Categories
Greinar

Skiptir menntun máli í sjávarútvegi?

Deila grein

03/12/2013

Skiptir menntun máli í sjávarútvegi?

Líneik Anna SævarsdóttirÞegar sérfræðingar í menntamálum spá fyrir um hvers konar hæfni sé mikilvægust í nánustu framtíð er niðurstaðan færni í mannlegum samskiptum og skapandi en jafnframt gagnrýnin hugsun. Auðvitað fylgir svo mikilvægi tæknikunnáttu og læsis, ekki einungis á bókina heldur líka á umhverfið. Þá er samfélagsleg þátttaka og persónuleg ábyrgð einnig lykilfærni. Það er engin spurning að þetta á við í sjávarútvegi eins og annars staðar. Á síðustu árum höfum við í raun séð að þessi færni skiptir máli því þrátt fyrir að heildar aflamagn úr sjó hafi hætt að aukast hefur verðmætaauking haldið áfram með sköpunarkraftinum og því að tengja saman þekkingu á mismunandi sviðum. Þannig er stöðugt unnið að nýsköpun sem byggir á gamalli og nýrri þekkingu okkar Íslendinga á sjávarútvegi.

Menntað vinnuafl þarf að koma eftir fjölbreyttum leiðum í gegnum nám sem er beintengt greininni en ekki síður í gegnum ólíkar námsleiðir á framhalds- og háskólastigi. Það er mikilvægt að bjóða áfram upp á öflugt sérhæft nám s.s. sjávarútvegsfræði, skipstjórn, vélvirkjun, matvælafræði og fiskvinnslu. Þetta er mikilvægt bæði fyrir fólk sem kemur beint til starfa og einnig fyrir þá sem vilja góða þekkingu á greininni sem viðbót eða undirbúning fyrir annað nám. Sjávarútvegurinn þarf einnig á allra handa iðn- og háskólamenntun í öðrum greinum að halda til að þróast áfram s.s. rafvirkjun, tölvunarfræði, verkfræði, hönnun, sagnfræði, markaðsfræði. Í raun er erfitt að sjá fræðigrein sem ekki getur tengst sjávarútvegi á einhvern hátt.

Þeir sem starfa í greininni þurfa að hafa aðgang að fjölbreyttri símenntun, í formi sérhæfðra námskeiða en jafnframt er mikilvægt að hafa góðan aðgang að námi sem skólakerfið býður upp á t.d. í gegnum fjarnám sem mögulegt er að stunda með starfi.

Hvernig má svo efla hið margumrædda samstarf skóla og atvinnulífs? Hvernig verður áhugi vakinn?  Það þarf öflugra upplýsingastreymi í þjóðfélaginu um það sem er að gerast í sjávarútvegi bæði þeim hefðbundna og eins í nýsköpun bæði í greininni sjálfri og þjónustuiðnaði.  Áhugavert væri að byggja upp verkefnabanka tengdan sjávarútvegi á vefnum sem hentar með mismundandi námsefni á grunnskóla og framhaldskólastigi, þar sem finna mætti einfaldar efnafræðitilraunir, söguverkefni, stærðfræðiverkefni og ótal önnur verkefni.  Fræðsla fyrir kennara í framhalds- og grunnskólum væri mikilvæg eftirfylgni við slíkt verkefni. Slík nálgun þar sem sjávarútvegur tengist mörgum námsgreinum er mun vænlegri til að vekja áhuga en sérstök námsgrein um sjávarútveg.  Vettvangsheimsóknir og starfskynningar eru líka mikilvægar þar sem þeim verður við komið.  Þá mætti tvinna saman kynningu á sjávarútvegi og ferðaþjónustu, með áhugaverðum sýningum á nútíma atvinnuháttum.

Á háskólastiginu tel ég aftur á móti skilvirkustu samstarfsfletina liggja í gegnum samstarf um lokaverkefni nemenda, þar er mikilvægt að fólk starfandi við veiðar og vinnslu leggi fram hugmyndir að verkefnum sem ýmist er hægt að vinna innan veggja skólanna eða á vettangi í samstarfi háskóla og fyrirtækja.

Með góðri og fjölbreyttri menntun, þrautseigju og áhuga getum við lengi haldið áfram að skapa meiri verðmæti í sjávarútveginum.

 

Líneik Anna Sævarsdóttir

Greinin birtist í Útvegsblaðinu þar sem þemað var menntun.

Categories
Greinar

Hvati til sparnaðar

Deila grein

02/12/2013

Hvati til sparnaðar

Elsa Lára ArnardóttirSparnaður er mikilvægur fyrir okkur öll, sama hvort við reynum að spara fyrir hlutum sem okkur langar til að eignast, eða þegar við söfnum okkur fyrir útborgun í stærri hluti, eins og t.d. húsnæði.

Það er staðreynd að undanfarin ár hafa margir átt erfitt með að ná endum saman. Það hefur líka verið mörgum ómögulegt að eiga einhverjar auka krónur til að leggja til hliðar. Hvati til sparnaðar hefur einfaldlega ekki verið fyrir hendi.

Í nóvember lagði ég fram á Alþingi frumvarp til laga um breytingar á lögum nr. 90/2003 um tekjuskatt. Samkvæmt frumvarpinu eiga þeir sem leggja fé til hliðar vegna húsnæðiskaupa, húsnæðisbygginga eða verulegra endurbóta á húsnæði rétt á sérstökum skattaafslætti. Afslátt upp á 20% af innleggi hvers tekjuárs, en þó aldrei hærri fjárhæð en 200 þúsund krónur. Ef frumvarpið nær í gegn, þá kemur það til viðbótar öðrum opinberum úrræðum, sem eiga að auðvelda fólki að eignast húsnæði, eins og til dæmis vaxtabótakerfið gerir.

Sparnaðurinn verður lagður inn á sérstakan húsnæðissparnaðarreikning, og getur hver maður aðeins átt einn slíkan reikning. Reikningarnir skulu vera bundnir til 10 ára frá þeim tíma er fyrst var lagt inn á reikninginn. Færi reikningseigandi sönnur á kaup íbúðarhúsnæðis til eigin búsetu, eða að hafin sé bygging, eða verulegar endurbætur sem nemi a.m.k. 20% af fasteignamati slíks húsnæðis, skal heildarinneignin vera honum laus til ráðstöfunar að því marki sem nemur kostnaði vegna þessa, enda séu þá full tvö ár liðin frá því að sparnaður hófst.

Lagt er til að reglubundinn sparnaður til húsnæðisöflunar sem stofnað er til fyrir 34 ára aldur í formi samningsbundinna innlána hjá viðskiptabönkum og sparisjóðum veiti reikningseiganda skattafslátt innan vissra marka. Sparnaðurinn verði að lágmarki bundinn í tvö ár ef viðkomandi sýnir með óyggjandi hætti fram á öflun íbúðarhúsnæðis til eigin nota, þar með talið búseturéttar, eða að hafin sé bygging eða verulegar endurbætur slíks húsnæðis, en annars verði heildarinneignin laus til frjálsrar ráðstöfunar að liðnum tíu árum. Tilgangur frumvarpsins er jafnframt sá að hvetja til almenns sparnaðar vegna eigin fjárframlags til öflunar íbúðarhúsnæðis.

Sams konar átak var gert með lögum nr. 49/1985 um húsnæðissparnaðarreikninga sem eru fallin úr gildi, en af þeim er tekið mið í þessu frumvarpi, þó með nokkrum breytingum. Munurinn felst m.a. í því að í þessu frumvarpi eru ekki eins ítarleg ákvæði um form og efni þeirra samninga sem um ræðir. Þess í stað er ráðherra falið að setja nánari reglur bæði um form og efni sem ætla verður að hann geri að höfðu samráði við Samtök fjármálafyrirtækja og aðra hlutaðeigandi aðila. Einnig er lagt til að vaxtatekjur af umræddum reikningum verði undanþegnar fjármagnstekjuskatti.

Frumvarpið gerir ráð fyrir að börn undir 16 ára aldri sem ekki teljast sjálfstæðir skattaðilar geti notið skattafsláttarins og jafnframt að því sem óráðstafað er verði ráðstafað til framfærenda þess að jöfnu séu framfærendur tveir.

Innstæða á húsnæðissparnaðarreikningi er undanþegin aðför skuldheimtumanna. Við andlát innstæðueiganda rennur innstæðan til dánarbúsins án bindingar.

 

Elsa Lára Arnardóttir

Categories
Fréttir

Tillögur kynntar í ríkisstjórn

Deila grein

29/11/2013

Tillögur kynntar í ríkisstjórn

Sigmundur Davíð GunnlaugssonSérfræðingahópur um höfuðstólslækkun verðtryggðra húsnæðislána skilaði ráðherranefnd um úrlausnir í skuldamálum heimilanna niðurstöðum sínum á fundi klukkan níu í morgun. Að því búnu kynnti forsætisráðherra tillögurnar í ríkisstjórn. Ríkisstjórnin samþykkti að halda áfram vinnu við undirbúning að framkvæmd tillagnanna, m.a. smíði lagafrumvarpa á grundvelli þeirra.
Útfærsla tillagnanna felur í sér viðamestu efnahagsaðgerð ríkisstjórnarinnar til þessa.
Tillögurnar og aðgerðaráætlunin verða kynntar á sérstökum fréttamannafundi á morgun eftir að þær hafa fengið umfjöllun hjá þingflokkum ríkisstjórnarflokkanna. Tillögurnar verða síðan kynntar á vef ráðuneytisins í framhaldinu.
Sérfræðingahópurinn var skipaður 16. ágúst sl. undir formennsku Sigurðar Hannessonar. Hópurinn hefur síðan unnið að tillögum um útfærslu og framkvæmd höfuðstólslækkunar verðtryggðra húsnæðislána. Hópurinn byggði vinnu sína á þeim forsendum sem fram komu í þingsályktun sem samþykkt var í júní sl., þ.e. að leiðrétta skyldi þann forsendubrest sem heimili urðu fyrir vegna verðbólguskots áranna 2007-2010. Skipaðir voru fjórir undirhópar sérfræðinganefndarinnar sem unnið hafa samhliða henni að útfærslu einstakra þátta. Einnig hafa utanaðkomandi sérfræðingar verið fengnir til að vinna afmarkaða hluta t.d. mat á efnahagslegum áhrifum. Samhliða vinnu sérfræðingahópsins hefur verið unnið að gerð frumvarps um höfuðstólsleiðréttingar sem ríkisstjórnin væntir að geta lagt fram á yfirstandandi þingi.

Categories
Fréttir

Ræða Sigmundar Davíðs á miðstjórnarfundi

Deila grein

28/11/2013

Ræða Sigmundar Davíðs á miðstjórnarfundi

Sigmundur Davíð GunnlaugssonSigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, ávarpaði miðstjórn flokksins á Selfossi. Hlýða má á ræðu hans hér.
Raeda Sigmundar
Miðstjórnarfundurinn var mjög fjölsóttur og mikill hugur í mönnum. Á fundinum var sérstaklega til umræðu félagsstarf flokksins á komandi starfsári. Kosið var í fastanefndir miðstjórnar þ.e. í fræðslu- og kynningarnefnd og í málefnanefnd.

Categories
Greinar

Hlutdeildarsetning á makríl

Deila grein

25/11/2013

Hlutdeildarsetning á makríl

Sigurður Ingi JóhannssonNokkur umræða hefur verið undanfarna daga vegna fyrirhugaðrar hlutdeildarsetningar á makríl. Mismálefnaleg er hún og ekki alltaf farið rétt með staðreyndir. Ég fagna þeim áhuga sem málið fær, mér finnst margt áhugavert hafa komið fram. Aftur á móti finnst mér líka mjög varhugavert að margir fara af stað með misstaðreyndar fullyrðingar sem haldið er fram af mikilli sannfæringu. Spurt hefur verið í sátt við hverja sé unnið í sjávarútvegi. Og hvort til álita komi að úthluta makríl á uppboðsmarkaði. Svarið er: ég vil að sem flestir verði sáttir, og já ég hef íhugað uppboðsleiðina. En það eru ríki sem hafa prófað að fara þá leið, til dæmis Eistland og Rússland, en bæði fallið frá henni.

Margar hugmyndir hafa skotið upp kollinum um sanngjarna deilingu makrílkvótans og tekjur af ráðstöfuninni. Reynsla okkar og annarra ríkja hefur sýnt að kvótakerfi, með framseljanlegum aflaheimildum á grundvelli veiðireynslu, er mjög hagkvæmt.

Það má benda ágætum fyrrverandi sjávarútvegsráðherrum á þá staðreynd að makrílveiðikerfinu var nánast læst á grundvelli veiðireynslu árið 2010. Nú, þegar sex ára veiðireynsla liggur fyrir og væntingar, sem meðal annars hafa skilað sér í verðmætri uppbyggingu og fjárfestingum í búnaði, er örðugt að stíga fram og segja að veiðireynslan hafi litla eða enga þýðingu. Það hefði á þessum tímapunkti, sem kerfinu var lokað, verið hægt að fara uppboðsleiðina hefðu menn haft til þess pólitískan kjark. Mér finnst líklegt að þessu verði svarað með því að ekki hafi verið til staðar samkomulag um makrílinn við önnur strandríki og því ekki hægt að fara í þá aðgerð. Þau rök halda ekki. Í kolmunna, sem er flökkustofn og stýrt með strandríkjasamningi, var aflahlutdeildum úthlutað til skipa áður en samningur um skiptingu milli strandríkjanna náðist.

Mér finnst aftur á móti spennandi að horfa að einhverju leyti til þess hvernig var skipt árið 2010 og hvort það geti að hluta til verið grunnur að skiptingu heimilda. Mjög gott starf var unnið á síðasta kjörtímabili í að hvetja til aukinnar verðmætasköpunar með kröfum um vinnslu á makríl til manneldis. Mér finnst einnig áhugavert að horfa til þess við útdeilingu réttindanna. Hugað var að fjölbreytileika og byggðasjónarmiðum í þeim reglum sem í kerfinu hafa gilt. Mér finnst æskilegt að réttindaskiptingin taki mið af því.

Við skulum hafa í huga að hefðu stóru útgerðirnar ekki haldið til makrílveiða á undanförnum árum hefði samningsstaða Íslands í makríldeilunni nánast verið vonlaus. Við skulum einnig hafa í huga hvernig hagkvæmast er fyrir þjóðina að veiðunum sé stýrt. Það er nefnilega svo að makríllinn er ekki raunverulegt verðmæti fyrr en hann er kominn úr sjó. Þjóðin, sem eigandi auðlindarinnar, hlýtur að gera kröfu um hámarksarðsemi af henni. Þessum áhrifum vil ég ná fram með því að leggja til hlutdeildasetningu á makríl. Ég hyggst ekki leggja til að kvótinn verði seldur hæstbjóðanda á uppboði; líklegast yrðu það þá fáir stórir aðilar sem fengju allt. Ég hyggst leggja til að verðmætin verði leigð til þeirra sem þau hafa skapað; verði það niðurstaðan hefði þjóðin leigugjald af veiðum á makríl til framtíðar.

Það er almennt viðurkennt að hámarksarðsemi í kvótakerfum næst með framseljanlegum aflaheimildum. Það er mikilvægt að þeir sem hyggjast nýta þá auðlind sem makríllinn er hafi tækifæri til að nota til þess bestu skipin til að stýra veiðum á hagkvæmasta tíma og treysta markaði. Ég tek undir að huga þarf að öðrum þáttum, eins og hvort einhverjir sækist eftir heimildum, eingöngu til þess að hagnast á þeim með sölu, en ekki nýta þær til verðmætasköpunar. Ég er mjög tilbúinn í umræðu um hvernig við getum komið í veg fyrir slíkt.
Sigurður Ingi Jóhannsson

Categories
Fréttir

Sigurður Ingi brást skjótt við

Deila grein

25/11/2013

Sigurður Ingi brást skjótt við

Sigurður Ingi JóhannssonSigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur heimilað í ljósi þess að síld er gengin inn á Kolgrafafjörð síldveiðar séu frjálsar innan brúar í Kolgrafafirði á Snæfellsnesi.Vonast er til þess að veiðar þessar geti hvoru tveggja bjargað verðmætum og haft mögulegan fælingarmátt þannig að síldin gangi fyrr út úr firðinum en ella. Þá mun Hafrannsóknarstofnun hefja tilraunir með að fæla síldina burt með sérstökum útbúnaði sem gefur frá sér háhyrningahljóð, sem vitað er að síldin forðast undir venjulegum kringumstæðum.
roskur-radherraÞað er rétt sem segir í leiðara Fréttablaðsins í dag að “á svona dögum er mikilvægt að stjórnvöld séu ekki föst í viðjum þunglamalegs kerfis. Yfirvöld verða að vera í stakk búin til að geta tekið skjótar ákvarðanir. Því miður gerist það of sjaldan að það er eins afdráttarlaust tekið af skarið og á föstudaginn. Lílega verður af nógu að taka í stórum ákvörðunum næstu daga.”
Tengill:
https://stjornartidindi.is/Advert.aspx?ID=0a74c363-05ac-41d4-8eac-b197996210e1

Categories
Greinar

Skuldaleiðréttingar, er umræðan sanngjörn?

Deila grein

24/11/2013

Skuldaleiðréttingar, er umræðan sanngjörn?

Elsa Lára ArnardóttirNú er ekki nema nokkrir dagar í að ríkisstjórnin kynni framkvæmd boðaðra skuldaleiðréttinga.

Heimilin eru orðin óþolinmóð eftir aðgerðum og undrar mig það ekki því biðin hefur verið löng. Gerum okkur samt grein fyrir að biðin hefur verið mun lengri en þetta kjörtímabil hefur staðið.

En um leið og óþolinmæði brýst fram, sem hefur vissulega gerst hjá mér, þá er ég um leið ánægð. Ég er ánægð með hversu mikil vinna hefur farið í undirbúning aðgerðanna, sem mun tryggja að komið verði fram með tillögur sem duga. Tillögur sem verða í takt við stjórnarsáttmála Framsóknar – og Sjálfstæðisflokksins. En þar stendur m.a. “Ríkisstjórnin mun með markvissum aðgerðum taka á skuldavanda íslenskra heimila sem er til kominn vegna hinnar ófyrirsjáanlegu höfuðstólshækkunar verðtryggðra lána sem leiddi af hruni fjármálakerfisins. Grunnviðmiðið er að ná fram leiðréttingu vegna verðbólguskots áranna 2007–2010 en í því augnamiði má beita bæði beinni niðurfærslu höfuðstóls og skattalegum aðgerðum. Um verður að ræða almenna aðgerð óháð lántökutíma með áherslu á jafnræði. Beita má fjárhæðartakmörkum vegna hæstu lána og setja önnur skilyrði til að tryggja jafnræði í framkvæmd og skilvirkni úrræða.”

En ég verð að viðurkenna að það eru ákveðnir þættir sem skyggja á ánægju mína, vegna komandi aðgerða. Það er þegar nokkrir aðilar í samfélaginu leika sér að því að afvegaleiða umræðuna um skuldaaðgerðir ríkisstjórnarinnar. Slá fram fullyrðingum um framkvæmd, sem enginn fótur er fyrir. Þessir aðilar hafa ekki hugmynd um hvernig farið verði að framkvæmd mála, en leika sér þess í stað að tala málefnið niður og reyna að auka á ótrúverðugleika þess sem koma skal.

Það finnst mér ekki fallega gert því í hvert sinn sem umræðan fer á þetta plan, þá grípur um sig ótti hjá hópi fólks sem býr inni á skuldsettum heimilum. Það veit ég því margir hafa hringt, sent mér póst og skilaboð og sagt mér frá áhyggjum sínum vegna þessara mála. Það gerist samhliða því þegar umræðunni um skuldaaðgerðir ríkisstjórnarinnar er snúið á hvolf.

Mig langar því að óska eftir vandaðri umræðu um þessi mál. Þrátt fyrir að einhver sé ósammála um að fara skuli í þessar aðgerðir, þá verður það gert. Forsætisráðherra mun kynna tillögur skuldaleiðréttingahópsins í lok nóvember og þar á eftir koma tillögurnar til umræðu inni í þinginu.

Aukum ekki á kvíða og ótta íslenskra heimila, þeirra sem hafa átt undir högg að sækja undanfarin ár með því að afvegaleiða umræðuna og koma röngum skilaboðum út í samfélagið. Stöndum frekar með heimilunum, því kominn er tími til.

Lokaorð mín eru þau, að gagnrýni á auðvitað rétt á sér, en munum þá, að mikilvægt er að fara með staðreyndir.
Elsa Lára Arnardóttir

Categories
Greinar

Beinn og breiður vegur – er á óskalistanum

Deila grein

24/11/2013

Beinn og breiður vegur – er á óskalistanum

Silja Dögg GunnarsdóttirSamgöngumál á landsbyggðinni eru víða í ólestri. Of litlu fé hefur verið varið til viðhalds vega síðustu ár og það er farið að segja verulega til sín. Ríkið mun þurfa að leggja í gríðarlegan kostnað eftir nokkur ár ef viðhaldi verður ekki betur sinnt. Svo virðist sem við séum að kasta krónunni fyrir aurinn.

Margra ára vanræksla
Viðhald á bundnum slitlögum endist í 7-10 ár í viðbót en víða er það orðið 10-12 ára. Hér áður fyrr var stitlaginu haldið við með því að leggja nýtt slitlag á nokkra kólómetra á hverju ári, en ef framheldur sem horfir þá þarf að leggja bundið slitlag á mjög langa kafla þegar þar að kemur. Vegirnir eru víða orðnir holóttir á þessum svæðum og fara að verða hættulegir, og sums staðar orðnir mjög hættulegir.

Skólaakstur og ferðamenn
Mjög margir tengivegir í sveitum landsins eru illa farnir sem ógnar umferðaröryggi. Þeir eru jafnvel ekki heflaðir reglulega. Börn sem búa í sveitum þurfa oft að sækja skóla um langan veg og þurfa þá að fara um þessa hættulegu vegi í alls konar veðrum. Aukinn straumur ferðamanna um þessi svæði skapar einnig álag á vegina og við því þarf að bregðast. Að mínu mati ættu tengivegir þar sem skólaakstur er, að vera á forgangslista hvað varðar viðhald og eftirlit.

Bundið slitlag á malarvegi
Ársþing Sambands sveitarfélaga á Suðurlandi fór fram nýverið en í ályktun þingsins um samgöngumál kemur m.a. fram „að skynsamlegt sé að leggja áherslu á lagningu bundins slitlags á núverandi vegi með nauðsynlegum lagfæringum og spara þar með viðhald malarvega.” Ég tek undir þetta sjónarmið.

Einbreiðar brýr
Í Vestur- og Austur-Skaftafellssýslu eru ennþá rúmlega tuttugu einbreiðar brýr á þjóðvegi 1, sem ég tel ekki vera boðlegt árið 2013. En í öðrum kjördæmum eru slíkar brýr sjaldséðar og heyra jafnvel sögunni til, sem er gott. Samkvæmt samgönguáætlun eru einbreiðar brýr ekki á áætlun fyrr en 2019-2022. Ég tel jafnvel að mögulegt sé að flýta slíkum framkvæmdum og kostnaður yrði jafnvel talsvert lægri, ef við nálgumst þær út frá nýjum forsendum. Af samtölum mínum við starfsmenn vegagerðinnar er hugsanlega mögulegt að setja ræsi undir nokkrar ár og losna þannig við brýrnar. Sumar brýr eru steyptar og í góðu standi. Það mætti jafnvel skoða að steypa við þær þar sem stál hefur hækkað mikið í verði, þannig að steypa gæti verið hagkvæmari. Sums staðar eru fyrirhugaðar breytingar á veglínu. Til dæmis þegar nýr vegur kemur um Hornafjarðarfljót þá detta þrjár brýr af listanum. Núverandi brú yfir Hornafjarðarfljót er stórvarasöm en samkvæmt samgönguáætlun er ekki gert ráð fyrir að framkvæmdir við nýja brú yfir fljótið, hefjist fyrr en árið 2018. Framkvæmdin er arðsöm og mun stytta hringveginn um 11 km.

Vilji til að auka viðhald vega
Greinarhöfundur hóf umræður um þessi mál á Alþingi í síðustu viku. Innanríkisráðherra tók undir þau sjónarmið að viðhaldi hafi verið ábótavant á umliðnum árum og segist muni leita leiða til að bæta þar úr. Ráðherrar sagðist líka ætla að skoða leiðir til að hraða ákveðnum nýframkvæmdum og mun kynna það síðar í vetur.

Samgönguráð vinnur nú að gerð fjögurra ára áætlunar og skilar henni til innanríkisráðherra fyrir áramót. Áætlunin verður í framhaldinu lögð fyrir Alþingi til umfjöllunar og þingið mun taka afstöðu til hennar. Næsta langtímaáætlun í vegagerð verður síðan fyrir tímabilið 2015-2026 og að sögn ráðherra mun það ráðast af fjármagni sem veitt verður til vegamála, hvort unnt sé að flýta framkvæmdum við einbreiðar brýr á Suðurlandi.

 

Silja Dögg Gunnarsdóttir, 3. þingmaður Suðurkjördæmis, Framsóknarflokki.

Categories
Fréttir

Öll fyrirheit uppfyllt

Deila grein

23/11/2013

Öll fyrirheit uppfyllt

sdg-midstjorn-selfossi“Munum uppfylla öll þau fyrirheit sem við höfum gefið. Við ætlum að leiðrétta fyrir sérstökum verðbólguáhrifum sem bankarnir bjuggu til. Við blöndum leiðum í samræmi við stjórnarsáttmálann og þingsályktunartillögu og úr því kemur besta niðurstaðan. Það verður ekki vandamál fyrir okkur vegna þess að við lögðum sjálf til að skattaleiðin yrði farin. Hún hefur ýmsa kosti og spilar vel saman við hitt”, sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins í ræðu sinni á haustfundi miðstjórnar á Selfossi.
“Athuganir sérfræðinganna hafa staðfest hversu öfugir hvatar hafa verið á síðasta kjörtímabili. Ótal raunveruleg dæmi sýna hvernig þeir sem ákváðu að borga ekki af lánum sínum fengu mun meiri leiðréttingu en þeir sem höfðu verið í sömu stöðu en stóðu í skilum. Höfum ótal dæmi sem sýna að það munar milljónum á því hvort fólk stóð í skilum eða ekki. Auk þess er þekkt að minnst hefur verið komið til móts við þá sem fóru varlega fyrir efnahagshrunið. Við munum ekki leysa skuldavanda allra. Þetta er réttlætisaðgerð; þetta er jafnræðisaðgerð; þetta er er efnahagsleg aðgerð. Þetta er aðgerð sem mun marka efnahagslegan og samfélagslegan viðsnúning”, sagði Sigmundur Davíð jafnframt.
sdg-midstjorn-selfossi-03Sigmundur Davíð fagnaði því mjög hve þingflokkur Framsóknarmanna hafi staðið sig vel, það væri ekki sjálfgefið þegar svo stór hluti þingflokks væri nýtt fólk og allir reyndari þingmenn störfum hlaðnir sem formenn nefnda og ráðherrar.
Unnið er skipulega að framgangi allra mála sem fjallað er um í stjórnarsáttmála. Staðan var erfið er ríkisstjórnin tók við, enda einkenndu frestunaraðgerðir allt síðasta kjörtímabil. Nú er komið að viðsnúningi og skapa raunverulegan vöxt en ekki lántöku.

Categories
Fréttir

Reykjavík fyrir alla – efstu sjö sætin ákveðin

Deila grein

20/11/2013

Reykjavík fyrir alla – efstu sjö sætin ákveðin

Kjördæmaþing framsóknarfélaganna í Reykjavík hefur samþykkt tillögu kjörstjórnar um skipan í efstu sjö sæti framboðslista fyrir sveitarstjórnarkosningar í vor. Framsóknarflokkurinn í Reykjavík gengur til kosninga undir kjörorðunum Reykjavík fyrir alla.
FRAMSOKN-Reykjavik-efstu-4-saetin
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
Efstu sjö sætin skipa:

  1. Óskar Bergsson, rekstrarfræðingur og húsasmíðameistari
  2. Guðrún Bryndís Karlsdóttir, sjúkraliði og verkfræðingur
  3. Valgerður Sveinsdóttir, lyfjafræðingur
  4. Guðlaugur Gylfi Sverrisson, vélfræðingur
  5. Hafsteinn Ágústsson, kerfisstjóri
  6. Hallveig Björk Höskuldsdóttir, öryggisstjóri
  7. Trausti Harðarson, viðskiptafræðingur

Fjölmörg mál bíða úrlausnar í Reykjavík sem munu gera borgina að betri stað til að búa á.  Það er ekki nóg að hlusta á borgarbúa, en heyra  ekki hvað þeir segja. Ekki síst á það við skipulagsmál, en stórar ákvarðanir þarf að taka á næstunni svo þróun borgarinnar verði til hagsbóta fyrir alla Reykvíkinga, ekki bara suma. Liður í því er staðsetning flugvallarins í Reykjavík, en að mati Framsóknarflokksins  verður að tryggja núverandi staðsetningu hans, ekki síst ef borgin á að þjóna hlutverki sínu sem höfuðborg allra landsmanna.
Skipulagsmál eru umhverfismál og þau verður að nálgast með umræðu við þá sem í borginni búa. Skipuleggja þarf borgina þannig að búseta nærri vinnustað sé raunhæfur möguleiki. Sem dæmi má nefna að tæp 80% af öllum störfum í Reykjavík eru í vestur hluta hennar, þessu þarf að breyta.