Categories
Fréttir Greinar

Um jarð­göng, ráð­herra og blaða­menn

Deila grein

04/02/2025

Um jarð­göng, ráð­herra og blaða­menn

Þegar ný ríkisstjórn kemur til starfa er mjög freistandi að halda að það skapist forsendur til að umbreyta öll því sem áður hefur verið gert. Svo má í það minnsta lesa í fréttaflutning Kristjáns Más Unnarssonar blaðamanns í frétt á Stöð 2 og Vísi þann 30. janúar síðastliðinn í frétt sem ber yfirheitið „Segir nýja forgangsröðun jarðganga uppi á borðinu“ þar sem blaðamaður leyfir sér að túlka frjálslega orð nýs ráðherra um næstu jarðgögn. En hafa skal það sem rétt reynist og blaðamenn ættu að gæta að hlutleysi í fréttaflutningi.

Ráðherra samgöngumála Eyjólfur Ármansson hefur sagt að jarðgagnaáætlun, sem er hluti af samgönguáætlun, yrði á þingmálaskrá í haust. Um röðun jarðgangna ætlar ráðherra ekkert að gefa út fyrr en áætlunin verði kynnt.

Burtséð frá því hvað ráðherra vill gefa mikið út um samgönguáætlun á sínum fyrstu dögum þá skal því haldið til haga að í 3 kafla stefnuyfirlýsingar nýrrar ríkisstjórnar kemur fram að ríkisstjórnin muni rjúfa kyrrstöðu í jarðgangagerð. Ljóst er að leggja þarf fram fjármálaáætlun á næstu vikum og í henni kemur í ljós hvort fjármagn verði sett í jarðgangnagerð á Íslandi á kjörtímabilinu. Verði svo, er ljóst að Fjarðarheiðargöng eru einu gögnin sem eru tilbúin, fullhönnuð og bíða útboðs og hefur Vegagerðin nú sett um 600 milljónir í hönnun þeirra. Önnur göng verða hreinlega ekki tilbúin til útboðs á þessu kjörtímabili.

Förum yfir tímalínu jarðgagnagerðar. Umhverfismat og jarðfræðirannsóknir taka almennt 2 ár, hönnun er unnin samhliða rannsóknum og tekur um 3-4 ár og er skipulagsvinna unnin samhliða. Þá tekur við útboðsferill sem getur tekið um ár. Glöggir lesendur sjá, jú 4-5 ár fram að fyrstu skóflustungu en þá bætist við verktími, sem yfirleitt er nokkur ár, Gerð Fjarðarheiðarganga tekur til að mynda um 7 ár. Sjá má að ansi langur tími líður frá hugmynd á blaði í samgönguáætlun og fram að því að spenntur ráðherra getur klippt á borða og hleypt umferð um göngin.

Gildandi samgönguáætlun 2020-2034 segir til um að í framhaldi af Fjarðaheiðargöngum eigi að fara í göng frá Seyðisfirði til Mjóafjarðar (Seyðisfjarðargöng) og þaðan yfir á Norðfjörð (Mjóafjarðargöng). Svokölluð hringtenging Austurlands. Því skal haldið hér til haga að vilji meirihluta samgöngunefndar við samþykkt samgönguáætlunar árið 2020 var skýr, hefja ætti rannsóknir og hönnun á Seyðisfjarðar- og Mjóafjarðargöngum um leið og vinna við Fjarðarheiðargöng myndi hefjast. Það var svikið í þeirri tillögu að samgönguáætlun sem lögð var fram á vorþingi 2024.

Þegar slá á ryki í augu okkar vongóðra sveitarstjórnarmanna um uppbyggingu nauðsynlegra samgönguinnviða er vísað til ósamstöðu innan landshlutans. Því er ekki fyrir að fara heldur hefur fólk hér einfaldlega ekki trú á því að við munum fá öll þau jarðgöng sem okkur hefur verið lofað og veldur það togstreitu sem nærir einhverja blaðamenn.

Sveitarstjórnir á öllu Austurlandi samþykktu í byrjun þessa kjörtímabils svæðisskipulag það sem fram kemur að áhersla verði lögð á að byggja Fjarðarheiðargöng, Seyðisfjarðargöng og Mjóafjarðargöng með það að markmiði að hringtengja miðsvæði Austurlands. Vert er að bæta við að samkvæmt efnahagsgreiningu sem Samband sveitarfélaga á Austurlandi lét vinna kemur fram að Austfirðingar, sem eru 2,9% af heildarmannfjölda Íslands, skapa nær fjórðung útflutningstekna (af vöruútflutningi). Þannig má segja að hver Austfirðingur framleiði tífalt á við aðra í landinu. Til að halda áfram og auka verðmætasköpun landshlutans þurfum við á hringtengingunni að halda.

Við ráðherra vil ég segja, kæri ráðherra samgöngumála, ég hvet þig að hafa hringtengingu Austurlands áfram í forgangi í jarðgangnamálum líkt og er í gildandi samgönguáætlun og að hefja útboð á Fjarðaheiðargöngum sem fyrst.

Jónína Brynjólfsdóttir, forseti sveitarstjórnar Múlaþings og varaþingmaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á visir.is 4. febrúar 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Óður til opin­berra starfs­manna

Deila grein

02/02/2025

Óður til opin­berra starfs­manna

Við mæðgur sitjum lúnar á biðstofunni. Það varð trampólínslys og fóturinn er mögulega brotinn. Svo taka á móti okkur röntgentæknir, sjúkraliði, hjúkrunarfræðingur og læknir sem leysa verkefnið af alúð.

Það er þröngt á þingi. Stofur og gangar yfirfullar af sjúklingum. Áreitið mikið og fólk í misjöfnu ástandi. Á leiðinni út sjáum við lögregluna koma inn með sjúkraflutningamönnum eftir slys. Hér tekur starfsfólk höggin og fer svo heim, ekki bara þreytt eftir daginn heldur með krefjandi minningar í farteskinu.

Orðræða um opinber störf

Að undanförnu hafa ýmis hagsmunamtök og stjórnmálamenn farið mikinn í neikvæðri umræðu um hið opinbera og um leið rýrt störf þeirra sem þar vinna – mögulega óaðvitandi. Líkt og hjá ríkinu starfi eintómir letihaugar réttindanna vegna, sem stari á klukkuna til þess eins að komast sem fyrst heim. Reynsla mín frá bráðamótttökunni og sem starfsmaður hjá hinu opinbera er hins vegar allt önnur.

Þegar ég vann fyrir utanríkisráðuneytið í Brussel fylgist ég með starfsfólki vinna langa daga drifið áfram af því að verja hagsmuni Íslands. Oft voru krefjandi mál sem reyndu á úthald í samningaviðræðum við aðrar þjóðir og þar var ekki slegið slöku við sama hvað klukkan sló.

Þegar ég starfaði hjá Orkustofnun lagði starfsfólk svo hart að sér í auðlindamálum að þeim tókst að afgreiða fleiri stærri leyfi en tíu árin á undan. Svo komu óveður og eldgos sem ógnuðu orkuinnviðum. Það hljóp enginn heim þó dagur væri á enda; tryggðin við verkefnin var öllu ofar.

Þegar ég var stuðningsfulltrúi í grunnskóla sá ég kennara gefa allt í að nemendur lærðu bæði námsefnið en líka góð samskipti og hlýju. Þar komu líka upp erfið mál í lífi barna sem kennarar lögðu sig alla fram við að leysa, án þess þó að þurfa kannski að gera það.

Almennt er reynslan mín semsagt sú að fólk sem starfar hjá hinu opinbera er drifið áfram af ástríðu þess að starfa í þágu þeirra verkefna sem það sinnir. Það telur ekki mínúturnar því það er helgað málstaðnum og veit að störf þess skipta máli. Það mætir í vinnuna af hugsjón en ekki vegna fríðinda eða starfsöryggis.

Er hið opinbera þá fullkomið?

Hið opinbera er þó langt í frá fullkomið. Í stjórnsýslunni væri hægt sjálfvirknivæða ferla svo nýta mætti tíma starfsfólks betur og draga úr kostnaði við yfirbyggingu. Í mörgum tilfellum er hægt að gera starfsemi árangursmiðaðri og skilvirkari. Opinbera kerfið má sannarlega ekki blása út að óþörfu enda um takmarkaða sameiginlega sjóði sem reka það að ræða.

En í stað þess að etja opinberum stéttum og einkageirann saman í einhvers konar keppni um hvor er mikilvægari hlýtur að vera farsælla að beina sjónum því að hvaða gagn ólíkar stéttir gera fyrir samfélagið og sameinast um að bæta kerfin þar sem við á. Munum að stjórnmálamenn bera ábyrgð á því að breyta og bæta flest kerfin; það er ekki við starfsfólk sem gerir sitt besta innan þeirra að sakast.

Hvernig vinnur hið opinbera og einkageirinn saman?

Á Íslandi gefur nýting fjölbreyttra náttúruauðlinda af sér afar mikilvægar tekjur. Sömuleiðis skapar öflugt atvinnulíf gríðarleg verðmæti sem eykst sífellt ef nýsköpun er í hávegum höfð. Hér þarf fjölbreytta hæfni og duglega einstaklinga því hér verða til grunnstoðir tekna og atvinnu samfélagsins til sem við nýtum í rekstur hins opinbera.

Verðmætin sem hið opinbera býr til á móti er að mennta fólk, bæta heilsu og efla fjölbreytta innviði svo einstaklingar geti látið til sín taka á marga vegu í samfélaginu, ekki síst í atvinnulífi, svo að kakan stækki fyrir alla. Þannig eigum við að hugsa kerfin og samspil þeirra og hér þarf stöðugt bæta og uppfæra svo okkur farnist sem best.

Lausnamiðuð umræða með virðingu og þakklæti í huga

Við vitum að sagan af manninum sem réð sig í vinnu til að fá sem flesta veikindadaga á alltaf að vera undantekning bæði í kerfi ríkisins og í einkageiranum. Slíkt er sannarlega ekki saga fólksins sem tók á móti okkur mæðgum á bráðamóttökunni. Það heldur ekki saga lögreglumannsins sem lagði líf sitt í hættu eða fólksins sem stóð vaktina í eldgosunum.

Verum óhrædd og lausnarmiðuð í að gagnrýna kerfi hins opinbera en gætum þess að rífa ekki störf þeirra sem þeim sinna fyrir okkur öll niður um leið. Þau standa vaktina fyrir okkur öll – í sjúkrahúsum, skólum, stjórnsýslu, menningarstarfi, löggæslu, vegagerð og á ótal öðrum sviðum sem skipta sköpum fyrir samfélagið okkar. Þau eiga enga tortryggni skilið – heldur þakkaróð og virðingu fyrir þau mikilvægu verkefni sem þau sinna fyrir land og þjóð.

Halla Hrund Logadóttir, þingmaður Framsóknarflokksins

Greinin birtist fyrst á visir.is 2. febrúar 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Raunsæis þörf í öryggismálum

Deila grein

30/01/2025

Raunsæis þörf í öryggismálum

Alþjóðamál­in hafa ekki verið jafn þýðing­ar­mik­il í ár­araðir og það reyn­ir á rík­is­stjórn Íslands að tryggja hags­muni lands­ins. Það eru viðsjár­verðir tím­ar. Enn sér ekki fyr­ir end­ann á hrika­legu stríði í Úkraínu. Norður­skautið er komið í hringiðu alþjóðaum­ræðunn­ar vegna áhuga Banda­ríkja­for­seta á að styrkja stöðu sína á Græn­landi. For­sæt­is­ráðherr­ar Norður­land­anna funduðu vegna stöðunn­ar og danski for­sæt­is­ráðherr­ann er far­inn í ferðalag um Evr­ópu til að tryggja stuðning við þeirra málstað. Í mín­um huga snýst málið um vilja Græn­lend­inga og sjálf­stæði þeirra til framtíðar, sem og virðingu fyr­ir alþjóðalög­um. Land­fræðileg staða Íslands og Græn­lands er mik­il­væg sem fyrr og gott að rifja upp margtil­vitnuð orð fyrr­ver­andi for­sæt­is­ráðherra Bret­lands, Winst­ons Churchills: „Hver sá sem hef­ur yf­ir­ráð yfir Íslandi held­ur á byssu miðaðri á Eng­land, Am­er­íku og Kan­ada,‘‘ sagði hann um hernaðarlegt mik­il­vægi Íslands í seinni heims­styrj­öld­inni. Æ síðan hef­ur lega Íslands skipað grund­vall­arsess í varn­ar­mál­um vest­rænna ríkja.

Frelsi og ör­yggi er grund­vall­arþátt­ur í vel­ferð okk­ar. Það var því fram­sýni þegar ís­lensk stjórn­völd ákváðu að Ísland yrði stofnaðili að Atlants­hafs­banda­lag­inu. Þar sem herlaus þjóð gat ekki varið sig fór banda­lagið þess á leit við Ísland og Banda­rík­in að þjóðirn­ar gerðu ráðstaf­an­ir sín á milli með varn­ar­samn­ingn­um árið 1951. Á þeim tíma var varn­ar­leysi lands­ins talið stofna ör­yggi þess sjálfs og friðsamra ná­granna þess í voða eins og það er orðað í samn­ing­um. Staðfesta stjórn­valda þá tryggði aðstöðu hér á landi til að sinna vörn­um og varðveita þannig frið og ör­yggi á svæðinu.

Það er því afar brýnt að haldið sé vel utan um stöðu Íslands og tryggt áfram­hald­andi vest­rænt sam­starf. Lega Íslands hef­ur í för með sér að tryggja verður áfram­hald­andi sam­starf við Banda­rík­in í sam­ræmi við sögu­leg­an varn­ar­samn­ing, ásamt því að rækta sam­starfið við hinar Norður­landaþjóðirn­ar og sam­starfið inn­an Evr­ópska efna­hags­svæðis­ins. Okk­ar vel­gengni grund­vall­ast á þess­um styrku stoðum í ör­ygg­is- og varn­ar­mál­um. Ýmsir hafa fært rök fyr­ir því að nauðsyn­legt sé að ganga í Evr­ópu­sam­bandið til að tryggja varn­ir lands­ins en það á ekki við. Ég minni á að Finn­land og Svíþjóð gerðust aðilar að NATO, ein­mitt vegna þess að þau töldu að varn­ir ESB dygðu ekki til. Evr­ópu­sam­bands­sinn­ar á Íslandi telja að best sé fyr­ir landið okk­ar að ganga í ESB út af stefnu Trumps og eru þar með til­bún­ir til að fórna sjálf­stæði þjóðar­inn­ar og eign­ar­haldi á auðlind­um okk­ar. Ég geld var­hug við þess­ari nálg­un, því ber­in eru súr. Ísland hef­ur átt í far­sælu sam­starfi við Banda­rík­in allt frá lýðveld­is­stofn­un ásamt því að stunda frjáls viðskipti inn­an EES. Þessi leið hef­ur skilað mik­illi verðmæta­sköp­un og góðum lífs­kjör­um. Það er afar brýnt að rík­is­stjórn­in vandi sig og mæti til leiks.

Reglu­lega verða at­b­urðir sem und­ir­strika mik­il­vægi þess að huga vel að varn­ar­mál­um. Þá vakt þurf­um við ávallt að standa og taka virk­an þátt með vinaþjóðum okk­ar í að standa vörð um þá sam­fé­lags­gerð sem við þekkj­um. Þrátt fyr­ir að Ísland sé lítið skipt­ir fram­lag okk­ar miklu máli í þessu sam­hengi – rétt eins og Winst­on Churchill benti rétti­lega á.

Lilja Alfreðsdóttir, vara­formaður Fram­sókn­ar­flokks­ins.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 30. janúar 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Nýtt upphaf?

Deila grein

28/01/2025

Nýtt upphaf?

Þann 4. fe­brú­ar næst­kom­andi verður Alþingi sett og hefst þar með nýtt kjör­tíma­bil nýrr­ar rík­is­stjórn­ar. Rétt er í upp­hafi að óska þeirri rík­is­stjórn velfarnaðar í störf­um sín­um fyr­ir land og þjóð. Í stefnu­yf­ir­lýs­ingu nýrr­ar rík­is­stjórn­ar seg­ir að fyrsta verk henn­ar sé að ná stöðug­leika í efna­hags­lífi, lækka vexti og vinna að auk­inni verðmæta­sköp­un í at­vinnu­lífi. Það er vel, en hins veg­ar er lítið fjallað um það í meðfylgj­andi 23 aðgerðum hvernig þessu skuli náð. Þó er sagt að ný rík­is­stjórn muni rjúfa kyrr­stöðu í at­vinnu­líf­inu.

Hvað er kyrrstaða?

Óneit­an­lega vakn­ar þá spurn­ing­in um hvað kyrrstaða er í hug­um odd­vita rík­is­stjórn­ar­inn­ar, þegar at­vinnuþátt­taka hef­ur sjald­an verið meiri á Íslandi síðustu miss­eri. At­vinnu­leysi er lítið. Á síðustu 7 árum hafa 25 þúsund nýj­ar íbúðir komið á markað. Meiri kraft­ur hef­ur verið í bygg­inga­geir­an­um hér­lend­is en á nokkru byggðu bóli í Evr­ópu. Á sama tíma hef­ur stærsta ein­staka fjár­fest­ing rík­is­ins verið í full­um gangi, þ.e.a.s. bygg­ing nýs Land­spít­ala með um 20 millj­arða fjár­fest­ingu á síðasta ári. Á bil­inu 20-30 millj­arðar ár­lega hafa farið í upp­bygg­ingu vega, t.a.m. Reykja­nes­braut­ar, Arn­ar­nes­veg­ar, Vest­ur­lands­veg­ar um Kjal­ar­nes, Suður­lands­veg­ar og tengi­vega um land allt, stór­fellda fækk­un ein­breiðra brúa m.a. yfir Horna­fjarðarfljót og ekki síst upp­bygg­ingu á Vest­fjörðum á Dynj­and­is­heiði og um suðurf­irði Vest­fjarða. Þá eru ótal­in verk­efni á veg­um Höfuðborg­arsátt­mál­ans og und­ir­bún­ing­ur Sunda­braut­ar. Metnaðarfull jarðganga­áætl­un lá fyr­ir í sam­göngu­áætlun, m.a. með Fjarðar­heiðargöng­um og flýti­rann­sókn­um á Siglu­fjarðarsk­arðsgöng­um og um Súðavík­ur­hlíð. Mik­il og löngu þörf upp­bygg­ing var á flug­völl­um lands­ins, m.a. á Ak­ur­eyri og Eg­ils­stöðum. Komið var á vara­flug­vall­ar­gjaldi og stuðnings­kerf­inu Loft­brú. Hafna­bóta­sjóður var stór­auk­inn og mörg verk­efni eru orðin að veru­leika eða að verða eins á Ísaf­irði, Njarðvík, Sauðar­króki og Þor­láks­höfn. Það er von­andi að ný rík­is­stjórn nái að halda vel á spöðunum áfram og jafn­vel bæti í – það er þörf á því, en allt tal um kyrr­stöðu síðustu ára hljóm­ar í besta falli eins og lé­leg öf­ug­mæla­vísa á þorra­blóti.

Byggj­um upp traust og sam­heldni

Hin nýja rík­is­stjórn seg­ist ein­setja sér að vinna gegn sundr­ung og tor­tryggni og byggja und­ir traust og sam­heldni í ís­lensku sam­fé­lagi. Það vek­ur því furðu að sama fólk ætl­ar sér – þrátt fyr­ir enga umræðu í aðdrag­anda kosn­inga – að draga þjóðina inn í umræðu um aðild að tolla­banda­lagi ESB, þar sem vitað er að þjóðin er djúpt klof­in gagn­vart þeirri veg­ferð. Meiri­hluti þjóðar­inn­ar mun aldrei gefa af­slátt á að missa for­ræði yfir auðlind­um lands­ins. Evr­ópu­sam­bandið er í stór­kost­legri krísu þessi miss­er­in, hag­vöxt­ur nær eng­inn, at­vinnu­leysi vax­andi, kaup­mátt­ur al­menn­ings rýrn­ar, eng­inn kraft­ur í ný­sköp­un eða nýt­ingu gervi­greind­ar til hags­bóta fyr­ir sam­fé­lagið. Ólíkt Íslandi, þar sem síðustu 10 ár hafa verið saga mik­ils hag­vaxt­ar og auk­ins kaup­mátt­ar launa­fólks – ekki síst þeirra sem lægstu laun­in hafa. Veru­leg ný­sköp­un hef­ur átt sér stað á öll­um sviðum og upp­bygg­ing nýrra verðmætra skap­andi út­flutn­ings­greina eins og lyfjaiðnaðar, fisk­eld­is og ekki síst skap­andi greina.

Sem fyrsta markverða skrefið til að draga úr tor­tryggni og auka traust mætti benda nýrri rík­i­s­tjórn á að hætta strax við öll ESB-áform. Ólíkt því sem birt­ist í aðgerðaplani nýrr­ar rík­is­stjórn­ar væri rétt­ara að leggja mesta áherslu á sam­starf við okk­ar helstu vinaþjóðir, á Norður­lönd­um, í stað þess að setja Evr­ópu­sam­bandið þar fremst. Norður­landa­rík­in eru öll í NATO og ásókn stórþjóða í áhrif á norður­slóðum vex. Mik­il­vægi ná­ins sam­starfs Norður­landa­ríkj­anna hef­ur aldrei verið meira. Sam­vinna okk­ar við önn­ur nor­ræn ríki hef­ur hjálpað til við að skapa fé­lags­legt rétt­læti og aukið lífs­gæði og sam­keppn­is­hæfni á alþjóðavísu. Græn­land, Fær­eyj­ar og Álands­eyj­ar eru á sama veg nauðsyn­leg­ir sam­starfsaðilar.

Fjár­mál stjórn­mála­flokka og gegn­sæi

Til að auka traust á lýðræðinu og stjórn­kerf­inu væri einnig gott næsta skref að yf­ir­fara fjár­mál stjórn­mála­flokka. Rann­saka hverj­ir eiga rétt á slík­um greiðslum og krefjast end­ur­greiðslu frá þeim sem upp­fylla ekki skil­yrði til að fá greiðslur frá fólk­inu í þessu landi til að standa straum af rekstri og kosn­inga­bar­áttu síns flokks. Auka gegn­sæi. Þannig væri hægt að byggja upp traust og sam­heldni og eyða tor­tryggni og sundr­ung.

Sigurður Ingi Jóhannsson, þingmaður og formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 28. janúar 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Ábyrg ríkisfjármál lykill að framþróun

Deila grein

23/01/2025

Ábyrg ríkisfjármál lykill að framþróun

Við lif­um á einkar áhuga­verðum tím­um í alþjóðamál­um. Valda­skipti í Bretlandi og Banda­ríkj­un­um, yf­ir­vof­andi kosn­ing­ar í Þýskalandi, þrengri efna­hags­staða Evr­ópu­sam­bands­ins, áfram­hald­andi stríðsátök í Úkraínu og stór­merki­leg­ar vend­ing­ar í Mið-Aust­ur­lönd­um skapa flókið og sí­breyti­legt lands­lag í alþjóðamál­un­um. Þjóðríki og ríkja­sam­tök und­ir­búa sig fyr­ir harðnandi sam­keppni í alþjóðaviðskipt­um, þar sem tolla- og viðskipta­hindr­an­ir kunna að setja svip sinn á þró­un­ina. Á sama tíma eiga mörg ríki enn í vök að verj­ast eft­ir áföll­in sem covid-19-heims­far­ald­ur­inn olli í efna­hags­lífi þeirra, og hef­ur það haft af­ger­andi áhrif á rík­is­fjár­mál víða um heim.

Ísland kom hins veg­ar vel út úr þess­um áskor­un­um og hef­ur sýnt mikla seiglu í efna­hags­stjórn sinni. Lær­dóm­ur­inn af hag­stjórn lýðveld­is­ár­anna hef­ur sannað sig enn á ný: nauðsyn­legt er að rík­is­sjóður sé ávallt vel und­ir­bú­inn til að mæta efna­hags­leg­um áföll­um, bæði innri og ytri. Þannig nema nú nettóskuld­ir rík­is­ins um 30% af vergri lands­fram­leiðslu (VLF), sem er afar hag­stæð staða í sam­an­b­urði við önn­ur ríki. Til sam­an­b­urðar nema skuld­ir ríkja á evru­svæðinu um 90% af VLF og í Bretlandi um 100%, þar sem leit­in að sjálf­bær­um hag­vexti er áfram helsta áskor­un­in.

Eitt af brýn­ustu verk­efn­um op­in­berra fjár­mála hér á landi er að halda áfram á þeirri braut sem síðasta rík­is­stjórn lagði, með það að mark­miði að draga úr fjár­magns­kostnaði rík­is­sjóðs. Tryggja þarf að láns­kjör rík­is­ins end­ur­spegli hina sterku stöðu lands­ins á alþjóðavísu. Þessi ár­ang­ur hef­ur þegar skilað sér í hækk­un láns­hæf­is­mats ís­lenska rík­is­ins á síðasta ári, sem er vitn­is­b­urður um sterka und­ir­liggj­andi stöðu hag­kerf­is­ins.

Á hinn bóg­inn standa mörg lönd frammi fyr­ir mikl­um áskor­un­um. Í Bretlandi er hag­vöxt­ur hæg­ur á sama tíma og skuld­ir aukast. Alþjóðleg­ir fjár­fest­ar, eins og Ray Dalio, stofn­andi fjár­fest­inga­sjóðsins Bridgewater, hafa lýst yfir áhyggj­um af stöðu breskra rík­is­fjár­mála og bent á að landið gæti lent í nei­kvæðum skulda­spíral. Slík þróun gæti þýtt sí­vax­andi láns­fjárþörf til að standa straum af vöxt­um. Dalio bend­ir á hækk­andi ávöxt­un á 30 ára rík­is­skulda­bréf­um og veikt pund sem merki um aukna erfiðleika í rík­is­fjár­mál­um Bret­lands. Við þetta bæt­ist að fjár­laga­hall­inn þar nem­ur rúm­um 4% af lands­fram­leiðslu, sem dreg­ur úr fjár­hags­legu svig­rúmi stjórn­valda.

Á þess­um tíma­mót­um skipt­ir höfuðmáli að ís­lensk stjórn­völd taki skyn­sam­leg­ar og fram­sýn­ar ákv­arðanir í rík­is­fjár­mál­um. Mik­il­vægt er að viðhalda þeim góða ár­angri sem þegar hef­ur náðst og stuðla að áfram­hald­andi stöðug­leika. Forðast þarf all­ar ákv­arðanir sem gætu ógnað lækk­un­ar­ferli vaxta Seðlabank­ans eða skapað nei­kvæðan þrýst­ing á at­vinnu­lífið.

Lyk­ill­inn að far­sælli framtíð er að lækka fjár­magns­kostnað rík­is­sjóðs, skapa aukið svig­rúm til upp­bygg­ing­ar og tryggja að fyr­ir­tæki og ein­stak­ling­ar hafi góðar aðstæður til að skapa verðmæti og stuðla að hag­vexti.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 23. janúar 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Tryggjum öryggi Reykjavíkurflugvallar

Deila grein

22/01/2025

Tryggjum öryggi Reykjavíkurflugvallar

Okkur berst til eyrna að loka eigi annarri af tveimur eftirstandandi flugbrautum Reykjavíkurflugvallar. Veruleg skerðing, með öðrum orðum, á bæði flugöryggi og nýtingarmöguleikum flugvallarins. Á sama tíma heyrum við að vel gæti þurft að loka hinni brautinni – í lengri eða skemmri tíma – meðan unnið er að uppbyggingu nýrrar brúar yfir Fossvoginn. Af hverju er það svo, að við þurfum trekk í trekk að minna á þá staðreynd að flugsamgöngur til og frá höfuðborgarinnar eru hryggjarstykkið í byggðaþróun og byggðastefnu landsins?

Sitjum ekki hljóð hjá

Við á landsbyggðunum getum ekki setið hljóð hjá. Það er gríðarlegt hagsmunamál fyrir okkur að tryggja rekstur og öryggi flugvallarins á meðan í gildi er samkomulag um að hann verði áfram í Vatnsmýrinni, enda enginn annar augljós kostur í sjónmáli. Innanlandsflugið er mikilvægur þáttur í uppbyggingu atvinnulífs á landsbyggðunum, bætir almenn lífsgæði og er nauðsynlegt öryggi okkar og heilsu. Þess vegna verðum við að þrýsta á alla hlutaðeigendi aðila að leysa þennan hnút strax. Nóg hefur verið saumað að flugvellinum í gegnum tíðina.

Áskorun til allra hlutaðeigenda

Bæjarfulltrúar Framsóknar hafa óskað eftir umræðu um stöðu Reykjavíkurflugvelli á bæjarstjórnarfundi og hyggjast leggja þar fram eftirfarandi bókun til samþykktar:

Bæjarstjórn Akureyrar skorar á bæði Reykjavíkurborg og Samgöngustofu, sem og ráðuneyti samgangna, að tryggja öryggi og rekstur Reykjavíkurflugvallar. Sú óvissa sem er uppi vegna fyrirhugaðrar lokunar á annarri tveggja flugbrauta er ólíðandi. Því ættu málsaðilar ekki að bíða boðanna heldur leiða öll ágreiningsefni skjótt til lykta, svo sem eðli málsins og alvarleiki býður.

Gunnar Már Gunnarsson og Sunna Hlín Jóhannesdóttir bæjarfulltrúar Framsóknar á Akureyri.

Greinin birtist fyrst á vikubladid.is 21. janúar 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Þjóðaratkvæðagreiðsla um viðræður við Evrópusambandið – Af hverju og hvers vegna núna?

Deila grein

09/01/2025

Þjóðaratkvæðagreiðsla um viðræður við Evrópusambandið – Af hverju og hvers vegna núna?

Und­an­farið hef­ur umræða um þjóðar­at­kvæðagreiðslu um fram­hald viðræðna við Evr­ópu­sam­bandið (ESB) vakið at­hygli og verið áhuga­vert að lesa hinar ólíku hliðar og sjón­ar­mið í þess­ari umræðu. Mik­il­vægt er þó að skýra að slík at­kvæðagreiðsla snýst ekki um fram­hald eldri viðræðna held­ur um upp­haf nýrra viðræðna – og þar ligg­ur veru­leg­ur mun­ur.

Upp­lýst þjóð er lyk­il­atriði

Til að slík þjóðar­at­kvæðagreiðsla sé mark­tæk er lyk­il­atriði að þjóðin fái góðar og grein­argóðar upp­lýs­ing­ar um hvað felst í slík­um viðræðum. Hverj­ir eru kost­irn­ir og gall­arn­ir? Hvað get­ur Ísland fengið frá ESB sem ekki er þegar til staðar í gegn­um EES-samn­ing­inn?

Ef þjóðin kysi að hefja viðræður við ESB væri ekki um ein­falt fram­hald eldri viðræðna að ræða. Evr­ópu­sam­bandið hef­ur breyst um­tals­vert á síðustu árum og sá samn­inga­grunn­ur sem var lagður fram áður er úr sög­unni. Nýj­ar viðræður þýða að við fær­umst inn í ferli sem get­ur verið tíma­frekt og kostnaðarsamt. Þetta er ekki ein­ung­is spurn­ing um viðræður held­ur einnig um aðlög­un að regl­um sam­bands­ins og breyt­ing­ar á ótal sviðum, auk þess sem viðræðuferlið get­ur tekið mörg ár. Í því ljósi ætti þjóðin að gera sér grein fyr­ir því hvað þær viðræður fela í sér. Er það tím­ans og kostnaðar­ins virði að hefja aft­ur viðræður á byrj­un­ar­reit þegar grund­vall­ar­spurn­ing­um, sem sigldu viðræðunum í strand síðast, hef­ur ekki enn verið svarað með full­nægj­andi hætti?

Krón­an eða evr­an

Ef­laust trúa því ein­hverj­ir að inn­ganga í ESB leysi öll okk­ar vanda­mál og er þá litið á evr­una sem galdra­tæki sem bjargað geti öll­um vand­ræðum okk­ar í eitt skipti fyr­ir öll. Evr­ópu­sam­bandið er annað, stærra og meira en bara upp­taka á evru, auk þess sem inn­ganga í sam­bandið er ekki lausn und­an verðbólgu, sem þó fer hratt lækk­andi hér á landi.

En þetta er mik­il­vægt atriði í umræðunni sem gott er að liggi fyr­ir. Því til þess að hægt sé að taka upp evru hér á landi þarf Ísland að upp­fylla Ma­astricht-skil­yrðin, sem fela í sér meðal ann­ars fjár­hags­leg­an stöðug­leika, lágt skulda­hlut­fall og stöðuga vexti. Vissu­lega ástand sem er ákjós­an­legt en þetta er langt ferli sem myndi krefjast ótal efna­hags­legra um­bóta og ekki víst að slík­ar um­bæt­ur ná­ist. En ef þær nást vakn­ar spurn­ing­in hvort þetta er skref sem við þurf­um að stíga.

Hags­mun­um Íslands bet­ur komið utan ESB

Við í Fram­sókn erum þeirr­ar skoðunar að hags­mun­um Íslands sé bet­ur borgið utan Evr­ópu­sam­bands­ins, en inn­an EES. Ísland, Nor­eg­ur og Sviss, sem öll standa utan Evr­ópu­sam­bands­ins, eru á meðal þeirra landa sem telj­ast hafa hvað best lífs­kjör í ver­öld­inni. EES-samn­ing­ur­inn veit­ir Íslandi aðgang að einu stærsta viðskipta­svæði heims án þess að þurfa að hlíta ströng­um regl­um og stefn­um ESB.

Við höf­um öll tæki­færi til þess að ná tök­um á ástand­inu og eru þegar far­in að sjást sterk merki um það núna þegar verðbólga er á hraðri niður­leið. Við í Fram­sókn höf­um trú á Íslandi og tæki­fær­um lands­ins. Við búum við kröft­ug­an hag­vöxt, erum með sterka innviði, lítið at­vinnu­leysi og út­flutn­ings­grein­ar sem vegn­ar vel. Slíkt hið sama er ekki hægt að segja um öll lönd inn­an ESB. Ísland hef­ur staðið vel í alþjóðleg­um sam­an­b­urði hvað varðar lífs­kjör, heil­brigðis­kerfið, mennt­un og þannig mætti áfram telja þótt vissu­lega gefi á eins og hjá öðrum þjóðum þegar stríð brest­ur á í kjöl­far heims­far­ald­urs, sama hvaða gjald­miðil er um að ræða. Þá skal hafa í huga stærð og sér­stöðu lands og þjóðar þegar kem­ur að sam­an­b­urði og sam­keppn­is­hæfni við önn­ur stærri og fjöl­menn­ari lönd. Myndi inn­ganga í ESB þjóna hags­mun­um þjóðar­inn­ar í heild sinni eða aðeins hluta? Það ber að var­ast að trúa á ein­hverj­ar kostnaðarsam­ar, óljós­ar og órök­studd­ar töfra­lausn­ir. Það er í mörg horn að líta varðandi viðræður við ESB og því mik­il­vægt að gleyma sér ekki í að horfa ein­göngu á það sem hent­ar hverju sinni. Auðlind­ir okk­ar eru grund­völl­ur hag­vaxt­ar og eiga ekki að vera notaðar sem skipti­mynt í samn­ingaviðræðum við ESB. Við eig­um að horfa til lengri tíma með hags­muni lands og þjóðar í fyr­ir­rúmi og með skýr mark­mið að leiðarljósi.

Þannig tryggj­um við far­sæla framtíð ís­lenskr­ar þjóðar.

Ingibjörg Isaksen, þingmaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 9. janúar 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Var eitthvert plan eftir allt saman?

Deila grein

09/01/2025

Var eitthvert plan eftir allt saman?

Það hef­ur verið ein­kenni­legt að fylgj­ast með rík­is­stjórn Sam­fylk­ing­ar, Viðreisn­ar og Flokks fólks­ins eft­ir að stefnu­yf­ir­lýs­ing flokk­anna var kynnt. Yf­ir­lýs­ing­in er rýr í roðinu og eft­ir því sem fleiri viðtöl birt­ast við full­trúa þess­ara flokka því meira hugsi verður maður. Þau eru fá og fá­tæk­leg svör­in þegar spurt er út í hvert planið sé hjá rík­is­stjórn­inni í rík­is­fjár­mál­um, gjald­töku á at­vinnu­lífið, sjáv­ar­út­vegi og fleiri mál­um. Eng­ar út­færsl­ur eða leiðir; ekk­ert. Það er ein­kenni­legt í því ljósi að þess­ir flokk­ar hafa setið á Alþingi und­an­far­in kjör­tíma­bil í stjórn­ar­and­stöðu og töluðu mikið, með óljós­um hætti þó, um breyt­ing­ar fyr­ir síðustu kosn­ing­ar. Maður skyldi ætla að það væru fleiri svör á reiðum hönd­um en raun ber vitni nú þegar flokk­arn­ir þrír fá hin langþráðu lykla­völd að Stjórn­ar­ráðinu.

Það vakti til dæm­is furðu margra þegar ný rík­is­stjórn fór strax að út­hýsa hlut­verki sínu við stjórn rík­is­fjár­mála og varpa ábyrgð á henni yfir á al­menn­ing í land­inu með því að óska eft­ir sparnaðarráðum. Það er sér­stak­lega ein­kenni­legt í ljósi dig­ur­barka­legra en óljósra út­gjaldalof­orða, tekju­öfl­un­ar­áforma sem og sparnaðaraðgerða í rík­is­fjár­mál­um sem dundu á lands­mönn­um í kosn­inga­bar­átt­unni. Má þar nefna yf­ir­lýs­ing­ar um sparnað upp á 28 millj­arða í op­in­ber­um inn­kaup­um, hinar frægu skatta- og skerðing­ar­lausu 450.000 krón­ur, skatta- og gjalda­hækk­an­ir og fleira. Auðvitað á það ekki að vera al­menn­ings að skera rík­is­stjórn­ina niður úr þeirri lof­orðasnöru sem hún setti sig sjálf í. Rík­is­stjórn­in verður ein­fald­lega að taka ábyrgð á sjálfri sér í stað þess að gef­ast strax upp á verk­efn­inu. Því fylg­ir nefni­lega ábyrgð að stjórna landi og til þess voru þess­ir flokk­ar kosn­ir. Það voru því von­brigði að sjá hversu mátt­laus hin stutta stefnu­yf­ir­lýs­ing rík­i­s­tjórn­ar­inn­ar var, sem fær mann til þess að hugsa hvort það hafi verið eitt­hvert raun­veru­legt plan eft­ir allt sam­an.

Hið rétta er að ný rík­is­stjórn tek­ur við mjög góðu búi á marga mæli­kv­arða. Verðbólga hef­ur meira en helm­ing­ast, vext­ir hafa lækkað um 75 punkta síðan í októ­ber síðastliðnum, at­vinnuþátt­taka hef­ur verið mik­il, stutt var við lang­tíma­kjara­samn­inga á vinnu­markaði, skuld­astaða rík­is­sjóðs er góð í alþjóðleg­um sam­an­b­urði þrátt fyr­ir heims­far­ald­ur, stríðsátök í Evr­ópu og verðbólg­una tengda þeim, og jarðhrær­ing­arn­ar í Grinda­vík og svo má lengi telja. Þá hef­ur verið fjár­fest af krafti í innviðum um allt land á und­an­förn­um árum og fjöl­mörg­um verk­efn­um komið til leiðar og mörg verk­efni langt kom­in sem ný rík­is­stjórn mun njóta góðs af hvort sem litið er til heil­brigðismála, mennta- og barna­mála, íþrótta­mála, sam­göngu­mála, út­lend­inga­mála, menn­ing­ar­mála eða ann­ars.

Ný rík­is­stjórn verður fyrst og fremst að passa að taka ekki rang­ar ákv­arðanir og breyta um kúrs í of mörg­um mál­um, enda væri ekki gott að hinar marg­um­töluðu breyt­ing­ar stjórn­ar­flokk­anna yrðu til hins verra. Að því sögðu vil ég óska nýrri rík­is­stjórn velfarnaðar í störf­um sín­um og mun leggja mín lóð á vog­ar­skál­arn­ar við að halda henni við efnið á kom­andi miss­er­um.

Stefán Vagn Stefánsson, þingmaður Fram­sókn­ar­flokks­ins.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 9. janúar 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Grunnur hefur verið lagður fyrir góða framtíð

Deila grein

02/01/2025

Grunnur hefur verið lagður fyrir góða framtíð

Úr útsæ rísa Íslands fjöll
með eld í hjarta þakin mjöll
og brim við björg og sand.
Þó mái tím­inn margra spor
þá man og elsk­ar kyn­slóð vor
sitt fagra föður­land.

Á þess­um kröft­ugu lín­um hefst ljóð Davíðs Stef­áns­son­ar sem flest­ir ef ekki all­ir karla­kór­ar lands­ins hafa ein­hvern tím­ann haft á efn­is­skrám sín­um und­ir lagi Páls Ísólfs­son­ar. Við búum við það, Íslend­ing­ar, að nátt­úr­an er lif­andi og oft á tíðum grimm. Hún er á sama tíma ástæðan fyr­ir vel­sæld okk­ar, ástæðan fyr­ir því gríðarlega stökki sem ís­lenskt sam­fé­lag tók á síðustu öld inn í nú­tím­ann. Þær kyn­slóðir sem fædd­ar voru um og eft­ir alda­mót­in 1900 voru fram­sýn­ar, þær voru dug­leg­ar og við eig­um þeim mikið að þakka. Og við höf­um lært mikið af þeim, ekki síst það að það er eitt að vera fram­sýnn og annað að hafa kraft og þor til að fram­kvæma þær hug­mynd­ir sem kvikna.

Ákalli um breyt­ing­ar var svarað

Ára­mót eru mik­il­væg tíma­mót því þau kalla á að við tök­um okk­ur tíma og pláss til að horfa yfir sviðið, gera upp fortíðina og leggja drög og drauma að framtíðinni. Árið 2024 var mikið um­brota­ár í ís­lensku sam­fé­lagi. Þjóðin kaus sér for­seta í byrj­un sum­ars og síðan brast á með þing­kosn­ing­um í lok nóv­em­ber eft­ir að Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn sleit sam­starf­inu við okk­ur í Fram­sókn og Vinstri­hreyf­ing­una – grænt fram­boð. Niðurstaða kosn­ing­anna var af­ger­andi: Rík­is­stjórn­ar­flokk­un­um var hafnað og þeir flokk­ar sem boðuðu breyt­ing­ar unnu sig­ur og hafa nú náð sam­an um rík­is­stjórn. Ég óska þeirri rík­is­stjórn velfarnaðar í störf­um sín­um og heiti því að Fram­sókn mun stunda öfl­uga og mál­efna­lega stjórn­ar­and­stöðu.

Öflug stjórn við erfiðar aðstæður

Ákallið um breyt­ing­ar var sterkt í kosn­inga­bar­átt­unni. Trú­in á þeirri rík­is­stjórn sem hafði starfað frá haust­inu 2017 hafði dofnað veru­lega enda má segja að síðasta árið hafi þjóðin búið við stjórn­ar­kreppu. Þótt sam­starfið hafi súrnað ansi hratt á síðara kjör­tíma­bili rík­is­stjórn­ar­inn­ar tók­um við í Fram­sókn þá af­stöðu að mik­il­væg­ara væri að ganga hnar­reist til verks og láta ekki sund­ur­lyndi hafa eyðandi áhrif á þau brýnu verk­efni sem flokk­arn­ir þrír höfðu komið sér sam­an um í stjórn­arsátt­mála að hrinda í fram­kvæmd. Við ákváðum, eðli­lega, að láta þjóðar­hag hafa for­gang um­fram hags­muni flokks­ins.

Breyt­ing­arn­ar á þingi eru veru­leg­ar en mik­il nýliðun varð í kosn­ing­un­um. Það var mik­il reynsla sem bjó í síðustu rík­is­stjórn þar sem for­menn stjórn­ar­flokk­anna höfðu all­ir á ein­hverj­um tíma setið í stóli for­sæt­is­ráðherra. Sú reynsla kom sér vel í þeim stór­kost­legu áskor­un­um sem rík­is­stjórn­in stóð frammi fyr­ir á þeim sjö árum sem hún var við völd. Flug­fé­lagið Wow air féll með lát­um á fyrra kjör­tíma­bil­inu. Heims­far­ar­ald­ur geisaði með lam­andi áhrif­um á sam­fé­lag og at­vinnu­líf. Rúss­ar réðust inn í Úkraínu. Og rýma þurfti eitt öfl­ug­asta bæj­ar­fé­lag lands­ins, Grinda­vík, vegna elds­um­brota. Svo eitt­hvað sé nefnt.

Síðustu ár hafa verið ár um­bóta

Ég er stolt­ur af þeim ár­angri sem Fram­sókn náði í störf­um sín­um í rík­is­stjórn frá ár­inu 2017 þegar þetta óvenju­lega stjórn­ar­mynst­ur varð til. Fram­lög til sam­göngu­mála voru stór­auk­in, tíma­móta­sam­komu­lag um upp­bygg­ingu í sam­göng­um á höfuðborg­ar­svæðinu náðist með sam­göngusátt­mál­an­um og und­ir­bún­ings­vinnu á Sunda­braut gekk vel, rann­sókn­ar­vinnu er nán­ast lokið og get­ur útboðsfer­ill farið í gang þegar leiðar­val ligg­ur fyr­ir og breyt­ing á aðal­skipu­lagi hef­ur verið aug­lýst. Þá er Reykja­nes­braut­in að verða tvö­föld allt að Fitj­um í Reykja­nes­bæ, sam­vinnu­verk­efnið um Ölfusár­brú er komið af stað, með verk­efn­inu Ísland ljóstengt, sem ég er einna stolt­ast­ur af á mín­um ferli, hef­ur verið komið á ljós­leiðara­teng­ingu í öll­um sveit­um lands­ins, af­slátt­ur fyr­ir íbúa lands­byggðar­inn­ar með Loft­brú hef­ur fest sig í sessi og byggðamál­in eru orðin mik­il­væg­ur þátt­ur í starfi Stjórn­ar­ráðsins, nokkuð sem ég hef alltaf lagt mikla áherslu á. Und­ir for­ystu Fram­sókn­ar í hús­næðismál­um hef­ur tek­ist að byggja upp nor­rænt hús­næðis­kerfi sem trygg­ir þúsund­um fjöl­skyldna ör­uggt þak yfir höfuðið. Nú rík­ir mun betra jafn­vægi á hús­næðismarkaði en áður og auk þess lagði ríkið til í haust land und­ir bygg­ingu 800 íbúða í Reykja­nes­bæ. Stór­sókn í heil­brigðismál­um hef­ur átt sér stað síðustu árin und­ir stjórn Will­ums Þórs sem hef­ur ekki síst komið fram í jöfn­un aðgeng­is að kerf­inu með samn­ing­um við all­ar heil­brigðis­stétt­ir sem ósamið hafði verið við um ár­araðir, auknu fjár­magni til mála­flokks­ins og bætt­um rekstr­ar­skil­yrðum Land­spít­al­ans. Mark­viss vinna Lilju Dagg­ar í menn­ing­ar- og viðskiptaráðuneyt­inu í mál­efn­um ferðaþjón­ust­unn­ar, auk­inn stuðning­ur við menn­ingu og list­ir og 35% end­ur­greiðslan hef­ur styrkt stoðir kvik­mynda­gerðar á Íslandi. Ásmund­ur Ein­ar setti mál­efni barna á dag­skrá, ekki síst með far­sæld­ar­lög­un­um sem hafa þegar bætt aðstöðu þeirra barna sem veik­ust eru fyr­ir í ís­lensku sam­fé­lagi og ekki má held­ur gleyma stuðningi hans við íþrótt­irn­ar með nýrri Þjóðar­höll og aukn­um stuðningi við yngri landslið okk­ar. Allt þetta og meira til er á af­reka­skrá Fram­sókn­ar frá ár­inu 2017. Og á þessu geta rík­is­stjórn­ir framtíðar­inn­ar byggt til hags­bóta fyr­ir þjóðina.

Fleiri stoðir þýða aukið jafn­vægi

Staða Íslands er góð, hag­kerfið er því næst í jafn­vægi með hátt at­vinnu­stig, lítið at­vinnu­leysi og framtíðin er björt ef rétt er haldið á spöðunum. Fyrri rík­is­stjórn náði stjórn á verðbólg­unni sem fór á flug eft­ir heims­far­ald­ur og stríð í Úkraínu. Við sjá­um fram á mjúka lend­ingu hag­kerf­is­ins, sjá­um fram á lækk­andi verðbólgu og lægri vexti. Aðhald í rík­is­fjár­mál­um er mik­il­væg­ur þátt­ur í þeim ár­angri sem fyrri rík­is­stjórn náði í bar­átt­unni við verðbólg­una. Það sem var þó ekki síður mik­il­vægt var að með aðkomu hins op­in­bera náðust kjara­samn­ing­ar til fjög­urra ára á al­menn­um markaði.

Gat­an er því nokkuð greið fyr­ir all­hraðar vaxta­lækk­an­ir á nýju ári.

Já, framtíðin er björt. Þeirri rík­is­stjórn sem af­henti val­kyrj­un­um lykl­ana að Stjórn­ar­ráðinu fyr­ir jól tókst að skapa þær aðstæður að nú eru fimm stoðir und­ir efna­hag lands­ins. Hin nýja stoð hug­vits og skap­andi greina er ört vax­andi og veit­ir ekki aðeins aukn­ar tekj­ur inn í þjóðarbúið held­ur skap­ar ný og spenn­andi störf fyr­ir ungt fólk. Fleiri stoðir þýða aukið jafn­vægi, nokkuð sem stefnt hef­ur verið að í lang­an tíma og er nú að nást.

Óvissu­tím­ar

Við lif­um á tím­um þar sem mik­il óvissa rík­ir á alþjóðasviðinu. Það geis­ar styrj­öld í Evr­ópu. Fjölda fólks er fórnað á víg­vell­in­um í Úkraínu. Það er nöt­ur­legt að horfa upp á Rússa, sögu­legt stór­veldi sem nú stend­ur á brauðfót­um og er stýrt af manni sem virðist svíf­ast einskis til að halda stöðu sinni. Hryll­ing­ur­inn á Gasa held­ur áfram. Sýr­land hef­ur losað sig við hinn hræðilega Assad en ástandið er viðkvæmt. Í janú­ar sest á ný í stól for­seta Banda­ríkj­anna maður sem virðist horfa öðrum aug­um á hlut­verk Banda­ríkj­anna í sam­fé­lagi þjóðanna en flest­ir sem í þeim stól hafa setið. Ef sumt af því sem hann hef­ur sagst hafa áform um nær fram að ganga get­ur það haft mik­il áhrif á viðskipti í heim­in­um og þar með á lífs­kjör okk­ar hér á landi. Sam­band okk­ar við Banda­rík­in hef­ur alltaf verið gott og mik­il­vægt er að hlúa að því sama hver sit­ur þar í for­sæti.

Kæri les­andi.

Eitt er það sem mik­il­væg­ast er fyr­ir ís­lenskt sam­fé­lag og það er að öðlast ró og ham­ingju. Árið 2024 ein­kennd­ist af óróa og of­beldi, nokkuð sem við get­um ekki þolað. Við þurf­um að hlúa vel að fjöl­skyld­um, þurf­um að hlúa vel að börn­un­um okk­ar, fyrstu kyn­slóðinni sem elst upp við ótrú­leg­ar breyt­ing­ar sem tækn­in hef­ur gert á sam­skipt­um okk­ar og sam­fé­lagi. Besta leiðin til þess er að hver og einn horfi inn á við, veiti fólk­inu sínu at­hygli og hlýju, leggi á sig það sem þarf til að skapa sterk tengsl við sína nán­ustu. Það kem­ur ekk­ert í staðinn fyr­ir það að eiga góða og sterka fjöl­skyldu sem hægt er að treysta á í lífs­ins ólgu­sjó.

Ég óska þér, les­andi góður, gleðilegs nýs árs. Megi Guð og gæf­an fylgja þér árið 2025.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 31. desember 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Köld eru kvenna­ráð – eða hvað?

Deila grein

09/12/2024

Köld eru kvenna­ráð – eða hvað?

Orðatiltækið „Köld eru kvenna ráð“ kemur úr Njálu og þar er átt er við að ráðleggingum kvenna sé ekki alltaf treystandi. Þessi fornu orð hafa lengi fylgt umræðum um ráðvendni og hlutverk kvenna en nútímarannsóknir sýna að þátttaka þeirra í ákvörðunum styrkir oft útkomur með breiðari sýn, aukinni samvinnu og sjálfbærri nálgun.

Nú, þegar þrjár sterkar konur freista þess að semja um stjórn landsins, er því áhugavert að velta fyrir sér hvort samstarfið geti markað þáttaskil í stjórnmálum Íslands. Gæti það skilað sér í nýrri tegund af kraftmikilli samvinnu á Alþingi? Munu leiðtogarnir jafnvel horfa til mála í stjórnarsáttmála sem voru ekki efst á baugi í kosningabaráttu þeirra en eru ákaflega brýn fyrir samfélagið á næstu árum?

Það er erfitt að spá fyrir um á þessari stundu. En með óbilandi trú á öflugri samvinnu má setja fram óskalista um málefni fyrir nýja ríkisstjórn að umvefja og gera að sínum – fyrir land og þjóð:

1Orkuöryggi almennings: Ef orkuöryggi almennings er ekki betur tryggt þá mun raforku verð til heimila, hárgreiðslustofa, matvöruverslana og garðyrkjubænda halda áfram að hækka. Við verðum að muna að þessi viðkvæmi hópur er í allt annarri samningsstöðu en mjög stórir raforkunotendur sem njóta langtímasamninga. Raforkukerfið okkar var hannað þannig að almenningur nyti verndar en árið 2003 var hún tekin af þegar við byrjuðum að innleiða orkupakka Evrópusambandsins. Margar leiðir eru þó í boði til að bæta stöðuna innan þess kerfis og það þarf að gera. Þetta mál ætti að vera í forgangi hjá nýrri ríkisstjórn.

2) Takmörkum jarðakaup erlendra aðila : Þegar við seljum jarðir úr landi þá seljum við auðlindir vatns, jarðhita og jarðefna með þeim. Það virðist kannski saklaust þegar ein og ein jörð er seld, en þegar fram í sækir teiknast upp heildarmynd sem hefur áhrif á auðlindastýringu og langtímahagsmuni Íslands. Þegar hafa tugir jarða verið seldar. Vöknum og bregðumst við, og lærum af öðrum þjóðum.

3) Nýsköpun-, mennta- og atvinnuþróun : Lífsgæði geta aukis víða um land með áherslu á nýsköpun. Eflum nýsköpunarhraðla og stýrum fjármagni til þeirra með atvinnuþróun á landsbyggð í huga; frá Suðurnesjum og hringinn í kringum landið. Ísland á til dæmis stór tækifæri í orku- og matvælatengdri nýsköpun til sjávar og sveita og við eigum að setja enn meiri kraft í að sækja þau. Sköpum hvata til að ungt fólk með fjölbreytta menntun flytji heim og móti framtíðar Marel og Kerecis. Styrkjum menntun á ólíkum stöðum á landinu fyrir slíka sókn svo sem í gegnum Garðyrkjuskólann í Hveragerði og Keili á Suðurnesjum.

4) Sókn í landbúnaði : Landbúnaður á undir högg að sækja, á sama tíma og okkur fjölgar hratt. Spurningin er; ætlum við að fæða þjóðina innfluttri matvöru eða skapa skilyrði þannig að fjölbreytt matvælaframleiðsla geti blómstrað og vaxið með okkur? Gleymum ekki að öflugur landbúnaður er hluti fæðuöryggi og getur dregið úr losun gróðurhúsaloftegunda sem fylgir miklum vöruflutningum að utan. Einnig er fæðuframleiðsla hér lýðheilsumál því að í matvælaframleiðslu því lyfjanotkun er algengari erlendis og gæði vatns í framleiðslu ekki þau sömu. Jafnframt verðum við að átta okkur á að sókn í landbúnaði er líka einstaklega mikilvæg fyrir sjálfbærni ferðaþjónustu því að ferðamenn sækja ekki í tómar sveitir og innfluttan mat; heldur blómlega byggð og mat sem er ekta. Til að ná árangri á þessu sviði þarf meðal annars að huga að nýliðun og afkomu bænda, og lánakjörum til uppbyggingar.

5) Auðlindir og umhverfismál: Nýting auðlinda og virðing fyrir umhverfinu á að haldast í hendur. Tryggjum að uppbygging orkuinnviða á borð við flutningskerfi, sé í forgangi þar sem brýn þörf er á svo sem til Vestmannaeyja og Vestfjarða og tengjum landið okkar betur saman svo að nýtni raforkukerfisins aukist. Eflum fjölnýtingu jarðhita og skoðum tækifæri á jöldum svæðum. Sköpum hvata þannig að aukin raforkuframleiðsla rati í markmið stjórnvalda, hvort sem er fyrir atvinnuvegi eða orkuskipti, ekki síst utan höfuðborgarsvæðisins. Vöndum okkur í framkvæmd. Það er til dæmis ekki einstakri náttúru okkar í hag að teppaleggja landið með vindorkuverum en með skynsamri langtímahugsun er hægt að ná árangri í nýtingu án þess að slíta samfélög í sundur og náttúruna um leið. Útfærum lög þannig að ábati af raforkuframleiðslu rati til samfélagsins og skapi verðmæti í heimabyggð.

6) Framsækin ferðaþjónusta: Ferðaþjónusta er lífæð margra byggða og á mikið inni. Leggjum áherslu á gæði í ferðaþjónustu með sterkri framtíðarsýn. Breytumst ekki í „litlu Ameríku“ þar sem stór auglýsingaskilti og aðgangseyrir lita sífellt meira upplifum. Hægt væri til dæmis að skipta hóflegu gjaldi á hvern ferðamann niður á áfangastaði eftir rafrænni talningu heimsókna og koma þannig í veg fyrir bílastæðaposa við annan hvern hól. Höldum fast í frelsi þess að geta skoðað fallega landið okkar án slíkra takmarkanna.

7) Sterkir innviðir: Hinir mjúku innviðir samfélaga; læknar, hjúkrunarfræðingar, lögreglumenn og fjölbreyttir fagkennarar, allt frá stærðfræði yfir í tónlist, eru ekki síður mikilvægir og það að byggja brýr, göng og vegi. Aukum áherslu á að byggja upp mjúka og harða innviði á landsbyggðinni því þar verða verðmæti auðlinda til sem við treystum öll á. Sterk samfélög þjóna bæði heimamönnum og draga að hæfileikafólk sem efla atvinnu- og menningarlíf landsins enn frekar.

Til viðbótar við þennan lista má nefna mikilvæg málefni sem líklega eru þegar á dagskrá í viðræðunum – og eiga sannarlega heima þar:

7) Heima er best: Heimili eiga ekki að vera áhættufjárfesting. Setjum markið á langtíma óverðtryggð lán fyrir heimili og takmörkum samkeppni venjulegs fólks við fagfjárfestingar í fasteignum ætlaðar Airbnb. Setjum reglur þannig ekki sé braskað með lóðir því það hægir á framkvæmdum og hækkar fasteignaverð.

8) Grípum inn í fátækt: Fátækt skilur eftir sig opin sár meðal ungra og aldna sem gagnast engum í okkar ríka samfélagi. Hlustum á skýrt ákall eldri borgara og þeirra sem minna mega sín úr þessum kosningum. Finnum leiðir til að taka skýr skref sem oft tengjast dýrum húsnæðismarkaði.

9) Grunnskólinn sem griðastaður: Sterkt skólakerfi og fjárfesting í æskulýðsstarfi er besta forvörn sem völ er á og hér halda þarf áfram að sækja fram með metnaðarfullum hætti. Ljúkum við innleiðingu nýrra samræmdra prófa og verum leiðandi í framkvæmd símalausra skóla.

10) Tungumálið er hjarta menningar: Íslenskan er límið í menningu okkar. Eflum íslenskukennslu og komum á skýrum hvötum í atvinnulífi til að stuðla að lærdómi hennar svo allir eigi jafna möguleika. Hér getur fjárfesting í menningarstarfi og listum sem tengir saman Íslendinga og innflytjendur hjálpað. Fáum eldri borgara líka með í lið við talþjálfun innflytjenda með því að gefa þeim færi á að afla sér tekna án tekjuskerðingar. Þannig má draga úr einangrun og efla samveru á marga vegu.

Þessi málefnalisti, sem gæti verið mun lengri, á við sama hvaða ríkisstjórn er við völd. Hann er þó settur fram með þá trú að við séum mögulega í dauðafæri að sjá fyrstu kvenleiddu ríkisstjórn Íslands fæðast, sem geti komist í sögubækurnar með því að slá nýjan tón í samvinnu og málefnaáherslur þvert á flokkadrætti. Stjórn þar sem mýtan „köld eru kvennaráð“ víkur fyrir breiðari áherslu á samstarf í útfærslu og framkvæmd stjórnarsáttmála. Sáttmála sem styðja má við og veita skýrt aðhald á þingi, samfélaginu okkar og framtíð til heilla.

Halla Hrund Logadóttir, oddviti Framsóknar í Suðurkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á visir.is 8. desember 2024.