Categories
Greinar

75 ára afmæli lýðveldisins

Deila grein

17/06/2019

75 ára afmæli lýðveldisins

Við minnumst 75 ára afmælis íslenska lýðveldisins í dag.

Þegar við hugsum til þess sem helst hefur mótað lýðveldið okkar og það sem skilgreinir okkur sem þjóð er ljóst að menningin, tungumálið og bókmenntirnar eru í lykilhlutverki. Í sjálfstæðisbaráttunni var þjóðtungan ein helsta röksemd þess að Íslendingar væru sérstök þjóð og sjálfstæðiskröfur okkar réttmætar. Tungumálið er þannig lykillinn að sjálfsmynd okkar og líkt og lýðræðið stendur íslenskan á ákveðnum tímamótum. Hvorugt ættum við að álíta sjálfsagðan hlut, hvorki þá né í dag.

Við getum horft til afmælisbarns dagsins, Jóns Sigurðssonar forseta, í því samhengi. Hann hafði djúpstæð áhrif á Íslandssöguna sem fræði- og stjórnmálamaður, og fræðistörfin mótuðu um margt orðræðu hans á vettvangi stjórnmálanna. Hann var óhræddur við að vera á öndverðri skoðun en samtímamenn sínir, hann beitti gagnrýninni hugsun – rökum og staðreyndum, í sínum mikilvæga málflutningi. Það var raunsær hugsjónamaður sem kom okkur á braut sjálfstæðis. Gagnrýnin hugsun er að mínu mati það sem einna helst mun stuðla að jákvæðri þróun þessara tveggja lykilþátta; lýðræðisins og tungumálsins. Lýðræðið gerir okkur að frjálsum borgurum og veitir okkur tækifæri til virkrar þátttöku í mótun samfélagsins. Að sama skapi hvílir á okkur mikil ábyrgð vegna þessa og það er skylda okkar að afla þekkingar á málefnum líðandi stundar til styrkja lýðræðið. Það sem helst vinnur gegn framförum hvers samfélags er áhuga- og afskiptaleysi. Virk þátttaka og rýni til gagns skila okkur mestum árangri, hvort sem verkefnin eru lítil eða risavaxin.

Sú staðreynd að við getum fjölmennt á samkomur víða um land til þess að fagna þessum merka áfanga í sögu þjóðarinnar er ekki sjálfgefin. Sú elja og þrautseigja sem forfeður okkar sýndu í sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar lagði grunninn að þeim stað sem við erum á í dag. Það er okkar og komandi kynslóða að halda áfram á þeim grunni. Ég óska okkur öllum til hamingju með 75 ára afmæli lýðveldisins Íslands.

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Frettablaðinu 17. júní 2019.

Categories
Greinar

Kvennahlaup sem skiptir máli, fyrr og nú

Deila grein

15/06/2019

Kvennahlaup sem skiptir máli, fyrr og nú

Mark­mið Kvenna­hlaups­ins er að hvetja kon­ur á öll­um aldri til auk­inn­ar heilsu­efl­ing­ar og til frek­ari þátt­töku í starfi íþrótta­hreyf­ing­ar­inn­ar á Íslandi. Það hef­ur sann­ar­lega mælst vel fyr­ir og því til stuðnings seg­ir það sitt að Kvenna­hlaupið hef­ur lengi verið stærsti ein­staki íþróttaviðburður­inn á Íslandi. Þátt­taka í hlaup­inu hef­ur auk­ist jafnt og þétt og ár hvert hlaupa þúsund­ir kvenna um allt land og njóta þess að hreyfa sig sam­an. Dæt­ur, mæður, frænk­ur, syst­ur og vin­kon­ur taka þátt og þar eru börn, ung­menni og karl­ar einnig vel­kom­in.

Kvenna­hlaupið sam­ein­ar tvo mik­il­væga þætti í lífi okk­ar allra – sam­veru og hreyf­ingu. Þar er hvatt til sam­stöðu kvenna og að hver njóti þess að hreyfa sig á sín­um for­send­um og eigi ánægju­lega sam­veru­stund með fjöl­skyldu og vin­um. Ljóst er að kon­ur eru meira áber­andi á vett­vangi íþrótt­anna nú en fyr­ir 30 árum, hróður ís­lenskra íþrótta­kvenna eykst og þær hafa náð frá­bær­um ár­angri á heimsvísu, og marg­ar kon­ur eru nú í for­svari fyr­ir íþrótta­hreyf­ing­una hér­lend­is. Áfram­hald­andi hvatn­ing og vit­und­ar­vakn­ing um heilsu­efl­ingu er okk­ur öll­um mik­il­væg. Við ætt­um að nýta öll slík tæki­færi, ekki síst þegar þau stuðla að slík­um sam­ein­ing­ar­krafti og henta þátt­tak­end­um á öll­um aldri.

Ég vil þakka þeim fjöl­mörgu sem komið hafa að Kvenna­hlaup­un­um þessa þrjá ára­tugi og tekið þátt í skipu­lagn­ingu þeirra víða um land og er­lend­is. Fjölda­marg­ir sjálf­boðaliðar hafa lagt verk­efn­inu lið og tekið þátt í að skapa skemmti­lega stemn­ingu fyr­ir þátt­tak­end­ur. Án þeirra hefði hlaupið ekki blómstrað eins og raun ber vitni. Ég óska þátt­tak­end­um og aðstand­end­um hjart­an­lega til ham­ingju með þessi merku tíma­mót og hlakka til að taka þátt í Kvenna­hlaup­um framtíðar­inn­ar.

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 15. júní 2019.

Categories
Greinar

Veldisvöxtur í lestri

Deila grein

12/06/2019

Veldisvöxtur í lestri

Það að lesa er sjálf­sagður hlut­ur fyr­ir marga, fæst­ir hugsa nokkuð um það hversu mikið þeir lesa á degi hverj­um. Fyr­ir unga les­end­ur skipt­ir það hins veg­ar lyk­il­máli hversu mikið, hversu oft og hvers kon­ar efni þeir lesa. Nú er sum­arið runnið upp, þá er tími úti­vist­ar, leikja og ferðalaga en á þeim tíma er sér­stak­lega mik­il­vægt að hjálpa unga fólk­inu okk­ar að muna eft­ir lestr­in­um. Það er staðreynd að ef barn les ekk­ert yfir sum­ar­tím­ann get­ur orðið allt að þriggja mánaða aft­ur­för í lestr­ar­færni þess í frí­inu. Hið já­kvæða er að það þarf ekki mikið til að börn viðhaldi færn­inni eða taki fram­förum. Rann­sókn­ir sýna að til þess að koma í veg fyr­ir slíka aft­ur­för dug­ar að lesa 4-5 bæk­ur yfir sum­arið, eða lesa að jafnaði tvisvar til þris­var í viku í um það bil 15 mín­út­ur í senn. Í þessu sam­hengi má segja að hver mín­úta skipti máli.

Sam­kvæmt breskri lestr­ar­rann­sókn skipt­ir ynd­is­lest­ur sköp­um þegar kem­ur að orðaforða barna, en orðaforði er grund­vall­arþátt­ur lesskiln­ings og þar með alls ann­ars náms. Rann­sókn­in leiddi í ljós að ef barn les í 15 mín­út­ur á dag alla grunn­skóla­göngu sína kemst það í tæri við 1,5 millj­ón­ir orða. Ef barnið les hins veg­ar í um 30 mín­út­ur á dag kemst það í tæri við 13,7 millj­ón­ir orða. Sá veld­is­vöxt­ur gef­ur skýr­ar vís­bend­ing­ar um hversu mik­il­væg­ur ynd­is­lest­ur er fyr­ir ár­ang­ur nem­enda.

En við les­um ekki lestr­ar­ins vegna held­ur af áhuga. Því eru skemmti­leg­ar bæk­ur og hæfi­lega flókn­ir text­ar besta hvatn­ing­in sem get­um fært ung­um les­end­um. Hver ein­asti texti er tæki­færi, hvort sem hann er í bók, á blaði eða á skjá og sem bet­ur fer eru ung­ir les­end­ur áhuga­sam­ir um allt mögu­legt. Ég hvet alla til þess að vera vak­andi fyr­ir áhuga­sviði ungra les­enda í sín­um ranni og miðla fróðlegu, skemmti­legu og krefj­andi les­efni áfram til þeirra með öll­um mögu­leg­um ráðum. Það er ekki bara gott og upp­byggi­legt fyr­ir viðkom­andi les­anda held­ur okk­ur öll. Á bóka­söfn­um lands­ins má til að mynda finna spenn­andi og áhuga­vert efni fyr­ir alla ald­urs­hópa. For­senda þess að verða virk­ur þátt­tak­andi í lýðræðisþjóðfé­lagi er góð lestr­ar­færni; að geta lesið, skrifað og gert grein fyr­ir skoðunum sín­um. Því er það sam­fé­lags­legt verk­efni okk­ar allra að bæta læsi og lestr­ar­færni á Íslandi, þar höf­um við allt að vinna.

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 12. júní 2019.

Categories
Greinar

Víðtækar aðgerðir til aukins jafnvægis á húsnæðismarkaði

Deila grein

08/06/2019

Víðtækar aðgerðir til aukins jafnvægis á húsnæðismarkaði

Hús­næðismál eru eitt stærsta vel­ferðar­mál þjóðar­inn­ar. Þak yfir höfuðið er ein af grunnþörf­um manns­ins og ör­uggt hús­næði óháð efna­hag og bú­setu er ein af grunn­for­send­um öfl­ugs sam­fé­lags.

Hús­næðismarkaður­inn hér á landi hef­ur ein­kennst af mikl­um sveifl­um í gegn­um tíðina, ekki síst síðastliðinn ára­tug. Í dag er staðan sú að stór hóp­ur fólks býr við þröng­an kost og óör­yggi í hús­næðismál­um og marg­ir, einkum þeir tekju­lægri, hafa tak­markaðan aðgang að viðun­andi hús­næði. Þeir verja sömu­leiðis of stór­um hluta tekna sinna í hús­næði. Við það verður ekki unað.

Nú­ver­andi rík­is­stjórn hef­ur frá upp­hafi haft skýra stefnu í hús­næðismál­um. Hún er að tryggja jafn­vægi á hús­næðismarkaði og nægj­an­legt fram­boð af viðun­andi hús­næði fyr­ir alla, óháð efna­hag og bú­setu.

Hús­næðismál hafa verið sett í skýr­an for­gang en til marks um það má nefna að þriðjung­ur þeirra 38 aðgerða sem rík­is­stjórn­in lagði fram í tengsl­um við lífs­kjara­samn­ing­ana snýr að hús­næðismál­um. Gert er ráð fyr­ir að Íbúðalána­sjóður fylgi þeim aðgerðum eft­ir og skili stöðuskýrslu þris­var á ári svo að sem best yf­ir­sýn fá­ist yfir fram­gang þeirra.

Til að skapa auk­inn stöðug­leika á hús­næðismarkaði þarf breytta um­gjörð í hús­næðismál­um, sem grund­vall­ast á stefnu­mót­un og áætlana­gerð til langs tíma og er byggð á áreiðan­leg­um upp­lýs­ing­um. Mörg mik­il­væg skref hafa verið stig­in í þá átt á nýliðnum vetri. Íbúðalána­sjóði hef­ur verið falið mik­il­vægt hlut­verk í þeim efn­um með breyt­ingu á lög­um um hús­næðismál og er það fagnaðarefni að sterk stofn­un fari nú með sam­hæf­ingu og fram­kvæmd hús­næðismála á landsvísu.

Þá hef­ur sveit­ar­fé­lög­un­um verið falið veiga­mikið hlut­verk við gerð hús­næðisáætl­ana en þær munu fram­veg­is vera lyk­ilþátt­ur í stefnu­mót­un stjórn­valda í hús­næðismál­um. Í þeirri aðgerð krist­all­ast mik­il­vægi þess að gott sam­starf sé á milli rík­is og sveit­ar­fé­laga þegar kem­ur að hús­næðismál­um.

Í apríl síðastliðnum skilaði starfs­hóp­ur á mín­um veg­um skýrslu með fjór­tán til­lög­um til að auðvelda ungu fólki og tekju­lág­um að kom­ast inn á hús­næðismarkaðinn. Þær miða sér­stak­lega að því að auðvelda fyrr­nefnd­um hóp­um að safna fyr­ir út­borg­un í íbúð og létta hjá þeim af­borg­un­ar­byrði lána. Eru þær nú í vinnslu inn­an stjórn­sýsl­unn­ar til end­an­legr­ar út­færslu.

Mark­visst hef­ur einnig verið unnið að fjölg­un hag­kvæmra leigu­íbúða í gegn­um upp­bygg­ingu al­menna íbúðakerf­is­ins sem studd er af stofn­fram­lög­um rík­is og sveit­ar­fé­laga. Ljóst er að mik­il þörf er á slíku úrræði en al­menna íbúðakerfið mun auka aðgengi tekju- og eignalágra að ör­uggu leigu­hús­næði á viðráðan­legu verði.

Á haust­mánuðum fór Íbúðalána­sjóður jafn­framt af stað með til­rauna­verk­efni að mínu frum­kvæði í því skyni að leita leiða til þess að bregðast við langvar­andi stöðnun á hús­næðismarkaði á lands­byggðinni. Í sam­vinnu við Byggðastofn­un og Sam­band ís­lenskra sveit­ar­fé­laga valdi sjóður­inn sjö sveit­ar­fé­lög sem eru að glíma við ólík­ar áskor­an­ir í hús­næðismál­um en eiga það sam­eig­in­legt að óvirk­ur íbúða- og/​eða leigu­markaður hef­ur staðið framþróun fyr­ir þrif­um.

Unnið hef­ur verið að því með til­rauna­sveit­ar­fé­lög­un­um að greina þann vanda sem þau standa frammi fyr­ir og á grund­velli þeirr­ar vinnu hef­ur Íbúðalána­sjóður unnið til­lög­ur að lausn­um til þess að mæta þeim áskor­un­um sem steðja að. Þær snúa meðal ann­ars að því hvernig hægt sé að koma til móts við það mis­vægi sem rík­ir á milli bygg­ing­ar­kostnaðar og markaðsverðs á stór­um hluta lands­ins, ásamt því að tryggja aðgengi að fjár­magni á sam­bæri­leg­um kjör­um og fást á virk­ari markaðssvæðum. Þegar lausn­irn­ar verða komn­ar til fram­kvæmda verður lagt mat á áhrif þeirra á köld­um markaðssvæðum á lands­byggðinni með til­liti til þess hvort þær geti orðið að var­an­leg­um úrræðum til að bregðast við óvirk­um íbúða- eða leigu­markaði á lands­byggðinni til framtíðar.

Sem stend­ur funda Íbúðalána­sjóður og Mann­virkja­stofn­un með sveit­ar­fé­lög­um um allt land en stefn­an er að efla sam­vinnu rík­is og sveit­ar­fé­laga þegar kem­ur að stefnu­mót­um í hús­næðismál­um og skip­an hús­næðismála til framtíðar. Til­gang­ur þeirra funda er að kynna tvö ný stjórn­tæki hins op­in­bera; rík­is og sveit­ar­fé­laga, sem koma til með að skipta sköp­um í hús­næðismál­um til framtíðar. Þetta eru hús­næðisáætlan­ir sveit­ar­fé­laga og bygg­ing­argátt sem munu gera það bet­ur kleift að greina þörf fyr­ir hús­næði, gera áætlan­ir til þess að mæta þeirri þörf og fylgj­ast með því hvort verið sé að byggja hús­næði í sam­ræmi við þörf á hverj­um tíma.

Aðgengi að viðun­andi hús­næði er öll­um nauðsyn­legt. Í þeim efn­um bera stjórn­völd ríka ábyrgð. Ég er þess full­viss að þau skref sem við höf­um stigið síðustu miss­eri marki ákveðin vatna­skil, leggi grunn­inn að bættri um­gjörð í hús­næðismál­um og færi okk­ur í átt­ina að því mark­miði að tryggja jafn­vægi á hús­næðismarkaði ásamt nægj­an­legu fram­boði af hús­næði fyr­ir alla, óháð efna­hag og í öll­um byggðum lands­ins.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 8. júní 2019.

Categories
Greinar

Áfram íslenska

Deila grein

08/06/2019

Áfram íslenska

Þings­álykt­un­ar­til­laga um að efla ís­lensku sem op­in­bert mál hér á landi var samþykkt með með 55 sam­hljóða at­kvæðum á Alþingi í gær. Það er sér­lega gleðilegt að finna þann meðbyr sem er með til­lög­unni bæði á þing­inu og úti í sam­fé­lag­inu. Það er póli­tísk samstaða um að leggja í veg­ferð til að vekja sem flesta til vit­und­ar um mik­il­vægi þess að við höld­um áfram að tala ís­lensku í þessu landi. Við eig­um að nota okk­ar lit­ríka og lif­andi tungu­mál til allra hluta, hvort sem er í starfi eða leik.

Tungu­mál sem þró­ast
Við eig­um ekki að vera feim­in við ís­lensk­una, hún er okk­ar. Hún hef­ur þjónað Íslend­ing­um í nær 1150 ár og hún hef­ur þraukað all­an þenn­an tíma ein­mitt af því hún hef­ur óspart verið notuð. Þannig hef­ur hún þró­ast en ekki staðnað. Hún á ekki heima á safni, hún er tæki sem við eig­um að nota alla daga, all­an dag­inn til hvers kyns sam­skipta. Við eig­um að skapa, skrifa, lesa og syngja á henni – og kannski það sem er mik­il­væg­ast: við eig­um að leika okk­ur með hana.

Íslenska á öll­um sviðum
Meg­in­mark­mið þings­álykt­un­ar­inn­ar sem nú hef­ur verið samþykkt, eru þau að ís­lenska verði notuð á öll­um sviðum sam­fé­lags­ins, að ís­lensku­kennsla verði efld á öll­um skóla­stig­um ásamt mennt­un og starfsþróun kenn­ara og að framtíð ís­lenskr­ar tungu í sta­f­ræn­um heimi verði tryggð. Í álykt­un­inni eru til­tekn­ar 22 aðgerðir til að ná þess­um mark­miðum. Þær ná til skól­anna, inn á heim­il­in, inn í snjall­tæk­in, til allra list­greina, út í at­vinnu­lífið, inn í stjórn­sýsl­una, til ferðaþjón­ust­unn­ar, inn í fjöl­miðlana, til bóka­út­gáf­unn­ar, inn á bóka­söfn­in, inn í tölvu­heim­inn og út á göt­urn­ar. Við vilj­um ná til allra, hvar sem þeir eru.

Fjölþætt­ar aðgerðir
Nokkr­um aðgerðum hef­ur þegar verið ýtt úr vör og má þar nefna stuðning við út­gáfu bóka á ís­lensku en með því að end­ur­greiða allt að fjórðung beins kostnaðar vegna út­gáf­unn­ar er mynd­ar­lega stutt við aukið fram­boð á ís­lensku efni. Þá hef­ur verið sett­ur á lagg­irn­ar nýr sjóður til að styrkja sér­stak­lega út­gáfu barna- og ung­menna­bóka á ís­lensku en óum­deilt er að sár­lega vant­ar meira fram­boð af bók­um sem hæfa yngri les­end­um. Ný­lega var út­hlutað í fyrsta sinn úr þess­um sjóði til 20 verk­efna. Þetta eru bæk­ur af ólík­um toga og fyr­ir ýms­an ald­ur. Sjóður­inn sjálf­ur fékk nafnið Auður sem þótti vel hæfa, enda er hon­um ætlað að minna á raun­veru­leg­an fjár­sjóð þjóðar­inn­ar, bók­mennt­irn­ar. Þjóðarsátt­máli um læsi er enn í fullu gildi og verður fram haldið af þunga. Auk­in áhersla verður lögð á fræðslu til for­eldra og upp­al­enda ungra barna um mik­il­vægi þess að leggja grunn að málþroska og læsi barna strax í bernsku. Þegar er búið að leggja upp með áætl­un um að auka nýliðun í kenn­ara­stétt m.a. með launuðu starfs­námi og náms­styrkj­um í starfstengdri leiðsögn. Fleiri til­lög­ur sem snerta kenn­ara­nám og starfsþróun kenn­ara eru í burðarliðnum. Þá liggja fyr­ir til­lög­ur um stuðning við einka­rekna fjöl­miðla um miðlun efn­is á ís­lensku. Við ætl­um einnig að huga sér­stak­lega að þeim sís­tækk­andi hópi sem lær­ir ís­lensku sem annað mál, bæði skóla­börn­um og full­orðnum inn­flytj­end­um og finna leiðir til að auðvelda þeim að ná tök­um á tungu­mál­inu. Þá leggj­um við mikla áherslu á notk­un ís­lensku í hinum skap­andi grein­um. Íslensk­an er list­ræn, sama í hvaða formi list­in birt­ist.

Altalandi snjall­tæki
Til að tryggja að ís­lensk­an verði gjald­geng í sta­f­ræn­um heimi, ra­f­ræn­um sam­skipt­um og upp­lýs­inga­vinnslu sem bygg­ist á tölvu- og fjar­skipta­tækni er nú unnið eft­ir ver­káætl­un­inni Mál­tækni fyr­ir ís­lensku 2018-2022. Í því felst að þróa og byggja upp tækni­lega innviði sem nauðsyn­leg­ir eru til þess að brúa bil milli tal­máls og búnaðar, svo sem tal­greini, tal­gervil, þýðing­ar­vél og mál­rýni/​leiðrétt­ing­ar­for­rit. Það fylg­ir því nokk­ur fyr­ir­höfn að til­heyra fá­mennri þjóð sem tal­ar sitt eigið tungu­mál en við ætl­um ekki að verða eft­ir­bát­ar annarra sem geta notað sitt mál í sam­skipt­um við tölv­ur og snjall­tæki framtíðar­inn­ar. Sjálf­seign­ar­stofn­un­in Al­mannaróm­ur hef­ur verið feng­in til að halda utan um þetta risa­vaxna verk­efni sem þegar er farið af stað og er full­fjár­magnað.

All­ir leggja sitt af mörk­um
Ég þakka þær fjöl­mörgu ábend­ing­ar sem borist hafa við þings­álykt­un­ar­til­lög­una í ferli henn­ar í þing­inu, þær gagn­legu um­sagn­ir sem bár­ust og þá góðu um­fjöll­un sem málið fékk fengið í alls­herj­ar- og mennta­mála­nefnd. Við höf­um hafið ákveðna veg­ferð og þær aðgerðir sem lagðar eru til snerta velflest svið þjóðfé­lags­ins. Í þessu mik­il­væga máli þurfa all­ir að leggja sitt af mörk­um: stofn­an­ir, at­vinnu­líf og fé­laga­sam­tök – og við öll. Við get­um, hvert og eitt okk­ar, tekið þátt í að þróa tungu­málið okk­ar, móta það og nýta á skap­andi hátt. Það eru sam­eig­in­leg­ir hags­mun­ir okk­ar allra að ís­lensk­an dafni og þró­ist svo hún megi áfram þjóna okk­ur og gleðja alla daga.

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 8. júní 2019.

Categories
Greinar

Samvinnuverkefni

Deila grein

04/06/2019

Samvinnuverkefni

Nýverið samþykkti ríkisstjórnin að veita 45 milljónum kr. til aðgerðaáætlunar til að efla menntaúrræði á Suðurnesjum. Aðgerðirnar eru liður í viðbrögðum stjórnvalda við gjaldþroti Wow air í lok mars. Með menntun stuðlum við að framþróun og uppbyggingu og þegar mæta þarf áskorunum af þessu tagi horfum við sérstaklega til aðgerða sem skapað geta tækifæri til framtíðar.

Í byrjun apríl fundaði ég með fulltrúum fræðsluaðila og íbúum Suðurnesja og í kjölfarið var stofnaður starfshópur um málið innan ráðuneytisins. Hlutverk hans var að móta aðgerðaáætlun sem byggir á sýn heimamanna og stjórnvalda ásamt því að vakta og miðla upplýsingum um stöðu og þróun mála, með sérstakri áherslu á greiningu á aðstæðum þeirra hópa sem verst stæðu. Markmið aðgerðanna er meðal annars að aðgengi að námi á öllum skólastigum sé tryggt, að þjónusta við fólk með annað móðurmál en íslensku sé tryggð og að ekki verði fall í þátttöku barna og ungmenna í frístunda- og íþróttastarfi eða tónlistarnámi. Þá er sérstök áhersla á að fyrirbyggja athafnaleysi yfir sumarmánuðina m.a. með sumarstarfsemi menntastofnana á svæðinu.

Gott samráð er við fræðsluaðila á svæðinu, svo sem Fjölbrautaskóla Suðurnesja, Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum og Keili, svo og Vinnumálastofnun. Teknar hafa verið saman hugmyndir þeirra sem nýst geta ólíkum hópum á svæðinu. Í fyrri hluta áætlunarinnar verður meðal annars áhersla á íþrótta- og æskulýðsstarf , raunfærnimat með náms- og starfsráðgjöf og styttri námslínur og námskeið.

Það er fjölbreytt námsframboð á Suðurnesjum og fræðsluaðilar þar vinna frábært starf, við það viljum við styðja. Þar hefur orðið umtalsverð fólksfjölgun á síðustu árum og því er mikilvægt að innviðir geti tekið við þeim sem vilja stunda nám – til þess horfum við meðal annars með fyrirhugaðri stækkun á húsakynnum Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Forsenda velferðar og lífsgæða á Íslandi er öflugt og fjölbreytt atvinnulíf þar sem til staðar eru störf fyrir menntað fólk sem stuðlar að nýsköpun og þróun. Það er samvinnuverkefni okkar að skapa slíkar aðstæður.

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 4. júní 2019.

Categories
Greinar

Vor í menntamálum – uppskeran í hús

Deila grein

03/06/2019

Vor í menntamálum – uppskeran í hús

Nú er til­hlökk­un í loft­inu. Tími skóla­slita og út­skrifta hjá yngri kyn­slóðinni, skóla­vet­ur­inn að baki og allt sum­arið framund­an. Þessi upp­skeru­tími er öll­um dýr­mæt­ur, ekki síst kenn­ur­um sem nú horfa stolt­ir á ár­ang­ur sinna starfa. Ég hvet nem­end­ur og for­eldra til þess að horfa stolt­ir til baka á kenn­ar­ana sína og íhuga hlut­deild þeirra og hlut­verk í þeirri veg­ferð sem mennt­un er. Mennt­un er sam­vinnu­verk­efni og kenn­ar­ar eru mik­il­væg­ir áhrifa­vald­ar í lífi nem­enda sinna. Kenn­ar­ar eru líka hreyfiafl okk­ar til góðra verka og fram­fara í ís­lensku mennta­kerfi en starf og ár­ang­ur kenn­ara bygg­ist á sjálf­stæði þeirra og fag­mennsku, næmi fyr­ir ein­stak­lingn­um og þeim ólíku leiðum sem henta hverj­um nem­enda til að byggja upp hæfni sína.

Það eru virki­lega ánægju­leg­ar frétt­ir að um­sókn­um í kenn­ara­nám hef­ur fjölgað veru­lega. Þannig fjölgaði um­sókn­um um fram­halds­nám til kennslu­rétt­inda í leik- og grunn­skóla­kenn­ara­námi við Há­skóla Íslands um 30% miðað við meðaltal síðustu fimm ára, sam­kvæmt upp­lýs­ing­um frá Menntavís­inda­sviði Há­skóla Íslands, og um­sókn­um í list­kennslu­deild Lista­há­skóla Íslands fjölgaði um 122% frá síðasta ári. Þetta eru að mínu mati góðar vís­bend­ing­ar um að við séum á réttri leið. Kenn­ara­starfið er enda spenn­andi kost­ur sem býður upp á fjöl­breytta starfs­mögu­leika og mikið starfs­ör­yggi.

Fyrr í vor kynnt­um við aðgerðir sem miða að fjölg­un kenn­ara en í þeim felst meðal ann­ars að frá og með næsta hausti býðst leik- og grunn­skóla­kenn­ara­nem­um á loka­ári launað starfs­nám. Þá geta nem­end­ur á loka­ári meist­ara­náms til kennslu­rétt­inda á leik- og grunn­skóla­stigi sótt um náms­styrk sem nem­ur alls 800.000 kr. til að sinna loka­verk­efn­um sín­um sam­hliða launuðu starfs­námi. Enn frem­ur eru veitt­ir styrk­ir til að fjölga kenn­ur­um með sér­hæf­ingu í starfstengdri leiðsögn sem m.a. taka á móti nýj­um kenn­ur­um sem koma til starfa í skól­um. Um­sókn­um um slíkt nám hef­ur fjölgað um 100% milli ára, sam­kvæmt upp­lýs­ing­um frá Há­skóla Íslands.

Öflugt mennta­kerfi er for­senda fram­fara og það kerfi er borið uppi af kenn­ur­um. Það er eft­ir­tekt­ar­verð gróska í ís­lensk­um skól­um þessi miss­er­in og mik­il og þörf umræða um skólastarf og hlut­verk þess til framtíðar. Ég fagna því um leið og ég óska kenn­ur­um, nem­end­um og öðru skóla­fólki gleðilegs sum­ars.

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 2. júní 2019.

Categories
Greinar

Framsókn íslensks landbúnaðar

Deila grein

29/05/2019

Framsókn íslensks landbúnaðar

Íslenskur landbúnaður hefur ætíð staðið hjarta mínu nærri. Ég hef í gegnum tíðina, bæði í störfum mínum í stjórnmálum og ekki síður sem dýralæknir, séð þann mikla metnað sem íslenskir bændur hafa sýnt í störfum sínum. Sá metnaður hefur gert það að verkum að Íslendingar eru í einstakri stöðu þegar kemur að gæðum íslenskra afurða. Það sem er mikilvægast í matvælaframleiðslu heimsins í dag er heilbrigði búfjár og heilnæmi matvæla. Vísindamenn hafa sagt að ef ekkert verður að gert verði sýklalyfjaónæmi heilsufarsfaraldur á næstu áratugum sem lýsir sér til dæmis að því að spáð er að fleiri muni látast af völdum sýklalyfjaónæmra baktería árið 2050 en látist af völdum krabbameins.

Lýðheilsa í fyrsta sæti

Það er margsannað að notkun sýklalyfja í íslenskum landbúnaði er með því minnsta sem þekkist í heiminum. Það skapar okkur algjöra sérstöðu sem við viljum standa vörð um af fullum krafti. Það var því mikill áfangi fyrir Framsókn þegar ríkisstjórnin tilkynnti í dag að stefnt væri að banni við dreifingu matvæla sem sýkt er af ákveðnum tegundum sýklalyfjaónæmra baktería. Þessu höfum við barist fyrir innan og utan þings, til dæmis með fjölmennum opnum fundi í febrúar þar sem Lance Price, prófessor við Washington háskóla og Karl G. Kristinsson prófessor við Háskóla Íslands og yfirlæknir á sýklafræðideild Landspítalans sögðu frá mikilvægum rannsóknum sínum og annarra vísindamanna.

Hagsmunir neytenda og bænda fara saman

Það hafa líka orðið umskipti í umræðunni um innflutning á hráu kjöti í vetur. Við höfum náð að vekja almenning betur til vitundar um gæði og sérstöðu íslensks landbúnaðar. Þessum árangri höfum við náð með góðum stuðningi bænda og neytenda. Það er enda ljóst að hagsmunir bænda og neytenda fara saman í þessu máli þótt margir hafi lagt mikið á sig í áróðrinum um að það séu hagsmunir neytenda að innflutningur á matvælum sé óheftur.

Endurskoðun tollasamnings

Tollamál í landbúnaði verða jafnframt tekin til skoðunar strax á þessu ári, m.a. með því að kanna þróun tollverndar í landbúnaði og tollflokkun í því skyni að gera skráningu bæði inn- og útflutnings nákvæmari og skilvirkari. Í ljósi áhrifa útgöngu Breta úr Evrópusambandinu verður gerð greining á tollasamningi Íslands og ESB frá 2015 fyrir landbúnaðinn og neytendur og samningurinn endurskoðaður komi í ljós að forsendur hans standist ekki lengur. Fleiri atriði er að finna í aðgerðaáætluninni og í áliti meirihluta atvinnuveganefndar.

Stuðningur við nýsköpun í matvælaframleiðslu stóraukinn

Frumvarp um breytingu á lögum sem samþykkt var í atvinnuveganefnd Alþingis eru ekki aðeins viðbrögð við dómum um innflutning á hráu kjöti heldur framsókn fyrir íslenskan landbúnað. Nú tekur við undirbúningur þar sem byggt er vísindalega undir sérstöðu íslensks landbúnaðar með það að markmiði að bann verði komið á dreifingu matvæla með sýklalyfjaónæmum bakteríum fyrsta október 2021. Þetta hefur ekki einungis áhrif á kjöt heldur öll matvæli.

Samhliða er lögð fram þingsályktun um sérstaka aðgerðaáætlun í 17 liðum sem ætlað er að efla matvælaöryggi, vernd búfjárstofna og samkeppnisstöðu íslensks landbúnaðar. Fjölmörg verkefni önnur eru í áætluninni og má þar nefna bann við dreifingu fersks alifuglakjöts nema að sýnt sé fram á að það sé ekki mengað af kampýlóbakter. . Þetta er sama regla og gildir um innlenda framleiðslu í dag.  Búið er að sækja um viðbótartryggingar vegna salmonellu fyrir alifugla, svína og nautakjöt. Matvælaeftirlit verður eflt í þágu neytendaverndar og tekið til sérstakrar skoðunar hvernig því verði best fyrir komið. Merkingar matvæla verða bættar, fræðsla til ferðamanna aukin og reglur um innflutning til einkaneyslu hertar.  Unnið verður af krafti að mótun matvælastefnu og innleiðingar nýrrar innkaupastefnu ríkisins m.a. með stuðningi ráðherranefndar undir forystu forsætisráðherra.  Stuðningur við nýsköpun í innlendri matvælaframleiðslu verður efldur verulega samhliða með nýjum sjóði sem byggi á grunni núverandi nýsköpunarsjóða í landbúnaði og sjávarútvegi.

Við í Framsókn viljum þakka öllum þeim sem hafa stutt okkur í baráttunni sem við sjáum nú verða að veruleika í öflugri framsókn gegn sýklalyfjaónæmi.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og dýralæknir.

Greinin birtist fyrst á bbl.is 29. maí 2019.

Categories
Greinar

Framsókn gegn sýklalyfjaónæmi

Deila grein

29/05/2019

Framsókn gegn sýklalyfjaónæmi

Ríkisstjórnin kynnti í dag að Ísland stefndi fyrst ríkja að banni á dreifingu á matvælum með sýklalyfjaónæmum bakteríum. Þetta hefur verið mikið baráttumál Framsóknar eins fólk hefur eflaust tekið eftir. Í febrúar héldum við fjölmennan opinn fund þar sem Lance Price, prófessor við Washington háskóla og Karl G. Kristinsson prófessor við Háskóla Íslands og yfirlækni við sýklafræðideild Landspítalans fjölluðu um þá ógn sem heiminum stafar af sýklalyfjaónæmi. Spár vísindamanna sýna að ef ekki er brugðist við af mikilli festu þá muni um 10 milljónir deyja af völdum sýklalyfjaónæmra baktería árið 2050, fleiri en af völdum krabbameins.

Einstök staða í íslenskum landbúnaði
Á Íslandi búum við að einstakri stöðu þar sem sýklalyfjanotkun er með því minnsta sem þekkist í heiminum. Vandamálið felst nefnilega að hluta til í því að á mörgum verksmiðjubúum meginlandsins er sýklalyfjum bætt í fóður til að koma í veg fyrir sýkingar og auka vöxt búfjár. Það þekkist ekki hér þar sem sýklalyf eru einungis gefin undir handleiðslu dýralækna.

Lýðheilsa og dýraheilbrigði
Þessi framsókn Íslands gegn sýklalyfjaónæmi er tengd því sem oft er kallað hráa-kjöts-málið. Við í Framsókn höfum lagt gríðarlega áherslu á það í vinnu við þingsályktun og lagafrumvarp að tryggja það að lýðheilsa þjóðarinnar og heilbrigði dýra séu eins og best verður á kosið og að íslenskur landbúnaður keppi á jafnréttisgrundvelli við innflutt matvæli. Við höfum óttast að óheftur innflutningur matvæla frá svæðum með stórum verksmiðjubúum þar sem dýraheilbrigði er fyrir borð borið myndi refsa íslenskum matvælaframleiðendum fyrir að framleiða hágæða matvæli og einfaldlega knýja þá til að draga úr gæðum í framleiðslu. Með þeim aðgerðum sem boðaðar hafa verið er íslenskur landbúnaður í sókn en ekki vörn. Þess ber að geta að bann við sýklalyfjaónæmum bakteríum í matvælum nær ekki aðeins til kjöts heldur einnig annarra matvæla, svo sem grænmetis.

Aukið eftirlit á markaði
Viðbótartryggingar eða vottorð verður að leggja fram við innflutning matvæla og verður sérstakt átak gert í því að kanna að þessar viðbótartryggingar séu réttar. Auk þess verður aukið eftirlit á markaði til að tryggja það að við getum treyst því að þau matvæli sem standa okkur til boða standist þær kröfur sem neytendur gera. Átak verður gert í upprunamerkingum til að neytendur viti hvaðan matvælin koma.

Lífsgæði að geta gengið að hreinum matvælum
Það er ákaflega ómaklegt hvernig íslenskum bændum hefur verið stillt upp sem andstæðingum neytenda og hefur verslunin beitt því áróðursbragði óspart í baráttu sinni fyrir óheftum innflutningi á kjöti. Það er ljótur leikur. Það eru hagsmunir allra að við getum treyst því að þær matvörur sem við leggjum til munns séu ósýktar. Í því felast mikil lífsgæði að geta gengið að hreinum og góðum landbúnaðarafurðum. Þessu hafa Íslendingar áttað sig á og á síðustu mánuðum hefur meðvitund Íslendinga um mikilvægi gæða þess sem við látum ofan í okkur stóraukist. Við í Framsókn viljum þakka öllum þeim sem hafa stutt okkur í baráttunni sem við sjáum nú verða að veruleika í öflugri framsókn gegn sýklalyfjaónæmi.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og dýralæknir.

Greinin birtist fyrst á frettabladid.is 29. maí 2019.

Categories
Greinar

Sameinað Alþingi

Deila grein

27/05/2019

Sameinað Alþingi

Staða innflytjenda í menntakerfinu var nýverið til umræðu á Alþingi og var málshefjandi umræðunnar Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir. Umræðurnar snerust mikið til um stöðu barna og ungmenna með annað móðurmál en íslensku. Rannsóknir benda til þess að ein helsta áskorun íslensks menntakerfis sé staða slíkra nemenda en hlúa þarf mun betur að námsframvindu þeirra. Niðurstöður alþjóðlegu menntakönnunarinnar PISA staðfesta mikilvægi þess, skólasókn innflytjenda í framhaldsskóla er minni en annarra nemenda og vísbendingar eru um að brottfall sé algengara meðal þeirra og aðsókn í háskóla minni.

Áskoranir þessara nemenda eru margþættar en tungumálið er óneitanlega sú stærsta. Stjórnvöld leggja nú sérstaka áherslu á að efla íslenskuna á sem flestum sviðum. Fyrir Alþingi liggur þingsályktunartillaga þess efnis og inniheldur hún heildstæða aðgerðaáætlun í 22 liðum. Í henni er meðal annars lagt til að þeir sem búsettir eru á Íslandi og hafa annað móðurmál en íslensku, börn jafnt sem fullorðnir, fái viðeigandi og jafngild tækifæri til íslenskunáms og stuðning í samræmi við þarfir sínar. Að auki hefur verið settur á laggirnar starfshópur sem Jóhanna Einarsdóttir, prófessor í menntunarfræðum ungra barna, fer fyrir. Sá hópur mun móta heildarstefnu í málefnum barna með annað móðurmál en íslensku. Einnig höfum við þegar gripið til beinna aðgerða til að bæta þjónustu með því að þrefalda framlög til sérstakrar íslenskukennslu.

Það sem var ánægjulegast við þessa sérstöku um­ræðu í þinginu var sá einhugur sem ríkir um að gera betur í málefnum barna með annað móðurmál en íslensku. Sú þverpólitíska samstaða um að gera betur í þessum efnum er dýrmæt og þótti mér vænt um að heyra innlegg þeirra þingmanna, úr öllum flokkum, sem lögðu sitt af mörkum til hennar. Þingmenn eru tilbúnir í þessa vegferð og vilja bæta þá þjónustu sem við veitum börnunum okkar. Við erum opið og framsækið samfélag sem vill nýta hæfileika allra þeirra sem búa hér. Í sameiningu og samvinnu munum við vinna að umbótum á menntakerfinu, til heilla fyrir samfélagið allt.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 27. maí 2019.