Categories
Fréttir

Betra eftirlit með ferðaþjónustu

Deila grein

17/05/2016

Betra eftirlit með ferðaþjónustu

Jóhanna María - fyrir vef„Hæstv. forseti. Nú eru aðeins tveir dagar frá því að við ræddum í þessum sal öryggi ferðamanna. Færst hefur í aukana að fyrirtæki hvetji ferðamenn til að ferðast um Ísland yfir vetrartímann á bílum sem hafa jafnvel svefnaðstöðu en eru ekki búnir undir fjallvegi, mikinn snjó eða þá miklu hálku og það veðravíti sem oft verið getur hér á landi. Það er lítið um aðstöðu fyrir þá sem ferðast um á slíkum bílum til að stoppa næturlangt. Fyrir valinu verða því oft afleggjarar, bæði heim að bæjum og inn á tún, og plön, m.a. við útsýnisstaði og á almennum ferðamannastöðum.
Það er mjög alvarlegt að svo virðist sem þessir ferðamenn fái mjög villandi upplýsingar frá þeim sem skipuleggja þessar ferðir. Það kemur oft í hlut hins almenna borgara að þurfa að leiðrétta þann misskilning en stundum þurfa menn að vísa þessu fólki burt af landareign sinni og útskýra fyrir því að ekki megi vaða um eignarland, keyra um tún o.s.frv.
Það snertir öryggi ferðamanna að gefa þeim réttar upplýsingar þegar þeir koma til landsins; gefa þeim upplýsingar um þá aðstöðu sem býðst og útskýra fyrir þeim þau lög sem eiga við. Þetta er dæmi um að við erum að missa yfirsýnina yfir þá miklu ferðamennsku sem orðin er á Íslandi. Rökin með ferðamennsku eins og ég nefni hér, á þessum bílum, hafa verið þau að hótel séu oft uppbókuð, en við þurfum þá að gæta þess að þessir aðilar séu ekki á ferð við aðstæður sem við Íslendingar mundum jafnvel ekki leggja út í.
Ég tel að við þurfum að setja á fót betra eftirlit með þeirri ferðaþjónustu sem verið er að koma af stað og þeirri nýsköpun sem í gangi er. Þó að það sé gott að skapa atvinnu þá megum við ekki leggja líf fólks að veði.“
Jóhanna María Sigmundsdóttir í störfum þingsins 12.05.2016.

Categories
Fréttir

Sigurður Ingi og Lilja Dögg á leiðtogafundi Norður­land­anna og Banda­ríkj­anna

Deila grein

14/05/2016

Sigurður Ingi og Lilja Dögg á leiðtogafundi Norður­land­anna og Banda­ríkj­anna

Sigurður Ingi JóhannssonSig­urður Ingi Jó­hanns­son for­sæt­is­ráðherra og Lilja Dögg Al­freðsdótt­ir ut­an­rík­is­ráðherra sátu í dag leiðtoga­fund Norður­land­anna og Banda­ríkj­anna í Hvíta hús­inu í boði Baracks Obama for­seta Banda­ríkj­anna.

Categories
Fréttir

Lilja ávarpar öryggisráð Sameinuðu þjóðanna

Deila grein

12/05/2016

Lilja ávarpar öryggisráð Sameinuðu þjóðanna

Lilja Dögg Alfreðsdóttir-sþLilja Dögg Alfreðsdóttir utanríkisráðherra ávarpaði í dag öryggisráð Sameinuðu þjóðanna, en haldinn var opinn fundur í ráðinu um öfgahyggju og hryðjuverk. Í máli sínu lagði ráðherra áherslu á samvinnu og heildstæða nálgun í baráttunni gegn öfgaöflum. Sagði ráðherra engar einfaldar lausnir í boði, en mikilvægt væri að ráðast að rótum vandans. „Ég benti ennfremur sérstaklega á samfélagsmiðla sem hryðjuverkasamtök á borð við ISIL notast við, en Youtube hefur t.a.m. lokað 14 milljón myndbanda á síðustu tveimur árum og Twitter lokað fyrir rúmlega 2000 áskrifta á síðustu mánuðum sem rekja má til samtakanna,” segir Lilja.
Utanríkisráðherra átti fund með Jan Eliasson, varaframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, og voru jafnréttismál, loftslagsmál, umbætur á starfsemi stofnunarinnar og tilnefning nýs framkvæmdastjóra, sem nú er í ferli, meðal annars til umfjöllunar. Á fundi með Lakshmi Puri, varaframkvæmdastjóra UN Women, áréttaði Lilja áframhaldandi stuðning Íslands við stofnunina, en Ísland er meðal helstu framlagaríkja UN Women og er stofnunin meðal fjögurra helstu samstarfsaðila á sviði þróunarsamvinnu. Þá átti ráðherra fund með Richard Wright, yfirmanni svæðisskrifstofu Palestínuflóttamannaaðstoðar SÞ, UNRWA, í New York, og fékk kynningu á starfsemi stofnunarinnar sem Ísland hefur stutt við bakið á en hún starfar m.a. í Jórdaníu, Líbanon, á Gaza og Vesturbakkanum.
Lilja flutti einnig lokaorð á málþingi um mikilvægi þátttöku kvenna í friðarviðræðum og sáttaumleitunum, en Norðurlöndin hafa hrundið af stað átaki um að fjölga konumsem taka virkan þátt í friðarviðræðum og uppbyggingu á alþjóðavettangi og styrkja stöðu kvenna meðal sáttasemjara í stríðshrjáðum löndum. Sagði Lilja konur ekki einungis eiga skýlausan rétt á að taka þátt í friðarumleitunum sem helmingur mannkyns, heldur hefðu þær mikilsverða þekkingu og hæfni fram að færa. Einnig sagði ráðherra mikilvægt að brjóta niður múra í jafnréttisbaráttunni og fá karlmenn til að taka þátt í umræðunni um jafnan hlut kynja, en Ísland hefur á undanliðnum mánuðum staðið fyrir svokölluðum Rakarastofuráðstefnum hjá Sameinuðu þjóðunum og Atlantshafsbandalaginu í því augnamiði.
„Tölurnar tala sínu máli. Á síðustu tveimur áratugum hafa konur einungis skrifað undir 4% friðarsamninga og konur leitt samningaviðræður í 9% tilvika. Hér virðist dropinn ekki hola steininn. Sérstaka hugarfarsbreytingu þarf til og ég bind vonir við að átak Norðurlandanna beri árangur”, segir Lilja.
Ræða utanríkisráðherra í öryggisráði SÞ

Heimild: www.utanrikisraduneyti.is

Categories
Fréttir

32 milljónir króna í styrki til atvinnumála kvenna

Deila grein

11/05/2016

32 milljónir króna í styrki til atvinnumála kvenna

Eygló HarðardóttirEygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra úthlutaði nýlega 32 milljónum króna í styrki til atvinnumála kvenna. Alls hlutu 33 verkefni styrk í samræmi við niðurstöðu ráðgjafarnefndar sem mat umsóknirnar en alls bárust 219 umsóknir um styrki til verkefna hvaðanæva af landinu.
Verkefnin voru fjölbreytt að venju. Má  þar nefna fórnarfóðringu fyrir jarðhitaborholur, þróun vistvænna umbúða í stað plasts og ræktun stofnfruma með nýjum aðferðum. Þessi verkefni hlutu 3 milljónir króna hvert. Af fleiri verkefnum má nefna framleiðslu á lífrænni ánamaðkamold, gerð viðskiptaáætlunar fyrir útgáfu á pólsk- íslensku tímariti, og gerð viðskiptaáætlunar fyrir fræðslu- og fjölskylduspilið Fuglafár.
Með styrkjum sem þessum er stuðlað að aukinni fjölbreytni í atvinnulífinu en fjölmörg ný fyrirtæki hafa litið dagsins ljós sem skapa störf, samfélaginu til hagsbóta.  Einnig er styrkveiting sem þessi mikil hvatning fyrir þær sem er ekki síður mikilvæg þegar á hólminn er komið.
dpjfnmwu
Styrkjum til atvinnumála kvenna hefur verið úthlutað frá árinu 1991 og eru ætlaðir konum sem vinna að góðum viðskiptahugmyndum og verkefnum. Skilyrði styrkveitinga eru þau að verkefnin séu í eigu kvenna, stjórnað af þeim og feli í sér nýnæmi eða nýsköpun. Ekki er nauðsynlegt að vera með starfandi fyrirtæki til að sækja um styrk og því er heimilt að sækja um vegna verkefna á byrjunarstigi en einnig geta þær konur sótt um styrk sem eru að þróa nýjungar í starfandi fyrirtækjum.  Unnt er að sækja um styrki til gerðar viðskiptaáætlunar, vegna markaðssetningar, vöruþróunar, hönnunar og vegna launakostnaðar en ekki eru veittir styrkir til framkvæmda eða vegna stofnkostnaðar.

Heimild: www.velferdarraduneyti.is

Categories
Fréttir

Aukið samstarf milli Íslands og Grænlands

Deila grein

10/05/2016

Aukið samstarf milli Íslands og Grænlands

Lilja Dögg Alfreðsdóttir03Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra og Vittus Qujaukitsoq, utanríkisráðherra Grænlands, voru sammála um að efla enn samstarf landanna, á símafundi, sem þau áttu 6. maí sl. Ráðherrarnir ræddu um samstarfið á grundvelli viljayfirlýsingar landanna frá árinu 2013, en í henni er kveðið á um aukið samstarf á sviðum sjávarútvegs, heilbrigðismála, ferðamála, viðskipta og heilbrigðisreglna við innflutning. Þau samþykktu að koma á fót vinnuhópi skipuðum sérfræðingum landanna á sviði flugmála til að kanna möguleika á að uppfæra loftferðasamning landanna sem og á nánara samstarfi í því skyni að tryggja aukið öryggi í flugi og auka samvinnu flugvalla- og tollyfirvalda.
Á fundinum upplýsti Lilja einnig um að íslensk stjórnvöld hefðu að undanförnu skoðað fyrirkomulag varðandi flutning grænlenskra ferðamanna á kjötvörum vegna áframhaldandi ferðalaga til annarra landa. Þess væri að vænta að leiðbeiningar yrðu gefnar út á næstunni. Jafnframt samþykktu ráðherrarnir að gefa út bækling með leiðbeiningum til grænlenskra ferðamanna um þær reglur sem gilda hér á landi um innflutning ferðamanna á matvælum.
Að lokum staðfestu ráðherrarnir gagnkvæman vilja til að efla enn frekar samstarf milli landanna, sem meðal annars getur falist í því að miðla sérfræðiþekkingu milli landanna. Löndin tvö eiga sameiginlegra hagsmuna að gæta á norðurslóðum og náin samvinna um málefni norðurslóða er til þess fallin að styrkja stöðu beggja landa. Jafnframt má telja að aukin viðskipti milli landanna yrðu báðum ríkjum hagfelld.

Heimilid: www.utanrikisraduneyti.is

Categories
Fréttir

Samtal stjórnmála og aðila vinnumarkaðarins um nýtt vinnumarkaðslíkan

Deila grein

05/05/2016

Samtal stjórnmála og aðila vinnumarkaðarins um nýtt vinnumarkaðslíkan

SIJSigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra, boðaði leiðtoga stjórnmálaflokka sem fulltrúa eiga á Alþingi og forsvarsmenn ASÍ, BSRB, SA og Sambands íslenskra sveitarfélaga á fund í morgun í Ráðherrabústaðnum til að ræða samspil stjórnmála og aðila vinnumarkaðarins og vinnu við þróun nýs vinnumarkaðslíkans.
Í upphafi fundarins kynnti fjármála- og efnahagsráðherra forgangsröðun ríkisstjórnarinnar eins og hún birtist í fjármálastefnu og fjármálaáætlun sem lögð hefur verið fram á Alþingi. Að því loknu voru umræður um stöðu mála á vinnumarkaði, lífeyrismál, SALEK-samstarfið og um forgangsröðun í velferðarmálum og fjármögnun þeirra. Ákveðið var að þessi hópur kynnti sér betur þróun nýs vinnumarkaðslíkans á fundi í maí með Steinar Holden, prófessor við Oslóarháskóla, sem SALEK-hópurinn hefur ráðið til að gera úttekt á íslenska kjarasamninga- og vinnumarkaðslíkaninu.
„Fundurinn var jákvæður og í góðum anda. Þetta samtal er að þróast í rétta átt. Þróun á vinnumarkaði er mjög mikilvæg fyrir efnahagslegan stöðugleika. Við þurfum að nýta sérstaklega góðar aðstæður nú til að greiða niður skuldir og tryggja stöðugleikann á sama tíma og við byggjum upp innviði og bætum velferðarkerfið. Vinnumarkaðurinn skiptir miklu máli við þessa uppbyggingu,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra, að loknum fundinum.

Heimild: www.forsaetisraduneyti.is

Categories
Fréttir

Debat við Seðlabankastjóra

Deila grein

05/05/2016

Debat við Seðlabankastjóra

Þorsteinn-sæmundsson„Hæstv. forseti. Ég sat fund efnahags- og viðskiptanefndar um daginn þar sem hluti peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands kom í heimsókn með seðlabankastjóra í forgrunni.
Þeim fundi er ágætlega lýst í lítilli grein á visir.is sem heitir „Starfsviðtali klúðrað“. Þar kemur fram að seðlabankastjóri hafi verið krafinn svara á fundinum af nefndarmönnum um það hvers vegna Seðlabankinn hefur ofáætlað verðbólgu hér á landi nú í nokkur missiri, hvers vegna húsnæðiskostnaður er reiknaður inn í vísitölu hér en hvergi annars staðar í OECD-ríkjunum, hvers vegna stýrivextir hér á Íslandi eru 5,75%, eða í raun 6,5% ef marka má erlendar auglýsingar Seðlabankans, á meðan þeir eru -0,25% í Svíþjóð. Þessi lönd, Ísland og Svíþjóð, búa við svipaða verðbólguþróun, þ.e. ef hún er eins mæld, þ.e. án húsnæðiskostnaðar.
Í stuttu máli sagt var fátt um svör hjá þeim ágæta seðlabankastjóra sem við höfum, nema það að hann sagði þegar hann var spurður að því hvers vegna margir málsmetandi hagfræðingar væru ósammála peningamálastefnu Seðlabankans, af hverju þeir væru ósammála því að stýrivextir væru svona háir. Þá sagði hann: Ja, við erum bara einfaldlega ósammála þessum mönnum og viljum gjarnan taka við þá debat.
Nú vil ég hvetja hv. efnahags- og viðskiptanefnd til þess að boða til opins fundar þar sem að málsmetandi hagfræðingar eins og Ólafur Margeirsson, Jón Daníelsson, Marinó G. Njálsson og fleiri geta verið í símaviðtali við seðlabankastjóra þannig að þeir geti tekið þetta debat í áheyrn þjóðarinnar.
Ég held að það væri mjög fróðlegt fyrir allan almenning og það væri kjörið tækifæri fyrir seðlabankastjóra til þess að útskýra fyrir þjóðinni það sem hann ekki getur útskýrt fyrir okkur alþingismönnum, þ.e. hvers vegna stýrivextir Seðlabankans eru með þeim hætti sem þeir eru.“
Þorsteinn Sæmundsson í störfum þingsins 3. maí 2016.

Categories
Fréttir

Tekjujöfnuður hefur aldrei verið meiri

Deila grein

05/05/2016

Tekjujöfnuður hefur aldrei verið meiri

Silja-Dogg-mynd01-vef„Hæstv. forseti. Það er svo uppörvandi að fylgjast með umræðunni þessa dagana vegna þess að okkur gengur vel á Íslandi. Við höfum verið heppin og fengið góð spil á hendi. En það er ekki nóg að fá góð spil, t.d. eins og vöxt ferðaþjónustunnar og makrílgöngur við landið. Það verður að spila skynsamlega úr þeim. Ég verð að segja að ríkisstjórnin hefur spilað vel úr sínum spilum. Það sést vel á öllum efnahagslegum mælikvörðum.
Í gær þegar ég var á leiðinni heim úr vinnunni hlustaði ég á viðtal við Henný Hinz, hagfræðing ASÍ. Hún sagði að kaupmáttur heimilanna hefði vaxið mikið og hagvöxturinn virtist byggður á traustum grunni. Alþýðusamband Íslands metur stöðuna sem svo að einkaneyslan muni aukast áfram vegna bættrar fjárhagsstöðu heimilanna. Sambandið spáir nærri 5% hagvexti í ár og 3,8% hagvexti að jafnaði næstu tvö árin. Verðbólgu er spáð lágri í ár og 6% vexti í einkaneyslu.
Við þekkjum góðæri og höfum vonandi lært eitthvað af hruninu, þ.e. að ganga hægt um gleðinnar dyr. Afar mikilvægt er nú að stjórnvöld nái því að viðhalda þeim efnahagslegum stöðugleika sem náðst hefur síðustu ár. Leiðrétting húsnæðislána hefur haft afar jákvæð áhrif á skuldastöðu heimilanna og áætlun um afnám hafta hefur verið vel tekið. Hvort tveggja hefur haft góð áhrif á þjóðarbúið. Við skulum því halda því til haga.
Tekjujöfnuður hefur aldrei verið meiri á Íslandi en árið 2014 en þá bjó ekkert Evrópuríki við jafn mikinn tekjujöfnuð og á Íslandi samkvæmt tölum frá Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins.
Hæstv. forseti. Þó að allt gangi vel nú um stundir þá verðum við að hafa það hugfast að hlúa betur að þeim sem minna mega sín og halda áfram að byggja upp mikilvæga innviði samfélagsins, eins og heilbrigðiskerfið.
Sú áhersla endurspeglast berlega í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar 2018–2021 en þar sjáum við um 19% hækkun á þeim liðum sem falla undir heilbrigðismál.
Við hljótum að geta samglaðst yfir þeim góðu fréttum.“
Silja Dögg Gunnarsdóttir í störfum þingsins 3. maí 2016.

Categories
Fréttir

Excel-glaðir embættismenn

Deila grein

05/05/2016

Excel-glaðir embættismenn

Páll„Virðulegi forseti. Í gær hófust strandveiðar í blíðskaparveðri í flestum fjórðungum og alls staðar var fullur sjór af fiski. Í morgun var hvasst á Suðurnesjum þegar smábátar héldu til veiða út í hvítfyssandi öldurnar, brenndir af þeirri staðreynd að brælur síðustu tvö vor kostuðu svæðið 200 tonna minni úthlutun á þessu ári.
Kerfið var fyrst sett upp þannig að með svæðaskiptingu væri komið í veg fyrir að þrálátar brælur á einu svæði yrðu til þess að potturinn yrði ekki veiddur á öðru svæði, en í dag er greinilega breytt áhersla. Við getum farið í excel-leik og tekið síðustu fjögur ár í stað síðustu tveggja, eins og embættismenn virðast hafa gert. Meðalafli á svæði D sem nær frá Borgarfirði að vestan og að Hornafirði að austan síðustu fjögur ár var 1.418 tonn og mest voru veidd 1.550 tonn en úthlutun á þessu ári er 1.300 tonn. Júlíafli í fyrra var 450 tonn en úthlutun á þessu ári er 195 tonn. Í ágúst í fyrra var aflinn 177 tonn en í ár er úthlutun 130 tonn. Meðalafli á bát var minnstur á svæði D árið 2015, þ.e. 171 tonn, meðan hann var um 300 tonn og upp í 400 tonn á hinum svæðunum. Meðalveiði á bát var einnig minnst á svæði D, 11,3 tonn, á meðan hún var 12,6 og upp í 15,8 tonn á öðrum svæðum.
Þrátt fyrir miklu meiri fiskigengd og 400 tonna aukningu á strandveiðipotti eru í nýrri úthlutun tekin 200 tonn á svæði D og áfram gert ráð fyrir 11,3 tonna meðalveiði á bát en 15,1 og upp í 15,8 tonn á hinum svæðunum. Svo virðist sem enn séu bláeygðir stjórnmálamenn að stimpla inn hráar tölur sem excel-glaðir embættismenn leggja á þeirra borð.“
Páll Jóhann Pálsson í störfum þingsins 3. maí 2016.

Categories
Fréttir

Já, þetta er mjög kraftmikill vöxtur

Deila grein

04/05/2016

Já, þetta er mjög kraftmikill vöxtur

flickr-Þórunn Egilsdóttir„Hæstv. forseti. Nú er mikið rætt um framboð og því fylgja þá eðlilega umræður um eftirspurn. Þeir sem hyggja á framboð telja klárlega vera eftirspurn eftir kröftum þeirra og það er í flestum tilvikum gott. Í samtölum mínum við fólk, almenning í landinu, þjóðina sem er kölluð finn ég fyrir mikilli eftirspurn eftir uppbyggilegu og jákvæðu samtali sem leiðir okkur fram á veginn og styrkir okkur sem samfélag.
Hæstv. forseti. Ég ætla því að leyfa mér að vera á jákvæðum nótum hér í dag og benda á hagspá Alþýðusambands Íslands. Þar kemur fram að kaupmáttur heimilanna hefur vaxið mikið og svo ég vitni í orð Hennýjar Hinz, hagfræðings ASÍ, með leyfi forseta:
„Já, þetta er mjög kraftmikill vöxtur. Það jákvæða er að hann virðist byggður á traustum grunni. Enn sem komið er byggir hann á bættri fjárhagsstöðu. Við sjáum ekki enn merki um að skuldsetning sé að aukast.“
Hæstv. forseti. Þetta eru verulega góð tíðindi fyrir heimilin í landinu og hefði verið gaman ef forustumenn ASÍ hefðu haft tök á að minnast á þau við hátíðarhöldin 1. maí. Það skiptir máli hve mikið við fáum fyrir kaupið okkar.
Innihald þessarar spár á svo sannarlega erindi við okkur öll því að þar er spáð nærri 5% hagvexti í ár og 3,8% hagvexti að jafnaði næstu tvö árin. Þá er áfram spáð lágri verðbólgu. En spáin á líka erindi við okkur því að hún bendir einnig á atriði sem við verðum að standa vörð um og hópa sem við þurfum að verja. Reyndin er sú til dæmis að staða fólks á leigumarkaði er mjög þröng. Mikil hækkun fasteignaverðs hvetur mjög til þess að byggðar verði nægilega margar íbúðir til að hér rjúki ekki fasteignaverð upp úr öllu valdi. Það er því gríðarlega mikilvægt að við náum samstöðu um afgreiðslu húsnæðisfrumvarpa sem nú liggja fyrir þinginu.
Hæstv. forseti. Þessari góðu stöðu fylgja miklar áskoranir því að tryggja þarf að hagstjórn næstu ára viðhaldi efnahagslegum stöðugleika. Það er því ánægjulegt að hér á eftir verður lögð fram glæsileg fjármálastefna og fjármálaáætlun til næstu fimm ára sem fela það í sér að hægt verður að búa enn betur í haginn fyrir komandi kynslóðir.“
Þórunn Egilsdóttir í störfum þingsins 3. maí 2016.