Categories
Fréttir

Vinna vel og láta gott af sér leiða

Deila grein

21/03/2017

Vinna vel og láta gott af sér leiða

Ný stjórn Sambands ungra Framsóknarmanna var kjörin á sambandsþingi SUF sem haldið var 17.-18. febrúar síðastliðinn. Fyrsti fundur nýrrar stjórnar var haldinn 1. mars, 20 manns víðsvegar af landinu sátu fundinn, ýmist í gegnum síma eða á fundarstað. Mikil samstaða ríkti í hópnum og áhugi til þess að vinna vel og láta gott af sér leiða. Á fundinum var meðal annars skipuð framkvæmdastjórn og formenn fastanefnda voru kjörnir.
Framkvæmdastjórn skipa:
Formaður: Sandra Rán Ásgrímsdóttir
Varaformaður: Tanja Rún Kristmannsdóttir
Ritari: Gauti Geirsson
Gjaldkeri: Fjóla Hrund Björnsdóttir
Kynningastjóri: Snorri Eldjárn Hauksson
Viðburðarstjóri: Guðmundur Hákon Hermannsson
Formenn nefnda eru:
Marta Mirjiam (martamirjam@gmail.com) formaður málefnanefndar
Tanja Rún (trk3@hi.is) formaður alþjóðanefndar
Gauti Geirsson (gautigeirs@gmail.com) formaður nefndar um innra starf
Áhugasamir SUF-arar eru eindregið hvattir til þess að setja sig í samband við formann, framkvæmdastjórn eða formenn nefnda hafi þeir áhuga á því að taka þátt í starfi SUF á einhvern hátt en öllum meðlimum Framsóknarflokksins á aldrinum 16-35 ára er heimilt að taka þátt í nefndarstarfi á vegum SUF.
Þá vilj ég hvetja FUF-félögin að leyfa okkur að fylgjast með viðburðum á þeirra vegum. Við munum leggja mikinn metnað í það að styrkja innra starf SUF á þessu ári og þar af leiðandi tengslin við FUF-félögin um allt land.  Liður í því að styrkja tengslin við félagsmenn um allt land er að vera sýnilegri og virkari á samfélagsmiðlum. Því höfum við stofnað snapchat aðgang fyrir SUF og komum til með að nota hann til þess að bæði kynna stjórnarmeðlimi en líka sýna frá hefðbundnu starfi SUF. Endilega addið því ungframsókn á snapchat og fylgið okkur bæði á instagram (ungirframsokn) og á facebook (Samband ungra Framsóknarmanna).
Ég er ótrúlega ánægð með þann flotta hóp ungs fólks sem er í Framsóknarflokknum og er spennt fyrir að takast á við fyrirliggjandi verkefni.
Sandra Rán Ásgrímsdóttir, formaður SUF

Categories
Fréttir

Var samið á bak við luktar dyr?

Deila grein

15/03/2017

Var samið á bak við luktar dyr?

„Virðulegi forseti. Við fjöllum hér um jákvæðar fréttir. Ég veit reyndar ekki hvort hæstv. fjármálaráðherra var að tilkynna að það yrði fánadagur héðan í frá á þessum degi. Þannig byrjaði hann sína ræðu. Þetta eru sannarlega jákvæðar fréttir. Það er rétt að okkur hefur gengið mjög margt rétt á þessari braut allt frá því við lentum í þessu hruni. Það var auðvitað lykilatriði að taka þá stefnu sem gert var 2013 og hvað varðar áætlunina sem sett var í júní 2015, sem hefur verið fylgt af þáverandi ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, þá er það einfaldlega þannig að allt hefur gengið upp, og reyndar frá fyrri tíma líka. Efnahagslífið hefur líka gengið upp og gengið vel. Það er skýringin á því hversu góð staðan er í dag. Það má hins vegar alveg viðurkenna að það dróst of lengi að halda síðasta útboðið sem haldið var í júní síðastliðið ár. Það hefði mátt koma fyrr vegna þess hve okkur gekk vel í efnahagslífinu, hversu umsnúningurinn varð hraður.
Nú eru væntingar um jákvæð viðhorf og enn aukið traust á íslenskt efnahagslíf, m.a. frá lánshæfismatsfyrirtækjum, sem munu hjálpa okkur inn í framtíðina. Forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar hafa væntingar til að þessar aðgerðir slái á styrkingu krónunnar. En er það líklegt? Undirliggjandi vandinn er hið háa hávaxtastig sem er hér í landinu og mismunur á vöxtum hér innan lands og í nágrannalöndum. Þannig að vandinn er til staðar. Það mun dragast hér inn áfram fé. Og tækin sem við höfðum áður innan hafta sem Seðlabankinn hafði til að koma í veg fyrir slíkt Carry Trade eða vaxtarmunarviðskipti eru ekki þau sömu, þau virka ekki eins. Ég tek því undir það með hæstv. forsætisráðherra að það eru verkefni sem áfram þarf að sinna. Það er erfiðara að viðhalda stöðunni utan hafta en innan.
Það eru vonbrigði að við þeim spurningum sem við vorum með í gær, um gengið, sviðsmyndir, fengust engin svör. Við erum að fara inn í einhvern óvissutíma. Þess vegna er brýnt að spyrja hæstv. ríkisstjórn og forsvarsmenn: Er eitthvert plan? Er einhver áætlun í gangi?
Það var líka breyting á þessari áætlun frá júní 2015, sem gerð var við þessa aðgerð. Ég spurði hæstv. fjármálaráðherra hér á fimmtudaginn um það hvort leynisamningar væru í gangi af því við höfum konsekvent, alltaf, haldið því fram að við værum ekki í neinum samningaviðræðum. Þess vegna var áætlunin sett upp. Þess vegna var stöðugleikaskatturinn settur upp. Það voru ekki samningar.
Hæstv. ráðherra svaraði, með leyfi forseta:
„Hann“ — þ.e. sá sem hér stendur — „vísar hér til fundar sem haldinn var að ég hygg í síðustu viku þar sem var óskað eftir fundi við stjórnvöld. Á þeim fundi var ekki gengið frá neinum samningum af neinu tagi, en fulltrúar þessara vogunarsjóða munu hafa útskýrt sitt mál.“
Hér sagði hæstv. fjármálaráðherra áðan í ræðu að engir samningar hafi þá verið gerðir. En voru þá samningaviðræður í gangi? Sagði ráðherra ósatt hérna á fimmtudaginn? Því í gær í fjölmiðlum kom það fram að sent hefði verið tilboð seinni partinn á föstudegi einum og hálfum sólarhring síðar. Á ekki að segja okkur satt hérna í ræðustól Alþingis þegar við spyrjum og viljum fá frekari upplýsingar um það sem hér er
að gerast?
Hér segir hæstv. fjármálaráðherra að hagsmunir almennings hafi verið undir. Ég segi: Við töpuðum trúverðugleika á því að fara og ganga til samninga við vogunarsjóði sem hafa skorað okkur á hólm allt frá upphafi. Það er umdeilt og umdeilanlegt hvort við töpuðum miklum fjármunum. Við töpuðum fjármunum. Er ekki ríkisstjórnin sem nú situr að kvarta yfir því að peninga skorti í innviðauppbyggingu í samgöngumálum, heilbrigðismálum og öðru, 20 milljarða? Var ekki hægt að nota það í þetta? En trúverðugleika töpuðum við alla vega vegna þess að við höfum aldrei samið við þessa aðila. Nú var það gert og það var gert bak við luktar dyr.“
Sigurður Ingi Jóhannsson á Alþingi um afnám fjármagnshafta 13. mars 2017. 

Categories
Fréttir

Almenningur og fyrirtæki búa við aukið frelsi er varðar fjármagnsflutninga

Deila grein

15/03/2017

Almenningur og fyrirtæki búa við aukið frelsi er varðar fjármagnsflutninga

„Virðulegi forseti. Það er ánægjulegt að verið sé að losa fjármagnshöft á íslensk heimili og fyrirtæki. Enn fremur er jákvætt að við sjáum að áætlun um losun fjármagnshafta, sem kynnt var í júní 2015, skuli vera framfylgt að mestu leyti. Ég hefði samt viljað sjá að við hefðum fyrst losað fjármagnshöftin á heimili og fyrirtækin í landinu og svo á vogunarsjóðina.
Mig langar að rifja upp að útboðið sem var haldið hinn 16. júní síðastliðinn var það síðasta í röð útboða þar sem eigendum aflandskróna bauðst að kaupa erlendan gjaldeyri áður en stjórnvöld hæfu losun á innlenda aðila. Af því tilefni sagði seðlabankastjóri, með leyfi forseta:
„Með útboðinu og nýlegum lagabreytingum hefur síðustu stóru hindruninni verið rutt úr vegi þess að hægt sé að stíga stór skref til að losa fjármagnshöft gagnvart innlendum aðilum án hætti á óstöðugleika.“
Jafnframt segir:
„Þótt ekki hafi verið unnt að taka öllum tilboðum í aflandskrónueignir auðveldar það lausn þess vanda sem eftir stendur að eigendum krafna hefur fækkað mjög. Þá hefur verið búið svo um hnútana að aflandskrónur sem eftir standa valdi ekki óstöðugleika á meðan losun fjármagnshafta á innlenda aðila gengur yfir. Smitunaráhrif ættu því að vera hverfandi og hætta á óstöðugleika lítil.“
Minn skilningur er því að stjórnvöld hefðu komið þessum aflandskrónum frá og inn á læsta reikninga. Næsta skrefið væri að losa höft á innlenda aðila og sjá hvernig framvindan á gjaldeyrismarkaði væri og áhrifin á fjármálastöðugleika. Síðan yrði losað um aflandskrónueigendur sem ekki tóku þátt í útboðinu í júní.
Það er synd að sjá að veðmál vogunarsjóðanna hafi gengið upp og þeir fengið sitt á mettíma. Þeir sem ákváðu að spila ekki eftir reglunum bættu í raun stöðu sína. Það lítur út fyrir að þeir hafi hagnast um 20 milljarða á því að bíða. Ég spyr: Er það rétt að bjóða þeim vogunarsjóðum sem ekki tóku þátt í almennu útboði betri kjör en hinum sem tóku þátt? Getur verið að þetta geti skapað skaðabótaskyldu á herðar ríkisins vegna þessa mismunar eins og hv. þm. Rósa Björk Brynjólfsdóttir kom að?
Nú reyndu þessir aðilar sem ekki tóku þátt í útboðinu að hafa áhrif á síðustu þingkosningar með heiftúðlegum auglýsingum til að draga úr trúverðugleika íslenskra stjórnvalda. Má þá draga þá ályktun að þessar auglýsingar hafi skilað tilætluðum árangri. Sumir þingmenn hafa spurt hvort þetta geti haft áhrif á Viðreisn og Bjarta framtíð, þ.e. að formanni Viðreisnar hafi í raun alls ekki hugnast að fá Framsóknarflokkinn í ríkisstjórn vegna þess að hann væri erfiður og gagnrýninn, sérstaklega í málum er varða endurreisn Ísland. Getur það verið, virðulegur forseti?
Við sjáum að krónan hefur verið að veikjast það sem af er degi. En að mínu mati er fullsnemmt að segja til um hver gengisþróunin verður á næstu missirum. Það er mikill kraftur í íslensku hagkerfi, kröftugur hagvöxtur, skuldir heimilanna og fyrirtækjanna hafa lækkað og umfangsmikið innflæði hefur verið af erlendum gjaldeyri í tengslum við ferðaþjónustuna. Horfurnar eru góðar ef rétt er á málum haldið. Það jákvæða við daginn er að almenningur og fyrirtæki búa við aukið frelsi er varðar fjármagnsflutninga. Mikilvægast er þó fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu að þau búi við gengis- og fjármálastöðugleika. Efnahagsstjórnin á hverjum tíma verður að taka mið af því markmiði til að auka hagsæld lands og þjóðar.“
Lilja Alfreðsdóttir um afnám fjármagnshafta á Alþingi 13. mars 2017. 

Categories
Fréttir

Ríkisstjórnin stimplar sig inn með morgungjöf

Deila grein

15/03/2017

Ríkisstjórnin stimplar sig inn með morgungjöf

„Virðulegur forseti. Það hefur ekki verið augljóst um hvað þessi ríkisstjórn var mynduð. Þó eru í henni tveir nýir flokkar. Maður skyldi ætla að þegar menn taka sig saman og stofna flokk þá sé einhver tilgangur með því, menn vilji breyta einhverju, vilji nýjar áherslur. Það hefur lítið borið á því til þessa. Þetta hefur verið frekar tíðindalítið. Morgunverkin hafa ekki verið merkileg hjá þessari ríkisstjórn, mest eitthvert svekkelsi, verið að ganga á baki orða sinna, ef svo má segja, varðandi hluti eins og samgöngumál, en almennt tíðindalítið þar til nú.
Þar til nú, virðulegur forseti, að við sjáum að þessi ríkisstjórn ætlar a.m.k. ekki að fylgja sömu stefnu og síðasta ríkisstjórn fylgdi í samskiptum við þá sem hafa reynt að hafa Ísland að féþúfu vegna þeirra vandræða sem við gengum í gegnum, ekki að fylgja sömu stefnu og hv. þm. Óli Björn Kárason lýsti svo vel hér áðan. Að vísu ætla menn að klára það sem var orðið óhjákvæmilegt að aflétta höftum og hefði mátt gera það fyrr gagnvart íslenskum almenningi, en taka á algjöra u-beygju í samskiptum við þessa aðila sem hafa sótt að okkur í alþjóðastofnunum, í fjölmiðlum, ekki bara hér á landi heldur víða um heim og jafnvel reynt að skipta sér af úrslitum kosninga á Íslandi. U-beygjan gagnvart þessum aðilum er sú að láta undan, gefa eftir, fullkomlega held ég megi segja, virðulegi forseti.
Hvers vegna stimplar ríkisstjórnin sig inn með þessum hætti með morgungjöf hæstv. fjármálaráðherra til vogunarsjóða í New York? Hvernig stendur á því, virðulegur forseti, að ríkisstjórnin fylgdi ekki þeirri áætlun sem boðuð hafði verið að byrja á því að losa íslenskan almenning úr höftum og þeir sem ekki vildu spila með í því, þeir sem ætluðu að hafa Ísland að féþúfu vegna vandræða í efnahagsmálum, yrðu látnir bíða. Þetta var ekki bara eitthvað sem var rætt í kosningabaráttu, þetta var í raun loforð sem var gefið þegar efnt var til útboðs og fullyrt var af þáverandi hæstv. fjármálaráðherra, núverandi hæstv. forsætisráðherra, og öðrum að þeir sem ekki tækju þátt, þeir sem ekki spiluðu með, yrðu látnir bíða; þeir yrðu læstir inni, þeir myndu ekki græða á því, yrðu skildir hér eftir jafnvel árum ef ekki áratugum saman.
Einhverjir tóku mark á orðum ráðherrans og annarra, Seðlabankans, og létu sig hafa það að fara út á þeim kjörum sem voru í boði. Aðrir ákváðu að fara aðra leið. Reyndar var eitthvað um það, virðulegur forseti, að menn hefðu fyrst ætlað að taka þátt í þessu útboði en á síðustu stundu hætt við það einhverra hluta vegna. En þessir aðilar ákváðu að fara frekar þá leið að taka slaginn við íslensk stjórnvöld, treysta á að hægt væri að brjóta samstöðuna á bak aftur, að hægt væri að beygja íslensk stjórnvöld. Til þess notuðu þeir ýmsar aðferðir, sumar kunnuglegar, sumar síður. Það var auglýst í dagblöðum hér á landi fyrir kosningarnar, reyndar líka í Danmörku og í Bandaríkjunum, og líklega víðar. Það var reynt að dreifa falsfréttum svokölluðum. Menn voru látnir skrifa greinar í dagblöð hér og víðar og reynt leynt og ljóst að beita íslensk yfirvöld, stjórnvöld hér á landi, þrýstingi, fá þau til að gefa eftir þetta grundvallaratriði sem hv. þingmaður stjórnarliðsins, Óli Björn Kárason, lýsti hér áðan, atriðinu sem tryggði okkur þann árangur sem hefur náðst; gefa eftir fullveldisréttinn, gefa eftir möguleika okkar á að verja Íslendinga og hagsmuni Íslands. Þetta var gefið eftir. Það var horfið frá þeirri stefnu að verja fyrst og fremst almenning og ákveðið að gera sérstakan samning við vogunarsjóðina sem höfðu beitt öllum ráðum til að ná því sem þessi ríkisstjórn hefur nú gefið þeim.“
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson um afnám fjármagnshafta á Alþingi 13. mars 2017. 

Categories
Fréttir

Orkan verði nýtt innanlands

Deila grein

09/03/2017

Orkan verði nýtt innanlands

,,Hæstv. forseti. Í gærdag var þingsályktunartillaga um verndun og nýtingu virkjunarkosta til umræðu í þessum sal. Umræðan var góð og mér heyrðist að flestir þingmenn sem tóku til máls væru sammála um að aðferðafræði rammaáætlunar væri gott tæki til að meta virkjunarkosti þó svo að hún væri ekki endilega fullkomin. Eflaust mætti sníða af henni nokkra vankanta og auðvitað eru skiptar skoðanir um virkjunarkostina sem slíka, sitt sýnist hverjum.
Í þessari ágætu umræðu var ekki bara komið inn á virkjunarkosti heldur einnig inn á dreifingu raforku, raforkuöryggi og þrífösun rafmagns. Í dag búa nefnilega ekki allir landsmenn svo vel að hafa aðgang að þrífösuðu rafmagni sem stendur atvinnuuppbyggingu verulega fyrir þrifum á ákveðnum landsvæðum. Þeir sem stunda búskap geta t.d. ekki uppfært tækjabúnað sinn í takt við nýjar reglugerðir sem krefjast þess að rafmagn sé þrífasað, þ.e. tækin krefjast þess. Þetta er auðvitað ekki í lagi árið 2017. Við þurfum svo sannarlega að taka til hendinni í þessum málaflokki og gera miklu betur.
Hæstv. forseti. Eftir að hafa lesið frétt Kjarnans í gær um hugmyndir ákveðinna aðila um útflutning á orku stóðst ég ekki mátið að taka umfjöllun um rafmagnsmálin hér í dag. Hvað á það að þýða að eyða orku í slíkt tal þegar dreifing raforku er ekki nægilega vel tryggð um land allt? Framsóknarflokkurinn hafnar öllum hugmyndum um útflutning á raforku og leggur áherslu á að orka framleidd á Íslandi skuli nýtt til verðmætasköpunar innan lands þar sem öflugur iðnaður er undirstaða búsetu og verðmætasköpunar.
Sú sem hér stendur lagði fram skriflega fyrirspurn nýverið til hæstv. iðnaðarráðherra þar sem hæstv. ráðherra er spurður um stefnu sína varðandi útflutning á raforku. Það verður áhugavert að sjá hvert svarið verður.”
Silja Dögg Gunnarsdóttir í störfum þingsins 8. mars 2017.

Categories
Fréttir

Hvar ganga menn í takt?

Deila grein

08/03/2017

Hvar ganga menn í takt?

,,Hæstv. forseti. Nú er ástandið þannig að af nógu er að taka. Sífellt áleitnari verður spurningin: Í hvaða málum eru stjórnarflokkarnir sammála? Hvar ganga menn í takt? Misræmi í málflutningi hæstv. utanríkisráðherra og formanns utanríkismálanefndar opinberaðist hér í gær. Annað telur aðild EFTA ekki duga lengur til að tryggja hagsmuni Íslands meðan hitt telur það nægja.
Hæstv. forseti. Hér eru menn úr öllum flokkum bálreiðir yfir meðferð hæstv. samgöngumálaráðherra á samgönguáætlun. Svo virðist sem hæstv. ráðherra hafi hugsað sér að sniðganga þingið með því að forgangsraða verkefnum bara svona sjálfur. Hæstv. ráðherra er dugmikill maður en þetta kann að vera fullmikill dugnaður.
Hæstv. forseti. Ég reikna með að mál skýrist þegar hæstv. ráðherra mætir til funda hjá nefndum þingsins.
Um útspil hæstv. landbúnaðarráðherra vegna búvörusamninga ræði ég síðar. Þar virðist mér takturinn eitthvað riðlast í liði hæstv. forsætisráðherra.
Í liðinni viku lagði þingflokkur Framsóknar fram ályktun um enduropnun neyðarbrautar á Reykjavíkurflugvelli vitandi það að enn er mögulegt að tryggja aukið öryggi landsmanna með opnun hennar. Það er staðreynd að borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Sjálfstæðisflokks, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata hafa samþykkt breytingu á deiliskipulagi sem felur í sér auknar byggingarheimildir á svæði Hlíðarenda. Fyrirhugaðar breytingar fela í sér hækkun á byggingum sem eru í aðflugslínu að neyðarbraut. Tillagan liggur fyrir borgarstjórn í dag til endanlegrar afgreiðslu. Fari hún í gegn er ljóst að nánast útilokað er að enduropna umrædda braut.
Hæstv. forseti. Fulltrúar Framsóknar og flugvallarvina hafa staðið vaktina í þessu máli, komið með tillögur að lausnum sem allir hagsmunaaðilar geta unað við. Þeim hefur verið hafnað. Lausnirnar snúa m.a. að því að byggja þannig að komist verði hjá hindrun við neyðarbrautina sem þjónar landsmönnum öllum og styrkir höfuðborgina í hlutverki sínu sem höfuðborg allra landsmanna. Ég vona að fleiri standi vaktina með okkur Framsóknarmönnum í þessu mikilvæga máli.”
Þórunn Egilsdóttir í störfum þingsins 7. mars 2017. 

Categories
Fréttir

Últrahægristjórnin er veik ríkisstjórn

Deila grein

08/03/2017

Últrahægristjórnin er veik ríkisstjórn

,,Hæstv. forseti. Últrahægristjórnin er veik ríkisstjórn. Það er augljóst að alla ástríðu skortir í sambandið þrátt fyrir nokkur sameiginleg áhugamál eins og aukna einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu og einkavæðingu bankakerfisins án þess að fyrir liggi skýr eigandastefna, áfengi í matvöruverslanir og nú síðast fréttir af fundum íslenskra embættismanna við fulltrúa vogunarsjóða sem ekki tóku þátt í útboði síðastliðið haust.
Til að toppa ósköpin hefur hæstv. fjármálaráðherra lagt fram frumvarp sem miðar að því að lögleiða gengistryggð lán til neytenda sem hafa ekki varnir gegn þeirri gengisáhættu sem fylgir slíkum lánum. Í frumvarpinu er áskilnaður um að aðeins þeir neytendur geti tekið gengistryggð lán sem hafi nægar tekjur til að ráða við verulegar gengis- og vaxtabreytingar sem fylgt geta slíkum lánum. Þau munu því aðeins standa efnafólki til boðs. Frosti Sigurjónsson, fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins, varar við gengistryggðum lánum á bloggsíðu sinni og mig langar til að lesa stuttan kafla úr þeirri grein, með leyfi forseta:
„Seðlabankinn notar stýrivaxtatækið til að draga úr þenslu í hagkerfinu. Þegar stýrivextir hækka verður dýrara að taka lán og fólk því líklegra til að bíða með framkvæmdir eða fara hægar í fjárfestingar. Verði frumvarp fjármálaráðherrans að lögum munu þeir tekjuháu geta skotið sér undan stýrivaxtatækinu með því að taka gengistryggð lán á lægri vöxtum sem eiga ekkert skylt við stýrivexti Seðlabankans. Þeir munu því geta haldið sinni „þenslu“ óbreyttri, en í staðinn verða allir hinir í samfélaginu að þola þeim mun meira aðhald af hálfu peningastefnunnar.”
Hæstv. forseti. Heilbrigðiskerfið fyrir forréttindahópa. Vextir fyrir forréttindahópa. Vegatollar fyrir þá sem hafa efni á þeim, hinir geta farið lengri leiðina. Einkavinavæðing bankakerfisins. Allt í boði hægri stjórnarinnar. Ég hef verulegar áhyggjur af þeirri vegferð sem við erum á og þið, kæru landsmenn, ættuð að hafa það líka.”
Silja Dögg Gunnarsdóttir í störfum þingsins 7. mars 2017.

Categories
Fréttir

Hvers vegna dregst svo að jafna stöðu foreldra með sameiginlega forsjá?

Deila grein

02/03/2017

Hvers vegna dregst svo að jafna stöðu foreldra með sameiginlega forsjá?

,,Hæstv. forseti. Þann 24. september 2015 skilaði starfshópur um jafna stöðu barna niðurstöðum sínum. Niðurstöðurnar voru að gerðar verði breytingar á barnalögum til að jafna stöðu foreldra sem fara sameiginlega með forsjá barna sinna og ákveða að ala upp barn saman á tveimur heimilum. Niðurstöður hópsins voru að nýtt ákvæði ætti að koma inn í lögin sem heimili skipta búsetu barns á grundvelli staðfests samkomulags foreldra að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Auk þess eru lagðar til breytingar á ýmsum lögum varðandi opinberan stuðning, breytingar á lögum um lögheimili og breytingar á barnalögum. Ásamt því er lagt til að sveitarfélög landsins lagi þjónustu sína að breyttum þjóðfélagsháttum og taki þannig virkt tillit til jafnrar ábyrgðar og skyldna foreldra á uppeldi og umönnun barna í málum sem þau varða og falla undir valdsvið sveitarfélaga.
Nú er komið eitt og hálft ár síðan starfshópurinn skilaði niðurstöðum sínum. Einu breytingarnar sem komið hafa fram eru að með nýjum lögum um húsnæðisbætur telst barn til heimilis hjá báðum foreldrum sínum og eru það afar jákvæð skref. En enn er beðið eftir öðrum aðgerðum sem starfshópurinn lagði til. Þess vegna lagði ég á dögunum fram fyrirspurn á hv. Alþingi til hæstv. dómsmálaráðherra þar sem ég spurði hvort unnið væri að lagabreytingum á grunni skýrslu fyrrverandi hæstv. innanríkisráðherra um jafnt búsetuform barna sem búa á tveimur heimilum sem lögð var fyrir Alþingi í september 2015. Ef svo væri, hvenær yrðu frumvörpin um málin lögð fram. Ef ekki, hvenær ætlar ráðherra að hefja þá vinnu?
Ég hef fulla trú á að ráðherra svari fyrirspurn minni fljótt og vel þar sem þetta mál er eitt af áherslumálum núverandi hæstv. ríkisstjórnar.
Í stjórnarsáttmálanum segir m.a. að samfélagið eigi að styðja við ólíkar fjölskyldugerðir og hvetja til þess að foreldrar sem ekki búa saman ali börn sín upp í sátt. Þar kemur jafnframt fram að réttur barna skuli tryggður til að vera skráð í skiptri búsetu á tveimur lögheimilum og að aðstaða umgengnisforeldra á lögheimilisforeldra verði jöfnuð.”
Elsa Lára Arnardóttir í störfum þingsins 1. mars 2017.

Categories
Fréttir

Ekki má breyta fyrri áætlun stjórnvalda um losun hafta

Deila grein

02/03/2017

Ekki má breyta fyrri áætlun stjórnvalda um losun hafta

,,Virðulegi forseti. Sterk erlend staða þjóðarbúsins og styrking krónunnar að undanförnu hafa skapað tækifæri til afnáms fjármagnshafta. Trúverðug áætlun um losun fjármagnshafta hefur skilað miklum árangri og hefur Ísland áunnið sér að nýju traust á alþjóðavettvangi.
Nú berast fregnir af því að stjórnvöld eigi í viðræðum við fulltrúa bandarískra fjárfestingarsjóða til að kanna grundvöll að samkomulagi sem myndi gera þeim kleift að flytja eignir sínar úr landi í skiptum fyrir gjaldeyri. Samtals nema eignir þessara sjóða vel yfir 100 milljarða í aflandskrónum á Íslandi.
Sjóðirnir neituðu á sínum tíma að taka þátt í gjaldeyrisútboði Seðlabanka Íslands í júní og fallast á skilyrði stjórnvalda eða skiluðu inn tilboðum í útboðið sem Seðlabankinn gat ekki samþykkt. Sjóðirnir hafa kvartað til eftirlitsstofnunar EFTA vegna aðgerða íslenskra stjórnvalda og segjast ætla að láta reyna á rétt sinn fyrir dómstólum. Í úrskurði sem barst frá ESA í nóvember var hins vegar ekkert gert með athugasemdir sjóðanna heldur sagði að aðgerðir stjórnvalda hefðu verið í samræmi við skuldbindingar Íslands gagnvart EES-samningnum.
Þeir aflandskrónueigendur sem kusu að taka ekki þátt í gjaldeyrisútboði Seðlabankans í júní þurfa að sæta því að fjármunir þeirra flytjist yfir á vaxtalausa reikninga um ófyrirséðan tíma. Ég tel afar brýnt að stjórnvöld haldi sig við þá áætlun sem gerð var um losun fjármagnshafta þar sem gengisstöðugleiki og fjármálastöðugleiki í þágu landsmanna var ávallt leiðarstefið í allri vinnu stjórnvalda. Áætlunin hefur notið trúverðugleika og gengið afar vel. Næsta skrefið í losun fjármagnshafta er enn frekari losun á almenning og fyrirtæki í landinu. Því væri það stefnubreyting ef hleypa ætti aflandskrónueigendum með eignir sínar á undan almenningi og fyrirtækjum í landinu.”
Lilja Alfreðsdóttir í störfum þingsins 1. mars 2017.

Categories
Fréttir

Gengur ekki að samþykkt mál þingmanna dagi uppi í ráðuneytunum

Deila grein

01/03/2017

Gengur ekki að samþykkt mál þingmanna dagi uppi í ráðuneytunum

,,Virðulegi forseti. Á Alþingi starfa 63 þingmenn. Helstu verkefni okkar felast í að afgreiða þingsályktanir og lagafrumvörp. Í þá vinnu fara mörg þúsund vinnustundir á ári hverju.
Hæstv. forseti. Það hefur tekið þann þingmann sem hér stendur nokkur ár að komast að því hversu ómarkviss og óskilvirk þessi vinna er oft og tíðum. Við getum gert miklu betur. Dæmi um óskilvirkni er að hér afgreiðum við oft þingmál sem ekki hafa verið kostnaðarmetin. Þingmannamál eru t.d. sjaldnast kostnaðarmetin og hið sama gildir um breytingartillögur nefnda Alþingis. Þar af leiðir að við afgreiðum frá okkur mál sem síðan dagar jafnvel uppi í ráðuneytunum hjá framkvæmdarvaldinu þar sem menn telja sig ekki hafa fjármuni til að framkvæma þau. Dæmi um slíkt verkefni er þingsályktunartillaga sem ég lagði fram og Alþingi samþykkti á síðasta ári. Tillagan gekk út á að fela heilbrigðisráðherra að endurskoða reglur um greiðsluþátttöku ríkisins vegna tæknifrjóvgunarmeðferða fyrir árslok 2016. Velferðarnefnd afgreiddi málið á þann veg að gætt yrði að eftirtöldum atriðum: Að greiðsluþátttaka sjúkratrygginga nái til fyrstu glasafrjóvgunarmeðferðar og að greiðsluþátttaka sjúkratrygginga sé óháð því hvort pör eða einstaklingar eigi barn fyrir.
Svona afgreiddi Alþingi málið frá sér þann 8. september síðastliðinn. Nú erum við að detta inn í þriðja mánuð ársins 2017. Samkvæmt mínum heimildum hefur ekkert gerst í tæknifrjóvgunarmálinu síðan það var samþykkt í september. Það þykir mér miður þar sem ég veit að fjöldi fólks treystir á að reglunum verði breytt.
Við verðum að laga vinnubrögðin á Alþingi þannig að öll mál sem við samþykkjum hafi raunverulegt gildi og séu ekki bara orðin tóm.”‘
Silja Dögg Gunnarsdóttir 28. febrúar 2017.