Categories
Greinar

Eflum menntun á landsbyggðinni

Deila grein

31/10/2019

Eflum menntun á landsbyggðinni

Mennt­un­ar­tæki­færi barna og ung­menna og aðgengi þeirra að íþrótta- og tóm­stund­a­starfi hef­ur áhrif á ákv­arðanir for­eldra um bú­ferla­flutn­inga frá smærri byggðarlög­um. Þetta sýna niður­stöður könn­un­ar Byggðastofn­un­ar sem í vor kannaði viðhorf íbúa í 56 byggðakjörn­um utan stærstu þétt­býl­isstaða lands­ins. Alls bár­ust svör frá rúm­lega 5.600 þátt­tak­end­um sem all­ir búa í byggðakjörn­um með færri en 2.000 íbúa.

Könn­un­in beind­ist meðal ann­ars að áform­um íbúa um framtíðarbú­setu. Þau sem höfðu í hyggju að flytja á brott á næstu 2-3 árum voru spurð um ástæður þeirra fyr­ir­ætl­ana og gátu svar­end­ur merkt við fleiri en eitt atriði. At­hygli vek­ur að fjöl­skyldu­fólk með börn und­ir 18 ára aldri merkti flest við val­mögu­leik­ann „Tæki­færi barns til mennt­un­ar“, eða 58% þeirra þátt­tak­enda. Niður­stöður könn­un­ar­inn­ar leiða í ljós að mennta­sókn hef­ur áhrif á bú­ferla­flutn­inga mun fleiri aðila en þeirra ein­stak­linga sem ætla að sækja sér mennt­un. Mennta­tæki­færi hafa marg­feld­isáhrif, ekki síst fyr­ir smærri sam­fé­lög. Það er því mikið í húfi fyr­ir öll sveit­ar­fé­lög að for­gangsraða í þágu mennt­un­ar.

Það fel­ast verðmæti í því fyr­ir okk­ur öll að landið allt sé í blóm­legri byggð og það er stefna þess­ar­ar rík­is­stjórn­ar að lands­menn eigi að hafa jafn­an aðgang að þjón­ustu, at­vinnu­tæki­fær­um og lífs­kjör­um. Áhersl­ur í þeim efn­um má finna í byggðaáætl­un 2018-2024 en þar er meðal ann­ars fjallað um efl­ingu rann­sókna og vís­inda­starf­semi, hag­nýt­ingu upp­lýs­inga­tækni til há­skóla­náms og aukið sam­starf á sviði mennta-, heil­brigðis- og fé­lags­mála.

Það er mik­il­vægt að all­ir hafi jöfn tæki­færi til mennt­un­ar og geti fundið nám við sitt hæfi. Við vilj­um tryggja öll­um börn­um og ung­menn­um slík tæki­færi og er það eitt leiðarljósa við gerð nýrr­ar mennta­stefnu fyr­ir Ísland til árs­ins 2030. Mark­miðið er skýrt; ís­lenskt mennta­kerfi á að vera framúrsk­ar­andi og byggja und­ir sam­keppn­is­hæfni hag­kerf­is­ins til langr­ar framtíðar. Síðasta vet­ur héld­um við 23 fræðslu- og umræðufundi um land allt, sem lið í mót­un nýju mennta­stefn­unn­ar, m.a. með full­trú­um sveit­ar­fé­laga og skóla­sam­fé­lags­ins. Tæp­lega 1.500 þátt­tak­end­ur mættu á fund­ina og sköpuðust þar góðar og gagn­rýn­ar umræður um mennta- og sam­fé­lags­mál. Niður­stöður þess­ara funda eru okk­ur dýr­mæt­ar í þeirri vinnu sem nú stend­ur yfir en af þeim má skýrt greina að vilji er til góðra verka og auk­ins sam­starfs um upp­bygg­ingu á sviði mennt­un­ar um allt land.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 31. október 2019.

Categories
Greinar

Ísland í forystusveit

Deila grein

31/10/2019

Ísland í forystusveit

Talið er að meira en þriðjungur af losun koltvísýrings á Norðurlöndunum komi frá húsnæðis- og byggingariðnaði. Jafnframt er talið að 40 prósent af losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu megi rekja til byggingariðnaðarins. Það var til umfjöllunar á fundi húsnæðis- og byggingamálaráðherra Norðurlandanna sem boðað var til hér á landi, í tilefni af formennsku Íslands í Norrænu ráðherranefndinni, fyrr í mánuðinum. Í kjölfarið var gefin út sameiginleg yfirlýsing þar sem við skuldbundum okkur til að vera í fararbroddi á heimsvísu þegar kemur að því að þróa lausnir sem draga úr losun í byggingariðnaði. Markmiðið er að Norðurlöndin taki sameiginlega alþjóðlega forystu í loftslagsmálum.

Í fyrrnefndri yfirlýsingu hvetjum við aðila innan byggingariðnaðarins til að taka höndum saman um norræna samstöðu um byggingarframkvæmdir með lága koltvísýringslosun. Eins köllum við eftir auknu samstarfi innan fræðasamfélagsins og milli rannsóknastofnana á þessu sviði. Við leggjum áherslu á mikilvægi hringrásarhagkerfis innan byggingariðnaðarins og er vert að benda á að byggingar og önnur mannvirki sem þegar hafa verið reist hafa að geyma mikið af nothæfu byggingarefni sem hægt er að endurnýta. Á sama tíma er víða skortur á íbúðarhúsnæði og hef ég beitt mér fyrir húsnæðisuppbyggingu bæði á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni enda hverjum manni nauðsynlegt að hafa öruggt þak yfir höfuðið. Kannski hljómar þetta öfugsnúið í ljósi fyrrgreindra markmiða. En verkefnið snýst ekki um að hætta við eða minnka byggingaframkvæmdir heldur að leita umhverfisvænni lausna við hönnun og smíði húsnæðis.

Markmiðinu um að gera Norðurlönd að kolefnishlutlausu svæði fyrir 2030 verður ekki náð nema húsnæðis- og byggingargeirinn horfi til umhverfisvænna lausna. Við Íslendingar erum lánsöm þjóð að búa yfir orkuauðlindum sem eru, borið er saman við aðrar, hreinar og vistvænar. Við eigum því að vera í fararbroddi, fremst meðal jafningja, þegar kemur að vistvænum og umhverfisvænum lausnum í húsnæðis- og byggingariðnaði.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 30. október 2019.

Categories
Greinar

ÁFRAM VEGINN

Deila grein

30/10/2019

ÁFRAM VEGINN

Nú er kjörtímabilið hálfnað og tvö ár frá því ég var kjörin fyrst á Alþingi. Fyrst og fremst er ég þakklát fyrir að fá þetta tækifæri og hafa þessi tvö ár verið bæði skemmtileg og fjölbreytt.

Ég hef fengið tækifæri til að vinna með frábæru fólki, kynnst málefnum og fengið að vinna að mikilvægum málum inn á þingi og úti í kjördæminu. Ekki síst hefur verið frábært að vinna með ríkistjórn sem  komið var á eftir kosningar. Þetta er sú ríkisstjórn sem þurfti að koma á til ná fram félagslegum, efnahagslegum og pólitískum stöðugleika í landinu. Þegar kjörtímabilið er hálfnað má þegar sjá að ríkisstjórnin sem spannar hið pólitíska litróf allt frá vinstri til hægri hefur náð að slá nýjan tón, eins og segir í markmiði í stjórnarsáttmála hennar og náð að setja á fót lykilverkefni sem þjóðinni var mikilvægt eftir óreiðu síðasta ártugs.

ÖFLUG LIÐSHEILD

Framsóknarflokkurinn kom átta þingmönnum að í síðustu kosningum, þar af fimm konum. Þessi hópur hefur staðið þétt saman og liðsheildin sterk. Ráðherrar okkar hafa unnið að mikilvægum málum og ekki bara staðið í embættum, heldur bætt og blásið í seglin svo tekið hefur eftir. Lífskjarasamningarnir sem náðust síðasta vetur voru skýrt merki um samvinnu milli verkalýðsfélagana og ríkistjórnarinnar. Þáttur Ásmundar Einars félagsmálaráðherra var þar mikilvægur en hann vann ötullega að sátt og niðurstöðum sem allir aðilar gátu skrifað undir. Vinna Ásmundar Einars í húsnæðis-, fjölskyldu- og barnamálum hefur einnig vakið athygli og þar hafa litið dagsins ljós hugmyndir sem skipta máli.

Í  mennta- og menningarmálaráðuneytinu hefur Lilja Dögg lyft grettistaki og boðað stórsókn í menntamálum. Unnið er að viðurkenningu á störfum kennara, eflingu á faglegu sjálfstæði þeirra og áhersla lögð  á skólaþróun á öllum skólastigum. Einnig hefur verið unnið að því að fjölga nemendum í kennslufræði, t.d. með tillögum  um launað starfsnám, námsstyrki og styrki til starfandi kennara til náms í starfstengdri leiðsögn. Lilja Dögg hófst þegar handa við að endurskoða námslánakerfið þar sem áherslan er lögð á jafnrétti til náms, skilvirkni og námsstyrkjakerfi að norrænni fyrirmynd.

Í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu hefur Sigurður Ingi  unnið að samgönguáætlun sem lögð var fram á síðasta þingi og verður hún lögð fram endurbætt á Alþingi um miðjan nóvember. Þetta er í fyrsta sinn sem samgönguáætlun er í samræmi við samþykkta fjármálaáætlun.  Það ber vott um ný vinnubrögð sem sýnir í verki raunverulegan vilja stjórnvalda til að efla samgöngur um allt land. Ávinningur af samgönguáætluninni er aukið öryggi, stytting vegalengda og efling atvinnusvæða. Auk þess var mikilvægum áfanga náð þegar sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu náðu að koma sér saman um stórsókn í samgöngubótum í samvinnu við ráðuneytið nú í haust. Þingsályktunartillaga um eflingu sveitarstjórnarstigsins hefur verið lögð fram en þar má finna stórtækar tillögur að átt að sameiningu sveitarfélaga í landinu. Þó sumar þeirra séu umdeildar er ég sannfærð um að Sigurður Ingi muni vinna að farsælli lausn með víðtækri samvinnu.

SAMVINNA AÐ LEIÐARLJÓSI

Þingflokkur Framsóknarflokksins hefur unnið að mikilvægum málum í þeim nefndum sem hann starfar í. Við höfum unnið eftir þeirri sannfæringu að best sé að horfa fram á veginn í samvinnu við samstarfsflokka okkar og leita lausna sem allir geta sætt sig við. Má þar nefna nokkur mál eins og afgreiðslu fiskeldisfrumvarpinu á síðasta þingi og svo ekki sé minnst á hrákjötsmálið sem skilaði sameiginlegu niðurstöðu sem allir flokkar unnu að fyrir utan Miðflokkinn svo var líka um afgreiðslu á heilbrigðisstefnu.  Í þeirri vegferð einblíndum við á lausnir en ekki vandamál.  Í síðustu kosningabaráttu hafði Framsóknarflokkurinn samvinnu að leiðarljósi, en ekki sundrung sem fráfarandi flokksmenn  virðast hafa tekið með sér í baráttuna um framtíðina í nýjum flokki.
Á miðri leið er gott að líta yfir farinn veg og gleðjast yfir þeim árangri sem náðst hefur – hlaða sig af endurnýjanlegri orku sem skilar okkur áfram veginn. Geta ekki allir verið sammála um það?

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á bb.is 30. október 2019.

Categories
Greinar

Fjárfest til framtíðar

Deila grein

22/10/2019

Fjárfest til framtíðar

Staða rík­is­sjóðs er sterk, hag­vöxt­ur hef­ur verið mik­ill á Íslandi síðustu ár og at­vinnu­leysi lítið í alþjóðleg­um sam­an­b­urði. Heild­ar­skuld­ir rík­is­ins hafa lækkað mjög hratt frá fjár­mála­hruni; þær voru um 90% af lands­fram­leiðslu en eru nú um 30%. Stöðug­leikafram­lög, aðferðafræði við upp­gjör föllnu bank­anna og öguð fjár­mála­stjórn síðustu ára hafa átt rík­an þátt í því að þessi hag­fellda staða er uppi í rík­is­fjár­mál­um. Hrein er­lend staða, er­lend­ar eign­ir þjóðarbús­ins um­fram er­lend­ar skuld­ir, hef­ur þó aldrei verið betri. Staðan var já­kvæð um tæp­lega 630 ma.kr. eða 22% af lands­fram­leiðslu í lok ann­ars árs­fjórðungs þessa árs og batnaði um 10 pró­sent­ur á fyrri hluta árs­ins.

Þrátt fyr­ir góð teikn rík­ir tölu­verð óvissa um inn­lenda efna­hagsþróun á kom­andi miss­er­um bæði af inn­lend­um or­sök­um og sak­ir auk­inn­ar óvissu um alþjóðleg­ar hag­vaxt­ar­horf­ur og þróun á alþjóðleg­um fjár­mála­mörkuðum. Rík­is­fjár­mál­in taka mið af þess­ari stöðu og stefnt er að því að af­gang­ur af heild­araf­komu rík­is­sjóðs sem hlut­fall af vergri lands­fram­leiðslu verði að lág­marki í jafn­vægi árin 2020 og 2021, en af­gang­ur verði um 0,3% árið 2022. Brýnt er að mæta þörf­um efna­hags­lífs­ins til sam­ræm­is við breytt­ar horf­ur án þess þó að vikið verði tíma­bundið frá fjár­mála­regl­um um af­komu og skuld­ir eins og lög um op­in­ber fjár­mál heim­ila. Vegna góðrar stöðu rík­is­fjár­mála verður til svig­rúm sem veit­ir stjórn­völd­um tæki­færi til að vinna gegn niður­sveiflu með öfl­ugri op­in­berri fjár­fest­ingu og ráðast í ýms­ar innviðafjár­fest­ing­ar á næstu miss­er­um. Spá Seðlabanka Íslands ger­ir ráð fyr­ir að fjár­fest­ing­ar hins op­in­bera auk­ist á næstu árum.

Meðal innviðafjár­fest­inga sem tengj­ast mennta- og menn­ing­ar­málaráðuneyt­inu má nefna bygg­ingu Húss ís­lensk­unn­ar sem nú er í full­um gangi, bygg­ingu fé­lagsaðstöðu við Fjöl­brauta­skóla Suður­nesja, viðbygg­ingu við Fjöl­brauta­skól­ann í Breiðholti, upp­bygg­ingu við Mennta­skól­ann í Reykja­vík og við menn­ing­ar­hús á Sauðár­króki og Eg­ils­stöðum. Meðal annarra mik­il­vægra fjár­fest­inga­verk­efna má einnig nefna mál­tækni­áætl­un stjórn­valda. Marg­ar þess­ara fram­kvæmda eru löngu tíma­bær­ar og mark­mið þeirra allra að efla mennt­un og menn­ingu í land­inu.

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 22. október 2019.

Categories
Greinar

Segið já 26. október – aukinn slagkraftur

Deila grein

21/10/2019

Segið já 26. október – aukinn slagkraftur

Ef sameining Borgarfjarðarhrepps, Djúpavogshrepps, Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðarkaupstaðar verður samþykkt mun nýtt sveitarfélag hafa sterkari rödd og stöðu í samskiptum við ríkisvaldið og í samstarfi sveitarfélaga á landsvísu.

Raunar er það svo að það eitt að hefja formlegar sameiningarviðræður hefur tryggt þessum sveitarfélögum sameiginlega meiri og innihaldsríkari samræður við ráðherra og þingmenn en ég hef áður kynnst á ferli mínum í sveitarstjórn. Með því að kynna skýra framtíðarsýn um stærra, öflugra og samhentara sveitarfélag er meiri von um að fá stuðning við þá uppbyggingu og framþróun á svæðinu. Árangurinn af þessari vinnu má meðal annars sjá í drögum að endurskoðaðri samgönguáætlun sem kynnt var í vikunni.

Það skiptir einnig orðið stöðugt meira máli að þeir sem gefa kost á sér til starfa í sveitarstjórn geti helgað sig þeim verkefnum en sinni ekki hagsmunagæslu íbúanna í hjáverkum meðfram öðrum störfum. Með stærra sveitarfélagi og breyttu skipulagi opnast meiri möguleikar á því að kjörnir fulltrúar geti verið í föstu starfshlutfalli og jafnvel fullu starfi við að þjónusta íbúa sveitarfélagsins og berjast fyrir hagsmunum þeirra. Þannig verður nýtt sveitarfélag með meiri slagkraft en þau sem fyrir eru hvert í sínu lagi.

Utan heimastjórna er gert ráð fyrir að fastanefndir sveitarfélagsins verði færri, fjölmennari og fundi örar en nú tíðkast. Allar þessar breytingar leiða til þess að nefndafólki mun fækka frá því sem nú er, úr ríflega 140 í rúmlega 40, en verkefni þeirra og ábyrgð eykst. Því er í áætlunum ekki gert ráð fyrir að kostnaður minnki heldur verði launakjör fulltrúa í góðu samræmi við ábyrgð þeirra og verkefni.

Um allt þetta má lesa nánar á heimasíðunni svausturland.is og ég hvet alla íbúa til að kynna sér málin, mæta á kjörstað og greiða atkvæði með sameiningu sveitarfélaganna þann 26. október.

Stefán Bogi Sveinsson, forseti bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs.

Greinin birtist fyrst á austurfrett.is 18. október 2019.

Categories
Greinar

Mót­vægis­að­gerðir í fisk­eldi

Deila grein

20/10/2019

Mót­vægis­að­gerðir í fisk­eldi

Ísíðustu viku birtist frétt í Fréttablaðinu þar sem vitnað var í skýrslu vísindamanna í Noregi um að núverandi mótvægisaðgerðir þar í landi séu ekki nægjanlegar til að draga úr slysasleppingum á eldislaxi og fullyrt að laxeldi í sjó sé mesta ógnin sem steðjar að villtum laxi í Noregi.

Villti laxastofninn í Atlandshafi hefur almennt verið á niðurleið undanfarin ár og svo er líka í Noregi. Athygli vekur að stofninn hefur verið í niðursveiflu bæði í löndum þar sem eldi er stundað og líka þar sem það er ekki stundað. Niðurstöður benda til að hrygningarstofninn sé nægilega stór en endurheimt upp í árnar aftur frá sjónum sé að versna.

Manngerð ógn

Í skýrslunni er talað um að bæði áhrif frá manninum og minni endurkoma laxins frá sjónum upp í árnar aftur séu ástæða fækkunarinnar. Þar er líka talað um að af þeim umsvifum mannsins sem hafa áhrif á laxinn séu slysasleppningar, laxalús og sjúkdómar enn þá stærstu hætturnar sem steðji að norska laxinum.

Það eru fleiri ógnir sem steðja að villta laxinum, eins og virkjanir, súrt regn og mannvirkjagerðir svo ekki sé talað um mengun í sjónum sem ógnar líka öðrum fisktegundum alstaðar í heiminum.

Mikilvægi mótvægisaðgerða

Hins vegnar hefur eldisfiski fækkað í norskum veiðiám þökk sé þeim mótvægisaðgerðum sem virkjaðar hafa verið þar. Þar má sjá mikinn mun og hafa vísindalegar rannsóknir stutt það og kemur það fram í fyrrnefndri skýrslu.

Verum á verði

Slysasleppingar í sjókvíeldi hafa komið upp og má búast við að svo verði áfram. Oftast er þar um mannleg mistök um að kenna. Sjávarútvegsráðherra Noregs hefur kallað eftir aðgerðum vegna þeirra. Laxeldisfyrirtækin þar hafa sent frá sér tillögur að aðgerðum til að draga enn frekar úr slysasleppingum og áhrifum þeirra. Íslensk stjórnvöld ættu að fylgjast vel með hvort eitthvað af þeim aðgerðum gætu hentað hér á landi. Með nýsamþykktum endurbótum á fiskeldislögum í vor er Ísland án vafa með einar ströngustu kröfur í heimi þegar kemur að fiskeldi og þannig viljum við hafa það áfram.

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst fyrst í Fréttablaðinu 19. október 2019.

Categories
Greinar

SAMGÖNGUÁÆTLUN Í SAMRÁÐSGÁTT

Deila grein

19/10/2019

SAMGÖNGUÁÆTLUN Í SAMRÁÐSGÁTT

Nú er endurskoðuð samgönguáætlun komin í samráðsgátt stjórnvalda og verður hún lögð fram á Alþingi um miðjan nóvember. Þetta er í fyrsta sinn sem samgönguáætlun er í samræmi við samþykkta fjármálaáætlun.  Það ber vott um ný vinnubrögð undirstrikar raunverulegan vilja stjórnvalda til að efla samgöngur  um allt land. Ávinningur af samgönguáætluninni er aukið öryggi, stytting vegalengda og efling atvinnusvæða. Í áætluninni má sjá breytta forgagnsröðun. Á tímabilinu fara rúmlega 214 ma. kr. í flýtiaðgerðir miðað við fyrri áætlanir, þar af 125 ma. kr.  utan höfuðborgarsvæðisins. Sérstök jarðgangaáætlun verður aftur tekin upp, fyrsta flugstefna landsins mun lýta dagsins ljós og  einnig stefna um almenningssamgöngur milli byggða.

Vegasamgöngur færast frá söguöld

Nú loksins ætla stjórnvöld af fullri alvöru að færa  hringveg um Vestfirði til nútímans. Dýrafjarðargöng eru langt kominn og verða tilbúin á nýju ári. Margir hafa velt fyrir sér framhaldinu en í nýrri áætlun eru fjármunir settir í Dynjandisheiði strax á næsta ári og skal hún kláruð árið 2024. Alls eru áætlaðir 5.8 ma. kr.  í þá framkvæmd. Ætlunin er að klára Bíldudalsveg  innan 10 ára og mun sú framkvæmd kosta 4,8 ma. kr. Veiðileysuháls er á áætlun og áfram verður unnið í Djúpvegi með því að afleggja einbreiðu brúnna við Hattardal. Þá er að sjálfsögðu vegur um Gufudalssveit fjármagnaður og skal þeim framkvæmdum lokið á árinu 2023.

Það má því segja að Vestfirðingar sjái nú loksins frammá að fjórðungurinn sé að færast í nútímalegt horf hvað vegasamgöngur varðar.

Hafnarframkvæmdir

Dýpkun og lenging á Sundabakka á Ísafirði eru á áætlun á árinu 2021-2023, framkvæmdir á Suðureyri við stálþil eru fjármagnaðar og áætlað er að ráðast í endurbyggingu innri hafnarkants á Þingeyri innan þriggja ára. Í Bolungarvík er gert ráð fyrir framkvæmdafé upp á rúmar 160 ma. kr. á næstu fimm árum.

Neyðarástand á Bíldudalshöfn

Vesturbyggð ásamt fyrirtækjum sem nýta hafnaraðstöðu á Bíldudalshöfn hafa kallað eftir því að framkvæmdum við höfnina verði flýtt eins og hægt er. Athafnasvæði og viðlegupláss er lítið og stór aukin atvinnustarfsemi sem hefur byggst upp á síðast liðnum árum kallar á aðgerðir við höfnina.  Bent hefur verið á að neyðarástand skapist þegar mest er um að vera og því brýnt að þeim framkvæmdum verði flýtt.  Í samgönguáætlun er gert ráð fyrir fjármagni í uppbyggingu hafnarinnar en ljóst er að það verður að flýta framkvæmdaáætlun og setja þær í útboð sem allra fyrst.

Framkvæmdir í forgang

Undir forystu núverandi samgönguráðherra Sigurðar Inga er hér verið að leggja fram fjármagnaða raunhæfa samgönguáætlun sem rímar við fjármálaáætlun þingsins. Þarna má sjá áratugalanga baráttu Vestfirðinga raungerast. Með betri samgöngum er hægt að ráðast að fullu í uppbyggingu atvinnulífs á svæðinu sem væntanlega mun skila sér í bættu samkeppnishæfu samfélagi fyrir fjórðunginn.

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á bb.is 18. október 2019.

Categories
Greinar

Nýir tímar boðaðir í samgönguáætlun

Deila grein

17/10/2019

Nýir tímar boðaðir í samgönguáætlun

Fyrr á þessu ári var samþykkt að auka fram­lög til vega­gerðar um­tals­vert sem end­ur­spegl­ast í fjár­mála­áætl­un. Aukið fjár­magn verður sett í viðhald vega, ný­fram­kvæmd­um verður flýtt og þörf er á að byggja upp tengi­vegi og bæta þjón­ustu vegna auk­ins álags á vega­kerf­inu. Á næstu sjö árum verður vega­fram­kvæmd­um, sem kosta um 130 millj­arða króna, flýtt utan höfuðborg­ar­svæðis­ins. Ný­lega var skrifað und­ir sam­göngusátt­mála rík­is og sex sveit­ar­fé­laga á höfuðborg­ar­svæðinu. Sátt­mál­inn staðfest­ir sam­eig­in­lega sýn og heild­ar­hugs­un fyr­ir fjöl­breytt­ar sam­göng­ur á svæðinu. Mark­miðið er að auka lífs­gæði íbúa og leysa aðkallandi um­ferðar­vanda á höfuðborg­ar­svæðinu. Í sam­göngu­áætlun­inni er bein fjár­mögn­un rík­is­ins staðfest. End­ur­skoðuð sam­göngu­áætlun verður lögð fram í nóv­em­ber og munu drög að henni fyr­ir 2020-2034 birt­ast í sam­ráðsgátt stjórn­valda í dag. Áætl­un­in er upp­færsla á þeirri áætl­un sem samþykkt var á Alþingi síðasta vet­ur, með viðbót­um sem unnið hef­ur verið að síðustu mánuði. Stig­in eru stór skref í átt að betri sam­göng­um á Íslandi og á flest­um sviðum er þetta sam­göngu­áætlun nýrra tíma.

Stefnu­mót­un fyr­ir flug og al­menn­ings­sam­göng­ur

Sam­hliða sam­göngu­áætlun­inni eru í fyrsta sinn kynnt drög að flug­stefnu Íslands ann­ars veg­ar og stefna í al­menn­ings­sam­göng­um milli byggða hins veg­ar. Í báðum þess­um stefn­um birt­ast áhersl­ur rík­is­stjórn­ar­inn­ar um að byggja upp al­menn­ings­sam­göng­ur um land allt, á landi, sjó og í lofti. Mark­miðið er að styrkja sam­fé­lagið með því að jafna aðgang að þjón­ustu, at­vinnu­tæki­fær­um og lífs­kjör­um, eitt­hvað sem skipt­ir þjóðina alla miklu máli.

Til­gang­ur með mót­un flug­stefnu er að skapa um­hverfi sem viðheld­ur grunni fyr­ir flugrekst­ur og flug­tengda starf­semi á Íslandi og styður vöxt henn­ar.

Í stefnu um al­menn­ings­sam­göng­ur milli byggða er lagt til að flug, ferj­ur og al­menn­ings­vagn­ar myndi eina sterka heild og boðið verði upp á eitt leiðar­kerfi fyr­ir allt landið.

Sam­vinnu­verk­efni til að flýta fram­kvæmd­um

Í sam­göngu­áætlun­inni sem nú birt­ist al­menn­ingi er einnig lögð áhersla á að auka sam­vinnu milli hins op­in­bera og einkaaðila við að hraða upp­bygg­ingu fram­kvæmda sem í senn auka um­ferðarör­yggi og eru þjóðhags­lega hag­kvæm­ar. Öryggi er leiðarljósið við all­ar ákv­arðanir og mark­mið allra ör­yggisaðgerða að vernda manns­líf.

Nýj­ar fram­kvæmd­ir sem bjóða upp á vegstytt­ingu og val um aðra leið verða kynnt­ar til sög­unn­ar eins og ný brú yfir Ölfusá, jarðgöng um Reyn­is­fjall og lág­lendis­veg um Mýr­dal. Þá er stefnt að því að ein­staka fram­kvæmd­ir verði fjár­magnaðar að hluta með þess­um hætti eins og ný brú yfir Horna­fjarðarfljót og veg­ur yfir Öxi.

Sér­stök jarðganga­áætl­un birt­ist nú í sam­göngu­áætlun. Stærstu tíðind­in eru að stefnt er að því að fram­kvæmd­ir við Fjarðar­heiðargöng geti haf­ist árið 2022 eða tals­vert fyrr en áður hef­ur verið ráðgert. Gert er ráð fyr­ir að bein fram­lög af sam­göngu­áætlun og jarðganga­áætl­un standi und­ir helm­ingi fram­kvæmda­kostnaðar jarðganga. Stefnt er að gjald­töku af um­ferð í jarðgöng­um og að sú inn­heimta muni fjár­magna rekst­ur og viðhald gang­anna, sem og að standa und­ir því sem upp á vant­ar í fram­kvæmda­kostnað.

Í end­ur­skoðaðri sam­göngu­áætlun eru slegn­ar upp­hafsnót­ur þeirr­ar næstu. Á það sér­stak­lega við um mál­efni barna og ung­menna og aðgerða til að auka jafn­rétti í at­vinnu­greind­um tengd­um sam­göng­um. Vinna við und­ir­bún­ing þeirr­ar um­fjöll­un­ar er þegar haf­in en ljóst er að auk­in þekk­ing á þeim sviðum er bæði rétt­læt­is- og fram­fara­mál. Jafn­framt eru góð gögn und­ir­staða góðra áætl­ana og mun ferðavenju­könn­un sem nú er í gangi gefa gleggri mynd af því hvernig lands­menn fara á milli staða. Ég hvet ykk­ur ein­dregið til að kynna ykk­ur drög að end­ur­skoðaðri sam­göngu­áætlun á vefn­um samrads­gatt.is.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og formaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 17. október 2019.

Categories
Greinar

Þungi hagstjórnar færist frá peningamálum til ríkisfjármála

Deila grein

16/10/2019

Þungi hagstjórnar færist frá peningamálum til ríkisfjármála

Lágvaxtaumhverfi hagkerfa er staðreynd á alþjóðavísu. Staðan sem uppi er í alþjóðakerfinu er án fordæma í nútímahagsögunni, þar sem hátt atvinnustig hefur jafnan verið ávísun á aukna verðbólgu. Sú hefur þó ekki verið raunin síðustu árin. Til dæmis er atvinnuleysi í Bandaríkjunum nú um 3,5% en verðbólga aðeins 1,4%. Þar, líkt og víða annars staðar, bendir ýmislegt til að á næstunni verði hagstjórnin í auknum mæli í höndum hins opinbera, sem taki að sér að örva hagkerfið í niðursveiflu. Minni verðbólga í hagkerfum heimsins á sér einkum þrjár skýringar. Í fyrsta lagi hefur þeim hagkerfum sem settu sér verðbólgumarkmið í kringum árið 2000 tekist að stýra verðbólguvæntingum. Í öðru lagi hefur hið opna hagkerfi, þar sem vörur, þjónusta og fjármagn flyst á milli hagkerfa, aukið hagkvæmni í viðskiptum. Í þriðja lagi hafa tækniframfarir og sjálfvirknivæðing lækkað framleiðslukostnað.

Hagvöxtur og atvinnulífið

Mikill hagvöxtur hefur einkennt íslenskt efnahagslíf síðustu misseri. Horfur hafa þó versnað tímabundið, meðal annars vegna minnkandi umsvifa í ferðaþjónustu og loðnubrests. Hægst hefur á hagvexti og spár gera ráð fyrir 0,2% samdrætti í ár. Framlag utanríkisviðskipta til hagvaxtar á fyrsta fjórðungi var hins vegar jákvætt um sem nemur 4,4%. Áfram er vöxtur í einkaneyslu og samneyslu, þrátt fyrir að hann sé hægari en áður. Spár gera ráð fyrir að fjárfesting minnki um 5%. Atvinnuleysi er enn lágt í alþjóðlegu samhengi eða um 3,5%. Brýnt er að efnahagsaðgerðir nú aðstoði þjóðarbúið við að ná viðspyrnu.

Sjálfstæð peningastefna stendur vaktina og veitir svigrúm

Á þessu ári hefur verðbólga hjaðnað milli ársfjórðunga og nýjustu mælingar sýna 3,1% verðbólgu á þriðja fjórðungi. Verðstöðugleiki hefur aukist og verðbólga verið um 3% síðustu þrjú ár, en var að meðaltali um 8% á árunum 2006-2008. Langtímaverðbólguvæntingar hafa verið lægri undanfarin ár og nær verðbólgumarkmiði Seðlabankans. Undanfarið hafa vextir verið lægri en þeir voru fyrir fjármálakreppuna, hvort sem litið er til meginvaxta Seðlabankans eða langtímavaxta á skuldabréfamarkaði. Þrátt fyrir spennu í þjóðarbúinu hefur verðbólga verið töluvert minni síðustu ár en við lok síðasta þensluskeiðs. Þessi staða hefur gefið Seðlabankanum svigrúm til að lækka vexti. Gengisþróun er í ríkari mæli grundvölluð á undirliggjandi efnahagsþáttum og því hefur verðbólguþróun verið stöðug.

Bolmagn heimila og fyrirtækja

Skuldir heimila og fyrirtækja hafa minnkað mikið síðastliðinn áratug. Skuldir heimilanna námu í árslok 2018 um 75% af landsframleiðslu og höfðu lækkað um 45% frá árslokum 2008. Ástæður þessarar lækkunar eru meðal annars aðgerðir stjórnvalda í skuldamálum heimilanna, eins og Leiðréttingin og fleiri aðgerðir, auk þess sem ráðstöfunartekjur hafa aukist verulega. Kaupmáttur launa hefur aukist um 24% frá árinu 2007, þannig að hagur heimilanna hefur styrkst mikið. Skuldalækkun fyrirtækja er enn meiri, en í fyrra námu skuldir þeirra um 88% af landsframleiðslu en voru mestar 228% af landsframleiðslu árið 2008. Ánægjulegt er líka að sjá skuldir heimila, fyrirtækja og hins opinbera í erlendri mynt hafa lækkað verulega og því eru áhrif gengislækkunar mun minni nú en fyrir áratug. Þessi hagfellda staða heimilanna og fyrirtækjanna gerir þeim betur kleift að mæta niðursveiflu hagkerfisins en ella.

Fjárfestingar hins opinbera sveiflist á móti hagsveiflunni

Staða ríkissjóðs Íslands er sterk. Heildarskuldir hafa lækkað mjög hratt frá fjármálahruni, farið úr 90% af landsframleiðslu í 23%. Stöðugleikaframlög og aðferðafræðin við uppgjör föllnu bankanna hafa átt ríkan þátt í því að þessi hagfellda staða er uppi í ríkisfjármálum. Staðan gerir stjórnvöldum kleift að koma til móts við hagsveifluna og búa til svigrúm. Vegna þessa er stefnt að því að afgangur af heildarafkomu ríkissjóðs sem hlutfall af vergri landsframleiðslu verði að lágmarki í jafnvægi árin 2020 og 2021, en afgangur verði um 0,3% árið 2022. Afkoman mætir því þörfum efnahagslífsins til samræmis við breyttar horfur án þess þó að vikið verði tímabundið frá fjármálareglum um afkomu og skuldir eins og lög um opinber fjármál heimila. Rétt er að nefna, að ríkissjóði hafa aldrei áður boðist jafngóð kjör á skuldabréfamörkuðum og nú.

Ljóst er að þróttur íslenska hagkerfisins er umtalsverður og hið opinbera mótar stefnu sína út frá breyttum forsendum til að koma til móts við hagsveifluna. Íslenska hagkerfið er undirbúið fyrir niðursveiflu og hið opinbera kemur til móts við hana með skattalækkunum og auknum opinberum framkvæmdum.

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og situr í ráðherranefnd um efnahagsmál og endurskipulagningu fjármálakerfisins.

Greinin birtist fyrst í Markaðinum fylgiriti Fréttablaðsins 16. október 2019.

Categories
Greinar

Ótímabærar og óhóflegar friðlýsingar umhverfisráðherra

Deila grein

15/10/2019

Ótímabærar og óhóflegar friðlýsingar umhverfisráðherra

Það hefur ekki dulist nokkrum sem hefur fylgst með gangi þjóðfélagsmála að umhverfisráðherra Guðmundur Ingi Guðbrandsson er í friðunarherferð langt umfram meðalhóf og nauðsyn. Friðlýsingar þessar þarf ekki að bera undir Alþingi eða ríkisstjórn, heldur er þetta vald eingöngu í höndum ráðherra sjálfs að því er virðist. Ráðherra er m.a. að friða orkukosti sem voru í verndarflokki í Rammaáætlun II. Nú friðar ráðherrann ekki bara orkukostina sem voru metnir í verndarflokk heldur að auki áhrifasvæði þeirra í heild sinni.

Velta má því fyrir sér út frá umfangi verkefnisins hjá honum, hvort ekki væri skynsamlegt að staldra aðeins við og fá álit fleiri aðila. Því hvað er verið að gera? Oft á tíðum og út frá boðuðum hugmyndum ráðherrans er verið að friðlýsa svæði sem eru til þess fallin að hægt sé að nýta þau með sjálfbærum hætti í framtíðinni til dæmis til orkuvinnslu eða lagningu lína til að flytja raforku. Það er morgunljóst að þær áætlanir sem uppi eru um friðlýsingu einstakra svæða og hugmyndir um miðhálendisþjóðgarð munu koma í veg fyrir frekari framþróun á sviði orkunýtingar víða um land og ekki síður enn mikilvægari þætti sem er lagning flutningslína milli þéttbýlissvæða og landshluta.

Loftslagsmál eru „global en ekki local“
Íbúar á norðausturhluta landsins hafa ekki farið varhluta af óþægindum þeim sem skapast hafa vegna þess að línur Landsnets hafa ekki flutningsgetu til þess að flytja orku á milli staða og ekki er framleidd nægilega mikil orka á viðkomandi svæðum til að anna eftirspurn. Hefur þetta valdið því að spennufall verður í þéttbýlisstöðum, með tilheyrandi tjóni fyrir íbúa og atvinnulíf. Þar sem tæki skemmast og framleiðsla stöðvast. Einnig hefur ekki verið hægt að keyra fiskbræðslur Austanlands á rafmagni af eins miklum mætti og hægt hefði verið ef flutningskerfið væri sterkt og magn raforku í kerfinu væri nægjanlegt. Það er all sérstakt á tímum loftslagsbreytinga að ekki sé unnið að því hörðum höndum að auðvelda lagningu lína og nýta sjálfbæra orkukosti til þess að takast á við þennan alheimsvanda.

Loftslagsmál eru nefnilega ekki „local mál“ okkar Íslendinga heldur „global mál“ heimsins og það má ætla að betra sé að framleiða vörur með sjálfbærri orku á Íslandi en kolum í Kína eða gasi í Sádi-Arabíu. Með framleiðslu sjálfbærrar orku er hægt að búa til störf fyrir fólkið í landinu og hagvöxt fyrir efnahaginn.

Göngum hægt um gleðinnar dyr
Ef við Íslendingar ætlum að vera leiðandi á heimsvísu þegar kemur að loftslagsmálum þurfum við að hugsa fram í tímann og huga að þeim kynslóðum sem á eftir okkur koma.

Við þurfum að hugsa til þess að eiga nægt rafmagn til að knýja samgönguflotann í þeim orkuskiptum sem þar munu fara fram. Nægjanleg orka þarf að vera til staðar fyrir atvinnulífið í landinu. Það er mikilvægt, sérstaklega með tilliti til þess að við getum lagt okkar af mörkum í þeirri stóru mynd sem snýr að framleiðslu vara með endurnýjanlegri orku. Ef fram heldur sem horfir mun það hins vegar verða mjög erfitt því unnið er að því markvisst að friða alla vænlegustu virkjanakosti landsins og ekki síður vegna þess að lagaumhverfið gerir það erfitt að leggja línur án margra ára baráttu við landeigendur og þrýstihópa. Það er spurning hvenær verið er að taka meiri hagsmuni fyrir minni, því það er ekki alltaf víst að náttúruvernd og loftslagsmál fari saman.

Ingibjörg Ísaksen, bæjarfulltrúi á Akureyri, formaður stjórnar Norðurorku og formaður sveitarstjórnarráðs Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 15. október 2019.