Categories
Fréttir

Eldhúsdagur: Þórunn, Willum og Silja Dögg

Deila grein

02/07/2015

Eldhúsdagur: Þórunn, Willum og Silja Dögg

Í gær fóru fram eldhúsdagsumræður, almennar stjórnmálaumræður, á Alþingi. Ræðumenn Framsóknarflokksins voru í fyrstu umferð Þórunn Egilsdóttir, 8. þm. Norðausturkjördæmis, Willum Þór Þórsson, 5. þm. Suðvesturkjördæmis, í annarri og Silja Dögg Gunnarsdóttir, 3. þm. Suðurkjördæmis, í þriðju umferð.
ÞórunnÞórunn Egilsdóttir:
„Ágætu Íslendingar. Það er grundvallaratriði að við Íslendingar viljum skapa aðstæður fyrir blómlega byggð um allt land. Til þess þarf að huga að mörgu, bæði umgjörð og innviðum. Samgöngur og aðgangur að þjónustu og netsambandi eru þar okkar mikilvægustu verkefni. Vinna er nú hafin við undirbúning ljósleiðaratengingar allra heimila á landinu og tekin hafa verið mikilvæg skref í átt að jöfnun húshitunarkostnaðar um allt land. Á næstu þremur árum verður 112 milljörðum varið í samgönguverkefni og strax í ár verður 1.800 milljónum varið til brýnna verkefna í vegagerð.
Þótt samgöngur séu vissulega mikilvægur þáttur í samfélaginu krefst nútíminn þess að fólk geti litið á það sem raunhæfan möguleika að starfa hvar sem er á landinu og verið í góðu fjarskiptasambandi. Það vitum við öll sem búum á landsbyggðinni að jafnrétti verður að nást í þessum málum. Það er mikilvægt fjölskyldunnar vegna, heimilanna, atvinnulífsins og þjóðarinnar allrar. Innviðir verða að vera traustir svo byggja megi áfram blómlega byggð um land allt, til sjávar og sveita.
Örugg netsamband skýtur stoðum undir það að skólar geti haft meiri samvinnu, fundir geti átt sér stað án kostnaðarsamra ferðalaga, bændur og aðrir atvinnurekendur geti sinnt vinnu sinni og skyldum. Nefna má ótal margt sem hangir á spýtunni, en hér vil ég líka nefna fjarheilbrigðisþjónustu, mál sem var til umfjöllunar á Alþingi í dag.“
VilllumWillum Þór Þórsson:
„Heimilin eru undirstaða og drifkraftur efnahagslífsins og ríkisstjórnin setti heimilin í forgang. Skuldsett hagkerfi er þunglamalegt og því var lagt upp með að vinna sérstaklega á skuldum heimila og ríkissjóðs en leggja ávallt áherslu á efnahagslegan stöðugleika.
Við skulum nú meta árangurinn á grundvelli markmiða sem er að finna í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks.

  1. Koma jafnvægi á ríkisfjármálin. Hvers vegna? Ná niður skuldum ríkissjóðs, lækka vaxtagreiðslur og vinna að stöðugleika.
  2. Ná niður skuldum heimila. Til hvers? Til að auka ráðstöfunargetu þeirra.
  3. Aðgerðaáætlun til að losa um fjármagnshöftin. Til hvers? Freista þess að leysa viðkvæma stöðu þjóðarbúsins og þann greiðslujafnaðarvanda sem steðjar að okkur.

Hvert er stöðumatið nú þegar við metum þetta hér á hálfnuðu kjörtímabili, í hálfnuðum kappleik, og skoðum hvernig til hefur tekist?

Snúum okkur að lækkun skulda heimilanna. Það var sett í hefðbundið stefnumótunarferli þegar ríkisstjórnin tók hér við stjórnartaumunum. 18 mánuðum síðar hafa 57 þús. heimili fengið lækkun á höfuðstól húsnæðislána og 34 þús. einstaklingar sóttu um séreignarsparnaðarleiðina og geta ýmist nýtt þann sparnað án skattgreiðslu til niðurgreiðslu höfuðstóls verðtryggðra húsnæðislána eða sparað til íbúðakaupa. Þau heimili sem ekki voru lengur með eftirstöðvar húsnæðislána en áttu rétt á lækkun fengu sérstakan persónuafslátt sem nýtist næstu fjögur árin. Saman virkuðu þessar tvær leiðir, skuldaniðurfellingin og séreignarsparnaðarleiðin, vel á efnahagslífið þar sem þær vega hvor aðra upp. Þegar ráðstöfunargeta heimilanna eykst virkar einkasparnaðurinn sem dempari á móti.
Skuldir heimilanna hafa því lækkað hratt, hraðar en í nágrannalöndum okkar, og eru nú til jafns við það sem þær voru árið 2004. Erum við að uppfylla þessi markmið? Já, kæru landsmenn. Það að ná tökum á ríkisfjármálunum og framkvæma skuldaleiðréttingu þegar á fyrri hluta kjörtímabilsins er sannarlega mælanlegur árangur, árangur í formi þess að uppfylla loforð og tengd markmið.“
Silja-Dogg-mynd01-vefSilja Dögg Gunnarsdóttir:
„Góðir Íslendingar. Óveðursskýin yfir landinu eru á hröðu undanhaldi. Það glittir víða í heiðan himin og sólargeislar eiga greiðari aðgang að landinu en áður. Aðgerðaáætlun um afnám hafta er einn af þessum sólargeislum. Almenn ánægja ríkið með áætlunina. Aðgerðirnar eru forsenda þess að hægt sé að afnema fjármagnshöft og fjármunir sem myndast vegna stöðugleikaskilyrða eða skatts verða nýttir til að greiða niður skuldir ríkissjóðs sem kemur okkur öllum til góða.
Uppbygging heilbrigðiskerfisins er annað stórverkefni sem ríkisstjórnin hefur lagt ríka áherslu á. Ríkisframlög til Landspítalans hafa aldrei verið hærri og árlegt fé til tækjakaupa á Landspítalanum hefur fimmfaldast frá árinu 2012. Framlög til annarra heilbrigðisstofnana hafa einnig verið aukin. Sóknin er hafin.
Endurskoðun á almannatryggingakerfinu stendur yfir og er komin langt á veg. Verðbólgan hefur verið lítil sem engin um langt skeið og kaupmáttur launa mælist nú hærri en nokkru sinni fyrr. Samkvæmt nýlegri skýrslu Velferðarvaktarinnar er Ísland nú með þriðja mesta jöfnuð í tekjuskiptingu og minnsta fátækt af þjóðum OECD. Höfum það í huga.
Kæru landsmenn. Þrátt fyrir allt pólitískt karp held ég að við getum öll verið sammála um að árangur ríkisstjórnarinnar er bara nokkuð góður þegar horft er á heildarmyndina. Þrátt fyrir ágætt ástand eigum við þó að sækja fram af enn meiri krafti til að skapa réttlátara samfélag og gera það án þess að veikja hvatann til að vinna og skapa ný verðmæti.“

Categories
Greinar

Markmið leiðréttingarinnar náðust að fullu

Deila grein

01/07/2015

Markmið leiðréttingarinnar náðust að fullu

Sigmundur-davíðÍ skýrslu fjármála- og efnahagsráðherra um niðurfærslu verðtryggðra fasteignalána sést svart á hvítu hversu vel hefur tekist til við leiðréttinguna. Hvert orð sem sagt var um leiðréttinguna hefur staðið eins og stafur á bók. Hvert skref var í samræmi við áætlun. Ástæða er til að þakka þeim stóra hópi sem gerði þetta verkefni að veruleika.

Leiðréttingin kemur til af forsendubresti og varð að helsta kosningamáli alþingiskosninga árið 2013 eins og flestir muna. Þeir sem urðu fyrir tjóni vegna ófyrirséðrar hækkunar á höfuðstól verðtryggðra húsnæðislána fá tjónið bætt, óháð „stétt eða stöðu“. Fyrir þessari aðgerð eru 1) réttlætisrök – almenningur varð fyrir forsendubresti og sértækar aðgerðir skiluðu takmörkuðum árangri, 2) jafnræðisrök – lánaform á ekki að ákvarða örlög heimila, 3) sanngirnisrök – tjón almennings af bankahruninu var verulegt og 4) efnahagsleg rök – há skuldsetning heimila dregur úr krafti efnahagslífsins.

Leiðréttingin byggir á samspili beinnar niðurfærslu höfuðstóls og skattleysis séreignarsparnaðar til lækkunar höfuðstóls húsnæðislána. Þeir sem nýta báða liði leiðréttingarinnar geta lækkað húsnæðisskuldir sínar um rúmlega 20%.

Leiðréttingin leiðir einnig til tekjujöfnuðar enda kemur hún hlutfallslega langbest út fyrir þá tekjulægri. Hún líkist mest krónutöluhækkunum í kjarasamningum. Leiðrétting þeirra 10% sem lægstar hafa tekjurnar nemur rúmlega 60% af árstekjum þeirra en um 8% hjá þeim 10% sem hæstar hafa tekjurnar. Dreifing leiðréttingarinnar eftir tekjum er til muna jafnari en dreifing fyrri úrræða, svo sem 110% leiðarinnar.

Fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna, hvort heldur þeir tjá sig á þingi eða á leiðarasíðu Fréttablaðsins, eiga erfitt með að sætta sig við velheppnaða leiðréttingu. Tveir hinna herskárri skrifa um málið á síðunni í gær. Stjórnarandstöðudálkurinn „Frá degi til dags“ heldur fram þeim hreinu ósannindum að leiðréttingin renni að mestu til hátekjufólks (raunin er þveröfug -ólíkt 110% leiðinni) og í leiðara er fullyrt að fjármagn til leiðréttingarinnar hafi ekki verið sótt til kröfuhafa eins og lofað hafði verið. Hvernig menn geta fengið þetta út er mér hulin ráðgáta. Bankaskattur á slitabú fallinna fjármálafyrirtækja var lagður á til að brúa það bil í tíma sem yrði á milli lausnar á vanda þjóðarbúsins vegna slitabúa bankanna og leiðréttingarinnar. Nú liggur hins vegar fyrir að svigrúmið, sem margir töldu fyrir kosningar að væru sjónhverfingar einar, er meira en fyrirheit voru gefin um fyrir kosningar. Það liggur líka fyrir að það var miklu meira en nóg til að standa undir lækkun skulda heimilanna, rétt eins og lofað var fyrir kosningar.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson

Greinin birtist í Fréttablaðinu 1. júní 2015.

Categories
Greinar

Fjögur skref til farsældar

Deila grein

29/06/2015

Fjögur skref til farsældar

Sigrún Magnúsdóttir_001Íslenska þjóðin varð fyrir stóráfalli haustið 2008. Það viðskiptaumhverfi sem skapaðist með aðild Íslendinga að Evrópska efnahagssvæðinu, þar sem fjármagnsflutningar milli landa voru algjörlega frjálsir, varð meðal annars til þess að íslenska bankakerfið stækkaði mjög ört og efnahagsreikningar bankanna samsvöruðu tífaldri landsframleiðslu. Ljóst var að stjórnvöld gátu ekki bjargað bankakerfinu vegna stærðar þess og þeirrar áhættu sem í því fólst fyrir ríkissjóð Íslands. Aðvaranir, meðal annars seðlabankastjóra, voru hafðar að engu og því fór sem fór og heimilunum í landinu, fyrirtækjunum og ríkissjóði var steypt í botnlausar skuldir. Í framhaldi beitti forsætisráðherra sér fyrir setningu neyðarlaganna sem öðluðust gildi 6. október 2008. Neyðarlögin gerðu ríkinu kleift að ráðast í aðgerðir og gæta hagsmuna íslensku þjóðarinnar.

Icesave, skref tvö
Bretar skelltu hins vegar á okkur hryðjuverkalögum og ásamt Hollendingum kröfðu okkur um of fjár vegna skuldbindinga sem til var stofnað af einkabönkum. Ef orðið hefði verið við kröfu þeirra hefðu Íslendingum verið bundnar óbærilegar byrðar til framtíðar. Ógæfu Íslands varð þó ekki allt að vopni. Hópur Íslendinga í Bretlandi snerist til varnar og hélt á lofti rétti og hagsmunum Íslands. Ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna reyndi ítrekað að verða við kröfum Breta og Hollendinga og samþykktu lög þar að lútandi, þrátt fyrir eindregna andstöðu framsóknarmanna undir einbeittri forystu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Forseti Íslands vísaði í tvígang lögum um Icesave í þjóðaratkvæðagreiðslu sem þjóðin felldi, í framhaldinu unnu Íslendingar fullan sigur fyrir erlendum dómstól.

Skuldalækkun heimilanna, þriðja skrefið
Framsóknarmenn gengu til kosninga 2013 með það fyrirheit að vinna á veðskuldum heimila sem stofnað var til vegna fasteignakaupa. Góður sigur vannst og Sigmundur Davíð myndaði ríkisstjórn. Í samstarfi við sjálfstæðismenn voru fasteignaveðskuldir heimilanna færðar niður, umfram 4,8% árlega verðbólgu. Lækkunin er varanleg og árleg greiðslubyrði léttist sem því nemur. Þetta var gert þrátt fyrir hávær mótmæli stjórnarandstöðu, en framsóknarmenn standa við orð sín.

Afnám gjaldeyrishafta, fjórða skrefið
Fjármagnshöft voru sett á í framhaldi af neyðarlögunum 2008 vegna þess fjármálaútstreymis sem var mögulega í vændum í kjölfar fjármálaáfallsins. Það var fyrirheit framsóknarmanna að leysa þann vanda á þann hátt að hagsmunir íslensku þjóðarinnar yrðu varðir við losun fjármagnshafta. Efst á blaði var að varðveita efnahagslegan stöðugleika. Sigmundur Davíð stóð í lappirnar eins og hann er vanur og í góðri samvinnu við formann samstarfsflokksins, Bjarna Benediktsson, hefur þeim tekist, ásamt hópi snjallra samstarfsmanna, að búa svo um hnútana að allar horfur eru á því að með skipulögðum aðgerðum verði hægt að minnka verulega skuldir þjóðarbúsins og lækka þar með árlega vaxtabyrði um marga tugi milljarða. Afnám fjármagnshafta er mikilvægasta hagsmunamál þjóðarinnar.

Það hagsmunamál er að leysast farsællega.

Sigrún Magnúsdóttir

Greinin birtist í Morgunblaðinu  26. júní 2015.

Categories
Greinar

Ísland og Noregur verma bestu sætin

Deila grein

29/06/2015

Ísland og Noregur verma bestu sætin

Elsa-Lara-mynd01-vefurÞessa dagana reyna forystumenn nokkurra flokka að telja almenningi trú um að hér á landi ríki ójöfnuður og halda því fram að ójöfnuður hafi aukist í tíð núverandi ríkisstjórnar. Þessar fullyrðingar forystumannanna eru rangar. Það rétta er að ójöfnuður hefur ekki aukist, hann hefur minnkað í stjórnartíð ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Einhver vill halda því fram að þeir tekjuhærri hafi lækkað í launum og því hafi jöfnuður í samfélaginu aukist. En það er ekki raunin. Þeir sem hafa lágar tekjur og millitekjur, hafa hækkað í launum og þeir sem hærri hafa tekjurnar hafa staðið í stað.

Dreifing tekna jafnari en áður
Ofangreindar upplýsingar eru settar fram á greinargóðan hátt á heimasíðu Hagstofunnar (www.hagstofan.is). Þær koma fram í frétt sem birtist þann 5. júní sl. undir yfirskriftinni „Dreifing tekna jafnari en áður“. Í greininni segir: „Árið 2014 dreifðust tekjur á Íslandi jafnar milli fólks en áður hefur sést í lífskjararannsókn Hagstofunnar en hún var fyrst framkvæmd árið 2004“. Þar kemur einnig fram að árið 2013 hafi Ísland verið með næst lægsta Gini- og fimmtungastuðulinn í Evrópu á eftir Noregi. Þessar tölur sýna að Noregur er með eilítið meiri jöfnuð en Ísland þegar Evrópulönd eru skoðuð, en við vermum annað sæti í þessum alþjóðlega samanburði. Samanburðurinn er frá árinu 2013 og þær tölur sem vitnað er í eru þær nýjustu er varða þetta efni.

Ísland kemur best út
Í frétt Hagstofunnar segir jafnframt: „Árið 2014 voru 11,1% á Íslandi undir lágtekjumörkum eða í hættu á félagslegri einangrun en það er lægsta hlutfall sem mælst hefur í lífskjararannsókninni. Eitt af fimm lykilmarkmiðum 2020 áætlunar ESB er að fækka þeim sem falla í þennan hóp en það eru einstaklingar sem eru undir lágtekjumörkum, búa við verulegan skort á efnislegum gæðum eða búa á heimilum þar sem vinnuþátttaka er mjög lítil. Árið 2013 var þetta hlutfall lægst á Íslandi en næst komu Noregur, Tékkland og Holland.“ Af þessu má sjá að í þessum samanburði kemur Ísland best út, en Noregur næst best. Ísland og Noregur skiptast því á um að verma fyrsta og annað sætið í ofangreindum samanburði.

Við framsóknarmenn erum stoltir af þessum árangri. Hann hefur ekki einungis náðst vegna góðra ákvarðana sem teknar hafa verið á síðustu tveimur árum, heldur eiga aðrir flokkar, sem leitt hafa samfélag okkar, einnig sinn skerf í honum. Reynum að sýna sanngirni í málflutningi. Við getum sameiginlega verið stolt af því að búa í landi þar sem jöfnuður er með því mesta sem þekkist.

Elsa Lára Arnardóttir

Greinin birtist í Fréttablaðinu 26. júní 2015.

Categories
Fréttir

Vinnustaðurinn Alþingi

Deila grein

24/06/2015

Vinnustaðurinn Alþingi

ÞórunnÞórunn Egilsdóttir, alþingismaður, ræddi vinnustaðinn Alþingi í störfum þingsins í gær.
„Á bak við hvern þingmann er fólk sem hefur trú á honum og því sem hann hefur fram að færa. Það er staðreynd sem við þurfum að bera virðingu fyrir. Ég reikna fastlega með því að hvert og eitt okkar sé hér með það að leiðarljósi að vinna landi og þjóð gagn. En það er ekki alltaf augljóst þeim sem fylgjast með störfum okkar og landsmenn hafa ýmsar skoðanir á því. Það hef ég líka en er þess þó fullmeðvituð að ég hef ekki umboð til að ala aðra upp eða segja þeim til um framkomu og samskipti.“
„Ég vil þó deila þeim hugsunum með ykkur að margt sem fram fer hér í þessum sal mundi ég aldrei líða í kennslustofu. Einhvers staðar virðist sumum hafa verið úthlutað leyfi til að láta flest vaða sem þeim dettur í hug, hömlulaust að því er mér virðist. Ég veit ekki hvar slík leyfi fást og langar ekki til að afla mér þeirra,“ sagði Þórunn.
„Mig langar enn og aftur til að gera orð Páls heitins Skúlasonar að lokaorðum mínum, með leyfi forseta:
„Forsenda þess að bæta heiminn er að takast á við spillinguna í sjálfum sér, það að vera manneskja er að reyna að bæta sjálfan sig.“,“ sagði Þórunn að lokum.

Categories
Fréttir

„Nýtt“ merki Framsóknar

Deila grein

23/06/2015

„Nýtt“ merki Framsóknar

logo-lfk-gluggiMorgunblaðið hafði samband við skrifstofu Framsóknar og spurðist fyrir um „nýtt“ merki Framsóknar á Facebook.
Því er til að svara að 19. júní s.l. var merki Framsóknarflokksins skipt út fyrir merki Landssambands Framsóknarkvenna (LFK) í prófílmynd á Facebook. En LFK hefur staðið fyrir öflugu flokksstarfi frá stofnun þess 1981 og var viðeigandi að heiðra starf þeirra með merkinu síðustu daga fyrir flokkinn.
Merkið var hannað í tilefni af 15 ára afmælis LFK og 80 ára afmælis Framsóknarflokksins 1996. Hönnuður merkis LFK er Sigríður Ólafsdóttir. Hringurinn, tákn óendaleikans, merkir stöðuga endurnýjun og órjúfanlega heild fjölskyldunnar sem myndar hornstein fjölskyldunnar. Tvíbrot bókstarfsins „F“ myndar stöpla hringleikans og endurvarpar stöðugleika og festu í grunni. Sem heild gefur samtvinnað form bókstarfsins og hrings yfirbragð hins alþjóðlega merki kvenna, merki venusar.
Gott að halda þessu öllu til haga áður en aðrir fjölmiðlar en Morgunblaðið skyldu fara að spyrja sig spurninga.
Framsóknarflokkurinn hefur ekki skipt um merki.

Categories
Fréttir

Jafnréttissjóður Íslands ver 500 milljónum króna til aukins jafnréttis

Deila grein

22/06/2015

Jafnréttissjóður Íslands ver 500 milljónum króna til aukins jafnréttis

Síðastliðinn föstudag var haldinn á Alþingi hátíðarfundur í tilefni 100 ára kosningaréttarafmælis kvenna á Íslandi. Á fundinum var samþykkt, í tilefni tímamótanna, að stofna Jafnréttissjóð Íslands sem njóti framlaga af fjárlögum næstu fimm ár, 2016–2020, 100 millj. kr. á ári. Jafnréttissjóður Íslands mun styrkja verkefni sem auka jafnrétti kynjanna. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, flutti tillöguna í félagi við alla aðra forystumenn flokkanna sem eiga sæti á Alþingi. Hér er tillagan sem samþykkt var í heild sinni, https://www.althingi.is/altext/144/s/1456.html
Fundinn sóttu m.a. nokkrar hressar konur í Framsókn sem hafa tekið sæti á Alþingi.
IMG_6164
Fyrrverandi og núverandi þingkonur þingflokks framsóknarmanna 19. júní 2015 – 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna.
Efri röð frá vinstri: Fjóla Hrund Björnsdóttir, Vigdís Hauksdóttir, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Dagný Jónsdóttir, Sæunn Stefánsdóttir, Líneik Anna Sævarsdóttir, Jóhanna María Sigmundsdóttir, Anna María Elíasdóttir, Eygló Harðardóttir og Elsa Lára Arnardóttir.
Neðri röð frá vinstri: Siv Friðleifsdóttir, Þórunn Egilsdóttir, Sigrún Magnúsdóttir og Valgerður Sverrisdóttir.

Categories
Fréttir

Jafnréttissjóður Íslands ver 500 milljónum króna til aukins jafnréttis

Deila grein

22/06/2015

Jafnréttissjóður Íslands ver 500 milljónum króna til aukins jafnréttis

Síðastliðinn föstudag var haldinn á Alþingi hátíðarfundur í tilefni 100 ára kosningaréttarafmælis kvenna á Íslandi. Á fundinum var samþykkt, í tilefni tímamótanna, að stofna Jafnréttissjóð Íslands sem njóti framlaga af fjárlögum næstu fimm ár, 2016–2020, 100 millj. kr. á ári. Jafnréttissjóður Íslands mun styrkja verkefni sem auka jafnrétti kynjanna. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, flutti tillöguna í félagi við alla aðra forystumenn flokkanna sem eiga sæti á Alþingi. Hér er tillagan sem samþykkt var í heild sinni, https://www.althingi.is/altext/144/s/1456.html
Fundinn sóttu m.a. nokkrar hressar konur í Framsókn sem hafa tekið sæti á Alþingi.
IMG_6164
Fyrrverandi og núverandi þingkonur þingflokks framsóknarmanna 19. júní 2015 – 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna.
Efri röð frá vinstri: Fjóla Hrund Björnsdóttir, Vigdís Hauksdóttir, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Dagný Jónsdóttir, Sæunn Stefánsdóttir, Líneik Anna Sævarsdóttir, Jóhanna María Sigmundsdóttir, Anna María Elíasdóttir, Eygló Harðardóttir og Elsa Lára Arnardóttir.
Neðri röð frá vinstri: Siv Friðleifsdóttir, Þórunn Egilsdóttir, Sigrún Magnúsdóttir og Valgerður Sverrisdóttir.

Categories
Greinar

Til hamingju með tímamótin Íslendingar

Deila grein

21/06/2015

Til hamingju með tímamótin Íslendingar

líneikÞann 19. júní 2015 voru 100 ár liðin frá því að íslenskar konur fengu fyrst kosningarétt til Alþings, en það ár fengu konur og stór hópur karlmanna 40 ára og eldri kosningarétt.  Fyrst fékk kosningarétt til Alþingis tiltekinn hópur karla árið 1843 en þessi hópur var aðeins um 2% landsmanna.  Rétturinn rýmkaðist síðan smátt og smátt og árið 1984 var rétturinn færður niður í 18 ár og þá fyrst var fullu jafnrétti allra fullorðinna Íslendinga náð, hvað kosningarétt varðar.

Á þessum 100 árum sem liðin eru hefur margt áunnist varðandi jafnrétti á Íslandi og nú er staðan sú að Ísland mælist fremst á ýmsum alþjóðlegum mælikvörðum varðandi jafnrétti kynjanna.  Þrátt fyrir sókn kvenna á öllum sviðum og meiri atvinnuþátttöku kvenna en víðast annars staðar hefur kynbundnu misrétti ekki verið eytt á Íslandi.

Í mínu starfi sem þingmaður hef ég nokkrum sinnum fengið tækifæri til að taka á móti erlendum gestum sem gagngert eru komnir hingað til lands til að kynna sér hvernig unnið hefur verið að  vaxandi jafnrétti kynjanna hér á landi, hvaða skref hafa skipt sköpum og hvaða verkefni eru fyrirliggjandi. Samskiptin við gestina hafa kennt mér að meta enn betur þann árangur sem við höfum náð og hversu mikilvæg fjölbreytt vinna stjórnamálamanna, stofnanna, áhugasamtaka og einstaklinga er á þessu sviði.

Staðan hér á landi leggur okkur íbúum Íslands þær skyldur á herðar að miðla þeim aðferðum og lausnum sem við höfum notað til að ná árangri og jafnframt að læra af því sem vel er gert annars staðar í heiminum.  Það er líka skylda okkar að halda ótrauð áfram í átt að frekara jafnrétti kynjanna því enn er ofmargt óunnið bæði hér á landi og annars staðar.

Skrefin eru ótal mörg, að baki tímamótaatburði er oft margra ára vinna og barátta sem okkur hættir til að gleyma þegar réttindin sem áunnist hafa eru orðin sjálfsögð.  Nefna má að áður en konur fengu kosningarétt hafði undirskriftum verið safnað a.m.k þrisvar sinnum til að krefjast kosningaréttar og mikil og oft erfið umræða farið fram.  Fyrsta konan var svo kjörin á þing 1922.  Kvennafrídagurinn 1975 markaði tímamót og var mikil hvatning fyrir þær konur sem þá stóðu framarlega í kvennabaráttunni, en hafði líka áhrif á okkur sem vorum að vaxa úr grasi.  Kvennafrídagurinn hefur alltaf verið mér áminning um að hægt er að vera þátttakandi í baráttunni á marga vegu, því þennan dag tók móðir mín sér frí og fór í langa gönguferð meðan kynstystur hennar í höfuðborginni funduðu, hún lét fjarlægðina og einangrunina í sveitinni ekki hindra sig í að sína samstöðu.   Vigdís Finnbogadóttir fyrsti lýðræðislega kjörni kvenforsetinn er sennilega sú sem flestar íslenskar konur líta til sem fyrirmyndar í jafnréttisbaráttunni og reyndar konur víða um heim.   Af tímamóta skrefum síðustu ára má svo nefna fæðingarorlofslögin frá árinu 2000 og lögin um kynjahlutfall í stjórnum fyrirtækja sem tóku gildi 2013.

Enn eru miklar áskoranirnar á leiðinni til jafnréttis, jafna þarf launamun kynjanna og kynjaskipting starfa á vinnumarkaði er alltof mikil.  Sérstaklega þurfum við að taka okkur á við að opna hefðbundin kvennastörf fyrir körlum, því karlar eiga líka rétt á störfum þar sem þeir geta miðlað ást og umhyggju.  Þá er verk að vinna við að koma í veg fyrir kynbundið ofbeldi og heimilisofbeldi.  Það er líka mikilvægt að meta á hvaða hátt aukið jafnrétti kynjanna hefur stuðlað að framförum í íslensku samfélagi, s.s. aukinni velferð og efnahagslegum umbótum á síðustu 100 árum.

Það er því fagnaðarefni að í tilefni dagsins samþykkti Alþingi þingsályktun allra flokka um Jafnréttissjóð Íslands sem njóti framlaga af fjárlögum næstu fimm ár, 2016–2020, 100 millj. kr. á ári og sem ætlað er að styrkja verkefni sem auka jafnrétti kynjanna.

Aðgerðir stjórnvalda skipta vissulega máli en rökræðan og viðhorfsbreytingin sem fram fer í samskiptum einstaklinga er ekki síður mikilvæg, s.s. netumræða síðustu vikna um kynferðisofbeldi #þöggun,  #konurtala, kynjamisrétti í hversdagsleikanum  #6dagsleikinn og brjóstabyltingin #freethenipple.  Án einstaklinga sem tilbúnir eru að berjast fyrir mikilvægum hugsjónum og taka á sig ágjöfina sem því fylgir, komumst við ekkert áfram.

Líneik Anna Sævarsdóttir

Greinin birtist á akureyri.net 19. júní 2015.

Categories
Greinar

Kosningaréttur kvenna í 100 ár

Deila grein

20/06/2015

Kosningaréttur kvenna í 100 ár

EÞHTil hamingju með kvenréttindadaginn, kæru landsmenn. Í dag ber að hugsa til allra þeirra kvenna sem áratugum saman beittu sér fyrir kosningarétti kvenna til Alþingis og karlanna sem studdu þær og greiddu að lokum atkvæði með því að veita konum þessi sjálfsögðu réttindi.

Það er merkilegt til þess að hugsa að okkar fámenna og fátæka Ísland var meðal fyrstu landa í Evrópu til að veita konum kosningarétt, fyrst til sveitarstjórna og síðan til Alþingis. Kosningaréttinum var fagnað á Austurvelli 7. júlí 1915 í skínandi sólskini, stafalogni og með gleðibrag á öllum andlitum eins og sagði í Kvennablaðinu. Bríet Bjarnhéðinsdóttir hélt ræðu og sagði m.a.: „Vér heilsum glaðar framtíðinni, þar sem karlar og konur vinna í bróðerni saman að öllum landsmálum, bæði á heimilunum og á alþingi.“

Ógrynni vatns er til sjávar runnið frá því að Bríet mælti þessi orð. Ísland trónir í efsta sæti þjóða þar sem kynjamunur er minnstur í heiminum og hefur vermt það sæti í heil sex ár. Það tók þó langan tíma að auka hlut kvenna í stjórnmálum. Hindranir voru fleiri en kvenréttindakonurnar höfðu reiknað með.

Þegar við nú metum stöðu kynjajafnréttis hér á landi er augljóst að við höfum náð gríðarlegum árangri á sviði stjórnmálanna. Hlutur kvenna er 40% á Alþingi og 44% í sveitarstjórnum sem er góður árangur en við getum enn gert betur. Á þeim 100 árum sem liðin eru frá því að konur fengu kosningaréttinn höfum við einnig stigið stór skref hvað varðar jafnrétti til menntunar, atvinnu og heilbrigðis. Þegar konur söfnuðust saman á Austurvelli fyrir réttum 100 árum var mæðra- og barnadauði enn mikill og berklar herjuðu á landsmenn. Heilbrigðisþjónusta var byggð upp, ekki síst að frumkvæði kvenna en það var ekki fyrr en með batnandi efnahag og nýju kvennahreyfingunni sem konur fóru að mennta sig í ríkum mæli.

Enn kynbundinn launamunur
Þrátt fyrir sókn kvenna á öllum sviðum og meiri atvinnuþátttöku kvenna en víðast annars staðar hefur kynbundnu misrétti ekki verið eytt. Hér mælist enn kynbundinn launamunur þrátt fyrir aðgerðir og áróður til að útrýma honum. Enn er glímt við rótgrónar staðalímyndir um hlutverk kynjanna sem valda afar kynskiptum vinnumarkaði með svokölluðum kvenna- og karlastörfum sem stuðlar að og ýtir undir launamun. Konur vinna frekar hjá hinu opinbera við kennslu, umönnun og þjónustu en karlar á almenna vinnumarkaðnum í iðngreinum og fjármálaþjónustu. Karlar móta svo að miklu leyti vinnumarkaðsstefnuna og í stjórnum fyrirtækja eru karlar enn í miklum meirihluta, þrátt fyrir ákvæði laga um kynjakvóta og niðurstöður rannsókna sem sýna að ímynd fyrirtækja, vinnuandi og árangur verður betri þar sem konur og karlar vinna saman.

Á þessu merka afmælisári blasir við að enn er mikið verk að vinna til að tryggja jafnrétti kynjanna. Sverjum þess eið að gera enn betur, ekki á næstu 100 árum heldur strax. Unga fólkið og komandi kynslóðir eiga það skilið að við gerum framtíðardrauma formæðra okkar að veruleika.

Eygló Harðardóttir

Greinin birtist í Fréttablaðinu 19. júní 2015.