Categories
Fréttir

Mikilvæg skref eru stigin með nýju greiðsluþátttökukerfi en ganga þarf lengra

Deila grein

04/05/2017

Mikilvæg skref eru stigin með nýju greiðsluþátttökukerfi en ganga þarf lengra

,,Hæstv. forseti. Þann 1. maí sl. tók nýtt greiðsluþátttökukerfi sjúklinga gildi samkvæmt lögum sem samþykkt voru á Alþingi sl. sumar. Þetta er eitt af þeim málum sem afgreitt var í þverpólitískri sátt frá hv. velferðarnefnd. Eitt af markmiðum þessara lagabreytinga er að verja langveika sjúklinga fyrir háum kostnaði vegna meðferðar við sjúkdómum, sjúklinga sem hingað til hafa þurft að greiða mjög mikinn kostnað vegna veikinda sinna. Öll höfum við heyrt umræðuna og þörfina á því að þessu greiðsluþátttökukerfi yrði breytt til hins betra.
Þessi lagabreyting um nýtt greiðsluþátttökukerfi sjúklinga er skref í rétta átt þótt enn sé talsvert í land og mun ég beina umræðunni að þeim þáttum sem við Framsóknarmenn leggjum áherslu á sem næstu skref í þessum efnum.
Fyrst ætla ég aðeins að fjalla um vinnslu málsins í hv. velferðarnefnd síðasta sumar en við efnislega vinnslu málsins var það m.a. gagnrýnt að greiðsluþátttökukerfið næði ekki til allrar heilbrigðisþjónustu. Samkvæmt þessu nýja greiðsluþátttökukerfi eru t.d. tannlækningar, sálfræðiþjónusta, ferðakostnaður og hjálpartæki utan kerfisins. Við vinnslu málsins innan hv. velferðarnefndar töldu nefndarmenn æskilegt að allur kostnaður af heilbrigðisþjónustu og lyfjum félli undir eitt greiðsluþátttökukerfi. Með samþykkt frumvarpsins og gildistöku laganna náðum við þó á síðasta kjörtímabili að stíga skref í rétta átt og fella sjúkraiðju og talþjálfun undir almenna kerfið. Í nefndaráliti hv. velferðarnefndar í fyrravor var skýrt kveðið á um að stefna ætti í þá átt að fella enn fleiri tegundir heilbrigðisþjónustu undir greiðsluþátttökukerfið en þá yrði að auka verulega fjárveitingar til málaflokksins.
Ég ætla að fá að lesa örlítinn bút úr nefndaráliti hv. velferðarnefndar frá því í fyrrasumar. Þar stendur, með leyfi forseta:
„Jafnframt stendur til að greiðsluþátttaka sjúklinga verði minni en ráðgert var í fyrrnefndum drögum að reglugerð. Endanlegar tölur ráðast af fjárlögum næsta árs en miðað er við að almennar hámarksgreiðslur sjúkratryggðra verði ekki hærri en 50.000 kr. á ári.
Nefndin fagnar yfirlýsingu ráðherra og telur sig hafa fullvissu fyrir því að auknir fjármunir komi til í fjáraukalögum þessa árs og fjárlögum ársins 2017 sem leiði til þess að heilsugæslan verði styrkt og almennar hámarksgreiðslur sjúkratryggðra verði ekki hærri en 50.000 kr. á ári.“
50.000 kr. þakið var forsenda þess að þverpólitísk sátt næðist um málið innan nefndarinnar á síðasta kjörtímabili en núna, í nýja greiðsluþátttökukerfinu, er þakið í einhverjum tilvikum 70.000 á ári. Það er ekki sú upphæð sem sátt náðist um. Ég er þess fullviss, miðað við umræðuna í velferðarnefnd á síðasta kjörtímabili, að ekki hefði náðst þverpólitísk sátt um afgreiðslu þessa frumvarps ef 70.000 kr. þakið hefði verið lagt fram þegar unnið var að málinu.
Virðulegur forseti. Þegar við skoðum ríkisfjármálaáætlun, nánar tiltekið á bls. 299 og 300 þar sem fjallað er um greiðsluþátttökukerfið, eru framtíðarmarkmið þessara aðgerða nokkuð óljós. Mig langar að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra út í þau framtíðaráform sem eru uppi varðandi frekari aðgerðir í greiðsluþátttökukerfi sjúklinga. Mun hæstv. ráðherra beita sér fyrir því að einstaklingar með langvinna sjúkdóma eigi kost á gjaldfrjálsu heilbrigðiskerfi áður en þetta kjörtímabil er á enda? Það er nefnilega nógu erfitt fyrir einstaklinga að missa heilsuna, jafnvel vinnuna, þegar erfið veikindi herja á. Mikilvæg skref eru stigin með nýju greiðsluþátttökukerfi en ganga þarf lengra.
Einnig spyr ég hæstv. heilbrigðisráðherra hvort hann ætli sér að sameina greiðsluþátttökukerfi vegna heilbrigðis- og lyfjakostnaðar á þessu kjörtímabili. Samspil þessara tveggja kerfa gerir að verkum að í of mörgum tilvikum þurfa sjúklingar oft að greiða of mikinn kostnað þrátt fyrir að við séum búin að innleiða nýtt greiðsluþátttökukerfi með lægra þaki en áður hefur verið.
Að lokum spyr ég hvort hæstv. heilbrigðisráðherra ætli að bæta fleiri þáttum heilbrigðisþjónustu í greiðsluþátttökukerfið og í hvaða skrefum það verði þá gert. Þar get ég nefnt þætti eins og að koma í auknum mæli til móts við ferðakostnað einstaklinga sem þurfa að sækja þjónustu á heilbrigðisstofnunum eða spítalanum í Reykjavík og þurfa margsinnis að koma til Reykjavíkur og fá þjónustu. Á að koma meira til móts við þessa einstaklinga? Hvað með tannlækningar og sálfræðiþjónustu?
Í þessari umræðu hef ég farið yfir helstu þætti sem unnið var að í hv. velferðarnefnd sl. vor. Þar voru fyrstu skrefin stigin en fast kveðið á um í nefndaráliti hv. velferðarnefndar (Forseti hringir.) að ganga yrði lengra og því kalla ég eftir svörum hér.”

Elsa Lára Arnardóttir

Ræða Elsu Láru Arnardóttur, 3. maí 2017.

Categories
Fréttir

Tengja kvóta við byggðir eða auðvelda sveitarfélögum forkaupsrétt?

Deila grein

26/04/2017

Tengja kvóta við byggðir eða auðvelda sveitarfélögum forkaupsrétt?

„Hæstv. forseti. Í störfum þingsins þann 5. apríl síðastliðinn fagnaði ég því að forsvarsmenn HB Granda hefðu farið í viðræður við bæjarstjórn Akraness og Faxaflóahafnir um framtíðaráform fyrirtækisins á Akranesi. Ég ræddi mikilvægi þess að allir aðilar tækju þátt í þessum viðræðum af heilum hug því að um væri að ræða gríðarlegt hagsmunamál fyrir starfsmenn HB Granda á Akranesi og bæjarfélagið Akranes. Í störfum þingsins ræddi ég jafnframt um að ef þessar viðræður bæjarstjórnar Akraness og Faxaflóahafna við kvótahæsta fyrirtæki landsins, þ.e. HB Granda, skiluðu ekki árangri blasti við að endurskoða þyrfti það kvótakerfi sem við búum við í dag. Skoða þyrfti hvort hægt væri með skýrari hætti að tengja kvóta við byggðir eða auðvelda sveitarfélögum að nýta sér forkaupsrétt í þeim kvóta sem fyrir er svo ákvörðun sem þessi ógnaði ekki atvinnuöryggi fjölda einstaklinga.
Í fréttum þann 20. apríl sl. tók hv. þm. Páll Magnússon, sem jafnframt er formaður hv. atvinnuveganefndar Alþingis, í svipaðan streng og sagði nauðsynlegt að breyta lögum um stjórn fiskveiða til að tryggja þá byggðafestu sem gert er ráð fyrir í lögunum. Hátt í 100 manns missa vinnuna ef HB Grandi hættir landvinnslu á Akranesi.
Hv. þm. Haraldur Benediktsson, sem er 1. þm. Norðvesturkjördæmis, tók undir þessi orð hv. þm. Páls Magnússonar og sagði að lög um stjórn fiskveiða væru til skoðunar innan stjórnkerfisins í ljósi þess að hátt í eitt hundrað manns missi vinnuna ef HB Grandi hætti landvinnslu á Akranesi. Það yrði grundvallarbreyting ef HB Grandi flytti starfsemi frá Akranesi til Reykjavíkur.
Mig langar að nýta þetta tækifæri og fagna orðum þessara hv. þingmanna. Ég vona svo sannarlega að fleiri hv. þingmenn hér geta tekið undir þessi orð okkar.“
Elsa Lára Arnardóttir í störfum þingsins 25. apríl 2017.

Categories
Fréttir

Við köllum eftir stefnu í þessum málaflokki – ekki hentistefnu

Deila grein

26/04/2017

Við köllum eftir stefnu í þessum málaflokki – ekki hentistefnu

„Hæstv. forseti. Vart þarf að rifja það upp í þessum sal að búið er að tilkynna sölu á svokölluðu Vífilsstaðalandi í Garðabæ. Fjármálaráðherra stóð fyrir því. Hann ber því við að heimild til þess sé í fjárlögum, sem er rétt. En í fjárlögum er að finna ýmsar aðrar heimildir til handa ríkisvaldinu, svo sem eins og að selja hlut í bönkunum sem ríkið heldur á um þessar mundir. Þá er þar einnig að finna heimildir til að selja jarðir sem eru í eigu ríkisins, en kvartað hefur verið yfir því að nánast ómögulegt er að kaupa ríkisjarðir og nýta nú um stundir, enda er engin stefna til. Sem betur fer er fjöldi ungs fólks tilbúinn til að leggja matvælaframleiðslu fyrir sig og stunda landbúnað, byggja upp samfélagið og vera þar bústólpar. En því miður hefur þróunin verið sú að sífellt fleiri jarðir fara úr ábúð. Það hefur veikt mjög hinar dreifðu byggðir landsins sem eru mikilvægar út frá byggðasjónarmiðum til að tryggja matvælaframleiðslu og jafnrétti til búsetu.
Ríkissjóður á um 450 jarðir. Stór hluti þeirra er nýttur til landbúnaðar. Samkvæmt 12. gr. ábúðarlaga ber ábúanda að hafa fasta búsetu á ábúðarjörð og stunda þar landbúnað nema annað hafi verið samþykkt. Í þessu felast mikil tækifæri til að styrkja byggðir og styðja íslenskan landbúnað sem býr yfir mikilli þekkingu á verðmætum sem felast m.a. í heilbrigðum bústofni og þekkingu bænda á landinu.
Hæstv. forseti. Ég vil vekja athygli á því að á dagskrá þingsins í dag er tillaga til þingsályktunar um mótun eigendastefnu ríkisins fyrir bújarðir. Að henni stendur allur þingflokkur Framsóknarflokksins. Við teljum málið aðkallandi því að ekki verður lengur við það unað að jarðir fari í eyði og verðmæti sem felast í ræktuðu landi fari í órækt.
Hæstv. forseti. Við köllum eftir stefnu í þessum málaflokki, ekki hentistefnu.“
Þórunn Egilsdóttir í störfum þingsins 25. apríl 2017.

Categories
Fréttir

Áfengisfrumvarpið gengur freklega á rétt barna og ungmenna

Deila grein

05/04/2017

Áfengisfrumvarpið gengur freklega á rétt barna og ungmenna

„Hæstv. forseti. Áður en ég kem að því sem ég ætla raunverulega að ræða um langar mig að vekja athygli á bláu hálstaui hv. þingmanna, hæstv. forseta og hæstv. ráðherra. Nú er hafin vitundarvakning um fjölbreytileika einhverfunnar og ég vona svo sannarlega að þetta átak gangi vel og er ánægð með að fá að taka þátt í því hér á hv. Alþingi.

Hæstv. forseti. Í síðustu viku vann velferðarnefnd að umsögn er varðar hið margumrædda áfengisfrumvarp. Nefndin fékk góða gesti á sinn fund, gesti sem starfa á sviði félags- og heilbrigðisvísinda; gesti sem allir vara við samþykkt frumvarpsins og telja að með samþykkt þess muni þeim góða árangri sem við höfum náð í forvörnum, þar með minnkandi unglingadrykkju og öðrum góðum árangri, stefnt í voða; gesti sem vara við samþykkt frumvarpsins og taka mark á rannsóknum, sem gerðar hafa verið, sem telja að aukið aðgengi geti leitt til aukinnar neyslu og þar með haft slæm áhrif á líðan barna. Þessir gestir vöruðu einnig við samþykkt frumvarpsins þar sem þeir telja að frumvarpið gangi freklega á rétt barna og ungmenna til að vera laus við þrýsting frá áfengisiðnaðinum og auk þess bentu gestir á tengsl áfengis og krabbameins og bentu á ýmsa krabbameinssjúkdóma sem m.a. eiga orsakir sínar að rekja til aukinnar áfengisneyslu.

Ég vona að hv. þingmenn velferðarnefndar geti verið sammála um að afgreiða umsögn frá nefndinni í sameiningu og taka undir varnaðarorð þessara fagaðila. Ég er þó mjög hrædd um að svo verði ekki þar sem formaður velferðarnefndar, varaformaður velferðarnefndar og annar varaformaður velferðarnefndar eru öll á frumvarpi um aukið aðgengi að áfengi.“

Elsa Lára Arnardóttir í störfum þingsins 4. apríl 2017.

Categories
Fréttir

Þvættingur

Deila grein

30/03/2017

Þvættingur

Framsóknarflokkurinn gerði samkomulag um kaup á húseigninni að Hverfisgötu 33 í september 1997. Í samkomulaginu var kveðið á um að seljandi, Olíufélagið hf., tæki að sér að annast ákveðnar endurbætur á eigninni áður en til afhendingar kæmi. Þessar endurbætur voru að fullu á kostnað Framsóknarflokksins.
Framsóknarflokkurinn flutti starfsemi sína í húseignina í apríl 1998. Framkvæmdum við endurbætur var þá ekki lokið. Endurbótum lauk á árinu 1999. Kostnaður við kaup á húsinu og endurbætur reyndist á endanum vera tæpar 62 milljónir króna sem var endanlegt kaupverð hússins af Olíufélaginu hf. skv. uppgjöri sem fram fór í lok þess árs.

Í framhaldi af þessu var gengið frá fjármörgnun kaupanna. Þau voru fjármögnuð að mestu með langtímalánum með veði í eigninni að Hverfisgötu 33, alls að upphæð 54,5 milljónir króna. Framsóknarflokkurinn greiddi fyrst af lánunum árið 2000. Lánin voru tekin í apríl 1999 og var lántaki Olíufélagið hf. sem þá var skráður eigandi Hverfisgötu 33 en Framsóknarflokkurinn greiddi af þeim allt frá fyrstu afborgun árið 2000 og yfirtók þau síðan árið 2003.
Eftirstöðvar af kaupverðinu voru greiddar upp á árinu 1999.
Dráttur varð á því að gengið væri frá afsali fyrir eigninni á millli Olíufélagsins hf. og Framsóknarflokksins. Það var ekki gert fyrr en 19. desember 2002 en engar greiðslur áttu sér stað á milli aðila eftir árslok 1999. Olíufélagið hf. hafði við frágang afsals breytt nafni sínu í Ker hf.. Engin sérstök skýring er á því afhverju þetta dróst en það má segja að ekki hafi legið á vegna þess að allar greiðslur höfðu verið gerðar upp og Framsóknarflokkurinn bar allan kostnað af rekstri eignarinnar frá afhendingu.
Samkomulag var um að Olíufélagið hf. afsalaði eigninni beint til annarsvegar til Skúlagarðs hf. sem er hlutafélag í eigu Framsóknarflokksins og þá um 540 félagsmanna í flokknum og hinsvegar Húsbyggingasjóðs Framsóknarfélaganna í Reykjavík sem var sjóður í eigu Kjördæmissambands Framsóknarflokksins í Reykjavík. Framsóknarflokkurinn hafði endurselt þessum aðilum eignina í tengslum við uppgjörið sem fram fór 1999.
Það er þvættingur að kaupin á Hverfisgötu 33 hafi á einhvern hátt tengst sölunni á Búnaðarbankanum í árslok 2002.
Einar Gunnar Einarsson,
framkvæmdastjóri Framsóknarflokksins
Categories
Fréttir

Haldinn fundur og hvað svo …?

Deila grein

28/03/2017

Haldinn fundur og hvað svo …?

„Virðulegi forseti. Ég vil tala hér um fyrirhugaðar uppsagnir HB Granda á Akranesi. Í gær var haldinn fundur með þingmönnum Norðvesturkjördæmis, bæjarstjórn og Verkalýðsfélaginu á Akranesi að frumkvæði hv. þm. Elsu Láru Arnardóttur. Ég þakka kærlega fyrir hve menn hratt brugðust við til að ná saman á þeim fundi. Við erum aðeins farin að ræða þetta mál í störfum þingsins. Ég kem hingað upp og óska eftir því að ekki aðeins verði haldinn þessi fundur að frumkvæði áðurnefnds þingmanns heldur verði líka haldinn fundur hér innan þings. Ég vil hvetja formann fjárlaganefndar, sem er einn af þingmönnum kjördæmisins, til að funda um málið. Hér er verið að kalla eftir því að lækka gjöld á sjávarútveginn, sem ég set að vísu ákveðið spurningarmerki við. Einnig er verið að tala almennt um kvótakerfið í heild sinni. Ég vil því hvetja hv. þm. Pál Magnússon, formann atvinnuveganefndar, til að funda um þetta mál.
Ef það er fyrst og fremst kvótakerfið sem er ástæðan fyrir þessu er mjög mikilvægt að fara yfir það. Ég hef hins vegar verulegar áhyggjur af því að þetta tengist ekki bara þessu fyrirtæki eða ákvörðun þess um rekstur sinn, heldur geti þetta endurspeglað gengisþróunina, sem við ræðum hér á eftir, og erfiðari stöðu útflutningsgreinanna, en þá erum við farin að tala um miklu stærra mál.
Ég starfaði sjálf fyrir sjávarútvegsfyrirtæki fyrir hrun, fyrirtæki sem átti í miklum rekstrarerfiðleikum, ekki hvað síst vegna gengisþróunarinnar. Það er mjög mikilvægt að við hugum að útflutningsgreinunum okkar og gætum að því að ganga ekki á undirstöðuatvinnugreinarnar í samfélagi okkar. Það eru útflutningsgreinarnar. Við eigum eftir að ræða það frekar hér síðar í dag.“
Eygló Harðardóttir í störfum þingsins 28. mars 2017.

Categories
Fréttir

Er salan á Arion banka til þess fallinn að auka traust?

Deila grein

22/03/2017

Er salan á Arion banka til þess fallinn að auka traust?

„Hæstv. forseti. Ég óskaði eftir því að eiga orðastað við hv. þm. Theodóru S. Þorsteinsdóttur og þakka henni fyrir að verða við þeirri ósk. Það þarf vart að fara mörgum orðum um að erlendir fjárfestar, svokallaðir vogunarsjóðir, hafa nú náð yfirhöndinni í því sem kallað hefur verið kerfislega mikilvæg fjármálastofnun á Íslandi, þ.e. Arion banka. Ég hygg að hv. þingmaður sé mér ekki mjög ósammála þegar ég fullyrði að traust almennings á fjármálastofnunum hafi nánast þurrkast út við bankahrunið haustið 2008. Síðan þá hafa landsmenn verið nokkuð tortryggnir á bankana og fjármálakerfið og það sennilega með réttu. Svokallaðar traustmælingar sýna þetta svart á hvítu. Fyrir rúmu ári birtust fréttir af því að um 6,5% landsmanna bæru mikið traust til bankakerfisins. Rúmlega 70% sögðust bera lítið traust til bankakerfisins. Í sambærilegum mælingum fyrir Alþingi hefur komið fram að lítill hluti landsmanna telur að Alþingi standi vörð um hagsmuni almennings.
Hæstv. forseti. Það er einmitt við þessar aðstæður sem kerfislega mikilvæg fjármálastofnun er seld í hendur á erlendum vogunarsjóðum. Það er væntanlega kalt mat forsætisráðherra að þetta séu sannarlega góðar fréttir og frændi hans Benedikt fjármálaráðherra er sáttur. Segja má að vogunarsjóðirnir eigi þarna sannarlega hauka í horni. Þess má geta að í hópi vogunarsjóðanna er einn sem staðinn hefur verið að stórfelldum mútugreiðslum í Afríku og þurft að gjalda fyrir það með gríðarlega háum sektum.
Mig langar að spyrja hv. þingmann: Telur þingmaðurinn að sala á kerfislega mikilvægum fjármálastofnunum í hendur erlendra vogunarsjóða sé til þess fallin að auka traust almennings á fjármálakerfinu? Finnst hv. þingmanni það siðferðilega verjandi að fjárfestir sem staðinn hefur verið að sviksamlegum og glæpsamlegum vinnubrögðum skuli vera orðinn einn af eigendum Arion banka? Er hv. þingmaður sammála þeirri skoðun forsætisráðherra að kaupin séu sannarlega góðar fréttir?“
Þórunn Egilsdóttir í störfum þingsins 21. mars 2017.

Categories
Fréttir

Hefði önnur mynt en krónan komið sér betur eftir hrun?

Deila grein

22/03/2017

Hefði önnur mynt en krónan komið sér betur eftir hrun?

„Hæstv. forseti. Ég óskaði eftir að eiga orðastað við hv. þm. Pawel Bartoszek og hann varð við þeirri beiðni minni. Ég vil þakka honum fyrir það. Í dag er starfandi peningastefnunefnd en hún starfar samkvæmt lögum um Seðlabanka Íslands. Nefndin tekur ákvörðun um vexti og önnur stýritæki peningastefnunnar a.m.k. átta sinnum á ári. Gjaldmiðill Íslands er íslenska krónan og peningastefnunefnd starfar samkvæmt því.
Á dögunum var skipuð þriggja manna verkefnisstjórn í tengslum við endurmat peningastefnunefndar. Ekki verður annað séð en að vinna hennar eigi að grundvallast á því að krónan verði framtíðargjaldmiðillinn á Íslandi. Því kom mér það verulega á óvart að heyra hæstv. fjármálaráðherra fullyrða í viðtali um helgina að íslenska krónan væri ekki heppilegur gjaldmiðill fyrir þjóðina og ynni að mörgu leyti gegn hagsmunum helstu atvinnugreina og heimila landsins. Hann sagði til að mynda orðrétt í þættinum Víglínunni, með leyfi forseta:
„Það eru margir sem hafa sagt: Ja, krónan lagar sig svo vel að okkur. En hún gerir það bara alls ekkert alltaf. Núna t.d. lagar hún sig svo sannarlega ekki að þörfum sjávarútvegsins og lagar sig ekkert sérstaklega vel einu sinni að þörfum ferðaþjónustunnar.“
Að því sögðu langar mig að heyra sjónarmið hv. þm. Pawels Bartoszeks á þau orð hæstv. fjármálaráðherra og samflokksmanns þingmannsins. Er þingmaðurinn sammála því að krónan sé ekki framtíðargjaldmiðill Íslands? Ef svo er, þyrfti þá ekki að breyta starfslýsingu verkefnisstjórnar í tengslum við endurmat á peningastefnunni? Hvaða gjaldmiðill telur þingmaðurinn að sé ákjósanlegur fyrir Ísland til framtíðar? Og að lokum: Er það mat þingmannsins að önnur mynt en krónan hefði verið heppilegri til að ná fótfestu aftur eftir bankahrunið 2008?“
Silja Dögg Gunnarsdóttir í störfum þingsins 21. mars 2017.

Categories
Fréttir

Vinna vel og láta gott af sér leiða

Deila grein

21/03/2017

Vinna vel og láta gott af sér leiða

Ný stjórn Sambands ungra Framsóknarmanna var kjörin á sambandsþingi SUF sem haldið var 17.-18. febrúar síðastliðinn. Fyrsti fundur nýrrar stjórnar var haldinn 1. mars, 20 manns víðsvegar af landinu sátu fundinn, ýmist í gegnum síma eða á fundarstað. Mikil samstaða ríkti í hópnum og áhugi til þess að vinna vel og láta gott af sér leiða. Á fundinum var meðal annars skipuð framkvæmdastjórn og formenn fastanefnda voru kjörnir.
Framkvæmdastjórn skipa:
Formaður: Sandra Rán Ásgrímsdóttir
Varaformaður: Tanja Rún Kristmannsdóttir
Ritari: Gauti Geirsson
Gjaldkeri: Fjóla Hrund Björnsdóttir
Kynningastjóri: Snorri Eldjárn Hauksson
Viðburðarstjóri: Guðmundur Hákon Hermannsson
Formenn nefnda eru:
Marta Mirjiam (martamirjam@gmail.com) formaður málefnanefndar
Tanja Rún (trk3@hi.is) formaður alþjóðanefndar
Gauti Geirsson (gautigeirs@gmail.com) formaður nefndar um innra starf
Áhugasamir SUF-arar eru eindregið hvattir til þess að setja sig í samband við formann, framkvæmdastjórn eða formenn nefnda hafi þeir áhuga á því að taka þátt í starfi SUF á einhvern hátt en öllum meðlimum Framsóknarflokksins á aldrinum 16-35 ára er heimilt að taka þátt í nefndarstarfi á vegum SUF.
Þá vilj ég hvetja FUF-félögin að leyfa okkur að fylgjast með viðburðum á þeirra vegum. Við munum leggja mikinn metnað í það að styrkja innra starf SUF á þessu ári og þar af leiðandi tengslin við FUF-félögin um allt land.  Liður í því að styrkja tengslin við félagsmenn um allt land er að vera sýnilegri og virkari á samfélagsmiðlum. Því höfum við stofnað snapchat aðgang fyrir SUF og komum til með að nota hann til þess að bæði kynna stjórnarmeðlimi en líka sýna frá hefðbundnu starfi SUF. Endilega addið því ungframsókn á snapchat og fylgið okkur bæði á instagram (ungirframsokn) og á facebook (Samband ungra Framsóknarmanna).
Ég er ótrúlega ánægð með þann flotta hóp ungs fólks sem er í Framsóknarflokknum og er spennt fyrir að takast á við fyrirliggjandi verkefni.
Sandra Rán Ásgrímsdóttir, formaður SUF

Categories
Fréttir

Var samið á bak við luktar dyr?

Deila grein

15/03/2017

Var samið á bak við luktar dyr?

„Virðulegi forseti. Við fjöllum hér um jákvæðar fréttir. Ég veit reyndar ekki hvort hæstv. fjármálaráðherra var að tilkynna að það yrði fánadagur héðan í frá á þessum degi. Þannig byrjaði hann sína ræðu. Þetta eru sannarlega jákvæðar fréttir. Það er rétt að okkur hefur gengið mjög margt rétt á þessari braut allt frá því við lentum í þessu hruni. Það var auðvitað lykilatriði að taka þá stefnu sem gert var 2013 og hvað varðar áætlunina sem sett var í júní 2015, sem hefur verið fylgt af þáverandi ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, þá er það einfaldlega þannig að allt hefur gengið upp, og reyndar frá fyrri tíma líka. Efnahagslífið hefur líka gengið upp og gengið vel. Það er skýringin á því hversu góð staðan er í dag. Það má hins vegar alveg viðurkenna að það dróst of lengi að halda síðasta útboðið sem haldið var í júní síðastliðið ár. Það hefði mátt koma fyrr vegna þess hve okkur gekk vel í efnahagslífinu, hversu umsnúningurinn varð hraður.
Nú eru væntingar um jákvæð viðhorf og enn aukið traust á íslenskt efnahagslíf, m.a. frá lánshæfismatsfyrirtækjum, sem munu hjálpa okkur inn í framtíðina. Forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar hafa væntingar til að þessar aðgerðir slái á styrkingu krónunnar. En er það líklegt? Undirliggjandi vandinn er hið háa hávaxtastig sem er hér í landinu og mismunur á vöxtum hér innan lands og í nágrannalöndum. Þannig að vandinn er til staðar. Það mun dragast hér inn áfram fé. Og tækin sem við höfðum áður innan hafta sem Seðlabankinn hafði til að koma í veg fyrir slíkt Carry Trade eða vaxtarmunarviðskipti eru ekki þau sömu, þau virka ekki eins. Ég tek því undir það með hæstv. forsætisráðherra að það eru verkefni sem áfram þarf að sinna. Það er erfiðara að viðhalda stöðunni utan hafta en innan.
Það eru vonbrigði að við þeim spurningum sem við vorum með í gær, um gengið, sviðsmyndir, fengust engin svör. Við erum að fara inn í einhvern óvissutíma. Þess vegna er brýnt að spyrja hæstv. ríkisstjórn og forsvarsmenn: Er eitthvert plan? Er einhver áætlun í gangi?
Það var líka breyting á þessari áætlun frá júní 2015, sem gerð var við þessa aðgerð. Ég spurði hæstv. fjármálaráðherra hér á fimmtudaginn um það hvort leynisamningar væru í gangi af því við höfum konsekvent, alltaf, haldið því fram að við værum ekki í neinum samningaviðræðum. Þess vegna var áætlunin sett upp. Þess vegna var stöðugleikaskatturinn settur upp. Það voru ekki samningar.
Hæstv. ráðherra svaraði, með leyfi forseta:
„Hann“ — þ.e. sá sem hér stendur — „vísar hér til fundar sem haldinn var að ég hygg í síðustu viku þar sem var óskað eftir fundi við stjórnvöld. Á þeim fundi var ekki gengið frá neinum samningum af neinu tagi, en fulltrúar þessara vogunarsjóða munu hafa útskýrt sitt mál.“
Hér sagði hæstv. fjármálaráðherra áðan í ræðu að engir samningar hafi þá verið gerðir. En voru þá samningaviðræður í gangi? Sagði ráðherra ósatt hérna á fimmtudaginn? Því í gær í fjölmiðlum kom það fram að sent hefði verið tilboð seinni partinn á föstudegi einum og hálfum sólarhring síðar. Á ekki að segja okkur satt hérna í ræðustól Alþingis þegar við spyrjum og viljum fá frekari upplýsingar um það sem hér er
að gerast?
Hér segir hæstv. fjármálaráðherra að hagsmunir almennings hafi verið undir. Ég segi: Við töpuðum trúverðugleika á því að fara og ganga til samninga við vogunarsjóði sem hafa skorað okkur á hólm allt frá upphafi. Það er umdeilt og umdeilanlegt hvort við töpuðum miklum fjármunum. Við töpuðum fjármunum. Er ekki ríkisstjórnin sem nú situr að kvarta yfir því að peninga skorti í innviðauppbyggingu í samgöngumálum, heilbrigðismálum og öðru, 20 milljarða? Var ekki hægt að nota það í þetta? En trúverðugleika töpuðum við alla vega vegna þess að við höfum aldrei samið við þessa aðila. Nú var það gert og það var gert bak við luktar dyr.“
Sigurður Ingi Jóhannsson á Alþingi um afnám fjármagnshafta 13. mars 2017.