Categories
Greinar

Blekkingarleikur síðustu ríkisstjórnar

Deila grein

22/03/2014

Blekkingarleikur síðustu ríkisstjórnar

vigdishauksdottirÍ kosningasjónvarpi kvöldið fyrir alþingiskosningarnar vorið 2009 sagði Steingrímur J. Sigfússon að það samrýmdist ekki stefnu Vinstri grænna að hefja undirbúning að því að sækja um aðild að Evrópusambandinu og að hann hefði ekkert umboð til slíks frá flokknum. Þrátt fyrir þessi orð fór Steingrímur ásamt Samfylkingunni rakleiðis í að undirbúa aðildarumsókn og send var umsókn að ESB um sumarið eftir mikil átök í þinginu. Þegar Steingrímur J. Sigfússon lét þessi orð falla 24. apríl 2009 upphófst einn sá stærsti blekkingarvefur sem spunninn hefur verið hér á landi. Þessi ákvörðun hefur verið landi og þjóð dýrkeypt og ekki sagður nema hálfsannleikur á öllum stigum þrátt ábendingar um annað. Það hefur verið alveg sama hvaða rök og staðreyndir hafa verið dregnar fram í umræðunni sem opinbera eðli og uppbyggingu ESB. Viðkvæðið hjá VG og Samfylkingu var ætíð á þá leið að um mikinn misskilning væri að ræða – viðkomandi væri ekki nógu upplýstur og ekki síst að Ísland væri á fyrsta farrými í aðlögunarferlinu og hinar og þessar staðreyndir um galla umsóknarinnar ættu ekki við.

Byggjum á staðreyndunum
Eftir 2004 var umsóknarferli að ESB breytt og umsóknarríki þurfa nú að laga sig að löggjöf ESB og jafnframt að byggja upp innviði, hagkerfi og lagakerfi að vestur-evrópskri fyrirmynd til að stuðla að svokallaðri einsleitni ESB-ríkja. M.ö.o. stjórnast aðildarferlið af kröfum og viðmiðum sem Evrópusambandið sjálft setur og skiptir skoðun umsóknarríkisins engu þar sem það hefur lýst sig viljugt til inngöngu og sóst formlega eftir henni. Segir í sáttmálum sambandsins að umbreytingafrestir, sérlausnir, undanþágur, tímafrestir skuli vera mjög takmarkaðir og eingöngu gefnir til að gefa svigrúm til skamms tíma til að uppfylla skilyrði ESB. Þetta þýðir að engar varanlegar undanþágur eru gefnar og því um gríðarlegan blekkingaleik að ræða af þáverandi stjórnvöldum í aðlögunarferlinu.

Árið 2006 voru ný viðmið sett er umsóknarríki urðu að lúta hinum svokölluðu opnunar- og lokunarviðmiðum. Ísland var því að sækja um aðild að ESB í umsóknarferli sem hafði tekið miklum breytingum miðað við það sem áður þekktist. Því var það hrein blekking hjá stjórnvöldum að tala um að Ísland fengi hraðferð í aðildarferlinu. Slíkt var aldrei í boði. Líklega eru alvarlegustu blekkingar síðustu ríkisstjórnar þær að margsinnis var fullyrt að Icesave- og makríldeilan væru ekki hluti af baktjaldamakki stjórnvalda og ESB. Þegar opnunar- og lokunarskilyrðin voru sett af ESB þýddi það að eitt ríki eða fleiri gætu beitt neitunarvaldi gagnvart umsóknarríki væru milliríkjadeilur í gangi. Til að halda viðræðunum lifandi lagði ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar allt undir í að »semja um« Icesave-skuldina eins og þau kölluðu Icesave-deilurnar. Það er grafalvarlegur hlutur þegar stjórnvöld fara svo gegn þjóð sinni – að taka þannig á sig ólögvarðar kröfur í samningaviðræðum að þjóðarhag er stefnt í hættu. Samt var sífellt hamrað á því að Icesave væri alls ekki tengt ESB-umsókninni. Makríldeiluna er óþarft að rifja upp hér – en hún byggðist á nákvæmlega sömu sjónarmiðum.

Umsóknin strandaði árið 2011
Þetta segir okkur meðal annars hve mikið var að marka formann Vinstri grænna daginn fyrir kosningarnar vorið 2009. Upptakturinn hjá ríkjum ESB er að lagarökum ríkis skal fórnað fyrir samningarök. Í skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands er varpað ljósi á skollaleik síðustu ríkisstjórnar og sýnt fram á að viðræðurnar höfðu siglt í strand í árslok 2011. Samt hélt ríkisstjórnin áfram blekkingarleik sínum með tilheyrandi kostnaði. Í framvinduskýrslum ESB kom fram að sjávarútvegsstefna Íslands væri ekki í samræmi við stefnu ESB og að auki væru miklar takmarkanir á staðfesturétti og frjálsu flæði fjármagns og ekkert hefði verið gert í að aflétta takmörkunum á fjárfestingu erlendra aðila í sjávarútvegi hér á landi en slíkt væri ekki í samræmi við réttarreglur ESB. Opnunarviðmið setja umsóknarríki þær skorður að umsóknarríkið þarf að leggja fram tímasetta aðgerðaáætlun um hvernig og hvenær viðkomandi ríki aðlagast löggjöf ESB. Þar sem sjávarútvegsstefna og lagaumgjörð íslensk sjávarútvegs er mjög ólík sjávarútvegi ESB gátu Íslendingar ekki lagt fram aðgerðaáætlun til breytinga nema með því að setja fram óaðgengileg skilyrði fyrir ESB – því þjóðin vill halda yfirráðum yfir sjávarútvegsauðlindinni. Í raun má því fullyrða að viðræðum hafi verið slitið í árslok 2011. Samt var blekkingarleiknum haldið áfram af ríkisstjórninni og guldu VG og Samfylkingin sögulegt afhroð í síðustu alþingiskosningum. Þessir flokkar hrópa nú á þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem spurt yrði hvort halda eigi aðlögunarferlinu áfram, en í því fælist að Íslendingar væru tilbúnir að uppfylla opnunarskilyrði ESB um að ganga inn í sjávarútvegsstefnu sambandsins og aflétta takmörkunum á fjárfestingum erlendra aðila í sjávarútvegi hér á landi. Þá yrði um leið gengið gegn þeim yfirlýsta vilja þjóðarinnar að hún hefði veruleg áhrif á nýtingu auðlindarinnar. Erum við tilbúin til þess?

Vigdís Hauksdóttir

(Greinin birtist í Morgunblaðinu 22. mars 2014.)

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Fréttir

Framboðslisti Framsóknar í Kópavogi samþykktur

Deila grein

21/03/2014

Framboðslisti Framsóknar í Kópavogi samþykktur

kopavogur-framsokn-frambodslistinnFulltrúaráð framsóknarfélaganna í Kópavogi samþykkti einróma í gærkvöld tillögu að framboðslista Framsóknarflokksins fyrir sveitarstjórnarkosningar í vor. Efsta sæti listans skipar Birkir Jón Jónsson fyrrverandi alþingismaður, í öðru sæti er Sigurjón Jónsson markaðsfræðingur og í því þriðja Guðrún Jónína Guðjónsdóttir hjúkrunarfræðingur.
Framboðslistinn í heild:

  1. Birkir Jón Jónsson, fv. alþingismaður/MBA
  2. Sigurjón Jónsson, markaðsfræðingur
  3. Guðrún Jónína Guðjónsdóttir, hjúkrunarfr./lífsstílsleiðb.
  4. Kristinn Dagur Gissurarson, viðskiptafræðingur
  5. Ólöf Pálína Úlfarsdóttir, grunnskólakennari
  6. Helga María Hallgrímsdóttir, grunnskólakennari/félagsráðgjafi
  7. Sigurbjörg Björgvinsd., fv. yfirm. öldrunarmála í Kópavogi
  8. Gunnleifur Gunnleifsson, forvarna- og fræðslufulltrúi
  9. Alexander Arnarson, málarameistari
  10. Sigurbjörg Vilmundardóttir, leikskólakennari
  11. Sigmar Ingi Sigurðarson, lögfræðingur
  12. Linda Wessman, konditor/lífsstílsleiðbeinandi
  13. Íris Lind Verudóttir, deildarstjóri/söngkona
  14. Marlena Anna Frydrysiak, viðskiptafræðingur
  15. Kristján Matthíasson, doktor í efnafræði
  16. Björg Baldursdóttir, aðstoðarskólastjóri
  17. Trausti Marel Guðmundsson, nemi
  18. Björg Eyþórsdóttir, hjúkrunarfræðinemi
  19. Einar Baldursson, grunnskólakennari
  20. Hulda Salómonsdóttir, sjúkraliði
  21. Einar Kristján Jónsson, rekstrarstjóri
  22. Willum Þór Þórsson, alþingismaður

Framsóknarmenn fengu einn mann kjörinn í sveitarstjórnarkosningunum 2010, Ómar Stefánsson oddvita flokksins. Hann gaf hins vegar ekki kost á sér að þessu sinni.
 
PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Greinar

Norrænn virðisauki

Deila grein

21/03/2014

Norrænn virðisauki

Eygló HarðardóttirÁ morgun, 23. mars, er Dagur Norðurlanda. Þennan dag fyrir 52 árum komu fulltrúar ríkisstjórna Norðurlanda saman í þinghúsinu í Helsinki og undirrituðu sáttmála sem er ígildi stjórnarskrár norræns samstarfs, í daglegu tali nefndur Helsinkisáttmálinn. Undirritun hans varð til þess að treysta samstarf þjóðanna enn frekar og staðfesti þá nálægð sem ríkir milli Norðurlandabúa að því er varðar menningu, tungumál, samfélagsgerð og gildi. Íslendingar njóta á margan hátt uppskerunnar af samvinnu Norðurlanda án þess að vera meðvitaðir um hvernig til var sáð eða úr hvaða jarðvegi hún er sprottin. Norræna húsið hefur verið styrk stoð í menningarlífi Íslendinga síðan 1968 þar sem norræn menning situr í öndvegi. Norræna húsið er gott dæmi um ávinning Íslendinga af norrænu samstarfi. Framlag Íslands til Norrænu ráðherranefndarinnar, sem er aðeins 0,7% af heildarfjárlögum hennar, rennur óskipt til reksturs Norræna hússins. Starf sem snýr að ungu fólki, og við njótum góðs af, hefur einnig rutt sér rúms á norrænum vettvangi s.s. Nordjobb og Nordplus. Norræni spilunarlistinn er nýr sproti sem höfðar einnig vel til ungmenna.

Norrænt samstarf opnar dyr
Fyrir tilstuðlan norræns samstarfs geta Íslendingar sótt vinnu og nám hvar sem er á Norðurlöndum án hindrana. Samkomulag um sameiginlegan vinnumarkað sem undirritað var fyrir hartnær 60 árum gerir Norðurlandabúum kleift að stunda vinnu og setjast að í hvaða norrænu ríki sem þeir kjósa án þess að hafa til þess sérstök leyfi. Til að auðvelda íbúum að setjast að í öðrum norrænum löndum eru reknar öflugar norrænar upplýsingaskrifstofur sem bera nafnið Halló Norðurlönd. Dyr norrænna háskóla og menntastofnana hafa staðið íslenskum stúdentum opnar í fjölmörg ár vegna norræns samnings um æðri menntun. Ísland hefur alla tíð verið undanskilið því að greiða styrk til Norðurlandanna með hverjum námsmanni og er því eina landið sem greiðir ekkert með stúdentum sem sækja nám á hinum Norðurlöndum. Þetta hefur gert fjölda Íslendinga kleift að stunda nám við norrænar menntastofnanir og hefur skilað mikilli og ómetanlegri þekkingu inn í íslenskt samfélag. Í þessu liggur sérstaða samstarfsins að mörgu leyti, þar sem unnið er að málefnum sem standa íbúum Norðurlanda nærri og snerta þeirra daglega líf, á sviði menntunar, atvinnu og menningar.

Við eigum samleið
Engan bilbug er að finna á norrænu samstarfi, heldur þvert á móti enda sýna ótal kannanir að það nýtur mikils stuðnings og velvildar Norðurlandabúa. Nýleg staðfesting á þessu birtist í könnun Gallup í Danmörku þar sem stuðningur við norrænt sambandsríki mældist 47% ef slíkt stæði til boða en stuðningur við ESB mældist 28%. Norræn samfélög hafa breyst mikið frá því að Helsinkisáttmálinn var undirritaður. Eftir sem áður standa Norðurlöndin þó frammi fyrir sambærilegum áskorunum, hafa svipaðra hagsmuna að gæta og vilja koma líkum hlutum til leiðar. Norrænt samstarf stendur því traustum fótum.

Eygló Harðardóttir

(Greinin birtist í Morgunblaðinu 21. mars 2014)

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Greinar

Hvers vegna áburðarverksmiðja?

Deila grein

19/03/2014

Hvers vegna áburðarverksmiðja?

Þorsteinn SæmundssonNýlega lagði sá sem hér ritar ásamt nokkrum öðrum þingmönnum fram þingsályktunartillögu um hagkvæmni þess að reisa og reka áburðarverksmiðju á Íslandi. Tillagan hefur vakið töluverða athygli og umræður sem ber að þakka fyrir. Í umræðunni hefur þó örlað á nokkrum misskilningi sem rétt er að fara örfáum orðum um. Fyrst ber þess að geta að ýmsir virðast halda að til standi að endurreisa Áburðarverksmiðju ríkisins sem hér starfaði á árunum 1954 til 1993. Svo er ekki. Verksmiðja sú sem hér var starfrækt áður var sett á fót af ríkinu til að fullnægja þörfum innanlandsmarkaðar á tímum gjaldeyrisskorts. Þingsályktunartillagan sem nú hefur verið lögð fram snýst um að gerð sé hagkvæmniathugun á því hvort fýsilegt sé að reisa hér á landi áburðarverksmiðju sem framleiða myndi áburð til útflutnings auk þess að anna innlendri eftirspurn.

Sívaxandi áburðarnotkun í heiminum
Það er margt sem mælir með að hagkvæmniathugunin sé unnin. Áburðarnotkun fer sívaxandi í heiminum. Munar þar mestu um aukin kaup Kínverja og Indverja sem berjast við að brauðfæða síaukinn fólksfjölda. Samfara aukinni notkun hefur verð á áburði hækkað umtalsvert. Komið hefur fram í skýrslu OECD að á næstu tuttugu árum þurfi að auka matvælaframleiðslu heimsins um 50% frá því sem nú er til að koma í veg fyrir skort. Ljóst er því að stóraukin eftirspurn verður eftir áburði. Ísland er að mörgu leyti í kjörstöðu til að framleiða áburð. Hér er næga hagkvæma orku að fá og ærið nóg er af vatni en þetta tvennt er undirstaða áburðarframleiðslu. Tiltölulega auðvelt er að framleiða hér köfnunarefni úr andrúmsloftinu. Auk þess er gert ráð fyrir í tillögunni að unninn verði brennisteinn til framleiðslunnar úr útblæstri Hellisheiðarvirkjunar sem nú er til óþurftar og heilsutjóns. Þannig eru til hér í landinu helstu hráefni sem þarf til áburðarframleiðslu.

Ný störf – auknar útflutningstekjur
Ef hagkvæmt reynist að reisa hér áburðarverksmiðju verða til 150-200 framtíðarstörf auk afleiddra starfa. Þar af er fjöldi starfa verkfræðinga, tæknifræðinga, efnafræðinga og annars háskólamenntaðs fólks. Auk þess mun fjöldi velmenntaðra iðnaðarmanna starfa í slíkri verksmiðju. Gert er ráð fyrir að 600 manns fái vinnu við byggingu verksmiðjunnar. Síðast en ekki sízt munu verða flutt út héðan um 700 þúsund tonn af áburði og önnur 700 þúsund tonn af Kalsíumklóríð auk þess sem verksmiðjan mun anna eftirspurn innanlands. Rekstur verksmiðjunnar fellur því vel að áherslu stjórnvalda um aukna matvælaframleiðslu. Við framleiðsluna fellur einnig til nokkuð magn ammoníaks til nota við rekstur kælikerfa en þess má geta að eftir að gamla áburðarverksmiðjan hætti rekstri hefur verð á ammoníaki hækkað nokkuð hérlendis.

Ekki töfralausn
Hugsanleg bygging og rekstur áburðarverksmiðju er ekki töfralausn í atvinnulífi landsmanna en hún getur hæglega orðið liður í almennri og fjölbreyttri atvinnuuppbyggingu á Íslandi.

 

Þorsteinn Sæmundsson

(Greinin birtist í DV 19. mars 2014)

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Fréttir

„Norðurlandaráð sammála okkur Íslendingum“

Deila grein

19/03/2014

„Norðurlandaráð sammála okkur Íslendingum“

Sigurður Ingi JóhannssonNýgerður samningur Norðmanna, Færeyinga og Evrópusambandsins um veiðar á makríl er gagnrýndur af Umhverfis- og auðlindanefnd Norðurlandaráðs sökum þess að veiðarnar séu langt frá því að geta talist sjálfbærar þar sem að þær heimili langtum meiri veiðar en veiðiráðgjöf Alþjóða hafrannsóknaráðsins ICES kveður á um. 
„„Ráðið gagnrýnir að í samningnum sé gert ráð fyrir veiðum sem séu langt frá því að geta talist sjálfbærar, þar sem þær heimili langt um meiri veiðar en veiðiráðgjöf” – Norðurlandaráð sammála okkur Íslendingum – það er ánægjulegt,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson á facebook síðu sinni.
Sjúrdur Skaale talsmaður nefndarinnar segir það algert grundvallaratriði að fiskveiðiþjóðir haldi sig við veiðiráðgjöf. Það sé mikilvægt að strandríkin öll nái samkomulagi sín á milli um ákvörðun heildarafla og skiptingu hans. Í ljósi þess að of oft komi upp ágreiningur um þessi mál þá sé það jafnframt mikilvægt að ríkin sem hlut eigi að máli  komi sér saman um traustan lagalegan grundvöll til að byggja á ákvarðanir um veiðar á uppsjávarfiski og flökkustofnum.
Sjá frétt á síðu Norðurlandaráðs
 
PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Greinar

Á haugnum er haninn frakkastur

Deila grein

18/03/2014

Á haugnum er haninn frakkastur

Silja Dögg GunnarsdóttirIngólfur Bjarni Sigfússon nýmiðlastjóri RÚV fór mikinn í síðasta þætti Sunnudagsmorguns á RÚV. Þar fjallaði hann um nýja stöðu í makrílsamningaviðræðum líkt og hann væri öllum hnútum deilunnar kunnugur. Eitthvað hefur Ingólfi Bjarna fipast heimavinnan í þetta skiptið og í raun með ólíkindum að þáttastjórnandi hafi leyft honum að vaða áfram óáreittum í þeim staðreyndalausa málflutningi sem hann viðhafði. Umsjónarmenn pistilsins “Frá degi til dags” í Fréttablaðinu taka umræðuna svo skammlaust upp í blaði gærdagsins.

Matskenndar ályktanir
Ingólfur Bjarni hélt fram að Íslendingar fengju betri samninga á grunni samkomulags ESB, Noregs og Færeyja en það sem tilboð sem samninganefnd Íslands sótti við samningaborðið. Ingólfur Bjarni, og fleiri sem hafa tjáð sig um málið, ættu að staldra við og kynna sér málið betur. Fara fram með staðreyndir en ekki matskenndar ályktanir. Sjávarútvegsráðherra hefur ítrekað komið fram í viðtölum síðustu daga og rakið feril málsins. Málið var einnig til umræðu í þingsal Alþingis í síðustu viku. Spurningum hefur ávallt verið svarað skilmerkilega og engu haldið undan.

Stærð makrílstofnsins vanmetinn
Helstu staðreyndir eru m.a. þær að makríll hefur gert innrás á fæðusvæði okkar helstu nytjastofna og sjófugla í íslenskri lögsögu. Fiskveiðistjórnun Íslands hefur byggst á vísindalegum niðurstöðum en þær styðja þá skoðun að þessi breytta ganga makríls bendi til þess að stærð stofnsins hafi verið vanmetin. Þetta hefur Alþjóðahafrannsóknaráðið (ICES) nú loks viðurkennt og á grunni breyttra upplýsinga hækkaði það ráðgjöf um heildarveiði úr stofninum um 64% á milli áranna 2013 og 2014.

Ætla að borða alla kökuna og meira til
Alla þá hækkun, hvert einasta kíló, taka Norðmenn og ESB sér einhliða árið 2014 skv. nýja samkomulaginu. Með þessu auka þeir veiðar sínar á milli ára umtalsvert, og bæta svo Færeyingum við. Því má segja að ESB og Noregur hafi boðið Færeyingum far – sá afli sem ætlaður er Færeyjum innan samningsins eru að vísu allur umfram ráðgjöf! Innan samningsins gera þeir svo ráð fyrir veiðum annarra, samanlagt um 150 þúsund tonn (allt umfram ráðgjöf). Svo má skilja að Rússar og Íslendingar eigi að skipta þeim tonnum á milli sín. Hvað með Grænland? Þeir ætla að veiða 100 þúsund ton. Ríkin þrjú töldu að ekki þyrfti að taka tillit til veiða Grænlendinga frekar en hagsmuna makrílstofnsins yfirleitt.

Í ljósi breyttrar ráðgjafar ICES er nú raunveruleg og veruleg hætta á grófri ofveiði stofnsins sé veitt umfram ráðgjöf eins og samkomulag ríkjanna þriggja stuðlar að.

Ofveiði ríkja Evrópusambandsins
Það er jákvætt að Ísland sé ekki partur af þessu samkomulagi, því það stuðlar að veiðum í það minnasta 40% umfram vísindaráðgjöf. Verði þeim að góðu sem vilja fela ESB að semja um nýtingu stofna fyrir sig, eins og Ingólfur Bjarni ýjaði að í viðtalinu. Innan lögsögu ESB eru 30% af fiskistofna að hruni komnir og mun hærra hlutfall ofveitt, eða um 80%. Ástæðan er að gerðir hafa verið samningar þar sem hagsmunir einstakra ríkja ESB eru teknir framyfir hagsmuni lífríkisins. Er þetta ábyrg umgengni við auðlindir hafsins?

Ætla sér að koma í veg fyrir að makríll gangi í lögsögu Íslands
Ísland stóð ekki upp frá samningaborðinu eða sleit viðræðunum. Strandríkjaviðræðunum var slitið af samningamanni ESB sem stýrði úrslitafundinum í Edinborg. Enda gáfust ríkin þrjú upp á því að ræða niðurstöðu sem byggir á ábyrgri nýtingu, eins og Íslendingar vildu gera. Noregur ætlaði auk þess aldrei að samþykkja þann hlut sem Ísland gat sætt sig við. Í stað þess hefur Norðmönnum tekist að keyra í gegn samkomulag sem leiðir til verulegrar ofveiði. Þeir vita sem er, að þeim mun meira sem stofninn er veiddur niður – þeim mun minni líkur eru á að hann gangi inn í íslenska lögsögu og nýtist okkur til hagsbóta. Er það það sem Ingólfur Bjarni er að leggja til að hefði átt að vera niðurstaðan?
Vilja menn eingöngu tala um það sem hljómar krassandi eða vilja menn ræða staðreyndir og koma þeim á framfæri?

Silja Dögg Gunnarsdóttir

(Greinin birtist í Fréttablaðinu 18. mars 2014.)

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Greinar

Vísindalegar forsendur – ábyrgar veiðar

Deila grein

15/03/2014

Vísindalegar forsendur – ábyrgar veiðar

Sigurður Ingi JóhannssonÍ vikunni gengu ESB, Færeyjar og Noregur frá samkomulagi um skiptingu makrílaflaheimilda. Í samkomulaginu felst að í ár taka Noregur og ESB 100% af ráðlögðum heildarafla Alþjóðahafrannsóknaráðsins. Ég er vonsvikinn yfir því að ekki hafi tekist að ljúka fjögurra ríkja strandríkjasamkomulagi. Það var einstakt tækifæri til að ná samningi án þess að það hefði neikvæð efnahagsleg áhrif á nokkurt strandríkjanna frá fyrra ári þar sem ráðgjöf hækkaði mjög á milli ára. Nokkrir hafa risið upp og spurt af hverju Ísland sé ekki þátttakandi í samkomulaginu, og hvernig það hafi getað gerst að þessi þrjú ríki sömdu án þess að tala við Ísland? Þessu get ég svarað.

Afstaða Íslands í viðræðum um nýtingu makrílstofnsins hefur í meginatriðum verið að standa vörð um hagsmuni Íslands og að makrílstofninn sé nýttur á ábyrgan hátt. Í samningalotum vetrarins hefur stærsta verkefni samninganefndar okkar verið að tryggja samkomulag sem ekki byggðist á verulegri ofveiði. Þar hefur verið við ramman reip að draga undir stífri kröfu Norðmanna um veiðar umfram ráðgjöf, og gagnvart sinnuleysi Færeyinga þegar kemur að sjónarmiðum sjálfbærrar nýtingar. Þessum aðilum var fullljóst þetta sjónarmið Íslands. Ég get enga aðra ályktun dregið af lyktum mála en þá að þessi þrjú ríki hafi gefist upp á viðræðum á ábyrgum grundvelli, eins og krafa var um af okkar hálfu. Þegar ljóst var að ESB var tilbúið að víkja frá því samkomulagi sem það hafði gert við Ísland, og víkja frá sjálfbærum nýtingarsjónarmiðum, ákvað sambandið að freista þess að ná þríhliða samningi utan formlegs strandríkjafundar. Það gefur auga leið að það þurfti ekki miklar viðræður milli Noregs og ESB um að auka sínar heimildir frá fyrri árum og bjóða Færeyingum far til viðbótar eins og niðurstaðan er.

Íslenska samninganefndin hefur staðið vörð um sjónarmið sjálfbærrar nýtingar á þessum strandríkjafundum, og staðið sig með prýði. Það að ætla henni eða ríkisstjórninni að hafa sofið á verðinum, látið tækifæri framhjá sér fara eða hvernig það hefur verið orðað í þingræðunni er ómerkilegur rógur í garð þeirra sem að málinu koma fyrir Íslands hönd. Ómerkilegur rógur til heimabrúks til að leiða sjónir manna frá því sem raunverulega gerðist: íslensk stjórnvöld standa utan samkomulags sem stuðlar að veiðum verulega umfram vísindalega ráðgjöf. Við höfum í gegnum viðræðurnar ekki haft áhuga á að vera innan þessa sem hér var um samið, þá hefði líklegast löngu verið komið á fjögurra ríkja samkomulag. Það var alveg skýrt þegar formaður samninganefndar ESB, sem jafnframt boðaði og stýrði fundinum, sleit fundi í Edinborg í upphafi mánaðarins, að strandríkjaviðræðum um veiðar á makríl 2014 var lokið. Það kemur glögglega fram í fréttatilkynningu sjávarútvegsstjóra ESB þar sem segir að viðræðum sé nú lokið og hafnar verði tvíhliðaviðræður við Noreg. Eins í fréttatilkynningu sjávarútvegsráðherra Noregs þar sem segir að strandríkjaviðræðum sé lokið og hún harmi að ekki hafi tekist að ná samkomulagi fyrir 2014. Ólíkt sumum sem hafa tjáð sig, þá misskildi okkar fólk ekkert í þeim samskiptum.

Mér finnst íslensk stjórnvöld hafa haldið vel á málinu frá upphafi og pólitísk samstaða verið mikilvæg. Við höfum unnið með það í miklu samráði við utanríkismálanefnd þingsins og út frá sömu sjónarmiðum og unnið hefur verið með frá byrjun. Við erum flest, ef ekki öll, í grunninn sammála um það að Ísland er stolt af orðspori sínu sem ábyrg fiskveiðiþjóð. Við erum líka sammála því að hagsmuni Íslands á alþjóðavettvangi og í samningaviðræðum beri að verja. Við höfum nálgast viðræðurnar lausnamiðað, verið tilbúin til samninga, lagað okkar kröfur að möguleikum til þess að nálgast samkomulag. Þetta nægir ekki ef viðsemjendur okkar, Noregur í þessu tilfelli, vilja ekki semja við Ísland, þá einfaldlega verða ekki samningar. Vonbrigðin eru þau að ESB hafi, í stað þess að virða samkomulag það sem við náðum sem byggðist á sjálfbærri nýtingu, vikið frá þeim loforðum sem það gaf okkur.

Staðreyndir málsins eru þær að makríll gengur í ógnarmagni inn í íslenskra lögsögu, hér eru beitarsvæði hans, þyngdaraukning er gríðarleg og hann étur fæði frá öðrum stofnum á okkar miðum með tilheyrandi afleiðingum. Ísland hefur réttilega undanfarin ár nýtt þann rétt sinn að gera verðmæti úr þessari auknu gengd makríls. Annað væri vítavert sinnuleysi gagnvart hagsmunum. Á móti spyr ég því nú: Átti Ísland að gefa eftir viðmið sitt um ábyrga nýtingu auðlinda til að vera partur af samkomulagi sem leiðir til ósjálfbærra veiða? Átti Ísland að gefa eftir þann hlut sem við vorum tilbúin að fallast á ef samkomulag á grunni vísindalegrar ráðgjafar næðist? Er það þannig sem að Ísland á að ná samningum á alþjóðavettvangi, slá af sanngjörnum kröfum? Ég segi nei. Við eigum að standa vörð um hagsmuni okkar til lengri tíma.

Sigurður Ingi Jóhannsson

(Greinin birtist í Morgunblaðinu 15. mars 2014.)

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Greinar

Vandamálið sem enginn talar um

Deila grein

15/03/2014

Vandamálið sem enginn talar um

Karl GarðarssonLjóst er að fjölga þarf hjúkrunarrýmum fyrir aldraða um allt að 1.700 á næstu 15 árum og nemur kostnaður vegna þessa um 54 milljörðum króna. Af þessum fjölda eru um 1.100 á höfuðborgarsvæðinu. Þetta eru staðreyndirnar sem stjórnmálamenn forðast að ræða, enda aldrei vinsælt að ræða um málefni aldraðra, hóps sem gerir litlar kröfur og er aldrei hávær. Slíkir hópar eru sjaldnast ofarlega í forgangsröðinni.

Miklar breytingar verða á aldurssamsetningu þjóðarinnar á næstu áratugum. Þannig er gert ráð fyrir að þeim sem eru 67 ára eða eldri fjölgi um rúmlega 26.000 á næstu 15 árum, eða um 71% frá því sem er í dag. Talið er að þeim sem eru 80 ára og eldri fjölgi um tæplega 6.600, eða um 55%. Þessar miklu breytingar kalla á aðrar og ólíkar áherslur í heilbrigðismálum, þar sem hugsa þarf fyrir þörfum þessa vaxandi hóps.

Flestar fjölskyldur þekkja þann vanda sem skapast þegar þarf að koma öldruðum ættingjum í hjúkrunarrými. Að meðaltali voru um 250 manns á biðlista eftir slíkum rýmum á þriðja ársfjórðungi síðasta árs, og var meðalbið hátt í fjórir mánuðir. Að óbreyttu mun þessi tími lengjast til muna. Niðurskurður undanfarinna ára á framlögum til heilbrigðismála hefur komið illa niður á öldruðum. Þjónusta hefur verið skert og lyfjakostnaður aukist. Þessu verður að breyta. Nauðsynlegt er að styrkja heimaþjónustu og stoðþjónustu til muna.

Flestir eru sammála um nauðsyn þess að veita auknu fjármagni í heilbrigðiskerfið, sem stendur frammi fyrir auknu álagi á næstu árum, þar sem þjónustan verður ekki síst að taka mið af því að þjóðin er að eldast. Þá hefur rekstur hjúkrunarheimila verið erfiður og daggjöld of lág. Minni heimili hafa átt sérstaklega erfitt.

Unnið er að úttekt á málefnum aldraðra sem gerð verður opinber í byrjun sumars. Málið þolir enga bið. Stjórnvöld verða að taka höndum saman við sveitarfélög og einkaaðila um uppbyggingu hjúkrunarheimila. Við verðum að gera þá lágmarkskröfu að þörfum aldraðra sé sinnt með viðeigandi hætti og að langir biðlistar eftir þjónustu heyri sögunni til. Aldraðir eiga það skilið.

 

Karl Garðarsson

(Greinin birtist í Fréttablaðinu 15. mars 2014.)

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Greinar

Ekki er fjandinn frændrækinn

Deila grein

15/03/2014

Ekki er fjandinn frændrækinn

Silja Dögg GunnarsdóttirNorðmenn, Evrópusambandið og Færeyingar,  hafa nú komist að samkomulagi um makrílveiðar. Samningurinn gildir í fimm ár. Samningurinn nú gerir ráð fyrir 1047 þúsund tonna afla þessara ríkja, sem er 18% yfir heildarveiðiráðgjöf Alþjóða hafrannsóknarráðsins (ICES).

Þá á eftir að gera ráð fyrir veiðum Íslendinga, Grænlendinga og Rússa. Ljóst er að heildarveiðin getur samkvæmt þessu farið meira en 50% fram úr vísindalegri ráðgjöf ICES en þeir ráðlögðu 890 þúsund tonn.

Hafna sjálfbærum veiðum
Samningsaðilar eru með þessu að hafna algerlega sjálfbærum veiðum á stofninum og markmið þeirra virðist því vera að veiða makrílinn niður. Ákvörðunin er alger hneisa og ábyrgðarlaus gagnvart náttúrunni.

Evrópusambandið hefur gengið bak orða sinna um samning við okkur sl. haust sem var á grundvelli sjálfbærrar nýtingar og sýnir með óyggjandi hætti hvernig hugsunarháttur þeirra er gagnvart auðlindum hafsins.

Evrópusambandið ofveiðir nú 80% af sínum fiskistofnum og þar af eru 30% af stofnum þeirra að hruni komnir sökum ofveiði. Sambandið hefur lagt áherslu á að bæta fiskveiðistefnu sína sem einkenndist af ofveiði og brottkasti, en þessi ákvörðun grefur undan þeirri stefnu svo um munar, trúverðugleikinn er með öllu horfinn.

Reykfyllt bakherbergi
Norðmenn hafa leikið harðan leik allan tímann í málinu og því kom þessi ákvörðun þeirra ekki á óvart. En Evrópusambandið var búið að semja við Íslendinga um hlutdeild í makrílstofninum á grundvelli sjálfbærra veiða. Síðan færðist það nær Norðmönnum og samdi verulega umfram veiðráðgjöf. Þessi niðurstaða er því fullkomin svik af hálfu Evrópusambandsins, en kannski ekki við öðru að búast úr þeim herbúðum eftir fyrri hótanir þeirra um beitingu viðskiptaþvingana.

Nú ríður á að við stöndum saman í þessu mikla hagsmunamáli okkar Íslendinga og gagnrýnum harðlega þá ofveiði sem þessar þrjár þjóðir hyggjast efna til. Ísland stundar sjálfbærar veiðar.

 

Silja Dögg Gunnarsdóttir

(Greinin birtist í Fréttablaðinu 14. mars 2014.)

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Fréttir

Framboðslisti Framsóknar á Hornafirði samþykktur

Deila grein

14/03/2014

Framboðslisti Framsóknar á Hornafirði samþykktur

Asgerdur-GylfadottirFramboðslisti Framsóknarmanna og stuðningsmanna þeirra í Sveitarfélaginu Hornafirði við sveitarstjórnarkosningarnar 31. maí var einróma samþykktur á almennum félagsfundi Framsóknarfélaganna í Austur-Skaftafellssýslu 12. mars.
Ásgerður K. Gylfadóttir, bæjarstjóri, leiðir listann en hún var í öðru sæti fyrir fjórum árum. Heiðurssæti listans skipar Reynir Arnarson.
Listann skipa eftirtaldir:

  1. Ásgerður K. Gylfadóttir, bæjarstjóri
  2. Kristján S. Guðnason, matreiðslumaður
  3. Gunnhildur Imsland, ritari
  4. Ásgrímur Ingólfsson, skipstjóri
  5. Arna Ósk Harðardóttir, póstmaður
  6. Einar Smári Þorsteinsson, sjúkraþjálfari
  7. Snæfríður H. Svavarsdóttir, leikskólastjóri
  8. Guðbjörg Guðlaugsdóttir, húsmóðir
  9. Gunnar Páll Halldórsson, verkstjóri
  10. Erla Rún Guðmundsdóttir, bóndi
  11. Dóra Björg Björnsdóttir, nemi
  12. Gunnar Sigurjónsson, bóndi
  13. Örn Eriksen, fyrrv. bóndi
  14. Reynir Arnarson, vélstjóri og bæjarfulltrúi

Framsóknarmenn hafa verið í meirihluta í bæjarstjórn í sveitarfélaginu s.l. 12 ár og verið með hreinan meirihluta s.l. 4 ár. Ljóst er með þennan öfluga hóp af frambærilegu fólki ganga Framsóknarmenn og stuðningsmenn þeirra fullir eldmóðs til kosninga.
 
PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.