Með frumvarpinu verður sú lagalega breyting að rekstrarleyfisskyld gististarfsemi skal vera í samþykktu atvinnuhúsnæði og því ekki lengur heimilt að gefa út leyfi til reksturs gististaða í íbúðarhúsnæði.
Sem dæmi má nefna að ef einstaklingur leigir út hluta af heimili sínu í þéttbýli t.d. í gegnum Airbnb getur viðkomandi áfram gert það í allt að 90 daga á ári eða sem nemur 2 milljónum króna í leigutekjur. Eftir að því marki er náð getur viðkomandi ekki sótt um rekstrarleyfi gististaða líkt og eitthvað hefur borið á.
Rekstrarleyfi gististaða verða aðeins gefin út ef um atvinnuhúsnæði er að ræða eða ef útleigueiningin er í dreifbýli t.d. bændagisting. Vakin er athygli á að heimagisting er alltaf skráningarskyld og sækja þarf um heimagistingarleyfi og endurnýja það árlega.
Frumvarpið er hluti af mótvægisaðgerðum ríkisstjórnarinnar á framboðshlið íbúðarhúsnæðis, á suðvesturhorni landsins, og liður í því að mæta eftirspurn eftir íbúðarhúsnæði.
„Með þessari lagabreytingu verða skýrari skil á milli íbúðarhúsnæðis og atvinnuhúsnæðis þegar kemur að gistingu og horft er til raunverulegrar notkunar húsnæðis. Því er ekki lengur hægt að kaupa íbúðarhúsnæði í þéttbýli og gera það út sem gististað umfram 90 daga regluna líkt og gerst hefur í miðborginni þar sem jafnvel heilu íbúðablokkirnar hafi breyst í hótel,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra.
Áfram Ísland! Tillögur að fyrirkomulagi afreksstarfs
Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, kynnir áform um eflingu afreksíþróttastarfs
Skýrsla starfshóps mennta- og barnamálaráðuneytisins um stöðu og réttindi afreksíþróttafólks var kynnt á blaðamannafundi í Laugardalshöll í dag. Hlutverk starfshópsins var að yfirfara og leggja til breytingar á fyrirkomulagi, löggjöf og öðru sem hópurinn taldi þurfa til að stuðningur við afreksíþróttafólk á Íslandi verði í fremstu röð. Hópurinn hefur skilað meðfylgjandi skýrslu þar sem staða og umgjörð afreksíþrótta á Íslandi er greind og settar fram tillögur að nýrri nálgun í afreksmálum og aðgerðum til nokkurra ára.
Vésteinn Hafsteinsson, fv. afreksíþróttamaður og -þjálfari, leiðir starfshópinn. Tillögur hópsins eru umfangsmiklar og lúta m.a. að aðgerðum sem tengjast stöðu íþróttafólks og réttindum, starfsemi íþróttafélaga og sérsambanda, umgjörð afreksíþrótta fyrir mismunandi aldurshópa og einnig að hlutverki ríkis, sveitarfélaga og atvinnulífs. Einn af lykilþáttum í tillögunum er stofnun Afreksmiðstöðvar Íslands (AMÍ) innan Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands (ÍSÍ). AMÍ er ætlað mikilvægt hlutverk í faglegri umgjörð utan um afreksfólk og þjálfara þeirra.
Starfshópurinn telur að fyrirhugaðar breytingar muni ekki aðeins styrkja afreksíþróttastarf og stuðla að auknum árangri í framtíðinni heldur einnig hafa jákvæð áhrif á allt íþróttastarf á Íslandi. Í umfjöllun starfshópsins er horft til fyrirkomulags sem þekkist víða erlendis með góðum árangri sem sniðið er að íslenskum aðstæðum.
Tillögur starfshópsins eru byggðar á breiðri og þverfaglegri nálgun og telur starfshópurinn að þær breytingar sem lagðar eru til muni hafa umtalsvert forvarnargildi, efla almenna heilsu, farsæld og lýðheilsu á Íslandi til lengri tíma litið, og á sama tíma draga úr útgjöldum heilbrigðiskerfisins. Í þessu samhengi má einnig nefna önnur mikilvæg samfélagsleg og efnahagsleg áhrif sem sterkt íþróttalíf og uppbygging íþróttainnviða getur skapað t.d. með starfsemi á sviði íþróttatengdrar ferðaþjónustu o.fl.
Í vinnu starfshópsins hefur verið lögð rík áhersla á samráð og upplýsingaöflun meðal innlendra sem og erlendra hagaðila og álitsgjafa. Mat starfshópsins er að skapa þurfi breiða samstöðu og aðkomu aðila að verkefninu til framtíðar svo unnt verði að ná framúrskarandi árangri á alþjóðlegum vettvangi íþrótta.
Blaðamannafundur í Laugardalshöll
Fjölmargar tillögur eru settar fram í skýrslu hópsins en þær mikilvægustu að mati starfshópsins eru:
Afreksmiðstöð Íslands (AMÍ) verði stofnuð og skilgreint skýrt hlutverk innan ÍSÍ. Markmið AMÍ verður að afreksíþróttafólk nái betri árangri í íþróttum, auk þess að efla faglega umgjörð afreksstarfs á Íslandi og þannig auka þekkingu og nýsköpun á sviði afreksíþrótta.
Stofnaður verði launasjóður afreksíþróttafólks og þjálfara í íþróttum. Markmiðið er að skapa sambærilegt starfsumhverfi og þekkist í nágrannalöndunum og tryggja um leið vinnumarkaðstengd réttindi.
Komið verði til móts við kostnaðarþátttöku íþróttafólks í landsliðsverkefnum með auknum stuðningi ríkis, sveitarfélaga og atvinnulífs. Markmiðið er að allir hafi jafnan möguleika á að taka þátt í landsliðsverkefnum í íþróttum.
Fagleg umgjörð afrekssviða í grunn- og framhaldsskólum verði efld og tengd við íþróttafélög og sveitarfélög. Markmiðið er að hlúa betur að efnilegu íþróttafólki og draga úr brotthvarfi ungmenna úr íþróttum.
Aðkoma atvinnulífsins að afreksíþróttum verði efld. Fleiri fyrirtæki verði virkir þátttakendur í uppbyggingu afreksíþrótta.
Að núverandi skipulag íþróttahreyfingarinnar á Íslandi verði skoðað. Markmiðið er að meta fyrirkomulagið og hvort nýta megi betur það fjármagn sem íþróttahreyfingin fær frá stjórnvöldum í dag.
Í framhaldinu mun mennta- og barnamálaráðherra skipa þverpólitískan stýrihóp sem ásamt ÍSÍ er ætlað að leggja fram áætlun til að útfæra og fjármagna aðgerðir. Gert er ráð fyrir að innleiðing hefjist af krafti 1. janúar 2025. Áætlað er að drög að þingsályktunartillögu um aðgerðaáætlun liggi fyrir 15. ágúst og að hún verði lögð fram á Alþingi á haustdögum.
Að þessu tilefni hafði Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra þetta að segja á facebook síðu sinni:
,,Áfram Ísland – Við ætlum að umbylta umhverfi afreksíþrótta!
Ég hef lagt ríka áherslu á aukinn stuðning við íþróttastarf í landinu. Það var þessvegna mjög ánægjulegt í gær þegar Vésteinn Hafsteinsson kynnti tillögur sem hann og fleiri hafa unnið að fyrir stjórnvöld og íþróttahreyfinguna um hvernig bæta megi stöðu og réttindi afreksíþróttafólks á Íslandi.
Tillögurnar eru metnaðarfullar og því mikið gleðiefni að sama dag var samþykkt í ríkisstjórn að taka þær föstum tökum og vinna að því markmiði að innleiðing og framkvæmd geti hafist strax í upphafi árs 2025. Ég er sannfærður um að þessar breytingar munu verða til þess fallnar að jafna stöðu íþróttafólksins okkar miðað við nágrannalönd og að þær verði í raun algjör umbylting á allri umgjörð og stuðningskerfi íþrótta á Íslandi.
Það er ljóst að við höfum staðið höllum fæti í samanburði við nágrannalönd þegar kemur að fjárfestingu í íþróttafólkinu okkar. Við þurfum stór skref til að breyta þessari staðreynd og þau skref höfum við og munum halda áfram að taka. Við erum t.d. búin að tryggja yfir 8 milljarða í byggingu nýrrar þjóðarhallar, fjárfestingu í nýju svæðaskipulagi íþróttahreyfingarinnar, hvatasjóði til að auka þáttöku barna í íþróttum o.fl. Nú þurfum við að taka þessar tillögur með sama hætti og tryggja að þær komist til framkvæmda!
Öflugt íþróttastarf er stórt forvarnarmál en íþróttafólkið okkar er líka mikið þjóðarstolt og það er skylda okkar sem samfélags að tryggja að umgjörðin sé sambærileg og í öðrum löndum.
Neytendamál voru einn af þeim málaflokkum sem settir voru í brennidepil við stofnun menningar- og viðskiptaráðuneytisins í febrúar árið 2022. Þannig hefur stuðningur við samtök á sviði neytendamála, eins og Neytendasamtökin og Hagsmunasamtök heimilanna, verið aukinn, ráðist var í úttekt gjaldtöku og arðsemi íslensku bankanna til að varpa ljósi á þróunina á þeim markaði, stutt hefur verið við verðlagseftirlit ASÍ í þágu neytenda, í gangi er úttekt á hvernig staðið er að upplýsingagjöf og leiðbeiningum gagnvart neytendum í tengslum við lánveitingar út frá mismunandi lánaformum, áhrifum vaxta, verðbólgu o.s.frv.
Á Alþingi í vor mælti ég einnig fyrir frumvarpi um ný markaðssetningarlög sem marka ákveðin tímamót. Megináherslan í þeim er að efla neytendavernd. Sérákvæði verður um óhæfilega samningsskilmála, sem þýðir til dæmis að ef samningsskilmálar í vöru- og þjónustukaupum eru ósanngjarnir gagnvart neytendum þá getur Neytendastofa gripið til aðgerða. Annað sem skiptir mig miklu máli og tengist íslenskunni er að það er skerpt á þeirri meginreglu að allar auglýsingar skuli vera á íslensku. Þá er ætlunin að draga úr hindrunum í gildandi regluverki en lögin séu einföld, skýr, aðgengileg og tæknihlutlaus og leggi ekki óþarfa byrðar á atvinnulífið. Einnig er lögð áhersla á að tryggja eins og kostur er að ákvæði löggjafar um að þessi mál séu í samræmi við löggjöf í Evrópu. Er þannig stutt við það meginmarkmið í stefnu stjórnvalda að styrkja samkeppni innanlands, tryggja stöðu neytenda betur í nýju umhverfi netviðskipta og efla alþjóðlega samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs.
Í vikunni voru birt í samráðsgátt drög að nýrri heildarstefnu í neytendamálum sem ég stefni á að mæla fyrir á Alþingi nú á vorþingi. Samhliða er sett fram aðgerðaáætlun sem unnið verði eftir til ársins 2030. Um er að ræða níu skilgreindar aðgerðir sem ná yfir frekari uppfærslu og nútímavæðingu löggjafar á sviði neytendamála, aukna áherslu á netviðskipti og stafvæðingu, aukna neytendavernd á sviði fjármálaþjónustu og áherslu á fjármálalæsi, og sérstakar þarfir viðkvæmra hópa neytenda svo dæmi séu tekin. Í því samhengi langar mig sérstaklega að nefna að regluverk um smálán verður tekið til endurskoðunar til að vernda þá sem höllum fæti standa og setja skýrari leikreglur á því sviði. Ýmis skref hafa verið stigin á undanförnum árum í þeim efnum en ljóst að ýmis tækifæri eru til frekari úrbóta á því sviði.
Mikil vinna hefur átt sér stað innan menningar- og viðskiptaráðuneytisins á undanförnum árum til þess að undirbyggja raunverulegar aðgerðir í þágu neytenda til dagsins í dag og til framtíðar. Ég er sannfærð um að þær aðgerðir sem við munum halda áfram að hrinda í framkvæmd munu bæta samfélagið okkar og neytendavernd í þágu okkar allra.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 2. maí 2024.
Á 37. Flokksþingi Framsóknar um liðna helgi voru veitt Bjartsýnisverðlaun Framsóknar. Bjartsýnisverðlaun Framsóknar eru veitt aðilum utan flokksins sem hafa lagt eitthvað jákvætt að mörkum til íslensks samfélags.
Þann 20. apríl, á kvöldverðarhófi flokksþings Framsóknar voru verðlaunin veitt Rauða krossinum á höfuðborgarsvæðinu fyrir verkefnið: Frú Ragnheiður.
Frú Ragnheiður vinnur eftir hugmyndafræði skaðaminnkunar þar sem lögð er áhersla á að fyrirbyggja þann skaða og þá áhættu sem hlýst af notkun vímuefna.
Frú Ragnheiður hefur það að markmiði að koma í veg fyrir ótímabær dauðsföll og óafturkræfan skaða sem og að auka lífsgæði og bæta heilsufar einstaklinga sem nota vímuefni í æð með því að veita lágþröskuldaþjónustu í nærumhverfi einstaklinga. Lækkun á tíðni sýkinga og útbreiðslu smitsjúkdóma á borð við HIV og lifrarbólgu C, færri dauðsföll af völdum ofskömmtunar, ábyrgari neysluhegðun og minna af notuðum sprautubúnaði í almenningsrýmum eru á meðal þess ávinnings sem hlýst af verkefninu án mikils tilkostnaðar.
Ósk Sigurðardóttir, deildarstjóri Rauða krossins á höfuðborgarsvæðinu, veitti verðlaunum viðtöku og óskar Framsókn henni og Rauða krossinum innilega til hamingju með verðlaunin.
Á 37. Flokksþingi Framsóknar síðastliðna helgi var jafnréttisviðurkenning Framsóknar veitt.
Jafnréttisnefnd Framsóknar veitir verðlaunin á hverju flokksþingi einstaklingi sem hefur skarað fram úr að framgengi jafnréttisáætlunar flokksins. Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Norðvestur kjördæmis, veitti verðlaunin fyrir hönd nefndarinnar.
Guðný Sverrisdóttir á Grenivík fékk verðlaunin að þessu sinni og hafði Halla Signý þetta um hana að segja við afhendinguna:
„Hún hefur brotið marga múra í gegnum tíðina og glerþökin hafa splundrast með þátttöku hennar í sínum störfum og ekki síst í félagsstarfi. Guðný hefur setið í stjórnum á landsvísu á vegum sveitarfélaga og þá vil ég helst nefna stjórnarsetu í Jöfnunarsjóðnum og fleira mætti telja.
Ég man eftir að heyra í Guðnýju í fjölmiðlum, kjarnyrt og bjó ekki viðtölin í neinn skrautpappir, ég sá haft eftir henni að það væri hreint ótrúlegt hvað spyrlar í fjölmiðlum vissu lítið um landsbyggðina, þarna fór kona sem barðist fyrir sínu landssvæði og gerði það vel.
Þegar Guðný tók við sveitastjórastöðunni árið1987 var hún eina konan á landinu sem sem gegndi framkvæmdastjórastöðu í sveitarfélagi og var það um árabil eða þangað til Ingibjörg Sólrún tók við borgarstjórastólnum 1994.
Guðný gegndi þeirri stöðu í 27 ár en, þá stofnaði hún ásamt tveimur öðrum konum , ráðgjafafyrirtækið Ráðrík og þar voru samankomnar konur með miklu reynslu úr stjórnsýslunni. Ég spurði hana einu sinni af hverju hún hefði stofnað þetta fyrirtæki, og hún svaraði að bragði; ,,Nú eftir að ég hætti sem Sveitastjóri þá var ég 64 ára og ég bara nennti því ekki að hætta að vinna.“ Mér fannst þetta gott svar og öðrum hvatning.
Ég hringdi í Guðnýju til að fara yfir nokkrar staðreyndir, og spurði þá hvað hún gæti helst státað sig af. ,,Nú ég hef nú bara verið ég sjálf”.
Hún hefur sem sagt alltaf starfað við það sem við viljum öll vera. Við sjálf.“
Framsókn óskar Guðnýju Sverrisdóttur innilega til hamingju.
Á 37. Flokksþingi Framsóknar um liðna helgi var gullmerki Framsóknar veitt í fyrsta sinn.
Ritari Framsóknar skal veita gullmerki Framsóknar einstaklingi sem um árabil hefur unnið framúrskarandi og óeigingjarnt starf með sérstaka áherslu á innra starf flokksins, störf í grasrót og skal viðkomandi hafa sýnt áralangt óyggjandi traust við flokkinn. Á flokksþingi var ákveðið að veita tveimur einstaklingum fyrstu gullmerki Framsóknar og afhenti Ásmundur Einar Daðason, ritari Framsóknar, þeim Einari Gunnari Einarssyni og Sigrúnu Magnúsdóttur gullmerki Framsóknar á kvöldverðarhófi flokksþings Framsóknar þann 20. apríl.
Við afhendinguna hafði Ásmundur Einar þessi orð um að segja um feril Einars Gunnars fyrir Framsókn:
,,Einar gerðist félagi í Framsókn fyrir alþingiskosningarnar 1987 og hefur hann starfað fyrir flokkinn frá árinu 2002, fyrst á skrifstofu flokksins og nú fyrir þingflokkinn.
Einar hefur einnig sinnt ótal trúnaðarstörfum fyrir Framsókn, hann sat í miðstjórn, stjórn og framkvæmdastjórn SUF og endaði ferilinn þar sem skoðunarmaður reikninga. Þá var hann formaður í svæðisfélagi FUF og formaður kjördæmissambands ungra framsóknarmanna í Reykjaneskjördæmi. Þá hefur hann setið sem miðstjórnarfulltrúi. Einar hefur unnið með sjö formönnum Framsóknar og sex framkvæmdastjórum.
Það er einkennandi fyrir Einar, að þegar hann er spurður um hvaða skilaboðum hann vilji koma til ungs fólks sem er að íhuga þátttöku í stjórnmálum eða öðru sjálfboðaliðsstarfi. Þar setur hann unga fólkið sjálft í forgang, að það þurfi fyrst af öllu að huga að menntun sinni, en spennandi og kraftmikið stjórnmálastarf sé gott með. Þar gefist umfram allt tækifæri til að mynda tengsl við fólk á öllum aldri og alls staðar af landinu.
Ósérhlífnin og dugnaðurinn birtist í svari Einars þegar hann er spurður um hvað honum þyki skemmtilegast í flokksstarfinu. Þar svara hann því til að kosningabarátta sé allra skemmtilegasti tíminn. Þar sem liðmönnum sé skipað í framlínuna, í stuðnings- og bakvarðasveit. Tengsl sem verða til í kosningabaráttu endist í áratugi. Eins sé gaman að kynnast nýju fólki sem skipar sér í hlutverk í flokknum, sjá það vaxa til taka að sér skýrari og viðameiri verkefni í flokksstarfinu.
Þá segir Einar, þegar hann er beðinn að lýsa Framsókn: Þetta er fyrst og fremst hópur fólks sem vill með hugsjónir samvinnu og jafnaðar að leiðarljósi gera samfélagið enn betra. Horfa fram veginn, sjá fyrir verkefnin og úrlausnir þeirra og takast á við flókna og óvænta viðburði af heiðarleika, fordæmalaust og án allra kreddukenninga. Við erum hópur fólks sem tökumst á, en að því loknu erum við heild sem talar einni röddu. Einar endurspeglar þetta sterkt með sínu óeigingjarna starfi sem hann hefur lagt til Framsóknar.
Að lokum, til að undirstrika stöðugleika Einars í flokksstarfinu, þá mætti hann á sitt fyrsta flokksþing 1988, sem var það tuttugasta í sögu flokksins, nú erum við mætt á 37. Flokksþing Framsóknar og hefur Einar aðeins misst af einu þingi allan þennan tíma.
Það var heiður að fá að sæma Einar Gunnar Einarsson gullmerki Framsóknar.”
Við afhendingu á gullmerkinu til Sigrúnar Magnúsdóttur hafði Ásmundur Einar þetta að segja:
,,Sigrún gerðist félagi í Framsókn í upphafi áttunda áratugarins og hefur hún starfað af krafti fyrir flokkinn frá þeim tíma. Áður hafði hún boðið sig fram í sveitarstjórnarkosningum fyrir óháðan lista vestur á fjörðum þar sem hún var reyndar alltaf kölluð Framsóknarkonan!
Félag framsóknarkvenna í Reykjavík var eitt af fyrstu félögunum sem Sigrún gekk til liðs við innan flokksins. Í framboðsmálum þá bauð hún sig fyrst fram til borgarstjórnar og varð varaborgarfulltrúi fyrst og svo borgarfulltrúi í 16 ár. Sigrún hefur verið formaður félags framsóknarkvenna, flokksfélagsins og fulltrúaráðs Reykjavíkur en þaá sat hún einnig í framkvæmdastjórn flokksins. Sigrún varð fyrst varaþingmaður 1979 og kom inn á þing 1980 og 1982. Hún var síðan kjörin á Alþingi árið 2013 og var Umhverfis- og auðlindaráðherra frá árinu 2014-2017. Hún hefur þá sérstöðu að hafa flutt ræður á Alþingi með meira en 30 ára millibili.
Sigrún hefur verið fulltrúi í miðstjórn í mörg ár og nú síðast hefur hún staðið vaktina á síðdegisvatkinni hér í Reykjavík. Sigrún lýsir störfum sínum fyrir flokkinn þannig: „Líf mitt hefur snúist meira og minna um framsókn“
Hún hefur unnið með öllum formönnum frá því að hún gekk til liðs við flokkinn og svo nefndi hún sérstaklega að hún hafi óbeint unnið með Eysteini á sinum tíma og að áhugi hans og stuðningum við stofnun félags framsóknarkvenna hafi verið dýrmætur.
Skilaboð hennar til ungs fólks sem íhugar að taka þátt í stjórnmálum eru skýr. Það efli mann og þroski, geri ekkert nema gott þó stundum blási á móti. Þá sé varla til betri reynsla en að störf á vegum Framsóknar og því að kynnast starfi stjórnmálaafls.
Hún lýsir því sem einu aðalsmerki Framsóknar hversu öflug félagsmálataugin sé í okkur, það sjáist á fyrrverandi þingmönnum, engir séu jafn virkir þar eins og Framsókn.
Aðspurð um hvað henni þyki skemmtilegast við að starfa í flokknum þá segir hún að það sé ótrúleg tilfinning að tilheyra svona félagsmálaafli. Ekkert sé jafn skemmtilegt og að mæta á flokksþing, skemmtilegasta sem hún gerir er að hitta félaga alls staðar af landinu. Þá vill hún lýsa flokknum sem einfaldlega fólkinu sem er í honum, fólk sem vill keyra á samvinnu og félagshyggju og binst þeim samtökum.
Sigrún segist ekki sjá eftir þeim tíma sem hefur farið í Framsókn, og hún sé þakklát fyrir að hafa gengið í flokkinn og að hafa fengið að eyða ævinni í þessum einstaka félagsskap.
Það var heiður að fá að sæma Sigrúnu Magnúsdóttir gullmerki Framsóknar.”
Framsókn óskar Einari Gunnari Einarssyni og Sigrúnu Magnúsdóttur innilega til hamingju með verðlaunin og þakkar þeim fyrir vel unnin og óeigingjörn störf í gegnum árin.
37. Flokksþing Framsóknar var haldið á Hilton Reykjavík Nordica síðastliðna helgi. Þingið var stórglæsilegt í alla staði, en þar kom fjöldi Framsóknarfólks af landinu öllu saman.
Flokksþing Framsóknar hefur æðsta vald í málefnum flokksins, kýs flokknum forystu og leggur línur hvað varðar málefni og stefnu flokksins. Starfið í aðdraganda þingsins og á þinginu er sannkölluð lýðræðisveisla þar sem á þriðja hundrað félaga tók virkan þátt í yfirferð á stefnu flokksins með þátttöku í málefnastarfi.
Forystan endurkjörin með yfirgnæfandi stuðningi
Forysta Framsóknar endurnýjaði á þinginu umboð sitt með yfirgnæfandi stuðningi þingsins. Formaður flokksins Sigurður Ingi Jóhannsson, Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður og Ásmundur Einar Daðason, ritari flokksins, hlutu öll glæsilega kosningu.
Samþykktar voru allmargar ályktanir og munu þær birtast í heild sinni á næstu dögum. Jafnframt voru samþykktar breytingar á lögum flokksins eftir viðamikla vinnu starfshóps um innra starf flokksins undir forystu Ásmundar Einars Daðasonar, ritara flokksins.
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar, með yfirlitsræðu á flokksþingi.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar, með ræðu á flokksþingi.
Einar Þorsteinsson, borgarstjóri, með ávarp á flokksþingi.
Forysta Framsóknar endurkjörin með yfirgnæfandi stuðningi!
Sigurður Ingi Jóhannsson var á 37. Flokksþingi Framsóknar endurkjörinn formaður flokksins með rúmlega 96% greiddra atkvæða. Sigurður Ingi hefur verið formaður frá árinu 2016.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir var endurkjörin varaformaður Framsóknar með tæplega 90% greiddra atkvæða. Lilja Dögg hefur verið varaformaður frá árinu 2016.
Ásmundur Einar Daðason var endurkjörinn ritari Framsóknar með rúmlega 95% atkvæða. Hann hefur verið ritari Framsóknar frá árinu 2022.
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar, setti 37. Flokksþing Framsóknar við hátíðlega athöfn á Hilton Reykjavík Nordica í morgun. Yfirskrift Flokksþingsins er „Kletturinn í hafinu“.
Það var vel mætt á þingið við setningu þess og stefnir í enn meiri þátttöku síðar í dag er formaður flokksins mun flytja yfirlitsræðu sína. Á Flokksþingi ákveður Framsóknarfólk meginstefnu flokksins í landsmálum, setur flokknum lög og hefur æðsta vald í málefnum hans.
Sigurður Ingi fagnar í dag 62 ára afmæli sínu og því var mjög viðeigandi að hefja þingið á að syngja afmælissönginn en Framsóknarfólk veit fátt skemmtilegra en að bresta í söng.
Við hvetjum ykkur til að fylgjast með miðlunum okkar í dag, bæði á Facebook og á Instagram en ræður formanns og varaformanns verða í beinu streymi á visir.is á facebook síðu Framsóknar.
Innilega til hamingju með daginn Sigurður Ingi og til hamingju með daginn allt Framsóknarfólk!
Ein af grundvallarskyldum stjórnvalda á hverjum tíma er að tryggja öryggi borgaranna. Fjölmargir þættir falla þar undir sem flestum eru kunnir en stjórnvöld þurfa einnig að vera vakandi fyrir nýjum hættum sem kunna að ógna íslensku samfélagi. Svokallaðar fjölþáttaógnir falla þar undir en hugtakið vísar til samstilltra aðgerða óvinveittra ríkja eða aðila tengdum þeim sem nýta sér kerfislæga veikleika lýðræðisríkja, stofnana og hópa samfélagsins með það að markmiði að veikja áfallaþol samfélagsins, grafa undan lýðræði, trausti og samfélagslegri samheldni til að ná pólitískum, efnahagslegum og/eða hernaðarlegum markmiðum. Þessar aðgerðir geta falist í dreifingu falsfrétta, netárásum, íhlutun í lýðræðislegt ferli og kosningar og erlendar fjárfestingar í mikilvægum innviðum þar sem annarlegar hvatir búa að baki, en aðstaða fjárfesta getur haft áhrif á virkni mikilvægra innviða á grundvelli beins eða óbeins eignarhalds. Fjölþáttaógnir gera greinarmun á stríði og friði óskýrari. Því getur verið erfitt að verjast fjölþáttaógnum og -aðgerðum, enda virða þær hvorki landamæri, skil á milli stofnana innan ríkja né mörk hins opinbera og einkageirans.
Nýjar leiðir til að valda skaða
Segja má að með þeim aðferðum sem beitt er séu farnar leiðir sem valda skaða án þess að beita hefðbundnum hernaði. Árásir geta verið fjölbreyttar og hægt er að beita þeim í skjóli leyndar og afdráttarlausrar neitunar á ábyrgð. Sú aðferð sem helst hefur borið á hér á landi eru netógnir hvers konar. Gleggsta dæmið er nýleg netárás á tölvukerfi háskólans í Reykjavík en á málþingi Defence Iceland sem fór fram í Grósku fimmtudaginn 11. apríl fjallaði Jacky Mallett, lektor í tölvunarfræði við háskólann um rússneska hakkarahópinn Akira sem bar ábyrgð á netárásinni og innbrotinu í kerfi skólans, hvernig hópurinn virkar, þau tól og tæki sem hann nýtir sér og þá veikleika kerfa sem helst er herjað á.
Þá fjallaði Gunnar Jakobsson, varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika um varnir fjármálakerfisins og þá miklu vinnu sem Seðlabankinn hefur ráðist í á undanförnum árum til þess að mæta netógnum. Á opnum fundi efnahags-og viðskiptanefndar Alþingis þann sama dag þar sem skýrsla Seðlabankans til Alþingis um fjármálastöðugleika var til umræðu kom fram í máli Gunnars að ein helsta ógnin í dag við fjármálastöðugleika fælist í netárásum á fjármálainnviði hér á landi. Sú fullyrðing ásamt mýmörgum dæmum þar sem ráðist hefur verið gegn fyrirtækjum og stofnunum hér á landi sýnir glögglega hversu mikilvægt það er fyrir íslenskt samfélag að stórefla netvarnir hér á landi.
Áhætta vegna netárása eykst
Netárásum getur verið beitt t.a.m. með árásum á mikilvæga innviði og/eða samfélagslega mikilvæga þjónustu. Veikleikar í rekstri net- og upplýsingakerfa þeirra geta haft lamandi áhrif á mikilvæga samfélagslega starfsemi og dregið úr almanna- og þjóðaröryggi. Netárásir geta ekki bara lamað fyrirtæki og stofnanir og valdið fjárhagslegum skaða heldur geta netþrjótar komist yfir viðkvæm gögn sem síðan er lekið með ómældum skaða fyrir þá sem um ræðir. Slík gögn geta verið persónuupplýsingar, trúnaðarupplýsingar af ýmsum toga, viðskiptaleyndarmál, rannsóknargögn og svo má lengi telja. Netárásir geta líka falist í gíslatöku gagna þar sem farið er fram á lausnargjald, valdið skemmdum á netkerfum þannig að starfsemi s.s. bankastarfsemi og ýmis mikilvæg starfsemi hins opinbera stöðvast. Þar sem áhættan á netárásum hefur aukist hafa tryggingafélög boðið upp á tryggingarvernd fyrir netárásum sem sýnir í hnotskurn þá alvarlegu ógn sem stafar af athæfinu. Í dæmi Háskólans í Reykjavík er talið fullvíst að netþrjótar njóti verndar og jafnvel liðsinnis og samstarfs við óvinveitt ríki. Netógnir eru því alls ekki einkamál fyrirtækja og einstaklinga heldur miklu frekar sameiginleg ógn við þjóðina í heild.
Mikil samhæfingarvinna nauðsynleg
Ísland er mjög netvætt samfélag sem reiðir sig á virkni mikilvægra innviða á ábyrgð ríkisins, opinberra stofnana og fyrirtækja á almennum markaði. Virkni þessara innviða byggist í auknum mæli á samvirkni skipulags, mannvirkja og net- og upplýsingakerfa. Aðgerðir stjórnvalda sem miða að því að styrkja net- og upplýsingakerfi og áfallaþol samfélagsins falla undir málefnasvið margra ráðuneyta hér á landi. Netglæpir eru rannsakaðir af lögreglu sem fellur undir málefnasvið dómsmálaráðuneytisins, varnarmál landsins falla undir ráðuneyti utanríkismála, fjarskipti og netöryggi falla undir háskóla,- iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti, Stafrænt pósthólf í miðlægri þjónustugátt stjórnvalda fellur undir fjármálaráðuneyti, orkumál og orkuöryggi fellur undir umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti og heilbrigðiskerfið undir heilbrigðisráðuneytið svo eitthvað sé nefnt. Mikil samhæfingarvinna er því nauðsynleg til þess að ná ásættanlegum árangri til styrkingar á áfallaþoli samfélagsins. Netöryggisheimurinn fer ört vaxandi hér á landi og því fer þekking á málaflokknum jafnframt ört vaxandi. Ásamt því að taka þátt í öndvegissetri um netöryggismál í Tallin í Lettlandi og um fjölþáttaógnir í Helsinki er starfrækt sérstök netöryggissveit undir Fjarskiptastofu sem í daglegu tali er kölluð CERT-IS. Ísland tekur að auki þátt í netöryggiskeppnum hérlendis og erlendis og fór ein slík keppni fram nýverið er nefnist Gagnaglíman og er stefnan sett á að senda íslenskt lið í Netöryggiskeppni Evrópu (European Cyber Security Challenge, ECSC) sem haldin verður á Ítalíu í haust.
Forvarnir skipta máli
Íslensk fyrirtæki hafa verið að hasla sér völl á sviði forvarna gegn netglæpum á undanförnum árum. Eitt þeirra fyrirtækja er AwereGO sem hjálpar fyrirtækjum og stofnunum við að efla öryggi sitt út frá fræðslu og forvörnum. Stór ástæða innbrota í tölvukerfi gengur út á misnotkun á mannlegum þáttum þar sem starfsmenn eru plataðir með einhverju móti eða glæpamenn nýta sér veikleika ef þekkingu skortir á ábyrgri tölvu-og netnotkun. Má þar nefna vanþekkingu á því hvernig má greina fölsk skilaboð og tölvupósta, skort á uppfærslu lykilorða og tveggja þátta auðkennis, vanþekkingu á mögulegum gagnastuld og svo má lengi telja. Rétt eins og með aðrar forvarnir er alltof algengt að fyrirtæki og stofnanir vanræki þá þætti í starfsemi sinni. Kostnaðurinn við að tryggja tölvukerfi og örugga tölvunotkun er óverulegur samanborið við þann skaða sem innbrot í tölvukerfi getur haft.
Þörf á vitundarvakningu
Stjórnvöld vinna í dag eftir netöryggisstefnu fyrir árin 2022-2037 en í stefnunni er birt framtíðarsýn og markmið stjórnvalda á sviði netöryggis ásamt mælikvörðum og áherslum. Annað af tveimur markmiðum stefnunnar er að efla þekkingu og hæfni með aukinni áherslu á almannafræðslu, menntun, rannsóknir, þróun og alþjóðlega samvinnu. Hitt lýtur að öruggu netumhverfi, þ.e. að til staðar sé öruggt netskipulag sem geti með skilvirkum hætti brugðist við netöryggisatvikum sem ógnað geta þjóðaröryggi, mikilvægum innviðum og réttindum einstaklinga. Ör þróun netöryggismála og síbreytilegar aðstæður krefjast lagaumhverfis sem stuðlar að vernd einstaklinga, atvinnulífs og samfélagsins í heild og að því sé fylgt eftir með löggæslu, þar á meðal með viðeigandi samfélagslegri samvinnu.
Mikilvægt er að taka sérstaklega fram að í stefnunni er lögð áhersla á vernd þeirra sem kunna að vera í viðkvæmri stöðu. Tryggja þarf vernd barna á Netinu með stefnu, skýrri löggjöf og ábyrgð á framkvæmd og eftirfylgni. Í því samhengi telur undirritaður afar mikilvægt að stjórnvöld standi einnig fyrir vitundarvakningu um netöryggi og örugg netnotkun verði tekin inn í aðalnámskrá skóla. Öryggisógnir á netinu eru komnar til að vera og það er afar mikilvægt að við öll aðlögum okkur að breyttum heimi.
Jóhann Friðrik Friðriksson, þingmaður framsóknar og situr í Þjóðaröryggisráði.
This website uses cookies to improve your experience while you navigate through the website. Out of these cookies, the cookies that are categorized as necessary are stored on your browser as they are essential for the working of basic functionalities of the website. We also use third-party cookies that help us analyze and understand how you use this website. These cookies will be stored in your browser only with your consent. You also have the option to opt-out of these cookies. But opting out of some of these cookies may have an effect on your browsing experience.
Necessary cookies are absolutely essential for the website to function properly. This category only includes cookies that ensures basic functionalities and security features of the website. These cookies do not store any personal information.
Any cookies that may not be particularly necessary for the website to function and is used specifically to collect user personal data via analytics, ads, other embedded contents are termed as non-necessary cookies. It is mandatory to procure user consent prior to running these cookies on your website.