leigjendur segir, með leyfi forseta:
„Með frumvarpinu er lagt til að verulegum fjárhæðum verði varið til uppbyggingar á leiguhúsnæði sem verði ráðstafað til tekjulágra og annarra sem tilgreindir eru í frumvarpinu. Að öðru óbreyttu mun slíkt leiða til þess að leiguverð á slíkum íbúðum lækkar.“
Þessi umsögn er í samræmi við það sem ráðgjafarfyrirtækið Analytica benti á í umsögn sinni þegar umrædd frumvörp voru til vinnslu innan velferðarráðuneytisins. Ríkið hefur sett verulega fjármuni í húsnæðismál undanfarin ár eða frá árinu 2008 en þar er um að ræða útgjöld til Íbúðalánasjóðs, útgjöld í vaxtabætur, sérstakar vaxtabætur og útgjöld til niðurfellingar á verðtryggðum húsnæðislánum heimilanna. Sá hópur sem umrædd frumvörp eiga að ná til og eru í vinnslu innan hv. velferðarnefndar hefur ekki fengið úrbætur í húsnæðismálum. Því er mikilvægt að þessi frumvörp nái fram að ganga. Allir hv. þingmenn verða að hafa það í huga að umrædd frumvörp eru tengd kjarasamningum og hluti þess að kjarasamningar tókust á almennum vinnumarkaði síðasta vor.
Elsa Lára Arnardóttir — í störfum þingsins 2. febrúar 2016.

Categories
Fréttir

Aðildarríkjum EES ber að leyfa innflutning á fersku kjöti

Deila grein

03/02/2016

Aðildarríkjum EES ber að leyfa innflutning á fersku kjöti

líneikVirðulegi forseti. Ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins sem skilað var í gær veldur mér áhyggjum. Samkvæmt áliti dómstólsins kveður EES-samningurinn á um að aðildarríkjum hans beri að leyfa innflutning á fersku kjöti svo framarlega sem það hefur staðist heilbrigðiseftirlit í heimalandinu. Ekki sé heimilt að gera þá kröfu að afurðirnar verði frystar eins og íslenskt stjórnvöld hafa alltaf krafist. Ég vil þó árétta það að álitið er ráðgefandi og afnemur ekki sjálfkrafa gildandi reglur á Íslandi.
Í gegnum árin hafa dýralæknar og aðrir sérfræðingar sem best þekkja til á þessu sviði varað við innflutningi á fersku kjöti. Með leyfi forseta langar mig að vitna í orð Vilhjálms Svanssonar, dýralæknis við Tilraunastöð Háskóla Íslands að Keldum, í Fréttablaðinu þar sem hann segir þessa niðurstöðu sorgartíðindi fyrir þá sem bera líf og dýraheilsu fyrir brjósti:
„Innflutningur á hráu kjöti til Íslands er bannaður vegna varna gegn dýrasjúkdómum og voru fyrstu lög í þá átt sett 1882. Staða Íslands með tilliti til dýrasjúkdóma er einstæð í heiminum og hana ber að varðveita með öllum tiltækum ráðum. Tilgangur bannsins er margþættur og er meðal annars að tryggja sem heilnæmasta innlenda matvöru, stuðla að dýravelferð, varðveita erfðafjölbreytileika eða erfðaauðlindir, draga úr lyfjakostnaði, vernda lýðheilsu og fleira. Liður í velferð dýra er að stuðla að góðu heilsufari dýra í landinu með því að koma í veg fyrir að nýir smitsjúkdómar berist til landsins. Um leið er lagður grunnur að því að áfram verði framleiddar heilnæmar búfjárafurðir í landinu, lausar við afleiðingar tiltekinna sjúkdóma eða lyfjaleifar þeim tengdum. Þar fyrir utan mætti svo auðvitað ræða æskileg umhverfisáhrif af flutningi kjöts, en það er annað mál.“
Líneik Anna Sævarsdóttir — í störfum þingsins 2. febrúar 2016.

Categories
Fréttir

Allir séu á sömu blaðsíðunni um öryggi og mikilvæga þjónustu

Deila grein

03/02/2016

Allir séu á sömu blaðsíðunni um öryggi og mikilvæga þjónustu

ÞórunnHæstv. forseti. Í liðinni viku barst þingmönnum Norðausturkjördæmis bréf frá flugrekstrarstjóra Norlandair og þjálfunarstjóra Mýflugs sem hafa aðsetur á Akureyrarflugvelli. Innihald bréfsins er þess efnis að það vekur áhyggjur því að leiddar eru líkur að því að hugmyndir Isavia um skert þjónustustig leiði einnig til skertra öryggishagsmuna notenda þjónustunnar.
Akureyrarflugvöllur er þriðji stærsti flugvöllur landsins á eftir Reykjavík og Keflavík. Þrátt fyrir erfiðar aðstæður frá náttúrunnar hendi og mikla flugumferð hefur flugumferðarstjórum tekist að halda uppi háum öryggisstuðli. Sá árangur grundvallast á radarstöð sem staðsett er við hlið flugbrautarinnar og stjórnast af flugumferðarstjórum í flugturni. Af ýmsum ástæðum stefnir í að flugumferðarstjórum fækki úr sex í þrjá. Ekki fyrr en nýlega hafa verið gerðar ráðstafanir til nýráðninga og þjálfunar á nýjum flugumferðarstjórum. Vitað er að þjálfun þeirra tekur tíma og hafa starfandi flugumferðarstjórar boðist til að dekka tímabilið með skipulagningu vakta, líkt og þeir hafa reyndar gert fram að þessu samkvæmt upplýsingum mínum.
Hæstv. forseti. Stefnan virðist vera sú að manna vaktir með starfsmönnum sem hafa einungis brot af þeirri menntun, starfsþjálfun og réttindum sem flugumferðarstjórar hafa. Þessir starfsmenn hafa til dæmis ekki réttindi til að veita radarþjónustu og því er það öryggi sem sú stöð veitir ekki til staðar þegar þeir verða á vakt.
Í ljósi mikillar flugumferðar um Akureyrarflugvöll og þess að hann er miðstöð sjúkraflugþjónustu sýnist mér afar mikilvægt að þessi þjónusta sé ekki skert. Ekki má gleyma því að flugvöllurinn er mikilvægur varaflugvöllur fyrir bæði innanlands- og utanlandsflug allan sólarhringinn. Mikilvægi þess að veita þjónustu með radarleiðsögn hafa dæmin sannað, en ekki gefst tími til að telja þau upp hér. Ágreiningur virðist um túlkun á því hvað skert þjónusta er. Það gengur ekki. Menn verða að vera á sömu blaðsíðunni þegar mál sem varða öryggi og mikilvæga þjónustu eru rædd. Ég efast ekki um að innanríkisráðherra skoðar þetta mál vel og treysti því að farsæl lausn finnist.
Þórunn Egilsdóttir — í störfum þingsins 2. febrúar 2016.

Categories
Greinar

Er alveg sjálfsagt að einkavæða bankana?

Deila grein

30/01/2016

Er alveg sjálfsagt að einkavæða bankana?

frosti_SRGBRíkið á í dag 98,2% hlut í Landsbankanum, 22,6% hlut í Arion banka og fljótlega mun ríkið eignast Íslandsbanka að fullu. Þá verður bankakerfið í landinu að ¾ hlutum í eigu ríkisins. Er það gott eða slæmt? Hver eru rökin með og á móti einkavæðingu í þetta sinn?

Það er gjarnan bent á að vaxtagjöld ríkisins eru mikil og nota mætti andvirði seldra hluta í bönkunum til að lækka skuldir og vaxtagjöld. Heildarvaxtagjöld ríkisins árið 2016 eru áætluð 74 ma. kr. og þar er vaxtakostnaður vegna framlags ríkisins til bankanna metinn á 7,6 ma. kr. Með því að selja hlut ríkisins í bönkunum mætti vissulega draga úr skuldum og þar með vaxtagjöldum en um leið hættir ríkið að fá arð af bönkunum og hlutdeild í hækkandi verðmæti þeirra. Að meðaltali hefur ríkið fengið 9,4 ma. kr. í arð sem er 2 ma. kr. hærri en vaxtakostnaðurinn af framlaginu.

Eigið fé aukist hratt
Á þessu ári gæti Landsbankinn greitt óvenju mikinn arð, allt að 63 ma. kr. Og þótt arðurinn á næstu árum verði hóflegri verður hann að öllum líkindum hærri en vaxtakostnaðurinn. Það virðist því koma betur út fyrir ríkissjóð að eiga bankana áfram.

Eigið fé bankana hefur aukist hratt frá stofnun þeirra. Hlutdeild ríkisins í aukningunni hefur numið alls um 116 ma. kr. og þá er stöðugleikaframlagið ekki meðtalið. Ef bankarnir skila hagnaði áfram mun eigið fé bankanna líka vaxa. Söluverðmæti bankana getur aukist verulega á næstu árum því nú er verðmat á bönkum almennt lágt miðað við sögulegt meðaltal og væntanleg sala Arion banka kemur í veg fyrir að besta verð fáist fyrir hlut ríkisins í Landsbanka á sama tíma.

Það getur tekið nokkur ár fyrir markaðinn að ná sér á strik aftur og á meðan væri skynsamlegt fyrir ríkið að bíða með öll söluáform. Að selja við núverandi aðstæður getur vel leitt til þess að ríkið fái tugmilljörðum lægra verð fyrir hlut sinn en ella.

Öruggast að eiga bankana
Í öðru lagi hefur verið nefnt að það sé áhættusamt fyrir ríkið að eiga stóran hlut í bönkunum og því liggi á að selja. Það er vissulega rétt en vandinn er hins vegar sá að þótt ríkið einkavæði bankana situr áhættan eftir sem áður að verulegu leyti á ríkissjóði. Bankarnir eru hver um sig of stórir og mikilvægir til að fá að fara á hausinn eins og venjuleg einkafyrirtæki. Ríkið myndi ávallt koma þeim til bjargar á kostnað skattgreiðenda. Þar til fundin er lausn á þeim vanda er öruggast fyrir ríkissjóð að eiga bankana og setja þeim eigendastefnu sem takmarkar áhættu þeirra og dregur þannig á hættu á frekari skakkaföllum ríkissjóðs vegna falls bankanna.

Ef bankarnir yrðu einkavæddir núna munu nýir eigendur vilja hámarka arðsemi sinnar fjárfestingar. Þeir myndu setja bankanum stefnu sem þýddi töluvert meiri áhættutöku en ríkið hefði gert sem eigandi. Nýir eigendur myndu einnig vilja hámarka vaxtamun bankans og hækka þjónustugjöld en hvorugt kæmi sér vel fyrir viðskiptavini bankanna, fyrirtækin og heimilin í landinu. Vegna þess að hér ríkir fákeppni á bankamarkaði er mjög hætt við því að einkavæddir bankar geti dregið til sín óeðlilega mikinn hagnað út úr hagkerfinu. Við slíkar aðstæður virðist betra fyrir landsmenn og einnig ríkissjóð að eiga bankana enn um sinn og setja þeim stefnu um hóflegan hagnað, hóflega áhættu og hagkvæmni í rekstri.

Liggur ekki á að selja
Sem betur fer liggur ekkert á að selja bankana og því ætti að gefast góður tími til að ræða kosti og galla einkavæðingar á þeim og treysta umgjörð þeirra. Næstu misseri mætti nýta til að skipta bönkunum upp í viðskiptabanka, fjárfestingabanka og íbúðalánabanka til að draga úr áhættu þessara ólíku sviða. Peningamyndun þyrfti að færast alfarið frá bönkum til Seðlabankans þannig að peningakerfið, sem aldrei má bregðast, verði ekki lengur háð fjárhag einstakra banka eins og nú er. Eftir þessar breytingar væru bankarnir áfram stöndug og verðmæt fjármálafyrirtæki sem ríkið gæti einkavætt án þess að sitja áfram uppi með áhættuna.

Frosti Sigurjónsson

Greinin birtist í DV 29. janúar 2016.

Categories
Fréttir

Umhverfismál til umræðu í þinginu

Deila grein

29/01/2016

Umhverfismál til umræðu í þinginu

Sigrún Magnúsdóttir 006Óhætt er að segja að umhverfismálin hafi verið áberandi í þinginu þessa vikuna. Þingmenn allra flokka viðhöfðu málefnalega og yfirvegaða umræðu. Umhverfismál hafa víðtæka tengingu og koma við hjá nær öllum atvinnugreinum og taka yfir vítt svið. Það er ánægjulegt að mikil vakning hefur orðið í samfélaginu á að finna raunhæfar lausnir til að vinna gegn loftslagsbreytingum og sporna gegn hverskonar sóun, eins og felast í sóknaráætlun. Mikil tækifæri felast í betri nýtingu, bættri umgengni og orkustjórnun sem stuðlar að sjálfbærri nýtingu auðlinda og bættri samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja.
Vikan byrjaði á því að Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, gerði grein fyrir starfshópi sem er ætlað að koma með tillögur um hvernig draga megi úr notkun plastpoka.
Þá voru loftslagsmálin rædd ýtarlega á þriðjudag og miðvikudag og loks voru óundirbúnar fyrirspurnir á fimmtudag.
„Hér höfum við verið í einn og hálfan klukkutíma að ræða hápólitísk mál, einhver heitustu mál samtímans, bæði á Íslandi sem og erlendum vettvangi. Mál sem snerta efnahagsmál heimsins alls, mál sem eru náttúrlega utanríkismál líka og við gerum það hér undir hatti umhverfismála. Það segir mér að umhverfismál eru að verða þau mál sem snerta hvað flesta, allan almenning, fyrirtæki og heiminn allan. Einnig hefur komið fram í mörgum ágætum ræðum að til að ná sem mestum árangri á þessu sviði eins og víðast hvar annars staðar er að upplýsa og fræða. Það eru svona lykilorð. Sannarlega tek ég undir það. Ég vil benda á að í upphafsræðu var bent á og vísað í blaðagreinar í Vísi og fleiri miðlum. Með leyfi forseta langar mig til að sýna eina opnu í Morgunblaðinu í dag. Þar eru þrjár fréttir og þær snúa allar að loftslagsmálum, til dæmis: Bráðnun kann að breyta veðurfari. Hér er nefnd áætlun um hvernig auka megi notkun rafmagns í fiskiskipum. Og mjög skemmtileg verðlaun í sambandi við það voru afhent í Hnakkaþoni Háskólans í Reykjavík í gær. Annað sem er ekki gott og snertir okkur líka að ný plöntubaktería hefur greinst með innflutningi á rósum frá Hollandi. Það er því margt sem við sem stýrum umhverfismálum þurfum að hyggja að“, sagði Sigrún Magnúsdóttir.

Categories
Fréttir

Parísarfundurinn um loftslagsmál – munnleg skýrsla

Deila grein

28/01/2016

Parísarfundurinn um loftslagsmál – munnleg skýrsla

Sigrún Magnúsdóttir_001Sigrún Magnúsdóttir umhverfis- og auðlindaráðherra flutti Alþingi á þriðjudaginn skýrlsu um loftslagsfundinn í París og samkomulagið sem þar náðist.
„Virðulegi forseti. Það er mér ánægja að fá að flytja á Alþingi stutta skýrslu um loftslagsfundinn í París og samkomulagið sem þar náðist. Margir hafa kallað samkomulagið sögulegt og tel ég óhætt að taka undir það.
Loftslagsbreytingar af manna völdum eru einn mesti vandi sem mannkynið stendur frammi fyrir. Ef ekki tekst að koma böndum á losun gróðurhúsalofttegunda er hætta á stórfelldri röskun á lífríki jarðar og lífsskilyrðum komandi kynslóða. Vandinn verður mestur í framtíðinni eftir tugi ára en krefst aðgerða nú.
Í París tóku þjóðir heims sig saman um að standa að metnaðarfullu samkomulagi sem felur í sér nýtt upphaf, nýja heimsmynd. Skilaboðin eru skýr, þau eru um breytta hegðun einstaklinga og fyrirtækja og markvissar aðgerðir ríkja. Árangurinn er ekki síst góðum undirbúningi Frakka að þakka.
Parísarsamkomulagið er sannarlega sögulegt. Í fyrsta sinn er gert ráð fyrir aðgerðum allra ríkja heims í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Það var ógleymanlegt að skynja andrúmsloftið á Parísarfundinum sem þróaðist í átt til samkomulags og skynja þá hugarfarsbreytingu sem orðið hefur hjá stjórnvöldum, atvinnulífi og einstaklingum.
Ísland var í þeim hópi þjóða sem þrýstu á metnaðarfullt markmið á lokaspretti samningsins. Við berum öll ábyrgð á því að finna lausnir á þessu hnattræna verkefni og það skiptir engu máli hvort ríki eru stór eða smá, allir eiga og verða að leggja sitt að mörkum.
Markmið um hlýnun innan við 2°C var staðfest í Parísarsamkomulaginu en jafnframt segir að reynt verði að gera enn betur svo að hlýnun geti haldist innan við 1,5°C. Markmið hvers og eins ríkis er ekki nákvæmlega útfært enn þá en stóra myndin liggur nokkurn veginn fyrir. Það er ljóst að Parísarsamkomulagið mun kalla á herta viðleitni á Íslandi til þess að draga úr losun og auka bindingu kolefnis.
Íslendingar fjárfestu í upphafi síðustu aldar í betri framtíð með hitaveituframkvæmdum. Ég tel að fáar fjárfestingar hafi borgað sig betur. Þar sýndu Íslendingar einstaka framsýni og með henni fengum við risavaxið forskot þegar kemur að því að vinna gegn loftslagsbreytingum. Sú þekking sem Íslendingar búa yfir fleytir okkur af stað og er mikilvægur hlekkur í hnattrænu verkefni.
Á lofstslagsráðstefnunni í París flutti forseti Íslands, herra Ólafur Ragnar Grímsson, ávarp við opnun á sérstökum orkudegi fundarins. Þar var meginþemað möguleikar jarðhitans á heimsvísu. Þá hélt hæstv. utanríkisráðherra Gunnar Bragi Sveinsson ávarp um stofnun á hnattrænum samstarfsvettvangi um jarðhita þar sem Ísland er í fararbroddi ásamt mörgum öflugum ríkjum og alþjóðastofnunum. Jarðhiti var þó ekki það eina sem Ísland lagði til málanna í París. Aldrei fyrr höfum við staðið fyrir eins öflugri kynningu af Íslands hálfu á þingum loftslagssamningsins. Þannig lögðu fulltrúar Reykjavíkurborgar af festu fram yfirlýsingu yfir 100 íslenskra fyrirtækja um aðgerðir í loftslagsmálum auk þess sem íslensk stjórnvöld stóðu fyrir fimm viðburðum í Norræna skálanum á fundinum. Auk jarðhitans og orkumála var þar fjallað um landgræðslu og áhrif loftslagsbreytinga á haf og jökla. Viðburður umhverfis- og auðlindaráðuneytisins um landgræðslu og loftslagsmál var sérlega vel sóttur í skálanum og ekki síður hefur fólk um allan heim kynnt sér efni hans á vefnum.
Fjölmargir starfsmenn ráðuneyta og stofnana komu að þessum kynningum, samningafundum og öðrum verkefnum fyrir og á fundinum sem og undirbúningi hans. Ég vil nota þetta tækifæri og þakka íslensku sendinefndinni og ekki síst formanni hennar, Huga Ólafssyni.
Við skynjuðum mikinn áhuga á því sem við erum að gera og það færði mér heim sanninn að Ísland á sannarlega erindi í alþjóðlega umræðu um loftslagsmál. Það horfa margir til endurnýjanlegrar orku hér og uppbyggingar hennar og að sú uppbygging sé til fyrirmyndar. Það er eftirspurn eftir þekkingu okkar á sviði jarðhita, landgræðslu, skipatækni o.fl.
Virðulegi forseti. Ríkisstjórnin samþykkti og kynnti fyrir Parísarfundinn sóknaráætlun í loftslagsmálum. Þar eru 16 verkefni sem miða að minnkun losunar, aukinni kolefnisbindingu, þátttöku í alþjóðlegum verkefnum og styrkingu innviða. Þessi verkefni bætast við það starf sem er unnið fyrir. Með þeim kemur nýtt fjármagn, liðsauki og aukinn kraftur í framkvæmd loftslagsmála. Þetta er í fyrsta sinn sem íslensk stjórnvöld ráðstafa fjármagni sérstaklega til heildstæðrar áætlunar um aðgerðir í loftslagsmálum. Umhverfis- og auðlindaráðuneytið vinnur að útfærslu verkefnanna og hefur yfirumsjón með framfylgd þeirra. Með þessari áætlun sýnir ríkisstjórnin vilja sinn í verki.
Samþykkt Parísarsamkomulagsins og sá áhugi sem var sýndur í París á framlagi Íslands verður byr í segl sóknaráætlunar. Sá ráðherra sem hér stendur og ríkisstjórnin í heild vill vinna í anda Parísarsamkomulagsins og tryggja að Ísland leggi þar hönd á plóg í hnattrænu verkefni með metnað og sanngirni að leiðarljósi.
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið vill vinna með öllum þeim sem hafa hlutverk í þessu sambandi, félagasamtökum, atvinnulífinu, sveitarstjórnum, vísindasamfélaginu og almenningi. Það þarf víðtækt samstarf þessara aðila til að við náum markmiðum okkar.
Ég tel mjög mikilvægt að Alþingi láti sig loftslagsmálin varða bæði í umræðu og til að móta hinn lagalega ramma. Það var ánægjulegt að alþingismenn sóttu Parísarfundinn. Ég vænti góðs af samvinnu við þá og þingið allt.
Ég vil í lokin vitna til orða hæstv. forsætisráðherra Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar sem flutti ræðu fyrir Íslands hönd á leiðtogafundi í upphafi loftslagsþingsins. Þar lagði hann áherslu á að verkefnið fram undan væri erfitt og flókið en við þyrftum að nálgast það með jákvæðni og áræðni. Ég tek heils hugar undir það. Ríkisstjórnin hefur sýnt þann vilja í verki með gerð sóknaráætlunarinnar.
Vissulega er vá fyrir dyrum þar sem loftslagsvandinn er, en við megum ekki láta draga úr okkur kjark eða starfsgleði. Steinöldinni lauk ekki vegna þess að steinarnir kláruðust heldur urðu breytingar og við tók ný tækni.
Við lögðum í það verk að hitaveituvæða Ísland, m.a. á svokölluðum köldum svæðum, þótt ekki væri fyrir fram hægt að gefa sér að árangurinn og ávinningurinn yrði eins mikill og við vitum nú. Ég tel að við getum sömuleiðis dregið úr losun í samgöngum og atvinnustarfsemi með tilkomu nýrrar tækni. Á þann hátt eigum við sambærilegan möguleika á orkubyltingu eins og var í húshitun.
Það styrkir og hvetur að sjá víðs vegar í þjóðfélaginu virka þátttakendur í loftslagsmálum. Ráðstefnur um málefnið eru skipulagðar og atvinnulífið og sveitarfélög láta sér málefnið varða. Þá er jákvætt að m.a. þjóðkirkjan hyggur á endurheimt votlendis á jörðum sínum, sem mun gagnast í baráttunni gegn loftslagsvánni.
Ég geng glöð til verka eftir þann góða árangur sem náðist í París og vona að við hér náum að vinna saman að þessu brýna hagsmunamáli Íslendinga og jarðarbúa allra svo að við náum settu marki og sómi sé að.“

Categories
Fréttir

Parísarfundurinn um loftslagsmál – munnleg skýrsla

Deila grein

28/01/2016

Parísarfundurinn um loftslagsmál – munnleg skýrsla

Sigrún Magnúsdóttir_001Sigrún Magnúsdóttir umhverfis- og auðlindaráðherra flutti Alþingi á þriðjudaginn skýrlsu um loftslagsfundinn í París og samkomulagið sem þar náðist.
„Virðulegi forseti. Það er mér ánægja að fá að flytja á Alþingi stutta skýrslu um loftslagsfundinn í París og samkomulagið sem þar náðist. Margir hafa kallað samkomulagið sögulegt og tel ég óhætt að taka undir það.
Loftslagsbreytingar af manna völdum eru einn mesti vandi sem mannkynið stendur frammi fyrir. Ef ekki tekst að koma böndum á losun gróðurhúsalofttegunda er hætta á stórfelldri röskun á lífríki jarðar og lífsskilyrðum komandi kynslóða. Vandinn verður mestur í framtíðinni eftir tugi ára en krefst aðgerða nú.
Í París tóku þjóðir heims sig saman um að standa að metnaðarfullu samkomulagi sem felur í sér nýtt upphaf, nýja heimsmynd. Skilaboðin eru skýr, þau eru um breytta hegðun einstaklinga og fyrirtækja og markvissar aðgerðir ríkja. Árangurinn er ekki síst góðum undirbúningi Frakka að þakka.
Parísarsamkomulagið er sannarlega sögulegt. Í fyrsta sinn er gert ráð fyrir aðgerðum allra ríkja heims í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Það var ógleymanlegt að skynja andrúmsloftið á Parísarfundinum sem þróaðist í átt til samkomulags og skynja þá hugarfarsbreytingu sem orðið hefur hjá stjórnvöldum, atvinnulífi og einstaklingum.
Ísland var í þeim hópi þjóða sem þrýstu á metnaðarfullt markmið á lokaspretti samningsins. Við berum öll ábyrgð á því að finna lausnir á þessu hnattræna verkefni og það skiptir engu máli hvort ríki eru stór eða smá, allir eiga og verða að leggja sitt að mörkum.
Markmið um hlýnun innan við 2°C var staðfest í Parísarsamkomulaginu en jafnframt segir að reynt verði að gera enn betur svo að hlýnun geti haldist innan við 1,5°C. Markmið hvers og eins ríkis er ekki nákvæmlega útfært enn þá en stóra myndin liggur nokkurn veginn fyrir. Það er ljóst að Parísarsamkomulagið mun kalla á herta viðleitni á Íslandi til þess að draga úr losun og auka bindingu kolefnis.
Íslendingar fjárfestu í upphafi síðustu aldar í betri framtíð með hitaveituframkvæmdum. Ég tel að fáar fjárfestingar hafi borgað sig betur. Þar sýndu Íslendingar einstaka framsýni og með henni fengum við risavaxið forskot þegar kemur að því að vinna gegn loftslagsbreytingum. Sú þekking sem Íslendingar búa yfir fleytir okkur af stað og er mikilvægur hlekkur í hnattrænu verkefni.
Á lofstslagsráðstefnunni í París flutti forseti Íslands, herra Ólafur Ragnar Grímsson, ávarp við opnun á sérstökum orkudegi fundarins. Þar var meginþemað möguleikar jarðhitans á heimsvísu. Þá hélt hæstv. utanríkisráðherra Gunnar Bragi Sveinsson ávarp um stofnun á hnattrænum samstarfsvettvangi um jarðhita þar sem Ísland er í fararbroddi ásamt mörgum öflugum ríkjum og alþjóðastofnunum. Jarðhiti var þó ekki það eina sem Ísland lagði til málanna í París. Aldrei fyrr höfum við staðið fyrir eins öflugri kynningu af Íslands hálfu á þingum loftslagssamningsins. Þannig lögðu fulltrúar Reykjavíkurborgar af festu fram yfirlýsingu yfir 100 íslenskra fyrirtækja um aðgerðir í loftslagsmálum auk þess sem íslensk stjórnvöld stóðu fyrir fimm viðburðum í Norræna skálanum á fundinum. Auk jarðhitans og orkumála var þar fjallað um landgræðslu og áhrif loftslagsbreytinga á haf og jökla. Viðburður umhverfis- og auðlindaráðuneytisins um landgræðslu og loftslagsmál var sérlega vel sóttur í skálanum og ekki síður hefur fólk um allan heim kynnt sér efni hans á vefnum.
Fjölmargir starfsmenn ráðuneyta og stofnana komu að þessum kynningum, samningafundum og öðrum verkefnum fyrir og á fundinum sem og undirbúningi hans. Ég vil nota þetta tækifæri og þakka íslensku sendinefndinni og ekki síst formanni hennar, Huga Ólafssyni.
Við skynjuðum mikinn áhuga á því sem við erum að gera og það færði mér heim sanninn að Ísland á sannarlega erindi í alþjóðlega umræðu um loftslagsmál. Það horfa margir til endurnýjanlegrar orku hér og uppbyggingar hennar og að sú uppbygging sé til fyrirmyndar. Það er eftirspurn eftir þekkingu okkar á sviði jarðhita, landgræðslu, skipatækni o.fl.
Virðulegi forseti. Ríkisstjórnin samþykkti og kynnti fyrir Parísarfundinn sóknaráætlun í loftslagsmálum. Þar eru 16 verkefni sem miða að minnkun losunar, aukinni kolefnisbindingu, þátttöku í alþjóðlegum verkefnum og styrkingu innviða. Þessi verkefni bætast við það starf sem er unnið fyrir. Með þeim kemur nýtt fjármagn, liðsauki og aukinn kraftur í framkvæmd loftslagsmála. Þetta er í fyrsta sinn sem íslensk stjórnvöld ráðstafa fjármagni sérstaklega til heildstæðrar áætlunar um aðgerðir í loftslagsmálum. Umhverfis- og auðlindaráðuneytið vinnur að útfærslu verkefnanna og hefur yfirumsjón með framfylgd þeirra. Með þessari áætlun sýnir ríkisstjórnin vilja sinn í verki.
Samþykkt Parísarsamkomulagsins og sá áhugi sem var sýndur í París á framlagi Íslands verður byr í segl sóknaráætlunar. Sá ráðherra sem hér stendur og ríkisstjórnin í heild vill vinna í anda Parísarsamkomulagsins og tryggja að Ísland leggi þar hönd á plóg í hnattrænu verkefni með metnað og sanngirni að leiðarljósi.
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið vill vinna með öllum þeim sem hafa hlutverk í þessu sambandi, félagasamtökum, atvinnulífinu, sveitarstjórnum, vísindasamfélaginu og almenningi. Það þarf víðtækt samstarf þessara aðila til að við náum markmiðum okkar.
Ég tel mjög mikilvægt að Alþingi láti sig loftslagsmálin varða bæði í umræðu og til að móta hinn lagalega ramma. Það var ánægjulegt að alþingismenn sóttu Parísarfundinn. Ég vænti góðs af samvinnu við þá og þingið allt.
Ég vil í lokin vitna til orða hæstv. forsætisráðherra Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar sem flutti ræðu fyrir Íslands hönd á leiðtogafundi í upphafi loftslagsþingsins. Þar lagði hann áherslu á að verkefnið fram undan væri erfitt og flókið en við þyrftum að nálgast það með jákvæðni og áræðni. Ég tek heils hugar undir það. Ríkisstjórnin hefur sýnt þann vilja í verki með gerð sóknaráætlunarinnar.
Vissulega er vá fyrir dyrum þar sem loftslagsvandinn er, en við megum ekki láta draga úr okkur kjark eða starfsgleði. Steinöldinni lauk ekki vegna þess að steinarnir kláruðust heldur urðu breytingar og við tók ný tækni.
Við lögðum í það verk að hitaveituvæða Ísland, m.a. á svokölluðum köldum svæðum, þótt ekki væri fyrir fram hægt að gefa sér að árangurinn og ávinningurinn yrði eins mikill og við vitum nú. Ég tel að við getum sömuleiðis dregið úr losun í samgöngum og atvinnustarfsemi með tilkomu nýrrar tækni. Á þann hátt eigum við sambærilegan möguleika á orkubyltingu eins og var í húshitun.
Það styrkir og hvetur að sjá víðs vegar í þjóðfélaginu virka þátttakendur í loftslagsmálum. Ráðstefnur um málefnið eru skipulagðar og atvinnulífið og sveitarfélög láta sér málefnið varða. Þá er jákvætt að m.a. þjóðkirkjan hyggur á endurheimt votlendis á jörðum sínum, sem mun gagnast í baráttunni gegn loftslagsvánni.
Ég geng glöð til verka eftir þann góða árangur sem náðist í París og vona að við hér náum að vinna saman að þessu brýna hagsmunamáli Íslendinga og jarðarbúa allra svo að við náum settu marki og sómi sé að.“