Categories
Greinar

Stórkostleg fjárlög

Deila grein

16/12/2013

Stórkostleg fjárlög

sigrunmagnusdottirÞessa dagana eru miklir annatímar á Alþingi. Löng umræða varð um Fjáraukalög fyrir árið 2013 og Fjárlög næsta árs liggja fyrir til afgreiðslu. Við sem styðjum ríkisstjórnina erum ánægð með gang mála og horfum vonglöð til framtíðar. Aðalbaráttumál stjórnarflokkanna í síðustu kosningum er að fá farsælan framgang. Fundin var sameiginleg niðurstaða þar sem helstu áherslur beggja stjórnarflokkanna til bjargar heimilunum í landinu fengu farveg. Forsendubresturinn vegna verðtryggðra skulda heimilanna verður leiðréttur að mestu með skattheimtu á lánastofnanir og með ráðstöfun séreignarlífeyrissparnaðar.

Þrátt fyrir að Fjáraukalög 2013 séu að mestu afleiðing af óraunhæfri fjárlagagerð síðustu ríkisstjórnar, hafði stjórnarandstaðan allt á hornum sér. Hún tók þá ýmsar ákvarðanir um verulegar hækkanir nokkurra útgjaldaliða sem ekki var innstæða fyrir og bætti síðan um betur í síðustu kosningabaráttu með stórfelldum fyrirheitum um greiðslur á næsta fjárlagaári. Það er ásetningur núverandi ríkisstjórnar að afgreiða hallalaus fjárlög fyrir næsta ár, þannig að óhjákvæmilegt er að draga sumt til baka sem fyrri stjórn gaf fyrirheit um.

Ríkisstjórnin stendur vörð um félags- og heilbrigðismál. Ákveðið er að auka framlög til sjúkrastofnana um fjóra milljarða frá því sem tillaga var gerð um í frumvarpinu. Allt að 6 þúsund milljónir króna fara til almannatrygginga, mest til styrktar eldri borgurum og öryrkjum. Þannig er verið að draga til baka skerðingar sem eldra fólk varð fyrir upp úr hruni. Skattar á millitekjur lækka um 5 þúsund milljónir og til leiðréttingar á forsendubresti húsnæðislána eru ætlaðar 20 þúsund milljónir með bankaskattinum. Þessar viðbótargreiðslur nema 35 milljörðum til heimilanna í landinu.Til meðferðar eru í þinginu frumvörp um frestun á nauðungarsölum og til að gera fólki léttbærara að komast í gegnum gjaldþrot. Þá verður ungu fólki auðveldað að kaupa sína fyrstu íbúð með því að veita afslátt af stimpilgjöldum.

Við stjórnarsinnar getum því verið ánægð og stolt yfir hallalausum fjárlögum næsta árs og að jafnframt hafi tekist að koma helstu stefnumálum flokkana í höfn til hagsbóta fyrir heimilin og heilbrigðiskerfið.

 

Sigrún Magnúsdóttir

Categories
Fréttir

Framsókn 97 ára

Deila grein

16/12/2013

Framsókn 97 ára

logo-framsokn-256x300Framsóknarflokkurinn var stofnaður á Alþingi 16. desember árið 1916. Fyrstu árin starfað hann eingöngu sem þingflokkur en uppúr 1930 var honum breytt í formlega fjöldahreyfingu með flokksfélög sem grunneiningar. Framsóknarflokkurinn var stofnaður til að virkja framfaraaflið í þjóðinni og íslenskt samfélag hefur tekið stakkaskiptum. Framfarasaga Íslands og sú hugmyndafræði sem Framsóknarflokkurinn byggir á, frjálslyndi, framsækni, samvinna og rökhyggja tengjast órjúfanlegum böndum.
Uppruna flokksins má rekja til tveggja hreyfinga sem höfðu mikil áhrif á íslenskt þjóðfélag á fyrstu árum aldarinnar þ.e. samvinnuhreyfingarinnar og ungmennafélaganna. Þessi samtök börðust m.a. fyrir almennum framförum og umbótum í landinu, aukinni menntun og atvinnurekstri sem tryggði mönnum sannvirði fyrir vöru og vinnu. Þessi hugsjónalegi bakgrunnur hafði mikil áhrif á stefnu flokksins og gerir enn í dag.
Stefnan
Framsóknarflokkurinn er frjálslyndur félagshyggjuflokkur sem vinnur að stöðugum umbótum og lausn sameiginlegra viðfangsefna í þjóðfélaginu. Við byggjum á frjálslyndri hugmyndafræði í anda hófsemi og heiðarleika og teljum farsælast að ná fram niðurstöðu með samvinnu fulltrúa ólíkra afla og hagsmuna. Við viljum áfram byggja upp íslenskt þjóðfélag á grunngildum lýðræðis, persónufrelsis, jafnræðis og samfélagslegrar ábyrgðar. Framsóknarstefnan setur manninn og velferð hans í öndvegi. Við berjumst fyrir mannréttindum og munum ávallt verja skoðana- og tjáningarfrelsi, trúfrelsi og friðhelgi einkalífs.
Sömu tækifæri fyrir alla
Við setjum manngildi ofar auðgildi og viljum tryggja öllum einstaklingum sömu tækifæri til menntast og þroska hæfileika sína í leik og starfi. Við höfnum allri mismunun sem byggist á uppruna fólks eða ólíkum skoðunum. Við stefnum að samfélagi umburðarlyndis og víðsýni þar sem margbreytileikinn fær að njóta sín. Við viljum jafna búsetuskilyrði með því að standa vörð um uppbyggingu samgangna og fjarskipta, fjölbreytts menntakerfis og vandaðrar heilbrigðisþjónustu fyrir alla landsmenn.

Categories
Greinar

Tómur þingsalur – hvar eru allir?

Deila grein

14/12/2013

Tómur þingsalur – hvar eru allir?

Silja Dögg GunnarsdóttirSú mynd sem margir hafa af störfum Alþingis er hálftómur þingsalur eða þingsalur þar sem menn skiptast á að vera með skæting og jafnvel rífast. Fyrirsagnir í blöðum undirstrika oft þetta ósætti og togstreitu sem á sér stað á Alþingi. Þó er það langt frá raunveruleikanum.

Samvinna og lýðræðisleg vinnubrögð

Sannleikurinn er hins vegar sá að starfið á Alþingi er yfirleitt unnið með sátt. Þingmenn tala saman og reyna að finna sameiginlegar lausnir á málum sem tekin eru fyrir í nefndum. Samvinnan er góð. Þetta virkar þannig að mál eru kynnt til sögunnar í þingsal og stundum er skipst á skoðunum. Því næst tekur nefnd við málinu þar sem  allir flokkar eiga fulltrúa. Nefndir boða síðan á sinn fund hagsmunaaðila og sérfræðinga sem tengjast máli og fá þanning heildstæða mynd. Nefndir skila yfirleitt einni niðurstöðu en stundum næst ekki full sátt í hópnum og þá skila nefndarmenn séráliti. Þaðan fer málið í þingsal, svo aftur í nefndina ef einhver óskar eftir því. Að lokinni þriðju umræðu í þingsal er kosið um þau. Ótal aðilar koma að vinnslunni og almenningur er einnig hvattur til  að skila inn áliti. Þannig að raunveruleg vinnsla mála fer fram í nefndum þingsins en umræða meðal allra þingmanna um þau fer fram í þingsal. Vinnubrögð og ferli mála eru því eins fagleg og lýðræðisleg og á verður kosið.

Nauðsynlegur undirbúningur

Þingfundir og nefndarfundir eru aldrei á sama tíma. En hvers vegna eru þingmenn þá ekki alltaf allir í þingsal. Eru þeir ekki að vinna vinnuna sína? Jú, þeir eru í flestum tilfellum að gera það. Vinnan fer nefnilega ekki öll fram í þingsal, og eiginlega að mestu leyti utan hans.  Þingmenn þurfa að lesa heilmikið um mál sem eru til umfjöllunar í þeim nefndum sem þeir sitja í. Þess fyrir utan þurfa þingmenn reyna að vera í góðu sambandi við sína flokksmenn og kjósendur, það er alger grundvallaratriði. Menn þurfa að mæta á ýmsa viðburði sem tengjast kjördæminu og málum sem þeir vinna að, skrifa greinar og fylgjast vel með fréttum af þjóðfélagsmálum. Meðan þingmenn undirbúa nefndarvinnunna fylgjast þeir oft með umræðum í þinginu rétt eins og almenningur af sjónvarpsskjám hvort sem það er í þingflokksherbergjum eða á skrifstofunum. Dagurinn endar því þannig eins  og við upplifum flest, að þessar 24 stundir duga skammt. Maður vill yfirleitt komast yfir meira en mögulegt er.

Gerum gott samfélag betra

Þingmenn vinna mikið saman þvert á flokka. Þannig að þessi margumtalaða flokkapólitík er ekki jafnöflug og af er látið. Fólk sameinast á ýmis þingmál óháð flokki, spjallar saman á kaffistofunni í mesta bróðerni, eins og á öðrum góðum vinnustöðum. Þingmenn eru bara venjulegt fólk. Fólk sem á sér alls konar bakgrunn og líf en á það þó sameiginlegt að vilja breyta samfélaginu til hins betra.

 

Silja Dögg Gunnarsdóttir

(Þessi grein er framhald greinar : „Hvað gerir þú á daginn?“)

Categories
Greinar

Hvað gerir þú á daginn?

Deila grein

13/12/2013

Hvað gerir þú á daginn?

Silja Dögg Gunnarsdóttir-„Ég starfa sem Alþingismaður.“

-„Já, já. En eruð þið bara ekki að rífast í þingsal alla daga? Er þetta ekki hundleiðinlegt?“

Svona spurningar fær nýr þingmaður gjarnan. Það má segja að gjá hafi myndast milli þings og þjóðar og þá á ég við að það virðist óljóst í hverju starf þingsmannsins felst. Þessi greinarstúfur er veikburða tilraun til að hefja brúarsmíði yfir gjána.

Venjulegur dagur

En hvað varðar dagleg störf þingmannsins þá er kannski enginn dagur venjulegur. Starfið er mjög erilsamt en yfirleitt gefandi og ánægjulegt. Svo ég taki bara dæmi af venjulegum þriðjudegi þá hófst dagurinn með nefndarfundi kl.9 og þeim fundi lauk kl.12. Á nefndarfundum hittum við fulltrúa ráðuneyta, sveitarfélaga og ýmissa hagsmunahópa sem vegna mála sem eru til umræðu á þingi.  Að fundi loknum kom ég mér fyrir á skrifstofunni og skrifaði ræðu fyrir þingfundinn sem hófst kl.13:30. Á þingfundinum var lífleg og málefnaleg umræða, m.a. um sæstreng og almannatryggingar. Enginn að rífast og enginn með dónaskap. Fólk skiptist á skoðunum í mesta bróðerni. Um fimmleytið fór ég aftur á skrifstofuna og lauk við að undirbúa þingmál sem ég mun flytja á morgun.

Á venjulegum degi þá svara ég tölvupósti inn á milli og les mig í gegnum skýrslur og ýmsar upplýsingar sem nauðsynlegar eru fyrir umræðuna hverju sinni. Ég fæ talsvert af beiðnum frá fólki sem vill hitta mig, sem er mjög jákvætt, og þá reyni ég að finna tíma í stundaskránni fyrir slíka fundi. Einnig er ætlast til að þingmenn mæti á vissa viðburði í kjördæminu, sem er bæði sjálfsagt og skemmtilegt. Enda byggist starf stjórnmálamannsins fyrst og fremst á að rækta tengsl við fólk og miðla upplýsingum frá þeim til Alþingis og öfugt.

Nú er klukkan rúmlega níu um kvöld og ég er að hugsa um að leggja af stað heim á leið innan skamms, þ.e. þegar ég hef lokið við að skrifa þessa grein. En það er ekki nóg að funda, tala og lesa, það verður að framkvæma og skila árangri. Ég mun því skrifa aðra grein þar sem ég geri stuttlega grein fyrir störfum þingsins. Framhald fljótlega.

 

Silja Dögg Gunnarsdóttir

Categories
Fréttir

Framboðslisti Framsóknar í Árborg samþykktur

Deila grein

13/12/2013

Framboðslisti Framsóknar í Árborg samþykktur

helgisigFramboðslisti Framsóknarflokksins fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í Árborg 2014 var samþykktur á fjölmennum félagsfundi í Framsóknarhúsinu á Selfossi í kvöld. Það var mikill einhugur á fundinum og stefnan sett hátt fyrir næsta vor. Uppstillingarnefnd sem skipuð var í byrjun október lagði fram tillögu sína sem var samþykkt samhljóða. Helgi S. Haraldsson bæjarfulltrúi skipar fyrsta sæti listans og Íris Böðvarsdóttir er í öðru sæti. Ragnar Geir Brynjólfsson situr í þriðja sæti og Karen H. Karlsdóttir Svendsen er í fjórða sæti. Í kosningum árið 2010 fékk flokkurinn einn bæjarfulltrúa kjörinn í bæjarstjórn.
Listinn í heild sinni:

  1. Helgi S. Haraldsson, bæjarfulltrúi og svæðisstjóri, Selfossi
  2. Íris Böðvarsdóttir, varabæjarfulltrúi og sálfræðingur, Óseyri
  3. Ragnar Geir Brynjólfsson, kerfisstjóri og framhaldsskólakennari, Selfossi
  4. Karen Karlsdóttir Svendsen, leiðbeinandi og háskólanemi, Selfossi
  5. Guðrún Þóranna Jónsdóttir, sérkennari, Selfossi
  6. Þorgrímur Óli Sigurðsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn, Selfossi
  7. Gissur Kolbeinsson, fulltrúi hjá BHM, Selfossi
  8. Björgvin Óli Ingvarsson, trésmiður og sjúkraflutningamaður, Geirakoti
  9. Renuka Perera, veitingakona, Tjarnarbyggð
  10. Björn Harðarson, bóndi, Holti
  11. Guðbjörg S. Kristjánsdóttir, grunnskólakennari, Selfossi
  12. Arnar Elí Ágústsson, sölustjóri, Tjarnarbyggð
  13. Sylwia Konieczna, matráður, Selfossi
  14. Þórir Haraldsson, lögfræðingur, Selfossi
  15. Jón Ólafur Vilhjálmsson, stöðvarstjóri, Selfossi
  16. Sigrún Jónsdóttir, þjónustufulltrúi, Selfossi
  17. Ármann Ingi Sigurðsson, tæknimaður, Selfossi
  18. Margrét Katrín Erlingsdóttir, löggiltur bókari, Stóra-Aðalbóli

Málefnavinna fyrir sveitarstjórnarkosningarnar hefst strax eftir áramót en öllum íbúum sveitarfélagsins verður boðið að koma að þeirri vinnu með einum eða öðrum hætti.

Categories
Greinar

Verjum aukinn hlut kvenna í bæjar- og sveitarstjórnum

Deila grein

11/12/2013

Verjum aukinn hlut kvenna í bæjar- og sveitarstjórnum

Eygló HarðardóttirUm þessar mundir standa allar Norðurlandaþjóðirnar á þeim merku tímamótum að öld er liðin frá því að konur fengu fyrst kosningarétt og kjörgengi til jafns við karla. Við Íslendingar fögnum þessum tímamótum árið 2015. Jafn kosningaréttur og kjörgengi kynja var einn mikilvægasti áfangi lýðræðisþróunar okkar. Þessi réttur felur í sér þau grundvallarmannréttindi að geta haft áhrif og hann endurspeglar sýn okkar á réttlætis- og jafnréttismál.

Við Íslendingar viljum halda myndarlega upp á 100 ára afmæli kosningaréttar og nýta tímamótin til að horfa um öxl og ígrunda hvernig þær miklu breytingar sem orðið hafa á sviði jafnréttismála hafa átt sér stað. Við eigum og þurfum að kortleggja þátttöku kvenna í stjórnmálum og greina þá áhrifaþætti sem skýrt geta kynjaskekkjuna sem enn birtist okkur á vettvangi stjórnmálanna.

Hér á landi eru konur nú um 40% kjörinna fulltrúa á sveitarstjórnarstiginu og á Alþingi þar sem þær urðu mest tæplega 43% þingmanna eftir kosningarnar 2009. Áður hafði hlutfall kvenna farið hæst í 35 af hundraði árið 1999. Hlutur kvenna í stjórnmálum hefur vaxið hægt hér á landi og er nú í fyrsta skipti sambærilegur við það sem gerist annars staðar á Norðurlöndunum.

Líta ber á þennan árangur sem áfangasigur í átt að því markmiði að ná sem jöfnustu hlutfalli kynja meðal kjörinna fulltrúa þjóðarinnar. Höfum hugfast að þessi árangur hefur ekki náðst af sjálfu sér heldur er hann afrakstur rúmlega 100 ára þrotlausrar baráttu kvenna fyrir sjálfsögðum mannréttindum. Við vitum af reynslu að við þurfum að halda vöku okkar til að ekki verði bakslag og við eigum að stefna að jöfnum hlut kynjanna þar sem ákvarðanir eru teknar.

Nú í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga þurfum við að minna á að það er ekki nóg að konum hafi fjölgað á framboðslistum stjórnmálaflokka þegar þeim fækkar hlutfallslega eftir því sem ofar dregur á framboðslistum. Ef markmið okkar er jafnt hlutfall kynja meðal kjörinna fulltrúa þurfa konur að vera til jafns við karla í forystusætunum. Í síðustu sveitarstjórnarkosningum skipuðu karlar fyrsta sæti á 139 framboðslistum (75%) á meðan konur skipuðu fyrsta sæti á 46 (25%) framboðslistum.

Ábyrgð flokkanna
Stjórnmálaflokkarnir bera hér mesta ábyrgð. Þeir þurfa að standa vörð um þann árangur sem náðst hefur og jafna hlut kynja enn frekar við stjórn málefna nærsamfélagsins. Það er staðreynd að konur staldra skemur við í stjórnum bæjar- og sveitarfélaga en eftir síðustu sveitarstjórnarkosningar var hlutfall nýkjörinna sveitarstjórnarkvenna af heildarfjölda kjörinna kvenna 13% hærra en sama hlutfall meðal karla.

Þetta er sterk vísbending um að konur staldra skemur við en karlar í sveitarstjórnum en ástæður þessa má rekja til ýmissa þátta sem hafa töluvert með hefðbundið starfsumhverfi sveitarstjórna og viðhorf samfélagsins til hlutverka kynjanna bæði innan og utan stjórnmálaflokka að gera. Hefðbundnar hugmyndir um hlutverk kynjanna endurspeglast m.a. í nefndaskipan á sveitarstjórnarstiginu þar sem karlar sinna einkum skipulagsmálum og konur velferðarmálum.

Byggðamál þarf að skipuleggja með jafnréttissjónarmið í huga. Stjórnun á vettvangi bæjar- og sveitarstjórnarmála felur í sér mikilvæga þjónustu við almenning, karla og konur. Stefnumótun, umræða og ákvarðanataka um byggðaþróun, skipulagsmál og velferð íbúa sveitarfélaganna á að vera viðfangsefni beggja kynja.

Búseta, atvinna og nýsköpun um allt land verða ekki tryggð nema með virkri þátttöku kvenna sem vilja störf sem hæfa háu menntunarstigi þeirra. Þannig er jafn hlutur kvenna og karla þar sem ákvarðanir eru teknar ekki eingöngu réttlætismál heldur efnahagsleg nauðsyn fyrir byggðirnar í landinu.

Sem ráðherra jafnréttismála hvet ég konur til þátttöku í stjórnmálum og mótun nærsamfélags okkar. Ég höfða einnig til ábyrgðar stjórnmálaflokkanna því vilji þeirra til að fjölga konum í stjórnmálum og sérstaklega í forystusætum framboðslista er afgerandi.

Til að vekja máls á mikilvægi jafnrar þátttöku kvenna og karla í sveitarstjórunum eftir komandi sveitarstjórnarkosningar hef ég í samstarfi við Hönnu Birnu Kristjánsdóttir innanríkisráðherra og nýskipaða framkvæmdanefnd um 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna boðað til fundar með forystu stjórnmálaflokkanna og forsvarsmönnum kvennahreyfinga þeirra. Ég vona að sá fundur færi okkur nær markmiðinu um jafnan hlut kvenna og karla í íslenskum stjórnmálum.

 

Eygló Harðardóttir

Categories
Fréttir

Mikilvægt er að raddir kvenna heyrist

Deila grein

11/12/2013

Mikilvægt er að raddir kvenna heyrist

Eygló Harðardóttir„Ég vonast til að Ísland geti lagt af mörkum í samstarfi þjóðanna og tekið virkan þátt í því mikilvæga sameiginlega verkefni að bæta stöðu kvenna og stuðla að jafnrétti kynjanna, hvar sem er í heiminum“ sagði Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, þegar hún veitti viðtöku jafnréttisverðlaunum fyrir Íslands hönd á þingi Alþjóðasamtaka þingkvenna (Women in Parliaments) í síðustu viku í Brussel á vegum Evrópuþingsins.

Konur á Nýja Sjálandi fyrstar kvenna með kosningarétt
Verðlaunaafhendingin fór fram í tilefni þess að 120 ár eru liðin frá því að konur á Nýja Sjálandi fengu kosningarétt, fyrstar kvenna. Þátttakendur komu víðs vegar að úr heiminum og í hópi þeirra voru margir vel þekktir stjórnmálamenn, Nóbelsverðlaunahafar, aðgerðasinnar og áhrifavaldar á sviði jafnréttismála sem ræddu hvernig konur í leiðtogastöðum geta stuðlað að mikilvægum breytingum í stjórnmálum og samfélaginu almennt.
Í nýlegri úttekt Alþjóðaefnahagsráðsins (World Economic Forum) á stöðu jafnréttismála sem tekur til 136 landa varð Ísland í fyrsta sæti þriðja árið í röð. Matið byggist á þáttum eins og stjórnmálaþátttöku, þátttöku í atvinnulífinu og efnahagslegum jöfnuði og tækifærum til þess að njóta menntunar og heilbrigðisþjónustu.
Viðurkenningunni fylgir ábyrgð
Eygló Harðardóttir velferðarráðherra og Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra tóku við viðurkenningum fyrir Íslands hönd fyrir þann framúrskarandi árangur sem náðst hefur í því að brúa bilið milli kynja líkt og fram kemur í úttekt Alþjóðaefnahagsráðsins. Í ávarpi sem Eygló flutti við þetta tækifæri sagði hún meðal annars:
eyglo-hardardottir-Fra-WIP-verdlaunaafhendingunni„Það er mér mikill heiður að standa í þessum sporum og veita viðtöku fyrir hönd Íslands þeirri viðurkenningu sem hér er veitt.
Réttindi kvenna eru mannréttindi og engin þjóð getur staðið undir nafni sem heil og sameinuð þjóð ef konur og karlar fá ekki notið til jafns allra réttinda og tækifæra sem samfélagið hefur upp á að bjóða.
Eins og við vitum er staða kvenna í heiminum afar ólík eftir löndum og heimshlutum. Ástæðurnar fyrir kynbundnu misrétti eru margvíslegar – og ræturnar geta legið djúpt og því reynst erfitt að uppræta þær. Þetta vitum við öll en við vitum líka að með þrotlausri vinnu, sterkum vilja og trú á málstaðinn getum við flutt fjöll og rutt öllum hindrunum úr vegi.
Jafnrétti kynja er mikilvæg forsenda fyrir hagsæld og velferð þjóða. Rannsóknir sýna að valdefling kvenna og kynjajafnrétti stuðlar að aukinni framleiðni, eflir stofnanir samfélagsins og leggur grunn að betri framtíð komandi kynslóða.
Sú þjóð sem tryggir ekki rétt kvenna til menntunar, atvinnuþátttöku, stjórnmálaþátttöku og efnahagslegra gæða til jafns við karla – sú þjóð sem heldur konum niðri með því að neita þeim um sjálfstæði og sjálfræði og fulla þátttöku og áhrif í samfélaginu – sú þjóð grefur undan sjálfri sér og möguleikum sínum til að blómstra og dafna í framtíðinni.“
Eygló lagði áherslu á að viðurkenningin feli ekki í sér að verkefninu sé lokið, hún sé miklu fremur hvatning til þess að gera enn betur í því að efla þátttöku kvenna á öllum sviðum samfélagsins, styrkja áhrif kvenna í atvinnulífinu og stjórnmálalífinu og útrýma kynbundnum launamun. „Það er ánægjulegt og mikils virði fyrir okkur Íslendinga að hafa öðlast þennan sess í samfélagi þjóðanna – að vera þjóð sem litið er upp til fyrir að tryggja konum mannréttindi sem ættu að vera sjálfsögð – en eru það því miður ekki svo víða um heim. Ég lít svo á að verðlaunin sem hér eru afhent feli ekki aðeins í sér viðurkenningu heldur fylgi henni einnig ábyrgð. Ég vonast til að Ísland geti lagt af mörkum í samstarfi þjóðanna og tekið virkan þátt í því mikilvæga sameiginlega verkefni að bæta stöðu kvenna og stuðla að jafnrétti kynjanna, hvar sem er í heiminum.“
Strengthening women’s political participation

LIBIERAL_Minister_Eyglo_03Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra var svo frummælandi á sameiginlegum fundi Liberal International og National Democratic Institute við sama tækifæri er bar yfirskriftina “strengthening women’s political participation” til heiðurs Madeleine Albright en hún hefur verið í forsvari fyrir samtökin í um 10 ár.

Umræður á ráðstefnunni tengdist, m.a. því hvernig ná má fram breytingum í stjórnmálum svo að þau laði að fleiri konur og í því sambandi voru viðraðar hugmyndir um hvernig konur geta búið sér til samskiptanet jafnvel þvert á lönd og landamæri til þess að efla böndin sín á milli. Einnig spunnust umræður um hvort og hvernig núverandi kosningakerfi hvetur eða letur konur til stjórnmálastarfa.
Eygló Harðardóttir sagði m.a. í erindi sínu að það ætti ekki aðeins að einblína á það að konur eru í minnihluta í stjórnmálum heldur verður að greiða götu þeirra svo að Líneik Anna Sævarsdóttirraddir þeirra heyrist. Konur gegna mikilvægu sjálfboðaliðastarfi innan stjórnmála og það verður að hlúa að hugmyndum þeirra. Einnig að það væri sameiginlegt verkefni að bæta stöðu kvenna og stuðla að jafnrétti kynjanna, hvar sem er í heiminum. Það er því ljóst að kvenkyns leiðtogar standa frammi fyrir ögrunum sem sem kallar á aukinn stuðning allra þeirra er málið varðar.
Á ráðstefnunni voru fulltrúar er komu víðsvegar að úr heiminum og tengjast þeir allir jafnréttismálum með einum eða öðrum hætti. Frummælendur sátu fyrir svörum og spunnust afar áhugaverðar umræður, m.a. talaði Fuziah Binti Salleh frá People´s Justice Party (PKR, Malasia) um reynslu sína og benti á mikilvægi þess að brjóta upp hefðbundnar staðalímyndir. Hún sagði einnig frá því að hennar flokkur væri eini aðilinn í Asíu sem hefur nú kynnt kynjakvóta og útskýrði í framhaldi mikilvægi þess að stuðla að hvatningu og þjálfun fyrir kvenkyns leiðtoga framtíðarinnar í stjórnmálum ásamt því að styðja við karla til að svo geti orðið.
Líneik Anna Sævarsdóttir alþingismaður var einnig fulltrúi Íslands á þessum fundum.

Categories
Fréttir

Leiðtogar frjálslyndra flokka minna á alþjóðadag mannréttinda

Deila grein

10/12/2013

Leiðtogar frjálslyndra flokka minna á alþjóðadag mannréttinda

Sigmundur Davíð GunnlaugssonSigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra og formaður Framsóknar, tók þátt í að minna á alþjóðadag mannréttinda (International Human Rights Day) ásamt Nick Clegg, Shirin Ebadi og fleiri forystumönnum frjálslyndra flokka á vef Liberal International í dag. Sameinuðu þjóðirnar stofnuðu til Alþjóðadags mannréttinda árið 1950 til að vekja athygli á Mannréttindayfirlýsingunni og efla baráttu fyrir mannréttindum í heiminum.
Sigmundur Davíð minnti á að í dag heiðrar fólk um allan heim minningu Nelson Mandela, sem í lifanda lífi varð eitt af helstu táknum baráttunnar fyrir mannréttindum í heiminum, og hvatti til þess að minning hans yrði þeim sem eftir lifa hvatning til að gefast aldrei upp í baráttunni fyrir því að allir jarðarbúar fái notið mannréttinda, frelsis og réttlætis.
Lesa má hvatningu Sigmundar Davíðs og ummæli annarra á vef Liberal International.

Categories
Greinar

Skuldaleiðréttingin – stefnumótandi aðgerð

Deila grein

09/12/2013

Skuldaleiðréttingin – stefnumótandi aðgerð

Willum Þór ÞórssonNú hafa niðurstöður sérfræðingahóps ríkisstjórnarinnar um skuldaleiðréttingu verið kynntar.   Í skýrslu hópsins kemur fram stefna ríkisstjórnarinnar, nánari útfærsla á aðgerðum til leiðréttingar á höfuðstól verðtryggðra húsnæðislána.  Aðgerðin er tvíþætt; annars vegar er um að ræða beina leiðréttingu og hins vegar um að ræða lækkun á höfuðstól með skattleysi séreignalífeyrissparnaðar.    Hér er tekið mikilvægt skref í efnahagsáætlun ríkisstjórnarinnar og stórt skref í uppgjöri við hrunið.  Ég vil tala um stefnumótandi aðgerð þar sem við erum komin að framkvæmdaþætti þessa mikla og vandasama verkefnis.   Allt frá hruni fjármálakerfisins töluðum við framsóknarmenn um að ráðast þyrfti í slíkar almennar efnahagslegar aðgerðir.    Síðastliðið kjörtímabil var ýmislegt reynt en heimili með verðtryggð húsnæðislán sátu eftir sem er hvorki sanngjarnt né réttlátt.  Sífellt fleirum varð ljóst að meira þyrfti til.  Segja má að niðurstöður kosninganna hafi endurspeglað þá skoðun og þann vilja sem greina mátti í máli beggja flokka, sem nú mynda ríkisstjórn. Markmiðin um þessa fyrirætlan voru sett fram í stjórnarsáttmálanum, sem er jú hið hefðbundna fyrsta skref þegar unnið er með stefnumótun.  En þar segir:

„ríkisstjórnin muni með markvissum aðgerðum taka á skuldavanda íslenskra heimila sem er til kominn vegna hinnar ófyrirsjáanlegu höfuðstólshækkunar verðtryggðra lána sem leiddi af hruni fjármálakerfisins. Grunnviðmiðið er að ná fram leiðréttingu vegna verðbólguskots áranna 2007-2010 en í því augnamiði má beita bæði beinni niðurfærslu höfuðstóls og skattalegum aðgerðum. Um verður að ræða almenna aðgerð óháð lántökutíma með áherslu á jafnræði.“

Þessu fylgdi ríkisstjórnin síðan eftir með þingsályktunartillögu í  10 liðum þar sem Alþingi ályktaði að fela ríkisstjórninni að fylgja eftir aðgerðaáætlun til þess að taka á skuldavanda heimila á Íslandi.  Þar var leiðin vörðuð.  Stakar aðgerðir voru eyrnamerktar ráðherrunum, ábyrgðavæddar og tímasettar.  Tveir veigamestu liðirnir í þessari áætlun má segja að hafi verið skuldaleiðréttingin sjálf í útfærslu sérfræðingahópsins og svo vinna sérfræðingahóps um afnám verðtryggingar á neytendalánum.   Nú liggur vinna sérfræðingahópsins um skuldaleiðréttinguna fyrir og ég hvet alla til að kynna sér hana.  Verðtryggingarhópurinn mun svo kynna sínar niðurstöður í kjölfarið nú í desember.

Með þessum almennu efnahagslegu aðgerðum verður forsendubresturinn leiðréttur með jafnræði, sanngirni og réttlæti að leiðarljósi.  Það má alltaf deila um þau viðmið og þau mörk sem sett eru til að ramma slíka vinnu. Aðalatriðið er að ríkisstjórnin boðaði aðgerðir í þágu heimilanna og hefur nú sett fram útfærslu aðgerða í samræmi við stjórnarsáttmálann.  Aðgerðunum er stillt í hóf með samspili niðurfærslunnar og skattleysi séreignasparnaðar en magna þannig um leið jákvæð áhrif á hagkerfið í heild.

Kópavogur hefur byggst hratt upp á síðustu tveimur áratugum og því hefur eðlilega fylgt mikil fjárfesting heimila í íbúðarhúsnæði.   Í því ljósi er þetta stórmál fyrir okkar bæjarfélag og mikilvægt að vel takist til með framkvæmdina.   Þessi aðgerð mun marka tímamót og rjúfa kyrrstöðu.  Aðgerð sem ræðst að rótum vandans, of mikilli skuldsetningu heimila, leið til sjálfshjálpar til aukinnar eignamyndunar og hagvaxtar.  Með þessum aðgerðum er það trú mín að Kópavogur muni áfram vaxa og dafna, eins og undanfarna áratugi.   Í janúar mun svo verkefnissjórn félags- og húsnæðismálaráðherra skila tillögum um framtíðarskipan húsnæðismála.

 

Willum Þór Þórsson

Categories
Greinar

Skuldaleiðréttingin: Glíman hafin – en henni er ekki lokið

Deila grein

09/12/2013

Skuldaleiðréttingin: Glíman hafin – en henni er ekki lokið

Silja Dögg GunnarsdóttirDagurinn 30. nóvember var stór dagur og mun eiga sinn sess í sögubókum framtíðarinnar. Þann dag kynnti ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks tillögur um skuldaleiðréttingu á verðtryggðum stökkbreyttum húsnæðislánum.

Eignalausa kynslóðin

Alveg síðan að Hrunið varð haustið 2008 hafa heimili landsins beðið eftir aðgerðum. Núverandi ríkisstjórn lofaði aðgerðum því það er mun dýrara fyrir samfélagið að skilja heimilin eftir í skuldum og heila kynslóð eftir eignalausa, en að leysa vandann. Sérfræðingahópurinn að baki skuldaleiðréttingunni hefur nú skilað afar vandaðri skýrslu og á heimasíðu Forsætisráðuneytisins má finna skýrsluna, Spurt og svarað, glærukynninguna og fleira sem að gagni kemur til að átta sig á í hverju aðgerðirnar felast: https://www.forsaetisraduneyti.is/

Leiðréttingin

Leiðréttingin er almenn aðgerð sem felst í að verðtryggð húsnæðislán verða færð niður um fjárhæð  sem svarar verðbótum umfram 4,8% sem féllu til á tímabilinu desember 2007-ágúst 2010. Tekið verður tillit til fyrri úrræða, m.a. 110% leiðarinnar. Hámarksfjárhæð niðurfærslu er 4 milljónir á heimili og leiðréttingin verður gerð á fjórum árum. Þessi leið mun ekki hafa þensluhvetjandi áhrif á samfélagið að mati sérfræðinga. Gert er ráð fyrir að leiðréttingin fari fram um mitt árið 2014 og úrræði séreignarsparnaðar hefjist sama ár. Þeir sem nýta sér bæði úrræðin geta fengið um 20% höfuðstólslækkun fyrir lok árs 2017 að gefnum forsendum um verðbólgu, lánsfjárhæð og launaþróun.

Nær til flestra heimila

Skattfrjálsan séreignasparnað geta allir nýtt sér, ekki bara skuldarar heldur líka ungt fólk sem býr í foreldrahúsum og leigjendur. Með því að bjóða upp á þennan möguleika þá nær aðgerðin til 100 þúsund heimila í landinu af 125 þúsund, en aðeins 21 þúsund heimila eru skuldlaus. Aðrir skulda eða leigja.

Gagnrýnt hefur verið að hátekjufólk muni græða mest á séreignarsparnaðarleiðinni en það er ekki rétt, þar sem þakið er 500 þús. kr. á heimili á ári, sem miðast þá við að samanlögð mánaðarlaun heimilis séu um 700 þús. kr.  Sú staðreynd að þak sé á leiðréttingunni upp á 4 millj. króna tryggir líka að fyrst og fremst sé verið að koma til móts við millistéttina og bæta kjör sem flestra heimila en flestir skulda minna en 25 milljónir króna.

Þörf á frekari aðgerðum til að leysa vandann

Heimilin eru grunneining samfélagsins. Ef þau virka ekki þá er kyrrstaða. Aðgerðaráætlun í tíu liðum um lausn á skuldavanda heimilanna var samþykkt á Alþingi í sumar: https://www.althingi.is/altext/142/s/0009.html

Skuldaleiðréttingin var aðeins einn liður í þeirri áætlun. Það er ljóst að verkefnin framundan eru fjölmörg. Skuldaleiðréttingin ein og sér leysir ekki vanda allra, en hún er skref í rétta átt. Framundan eru bjartari tímar og nýtt framfaraskeið íslenskrar þjóðar.

 

Silja Dögg Gunnarsdóttir