Categories
Fréttir

Er þá ekki kominn tími til að gefa orðum sjómanna gaum?

Deila grein

07/03/2015

Er þá ekki kominn tími til að gefa orðum sjómanna gaum?

Páll„Í gær flutti ég þingheimi aflafréttir af miðunum allt í kringum landið þar sem smábátar tvíhlaða sama daginn, togarar og stórir línubátar mokfiska á öllum grunnum og djúpum,“ sagði Páll Jóhann Pálsson, alþingismaður, í upphafi ræðu sinnar störfum þingsins í vikunni. Í framhaldi vakti hann svo athygli þingheims á nýrri frétt um stærð norsk–íslenska síldarstofnsins. En fram er komið að stofninn sé 6,2 milljónir tonna en ekki 3,5 milljónir tonna eins og Alþjóðahafrannsóknaráðið hefur miðað við, samkvæmt útreikningum norskra fiskifræðinga.
Norskir sjómenn og útgerðarmenn hafa lengi dregið í efa mælingar fiskifræðinga á þessum stofni  eða allt frá því að hann fór að mælast minni ár eftir ár allt frá árinu 2009.
„Sjómenn og útgerðarmenn vilja veiða meira og telja að miklu meira sé af fiski í sjónum. Viti menn, vísindamennirnir féllust á að hlusta á reynslumikla sjómenn. Ekki veit ég hvort þeir voru orðnir leiðir á tuðinu, alla vega varð það úr að fiskifræðingar í Noregi og sjómenn tóku höndum saman og skipulögðu einn viðamesta rannsóknarleiðangur til þessa á norsk-íslenska hrygningarstofninum og var hann farinn á nokkrum norskum fiskiskipum. Markmið leiðangursins var að mæla hrygningarstofn síldarinnar á þann hátt sem fiskifræðingar og fiskimenn töldu bestan. Árangurinn lét ekki á sér standa, allt bendir til þess að hrygningarstofninn mælist tæpum þremur milljónum tonna stærri, það munar um minna,“ sagði Páll Jóhann.
„Getum við Íslendingar, og þá íslenskir vísindamenn, lært eitthvað af þessu nú þegar þorksgengdin er eins og fiskimenn segja og aflatölur staðfesta? Er þá ekki kominn tími til að gefa orðum sjómanna gaum? Vorrall Hafró stendur nú yfir og bind ég miklar vonir við að niðurstöður verði í takti við veiðina hjá fiskimönnunum, annars er eitthvað mikið að. Fiskifræðingar verða að hlusta eftir röddum þeirra sem hafa umgengist Íslandsmið í tugi ára,“ sagði Páll Jóhann að lokum.
Ræða Páls Jóhanns Pálssonar:

 
PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Fréttir

Neytendavernd verði tryggð í nýjum lögum um gengistryggð krónulán

Deila grein

06/03/2015

Neytendavernd verði tryggð í nýjum lögum um gengistryggð krónulán

Elsa-Lara-mynd01-vefurElsa Lára Arnardóttir, alþingismaður, hefur beðið samflokksþingmenn sína í efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis að halda vel til haga neytendavernd við alla vinnu við frumvarp er heimilar fjármálastofnunum að veita gengistryggð krónulán.
„Ég hljóma eflaust eins og biluð plata þegar ég segi næstu setningar: Núna, nokkrum árum eftir hrun, eru enn einstaklingar og fjölskyldur í landinu sem sitja eftir með sárt ennið, eru með gengistryggð lán, sams konar lán og dæmd hafa verið ólögmæt, með sams konar lánaskilmála og dæmdir hafa verið ólögmætir, bæði í héraðsdómi og Hæstarétti, en of margir af þessum einstaklingum fá ekki leiðréttingar á lánum sínum nema að sækja mál sitt fyrir dómstólum. Það er algjörlega óþolandi,“ sagði Elsa Lára á Alþingi í vikunni og bætti við, „við megum ekki horfa upp á sama ástand skapast aftur.“
Ræða Elsu Láru Arnardóttur:

 
PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Fréttir

Fæðingarþjónusta verið skert

Deila grein

05/03/2015

Fæðingarþjónusta verið skert

Silja-Dogg-mynd01-vefFæðingarþjónusta hefur nokkuð verið til umfjöllunar á liðnum misserum. Hefur verið kallað eftir skýrri stefnumótun stjórnvalda til hagsbóta fyrir fjölskyldur. Silja Dögg Gunnarsdóttir, alþingismaður, hefur lagt fram fyrirspurn til heilbrigðisráðherra þar sem m.a. er leitað svara við hvort að á einhvern hátt sé komið til móts við fólk er þarf að ferðast langan veg. Litlum fæðingarstöðum hefur verið lokað eða þá þjónustan mikið skert. En Silja Dögg vill fá svör við eftirfarandi spurningum:

  1. Hve margar fæðingardeildir eru starfandi á landinu nú og hvernig hefur þróunin verið undanfarin tíu ár?
  2. Á hvaða sjúkrastofnunum eru starfræktar fæðingardeildir?
  3. Hve margar fæðingar hafa verið á hverri fæðingardeild sl. fimm ár?
  4. Hvernig er komið til móts við þær konur sem ekki eiga kost á fæðingarþjónustu í heimabyggð?
  5. Standa þeim konum og fjölskyldum þeirra íbúðir til boða í nágrenni við fæðingarstað? Ef svo er, hvar eru þær íbúðir, hvernig er þeim úthlutað og hvernig eru þær kynntar? Ef svo er ekki, stendur þá til að breyta því fyrirkomulagi þannig að verðandi mæður og makar þeirra geti dvalið í nágrenni við fæðingardeild og sótt um opinbera styrki fyrir þeim kostnaði sem af hlýst?
  6. Telur ráðherra að fjölga þurfi fæðingarstöðum út um land til að bæta öryggi fæðandi kvenna og ef svo er, hvernig telur ráðherra best að standa að þeirri uppbyggingu?

Hér má nálgast fyrirspurnina á vef Alþingis.
 
PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Fréttir

Auðveldum einstaklingum og heimilum að sækja rétt sinn

Deila grein

04/03/2015

Auðveldum einstaklingum og heimilum að sækja rétt sinn

Elsa-Lara-mynd01-vefurElsa Lára Arnardóttir, alþingismaður, vakti máls í störfum þingsins á erfiðleikum margra einstaklinga sem standa í ströngu við fjármálastofnanir og ýmis fjármögnunarfyrirtæki.
„Það er í of mörgum tilvikum sem fjármálastofnanir og ýmis fjármögnunarfyrirtæki hundsa þá dóma sem hafa fallið og það er að öllu leyti óásættanlegt. Margir þeirra einstaklinga sem standa í þessum sporum eiga erfitt með að sækja rétt sinn, það er bæði kostnaðarsamt og einnig getur það verið mjög flókið,“ sagði Elsa Lára.
„Er ekki kominn tími til að liðka fyrir ýmsum þáttum sem gera einstaklingum og heimilum landsins mögulegt að fá vissu í sín mál?
Ef við reynum að skoða lausnir í þeim málum væri mögulegt að endurskoða þau skilyrði sem sett eru fram um gjafsókn mála. Væri ekki gagnlegt til dæmis að hækka þau mörk sem sett eru fram um tekjur? Nú er það svo að einstaklingur má ekki hafa meira en 2 millj. kr. í heildarárstekjur fyrir skatt og hjón mega ekki hafa meira en 3 millj. kr. í heildarárstekjur fyrir skatt ef þau eiga að uppfylla öll skilyrði fyrir að fá gjafsókn. Hvernig má það vera að þeir sem eru á atvinnuleysisbótum eða á lægstu launum í landinu, eru of tekjuháir fyrir þetta ferli? Þetta þarf að hugsa upp á nýtt,“ sagði Elsa Lára.
„Því má fagna að á kjörtímabilinu hefur fyrningarfrestur hefur verið lengdur í málum sem varða endurupptöku á því að kanna hvort lán séu ólögmæt eða ekki. Við þurfum þó að halda áfram og jafnvel hugsa upp á nýtt hluti sem munu auðvelda einstaklingum og heimilum landsins að sækja rétt sinn,“ sagði Elsa Lára að lokum.
Ræða Elsu Láru Arnardóttur:

 
PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Fréttir

Aflabrögð helst rædd í sjávarplássum

Deila grein

04/03/2015

Aflabrögð helst rædd í sjávarplássum

PállPáll Jóhann Pálsson, alþingismaður, gerði í störfum þingsins í gær að umtalsefni aflabrögðin sem eru helst rædd í sjávarplássum en ekki svo oft í ræðustól Alþingis.
„Nánast sama hvar er á landinu, alls staðar er landburður af fiski, aðallega boltaþorski sem æskilegastur er til hrygningar að mati fiskifræðinga en einnig smár þorskur ef leitað er sérstaklega. Ekki þykir það fréttnæmt þótt smábátar tvíhlaði sama daginn og gildir það jafnt á netum eða línu, togarar og stóru línuskipin liggja í landi einn til tvo daga með fullfermi og bíða löndunar, rétt eins og loðnubátarnir. Fiskur á hverjum krók uppi í fjöru við Suðurnesin, úti á banka, úti í dýpunum og úti í kanti. Jökuldýpið, Jökultungan, Flákinn, Víkurállinn og norður úr, Húnaflóinn, Skagagrunn og austur úr, Austfirðir eins og þeir leggja sig og suður í Hornafjarðardýpi og grunn og kantar vestur fyrir Eyjar, allt fullt af fiski. Sú var tíðin að kostnaðarsamt var fyrir fiskiskipaflotann að leita uppi þorskinn og allt of mörg skip voru um þá fáu fiska sem fundust. Þess vegna var brugðist við með miklum niðurskurði og skömmtunarkerfið sett á, kvótakerfið,“ sagði Páll Jóhann.
„Nú er vandamálið að fá ekki of mikið í einu og mestur tími fer í að velja réttar tegundir og réttar stærðir eftir því sem markaðurinn kallar á. Við síðustu mælingu á þorskstofninum komu fram vangaveltur hjá fiskifræðingum um að skortur væri á fæði fyrir þann þorsk sem var að vaxa og að hver einstaklingur þyngdist ekki nóg. Í vetur mældist mikið af loðnu og útbreiðslan nánast hringinn í kringum landið þannig að nú hlýtur að vera nóg æti fyrir stóran þorskstofn til að moða úr,“ sagði Páll Jóhann.
„En hvað með ýsuna?,“ spurði Páll Jóhann og hélt áfram: „Nú er mikil niðursveifla í ýsustofninum og þá mætti draga þá ályktun að vandamálið væri að finna ýsuna eins og þorskinn forðum, en því miður eða öllu heldur sem betur fer, er því öfugt farið og mestur tími hjá flotanum fer í að forðast ýsu. Ýsan veiðist á svæðum sem hún sást ekki á fyrir nokkrum árum, t.d. fyrir Norðurlandi. Fyrir tveimur árum var nóg að fara niður fyrir 90 faðma, þá vorum við lausir við ýsuna. Nú er tækifæri til að nýta tæknivæddan sjávarútveg til að skapa meiri verðmæti fyrir land og þjóð.“
Ræða Páls Jóhanns Pálssonar:

 
PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Greinar

Hagsmunir þjóðarinnar varði leiðina

Deila grein

04/03/2015

Hagsmunir þjóðarinnar varði leiðina

Sigmundur-davíðEitt hundrað milljarða hagnaður bankanna (80 milljarðar eftir skatta) á árinu 2014 er áminning um þau mistök sem gerð voru við endurreisn bankanna eftir hrun. Vegna ákvarðana sem þá voru teknar er bankakerfið of stórt og ávinningur af endurmetnu lánasafni kemur að mestu leyti í hlut kröfuhafa Arion banka og Íslandsbanka en ekki ríkisins sem þó bar áhættuna af endurreisninni.

Lögum samkvæmt gilda strangar reglur um eignarhald á fjármálafyrirtækjum. Sérstakar undanþágur í lögum þurfti til að heimila kröfuhöfum að eignast bankana á árinu 2009. Núgildandi lög heimila ekki slíkar undanþágur þannig að nú stæðist það ekki lög að afhenda kröfuhöfum bankana eins og gert var á sínum tíma.
Samanlagður hagnaður Arion banka, Íslandsbanka og Landsbankans frá hruni er um 360 milljarðar króna. Stór hluti þessa hagnaðar kemur til vegna endurmats á lánasöfnum sem færð voru á helmingsafslætti yfir í nýja banka en eru mun meira virði.

Meirihluti hagnaðarins til kröfuhafa
Frá árinu 2009 hefur meirihlutinn af 360 milljarða króna hagnaði bankanna eftir skatta runnið til erlendra kröfuhafa. Miðað við óbreytta gjaldeyrissköpun ræður íslenska hagkerfið ekki við að greiða arð af hagnaðinum úr landi, nema því aðeins að sleppa því að greiða samningsbundnar afborganir af erlendum lánum. Það er hættulegt fyrirkomulag.

Arðsemi eigin fjár bankanna er langt umfram það sem aðrir atvinnurekendur eiga að venjast og það þó eigið fé bankanna hafi safnast upp frá stofnun þeirra. Eigið fé bankanna þriggja er nú um 600 milljarðar króna og hefur meira en sjöfaldast að núvirði frá aldamótum.

Þetta hefur gerst þrátt fyrir háan rekstrarkostnað bankanna sem týnist inni í miklum hagnaði þeirra. Rekstrarkostnaðurinn á árinu 2014 nam svipaðri fjárhæð og ríkið ver til menntamála og menningarstarfsemi, eða um 80 milljörðum króna.

Við eðlilegar aðstæður væri ástæðulaust að amast við góðri afkomu fyrirtækja. Uppspretta hagnaðar skiptir hins vegar máli og í tilviki bankanna sprettur hann að miklu leyti af endurmati á lánasöfnum og fákeppni. Aðgangshindranir eru óvenju miklar í bankastarfsemi, ekki síst vegna umfangsmikils regluverks. Ólíklegt er því að nýir aðilar ryðji sér til rúms á markaðnum með áherslu á lægri kostnað, minni þjónustu og betri kjör eins og gerst hefur á mörgum sviðum viðskiptalífsins og bylt áratugagömlum viðskiptavenjum. Bankar eru því betur varðir gegn samkeppni, innlendri sem erlendri, heldur en almennt tíðkast um fyrirtæki.

Breytingar óhjákvæmilegar
Á næstu árum eru breytingar á eignarhaldi bankanna óhjákvæmilegar. Stjórnvöld þurfa að vinna að því að skipulag bankakerfisins tryggi skilvirka miðlun fjármagns til og frá heimilum og fyrirtækjum á hagkvæman og öruggan hátt.
Það er ekki hægt að nálgast greiðslujafnaðarvanda Íslendinga af léttúð. Af óskhyggju telja sumir að unnt sé að komast hjá efnahagsáföllum með því að styggja engan og halda öllum góðum, en slíkt er ekki raunhæft. Þvert á móti þarf skýra sýn og sterka forystu þar sem hagsmunir íslensku þjóðarinnar eru hafðir að leiðarljósi.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson

Greinin birtist í Fréttablaðinu 4. mars 2015.

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Fréttir

Dagur með bónda

Deila grein

04/03/2015

Dagur með bónda

ÞórunnÞórunn Egilsdóttir, alþingismaður, vildi í störfum þingsins í gær gera íslenskan landbúnað og störf bænda að umræðuefni. Glæsilegt búnaðarþing var sett á sunnudaginn og ekki ber á öðru en að hugur sé í íslenskum bændum sem nú halda þing sitt undir kjörorðinu: Opinn landbúnaður.
Framþróun í tækni og vinnulagi hefur í för með sér færri tækifæri til að taka fólk í sveit eins og tíðkaðist áður. „Af þeim sökum fækkar í þeim hópi sem hefur góða innsýn í dagleg störf íslenskra bænda,“ sagði Þórunn. Bændur hafa því víða um land opnað bú sín, boðið gesti velkomna og frætt þá um starfið.
„Það er hverri þjóð mikilvægt að framleiða matvæli sín að því marki sem raunhæft er og það sýnir sig að það er almenn skoðun þar sem einungis 10% af landbúnaðarframleiðslu heimsins eru flutt á milli ríkja,“ sagði Þórunn.
„Formaður Bændasamtaka Íslands sagði frá verkefninu „Dagur með bónda“ við setningu búnaðarþings og þá rann upp fyrir mér að auðvitað gæti ég tekið þátt og lagt mitt af mörkum.
Kæra samstarfsfólk. Ef þið hafið löngun til að kynna ykkur daglegt starf og vinnuskilyrði bænda er ykkur meira en velkomið að koma með mér heim á Hauksstaði, ræða málin og taka þátt í daglegum störfum,“ sagði Þórunn að lokum.
Ræða Þórunnar Egilsdóttur:

 
PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Fréttir

Hafin verði skipuleg leit að ristilkrabbameini

Deila grein

03/03/2015

Hafin verði skipuleg leit að ristilkrabbameini

Silja-Dogg-mynd01-vef„Gulir strætóar aka nú um strætin með svart yfirvaraskegg. Mottumars er hafinn. Þriðji hver karlmaður getur búist við að fá krabbamein einhvern tímann á lífsleiðinni og algengustu krabbamein karla eru í blöðruhálskirtli, ristli og lungum. Jón Gunnlaugur Jónasson, yfirlæknir krabbameinsskrár og prófessor í meinafræði við læknadeild Háskóla Íslands, hefur rannsakað ristilkrabbamein í mörg ár. Í viðtali í Fréttatímanum fyrir helgi segir hann að flestar rannsóknir bendi til þess að mikla aukningu ristilkrabbameins megi rekja til vestræns mataræðis, offitu og hreyfingarleysis,“ sagði Silja Dögg Gunnarsdóttir, alþingismaður, í störfum þingsins í gær.
„Alþingi samþykkti þingsályktunartillögu á liðnu vorþingi um að hefja skimanir á blöðruhálskrabbameini, en einnig er mikilvægt að hefja skimun á ristil- og endaþarmskrabbameini sem fyrst. Sýnt hefur verið fram á að slík skimun lækki dánartíðni hjá körlum um 73% og hjá konum um 82%. Rannsóknir sýna að leit að ristilkrabbameini er hagkvæm forvarnaríhlutun,“ sagði Silja Dögg.
Ræða Silju Daggar Gunnarsdóttur:

 
PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Fréttir

Breytingar og sóknarsamningar

Deila grein

03/03/2015

Breytingar og sóknarsamningar

SIJBreytinga er að vænta var megininntakið í ræðu sem Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hélt á Búnaðarþingi 2015 í gær. Óhætt er að segja að ræðunnar hafi verið beðið með nokkurri eftirvæntingu, því undirbúningur nýrra búvörusamninga er að hefjast. Raunar telja sumir að sú vinna hefði átt að vera lengra komin. Sigurður Ingi minnti á að í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar stæði að efla skyldi matvælaframleiðslu á Íslandi og huga þyrfti að sóknarsamningum.
Sigurður Ingi lagði til í ræðu sinni að bændur skipuðu eina samninganefnd til að eiga í samskiptum við ríkið, en ekki hver búgrein og hugað skildi að samningi til að minnsta kosti 10 til 15 ára. Með því móti ætti að vera auðveldara fyrir bændur og alla þá sem tengjast framleiðslu bænda með einum eða öðrum hætti að móta sínar áætlanir.
Gerður yrði rammasamningur fyrir allar greinar landbúnaðar og síðan kaflar fyrir hverja búgrein fyrir sig; t.a.m. nautgripi, sauðfé, garðyrkju og síðast en ekki síst; geitur!
Hann telur eðlilegt að byggt verði áfram á tveimur megin stoðum í styrkjakerfi landbúnaðarins. Það er svo kallaðri tollvernd og beingreiðslum. Beingreiðslukerfið þurf hins vegar að skoða til að tryggja að stuðningurinn nýtist best þeim sem starfa við frumframleiðsluna.
Sigurður Ingi viðraði einnig þá skoðun hvort greiða ætti styrki að einhverju leyti frekar út á land en framleiðslu. Ekki hvaða land sem er, heldur land sem er nytjað. Þá vill hann að hugað verði sérstaklega að því í nýjum samningum, að tryggt verði að aðilaskipti, eða kynslóðaskipti geti orðið að jörðum svo ábúð og framleiðsla leggist ekki af.
 
PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Greinar

Vertu velkominn

Deila grein

03/03/2015

Vertu velkominn

Silja-Dogg-mynd01-vefÉg ætla að segja ykkur litla lífsreynslusögu. Hún gerist fyrir tuttugu árum í Austurríki. Ég stundaði þar nám um tíma, í borginni Graz sem er í austurhluta landsins, skammt frá landamærum Ungverjalands. Múrinn hafði fallið fáum árum áður og mikill fjöldi fólks leitaði frá austri til vesturs í von um betra líf.

Ég var upptekin af hinu bráðskemmtilega stúdentalífi og velti lítið fyrir mér aðstæðum Austur-Evrópumanna. Ég var frá Íslandi, fékk alls staðar hlýjar móttökur, og já, var bara nokkuð montin af því að vera Íslendingur. Það þótti þá, og þykir enn, svolítið töff.
Svo var það dag einn að ég fór í litla sérvöruverslun og bauð góðan dag. Talaði þýskuna með hörðum hreim, var alls ekki austurrísk í útliti, hvað þá skandinavísk, með mitt svarta hár. Af útlitinu og hreimnum mátti dæma að ég kæmi „að austan“. Í sakleysi mínu beið ég róleg eftir afgreiðslu og áttaði mig ekki strax á því kuldalega viðmóti sem ég fékk. Eftir dúk og disk fékk ég afgreiðslu og eftir nokkra stund kom fram að ég væri frá Íslandi. Og viti menn! Viðmótið breyttist á svipstundu. Ég fékk bros, almennilegheit og já, framkomu sem allir eiga rétt á að fá; hvernig sem þeir líta út, hvaðan sem þeir koma og hverjir sem þeir eru.
Svona er þá að vera hataður. Svona er þá að vera útlendingur. Þarna lærði ég mína lexíu.

Ég óska engum þess að verða fyrir fordómum. Hvað á fólk með að dæma aðra út frá ytri mælikvörðum? Hver einasta manneskja er einstök.

Aðflutningur erlendra ríkisborgara til Íslands á 21. öldinni er nærri helmingi íbúafjölgunar á Íslandi. Á síðasta ári var hlutfall erlendra ríkisborgara á Íslandi 7,4%. Þess má einnig geta að fjöldi leik- og grunnskólabarna með erlent ríkisfang hefur sjöfaldast á öldinni. Nú hafa 11% leikskólabarna og 6% grunnskólabarna annað móðurmál en íslensku.

Fjölmenningarsamfélag er framtíðin. Við eigum að taka vel á móti fólki sem hér vill búa og og hjálpa því á allan hátt við að aðlagast íslensku samfélagi. Það eykur hagvöxt og síðast en ekki síst auðgar það menningarlífið og víkkar sjóndeildarhring okkar allra.

Silja Dögg Gunnarsdóttir

Greinin birtist í Fréttablaðinu 3. mars 2015.

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.