Categories
Fréttir

Sveinbjörg Birna nýr formaður LFK

Deila grein

16/09/2013

Sveinbjörg Birna nýr formaður LFK

Sveinbjörg Birna SveinbjörnsdóttirSveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir varaþingmaður var kosin formaður Landssambands framsóknarkvenna á 16. landsþingi þess haldið 7. september. Með Sveinbjörgu Birnu í framkvæmdastjórn landsambandsins eru Rakel Dögg Óskarsdóttir, Sunna Gunnars Marteinsdóttir, Björg Baldursdóttir og Anna Kolbrún Árnadóttir.
Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir skipaði 3. sæti á framboðslista Framsóknarflokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður í síðustu alþingiskosningum. Sveinbjörg Birna er fædd í Reykjavík 1973, stúdent frá Verzlunarskóla Íslands, lauk lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands 2001 og fékk héraðsdómslögmannsréttindi 2002.
Ný stjórn vill koma á framfæri þakklæti til fráfarandi formanns, Gerði Jónsdóttur og hennar stjórn, fyrir vel unnin störf.
Á þinginu voru fjölmargar ályktanir samþykktar og má sjá þær hér að neðan.
 

Ályktanir 16. Landsþings framsóknarkvenna, LFK, 7. september 2013:

Ályktun um breytingu á leigureglum vegna íbúðarhúsnæðis.
16. landsþing Landssambands framsóknarkvenna haldið í Reykjavík laugardaginn 7. sept. 2013 skorar á ríkisstjórn Sigmundar Davíð Gunnlaugssonar að skoða möguleika á því að gera fólki kleift að leigja út hluta eigin húsnæðis sem það býr í, allt að 40% íbúðarhúsnæðisins, án þess að leigutekjur séu reiknaðar til tekna húsnæðiseiganda og að þær skerði ekki lífeyrisgreiðslur og/eða bætur. Þessi ráðstöfun kæmi sérstaklega til góða fullorðnu fólki sem ýmist getur ekki selt, eða vill ekki selja, stórar eignir sem það hefur búið í drjúgan hluta ævi sinnar. Einnig mundi það bæta nýtingu á stórum íbúðarhúsum.
Ályktun um Reykjarvíkurflugvöll.
16. landsþing Landssambands framsóknarkvenna haldið í Reykjavík laugardaginn 7. sept. 2013 vill, vegna tillögu umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur um flutning Reykjavíkurflugvallar úr Vatnsmýrinni, minna á þá ábyrgð og skyldur sem höfuðborg landsins hefur. Greiðar flugsamgöngur landsbyggðarinnar til og frá Reykjavík er forsenda þess að borgin geti gegnt hlutverki sínu sem höfuðborg landsins alls. Í höfuðborginni eru höfuðstöðvar stjórnsýslu Íslands auk fjölda opinberra viðskipta-, mennta-, menningar- og heilbrigðisstofnana.
Með tillögunni er verið að rýra aðgengi fólks að þessari þjónustu. Þá vekur þingið athygli á þeim mikla kostnaði sem flutningur Reykjavíkurflugvallar hefur í för með sér fyrir ríkið vegna nýrra vegaframkvæmda (stofnbrauta) og uppbyggingu nýs flugvallar.
Ályktun um stjórnir fyrirtækja.
16. landsþing Landssambands framsóknarkvenna haldið í Reykjavík laugardaginn 7. sept. 2013 áréttar lagaskyldu um hlutföll kynja í stjórnum fyrirtækja. Þingið hvetur þær stjórnir sem enn fullnægja ekki gildandi reglum að bregðast við nú þegar og kjósa nýjar stjórnir. Fyrirtæki sem stjórnað er jöfnum höndum af konum og körlum búa yfir viðtækari reynslu og þekkingu. Reynsluheimur kynjanna er ólíkur og því eðlilegt að ætla að fjölbreyttari leiða sé beitt við ákvaðanatöku. Framsóknarkonur hvetja stjórnir fyrirtækja að framfylgja strax núgildandi lögum.
Ályktun um heilbrigðisþjónustu.
16. landsþing Landssambands framsóknarkvenna haldið í Reykjavík laugardaginn 7. sept. 2013 skorar á stjórnvöld að bregðast við þeim alvarlega bresti sem kominn er í heilbrigðiskerfið. Þingið telur að nú þegar þurfi að hefja að nýju uppbyggingu heilbrigðisþjónustu um allt land. Slík uppbygging mun efla öryggi landsmanna og draga úr álagi á LHS.
Ályktun um launamun kynjanna.
16. landsþing Landssambands framsóknarkvenna haldið í Reykjavík laugardaginn 7. sept. 2013 kallar eftir, í ljósi nýrra upplýsinga um viðvarandi launamun kynjanna, tafalausum aðgerðum. Hér er átt við ríki, sveitarfélög og aðila vinnumarkaðarins. Það er með öllu óásættanlegt að ekki hafi enn tekist að uppræta kynbundinn launamun og vinna gegn launamun kynjanna. Árum saman hafa sambærilegar upplýsingar legið fyrir og ráðamenn lýst því að bregðast verði við en lítið þokast í rétta átt. Framsóknarkonur vilja að leitað verði allra leiða til að uppræta óviðunandi ástand og kallar alla þá er málið varðar til ábyrgðar. Það er vitað að íslenskur vinnumarkaður er kynbundinn og hefðbundin kvennastörf eru ávísun á lægri laun en hefðbundin karlastörf. Einnig er ekkert annað en kyn starfsmanna sem getur skýrt launamun í sambærilegum störfum þegar tillit hefur verið tekið til allra þátta sem áhrif geta haft á laun. Það þarf að nýta öll þau tól og tæki sem samfélagið býr yfir s.s. jafnlaunavottun. Velta þarf við öllum steinum og höfða til sameiginlegrar ábyrgðar okkar allra.
Ályktun um skuldavanda íslenskra heimila.
16. landsþing Landssambands framsóknarkvenna haldið í Reykjavík laugardaginn 7. sept. 2013 fagnar aðgerðaráætlun ríkisstjórnarinnar sem ætlað er að taka á skuldavanda íslenskra heimila. Sérstaklega vegna þess að í áætluninni er bæði að finna tímaramma og ábyrgðamenn einstakra málaflokka.
Ályktun um sjálfstæði sveitarfélaga.
16. landsþing Landssambands framsóknarkvenna haldið í Reykjavík 7. september 2013 telur að æskilegt sé að aukið vald, ábyrgð og fjármagn sé falið sveitarfélögunum í landinu til að veita íbúum sínum þjónustu. Sveitarstjórnir landsins eru þau stjórnvöld sem standa kjósendum næst og er það í anda kröfu um aukið lýðræði að fela þeim aukin verkefni ásamt auknum tekjum.
Þingið telur að skoða beri vandlega hvort sveitarfélög ættu að fá verulega aukið hlutfall ef tekjuskatti einstaklinga í sinn hlut auk þess sem eðlilegt er að þau fái einnig hlutdeild í skattekjum frá fyrirtækjum. Þá er eðlilegt að tekin verði upp skattheimta af nýtingu ýmissa náttúruauðlinda, svo sem virkjun vatnsafls og jarðvarma, sem renni til sveitarfélaga á nærsvæði framkvæmdanna. Leita má fyrirmynda um slíka skattheimtu erlendis, m.a. til Noregs.
Eftir að sveitarfélögunum hafa verið tryggðar auknar tekjur er eðlilegt að meta hvaða þjónustu er heppilegt og raunhæft að ætla að sveitarfélögin geti tekið að sér að veita, íbúum sínum til hagsbóta.
Ályktun um regluverk atvinnulífsins.
16. landsþing Landssambands framsóknarkvenna haldið í Reykjavík laugardaginn 7. sept. 2013 fagnar áformum ríkisstjórnar við að einfalda regluverk gagnvart stofnunum og fyrirtækjum í landinu. Þingið leggur einnig áherslu á að innleiðingaferli verði vandað og vel gætt að eftirfylgni á öllum sviðum stjórnsýslunnar.
Ályktun um umhverfismál.
16. landsþing Landssambands framsóknarkvenna haldið í Reykjavík laugardaginn 7. sept. 2013 minnir á að endurnýting og endurvinnsla takmarkaðra auðlinda jarðarinnar er eitt brýnasta viðfangsefni umhverfismálanna. Þingið hvetur ríkisstjórnina til þess að setja fram tímasetta áætlun um hvernig hægt er að þróa og nýta innlenda orkugjafa og auka hlutfall farartækja sem ganga fyrir innlendum orkugjöfum. Þingið bendir á að notkun innlendra orkjugjafa sparar gjaldeyri er umhverfisvænt og atvinnuskapandi.
Ályktun um náttúruvernd og nýtingu.
16. landsþing Landssambands framsóknarkvenna haldið í Reykjavík laugardaginn 7. sept. 2013 minnir á að virðing fyrir náttúrunni hefur verið grunnstef í stefnu Framsóknarflokksins frá stofnun hans. Þingið leggur áherslu á að efla beri landgræðslu. Ennfremur vill þingið benda á að ræktun og nýting skóga er til dæmis gott dæmi um vaxandi atvinnuskapandi auðlind. Stjórnvöld verða að marka sér skýra stefnu á þessu sviði.
Ályktun um jafnrétti til búsetu.
16. landsþing Landssambands framsóknarkvenna haldið í Reykjavík laugardaginn 7. sept. 2013 leggur áherslu á mikilvægi þess að blómleg byggð sé um allt land. Til þess að svo megi vera verður að tryggja íbúum ásættanlegt aðgengi að heilbrigðisþjónustu, öruggum samgöngum, fjarskiptasambandi og dreifikerfi raforku. Landsambandið hvetur því jafnframt til þess að teknir verði upp virkir og vel skilgreindir hvatar til þess að styrkja samfélög á skilgreindum varnasvæðum þar sem núverandi þjónusta getur lagst af.
Ályktun um starfsemi stofnana ríkisins á landsbyggðinni.
16. landsþing Landssambands framsóknarkvenna haldið í Reykjavík laugardaginn 7. sept. 2013 leggur ríka á herslu á mikilvægi þess að ríkið leiti leiða til þess að efla starfsemi stofnana sinna um land allt. Ríkið gangi þannig á undan með góðu fordæmi gagnvart fyrirtækjum í landinu og setji þannig jafnframt fram jákvæða hvata til þess að auðvelda fyrirtækjum rekstur, t.d. með afslætti/niðurfellingu tryggingargjalds.
Reynsla af flutningi starfa út á land hefur verið góð. Nægt framboð er af hæfu starfsfólki. Minni starfsmannavelta og lægri húsnæðiskostnaður gerir flutning starfa að fýsilegum kosti sem er til þess fallinn að efla byggð um allt land.
Ályktun um styttingu náms að háskóla.
16. landsþing Landssambands framsóknarkvenna haldið í Reykjavík laugardaginn 7. september 2013 leggur áherslu á samvinnu, samþættingu og samtal á milli skólastiga með það að markmiði að stytta nám að háskóla um eitt ár, án þess að skerða gæði náms og menntunar. Mikilvægt er að faglegur ávinningur af styttingu námsins sé ráðandi fremur en fjárhagslegur. Fram fari faglegt mat á vegum menntamálayfirvalda á mismunandi leiðum að því markmiði. Mikilvægt er að í því mati verði tekið tillit til félagslegra þátta og skólamenningar leik-, grunn- og framhaldsskóla og háskóla.
Ályktun um klám.
16. landsþing Landssambands framsóknarkvenna haldið í Reykjavík laugardaginn 7. sept. 2013 kallar eftir almennri vitundarvakningu og tafarlausum aðgerðum stjórnvalda í baráttunni gegn klámvæðingu og ofbeldi sem oftar en ekki beinist gegn konum.
Ályktun um jafna möguleika barna til íþrótta- og frístundastarfs.
16. landsþing Landssambands framsóknarkvenna haldið í Reykjavík laugardaginn 7. september 2013 leggur áhersu á jafnt aðgegni barna að íþróttum sem og öðru æskulýðs- og tómstundastarfi. Slíkt starf þroskar einstaklinginn og hefur mikið forvarnargildi.
Ályktun um fæðingarorlof.
16. landsþing Landssambands framsóknarkvenna haldið í Reykjavík laugardaginn 7. sept. 2013 hvetur ríkisstjórn Íslands að hverfa frá niðurskurði á greiðslum til fæðingarorlofs sem síðasta ríkisstjórn réðst í. Afleiðingarnar hafa fyrst og fremst verið að feður taka sér síður orlof.

Categories
Fréttir

Sigmundur Davíð á Al Jazeera

Deila grein

02/09/2013

Sigmundur Davíð á Al Jazeera

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra verður á beinni línu hjá Al Jazeera í kvöld kl. 19:30.  Megin umræðuefnið verður efnahagsbati Íslands.
Almenningur semur spurningarnar fyrir viðtalið við Sigmund Davíð hér.
 
sdg-aljazeera

Categories
Fréttir

Sigmundur Davíð forsætisráðherra í 100 daga

Deila grein

02/09/2013

Sigmundur Davíð forsætisráðherra í 100 daga

Sigmundur Davíð GunnlaugssonSigmundur Davíð Gunnlaugsson var á Sprengisandi á Bylgjunni í gær, sunnudag. Þar fór hann m.a. yfir að verkefnin er var lagt upp með í upphafi væru öll samkvæmt áætlun og á þeim hraða sem sem gert var ráð fyrir. Sigmundur Davíð tók sérstaklega fram að eðlilegt væri að þegar þing væri ekki að störfum að fólk verði ekki vart við vinnuna sem á sér stað inni í ráðuneytinum. En Sigmundur Davíð segist vera mjög bjartsýnn á framhaldið og að okkur takist að breyta hlutum mjög hratt þegar þing kemur saman.
Hlutverk stjórnvalda í dag er að skapa þær aðstæður að tækifæri séu nýtt. Það hafa menn verið að gera í skattamálum og eins í vinnu í stjórnarráðinu um einföldun regluverksins og verður kynnt á ráðstefnu á morgun (í dag). Þessi grundvallaratriði eru til endurskoðunar og forsenda þess að hægt sé að fjárfesta og gera áætlanir og byggja á til framtíðar.
Hér er hægt að nálgast upptökur af viðtalinu við Sigmund Davíð:
Sprengisandur: SDG 1. hluti. Segir öll verk vera á áætlun
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson segir verkefni ríkisstjórnarinnar vera á áætlun og eðlilegt sé að það taki menn tíma að trúa að óhætt sé að fjárfesta og byggja upp.
https://vefutvarp.visir.is/upptokur?itemid=20677
Sprengisandur: SDG 2. hluti. Forsendum verðtryggingar verður breytt
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson segir að grunni vístölunnar verði breytt svo fyrirsjáanleg hækkun á eldsneyti hækki ekki lán Íslendinga uppúr öllu valdi.
https://vefutvarp.visir.is/upptokur?itemid=20678
Sprengisandur: SDG 3. hluti. Breytt lög um lífeyrissjóði
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson segir þörf á að breyta lögum um líeyrissjóði svo þeim verði gert unnt að fjárfestar víðar en nú. Hann benti einnig á að lífskjör okkar séu tekin að láni, þar sem við framleiðum ekki fyrir nauðsynjum.
https://vefutvarp.visir.is/upptokur?itemid=20679
Sprengisandur: SDG 4. hluti. Nýr umhverfisráðherra innan skamms
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson segir að ekki sé langt að bíða þess að hér verði skipaður nýr umhverfisráðherra í stærra og veigameira ráðuneyti.
https://vefutvarp.visir.is/upptokur?itemid=20680
 

Categories
Fréttir

Tveir sérfræðingahópar skipaðir um skuldavanda heimila

Deila grein

19/08/2013

Tveir sérfræðingahópar skipaðir um skuldavanda heimila

Sigmundur Davíð GunnlaugssonForsætisráðherra hefur skipað eftirtalda aðila í sérfræðingahópa um skuldavanda heimila. Eiga þeir að skila af sér í nóvember 2013 og fyrir lok árs 2013 skv. þingsályktunartillögu sem samþykkt var á sumarþingi.
Sérfræðingahópur um höfuðstólslækkun verðtryggðra húsnæðislána og kosti og galla leiðréttingasjóðs:

  • Dr. Sigurður Hannesson, stærðfræðingur, formaður.
  • Dr. Arnar Bjarnason, hagfræðingur
  • Einar Hugi Bjarnason, hrl.
  • Ingibjörg Ólöf Vilhjálmsdóttir, hdl.
  • Lilja Alfreðsdóttir, alþjóðahagfræðingur
  • Sigrún Ólafsdóttir, alþjóðaviðskiptafræðingur í forsætisráðuneyti
  • Sigurður Guðmundsson, skipulagsfræðingur í fjármála- og efnahagsráðuneyti

Sérfræðingahópur um afnám verðtryggingar af neytendalánum:

  • Ingibjörg Ingvadóttir, hdl, formaður
  • Hafdís Ólafsdóttir, lögfræðingur í fjármála- og efnahagsráðuneyti
  • Iða Brá Benediktsdóttir, viðskiptafræðingur
  • Sigrún Ólafsdóttir, alþjóðaviðskiptafræðingur í forsætisráðuneyti
  • Tómas Brynjólfsson, hagfræðingur í fjármála- og efnahagsráðuneyti
  • Valdimar Ármann, hagfræðingur/fjármálaverkfræðingur
  • Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness
Categories
Fréttir

Yfirlýsing ríkisstjórnar Íslands vegna hótana Evrópusambandsins í garð Færeyinga og Íslendinga

Deila grein

16/08/2013

Yfirlýsing ríkisstjórnar Íslands vegna hótana Evrópusambandsins í garð Færeyinga og Íslendinga

Sigmundur Davíð GunnlaugssonÍsland á mikilla hagsmuna að gæta hvað varðar stjórnun ýmissa sameiginlegra fiskistofna á Norðaustur-Atlantshafi. Íslensk fiskveiðistjórnun hefur um langt árabil tryggt sjálfbæra nýtingu sjávarauðlindarinnar ólíkt því sem gildir um fiskveiðistefnu ESB.
Á undanförnum mánuðum hefur Evrópusambandið (ESB) ítrekað hótað að beita þvingunaraðgerðum gegn Íslandi og Færeyjum í því skyni að ná betri stöðu í samningaviðræðum um stjórnun veiða úr sameiginlegum fiskistofnum. Þessi háttsemi brýtur í bága við ýmsar skuldbindingar samkvæmt hafréttarsamningi Sameinuðu þjóðanna og almennum reglum þjóðaréttar, einkum skuldbindingu strandríkja til að koma sér saman um ráðstafanir sem tryggi vernd og þróun sameiginlegra stofna. Slíkar aðgerðir myndu enn fremur stangast á við skuldbindingar ESB samkvæmt samningi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) og, að því er Ísland varðar, samkvæmt EES-samningnum.
Það er ríkisstjórn Íslands mikið áhyggjuefni að ESB leitist við að skerða rétt annarra strandríkja á svæðinu til frjálsra samningaviðræðna og samninga í því skyni að ná fram hagsmunum tiltekinna aðildarríkja sambandsins. Það er Íslandi einnig áhyggjuefni að ESB sniðgengur vísvitandi þær leiðir til lausnar deilumála sem hafréttarsamningurinn kveður á um.
Ríkisstjórn Íslands mótmælir því harðlega að ESB grípi til hótana um að beita þvingunaraðgerðum gegn Íslandi og Færeyjum sem leið til að leysa deilur um stjórnun veiða úr sameiginlegum fiskistofnum. Ríkisstjórnin krefst þess að ESB dragi hótanir sínar til baka og virði þannig skuldbindingar sínar samkvæmt þjóðarétti.
Sjá má yfirlýsinguna hérna: https://www.forsaetisraduneyti.is/frettir/nr/7661
Categories
Fréttir

Miðjuflokkar Norðurlandaráðs funduðu á Íslandi

Deila grein

16/08/2013

Miðjuflokkar Norðurlandaráðs funduðu á Íslandi

Sumarfundur flokkahóps miðjumanna í Norðurlandaráði fór fram á Hilton Reykjavík Nordica dagana 14. og 15. ágúst
Á sumarfundi Flokkahóps miðjumanna í Norðurlandaráði í Reykjavík í gær samþykkti flokkahópurinn einhuga að Björt framtíð fengju aðild að flokkahópi miðjumanna í Norðurlandaráði.
Aðaláhersla fundarins var á réttindi barna og úrbætur á því sviði en einnig kynntu fundarmenn sér endurnýtanlega orku og skipulag almannavarna á Íslandi.
Fundinn sóttu 14 norrænir þingmenn. Heimsóttu þeir meðal annars Samhæfingamiðstöð Almannavarna þar sem Víðir Reynisson deildarstjóri almannavarnardeildar Ríkislögreglustjóra og Guðmundur Fylkisson varðastjóri kynntu skipulag og verklag almannavarna á Íslandi.
Einnig heimsótu þeir Barnahús sem var hið fyrsta sinnar tegundar á Norðurlöndum þegar það tók til starfa árið 1998 en Barnahús sinnir málefnum barna sem grunur leikur á að hafi sætt kynferðislegri áreitni eða ofbeldi. Þá hittu þingmennirnir Margréti Maríu Sigurðardóttir umboðsmann barna sem upplýsti fundarmenn um stöðu mála hvað varðar réttindi barna hér á landi og einnig Söndru Gísladóttur og Frímann Sigurðsson frá Hinu húsinu sem kynntu starfsemi þess.
Í fyrradag heimsóttu þeir Carbon Recycling International (CRI) á Reykjanesi, (CRI) fangar CO2 frá iðnaðarútblæstri og breytir því í hreint vistvænt metanól (RM). Carbon Recycling International er tilnefnt til umhverfisverðlauna Norðurlandaráð nú í ár. Sjá: https://www.norden.org/is/a-doefinni/frettir/einn-thessarra-hlytur-natturu-og-umhverfisverdlaun-nordurlandarads-arid-2013 .
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og samstarfsráðherra Norðurlanda og Eygló Harðardóttir félags og húsnæðismálaráðherra funduðu svo seinnipartinn í gær með þingmönnunum.
 
 
 
 
 
 
 
 
Í flokkahópi miðjumanna í Norðurlandaráði sitja fulltrúar og varafulltrúar Norðurlandanna og Færeyja, Grænlands og Álandseyja, sem tilheyra 25 frjálslyndum miðjuflokkum, grænum og kristilegum demókrataflokkum, Flokkahópurinn er næst stærstur fimm flokkahópa í Norðurlandaráði og mæta
14 þingmenn hópsins á fundinn í Reykjavík.
 

Categories
Fréttir

16. Landsþing Landssambands framsóknarkvenna

Deila grein

30/07/2013

16. Landsþing Landssambands framsóknarkvenna

lfkmerkiliturBoðað er til 16. Landsþings Landssambands framsóknarkvenna (LFK) laugardaginn 7. september í Framsóknarhúsinu Hverfisgötu 33, 3. hæð í Reykjavík. Skráning fer fram á skrifstofu Framsóknar í síma 540-4300 eða á netfangið framsokn@framsokn.is. Skráning fer fram til 31. ágúst. Mikilvægt er að konur skrái sig tímanlega vegna undirbúnings þingsins.
Þinggjöld eru 1.500 kr. Innifalið í þinggjöldum eru þinggögn, súpa og brauð í hádeginu, kaffi og með því.
Framsóknarkonur vítt og breytt um landið eru því beðnar um að taka þessa daga frá og að taka þátt í öflugu landsþingi LFK og stemmingu sem enginn verður svikin af!
Uppstillingarnefnd hefur hafið störf. Vinsamlega látið vita af framboði ykkar til hennar:

 

Drög að dagskrá:

Laugardagur 7. september 2013

09.00  Þingsetning
09.05  Kosning starfsmanna þingsins:

–  Kosning þingforseta
–  Kosning þingritara
–  Kosning starfsnefndar (3)

09.10   Skýrsla stjórnar og reikningar lagðir fram / umræður
09.40  Ávarp félags- og húsnæðismálaráðherra Eyglóar Harðardóttur
10.00  Kaffihlé
11.15 Málefnahópar kynntir – taka til starfa:
Hópur 1 – Stjórnskipun, mannréttindi, lýðræði og utanríkismál
Hópur 2 – Efnahagsmál
Hópur 3 – Atvinna, samgöngur og umhverfi
Hópur 4 – Menntun, menning og íþróttir
Hópur 5 – Velferð
Hópur 6 – Lagabreytingar og aðrar tillögur
12.00  Hádegishlé
14.30  Niðurstöður hópvinnu og tillögur lagðar fyrir þingið – umræður
15.20  Lagabreytingar
15.30  Kosningar:

– Formaður
– Framkvæmdastjórn (4) og varastjórn (2)
– Landsstjórn (6) og varastjórn (6)
– Skoðunarmenn reikninga (2)
– Varaskoðunarmenn reikninga (2)

15.45 Önnur mál
16.00 Þingslit
Framkvæmdastjórn LFK áskilur sér rétt til breytinga á dagskrá þingsins.
 
FRAMKVÆMDASTJÓRN LFK

Categories
Fréttir

Farsælir þingmenn Framsóknar á landsmóti UMFÍ

Deila grein

10/07/2013

Farsælir þingmenn Framsóknar á landsmóti UMFÍ

haraldur-landsmot-UMFIÞrír þingmenn Framsóknar tóku þátt í 27. Landsmóti UMFÍ á Selfossi um liðan helgi. Þau Haraldur Einarsson, Silja Dögg Gunnarsdóttir og Þorsteinn Magnússon, varaþingmaður, en hann tók sæti á Alþingi rétt fyrir þinglok í fjarveru Frosta Sigurjónssonar.

Unnu þau til nokkurra verðlauna á landsmótinu:

  • Haraldur Einarsson vann til tveggja silfurverðlauna, annars vegar fyrir 400 m. hlaup og hins vegar fyrir 1000 m. boðhlaup.
  • Þá vann lið Haraldar og Þorsteins í heildarstigakeppninni í frjálsum en þeir kepptu fyrir HSK.
  • Silja Dögg vann svo til gullverðlauna fyrir starfshlaupið.

Auk þess að vera farsæl á verðlaunapöllunum voru Haraldur og Silja Dögg fánaberar við setningu Landsmótsins.setning-landsmots-UMFI
 

Categories
Fréttir

Við munum reyna til þrautar, þingsályktun um aðgerðir vegna skuldavanda heimilanna samþykkt

Deila grein

01/07/2013

Við munum reyna til þrautar, þingsályktun um aðgerðir vegna skuldavanda heimilanna samþykkt

OLYMPUS DIGITAL CAMERAAlþingi hefur samþykkt

Þar er kveðið á um markvissar aðgerðir til þess að mæta skuldavanda íslenskra heimila, sem til er kominn vegna hinnar ófyrirsjáanlegu höfuðstólshækkunar verðtryggðra húsnæðislána, sem leiddi af hruni fjármálakerfisins.

„Ég fagna því að Alþingi hafi afgreitt þingsályktunartillöguna sem gerir ráð fyrir því að með heildstæðum hætti verði nú tekið á stöðu mála varðandi skuldavanda heimila hér á landi. Nú förum við á fulla ferð á næstu vikum og mánuðum við að vinna frekar á grundvelli samþykktar Alþingis en um mjög viðamikið og brýnt málefni er að ræða. Við munum reyna til þrautar að koma fram með lausnir sem koma ekki síst til móts við skilvísa skuldara sem hafa lengi mátt búa við óréttlæti og ójafnræði“, segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra.
Frétt forsætisráðuneytisins um málið

Categories
Fréttir

Skerðingar afnumdar og frítekjumark hækkað

Deila grein

26/06/2013

Skerðingar afnumdar og frítekjumark hækkað

Eygló Þóra HarðardóttirEygló Harðardóttir, félags-og húsnæðismálaráðherra, segir að nýtt frumvarp sem á að afnema skerðingar á greiðslum til lífeyrisþega, sé eitthvað sem þessum hópi hafi verið lofað. Hún segir mjög mikilvægt að taka þetta fyrsta skref núna á sumarþingi. Greiðslur um 7.000 lífeyrisþega munu hækka, frítekjumark vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega hækkar verulega og lífeyristekjur munu ekki lengur skerða grunnlífeyri.
Árið 2009 voru gerðar ýmsar breytingar á lögum um almannatryggingar og lögum um málefni aldraðra sem leiddu til umtalsverðra skerðinga á kjörum aldraðra og öryrkja. Breytingarnar fólust meðal annars í því að fjármagnstekjur voru látnar skerða að fullu tekjutengdar greiðslur í stað 50% skerðingar áður og eins var frítekjumark ellilífeyrisþega vegna atvinnutekna lækkað umtalsvert. Lífeyrissjóðstekjur voru teknar inn í útreikning við ákvörðun grunnlífeyris og gátu þannig skert grunnlifeyrinn.
Hætt verður að skerða grunnlífeyri vegna lífeyristekna
Verði frumvarp félags- og húsnæðismálaráðherra að lögum aukast framlög ríkisins til almannatrygginga um 850 milljónir króna á þessu ári og um 1,6 milljarða árið 2014 þegar áhrif breytinganna eru komin fram að fullu. Greiðslur hækka hjá um 7.000 lífeyrisþegum, þar af eru um 2.500 einstaklingar sem ekki hafa fengið greiðslur að undanförnu vegna tekjuskerðinga en öðlast rétt til lífeyris á ný.
Frumvarp ráðherra er fyrsta skrefið til þess að draga til baka skerðingar frá árinu 2009 í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar. Auk þess er hafin vinna við afnám annarra skerðinga og á það meðal annars við um lækkun skerðingarhlutfalls tekjutryggingar úr 45% í 38,35%. Heildaráhrif af væntanlegum bótahækkunum þegar þær verða að fullu komnar til framkvæmda árið 2014 eru áætluð um 4,6 milljarðar króna.
Helstu breytingarnar sem felast í frumvarpi félags- og húsnæðismálaráðherra til breytinga á lögum um almannatryggingar og lögum um málefni aldraðra eru þessar:

  • Frítekjumark vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega við útreikning tekjutryggingar hækkar úr 480.000 kr. á ári í 1.315.200 kr. á ári.
  • Lífeyrissjóðstekjur munu ekki lengur skerða grunnlífeyri almannatrygginga.
  • Eftirlitsheimildir Tryggingastofnunar eru auknar og aðgangur stofnunarinnar að upplýsingum sem taldar eru nauðsynlegar við ákvörðun bóta er rýmkaður. Með því móti er stuðlað að því að greiðslur til lífeyrisþega verði réttari og að draga megi úr bótasvikum.
  • Hækkanir á greiðslum til lífeyrisþega samkvæmt framantöldum breytingum taka gildi 1. júlí næstkomandi og koma til framkvæmda 1. ágúst.

Alþingi:
Almannatryggingar og málefni aldraðra (Fylgjast með ferli málsins)
Frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, og lögum um málefni aldraðra, nr. 125/1999, með síðari breytingum (frítekjumörk, tekjutengingar og eftirlitsheimildir). (Frumvarpið í pdf-skjali)

Fjölmiðlaumfjöllun:
Í Bítið – Eygló Harðardóttir félagsmálaráðherra sat fyrir svörum
Eygló: Þetta er það sem við lofuðum
„Skýr skilaboð til aldraðra“
Frítekjumörk ellilífeyrisþega þrefaldist