Á núlíðandi kjörtímabili hefur mikið verið rætt og ritað um rekstur í Sveitarfélaginu Árborg. Margt misjafnt verið sett fram og misgáfulegt.
Við lok síðasta kjörtímabils var sjálfstæðismönnum tíðrætt um að rekstur Sveitarfélagsins Árborgar væri á versta veg og að reksturinn væri ekki sjálfbær og að fráfarandi meirihluti hefði búið svo um hnútana að eftirlitsnefnd sveitarfélaganna væri í startholunum í Innviðaráðuneytinu til að taka yfir reksturinn. Því var haldið fram að í Árborg hefði verið farið of geist í framkvæmdir og að aðhald í rekstri væri slakt. Það sem gerðist var að ráðist var í byggingu skóla, leikskóla og íþróttahöll var byggð fyrir rúmar 1.300 mkr. Var það allur glæpurinn en sennilega gleymdist að senda inn spurningarlista upp í Valhöll hvort þetta væri í lagi og hvort ekki væru réttir verktakar ráðnir til verkanna.
Hvað sem því líður þá er rétt að halda sig við staðreyndir mála. Skuldaviðmið sveitarfélagsins fór í 156,6% í lok árs 2022 en var 147,4% árið 2023 og er nú 107,6% samkvæmt ársreikningi fyrir árið 2024. Skuldaviðmið skv. reglugerð sem er sett í þeim tilgangi að setja skýr viðmið um rekstur og fjárhagsstöðu sveitarfélaga, svo þau uppfylli kröfur um fjárhagslega sjálfbærni skv. sveitarstjórnarlögum.
Skuldahlutfallið sem reiknast sem heildarskuldir af reglulegum tekjum skal ekki vera hærra en 150% enda ef hlutfallið er umfram fyrrnefnt hámark til lengri tíma er rekstur sveitarfélaga ekki sjálfbær. Hinsvegar er vert að hafa í huga að á tímum mikilla fjárfestinga kann hlutfallið að kíkja tímabundið yfir hámarksviðmiðið en ef horfur eru á að tekjur aukist í náinni framtíð þá er mögulegt að réttlæta slíka ráðstöfun.
Hvað gerðist eiginlega í Árborg?
Er nú von að fólk spyrji sig þeirrar spurningar. Hvernig gat staða sveitarfélagsins farið úr því að vera ágæt, í hræðilega og aftur í ágæta á innan við einu kjörtímabili? Undirritaður ætlar að gera tilraun til að svara þessari ágætu spurningu.
Á síðasta kjörtímabili var fjárfest verulega í innviðum og íþróttaaðstöðu til handa íbúum sveitarfélagsins. Vel var í lagt til að mæta fyrirsjáanlegri þörf á innviðum vegna fólksfjölgunar og fyrirhugaðri fólksfjölgun. Núverandi meirihluti málaði upp svo dökka mynd af fjárhagsstöðunni að ritað var um bága fjárhagsstöðu í Málgagninu og öðrum fréttamiðlum eins og að sveitarfélagið væri nánast gjaldþrota. Með 156,6% skuldaviðmið. Er það mjög hæpin túlkun á alvarleika stöðunnar.
Nefna ber að lánveitendur héldu mjög að sér höndum í lánveitingum til sveitarfélagsins, svo mjög, að sveitarfélagið þurfti að glíma tímabundið við lausafjárkreppu. Má segja að lausafjárkreppa sveitarfélagsins hafi eingöngu verið meirihluta sjálfstæðismanna um að kenna því svo dökk mynd var á borð borin. Þessi atlaga sjálfstæðismanna að sveitarfélaginu hefur haft það í för með sér að lánakjör sem sveitarfélagið hefur þurft að una við hafa verið mun óhagstæðari en efni stóðu til um og má því segja að málflutningur þeirra hafi stórskaðað lánshæfismat sveitarfélagsins til lengri tíma.
Á undanförnum árum hefur sveitarfélagið því greitt hærri vexti en eðlilegt getur talist vegna lækkaðs lánshæfismats lánveitenda. Vert er að benda á að lánveitendur eru ekki einhverjar ónafngreindar verur. Lánveitendur eru venjulegt fólk úti í bæ sem les sömu fréttir og þú, lesandi góður, og verður fyrir sömu áhrifum og allir aðrir sem fylgja fréttum líðandi stundar. Því ber að tala um rekstur Sveitarfélagsins af yfirvegun en ekki léttúð.
Tilgangurinn helgar meðalið, allir áttu að fá það á tilfinninguna að rekstrarvandi sveitarfélagsins væri alvarlegur en nú væru sjálfstæðismenn komnir í verkið og það yrði lagað. Þó var það svo að þegar rætt var um leiðir benti núverandi meirihluti ávallt á ráðgjafa KPMG og firrtu sig allri ábyrgð á lausnunum. Þau væru einfaldlega að gera það sem sérfræðingarnir væru að leggja til. Hinsvegar ber einnig að nefna í samhengi við rekstraraðhald hjá sveitarfélaginu þá hafa starfsmenn Árborgar sýnt mikla þrautsegju og bera að þakka þeim fyrir einstakt framlag á kjörtímabilinu.
Reksturinn stökkbreytist með íbúafjölgun
Nú er svo komið að fréttir um andlát sveitarfélagsins hafa verið stórlega ýktar. Svo komst skáldið góða að orði um eigið andlát og má beita sömu kómík um málflutninginn sem að framan er rakin. Skuldaviðmið hefur lækkað niður í 107%. Rekstrartekjur hafa tvöfaldast á fjórum árum. Á árinu 2020 voru heildar rekstrartekjur Sveitarfélagsins 11.000 mkr. en voru 23.000 mkr. á árinu 2024. Hér er mismunur um 12.000 mkr. eða ríflega tvöföldun á fjórum árum. Eru breytingarnar núverandi meirihluta að þakka? Svarið er einfalt, nei. Hér er um að ræða breytingar vegna verulegrar aukningar á skattheimtu og vegna íbúafjölgunar. Til viðbótar, njótum við fjárfestinga sem ráðist var í á síðasta kjörtímabili því svigrúmið til að taka við fjölgun íbúa á núverandi kjörtímabili er mögulegt án verulegra fjárútláta.
Sjálfstæðismenn hafa á kjörtímabilinu staðið fyrir stóraukinni skattlagningu á íbúa og fyrirtæki í formi útsvarshækkunar, hækkunar á fasteignaskatti og gjaldskrám. Nefna ber að einskiptisgreiðslur sem sveitarfélaginu bárust á árinu 2024 voru aukaútsvar vegna tímabundinnar hækkunar, sem nam 1.200 mkr. og nam sala á byggingarétti í Björkurstykkinu svokallaða um 1.200 ma.kr. Samanlagt eru þessir skattar um 2.400 mkr. sem innheimtir voru á árinu 2024 í eitt skipti. Langtímaskuldir hafa jafnframt verið auknar um tæpar 1.900 mkr. á kjörtímabilinu, frá árinu 2022.
Byggingaréttargjaldinu hefur nú verið breytt á miðbæjarsvæði Selfoss til lækkunar og tekin hefur verið ákvörðun um að halda ekki áfram með innheimtu á viðbótarálagi á útsvar á núlíðandi ári. Enda er tæplega lagaheimild fyrir því.
Það má spyrja sig hvort slíkar íþyngjandi álögur fyrir íbúa hafi verið nauðsynlegar í ljósi stöðunnar nú eða hvað heldur þú lesandi góður?

Arnar Freyr Ólafsson, oddviti Framsóknar og bæjarfulltrúi í Árborg.
Greinin birtist fyrst á sunnlenska.is 28. apríl 2025.