Categories
Greinar

Orðspor ferðaþjónustunnar í húfi

Deila grein

22/04/2017

Orðspor ferðaþjónustunnar í húfi

Ferðaþjónustan á Íslandi hefur verið í örum vexti sl. ár. Hún hefur skapað verðmæti fyrir þjóðarbúið og leikið stórt hlutverk í endurreisn efnahagslífsins. Alþjóðleg samkeppni er hörð og því mikilvægt að menn séu samkeppnisfærir hvað varðar verð og gæði. Illa ígrundaðar skattkerfisbreytingar ríkisstjórnarinnar munu skaða þessa mikilvægu atvinnugrein.

Sú hækkun á virðisaukaskatti á ferðaþjónustuna sem nú liggur fyrir í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar mun án efa hafa neikvæð áhrif á framtíðaruppbyggingu ferðaþjónustunnar. Ríkisstjórnin telur að þessar skattabreytingar séu tímabærar en engar greiningar liggja fyrir um hvaða áhrif þær muni hafa á atvinnugreinina. Þolir ferðaþjónustan þessar skattahækkanir á sama tíma og krónan hefur styrkst verulega, laun hækkað og gistináttagjald þrefaldast? Ég tel að verðteygnin sé það takmörkuð að ferðaþjónustuaðilar geti ekki velt skattahækkuninni út í verðlagið. Slík hækkun myndi rýra samkeppnisstöðu okkar.

Reynsla nágrannaþjóða sýnir að breytingar á sköttum og gjöldum hafa ekki aðeins áhrif til skamms tíma heldur geta stjórnað aðsókn og afkomu mörg ár fram í tímann. Það hefur til að mynda tekið danska ferðaþjónustu meira en tuttugu ár að ná aftur upp fjölda gistinátta erlendra ferðamanna sem hrundi eftir hækkun á virðisaukaskatti þar í landi árið 1992.
Samkvæmt ríkisfjármálaáætlun mun virðisaukaskattur aðeins hækka á gistingu, ekki veitingasölu. Sú ákvörðun býður upp á skattaundanskot og alls kyns tilfærslur sem skekkja samkeppnisstöðu fyrirtækja, sérstaklega á milli minni og stærri aðila. Ef hægri stjórnin vill einfaldara og skilvirkara skattkerfi, þá er þetta ekki rétta leiðin.

Ég óttast að fyrirhugaðar skattkerfisbreytingar muni ýta undir svarta atvinnustarfsemi. Ég óttast að þeir aðilar sem kjósa að starfa „svart“ í faginu muni ekki hafa sama metnað og leggja jafn mikla áherslu á gæði og þeir sem stunda lögleg viðskipti. Til lengri tíma muni það skaða orðspor og ímynd ferðaþjónustunnar og laskað orðspor er erfitt að endurheimta.
Það er gagnrýnivert að svo hart sé vegið að einni af okkar undirstöðuatvinnugreinum án ítarlegra greininga á langtímaáhrifum.

Silja Dögg Gunnarsdóttir

Greinin birtist í Fréttablaðinu 21. apríl 2017.

Categories
Greinar

Hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustu er röng ákvörðun

Deila grein

18/04/2017

Hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustu er röng ákvörðun

Undanfarin ár hef ég fylgst af aðdáun með þeim krafti og áræðni sem hefur drifið áfram hraða uppbyggingu í ferðaþjónustu á fjölmörgum stöðum á Norður- og Austurlandi. Þrátt fyrir að landshlutinn búi við mun lakari kjör varðandi dreifingu ferðamanna en Suðvesturhornið má hvarvetna sjá ný fyrirtæki, ný störf, fjárfestingu og snjallar hugmyndir til að nýta ný tækifæri.

Allt gerist þetta vegna þess að fólkið á svæðinu hefur trú á því að ferðaþjónusta bæti einhverju við samfélagið. Með því að fara úti í þjónustu við ferðamenn eru grunnatvinnuvegir styrktir því bæði bein og afleidd þjónusta dafnar um leið og störfum fjölgar. Með því eru möguleikar á áframhaldandi búsetu auknir því byggðafesta verður meiri.

En til þess að slík starfsemi geti blómstrað þarf stöðugt rekstrarumhverfi og trygga samkeppnishæfni. Fyrir svæði eins og Norðausturland þar sem ferðamenn þurfa flestir að fara langa vegu frá komustað til að njóta þeirrar fegurðar og afþreyingar sem svæðið býður upp á, skiptir þetta jafnvel enn meira máli en fyrir þá sem hafa aðgang að stöðugri straumi ferðamanna.

Sú hækkun á virðisaukaskatti á ferðaþjónustuna sem nú liggur fyrir í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar mun hafa mikil og neikvæð áhrif, sérstaklega á svæðum fjarri Suðvesturhorninu. Þrátt fyrir fjölgun ferðamanna á landinu í heild hefur afkoma ferðaþjónustufyrirtækja versnað milli ára og mörg fyrirtæki standa nú þegar höllum fæti. Gengi krónunnar hefur haft mjög erfið áhrif á samkeppni við önnur lönd og margar ferðaskrifstofur erlendis eru nú þegar farnar að líta í kring um sig til annarra ódýrari áfangastaða í stað Íslands.

Tökum rétta ákvörðun – tryggjum sjálfbærni
Í slíku ástandi er svo stór skattahækkun á ferðaþjónustuna röng ákvörðun. Reynsla nágrannaþjóða sýnir að breytingar á sköttum og gjöldum hafa ekki aðeins áhrif til skamms tíma heldur geta stjórnað aðsókn og afkomu mörg ár fram í tímann. Það hefur til að mynda tekið danska ferðaþjónustu meira en tuttugu ár að ná aftur upp fjölda gistinátta erlendra ferðamanna sem hrundi eftir hækkun á virðisaukaskatti þar í landi árið 1992.

Ég hvet ferðaþjónustuaðila til að láta heyra í sér, hafa samband við þingmenn og ráðherra og koma staðreyndum um rekstrarumhverfi ferðaþjónustunnar milliliðalaust á framfæri. Það er gríðarmikilvægt að við stöndum saman gegn áformum um skattahækkanir á þessa mikilvægu atvinnugrein sem hefur skipt sköpum fyrir fjölmarga staði á landsbyggðinni undanfarin ár. Tryggjum framtíð og sjálfbærni ferðaþjónustunnar og verjum störfin sem hún skapar.

Þórunn Egilsdóttir

Greinin birtist á austurfrett.is 18. apríl 2017.

Categories
Greinar

Skattahækkun á ferðaþjónustu er aðför að landsbyggðinni

Deila grein

18/04/2017

Skattahækkun á ferðaþjónustu er aðför að landsbyggðinni

Nú liggur fyrir Alþingi fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar til 2022. Þar er gert ráð fyrir því að virðisaukaskattur á ferðaþjónustu verði hækkaður í efsta þrep, sem mun hafa miklar og neikvæðar afleiðingar, sérstaklega fyrir litla og meðalstóra ferðaþjónustuaðila utan höfuðborgarsvæðisins.
Ferðaþjónustan glímir nú þegar við margfalda verðhækkun miðað við samkeppnislönd. Gengi krónunnar hefur hækkað mikið sem gerir það að verkum að öll verð hækka skyndilega gagnvart söluaðilum erlendis. Það er vel þekkt að jafnvel litlar verðbreytingar í ferðaþjónustu geta haft mikil áhrif á ákvörðun ferðamanna um áfangastað. Við þetta bætast fleiri þættir sem hafa áhrif á verð og rekstrarskilyrði, t.d. hækkun á gistináttaskatti og hækkun launa á undanförnum tveimur árum.
Íslenskir ferðaþjónustuaðilar finna nú þegar fyrir skilningsleysi erlendra samstarfsaðila gagnvart tugprósenta verðhækkunum milli ára, sérstaklega þar sem hækkanir á helstu samkeppnismörkuðum eins og Norðurlöndum eru yfirleitt mjög litlar í samanburði.

Óumflýjanleg neikvæð áhrif á landsbyggðina
Áform ríkisstjórnarinnar eru vanhugsuð og geta því miður haft mikil neikvæð áhrif, sérstaklega gagnvart minni og meðalstórum ferðaþjónustuaðilum á landsbyggðinni.
Sú mikla og jákvæða uppbygging sem hefur orðið á stöðum eins og m.a. Ísafjarðarbæ, á Snæfellsnesi og í Húnavatnssýslum hefur í för með sér aukin atvinnutækifæri og sterkari byggðir. Það er skelfilegt til þess að hugsa að stjórnvöld skuli ekki taka neitt tillit til þeirra jákvæðu áhrifa sem slík uppbygging hefur í för með sér og huga frekar að því að styrkja markvisst sjálfbærni ferðaþjónustunnar og þar með byggðanna sjálfra.
Því miður hefur ekki verið lögð fram greining á áhrifum þessarar miklu skattahækkunar sem sýnir fram á að hún muni annars vegar ná markmiðum um tekjuöflun ríkissjóðs og hins vegar ekki hafa óafturkræf neikvæð áhrif á ferðaþjónustu á Íslandi til langs tíma.

Það er grunnkrafa að þegar lagt er í aðgerðir sem eru svo augljóslega mjög íþyngjandi, sérstaklega fyrir dreifðari byggðir landsins, liggi fyrir ítarleg greining á áhrifum þeirra.

Elsa Lára Arnardóttir

Greinin birtist á skessuhorn.is 13. apríl 2017.

Categories
Greinar

Fjárfestum í framtíð Íslands

Deila grein

11/04/2017

Fjárfestum í framtíð Íslands

Menntunarstig þjóða ræður miklu um velsæld og tækifæri þeirra. Þeim þjóðum farnast einna best til lengri tíma sem leggja mikla rækt við menntun og þekkingu. Sjálfstraust og kjarkur til framfara eykst samhliða aukinni þekkingu. Þess vegna viljum að á Íslandi séu samkeppnisfærir háskólar sem búa þjóðina undir áskoranir 21. aldarinnar.

Á Íslandi vantar fleiri vellaunuð störf fyrir ungt fólk. Slík störf verða eingöngu til ef áhersla er lögð á menntun, rannsóknir og nýsköpun. Með því að fjárfesta í menntun á háskólastigi getum við tryggt samkeppnishæfni Íslands í alþjóðlegum samanburði til framtíðar og skapað verðmæt störf um samfélagið allt.

Að óbreyttu mun það ekki gerast á næstunni, a.m.k. ef marka má áherslurnar sem birtast í 5 ára ríkisfjármálaáætlun sem ríkisstjórnin hefur lagt fram. Horfurnar framundan eru góðar ef litið er til þjóðhagsspár, þ.e. áframhaldandi hagvöxtur, hátt atvinnustig, skuldir ríkissjóðs lækka og afgangur er á viðskiptajöfnuðinum. Þrátt fyrir það stendur ekki til að fjárfesta í framtíðinni, þ.e. háskólastiginu í þeim mæli sem þarf, ólíkt því sem öll samanburðarríkin í kringum okkur eru að gera. Fjárframlög til háskólastigsins eru í engu samræmi við fyrirheit stjórnmálaflokka fyrir síðustu kosningar og algjörlega úr takti við stefnu Vísinda- og tækniráðs um að ná OECD-meðaltalinu er varðar fjárframlög á hvern háskólanema.
Nú er lag að fjárfesta til framtíðar með því að sýna metnað og stefnufestu í þágu okkar allra.

Fjórða iðnbyltingin stendur nú yfir og á næstu misserum munum við sjá miklar framfarir á mörgum tæknisviðum. Hlutfall starfa sem tengjast þessari tækniþróun mun hækka og þau hvíla fyrst og fremst á þekkingu og menntun. Ef ekki er fjárfest í menntun, rannsóknum og nýsköpun til framtíðar mun Ísland dragast aftur úr. Svo einfalt er það. Hvert ár skiptir hér máli og því er 5 ára ríkisfjármálaáætlunin reiðarslag fyrir háskóla- og vísindasamfélagið. Það er enn tækifæri til þess að gera breytingar á ríkisfjármálaáætluninni og hvet ég allan þingheim til að sameinast í að gera betur.

Lilja Alfreðsdóttir

Greinin birtist í Fréttablaðinu 11. apríl 2017.

Categories
Greinar

Innlend framleiðsla og færri kolefnisspor

Deila grein

11/04/2017

Innlend framleiðsla og færri kolefnisspor

Loftslagsmálin eru mál okkar allra og við getum öll lagt okkar af mörkum. Aukin innlend matvælaframleiðsla er ein leið til að fækka kolefnissporum og tryggja fæðu-og matvælaöryggi. Að tala fyrir ábyrgð í loftslagsmálum og vilja á sama tíma auka innflutning matvæla til landsins er þversögn sem gengur ekki upp.

Þversögnin
Matarsóunarverkefni eru almennt í tísku, og lífrænn og staðbundinn matur (local food) og fækkun kolefnisspora eru í tísku. Það þykir fínt að borða lífrænan „local“ mat og ferðamenn virðast t.a.m. sækjast sérstaklega eftir því sem og heimamenn í auknum mæli. Þess vegna skítur það skökku við að sama fólk og talar fyrir öllum þessum fínum málum vill á sama tíma stórauka innflutning á matvælum – matvælum sem við getum vel ræktað hér á landi. Vissulega þurfum við að kortleggja betur af hvaða tegundum við ættum e.t.v. að framleiða minna af og hvers konar framleiðslu við ættum auka. Það er engum greiði gerður með því að framleiða vöru ef næg eftirspurn er ekki fyrir hendi.

Aukinn innflutningur og fleiri kolefnisspor
Flutningur á matvælum milli landa eykur sóun og fjölgar kolefnissporum. Auknir flutningar matvæla kalla á aukin afföll miðað við að fæðunnar sé neytt sem næst framleiðslustað. Umbúðir auka umfang vörunnar og eru oft óumhverfisvænar. Allt eykur þetta efnis- og orkunotkun og þar með eykst útblástur gróðurhúsalofttegunda. Af því sögðu þá væri skynsamlegt að stjórnvöld myndu beita sér fyrir aukinni innlendri matvælaframleiðslu og draga úr innflutningi, í stað þess að auka hann, þ.e. ef þeim væri alvara með því að fylgja stefnu sinni í loftslagsmálum.

Þurfum frekari rannsóknir
Talsmenn aukins innflutnings matvæla bera því oft við að innlend framleiðsla skilji líka eftir sig kolefnisspor þar sem að flytja þarf ýmis aðföng fyrir framleiðsluna til landsins. Þessir talsmenn hafa þó ekki látið rannsaka málið heldur er eingöngu um getgátur að ræða. Samtök garðyrkjubænda létu hins vegar vinna fyrir sig stórmerkilega skýrslu fyrir ekki svo löngu síðan um kolefnisspor garðyrkjunnar. Í henni er mjög margt áhugavert, t.d. að íslenska agúrkan skilur einungis um 44% af kolefnisspori eftir sig miðað við þá innfluttu. Við eigum mikið inni hjá garðyrkjunni en hár raforkukostnaður hindrar verulega nýjar fjárfestingar í garðyrkjunni. Nauðsynlegt er að garðyrkjubændur fái sérstaka gjaldskrá. Það væri gagnlegt hafa haldbæran samanburð kolefnisspora á innlendri og erlendri framleiðslu frá fleiri greinum en garðyrkjunni. En auðvitað ættu kolefnissporin ekki að vera eini viðmiðunarþátturinn heldur áhersla á fæðuöryggi þjóðarinnar og matvælaöryggi, þar sem íslensk matvara er í fremstu röð í heiminum.

Matvælaframleiðsla er framtíðin
Skýrsla nefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar, sem kom út á dögunum, er umhugsunarverð. Þar er talið að loftslagsbreytingar muni ógna fæðuöryggi jarðarbúa í framtíðinni. Mat skýrsluhöfunda er að framboð á matvælum muni ekki haldast í hendur við fjölgun jarðarbúa á næstu áratugum. Þessar fréttir kalla á að við Íslendingar metum stöðu okkar hvað varðar bæði matvælaframleiðslu og framleiðslu á innlendum orkugjöfum. Við þurfum að huga að því hvað við getum lagt af mörkum í loftslagsmálum og landbúnaðurinn er hluti af lausn vandans, þar með talið framlag bænda til aukinnar framleiðslu fóðurs og matvæla á Íslandi.

Silja Dögg Gunnarsdóttir

Greinin birtist í Bændablaðinu 7. apríl 2017.

Categories
Greinar

Ég vil ganga minn veg, þú vilt ganga þinn veg; en hvað með krónuna?

Deila grein

05/04/2017

Ég vil ganga minn veg, þú vilt ganga þinn veg; en hvað með krónuna?

Það er allnokkuð sérkennilegt að sjá nýjan fjármálaráðherra útskýra, hvað hann átti við með orðum sínum um íslensku krónuna í samtali við Financial Times á dögunum. Benedikt sagði í samtali við FT að til greina kæmi að festa gengi krónunnar við annan gjaldmiðil. Haft var eftir ráðherra og er hér vitnað í þýðingu Mbl.is: „Fjár­málaráðherra Íslands hef­ur viður­kennt að það sé ófor­svar­an­legt fyr­ir landið að viðhalda sín­um eig­in fljót­andi gjald­miðli,…“. Að hans mati er krónan óforsvaranlegur gjaldmiðill og svo sem ekki miklu við það að bæta. Nema kannski helst að hér talar fjármálaráðherra íslensku krónunnar.

En krónan á sér alla vega einn samherja í ríkisstjórninni, forsætisráðherrann Bjarna Benediktsson. Vegna orða fjármálaráðherra var haft eftir forsætisráherra að; „…pen­inga­stefnu­nefnd sé að störf­um og að grund­völl­ur þeirr­ar vinnu sé að krón­an verði framtíðar­gjald­miðill Íslands.“ Staðan er því þessi; peningastefnunefnd grundvallar sína vinnu á því að hér verði íslensk króna, fjármálaráðherra segir sömu krónu óforsvaranlega. Forsætisráðherra er lóðbeint ósammála frænda sínum fjármálaráðherranum. Alla vega í orði kveðnu. Bjarni hefur nefnilega ekki alltaf staðið með íslensku krónunni. Í heilsíðu auglýsingu 20. apríl 2009 hafði núverandi forsætisráðherra þetta að segja um evruna: Sjálfstæðisflokkurinn telur að leita eigi eftir samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um að íslensk stjórnvöld og IMF (AGS) vinni að því í sameiningu að í lok efnahagsáætlunar Íslands og sjóðsins geti Íslendingar tekið upp evru sem gjaldmiðil í sátt og samvinnu við Evrópusambandið.  

Þetta var hið kalda mat forsætisráðherra á sínum tíma.

Mitt kalda mat er það að best sé að halda sig við krónuna, hún er ekki gallalaus, en grundvöllur efnahagslegs sjálfstæðis.

Sigurður Ingi Jóhannsson

Categories
Greinar

Byrjum á byrjuninni

Deila grein

29/03/2017

Byrjum á byrjuninni

Iðnaðarráðherra átti á dögunum fund með erlendum aðila, Atlantic Super Connection, sem hefur lýst áhuga á lagningu sæstrengs frá Íslandi. Ég varð verulega hugsi við þessar fréttir því um sama leyti fjallaði Alþingi um frumvarp umhverfisráðherra um Rammaáætlun. Orka, vatn og matvæli eru auðlindir sem alltaf verður eftirspurn eftir og Íslendingar eru í einstakri stöðu til að leggja þar sitt af mörkum. En við verðum að kunna fótum okkar forráð og hafa langtímasjónarmið í fyrirrúmi – ekki skammtíma gróðasjónarmið. Það er kominn tími til að staldra við og velta fyrir sér hvaða sýn við höfum á landið okkar og nýtingu orkunnar til framtíðar.

Hvað er »Ramminn«?
Rammaáætlun er verkfæri til að meta orkukosti og flokka í nýtingar-, bið- eða verndarflokk. Hugmyndin að rammaáætlun er að þar sé unnin fagleg vinna svo pólitísk sátt verði um nýtingu orkunnar. Hvað svo sem okkur finnst um flokkun orkukosta þá þurfum við að vera sammála um að það þarf að hugsa til langrar framtíðar vegna nýtingar á orkuauðlindum okkar.

Hærra orkuverð til heimila
Samkvæmt skriflegu svari iðnaðarráðherra (mars 2017) til greinarhöfundar þá hefur ráðherra ekki mótað stefnu í útflutningi á raforku en vitnar í svari sínu til skýrslu frá árinu 2016 um mat á áhrifum sæstrengs á fjölmarga þætti. Í þeirri skýrslu kemur meðal annars fram að raforkuverð til heimila og smærri fyrirtækja muni hækka; því muni draga úr afkomumöguleikum sprotafyrirtækja og annarra fyrirtækja, svo sem örfyrirtækja í smærri byggðum. Einnig segir í skýrslunni: »Frá sjónarhóli græna hagkerfisins virðist einnig liggja beinna við að sú orka sem annars væri seld úr landi væri þess í stað nýtt til að gera Ísland óháðara innflutningi eldsneytis.«

Ísland er land þitt
Í sviðsmyndinni sem notuð var við kostnaðar- og ábatagreiningu varðandi sæstreng milli Íslands og Bretland er gert ráð fyrir 1.200 km löngum sæstreng með 1.000 MW aflgetu.

Áætlaður stofnkostnaður er 3-500 milljarðar króna og samkvæmt skýrslunni er gert ráð fyrir 1.000 megavöttum en þess má geta að samanlagt uppsett afl allra raforkuvera á Íslandi er 2.700 megavött. Það er því ljóst að slík tenging við raforkumarkað Evrópu mun auka verulega þrýsting á að fleiri virkjanir verði reistar hér á landi. Því þurfum við að gera það upp við okkur hvort við ætlum að fara í stórfelldar virkjanir með tilheyrandi línulögnum um sveitir landsins til að byggja upp iðnað í Evrópu. Tal um sæstreng upp á allt að 500 milljarða til þess eins að flytja út afgangsorku í kerfinu, sem er kannski 150-200 megavött, er blekking. Ef sæstrengur verður lagður frá Íslandi til Evrópu þá þarf við að virkja og fjölga flutningslínum. Erum við tilbúin til þess?

Ójafnfræði sem hamlar atvinnuuppbyggingu
Á sama tíma og yfirvöld funda með fólki sem vill kanna leiðir til að leggja rafstreng til Íslands eru svæði víða um land sem búa við mjög takmarkað öryggi í raforkudreifingu. Nægir að nefna norðausturhornið og Vestfirði þar sem eru endastöðvar í dreifikerfinu auk þess sem veikir punktar eru víðar. Byggðalína Landsnets á Suðvesturlandi er komin að þolmörkum og rafmagnsflutningar um hana takmarkaður. Takmarkanir á flutningsgetu og öryggi hafa veruleg áhrif á rekstrarumhverfi fyrirtækja á landsbyggðinni og koma niður á atvinnuuppbyggingu þar. Landsmenn búa heldur ekki allir við þann »munað« að hafa aðgang að þrífösuðu rafmagni, og það stendur atvinnuuppbyggingu verulega fyrir þrifum á ákveðnum landssvæðum. Þeir sem stunda búskap geta til dæmis ekki uppfært tækjabúnað sinn í takt við nýjar reglugerðir þar sem þess er krafist að rafmagn sé þrífasað.

Það er án efa brýnna verkefni að tryggja öruggari afhendingu rafmagns um land allt og veita öllum landsmönnum aðgang að þrífösuðu rafmagni en að vinna að útflutningi raforku.

Silja Dögg Gunnarsdóttir

Greinin birtist í Morgunblaðinu 29. mars 2017.

Categories
Greinar

Gagnsæi er forsenda trúverðugleika

Deila grein

24/03/2017

Gagnsæi er forsenda trúverðugleika

Miklar breytingar hafa átt sér stað á íslensku fjármálakerfi frá því að bankakerfið hrundi á einni viku eins og spilaborg. Regluverk hefur verið stórbætt í þeim tilgangi að auka traust á bankakerfinu og draga úr áhættu kerfisins. Stærð bankakerfisins hefur minnkað og er rúm 150% af landsframleiðslu. Eigið fé bankanna er ríflegt, vanskil hafa minnkað verulega og kjör á erlendri markaðsfjármögnun hafa batnað mikið. Fyrsti áfanginn í endurreisn bankakerfisins hefur að mörgu leyti tekist vel eins og helstu kennitölur bankanna bera með sér. Í næsta áfanga þarf að huga að framtíðarskipan bankakerfisins, þ.e. hvernig það á að vera uppbyggt til að það þjóni heimilunum og fyrirtækjunum í landinu á bæði hagkvæman og sanngjarnan hátt.

Erlendir vogunarsjóðir keyptu tæp 30% í Arion banka í upphafi þessarar viku. Ráðamenn þjóðarinnar fögnuðu þessum viðskiptum og sögðu að nú væru vogunarsjóðirnir að veðja með Íslandi. Þrátt fyrir traustsyfirlýsingar ráðamanna, þá hafa margir goldið varhug við þessari þróun. Eignarhald þessara sjóða liggur ekki fyrir. Fréttir hafa borist af vafasamri fortíð eins sjóðanna sem nú er hluthafi í Arion banka. Einnig leit út fyrir að eigendur sjóðanna væru að stytta sér leið fram hjá leikreglunum til þess að flýta fyrir söluferlinu, þ.e. keyptur var 9.99% hlutur í Arion banka en þannig urðu sjóðirnir ekki virkir eigendur strax í upphafi ferlisins.

Gagnsætt eignarhald er forsenda þess að skapa traust og tiltrú á íslensku bankakerfi. Það er slæm byrjun á næsta áfanga í endurreisn bankakerfisins ef ekki fást skýrar upplýsingar um eigendurna og fyrirætlanir þeirra um íslenskt bankakerfi. Ef gagnsæið verður ekki aukið, mun næsti áfangi í endurreisn fjármálakerfisins misheppnast. Stjórnvöld verða að tryggja að svo verði ekki. Samfélagið allt hefur lagt mikið af mörkum í endurreisnina og því er brýnt að vandað verði til verks í næstu skrefum. Það tekur mörg ár að byggja upp trúverðugleika en hann getur glatast hratt ef ekki er rétt á málum haldið.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir

Greinin birtist 24. mars í Fréttablaðinu.

Categories
Greinar

Traust, siðferði og leyndarhyggja

Deila grein

21/03/2017

Traust, siðferði og leyndarhyggja

Það þarf vart að fara mörgum orðum um það að erlendir fjárfestar, svo kallaðir vogunarsjóðir, hafa nú náð yfirhöndinni í því kerfislega mikilvægri fjármálastofnun á Íslandi; það er Arion banka. Eitt af því sem nefnt hefur verið sem vandamál við að vogunarsjóðir séu kjölfestufjárfestar í bönkum, er að þeir eru kvikir fjárfestar. Það þýðir að þeir leita tækifæra frá einum degi til annars; eru ekki langtímafjárfestar.

Engar upplýsingar, lokaði almenningi
Gylfi Magnússon, dósent við hagfræðideild Háskóla Íslands, segir á Vísindavefnum um vogunarsjóði að: „Yfirleitt eru vogunarsjóðir lokaðir almenningi, það er einungis tilteknum fjárfestum er gefinn kostur á að kaupa sig inn í þá. Ein skýring á því er að nokkuð ríkar kröfur eru gerðar um upplýsingagjöf til sjóða sem seldir eru almenningi og það hentar vogunarsjóðum illa, enda vilja þeir halda spilunum þétt að sér.“ Fyrrverandi forstjóri Straums fjárfestingarbanka, Pétur Einarsson, tekur í sama streng í samtali við Morgunblaðið. Hann segir að vogunarsjóðir séu í eðli sínu lokaður klúbbur og ekki eftirlitsskyldir eins og bankar. Þeirra eignarhald og starfsemi sé ekki opinber. Þá telur hann einnig vogunarsjóði óheppilega eigendur banka. Þeir séu ekki langtímafjárfestar og hafi ekki áhuga á rekstri.
Það má því með nokkurri vissu fullyrða að leyndarhyggja sé eitt leiðarstefið í starfsemi vogunarsjóða.

Traustið við frostmark
Traust á fjármálastofnunum er í lágmarki og hefur svo verið allt frá því að bankarnir hrundu haustið 2008. Mælingar hafa staðfest það. Fyrir rúmu ári birtust fréttir af því að um sex og hálft prósent landsmanna bera mikið traust til bankakerfisins. Rúmlega 70% sögðust bera lítið traust til þess. Það eru sem sagt sjóðir sem sveipaðir eru leyndarhyggju sem er falin umsjá á kerfislega mikilvægum banka á Íslandi, á tímum þegar traust á bankakerfinu er við frostmark. Forsætisráðherra segir að þetta séu sannarlega góðar fréttir og fjármálaráðherrann er sáttur; segja má að vogunarsjóðirnir eigi þarna hauka tvo í horni. Og það þrátt fyrir það að í hópi vogunarsjóða sé einn sem staðinn hefur verið að stórfelldum mútugreiðslum í Afríku og þurft að gjalda fyrir það með gríðar háum sektum.

Langtímafjárfestar …?
Einhverra hluta vegna telur forsætisráðherra það sýna traust á aðstæðum hér á landi, ef: „…hingað vilja koma öflugir erlendir aðilar sem eru tilbúnir að gerast langtímafjárfestar í íslenskum fjármálafyrirtækjum.“ Það er athyglivert að forsætisráðherra telji að vogunarsjóðir séu langtímafjárfestar. Hingað til hafa vogunarsjóðir ekki verið taldir tilheyra þeim hópi. Einn af forystumönnum þeirra vogunarsjóða sem var að festa sér Arion banka segir í samtali við Morgunblaðið: „Ég veit ekki hve lengi við höldum þessu [fjárfestingunni í Arion banka]. Það fer eftir því hvað markaðurinn er lengi að meðtaka virði og horfur bankans,…“.

Traust og siðferði
Tvennt er það sem veldur mér sérstöku hugarangri vegna sölu á ráðandi hlut í Arion banka. Fyrst ber að nefna að salan er í mínum huga langt frá því að stuðla að endurnýjuðu trausti á fjármálakerfinu í hugum íslensks almennings; það er, viðskiptavina bankanna. Í annan stað finnst mér það vægast sagt merki um daufa siðferðiskennd að sjóður sem staðinn hefur verið að glæpsamlegri starfsemi skuli boðinn hingað sérstaklega velkominn; og það bæði af forsætisráðherra og efnahags- og fjármálaráðherra. Sérstaklega kemur forsætisráðherra mér á óvart með sínum málflutningi, fjármálaráðherrann þekki ég mun síður.

Sigurður Ingi Jóhannsson

Categories
Greinar

Hálfnað verk þá hafið er?

Deila grein

21/03/2017

Hálfnað verk þá hafið er?

Á síðustu árum hefur mikill meirihluti foreldra sem hafa skilið eða slitið samvistum, eða 85 – 95 % samið um sameiginlega forsjá. Er þá oft um að ræða að barn sé viku hjá föður og viku hjá móður. Foreldrar barns ala það upp í sameiningu og deila allri ábyrgð. Jöfn búseta barns hjá foreldrum krefst þó mikilla samskipta og málamiðlana og rannsóknir hafa sýnt fram á að góð foreldrasamvinna skili meiri sátt og því meiri vellíðan fyrir barnið. Sömu rannsóknir sýna að ágreiningur milli foreldra hefur neikvæðari áhrif á líðan barnsins.

Þrátt fyrir þessar staðreyndir og þau spor sem stigin hafa verið í átt að því að jafna stöðu foreldra, þá er kerfið enn að þvælast fyrir og það þarf að laga. Vegna þessa lagði ég fram fyrirspurn til dómsmálaráðherra og óskaði eftir umræðu um málið. Ég óskaði eftir umræðu um hvort unnið sé að lagabreytingu, byggða á skýrslu innanríkisráðherra um jafnt búsetuform barna sem búa á tveimur heimilum. Skýrslu sem lögð var fram á Alþingi í september 2015. Ég spurði dómsmálaráðherra einnig, hvenær frumvörp um málið yrðu lögð fram?

Þessar umræður áttu sér stað inni á Alþingi, núna í byrjun mars. Þar kom fram hjá dómsmálaráðherra að nú þegar hafi verkefnastjórn um málið, skoðað hvaða lögum og reglugerðum þurfi að breyta. Þar kom fram að m.a. þurfi að gera breytingar á barnalögum sem heimili foreldrum, sem fara sameiginlega með forsjá barns og ala það upp á tveimur heimilum, að skipta búsetu barns ef ákveðin skilyrði eru uppfyllt.

Samkvæmt orðum dómsmálaráðherra komst verkefnastjórnin að því, að ekki var nóg að breyta lögum og reglugerðum, heldur kallaði vinnan jafnframt á umfangsmiklar kerfisbreytingar. Það hafi því verið mikilvægt að upplýsa þá aðila sem málið snertir um þetta verkefni, ásamt því að fá ábendingar og álit. Vegna þessa var kallað eftir tengiliðum frá mennta – og menningarmálaráðuneytinu, ríkisskattstjóra, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Sjúkratryggingum Íslands, Tryggingastofnun og Barnaverndarstofu.

Í umræðunni við dómsmálaráðherra kom fram að verkefnastjórnin eigi að ljúka vinnu sinni núna í mars. Í vor mun því undirbúningur að lagafrumvörpum eiga sér stað. Frumvarpi um breytingu á barnalögum, ásamt bandormi með breytingum á ýmsum öðrum lögum. Einnig kom fram að gera þurfi breytingar á reglugerðum. Þessi vinna verður á ábyrgð nokkurra ráðuneyta og er þar um að ræða innanríkisráðuneytið, fjármála – og efnahagsráðuneytið, mennta – og menningarmálaráðuneytið og velferðarráðuneytið.

Nú er mars senn á enda og verkefnastjórnin ætti að fara skila af sér. Verkefninu verður þó alls ekki lokið. Því er nauðsynlegt að fylgjast áfram með vinnslu þessa máls og kalla eftir upplýsingum þegar verkefnastjórnin skilar af sér. Fá upplýsingar um hvaða verkefni hvert ráðuneyti fær og hver tímalínan er varðandi framgang málsins. Því mun ég fylgjast með.

Elsa Lára Arnardóttir

Greinin birtist á visir.is 21. mars 2017.