Categories
Greinar

Upplýsingar um eignir og skattgreiðslur

Deila grein

11/05/2016

Upplýsingar um eignir og skattgreiðslur

Sigmundur-davíðUndangengin ár hefur það verið viðtekin krafa að stjórnmálamenn geri gein fyrir eigum sínum og ýmsir telja að eðlilegt sé að einnig sé gerð grein fyrir skuldum. Færa má sterk rök fyrir því. Það er ekki jafn augljóst að gera eigi kröfu um að stjórnmálamenn birti upplýsingar um fjármál fjölskyldu sinnar. Ég hef þó lýst mig reiðubúinn til þess að birta slík gögn ef aðrir forystumenn í stjórnmálum gerðu slíkt hið sama.

Ekki er að sjá að félagar mínir á Alþingi telji ástæðu til að birta upplýsingar um fjármál maka sinna en örfáir hafa að undanförnu birt takmarkaðar upplýsingar um eigin fjármál umfram það sem hagsmunaskráning þingmanna gerir ráð fyrir.  Engu að síður hef ég ákveðið, að veittu samþykki eiginkonu minnar, að birta nú ítarlegar upplýsingar um eignir og skattgreiðslur okkar hjóna  um áratug aftur í tímann.

Þær persónuupplýsingar sem hér eru birtar  eru langt umfram það sem ég hefði nokkurn tímann átt von á að verða krafinn um.

Mér telst til að þær upplýsingar sem hér fylgja séu þær ítarlegustu sem nokkur íslenskur stjórnmálamaður hefur veitt  um eigin fjármál eða fjölskyldu sinnar. Ég hvet aðra kjörna fulltrúa til að gera slíkt hið sama, einkum þá sem hafa haft frumkvæði að því að gera fjármál annarra að pólitísku bitbeini hvort sem þeir ætla að bjóða sig áfram fram til opinberra starfa eða ekki.

Ég  ítreka að eftirfarandi upplýsingar eru að sjálfsögðu birtar með leyfi Önnu, eiginkonu minnar.

 

Vakin er athygli á eftirfarandi atriðum :

1. Erlendu félagi Önnu  hefur aldrei verið leynt og eignir aldrei verið í skattaskjóli. Gerð er grein fyrir félaginu, skráningarlandi þess og öllum eignum á skattframtali.

2. Félagið eða skráningarland þess eru ekki notuð til að draga úr skattbyrði. Anna hefur ætíð greitt fullan skatt af eignum sínum og tekjum í samræmi við íslensk lög.

3. Við framtalsgerð hefur verið horft í gegnum félagið eins og það hafi aldrei verið til og eignir þess skráðar sem bein eign Önnu frá því ári áður en svo kallaðar CFC-reglur tóku gildi. Sú varfærna leið að greiða skatta af öllum eignum, hverri fyrir sig, í stað þess að nýta félagið og líta á það sem fyrirtæki í atvinnurekstri (og skila CFC-framtali) hefur skilað sér íhærri skattgreiðslum til ríkisins en ef stuðst hefði verið við atvinnurekstrar-/CFC-leiðina. Sú leið myndi auk þess þýða að komast mætti hjá skattgreiðslum næstu árin vegna uppsafnaðs taps.

4. Anna nýtti ekki tækifæri til að fresta skattlagningu söluhagnaðar þegar hún seldi hlut sinn í fjölskyldufyrirtækinu.

5. Hjálögð gögn sýna að á umræddu tímabili námu skattgreiðslur okkar hjóna tæpum 300 milljónum króna. Reiknað til núvirðis má áætla að skattgreiðslur af eignum eiginkonu minnar nemi hátt í 400 milljónum.

6. Leiðrétting umsýslufélags á skráðu eignarhaldi 31. desember 2009 breytir engu um skattgreiðslur vegna Wintris.

7. Á yfirlitinu má sjá að Anna hefur ekki hagnast á því að geyma fjármagn sitt erlendis eins og hún hefur gert til að forðast árekstra við stjórnmálastörf mín. Ljóst má vera að hún hefði  hagnast á því að geyma peninga í verðtryggðum íslenskum hávaxtakrónum eða íslenskum hlutabréfum.

8. Skattayfirvöld hafa aldrei gert athugasemd við með hvaða hætti talið er fram. Eins og sjá má í töflu 5 í hjálögðum gögnum hefur sú leið sem farin var við framtalsgerð enda skilað ríkissjóði hærri skattgreiðslum heldur en ef gert hefði verið upp eins og um félag í atvinnurekstri væri um að ræða, þ.e. hin svokallaða CFC-leið.

 

Hér að neðan fylgir yfirlit um skattgreiðslur tekið saman fyrir okkur af KPMG sem haldið hefur utan um skattskil okkar hjóna allan þann tíma sem um ræðir:

Eignarhlutur í Wintris Inc. hefur verið skráður til eignar í skattframtölum á kaupverði, 337.995 kr., frá því hann komst í eigu Önnu árið 2008.

Verðbréf sem skráð hafa verið sem eign Wintris Inc. hafa verið færð á skattframtöl Önnu og sameiginleg skattframtöl frá því ASP og SDG voru fyrst samsköttuð með sama hætti og hún hefði átt verðbréfin beint. Tekjur af verðbréfunum hafa verið færðar til tekna á skattframtölin með sama hætti og ef Anna hefði átt verðbréfin beint. Við framtalsgerðina hefur því verið horft í gegnum Wintris Inc. eins og félagið hafi aldrei verið til.

Skattframtalsgerðin hefur byggt á þeirri meginforsendu að starfsemi Wintris Inc. hafi ekki verið atvinnustarfsemi, enda um að ræða verðbréfaeign, í vörslu og fjárstýringu banka, og tekjur af verðbréfunum. Því hefur ekki verið skilað svokölluðum CFC-framtölum, sem ætluð eru vegna eignarhalds á atvinnustarfsemi í lágskattaríkjum.

Í yfirliti um skattstofna og skattgreiðslur er meðal annars sýnt hverjar skattgreiðslur hefðu orðið ef starfsemi Wintris Inc. hefði verið talin atvinnustarfsemi.

Það hefði ekki haft áhrif á auðlegðarskattsstofn, hvort starfsemi Wintris Inc. hefði verið talin atvinnustarfsemi eða ekki.

 

Tafla 1

 

Tafla 2

 

Tafla 3

 

Tafla 4

 

Tafla 5

 

Tafla 6

 

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson

Greinin birtist á www.sigmundurdavid.is 11. maí 2016.

Categories
Greinar

Breytt greiðslufyrirkomulag fyrir þjónustu á hjúkrunarheimilum

Deila grein

11/05/2016

Breytt greiðslufyrirkomulag fyrir þjónustu á hjúkrunarheimilum

Eygló HarðardóttirGreiðsluþátttaka íbúa í dvalar- og hjúkrunarrýmum á hjúkrunarheimilum hefur lengi verið gagnrýnd og þess krafist að sjálfræði aldraðra yrði virt og hið svokallaða vasapeningakerfi afnumið. Núgildandi greiðslufyrirkomulag byggist á greiðslu daggjalda til hjúkrunarheimila úr ríkissjóði. Jafnframt greiða einstaklingar sem eru með tekjur yfir 82 þúsund krónum á mánuði eftir skatt, allt að 380 þúsund krónur á mánuði til heimilisins. Lífeyrisgreiðslur Tryggingastofnunar til íbúa á hjúkrunarheimilum falla jafnframt niður en þeir fá í dag lágmarksgreiðslur, eða svokallaða „vasapeninga“ sem eru tæplega 60 þúsund krónur á mánuði.

Rætt hefur verið um að breyta kerfinu þannig að íbúar á hjúkrunarheimilum greiði milliliðalaust fyrir almenna þjónustu, þ.e. fyrir mat, þrif, þvott, tómstundastarf og húsaleigu. Um heilbrigðisþjónustu, þ.m.t. lyf og aðra umönnun myndu gilda almennar reglur. Er þetta í samræmi við fyrirkomulag sem tíðkast t.d. í Danmörku. Húsaleiga tæki mið af stærð og gæðum húsnæðisins en einnig af tekju- og eignastöðu einstaklinganna. Fólk ætti jafnframt rétt á húsnæðisbótum.

Á fjárlögum 2016 er gert ráð fyrir 27,9 milljörðum króna í rekstur hjúkrunarheimila. Áætlað er að greiðslur vistmanna nemi 1,3 milljörðum króna. Þar fyrir utan er kostnaður vegna byggingar nýrra heimila en í nýrri ríkisfjármálaáætlun er gert ráð fyrir 4,7 milljörðum króna framlagi úr ríkissjóði og Framkvæmdasjóði aldraðra til þriggja nýrra hjúkrunarheimila á næstu fimm árum. Verkefnið er stórt og mikilvægt. Virða verður sjálfræði aldraðra og gæta jafnræðis á milli þeirra sem búa heima og þeirra sem fara á hjúkrunarheimili. Jafnframt þarf að fara vel yfir kosti og galla núverandi fyrirkomulags og hugmynda um breytt kerfi.

Því hef ég, að höfðu samráði við heilbrigðisráðherra, skipað starfshóp til að gera nánari tillögur um breytt greiðslufyrirkomulag. Komið verði á sérstöku tilraunaverkefni í samvinnu við eitt eða fleiri hjúkrunarheimili. Hópurinn er skipaður fulltrúum frá Landssambandi eldri borgara, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum fyrirtækja í velferðarþjónustu, Tryggingastofnun ríkisins, Sjúkratryggingum Íslands og fulltrúum ráðuneytisins.

Eygló Harðardóttir

Grein birtist í Fréttablaðinu 11. maí 2016.

Categories
Greinar

Íslensk sérþekking nýtist öðrum

Deila grein

06/05/2016

Íslensk sérþekking nýtist öðrum

Lilja Dögg Alfreðsdóttir03Ísland hefur skapað sér stöðu sem alþjóðleg miðstöð umræðu og samstarfs um jarðhitanýtingu. Þekkingin sem byggst hefur upp hérlendis nýtist nú langt utan landsteinanna og með jákvæðum áhrifum víða um heim.

Yfir 700 gestir frá um 50 löndum tóku þátt í alþjóðlegri jarðhitaráðstefnu sem haldin var í Reykjavík í síðustu viku. Tilgangur ráðstefnunnar var meðal annars að greina frá reynslu Íslendinga af jarðhitanýtingu hér heima og á alþjóðavettvangi og skoða í samhengi við loftslags- og þróunarmál.

Fjölmargar þjóðir Afríku, Rómönsku Ameríku og Suðaustur-Asíu búa við mikla orkufátækt, þrátt fyrir að búa yfir miklum orkuauðlindum. Jarðhiti er vannýtt auðlind í mörgum þessara landa, sem gætu með nýtingu breytt samfélögum sínum til hins betra með jákvæðum loftlagsáhrifum. Það sama á við um fjölmargar Evrópuþjóðir, sem búa yfir jarðhita án þess að nýta hann. Með því að miðla af okkar reynslu og flytja út þekkingu sýnum við samfélagslega ábyrgð, stuðlum að sjálfbærri orkunýtingu og sköpum verðmæti.

Íslensk stjórnvöld hafa í áratugi hvatt til ábyrgrar og sjálfbærrar nýtingar endurnýjanlegra orkugjafa á heimsvísu. Með því má draga úr notkun jarðefnaeldsneytis og loftmengun. Markviss nýting á jarðhita þar sem slíkt er fýsilegt gæti til lengri tíma dregið úr áhrifum loftslagsbreytinga og hliðarverkunum þeirra, sem geta bæði verið heilsufarslegar og félagslegar. Til dæmis er talið að loftslagsbreytingar hafi meiri áhrif á félagslega stöðu kvenna en karla í fátækari hluta heimsins, þar sem ýmis hefðbundin kvennastörf verða erfiðari með auknum áhrifum loftlagsbreytinga. Mikilvægt er því að konur komi að stefnumótum í loftslagsmálum.

Um það leyti sem jarðhitaráðstefnan var haldin í Reykjavík höfðu fulltrúar rúmlega 170 þjóðríkja nýlega skrifað undir loftlagssamninginn sem kenndur er við París – þar með talin Sigrún Magnúsdóttir umhverfisráðherra. Samhugur þjóða heims í baráttunni við loftlagsbreytingar er dýrmætur og þar skiptir framlag Íslendinga máli. Erlendir gestir jarðhitaráðstefnunnar í Reykjavík virtust sammála því, að mikilvægi Íslands á þessu sviði væri ótvírætt og útflutningur á íslenskri sérþekkingu nýttist öðrum.

Lilja Alfreðsdóttir

Greinin birtist í Fréttablaðinu 6. maí 2016.

Categories
Greinar

Dýrafjarðargöng – útboð í haust!

Deila grein

24/04/2016

Dýrafjarðargöng – útboð í haust!

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherraÍ nýjasta tölublaði blaðsins Vestfjarða er því haldið fram að fyrirhugaðar kosningar í haust valdi því að óvissa verði um framkvæmd Dýrafjarðarganga enn eina ferðina og að útboði verði mögulega frestað. Þetta er mikill misskilningur sem verður að leiðrétta.

Vestfirðingar hafa alltof lengi þurft að bíða eftir nauðsynlegum samgöngubótum. Árið 1999 gerði Vegagerðin skýrslu þar sem jarðgangnakostum var forgangsraðað og þar sem m.a. var horft til byggðaáhrifa. Þrjú jarðgöng voru efst á lista og voru Dýrafjarðargöng þar á meðal. Þrátt fyrir að framkvæmdir hefðu mátt hefjast miklu fyrr við að tengja norður- og suðurfirðina þá er það gleðiefni að loks séu framkvæmdir að fara að hefjast.

Engum dylst hve mikilvægt það er fyrir dreifbýlt svæði eins og Vestfirði sem lengi hefur átt undir högg að sækja, að hafa góðar samgöngur á milli helstu þéttbýlisstaða. Greiðar samgöngur eru forsenda þess að byggð þrífist og að fyrirtækin á svæðinu séu samkeppnishæf.

Í síðustu viku var samgönguáætlun til ársins 2018 lögð fram á þinginu og er það gleðiefni að stór hluti af nýframkvæmdum á landinu verði á Vestfjörðum. Þar eru Dýrafjarðargöng langstærsta framkvæmdin ásamt veglagningu yfir Dynjandisheiði sem verður ráðist í samhliða jarðgangnagerðinni og verður hvort um sig tilbúið árið 2020. Einnig sér fyrir endann á deilum sem hafa staðið um vegagerð í Gufudalssveit og er fjármagn tryggt í þær framkvæmdir um leið og þær geta hafist. Af öðrum verkefnum má nefna að fé er sett í Djúpveg á kaflanum frá Hestfirði og yfir í Seyðisfjörð, áfram verður unnið að veginum yfir Bjarnarfjarðarháls og hafist verður handa á Veiðileysuháls ásamt fleiri verkefnum.

Það er hins vegar alveg skýrt að stefna stjórnvalda eru að bjóða Dýrafjarðargöng út í haust. Undanfarin ár hefur alltaf verið unnið í einum jarðgöngum í einu á landinu og nú sér fyrir endann á Norðfjarðargöngum. Það er breið samstaða um það að Dýrafjarðargöng séu næst í röðinni og því ættu fyrirhugaðar kosningar engu að breyta varðandi útboð á göngunum í haust.

Fleiri jákvæð teikn eru á lofti á Vestfjörðum, hringtenging ljósleiðara og sérstaklega má nefna raforkuframleiðslu í fjórðungnum. Eitthvað segir mér að árið 2016 geti orðið upphaf nýrra tíma á Vestfjörðum.

Gunnar Bragi Sveinsson.

Greinin birtist á www.bb.is 24. apríl 2016.

Categories
Greinar

Lokum á skattaskjólin

Deila grein

19/04/2016

Lokum á skattaskjólin

frosti_SRGBSkattaskjól eru þau ríki kölluð sem gera litlar eða engar kröfur um að eignarhald fyrirtækja sé þekkt og innheimta litla eða enga skatta af fyrirtækjum. Með þessu skapa skattaskjólin fyrirtækjum og fjárfestum aðstöðu til að komast hjá skattlagningu. Skattheimta er forsenda þess að stjórnvöld geti byggt upp nauðsynlega innviði og veitt mikilvæga þjónustu. Skattaskjólin veikja því velferðarsamfélagið um leið og þau auka á ójöfnuð þar sem skattaundanskot leiða til þyngri skatta á þá sem standa í skilum.

Umfangið gríðarlegt
Í bókinni The Hidden Wealth of Nations eftir G. Zucman er fjallað um eignir í skattaskjólum og þær metnar á 7,6 þúsundir milljarða USD. Í Mið-Austurlöndum og Rússlandi er ríflega helmingur eigna falinn í skattaskjólum, í Evrópu er hlutfallið 10% en 4% í Bandaríkjunum og Asíu. Zucman áætlar að 80% af eignum félaga í skattaskjólum séu ekki taldar fram til skatts.

Skattaskjól eru víða
OECD telur upp 38 ríki sem uppfylla ekki lágmarkskröfur um upplýsingaskipti. Á lista OECD má finna Bresku Jómfrúreyjarnar, Panama, Möltu og Kýpur. Tvö síðasttöldu ríkin eru aðilar að ESB en á listanum er einnig Liechtenstein sem er aðili að EES svæðinu. En vandinn er víðar ef marka má óháð samtök sem kalla sig “Tax Justice Network”. Samtökin hafa birt athyglisverðan lista yfir skattaskjól en þar tróna Sviss, Hong Kong og Bandaríkin í efstu sætum. Luxembourg og Þýskaland eru einnig ofarlega á listanum en samkvæmt samtökunum geta erlendir aðilar í vissum tilvikum notið nafnleyndar eða mjög lágra skatta í þessum ESB ríkjum.

Hvað er til ráða?
Ísland er þátttakandi í átaki á vegum OECD sem meðal annars felst í því að skiptast á gögnum um fyrirtæki og skattgreiðslur þeirra. Á næstunni mun Ísland staðfesta reglur OECD sem skylda fjölþjóðleg fyrirtæki til að sundurliða ársreikninga sína niður á einstök ríki. Með því að upplýsa hvernig hagnaður myndast í hverju ríki fyrir sig verður erfitt fyrir fjölþjóðleg fyrirtæki að flytja hagnað sinn til skattaskjóla. Einnig hafa verið innleiddar hér reglur um milliverðlagningu sem draga úr möguleikum fjölþjóðlegra fyrirtækja til að færa hagnað milli dótturfélaga sinna í ólíkum löndum.

Auk þess að taka þátt í alþjóðlegri samvinnu gegn skattaskjólum er mikilvægt að kanna hvaða lagabreytingar hér á landi gætu miðað að sama marki. Til að kynna sér það nánar hefur Efnahags- og viðskiptanefnd alþingis boðað til sín fulltrúa frá fjármála- og efnahagsráðuneyti, ríkisskattstjóra, skattrannsóknarstjóra, Fjármálaeftirliti og Seðlabanka.

Ljóst er að það verður ekki einfalt að ná til þeirra sem vilja leyna eignum sínum. Þótt sett yrði bann við því að íslenskir aðilar ættu félög í skattaskjólum, væri mögulegt að komast hjá banninu með því að setja upp erlent skúffufélag utan skattaskjóla. Erlenda félagið gæti þá stofnað félag í skattaskjóli og haft milligöngu um viðskipti við það.

Það yrði til bóta ef upplýst væri hverjir séu raunverulegir eigendur að ráðandi eignarhlutum í íslenskum félögum. Slík upplýsingaskylda er í ýmsum löndum. Raunverulegur eigandi er sá einstaklingur sem nýtur ávinnings af hlutafjáreigninni þótt það kunni að vera í gegnum skúffufélag. Hugsanlega mætti setja hliðstæða kröfu um raunverulega eigendur annarra fjármálagerninga svo sem innstæðna og skuldabréfa. Einnig hefur verið nefndur sá möguleiki að leggja skatt á greiðslur íslenskra félaga til félaga í skattaskjólum en fleiri leiðir koma til greina og verða skoðaðar nánar á næstunni. Í ljósi umfangs vandans hér á landi er afar mikilvægt að Ísland verði í fremstu röð í hinni alþjóðlegri baráttu gegn starfsemi skattaskjóla.

Frosti Sigurjónsson

Greinin birtist í DV 19. apríl.

Categories
Greinar

Tímamót í öryggis- og varnarmálum

Deila grein

16/04/2016

Tímamót í öryggis- og varnarmálum

Lilja Alfreðsdóttir

Söguleg stund átti sér stað á Alþingi í vikunni þegar tillaga um þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland var samþykkt mótatkvæðalaust. Samþykktin markar tímamót í lýðveldissögunni þar sem aldrei áður hefur verið mörkuð heildstæð stefna um þjóðaröryggi Íslendinga. Í raun hefur aldrei verið jafn brýnt að stjórnvöld marki slíka stefnu. Að öryggis- og varnarumhverfi Íslands og annarra Evrópuríkja stafa margar og flóknar áskoranir sem birtast okkur nær daglega í fyrirsögnum og fréttum.

Fyrir stjórnvöld er það mikill ábyrgðarhluti að í síkvikum heimi alþjóðastjórnmála – þar sem veðrabrigða gætir oft fyrirvaralaust – sé til staðar skýr stefnumörkun um framkvæmd þjóðaröryggis. Fyrir herlausa þjóð er vissulega um stórt skref að ræða en þetta skref er tekið með raunsæi og pólitíska sátt að leiðarljósi. Forsendurnar eru skýrar: Það er frumskylda stjórnvalda hvers ríkis að tryggja öryggi og varnir lands og þjóðar gagnvart þeim ógnum sem kunna að valda borgurum, stjórnkerfi og grunnvirkjum samfélagsins stórfelldum skaða – hvort sem um er að ræða innri eða ytri ógnir, af mannavöldum eða vegna náttúruhamfara.

Hin nýja þjóðaröryggisstefna endurspeglar stöðu Íslands sem fámennrar eyþjóðar í Norður-Atlantshafi sem hvorki hefur vilja né burði til að ráða yfir eigin her og tryggir öryggi og varnir sínar með virkri samvinnu við önnur ríki og innan alþjóðastofnana. Ástæða er til að staldra við atburði á síðustu misserum og líta á þróun mála í okkar nánasta öryggisumhverfi, sem minna á að öryggi er ekki sjálfgefið. Það er afar brýnt að stilla saman strengi og horfa með heildstæðum hætti á öryggismál. Þjóðaröryggisstefnan er slíkt tæki.

Þjóðaröryggisstefnan nær jafnt til virkrar utanríkisstefnu, varnarstefnu og almannaöryggis og gerir meðal annars ráð fyrir að sett verði á fót sérstakt þjóðaröryggisráð sem hafi yfirsýn með framkvæmd stefnumiðanna og stuðli að virkri umræðu um öryggis- og varnarmál. Þegar er hafin vinna við frumvarp sem ég hyggst leggja fram, í samvinnu við innanríkisráðherra, til laga um stofnun þjóðaröryggisráðs líkt og stefnan kveður á um, og viðhalda áfram þeirri samstöðu sem ríkt hefur um málaflokkinn.

Þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland er í stöðugri mótun og tekur mið af þróun öryggismála á hverjum tíma. Samkvæmt ályktuninni sem samþykkt var í vikunni skal hún endurskoðuð á að minnsta kosti fimm ára fresti og ég tel brýnt að um hana fari fram regluleg umræða. Horft verður sérstaklega til umhverfis- og öryggishagsmuna Íslands á norðurslóðum og að aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu og varnarsamningur Íslands og Bandaríkjanna verði áfram lykilstoðir í vörnum landsins. Norræn samvinna um öryggis- og varnarmál verði ennfremur efld og þróuð og áfram lögð áhersla á virkt alþjóðasamstarf á grundvelli alþjóðalaga og virðingu fyrir mannréttindum. Tryggt verði að í landinu séu til staðar varnarmannvirki, búnaður, geta og sérfræðiþekking til að mæta áskorunum í öryggis- og varnarmálum. Stefna stjórnvalda í almannavarna- og öryggismálum sé hluti af þjóðaröryggisstefnu og tekið verði mið af ógnum sem tengjast loftslagsbreytingum, náttúruhamförum, fæðu- og matvælaöryggi, heilbrigðisöryggi og farsóttum.

Öryggisumhverfi Íslands er einnig mótað af nýjum áskorunum sem þjóðaröryggisstefnan tekur mið af. Þar er áréttað að stuðlað verði að auknu netöryggi og að stefna stjórnvalda taki mið af hryðjuverkaógn, skipulagðri glæpastarfsemi og ógnum við fjármála- og efnahagsöryggi. Þá verði Ísland og íslensk landhelgi friðlýst fyrir kjarnavopnum, að teknu tilliti til alþjóðlegra skuldbindinga.

Það var mér sérstök ánægja að taka þátt í umræðunum á Alþingi í aðdraganda samþykktarinnar og verða vitni að þeirri sátt og samstöðu sem ríkti um þennan mikilvæga málaflokk. Um leið og ég ítreka ánægju mína með stefnuna og þakklæti til þeirra sem lögð lóð á vogarskálarnar við vinnu henni tengda vil ég undirstrika að þjóðaröryggi Íslendinga byggist á þeim skuldbindingum sem felast í stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna og þeim grunngildum sem okkur Íslendingum eru svo kær – lýðræði og virðingu fyrir réttarríkinu og alþjóðalögum, mannúð og verndun mannréttinda, jafnrétti allra og sjálfbærri þróun, afvopnun og friðsamlegri lausn deilumála.
Aðdragandi þjóðaröryggisstefnunnar hefur verið langur. Allt frá upphafi var lögð áhersla á að ná breiðri sátt og eiga þar forverar mínir í stóli – þeir Össur Skarphéðinsson og Gunnar Bragi Sveinsson – miklar þakkir skildar fyrir. Þá er ótalinn afar mikilvægur þáttur þverpólitískrar þingmannanefndar sem, undir styrkri stjórn Valgerðar Bjarnadóttur viðhélt sátt og skilaði af sér lykiltillögum sem þjóðaröryggisstefnan hvílir á. Þá fjallaði utanríkismálanefnd þingsins ítarlega um málið og skilaði sameiginlegu nefndaráliti með breytingatillögum sem allar voru til bóta.

Þjóðaröryggi er bjargfesta fyrir íslenska þjóð og í henni birtast þau gildi og þær skuldbindingar sem skapa grunninn að utanríkisstefnu Íslands. Það er ástæða til að fagna framsýni og ábyrgð allra stjórnmálaflokka á þingi sem náð hafa saman um þetta grundvallarmál.

Lilja Alfreðsdóttir

Greinin birtist í Morgunblaðinu 16. apríl 2016.

Categories
Greinar

Framsæknar konur

Deila grein

16/04/2016

Framsæknar konur

flickr-Þórunn EgilsdóttirÞau sögulegu tíðindi áttu sér stað í liðinni viku að í fyrsta skipti skipa konur meirihluta í ríkisstjórn fyrir Framsóknarflokkinn. Inn í ríkisstjórn kom Lilja Alfreðsdóttir, hæfileikarík, vel menntuð og reynslumikil ung kona. Hún er sjöundi kvenkynsráðherrann úr röðum flokksins.

Þetta eru einkar ánægjuleg tíðindi því í gegnum árin hafa Framsóknarkonur barist einarðlega fyrir jafnréttismálum. Innan Framsóknarflokksins hefur Landssamband Framsóknarkvenna verið ötult í að hvetja konur til að stíga fram og láta til sín taka, hvort heldur sem er á vettvangi stjórnmálanna eða í atvinnulífinu. Jafnréttisáætlun flokksins kveður á um hvernig Framsóknarflokkurinn vinnur að jafnrétti og virðingu allra í flokksstarfinu,  jafnt í innra sem ytra starfi.

Markmiðið er að ná jafnri þátttöku félagsmanna óháð uppruna, sérkennum, kyni og aldri í störfum á vegum flokksins, ákvarðanatöku og skiptingu ábyrgðar.

Um þessi markmið hefur verið mikil samstaða og hafa karlar og konur unnið saman að þeim.
Framsóknarflokkurinn hefur vissulega uppskorið í þessum efnum en við megum ekki gleyma því að til að ná árangri á þessu sviði sem öðrum eru samvinna og samtal mikilvægir þættir. Þá megum við ekki gleyma sögunni og því að sterkir einstaklingar hafa í gegnum tíðina ýtt við okkur hinum. Í því sambandi vil ég minnast framgöngu Rannveigar Þorsteinsdóttur sem kosin var á þing árið 1946, fyrst kvenna fyrir Framsóknarflokkinn.

Baráttumál hennar voru öðru fremur réttarstaða kvenna, skattamál og húsnæðismál. Hún var óþreytandi að hvetja konur til starfa í félags- og þjóðmálum.  Sem eintaklingur þótti hún kappsöm og skelegg og sannarlega var hún langt á undan sinni samtíð. Einstaklingum eins og Rannveigu getum við þakkað margt og nýtt verk þeirra okkur til áframhaldandi hvatningar.

Við Framsóknarmenn erum svo lánsöm að dreifing aldurs í okkar hópi er nokkuð breið og bakgrunnur okkar fjölbreyttur. Nefna má að í síðustu Alþingiskosningum gerðust þau sögulegu tíðindi að í þingflokki okkar eru bæði yngsti og elsti þingmaðurinn og ekki nóg með það heldur eru þeir báðir konur. Jóhanna María Sigmundsdóttir er yngsta konan sem  nokkru sinni efur verið kosin á þing. Framganga hennar er sannarlega ungum konum hvatning til að láta til sín taka á sviði stjórnmála. Þá er elsta konan Sigrún Magnúsdóttir sannarlega reynslubolti sem hefur víðtæka þekkingu og kunnáttu sem nýtist vel í ráðherrastól.

Við Íslendingar stöndum framarlega í jafnréttismálum en þrátt fyrir það eru enn verkefni fyrir höndum og mikilvægt að við ekki einungis viðhöldum árangrinum heldur stígum sífellt lengra og nær því að gera stöðu kynjanna jafna.

Sóknarfærin eru mörg og mun ríkisstjórn Framsóknarfokks og Sjálfstæðisflokks halda áfram að skapa verðmæti með kraftmiklum einstaklingum, körlum og konum.

Þórunn Egilsdóttir

Greinin birtist í Fréttablaðinu 16. apríl 2016.

Categories
Greinar

Ríkisútvarpið og aflandslistarnir: Pólitískur herleiðangur

Deila grein

02/04/2016

Ríkisútvarpið og aflandslistarnir: Pólitískur herleiðangur

Þorsteinn-sæmundssonSíðasta hálfa mánuðinn hefur Ríkisútvarpið verið í samstarfi við aðila sem segjast hafa undir höndum upplýsingar um aflandsreikninga Íslendinga. Á þeim tíma hafa litlar upplýsingar birst en þess fleiri aðilar tjáð sig um málið hjá Ríkisútvarpinu sem hefur farið með þessa aflandslista eins og leyndarmál og ekki viljað birta þá í heild sinni þrátt fyrir áskoranir þar um.

Augljóst er að Ríkisútvarpið notar listana í þeim tilgangi að koma höggi á forsætisráðherra og ríkisstjórnina í stað þess að einbeita sér að því að veita upplýsingar um málið. Þannig er augljóst að tilteknar upplýsingar úr þessum listum eru birtar og öðrum haldið eftir. Síðan hafa álitsgjafar verið valdir af mikilli vandvirkni í því leikriti sem Ríkisútvarpið hefur sett á svið um leið og það hefur kastað allri hlutlægni fyrir róða.

Segja má að tónninn hafi verið slegin í umfjöllun Ríkisútvarpið um málið þegar Jón Ólafsson heimspekingur var kallaður sérstaklega til í Kastljós í kjölfar þess að eiginkona forsætisráðherra hafði greint frá reikningum sínum erlendis. Jón var trúnaðarmaður Jóhönnu Sigurðardóttur fyrrverandi forsætisráðherra og stjórnaði innra umbótastarfi Samfylkingarinnar eftir hrun. Hann hefur reglulega verið kallaður til af Ríkisútvarpinu til þess að fjalla um störf núverandi ríkisstjórnar.

Í morgunútvarpið föstudaginn 18. mars voru síðan kallaðir til að ræða mál forsætisráðherra þeir Jóhann Hauksson fyrrum upplýsingafulltrúi Jóhönnu Sigurðardóttur og Jóhann Páll Jóhannsson blaðamaður á Stundinni, sem hefur skrifað ótal greinar um forsætisráðherra og Framsókn, þar sem hatri og fyrirlitningu á flokknum hefur verið sáð. Það er ekki að ástæðulausu að jafnvel Egill Helgason segir opinberlega að Stundin sé fjölmiðill sem hati Framsóknarflokkinn. Engin tilraun var gerð til að benda á pólitískan bakgrunn Jóhanns Haukssonar enda er hann flestum vel kunnur.

Í kvöldfréttum sama dag var efnt til sérstakrar umræðu um það hvort forsætisráðherra hefði farið eftir siðareglum. Var þá kallaður til Vilhjálmur Árnason prófessor en á sínum tíma kallaði hann afstöðu Sigmundar Davíðs, um að segja nei við Icesave-samningum, „siðferðilega óverjandi“. Facebook síða Samfylkingarinnar sá ástæðu til að dreifa þessu viðtali sérstaklega enda mætir Vilhjálmur gjarnan þar á félagsfundi.

Mánudagsmorguninn þar á eftir tók svo steininn úr þar sem enn á ný voru boðnir til að tjá sig tveir yfirlýstir andstæðingar forsætisráðherra, þeir Róbert Marshall þingmaður Bjartrar framtíðar og Indriði H. Þorláksson hægri hönd Svavars Gestsonar í Iceasave samninganefndinni. Það þarf ekki lengi að lesa skrif og ræður Róberts til að átta sig á því að hann fyrirlítur Framsóknarflokkinn – „Til hvers er Framsóknarflokkurinn?“ spyr hann í blaðagrein árið 2007 – „Hann er vítið sem öllum ber að varast.“ er svarið.

Ríkisútvarpið virðist líka alveg hafa gleymt því að Indriði H. Þorláksson á sér sögu í pólitískri andstöðu við Sigmund Davíð, að hann samdi um og skrifaði undir Svavarssamningana árið 2009 og var hægri hönd Steingríms J. Sigfússonar, ýmist sem ráðuneytisstjóri eða pólitískur aðstoðarmaður, þegar bankarnir voru gefnir hrægammasjóðunum, eins og Víglundur Þorsteinsson hefur upplýst með því að draga fundargerðir eins og tennur úr kjafti kerfisins. En Indriði er að sjálfsögðu aðeins kynntur sem „fyrrverandi ríkisskattstjóri“ þegar hann mætir í Ríkisútvarpið til viðtals.

Þegar kom fram í dymbilviku flæddu einnar heimildar „fréttir“ um Ríkisútvarpið þar sem þingmenn stjórnarandstöðu fengu að úttala sig um fjármál eiginkonu forsætisráðherra. Viðtöl við þá sem báru blak af forsætisráðherra voru afflutt þannig að viðmælendur urðu að skrifa bloggfærslur til leiðréttingar. Þetta sást glögglega í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins föstudaginn langa. Þar var herferðinni gegn forsætisráðherra haldið áfram. Í inngangi að frétt Ríkisútvarpsins var sagt að Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, vilji þingflokksfund til að ræða fjármál eiginkonu forsætisráðherra. Það væri stórfrétt ef stjórnarþingmaður færi fram á þingflokksfund enda gaf það slúðrinu vængi.

Í inngangi fréttarinnar sagði:
Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir að Wintris-málið sé óþægilegt fyrir ríkisstjórnarsamstarfið, sérstaklega í ljósi samninga við kröfuhafa og afnáms hafta. Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins þurfi að funda um málið og fá allar staðreyndir upp á borð áður en hægt sé að taka afstöðu til þess.

Þetta reyndist rangt. Brynjar óskaði ekki eftir þingflokksfundi til að ræða fjármál Önnu Sigurlaugar. Það kemur fram í meginmáli fréttarinnar, þar sem orð Brynjars eru endursögð. Brynjar sá sig knúinn að birta bloggfærslu til að taka af öll tvímæli: hann telur forsætisráðherra ekki vanhæfan. En hann gerir ráð fyrir að þingflokkurinn ræði málið, „sérstaklega ef fram kemur vantrauststillaga á þinginu.”

Það er vitanlega allt annað að gera ráð fyrir umræðum í þingflokki eða að fara fram á að þingflokkurinn ræði þetta tiltekna mál.

Ríkisútvarpið reyndi þannig sem fyrr að afbaka umræðuna til að hún þjóni pólitískum tilgangi fréttastofunnar.

Líklega má segja að toppurinn hjá fréttastofunni hafi verið fréttin með Svandísi Svavarsdóttur, þingmanni Vinstri grænna, þar sem hún sagði efnahagslegt fullveldi landsins í hættu vegna bankareiknings eiginkonu forsætisráðherra.

Öllum má vera ljóst að RÚV stundar pólitík en ekki fréttamennsku í málinu. Þegar Sigmundur Davíð og Anna Sigurlaug tóku saman greinargerð til að svara ásökunum gerði Ríkisútvarpið þau viðbrögð tortryggileg og skautaði framhjá efnisatriðum málsins. Augljóst var að Ríkisútvarpið fann enga málefnalega veilu í greinargerðinni heldur var sérstaklega bent á lengd hennar!

Sama ástand ríkti eftir páska. Þriðjudaginn 29. mars var í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins fjallað um þau Bjarna Benediktsson og Ólöfu Nordal og tengsl þeirra við aflandsfélög. Inngangur fréttarinnar var endurtekning á ásökunum Ríkisútvarpsins á hendur forsætisráðherrahjónunum.

Áður hefur verið upplýst að sá listi sem Ríkisútvarpið er með aðgang að geymir nöfn stjórnmálamanna úr vinstriflokkunum. Þeirra var ekki getið í frétt Ríkisútvarpsins það kvöld frekar en önnur. Öllum má vera ljóst að Ríkisútvarpið stundar fréttahönnun með skýru pólitísku markmiði; að tengja aflandsfélög við stjórnarflokkana.

Nú þegar hefur verið upplýst að gjaldkeri Samfylkingarinnar var umsvifamikill eigandi aflandsfélaga er umfjöllun Ríkisútvarpsins í skötulíki. Undarlegast er að einn þeirra fréttamanna Ríkisútvarpsins, sem um málið hafa fjallað, er meðeigandi sama gjaldkera í fjölmiðlafyrirtækinu Kjarnanum ef marka má skráningu Fjölmiðlanefndar. Er hugtakið hlutlægni algerlega framandi fyrir starfsmenn Ríkisútvarpsins? Hafa þeir engan skilning á að þeir geti verið vanhæfir í einstökum málum eins og þarna hefur sannast. Ríkisútvarpið hefur flutt eina frétt af málefnum gjaldkera Samfylkingarinnar og í engu getið að hann hefur fjármuni annars staðar en í Lúxemborg.

Fréttaleikritið heldur áfram. Fyrir ríkisstjórnarfund á miðvikudaginn var mikill viðbúnaður af hálfu starfsmanna Ríkisútvarpsins sem hlupu á milli ráðherra á tröppunum fyrir framan Stjórnarráðið. Allir skyldu fá á tilfinninguna að það væri mikið óðagot og panik í herbúðum ríkisstjórnarinnar.

Þorsteinn Pálsson fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra var gestur Síðdegisútvarps Rásar 1 fimmtudaginn 31. apríl. Þorsteinn hefur verið einn harðasti gagnrýnandi núverandi ríkisstjórnar og sparaði sig hvergi. Hann sagði að eftir að upplýst var um aflandsfélög tengd ráðherrum séu engar siðferðilegar stoðir lengur fyrir þeirri pólitísku stefnu ríkisstjórnarinnar að sumir geti staðið fyrir utan krónuhagkerfið, en aðrir ekki.

Vandræðagangur stjórnarandstöðunnar var augljós með vantrausttillögu sína þó Ríkisútvarpið gerði sitt besta til að breiða yfir það. Á ritstjórn ruv.is var greinilega óljóst um hvað fyrir stjórnarandstöðunni 31. mars: „Stjórnarandstaðan boðar vantrauststillögu og fer fram á þingrof.“ Þetta er auðvitað rangt. Stjórnarandstaðan hefur einmitt ekki boðað vantrauststillögu heldur þingrofstillögu. Kjarni þingræðisreglunnar er að ríkisstjórn hafi meirihluta þings að baki sér. Reglan snýst ekki um þingrof heldur kann samþykkt vantrausts að leiða til þingrofs.

Augljóslega er verið að móta orðræðuna á Ríkisútvarpinu. Þegar farið var yfir fréttir vikunnar að morgni föstudagsins 1. apríl með þeim Páli Magnússyni fyrrverandi sjónvarpsstjóra og Sigurði G. Guðjónssyni lögmanni. Þar talaði umsjónarmaður morgunútvarps um „vörn“ forsætisráðherra þegar hann vék að þeim upplýsingum sem hann hafði veitt. Ekki var rætt um að neinn væri í „sókn“ í málinu!

Á sama tíma var Óðinn Jónsson búinn að kalla aftur til leiks Vilhjálm Árnason, heimspekiprófessor á Morgunvakt Rásar 1. Vilhjálmur flutti erindi sitt enn á ný og sagði að vegna trausts og trúverðugleika í íslenskum stjórnmálum séu aflandsfélagsmál forystumanna mjög slæm. Stjórnmálamenn verði að vanda sig.

„Einmitt vegna þessa trausts eða trúverðugleika, sem er mikilvægast að byggja upp, eru þessi mál svona ótrúlega slæm. Ekki bara það að upp hafi komist um forystumenn í stjórnmálum sem ættu að vera til fyrirmyndar í málum sem þetta varðar. Þeir stjórnmálamenn sem veljast til forystu þurfa að vanda sig, sérstaklega ef þeir eiga peninga. Þeir þurfa að fara varlega í þessum málum og alls ekki haga sér á þann hátt sem þeir ætlast til þess að borgararnir geri ekki. Þarna eru ákveðnar kröfur, ákveðnar fórnir sem menn í svona stöðum verða að færa, ef þeir líta svo á að séu fórnir,“ sagði Vilhjálmur.

Í þessu samhengi er er rétt að ánýja hversu forsætisráðherrahjónin hafa vandað sig í meðferð arfshluta Önnu Sigurlaugar og hverju hún hefur til fórnað. Af framansögðu sést að aftur og aftur er kallað í sömu álitsgjafanna á meðan Ríkisútvarpið kýs að hundsa algerlega þá sem hafa tjáð sig um málið eða benda á staðreyndir án þess að vera neikvæðir í garð ráðherra.

Undanfarna daga hefur verið auglýstur rækilega sérstakur aukaþáttur Kastljóss sem verður sýndur í sjónvarpi sunnudaginn 3. apríl klukkan 18.00. Þar segir að Kastljós, ásamt Reykjavík Media, muni fjalla um íslenska stjórnmálamenn og aflandsfélög í skattaskjólum. Greiningin byggi á gögnum alþjóðlegra samtaka rannsóknarblaðamanna (ICIJ), þýska dagblaðsins Süddestuche Zeitung og fleiri miðla.

Í kynningu Ríkisútvarpsins segir að umrædd gögn og fyrirspurnir vegna þeirra hafi orðið til þess að eiginkona forsætisráðherra tilkynnti að hún ætti slíkt félag á bresku Jómfrúaeyjum. Síðar hafi komið í ljós að félagið hefði lýst kröfum upp á hálfan milljarð í föllnu bankana. Gögnin tengi einnig Bjarna Benediktsson, fjármálaráðherra, og Ólöfu Nordal, innanríkisráðherra, við aflandsfélög.

Í frétt á heimasíðu Ríkisútvarpsins segir:
,,Í kjölfar þess var einnig greint frá því að Vilhjálmur Þorsteinsson, gjaldkeri Samfylkingarinnar, ætti félag í Lúxemborg. Hann sagði félagið full skattað og allt uppi á borðum en sagði engu að síður af sér í gær. Tenging ráðherranna við aflandsfélög hefur verið harðlega gagnrýnd. Stjórnarandstaðan boðar vantrauststillögu og fer fram á þingrof.“

Fréttastofa Ríkisútvarpsins hefur þannig dögum saman fjallað um einkafjármál forsætisráðherrahjónanna eftir að eiginkona forsætisráðherra upplýsti um að fjölskylduarfleið hennar væri geymd erlendis. Fjölskylduarfleið sem eiginkona forsætisráðherra hefur greitt skatta af alla tíð á Íslandi, ólíkt sumum sem ríkisútvarpið kýs að fjalla einhverja hluta vegna ekkert um.

Á sama tíma hafa forsætisráðherrahjónin gert ítarlega grein fyrir máli sínu. Ljóst er að að þeim er vegið af fádæma hörku og öllum sem þekkja til vinnubragða á fréttastofu ríkisútvarpsins (þar sem ráðherrann starfaði um tíma) verður ljóst að ekki er ætlunin að afla frétta með eltingarleik við ráðherrann heldur atast í honum á sama hátt og stjórnarandstaðan gerir. Ráðherrann hefur ekki viljað taka þátt í þeim gráa leik og rætt við aðra fjölmiðla: Fréttablaðið, útvarpsstöð og fjölmiðlamann á Bylgjunni sem sérhæfir sig í pólitískum fréttum auk þess sem forsætisráðherrahjónin hafa ritað ítarlega greinargerð í formi spurninga og svara og birta á netinu.

Upplýsingar um málið hafa þannig komist rækilega til skila án þess að þær hafi farið í gegnum Ríkisútvarpið. Flestum er ljóst að nálgun Ríkisútvarpsins er pólitísk og mótast af óvild í garð forsætisráðherra sem rennir aðeins stoðum undir þá skoðun að rót eltingarleiksins við ráðherrann sé pólitísk og því ófagleg með vísan til lögbundins hlutverks fréttastofunnar. Heiðarleiki stjórnmálamanna hér eða annars staðar ræðst ekki af því hvort þeir tala við einn fjölmiðil en ekki annan, jafnvel ríkisfjölmiðil. Vandi fréttastofunnar er meiri í þessu máli en forsætisráðherrans sem hefur gert skýra grein fyrir málinu. Það er skýlaus krafa þeirra sem búa við nauðungaráskrift að Ríkisútvarpinu að það birti aflandseignalistann í heild sinni tafarlaust.

Þorsteinn Sæmundsson

Greinin birtist á www.visir.is 2. apríl 2016.

Categories
Greinar

Gleym mér ei

Deila grein

02/04/2016

Gleym mér ei

haraldur_SRGBÝmislegt gengur nú á í íslenskri pólitík. Vantrausttillögur eru ræddar og daðrað er við þá furðulegu alhæfingu að pólitíkusar hljóti nú hreinlega að vera spilltir fram í fingurgóma fyrst þeir tengjast erlendum félögum.

Þá er kosið að líta framhjá staðreyndum á borð við að félag hafi aldrei verið starfandi eða að allir skattar hafi verið greiddir og allt bókhald sé á hreinu, merkilegt nokk.

Umræða um einstaka persónuleg málefni ráðherra og annarra stjórnmálamanna hefur það í för með sér að þau góðu mál sem náð hafa í gegn á þessu kjörtímabili vilja stundum hverfa í mýrinni. Það er miður, því gríðarlegt efnahagslegt og samfélagslegt afrek hefur verið unnið síðustu þrjú ár.

Bættur hagur heimilanna og ríkissjóðs
Fyrir kosningarnar 2013 lofaði Framsókn því að leiðrétta stökkbreyttar verðtryggðar húnæðisskuldir heimilanna, ekkert réttlætti það að lánþegar sætu einir uppi með afleiðingar af völdum efnahagshrunsins. Strax um sumarið 2013 var lagt af stað í undirbúning þeirrar vinnu og skilaði það sér til neytenda um áramótin 2014-2015.

Leiðréttingin var fjármögnuð með svokölluðum bankaskatti, sem lagður var á þrotabú gömlu bankanna. Á sama tíma var auðveldað fólki að festa kaup á fasteign með séreignarlífeyris-sparnaðarleiðinni, að hægt væri að ráðstafa séreignarlífeyrissparnaði til lækkunar höfuðstóls. Einnig býðst fólki að nýta séreignarsparnað til fasteignakaupa og njóta samsvarandi skattafsláttar, en það getur meðal annars nýst fjölskyldum í leiguhúsnæði. Þetta var eitt af stærstu málum okkar og var þarna unninn mikill sigur fyrir íslenskan almenning.

Annað stærra mál var afnám fjármagnshafta. Þar var 1.200 milljarða króna vandi leystur án þess að stefna hagsmunum þjóðarinnar í hættu, með því að koma í veg fyrir að slík upphæð myndi hellast inná gjaldeyrismarkaðinn. Þannig var slitabúum bankanna gert að greiða stöðugleikaframlag sem nemur um 500 milljörðum króna og mun renna í ríkissjóð. Auk þess verður hinn svokallaði aflandskrónuvandi leystur með uppboði á gjaldeyri. Vinna við undirbúning þess hefur dregist nokkuð en áætlunin er óbreytt hvað þetta varðar og undirbúningur er í gangi í Seðlabankanum og fjármálaráðuneytinu. Þessi vinna mun lyfta gríðarþungm bagga af herðum þjóðarinnar.

Áþreifanlegur árangur
Til marks um þann árangur sem náðst hefur síðastliðin ár að kaupmáttur á Íslandi hefur aldrei nokkurn tímann mælst meiri en hann er í dag, atvinnuleysi mælist í 3,6% og er það Evrópumet, þeim fækkar sem þurfa fjárhagsaðstoð, tekjujöfnuður er meiri en nokkurn tímann frá því mælingar hófust og hamingja og jákvæðni Íslendinga eykst með hverju árinu, eftir mikla dýfu í kjölfar efnahagshrunsins. Við höfum einnig skapað okkur stóran sess í jafnréttisbaráttunni á alþjóðavettvangi og atvinnulífið hefur tekið hressilega við sér með auknum fjárfestingum og umsvifum.

Gagnrýni á vissulega alltaf rétt á sér, svo lengi sem hún er málefnaleg. Við megum hins vegar ekki afskrifa allt og gleyma því sem vel hefur verið gert þegar önnur umdeild mál -persónuleg mál- eru til umræðu í samfélaginu, því góðu málin eru nefninlega ansi mörg.

Haraldur Einarsson

Greinin birtist á www.visir.is 2. apríl 2016.

Categories
Greinar

Jóhönnustjórnin – Stjórnarskrá ver kröfuhafa!

Deila grein

01/04/2016

Jóhönnustjórnin – Stjórnarskrá ver kröfuhafa!

ásmundurÍ Kastljósi í gærkvöldi ræddu Vigdís Hauksdóttir og Steingrímur J. Sigfússon um endurreisn bankanna í tíð síðustu ríkisstjórnar. Steingrímur lét að því liggja að ekki væri ástæða til að fara ofan í það hvernig staðið var að endurreisn bankanna á síðasta kjörtímabili þar sem komið hefði út sérstök skýrsla um endurreisn bankanna og farið hefði fram umræða um hana á Alþingi. Ég man vel eftir þessari umræðu vegna þess að hún fór fram 1. júní 2011, en það var daginn sem ég gekk til liðs við Framsóknarflokkinn.

En hvað var sagt við umræður um áðurnefnda skýrslu?

Lilja Mósesdóttir sem á síðasta kjörtímabili var ein af okkar öflugustu þingmönnum þegar kom að efnahagsmálum og baráttunni við erlenda kröfuhafa hafði m.a. þetta að segja í þessari umræðum:

„…Þegar ég ákvað stuttu fyrir kosningar 2009 að bjóða mig fram fyrir hönd Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs trúði ég að forystu VG væri best treystandi til að reisa við efnahagslífið með hagsmuni almennings að leiðarljósi. Aldrei grunaði mig að formaður VG myndi ásamt forystu Samfylkingarinnar verða uppvís að því að gæta hagsmuna erlendra kröfuhafa, eins og Breta, Hollendinga og vogunarsjóða, í Icesave-málinu og nú við endurreisn bankakerfisins….Skjaldborg um bankanna skapar ekki velferð og hagvöxt. Það gerir hins vegar skjaldborg um heimilin og fyrirtækin. Endurreisn bankakerfis á forsendum vogunarsjóða en ekki hagsmuna almennings er vinstri stjórn til ævarandi skammar…“

Í þessari umræðu spurði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson þáverandi fjármálaráðherra Steingrím J. Sigfússon að eftirfarandi spurningu:

„…Hefði ekki verið ráð að nota tækifærið sem gafst á meðan þessi eignasöfn voru lágt metin á heimsmarkaðsverði og láta íslenskan almenning og fyrirtæki njóta góðs af því, þau áttu inni vegna þeirra áhrifa sem efnahagskrísan hafði valdið?“

Þá svaraði Steingrímur J. Sigfússon þáverandi fjármálaráðherra :

„…Ég veit ekki hversu rækilega þarf að reyna að útskýra að slíkt sé ekki hægt í svona ferli þegar menn verða að ganga út frá grundvallarreglunum sem ég hef farið yfir hér, þegar stjórnarskrá er í gildi þar sem eignarréttur er til staðar og varinn og verndaður og þegar stjórnvöld í ofanálag hafa heitið því að viðhafa sanngjarna málsmeðferð í svona uppgjöri….“

Skýrara verður það ekki. Jöhönnustjórnin taldi að ekki væri hægt að gera það sem Framsóknarflokkurinn vildi gera. Það var nefnilega búið að lofa kröfuhöfum „sanngjörnu“ uppgjöri!!

Er nema von að Árni Páll Árnason formaður Samfylkingarinnar hafi nýverið skrifað bréf til flokksmanna þar sem hann sagði m.a. að forgangsröðun í þágu kröfuhafa hafi verið ein af mistökum síðasta kjörtímabils. Er ekki kominn tími til að fá öll spilin á borðið og kanna hvað það var sem réði för þegar farið var gegn almenningi og kröfuhöfum lofað að ekki yrði tekið á þeim?

Ríkistjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks snéri strax af þessari braut. Byrjað var á því að afnema undanþágu fallinna fjármálafyrirtækja frá því að greiða bankaskatt og í framhaldinu hófst vinna sem miðaði að því að innlendar eignir þrotabúanna yrðu afhentar Íslendingum. Það er sérstakt að hlusta á þingmenn úr röðum núverandi stjórnarandstöðu setja uppgjör ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks við kröfuhafana sem eina af ástæðum þingrofstillögu sinnar. Umræðurnar verða hinsvegar kærkominn vettvangur til að ræða breytta stefnu og þá staðreynd að erlendir kröfuhafar eru að færa ríkissjóði hundruði milljarða. Nokkuð sem kallað var poppúlismi fyrir síðustu kosningar.

Ásmundur Einar Daðason

Greinin birtist á https://blog.pressan.is/asmundurd 1. apríl 2016.