Categories
Fréttir

Af fundarstjórn forseta

Deila grein

26/02/2014

Af fundarstjórn forseta

Karl GarðarssonKarl Garðarsson fór yfir í umræðu um störf þingsins á Alþingi í dag að síðastliðna tvo sólarhringa, mánudag og þriðjudag, hafi stjórnarandstaðan kvatt sér hljóðs 292 sinnum undir liðnum fundarstjórn forseta í tengslum við umræðuna um ESB og talað í 321 mínútu.
Katrín Júlíusdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, hefur flutt flestar ræður undir þessum lið eða sextán. Skammt undan eru Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri grænna og Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar.
Valgerður Bjarnadóttir hefur reyndar komið mjög sterk inn á síðustu klukkustundum og nálgast topp þrjú.
Karl fór yfir að samkvæmt þingsköpum mætti hver þingmaður koma upp tvisvar sinnum, eina mínútu í senn, til að gera athugasemdir við fundarstjórn forseta. Hann sagði að gera yrði þá lágmarkskröfu að þingmenn kæmu upp til að ræða það sem þessi liður snérist um – fundarstjórn forseta.
Miklar deilur hafa verið á Alþingi í vikunni vegna ákvörðunar stjórnvalda um að draga til baka umsókn Íslands að Evrópusambandinu. Þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa gert það sem þeir geta til að koma í veg fyrir að utanríkisráðherra nái að mæla fyrir þingsályktunartillögunni í þessari viku en í næstu viku verða ekki þingfundir vegna nefndadaga.
„Eitt stærsta vandamál þingsins er vantraust – vantraust almennings sem hefur fengið nóg af innantómu pexi þingmanna. Það er alltaf stutt í málþófið og það er til skammar,“ sagði Karl Garðarsson.

Categories
Fréttir

Framboðsreglur vegna sveitarstjórnarkosninga

Deila grein

24/02/2014

Framboðsreglur vegna sveitarstjórnarkosninga

logo-framsokn-256x300Framboðsnefnd Framsóknar hefur skilað af sér drögum að framboðsreglum vegna sveitarstjórnarkosninga. Í lögum Framsóknarflokksins segir að reglur um val frambjóðenda til sveitarstjórnarkosninga geti verið af fjórum gerðum: Póstkosning; lokað prófkjör; uppstilling og opið prófkjör.
Landsstjórn ákvað á fundi sínum þann 29. janúar í samræmi við skoðun framboðsnefndarinnar að landsstjórn setji ekki samræmdar reglur heldur verði þetta leiðbeinbandi reglur og til höfð til hliðsjónar við val á framboðslista fyrir sveitarstjórnarkosningar. Enda eru allmörg sveitarfélög farin af stað með sína vinnu fyrir þessar sveitarstjórnarkosningar og sá ferill verður ekki tekin upp.
Við smíði reglna um framboð til sveitarstjórna var byggt á grunni reglna um val á framboðslista til Alþingis, en ákveðið að tillit yrði tekið til sérstöðu sveitarstjórnarkosninga og venja sem hafa skapast í kringum framkvæmd þeirra í gegnum árin hjá flokknum.
Þau drög að reglum við val á framboðslista til sveitarstjórna er hér liggja fyrir leggur nefndin til að viðhaft skuli beint lýðræði við ákvörðun um framboðsleið og endanlega samþykkt framboðslista, þannig fá allir flokksbundnir framsóknarmenn sem eiga lögheimili í sveitarfélagi, þ.m.t. þeir sem hafa skráð sig í flokkinn 30 dögum fyrir valdag, seturétt og atkvæðisrétt á kjördæmaþingi; fulltrúaráðsfundi; félagsfundi.
Þetta leiðir af sér að boða skal alla félagsmenn með lögheimili í sveitarfélaginu til þings/fundar við endanlega samþykkt framboðslistans.
Fram kom mjög skýr krafa á kjördæmisþingunum og á síðasta miðstjórnarfundi að þessar reglur mættu ekki vera of íþyngjandi fyrir fólk. Hér eru fyrst og fremst mjög góðar reglur til stuðnings í störfum við val á framboðslista.
FRAMBOÐSREGLUR TIL SVEITARSTJÓRNAR

Categories
Greinar

Við vorum kosin til að gera breytingar

Deila grein

23/02/2014

Við vorum kosin til að gera breytingar

Sigmundur Davíð GunnlaugssonSíðustu alþingiskosningar snerust fyrst og fremst um þær breytingar sem nauðsynlegt er að gera til að koma samfélagi okkar upp úr hjólförunum. Það er vel þekkt staðreynd að í djúpri niðursveiflu felast tækifæri til að ná snöggri uppsveiflu. En á Íslandi varð biðin eftir viðsnúningi löng, enda voru mörg tækifæri vannýtt og árum saman fylgt stefnu sem var síst til þess fallin að ýta undir vinnu, vöxt og velferð. Óþreyjan eftir framförum var því orðin mikil.

Margar þeirra breytinga sem kallað var eftir við kosningar eru gríðarlega stórar og mikilvægar fyrir framtíð Íslands. Þar má meðal annars nefna leiðréttingu á verðtryggðum lánum heimilanna, einföldun skattkerfisins, breytingu á samskiptum Íslands og Evrópusambandsins, bætt viðhorf stjórnvalda til atvinnulífsins, grundvallarbreytingar á fjármálaumhverfinu, m.a. vegna afnáms verðtryggðra neytendalána, skuldaskil þrotabúa gömlu bankanna og afnám fjármagnshafta.

Núverandi ríkisstjórnarflokkar fengu mjög afdráttarlaus skilaboð í alþingiskosningunum. Þau skilaboð tökum við alvarlega. Við vorum kosin til að gera breytingar. Það erum við að gera og munum gera áfram.

Breytingar mæta iðulega mótspyrnu. Miklar breytingar mæta mikilli mótspyrnu og hún getur tekið á sig ýmsar myndir. Gagnrýni og rökræða eru nauðsynleg í lýðræðissamfélagi. Þegar ráðist er samtímis í margar stórar og afgerandi samfélagslegar breytingar sem skipta máli fyrir afkomu heimilanna, skipan fjármálakerfisins, samskipti okkar við umheiminn og komið í veg fyrir að kröfuhöfum bankanna séu tryggð þau sérkjör sem einhverjir þeirra virðast hafa haft væntingar um, þá þarf ekki að koma á óvart að mótstaðan verði bæði mikil og áköf og gangi jafnvel lengra en talist getur til eðlilegrar gagnrýni.

Breytt stefna kallar alltaf á andstöðu þeirra sem vildu halda óbreyttri stefnu (eða stefnuleysi) og þeirra sem hafa hag af óbreyttu ástandi.

Strax og þessi ríkisstjórn tók við kom í ljós að þær breytingar sem boðaðar voru í kosningum, og ríkisstjórnin var mynduð um, mættu mikilli mótspyrnu. Sú mikla varnarbarátta sem nú er háð gegn hreyfiafli breytinganna, bæði í fjölmiðlum og annars staðar í samfélaginu, hefur ekki farið fram hjá neinum og er skýrt merki þess að breytingarnar séu byrjaðar að skila árangri.

Upp úr hjólförunum

Um allt land sjást þess nú merki að íslenskt samfélag er að vakna af þyrnirósarsvefni áranna eftir bankahrunið. Efnahagslífið er að taka við sér með verulega auknum hagvexti, hvarvetna eru framkvæmdir hafnar eða að hefjast. Merki um framfarir blasa víða við.

Ný þjóðhagsspá Arion banka var kynnt á ráðstefnu í vikunni með yfirskriftinni »komin upp úr hjólförunum«. Í fyrra var yfirskrift sömu ráðstefnu »föst í fyrsta gír« og sést ágætlega á þeirri breytingu að mikið hefur gerst á undanförnu ári.

Hagvöxtur tók stökk á afgerandi og jákvæðan hátt síðastliðið haust, hagvaxtarspá Seðlabankans fyrir næsta ár er nú mun jákvæðari en von var á. Fjárfesting hefur aukist meðal smærri fyrirtækja á árinu og byggingariðnaðurinn er að taka verulega við sér. Talið er að um 2.000 störf bætist við í byggingariðnaði á næstu árum og því er spáð að atvinnuleysi muni lækka niður undir 3% – eða nálægt atvinnuleysistölum í venjulegu árferði á Íslandi. Auk þess er því nú spáð að verðbólga muni fara lækkandi fram eftir árinu sem er sérstaklega mikilvægt vegna þess að brýna nauðsyn ber til að auka kaupmátt heimilanna.

Ekkert lát er á fjölgun erlendra ferðamanna og um allt land er uppbygging á spennandi tækifærum í ferðaþjónustu í fullum gangi. Við þetta bætist að hagvaxtarhorfur í helstu viðskiptalöndum okkar fara nú batnandi, lánshæfi landsins er orðið stöðugt og ýmsar vísbendingar eru um bætt vaxtakjör og meira traust á íslenska ríkinu.

Það er því full ástæða til að gleðjast yfir þeim áberandi jákvæðu breytingum sem hafa orðið á stöðu landsins og aðstæðum í samfélaginu síðastliðið ár.

Ísland er land tækifæranna

Framundan eru stór verkefni og mikilvægar breytingar.

Ein þeirra er afnám fjármagnshafta, sem nú er unnið að með skipulegum hætti. Um er að ræða grundvallarmál sem snertir líf allra landsmanna og komandi kynslóða Íslendinga. Inn í það mál blandast gífurlegir hagsmunir vogunarsjóða sem eiga kröfur í þrotabú föllnu bankanna. Skuldaskil þeirra eru eitt þeirra verkefna sem leysa þarf af kostgæfni og með hagsmuni íslensku þjóðarinnar í fyrirrúmi, svo að hægt sé að afnema fjármagnshöft. Það kemur ekki til greina af hálfu stjórnvalda að íslenskur almenningur og íslenskt atvinnulíf taki á sig auknar byrðar til að leysa einn hóp úr höftum á meðan aðrir eru skildir eftir með enn stærri vanda. Lausn þarf því að vera til þess fallin að leyfa almenna afléttingu fjármagnshaftanna.

Það er skiljanlegt að þeir sem eiga gífurlegra fjárhagslegra hagsmuna að gæta við uppgjör föllnu bankanna reyni að verja þá hagsmuni með kjafti og klóm. En ríkisstjórnin mun ekki undir nokkrum kringumstæðum fórna langtímahagsmunum komandi kynslóða við skuldaskil fallinna banka. Því er óhætt að treysta.

Það er ástæða til að vera mjög bjartsýnn á framtíð Íslands. Íslendingar hafa á liðnum áratugum oft fengið storminn í fangið en í hvert sinn staðið uppréttir eftir. Þjóðin hefur sýnt að hún er fullfær um að standa gegn hvers konar þrýstingi til að verja framtíðarhagsmuni sína.

Nú, þegar við erum loks komin upp úr hjólförunum, eru landinu allir vegir færir. Þjóðir um allan heim hafa áhuga á Íslandi og líta á Ísland sem land tækifæra. Við eigum að nýta þau tækifæri vel og leggja áherslu á að eiga viðskipti og uppbyggileg samskipti við öll þau lönd sem vilja vinna með okkur á slíkum grundvelli.

Þó að breytingar mæti alltaf mótstöðu, þeim mun meiri mótstöðu eftir því sem hagsmunirnir eru meiri, þá mun ríkisstjórnin hvergi hvika. Við vorum kosin til að gera breytingar og það munum við gera.

 

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson

(Greinin birtist í Morgunblaðinu 22. febrúar 2014.)

Categories
Fréttir

LFK hvetur konur áfram!

Deila grein

21/02/2014

LFK hvetur konur áfram!

lfkmerkiliturFramkvæmdastjórn LFK hefur samþykkti eftirfarandi ályktun:
„Framkvæmdarstjórn LFK starfar fyrir allar konur í flokknum til að auka veg þeirra til áhrifa í stjórnmálum, en vill ekki skapa fordæmi þess eðlis að taka stöðu í einstökum framboðsmálum. Framkvæmdastjórn LFK fylgist með hlut kvenna innan Framsóknarflokksins og mun hvetja uppstillingarnefndir og kjörnefndir áfram í sinni vinnu við að tryggja hlut kvenna í forystusætum. Hvetur Framkvæmdastjórn LFK konur áfram um allt land til þess að auka hlut kvenna, fylgjast með og vera í sambandi við framkvæmdastjórnina um gang mála. Að lokum vill framkvæmdastjórn LFK taka undir þau skilaboð sem bárust öllum formönnum félaga frá Jafnréttisnefnd flokksins varðandi jöfn kynjahlutföll.“
Categories
Greinar

Gagnaver á Blönduósi

Deila grein

20/02/2014

Gagnaver á Blönduósi

Sigrún MagnúsdóttirAlþingi ályktaði 15. janúar sl að fela stjórnvöldum að koma á samstilltu átaki með sveitarfélögum í Austur-Húnavatnssýslu um eflingu atvinnulífs og sköpun nýrra starfa á Norðurlandi vestra með nýtingu raforku sem framleidd er í Blönduvirkjun. Jafnframt ber að vinna að markaðssetningu svæðisins sem iðnaðarkosts, svo sem fyrir gagnaver.

Með þessari ákvörðun Alþingis er stigið stefnumarkandi skref til þess að gagnaver rísi á Blönduósi. Forráðamenn sveitarfélagsins hafa undirbúið málið með því að bjóða fram mjög hentugt landsvæði í eigu sveitarfélagsins og komið því á aðalskipulag. Staðhættir bjóða þar upp á flesta hugsanlega kosti til starfrækslu gagnavers. Þar er mjög vítt og hentugt landrými, orkuflutningur frá Blönduvirkjun mjög öruggur og um skamma leið að fara svo orkutap er lágmarkað. Engin hætta er af eldgosum, jarðskjálftum eða annarri náttúruvá. Þá er veðrátta svo sem ákjósanlegust er, köld en ekki stórviðrasöm. Ljósleiðaratengingar auðveldar, samgöngur greiðar bæði norður og suður. Lítill flugvöllur er á Blönduósi sem með litlum endurbótum gæti greitt enn betur fyrir samgöngum.

Svo háttar til að Landsnet vill leggja nýja orkuflutningslínu frá Blönduvirkjun til Akureyrar. Gert er ráð fyrir 220 volta línu á möstrum. Íbúar þeirra sveita sem fyrir mestri röskun yrðu eru þessum áformum mjög andvígir. Þegar af þeirri ástæðu er einboðið að nýta fremur orku Blönduvirkjunar á heimaslóð en að standa í stórdeilum við íbúa annarra sveita. Blöndulínu þrjú þarf því ekki að reisa í bráð og sparast við það ríkisfé sem kemur að góðum notum við atvinnuuppbygginguna í Austur-Hún.

Íslendingar hafa varið geipifé til lagningar sæstrengjanna Farice og Danice. Þeir eru mjög vannýttir og rekstur þeirra er mikill baggi. Gagnaflutningar sem verða með tilkomu gagnavers/gagnavera myndu skipta þar sköpum.

Stjórnvöld hafa það á valdi sínu hvar þau kjósa að iðnaðaruppbygging verði sem og hvar iðjuver rísa í landinu og nægir að benda á álver í Reyðarfirði. Því ber stjórnvöldum nú að beita sér af alefli við að laða þá sem fjárfesta vilja í gagnaverum hingað til lands og fá því stað á Blönduósi, öllum til hagsbóta.

 

Sigrún Magnúsdóttir

(Greinin birtist í Morgunblaðinu 20. febrúar 2014)

Categories
Fréttir

Fullkomlega óábyrgt að halda áfram þessum viðræðum

Deila grein

19/02/2014

Fullkomlega óábyrgt að halda áfram þessum viðræðum

Gunnar bragi_SRGB_fyrir_vefGunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, hafði framsögu á Alþingi í dag um skýrslu óháðs fagaðila, Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, á fræðilegu mati á aðildarviðræðum við Evrópusambandið.
Gunnar Bragi sagðist „vonast til þess í dag að umræðan muni meira og minna beinast að skýrslunni sem hér liggur fyrir og efnisatriðum hennar og því mati sem þar er að finna á einstökum þáttum. Við eigum að horfa fram á veginn í þessu máli, sem og reyndar öllum öðrum ef við mögulega getum. Ég treysti því að með þessa úttekt í farteskinu farnist okkur það.“
Hann telur skýrsluna skýra vel „galla sem eru á því ferli sem viðhaft er í aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Það er Evrópusambandið sem er við stjórnvölinn. Þannig er það. Sambandið stýrir ferlinu, m.a. með setningu skilyrða fyrir framvindu þess í formi opnunar- og lokunarviðmiða á einstaka samningskafla.“
„En það er annar stór galli á þessu ferli. Það er sú staðreynd að öll þessi skilyrðasetning fyrir framgangi viðræðna í formi viðmiða gefur einstökum aðildarríkjum enn ríkari tækifæri en fyrr til að láta sérhagsmuni sína ráða för. Þannig getur algerlega óskyld mál verið spyrt saman við bæði ferlið sjálft og framgang umsóknarríkja og þannig geta þeir sem fyrir liggja á fleti tekið varðstöðu um þrönga hagsmuni sína. Slíkt dregur auðvitað úr trúverðugleika ferlisins og trúverðugleika ESB almennt“, sagði Gunnar Bragi.
Gunnar Bragi segir skýrsluna draga „upp mynd af ESB sem framfylgir stækkunarstefnu sem er föst á klafa viðmiða og skilyrða og gefur núverandi aðildarríkjum tæki til eigin hagsmunagæslu. Stækkunarstefnan er í eðli sínu óbilgjörn. Hún er ekki framkvæmd á jafningjagrundvelli. Þessi stækkunarstefna hentar ekki Íslandi. Það var ábyrgðarhluti að hrinda í framkvæmd aðildarviðræðum þegar þannig háttar til.
Að þessum forsendum gefnum er það að mínu mati fullkomlega óábyrgt að halda áfram þessum viðræðum.”
„Ég er sannfærður um“, segir Gunnar Bragi, „að af gefnum þeim forsendum sem blasa við okkur í skýrslu Hagfræðistofnunar sé óábyrgt að halda áfram viðræðum við Evrópusambandið um aðild. Þetta met ég með hliðsjón af þremur meginþáttum sem í skýrslunni eru dregnir fram og ég hef tæpt á.

  • Í fyrsta lagi er á vegum ESB rekin óbilgjörn stækkunarstefna sem í besta falli er ósanngjörn fyrir ríki eins og Ísland en í versta falli úlfur í sauðargæru, eins og berlega hefur komið í ljós, bæði í Icesave og makríl.
  • Í annan stað er himinn og haf á milli sýndar og veruleika þegar kemur að kjarnahagsmunum okkar Íslendinga í sjó og á landi. Einhver samningsniðurstaða milli ESB og Íslands í þessum málaflokkum er flöktandi villuljós. Er þessi sannfæring borin á þungum lagalegum rökum.
  • Í þriðja lagi sýnir þróunin í efnahagsmálum Evrópu síðustu árin að allt of snemmt er að ætla að þeim stöðugleika hafi verið náð sem svo margir hér á landi hafa talið að væri eftir að slægjast.“

„Við þurfum að taka í sameiningu á þeim atriðum sem snúa að okkur sjálfum en ekki úthýsa málinu til ESB til lausnar. Við erum að gera það nú þegar. Í níu mánuði hefur ríkisstjórn Sigmundar Davíðs unnið í og tekið á stærri vandamálunum sem liggja fyrir þjóðinni, skuldaleiðréttingu, fjármálum ríkissjóðs, eflingu heilbrigðisstofnana og löggæslu svo eitthvað sé nefnt,“ sagði Gunnar Bragi.
Hér er hægt að lesa ræðu Gunnars Braga Sveinssonar, utanríkisráðherra í heild sinni.

Categories
Greinar

Suðurnesin eru besti staðurinn-stöndum saman!

Deila grein

18/02/2014

Suðurnesin eru besti staðurinn-stöndum saman!

Silja Dögg GunnarsdóttirFramundan eru spennandi tímar. Norðurslóðamálin eru í brennidepli en þegar siglingar um Norðurslóðir hefjast fyrir alvöru og þegar umsvif vegna olíuleitar og –vinnslu aukast við Grænland og á Drekasvæðinu þá þarf ýmis konar þjónusta að vera til staðar. Tækifærin fyrir okkur Íslendinga eru því mikil á þessu sviði enda lega landsins mjög hentug og innviðirnir sterkir.

Miðstöð leitar og björgunar
Hér á Suðurnesjum er gríðarlega góð aðstaða fyrir hendi á Ásbrú. Þar eru hentugar byggingar og annað sem til þarf, til að byggja upp miðstöð leitar og björgunar á Norðurslóðum. Utanríkisráðherra hefur sagt í fjölmiðlum að hann telji að rétta staðsetningin fyrir slíka starfsemi væri á Suðurnesjum, ef til kemur. Ef Íslendingar ætla að verða miðstöð fyrir Norðurslóðasiglingar þá verðum við að standa saman. Samstaða og samvinna er lykillinn að svo mörgu. Ef við förum að togast á um hver fær hvaða bita af kökunni, þá verður kannski ekkert af neinu. Þess vegna verðum við að undirbúa okkur vel og sýna skynsemi og samstöðu.

Andstaða við flutning Landhelgisgæslunnar
Hið sama gildir um flutning Landhelgisgæslunnar til Suðurnesja. Ég flutti þingmál fyrir jól um að hafin yrði undirbúningur að flutningi gæslunnar til Suðurnesja. Ég flutti þetta mál vegna þess að ég veit að á Suðurnesjum eru bestu aðstæður til staðar fyrir starfsemi Landhelgisgæslunnar og starfsemi henni tengdri. Auk þess þá væri það hagkvæmara fyrir ríkið til lengri tíma að hafa hana einum stað, á Suðurnesjum. Yfirmenn gæslunnar hafa tjáð mér að þeir vilji að starfsemin flytjist til Suðurnesja. Sýnum nú samstöðu og tölum einu máli fyrir flutningi Landhelgisgæslunnar til Suðurnesja.

Lögregluskólinn til Keilis?
Þessi tvö verkefni, þ.e. uppbygging leitar og björgunarmiðstöðvar og færsla Landhelgisgæslunnar til Suðurnesja myndi vera mikið gæfuspor fyrir atvinnuuppbyggingu á Suðurnesjum og auk þess eru þarna talsverð samlegðaráhrif. Þessi starfsemi styður hvor aðra tvímælalaust. Annað þessu tengt er stofnun Öryggisakademíu hjá Keili. Skólameistarinn og starfsmenn Keilis hafa unnið lengi að undirbúningi Öryggisakademíu og meðal hugmynda er að Lögregluskóli ríkisins færist þar inn. Nú þegar æfa lögreglunemar og sérsveit lögreglunnar á gamla varnarsvæðinu. Ég vona að Öryggisakademían verði að veruleika og mun styðja það verkefni af öllum mætti sem og önnur góð verkefni sem ég tel vera til hagsbóta fyrir svæðið.

 

Silja Dögg Gunnarsdóttir

(Greinin birtist í Víkurfréttum 13. febrúar 2014.)

Categories
Greinar

Fjölgum körlum í áhrifastöðum

Deila grein

17/02/2014

Fjölgum körlum í áhrifastöðum

Anna-Kolbrun-ArnadottirLengi hefur heyrst að fjölga þurfi konum í áhrifastöðum, en það má einnig spyrja hvort ekki sé full ástæða til þess að fullyrða að fjölga þurfi körlum í áhrifastöðum? Báðar þessar fyllyrðingar eru réttar, það sem helst er athugavert við fullyrðingarnar er hugtakið áhrifastaða. Samfélagið með hjálp fjölmiðla skilgreinir oftar en ekki áhrifastöður sem stöður er snúa að viðskiptalífinu.

Áhrifastöður er víða að finna í samfélaginu og í aðalnámsskrá leikskóla er því beinlínis haldið fram að litið sé á leikskólakennara sem áhrifavald í uppeldis- og menntastarfi barna. Með því er verið að segja að það sé áhrifastaða að vera leikskólakennari. Ekki þarf að efast um að þetta sé rétt, leikskólakennara er ætlað að vera leiðandi í mótun starfsins, vera góð fyrirmynd og hann á að vera samverkamaður barna, foreldra og samstarfsfólks.

Einnig má segja að umönnunarstörf séu skipuð fólki í áhrifastöðum. Hver einasta fjölskylda í landinu hefur örugglega átt í samskiptum við einstaklinga sem sinna ástvinum þeirra að alúð og oftar en ekki á erfiðum tímum. Samskipti við umönnunaraðila eru og verða áhrifarík og þar með skipuð fólki í áhrifastöðum.

Rannsóknir sýna að kynskiptur vinnumarkaður er hindrun sem erfitt er að yfirstíga og skerðir atvinnumöguleika beggja kynja. Þegar talað er um umönnunar- og kennslustörf, þá er oftar en ekki talað um hefðbundin kvennastörf og jafnvel kvennastéttir sem sinna störfunum. Karlar eiga ekki séns og þeir karlar sem hætta sér inn á óhefðbundinn starfsvettvang hafa margir hverjir lýst fordómum sem þeir urðu fyrir vegna starfsvalsins. Vissulega vekur þetta einnig umhugsun um hvort (fleiri) drengir í framhaldsskóla hafi hug á því að sækja inn á svið umönnunar- eða kennslu þegar í sífellu er talað um kvennastörf. Eða hvort (fleiri) stúlkur hafi vilja til þess að sækja starf í verkgreinum þegar að talað er um hefðbundin karlastörf.

Þessum skrifum er ætlað að opna augu fólks fyrir því að fjölga þurfi körlum í áhrifastöðum.

 

Anna Kolbrún Árnadóttir, jafnréttisfulltrúi

Categories
Greinar

Bætt umræða – aukin virðing

Deila grein

17/02/2014

Bætt umræða – aukin virðing

Þorsteinn SæmundssonUndanfarið hefur nokkuð verið drepið á nauðsyn þess að bæta yfirbragð opinberrar umræðu, sérstaklega í netheimum. Sannarlega er ekki vanþörf á vakningu í þessum efnum því margir orðaleppar sem látnir eru falla eru engum sæmandi. Verst er þó þegar fólk sem vill væntanlega láta taka sig alvarlega lætur ummæli falla sem ganga þvert á allt velsæmi.

Þeir sem vinna opinber störf þurfa að vera við því búnir að finna til tevatnsins vegna aðgerða sinna eða aðgerðaleysis. Allir hafa fullan rétt á að gagnrýna og benda á það sem betur má fara. Ég skal samt viðurkenna að með fullu tilliti til þess sem áður er sagt eru atriði sem ég felli mig ekki við að sé beint að mér og þeim stjórnmálasamtökum sem ég var kosinn á þing fyrir.

Ég felli mig til dæmis ekki við að vera kallaður fasisti eða að ég eða stjórnmálasamtök þau sem ég tilheyri búi yfir slíkum tilhneigingum. Að vísu er það svo að flestar ávirðingar í þessa átt hafa undanfarið borist frá einstaklingum sem eru lítt traustvekjandi og njóta reyndar ekki almenns trausts.

Nú rétt fyrir áramótin var birt viðtal í Fréttatímanum um atburði nýliðins árs. Þar lét annar viðmælandinn hafa eftir sér ummæli um síðustu kosningabaráttu sem gengu gersamlega fram af mér.

Meðal annars sagði viðkomandi: „…að í aðdraganda kosninganna, þegar skoðanakannanir sýndu í hvað stefndi og við sáum fylgi Framsóknar stíga, leið mér eins og ég væri að horfa á hryllingsmynd með raðmorðingja sem gengur laus.“ Og litlu síðar: „…ég held við séum á vissan hátt í gini morðingjans núna og erum að súpa seyðið af þessu.“

Ekki sæmandi
Nú er ekki eins og sá sem lét ummælin falla sé einhver skynskiptingur. Þvert á móti á viðkomandi að heita bókmenntafræðingur og ætti því að þekkja merkingu þeirra orða sem hún lætur falla.

Ekki lítur samt út fyrir að viðkomandi hafi verið á kafi í fagurbókmenntunum. Hvað sem því líður eru ummæli bókmenntafræðingsins náttúrulega ekki sæmandi og bera vitni um litla sjálfsvirðingu því sá sem ekki ber virðingu fyrir sjálfum sér er ekki fær um að bera virðingu fyrir öðrum.

Auðvitað á maður ekki að skensa svona fólk heldur vorkenna því en sá sem hér skrifar er ekki nógu langt kominn á þroskabrautinni til að láta svona ummæli sem vind um eyrun þjóta. Nú er nefnilega kominn tími til að spyrna við fótum.

Opinber umræða á ekki að vera á þessum nótum. Það á ekki að þola að stór hluti þjóðarinnar sé dreginn niður með þessum hætti. Brýn nauðsyn er á því að opinber umræða sé dregin upp úr þessum förum. Vinnum það áramótaheit að bæta opinbera umræðu og hætta slíkum endemis sleggjudómum heimsku og niðurlægingar.

 

Þorsteinn Sæmundsson

(Greinin birtist í Fréttablaðinu 17. febrúar 2014.)

Categories
Greinar

Hriktir í stoðum Evrópusamstarfsins

Deila grein

17/02/2014

Hriktir í stoðum Evrópusamstarfsins

Karl GarðarssonMikil togstreita er innan Evrópu um þessar mundir. Það endurspeglaðist í ræðu Thorbjörns Jaglands, framkvæmdastjóra Evrópuráðsins, á fundi ráðsins fyrir skömmu. Þar lýsti hann yfir miklum áhyggjum af stöðu mála og hver þróunin yrði. Hann benti á að mikil ólga væri innan Evrópusambandsins, spenna milli sambandsins og annarra valdamikilla ríkja og jafnvel spenna innan Evrópuráðsins, sem samanstendur af 47 ríkjum sem eru bæði innan og utan ESB. Ástæðan er ekki síst sú að félagslegt misrétti hefur aukist til muna í aðildarríkjunum. Þá eiga öfgastefnur vaxandi fylgi að fagna og telja margir að það muni endurspeglast í kosningum til Evrópuþingsins í vor. Spyrja verður hvaða áhrif það muni mögulega hafa á Evrópusambandið á næstu árum. Óljóst er hvert sambandið stefnir og margir eru þeirrar skoðunar að evrusamstarfið geti ekki haldið nema til komi sérstakt sambandsríki Evrópu. Mikil andstaða er hins vegar við þá hugmynd innan aðildarríkjanna.

Jagland benti á að sú mikla óþolinmæði sem vart hefði orðið í Evrópu endurspeglaðist síðan í auknu kynþáttahatri og öfgaskoðunum. Minnihlutahópar ættu í vök að verjast, ný félagsleg vandamál væru að koma í ljós, og ofbeldi gegn konum og börnum hefði aukist. Þá væri peningaþvottur alþjóðlegt vandamál. Undirliggjandi væri andstaða við ríkjandi stjórnvöld vegna aukins misréttis. Fólk sættir sig ekki lengur við að sigurvegarinn hirði allt og að stórir hópar sitji eftir.

Mannréttindasáttmáli Evrópu hafi aldrei verið eins mikilvægur og nú. Á sama tíma er hins vegar nauðsynlegt að endurskoða hlutverk Mannréttindadómstóls Evrópu, þar sem þúsundir mála bíða afgreiðslu. Nauðsynlegt er að styrkja til muna lagaverk einstakra þjóða þannig að þau geti leitt til lykta flest mál sem lúta að mannréttindum. Jagland bendir á að einungis stærstu málin ættu að koma inn á borð Mannréttindadómstólsins. Taka verður undir þetta. Hlutverk Evrópuráðsins er ekki síst að standa vörð um mannréttindi og lýðræði í aðildarríkjunum. Þannig er framtíð Evrópuríkja best borgið.

 

Karl Garðarsson

(Greinin birtist í Morgunblaðinu 17. febrúar 2014.)