Categories
Fréttir

Framtíðin ræðst á miðjunni

Deila grein

26/08/2021

Framtíðin ræðst á miðjunni

Framsókn hefur á náð verulegum árangri í ríkisstjórnarsamstarfinu á kjörtímabilinu. Framtíðin hefur ráðist á miðjunni í samstarfi við flokkana til vinstri og til hægri. Framsókn hefur leitt mikil umbótamál sem hafa orðið að veruleika og má þar nefna byltingu kerfisins í þágu barna, nýjan Menntasjóð námsmanna, hlutdeildarlán, Loftbrú og stórsókn í samgöngum um allt land. Þessi stórmál og fleiri hefur Framsókn látið verða að veruleika þrátt fyrir heimsfaraldurinn.

  • Fjárfestum í fólkiupptaka frá kynningu Sigurðar Inga Jóhannssonar formanns Framsóknar á málefnaáherslunum.

Framsókn heldur áfram veginn á næsta kjörtímabili í anda samvinnu, manngildis, raunsæis og hófsamra lausna. „Við erum öll í þessu saman“ hefur oft verið sagt á kjörtímabilinu. Í þeim anda vill Framsókn nálgast viðfangsefni stjórnmálanna.

Á næsta kjörtímabili leggjum við áherslu á að fjárfesta í fólki. Við leggjum ekki fram hugmyndir að töfra- eða allsherjarlausnum, heldur viljum að hið opinbera geti komið til móts við fólk á þeirra eigin forsendum, gefa því fjölbreytt tækifæri til að þroska hæfileika sína, skapa verðmæti og taka sem virkastan þátt í samfélaginu eftir þeirra möguleikum. Það er best fyrir alla ef hver og einn leggur sig fram.

Heimsfaraldurinn hefur sett mark sitt á íslenskt samfélag síðustu misseri og gerir enn. Framsókn leggur áherslu á að vinna áfram að því að samfélagið þróist hratt í eðlilegt horf en undirstrikar að vernda verður viðkvæmustu hópana. Markmiðið er að samfélagið búi aftur við það frjálsræði sem ríkti fyrir heimsfaraldurinn við fyrsta mögulega tækifæri. Framsókn vill nýta allar leiðir til að tryggja að daglegt líf okkar, atvinnulíf og menningarlíf geti gengið sinn vanagang, til dæmis með notkun hrað- og sjálfsprófa.

Fjárfestum í fólki

Heilbrigðisþjónustan – Einstaklingurinn í öndvegi

  • Framsókn vill fara í almennar aðgerðir til þess að fjárfesta í fólki til framtíðar. Fara þarf í markvissa vinnu við að endurmeta og samþætta þjónustu við fólk sem hefur lent í áföllum á lífsleiðinni. Lykilinn er að velferðarþjónustan bregðist snemma við og leggi áherslu á að fyrirbyggja vandamál með fjölþættum aðgerðum líkt og gert hefur verið í barnamálum á kjörtímabilinu. Tryggja verður að þjónustan vinni betur og meira saman og geti fylgt málum eftir þvert á einstakar stofnanir. Þær lausnir þarf að móta með samvinnu.
  • Framsókn vill fjárfesta í fólki sem hefur lent í alvarlegum áföllum á sinni lífsleið. Áföll geta verið mismunandi og eru því jafn ólík og þau eru mörg. Þessa einstaklinga á að aðstoða við að byggja sig upp að nýju og ná fyrri styrk. Það skiptir sköpum fyrir þá að fá viðeigandi aðstoð og skilning, en einnig liggja í því mikil verðmæti fyrir samfélagið í heild. Þetta gerum við með því að taka heildstætt utan um viðfangsefnið, tengja saman ríki, sveitarfélög, frjáls félagasamtök og aðra viðkomandi aðila og móta heildstæða umgjörð um það hvernig tekið er utan um hvern og einn sem þarf á þjónustu að halda.
  • Framsókn vill fara í þjóðarátak í lýðheilsutengdum forvörnum til að efla einstaklinga til virkni og velgengni í íslensku samfélagi. Það er þýðingarmikil fjárfesting í fólki.
  • Framsókn vill að skoðað verði hvort frekari tilefni sé til aukins einkareksturs innan heilbrigðisgeirans. Það þarf einfaldlega að nota þær aðferðir sem skila bestum árangri á sem skjótasta máta.
  • Framsókn leggur áherslu á að gæði heilbrigðisþjónustunnar séu ávallt eins og best verður á kosið. Vitanlega þarf að leita hagkvæmra og skilvirkra lausna því að um 60% útgjalda ríkisins fara til heilbrigðis- og velferðarmála, en markmið Framsóknar er og verður alltaf að tryggja öllum íbúum landsins þjónustu óháð búsetu og efnahag. Það skiptir meira máli en hvort að hið opinbera veiti alla þjónustuna sjálft eða kaupi hana af öðrum.
  • Framsókn vill efla geðheilbrigðisþjónustu í forvarnaskyni. Það er skynsamlegt eins og á öðrum sviðum heilbrigðisþjónustunnar til að fyrirbyggja frekari vanda með því að bregðast snemma við – áður en vandinn verður stærri. Ekki síst þarf að auka geðheilbrigðisþjónustu fyrir börn og félagslega veika hópa.
  • Framsókn vill stórefla heilbrigðisþjónustu utan sjúkrastofnana, sérstaklega fyrir eldra fólk. Finnar hafa náð þar eftirtektarverðum árangri við að hjálpa eldra fólki að varðveita sjálfstæði sitt og virka samfélagsþátttöku. Hugsa þarf  þjónustuna í samræmi við aðstæður, möguleika og vilja hvers og eins.
  • Framsókn vill nýta tæknilausnir eins og kostur er til að efla heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni þar sem þjónusta hefur minnkað hjá íbúum utan þéttbýlustu svæðanna.
  • Framsókn vill að þriðji skammtur bóluefnis standi þeim sem vilja til boða.

Réttindi barna – Þjónustutrygging og jafnræði í þjónustu við börn.

  • Framsókn ætlar að tryggja að öll börn njóti sömu réttinda til opinberrar þjónustu í anda nýrrar löggjafar um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, sem mun fækka alvarlegum tilvikum. Eitt flóknasta viðfangsefni íslenskra stjórnvalda síðustu áratugi er sú staðreynd að börn hér á landi þurfa oft að bíða óhóflega lengi eftir greiningu eða þjónustu við mögulegum vanda. Oft er jafnvel um að ræða þekktan vanda sem þarfnast staðfestingar opinberra aðila til að geta hlotið nauðsynlega þjónustu.
  • Framsókn ætlar að stytta biðlista eftir greiningarúrræðum, s.s. einhverfu, taugaþroskaröskunum, þroskahömlunum og geðrænum vanda með því að fjölga sérhæfðu starfsfólki og grípa fyrr inn í aðstæður barns til að koma í veg fyrir alvarlegan vanda.
  • Framsókn vill að barnið sé ávallt í forgangi. Framsókn vill að komið verði á þjónustutryggingu, sem þýðir að ef einstaklingur fær ekki heilbrigðis- eða félagsþjónustu hjá hinu opinbera er honum vísað til einkaaðila, samanber danska módelið.
  • Framsókn vill að öll réttindi sem tengjast fullorðinsaldri verði virk við 18 ára aldur.
  • Framsókn vill styðja foreldra með því að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla. Leita þarf leiða til þess að brúa bilið með lengingu fæðingarorlofs og stuðla að því að börn fái leikskólapláss fyrr. Einnig vill Framsókn tryggja styrki til foreldra sem ekki eru með börn hjá dagforeldri. Ríkið verður að leiða samtalið við Sambandi íslenskra sveitarfélaga og ná samkomulagi um að brúa þetta bil, sem margir foreldrar kljást við í dag.

Jöfnum leikinn – Frístundastarf barna og íþróttastarf.

  • Framsókn vill að ríkið styðji við frístundir barna með árlega 60 þúsund króna greiðslu til allra barna og lækka þannig útgjöld fjölskyldna vegna frístunda. Sýnt hefur verið fram á að vaxtastyrkir styrkja þroska barna, líkamlega og andlega, og ýta undir sjálfstæði þeirra og styrkja sjálfsmynd. Þessi aðgerð jafnar tækifæri barna til virkrar þátttöku í tómstundastarfi.
  • Framsókn vill byggja nýja þjóðarleikvanga á næsta kjörtímabili í samstarfi við íþróttahreyfinguna.
  • Framsókn vill styðja betur við afreksíþróttafólk með auknum fjárframlögum til afrekssjóðs sérsambanda.
  • Framsókn vill auka framlög í ferðajöfnunarsjóð íþróttafélaga til að jafna aðstöðumun íþróttafólks á landsbyggðinni.
  • Framsókn vill styðja sérstaklega við íþróttafélög sem starfrækja meistaraflokka kvenna til að jafna fjárhagslegan mun milli karla- og kvennadeilda í afreksstarfi í hópíþróttum.

Sókn í þágu eldra fólks – Aldur skiptir ekki máli, heldur einstaklingurinn.

  • Framsókn vill afnema reglur um að fólk fari á eftirlaun eða hætti störfum við ákveðinn aldur. Þeir sem vilja áfram vera virkir á vinnumarkaði  eiga að hafa kost á því ef vilji bæði launafólks og vinnuveitanda stendur til þess.
  • Framsókn leggur áherslu á að ráðist verði í endurskipulagningu á málaflokki eldra fólks út frá grunngildum aldursvæns samfélags, samþættingu, persónumiðaðrar þjónustu og skýrrar sýnar á hlutverk og skyldur þeirra sem að þjónustunni koma. Horfa ætti til reynslunnar af endurskipulagningu opinberrar þjónustu við börn sem unnin var á kjörtímabilinu. Lykilatriðið er aukin samvinna innan kerfisins.
  • Framsókn vill gera stórátak í uppbyggingu heimahjúkrunar og dagþjálfunarrýma, bæta og fjölga endurhæfingarúrræðum og skapa fjölbreyttari þjónustu sem styður eldra fólk til að búa sem lengst heima hjá sér, eftir því sem það vill og heilsa leyfir. Með því móti getur það haldið sjálfstæði sínu, sjálfræði, reisn og virðingu m.a. með fyrirbyggjandi aðgerðum.
  • Framsókn vill leggja áherslu á aukna og samhæfða heimaþjónustu, sveigjanleg dagþjálfunarúrræði, aukna tæknivæðingu og markvissan stuðning við aðstandendur eldra fólks. Stórefla þarf samstarf milli félags- og heilbrigðisþjónustunnar m.a. svo þjónustan sé persónumiðuð og sé að mestu veitt á heimilum fólks. 
  • Nútímavæða þarf þjónustuna og aðgengi að henni með aukinni notkun á velferðatækni, rafrænni þjónustu, fjarþjónustu og upplýsingagáttum.
  • Framsókn leggur áherslu á að upplýsingakerfi verði samræmd og byggð verði upp öflug upplýsingagátt. Með henni verði hægt að innleiða eina gátt umsókna um þjónustu hins opinbera. Notendur þjónustunnar þurfa þá ekki að sækja um þjónustu á mörgum stöðum heldur fari umsókn í eina þjónustugátt og í gegnum hana fái viðkomandi viðeigandi þjónustu á hverjum tíma.
  • Samhæfa þarf fjölbreytt úrræði og sníða að hverju svæði fyrir sig. Sveitarfélög eru misjafnlega sett með aðstöðu út frá stærð, mannfjölda og fl. Sömu úrræðin ganga ekki alls staðar.
  • Framsókn leggur áherslu á að almenna frítekjumarkið hækki í skrefum og að lífeyrisskerðingar vegna atvinnutekna verði afnumdar. Framsókn vill mæta þeim verst stöddu og horfir þá sérstaklega til húsnæðismála, en flestir þeir sem búa við bág kjör búa í mjög skuldsettu húsnæði eða greiða háa leigu. Skoða þarf möguleika á hlutdeildarlánum fyrir eldra fólk.

Örorka – Allir þurfa þak yfir höfuðið

  • Framsókn vill heildarendurskoðun á málefnum öryrkja hér á landi. Sú endurskoðun verður gerð með þau markmið bæta stöðu öryrkja og virkni innan samfélagsins og vinnumarkaðsins.
  • Framsókn vill aðstoða öryrkja við að komast í vinnu. Fólk undir fertugu á ekki að neyðast til að fara á örorku.
  • Framsókn vill ýta húsnæðisátaki úr vör sem aðstoðar öryrkja við að hafa tryggt þak yfir höfuðið.

Húsnæðismál – Aukið framboð

  • Framsókn vill að skipulags- og húsnæðismál séu í sama ráðuneyti til að auka skilvirkni þegar kemur að skipulagsmálum sveitarfélaga. Með því má stytta tímann sem þau taka, gera sveitarfélögum kleift að bregðast fyrr við lóðaskorti og tryggja nægilegt framboð af lóðum til húsbygginga á hverjum tíma.
  • Framsókn vill auka framboð á almennum íbúðum fyrir öryrkja og fatlaða.
  • Framsókn vill útfæra hlutdeildarlán fyrir fleiri hópa en fyrstu kaupendur. Þá er sérstaklega horft til eldra fólks og félagslega veikra hópa í samfélaginu.
  • Framsókn leggur áherslu á að samræma umsóknargátt almennra og sérstakra húsnæðisbóta. Farið verði í heildarendurskoðun á húsnæðismálunum með það að leiðarljósi og finna leiðir til að hjálpa þeim verst stöddu.

Menntamál – Áhersla á skólaþróun með breiðri þátttöku

  • Menntastefna til ársins 2030 er leiðarljós Framsóknar í menntamálum, enda er hún lögð fyrir Alþingi af núverandi mennta- og menningarmálaráðherra.
  • Framsókn vill áfram leggja áherslu á skólaþróun með þátttöku skólanna sjálfra, enn frekari eflingu kennarastéttarinnar og mikilvægi þess að halda menntuðum kennurum í starfi.
  • Framsókn vill bæta þjónustu hins opinbera við skólana, uppfæra námsgagnakost og virkja fleiri aðila í námsgagnagerð.
  • Framsókn vill leggja ríka áherslu á snemmtæka íhlutun og samþættingu ólíkra stuðningskerfa svo skólakerfið bregðist skjótt við ef barn glímir við erfiðleika.
  • Framsókn ætlar áfram að auka vægi iðn- og tæknimenntunar og tryggja enn frekar aukið jafnræði bók- og verknáms.
  • Framsókn vill tryggja öllum menntun og kennslu sem tekur mið af þeirra þörfum og aðstæðum. Við ætlum að sýna lestrarvanda drengja sérstaka athygli.
  • Framsókn vill að áfram verði lögð áhersla á að styðja kröftuglega við íslenska tungu í sífellt alþjóðlegri og stafrænni heimi.
  • Framsókn vill tryggja öllum sem eru af erlendu bergi brotnir sem flytja hingað til lands tækifæri til að læra íslensku.

Atvinnu- og efnahagslífið eftir heimsfaraldur

Fjórða stoðin – fjölþættari verðmætasköpun

  • Framsókn vill efla efnahagslífið til að skjóta fleiri stoðum undir innlenda verðmætasköpun svo sem uppbyggingu í skapandi greinum. Fyrstu skrefin hafa verið stigin með hagvísum skapandi greina og sérstöku rannsóknarsetri. Næsta skref er sérstakt ráðuneyti skapandi greina.
  • Framsókn vill efla kvikmyndagerð á Íslandi og hækka endurgreiðslur á kostnaði við kvikmyndagerð hérlendis í 35%. Samhliða þarf stuðning við uppbyggingu innviða fyrir kvikmyndagerð, skv. nýrri kvikmyndastefnu.
  • Nær ótakmörkuð tækifæri eru í hugverkaiðnaði, svo sem líftækni, lyfjaframleiðslu og tengdum greinum. Framsókn vil hvetja til enn frekari fjárfestinga á sviði hugverkaiðnaðar með fjárfestingastuðningi við stærri verkefni sem skapa verðmæti og störf fyrir þjóðina.
  • Framsókn vill styrkja Tækniþróunarsjóð og bæta skattaumhverfi nýsköpunarfyrirtækja sem og frumkvöðla.

Lítil og meðalstór fyrirtæki – Lykill að uppbyggingu og þróun.

  • Framsókn er málsvari lítilla og meðalstórra fyrirtækja og vill taka upp þrepaskipt tryggingagjald og lækka það á lítil og meðalstór fyrirtæki. Samhliða því er nauðsynlegt að taka upp fleiri þrep í tekjuskatti fyrirtækja. Hreinan hagnað fyrirtækja umfram 200 m.kr. á ári þarf að skattleggja hærra á móti lækkuninni til lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Þannig dregur hún ekki úr getu ríkissjóðs til að standa undir öflugu velferðar-, mennta- og heilbrigðiskerfi.
  • Framsókn leggur áherslu á að tekið sé tillit til stærðar fyrirtækja við álagningu ýmissa opinberra gjalda, sem nú eru í formi flatra gjalda og/eða skatta, svo sem gjöld vegna starfsleyfa og úttekta eftirlitsaðila. Þó þessi gjöld skipti litlu máli í heildarsamhenginu er ljóst að þau geta verið íþyngjandi fyrir smærri fyrirtæki, einkum í upphafi reksturs.
  • Framsókn vill nota skattkerfið til að jafna aðstöðu fólks á landsbyggðinni ásamt því að styðja betur við rekstur lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Þannig er skattkerfið notað til að fjárfesta í fólki og hvetja til fjölþættari verðmætasköpunar.

Loftslagsmál – græn orka – tækifæri Íslands

  • Framsókn telur veruleg tækifæri liggja í útflutningi á þekkingu í formi ráðgjafar og fjárfestinga á erlendum vettvangi þar sem menntun og þekking á hlutum eins og endurnýjanlegri orku skipta miklu máli.
  • Framsókn vill efla grænan iðnað, þar á meðal vetnisframleiðslu, og nýta tækifærin í landinu til nýsköpunar, þróunar og verðmætasköpunar í loftslagsmálum. Verkefnin þurfa að vera markvissari og skilvirkari og til þess að leiða það telur Framsókn nauðsynlegt að koma á sérstöku loftslagsráðuneyti. Stefnan er kolefnishlutlaust Ísland árið 2040.
  • Framsókn vill stuðla að innleiðingu hringrásarhagkerfisins í íslenskt samfélag og atvinnulíf. Hringrásarhagkerfið snýst í megindráttum um að viðhalda verðmæti auðlinda og lágmarka myndun úrgangs.
  • Í samstarfi við vísindasamfélagið, félagasamtök og sveitarfélög þarf að vinna að almennri vitundarvakningu um tækifæri almennings til að hafa áhrif. Framsókn vill að markvisst verði stefnt að því að uppfylla Heimsmarkmið Sameinuðu Þjóðanna, þar á meðal þau sem varða umhverfis- og loftlagsmál.
  • Framsókn vill að tekin verði enn stærri skref á næstu árum í áframhaldandi orkuskiptum í samgöngum og flutningum á landi og á sjó. Markmiðið er að Ísland verði óháð jarðefnaeldsneyti og að raforkukerfið sé forsenda orkuskipta og efnahagslegra framfara með nýtingu innlendra, hagkvæmra og hreinna orkugjafa í samgöngum. Til þess verða nauðsynlegir innviðar að vera fyrir hendi.
  • Eftirspurn eftir framleiðslu úr grænni orku og hreinu vatni fer hraðvaxandi um alla heim. Framsókn vill nýta tækifæri til útflutnings á orkuþekkingu og orku í formi rafeldsneytis. Fari svo sem horfir gæti hér sprottið upp nýr og spennandi iðnaður sem mundi grundvallast á öflugri atvinnusköpun, nýsköpun, gjaldeyrissparnaði og ávinningi í loftslagsmálum.

Samgöngumál – innviðir verðmætasköpunar

  • Stórkostleg aukning í framlögum til samgöngumála er raunveruleiki. Alls staðar er verið að byggja upp. Öflugir og öruggir innviðir eru grunnurinn að betri lífsgæðum. Á kjörtímabilinu hefur aldrei áður verið varið jafn miklum fjármunum til samgangna. Mikið hefur áunnist, en framkvæmda og viðhaldsþörf er hvergi nærri lokið.
  • Framsókn vill halda áfram bæta umferðaröryggi og miðar að því m.a. að fækka einbreiðum brúm á hringveginum og halda áfram að aðskilja akstursstefnur á umferðarþyngstu vegköflum landsins. Framundan eru einu mestu umbreytingar í samgöngum sem sést hafa. Tvöföldun Reykjanesbrautar, tvöföldun vega á milli Hveragerðis og Selfoss og tvöföldun vegar um Kjalarnes.
  • Framsókn leggur áherslu á að stytta vegalengdir milli byggða, efla atvinnusvæði á landinu öllu og draga markvisst úr losun gróðurhúsalofttegunda.
  • Framsókn vill sjá áframhaldandi uppbyggingu samkvæmt Samgönguáætlun. Halda þarf áfram með samvinnuverkefni í vegaframkvæmdum og samstarfi á milli hins opinbera og atvinnulífs. Sem dæmi má nefna nýja brú yfir Ölfusá, brú yfir Hornafjarðarfljót og nýjan veg yfir Öxi.
  • Sundabraut hefur verið á dagskrá allt kjörtímabilið og verður stórkostleg samgöngubót sem losar um umferðarhnúta. Á kjörtímabilinu hefur verið unnið að undirbúningi svo framkvæmdir geta hafist árið 2026 eins og áætlanir gera ráð fyrir.
  • Framsókn vill að í uppbyggingu innviða á hálendinu verði hugað að því til framtíðar að rafmagnsbílar komist um. Þá verði sérstök áhersla lögð á vegina um Kjöl og að Fjallabaki. Ekki síst vegna mögulegs öryggishlutverks þeirra ef náttúruvá ber að dyrum.
  • Framsókn vill halda áfram að styrkja og efla innanlandsflugvelli, fjölga tækifærum í ferðaþjónustu og skapa atvinnu heima fyrir.
  • Framsókn hefur lagt áherslu á uppbyggingu hafna og mun halda henni áfram. Þær gegna lykilhlutverki í verðmætasköpun.
  • Framsókn vill tryggja framgang Samgöngusáttmálans til að liðka fyrir umferð á höfuðborgarsvæðinu og vinna að kolefnishlutlausu Íslandi.
  • Framsókn vill að á hverjum tíma sé alltaf unnið að byggingu að minnsta kosti einna jarðganga á landinu.

Byggðamál – Við erum eitt samfélag

  • Framsókn vill beita fjárhagslegum hvötum til að bæta aðgengi að opinberri þjónustu við íbúa á á skilgreindum brothættum svæðum á landsbyggðinni til að jafna aðstöðumun. Dæmi um velheppnaða aðgerð er Loftbrúin. Einnig er hægt að nýta ákvæði í lögum um nýjan Menntasjóð til að stuðla að búsetu sérfræðinga, til dæmis lækna, fjarri höfuðborginni.
  • Framsókn vill auka fjármagn til byggðaáætlunar. Grundvallarendurskoðun hefur átt sér stað á byggðamálum síðustu ár með nýrri byggðaáætlun. Nýta þarf betur þau tæki sem hún býr yfir.
  • Framsókn vill auka við eigið fé Byggðastofnunar til að auka möguleika stofnunarinnar við að styðja við atvinnuuppbyggingu og nýsköpun á landsbyggðinni.
  • Framsókn vill að byggðir verði klasar í samstarfi ríkis, sveitarfélaga og atvinnulífs út um landið til að tryggja betur framgang hugmyndafræðinnar um störf án staðsetningar. Sett verði í forgang því tengdu að þróa skattalega hvata til að flýta þeirri uppbyggingu svo klasar eða samvinnuhús rísi sem víðast. Aðstöðuleysi má ekki koma í veg fyrir að störf á vegum hins opinbera og einkaaðila verði til á landsbyggðinni.
  • Framsókn vill efla smærri þorp sem standa höllum fæti. Sú reynsla sem hefur skapast af klæðskerasaumuðum aðgerðum á Flateyri er góð fyrirmynd.
  • Nú þegar hillir undir að verkefnið Ísland ljóstengt, sem Framsókn var í forystu um, ljúki með því að dreifbýlið um landið hefur aðgang að ljósleiðaratengingu þá þurfum við að stíga það næsta. Ísland fulltengt verður forgangsmál hjá Framsókn þannig að minni þéttbýlisstaðir fái ljósleiðartengingu og geti þannig tekið þátt í fjórðu iðnbyltingunni og íbúar þeirra búi við sömu lífsgæði og aðrir íbúar landsins sem felast í góðum fjarskiptum.
  • Starfsemi fiskeldis hefur hleypt nýjum krafti í byggðir sem áður stóðu höllum fæti með auknum tekjum og fjölgun íbúa. Framsókn vill áframhaldandi stuðning við uppbyggingu fiskeldis.  Regluverkið þarf að vera skýrt. Gæta þarf vel að umhverfisáhrifum starfseminnar með virku eftirliti, rannsóknum og aðkomu vísindamanna á viðeigandi sviðum.
  • Mikilvægt er að regluverk um fiskeldi verði endurskoðað til að tryggja sanngjarna gjaldtöku fyrir afnot af sameiginlegum auðlindum. Skipting þeirra tekna milli ríkis og sveitarfélög verði sanngjörn.

Landbúnaður – vanmetin auðlind

  • Framsókn vill standa vörð um fæðu- og matvælaöryggi á Íslandi með dyggum stuðningi við íslenska matvælaframleiðslu sama í hverju hún felst.
  • Framsókn leggur mikla áherslu á að viðhalda áframhaldandi stöðu Íslands í fremstu röð í  vörn gegn sýklalyfjaónæmi. Það er risastórt heilbrigðismál að komið sé í veg fyrir útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería á Íslandi með ströngum ráðstöfunum, en við sjáum að sýklalyfjaónæmi er orðinn stór vandi víða erlendis. Forskot innlends landbúnaðar liggur ekki síst í lítilli lyfja- og varnarefnanotkun samanborið við flest önnur ríki.
  • Framsókn vill stórefla nýsköpun í matvælaframleiðslu og landnýtingu. Stefna ber að því að öll landnýting og ræktun sé sjálfbær og stuðningur hins opinbera þarf í meira mæli að beinast að því að efla fjölbreyta ræktun og landnýtingu, þar með talið kolefnisbindingu.
  • Jafna þarf samkeppnisstöðuna betur með því að heimila frumframleiðendum samstarf eins og þekkist í öllum Evrópulöndum og afurðastöðvum í kjöti sams konar samstarf og í mjólkurframleiðslu. Bændum ætti að heimila slátrun og vinnslu að undangengnu áhættumati og nauðsynlegri fræðslu.
  • Gagnvart innflutningi þarf að endurskoða tollasamning við ESB vegna forsendubrests m.a. eftir útgöngu Bretlands úr sambandinu.  Þá þarf að efla tolleftirlit verulega og gera sambærilegt og þekkist í samanburðarríkjum.
  • Stofnað verði nýtt landbúnaðar og matvælaráðuneyti þar sem skógrækt og landgræðsla koma saman við eftirlitsstofnanir matvælaöryggis og landbúnaðar.
  • Framsókn vill styðja betur við landgræðslu og skógrækt til að mæta betur skuldbindingum okkar í loftslagsmálum.
Categories
Fréttir

Atvinna, atvinna, atvinna!

Deila grein

11/08/2021

Atvinna, atvinna, atvinna!

Í atvinnumálum er þetta helstAtvinnuleysi fer minnkandi með hverjum mánuði sem líður. Í júlí var skráð atvinnuleysi 6,1%, en það er 1,3% lækkun milli mánaða og 3% lækkun frá upphafi sumars. Einnig spáir Vinnumálastofnun áframhaldandi minnkun atvinnuleysis á næstu mánuðum, sem hefur lækkað um 6,7% frá janúar 2021.

May be an image of 2 manns og texti
Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra.

Innan ríkisstjórnarinnar hefur Framsókn lagt mikla áherslu á að standa vörð um atvinnu fólks og lifibrauð þess eftir áhrif Covid-19 veirunnar á atvinnumarkaðinn hér á landi. Þá hefur flokkurinn unnið að sérstökum atvinnuátökum á borð við átakið „Hefjum störf“, sem Ásmundur Einar, félags- og barnamálaráðherra, setti af stað.Það eru gleðitíðindi að sjá alvöru árangur af þeirri vinnu. Höldum áfram veginn í átt að minnkun atvinnuleysis.

Atvinna, atvinna, atvinna!

Categories
Fréttir

Mæla með B-lista Framsóknarflokks

Deila grein

05/08/2021

Mæla með B-lista Framsóknarflokks

Framsóknarflokkurinn hefur hafið rafræna söfnun meðmælenda fyrir framboðslista fyrir alþingiskosningarnar 25. september 2021.

Hver og einn getur aðeins mælt með einum lista og meðmælin eru ekki birt opinberlega. Athugið að meðmælendur þurfa að hafa kosningarétt og frambjóðendur geta ekki mælt með eigin framboðslista.

Það skiptir miklu máli að ná að ljúka þessari vinnu sem allra fyrst og hafir þú tök á leggja okkur lið með því að skrifa undir meðmælendalista Framsóknar í þínu kjördæmi og hvetja aðra í kringum þig að gera það einnig.

Hvar og hvernig skrái ég meðmæli mín?

  1. Smelltu á linkinn fyrir þitt kjördæmi hér að neðan
  2. Skráðu þig inn með rafrænum skilríkjum
  3. Staðfestu meðmæli

REYKJAVÍK SUÐUR

Smelltu hér til að mæla með B-lista í Reykjavíkurkjördæmi suður 👉 https://island.is/…/8fb47882-f88c-4565-bdf8-dfc34d9c0172

eða notaðu QR kóða:

Myndlýsing ekki til staðar.

REYKJAVÍK NORÐUR

Smelltu hér fyrir neðan til að mæla með B-lista í Reykjavíkurkjördæmi norður 👉 https://island.is/…/93771fcd-a23b-45a2-962c-aeccab917343

eða notaðu QR kóða:

Myndlýsing ekki til staðar.

NORÐVESTURKJÖRDÆMI

Smelltu hér fyrir neðan til að mæla með B-lista í Norðvesturkjördæmi 👉 https://island.is/…/77361a78-82dd-4cdf-a9be-67bee7bca12c

eða notaðu QR kóða:

Myndlýsing ekki til staðar.

NORÐAUSTURKJÖRDÆMI

Smelltu hér fyrir neðan til að mæla með B-lista í Norðausturkjördæmi 👉 https://island.is/…/e03705a5-3f36-44ec-b666-fb4ac5d2b0f5

eða notaðu QR kóða:

Myndlýsing ekki til staðar.

SUÐURKJÖRDÆMI

Smelltu hér fyrir neðan til að mæla með B-lista í Suðurkjördæmi 👉 https://island.is/…/6f127a57-c783-4c38-8445-14f6c7cb9a0c

eða notaðu QR kóða:

Myndlýsing ekki til staðar.

SUÐVESTURKJÖRDÆMI

Smelltu hér fyrir neðan til að mæla með B-lista í Suðvesturkjördæmi 👉 https://island.is/…/846cfca1-ead1-4d95-b109-e03df5a38dd6

eða notaðu QR kóða:

Myndlýsing ekki til staðar.

Fjöldi meðmælenda skal vera margfeldi af þingsætatölu kjördæmisins og talnanna 30 að lágmarki og 40 að hámarki.

Þingsæti eru 63 og skiptast þannig milli kjördæma:
Norðvesturkjördæmi – 8 þingsæti eða 240-320 meðmælendur
Norðausturkjördæmi – 10 þingsæti eða 300-400 meðmælendur
Suðurkjördæmi – 10 þingsæti eða 300-400 meðmælendur
Suðvesturkjördæmi – 13 þingsæti eða 390-520 meðmælendur
Reykjavíkurkjördæmi suður – 11 þingsæti eða 330-440 meðmælendur
Reykjavíkurkjördæmi norður – 11 þingsæti eða 330-440 meðmælendur

Categories
Fréttir

Sumarlokun skrifstofu

Deila grein

12/07/2021

Sumarlokun skrifstofu

Skrifstofa Framsóknar er lokuð vegna sumarleyfa starfsmanna frá og með 13. júlí til 2. ágúst. Opnum aftur þriðjudaginn 3. ágúst.

Hægt er að senda erindi og fyrirspurnir á netfangið: framsokn@framsokn.is.

FRAMSÓKNARFLOKKURINN

Categories
Fréttir

Þórunn Egilsdóttir látin

Deila grein

11/07/2021

Þórunn Egilsdóttir látin

Þórunn Egilsdóttir, alþingismaður, er látin 56 ára að aldri. Þórunn lést á föstudaginn eftir baráttu við krabbamein. Þórunn greindi frá því milli jóla og nýárs í fyrra að hún hefði greinst aftur með krabbamein eftir að hafa lokið meðferð. Þórunn var þingflokksformaður Framsóknarmanna og oddviti Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi.

Þórunn var fædd í Reykjavík 23. nóvember 1964. Foreldrar: Egill Ásgrímsson (fæddur 1. apríl 1943) bólstrari og Sigríður Lúthersdóttir (fædd 28. apríl 1939). Maki: Friðbjörn Haukur Guðmundsson (fæddur 21. apríl 1946) bóndi. Foreldrar: Guðmundur Jónsson og Guðlaug Valgerður Friðbjarnardóttir. Börn: Kristjana Louise (1989), Guðmundur (1990), Hekla Karen (2004).

Þórunn lauk stúdentsprófi frá VÍ 1984. B.Ed.-próf KHÍ 1999. Sauðfjárbóndi síðan 1986. Grunnskólakennari 1999–2008, áður leiðbeinandi. Skólastjórnandi 2005–2008. Verkefnastjóri hjá Þekkingarneti Austurlands, nú Austurbrú, 2008–2013. Í sveitarstjórn Vopnafjarðarhrepps 2010–2014, oddviti 2010–2013.

Formaður Málfundafélags VÍ 1983–1984. Í stjórn Kvenfélagsins Lindarinnar 1991–1998. Í félagsmálanefnd Vopnafjarðarhrepps 1998–2006. Í stjórn Menntasjóðs Lindarinnar síðan 1998, formaður 2006–2010. Í orlofsnefnd húsmæðra á Austurlandi 2001–2009. Í stjórn Sambands sveitarfélaga á Austurlandi 2010–2014. Í sveitarstjórnarráði Framsóknarflokksins 2010–2014. Í miðstjórn Framsóknarflokksins síðan 2010. Í ráðgjafarnefnd Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga 2011–2015. Í hreindýraráði 2011–2016. Formaður samgönguráðs síðan 2018.

Alþingismaður Norðausturkjördæmis síðan 2013 (Framsóknarflokkur).

2. varaforseti Alþingis 2015–2016. 1. varaforseti Alþingis 2016–2017. 5. varaforseti Alþingis 2017. 4. varaforseti Alþingis 2017–2019.

Formaður þingflokks Framsóknarflokksins 2015 og síðan 2016.

Atvinnuveganefnd 2013–2016, velferðarnefnd 2013–2015, allsherjar- og menntamálanefnd 2016–2017 og 2019–2020, kjörbréfanefnd 2017–, stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd 2017–.

Íslandsdeild NATO-þingsins 2013–2016 (formaður), Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins 2017–.

Við Framsóknarmenn minnumst alþingismanns og fyrrv. formanns þingflokks Framsóknarmanna með djúpri virðingu og þakklæti fyrir störf í þágu Framsóknarflokksins og þjóðarinnar. Framsóknarmenn votta aðstandendum innilega samúð.

Categories
Fréttir

Framboðslisti Framsóknar í Suðurkjördæmi samþykktur

Deila grein

26/06/2021

Framboðslisti Framsóknar í Suðurkjördæmi samþykktur

Framboðslisti Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi fyrir komandi alþingiskosningar var samþykktur á aukakjördæmisþingi sem haldið var rafrænt í dag. Prófkjör hafði áður farið fram um efstu 5 sæti listans og gerði kjörstjórn tillögu um önnur sæti listans í samræmi við reglur flokksins.

Oddviti listans er Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. Í öðru sæti er Jóhann Friðrik Friðriksson, framkvæmdastjóri Keilis, í þriðja sæti er Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, lögfræðingur. Í fjórða sæti er Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, sérkennslu fulltrúi og í fimmta sæti er Njáll Ragnarsson, formaður bæjarráðs í Vestmannaeyjum.

Framboðslisti Framsóknar í Suðurkjördæmi fyrir alþingiskosningarnar 25. september 2021:

1. Sigurður Ingi Jóhannsson, Hrunamannahreppur

2. Jóhann Friðrik Friðriksson, Reykjanesbæ

3. Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, Árborg

4. Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, Reykjanesbæ

5. Njáll Ragnarsson, Vestmannaeyjar

6. Ásgerður Kristín Gylfadóttir, Hornafjörður

7. Lilja Einarsdóttir, Rangárþing eystra

8. Daði Geir Samúelsson, Hrunamannahreppur

9. Stefán Geirsson, Flóahreppur

10. Eiríkur Vilhelm Sigurðarson, Rangárþing ytra

11. Ragnhildur Hrund Jónsdóttir, Mýrdalshreppur

12. Inga Jara Jónsdóttir, Árborg

13. Anton Kristinn Guðmundsson, Suðurnesjabær

14. Jóhannes Gissurarson, Skaftárhreppur

15. Gunnhildur Imsland, Hornafjörður

16. Jón Gautason, Árborg

17. Drífa Sigfúsdóttir, Reykjanesbær

18. Haraldur Einarsson, Flóahreppur

19. Páll Jóhann Pálsson, Grindavík

20. Silja Dögg Gunnarsdóttir, Reykjanesbær

Categories
Fréttir

Sigurður Ingi með 95,7% atkvæða

Deila grein

20/06/2021

Sigurður Ingi með 95,7% atkvæða

Niðurstöður úr prófkjöri Framsóknar í Suðurkjördæmi liggja fyrir. Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, sóttist einn eftir 1. sætinu og fékk samtals 95,7% gildra atkvæða.

Silja Dögg Gunnarsdóttir, sitjandi þingmaður Framsóknarflokksins, sóttist eftir 2. sætinu en varð í 3. sæti. Þegar úrslitin voru kunn tilkynnti hún að hún myndi ekki þiggja 3. sætið.

Jóhann Friðrik Friðriksson bæjarfulltrúi í Reykjanesbæ sóttist einnig eftir 2. sætinu og náði því með 552 atkvæði í 1.-2. sæti.

Úrslit prófkjörsins voru þessi:
1. Sigurður Ingi Jóhannsson, Hrunamannahreppi 975 atkvæði í 1. sæti
2. Jóhann Friðrik Friðriksson, Reykjanesbæ 552 atkvæði í 1. – 2. sæti
3. Silja Dögg Gunnarsdóttir, Reykjanesbæ 589 atkvæði í 1. – 3. sæti
4. Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, Reykjanesbæ 616 atkvæði í 1. – 4. sæti
5. Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, Árborg 773 atkvæði í 1. – 5. sæti

Á kjörskrá voru 3.121 og greiddu 1.165 greiddu atkvæði en kjörsókn var 37,5%.

Þann 26. júní verður auka Kjördæmisþing á Marriott hótel í Keflavík þar sem allur listinn verður borinn til samþykktar.

Categories
Fréttir

Ræða Sigurðar Inga á vorfundi miðstjórnar

Deila grein

12/06/2021

Ræða Sigurðar Inga á vorfundi miðstjórnar

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, flutti góða yfirlitsræðu á vorfundi miðstjórnar í dag í Reykjavík. Ræða Sigurðar Inga er í heild sinni hér að neðan:

Kæru félagar.

Mikið er gaman að sjá ykkur hér í dag. Yfir mann hellist þakklæti fyrir að geta aftur hitt vini og félaga, eitthvað sem maður hefði ekki hugsað út í fyrir einu og hálfu ári síðan að gæti verið vandamál. Það sem var sjálfsagt fyrir heimsfaraldur er það ekki lengur. Og það verður eitt af stóru verkefnum okkar sem samfélags að sleppa takinu, segja skilið við óttann sem hefur staðið okkur svo nærri síðustu mánuðina. Óttinn er ekki góður förunautur í lífinu. Óttinn nagar sundur tryggðaböndin milli okkar og traustið. Faraldurinn hefur þó fyrst og fremst sýnt fram á styrk samfélagsins okkar, hvað það er gott og hvað það er sterkt. Af því megum við vera mjög stolt.

Við sjáum til lands. Að baki eru fimmtán erfiðir mánuðir í baráttu við heimsfaraldur. Við höfum unnið saman, staðið saman sem flokkur, staðið saman sem þjóð, og þannig leyst erfið verkefni. Fram undan er tími þar sem við þurfum að vinna saman úr þeim áföllum sem gengu yfir okkur árið 2020. Við þurfum að skapa atvinnu, skapa tækifæri, skapa samstöðu um framtíðina.

Það líður að kosningum. Þær bíða okkar handan sumarsins. Við mætum þeim bjartsýn með árangur í farangrinum. Okkur hefur tekist það, okkur í Framsókn, að vinna stefnu okkar brautargengi og það sem meira er við höfum náð stórkostlegum árangri í því að láta stefnuna verða að veruleika, raungerast í mikilvægum framfaramálum. Stórkostleg aukning í framlögum til samgöngumála er raunveruleiki. Við höfum fundið fyrir því á ferðum okkar um landið að það er alls staðar verið að byggja upp. Alls staðar. Og í þessum orðum, „alls staðar á landinu“, felst líklega ein helsta sérstaða okkar sem stjórnmálaafls. Við hugsum um landið allt. Við erum sannkallað hreyfiafl í stjórnmálum. Ég get tekið tvö dæmi úr mínu ráðuneyti, tvö dæmi um verkefni sem sýna fram á það hvernig við náum sem flokkur, Framsókn, að rjúfa kyrrstöðu, að hreyfa við málum. Fyrra dæmið sem ég vil nefna er samgöngusáttmálinn. Í alltof langan tíma hefur ríkt kyrrstaða í uppbyggingu samgangna á höfuðborgarsvæðinu. Það ríkti frost í samskiptum ríkisins og höfuðborgarinnar þegar kom að samgöngumálum. Og við vitum það sem eigum rætur okkar í sveitunum að langvarandi frost getur verið okkur dýrkeypt. Ég ákvað að höggva á þennan hnút og leiða saman ríkið og sveitarfélögin öll á höfuðborgarsvæðinu: við skyldum finna sameiginlega fleti, við skyldum skapa sameiginlega framtíðarsýn í uppbyggingu samgangna á höfuðborgarsvæðinu. Það tókst – og af því er ég stoltur.

Annað dæmi sem ég vil nefna um áratuga kyrrstöðu er ástand samgangna á sunnanverðum Vestfjörðum sem eiga birtingarmynd sína í Teigsskógi. Vegavinnufólk er komið á staðinn, kyrrstaðan hefur verið rofin og við sjáum fram á stórkostlegar samgöngubætur fyrir Vestfirðinga alla.

Loftbrúin. Loftbrúin hóf sig til flugs síðasta haust og markar tímamót í jöfnun á aðstöðumun landsmanna. Afsláttur af flugfargjöldum til þeirra sem búa fjærst höfuðborgarsvæðinu er orðinn að veruleika. Aðgerðin er mikilvæg, nánast byltingarkennd, og viðtökur við henni hafa verið einstaklega góðar. Og það sem meira er, þá hafa gagnrýnisraddirnar verið fáar og lágværar sem er ólíkt því sem áður hefur verið þegar afgerandi byggðaaðgerðir verða að veruleika. Ég held að ég viti ástæðuna fyrir því hvers vegna viðtökurnar voru svo góðar. Ég held að árið 2020 hafi Íslendingar kynnst landinu sínu aftur þegar þeir ferðuðust innanlands. Flestir voru að endurnýja kynnin og sumir að kynnast einstakri náttúru og kraftmikilli íslenskri ferðaþjónustu í fyrsta sinn. Við öðluðumst öll meiri skilning á landinu okkar og þjóðinni, tækifærunum sem við eigum og verkefnunum sem við þurfum að vinna – saman.

Ísland ljóstengt, verkefnið sem á rætur sínar í lítilli grein í Mogganum árið 2013, grein sem bar yfirskriftina „Ljós í fjós“; þessu verkefni er lokið. Engin þjóð í heiminum er betur tengd en við og næsta verkefni tekur við: Ísland fulltengt.

Ég ætla ekki að telja upp fleiri verkefni úr ráðuneyti mínu, það væri of langt mál.

Hinum megin við götuna sem samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið er stendur við er myndarleg bygging sem einu sinni hýsti Samband íslenskra samvinnufélaga. Í þessari byggingu er mennta- og menningarmálaráðuneytið sem Lilja Dögg hefur leitt af krafti á kjörtímabilinu.

Í mennta- og menningarmálum hafa kerfis- og réttindabætur verið áberandi. Faglegt sjálfstæði kennara hefur verið aukið, starfstækifæri kennara hafa aukist með einföldun leyfisbréfakerfis, kennaranemum hefur fjölgað og ráðherrann okkar hefur sýnt kennarastéttinni þá virðingu sem hún á skilið. Loksins, loksins myndi einhver segja.

Grundvallarbreytingar hafa verið gerðar á verknámskerfinu. Iðnmenntaðir hafa nú sama rétt og bókmenntaðir til háskólanáms og skipulagi vinnustaðanáms hefur verið breytt. Nýr Menntasjóður er stórvirki sem stuðlar enn frekar að jafnrétti til náms. Fyrstu sviðslistalögin eru orðin að veruleika og ný miðstöð sviðslista er að komast á laggirnar. Að lokum vil ég sérstaklega nefna lög um stuðning við útgáfu bóka á íslensku sem hafa nú þegar skilað því að fjöldi íslenskra titla hefur aukist um tugi prósenta.

Í öllum þessum aðgerðum sjáum við framsýni og djúpan skilning á mikilvægi menntunar og lista.

Í gær, föstudag, var stór dagur. Fyrir þjóðina og fyrir okkar kæra stjórnamálaafl: Framsókn. Þá voru á Alþingi Íslendinga samþykkt lög sem gjörbreyta kerfinu í kringum framtíðina, börnin okkar og barnabörn. Ásmundur Einar er fyrsti barnamálaráðherra íslensku þjóðarinnar og hefur sýnt það í störfum sínum að þessi titill er engin skrautfjöður í hans hatti heldur slær hjarta hans í þessum málaflokki. Og ekki má gleyma því mikla framfaraskrefi að lengja fæðingarorlofið í 12 mánuði. Framsókn sýnir enn og aftur að við erum flokkur fjölskyldunnar.

Hlutdeildarlánin sem urðu að veruleika á haustmánuðum hafa nú þegar borið ávöxt sem sést best í því að hlutfall fyrstu kaupenda á fyrstu mánuðum ársins var þriðjungur af íbúðakaupum landsmanna. Tryggð byggð er magnað hreyfiafl í uppbyggingu nýrra íbúðanna á landsbyggðunum en líklega hefur aldrei í seinni tíð verið byggt upp meira íbúðarhúsnæði út um landið en á síðustu mánuðum. Það er hafin ný framsókn fyrir landið allt.

Þessi verkefni sem ég hef talið upp eru einungis dæmi um það sem við sjáum í baksýnisspeglinum. Af árangri okkar á þessu kjörtímabili getum við verið stolt. Árangur okkar leggur grunninn að því sem er framundan í mikilvægum kosningum í haust.

Fyrir að verða fjórum árum, þegar boðað var til kosninga, fundum við öll fyrir þreytu, bæði okkar sjálfra og fólks í kringum okkur, þreytu á óróleikanum í stjórnmálunum, ójafnvæginu. Við tókum þátt í því að mynda ríkisstjórn sem á ekki marga sína líka. Það er mín skoðun að það hafi verið styrkur fyrir þjóðina að ríkisstjórnin sem hefur leitt þjóðina í gegnum heimsfaraldurinn sé breið samvinnustjórn þriggja flokka sem hver og einn endurspeglar ólíka þætti í litrófi stjórnmálanna, vinstri, hægri og miðju. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar endurspegla þessa litríku samsetningu.

Við lögðum af stað með stjórnarsáttmála stjórnarflokkanna þriggja, með um 100 aðgerðir og áherslumál. Sjaldan eða aldrei hefur árangurinn verið eins góður á einu kjörtímabili. Við getum litið með ánægju um öxl og verið stolt af þeim árangri sem við höfum náð, verið stolt af þeim árangri og því fjármagni sem hefur farið í samgöngur, sveitarstjórnarmál og byggðamál, verið stolt af þeirri sátt og samstöðu sem hefur náðst á milli ólíkra sjónarmiða, verið stolt að búa yfir seiglu og halda áfram með mál sem hefðu svo auðveldlega getað dagað uppi ef ekki væri fyrir þá trú sem við í Framsókn höfum þegar sækja þarf fram í málum sem færa okkur jöfnuð, öryggi og betri lífsgæði. Öflugir og öruggir innviðir er grunnurinn að lífsgæðum.

Ríkisstjórnin sýnir ábyrgð  og tekur  ábyrgð. Ábyrgð á því að koma þjóðinni út úr þessum tímabundnu erfiðleikum. Ábyrgð sem felst í því skapa ný störf og standa vörð um þau sem fyrir eru efla fjárfestingar og nýsköpun. Ábyrgð á því að styrkja stöðu þeirra sem misst hafa vinnuna um stund. Ábyrgð á því að styrkja stöðu atvinnulífsins og sveitarfélaga. Rétti tíminni til að fjárfesta í innviðum ríkisins er núna, slíkt skapar atvinnu og heldur hjólum efnahagslífsins gangandi. Á dögunum kom út úttekt sem sýndi að fjárfestingarátak ríkisstjórnarinnar í fyrra vor hefði skilað sér í 1.000 störfum. Áætla má að um 8000 störf verði til ef allar samgönguframkvæmdir eru lagðar saman næstu 5 árin. Sundabraut skapar ein og sér um 2000 störf. Störfin eiga sér ekki aðeins upphaf og endi á meðan á þeim stendur heldur vara óbeinu áhrifin af þeim til lengri tíma. Þannig benda rannsóknir OECD til þess að varanleg aukning opinberrar fjárfestingar um 0,5% af vergri landsframleiðslu á ári, auki landsframleiðslu eftir 10 um 1,5%.

Þessi árangur okkar í ríkisstjórnarsamstarfinu og sá árangur sem við sjáum í störfum Framsóknar í sveitarfélögum um allt land sýnir erindi okkar í stjórnmálum. Við erum hreyfiafl góðra hluta.

Framsókn er stjórnmálaafl sem setur fjölskylduna og velsæld hennar í fyrsta sæti. Fjölskyldan er grundvallareining í samfélaginu. Fjölskyldurnar eru fjölbreyttar, allskonar, og saga Framsóknar hefur hverfst um hagsmuni hennar. Mjúkt mál gæti einhver sagt en mælikvarðinn á gott samfélag er við morgunverðarborðið: Jafnrétti, velsæld, efnahagur, umhverfismálin, öryggi, atvinna, atvinna, atvinna.

Ísland er á flestum mælikvörðum fyrirmyndarríki. Jafnrétti, velsæld, öryggi og síðast en ekki síst félagslegur hreyfanleiki, það að geta unnið sig upp úr fátækt til bjargálna, það að einstaklingur geti búið börnum sínum betra líf en það sem hann sjálfur byrjaði með. Í því felst sjálfstæði og valdefling. Grundvallarþáttur í því er að skapa öllum jafnrétti til náms því menntunin er hreyfiafl samfélagsins, hreyfiafl einstaklingsins, hreyfiafl framfara og lífsgæða.

Við höfum síðasta rúma áratuginn sem liðinn er frá hruni upplifað miklar breytingar á íslenskum stjórnmálum. Á þingi sitja fulltrúar átta flokka. Enn eimir eftir af reiði hrunsins og lítið þarf til að kynda undir henni til að vekja á sér athygli. Við slíkar aðstæður er hætt við því að skemmtanagildi sé tekið fram fyrir málefnanlegar umræður, að allt kapp sé lagt á að etja saman andstæðum pólum ysta hægrisins, frjálshyggjunnar þar sem allir eru eyland, og ysta vinstrisins, sósíalismans þar sem enginn má hafa það betra en næsti maður. Báðar þessar stefnur einkennast af trúarlegri sýn á stjórnmálin, forystumenn þeirra hafa fundið stóra sannleikann og reyna að selja hann sem hina fullkomnu sýn á samfélagið. Gleymist þá raunveruleikinn sjálfur. Tvisvar á síðustu rúmu 12 árum hefur heimsmynd frjálshyggjunnar og hins óhefta markaðar hrunið og almenningur þurft að tína upp brotin. Um sósíalismann þarf heldur ekki að hafa mörg orð því síðasta öld er ekki síst hörmungarsaga þeirrar stefnu ofstækis og kúgunar.

Stjórnmál eru ekki trúarbrögð. Stjórnmál eru tæki til að bæta heiminn.

Viðbrögð stjórnvalda á Íslandi við heimsfaraldri kórónuveirunnar voru þau að treysta vísindunum fyrir sóttvörnum og nýta það afl sem býr í samvinnunni til að mæta efnahagslegum áföllum og undirbúa öfluga viðspyrnu til að samfélagið rísi hratt á fætur eftir erfiða tíma. Hagsmunir fjölskyldunnar eru að skapa atvinnu, atvinnu, atvinnu til að skjóta sterkum stoðum undir lífsgæði á Íslandi. Það verður helst gert með því að hlúa að litlum og meðalstórum fyrirtækjum sem eru mikill meirihluti íslenskra fyrirtækja. Það verður meginviðfangsefni stjórnmálanna næstu mánuði og ár að vinna úr þessum áföllum. Og líkt og raunin er með viðbragðið við farsóttinni þá munum við vinna okkur út úr efnahagsþrengingum með samvinnu, með því að nýta krafta samstöðunnar sem einkennir íslenskt samfélag við erfiðar aðstæður til að byggja upp og bæta, nýta samúð og samlíðan til að hjálpa þeim  sem ganga í gegnum erfiðan tíma vegna tekjumissis á fætur að nýju.

Viðhorf okkar til þess sem kallað hefur verið stærsta verkefni samtímans, loftlagsbreytinganna, er smá saman að breytast – og verður að breytast til að við getum tekist á við það með sama krafti og við tókumst á við veiruna. Eins og valdamesti núlifandi Framsóknarmaðurinn, Joe Biden, hefur boðað vestanhafs, er lykillinn að því að berjast gegn hamfarahlýnun sá að fjárfesta í fólki og þekkingu og skapa tækifæri og störf í grænum geirum. Við þekkjum þessa geira, þeir hafa verið burðarás íslensks efnahags í áratugi: Sjávarútvegur, orkuframleiðsla, landbúnaður, skapandi greinar, ferðaþjónusta, hugverkaiðnaður.

Þeir sem sjá fyrir sér að leiðin til þess að mæta loftlagsvánni sé að kippa öllum meginkerfum heimsins úr sambandi, að við hættum að ferðast, að við á Vesturlöndum sættum okkur við lakari lífsgæði, að þau sem búa í þróunarlöndunum sætti sig við hægari lífsgæðaaukningu, þeir sem telja að dómsdagsspár séu lykillinn að almennri breytingu á viðhorfum og hegðun, þeir munu ekki leiða heiminn í lausn þessa vanda. Í þessu verkefni eins og öðrum þarf samvinnu, þekkingu og framsýni til að leysa málin.

Kæru félagar. Það er til lítils hafa fallega stefnuskrá ef engu er komið í framkvæmd. Íslenskt samfélag þarf stjórnmálaafl sem framkvæmir stefnumál sín, stendur fyrir umbætur fyrir fjölskyldur og fyrirtæki. Öfgaöflin til hægri og til vinstri geta talað sig blá í framan í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum en eina framlag þeirra til samfélagsins er og verður að róta upp moldviðri meðan við, hófsama fólkið á miðjunni vinnur að umbótum fyrir samfélagið allt.

Næstu kosningar snúast um við komum saman út úr þessum faraldri. Okkur hefur tekist að mæta faraldrinum saman, ríkisstjórnin hefur lagt áherslu á standa vörð um líf, heilsu og afkomu fólks. Nú er viðspyrnan hafin, við sjáum landið rísa. Verkefni næstu ára er að skapa atvinnu, atvinnu og græna atvinnu og tryggja þannig aukin lífsgæði. Málefni aldraðra þarf að nálgast á svipaðan hátt og Ásmundur Einar hefur nálgast málefni barna. Það er verkefni sem þarf að leysa með samvinnu.

Stjórnmál snúast nefnilega ekki bara um stefnu, þau snúast um hugarfar og vinnubrögð. Samvinnan er bæði hugsjón og aðferð. Í því liggur ekki síst styrkur okkar sem stjórnmálaafls.

Næstu kosningar verða þær mikilvægustu á lýðveldistímanum. Þau stjórnmálaöfl sem eiga fulltrúa í næstu ríkisstjórn munu þurfa að taka örlagaríkar ákvarðanir varðandi uppbyggingu íslensks samfélags. Þá er mikilvægt að hófsamur og skynsamur miðjuflokkur, flokkur sem skilur að hagsmunir fjölskyldunnar séu hagsmunir þjóðarinnar fái góða kosningu. Ísland þarf nýja framsókn í atvinnumálum, nýja framsókn fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki, nýja framsókn fyrir fjölskylduna, nýja framsókn fyrir landið allt.

Við sjáum til lands. Að baki eru fimmtán erfiðir mánuðir í baráttu við heimsfaraldur. Við höfum unnið saman, staðið saman sem flokkur, staðið saman sem þjóð, og þannig leyst erfið verkefni. Fram undan er tími þar sem við þurfum að vinna saman úr þeim áföllum sem gengu yfir okkur árið 2020. Við þurfum að skapa atvinnu, skapa tækifæri, skapa samstöðu um framtíðina.

Ég er þakklátur að sjá ykkur öll hér í dag. Ég er þakklátur fyrir alla þá vinnu sem þið leggið á ykkur til að afla hugsjónum okkar og stefnu fylgist. Ég er þakklátur að sjá gömul andlit og ný mætast hér í dag til að leggja grunninn að öflugri kosningabaráttu.

Categories
Fréttir

Kynningarblað á frambjóðendum í prófkjöri í Suðurkjördæmi

Deila grein

08/06/2021

Kynningarblað á frambjóðendum í prófkjöri í Suðurkjördæmi

Átta verða í framboði hjá Framsóknarflokknum í Suðurkjördæmi í prófkjöri 19. júní 2021. Kosið verður um fimm efstu sætin. Talning atkvæða mun fara fram sunnudaginn 20. júní.

Í framboði eru:

  • Sigurður Ingi Jóhannsson, Hrunamannahreppi – sækist eftir 1. sæti
  • Jóhann Friðrik Friðriksson, Reykjanesbæ – sækist eftir 2. sæti
  • Silja Dögg Gunnarsdóttir, Reykjanesbæ – sækist eftir 2. sæti
  • Daði Geir Samúelsson, Hrunamannahreppi – sækist eftir 2.- 4. sæti
  • Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, Árborg – sækist eftir 3. sæti
  • Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, Reykjanesbæ – sækist eftir 3.- 4. sæti
  • Njáll Ragnarsson, Vestmannaeyjum – sækist eftir 3.- 4. sæti
  • Ragnhildur Hrund Jónsdóttir, Vík í Mýrdal – sækist eftir 3.- 5. sæti

Kjósendur skulu velja 5 frambjóðendur, hvorki fleiri né færri, og merkja með tölustöfum við nöfn þeirra og í þeirri röð sem þeir vilja að frambjóðendur taki sæti á framboðslista Framsóknarflokksins í kjördæminu. Það er 1 við þann sem kjósandi vill að skipi efsta sæti, 2 við þann sem kjósandi vill í annað sæti, 3 við þann sem skipa skal þriðja sætið, o.s.frv.

Athugið að ekki má merkja við færri eða fleiri frambjóðendur en fimm, annars verður atkvæðið ógilt.

Categories
Fréttir

Framboðslistar Framsóknar

Deila grein

07/06/2021

Framboðslistar Framsóknar

Framboðslistar Framsóknar hafa verið samþykkt í öllum kjördæmum.

Hér að neðan má lesa nánar um framboðslista lokksins í hverju kjördæmi og dagskrána framundan.

Norðvesturkjördæmi

Stefán Vagn Stefánsson, yfirlögregluþjónn og forseti sveitarstjórnar Sveitarfélagsins Skagafjarðar er oddviti listans. Í öðru sæti er Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, háskólanemi og formaður Sambands ungra Framsóknarmanna. Þriðja sætið skipar Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður. Í fjórða sæti er Friðrik Már Sigurðsson, bóndi og formaður byggðarráðs Húnaþings vestra og fimmta sætið skipar Iða Marsibil Jónsdóttir, skrifstofu- og mannauðsstjóri og forseti bæjarstjórnar Vesturbyggðar. Sveinn Bernódusson, járnsmíðameistari í Bolungarvík, skipar heiðurssæti listans. 

Framboðslisti Framsóknar í Norðvesturkjördæmi:

1. Stefán Vagn Stefánsson, Sauðárkróki – Yfirlögregluþjónn og forseti sveitarstjórnar Sveitarfélagsins Skagafjarðar.
2. Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, Borgarbyggð – Háskólanemi og formaður Sambands ungra Framsóknarmanna.
3. Halla Signý Kristjánsdóttir, Önundarfirði – Alþingismaður.
4. Friðrik Már Sigurðsson, Húnaþingi vestra – Bóndi og formaður byggðarráðs Húnaþings vestra.
5. Iða Marsibil Jónsdóttir, Vesturbyggð – Skrifstofu- og mannauðsstjóri og forseti bæjarstjórnar Vesturbyggðar.
6. Elsa Lára Arnardóttir, Akranesi – Aðstoðarskólastjóri, formaður bæjarráðs Akraneskaupstaðar og f.v. alþingismaður.
7. Þorgils Magnússon, Blönduósi – Skipulags- og byggingarfulltrúi.
8. Gunnar Ásgrímsson, Sauðárkróki – Háskólanemi.
9. Kolbrún Ösp Guðrúnardóttir, Stykkishólmi – Nemi.
10. Jóhanna María Sigmundsdóttir, Búðardal – Verkefnastjóri og f.v alþingismaður.
11. Ragnheiður Ingimundardóttir, Strandabyggð – Verslunarstjóri.
12. Gauti Geirsson, Ísafirði – Nemi.
13. Sæþór Már Hinriksson, Sauðárkróki – Tónlistarmaður.
14. Sigrún Sjöfn Ámundadóttir, Borgarbyggð – Lögreglumaður.
15. Sigurdís Katla Jónsdóttir, Dalabyggð – Nemi.
16. Sveinn Bernódusson, Bolungarvík – Járnsmíðameistari.

***

Norðausturkjördæmi

Ingibjörg Ólöf Isaksen, framkvæmdastjóri og bæjarfulltrúi Akureyrarbæjar er oddviti listans. Í öðru sæti er Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður. Þriðja sætið skipar Þórarinn Ingi Pétursson, bóndi og alþingismaður. Í fjórða sæti er Helgi Héðinsson, bóndi og oddviti Skútustaðahrepps. Fimmta sætið skipar Halldóra Hauksdóttir, lögfræðingur og sjötta sætið Kristinn Rúnar Tryggvason, bóndi.

Framboðslisti Framsóknar í Norðausturkjördæmi:

1. Ingibjörg Ólöf Isaksen, framkvæmdastjóri, Akureyri 
2. Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður, Fáskrúðsfirði
3. Þórarinn Ingi Pétursson, bóndi, Grýtubakkahreppi 
4. Helgi Héðinsson, oddviti, Skútustaðahreppi 
5. Halldóra Hauksdóttir, lögmaður, Akureyri 
6. Kristinn Rúnar Tryggvason, bóndi, Kelduhverfi 
7. Jónína Brynjólfsdóttir, viðskiptalögfræðingur, Egilsstöðum
8. Ari Teitsson, lífeyrisþegi, Þingeyjarsveit 
9. Brynja Rún Benediktsdóttir, verkefnastjóri, Húsavík
10. Eiður Gísli Guðmundsson,  leiðsögumaður, Djúpavogi
11. Íris Hauksdóttir, upplýsingafulltrúi, Dalvíkurbyggð
12. Sverre Andreas Jakobsson, handboltaþjálfari, Akureyri
13. Ásdís Helga Bjarnadóttir, verkefnastjóri, Fljótsdalshreppi
14. Halldóra Magnúsdóttir, leikskólastarfsmaður, Eyjafjarðarsveit
15. Eggert Stefánsson, bóndi, Þistilfirði
16. Rósa Jónsdóttir, nemi, Fjallabyggð
17. Bjarni Stefán Vilhjálmsson, verkstjóri, Stöðvarfirði
18. Alda Ósk Harðardóttir, snyrtifræðimeistari, Egilsstöðum
19. Anna Sigrún Mikaelsdóttir, húsmóðir, Húsavík 
20. Friðbjörn Haukur Guðmundsson, bóndi, Vopnafirði

***

Suðvesturkjördæmi

 Fram fór lokað prófkjöri í Suðvesturkjördæmi 8. maí.

Framboðslisti Framsóknar í Suðvesturkjördæmi:

  1. Willum Þór Þórsson, Kópavogi
  2. Ágúst Bjarni Garðarsson, Hafnarfirði
  3. Anna Karen Svövudóttir, Hafnarfirði
  4. Kristín Hermannsdóttir, Kópavogi
  5. Ívar Atli Sigurjónsson, Kópavogi
  6. Svandís Dóra Einarsdóttir, Kópavogi
  7. Ómar Stefánsson, Kópavogi
  8. Halla Karen Kristjánsdóttir, Mosfellsbæ
  9. Baldur Þór Baldvinsson, Kópavogi
  10. Margrét Vala Marteinsdóttir, Hafnarfirði
  11. Valdimar Víðisson, Hafnarfirði
  12. Hjördís Guðný Guðmundsdóttir, Garðabæ
  13. Einar Gunnarsson, Hafnarfirði
  14. Þorbjörg Sólbjartsdóttir, Mosfellsbæ
  15. Árni Rúnar Árnason, Hafnarfirði
  16. Dóra Sigurðardóttir, Seltjarnarnesi
  17. Páll Marís Pálsson, Kópavogi
  18. Björg Baldursdóttir, Kópavogi
  19. Sigurjón Örn Þórsson, Kópavogi
  20. Tinna Rún Davíðsdóttir Hemstock, Garðabæ
  21. Einar Sveinbjörnsson, Garðabæ
  22. Helga Björk Jónsdóttir, Garðabæ
  23. Einar Bollason, Kópavogi
  24. Hildur Helga Gísladóttir, Hafnarfirði
  25. Birkir Jón Jónsson, Kópavogi
  26. Eygló Harðardóttir, Mosfellsbæ

***

Reykjavík

Í Reykjavík fór fram uppstilling og aukakjördæmaþing afgreiddi tillögur að framboðslistunum.

Framboðslisti Framsóknar í Reykjavíkurkjördæmi suður:

  1. Lilja Dögg Alfreðsdóttir, 47 ára, mennta- og menningarmálaráðherra
  2. Aðalsteinn Haukur Sverrisson, 47 ára, framkvæmdastjóri, MPM og formaður FR
  3. Sigrún Elsa Smáradóttir, 46 ára, framkvæmdastjóri og f.v. borgarfulltrúi
  4. Íris E. Gísladóttir, 29 ára, frumkvöðull í menntatækni og formaður UngFramsókn í Reykjavík
  5. Þorvaldur Daníelsson, 50 ára, stofnandi Hjólakrafts og MBA
  6. Guðni Ágústsson, 72 ára, f.v. alþingismaður og landbúnaðarráðherra
  7. Hafdís Inga Helgudóttir Hinriksdóttir, 40 ára, félagsráðgafi
  8. Ólafur Hrafn Steinarsson, 30 ára, formaður Rafíþróttasambands Íslands
  9. Ágúst Guðjónsson, 20 ára, lögfræðinemi
  10. Helena Ólafsdóttir, 51 árs, knattspyrnuþjálfari og þáttastjórnandi
  11. Guðrún Lolý Jónsdóttir, 21 árs, leikskólaliði og nemi
  12. Ingvar Mar Jónsson, 47 ára, flugstjóri
  13. Hinrik Viðar B. Waage, 28 ára, nemi í rafvirkjun
  14. Jóhanna Sóley Gunnarsdóttir, 59 ára, sjúkraliði
  15. Björn Ívar Björnsson, 33 ára, verkamaður
  16. Jón Finnbogason, 40 ára, sérfræðingur
  17. Þórunn Benný Birgisdóttir, 40 ára, BA í félagsráðgjöf og iðnnemi
  18. Stefán Þór Björnsson, 47 ára, viðskiptafræðingur
  19. Ásta Björg Björgvinsdóttir, 35 ára, tónlistarkona og forstöðukona í félagsmiðstöð
  20. Níels Árni Lund, 70 ára, f.v. skrifstofustjóri
  21. Frosti Sigurjónsson, 58 ára,  f.v. alþingismaður
  22. Sigrún Magnúsdóttir, 76 ára, f.v. ráðherra og borgarfulltrúi

Framboðslisti Framsóknar í Reykjavíkkjördæmi norður:

  1. Ásmundur Einar Daðason, 38 ára, félags- og barnamálaráðherra
  2. Brynja Dan, 35 ára, frumkvöðull og framkvæmdastjóri
  3. Þórunn Sveinbjörnsdóttir, 75 ára, fráfarandi formaður LEB
  4. Gauti Grétarsson, 60 ára, sjúkraþjálfari
  5. Magnea Gná Jóhannsdóttir, 24 ára, lögfræðingur
  6. Lárus Helgi Ólafsson, 33 ára, kennari og handboltamaður
  7. Unnur Þöll Benediktsdóttir, 25 ára, háskólanemi
  8. Guðjón Þór Jósefsson, 20 ára, laganemi
  9. Kristjana Þórarinsdóttir, 43 ára, sálfræðingur
  10. Ásrún Kristjánsdóttir, 72 ára, hönnuður og myndlistarkona
  11. Bragi Ingólfsson, 83 ára, efnafræðingur
  12. Snjólfur F. Kristbergsson, 81 árs, vélstjóri
  13. Eva Dögg Jóhannesdóttir, 38 ára, líffræðingur
  14. Sveinbjörn Ottesen, 61 árs, verkstjóri
  15. Gerður Hauksdóttir, 62 ára, skrifstofufulltrúi
  16. Friðrik Þór Friðriksson, 67 ára, kvikmyndagerðarmaður
  17. Þórdís Arna Bjarkarsdóttir, 25 ára, læknanemi
  18. Birna Kristín Svavarsdóttir, 68 ára, f.v. hjúkrunarforstjóri
  19. Haraldur Þorvarðarson, 44 ára, kennari og handboltaþjálfari
  20. Dagbjört S. Höskuldsdóttir, 73 ára, fyrrum verslunarkona
  21. Guðmundur Bjarnason, 76 ára, f.v. ráðherra
  22. Jón Sigurðsson, 74 ára, f.v. ráðherra og seðlabankastjóri

***

Suðurkjördæmi

Í Suðurkjördæmi fór fram lokað prófkjör laugardaginn 19. júní 2021.

Framboðslisti Framsóknar í Suðurkjördæmi:

  1. Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, Hrunamannahreppi
  2. Jóhann Friðrik Friðriksson, bæjarfulltrúi, Reykjanesbæ
  3. Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, lögfræðingur, Árborg
  4. Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, varabæjarfulltrúi, Reykjanesbæ
  5. Njáll Ragnarsson, bæjarfulltrúi, Vestmannaeyjum
  6. Ásgerður Kristín Gylfadóttir, bæjarfulltrúi, Hornafirði
  7. Lilja Einarsdóttir, sveitarstjóri, Rangárþingi eystra
  8. Daði Geir Samúelsson, rekstrarverkfræðingur, Hrunamannahreppi
  9. Stefán Geirsson, bóndi, Flóahreppi
  10. Eiríkur Vilhelm Sigurðarson, bóndi, Rangárþingi ytra
  11. Ragnhildur Hrund Jónsdóttir, bóndi, Mýrdalshreppi
  12. Inga Jara Jónsdóttir, nemi, Árborg
  13. Anton Kristinn Guðmundsson, kokkur, Suðurnesjabæ
  14. Jóhannes Gissurarson, bóndi, Skaftárhreppi
  15. Gunnhildur Imsland, Hornafirði
  16. Jón Gautason, Árborg
  17. Drífa Sigfúsdóttir, Reykjanesbæ
  18. Haraldur Einarsson, fyrrv. alþingismaður, Flóahreppi
  19. Páll Jóhann Pálsson, fyrrv. alþingismaður, Grindavík
  20. Silja Dögg Gunnarsdóttir, alþingismaður, Reykjanesbæ

***

Alþingiskosningarnar munu fara fram laugardaginn 25. september 2021.

Kosning utan kjörfundar.

Dagskráin framundan:

SEPTEMBER
  • 25. – alþingiskosningar.