Categories
Greinar

Takk, Magnús og Fréttablaðið

Deila grein

10/02/2016

Takk, Magnús og Fréttablaðið

Silja-Dogg-mynd01-vefÍ leiðara Fréttablaðsins, Skoðun, þann 1. febrúar sl., skrifar Magnús Guðmundsson lipurlega um áfengisfrumvarpið sem nú liggur fyrir Alþingi. Rati frumvarpið í atkvæðagreiðslu segir hann svo um þingmenn: „Hver um sig getur sagt já og sett hagsmuni frjálsrar smávöruverslunar á oddinn eða greitt atkvæði á forsendum lýðheilsu og minni kostnaðar fyrir heilbrigðiskerfið og sagt nei.“ Takk, Magnús, fyrir þessi orð. Í þeim hverfist sannleikur þessa máls.

Allar rannsóknir benda til þess sama, að með auknu aðgengi fylgi aukinn áfengisvandi og minni lýðheilsa. Aðgengi er því lykilorð. Rannsóknir þessar hafa haft áhrif á stefnumótun í flestöllum þróuðum ríkjum, þ. á m. á Íslandi. Hvaða stefnu hafa stjórnvöld á Íslandi þá hvað varðar aðgengi að áfengi? Jú, sú stefna er skýr og endurspeglast í þeirri stefnu sem heilbrigðisráðherra hefur samþykkt og birt undir heitinu Stefna í áfengis- og vímuvörnum til ársins 2020. Stefna þessi er auðfundin á veraldarvefnum fyrir þá sem hafa áhuga. Í stefnunni eru sex yfirmarkmið og er það fyrsta eftirtalið: „Að takmarka aðgengi að áfengi og öðrum vímugjöfum.“ Aðgengi er því lykilorð í stefnu Íslands. Aðgengi á að takmarka en ekki auka.

Hagsmunir
Aukið aðgengi að áfengi og þar með aukin neysla er í mótsögn við bætta lýðheilsu. Verri lýðheilsa mun íþyngja heilbrigðiskerfinu og leiða til aukins kostnaðar fyrir ríkissjóð. Það eru því ekki hagsmunir skattgreiðenda að frumvarpið verði samþykkt. Skattgreiðendum þykir flestum að þeir séu píndir nóg nú þegar. Hverjir græða þá á samþykkt frumvarpsins? Jú, þær verslanir sem ætla sér að selja áfengið, það blasir við. Verði frumvarpið samþykkt verður gríðarleg pressa á að aflétta auglýsingabanni á áfengi. Tekjur af áfengisauglýsingum eru einn stærsti tekjuliður dagblaða erlendis. Því hlýtur það að vera freistandi fyrir fjölmiðla að leggjast á sveif með þeim sem vilja að frumvarpið nái fram að ganga. Það er því þeim mun meiri ástæða til að þakka Magnúsi og Fréttablaðinu fyrir ofangreindan leiðara.

Silja Dögg Gunnarsdóttir

Greinin birtist í Fréttablaðinu 10. febrúar 2016.

Categories
Greinar

Fíllinn og fjarkinn

Deila grein

08/02/2016

Fíllinn og fjarkinn

Silja-Dogg-mynd01-vefFlestir vilja eignast eigið húsnæði á einhverjum tímapunkti í lífi sínu. En það mun alltaf vera til sá hópur sem getur ekki eða vill ekki eiga húsnæði. Íslenskur húsnæðismarkaður er í dag, bæði hvað varðar kaup og leigu ómögulegur. Ríkisstjórnarflokkarnir eru samstíga í ályktunum sínum að nauðsynlegt sé að bæta húsnæðiskerfið. Auk þess samþykkti Alþingi  þingsályktun sumarið 2013 um aðgerðaáætlun í tíu liðum. Samkvæmt henni átti að taka á skuldavanda heimila, með því að leiðrétta stökkbreytt húsnæðislán og opna tækifæri til að nýta séreignasparnað til niðurgreiðslu á höfuðstól húsnæðislána. Áætlunin kveður einnig á um að auka stöðugleika og gagnsæi á húsnæðislánamarkaði og vinna að framtíðarskipan húsnæðismála, þar á meðal úrbótum á leigumarkaði.  Markmið ríkisstjórnarflokkanna eru skýr. Við ætlum að bæta hag heimila landsins. Ekki bara húseigenda, heldur allra heimila. Við gleypum ekki fílinn í heilu lagi, en við erum svo sannarlega byrjuð.

Öruggt húsnæði fyrir alla

Umfangsmikið samráð var haft við hagsmunaaðila þegar frumvörpin fjögur um húsnæðismál voru unnin. Þar sem grunnur þeirra er vandaður þá er mjög líklegt að góð samstaða náist um afgreiðslu þeirra á Alþingi. Velferðarnefnd hefur þau nú til meðferðar og sú vinna gengur vel. En um hvað fjalla þessi frumvörp?

  1. Frumvarp til laga um almennar íbúðir felur í sér að byggja samtals 2.300 íbúðir á þessu ári og næstu þremur árum fyrir efnaminni leigjendur. Markmiðið er að fólk geti búið í öruggu húsnæði og að kostnaður fari ekki yfir 20-25% af tekjum. Með auknu framboði og breyttu fjármögnunarformi, lækkar leiguverð.
  2. Frumvarp til laga um húsnæðisbætur felur í sér stóraukinn stuðning fyrir leigjendur. Þar eru frítekjumörk hækkuð og stuðningur miðast við fjölskyldustærð. Verið er að jafna stuðning milli ólíkra búsetuforma svo einstaklingar og fjölskyldur hafi raunverulegt val um búsetuform.
  3. Frumvarp um breytingu á lögum um húsnæðissamvinnufélög (sbr. Búseti og Búmenn). Markmið þess er að styrkja rekstur húsnæðissamvinnufélaga, gagnsæi í rekstri þeirra, auka réttindi íbúa og koma á íbúalýðræði innan félaganna.
  4. Frumvarp um breytingu á húsaleigulögum sem felur í sér aukin réttindi leigjenda og leigusala. Auk þess er verið að skerpa á atriðum, sem deilumál hafa orðið um í leigusamningum undanfarin ár.

Næstu skref

Í framhaldi af þessari vinnu við ofangreind frumvörp þarf að taka á verðtryggingunni og endurskoða fjármálakerfið í heild sinni, með neytendavernd og gagnsæi í huga. Með það að markmiði að fólk geti eignast húsnæði á sanngjörnum kjörum. Horfa þarf til þess að fjölga hvötum til sparnaðar og endurskoða þau skilyrði sem sett eru fram um greiðslumat. Sú vinna er hafin í efnahags – og viðskiptanefnd þingsins.

Silja Dögg Gunnarsdóttir

Greinin birtist í Víkurfréttum 5. febrúar 2016.

Categories
Greinar

Nauðsynlegar umbætur á húsnæðismarkaði

Deila grein

05/02/2016

Nauðsynlegar umbætur á húsnæðismarkaði

Elsa-Lara-mynd01-vefurÁ sumarþingi 2013 samþykkti Alþingi þingsályktunartillögu í 10 liðum. Um var að ræða aðgerðaáætlun sem fól það m.a. í sér að taka á skuldavanda heimila, auka stöðugleika og gagnsæi á húsnæðislánamarkaði og vinna að framtíðarskipan húsnæðismála, þar á meðal úrbótum á leigumarkaði.

Einn liður tillögunnar fjallaði um að félags – og og húsnæðismálaráðherra ætti að skipa verkefnastjórn um framtíðarskipan húsnæðismála. Verkefnastjórnin hafi m.a. það hlutverk að koma með tillögur að nýju húsnæðislánakerfi með það í huga að tryggja virkan leigumarkað og skilvirk félagsleg úrræði fyrir þá sem slíkt þurfa.  Verkefnastjórnin skilaði af sér tillögum árið 2014. Út frá þeirri vinnu komu síðar frumvörp sem nú er unnið að  í velferðarnefnd þingsins.

Aukum framboð og stuðning

Um er að ræða fjögur frumvörp, sem öll varða leigumarkaðinn. Margar umsagnir hafa borist um málin og eru flestar þeirra jákvæðar. Því ber að þakka því viðamikla samráði sem málin fóru í gegnum, við vinnslu þeirra. Unnið er hratt og vel að því að klára þessi mál svo þau verði sem fyrst að mikilvægum húsnæðisumbótum. En um hvað fjalla þessi frumvörp?

  1. Frumvarp til laga um almennar íbúðir felur í sér að byggja samtals 2.300 íbúðir á þessu ári og næstu þremur árum fyrir efnaminni leigjendur. Markmiðið er að fólk geti búið í öruggu húsnæði og að leigan fari ekki yfir 20-25% af ráðstöfunartekjum.
  2. Frumvarp til laga um húsnæðisbætur felur í sér stóraukinn stuðning fyrir leigjendur. Þar eru frítekjumörk hækkuð verulega og húsnæðisstuðningur miðast við fjölskyldustærð. Ætlunin er að jafna stuðning milli ólíkra búsetuforma svo einstaklingar og fjölskyldur hafi raunverulegt val um búsetuform.
  3. Frumvarp um breytingu á lögum um húsnæðissamvinnufélög hefur það markmið að styrkja rekstur húsnæðissamvinnufélaga, auka gagnsæi í rekstri þeirra og koma á auknu íbúalýðræði.
  4. Frumvarp um breytingu á húsaleigulögum sem felur í sér aukin réttindi leigjenda og leigusala. Auk þess er verið að skerpa á atriðum, sem deilumál hafa orðið um í leigusamningum undanfarin ár.

Fjölgun á leigumarkaði

En hvers vegna eru þessi frumvörp svona mikilvæg fyrir einstaklinga og fjölskyldur á leigumarkaði? Hvers vegna er svona mikilvægt að þau nái fram að ganga? Jú það er vegna þess að

  • það er staðreynd að veruleg fjölgun hefur átt sér stað á leigumarkaði frá árinu 2008. Þannig voru 20,8 % heimila á Íslandi á leigumarkaði árið 2014, samanborið við 12,9 % árið 2008.
  • leigjendur á almennum leigumarkaði eru líklegastir til að hafa verulega íþyngjandi húsnæðiskostnað, samanborið við aðra hópa á húsnæðismarkaði. Það er um verulega íþyngjandi húsnæðiskostnað er að ræða þegar 40% eða hærra hlutfalli af ráðstöfunartekjum er varið í húsnæðiskostnað.

Auk þessa er óhætt að halda því fram að þær aðgerðir sem farið hefur verið í frá árinu 2008 og kostað 237 milljarða, hafa ekki komið til þessa hóps sem umrædd frumvörp eiga að ná til. Um er að ræða útgjöld til Íbúðarlánasjóðs, í vaxtabætur, sérstakar vaxtabætur og til niðurfellingar á verðtryggðum húsnæðisskuldum heimilanna.

Lækkum húsnæðiskostnað

Sumir vilja halda því fram að auknar húsnæðisbætur muni hækka leiguverð. Sem mótvægisaðgerð við þau sjónarmið var ákveðið að lækka fjármagnstekjuskatt á leigutekjur um 4 %, en þeirri aðgerð er m.a. ætlað að draga úr hækkunaráhrifum bótanna á leiguverð. Í umsögn Seðlabankans um málið segir að umrætt frumvarp muni skila sér í lægri húsnæðiskostnaði fyrir einstaklinga og fjölskyldur á leigumarkaði. Það passar vel við þær athugasemdir sem ráðgjafafyrirtækið Analityca hefur lagt fram um málið.

Heildarsamhengið mikilvægt

Þegar umrædd húsnæðisfrumvörp hafa verið afgreidd þá taka verðtryggingarmálin við. Í því samhengi þarf að horfa til vaxtabyrði lána og greiðslubyrði fólks af húsnæðislánum. Festa þarf í sessi hvata til húsnæðissparnaðar, t.d. í formi séreignasparnaðar. Jafnframt þarf að endurskoða þau úrræði sem sett eru fram í greiðslumati. Óhætt er að halda því fram að ríkisstjórn Framsóknar – og Sjálfstæðisflokksins vinni að heilum hug fyrir heimili landsins. Hvort sem um er að ræða þau heimili sem falla undir séreignastefnuna, heimili á leigumarkaði eða þau heimili sem falla undir húsnæðissamvinnufélög. Það er markmið ríkisstjórnarinnar að landsmenn hafi raunverulegt val um búsetuform og því er mikilvægt að allar þessar aðgerðir nái fram að ganga.

Elsa Lára Arnardóttir

Greinin birtist í Morgunblaðinu 5. febrúar 2016.

Categories
Greinar

Er alveg sjálfsagt að einkavæða bankana?

Deila grein

30/01/2016

Er alveg sjálfsagt að einkavæða bankana?

frosti_SRGBRíkið á í dag 98,2% hlut í Landsbankanum, 22,6% hlut í Arion banka og fljótlega mun ríkið eignast Íslandsbanka að fullu. Þá verður bankakerfið í landinu að ¾ hlutum í eigu ríkisins. Er það gott eða slæmt? Hver eru rökin með og á móti einkavæðingu í þetta sinn?

Það er gjarnan bent á að vaxtagjöld ríkisins eru mikil og nota mætti andvirði seldra hluta í bönkunum til að lækka skuldir og vaxtagjöld. Heildarvaxtagjöld ríkisins árið 2016 eru áætluð 74 ma. kr. og þar er vaxtakostnaður vegna framlags ríkisins til bankanna metinn á 7,6 ma. kr. Með því að selja hlut ríkisins í bönkunum mætti vissulega draga úr skuldum og þar með vaxtagjöldum en um leið hættir ríkið að fá arð af bönkunum og hlutdeild í hækkandi verðmæti þeirra. Að meðaltali hefur ríkið fengið 9,4 ma. kr. í arð sem er 2 ma. kr. hærri en vaxtakostnaðurinn af framlaginu.

Eigið fé aukist hratt
Á þessu ári gæti Landsbankinn greitt óvenju mikinn arð, allt að 63 ma. kr. Og þótt arðurinn á næstu árum verði hóflegri verður hann að öllum líkindum hærri en vaxtakostnaðurinn. Það virðist því koma betur út fyrir ríkissjóð að eiga bankana áfram.

Eigið fé bankana hefur aukist hratt frá stofnun þeirra. Hlutdeild ríkisins í aukningunni hefur numið alls um 116 ma. kr. og þá er stöðugleikaframlagið ekki meðtalið. Ef bankarnir skila hagnaði áfram mun eigið fé bankanna líka vaxa. Söluverðmæti bankana getur aukist verulega á næstu árum því nú er verðmat á bönkum almennt lágt miðað við sögulegt meðaltal og væntanleg sala Arion banka kemur í veg fyrir að besta verð fáist fyrir hlut ríkisins í Landsbanka á sama tíma.

Það getur tekið nokkur ár fyrir markaðinn að ná sér á strik aftur og á meðan væri skynsamlegt fyrir ríkið að bíða með öll söluáform. Að selja við núverandi aðstæður getur vel leitt til þess að ríkið fái tugmilljörðum lægra verð fyrir hlut sinn en ella.

Öruggast að eiga bankana
Í öðru lagi hefur verið nefnt að það sé áhættusamt fyrir ríkið að eiga stóran hlut í bönkunum og því liggi á að selja. Það er vissulega rétt en vandinn er hins vegar sá að þótt ríkið einkavæði bankana situr áhættan eftir sem áður að verulegu leyti á ríkissjóði. Bankarnir eru hver um sig of stórir og mikilvægir til að fá að fara á hausinn eins og venjuleg einkafyrirtæki. Ríkið myndi ávallt koma þeim til bjargar á kostnað skattgreiðenda. Þar til fundin er lausn á þeim vanda er öruggast fyrir ríkissjóð að eiga bankana og setja þeim eigendastefnu sem takmarkar áhættu þeirra og dregur þannig á hættu á frekari skakkaföllum ríkissjóðs vegna falls bankanna.

Ef bankarnir yrðu einkavæddir núna munu nýir eigendur vilja hámarka arðsemi sinnar fjárfestingar. Þeir myndu setja bankanum stefnu sem þýddi töluvert meiri áhættutöku en ríkið hefði gert sem eigandi. Nýir eigendur myndu einnig vilja hámarka vaxtamun bankans og hækka þjónustugjöld en hvorugt kæmi sér vel fyrir viðskiptavini bankanna, fyrirtækin og heimilin í landinu. Vegna þess að hér ríkir fákeppni á bankamarkaði er mjög hætt við því að einkavæddir bankar geti dregið til sín óeðlilega mikinn hagnað út úr hagkerfinu. Við slíkar aðstæður virðist betra fyrir landsmenn og einnig ríkissjóð að eiga bankana enn um sinn og setja þeim stefnu um hóflegan hagnað, hóflega áhættu og hagkvæmni í rekstri.

Liggur ekki á að selja
Sem betur fer liggur ekkert á að selja bankana og því ætti að gefast góður tími til að ræða kosti og galla einkavæðingar á þeim og treysta umgjörð þeirra. Næstu misseri mætti nýta til að skipta bönkunum upp í viðskiptabanka, fjárfestingabanka og íbúðalánabanka til að draga úr áhættu þessara ólíku sviða. Peningamyndun þyrfti að færast alfarið frá bönkum til Seðlabankans þannig að peningakerfið, sem aldrei má bregðast, verði ekki lengur háð fjárhag einstakra banka eins og nú er. Eftir þessar breytingar væru bankarnir áfram stöndug og verðmæt fjármálafyrirtæki sem ríkið gæti einkavætt án þess að sitja áfram uppi með áhættuna.

Frosti Sigurjónsson

Greinin birtist í DV 29. janúar 2016.

Categories
Greinar

Íslensk þjóðmenning í hávegum höfð

Deila grein

25/01/2016

Íslensk þjóðmenning í hávegum höfð

Sigmundur-davíðÍ dag fögnum við merkum áfanga sem markar þáttaskil í þjóðminjavörslu á Íslandi. Í Þjóðminjasafninu er varðveitt stórt safn minja um meira en þúsund ára sögu íslensku þjóðarinnar. Í samræmi við áherslur stjórnvalda á málaflokkinn hefur verið tekin ákvörðun um að tryggja bestu aðstæður fyrir þessa grunnstarfsemi þjóðminjavörslunnar. Undirritaður verður samningur um nýtt og vel búið fjögur þúsund fermetra Varðveislu- og rannsóknasetur Þjóðminjasafns Íslands sem ætlað er að mæta kröfum samtímans um örugga vörslu menningarminja. Í húsinu verða öryggisgeymslur fyrir stóran hluta safnkosts Þjóðminjasafns auk starfsaðstöðu fyrir sérfræðinga, fræðimenn og nemendur. Öflug öryggisvarsla, hita- og rakastýring verður í húsnæðinu svo tryggja megi varðveislu fjölbreytts og viðkvæms safnkosts muna og jarðfundinna gripa. Í húsnæðinu verða einnig rannsóknarstofur, forvörsluverkstæði, aðstaða til sérhæfðrar umsýslu forngripa og aðstaða til undirbúnings sýninga. Einnig verður í húsnæðinu aðstaða til kennslu en Þjóðminjasafn Íslands er háskólastofnun með mikilvægt hlutverk fyrir námsmenn og rannsóknarstörf.

Grundvallarbreytingar voru gerðar á málefnum menningararfs með núverandi ríkisstjórn árið 2013 þegar forræði málaflokksins var flutt í forsætisráðuneytið samkvæmt forsetaúrskurði. Frá þeim tíma hefur markvisst verið unnið að því að efla stofnanir og starfsemi á málefnasviðinu. Samþykkt hafa verið lög um verndarsvæði í byggð sem stuðla að verndun byggðamynsturs í þéttbýli og er nú unnið að endurskoðun laga sem varða málaflokkinn. Sjónum hefur ekki hvað síst verið beint að sögulegum húsum í vörslu Þjóðminjasafns Íslands, en þar eru varðveitt torfhús sem eru á yfirlitsskrá heimsminjaskrár UNESCO. Gert hefur verið víðtækt átak á sviði minjaverndar, sem meðal annars felur í sér bætt aðgengi ferðamanna að minjastöðum þjóðarinnar. Með Varðveislu- og rannsóknasetri Þjóðminjasafns Íslands verður stuðlað að vandaðri vörslu menningarminja og auknum skilningi á menningararfi Íslands. Í því felast tækifæri til menntunar, atvinnusköpunar og aukinnar hagsældar í landinu. Það er því mikið fagnaðarefni að þessum áfanga sé náð.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson

Greinin birtist í Fréttablaðinu 22. janúar 2016.

Categories
Greinar

Veikasti hlekkurinn?

Deila grein

15/01/2016

Veikasti hlekkurinn?

Silja-Dogg-mynd01-vefMeð innlimun á Krímskaga braut Rússland gróflega gegn friðhelgi landamæra Úkraínu og alþjóðalögum, sem ekki á sér hliðstæðu í Evrópu frá lokum síðari heimsstyrjaldar. Eftirleikurinn er öllum ljós og ekkert í stöðunni sem kallar á endurmat vestrænna ríkja í þvingunaraðgerðum sínum gagnvart Rússlandi.

Samstaða nauðsynleg

Það er eðli þvingunaraðgerða að ná ekki markmiðum sínum nema mörg ríki standi að þeim sameiginlega. Í þessu tilfelli standa auk Bandaríkjanna, Evrópusambandsins, EES og EFTA-ríkjanna, aðildarríki Atlantshafsbandalagsins, Ástralía og Nýja-Sjáland saman. Framan af snerust þær um takmarkanir á ferðafrelsi tiltekinna einstaklinga og frystingu fjármuna þeirra og tiltekinna fyrirtækja. Eftir að malasíska farþegaþotan var skotin niður yfir Úkraínu í júlí 2014 var hert á aðgerðunum og þær ítrekað framlengdar.

Ákvörðun Rússa vonbrigði

Vandinn sem íslensk stjórnvöld standa frammi fyrir liggur ekki okkar megin, heldur í breyttri afstöðu Rússa sem beina nú sjónum að minnstu ríkjunum sem standa að þessum aðgerðum, væntanlega í von um að finna veikan hlekk og rjúfa samstöðuna. Frá því að Úkraínudeilan hófst hefur Ísland ítrekað talað fyrir virku samtali við Rússland. Við höfum stutt þær aðgerðir sem líklegar eru til sátta og höfum ekki hikað við að gagnrýna báða aðila átakanna þegar svo ber  undir. Samskipti okkar við Rússa hafa einkennst af virðingu og hófsemd, nú sem endranær. Það eru því gríðarleg vonbrigði að rússnesk yfirvöld ákváðu að bæta Íslendingum á lista yfir lönd sem sættu innflutningsbanni á matvælum. Slíkt bann er úr öllu samræmi við þær aðgerðir sem Rússar eru beittir af hálfu okkar og annarra þjóða en það hefur beinst gegn litlum hópi einstaklinga og viðskiptum tengdum hergagnaframleiðslu. Það dylst engum að innflutningsbann Rússa kemur hins vegar mjög illa niður á íslenskum sjávarútvegi og matvælaframleiðendum og einstökum byggðarlögum. Þau mál verður að skoða sérstaklega og ráðamenn hafa lýst sig reiðubúna til þess.

Nýjir markaðir

Íslensk stjórnvöld hafa gert sitt ítrasta til að koma í veg fyrir að bannið; ráðamenn hafa ritað  bréf til rússneskra starfsbræðra og embættismenn hafa átt fundi með Rússum til að útskýra stöðu okkar. Í kjölfar ákvörðunar Rússa kom utanríkisþjónustan á framfæri hörðum mótmælum á framfæri við þá. Samtímis hefur ráðuneytið lýst sig reiðubúið til samstarfs við útflytjendur um sókn á nýja markaði.

Utanríkisstefna Íslendinga

Ísland á mikið undir því að ríki hafi alþjóðalög í heiðri og fari friðsamlega fram í alþjóðasamskiptum. Þverpólitísk sátt hefur ríkt um stefnu stjórnvalda í málefnum Úkraínu og þvingunaraðgerðum gagnvart Rússlandi sem er þýðingarmikið í slíku grundvallarmáli sem Úkraínudeilan er. Ríkisstjórnin telur brýnt að stjórnvöld sýni áfram fulla samstöðu með öðrum vestrænum ríkjum og haldi uppi þrýstingi á rússnesk stjórnvöld. Það væri raunar mikill ábyrgðarhluti að rjúfa slíka samstöðu. Breyting á okkar afstöðu væri kúvending á áratugalangri stefnu Íslands í utanríkismálum, og yrði ekki nema að undangenginni ítarlegri umræðu á vettvangi íslenskra stjórnmála þar sem öllum steinum yrði velt við. Hún myndi í grunninn snúast um spurninguna:  Viljum við vera veikasti hlekkurinn í samstöðu vestrænna ríkja um að verja alþjóðalög? Svar mitt við þeirri spurningu er: nei.

Silja Dögg Gunnarsdóttir

Greinin birtist í DV 15. janúar 2016.

Categories
Greinar

Athugasemdir við Stöðuskýrslu Bankasýslu Ríkisins

Deila grein

13/01/2016

Athugasemdir við Stöðuskýrslu Bankasýslu Ríkisins

Í Stöðuskýrslu Bankasýslu Ríkisins varðandi eignarhald og sölu á Landsbankanum er fjallað um efnið frá ýmsum hliðum og er komist að þeirri niðurstöðu að rétt sé að hefja söluferlið. Í inngangi skýrslunnar er kallað eftir ábendingum um innihald skýrslunnar og hér koma mínar hugleiðingar um skýrsluna og niðurstöður hennar.

Niðurstaða stöðuskýrslunnar
Með hliðsjón af fjórum efnahagslegum þáttum þ.e. efnahagslegum stöðugleika, verðmati á hlutabréfum í fjármálafyrirtækjum, fjárhagslegu bolmagni mögulegra kaupenda og stöðu Landsbankans telur Bankasýslan rétt að hefja sölumeðferð á eignarhlutum í Landsbankanum á þessu ári og boðar að á fyrsta ársfjórðungi muni ráðherrann fá tillögur stofnunarinnar um aðferðafræðina. Bankasýslan telur líklegt að aðaltillagan verði sú að selja allt að 28.2% hlut í bankanum í almennu útboði og skráningu hlutabréfanna á markað í framhaldi.

Ákvörðun stofnunarinnar um að mæla með sölu byggir eins og fram kemur á fjórum meginþáttum en við nánari skoðun er það mín niðurstaða að tveir þessara þátta mæli sterklega gegn sölu nú. Eins og fram kemur í skýrslunni er verðmat á hlutabréfum banka sögulega mjög lágt og einnig kemur fram að innlendir fjárfestar hafa alls ekki bolmagn til að kaupa 28.2% í bankanum. Hvort tveggja mælir gegn sölu ef markmiðið er að fá hæsta verð fyrir hlut ríkisins í bankanum.

Verðmat hlutabréfa í fjármálafyrirtækjum er enn lágt í sögulegu samhengi
Screen Shot 2016-01-12 at 21.34.49Á bls. 23 í skýrslunni kemur fram að “Virðismat á hlutabréfum í fjármálafyrirtækjum og þá sérstaklega í bönkum hefur batnað mikið undanfarin misseri.” Bankasýslan telur hækkandi verð mæla með sölu á eignarhlutnum. Það er vissulega rétt að verðmat evrópskra banka hefur hækkað nokkuð frá lágpunktinum 2008 en í sögulegu samhengi er verðið enn nær helmingi lægra en meðaltal áranna 1997-2007. Því má telja líklegt að enn sé til staðar verulegt svigrúm til hækkunar. Verði sölu frestað myndi ávinningurinn af slíkri hækkun renna til ríkissjóðs. Þótt hækkunin myndi aðeins brúa helminginn af bilinu upp að hinu sögulegu meðalvirði myndi það skila ríkissjóði ríflega 30 ma.kr. ávinningi.

Innlendur markaður getur ekki tekið við 28.2% hlut í bankanum
Bankasýslan kemst að þeirri niðurstöðu að innlendir fjárfestar ráði ekki við að kaupa hlutinn á einu bretti en mælir þrátt fyrir það með sölu og bindur vonir við að erlendir fjárfestar, þó ekki erlendir bankar, kaupi það sem út af stendur til að eiga í sínum eignasöfnum.  Það er trúlega rétt hjá Bankasýslunni að innlendir fjárfestar ættu erfitt með að leggja fram ríflega 70 milljarða á einu ári sem er hið bókfærða virði 28.2% hlutar í Landsbankanum. Innlendir fjárfestar hlytu þó að ráða við verkefnið ef sölunni yrði dreift á nokkurra ára tímabil. Bankasýslan leggur það þó ekki til og mætti útskýra nánar hvers vegna það er ekki gert.

Er skynsamlegt að selja arðbærasta fyrirtækið úr landi?
Það er vissulega ekki í verkahring Bankasýslunnar að taka afstöðu til þessarar spurningar enda gerir stofnunin það ekki. Í mörgum tilfellum er hagkvæmt fyrir Ísland að fá erlenda fjárfesta til að byggja upp ný og arðbær fyrirtæki hér á landi, ekki síst þegar það eflir útflutning og fjölbreytni í atvinnulífinu. Hins vegar er ekki hægt að búast við slíkum ávinningi þegar erlendir fjárfestar kaupa hluti í innlendum banka. Slíkri fjárfestingu fylgir engin ný þekking, engin ný störf skapast og engin ný verðmæti. Erlendir hluthafar vilja bara að bankinn hámarki sinn gróða í þeirri fákeppni sem hér ríkir á bankamarkaði. Bankinn myndi greiða erlendum hluthöfum arð í krónum sem myndu taka hann úr landi í gjaldeyri. Almennt er ekkert athugavert við að erlendir fjárfestar eigi hlutabréf í íslenskum fyrirtækjum en Landsbankinn er alls ekki venjulegt fyrirtæki því ekkert annað fyrirtæki á Íslandi er með meira eigið fé eða hagnað en Landsbankinn. Ef stór hluti af hagnaði arðbærasta fyrirtæki landsins rennur úr landi í formi gjaldeyris getur það haft neikvæð áhrif á lífskjörin í landinu. Auk arðsins sem rennur úr landi mun hækkun á eignarhlutnum renna úr landi og hún gæti orðið veruleg þegar virði banka fer að nálgast sögulegt meðaltal.

Hvernig er hægt að horfa fram hjá áhrifum af sölu á Arion banka?
Á bls. 31 stendur “Munu fyrirætlanir eigenda annarra banka ekki hafa áhrif á framlagningu tillögu af hálfu stofnunarinnar til ráðherra”. Þetta verður vart skilið öðruvísi en að Bankasýslan muni mæla með sölu hlutar í Landsbankanum óháð því hvort á sama tíma séu 87% í Arion banka í sölumeðferð en eigið fé Arion mun vera yfir 170 ma. kr. Með hliðsjón af því að heildarvelta hlutabréfa á verðbréfamarkaði var um 320 ma. kr. fyrstu tíu mánuði ársins 2015 virðist augljóst að sala Arion hljóti að hafa  áhrif til lækkunar á virði sambærilegra hlutabréfa, þ.e. ef við gefum okkur að verð ráðist að einhverju leyti af framboði og eftirspurn. Ríkissjóður getur því ekki búist við að fá hæsta mögulega verð fyrir hlut sinn í Landsbankanum á meðan Arion er til sölumeðferðar og það er vægast sagt ámælisvert að Bankasýslan láti gríðarlegt söluframboð á markaði “ekki hafa áhrif” á sínar tillögur til ráðherrans. Tímabundið offramboð hlýtur að hafa áhrif til lækkunar á markaði og mælir því gegn sölu eignarhlutsins í Landsbankanum við þær aðstæður. Ríkissjóður gæti hér orðið fyrir tugmilljarða tjóni af því að selja þegar markaðurinn er meira en mettur af hlutabréfum í bönkum.

Lausnin virðist blasa við – bankinn selji eignir og greiði ríkinu meiri arð
Verðmat á bönkum er langt undir sögulegu meðaltali í Evrópu auk þess að fyrirsjáanlega er offramboð á hlutabréfum í íslenskum bönkum vegna sölu Arion banka. Því hlýtur að vera skynsamlegast að bíða með öll áform um sölu á hlut ríkisins í Landsbankanum.
Það væri hinsvegar hægt að fara aðra leið til að bæta stöðu ríkissjóðs svo um munar. Samkvæmt upplýsingum á bls. 42 í skýrslunni er eiginfjárstaða Landsbankinn svo rúm að greiða mætti ríkissjóði 19 ma. kr. í arð á þessu ári án þess að bankinn selji eignir að ráði. Bankinn gæti greitt út enn meira, eða um 63 ma. kr. með því að selja lítið brot (3-4%) af eignum sínum. Eins og kemur fram kemur á bls. 44 í skýrslunni gæti slík eignasala einnig nýst til að draga verulega úr verðtryggingarskekkju bankans. Þessi leið virðist hafa mikla kostir fram yfir sölu á eignahlut ríkisins og hún dregur alls ekki úr möguleikum á sölu eignarhlutarins í framtíðinni.

Ríkissjóður hefur hagnast vel á eignarhlut sínum í bönkunum
Á bls. 62 í skýrslunni kemur fram að fórnarvextir ríkisins vegna hlutafjárframlagsins eru orðnir samtals 39,9 ma. kr. á þeim sex árum sem eru liðin. Hinsvegar hefur ríkið fengið 56,6 ma. kr. í arð af bönkunum á sama tíma. Það er hátt í 17 milljörðum meira en nemur vaxtakostnaðinum. Að auki má gera ráð fyrir að verðmæti eignarhlutarins hafi hækkað um 142 milljarða á tímabilinu og hann gæti haldið áfram að hækka ef ekki er selt. Upphaflegt hlutafjárframlag ríkisins nam 138 ma. kr. en nú nemur hlutdeild ríkisins í eigin fé bankanna 280 ma. kr.

Liggur nokkuð á að selja?
Hvers vegna liggur svona mikið á að selja hlut ríkisins í Landsbankanum? Það hefur ekki verið útskýrt. Aftur á móti bendir margt til þess að með því að selja ekki, gæti ríkissjóður áfram notið verulegs arð af hlutabréfaeigninni auk þess sem verðmæti eignarhlutarins gæti hækkað töluvert á komandi árum. Fórnarvextir ríkisins af því að eiga hlutinn eru smávægilegir í samanburði við ávinninginn og því er erfitt að sjá hvernig það þjónar hagsmunum ríkisins eða skattgreiðenda að selja hlutinn á þessu ári.

Frosti Sigurjónsson

Greinin birtist á www.frostis.is 12. janúar 2016.

Categories
Greinar

Boltinn hjá Alþingi

Deila grein

13/01/2016

Boltinn hjá Alþingi

Silja-Dogg-mynd01-vefStjórnvöld hafa lagt mikla vinnu í að greina stöðu húsnæðismála síðustu misserin. Einnig hefur verið öflugt samráð um frumvarpsgerð við fjölda aðila á þessu sviði. Aðilar vinnumarkaðarins hafa lagt til málanna eins og yfirlýsingin í tengslum við kjarasamningana sl. vor sýnir. Í henni eru mikilvægir þættir húsnæðismála tilgreindir. Ekki fer fram hjá neinum að félags- og húsnæðismálaráðherra hefur borið hitann og þungann af undirbúningi fjögurra frumvarpa til að bæta úr stöðunni með nýrri húsnæðisstefnu.

Tekjulágir á leigumarkaði
Húsnæðisfrumvörpin komu öll til Alþingis fyrir jól og velferðarnefnd er nú með þau til umfjöllunar. Mikilvægt er að þingmenn leggi kraft í nefndarstarfið þannig að unnt verði að lögfesta húsnæðisfrumvörpin. Félagsvísarnir, sem Hagstofan gefur út reglulega, gefa góðar vísbendingar um velferð á Íslandi. Þeir sýna að stór hluti þeirra sem eru undir lágtekjumörkum hér á landi eru á leigumarkaði. Stærstu hóparnir þar eru tekjulágir einstaklingar og einstæðir foreldarar og börn þeirra. Ný húsnæðisstefna gagnast m. a. þessum hópum.

Lægra verð
Mikilvægt er að ná fram áherslunni sem er lögð á fleiri og ódýrari íbúðir. Stefnan er að félagslega leigukerfið verði fjármagnað með stofnframlögum ríkis og sveitarfélaga sem nema um þrjátíu prósentum af stofnkostnaði. Framlögin, auk annarra þátta, ættu að leiða til þess að húsnæðiskostnaður tekjulágra einstaklinga nemi ekki hærra hlutfalli en um 25 prósentum af tekjum þeirra. Því ætti einstaklingur með 300 þús. kr. í laun að greiða að hámarki um 65 þús.kr. í húsnæðiskostnað í nýja kerfinu. Byggja á 2.300 íbúðir á næstu fjórum árum. Þegar forsendur eru skoðaðar kemur í ljós að útreikningar gera m.a. ráð fyrir einföldun á byggingarreglugerð og lækkun lóða- og gatnagerðargjalda. Það mun skila sér í lægri byggingarkostnaði. Þannig verður unnt að veita tekjulágum fjölskyldum, sem hingað til hafa ekki átt kost á íbúðum í félagskerfi sveitarfélaganna, aðgang að ódýru og öruggu leiguhúsnæði.

Ég treysti á að þingmenn liðki fyrir framgangi húsnæðisfrumvarpanna. Það er til mikils að vinna.

Silja Dögg Gunnarsdóttir

Greinin birtist í Fréttablaðinu 13. janúar 2016.

Categories
Greinar

Hringtenging raforku – fjármagn til undirbúnings

Deila grein

12/01/2016

Hringtenging raforku – fjármagn til undirbúnings

ásmundurÞeim fer fjölgandi sem átta sig á því að sjaldan hefur virkjun Hvalár verið jafn nálægt því að verða að veruleika. Það yrði mikil lyftistöng fyrir Vestfirði í heild ef rétt er á málum haldið. Gagnvart framkvæmdinni sjálfri þá er mikilvægt að stytta flutningsleiðina á raforkunni en það væri t.d. hægt að gera með skilgreiningu á nýjum tengipunkti í Ísafjarðardjúpi. Það er ekki síður mikilvægt að samhliða þessu verði gert ráð fyrir hringtengingu raforku á Vestfjörðum.

Það eru fá mál sem skipta Vestfirði jafn mikil máli til framtíðar, hef ég fylgst vel með framvindu og reynt að þrýsta á framgang þess. Undirritaður tók þetta mál sérstaklega upp við iðnaðarráðherra í umræðu um Fjárlög 2016. Þar staðfesti iðnaðarráðherra að hún væri mjög jákvæð fyrir framgangi málsins. Það þyrfti að styrkja raforkukerfið og Vestfirðir yrðu þar að vera í sérstökum forgangi.

Fjárlög 2016 – 15 milljónir til undirbúnings

Af hálfu sveitarfélaga á Vestfjörðum var lögð áhersla á það við vinnslu fjárlaga að fjármagn fengist svo hægt væri að vinna áfram að undirbúningi málsins. Í umsögn Fjórðungssambands Vestfjarða um fjárlagafrumvarp er m.a. bent á að Hvalárvirkjun og aðrar nálægar minni virkjanir muni skila 85-100 MW af uppsettu afli. Auk þess kom fram í máli forystumanna Fjórðungssambandsins að þegar væru fyrirtæki byrjuð að sína því áhuga að ráðast í atvinnuuppbyggingu ef trygg raforka væri fyrir hendi. Í ljósi mikilvægi málsins var ánægjulegt að fulltrúar meirihlutans í fjárlaganefnd væru tilbúnir til að setja 15 m.kr. til Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða vegna verkefna sem lúta að hringtengingu raforku á Vestfjörðum en sérstaklega var óskað eftir framlagi til að vinna áfram að málinu.

Ljósleiðari og trygg raforka eru forgangsmál

Uppbygging á innviðum er grunnforsenda fyrir atvinnuuppbyggingu á Vestfjörðum. Ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar hefur unnið að því að skipuleggja ljósleiðaravæðingu alls landsins. Fjárlaganefnd ákvað síðan á síðasta ári að setja inn fjármagn sem ætlað var í hringtenginu ljósleiðara (m.a. á Vestfjörðum) og frekari undirbúning ljósleiðaravæðingar. Í fjárlögum 2016 var aukið við fjármagn í ljósleiðaraverkefnið en með þessum fjárveitingum þá tók fjárlaganefnd forystu í þessu mikilvæga verkefni.

Það er ánægjulegt að fjárlaganefnd taki einnig forystu þegar kemur að hringtengingu raforku og setji inni fjármagn sem er bæði mikilvægt til undirbúnings auk þess að vera táknræn yfirlýsing um pólitískan stuðning við áframhaldandi vinnu bæði hvað varðar virkjun Hvalár og hringtengingu raforku á Vestfjörðum. Hinsvegar þarf áfram að þrýsta á þetta mál og þar skiptir miklu máli að kraftmikil rödd heimamanna heyrist. Um leið og ég fagna því að þetta mál er komið af stað þá hvet ég heimamenn til að láta sig málið varða og þrýsta á framgang þess.

Ásmundur Einar Daðason

Greinin birtist á www.bb.is 11. janúar 2016.

Categories
Greinar

Hvað er að breytast í húsnæðismálum?

Deila grein

09/01/2016

Hvað er að breytast í húsnæðismálum?

líneikÞað er flestum ljóst að ástandið á leigumarkaði á höfuðborgarsvæðinu er ekki eins og við viljum hafa það og jafnframt er staðreyndin sú að víða um landið, jafnt í minnstu samfélögunum sem þeim stærri er verulegur skortur á íbúðum til langtímaleigu.

Eitt af stærri verkefnum komandi vorþings er að halda áfram vinnu að úrbótum í húsnæðismálum, til að bæta umhverfi leigumarkaðarins, og nú þegar hefur félags- og húsnæðismálaráðherra lagt fram fjögur frumvörp um það efni.

Þessi frumvörp byggja m.a. á yfirlýsingu ríkisstjórnar Íslands í tengslum við gerð kjarasamninga á almennum vinnumarkaði, frá maí 2015 og vinnu verkefnisstjórnar um framtíðarskipan húsnæðismála. Þá hafa frumvörpin verið unninn í samvinnu við hagsmunaaðila, í gegnum samráðsnefnd um húsnæðismál.

Frumvörpin sem nú eru komin fram eiga að það sameiginlegt að vera ætlað að auka jöfnuð og öryggi á húsnæðismarkaði, þannig að allir hafi raunverulegt val um búsetuform og eigi aðgang að húsnæði á viðráðanlegu verði.

Fyrst má nefna frumvarp um almennar íbúðir, sem fjallar um stofnframlög til húsnæðis á vegum leigufélaga en umgjörðinni svipar til þess sem við höfum til þessa þekkt sem félagslegt leiguhúsnæði. Lögð er til ný umgjörð um svokallaðar almennar leiguíbúðir og kveðið á um að þessar íbúðir verði að hluta fjármagnaðar með stofnframlögum úr ríkissjóði og frá sveitarfélögum. Stofnframlögunum er ætlað að lækka fjármagnskostnað sem eins og margir vita hefur orðið baggi á sumum fyrri verkefnum af þessu tagi. Almennu íbúðafélögin munu annast kaup eða byggingu, eignarhald, rekstur og úthlutun íbúðanna. Félögin geta verið í eigu ólíkra aðila svo sem sveitarfélaga, stúdentafélaga, hagsmunafélaga eða íbúafélaga. Sýnt hefur verið fram á að möguleiki er á að lækka leiguverð um allt að 18 % með þessu fyrirkomulagi.

Áhersla verður lögð á íbúðir af hóflegri stærð og að tryggð verði félagsleg blöndun í leiguíbúðunum. Stefnt er að því að íbúar verði í lægstu tveimur tekjufimmtungum þegar flutt er inn í húsnæðið. Þannig verði tekjulágum fjölskyldum sem hingað til hafa ekki átt kost á íbúðum í félagslegu kerfi sveitarfélaganna veittur aðgangur að ódýru og öruggu leiguhúsnæði. Jafnframt er horft til þess að þetta fyrirkomulag standi til lengri tíma og geti tryggt viðvarandi uppbyggingu og endurnýjun leiguhúsnæðis.

Frumvarpi um húsnæðisbætur er ætlað að lækka húsnæðiskostnað efnaminni leigjenda með greiðslu húsnæðisbóta vegna leigu á íbúðarhúsnæði. Þannig verði stuðningurinn við leigjendur jafnari stuðningi við kaupendur íbúðarhúsnæðis innan vaxtabótakerfisins. Frumvarpið er liður í að jafna húsnæðisstuðning hins opinbera við ólík búsetuform. Helstu breytingar yrðu að grunnfjárhæðir taki mið af fjölda heimilismanna óháð aldri.

Þá verður það félags- og húsnæðismálaráðherra sem fer með yfirstjórn húsnæðisbóta til leigjenda og Tryggingastofnun ríkisins fer með framkvæmdina. Þannig flyst stjórnsýsla og umsýsla með almennum húsaleigubótum frá sveitarfélögum til ríkisins. Fram hafa komið nokkrar áhyggjur af því að leiguverð muni hækka samhliða breytingum á húsnæðisbótum. Til mótvægis var samþykkt á Alþingi í desember síðast liðnum að lækka fjármagnstekjuskatt af leigutekjum.

Frumvarpi til húsaleigulaga er ætlað að auka réttaröryggi leigjenda og koma á meiri festu í samskiptum leigjenda og leigusala svo að draga megi úr líkum á ágreiningi. Sett eru fram skýrari fyrirmæli en áður um hvernig samskiptum leigusala og leigjanda skuli háttað. Lögð eru til ákvæði um fullnægjandi brunavarnir og ástand leiguhúsnæðis. Stuðlað er að gerð ótímabundinna leigusamninga. Lögð eru til ítarlegri ákvæði en áður um eftirlit ráðherra með starfsemi leigumiðlara.

Frumvarpi um húsnæðissamvinnufélög er ætlað að auðvelda starfrækslu slíkra félaga á Íslandi, að auka vernd búseturéttarhafa, skýra og styrkja réttarstöðu þeirra, jafnframt að skýra réttarstöðu annarra félagsmanna sem og húsnæðissamvinnufélaganna sjálfra. Einnig er frumvarpinu ætlað að stuðla að sjálfbærum rekstri slíkra félaga. Lagt er til að nákvæmari ákvæði verði í samþykktum um fjármál þeirra og að óheimilt verði að kveða á um kaupskyldu á búseturétti.

Nú þegar eru öll þessi frumvörp komin í umsagnarferli á vegum velferðarnefndar Alþingis. Í næstu viku koma umsagnaraðilar á fund nefndarinnar og stefnt er að því að afgreiða þessi húsnæðismál sem lög frá Alþingi sem allra fyrst.

Óhætt er að segja að mikið samráð hefur verið haft við vinnuna. Þannig þekkja þeir sem starfa á þessum markaði vel til væntanlegra breytinga og því má ætla að þegar frumvörpin verða að lögum, skili umbætur á húsnæðismarkaði sér fljótt og vel.

Líneik Anna Sævarsdóttir

Greinin birtist í DV 8. janúar 2016.