Categories
Fréttir

Áhersla á hlut kvenna í orkugeiranum

Deila grein

20/01/2016

Áhersla á hlut kvenna í orkugeiranum

GBSGunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra ávarpaði í dag jafnréttisráðstefnu WiSER (Women in Sustainability, Environment and Renewable Energy) sem er liður í dagskrá sjálfbæru orkuvikunnar sem nú stendur yfir í Abu Dhabí. Í máli sínu fór ráðherra yfir hlut kvenna í orkugeiranum og mikilvægi þess að berjast gegn staðalímyndum.
Gunnar Bragi greindi frá Rakarastofunni sem haldin var í New York á síðasta ári þar sem karlmenn eru hvattir til að láta sig jafnréttismálin varða og vinna gegn hvers konar mismunum kynja. Sagði ráðherra mikil ónýtt tækifæri felast í aukinni þátttöku kvenna í orkuöflun og aðgengi, sem væri fullur réttur þeirra og, þess utan, efnahagslega skynsamlegt.
Að endingu vakti Gunnar Bragi athygli á HeForShe átaki UN Women sem Ísland hefur dyggilega stutt og hvatti alla karlmenn til að styðja átakið. Þá boðaði Gunnar Bragi fyrr í vikunni til morgunverðarfundar um jafnréttismál og kynnti þar hugtakið að baki Rakarastofunni og erindi þess í orkumálum.
Fyrr í vikunni tók utanríkisráðherra einnig þátt í opnunarathöfn sjálfbæru orkuvikunnar þar sem, meðal annars, veitt voru nýsköpunarverðlaun í sjálfbærri orkunýtingu, en forseti Íslands, hr. Ólafur Ragnar Grímsson, var meðal heiðursgesta og fulltrúa í dómnefnd. Meðal ræðumanna voru forseti Mexíkó og aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna.
Ávarp Gunnars Braga á jafnréttisráðstefnunni.

Categories
Greinar

Veikasti hlekkurinn?

Deila grein

15/01/2016

Veikasti hlekkurinn?

Silja-Dogg-mynd01-vefMeð innlimun á Krímskaga braut Rússland gróflega gegn friðhelgi landamæra Úkraínu og alþjóðalögum, sem ekki á sér hliðstæðu í Evrópu frá lokum síðari heimsstyrjaldar. Eftirleikurinn er öllum ljós og ekkert í stöðunni sem kallar á endurmat vestrænna ríkja í þvingunaraðgerðum sínum gagnvart Rússlandi.

Samstaða nauðsynleg

Það er eðli þvingunaraðgerða að ná ekki markmiðum sínum nema mörg ríki standi að þeim sameiginlega. Í þessu tilfelli standa auk Bandaríkjanna, Evrópusambandsins, EES og EFTA-ríkjanna, aðildarríki Atlantshafsbandalagsins, Ástralía og Nýja-Sjáland saman. Framan af snerust þær um takmarkanir á ferðafrelsi tiltekinna einstaklinga og frystingu fjármuna þeirra og tiltekinna fyrirtækja. Eftir að malasíska farþegaþotan var skotin niður yfir Úkraínu í júlí 2014 var hert á aðgerðunum og þær ítrekað framlengdar.

Ákvörðun Rússa vonbrigði

Vandinn sem íslensk stjórnvöld standa frammi fyrir liggur ekki okkar megin, heldur í breyttri afstöðu Rússa sem beina nú sjónum að minnstu ríkjunum sem standa að þessum aðgerðum, væntanlega í von um að finna veikan hlekk og rjúfa samstöðuna. Frá því að Úkraínudeilan hófst hefur Ísland ítrekað talað fyrir virku samtali við Rússland. Við höfum stutt þær aðgerðir sem líklegar eru til sátta og höfum ekki hikað við að gagnrýna báða aðila átakanna þegar svo ber  undir. Samskipti okkar við Rússa hafa einkennst af virðingu og hófsemd, nú sem endranær. Það eru því gríðarleg vonbrigði að rússnesk yfirvöld ákváðu að bæta Íslendingum á lista yfir lönd sem sættu innflutningsbanni á matvælum. Slíkt bann er úr öllu samræmi við þær aðgerðir sem Rússar eru beittir af hálfu okkar og annarra þjóða en það hefur beinst gegn litlum hópi einstaklinga og viðskiptum tengdum hergagnaframleiðslu. Það dylst engum að innflutningsbann Rússa kemur hins vegar mjög illa niður á íslenskum sjávarútvegi og matvælaframleiðendum og einstökum byggðarlögum. Þau mál verður að skoða sérstaklega og ráðamenn hafa lýst sig reiðubúna til þess.

Nýjir markaðir

Íslensk stjórnvöld hafa gert sitt ítrasta til að koma í veg fyrir að bannið; ráðamenn hafa ritað  bréf til rússneskra starfsbræðra og embættismenn hafa átt fundi með Rússum til að útskýra stöðu okkar. Í kjölfar ákvörðunar Rússa kom utanríkisþjónustan á framfæri hörðum mótmælum á framfæri við þá. Samtímis hefur ráðuneytið lýst sig reiðubúið til samstarfs við útflytjendur um sókn á nýja markaði.

Utanríkisstefna Íslendinga

Ísland á mikið undir því að ríki hafi alþjóðalög í heiðri og fari friðsamlega fram í alþjóðasamskiptum. Þverpólitísk sátt hefur ríkt um stefnu stjórnvalda í málefnum Úkraínu og þvingunaraðgerðum gagnvart Rússlandi sem er þýðingarmikið í slíku grundvallarmáli sem Úkraínudeilan er. Ríkisstjórnin telur brýnt að stjórnvöld sýni áfram fulla samstöðu með öðrum vestrænum ríkjum og haldi uppi þrýstingi á rússnesk stjórnvöld. Það væri raunar mikill ábyrgðarhluti að rjúfa slíka samstöðu. Breyting á okkar afstöðu væri kúvending á áratugalangri stefnu Íslands í utanríkismálum, og yrði ekki nema að undangenginni ítarlegri umræðu á vettvangi íslenskra stjórnmála þar sem öllum steinum yrði velt við. Hún myndi í grunninn snúast um spurninguna:  Viljum við vera veikasti hlekkurinn í samstöðu vestrænna ríkja um að verja alþjóðalög? Svar mitt við þeirri spurningu er: nei.

Silja Dögg Gunnarsdóttir

Greinin birtist í DV 15. janúar 2016.

Categories
Fréttir

Vinaþjóðir deila gildum og hagsmunum í flestu

Deila grein

14/01/2016

Vinaþjóðir deila gildum og hagsmunum í flestu

GBSOpinberri tveggja daga heimsókn Gunnars Braga Sveinssonar utanríkisráðherra til Noregs, í boði Børge Brende utanríkisráðherra Noregs, lauk í dag. Á fundum sínum ræddu ráðherrarnir sameiginleg hagsmunamál Íslands og Noregs, þ.m.t. stöðu mála í Úkraínu og fjölþjóðlegar þvingunaraðgerðir gagnvart Rússlandi. Einnig voru til umræðu málefni norðurslóða og önnur svæðisbundin málefni, og greindi Gunnar Bragi meðal annars frá fyrirhugaðri formennsku Íslands í Eystrasaltsráðinu síðar á þessu ári. Málefni flóttafólks og hælisleitenda voru sömuleiðis á dagskrá, en fyrsti hópur flóttafólks frá Sýrlandi er væntanlegur til Íslands í næstu viku.
Staða mála við botn Miðjarðarhafs var einnig til umfjöllunar, sem og loftslagsmál. Gunnar Bragi greindi norska starfsbróður sínum einnig frá breytingum á skipulagi þróunarsamvinnu á Íslandi en Norðmenn réðust í viðlíka breytingar á sínum tíma. Þá ræddu ráðherrarnir fiskveiðimál og voru sammála um að stuðla að bættu samstarfi á norðanverðu Atlantshafi.
Á meðan á heimsókninni stóð átti utanríkisráðherra ennfremur fundi með varnarmálaráðherra, iðnaðarráðherra og Evrópumálaráðherra Noregs. Á fundi sínum með varnarmálaráðherranum, Ine Eriksen Søreide, voru málefni Atlantshafsbandalagsins til umræðu og tvíhliða samstarf ríkjanna á sviði öryggis- og varnarmála, sem er víðfeðmt. Þannig munu Norðmenn til að mynda sinna loftrýmisgæslu hér á landi með vorinu. Samskiptin við Rússland og öryggismál á Norður Atlantshafsi voru einnig til umræðu á fundinum.
Á fundi utanríkisráðherra með Evrópumálaráðherra Noregs, Elisabeth Aspaker, voru málefni EES til umfjöllunar. Gunnar Bragi greindi meðal annars frá nýútkominni skýrslu stýrihóps stjórnvalda um framkvæmd EES samningsins. Einnig ræddu ráðherrarnir framlög í uppbyggingarsjóð EES, sem nýlega hefur náðst samkomulag um. Aspaker er einnig samstarfsráðherra Norðurlandanna og ræddu ráðherrarnir þá stöðu sem uppi er á Norðurlöndunum í málefnum flóttafólks og hælisleitenda.
Að endingu fundaði utanríkisráðherra með iðnaðarráðherra Noregs, Monicu Mæland. Á fundinum voru málefni EFTA fyrirferðamikil, auk þess sem fríverslunarviðræður ESB og Bandaríkjanna og nýtilkominn fríverslunarsamningur tólf Kyrrahafsríkja bar á góma.
Utanríkisráðherra fundaði einnig með utanríkis- og varnarmálanefnd norska þingsins og hitti fyrir sendiherra gagnvart Íslandi sem aðsetur hafa í Noregi. Ennfremur fundaði ráðherra með fulltrúum úr norsk-íslenska viðskiptaráðinu og heimsótti Nýsköpunarstofnun Noregs.
„Ég átti mjög ánægjulega og gagnlega fundi hér í Noregi enda liggur fyrir að þessar tvær nánu vinaþjóðir deila gildum og hagsmunum í flestu. Samskiptin við Rússland og þvingunaraðgerðir voru ofarlega á baugi í samtölum mínum við norska kollega, enda Rússland næsti nágranni Noregs og þar, líkt og á Íslandi, miklir hagsmunir í húfi. Það var einnig fróðlegt að heyra sjónarmið Norðmanna um áskoranir við komu flóttafólks. Þótt aðstæður séu um margt ólíkar er mikilvægt fyrir okkur að heyra sjónarmið og læra af reynslu,” sagði Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra.

Categories
Greinar

Athugasemdir við Stöðuskýrslu Bankasýslu Ríkisins

Deila grein

13/01/2016

Athugasemdir við Stöðuskýrslu Bankasýslu Ríkisins

Í Stöðuskýrslu Bankasýslu Ríkisins varðandi eignarhald og sölu á Landsbankanum er fjallað um efnið frá ýmsum hliðum og er komist að þeirri niðurstöðu að rétt sé að hefja söluferlið. Í inngangi skýrslunnar er kallað eftir ábendingum um innihald skýrslunnar og hér koma mínar hugleiðingar um skýrsluna og niðurstöður hennar.

Niðurstaða stöðuskýrslunnar
Með hliðsjón af fjórum efnahagslegum þáttum þ.e. efnahagslegum stöðugleika, verðmati á hlutabréfum í fjármálafyrirtækjum, fjárhagslegu bolmagni mögulegra kaupenda og stöðu Landsbankans telur Bankasýslan rétt að hefja sölumeðferð á eignarhlutum í Landsbankanum á þessu ári og boðar að á fyrsta ársfjórðungi muni ráðherrann fá tillögur stofnunarinnar um aðferðafræðina. Bankasýslan telur líklegt að aðaltillagan verði sú að selja allt að 28.2% hlut í bankanum í almennu útboði og skráningu hlutabréfanna á markað í framhaldi.

Ákvörðun stofnunarinnar um að mæla með sölu byggir eins og fram kemur á fjórum meginþáttum en við nánari skoðun er það mín niðurstaða að tveir þessara þátta mæli sterklega gegn sölu nú. Eins og fram kemur í skýrslunni er verðmat á hlutabréfum banka sögulega mjög lágt og einnig kemur fram að innlendir fjárfestar hafa alls ekki bolmagn til að kaupa 28.2% í bankanum. Hvort tveggja mælir gegn sölu ef markmiðið er að fá hæsta verð fyrir hlut ríkisins í bankanum.

Verðmat hlutabréfa í fjármálafyrirtækjum er enn lágt í sögulegu samhengi
Screen Shot 2016-01-12 at 21.34.49Á bls. 23 í skýrslunni kemur fram að “Virðismat á hlutabréfum í fjármálafyrirtækjum og þá sérstaklega í bönkum hefur batnað mikið undanfarin misseri.” Bankasýslan telur hækkandi verð mæla með sölu á eignarhlutnum. Það er vissulega rétt að verðmat evrópskra banka hefur hækkað nokkuð frá lágpunktinum 2008 en í sögulegu samhengi er verðið enn nær helmingi lægra en meðaltal áranna 1997-2007. Því má telja líklegt að enn sé til staðar verulegt svigrúm til hækkunar. Verði sölu frestað myndi ávinningurinn af slíkri hækkun renna til ríkissjóðs. Þótt hækkunin myndi aðeins brúa helminginn af bilinu upp að hinu sögulegu meðalvirði myndi það skila ríkissjóði ríflega 30 ma.kr. ávinningi.

Innlendur markaður getur ekki tekið við 28.2% hlut í bankanum
Bankasýslan kemst að þeirri niðurstöðu að innlendir fjárfestar ráði ekki við að kaupa hlutinn á einu bretti en mælir þrátt fyrir það með sölu og bindur vonir við að erlendir fjárfestar, þó ekki erlendir bankar, kaupi það sem út af stendur til að eiga í sínum eignasöfnum.  Það er trúlega rétt hjá Bankasýslunni að innlendir fjárfestar ættu erfitt með að leggja fram ríflega 70 milljarða á einu ári sem er hið bókfærða virði 28.2% hlutar í Landsbankanum. Innlendir fjárfestar hlytu þó að ráða við verkefnið ef sölunni yrði dreift á nokkurra ára tímabil. Bankasýslan leggur það þó ekki til og mætti útskýra nánar hvers vegna það er ekki gert.

Er skynsamlegt að selja arðbærasta fyrirtækið úr landi?
Það er vissulega ekki í verkahring Bankasýslunnar að taka afstöðu til þessarar spurningar enda gerir stofnunin það ekki. Í mörgum tilfellum er hagkvæmt fyrir Ísland að fá erlenda fjárfesta til að byggja upp ný og arðbær fyrirtæki hér á landi, ekki síst þegar það eflir útflutning og fjölbreytni í atvinnulífinu. Hins vegar er ekki hægt að búast við slíkum ávinningi þegar erlendir fjárfestar kaupa hluti í innlendum banka. Slíkri fjárfestingu fylgir engin ný þekking, engin ný störf skapast og engin ný verðmæti. Erlendir hluthafar vilja bara að bankinn hámarki sinn gróða í þeirri fákeppni sem hér ríkir á bankamarkaði. Bankinn myndi greiða erlendum hluthöfum arð í krónum sem myndu taka hann úr landi í gjaldeyri. Almennt er ekkert athugavert við að erlendir fjárfestar eigi hlutabréf í íslenskum fyrirtækjum en Landsbankinn er alls ekki venjulegt fyrirtæki því ekkert annað fyrirtæki á Íslandi er með meira eigið fé eða hagnað en Landsbankinn. Ef stór hluti af hagnaði arðbærasta fyrirtæki landsins rennur úr landi í formi gjaldeyris getur það haft neikvæð áhrif á lífskjörin í landinu. Auk arðsins sem rennur úr landi mun hækkun á eignarhlutnum renna úr landi og hún gæti orðið veruleg þegar virði banka fer að nálgast sögulegt meðaltal.

Hvernig er hægt að horfa fram hjá áhrifum af sölu á Arion banka?
Á bls. 31 stendur “Munu fyrirætlanir eigenda annarra banka ekki hafa áhrif á framlagningu tillögu af hálfu stofnunarinnar til ráðherra”. Þetta verður vart skilið öðruvísi en að Bankasýslan muni mæla með sölu hlutar í Landsbankanum óháð því hvort á sama tíma séu 87% í Arion banka í sölumeðferð en eigið fé Arion mun vera yfir 170 ma. kr. Með hliðsjón af því að heildarvelta hlutabréfa á verðbréfamarkaði var um 320 ma. kr. fyrstu tíu mánuði ársins 2015 virðist augljóst að sala Arion hljóti að hafa  áhrif til lækkunar á virði sambærilegra hlutabréfa, þ.e. ef við gefum okkur að verð ráðist að einhverju leyti af framboði og eftirspurn. Ríkissjóður getur því ekki búist við að fá hæsta mögulega verð fyrir hlut sinn í Landsbankanum á meðan Arion er til sölumeðferðar og það er vægast sagt ámælisvert að Bankasýslan láti gríðarlegt söluframboð á markaði “ekki hafa áhrif” á sínar tillögur til ráðherrans. Tímabundið offramboð hlýtur að hafa áhrif til lækkunar á markaði og mælir því gegn sölu eignarhlutsins í Landsbankanum við þær aðstæður. Ríkissjóður gæti hér orðið fyrir tugmilljarða tjóni af því að selja þegar markaðurinn er meira en mettur af hlutabréfum í bönkum.

Lausnin virðist blasa við – bankinn selji eignir og greiði ríkinu meiri arð
Verðmat á bönkum er langt undir sögulegu meðaltali í Evrópu auk þess að fyrirsjáanlega er offramboð á hlutabréfum í íslenskum bönkum vegna sölu Arion banka. Því hlýtur að vera skynsamlegast að bíða með öll áform um sölu á hlut ríkisins í Landsbankanum.
Það væri hinsvegar hægt að fara aðra leið til að bæta stöðu ríkissjóðs svo um munar. Samkvæmt upplýsingum á bls. 42 í skýrslunni er eiginfjárstaða Landsbankinn svo rúm að greiða mætti ríkissjóði 19 ma. kr. í arð á þessu ári án þess að bankinn selji eignir að ráði. Bankinn gæti greitt út enn meira, eða um 63 ma. kr. með því að selja lítið brot (3-4%) af eignum sínum. Eins og kemur fram kemur á bls. 44 í skýrslunni gæti slík eignasala einnig nýst til að draga verulega úr verðtryggingarskekkju bankans. Þessi leið virðist hafa mikla kostir fram yfir sölu á eignahlut ríkisins og hún dregur alls ekki úr möguleikum á sölu eignarhlutarins í framtíðinni.

Ríkissjóður hefur hagnast vel á eignarhlut sínum í bönkunum
Á bls. 62 í skýrslunni kemur fram að fórnarvextir ríkisins vegna hlutafjárframlagsins eru orðnir samtals 39,9 ma. kr. á þeim sex árum sem eru liðin. Hinsvegar hefur ríkið fengið 56,6 ma. kr. í arð af bönkunum á sama tíma. Það er hátt í 17 milljörðum meira en nemur vaxtakostnaðinum. Að auki má gera ráð fyrir að verðmæti eignarhlutarins hafi hækkað um 142 milljarða á tímabilinu og hann gæti haldið áfram að hækka ef ekki er selt. Upphaflegt hlutafjárframlag ríkisins nam 138 ma. kr. en nú nemur hlutdeild ríkisins í eigin fé bankanna 280 ma. kr.

Liggur nokkuð á að selja?
Hvers vegna liggur svona mikið á að selja hlut ríkisins í Landsbankanum? Það hefur ekki verið útskýrt. Aftur á móti bendir margt til þess að með því að selja ekki, gæti ríkissjóður áfram notið verulegs arð af hlutabréfaeigninni auk þess sem verðmæti eignarhlutarins gæti hækkað töluvert á komandi árum. Fórnarvextir ríkisins af því að eiga hlutinn eru smávægilegir í samanburði við ávinninginn og því er erfitt að sjá hvernig það þjónar hagsmunum ríkisins eða skattgreiðenda að selja hlutinn á þessu ári.

Frosti Sigurjónsson

Greinin birtist á www.frostis.is 12. janúar 2016.

Categories
Greinar

Boltinn hjá Alþingi

Deila grein

13/01/2016

Boltinn hjá Alþingi

Silja-Dogg-mynd01-vefStjórnvöld hafa lagt mikla vinnu í að greina stöðu húsnæðismála síðustu misserin. Einnig hefur verið öflugt samráð um frumvarpsgerð við fjölda aðila á þessu sviði. Aðilar vinnumarkaðarins hafa lagt til málanna eins og yfirlýsingin í tengslum við kjarasamningana sl. vor sýnir. Í henni eru mikilvægir þættir húsnæðismála tilgreindir. Ekki fer fram hjá neinum að félags- og húsnæðismálaráðherra hefur borið hitann og þungann af undirbúningi fjögurra frumvarpa til að bæta úr stöðunni með nýrri húsnæðisstefnu.

Tekjulágir á leigumarkaði
Húsnæðisfrumvörpin komu öll til Alþingis fyrir jól og velferðarnefnd er nú með þau til umfjöllunar. Mikilvægt er að þingmenn leggi kraft í nefndarstarfið þannig að unnt verði að lögfesta húsnæðisfrumvörpin. Félagsvísarnir, sem Hagstofan gefur út reglulega, gefa góðar vísbendingar um velferð á Íslandi. Þeir sýna að stór hluti þeirra sem eru undir lágtekjumörkum hér á landi eru á leigumarkaði. Stærstu hóparnir þar eru tekjulágir einstaklingar og einstæðir foreldarar og börn þeirra. Ný húsnæðisstefna gagnast m. a. þessum hópum.

Lægra verð
Mikilvægt er að ná fram áherslunni sem er lögð á fleiri og ódýrari íbúðir. Stefnan er að félagslega leigukerfið verði fjármagnað með stofnframlögum ríkis og sveitarfélaga sem nema um þrjátíu prósentum af stofnkostnaði. Framlögin, auk annarra þátta, ættu að leiða til þess að húsnæðiskostnaður tekjulágra einstaklinga nemi ekki hærra hlutfalli en um 25 prósentum af tekjum þeirra. Því ætti einstaklingur með 300 þús. kr. í laun að greiða að hámarki um 65 þús.kr. í húsnæðiskostnað í nýja kerfinu. Byggja á 2.300 íbúðir á næstu fjórum árum. Þegar forsendur eru skoðaðar kemur í ljós að útreikningar gera m.a. ráð fyrir einföldun á byggingarreglugerð og lækkun lóða- og gatnagerðargjalda. Það mun skila sér í lægri byggingarkostnaði. Þannig verður unnt að veita tekjulágum fjölskyldum, sem hingað til hafa ekki átt kost á íbúðum í félagskerfi sveitarfélaganna, aðgang að ódýru og öruggu leiguhúsnæði.

Ég treysti á að þingmenn liðki fyrir framgangi húsnæðisfrumvarpanna. Það er til mikils að vinna.

Silja Dögg Gunnarsdóttir

Greinin birtist í Fréttablaðinu 13. janúar 2016.

Categories
Greinar

Hringtenging raforku – fjármagn til undirbúnings

Deila grein

12/01/2016

Hringtenging raforku – fjármagn til undirbúnings

ásmundurÞeim fer fjölgandi sem átta sig á því að sjaldan hefur virkjun Hvalár verið jafn nálægt því að verða að veruleika. Það yrði mikil lyftistöng fyrir Vestfirði í heild ef rétt er á málum haldið. Gagnvart framkvæmdinni sjálfri þá er mikilvægt að stytta flutningsleiðina á raforkunni en það væri t.d. hægt að gera með skilgreiningu á nýjum tengipunkti í Ísafjarðardjúpi. Það er ekki síður mikilvægt að samhliða þessu verði gert ráð fyrir hringtengingu raforku á Vestfjörðum.

Það eru fá mál sem skipta Vestfirði jafn mikil máli til framtíðar, hef ég fylgst vel með framvindu og reynt að þrýsta á framgang þess. Undirritaður tók þetta mál sérstaklega upp við iðnaðarráðherra í umræðu um Fjárlög 2016. Þar staðfesti iðnaðarráðherra að hún væri mjög jákvæð fyrir framgangi málsins. Það þyrfti að styrkja raforkukerfið og Vestfirðir yrðu þar að vera í sérstökum forgangi.

Fjárlög 2016 – 15 milljónir til undirbúnings

Af hálfu sveitarfélaga á Vestfjörðum var lögð áhersla á það við vinnslu fjárlaga að fjármagn fengist svo hægt væri að vinna áfram að undirbúningi málsins. Í umsögn Fjórðungssambands Vestfjarða um fjárlagafrumvarp er m.a. bent á að Hvalárvirkjun og aðrar nálægar minni virkjanir muni skila 85-100 MW af uppsettu afli. Auk þess kom fram í máli forystumanna Fjórðungssambandsins að þegar væru fyrirtæki byrjuð að sína því áhuga að ráðast í atvinnuuppbyggingu ef trygg raforka væri fyrir hendi. Í ljósi mikilvægi málsins var ánægjulegt að fulltrúar meirihlutans í fjárlaganefnd væru tilbúnir til að setja 15 m.kr. til Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða vegna verkefna sem lúta að hringtengingu raforku á Vestfjörðum en sérstaklega var óskað eftir framlagi til að vinna áfram að málinu.

Ljósleiðari og trygg raforka eru forgangsmál

Uppbygging á innviðum er grunnforsenda fyrir atvinnuuppbyggingu á Vestfjörðum. Ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar hefur unnið að því að skipuleggja ljósleiðaravæðingu alls landsins. Fjárlaganefnd ákvað síðan á síðasta ári að setja inn fjármagn sem ætlað var í hringtenginu ljósleiðara (m.a. á Vestfjörðum) og frekari undirbúning ljósleiðaravæðingar. Í fjárlögum 2016 var aukið við fjármagn í ljósleiðaraverkefnið en með þessum fjárveitingum þá tók fjárlaganefnd forystu í þessu mikilvæga verkefni.

Það er ánægjulegt að fjárlaganefnd taki einnig forystu þegar kemur að hringtengingu raforku og setji inni fjármagn sem er bæði mikilvægt til undirbúnings auk þess að vera táknræn yfirlýsing um pólitískan stuðning við áframhaldandi vinnu bæði hvað varðar virkjun Hvalár og hringtengingu raforku á Vestfjörðum. Hinsvegar þarf áfram að þrýsta á þetta mál og þar skiptir miklu máli að kraftmikil rödd heimamanna heyrist. Um leið og ég fagna því að þetta mál er komið af stað þá hvet ég heimamenn til að láta sig málið varða og þrýsta á framgang þess.

Ásmundur Einar Daðason

Greinin birtist á www.bb.is 11. janúar 2016.

Categories
Greinar

Hvað er að breytast í húsnæðismálum?

Deila grein

09/01/2016

Hvað er að breytast í húsnæðismálum?

líneikÞað er flestum ljóst að ástandið á leigumarkaði á höfuðborgarsvæðinu er ekki eins og við viljum hafa það og jafnframt er staðreyndin sú að víða um landið, jafnt í minnstu samfélögunum sem þeim stærri er verulegur skortur á íbúðum til langtímaleigu.

Eitt af stærri verkefnum komandi vorþings er að halda áfram vinnu að úrbótum í húsnæðismálum, til að bæta umhverfi leigumarkaðarins, og nú þegar hefur félags- og húsnæðismálaráðherra lagt fram fjögur frumvörp um það efni.

Þessi frumvörp byggja m.a. á yfirlýsingu ríkisstjórnar Íslands í tengslum við gerð kjarasamninga á almennum vinnumarkaði, frá maí 2015 og vinnu verkefnisstjórnar um framtíðarskipan húsnæðismála. Þá hafa frumvörpin verið unninn í samvinnu við hagsmunaaðila, í gegnum samráðsnefnd um húsnæðismál.

Frumvörpin sem nú eru komin fram eiga að það sameiginlegt að vera ætlað að auka jöfnuð og öryggi á húsnæðismarkaði, þannig að allir hafi raunverulegt val um búsetuform og eigi aðgang að húsnæði á viðráðanlegu verði.

Fyrst má nefna frumvarp um almennar íbúðir, sem fjallar um stofnframlög til húsnæðis á vegum leigufélaga en umgjörðinni svipar til þess sem við höfum til þessa þekkt sem félagslegt leiguhúsnæði. Lögð er til ný umgjörð um svokallaðar almennar leiguíbúðir og kveðið á um að þessar íbúðir verði að hluta fjármagnaðar með stofnframlögum úr ríkissjóði og frá sveitarfélögum. Stofnframlögunum er ætlað að lækka fjármagnskostnað sem eins og margir vita hefur orðið baggi á sumum fyrri verkefnum af þessu tagi. Almennu íbúðafélögin munu annast kaup eða byggingu, eignarhald, rekstur og úthlutun íbúðanna. Félögin geta verið í eigu ólíkra aðila svo sem sveitarfélaga, stúdentafélaga, hagsmunafélaga eða íbúafélaga. Sýnt hefur verið fram á að möguleiki er á að lækka leiguverð um allt að 18 % með þessu fyrirkomulagi.

Áhersla verður lögð á íbúðir af hóflegri stærð og að tryggð verði félagsleg blöndun í leiguíbúðunum. Stefnt er að því að íbúar verði í lægstu tveimur tekjufimmtungum þegar flutt er inn í húsnæðið. Þannig verði tekjulágum fjölskyldum sem hingað til hafa ekki átt kost á íbúðum í félagslegu kerfi sveitarfélaganna veittur aðgangur að ódýru og öruggu leiguhúsnæði. Jafnframt er horft til þess að þetta fyrirkomulag standi til lengri tíma og geti tryggt viðvarandi uppbyggingu og endurnýjun leiguhúsnæðis.

Frumvarpi um húsnæðisbætur er ætlað að lækka húsnæðiskostnað efnaminni leigjenda með greiðslu húsnæðisbóta vegna leigu á íbúðarhúsnæði. Þannig verði stuðningurinn við leigjendur jafnari stuðningi við kaupendur íbúðarhúsnæðis innan vaxtabótakerfisins. Frumvarpið er liður í að jafna húsnæðisstuðning hins opinbera við ólík búsetuform. Helstu breytingar yrðu að grunnfjárhæðir taki mið af fjölda heimilismanna óháð aldri.

Þá verður það félags- og húsnæðismálaráðherra sem fer með yfirstjórn húsnæðisbóta til leigjenda og Tryggingastofnun ríkisins fer með framkvæmdina. Þannig flyst stjórnsýsla og umsýsla með almennum húsaleigubótum frá sveitarfélögum til ríkisins. Fram hafa komið nokkrar áhyggjur af því að leiguverð muni hækka samhliða breytingum á húsnæðisbótum. Til mótvægis var samþykkt á Alþingi í desember síðast liðnum að lækka fjármagnstekjuskatt af leigutekjum.

Frumvarpi til húsaleigulaga er ætlað að auka réttaröryggi leigjenda og koma á meiri festu í samskiptum leigjenda og leigusala svo að draga megi úr líkum á ágreiningi. Sett eru fram skýrari fyrirmæli en áður um hvernig samskiptum leigusala og leigjanda skuli háttað. Lögð eru til ákvæði um fullnægjandi brunavarnir og ástand leiguhúsnæðis. Stuðlað er að gerð ótímabundinna leigusamninga. Lögð eru til ítarlegri ákvæði en áður um eftirlit ráðherra með starfsemi leigumiðlara.

Frumvarpi um húsnæðissamvinnufélög er ætlað að auðvelda starfrækslu slíkra félaga á Íslandi, að auka vernd búseturéttarhafa, skýra og styrkja réttarstöðu þeirra, jafnframt að skýra réttarstöðu annarra félagsmanna sem og húsnæðissamvinnufélaganna sjálfra. Einnig er frumvarpinu ætlað að stuðla að sjálfbærum rekstri slíkra félaga. Lagt er til að nákvæmari ákvæði verði í samþykktum um fjármál þeirra og að óheimilt verði að kveða á um kaupskyldu á búseturétti.

Nú þegar eru öll þessi frumvörp komin í umsagnarferli á vegum velferðarnefndar Alþingis. Í næstu viku koma umsagnaraðilar á fund nefndarinnar og stefnt er að því að afgreiða þessi húsnæðismál sem lög frá Alþingi sem allra fyrst.

Óhætt er að segja að mikið samráð hefur verið haft við vinnuna. Þannig þekkja þeir sem starfa á þessum markaði vel til væntanlegra breytinga og því má ætla að þegar frumvörpin verða að lögum, skili umbætur á húsnæðismarkaði sér fljótt og vel.

Líneik Anna Sævarsdóttir

Greinin birtist í DV 8. janúar 2016.

Categories
Fréttir

Áramótaávarp Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra

Deila grein

05/01/2016

Áramótaávarp Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra

Sigmundur-davíðÁramótaávarp Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra, 31. desember 2015.
Góðir landsmenn – Gleðilega hátíð.
Ávarp forsætisráðherra á ruv.is.
Á Íslandi setur veðurfar oft mark sitt á hátíðarhöld um jól og áramót. Veður hafa verið válynd nú við árslok og á undanförnum dögum hafa íbúar Austurlands tekist á við óvenju mikinn skaðræðisstorm. Veðrið olli umtalsverðu tjóni, meðal annars á heimilum, fyrirtækjum og menningarminjum í hinum gömlu bæjum Austfjarða. Ég sendi ykkur sem hafið mátt þola þessar hamfarir góðar kveðjur og fyrirheit um að stjórnvöld muni vinna með ykkur að þeirri uppbyggingu sem í hönd fer við upphaf nýs árs.
Enn á ný hefur það sýnt sig hversu mikilvægt það er fyrir okkur Íslendinga að hafa á að skipa einstaklega hugrökku, fórnfúsu og færu björgunarsveitafólki. Íslendingar eru stoltir af björgunarsveitunum og öllu því dugmikla og úrræðagóða fólki sem vinnur að því að verja samfélag okkar á ýmsan hátt. Þegar við fögnum áramótum með því að skjóta upp flugeldum í kvöld erum við um leið að færa þakkir fyrir þetta ómetanlega starf.
Við áramót verður okkur hugsað til þeirra sem hafa átt við erfiðleika að stríða á liðnu ári og við vonum að þau tækifæri sem nýtt ár skapar muni reynast þeim vel. En þá er líka mikilvægt að minnast þess góða og láta það verða hvatningu til áframhaldandi framfara.
Árið 2015 reyndist farsælt fyrir íslensku þjóðinna. Flest hefur gengið okkur í hag undanfarin misseri og betur en víðast hvar annars staðar. Á mörgum sviðum, frá íþróttum að vísindum, stóðu fulltrúar okkar Íslendinga sig framúrskarandi vel á liðnu ári.
Hagsæld jókst til mikilla muna á árinu. Kaupmáttur -það sem landsmenn fá fyrir launin sín- hefur nú aukist um 13 prósent á 30 mánuðum. Fáheyrt, nánast óþekkt, er að hagur fólks vænkist það hratt.
Enn merkilegra er að á tímum mikils hagvaxtar hefur jöfnuður áfram aukist. Þannig hafa laun verkafólks hækkað hlutfallslega meira en laun stjórnenda, laun kvenna hækkað hlutfallslega meira en laun karla og kaupmáttur lífeyrisgreiðslna og bóta aukist meira en kaupmáttur launa á tímabilinu.
Vel hefur tekist til með stór mál. Stutt er síðan skuldavandi stóð efnahagslegri framtíð landsins fyrir þrifum en nú hefur skuldahlutfall heimilanna lækkað það mikið og hratt að skuldir íslenskra heimila eru orðnar hlutfallslega lægri en í mörgum nágrannalöndum okkar.
Uppgjör slitabúa bankanna og losun fjármagnshafta gerbreyta efnahagslegri stöðu okkar og möguleikum til framtíðar. Vegna stöðugleikaframlaga og þess trúverðugleika sem áætlun um losun hafta hefur skapað má gera ráð fyrir að hrein skuldastaða Íslands gagnvart útlöndum fari úr því að vera hættulega neikvæð í að vera jákvæð á fáeinum árum. Þessi staða þjóðarbúsins verður þá orðin sú besta í hálfa öld. Það er ótrúlegur viðsnúningur á skömmum tíma og að mati erlendra fjölmiðla sem skrifað hafa um haftalosunina, algjörlega einstakt.
Þetta þýðir að við verðum í aðstöðu til að gera betur á komandi árum á öllum þeim sviðum sem skipta okkur mestu máli. Ef við höldum okkar striki og sameinumst um að verja efnahagslegan stöðugleika og skynsamlega uppbyggingu munum við geta haldið áfram að bæta heilbrigðiskerfið, styrkja innviðina um allt land og bæta kjör allra hópa samfélagsins.
Á nýju ári ræðst hvort okkur auðnast að byggja áfram upp á grunni þess árangurs sem þegar hefur náðst. Til þess að svo megi verða munum við þurfa samstöðu um að halda áfram á þeirri braut sem hefur reynst okkur svo vel. Hluti af því er að við viðurkennum árangurinn og látum hann þannig verða okkur að hvatningu.
Okkur gengur vel í samanburði við aðrar þjóðir og í samanburði við aðra tíma í sögu okkar. En um leið fylgjumst við með erfileikum annarra og viljum láta gott af okkur leiða sem víðast. Því meiri árangri sem við náum heimafyrir þeim mun betur getum við hjálpað öðrum.
En erum við að nýta þá hvatningu sem felst í árangrinum, og kunnum við að meta lífsgæði okkar hér á Íslandi og það hvað við erum lánsöm í samanburði við aðrar þjóðir?
Okkur Íslendingum hefur í gegnum tíðina líkað ágætlega við þá ímynd sem þjóðin hefur áunnið sér. Við höfum verið þekkt fyrir dugnað, þrautseigju og þolgæði. Íslendingar hafa verið taldir úrræðagóðir á raunastund, yfirvegaðir og færir um að bera harm sinn í hljóði og gefast aldrei upp.
Þessi ímynd varð áreiðanlega ekki til af ástæðulausu enda er ótrúlegt hvaða árangri Íslendingar hafa náð í þessu landi við erfiðar aðstæður um aldir. En eigum við skilið að halda þessari ímynd ef við ekki aðeins börmum okkur meira yfir áskorunum en áður heldur börmum okkur líka þegar vel gengur?
Hvað sem ímynd líður er hollt að minnast þess hugarfars sem gerði þjóðinni okkar kleift að þrauka við kröpp kjör um aldir og að nýta tækifærin þegar þau gáfust. Vinnusemi, áræðni, samkennd og trúin á framtíðina hafa sannarlega fleytt okkur langt.
Að undanförnu hefur það tekist, sem fátítt er, að bæta kjör allra hópa og auka jöfnuð samhliða miklum hagvexti. Okkur gengur vel á alla efnahagslega mælikvarða. Við stöndumst ekki bara samanburð við önnur Evrópulönd, við höfum tekist á við vandamálin og nýtt tækifærin að því marki að við höfum náð efstu sætum meðal vestrænna þjóða í aukningu verðmætasköpunar, atvinnuþátttöku, kjarabótum og öðrum lífsgæðum. Þegar samfélagi hefur tekist að ná slíkum árangri, árangri sem er um margt einstakur, þá er mikilvægt að sýna þolgæði og festu.
Þegar fólk upplifir velgengni og framfarir -og árangur næst á mörgum sviðum- dregur það athyglina að undantekningunum. Þegar nást óvenju miklar kjarabætur beinist athyglin að stöðu þeirra sem búa við lök kjör miklu frekar en á þeim tímum þegar margir búa við kröpp kjör og atvinnuleysi eykst.
Þegar hlutfall fólks sem býr við fátækt lækkar, verður jafnvel lægra en nokkru sinni fyrr, dregur það athyglina enn frekar að þeim sem ekki hafa komist úr fátækt.
En þegar það er árangurinn sem beinir athyglinni að undantekningunum væri synd að líta á undantekningarnar sem réttlætingu fyrir því að umbylta öllu, telja allt vonlaust og ætla að byrja frá grunni, gera eitthvað allt annað.
Þegar gengur vel, mjög vel, gefast menn ekki upp og segja að fyrst ekki sé búið að ná fullkomnun sé betra að gera enn eina tilraun með einhverja hugmyndafræði sem lofar fullkomnu samfélagi. Slíkt hefur alltaf endað illa.
Þvert á móti, við eigum að láta árangurinn verða okkur hvatningu til að gera enn betur. Hvatningu til að leysa enn fleiri mál farsællega. Annars vegar vegna þess að árangurinn sýnir okkur að það er hægt að gera betur og hins vegar vegna þess að sá árangur sem við höfum þegar náð gerir áframhaldandi árangur auðveldari.
Staða okkar nú er nefnilega ekki sjálfgefin, því fer fjarri eins og að minnsta kosti sex milljarðar jarðarbúa gætu sagt okkur. Erfiðleikar sem virðast nú fjarri okkur eru ekki svo fjarlægir í raun og gæði sem okkur hættir til að líta á sem sjálfgefin eru aðeins til komin vegna hugarfars, atorkusemi og skynsamlegra ákvarðana fyrr og nú.
Þegar samfélagið er á leið sem kemur því hraðar í rétta átt en nokkur önnur, leið sem virkar að því marki að það er um margt einstakt, þá höldum við áfram á þeirri leið en beygjum ekki inn í óvissuna.
Írski heimspekingurinn, Edmund Burke, einn mesti stjórnspekingur í sögu Evrópu benti á, þegar á 18. öld, að almennt væri það á tímum góðæris sem í ljós kæmi hið raunverulega geð, prinsipp og eðli mannanna.
Ég nefni þetta vegna þess að á nýju ári þurfum við að sanna að við getum þolað góða tíma og unnið vel úr þeim. Við þurfum að vinna saman að áframhaldandi kjarabótum, ekki hvað síst fyrir þá tekjulægri, eldriborgara og þá sem þurfa að reiða sig á almannatryggingar. Við þurfum líka að sammælast um að halda áfram að innleiða hvata til vinnu og verðmætasköpunar.
Fjárfesting og uppbygging sem ráðist verður í þarf að vera til þess fallin að skapa verðmæti til framtíðar. Í ferðaþjónustu, þar sem mikið er um að vera þessa dagana og mörg verkefni í bígerð, þarf uppbyggingin að vera til þess fallin að styrkja Ísland sem áfangastað til langs tíma fremur en að miða að sem mestum skammtímahagnaði.
Þar skiptir máli að við gerum hið manngerða umhverfi, bæina og sveitirnar, sífellt meira aðlaðandi og að við byggjum í auknum mæli á þeirri auðlind sem liggur í menningu okkar og sögu. Það á ekki hvað síst við um arfleifð víkingatímans sem að miklu leyti var mótuð á Íslandi og gæti ein og sér nægt til að gera landið að áfangastað ferðamanna til framtíðar.
Það helst svo í hendur að á sama tíma og við gerum sögu okkar og menningu hátt undir höfði blómstra nýsköpun, vísindi og rannsóknarstarf á Íslandi sem aldrei fyrr og við upplifum framfarir og nýjungar á ótal sviðum.
Samfélag okkar virkar vel og í krafti þess getum við haldið áfram að bæta það. Mestu hætturnar sem við stöndum frammi fyrir eru kæruleysi, það að við lítum á árangurinn sem sjálfgefinn, og neikvæðni.
Látum engan telja okkur trú um að ísland sé vonlaust og hér þurfi að snúa öllu á hvolf. Edmund Burke, sem ég vísaði til áðan, benti á að það væri algeng villa að ímynda sér að þeir sem kvarta hæst í nafni almennings séu þeir sem láta sig hag almennings mestu varða.
Margt má betur fara og mun færast til betri vegar ef við vinnum að því í sameiningu og af skynsemi. Óvenjuleg vandamál geta kallað á óvenjulegar lausnir. Við höfum séð nokkur dæmi um það á undanförnum misserum. Önnur vandamál eru þekkt og lausnirnar líka. Þá beitum við þeim leiðum sem gefið hafa góða raun og bætum þær jafnvel í leiðinni.
Framfarir byggjast á því að kunna að meta það sem gefst vel og læra af mistökunum og gera svo meira af því sem virkar og minna af hinu.
Ef okkur auðnast að fylgja þeirri leið á nýju ári getur árið 2016 orðið enn betra en árið sem nú er að ljúka. Framfarir munu þá halda þá áfram, og undantekningunum mun áfram fækka og þær sem eftir standa verða viðráðanlegri.
Við erum gæfurík þjóð í góðu landi. Við höfum náð árangri með þrautseigju og skynsemi að leiðarljósi. Þótt veður séu válynd er bjart yfir landinu okkar við þessi áramót.
Ég þakka samfylgdina á árinu sem er að ljúka og óska landsmönnum öllum farsældar á nýju ári. Gleðilegt ár.

Categories
Greinar

Hvað er í matinn?

Deila grein

18/12/2015

Hvað er í matinn?

SIJVið lifum í heimi þar sem kröfur um heilnæm matvæli verða sífellt háværari. Neytendur vilja vita hvað þeir eru að kaupa og hvernig það er framleitt. Og víst er að aðstæðurnar og aðferðirnar eru mismunandi. Sýklalyf eru víða notuð í miklu magni við kjötframleiðslu, í ávaxta og- grænmetisræktun og fiskeldi. Sem dæmi má nefna að í Bandaríkjunum fara 80% af sýklalyfjum í dýr en aðeins 20% í mannfólkið. Í Evrópusambandinu skiptist þetta til helminga. Á Íslandi og Noregi er hlutfallið miklu lægra þar sem talið er að um 80% sýklalyfja fari í mannfólkið.

Ástæðan fyrir notkun sýklalyfja við matvælaframleiðslu er sú, að þau eru vaxtarhvetjandi og fyrirbyggjandi. Slík notkun er óheimil á Íslandi. Samkvæmt upplýsingum frá Alþjóðaheilbrigðisstofnunni (WHO) eru bakteríur sem eru ónæmar fyrir sýklalyfjum orðnar verulegt vandamál. Og því meiri og útbreiddari sem notkun sýklalyfja er, því meiri verður vandinn. Niðurstaðan verður óhjákvæmilega sú að hefðbundin sýklalyf virka ekki sem skyldi. Afleiðingin, að mati WHO, getur orðið sú að »saklausar« venjubundnar sýkingar og sár geta valdið miklum skaða og jafnvel dregið fólk til dauða vegna þess að sýklalyfin vinna ekki á sýklunum; þeir eru orðnir ónæmir.

Sýkingar geta í sumum tilfellum borist úr dýrum í menn. Til dæmis inflúensa svína og fugla, salmonella og kampýlóbakter. Það sama gildir um bakteríustofna sem eru ónæmir fyrir sýklalyfjum. Þeir geta borist í menn frá dýrum og matvælum. Áhættan vex en er þó mismikil eftir löndum og svæðum.

Smitvarnarstofnun Evrópusambandsins (ECDC) telur að í dag nemi árlegur kostnaður vegna baktería sem eru ónæmar fyrir sýklalyfjum, um 1,5 milljörðum evra og að á hverju ári látist um 25 þúsund manns af þessum völdum. Það sama er uppi á teningnum í Bandaríkjunum.

Áhrifaríkasta leiðin til að snúa þessari óheilla (lífshættulegu) þróun við, er að banna að lyf séu notuð við þauleldi og/eða sem vaxtarhvetjandi efni í eldi dýra, en það hefur alltaf verið bannað á Íslandi.

Hvernig er staðan hér? 

Samkvæmt Lyfjastofnun Evrópu eru Ísland og Noregur með langminnstu notkun á sýklalyfjum þegar miðað er við framleitt kíló af kjöti líkt og sjá má á meðfylgjandi mynd sem birtist í Bændablaðinu og er byggð á tölum frá Lyfjastofnun Evrópu.

Eftir því sem best er vitað, þá er staðan líka góð þegar kemur að ónæmum stofnum. Hafa ber í huga að ekki hafa á undanförnum árum verið gerðar stöðugar mælingar á ónæmum stofnum baktería í mönnum og dýrum. Óbirtar niðurstöður rannsókna sem Matvælastofnun stóð fyrir 2014 vegna kampýlóbakter í kjúklingum, sýna að einn stofn af 29 reyndist vera ónæmur vegna sýklalyfjanna Ciprofloxacin og Nalidixín sýru eða um 3,4%. Varðandi salmonella, þá voru allir salmonellastofnar sem greindust í dýrum og fóðri árið 2014, prófaðir með tilliti til næmi þeirra gegn sýklalyfjum, og benda óbirt gögn einnig til þess að tíðnin sé mjög lág.

Tíðni svo kallaðrar MRSA-bakteríu, sem er ónæm fyrir sýklalyfjum, hefur aukist í dönskum grísum; úr 44% árið 2011 í 77% í ár. Þó er ástandið langt því frá verst í Danmörku. En sjúkrahús og sjúkrastofnanir um allan heim reyna með öllum ráðum að koma í veg fyrir að óværan berist inn fyrir þeirra veggi. Þar getur sýking, sem áður var saklaus, valdið illviðráðanlegum eða óbætanlegum skaða hjá fólki með veiklað ónæmiskerfi.

Ástandið er enn mjög gott í íslenskum landbúnaði og á matvælamarkaði. Og staðan er einnig góð á heilbrigðisstofnunum okkar, þó alltaf þurfi að vera á varðbergi. Það er mikilsvert að auka ekki áhættuna að óþörfu. Ein leið til að draga úr framtíðaráhættu er að auka framleiðslu á íslenskum matvælum og við innflutning þarf að gæta vel að því að flytja inn matvörur frá löndum sem aðhyllast sambærilega framleiðsluhætti og tíðkast hér.

…en hvaðan kemur útlenda kjötið? 

Samkvæmt yfirliti frá Hagstofu Íslands var kjöt flutt inn árið 2014 frá eftirfarandi löndum:

hvaderimatinn

Sláandi er að sjá að helmingurinn af innflutningnum er frá Þýskalandi; landi sem notar 35 sinnum meira af sýklalyfjum við sína framleiðslu en notuð eru á Íslandi. Danir nota sjö sinnum meira af lyfjum, en samt eru 22% af öllu kjöti flutt inn þaðan. Hlutfall af innfluttu kjöti frá Spáni er 8,5% en þar er lyfjanotkunin 40 sinnum meiri en á Íslandi! Lítið er hins vegar flutt inn frá Noregi og Svíþjóð, sem ásamt Íslandi, nota langminnst af sýklalyfjum við framleiðslu á kjöti.

Nokkur þungi hefur verið í málflutningi samtaka verslunarmanna um að herða beri á innflutningi á kjöti til Íslands. Verslunin skýlir sér á bak við neytendur og segir að hagurinn sé allur þeirra. Það hlýtur að vera umhugsunarefni fyrir neytendur að kaupmenn skuli velja að flytja inn kjöt frá þeim löndum í Evrópu þar sem lyfjanotkunin er margföld á við það sem hún er á Íslandi. Í öllu falli virðist umhyggja fyrir heilsu neytenda ekki ráða för.

Það ætti að vera sameiginlegt verkefni bænda, verslunar og yfirvalda að tryggja heilnæm matvæli á borð neytenda. Jafnframt þurfa merkingar að vera skýrar. Þar duga ekki upprunamerkingar um að kjötvinnslan sé í Hollandi (sem notar 13 sinnum meira af sýklalyfjum en notuð eru á Íslandi) ef dýrið er alið og slátrað á Spáni eða Ítalíu, sem eru þau tvö Evrópulönd sem virðast nota hvað mest af sýklalyfjum við framleiðslu matvæla. Það ætti að vera keppikefli verslunarinnar í samstarfi við neytendur og yfirvöld að tryggja að innflutt vara sé af sömu gæðum og sú innlenda.

Aðeins þannig tryggjum við örugg matvæli á alla diska, vinnum gegn auknu ónæmi baktería og gerum okkur þannig kleift að sigrast á sýkingum í framtíðinni. Eða eins og segir í fyrirsögn í sænska blaðinu Dagens nyheter á dögunum; Val okkar á innfluttu kjöti ræður hvort við stöndumst ónæmisógnina.

Sigurður Ingi Jóhannsson

Greinin birtist í Morgunblaðinu 18. desember 2015.

Categories
Fréttir

Parísarsamkomulagið í höfn

Deila grein

16/12/2015

Parísarsamkomulagið í höfn

sigrunmagnusdottir-vefmyndÞað var stór stund þegar lýst var yfir samþykkt Parísarsamkomulagsins Nýtt samkomulag í loftslagsmálum náðist í París í dag og var samþykkt með lófataki. Í samkomulaginu er í fyrsta sinn kveðið á um að öll ríki skuli bregðast við til þess að draga markvisst úr losun gróðurhúsalofttegunda, takast á við afleiðingar loftslagsbreytinga og tryggja umtalsvert fjármagn til grænna lausna og aðstoð við ríki sem verða verst úti í breytingum.
Parísarsamkomulagið er sérstakt lagalega bindandi samkomulag undir Loftslagssamningi Sameinuðu þjóðanna og er stefnt að formlegri undirritun þess í apríl á næsta ári. Það nær til aðgerða ríkja eftir 2020, en þá lýkur tímabili skuldbindinga ríkja í Kýótó-bókuninni. Innan við 15% af losun gróðurhúsalofttegunda er nú undir reglum Kýótó. Með hliðsjón af hinu nýja samkomulagi hafa nær öll ríki heims, með losun samtals vel yfir 90% af heimslosun, sent inn markmið sem verða hluti af Parísarsamkomulaginu.
Sigmundur-davíð„Ég fagna því að náðst hefur sögulegt og metnaðarfullt samkomulag í loftslagsmálum á Parísarfundinum og við munum leggja okkar af mörkum bæði hér heima og við að miðla þekkingu okkar og reynslu til annara þjóða,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra.
„Við höfum orðið vitni að metnaðarfullu samkomulagi þennan dag 12/12, þar sem ákvarðanir hafa verið teknar um nýtt upphaf, nýja heimsmynd,“ segir Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra. „Þetta eru skilaboð um breytta hegðun ríkja og einstaklinga, sem er möguleg vegna nýrrar tækni sem á eftir að þróast áfram í framtíðinni. Ég sagði áður en ég fór til Parísar að ég ætlaði að læra af öðrum – sjá og nema það sem hæst bæri í loftslagsmálum og það gekk svo sannarlega eftir. Það var ógleymanlegt að skynja þá miklu hugarfarsbreytingu sem er að verða á öllum vígstöðvum; hjá stjórnvöldum, atvinnulífi og einstaklingum og taka þátt í gerð þessa tímamótasamnings sem verður án efa til hagsbóta fyrir mannkynið. Ísland setti sig í flokk ríkja sem vildu ná háu metnaðarstigi á lokaspretti samningsins og þær áherslur sem þar voru settar fram náðust inn. Þetta sýnir að það skiptir engu hvort ríki eru stór eða smá – við erum öll undir sama þakinu.“
Gunnar Bragi Sveinsson„Það er mikið fagnaðarefni að samkomulag hafi náðst og nú skiptir verulegu máli að efndir fylgi orðum,” segir Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra. „Parísarsamkomulagið er varða á lengri leið. Þá var einkar ánægjulegt að verða vitni að þeirri vitundarvakningu sem er að verða um þau mál sem Ísland hefur sett á oddinn; um viðtæk áhrif loftslagshlýnunar á norðurslóðum og nauðsyn þess að efla hlut endurnýjanlegrar orku til að draga úr útblæstri. Við fundum það vel í París að ríki, fyrirtæki og almenningur um allan heim eru að vakna til vitundar um að aðgerða er þörf og horfa m.a. til þeirra þátta sem við höfum talað fyrir.“
Helstu atriði í Parísarsamkomulaginu
Parísarsamkomulagið og tengdar ákvarðanir 21. aðildarríkjaþings Loftslagssamnings S.þ. ná yfir alla helstu þætti sem hafa verið til umfjöllunar í loftslagsmálum á undanförnum áratugum: Aðgerðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og auka bindingu koldíoxíðs úr andrúmslofti; bókhald yfir losun og kolefnisbindingu; aðlögun að loftslagsbreytingum; stuðning við þróunarríki til að nýta græna tækni og bregðast við afleiðingum breytinga; og fjármögnun aðgerða.
Samkomulagið hefur aðra nálgun en í Kýótó-bókuninni, þar sem kveðið er á um tölulega losun einstakra ríkja í texta bókunarinnar sjálfrar og sett á eins konar kvótakerfi, þar sem m.a. er heimilt að versla með heimildir. Um 190 ríki sendu sjálfviljug inn markmið sín varðandi losun fyrir Parísarfundinn sem vísað er til í samkomulaginu. Ná markmiðin yfir um 90% af heimslosun.
Nokkur helstu atriði í samkomulaginu eru:

  • Sett er markmið um að halda hlýnun lofthjúpsins vel innan við 2°C og jafnframt verður reynt að halda hlýnuninni innan við 1,5°C;
  • Losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu skal ná hámarki „eins fljótt og auðið er“ og minnka síðan þannig að losun gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum nái jafnvægi við upptöku kolefnis úr andrúmsloftinu á síðari helmingi aldarinnar; tekið er fram að þróunarríki fái meira svigrúm en önnur að þessu leyti;
  • Fara skal yfir stöðu mála á 5 ára fresti og í kjölfar þess skulu ríki senda inn endurnýjuð landsmarkmið; ný markmið eiga að vera eins metnaðarfull og viðkomandi ríki telur sig geta náð og alla jafna metnaðarfyllri en fyrri markmið í ljósi leiðsagnar vísindanna;
  • Lofað er að fjármögnun loftslagsmála til þróunarríkja nái 100 milljörðum dollara árið 2020 og að hún haldi áfram eftir 2020 og minnki ekki eftir það;
  • Settar eru fram kröfur um bókhald yfir nettólosun ríkja; ítarlegar kröfur eru nú um slíkt bókhald í Kýótóbókuninni varðandi þróuð ríki. Í Parísarsamkomulaginu er gerð krafa um bókhald fyrir öll ríki, þótt kröfur á þróunarríki séu vægari;
  • Viðurkennt er að bregðast þurfi við skaða sem fátæk ríki verða fyrir vegna neikvæðra áhrifa loftslagsbreytinga, bæði við að draga úr líkum á skaða og bregðast við tjóni sem verður.

Í lokalotu viðræðnanna var einkum tekist á um þrjú atriði: Metnaðarstig og eftirfylgni markmiða ríkja; sanngjarna ábyrgðarskiptingu þróaðra ríkja og þróunarlanda; og fjármögnun aðgerða og stuðning við þróunarríki. Ísland gekk til liðs við hóp ríkja sem vildi tryggja hátt metnaðarstig í samningnum og voru sett fram nokkur atriði þar, sem öll náðu fram. Almennt eru menn sammála um að ríkur vilji hafi verið til að ná samkomulagi á Parísarfundinum. Þetta endurspeglaðist meðal annars skýrt í ræðum 150 þjóðarleiðtoga í upphafi fundarins. Frakkar fá einróma hrós fyrir gott skipulag og stjórn viðræðna, sem hafi átt sinn þátt í að samkomulag náðist nú.