Categories
Greinar

Langþráð réttlæti fyrir heimilin

Deila grein

28/03/2014

Langþráð réttlæti fyrir heimilin

Silja Dögg GunnarsdóttirFramsókn fyrir heimilin, var slagorð Framsóknarflokksins fyrir síðustu alþingiskosningar. Þingmenn Framsóknarflokksins hafa barist fyrir því um fimm ára skeið, að komið yrði til móts við skuldsett heimili með verðtryggð húsnæðislán. Auðvitað hefði verið best fyrir alla ef forsendubresturinn hefði verið leiðréttur strax árið 2009, en það var ekki gert og nú þurfum við að horfa til framtíðar. Loksins eru skuldaleiðréttingafrumvörpin komin fram og það eru góðar fréttir.

Jafnræði
Heildarumfang aðgerðanna munu skila heimilum landsins allt að 150 milljörðum króna. Þær munu ná til allt að 100 þúsund heimila, sem eru 80% allra heimila landsins. Hlutfall fjárhæðar niðurfærslu og árstekna er hærra hjá tekjulægri heimilum en þeim tekjuhærri. Þannig að þeir tekjulægri fá í raun meira. Meðalfjárhæð niðurfærslu hækkar eftir því sem fjöldi barna er meiri, þar sem stærri fjölskyldur eiga iðulega stærra húsnæði og meiri skuldir. Leiðréttingin er fjármögnuð með bankaskattinum, sem nær til þrotabúa og þar með kröfuhafa. Skattgreiðendur eru sumsé EKKI að greiða leiðréttinguna í þeim skilningi sem sumir vilja túlka svo.

Einfalt
Gert er ráð fyrir að menn munu geta sótt um leiðréttingu eftir 15. maí á vef Ríkisskattstjóra, www.rsk.is, og umsóknartímabilinu lýkur 1. september. Umsóknarformið er einfalt og sumir segja að það verði einfaldara en að panta sér pizzu. Það er á valdi hvers og eins hvort hann sækir um leiðréttingu og hvort fólk vilji nýta báðar leiðir, þ.e. höfuðstólslækkun og/eða séreignasparnaðinn. En þess má geta að séreignarsparnaðarleiðin mun einnig nýtast ungu fólki við að kaupa sína fyrstu íbúð.

Í þessu samhengi er ekki hægt að líta framhjá tilvist verðtryggingarinnar og auðvitað hefði maður viljað sjá skuldaleiðréttinguna verða meiri. Framsóknarflokkurinn virðist vera eini flokkurinn sem er með það á stefnuskrá sinni að  afnema verðtrygginguna og við munum halda áfram að berjast fyrir afnámi hennar. Rétt er að benda á að ef þessi leiðrétting kæmi ekki til nú, þá yrði hækkun höfuðstóls enn meiri vegna verðbólgunnar.

Sanngjarnt
Þegar núverandi ríkisstjórn tók við völdum, fyrir tæpu ári síðan, þá var varla liðinn einn sólarhringur áður en sumir töluðu um svikin loforð. Nú hefur stærsta kosningaloforðið verið efnt og þá reyna sumir að gera lítið úr skuldaleiðréttingunni. Hið rétta er hins vegar að um jafnræðisaðgerð er að ræða, aðgerð sem mun koma flestum íslenskum heimilum til góða. Loksins fær undirstaða samfélagsins, íslensku heimilin, að njóta einhverrar sanngirni og réttlætis.

Silja Dögg Gunnarsdóttir

Greinin birtist á hornafjordur.is 28. mars 2014.

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Fréttir

Frambjóðendaráðstefna Framsóknar 2014

Deila grein

27/03/2014

Frambjóðendaráðstefna Framsóknar 2014

logo-xb-14Frambjóðendaráðstefna Framsóknar verður haldinn 11.-12. apríl nk. í Framsóknarhúsinu að Hverfisgötu 33 í Reykjavík.
Ráðstefnan er opin öllum frambjóðendum Framsóknar, kosningastjórum, starfsfólki og sjálfboðaliðum vegna sveitarstjórnarkosninganna. Mjög mikilvægt er að sem flestir frambjóðendur mæti. Þátttaka í frambjóðendaráðstefnunni er endurgjaldslaus.
Við undirbúning ráðstefnunnar er nauðsynlegt að þátttakendur skrái sig sem fyrst á skrifstofu Framsóknar í síma 540 4300 eða á netfangið framsokn@framsokn.is.

Frambjóðendaráðstefna Framsóknar 2014

11. og 12. apríl í Framsóknarhúsinu að Hverfisgötu 33 í Reykjavík

—  Drög að dagskrá —

 

Föstudagur 11. apríl 2014

19:30-19:40   Setning og þátttakendur kynna sig

19:40-19:50   Aðkoma skrifstofu að kosningabaráttunni
– Hrólfur Ölvisson, framkvæmdastjóri Framsóknar

19:50-20:10   Staða Framsóknarflokkssins í nútíð og fortíð
– Einar Sveinbjörnsson, fyrrv. bæjarfulltrúi í Garðabæ

20:10-20:40   Fréttatilkynningar, greinarskrif og samskipti við fjölmiðla
– Benedikt Sigurðsson, aðstoðarmaður ráðherra

20:40-20:50   Kaffihlé

20:50-21:10   Notkun samfélagsmiðla í kosningabaráttu
– Margrét Gísladóttir, aðstoðarmaður ráðherra

21:10-21:20   Spurningar og svör

21:20-21:30   Hvernig á að nýta úthringiver í kosningabaráttunni
– Ásgeir Harðarson, ráðgjafi

21:30-21:45   Að ná til kjósenda
– Magnús Heimisson, stjórnmálafræðingur og ráðgjaf í almannatengslum

21:45-22:00   Að toppa á réttum tíma og hámarka árangur
– Eygló Harðardóttir, ráðherra og ritari Framsóknar

Laugardagur 12. apríl 2014

09:30-10:30   Fjölmiðlar, stjórnmál og kosningar
– Birgir Guðmundsson, dósent við Háskólann  á Akureyri

10:30-10:40   Kaffihlé

10:40 -10:55   Að ná árangri í kosningum
– Ásgerður Gylfadóttir, bæjarstjóri Hornafirði

10:55-11:10   Maður á mann – virkjum kraftinn
– Sigrún Magnúsdóttir, þingflokksformaður Framsóknarmanna og fyrrv. borgarfulltrúi

11:10-11:20   Auglýsingaefni og útlit baráttunnar
– Hrannar Jónsson, ráðgjafi Árnasynir

11:20-11:30   Praktískar upplýsingar og utankjörfundaratkvæðagreiðsla
– Einar Gunnar Einarsson, skrifstofustjóri Framsóknar

11:30-11:40   Spurningar og svör

11:40-11:55   Seinni hálfleikur
– Ingibjörg Pálmadóttir fyrrv. ráðherra og alþingismaður

11:55-13:00   Matarhlé

13:00-15:30   Ræður, fundarstjórn, líkamstjáning og vinningslið
– Drífa Sigfúsdóttir fyrrv. forseti bæjarstjórnar og varabæjarstjóri
Að semja ræðu og flytja hana. Fundarstjórn, tillögur, líkamstjáning/framkoma, sjónvarp og vinningslið. Frambjóðendur eru beðnir að undirbúa 2 mínútna ræðu sem þeir flytja fyrir framan hópinn. Ræðan verður tekin upp og rædd. Æfing í fundarstjórn.

15:30-15:45 Kaffihlé

15:45-18:00   Framkoma í útvarpi og sjónvarpi
Farið verður yfir ýmis praktísk atriði fyrir frambjóðendu vegna þátttöku í útvarps-  og sjónvarpsþáttum. Tekin verða viðtöl við frambjóðendur. Sjónvarpsumræður. Erfiðar spurningar og framboðsfundir.

18:00 –   Ráðstefnuslit:   Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra og formaður Framsóknar

Boðið verður upp á léttar veitingar í ráðstefnulok

 
PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Greinar

Fjárhagsaðstoð vegna gjaldþrotaskipta

Deila grein

27/03/2014

Fjárhagsaðstoð vegna gjaldþrotaskipta

Eygló HarðardóttirEignalausum einstaklingum gefst nú kostur á að fá fjárhagsaðstoð til greiðslu tryggingar fyrir kostnaði vegna gjaldþrotaskipta, en lög þess efnis tóku gildi þann 1. febrúar sl. Um nýmæli er að ræða í íslenskri löggjöf en úrræðinu er ætlað að koma til móts við þá einstaklinga sem geta ekki lagt sjálfir fram greiðslu til tryggingar fyrir skiptakostnaði.

Lágmarksgreiðsla á slíkri tryggingu er 250.000 krónur og getur það reynst þungur baggi þeim sem eru í þeirri stöðu að vilja sjálfir krefjast gjaldþrotaskipta. Reynslan sýnir að ekki eru miklar líkur á að kröfuhafar krefjist gjaldþrotaskipta hjá þeim sem hefur verið gert hjá árangurslaust fjárnám og eiga því engar eignir. Setning laganna er því mikil bót fyrir þá sem vilja sjálfir lýsa sig gjaldþrota og njóta þannig styttri fyrningarfrests til að endurreisa fjárhag sinn og fjölskyldunnar eftir að hafa burðast með óviðráðanlegar skuldir árum saman.

Getur verið skásta lausnin
Skilyrði fjárhagsaðstoðarinnar er að umsækjandi eigi í verulegum fjárhagserfiðleikum, geti ekki greitt tryggingu fyrir kostnaði vegna gjaldþrotaskipta og hafi reynt önnur greiðsluvandaúrræði, eða að umboðsmaður skuldara meti það svo að önnur greiðsluvandaúrræði dugi ekki til að leysa greiðsluvanda hans.

Skuldavandi einstaklinga og fjölskyldna er margvíslegur og ljóst að sumum gagnast hvorki greiðsluaðlögun né önnur greiðsluvandaúrræði sem hafa verið í boði. Þegar svo háttar kann gjaldþrot að vera skásta lausnin og með því er greitt úr skuldamálunum innan tveggja ára frá lokum skipta. Það getur þó tekið lengri tíma að byggja upp fjárhagslegt traust gagnvart fjármálafyrirtækjum á ný.

Gjaldfrjáls aðstoð
Umboðsmaður skuldara hefur fengið það hlutverk að taka við umsóknum þeirra sem hyggjast sækja um fjárhagsaðstoð vegna skiptakostnaðar og kanna hvort umsækjendur uppfylli skilyrði laganna. Sótt er um fjárhagsaðstoð á vef embættisins www.ums.is. Samþykki umboðsmaður skuldara umsókn um fjárhagsaðstoð gefur hann út yfirlýsingu þess efnis sem umsækjandi leggur fyrir héraðsdómstól ásamt kröfu um gjaldþrotaskipti. Verði héraðsdómstóll við kröfunni er fjárhagsaðstoðin greidd skipuðum skiptastjóra.

Einstaklingurinn sjálfur þarf að greiða 15.000 króna þingfestingargjald til héraðsdóms þegar beiðni hans er lögð fram hjá dómstólnum. Þjónusta umboðsmanns skuldara er gjaldfrjáls og aðstoðar hann einstaklinga við gagnaöflun og ritun greinargerðar ef með þarf. Einstaklingar þurfa því ekki að leita sér kostnaðarsamrar aðstoðar til þess að sækja um fjárhagsaðstoð vegna skiptakostnaðar.

Eygló Harðardóttir

Greinin birtist í Fréttablaðinu 27. mars 2014.

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Greinar

Stjórnvöld víða um heim vara við sýndarfé

Deila grein

27/03/2014

Stjórnvöld víða um heim vara við sýndarfé

Frosti SigurjónssonÞann 19. mars gáfu íslensk stjórnvöld út aðvörun um þá áhættu sem fylgir sýndarfé (e. virtual currencies) svo sem Auroracoin og Bitcoin. Tilefni aðvörunar nú er fyrirhuguð úthlutun sýndarfjárins Aurauracoin til Íslendinga á vegum aðila sem vinnur undir dulnefninu Baldur Friggjar Óðinsson.

Stjórnvöld fjölmargra landa hafa séð tilefni til að upplýsa almenning um þá áhættu sem felst í kaupum, varðveislu eða viðskiptum með sýndarfé. Notendur eru ekki varðir gegn tapi á sýndarfé, t.d. ef “markaðstorg” sem skiptir eða varðveitir sýndarfé bregst skyldum sínum, greiðsla misferst eða kemst í hendur óviðkomandi aðila.

Hvorki Bitcoin né Auroracoin eru viðurkenndur lögeyrir eða gjaldmiðill í skilningi íslenskra laga. Hér á landi má aðeins Seðlabanki gefa út gjaldmiðil sem getur gengið manna á milli í stað peningaseðla og löglegrar myntar. Talsmenn Auroracoin fara ekki leynt með þann ásetning sinn að Auroracoin eigi að koma í stað íslenskra króna í viðskiptum en það væri einmitt brot á lögum um Seðlabanka.

Stjórnvöld í ESB og fjölmörgum löndum standa frammi fyrir því verkefni að ákveða lagalega stöðu sýndarfjár, þar á meðal hvernig skuli greiða skatta af viðskiptum með sýndarfé. Líklega munu notendur þurfa að greiða annað hvort virðisaukaskatt eða fjármagnstekjuskatt af viðskiptum með sýndarfé. Það myndi leiða til mikillar rýrnunar á verðmæti sýndarfjárins.

Sýndarfé gefur vissa nafnleynd og hefur því verið notað sem greiðslumáti í ólöglegum viðskiptum á netinu. Verði sett lög gegn sýndarfé mun það leiða til verðfalls.

Jafnvel þótt ekki væri yfirvofandi skattaleg eða lagaleg óvissa um sýndarfé, þá er margt annað sem veldur óvissu um sýndarfé. Verðgildi sýndarfjár hefur sveiflast gríðarlega. Eftir að hafa hækkað í verði um hundruði prósenta á nokkrum mánuðum, þar til það náði hámarki í desember sl., hefur bitcoin helmingast í verði á nokkrum mánuðum. Enginn gjaldmiðill hefur verið eins óstöðugur og bitcoin á þessum tíma.

Svo má líka nefna tap þeirra fjölmörgu sem áttu bitcoin hjá Mt. Gox sem var stærsti bitcoin miðlari heims þegar hann fór skyndilega í þrot. Talið er að tölvuhakkarar hafi náð að brjótast inn í Mt. Gox og ræna 850.000 bitcoinum sem þar voru geymd og metin voru á tugi milljarða króna.

Eins og þessi dæmi sýna þá er óvarlegt að treysta á sýndarfé. Líklega verða sett lög um sýndarfé og skattskyldu þess og þá er líklegt að verðmæti sýndarfjár falli hratt. Gengi sýndarfjár hefur verið mjög óstöðugut. Það hefur sveiflast um hundruði prósenta undanfarna mánuði. Miðlarar fyrir sýndarfé hafa ekki staðist árásir hakkara. Aðvörun stjórnvalda um áhættu sýndarfjár er því ekki að tilefnislausu.

Frosti Sigurjónsson

Greinin birtist í DV 26. mars 2014.

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Fréttir

Framboðslisti Framsóknar á Akureyri samþykktur

Deila grein

27/03/2014

Framboðslisti Framsóknar á Akureyri samþykktur

akureyri-gudmundur-baldvinFundur í Fulltrúaráði Framsóknarfélaganna á Akureyri, fimmtudaginn 26. mars, samþykkti einróma tillögu kjörstjórnar um framboðslista flokksins fyrir bæjarstjórnarkosningarnar 31. maí. Efsta sæti listans skipar Guðmundur Baldvin Guðmundsson, bæjarfulltrúi, í öðru sæti er Ingibjörg Isaksen, forstöðumaður og í því þriðja Siguróli Magni Sigurðsson, nemi. En kosið var á almennum félagsfundi framsóknarfélaganna 15. mars í 5 efstu sætin á framboðslistanum.
Framboðslistinn er þannig skipaður:

  1. Guðmundur Baldvin Guðmundsson, bæjarfulltrúi
  2. Ingibjörg Isaksen, forstöðumaður
  3. Siguróli Magni Sigurðsson, nemi
  4. Elvar Smári Sævarsson, kennari
  5. Halldóra Hauksdóttir, hdl.
  6. Tryggvi Már Ingvarsson, deildarstjóri
  7. Guðlaug Kristinsdóttir, framkvæmdastjóri
  8. Húni Hallsson, söluráðgjafi
  9. Sigríður Bergvinsdóttir, hársnyrtir
  10. Óskar Ingi Sigurðsson, framhaldsskólakennari
  11. Ragnhildur Hjaltadóttir, umboðsmaður
  12. Jóhannes Gunnar Bjarnason, kennari
  13. Regína Helgadóttir, bókari
  14. Erlingur Kristjánsson, forstöðumaður
  15. Petra Ósk Sigurðardóttir, leikskólakennari
  16. Axel Valgeirsson, meindýraeyðir
  17. Viðar Valdimarsson, verkamaður og nemi
  18. Guðný Rut Gunnlaugsdóttir, leikskólakennari
  19. Klemenz Jónsson, dúkalagningameistari
  20. Mínerva Björg Sverrisdóttir, leiðbeinandi
  21. Jakob Björnsson, framkvæmdastjóri
  22. Úlfhildur Rögnvaldsdóttir, fyrrv. bæjarfulltrúi

Á listanum eru 10 konur og 12 karlar. Framsóknarmenn fengu einn bæjarfulltrúa kjörinn í sveitarstjórnarkosningunum 2010, Guðmund Baldvin Guðmundsson.
 
PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Fréttir

Leiðréttingin nær til 100 þúsund heimila

Deila grein

26/03/2014

Leiðréttingin nær til 100 þúsund heimila

Sigmundur Davíð GunnlaugssonRíkisstjórnin kynnti í dag tvö lagafrumvörp  sem lækka húsnæðisskuldir heimila í landinu og auðvelda þeim sem ekki eiga íbúð að kaupa húsnæði. Annars vegar er um að ræða leiðréttingu höfuðstóls verðtryggðra húsnæðislána og hins vegar skattafslátt vegna séreignarlífeyrissparnaðar. Með lækkuninni léttist greiðslubyrði heimilanna og ráðstöfunartekjur þeirra aukast.

  • Heildarumfang leiðréttingarinnar um 150 milljarðar króna
  • Nær til allt að 100 þúsund heimila
  • Dæmigert húsnæðislán getur lækkað um u.þ.b. 20%
  • Einfalt að sækja um leiðréttinguna á vef ríkisskattstjóra
  • Skattafsláttur veittur af séreignarsparnaði sem nýttur er til húsnæðiskaupa

Leiðréttingin – glærukynning
Ný hugsun í húsnæðismálum
Unnt verður að ráðstafa séreignarlífeyrissparnaði til lækkunar höfuðstóls og býðst sú leið öllum þeim sem skulda húsnæðislán sem veita rétt til vaxtabóta. Einnig býðst fólki að nýta séreignarsparnað til fasteignakaupa og njóta samsvarandi skattafsláttar, en það getur meðal annars nýst fjölskyldum í leiguhúsnæði.
Gert er ráð fyrir að höfuðstólslækkunin hefjist um leið og umsóknartímabili lýkur.
Frumvarp til laga um leiðréttingu fasteignaveðlána
gatt-hja-rikisskattstjora-leidrettingHámarksfjárhæð niðurfærslu verðtryggðra húsnæðislána verður 4 m.kr. á heimili.Til frádráttar koma fyrri opinber úrræði til lækkunar höfuðstóls sem lántakandi hefur þegar notið. Rétt til leiðréttingar skapa verðtryggð húsnæðislán, vegna íbúðarhúsnæðis til eigin nota, sem mynda stofn til vaxtabóta og voru til staðar á tímabilinu 1. janúar 2008- 31.desember 2009. Leiðrétting er að frumkvæði lántaka og þarf að sækja um hana hjá ríkisskattstjóra á tímabilinu 15. maí til 1. september 2014.
Í frumvarpinu er fjallað um fyrirkomulag leiðréttingar verðtryggðra fasteignaveðlána einstaklinga. Það var samið af starfshópi sem fjármála- og efnahagsráðherra skipaði sérstaklega til að vinna drög að nauðsynlegum lagabreytingum. Frumvarpið var samið í nánu samstarfi við verkefnastjórn um höfuðstólslækkun íbúðalána og samráðshóp um framkvæmd höfuðstólslækkunar.
Í frumvarpinu er lagt til að Alþingi heimili ráðherra að gera samkomulag við lífeyrissjóði, Íbúðalánasjóð og fjármálafyrirtæki um framkvæmd almennrar leiðréttingar þeirra verðtryggðu fasteignaveðlána einstaklinga sem til staðar voru á tímabilinu 1. janúar 2008 til 31. desember 2009.
Frumvarp til laga um séreignarsparnað og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar
Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, lögum nr. 90/2003 um tekjuskatt og lögum nr. 44/1998 um húsnæðismál.
Efni frumvarpsins má í grófum dráttum skipta í tvennt:

  • Annars vegar er lagt til úrræði sem heimilar fjölskyldu að ráðstafa séreignarsparnaði inn á veðlán sem tekin eru vegna íbúðahúsnæðis til eigin nota. Skilyrði er að lánin séu tryggð með veði í íbúðarhúsnæði og að þau séu grundvöllur til útreiknings vaxtarbóta. Hér undir falla einnig lánsveðslán ef þau uppfylla sömu skilyrði.
  • Hins vegar er lagt til úrræði sem heimilar ráðstöfun iðgjalda sem safnast hafa upp á tilteknu tímabili til kaupa á íbúðarhúsnæði til eigin nota (húsnæðissparnaður).

Í báðum tilfellum er um að ræða tímabundin, skattfrjáls úrræði til þriggja ára þegar um er að ræða greiðslu/ráðstöfun iðgjalda inn á lán, en í fimm ár í tilviki húsnæðissparnaðar.
Grunnviðmið eru þessi í báðum tilvikum:

  • Heimili; fjölskyldur og einstaklingar.
  • Með fasteign er átt við íbúðarhúsnæði til eigin nota.
  • Gildistíminn takmarkast við þau iðgjöld sem greidd eru vegna tímabilsins 1. júlí 2014 til 30. júní 2017.
  • Hámarksfjárhæð á ári er samtals 500 þúsund kr. á fjölskyldu og fasteign (samtals 1,5 milljónir kr. á þremur árum).
  • Hámarksiðgjald, 4% frá launþega og 2% frá launagreiðanda.
  • Einstaklingur sparar a.m.k. 2% eða til jafns við framlag launagreiðanda, ef það er lægra en 2%.

„Þetta er stór dagur“
„Þetta er stór dagur. Þetta er stór dagur þegar ríkisstjórnin kemur fram með loforðin og sönnun á því sem við lofuðum fyrir ári síðan,“ sagði Sigrún Magnúsdóttir, á Alþingi, í dag, í umræðum um störf þingsins, um tillögur ríkisstjórnarinnar um skuldaleiðréttingar sem samþykkt voru í ríkisstjórn í gær og kynnt á blaðamannafundi í dag.
Skuldaleiðréttingarfrumvörpunum var dreift á Alþingi í dag, síðdegis:

 
PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Greinar

Þingið bregst og almenningur borgar

Deila grein

26/03/2014

Þingið bregst og almenningur borgar

Karl GarðarssonSkattgreiðendur hafa borgað um 1.300 milljónir króna vegna þriggja skýrslna sem rannsóknarnefndir Alþingis hafa gert. Endanleg upphæð verður örugglega nær 1.400 milljónum. Engar fjárhagsáætlanir lágu fyrir þegar þingmenn samþykktu gerð þeirra.

Rannsóknarskýrslan um aðdraganda og fall bankanna, sem kynnt var árið 2010, kostaði rúmar 453 milljónir króna. Nokkur umræða varð um skýrsluna en síðan hefur hún rykfallið ofan í skúffu. Skýrslan um Íbúðalánasjóð kostaði um 250 milljónir. Hún er enn í meðförum þingsins. Nefndin um sparisjóðina átti að skila af sér í lok árs 2012. Síðan hefur gjaldmælirinn gengið og í síðustu viku var kostnaður við skýrslugerðina kominn í um 600 milljónir króna. Enn er beðið eftir skýrslunni. Engin fjárveiting er í fjárlögum ársins 2014 vegna verksins og stefnir í að 100 milljóna króna reikningur bætist við fjáraukalög ársins.

Ljóst er að þingið hefur algjörlega brugðist í þessu máli. Eftirlit hefur ekkert verið og reikningar hafa verið borgaðir þegjandi. Þetta er ekkert annað en sjálftaka. Hluti vandamálsins er síðan að verkefnin hafa ekki verið nógu vel afmörkuð í byrjun og því hafa skýrsluhöfundar lent í vandræðum. Það er líka á ábyrgð þingsins.

Forsætisnefnd á að sinna fjárhagslegu eftirliti á Alþingi. Hér hefur það ekki verið til staðar og reikningurinn, upp á allt að 1.400 milljónir króna, er á endanum sendur á skattgreiðendur.

Íbúðalánasjóðsskýrslan er harðlega gagnrýnd í áliti meirihluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, sem Ögmundur Jónasson formaður nefndarinnar ritar líka undir. Þannig hefur stjórnskipunarnefnd kallað fyrir fjölmarga aðila sem aldrei voru kallaðir fyrir rannsóknarnefndina, þó full ástæða hefði verið til. Ómaklegar árásir og pólitískar dylgjur er víða að finna. Ljóst er að kostnaður tryggir ekki gæði. Vonum að sparisjóðaskýrslan verði vandaðra plagg.

Þingið hefur nú skipað rannsóknarnefnd til að rannsaka rannsóknarnefndirnar. Bíðum spennt eftir niðurstöðunni en fyrsta mál hlýtur að vera að samþykkja ekki óútfyllta tékka.

 

Karl Garðarsson

(Greinin birtist í Fréttablaðinu 26. mars 2014)

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Fréttir

Aukakjördæmaþing KFR

Deila grein

24/03/2014

Aukakjördæmaþing KFR

logo-framsokn-256x300Aukakjördæmaþing Kjördæmasambands Framsóknarmanna í Reykjavík (KFR) verður haldið laugardaginn 5. apríl 2014 að Suðurlandsbraut 24 í Reykjavík, kl. 16:00.
Drög að dagskrá:

  1. Þingsetning
  2. Kosning starfsmanna þingsins.
  3. Tillaga kjörnefndar kynnt
  4. Önnur mál.
  5. Þingslit.

Að kjördæmaþinginu loknu verður boðið upp á léttar veitingar.
 
Þórir Ingþórsson, formaður KFR
 
PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Fréttir

Sigmundur Davíð á Sprengisandi

Deila grein

24/03/2014

Sigmundur Davíð á Sprengisandi

Sigmundur Davíð GunnlaugssonSigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og formaður Framsóknar var viðmælandi í þættinum á Sprengisandi á Bylgjunni í gær, sunnudag. Hér að neðan má nálgast viðtal Sigurjóns M. Egilssonar við forsætisráðherra.
Sprengisandur (1): Skuldafrumvörpið kemur á þriðjudag
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra segir að skuldaleiðréttingafrumvarpið verði kynnt á þriðjudag. Hann segir einnig að hann sæki ekki ráð til forvera sinna, hvorki á stóli forsætisráðherra né í formennsku í Framsóknarflokksins.
https://vefutvarp.visir.is/upptokur?itemid=25666
Sprengisandur (2): Sigmundur Davíð útilokar ekki atkvæðagreiðslu
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra útilokar ekki atkvæðagreiðslu um ESB-aðildarmálið. Hann er ósáttur með fullyrðingar Norðmanna í makríldeilunni.
https://vefutvarp.visir.is/upptokur?itemid=25667
 
PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.
 

Categories
Fréttir

Verndaraðgerðir á friðlýstum svæðum og í Þórsmörk í sumar

Deila grein

22/03/2014

Verndaraðgerðir á friðlýstum svæðum og í Þórsmörk í sumar

Sigurður Ingi JóhannssonSigurður Ingi Jóhansson, umhverfis- og auðlindaráðherra, hefur ákveðið að veita rúmlega 20 milljónum króna til uppbyggingar og landvörslu á friðlýstum svæðum og mikilvægum ferðamannastöðum. Um er að ræða verkefni á friðlýstum svæðum í umsjón Umhverfisstofnunar, og í Þórsmörk sem er í umsjón Skógræktar ríkisins.
Stofnanirnar telja þessi verkefni vera í forgangi yfir þær aðgerðir sem ráðast þarf í nú þegar til að koma í veg fyrir spjöll vegna ágangs ferðamanna. Stofnanirnar vinna að þessum verkefnum með ýmsum aðilum. Um er að ræða viðbótarframkvæmdir á nokkrum mikilvægum svæðum þar sem mikið álag er á náttúruna og verndaraðgerðir mikilvægar, svo og eflingu landvörslu í sumar.
Lagt verður m.a. til fjármagn til verkefna sem koma eiga til framkvæmda í vor og sumar í Mývatnssveit, Þórsmörk, Friðlandi að Fjallabaki, til gönguleiðarinnar „Laugavegarins“ og við Gullfoss. Jafnframt verður landvarsla og umsjón efld í vor og sumar í Mývatnssveit, Þórsmörk, Friðlandi að Fjallabaki og í Borgarfirði.
Þessi verkefni eru meðal annars umfangsmikil uppbygging og lagfæring göngustíga á Þórsmerkursvæðinu sem hefur látið mikið á sjá, göngustígar og aðrir innviðir við Skútustaðagíga í Mývatnssveit, lagfæringar á gönguleiðum við Gullfoss, auk þess að vinna áætlun um þær aðgerðir sem þarf að fara í við gönguleiðina „Laugaveginn“ milli Landmannalauga og Þórsmerkur. Einnig verða lagðir fjármunir í öryggismál við Dyrhólaey og aðgerðir gegn utanvegaakstri á Friðlandi að Fjallabaki.
Í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu er einnig unnið að gerð lagafrumvarps um heildstæða framkvæmdaáætlun um vernd og uppbyggingu í íslenskri náttúru í þágu ferðaþjónustu sem umhverfis- og auðlindaráðherra mun leggja fyrir Alþingi. Samhliða vinnur iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið að útfærslum á leiðum til tekjuöflunar til að fjármagna þá vernd, uppbyggingu og rekstur sem framkvæmdaáætlunin mun skilgreina til framtíðar.

Heimild: www.umhverfisraduneyti.is

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.