Categories
Fréttir

Heilbrigðisáætlun fyrir Ísland

Deila grein

01/02/2017

Heilbrigðisáætlun fyrir Ísland

elsa_vef_500x500Elsa Lára Arnardóttir alþingismaður Framsóknar mælti fyrir tillögu um heilbrigðisáætlun fyrir Ísland á Alþingi í gær.
Tillagan hefur það að markmiði að fela heilbrigðisráðherra að hefja vinnu við heilbrigðisáætlun fyrir Ísland. Lagt er til að áætlunin verði unnin í samráði við fagfólk í heilbrigðisstéttum. Við gerð heilbrigðisáætlunar verði m.a. tekið tillit til landfræðilegra þátta eins og samgangna og fjarlægða milli byggðarlaga. Jafnframt verði tekið tillit til íbúaþróunar á starfssvæðum heilbrigðisstofnana, aldurssamsetningar íbúa, staðsetningar sjúkrabifreiða, aðgangs að sjúkraflugi, fjölda ferðamannastaða og sumarhúsabyggða, svo eitthvað sé nefnt.
Við gerð áætlunarinnar verði jafnframt litið til þess hvort sóknarfæri séu í því að nýta auð sjúkrarými á heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni og létta þar með álagi af Landspítala. Heilbrigðisáætlun verði lögð fyrir Alþingi í desember 2017.
Í umræðunni í þingsal kom fram þverpólitísk samstaða um áætlunina og var málinu vísað til velferðarnefndar að umræðu lokinni.
Elsa Lára Arnardóttir mælir fyrir heilbrigðisáætlun á þingfundi 31. janúar 2017. 

Categories
Fréttir

Forgangsmál að afgreiða heilbrigðisáætlun

Deila grein

27/01/2017

Forgangsmál að afgreiða heilbrigðisáætlun

elsa_vef_500x500,,Hæstv. forseti. Ég ætla að ræða annað af forgangsmálum okkar Framsóknarmanna á þessum þingvetri en það er heilbrigðisáætlun fyrir Ísland.
Markmið tillögunnar er að fela hæstv. heilbrigðisráðherra að hefja vinnu við heilbrigðisáætlun og hún verði unnin í samráði við fagfólk í heilbrigðisstéttum. Þar verði m.a. tekið tillit til landfræðilegra þátta eins og samgangna og fjarlægða milli byggðarlaga. Jafnframt verði tekið tillit til íbúaþróunar á starfssvæðum heilbrigðisstofnana, aldurssamsetningar íbúa, staðsetningar sjúkrabifreiða, aðgangs að sjúkraflugi, fjölda ferðamannastaða og sumarhúsabyggða, svo eitthvað sé nefnt.
Við gerð áætlunar verði jafnframt litið til þess hvort sóknarfæri sé í því að nýta auð sjúkrarými á heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni og létta þar með álagi af Landspítala. Heilbrigðisáætlunin skuli vera lögð fyrir Alþingi í desember 2017.
Í síðustu kosningabaráttu töluðu allir eða flestallir flokkar um að heilbrigðismálin ættu að vera efst á forgangslista stjórnmálanna eftir kosningar. Nú sjáum við þingmálaskrá nýrrar ríkisstjórnar og ef litið er á þingmálaskrá hæstv. heilbrigðisráðherra sést engin heilbrigðisáætlun á þeim lista. Það er einstaklega undarlegt þar sem hv. þingmenn Bjartrar framtíðar á síðasta kjörtímabili gagnrýndu þáverandi stjórnarflokka fyrir stefnuleysi í málaflokknum. Það er einnig einstaklega undarlegt því að undanfarin mörg ár hefur vantað stefnumótun í þennan málaflokk. Það hefur m.a. landlæknir fjallað um í fréttum og annars staðar. Einnig kom það fram í þingskjali sem ég lagði fyrir hæstv. heilbrigðisráðherra á síðasta kjörtímabili að stefnumótun vantaði í málaflokkinn en unnið væri að drögum. Þau drög komu aldrei fyrir Alþingi.
Ég vona að þingmenn í öllum stjórnmálaflokkum leggi okkur Framsóknarmönnum lið við að koma þessu mikilvæga máli í gegnum Alþingi.”
Elsa Lára Arnardóttir í störfum þingsins 26. janúar 2017. 

Categories
Fréttir

25% stjórnin

Deila grein

25/01/2017

25% stjórnin

sigurduringi_vef_500x500,,Frú forseti. Góðir landsmenn. Ný ríkisstjórn hefur tekið við á Íslandi og er rétt að óska henni velfarnaðar í þeim verkefnum sem fyrir liggja og snúa að heill og velferð þjóðarinnar. Sem betur fer tekur stjórnin við góðu búi. Það góða bú varð til á vakt Framsóknarflokksins. Viðreisn kom þar hvergi nærri og ég man ekki til þess að viðhengi hennar, Björt framtíð, hafi lagt mikið til málanna við endurreisn íslensks efnahagslífs. Þó minnist ég þess að fyrrverandi formaður þess flokks lagði fram tillögu til þingsályktunar „um seinkun klukkunnar og bjartari morgna“.
Tvö veigamikil atriði urðu til þess að hlutir fóru að ganga betur á Íslandi eftir að kjörtímabili fyrstu hreinu vinstri stjórnarinnar lauk, bæði mál sem Framsóknarflokkurinn setti á oddinn fyrir kosningarnar 2013. Hið fyrra var hin almenna aðgerð til að leiðrétta stökkbreytt húsnæðislán sem bætti eiginfjárstöðu margra heimila stórkostlega. Er nú svo komið að skuldsetning íslenskra heimila er með því lægsta sem þekkist á Norðurlöndum — en var áður hæst allra. Hitt er losun hafta sem virðist ætla að takast eins vel og björtustu vonir stóðu til. Þessi tvö risastóru mál lögðu m.a. grunninn að aukinni hagsæld á Íslandi. Það er ágætt fyrir nýja ríkisstjórn að hafa það í huga. Sérstaklega ættu þeir að hugsa sinn gang sem töldu Íslandi best borgið með því að greiða skuldir óreiðumanna í útlöndum, Icesave, og með því að ganga í Evrópusambandið, hið brennandi hús eins og jafnaðarmaðurinn Jón Baldvin Hannibalsson orðaði það víst. Það er munur á þeim sem vildu rétta íslenskum heimilum hjálparhönd með leiðréttingunni og sækja fé sérstaklega til þess og hinum sem endilega vildu að ríkissjóður greiddi tugmilljarða til að þóknast útlendum kröfuhöfum. Það má eiginlega teljast með nokkrum ólíkindum að slíkir höfðingjar skuli nú stjórna landinu. En vonandi hafa þeir lært af sinni villu.
En hvað um það, nú er daginn farið að lengja og því verða morgnarnir bjartari þó að ekki hafi verið hróflað við klukkunni. Og það mun birta til í ýmsum skilningi ef rétt verður á málum haldið. Í þeim efnum er ekki nóg að fara með hendingar úr skrifum genginna snillinga þó að þeir séu úr Grímsnesinu. Það þarf meira að koma til.
Hæstv. forsætisráðherra varð hér áðan tíðrætt um jafnvægi. Jafnvægi væri annað leiðarstef nýrrar ríkisstjórnar. Samkvæmt ræðu hæstv. forsætisráðherra er mikilvægt að það þurfi að vera jafnvægi í þjóðfélagsgerðinni. Það er rétt hjá honum, ég er sammála því mati. Í kafla í ræðu hans má lesa eftirfarandi, með leyfi forseta:
„Sterkar vísbendingar eru um að niðurskurður eftir hrun hafi kallað fram þau hughrif hjá stórum hluta þjóðarinnar að samfélagssáttmáli um tryggt aðgengi að heilbrigðisþjónustu hafi brostið. Aukin útgjöld til heilbrigðismála á síðustu árum hafa ekki náð að lækna þessi hughrif.“
Það var og. Það sem hæstv. forsætisráðherra á líklega við hér er að það sé tilfinning margra að tryggt aðgengi að heilbrigðisþjónustu sé ekki eins gott og það gæti verið. Það kemur á óvart að forsætisráðherra skuli líta svo á að skortur á aðgengi að heilbrigðisþjónustu skuli byggjast á hughrifum. Ég held að það sé lítil stemning fyrir svona ályktunum, ekki síst hjá því ágæta fólki sem býr úti á landi og hefur ekki eins góðan aðgang að heilbrigðisþjónustu og þó þeir hafa sem búa á höfuðborgarsvæðinu. Þegar forsætisráðherra ræðir um jafnvægi væri gott að hafa í huga jafnvægi landsbyggðar og höfuðborgarsvæðisins. En ég vil líka taka fram að ég tel enga sérstaka ástæðu til að ætla að það sé honum hulið, þvert á móti.
Virðulegi forseti. Stuðningur við ríkisstjórnina meðal landsmanna hefur nú verið mældur og er fjórðungur ánægður með hana. Þeir sem eru mjög ánægðir eru innan við 10%. Það sem vekur nokkra athygli þegar rýnt er í niðurstöðu Maskínu, sem gerði könnunina, er að ríkisstjórnin nýtur mikillar hylli hjá þeim sem háar tekjur hafa. Þar er hlutfall ánægðra um þriðjungur. Og enn hækkar hlutfall ánægðra þegar hópurinn sem telur sig hafa hærri tekjur en meðaltekjur heimila í landinu er veginn. Þar er ánægjan um 40%. Þetta er í sjálfu sér ekkert vandamál en segir okkur kannski eitthvað um þá skírskotun sem hin nýja stjórn hefur. Og af því að forsætisráðherra var að tala um jafnvægi í ræðu sinni vil ég hvetja hann og ríkisstjórn hans til að huga sérstaklega að þessu.
Það var ekki augljóst eftir kosningar hvernig ríkisstjórn yrði mynduð, svokallað flækjustig var hátt, aðallega vegna þess að ýmsir höfðu verið með ótímabærar og stórkarlalegar yfirlýsingar fyrir kosningar og jafnvel eftir. Ég vil þó segja hér að ég tel, og er þess raunar fullviss, að aðrir möguleikar hafi verið uppi á borðum. Hægt hefði verið að mynda annars konar stjórn sem hefði mun breiðari pólitíska skírskotun en sú hægri stjórn sem var mynduð undir stjórn og forystu þeirra Engeyjarfrænda. Forsætisráðherra er mætavel kunnugt um það. En sá á kvölina sem á völina og 25% ánægja er niðurstaðan með það val. En það sem er liðið er liðið. Framtíðin er það sem mestu máli skiptir. Nú er bara að vona að þær traustu undirstöður sem lagðar voru fyrir efnahagslegar framfarir og hagsæld á tíma síðustu ríkisstjórnar undir forystu Framsóknarflokksins haldi.
Ágætu landsmenn. Svo sem fram hefur komið er nauðsynlegt að ráðast í uppbyggingu innviða, t.d. í heilbrigðisþjónustu, menntamálum, samgöngum og ferðaþjónustu svo nokkuð af því helsta sé upp talið. Við þurfum að byggja upp innviði í öruggum skrefum eftir því sem er fjárhagslega skynsamlegt. Verkefni okkar er að auka fé til innviðauppbyggingarinnar samhliða því að bæta nýtingu þeirra fjármuna sem nú þegar fara til þessara málaflokka.
Mér fannst ýmislegt vanta í stefnuræðu forsætisráðherra og saknaði þess raunar líka í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarflokkanna. Mér fannst vanta framsýni í atvinnumál, m.a. um hvernig hægt er að byggja upp öflugt atvinnulíf hringinn í kringum landið, t.d. á grunni menntunar, nýsköpunar, lífhagkerfisins þar sem eru óendanlegir sóknarmöguleikar.
Vinna, vöxtur og velferð, manngildi ofar auðgildi eru einkunnarorð okkar Framsóknarmanna. Til þess að búa til góða velferð verður að vera traust atvinna hringinn í kringum landið, fyrir alla landsmenn. Það er ekki ástæða til að örvænta um framtíð Íslands. Nú sem fyrr höfum við úr miklu að spila og enginn á að þurfa að líða skort. Við munum væntanlega fá meira af því sama á næstu árum. Verðbólga verður lág, hagvöxtur mun halda áfram, kaupmáttur launa mun vonandi styrkjast enn frekar. En það mun koma að því að um hægist. Því er mikilvægt að tryggja hagsmuni okkar sem þjóðar til framtíðar. Það verður best gert í sátt. Fólk má ekki fá þá tilfinningu að sumir séu jafnari en aðrir, vegna ákvarðana sem teknar eru á vettvangi stjórnvalda. Stjórnmálamenn eiga að vera þjónar fólksins, ekki herrar. — Góðar stundir.”
Sigurður Ingi Jóhannsson í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra 24. janúar 2017.

Categories
Fréttir

Lítill stuðningur við ríkisstjórnina er vitnisburður um að það vanti samfélagslega sátt

Deila grein

25/01/2017

Lítill stuðningur við ríkisstjórnina er vitnisburður um að það vanti samfélagslega sátt

lilja____vef_500x500,,Virðulegi forseti. Góðir landsmenn. Efnahagsleg endurreisn Íslands hefur gengið afar vel. Lánshæfi ríkissjóðs hefur hækkað í A-flokk, m.a. vegna lækkandi skulda ríkissjóðs, mikils innstreymis gjaldeyris og góðrar ytri stöðu þjóðarbúsins. Þá hafa stöðugleikaframlög slitabúanna gert það að verkum að heildartekjur ríkissjóðs eru við 1.000 milljarða á fjárlögum síðasta árs. Ég er því ekki alveg viss um að þetta tengist nýlegri skipan hæstv. fjármála-og efnahagsráðherra eins og hann virðist jafnvel halda því að hækkun lánshæfismats ríkissjóðs er langhlaup og hann er bara nýbúinn að hefja störf.
Algjör grundvallarbreyting hefur orðið frá fyrri tímum þar sem hrein erlend staða þjóðarbúsins er nú jákvæð í fyrsta sinn síðan mælingar hófust. Seðlabankinn hefur brugðist við þessu mikla innflæði með auknum kaupum á gjaldeyri. Gjaldeyrisforðinn er orðinn rúm 40% af landsframleiðslu, en kostnaður við hann að sama skapi er umtalsverður. Eitt stærsta verkefni hagstjórnarinnar verður að bregðast við þeim breytingum sem hafa átt sér stað á viðskiptajöfnuðinum.
Góðir landsmenn. Einn liður í því væri að setja á laggirnar stöðugleikasjóð Íslands. Slíkur sjóður hefði það eitt af meginmarkmiðum að stuðla að sveiflujöfnun í hagkerfinu. Þjóðir sem eru ríkar að auðlindum líkt og Ísland hafa sett upp svipaða sjóði til að ná betur utan um hagstjórnina. Norski olíusjóðurinn er eitt besta dæmið um slíkan sjóð.
Ýmsar hugmyndir hafa komið fram um stofnun sjóðs með svipað hlutverk. Til að mynda er getið um slíkan sjóð í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar og tel ég það vera afar jákvætt. Almennt er gengið út frá því að auðlindagjöld standi undir sjóðnum, bæði stofnframlagi og vexti hans. Slíkt er vissulega mögulegt en það tæki langan tíma að byggja upp myndarlegan höfuðstól til ávöxtunar. Skilvirkara væri að nota hluta af stöðugleikaframlögunum sem höfuðstól stöðugleikasjóðsins, kaupa upp hluta af gjaldeyrisforða Seðlabankans og stækka sjóðinn svo smám saman með tekjum af auðlindum landsins, þ.e. sjávarútvegi, orkugeiranum og ferðaþjónustu.
Ég held að flestum landsmönnum sé ljóst að efnahagslegri endurreisn sé vel á veg á komið. Hins vegar hefur vantað upp á samfélagslega sátt í þjóðfélaginu. Má segja að lítill stuðningur við ríkisstjórnina sé vitnisburður um slíkt. Okkur stjórnmálamönnunum ber að hlusta gaumgæfilega eftir því hver voru skilaboðin í síðustu kosningum.
Góðir landsmenn. Við í Framsóknarflokknum teljum að brýnasta verkefnið fram undan sé að fjármunum sé forgangsraðað í þágu heilbrigðismála. Íslenska heilbrigðiskerfið á að standast samanburð við það sem best gerist í heiminum. Við viljum fjárfesta enn frekar í innviðum kerfisins og stíga markviss skref svo allir fái notið góðrar þjónustu án tillits til efnahags. Við munum því leggja til á þingi að fela heilbrigðisráðherra að hefja vinnu við heildstæða heilbrigðisáætlun fyrir Ísland. Heilbrigðisáætlun skal vinna í samráði við fagfólk í heilbrigðisstéttum þar sem m.a. þarf að taka tillit til þeirra miklu tækniframfara sem eru að eiga sér stað í heilbrigðismálum. Við viljum að Ísland sé þar fremst í flokki og geti boðið upp á eina tæknivæddustu heilbrigðisþjónustu sem völ er á. Þjóðin kallar eftir því að heilbrigðismálum sé sinnt betur og við verðum að axla þá ábyrgð.
Samkeppnishæfi Íslands skiptir okkur öll máli. Einn liður í því er að menntakerfi okkar undirbúi framtíð þjóðarinnar. Í alþjóðlegum samanburði hafa skólarnir okkar verið að gefa eftir. Við verðum að bregðast við þeirri þróun. Menntakerfið er ein af grunnstoðum samfélagsins og framtíðin byggir á styrk þess. Við í Framsóknarflokknum leggjum ríka áherslu á að efla menntun í landinu með jöfnum tækifærum og hagsmunum þjóðarinnar að leiðarljósi. Við viljum fjárfesta í menntakerfinu þannig að Ísland nái meðaltali OECD-ríkjanna er varðar fjármögnun háskólastigsins árið 2020.
Góðir landsmenn. Vandi fylgir vegsemd hverri. Kjöraðstæður eru í íslensku efnahagslífi og mikilvægt að rétt sé haldið á málum. Við stöndum frammi fyrir einstöku tækifæri til að gera vel og forgangsraða vel. Brýnt er að þingið vinni vel saman að góðum málum.
Ég óska nýrri ríkisstjórn velferðar og tel að henni farnist best með virku og öguðu aðhaldi frá minni hlutanum. — Eigið góðar stundir.”
Lilja Dögg Alfreðsdóttir í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra 24. janúar 2017. 

Categories
Fréttir

Hvers vegna tók forsætisráðherrann Seðlabankann með sér þegar kassarnir voru fluttir úr Arnarhvoli niður í Stjórnarráð

Deila grein

25/01/2017

Hvers vegna tók forsætisráðherrann Seðlabankann með sér þegar kassarnir voru fluttir úr Arnarhvoli niður í Stjórnarráð

sigmundur_vef_500x500,,Virðulegur forseti. Góðir landsmenn. Nú höfum við lesið stjórnarsáttmálann. Við höfum hlustað á stefnuræðuna. En við erum engu nær um það til hvers þessi ríkisstjórn var mynduð. Var það bara vegna þess að hún var talin ívið skárri kostur en áframhaldandi óvissuástand, áframhaldandi stjórnarkreppa, sem fylgdi hinum undarlegustu kosningum síðari áratuga? Hver eru markmiðin, ég tala nú ekki um aðferðirnar? Við vitum það ekki og erum engu nær eftir umræðuna í kvöld.

Það var mjög lýsandi að þegar nýr forsætisráðherra var spurður að því í fjölmiðlum fyrir fáeinum dögum hvaða mál stæðu upp úr hjá nýrri ríkisstjórn á fyrsta þingi hennar þá kom honum ekki annað til hugar en að nefna ríkisfjármálaáætlun, það væri líklega ríkisfjármálaáætlun sem stæði upp úr. Þetta er lögbundið plagg sem fjármálaráðherra leggur fram á hverju ári og það stendur upp úr hjá þessari ríkisstjórn á fyrsta þingi hennar. Ráðherrann hefði allt eins getað fylgt þessu eftir með því að segja að svo yrði líklega kosið í nefndir og síðan mætti vænta þess að það yrðu eldhúsdagsumræður einhvern tíma undir lokin. Það væri það sem stæði upp úr. Ekkert nýtt, engin stefna, engin sýn.

Þegar ríkisstjórn tók við árið 2013 var til staðar sýn en ekki aðeins sýn heldur líka stefna um það hvernig menn ætluðu að hrinda þeirri sýn í framkvæmd. Það var strax hafist handa við undirbúning og einungis sex mánuðum eftir að ríkisstjórnin tók við var ráðist í framkvæmd á risastórum breytingum. Hér segja menn okkur, svona í bland við einhverja frasa, að fyrsta árið fari í að meta stöðuna, meta heilbrigðiskerfið, peningastefnuna, kalla til fjölflokkasamráð, og líklega fjölþjóðlegt samráð líka, og svo sjái menn hvað komi út úr því.

En auðvitað ættum við að gleðjast, virðulegur forseti, yfir því sem er kannski einna mikilvægast við myndun þessarar ríkisstjórnar og það er að tvíhöfða flokkurinn Viðreisn/BF skuli hafa gefið eftir nánast öll megináhersluatriði sín úr kosningabaráttunni þegar stjórnin var mynduð, a.m.k. á pappírnum. En hvað gerist á bakvið tjöldin? Formaður Viðreisnar/BF er alræmdur plottari að eigin mati. Hann tekur að sér að plotta, ekki einungis fyrir sjálfan sig heldur aðra líka. Hvaða plott bjó að baki þegar þessi ríkisstjórn var mynduð? Hvert var viðeigandi plott, svo ég noti orð formanns Viðreisnar, þegar ríkisstjórnin var mynduð? Hvað þurfti t.d. Sjálfstæðisflokkurinn að gefa eftir til þess að endurheimta Viðreisn og fylgitungl þess flokks og fá þá til fylgilags við sig?

Reyndar vakti athygli mína að nýr fjármálaráðherra sá ástæðu til að setja ofan í við nýjan forsætisráðherra þegar á kynningarfundi þar sem verið var að kynna ríkisstjórnina og sagði honum að hann ætti að passa sig að eyða ekki of miklu úr kassanum sem hann myndi halda utan um. Það er kannski ekki svo skrýtið því að ég hef aldrei áður heyrt formann Sjálfstæðisflokksins státa sig sérstaklega af því hversu mikið honum hafi tekist að auka útgjöld ríkissjóðs milli ára. Það held ég að hafi ekki gerst áður í sögu þess annars ágæta flokks fyrr en nú.

En hvað með allt hitt? Hvað með kröfur samtaka sem urðu til undir nöfnum á borð við Áfram Icesave og Já ESB? Hvert verður viðeigandi plott í samstarfi við þá flokka? Hvert verður viðeigandi plott þegar kemur að því að fara í gegnum hvers konar fjármálakerfi við ætlum að hafa í landinu, endurmeta það? Hvert verður viðeigandi plott í samskiptum við Evrópusambandið?

Nýr forsætisráðherra tók reyndar Seðlabankann með sér þegar kassarnir voru fluttir úr Arnarhvoli niður í Stjórnarráð. Hvers vegna gerði hann það? Það hlýtur að vera einhver ástæða fyrir því. Hvað ætlar nýr forsætisráðherra sér með Seðlabankann? Það var reyndar nefnt að skoða ætti peningastefnuna, en hvernig? Sjálfstæðisflokkurinn vill, held ég, sjálfstæða peningastefnu, annar stjórnmálaflokkur myntráð og sá þriðji ganga í ESB og leysa málin þannig. Hvernig verður þetta leyst og hvernig verður tekist á við okurvextina og verðtrygginguna?

Að sögn vann núverandi forsætisráðherra að því árum saman, eða frá því snemma á síðasta kjörtímabili, að meta í fjármálaráðuneytinu hvernig staðið yrði að því að vinna sig út úr kerfi verðtryggingar. Skyldu þau blöð og sú vinna hafa fylgt í kössunum þegar flutt var úr Arnarhvoli í Stjórnarráðið eða skyldi sú vinna öll hafa farið í pappírstætarann? Það verður tíminn að leiða í ljós, virðulegi forseti. Tími minn er nánast á þrotum svo áform mín um að hrósa nokkrum ráðherrum — ekki mörgum — eru þar með farin út um þúfur í bili, en það vinnst tími til þess síðar.

Aðalatriðið er þetta: Með örfáum undantekningum er þetta ríkisstjórn með óljósa sýn, takmarkaða stefnu og engar leiðir til að hrinda henni í framkvæmd. En á meðan þessir flokkar eru í ríkisstjórn verðum við líklega að vonast til þess að það verði þannig áfram.”

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra 24. janúar 2017.

Categories
Fréttir

Upptaka samræmdrar vísitölu neysluverðs

Deila grein

24/01/2017

Upptaka samræmdrar vísitölu neysluverðs

elsa_vef_500x500Elsa Lára Arnardóttir, alþingismaður Framsóknar, hefur lagt fram þingmál er varðar samræmda vísitölu neysluverðs.
Í tillögunni segir að Alþingi álykti að fela fjármála- og efnahagsráðherra að skipa starfshóp óháðra sérfræðinga sem greini kosti og galla þess að gera breytingar á útreikningi verðbólgu og verðtryggingar þannig að framvegis verði notuð samræmd vísitala neysluverðs í stað vísitölu neysluverðs.
Við greiningarvinnuna verði sérstaklega horft til þess hvernig verðbólga er mæld í helstu viðskiptalöndum Íslands og metið hvaða áhrif breytingin hefði á launakjör, lánakjör, stöðu verðtryggðra lána og vexti. Ráðherra flytji Alþingi skýrslu með helstu niðurstöðum eigi síðar en í september 2017.

Heimild: www.althingi.is 

Categories
Greinar

Við áramót

Deila grein

31/12/2016

Við áramót

sigurduringi_vef_500x500Við áramót lítum við yfir farinn veg og hvert og eitt okkar vegur og metur hvernig árið sem er að líða hefur verið fyrir okkur og okkar nánustu. Fyrir suma hefur þetta verið ár vaxtar og gæfu, framfara, velmegunar og góðra minninga. Fyrir aðra ár sársauka, vonbrigða og trega. Flest upplifum við breytingar í einni eða annarri mynd, breytingar á persónulegum högum og breytingar á því umhverfi sem við lifum í. Sumum breytingum fögnum við, öðrum ekki. En flest reynum við að vera trú þeim verkefnum sem berast okkur í hendur og inna þau af hendi eins vel og unnt er.

Nútímamanninum er ásköpuð ákveðin framfaratrú sem meðal annars birtist í því að við trúum því að hver kynslóð hafi það betra en kynslóðin á undan. Þessi framfaratrú lifði góðu lífi alla 20. öldina, þegar Ísland nánast stökk úr stöðnuðum heimi fortíðar fram á sjónarsviðið sem frjáls og fullvalda þjóð. Framtíð þjóðarinnar var sem óskrifuð bók. Listamenn þjóðarinnar skynjuðu þetta og þegar Jóhannes Kjarval, Halldór Laxness og Jón Leifs tóku að þróa list sína varð þeim ljóst að þeir yrðu að skapa sig sjálfir sem listamenn. Menningararfurinn dugði ekki, þeir yrðu að finna sínar eigin leiðir. Leiðir sem fullnægðu þeim sjálfum sem listamönnum um leið og þeir ræktuðu erindi sitt við eigin þjóð. Og það voru ekki bara listamenn þjóðarinnar sem upplifðu tíðarandann með þessum hætti. Um allt land var verk að vinna. Atvinnulíf þjóðarinnar tók stakkaskiptum, bæði til sjávar og sveita. Vegir, hafnir, brýr, flugvellir, allt þetta varð að framkvæma frá grunni.

II.

Framsóknarflokkurinn fagnaði 100 ára afmæli sínu á árinu en flokkurinn var stofnaður 16. desember 1916. Þá var Ísland ekki sjálfstætt ríki en baráttuhugur aldamótakynslóðarinnar var farinn að skila árangri og frelsiskyndlar hugsjónamanna loguðu skært, ekki síst hjá ungmennafélögum og samvinnufélögum sem að verulegu leyti kusu Framsóknarflokkinn sem málsvara sinn. Við höfðum eignast Stjórnarráð, Háskóla og okkar eigið skipafélag og stutt var í sjálfstæðið. Íslendingar voru að gerast þjóð meðal þjóða.

Þegar landsmenn líta yfir síðustu hundrað ár geta þeir sannarlega fyllst stolti. Á flestum sviðum hefur þjóðin náð að nýta sjálfstæði sitt til framfara og þróunar. Það er nokkurn veginn sama hvar gripið er niður í alþjóðlegum samanburði. Allstaðar eru Íslendingar í fremstu röð. Þetta er ekki sagt til að hreykja sér en við getum ekki vitað hvert skal stefna ef vitum ekki hvaðan við komum. Ísland og hin norrænu ríkin eru þau þjóðfélög sem flestir líta til þegar meta á gæði samfélaga og hvar best hefur tekist til við að tryggja velferð sem flestra. Við Íslendingar höfum sýnt að við eigum heima í þeim hópi og getum borið höfuðið hátt.

III.

Engum dylst að horfur í efnahagslífinu á Íslandi eru bjartar um þessar mundir og hagvöxtur samfelldari en við höfum séð í langan tíma. Hann hvílir á styrkum stoðum í hagkerfinu og við sjáum birtingarmynd þess í því að kaupmáttur launa hefur aukist verulega á síðustu misserum, laun hafa hækkað mikið um leið og verðbólga hefur haldist lág. Almenningur finnur áhrifin í auknum ráðstöfunartekjum samfara lækkandi skuldum enda hafa skuldir heimilanna lækkað mikið á undanförnum árum. Hagur heimilanna hefur sjaldan verið betri en nú, miðað við stöðu og þróun helstu hagvísa og að flestra dómi er árangurinn einstakur. Augljóst er að skuldalækkunaraðgerðir ríkisstjórnarinnar tókust mjög vel og styrktu stöðu heimilanna í landinu eins og að var stefnt.

Erlend staða þjóðarbúsins er orðin jákvæð og í fyrsta sinn frá því mælingar hófust eigum við Íslendingar meiri eignir erlendis en við skuldum. Lánshæfismat Íslands hefur hækkað og er nú A3 samkvæmt Moody’s. Það er stór áfangi og sýnir svo ekki verður um villst að Ísland er á réttri leið. Íslensk fyrirtæki geta fjármagnað sig erlendis á ný og á hagstæðari kjörum en þekkst hafa um margra ára skeið. Ávöxtunarkrafa á erlend skuldabréf íslensku bankanna hefur lækkað umtalsvert og það skilar sér í bættum fjármögnunarkjörum. Almennt nýtur ríkissjóður betri kjara erlendis en íslensk fyrirtæki. Við njótum því öll betri kjara, bæði í gegnum ríkissjóð og ekki síður þar sem íslenskt atvinnulíf hefur bæði greiðari aðgang að erlendu lánsfé og greiðir minna fyrir það. Meginþorri almennings í landinu finnur ekki lengur fyrir fjármagnshöftum og fyrirtæki hafa meira svigrúm í sinni starfsemi. Á nýju ári rýmka heimildir til gjaldeyrisviðskipta enn frekar, þótt höftin verði líklega við lýði í einhverri mynd um sinn. Nú er mikilvægara en nokkru sinni áður, að vel sé haldið á spilunum, að verkefni séu leyst án eftirmála og við teflum ekki í tvísýnu þeim mikla árangri sem hefur náðst.

En þessi góða staða gerir það ekki endilega auðveldara að halda um stjórnartaumana. Verkefni stjórnmálanna lýkur aldrei. Alltaf er hægt að gera betur, hvort sem það er á sviði velferðarmála eða uppbyggingar innviða samfélagsins. Vissulega er það svo að hinn einstaki árangur sem náðst hefur í fjármálum ríkisins gerir það að verkum að hægt er að hafa væntingar um að á næstu árum verði unnt að búa enn frekar í haginn fyrir komandi kynslóðir.

IV.

Ungur var eg forðum,
fór eg einn saman:
þá varð eg villur vega.
Auðigur þóttumst
er eg annan fann:
Maður er manns gaman.

Hávamál minna okkur á þau fornu sannindi að við erum öll háð hvert öðru. Við lifum í samfélagi þar sem við verðum að taka tillit til náungans. Samfélagið grundvallast á samvinnu, allt frá sveitarstjórnarstigi upp til Alþingis og ríkisstjórnar. Undanfarið ár hefur verið okkur mörgum erfitt á hinu pólitíska sviði þar sem sundrung og tortryggni verða oft öllu yfirsterkari. Þó má segja að síðustu vikur hafi okkur stjórnmálamönnunum tekist að sýna nýtt andlit sem gefur vonandi fyrirheit um það sem koma skal. Vissulega greinir menn á um leiðir og stundum markmið en við verðum þó að trúa því að allir vilji landi og þjóð vel. Á því verður að byggja. Ný ríkisstjórn að loknum kosningum í október hefur ekki enn verið mynduð, önnur staða er uppi á Alþingi en við höfum átt að venjast. Úrslit kosninganna eru vísbending um að mynda verði ríkisstjórn með breiða skírskotun til hægri og vinstri. Ríkisstjórn sem horfir til efnahagslegrar og félagslegrar velsældar.

Framsóknarflokkurinn átti erindi við þjóðina fyrir hundrað árum og hann á enn erindi við þjóðina. Baráttan fyrir jafnrétti, þar sem hverjum manni er gert kleift að njóta sín í félagi manna, mun alltaf verða til staðar og á því sviði vitnar sagan um að Framsóknarflokkurinn stendur heill að störfum. Vissan um að samvinna manna skili okkur betur fram á veg, en hver fyrir sig, er grunnstefið í okkar starfi sem og einkunnarorðin sígildu; manngildi ofar auðgildi.

V.

Góðir landsmenn.
Framundan er nýtt ár; ár tækifæra, ár uppbyggingar, ár vaxtar og þroska. Ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks hefur ráðist í mörg stór verkefni og árangurinn liggur fyrir. Það er bjart framundan, en verkefnin eru næg og á næsta ári tökumst við á við krefjandi og mikilvæg verkefni sem felast í áframhaldandi styrkingu grunneiningar þjóðfélagsins, fjölskyldunnar, og viðhald iog eflingu velferðarkerfisins. Ég þakka Íslendingum samfylgdina á árinu sem er að líða og óska þjóðinni gleðilegs árs.

Sigurður Ingi Jóhannssson

Greinin birtist í Morgunblaðinu 31. desember 2016.

Categories
Greinar

Öryggispúði fyrir Ísland

Deila grein

30/12/2016

Öryggispúði fyrir Ísland

lilja____vef_500x500Ýktar efnahags­sveiflur hafa í gegnum tíðina valdið Íslendingum miklu tjóni. Eftir markvissa endurreisn undanfarinna ára blasir nú við stjórnvöldum sögulegt tækifæri til að breyta efnahagskerfi Íslands til frambúðar. Stofnun Stöðugleikasjóðs gæti markað vatnaskil í sögu þjóðarinnar og tryggt hagsæld í sessi. Markmið slíks sjóðs er í mínum huga skýrt; að draga úr hagsveiflum og stuðla að efnahagslegum stöðugleika til langs tíma. Næsta ríkisstjórn er í dauðafæri til að hlaupa með bolt­ann í mark, ef hún hefur skýra sýn og dug til að hrinda henni í framkvæmd.

Stöðugleikaframlög nýtist allri þjóðinni

Grunninn að Stöðugleikasjóði Íslands mætti leggja með hluta af stöðugleikaframlögum slitabúanna. Raunar er verðmæti þeirra mun meira en upphaflega var talið og því mætti nota umframverðmætin til að koma Stöðugleikasjóðnum á fót. Féð mætti nýta að hluta til að kaupa gjaldeyri af Seðlabankanum og minnka þannig óþarflega stóran gjaldeyrisforða bankans. Slíkt myndi létta undir með Seðlabankanum, sem ber umtalsverðan kostnað af gjaldeyrisforðanum. Stöðugleikasjóðurinn gæti hins vegar látið gjaldeyrinn vinna fyrir sig, með svipuðum hætti og Norski olíusjóðurinn gerir fyrir frændur okkar í Noregi. Til lengri tíma litið yrði Stöðugleikasjóðurinn svo fjármagnaður af útflutningsgreinunum; með auðlindarentu frá fyrirtækjum í sjávarútvegi og ferðaþjónustu, arðgreiðslum frá opinberum orkufyrirtækjum og afgangi af fjárlögum þegar þannig árar. Þá gæti ríkissjóður lagt fasteignir sínar erlendis inn í sjóðinn í upphafi og leigt þær af sjóðnum eftir þörfum – t.d. undir starfsemi utanríkisþjónustunnar. Þar með yrði til grunnur að fasteignasafni íslenska Stöðugleikasjóðsins.

Fjárfest til lengri tíma með betri ávöxtun

Íslenski Stöðugleikasjóðurinn myndi fjárfesta til lengri tíma og fara að fordæmi Norska olíusjóðsins sem fjárfestir í erlendum skuldabréfum, hlutabréfum og fasteignum. Það gefur betri raun en að fjárfesta í ríkisvíxlum erlendra ríkja sem bera litla sem enga vexti nú um stundir. Að sama skapi þarf skýra umgjörð um Stöðugleikasjóðinn því freistnivandinn getur verið mikill, þegar kallað er á fjárveitingar í samfélaginu og nóg er til í stórum sjóði. Þannig þarf til dæmis að vera ljóst að slíkur Stöðugleikasjóður er ekki ætlaður til að styðja við bankakerfið þegar illa árar né heldur má nýta sjóðinn til verkefna á vegum ríkissjóðs, nema eftir ströngum reglum sem öllum eru ljósar fyrirfram og við vel skilgreindar aðstæður. Í Noregi má nýta að hámarki 4% af verðmæti olíusjóðsins í fjárlög, en aðeins ef raunávöxtun stendur undir því þar sem ekki má ganga á höfuðstólinn. Með vísan í þessa reglu voru um 180 milljarðar norskra króna færðar úr sjóðnum í fjárlögin á síðasta ári til að vega á móti erfiðleikum í olíuiðnaðinum. Á nákvæmlega sama hátt geta Íslendingar notað sinn stöðugleikasjóð sem sveiflujöfnunartæki og öryggispúða fyrir efnahagslífið.

Velsæld okkar byggir á útflutningi

Í gegnum tíðina hafa útflutningsgreinarnar skapað mikil verðmæti. Þessum verðmætum eigum við að safna þegar vel gengur og nýta til hagsbóta fyrir þjóðina alla þegar þörf krefur. Nú stendur okkar útflutningsdrifna hagkerfi á tímamótum vegna gríðarlegs vaxtar í ferðaþjónustu, sem hefur með öðrum útflutningsgreinum og háum innlánsvöxtum skapað meira innflæði erlends gjaldeyris en dæmi eru um í hagsögu Íslands. Þótt auknar útflutningstekjur séu góðs viti hefur þörfin fyrir varkárni, framsýni og skýra sýn í efnahagsmálum sjaldan verið brýnni en nú.

Til að vinna gegn áhrifum þessa mikla gjaldeyrisinnflæðis á íslensku krónuna hefur Seðlabanki Íslands kerfisbundið keypt gjaldeyri og safnað í góðan gjaldeyrisvaraforða, sem samsvarar nú um 40% af landsframleiðslu. Sá galli er á gjöf Njarðar, að kostnaður við slíkt forðahald er umtalsverður vegna þess vaxtamunar sem er milli Íslands og helstu viðskiptaríkja. Kostnaðurinn eykst eftir því sem forðinn stækkar og því er ljóst, að við getum ekki stuðst við þessa aðferðafræði til allrar framtíðar. Hafa ber í huga að forðinn er ávaxtaður til skamms tíma, t.d. í erlendum ríkisvíxlum sem bera lága vexti, á meðan ávöxtun til lengri tíma myndi skila þjóðinni umtalsvert betri árangri. Þannig gæti Stöðugleikasjóður fjárfest til hagsbóta fyrir þjóðina.

Grundvallarbreyting hefur orðið á efnahagskerfinu

Efnahagsleg endurreisn Íslands hefur gengið vel. Hagkerfið einkennist af þróttmiklum hagvexti, atvinnuleysi er lítið, skuldir heimila og fyrirtækja hafa minnkað verulega, góður afgangur er á viðskiptajöfnuði þjóðarbúsins, ríkissjóður er rekinn með afgangi fjórða árið í röð og með stöðugleikaframlögum frá slitabúum bankanna er um þúsund milljarða króna afgangur á fjárlögum ársins 2016. Þótt sumt í þessari haglýsingu hljómi kunnuglega hefur ein grundvallarbreyting orðið frá fyrri tímum, þar sem hrein erlend staða þjóðarbúsins er nú jákvæð í fyrsta sinn frá því mælingar hófust fyrir nærri 60 árum. Þetta þýðir að eignir Íslendinga í útlöndum eru meiri en skuldirnar, sem skapar mikil tækifæri fyrir land og þjóð. Hagkerfið er smám saman að laga sig að þessari breytingu, en við þurfum greina betur hverjar afleiðingarnar geta verið á útflutningsgreinarnar og uppbyggingu hagkerfisins alls.

Tökum saman höndum

Á undanförnum 15 árum hafa ýmsir viðrað hugmyndir um stofnun sjóðs með svipað hlutverk og Stöðugleikasjóðurinn. Þær hafa lítið verið ræddar en almennt hefur verið gengið út frá því að auðlindagjöld standi undir sjóðnum, bæði stofnframlagi og vexti hans. Slíkt er vissulega mögulegt en með þeirri leið myndi það taka langan tíma að byggja upp myndarlegan höfuðstól til ávöxtunar. Skilvirkara væri að nota hluta af stöðugleikaframlögunum sem höfuðstól Stöðugleikasjóðsins – kaupa upp hluta af gjaldeyrisforða Seðlabankans og stækka sjóðinn svo smám saman með tekjum af auðlindarentu frá ári til árs.

Stöðugleika, söfnunar, þróunar, lífeyrisauðlinda eða gjaldeyrisforðafjárfestingasjóðir gegna mikilvægu hlutverki í hagstjórn og peningastefnu margra ríkja. Hverrar tegundar sem sjóðirnir eru þurfa þeir að taka mið af stöðu viðkomandi hagkerfis, þarfa þess og framtíðarskuldbindinga. Mikilvægt er að fjárfestingastefnan sé í fullu samræmi við ríkisfjármálastefnuna, en sé ekki einangruð frá þeim veruleika sem sjóðurinn á að þjóna. Þannig ætti eitt meginmarkmiða íslenska Stöðuleikasjóðsins að vera að tryggja sjálfbæra ytri stöðu þjóðarbúsins og koma í veg fyrir „hollensku veikina,“ svo uppgangur í einni útflutningsgrein skerði ekki samkeppnishæfni annarra. Það er tímabært að við tökum saman höndum og breytum hugmyndinni í veruleika.

Spennandi efnahagsár framundan

Áramót marka nýtt upphaf, þar sem við segjum skilið við það liðna og horfum bjartsýn fram á við. Í þetta skiptið höfum við ríkari ástæðu til bjartsýni en oftast áður, þar sem sjaldan hefur árað eins vel í efnahagslegu tilliti. Það er mikilvægasta verkefni stjórnmálanna á efnahagsárinu 2017, að skapa efnahagslífinu umgjörð sem stuðlar að stöðugleika til langs tíma. Tækifærið hefur aldrei verið betra. Næstu skref í hagstjórninni miða að frekari losun fjármagnshafta, áframhaldandi niðurgreiðsla skulda ríkissjóðs og svo stofnun Stöðugleikasjóðs.

Lilja Alfreðsdóttir

Greinin birtist á www.kjarninn.is 30. desmeber 2016.[fusion_builder_container hundred_percent=”yes” overflow=”visible”][fusion_builder_row][/fusion_text][/fusion_builder_row][/fusion_builder_container]

Categories
Greinar

Ljóstýra í Aleppo

Deila grein

22/12/2016

Ljóstýra í Aleppo

lilja____vef_500x500Fréttamyndir sem bárust frá borginni Aleppo í Sýrlandi í síðustu viku voru óhugnanlegar. Stjórnarher Sýrlands, með stuðningi rússneska flughersins og stjórnvalda í Íran, tókst með vægðarlausum hætti að ná borginni úr höndum uppreisnarmanna og skeytti engu um afdrif óbreyttra borgara. Fréttir hafa borist um skipulagðar aftökur á almenningi og við blasir að stríðsglæpir hafi verið framdir í borginni.

Tilgangurinn virðist ekki eingöngu vera sá að ná borginni, heldur senda í leiðinni skilaboð til annarra borga og svæða um hernaðarmátt og grimmd stjórnvalda. Að sýna óbreyttum borgurum að þeir geti ekki staðið á hliðarlínunni og refsingin fyrir beinan eða óbeinan stuðning við uppreisnarmenn sé hörð. Að fá almenning til að þrýsta á uppreisnarmenn í sínum röðum til að leggja niður vopn, enda sé gjaldið fyrir áframhaldandi átök óbærilega hátt.

Íslensk stjórnvöld hafa í félagi við aðrar Norðurlandaþjóðir ítrekað kallað eftir því að alþjóðalög séu virt og mannúðarsamtök komist á átakasvæði til að veita aðstoð og hjúkra. Það er því mikið fagnaðarefni, að ályktun þar að lútandi skyldi vera samþykkt í öryggisráði Sameinuðu Þjóðanna á mánudaginn. Að auki er í henni kallað eftir vernd á hjúkrunarfólki og veitendum mannúðaraðstoðar og að eftirlitssveit á vegum Sameinuðu þjóðanna fari til Aleppo og fylgist þar með málum. Hitt er grátlegt, að öryggisráðið hafi ekki ályktað miklu fyrr í þessa veru því ástandið hefur lengið verið hræðilegt í Aleppo. Það er einlæg von mín, að ályktun mánudagsins marki tímamót og viðbrögð öryggisráðsins verði framvegis skilvirkari en hingað til.

Þörfin geigvænleg
Fjárstuðningur íslenskra stjórnvalda við mannúðarstarf Sameinuðu þjóðanna, Rauða krossins og annarra hjálparsamtaka sem aðstoða Sýrlendinga nemur um 600 milljónum króna á þessu ári, sem er tvöföldun frá síðasta ári. Þörfin fyrir aðstoð er geigvænleg, enda er landið sundurtætt eftir fimm ára stríð. Um hálf milljón manna hefur dáið, ríflega 11 milljónir manna hafa flúið heimili sitt og 13,5 milljónir þurfa á brýnni aðstoð að halda. Aðstæður þessa fólks eru slæmar, sérstaklega á köldum vetri þar sem börn og fullorðnir þurfa hlý föt, mat, húsaskjól og öryggi. Ekkert af þessu er auðvelt að tryggja við núverandi aðstæður og þess vegna er svo mikilvægt að mannúðarsamtök fái að athafna sig.

Ísland er í hópi þeirra ríkja sem hefur með milligöngu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna boðið Sýrlendingum alþjóðlega vernd og fasta búsetu. 70 manns eru þegar komnir til landsins og í janúar bætast 47 einstaklingar í hópinn, sem þá mun alls telja 117 manns. Í flestum tilvikum er um ræða barnmargar fjölskyldur sem hafa ríka þörf fyrir vernd. Þá eru ótaldir þeir sem hingað hafa ferðast á eigin vegum og fengið alþjóðlega vernd á grundvelli útlendingalaga. Alls hafa íslensk stjórnvöld varið 2 milljörðum króna til að mæta flóttamannavandanum sem á upptök sín í átökunum í Sýrlandi.

Hér í landi allsnægtanna styttist í jólin – hátíð ljóss og friðar. Í Aleppo blasa hins vegar við húsarústir, mannvonska og myrkur. Ljóstýra kann þó að hafa kviknað með þeim aðgerðum sem öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hefur loksins ákveðið að grípa til, þótt þær séu aðeins hænuskref á langri leið.

Lilja Alfreðsdóttir

Grein birtist í Fréttablaðinu 21. desember 2016.[fusion_builder_container hundred_percent=”yes” overflow=”visible”][fusion_builder_row][/fusion_text][/fusion_builder_row][/fusion_builder_container]

Categories
Greinar

Órökstuddar fullyrðingar formanns Neytendasamtakanna

Deila grein

22/12/2016

Órökstuddar fullyrðingar formanns Neytendasamtakanna

gunnar_vef_500x500Ólafur Arnarson, nýr formaður Neytendasamtakanna skrifaði opið bréf í vikunni til mín og annarra þingmanna þar sem að hann hvetur okkur til að falla frá „beinni aðför að íslenskum neytendum og heimilum landsins“ –  en þar vísar hann til 100 milljóna króna framlags á fjáraukalögum sem ætluð er til markaðssetningar á íslenskum sauðfjárafurðum.

Við þessar aðstæður þykir mér rétt að fara yfir feril málsins með staðreyndir að vopni.

Íslenskur landbúnaður skapar 10-12 þúsund bein og óbein störf á Íslandi og veltir hátt í 70 milljörðum á ári. Sauðfjárbúskapur er ein megin forsendan fyrir dreifðri byggð í landinu og saman mynda sauðfjárbúin menningarlegt, atvinnulegt og öryggislegt net vítt og breitt um landið. Sauðfjárafurðir frá íslenskum bændum eru einnig framúrskarandi vara hvað varðar  gæði, heilnæmi og aðbúnað dýra. en einhverra hluta vegna er það orðið vinsælt að gera lítið úr þessari eftirsóknarverðu stöðu sem við höfum náð.

Þrengingar hafa orðið hjá útflutningsgreinum á Íslandi í kjölfar styrkingar krónunar og í ofanálag hafa viðskiptadeilur Vesturvelda við Rússland leitt til lækkunar á mörkuðum fyrir landbúnaðarafurðir. Í kjölfarið tóku sauðfjárbændur á sig tekjuskerðingu uppá 600 milljónir síðasta haust þegar afurðastöðvar lækkuðu verð til bænda vegna fyrrnefndra aðstæðna. Í haust bárust svo þau tíðindi að Norðmenn myndu ekki taka sín 600 tonn af lambakjöti eins og þeir hafa gert undanfarin ár samkvæmt samningi þar um. Því var ljóst að ef ekki yrði brugðist við yrðu enn frekari verðlækkanir til sauðfjárbænda næsta haust með tilheyrandi tekjumissi fyrir bændur. Það taldi ég ekki ásættanlegt.

Í kjölfarið brugðumst við með því að samþykkja í ríkisstjórn sérstakt 100 milljón króna framlag í fjáraukalögum til markaðssetningar á íslensku lambakjöti til að koma í veg fyrir tekjuhrun sauðfjárbænda. Það má því öllum vera ljóst að fullyrðing Ólafs þess efnis að aðgerðin sé ekki í þágu bænda á við engin rök að styðjast. Ólafur hefur miklar áhyggjur af því að aðgerðin haldi verði á lambakjöti hér á landi of háu en rétt er að benda á að í alþjóðlegum samanburði er smásöluverð á lambakjöti  mjög lágt hér á landi, íslenska lambakjötið er hágæða vara á sanngjörnu verði. Það er því stórfurðulegt að það skuli vera forgangsatriði hjá Ólafi að tortryggja þessa einstöku aðgerð sem miðar af því að tryggja kjör bænda og halda byggð í landinu.  Ekki má gleyma því að þessi starfsstétt hefur tekið á sig launaskerðingu á sama tíma og allar aðrar stéttir hafa fengið töluverðar kjarabætur undanfarin misseri.

Það er rétt að benda á að við erum einnig að byggja upp til lengri tíma, í gangi er metnaðarfullt markaðsstarf á sauðfjárafurðum sem þegar er byrjað að skila árangri . Meðal annars er Landssamband sauðfjárbænda ásamt fleirum að vinna frábært starf við kynningu og markaðssetningu sem er ekki síst miðuð að þeim ferðamönnum sem koma til landsins. Árangurinn er byrjaður að skila sér og jókst sala á lambakjöti um 25% hér á landi, fyrsta ársfjórðung ársins 2016.

Ef nýr formaður Neytendasamtakanna vill sérstaklega skoða starfsumhverfi sauðfjárbænda gæti hann  beint spjótum sínum að versluninni og skoða hversu hátt hlutfall hún tekur af smásöluverðinu útí búð. Samkvæmt tölum Hagstofunnar fær hver bóndi einungis að meðaltali þriðjung af heildarverði kjöts í sinn hlut. Hann gæti líka skoðað hvernig  stendur á því að arðsemi af verslunarkeðjum hér á landi er mun meiri en á löndunum í kringum okkur og  athugað sérstaklega hvers vegna styrking krónunnar og niðurfelling á vörugjöldum og tollum skili sér ekki útí verðlagið? Ég bíð spenntur eftir öðru opnu bréfi þar sem hann fer yfir þátt verslunarinnar í of háu verðlagi hér á landi en jafnframt vona ég að hann kynni sér málin betur áður en hann skrifar fleiri opin bréf með órökstuddum fullyrðingum um íslenskan landbúnað.

Að endingu óska ég Ólafi og landsmönnum öllum gleðilegra jóla með fullvissu um að þeir munu njóta alls þess besta sem íslenskur landbúnaður hefur fram að færa um hátíðarnar.

Gunnar Bragi Sveinsson

Greinin birtist á visir.is 21. desember 2016.