Categories
Fréttir

Jarðgöng á Tröllaskaga

Deila grein

31/01/2020

Jarðgöng á Tröllaskaga

Stefán Vagn Stefánsson, alþingismaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi, mælti fyrir tillögu til þingsályktunar um Tröllaskagagöng milli Skagafjarðar og Eyjafjarðar á Alþingi í gær.
Tillögugreinin hljóðar svo:

Alþingi ályktar að fela samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra að láta hefja vinnu við rannsóknir, frumhönnun og mat á hagkvæmni á gerð jarðganga á Tröllaskaga. Ráðherra skili Alþingi skýrslu með niðurstöðum fyrir árslok 2020.

Í greinargerð segir að Tröllaskagagöng hafi komið til umræðu við og við á liðnum árum. „Hefur þá einkum verið rætt um tvo valkosti, annars vegar göng frá Hofsdal yfir í Barkárdal og hins vegar tvenn jarðgöng sem færu fyrst úr Hörgárdal yfir í Skíðadal, sem er inn af Svarfaðardal, og þaðan vestur í Kolbeinsdal í Skagafirði.
Í riti Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra frá árinu 2017, Samantekt um samgöngumál, áherslur og forgangsröðun verkefna á Norðurlandi vestra, kemur fram að jarðgöng á Tröllaskaga eru meðal helstu áhersluverkefna samtakanna í samgöngumálum og leggja þau til að hafin verði rannsókn á hagkvæmni þess að grafa slík göng.
Í ritinu segir enn fremur: „Ekki er nokkur vafi á að þessi göng myndu styrkja landshlutann. Fjallvegurinn um Öxnadalsheiði getur verið verulegur farartálmi yfir vetrarmánuðina. Það þarf varla að tíunda þá kosti sem þessi göng hefðu í för með sér fyrir öruggara aðgengi íbúa Norðurlands vestra að sjúkrahúsinu á Akureyri. Auk þess að stytta leiðina yrði ekki um fjallveg að fara úr Skagafirði til Akureyrar. Rétt er að minna á í þessu samhengi að engin fæðingarþjónusta er á Norðurlandi vestra og þar með er samkeppnisstaða landshlutans sem ákjósanlegur búsetukostur fyrir ungt fólk verulega skert. Áhrif á ferðaþjónustu á Norðurlandi vestra þarf heldur varla að tíunda í þessu sambandi en með áætluðu millilandaflugi til Akureyrar skiptir það landshlutann verulegu máli að leiðin milli landshlutanna verði stytt og gerð greiðfærari. Stækkun vinnusóknarsvæða er landshlutanum einnig mikilvæg og möguleikar á sókn í ýmsa þjónustu myndu snarbreytast við tilkomu þessara ganga. Það er afar mikilvægt fyrir landshlutann að kostir þessarar leiðar verði skoðaðir, ekki eingöngu út frá hagkvæmni vegna styttingar vegar og minni þjónustuþarfar heldur líka hver hin samfélagslegu og efnahagslegu áhrif verða á samfélögin á Norðurlandi vestra en einnig á Eyjafjarðarsvæðinu.“
Í tengslum við aðalskipulag Sveitarfélagsins Skagafjarðar í upphafi þessarar aldar var ýmissa gagna aflað frá Lendisskipulagi ehf., m.a. um Tröllaskagagöng. Í gögnunum kemur fram að vegalengdir milli þéttbýlisstaða á Norðurlandi myndu styttast mikið með tilkomu ganganna. Þannig yrði vegalengdin frá Laugarbakka í vestri til Akureyrar 185 km ef farið er um Þverárfjall og göng milli Hjaltadals og Hörgárdals. Vegalengdin milli Hóla og Akureyrar yrði með tilkomu ganga kringum 60 km en er nú um 130 km. Vegur milli Sauðárkróks og Akureyrar myndi styttast úr um 119 km í um 90 og milli Blönduóss og Akureyrar úr 145 km í um 136 km og niður í 127 km með vegstyttingum á þeirri leið. Þannig lægju leiðir manna milli Reykjavíkur og Akureyrar um nær allar fjölmennustu byggðir á Norðurlandi vestra. Vegalengd milli Sauðárkróks og Húsavíkur yrði 167 km með tilkomu þessara ganga og Vaðlaheiðarganga. Verði þessi leið farin þarf ekki að fara yfir Öxnadalsheiði en vegurinn um hana liggur hæst í 540 m hæð. Einnig færðist aðalleiðin frá Vatnsskarði þar sem vegurinn fer í um 400 m hæð og yfir á Þverárfjall þar sem vegurinn fer hæst í 320 m. Tvenn styttri göng, úr Hörgárdal yfir í Skíðadal og úr Skíðadal yfir í Kolbeinsdal, koma einnig til greina en þau gætu gefið enn frekari möguleika á styttingu milli þéttbýliskjarna og byggðarlaga báðum megin Tröllaskagans með tilheyrandi stækkun vinnusóknar- og þjónustusvæða.
Í febrúar 2019 samþykktu bæjarstjórn Akureyrar og sveitarstjórn Skagafjarðar áskorun til stjórnvalda um að fjármagna grunnrannsóknir og samanburð á kostum á legu mögulegra jarðganga undir Tröllaskaga, auk rannsókna á samfélagslegum og efnahagslegum áhrifum slíkra ganga.
Áskorun sveitarfélaganna er svohljóðandi:

„Bæjarstjórn Akureyrar og sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar samþykktu á fundum sínum fyrr í þessari viku áskorun til stjórnvalda um að tryggja í nýrri samgönguáætlun fjármögnun grunnrannsókna og samanburðar á bestu kostum á legu mögulegra jarðganga undir Tröllaskaga, auk rannsókna á samfélags- og efnahagslegum áhrifum sem leiða af nýjum Tröllaskagagöngum.
Tröllaskagagöng munu ótvírætt hafa mikinn ávinning í för með sér í formi styttri vegalengda á milli allra stærstu þéttbýlisstaða á Norðurlandi, aukins öryggis vegfarenda þar sem til yrði ný leið sem sneiðir fram hjá hæstu fjallvegum, stækkunar vinnusóknarsvæða, styrkingar almennrar þjónustu og eflingar ferðaþjónustu, auk bættrar samkeppnisstöðu landshlutans. Slík jarðgöng myndu breyta svo miklu á svo stóru svæði að örðugt er að sjá áhrifin fyrir án ítarlegrar og faglegrar athugunar.
Bæjarstjórn Akureyrar og sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar leggja þunga áherslu á að nauðsynlegur undirbúningur og frumrannsóknir vegna nýrra Tröllaskagaganga hljóti fjármögnun innan nýrrar samgönguáætlunar.“

Eins og rakið hefur verið myndu göng undir Tröllaskaga fela í sér gríðarlega samgöngubót fyrir íbúa Norðurlands og aðra sem þar fara um. Öryggi vegfarenda yrði stórbætt auk þess sem slík framkvæmd myndi m.a. leiða af sér stækkun vinnusóknarsvæða og eflingu ferðaþjónustu á svæðinu.
Leggja flutningsmenn til að samgöngu– og sveitarstjórnarráðherra verði falið að láta hefja vinnu við rannsóknir, frumhönnun og mat á hagkvæmni á gerð jarðganga á Tröllaskaga. Í þeirri vinnu verði lagt mat á bestu leiðina sem og kostnað framkvæmdarinnar. Þá verði samfélagsleg og efnahagsleg áhrif slíkrar gangagerðar jafnframt könnuð. Lagt er til að ráðherra skili Alþingi skýrslu með niðurstöðum fyrir árslok 2020.“

Categories
Fréttir

„Loðnubrestur hefur mikil áhrif á þjóðarbúið í heild“

Deila grein

31/01/2020

„Loðnubrestur hefur mikil áhrif á þjóðarbúið í heild“

Nýting og vistfræðileg þýðing loðnustofnsins 2000-2019 var til umræðu á Alþingi í gær. Ásgerður K. Gylfadóttir, alþingismaður Framsóknar í Suðurkjördæmi, sagði að þó sveiflur í stærð loðnustofnsins séu þekktar, þá hafi það ekki gerst áður að tvær vertíðir í röð bregðist og veiði ekki heimiluð. Íslendingar hafa veitt loðnu við strendur landsins frá árinu 1963. „Hafrannsóknastofnun gefur út heimild til veiða og hefur byggt á því árlega að skilin séu eftir um 350.000–400.000 tonn af kynþroska loðnu á hverri vertíð en rannsóknir Hafrannsóknastofnunar fyrir síðustu loðnuvertíð gáfu til kynna að þau viðmið myndu ekki nást ef veiðar væru heimilaðar og því var ekki gefinn út neinn kvóti þá vertíðina,“ sagði Ásgerður.

„Eins og sjá má af gögnum skýrslunnar hefur göngumynstur loðnunnar breyst. Ástæða er til að ætla að breytt hitafar sjávar með hærri yfirborðshita og breyttum skilum kaldari strauma úr norðri og hlýsjávar úr suðri á svæðinu norðan og austan landsins hafi haft áhrif á göngu loðnu á því svæði. Er breytt göngumynstur loðnunnar að hluta til rakið til þessara breytinga á hita sjávar og strauma.“

„Ég vil taka undir það sem komið hefur fram í umræðunni að mikilvægt er að auka rannsóknir á þeim breytingum sem hafa orðið í hafinu og áhrifum þeirra á nytjastofna við landið. Ég vil spyrja ráðherra hvort beitt hafi verið fjarkönnun í haf- og loðnurannsóknum eða hvort það sé til skoðunar. Í skýrslunni kemur fram það álit Hafrannsóknastofnunar að í ljósi þess hve loðnan er skammlíf tegund og miklar sveiflur í stærð stofnsins sé ógjörningur að spá fram í tímann um þróun hans. Miðað við breytingarnar sem hafa verið síðustu ár er í mínum huga talsvert erfitt að vera bjartsýnn á styrkingu stofnsins. Í skýrslunni kemur fram það mat Hafrannsóknastofnunar að horfur fyrir næstu vertíð séu ekki góðar miðað við þær upplýsingar sem eru fyrirliggjandi. Mælingar á magni eins árs loðnu haustið 2018 gefa ekki miklar vonir en vísitalan sem mældist 10,8 milljarðar er með þeim lægstu sem sést hafa undanfarin ár. Ekki var óalgengt á tíunda áratug síðustu aldar að hún væri yfir 100 milljarðar eins og sýnt er á mynd í skýrslunni.

Auk þess sem loðna er með verðmætustu nytjategundum hér við landið er hún einnig mikilvæg fæðutegund annarra lífvera, svo sem fiska, hvala og fugla. Erfitt er þó að gera sér grein fyrir áhrifum þess á stærð stofnsins og hefur verið farið mjög vel yfir það í þessari umræðu.

Loðnubrestur hefur mikil áhrif á þjóðarbúið í heild en hvaða áhrif hefur hann á þau samfélög þar sem uppsjávarveiði er hvað mest? Stjórn Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga fékk RR ráðgjöf til þess að greina áhrif loðnubrestsins á sveitarfélögin. Sú greining kom út í júlí 2019 og byggir á gögnum sem samtökin öfluðu hjá sveitarfélögunum Fjarðabyggð, Langanesbyggð, Sveitarfélaginu Hornafirði, Vestmannaeyjabæ og Vopnafjarðarhreppi. Markmið þessarar greiningar var að meta bein áhrif loðnubrestsins á fjárhag og rekstur sveitarfélaganna. Þá er litið til tekjutaps vegna lægri launatekna íbúa og vegna minni umsvifa í hafnarstarfsemi. Í greiningu RR ráðgjafar kemur fram, með leyfi forseta:

„Bein áhrif loðnubrests á tekjur þeirra sveitarfélaga eru áætlaðar rúmar 500 millj. kr. á árinu 2019, eða bilinu 4,5–6,7% af skatttekjum og tekjum hafnarsjóða. Í sveitarfélögunum búa samtals tæplega 13.000 íbúar. Áætlað tekjutap er því um 40.000 kr. á hvern íbúa. Slíkt tekjutap hefur mikil áhrif á rekstur sveitarfélaganna og dregur úr möguleikum þeirra til að veita lögbundna þjónustu við íbúa sína. Áhrifin koma misjafnlega niður og harðast á þeim sveitarfélögum sem búa við einhæft atvinnulíf. Tækifæri þeirra sveitarfélaga til að afla annarra tekna til að vega á móti tapinu eru takmörkuð og fá tækifæri fyrir íbúa til að finna aðra atvinnu við hæfi.“

Það eru fordæmi fyrir því að fram komi mótvægisaðgerðir þegar aflabrestur verður með þessum hætti og ætti það ekki síst við í þeim sveitarfélögum sem byggja atvinnulíf sitt á uppsjávarveiðum og -vinnslu. Einnig er vert að benda á að samhliða þessum loðnubresti hefur verið mikil niðursveifla í sumargoti síldar vegna þeirrar sýkinga sem hún er að ganga í gegnum. Sá tekjubrestur sem sveitarfélögin, útgerðirnar, sjómennirnir og síðast en ekki síst landverkafólkið hefur mátt þola undanfarin misseri, bæði vegna loðnubrests og síldarsýkingar, er mjög mikill. Því hvet ég ráðherra til að skoða úrlausnir til að bæta þeim samfélögum sem hafa orðið fyrir þessum óvænta tekjumissi það upp á einhvern hátt og eru mörg dæmi þess að slíkt hafi verið gert í gegnum tíðina á Íslandi,“ sagði Ásgerður.

Categories
Fréttir

Þetta er samfélagslegt verkefni – vinnum þetta hratt og vel!

Deila grein

31/01/2020

Þetta er samfélagslegt verkefni – vinnum þetta hratt og vel!

Willum Þór Þórsson, alþingismaður Framsóknar í Suðvesturkjördæmi, sagði í sérstökum umræðum um örorku kvenna og álag við umönnun, á Alþingi í gær, að með heilsueflingu, endurhæfingu, uppbyggingu hjúkrunarrýma og öðrum snertiflötum heilbrigðismála megi finna leiðir til að draga úr því óhjákvæmilega og gríðarlega álagi í mörgum tilvikum sem umönnun fylgir á fólk. Að lausn þessa sé samfélagslegt verkefni og að stjórnvöld sé m.a. með framlagi til Landspítala fyrir sérstakt stuðningsteymi fyrir langveik börn með miklar stuðningsþarfir vegna sjaldgæfra sjúkdóma að bæta og styrkja þennan þátt.
„Ég hef lagt fram, virðulegi forseti, þingsályktunartillögu ásamt þingmönnum allra flokka um sértæka þjónustueiningu fyrir einstaklinga með sjaldgæfa sjúkdóma og ætla að vísa í tillögugreinina því að hún talar vel inn í það samhengi sem hv. málshefjandi setur málið í, með leyfi forseta:
„Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að skipa starfshóp sem geri tillögur að fyrirkomulagi sértækrar þjónustueiningar fyrir einstaklinga sem greinast með sjaldgæfa sjúkdóma. Þjónustueiningin verði til þess að tryggja að sjúklingar hafi einn viðkomustað í heilbrigðiskerfinu og til þess að ný þekking og nýjustu rannsóknir skili sér í bættri þjónustu sem byggist á nýjustu gagnreyndu þekkingu hverju sinni. Þá verði starfshópnum falið að leita leiða til þess að tryggja einfaldari og skjótari aðgengi að nauðsynlegum lyfjum vegna sjaldgæfra sjúkdóma.“
Hvatti Willum Þór til þess að vinna þetta mál hratt og vel því að við tölum einum rómi í þessu samfélagslega verkefni.

Categories
Fréttir Uncategorized

Dregið verði úr álagi á fjölskyldumeðlimi – hvort sem á maka eða börn

Deila grein

31/01/2020

Dregið verði úr álagi á fjölskyldumeðlimi – hvort sem á maka eða börn

Ásgerður K. Gylfadóttir, alþingismaður Framsóknar í Suðurkjördæmi, segir að öflug heimahjúkrun, félagsleg heimaþjónusta og dagdvalarrými séu úrræði sem komi til móts við einstaklinga sem vegna langvinnra veikinda eða öldrunar þurfi á stuðningi að halda. Það dragi og úr álagi á fjölskyldumeðlimi, hvort sem á maka eða börn viðkomandi. Þetta kom fram í sérstakri umræðu um örorku kvenna og álag við umönnun á Alþingi í gær.
„Bið eftir dvalarúrræði getur verið mjög erfið og tekið mjög á fjölskyldur og jafnvel fjarskylda ættingja einstaklinga sem eiga ekki neina aðra að,“ sagði Ásgerður.

„Aukið fjármagn þarf til heimahjúkrunar og kom fram í máli ráðherra að unnið væri að því. En mig langar að beina athyglinni að heimahjúkrun í byggðum úti á landi þar sem langt er að fara því að fjármagnið, eins og kerfið er byggt upp í dag, byggir svolítið á fjölda heimsókna frekar en því að langt sé að fara til eins einstaklings.“

„Það er verið að efla heimaþjónustu, dagdvalir, hjúkrunarrými og innleiða velferðartækni í heimaþjónustu. Þetta eru allt aðgerðir sem munu létta álagi af þeim umönnunaraðilum sem í dag eru að vinna þessi störf, en við skulum ekki gleyma forvörnunum.
Líkamleg virkni og styrktarþjálfun, ekki síst á efri árum, er forvörn sem ríkið ætti að koma með afgerandi hætti að með sveitarfélögunum. Það er fjárfesting sem mun draga úr þörf fyrir heilbrigðisþjónustu til langs tíma.
Það er líka forvörn fyrir okkur sem yngri erum að vera dugleg að hreyfa okkur og hugsa vel um okkur þannig að það komi seinna til þess að börnin okkar eða skyldmenni þurfi að fara að hugsa um okkur,“ sagði Ásgerður.

Categories
Fréttir

Stjórnvöld hlusti á raddir íbúa og sveitarstjórnar

Deila grein

30/01/2020

Stjórnvöld hlusti á raddir íbúa og sveitarstjórnar

Stefán Vagn Stefánsson, alþingismaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi, fór yfir stöðu tveggja flugvalla á Norðurlandi vestra, þ.e. flugvöllinn á Blönduósi og Alexandersflugvöll á Sauðárkróki, í störfum þingsins á Alþingi í gær.
„Í kjölfar þess gjörningaveðurs sem gekk yfir landið í upphafi desembermánaðar og þeirra óveðra sem komið hafa í framhaldinu hafa komið upp fjöldi tilfella og fjöldi daga þar sem Norðurland vestra hefur verið einangrað í vegsamgöngum við aðra landshluta sem og að vegir hafa verið lokaðir innan svæðis. Í nokkur skipti á þessu tímabili stóðu lokanir yfir í nokkra daga í senn.
Í ljósi þess að á undanförnum árum hefur sjúkrahúsþjónusta á Norðurlandi vestra og í raun víðar á landsbyggðinni verið færð að stórum hluta í stærri sjúkrahúsin á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri erum við sem á svæðinu búa orðin miklu háðari sjúkraflutningum en áður. Alvarlegri tilfelli eru í fæstum tilfellum meðhöndluð í héraði og sama á við um fæðingarþjónustu,“ sagði Stefán Vagn.
Stefán Vagn minnti á að flugvellirnir séu gríðarlegt öryggistæki fyrir íbúa á Norðurlandi vestra og sagði mikilvægt að þeir séu þjónustaðir og viðhaldið að á þá sé treystandi þegar neyðin er mest.

„Alexandersflugvöllur er með ein bestu lendingarskilyrði á landinu og lokast nánast aldrei sökum veðurs og að mínu mati og fjölda annarra ætti hann að gegna mun stærra hlutverki en hann gerir í dag. Flugvöllurinn á Blönduósi er þannig staðsettur að hann er mjög nálægt þjóðvegi 1 og hefur sannað sig sem mikilvægt öryggistæki fyrir íbúa og gesti svæðisins.“

„Hér er um mikið öryggis- og byggðamál að ræða fyrir íbúa Norðurlands vestra og mikilvægt fyrir stjórnvöld að hlusta á raddir íbúa og sveitarstjórnar í þessu mikilvæga máli,“ sagði Stefán Vagn.

Categories
Fréttir

„Forsenda framtíðarhagvaxtar“

Deila grein

29/01/2020

„Forsenda framtíðarhagvaxtar“

Willum Þór Þórsson, alþingismaður Framsóknar í Suðvesturkjördæmi, sagði í sérstakri umræðu um útgreiðslu á ónýttum persónuafslætti, á Alþingi í gær, að fjárfesting í ungu fólki sé lykillinn að framtíð og nýsköpun. Námsmenn á aldursbilinu 16-25 ára eru tveir þriðju af þeim hópi er nær ekki að nýta persónuafsláttinn. Það eru um 10 milljarðar er koma ekki til útgreiðslu.
„Þá velti ég fyrir mér hvernig við styðjum þetta fólk best.“

„Mér finnst umræðan góðra gjalda verð sem og hugmyndafræðin sem liggur að baki. Mér finnst hún hafa dregið fram einkum tvennt,
í fyrsta lagi að þetta sé augljóslega rætt í samhengi við tekjuskattskerfið og hlutverk persónuafsláttar í því kerfi og
í öðru lagi aukinn stuðning við þá sem hafa lægri tekjur.“

„Ég held að flestir séu sammála því að fjárfesting í ungu fólki og fólki almennt sé lykillinn að framtíð og nýsköpun. Það er oft sagt forsenda framtíðarhagvaxtar. Þess vegna er öflugt menntakerfi og forsendur þess í raun og veru að við tryggjum að allir geti aflað sér menntunar. Fyrir þinginu liggur frumvarp sem felur í sér þá helstu nýbreytni að auka og jafna stuðning í formi styrkja,“ sagði Willum Þór.

Categories
Fréttir

Aðgerðir fari að skila sér til sjávarbyggða sem verst hafa úti orðið vegna kvótatilfærslna

Deila grein

27/01/2020

Aðgerðir fari að skila sér til sjávarbyggða sem verst hafa úti orðið vegna kvótatilfærslna

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi, sagði í umræðu um fiskveiðistjórnarkerfið, á Alþingi í liðinni viku, að takist hafi að ná þeim meginmarkmiðum sem fiskveiðistjórnarkerfið átti að færa okkur í öndverðu að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu nytjastofna við landið og tryggja með því trausta atvinnu í landinu. En sagði þetta ekki hafa verið sársaukalaust.
„Já, þetta hefur tekist og má rekja þessa sögu aftur til þess að Hafrannsóknastofnun gaf út að til þess að hámarka afrakstur þorskstofnsins þyrfti að helminga sókn í hann og jafnframt koma í veg fyrir smáfiskadráp vegna lélegs ástand hans. En svo var kvótinn settur á markað og þá hófst sundurlyndið um kerfið. Mikil lóðrétt samþætting sjávarútvegsfyrirtækja hefur sannarlega skilað af sér stærri og verðmætari fyrirtækjum en að sama skapi hefur kvótinn verið á hreyfingu milli byggðarlaganna þannig að í sumum byggðum stendur lítið eftir nema sá félagslegi kvóti sem til skiptanna er,“ sagði Halla Signý.
„Við eigum það til að hreykja okkur af því að íslenskur sjávarútvegur sé sá besti og sjálfbærasti í heimi. En til þess að teljast sjálfbært þarf kerfið að vera allt í senn efnahagslega, umhverfislega og samfélagslega sjálfbært. Á því er enginn vafi að kerfið okkar er efnahagslega sjálfbært, í umhverfismálum stendur íslenskur sjávarútvegur sterkt og nytjastofnar hafa dafnað.
En er fiskveiðistjórnarkerfið okkar samfélagslega sjálfbært?
Þar má a.m.k. að gera úrbætur. Hæstv. sjávarútvegsráðherra hefur skipað nefnd sem á að endurskoða félagslegt aflamark og vil ég hvetja hann til dáða í því verkefni og til að sjá til þess að aðgerðir fari að skila sér til þeirra sjávarbyggða sem verst hafa úti orðið vegna kvótatilfærslna,“ sagði Halla Signý.

Categories
Fréttir

„Auðlindaákvæði í stjórnarskrá“

Deila grein

27/01/2020

„Auðlindaákvæði í stjórnarskrá“

„Við ræðum hér fiskveiðistjórnarkerfi okkar Íslendinga. Með núverandi fiskveiðistjórnarkerfi, sem er aflamarkskerfi, hefur tekist að byggja upp öflugan, tæknivæddan og umhverfisvænan sjávarútveg sem færir okkur gríðarlegar útflutningstekjur á ári hverju, veltu, störf og afleidd störf um allt land. Allt frá því að framsal kvóta var gefið frjálst hefur ágreiningur verið um eiginlegt eignarhald hans. Lög og reglugerðir vitna ýmist í fiskinn sjálfan, nytjastofna eða veiðiheimildir og þykja hvorki skýra óskorað eignarhald þjóðarinnar yfir auðlindinni né heldur hverjir fari með forræði og ráðstöfunarrétt hennar,“ sagði Þórarinn Ingi Pétursson, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi, í umræðum um fiskveiðistjórnunarkerfið á Alþingi í síðustu viku.
„Við þessu er einfalt svar. Auðlindaákvæði í stjórnarskrá. Framsókn hefur unnið og mun áfram vinna að því að óskorað og ótvírætt eignarhald þjóðarinnar á öllum náttúruauðlindum Íslands muni lögfest í stjórnarskrá. Auðlindaákvæðið mun ekki eitt og sér koma á sætti um fiskveiðistjórnarkerfið en það er eitt af fjölmörgum skrefum sem hægt er að taka,“ sagði Þórarinn Ingi.
„Á kjörtímabilinu 2013–2016 starfaði svokölluð sáttanefnd með fulltrúum stjórnmálaflokka og hagsmunaaðila sem gerði tillögur að breytingum á fiskveiðistjórnarkerfinu. Langtímasamningar um veiðiheimildir sem undirstrika eignarhald þjóðarinnar og gefa sjávarútvegsfyrirtækjum tækifæri til langtímahugsunar og fyrirsjáanleika voru rauði þráðurinn í þeim breytingum sem lagðar voru til. Slíkar breytingar gætu verið annað skref. Á sama tíma hljótum við að velta því fyrir okkur hvort kvótaþakið, bæði á heildarveiðiheimildum og í einstökum tegundum, sé ekki of hátt því að kvótakerfið var ekki gert til þess að heimildir gætu þjappast saman á fárra hendur og að fáir einstaklingar gætu orðið of ríkir.“

„Frú forseti. Ég er ekki að tala um algera byltingu í fiskveiðistjórnarkerfinu heldur tímabærar og réttlátar umbætur í skrefum.“

Categories
Fréttir

„Þekkingunni ber að viðhalda“

Deila grein

27/01/2020

„Þekkingunni ber að viðhalda“

„Fyrir tíu árum gerðumst við aðilar að matvælalöggjöf EES. Tilgangur matvælalöggjafarinnar er að stýra því að auka gæði matvæla og bæta stöðu neytenda. Við gerum miklar kröfur til innlendrar matvælaframleiðslu og að sama skapi eiga neytendur rétt á því að sambærilegar kröfur séu gerðar til innfluttra matvæla,“ sagði Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi, í umræðu um stefnu stjórnvalda í matvælaframleiðslu á Alþingi í liðinni viku.
Halla Signý benti á að loftslagsmál væri eitt helsta áherslumál ríkisstjórnarinnar og að aðgerðaáætlun í loftslagsmálum hafi að markmiði að Ísland ná markmiðum Parísarsamkomulagsins árið 2030 og kolefnishlutleysi árið 2040.
„Hluti af þeirri áætlun hlýtur að vera að stefna að því að styrkja innlenda matvælaframleiðslu og styrkja alla umgjörð og nýtingu lands í átt að sjálfbærni. Innlend matvælaframleiðsla er best til þess fallin að fækka kolefnissporum og stuðla að minni umhverfissporum. Fæðuöryggi byggist á þekkingu á matvælaframleiðslu og -vinnslu. Slík þekking er oft staðbundin og hér á landi þarf að viðhalda þeirri þekkingu á sérstöðu okkar. Íslenskir bændur þekkja handbragð við heimaslátrun. Það eru verðmæti sem ber að varðveita. Meðhöndlun íslenska lambakjötsins er því mikilvæg og við sem höfum alist upp við það að hafa aðgang að heimaslátruðu kjöti og vitum hversu mikilvægt er að kjötið nái að meyrna vitum að þar nást fram mestu gæði kjötsins,“ sagði Halla Signý.
„Þekkingunni ber að viðhalda. Þess vegna er það skylda okkar löggjafans að vinna að því að búa svo um að handbragð við heimaslátrun verði áfram hluti af íslenskri menningu. Viðbrögð á undanförnum árum við heimaslátrun hafa í besta falli verið vandræðaleg og fálmkennd. Við leggjum á boð og bönn í þágu heilbrigðiskrafna þrátt fyrir að vita betur. Því er sala nú á heimaslátruðu kjöti glæpur, já, eins og að selja fíkniefni,“ sagði Halla Signý.

Categories
Fréttir

„Það eru blikur á lofti“

Deila grein

27/01/2020

„Það eru blikur á lofti“

Þórarinn Ingi Pétursson, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi, tók þátt í umræðu um stefnu stjórnvalda í matvælaframleiðslu á Alþingi í liðinni viku. Sagði hann réttilega það vera mikla „áskorun alla daga að framleiða matvæli, áskorun fyrir okkur sem þjóð að framleiða matvæli með tilliti til loftslagsmála og fæðuöryggis þjóðarinnar“.
„Það er mikil áskorun að framleiða og fæða þjóðina en það eru blikur á lofti. Við störfum í alþjóðlegu matvælaumhverfi sem kallar á mikla samkeppni erlendis frá, samkeppni sem ekki er sanngjörn ef horft til stærðar og hagkvæmnissjónarmiða.
Samkeppnislög hér á landi eru hamlandi fyrir þróun innlendrar matvælaframleiðslu. Því verðum við að breyta.
Sérstaða okkar er hrein náttúra, ferskleiki matvæla og aðgangur að hreinu vatni. Gott hráefni er undirstaða matvælaframleiðslu út frá lýðheilsusjónarmiðum. Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna leggja m.a. áherslu á ábyrga neyslu með minni matarsóun, sjálfbæru verklagi við opinber innkaup og upplýstu samfélagi um sjálfbæra þróun. Með því að velja innlend matvæli í stað sambærilegra innfluttra matvæla er stuðlað að auknu fæðuöryggi og eflingu atvinnustarfsemi hér á landi.
Virðulegi forseti. Það veldur mér áhyggjum hvernig er haldið utan um íslenskan landbúnað innan opinberrar stjórnsýslu. Vægi landbúnaðar innan ráðuneytis sjávarútvegs og landbúnaðar er lítið og það er mín einlæga skoðun að stofna eigi að nýju ráðuneyti landbúnaðar því að málaflokkurinn krefst mikillar yfirlegu og athygli til að mæta þeim áskorunum sem matvælaframleiðsla framtíðarinnar ber í skauti sér,“ sagði Þórarinn Ingi.