Categories
Fréttir

Jöfnun raforkukostnaðar: „Réttlætismál að allir sitji við sama borð“

Deila grein

08/10/2025

Jöfnun raforkukostnaðar: „Réttlætismál að allir sitji við sama borð“

Stefán Vagn Stefánsson, alþingismaður, lagði áherslu á í störfum þingsins á Alþingi að ljúka jöfnun á dreifikostnaði raforku um land allt. Hann lýsti málinu sem „réttlætismáli“ og sagði eðlilegt að heimili og fyrirtæki, óháð búsetu, stæðu jafnfætis í grunnkostnaði vegna raforku.

„Að mínu mati er hér um réttlætismál að ræða, að allir íbúar landsins sitji við sama borð er kemur að kostnaði heimila eða fyrirtækja vegna raforku,“ sagði Stefán Vagn. „Fyrir okkur á landsbyggðinni, sem höfum verið að berjast fyrir uppbyggingu og öflugu atvinnulífi, er þetta einn af þeim þáttum sem skipta miklu máli.“

Stefán Vagn rifjaði upp að Alþingi hafi árið 2004 samþykkt lög um jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku. Markmið laganna væri að mæta hærri kostnaði í dreifbýli með sérstökum jöfnunargjaldi sem rynni í gegnum dreifiveiturnar. Þrátt fyrir það hefði misræmið haldið áfram að vaxa og full jöfnun ekki náðst.

„Kostnaður við dreifingu raforku er mismikill í dreifbýli og þéttbýli og hefur farið vaxandi,“ sagði hann og bætti við að fjármunum úr jöfnunarkerfinu væri skipt í hlutfalli við notkun og kostnað dreifiveitna, en að það nægði ekki til að brúa bilið að fullu.

Hvað kostar að ljúka jöfnun?

Stefán Vagn nefndi og vísaði til að tæplega 420 kr. hækkun á mánaðarreikningi heimila á höfuðborgarsvæðinu nægja til að jafna leikinn.

„Til þess að ná fullri jöfnun þarf að hækka orkureikninga íbúa á höfuðborgarsvæðinu um tæplega 420 kr. á mánuði. Þá standa íbúar alls landsins jafnfætis þegar kemur að kostnaði vegna nýtingar okkar sameiginlegu auðlinda og innviða.“

„Þetta er sanngirnismál sem við hljótum að vera sammála um að leysa.“

Categories
Fréttir

Mótsagnir í áformum um rekstur framhaldsskóla

Deila grein

08/10/2025

Mótsagnir í áformum um rekstur framhaldsskóla

Ingibjörg Isaksen, alþingismaður og formaður þingflokks Framsóknar, gagnrýndi í störfum þingsins ný áform mennta- og barnamálaráðherra um að setja á laggirnar fjórar til sex svæðisskrifstofur sem taki yfir rekstrartengd verkefni framhaldsskóla. Þessi áform ganga gegn frumvarpi ráðherrans sjálfs sem veiti skólum víðtækar heimildir til samstarfssamninga um stoðþjónustu og rekstur.

Svæðisskrifstofurnar eiga að yfirtaka verkefni á borð við rekstur, mannauðsmál og stoðþjónustu. Á vef ráðuneytisins sé jafnframt rökstutt að sameining stjórnsýslu tryggi „betri þjónustu og markvissari stjórnsýslu“ á sama tíma og skólarnir haldi sérstöðu sinni og nafni.

„Þetta þýðir með öðrum orðum að stjórnendur framhaldsskóla missa umboð sitt til að taka ákvarðanir og gera samninga,“ sagði Ingibjörg og bætti við að slíkt jafngilti því að „leggja til nýtt stjórnsýslustig“.

Ráðherrann hefur mælt fyrir frumvarpi sem veitti framhaldsskólum víðtækar heimildir til að gera samstarfssamninga um rekstrartengd mál og stoðþjónustu, svo sem fjármál, bókhald, laun, mannauð, upplýsingakerfi, innkaup, húsnæði og stjórnsýslu.

„Hér er verið að leggja til að skólar fái frekari heimildir til að gera samninga og bæta rekstur sinn á sama tíma og verið er að taka hlutverkið af þeim annars staðar.“

Ingibjörg segir að svör ráðherrans í gær hafa komið á óvart, þar sem hann hefði fullyrt að engin tengsl væru á milli frumvarpsins um samstarfssamninga og áforma um svæðisskrifstofur.

„Á sama tíma og ráðherra vill auka sjálfstæði framhaldsskóla … eru í gangi áform um að færa einmitt þau málefni … undir svæðisskrifstofur,“ sagði Ingibjörg og vísaði til þess að þetta kæmi fram í gögnum ráðuneytisins sjálfs. „Þrátt fyrir þetta fullyrti ráðherra í gær að það ætti ekki að færa rekstur framhaldsskóla yfir til svæðisskrifstofa, þrátt fyrir að það standi skýrum stöfum á vef Stjórnarráðsins.“

Ingibjörg sagði eðlilegt að Alþingi gerði athugasemdir þegar „boðuð stefnumótun stjórnvalda er hvorki samrýmd né skiljanleg“ og spurði hver væri framtíðarsýnin í málaflokknum.

Categories
Fréttir Greinar

Geðheilbrigðismál – það þarf aðgerðir, ekki innantóm orð

Deila grein

07/10/2025

Geðheilbrigðismál – það þarf aðgerðir, ekki innantóm orð

Við stöndum frammi fyrir risastóru samfélagslegu máli: stöðu geðheilbrigðismála á Íslandi. Ætlum við að halda áfram að benda hvert á annað – sveitarfélögin, heilbrigðiskerfið, fyrri ríkisstjórnir, núverandi ríkisstjórn, hinn og þennan ráðherra eða ráðamann– eða ætlum við að taka höndum saman og skapa raunverulega þjónustu sem bjargar mannslífum?

Fréttir af sjálfsvígum, alvarlegri vanlíðan, áhættuhegðun og ofbeldisbrotum, sem rekja má að miklu leyti til vanrækslu á geðheilbrigðisþjónustu og úrræðaleysi, eru að verða daglegt brauð á samfélagsmiðlum. Rannsóknir hafa sýnt og sannað að skortur á geðheilbrigðisþjónustu og sálfræðiþjónustu, ónógur stuðningur í skólum og alltof langir biðlistar hafa afdrifaríkar afleiðingar.

Árið 2023 voru 47 sjálfsvíg á Íslandi, sem jafngildir um 12,4 á hverja 100.000 íbúa. Fyrstu sex mánuði ársins 2024 voru skráð 22 sjálfsvíg. Þetta eru ekki bara tölur – þetta eru einstaklingar, fjölskyldur og samfélög í sorg.

Staðan hjá börnum er sérstaklega sláandi: Í ágúst 2024 biðu 2.020 börn eftir þjónustu hjá Geðheilsumiðstöð barna, samanborið við 738 börn í desember 2021. Tilvísanir hafa nær tvöfaldast á tveimur árum og meðalbiðtími er allt að 12–24 mánuðir. Á þessum tíma gætu börnin verið án nauðsynlegrar hjálpar. Starfsemi geðdeilda og sú vinna sem þar fer fram er oftast góð, en biðin og sá fjölþætti vandi sem við stöndum frammi fyrir kallar á fjölbreyttari úrræði sem geðdeildir hafa því miður ekki upp á að bjóða í dag.

Ísland kallar sig velferðarsamfélag – þá verðum við líka að haga okkur sem slíkt.      

    Það þarf að:

  • Fjármagna aðgerðir sem stytta biðlista.
  • Tryggja snemmtæka íhlutun og sálfræðiaðstoð í skólum.
  • Auka aðgengi að þjónustu óháð efnahag eða búsetu.

Ísland stærir sig af því að vera velferðarsamfélag. Förum að haga okkur þannig og gera ráðstafanir til þess að geta staðið undir því. Það er svo mikilvægt að vera með snemmtækar íhlutanir, að geta brugðist við áður en það er orðið of seint, áður en einstaklingurinn er kominn of langt, á verri stað sem getur haft svo afdrifaríkar afleiðingar á einstaklinginn, fjölskyldu hans og samfélagið. Skólakerfið hefur öskrað á hjálp, velferðarkerfið hefur öskrað á hjálp, heilbrigðiskerfið hefur öskrað á hjálp, foreldrar hafa öskrað á hjálp, börn, ungmenni og fullorðnir hafa öskrað á hjálp.

Þingsályktun um geðheilbrigðisþjónustu til 2030 var samþykkt árið 2022 og setur fram góða framtíðarsýn. En stefnur einar og sér bjarga engum – það þarf raunverulegt plan, fjármagn og framkvæmd.

Við getum breytt þessu. Aðgerðir í dag kosta minna en aðgerðaleysi á morgun. Stöndum saman og tryggjum öllum aðgang að nauðsynlegri geðheilbrigðisþjónustu.

Alþjóðlegi geðheilbrigðisdagurinn er haldinn 10.október ár hvert og er hann tileinkaður vitund, fræðslu og umræðu um geðheilbrigði um allan heim. Ég vill hvetja alla til að klæðast grænu þennan dag sem táknar von, endurnýjun, jafnvægi, stuðning og samstöðu.

Díana Hilmarsdóttir, forstöðumaður Bjargarinnar geðræktarmiðstöðvar Suðurnesja og bæjarfulltrúi Framsóknar í Reykjanesbæ.

Greinin birtist fyrst á vf.is 7. október 2025.

Categories
Fréttir

Háir vextir vinna gegn nýsköpun

Deila grein

07/10/2025

Háir vextir vinna gegn nýsköpun

Þórarinn Ingi Pétursson, alþingismaður, varaði við því í störfum þingsins að háir vextir væru farnir að vinna gegn markmiðum um eðlilegan hagvöxt, nýsköpun og framþróun. Þórarinn Ingi sagði að flest bendi til þess að Seðlabankinn lækki ekki vexti þegar peningastefnunefnd bankans tekur næstu ákvörðun á morgun, miðvikudag 8. október.

„Fyrirtæki bíða með að þróa nýjar lausnir og fresta tækjakaupum. Frumkvöðlar taka litla sem enga áhættu,“ sagði Þórarinn Ingi og bætti við að lítil og meðalstór fyrirtæki greiði nú „allt að 11% vexti“ af fimm ára lánum. Að hans mati leiti fyrirtæki í vaxandi mæli í verðtryggð lán „rétt eins og almenningur“, sem hann sagði merki um þunga vaxtabyrði.

Landbúnaður og sjávarútvegur undir álagi

Þórarinn Ingi nefndi sérstaklega landbúnað, matvælaframleiðslu og sjávarútveg sem greinar sem þegar glími við hærri aðfanga- og launakostnað, auk óvissu um eftirspurn og afkomu. „Þegar vextir haldast svo háir til lengri tíma hverfa fjárfestingar eins og dögg fyrir sólu.“

Til að undirstrika áhrifin vísaði þingmaðurinn í dæmi: Óverðtryggt 15 milljóna króna lán til fimm ára geti í dag borið tæplega 1,3-1,5 milljónir króna í árlega vexti. „Hver getur tekið slíka áhættu?“

Kallar eftir þverpólitískri sátt

Í lok ræðunnar hvatti Þórarinn Ingi til þess að nýsköpun hægði ekki á „út árið 2026“ og lagði til að komandi fjárlagaumræða snerist um þverpólitíska sátt um hallalaus fjárlög fyrir árið 2026. „Það er kominn tími til,“ sagði hann að lokum.

Categories
Fréttir Greinar

Varðveita skal sterka lýðræðishefð á Íslandi

Deila grein

07/10/2025

Varðveita skal sterka lýðræðishefð á Íslandi

Ísland hefur notið þeirrar gæfu að búa við ríka lýðræðishefð frá stofnun Alþingis árið 930. Stofnun allsherjarþings var merkilegt nýmæli á þeim tíma, án beinnar fyrirmyndar á Norðurlöndum, þar sem þing voru aðeins fyrir afmarkaða landshluta en ekki fyrir heila þjóð. Lögin voru æðsta vald og allir þeim undirgefnir. Alþingi hefur allar götur síðan verið tákn um sjálfsforræði þjóðarinnar og grundvöllur þjóðfrelsisbaráttu. Þessi hefð fyrir lýðræðislegum ákvörðunum og sjálfstæðu réttarkerfi hefur verið burðarás í íslensku þjóðlífi í meira en þúsund ár.

Til að velsæld ríki á Íslandi er nauðsynlegt að efla alþjóðaviðskipti og standa vörð um alþjóðasamvinnu. Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið er einn mikilvægasti alþjóðasamningur Íslands frá gildistöku hans árið 1994. Hann tryggir íslenskum almenningi og fyrirtækjum aðgang að innri markaði Evrópu, styrkir neytendavernd og stuðlar að samræmdum leikreglum á mörkuðum. Með samningnum tekur Ísland þátt í sameiginlegum reglum án þess að vera hluti af Evrópusambandinu og heldur þannig stjórn á eigin löggjöf. EES-samstarfið byggist á jafnvægi milli sjálfstæðra ríkja sem skuldbinda sig til samvinnu en framselja ekki alfarið löggjöf sína undir yfirþjóðlegt vald. Það er því mikilvægt að varðveita þetta jafnvægi, þar sem Ísland nýtur ávinnings samstarfsins án þess að fórna fullveldi sínu.

Bókun 35 við EES-samninginn gengur gegn íslenskri lýðræðishefð. Bókun 35 felur í sér að íslensk stjórnvöld viðurkenni forgang EES-réttar fram yfir landslög, sem væri í reynd afsal á löggjafarvaldi Alþingis. Samkvæmt Carl Baudenbacher, fyrrverandi forseta EFTA-dómstólsins, er innleiðing bókunar 35 ekki formsatriði heldur efnislegt inngrip í stjórnarskrárbundið sjálfstæði ríkisins. Núverandi fyrirkomulag, þar sem íslenskir dómstólar túlka lög í samræmi við EES-samninginn, tryggir bæði réttindi borgaranna og virðingu fyrir þjóðréttarlegum skuldbindingum án þess að grafa undan stjórnarskránni. Samþykkt bókunar 35 væri hins vegar pólitísk yfirlýsing um að Ísland undirgangist yfirþjóðlegt vald yfir eigin lögum. Það myndi veikja stöðu Alþingis sem æðsta handhafa löggjafarvalds og brjóta gegn þeirri sömu lýðræðishefð sem hefur varðveitt sjálfstæði þjóðarinnar í meira en árþúsund.

Íslensk stjórnskipan byggist á því að valdið komi frá þjóðinni og sé bundið við lög sem hún setur sér sjálf. Með því að hafna bókun 35 ver Ísland lýðræðislega hefð sína og þá meginreglu að engin yfirþjóðleg löggjöf skuli hafa forgang fram yfir vilja Alþingis. Að standa vörð um þessa grundvallarreglu er ekki andstaða við Evrópusamvinnu heldur trygging þess að þátttaka Íslands í henni verði áfram á forsendum sterkrar lýðræðishefðar og fullveldis þjóðarinnar.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar og fv. utanríkisráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 7. október 2025.

Categories
Fréttir

Hrafn nýr formaður SUF

Deila grein

07/10/2025

Hrafn nýr formaður SUF

Hrafn Splidt Þorvaldsson kjörinn nýr formaður Sambands ungra Framsóknarmanna á 50. Sambandsþingi SUF helgina 4.–5. október sl.

Samband ungra Framsóknarmanna hélt sitt 50. Sambandsþing í Garðabæ helgina 4. til 5. október. Á þinginu var Hrafn Splidt Þorvaldsson kjörinn nýr formaður sambandsins. Hann tekur við af Gunnari Ásgrímssyni sem gaf ekki kost á sér aftur eftir tveggja ára formennsku. 

Hrafn Splidt Þorvaldsson er 25 ára viðskiptafræðingur frá Mosfellsbæ og hann starfar nú hjá Strætó bs. Hann hefur verið virkur í flokknum síðan 2021 og sér í lagi í starfi SUF þar sem hann hefur verið í framkvæmdastjórn frá árinu 2023, fyrst sem viðburðastjóri og nú síðast sem varaformaður. Einnig hefur hann setið í málefnanefnd flokksins og stjórn Kjördæmasambands Framsóknar í Reykjavík. 

Þá var einnig kjörin ný stjórn SUF, hana skipa: Arnþór Birkir Sigþórsson, Árdís Lilja Gísladóttir, Berglind Sunna Bragadóttir, Birgitta Birgisdóttir, Dísa Svövudóttir, Elín Karlsdóttir, Karítas Ríkharðsdóttir, Kjartan Helgi Ólafsson, Sigurður Eyjólfur Sigurjónsson, Stefán Atli Rúnarsson, Steinþór Ólafur Guðrúnarson og Ýmir Örn Hafsteinsson.

Á þinginu var unnið metnaðarfullt málefnastarf og 47 ályktanir samþykktar. Meðal annars var ályktað gegn þátttöku Íslands í Eurovision á meðan lönd, þar sem ríkisstjórnir beita sóknarsinnuðum hernaði, á borð við Ísrael og Aserbaísjan, eru ekki útilokuð frá þátttöku. Þá hvatti ungt Framsóknarfólk til þess að flokksþing Framsóknar fari fram með góðum fyrirvara á næsta ári, fyrir sveitastjórnarkosningar, eigi síðar en í febrúar 2026.

Þar að auki voru samþykktar ályktanir um margvísleg samfélagsmál, meðal annars:

  • Að frídagar sem lenda á helgi skuli færast á næsta virka dag, eins og tíðkast víða erlendis, t.d. í Bretlandi, svokallaðir bankafrí- eða brúardagar.
  • Að skoða leiðir til að auka tekjur sveitarfélaga af fjármagnstekjuskatti, þar sem útsvar miðast nú eingöngu við launatekjur.
  • Að endurskoða skerðingarreglur Tryggingastofnunar vegna fjármagnstekna maka og barna. Núverandi fyrirkomulag getur valdið því að einstaklingar missa bótarétt eða þurfa að greiða til baka háar fjárhæðir vegna tekna maka eða barna.
  • Að fjölga opinberum störfum á landsbyggðinni, meðal annars með flutningi stofnana eða stofnun útibúa.
  • Að breyta skattkerfi landsins svo þau sem búa í hinum dreifðari byggðum borgi lægri skatta vegna fjarlægðar frá þjónustu líkt og gert er í Noregi.
  • Að sjókvíaeldi sé mikilvæg atvinnugrein á landsbyggðinni, en að huga þurfi að langtímaáhrifum á umhverfi og aðra atvinnuvegi. Hvetja beri til nýsköpunar í átt að lokuðum kvíum og geldum laxi.

Nýkjörinn formaður segir ályktunarpakkann umfangsmikinn og að hann muni reynast gott veganesti fyrir komandi málefnastarf á vettvangi flokksins fyrir komandi flokksþing.

Við í Framsókn óskum Hrafni innilega til hamingju með kjörið og um leið þökkum við Gunnari Ásgrímssyni fráfarandi formanni fyrir vel unnin störf og frábært samstarf.

Categories
Fréttir

„Grafalvarleg staða á Sjúkrahúsinu á Akureyri“

Deila grein

06/10/2025

„Grafalvarleg staða á Sjúkrahúsinu á Akureyri“

Ingibjörg Isaksen, alþingismaður og formaður þingflokks Framsóknar, vakti máls í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi uppsagnar ferliverkasamningum við sérfræðilækna á sjúkrahúsinu á Akureyri (SAk). „Það er ljóst að þjónustan mun dragast verulega saman ef ekki finnst lausn á málinu,“ sagði Ingibjörg og benti á að um væri að ræða 13 sérgreinalækna á sviðum hjarta-, krabbameins-, kvensjúkdóma-, meltingar- og lyflækninga. „Þjónusta sem íbúar á Norðurlandi og víðar hafa hingað til getað treyst á og er okkur nauðsynleg.“

Ingibjörg sagði að áhyggjur væru ekki einungis hjá starfsfólki og sjúklingum, heldur einnig hjá heilsugæslulæknum á upptökusvæði SAk og læknum á Landspítala, sem sjái ekki fram á að geta tekið við öllum þeim sjúklingum sem leiti suður ef þjónustan hverfur af Akureyri. „Þetta er því, má segja, kerfislægt vandamál, ekki staðbundið,“ sagði hún.

Ferliverkasamningar lykill að þjónustu utan höfuðborgarsvæðis

Samningarnir hafi verið við lýði í áratugi, boðnir af stofnunum og samþykktir af stjórnvöldum. „Þeir hafa verið lykillinn í því að tryggja sérfræðiþjónustu utan höfuðborgarsvæðisins og hafa reynst aðilum vel og ekki síður sjúklingum.“ Hún lýsti jafnframt manneklu, auknum afleysingum og hlutastörfum lækna sem ekki væru búsettir á svæðinu, sem geri eftirfylgni erfiðari.

Var ráðherra í samráði?

Ingibjörg beindi beinum spurningum til heilbrigðisráðherra:

  • hvort ráðherra hafi verið í samráði við stjórn SAk áður en ákvörðunin var tekin,
  • hvort ráðuneytið sé virkt í leit að lausn með stjórnendum SAk,
  • og hvort ráðherra tryggi að sérfræðiþjónusta haldist á Akureyri „svo landsbyggðarfólk haldi áfram jöfnum rétti til heilbrigðisþjónustu í heimabyggð.“

Verði samningarnir felldir niður eða læknar dragi saman seglin gæti SAk átt erfitt með að sinna hlutverki sínu sem varasjúkrahús. Ingibjörg varaði við að loka þyrfti göngudeildum og senda sjúklinga til rannsókna og meðferðar suður, sem gæti tafið greiningar og meðferð.

„Ef hluti þjónustunnar hverfur nú mun taka mörg ár að endurreisa hana… sérgreinar styðja hver aðra. Ef ein hverfur veikist önnur,“ sagði Ingibjörg.

Categories
Fréttir

„Áhyggjur venjulegs fólks“

Deila grein

06/10/2025

„Áhyggjur venjulegs fólks“

Sigurður Ingi Jóhannsson, alþingismaður og formaður Framsóknar, spurði forsætisráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi um mótvægisaðgerðir stjórnvalda í kjölfar uppsagna og samdráttar. Sigurður Ingi benti á mikilvægi þess að næstu skref stjórnvalda væru skýr í kjölfar vaxandi atvinnuleysis, uppsagna á Bakka við Húsavík og áhrifum falls Play á ferðaþjónustu.

Sigurður Ingi lýsti yfir áhyggjum af þróun efnahagsmála þrátt fyrir sterka stöðu ríkisfjármála í nýlegum fjárlagatölum.

„Við þekkjum að það er öflugt atvinnulíf á Íslandi sem býr til mikið af störfum og við höfum blessunarlega búið við það mjög lengi. Á síðustu vikum hafa hins vegar hrannast upp ákveðin óveðursský eða í það minnsta áskoranir.“ Sigurður Ingi vísaði til mats Hagstofunnar um samdrátt á öðrum ársfjórðungi, falls Play og uppsagna „nær allra“ starfsmanna á Bakka við Húsavík.

Atvinnuleysi er að hækka, húsnæðismarkaðurinn er að kólna og þrálát verðbólga ásamt háum vöxtum er að bíta á heimilum og fyrirtækjum. Óskaði Sigurður Ingi eftir skýrum mótvægisaðgerðum stjórnvalda, bæði gagnvart svæðisbundnum áföllum, s.s. á Norðausturlandi, og með beinum stuðningi við ferðaþjónustu yfir vetrarmánuðina. „Kemur til greina að fara í markaðsstarf til að tryggja að það verði ekki svona mikið fall á þessum erfiða tíma?“ spurði hann og bætti við að um væri að ræða áhyggjur „venjulegs fólks“.

Sigurður Ingi beindi jafnframt sjónum að Seðlabankanum og kvað brýnt að stjórnvöld settu fram sínar væntingar og viðbrögð í aðdraganda vaxtaákvörðunar bankans á miðvikudaginn. „Hvers ætlar ríkisstjórnin að grípa til?“ spurði hann forsætisráðherra.

Categories
Fréttir Greinar

Á bak við atvinnuleysi er fólk

Deila grein

04/10/2025

Á bak við atvinnuleysi er fólk

Helsti styrkleiki íslensks samfélags hefur verið hátt atvinnustig og lítið atvinnuleysi. Það hefur einkennt velgengni okkar og skapað traust á framtíðina. Nú stöndum við hins vegar frammi fyrir óvenjulegum aðstæðum þar sem margir hafa misst atvinnu á stuttum tíma, miklu fleiri en við höfum átt að venjast.

Atvinnumissir er mikið áfall

Svo fátt eitt sé nefnt má vísa til uppsagna á Grundartanga, í sjávarútvegi og iðnaði tengdum honum, lokunar kísilversins á Bakka við Húsavík og falls Play með tilheyrandi afleiðingum fyrir íslenska ferðaþjónustu. Bak við tölur um atvinnuleysi er fólk af holdi og blóði. Atvinnumissir getur haft gríðarlega alvarleg áhrif fyrir einstaklinga og fjölskyldur, bæði efnahagslega og félagslega, og verður fyrir marga mikið áfall. Samfélagið í heild og stjórnvöld þurfa að sýna samkennd með þeim sem nú standa frammi fyrir þessum aðstæðum og ábyrgð með mótvægisaðgerðum.

Tækifærin eru til staðar

Þrátt fyrir áföllin er ljóst að Ísland býr yfir fjölmörgum styrkleikum og tækifærum. Ef rétt er haldið á málum getum við skapað ný störf, byggt upp verðmætasköpun og tryggt að fólk fái störf þar sem hæfileikar þess nýtast. Við búum yfir miklum mannauði, orkuauðlindum, öflugum sjávarútvegi og ferðaþjónustu, ásamt heilnæmri matvælaframleiðslu sem byggist á hreinleika náttúrunnar og telst með því besta sem þekkist í heiminum. Þetta eru hornsteinar sem við getum treyst á til að byggja sterka framtíð ef skynsamlega er staðið að málum. Atvinna fyrir alla, hefur verið og er eitt af grunngildum íslensks samfélags.

Störf og verðmætasköpun í forgangi

Margir hafa bent á að atvinnustefna ríkisstjórnarinnar virðist fyrst og fremst snúast um auknar álögur á heimili og fyrirtæki. Slíkt er hvorki rétta leiðin til að efla atvinnulífið né til að tryggja fólki störf. Þvert á móti getur það dregið úr fjárfestingum og valdið þannig fækkun starfa. Þess vegna er mikilvægt að ríkisstjórnin bregðist nú skýrt og ákveðið við. Hún þarf að leggja fram aðgerðir sem styðja við þá sem misst hafa vinnuna, hlúa að nýsköpun, efla atvinnu í öllum landshlutum og skapa umhverfi þar sem fyrirtæki og einstaklingar geta treyst á stöðugleika og sanngjarnt rekstrarumhverfi. Framsókn hefur alltaf lagt áherslu á atvinnu og verðmætasköpun. Við höfum ítrekað lagt áherslu á samvinnu við lausn stærstu viðfangsefna samfélagsins. Ríkisstjórnin hefur hins vegar kosið að fara aðra leið.

Í dag þurfum við raunhæfa nálgun, samvinnu allra hagaðila, til að snúa af braut vaxandi atvinnuleysis. Í dag þurfum við ekki stór orð, glansandi kynningar eða óraunhæf loforð. Við þurfum jarðbundin og raunsæ stjórnmál sem umfram allt veita fólki von um að betri tímar séu fram undan. Slík stjórnmál byggjast á ábyrgð, samstöðu og því að setja fólk í forgang.

Þannig getum við tryggt að Ísland verði áfram samfélag þar sem velferð og lítið atvinnuleysi eru hornsteinar og framtíðin er byggð á traustum grunni.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgumblaðinu 4. október 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Ríkið axli ábyrgð á sjóvörnum

Deila grein

03/10/2025

Ríkið axli ábyrgð á sjóvörnum

Sjávarflóð og landbrot eru ekki lengur eitthvað sem gerist „af og til“. Þetta er raunveruleg vá sem íbúar Suðurnesja finna fyrir aftur og aftur. Við höfum séð sjóinn brjótast inn í byggð, valda tjóni á hafnarmannvirkjum, leggja kirkjugarða í hættu og skemma eignir bænda og fyrirtækja.

Það er ekki nóg að horfa á vandann og bíða eftir næsta stórflóði. Lög um sjóvarnir 1997 nr. 28 5. maí segja skýrt að ríkið beri ábyrgð á þessum málum – innviðaráðherra hefur yfirstjórn og Vegagerðin framkvæmir. Sveitarfélög og landeigendur eiga aðeins að leggja til lítinn hluta kostnaðar. Þrátt fyrir þetta stöndum við sem sveitarfélag í sífelldri baráttu við að fá nauðsynlegar aðgerðir samþykktar.

Af 17 verkefnum sem Suðurnesjabær lagði fram í samgönguáætlun 2024-2028 fengust aðeins sex samþykkt – og jafnvel þau voru skorin niður. Á meðan er árlegt framlag ríkisins til sjóvarna á öllu landinu aðeins 150 milljónir króna. Sú upphæð dugar ekki einu sinni fyrir brýnum verkefnum í okkar sveitarfélagi, hvað þá annars staðar á landinu.

Við Íslendingar höfum byggt upp Ofanflóðasjóð sem ver íbúa gegn snjóflóðum – og það hefur virkað að miklu leyti. Sjávarflóð eru náttúruvá líkt og ofanflóð. Nú þurfum við sambærilegan Sjávarflóðasjóð, sem tryggir að sveitarfélög um land allt fái raunverulegan stuðning til varna gegn ágangi sjávar. Þetta er spurning um öryggi fólks, atvinnulífs og menningarminja.

Ég skora á ríkisstjórn Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins að gera sjóvarnir að forgangsmáli strax. Við Suðurnesjamenn höfum séð hvað gerist þegar ekkert er gert. Við getum ekki beðið eftir að sjórinn gangi yfir mannvirki – og það mun að öllum líkindum gerast aftur í vetur ef
ekkert verður að gert. Neyðaraðgerða er þörf víða, meðal annars neðst við Hvalsneskirkju þar sem stórt skarð er í landgarðinum. Það getur valdið miklu tjóni bæði á íbúðarhúsi sem þar er nærri auk þess sem kirkjugarðurinn er í stórhættu. Sama má segja um Nátthaga, sem er á milli Sandgerðis og Garðs, og Útgarð í Garði. Þá hefur hafnarstjórn einnig krafist úrbóta fyrir veturinn til að verjast frekara tjóni á hafnarmannvirkjum í Sandgerðishöfn.

Ríkisstjórnin verður að axla ábyrgð.

Anton Guðmundsson, oddviti Framsóknarflokksins í Suðurnesjabæ.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 3. október 2025.