Categories
Fréttir

Brothættar byggðir — og hvað svo?

Deila grein

17/10/2019

Brothættar byggðir — og hvað svo?

„Á Íslandi hefur lengi verið rekin sjálfvirk byggðastefna sem felur í sér nýtingu skattfjár á einum stað til uppbyggingar fyrir náð og miskunn, kjördæmapot, skattaívilnanir eða kjarkaðan ráðherra sem hefur fært opinber störf frá höfuðborgarsvæðinu. Gleymum því ekki að uppbygging hins opinbera á höfuðborgarsvæðinu er talin sjálfsögð og skynsamleg en ölmusa annars staðar,“ sagði Hjálmar Bogi Hafliðason, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi, í störfum þingsins í gær.
„Hvenær látum við okkur málið varða þannig að sú alvarlega byggðaröskun sem hefur átt sér stað vítt og breitt á landsbyggðinni stöðvist og landið haldist allt í byggð? Bíldudalur, Þingeyri, Árneshreppur, Hrísey, Grímsey, Öxarfjörður, Raufarhöfn, Bakkafjörður, Borgarfjörður eystri, Breiðdalshreppur og Skaftárhreppur. Hvaða svæði, þorp, bær eða byggð fer næst á lista?,“ sagði Hjálmar Bogi.
Með leyfi forseta:

Byggðastefna lyftir landi,
ef vandlega er farið með hana.
Hún er eins og heilagur andi,
það hefur enginn séð hana.

„Þannig orti eitt sinn góður og genginn Framsóknarmaður að nafni Þormóður Jónsson.“
„Þau svæði sem mynda fjarlæga skeifu utan um höfuðborgarsvæðið eru jafnvel svæði sem við þjónustum ekki nema að litlu leyti með stoðstofnunum ríkisins. Á meðan er sveitarfélögum ætlað að leysa vandann sem allir vita að hafa hvorki bolmagn, fjármagn né lausnir til að bregðast við svo vel sé. Fólk eltir nefnilega skattpeningana sína, menningu og þjónustu — og hvar er skattfé helst varið? Viðfangsefnið verður hvorki leyst með skjótvirkum hætti né verður hægt að beita almennum úrræðum til að leysa þetta sértæka verkefni. En það er grundvallaratriði að íbúar þessa lands búi allir við sem jöfnust kjör og þjónustu sem hið opinbera veitir, óháð búsetu.
Ég spyr því: Brothættar byggðir — og hvað svo?“

Categories
Fréttir

15. október helgaður konum búsettum í dreifbýli

Deila grein

15/10/2019

15. október helgaður konum búsettum í dreifbýli

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi, minnti þingheim í störfum Alþingis í dag að 15. október hafi ,,lengi helgaður konum búsettum í dreifbýli hjá Sameinuðu þjóðunum, þ.e. 1/5 af íbúum jarðar. Í tilefni dagsins vöktu framkvæmdastjórar Sameinuðu þjóðanna oftar en einu sinni athygli á því að á heimsvísu hafni konur og stúlkur í dreifbýli oft neðst þegar litið er til hagfræðilegra, félagslegra og pólitískra þátta, allt frá tekjum og menntun til heilbrigðis og ákvarðanatöku.”
,,Ef þessi hópur hefði gott aðgengi að menntun og þekkingu um nýsköpun og auðlindanýtingu myndi framleiðni í landbúnaði aukast, matvæla- og fæðuöryggi batna og hægt væri að bjarga fleirum frá hungri. Þessi vinna fellur nú undir vinnu að heimsmarkmiðunum hjá Sameinuðu þjóðunum,” sagði Líneik Anna.
En hver er staðan hér?

Konur í dreifbýli hér á landi búa í sveitum og minni þéttbýliskjörnum. Yfirleitt búa færri konur en karlar í dreifbýlustu samfélögunum og rannsóknir sýna að í sumum þeirra er launamunur kynjanna áberandi meiri en að landsmeðaltali.
Vitum við hvort þær hafa jafnan aðgang að menntun, þjálfun í vísindum og tækni á við aðra íbúa þessa lands?
Er aðgengi að atvinnu sambærilegt?
Hver er staða þeirra í fæðingarorlofskerfinu?
Hvað keyra konur í sveitum marga kílómetra á holóttum malarvegum daglega?
Hvert er aðgengi innflytjenda í þessum hópi að þekkingu?

,,Til er skýrsla um stöðu kvenna í landbúnaði og tengdum greinum sem var unnin af Byggðastofnun 2015. Þar kemur fram að fleiri konur en karlar stunda aðra vinnu með búrekstri og að vinnuframlag kvenna sé skilgreint sem hluti af heimilisstörfum en ekki sem bústörf. Hvaða áhrif hefur það? Það skortir a.m.k. verulega á tölfræði um stöðuna. Við þurfum að beina sjónum að þessum hópi. Jafnrétti næst ekki ef konur í dreifbýli gleymast og það er sérstaklega mikilvægt í byggðaþróunarverkefnum eins og Brothættum byggðum,” sagði Líneik Anna.

Categories
Fréttir

Látum okkur unga fólkið varða og gerum betur

Deila grein

15/10/2019

Látum okkur unga fólkið varða og gerum betur

Hjálmar Bogi Hafliðason, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi, segir íslenskt samfélag hafa ,,náð stórkostlegum árangri varðandi vímuefnaneyslu ungs fólks með markvissum hætti. Árið 1998 höfðu 48% ungmenna í 10. bekk neytt áfengis síðastliðna 30 daga. Sú tala stendur nú í 5%. Sömuleiðis hefur dregið verulega úr reykingum á sígarettum.” Þetta kom fram í störfum þingsins á Alþingi í dag.
Frá árinu 1995 hefur með markvissum hætti verið rannsakaðir hagir ungs fólks. Rannsóknir og greining heldur utan um þessa könnun og grunnskólar landsins framkvæmir hana en rannsóknin er unnin fyrir mennta- og menningarmálaráðuneyti.
,,Nýlega birtust okkur niðurstöður könnunarinnar Ungt fólk 2018 sem varðar hagi nemenda í 8., 9. og 10. bekk. Ég vil hvetja ráðherra, þingmenn og sveitarstjórnarfulltrúa til þess að nýta þessar niðurstöður og horfa til þeirra þegar kemur að ákvarðanatöku en í skýrslunni er samanburður frá árinu 2000,” sagði Hjálmar Bogi.
Skoðum helstu niðurstöður:

Almennt dregur úr skipulegu félags- og tómstundastarfi.
Hlutfallslegur fjöldi ungmenna sem fara í partí hefur dregist saman.
Á sama tíma hefur dregið úr aðsókn í félagsmiðstöðvar.
Um fjórði hver nemandi í 9. og 10. bekk ver engum tíma í lestur utan skóla. Samvera með foreldrum eykst.
Hlutfall foreldra sem fylgjast með því hvar börnin þeirra eru hefur hækkað.
Ungmennum sem fara út eftir kl. tíu á kvöldin fækkar verulega.
Sömuleiðis fækkar ungmennum sem fara út eftir miðnætti.
Koffínneysla hefur aukist talsvert.
Ungmennum, sérstaklega drengjum, sem finnst námið sitt tilgangslaust fjölgar og sömuleiðis fjölgar ungmennum sem leggja minni rækt við nám sitt.
Og ungmenni vinna mjög mikið með náminu.

,,Þetta er hægt. Það er hægt að ná árangri ef við látum okkur unga fólkið varða og viljum gera betur. Langflest ungmenni í samfélaginu okkar eru okkur til mikils sóma. Höldum því á lofti og gerum enn betur,” sagði Hjálmar Bogi.

Categories
Fréttir

Óvissa og erfiðleikar hjá nautgripabændum vegna stefnuleysis Kristjáns Þórs

Deila grein

15/10/2019

Óvissa og erfiðleikar hjá nautgripabændum vegna stefnuleysis Kristjáns Þórs

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi, segir óvissu og erfiðleika vera hjá nautgripabændum vegna stefnuleysis Kristjáns Þórs Júlíussonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Ekki hefur enn borið á á viðbrögðum stjórnvalda frá því að samráðshópur Kristján Þórs skilaði af sér tillögum í febrúar eða fyrir átta mánuðum. Þetta kom fram í störfum þingsins á Alþingi í dag.
,,Þetta hefur skapað óvissu hjá bændum og frost hefur ríkt á mjólkurkvótamarkaðnum. Þetta hefur valdið erfiðleikum, m.a. við nýliðun. Þeir sem hafa verið í uppbyggingu með aukningu í huga geta ekki nálgast framleiðslurétt til þess. Segja má að bændur hafi lokast inni í þessum aðstæðum,” sagði Halla Signý.
,,Könnun var gerð meðal bænda og þá voru 90% á því að halda óbreyttu ástandi áfram, þ.e. að halda í greiðslumarkið í mjólk. Sú niðurstaða ber auðvitað keim af því að ekki er komin fram nein önnur stefna sem er betri eða valkostur við núverandi kerfi heldur dvelja þeir áfram í óvissunni,” sagði Halla Signý.
Í gildandi búvörusamningum er samningur um starfsskilyrði nautgriparæktar frá 2016. Sá samningur felur í sér stefnumörkun um breytingar á því kerfi sem hefur verið við lýði síðasta aldarfjórðung.

Meginstefið er að greiðslumark í mjólk ætti að fjara út á samningstímanum, bæði sem viðmiðun fyrir beingreiðslur og kvóti sem tryggir forgang á innanlandsmarkaði.
Önnur markmið samningsins eru að efla íslenska nautgriparækt, skapa greininni sem fjölbreyttust sóknarfæri og búa hana undir áskoranir næstu ára.
Samningnum er ætlað að hvetja til þróunar og nýsköpunar í greininni með heilnæmi og gæði afurða, velferð dýra og samfélagslega ábyrgð að leiðarljósi.
Á þessu ári á að endurskoða hvort markmiðum samningsins hafi verið náð og hvort ástæða sé til að gera á þeim breytingar og að sú ákvörðun sem stefnt var að um afnám kvótans árið 2021 verði tekin til endurskoðunar.

,,Þess vegna skora ég á ráðherra að gera skurk í þessum málum og leysa þennan hnút,” sagði Halla Signý.

Categories
Fréttir

Stjórnmálaályktun 19. Kjördæmisþings Framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi 2019

Deila grein

15/10/2019

Stjórnmálaályktun 19. Kjördæmisþings Framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi 2019

Stjórnmálaályktun 19. Kjördæmisþings Framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi haldið 12.-13. október 2019 að Holti í Önundarfirði.

Kjördæmisþingið lýsir ánægju sinni með stjórnarsamstarf Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs. Ríkisstjórnin hefur með áherslum sínum í síðustu kjarasamningum, lífskjarasamningunum, tekist að jafna kjör og vinda ofan af því launaskriði sem var orðið í efstu lögum samfélagsins á meðan millistéttir og láglaunafólk mátti sitja eftir. Með þessu náðist fram sátt á vinnumarkaði og áframhaldandi stöðugleiki í íslensku efnahagslífi.

Þingið lýsir fullum stuðningi við þingflokkinn og ráðherra flokksins í þeirra mikilvægu störfum fyrir land og þjóð. Þingið leggur áherslu á að halda til haga stefnumálum Framsóknarflokksins í ríkisstjórnarsamstarfinu og gæta þess að rödd hans heyrist sem víðast.

Sjávarútvegur er gríðarlega mikilvægur í öllu kjördæminu og því hefur viðgangur greinarinnar mikil áhrif á flest öll sveitarfélög á svæðinu. Kjördæmisþingið ítrekar mikilvægi þess að sá kvóti sem ríkið hefur ráðstöfunarrétt yfir eða 5.3% aflaheimilda á hverja fisktegund, verði nýttur til byggðafestu og til að byggja undir fjölbreytni sjávarútvegs hringinn í kringum landið.

Kjördæmisþingið fagnar þeirri tæknibyltingu sem er að verða í veiðitækni, aflameðferð og fullvinnslu afurða um þessar mundir. Mikilvægt er að staðinn verði vörður um samkeppnis- og rekstrarhæfi íslensks sjávarútvegs á sama tíma og arður af sameiginlegum auðlindum landsmanna verði nýttur til uppbyggingar innviða og eflingar byggðarlaga vítt og breytt um landið. Þingið minnir á að engin ein löggjöf hefur haft viðlíka jákvæð áhrif á umhverfið á Íslandi og lög um stjórn fiskveiða sem sett voru undir forystu Framsóknarflokksins.

Kjördæmisþingið fagnar þeirri uppbyggingu sem hefur orðið á fiskeldi og telur það vera einn af megin atvinnuvegum þjóðarinnar. Þingið hvetur stjórnvöld til að byggja undir sterkt lagaumhverfi fyrir þessa nýju atvinnugrein. Mikilvægt er að mótvægisaðgerðum verði beitt og stuðla að umhverfisvænum rekstri til hagsbóta fyrir samfélagið.

Nauðsynlegt er að framfylgja stefnu Framsóknarflokksins í byggðamálum. Þar er lögð áhersla á jafnrétti til búsetu og að íbúar landsins njóti þeirrar grunnþjónustu sem gerð er krafa um í nútímasamfélagi. Nauðsynlegt er að samræming í ákvarðanatöku sé til staðar svo markmið byggðastefnu nái fram að ganga.

Undir forystu Framsóknar hefur verið unnið að jöfnu aðgengi landsmanna að sérhæfðri heilbrigðisþjónustu með eflingu fjarheilbrigðisþjónstu. Þingið bendir á mikilvægi þess að samningar við sérfræðilækna náist.

Kjördæmisþingið vill leggja áherslu á löggæslumál á landsbyggðinni. Skortur á fjármagni og sameining lögregluumdæma má aldrei verða til þess að íbúar á landsbyggðinni hljóti skerta þjónustu í formi lengri útkallstíma eða manneklu.

Grundvallaratriði í byggðaþróun og grunnþjónustu við íbúa er aðgengi að menntastofnunum. Kjördæmisþingið leggur áherslu á að tryggt verði aðgengi nemenda að framhaldsskólum í kjördæminu og fjármunir til að standa undir fjölda nemendaígilda til að mæta þeirri eftirspurn. Mjög mikilvægt er að styrkja stoðir menntastofnana og dreifnáms í Norðvesturkjördæmi. Þá þarf að tryggja fjárhagsstöðu, rekstrargrundvöll og framtíð mennta- og menningarstofnana í kjördæminu.

Þingið leggur áherslu á að flutnings- og dreifikerfi rafmagns á Íslandi tryggi fullnægjandi afhendingaröryggi raforku um landið. Einnig að lokið verði við uppbyggingu á þriggja fasa rafmagni til að tryggja nýsköpun, atvinnu- og byggðarþróun í dreifðari byggðum kjördæmisins. Þingið leggur áherslu á við stjórnvöld að núverandi rammaáætlun verði virt og lýsir stuðningi sínum við gerð Hvalárvirkjunar.

Orkustofnun hefur bent á að mikil eftirspurn sé eftir raforku á Íslandi og að brýnt sé að huga sérstaklega að lagarammanum um nýtingu vindorku þar sem hagsmunir samfélagsins og sjálfbærni eru hafðir að leiðarljósi. Smávirkjanir eru liður í uppbyggingu dreifikerfis raforku og telur þingið að kanna þurfi betur virkjunarkosti víða um land og einfalda umsagnaferlið þeirra.

Dreifingarkostnaður raforku hefur hækkað meira í dreifbýli en þéttbýli á undanförnum árum og telur þingið brýnt að stjórnvöld hraði vinnu við jöfnun raforkukostnaðar. Hár raforkukostnaður dregur úr hvata til uppbyggingar í hinum dreifðu byggðum og minnkar samkeppnishæfni dreifbýlisins.

Kjördæmisþingið hafnar alfarið raforkusölu um sæstreng til annarra landa.

Þingið hvetur til áframhaldandi uppbyggingar ferðaþjónustu í landinu. Endurskoða þarf skiptingu tekna af ferðamönnum milli ríkis og sveitarfélaga þannig að sveitarfélög fái tekjur til að standa að uppbyggingu innviða.

Kjördæmisþing Framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi skorar á stjórnvöld að nýtingar- og/eða búsetuskylda á bújörðum í landinu verði tryggð með lagasetningu, þannig að með eignarhaldi á bújörð fylgi ákveðnar skyldur. Mikilvægt er að horft sé til þess landgæði á hverjum stað stuðli að aukinni atvinnusköpun, matvælaframleiðslu og eflingu byggðar í landinu.

Íslenskur landbúnaður er og verður hornsteinn byggðar um allt land. Óásættanlegt er að fluttar séu inn búvörur sem framleiddar eru við minni kröfur um aðstæður, lyfjanotkun og aðra þætti er lúta að heilbrigði afurða, en gerðar eru hér á landi. Þingið fagnar góðum árangri við ljósleiðaravæðingu í kjördæminu.

Kjördæmisþing Framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi hafnar framkomnum hugmyndum um þjóðgarð á miðhálendi Íslands. Þingið leggur áherslu á að fyrirliggjandi tillaga um stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands felur í sér skerðingu á valdheimildum sveitarfélaga, réttindum íbúa þeirra ásamt því að koma í veg fyrir frekari orkuöflun á miðhálendinu. Mikilvægt er að loka ekki fyrir nýtingu nýrra endurnýjanlegra orkukosta á miðhálendinu í ljósi áætlunar ríkisstjórnarinnar um orkuskipti í samgöngum.

Fyrirliggjandi tillaga hvað varðar mörk þjóðgarðs á miðhálendinu virðist fyrst og fremst tilkomin til þess að styrkja eignar- eða ráðstöfunarrétt ríkisins yfir landi í hálendi Íslands.

Kjördæmisþingið hvetur stjórnvöld til þess að bregðast hratt við ótryggu og hættulegu ástandi vega í kjördæminu.

***

Categories
Fréttir

Tryggja betur með lögum öryggi þolenda í heimilisofbeldismálum

Deila grein

15/10/2019

Tryggja betur með lögum öryggi þolenda í heimilisofbeldismálum

Silja Dögg Gunnarsdóttiralþingismaður Framsóknar í Suðurkjördæmi, er fyrsti flutningsmaður tillögu til þingsályktunar um „upplýsingamiðlun um heimilisofbeldismál“. „Hugmyndin að þessu máli kviknaði þegar ég hlustaði á Kverkatak, útvarpsþátt á Rás 1, sem útvarpsmaðurinn Viktoría Hermannsdóttir gerði. Í þáttunum eru viðtöl við þolendur heimilisofbeldis og sérfræðinga sem sinna slíkum málum. Það var augljóst að gera mætti betur í þessum málaflokki og tryggja betur með lögum öryggi þolenda,“ sagði Silja Dögg.
Tillögugreinin hljóðar svo:

Alþingi ályktar að fela dómsmálaráðherra að setja á fót starfshóp sem verði falið að móta tillögur um bætt verklag um miðlun um heimilisofbeldismál á milli kerfa félagsþjónustu sveitarfélaga, heilbrigðisstofnana, skóla og lögregluembætta. Starfshópnum verði m.a. falið að móta tillögur um rýmri lagaheimildir til miðlunar upplýsinga um heimilisofbeldi milli félagsmálayfirvalda, heilbrigðisyfirvalda, menntamálayfirvalda og lögreglu og koma á fót samstarfsvettvangi stjórnvalda. Ráðherra kynni Alþingi niðurstöður starfshópsins eigi síðar en í júní 2020.

„Ég fór að skoða málið og fékk álit hjá fjölmörgum sérfróðum aðilum. Þingsályktunartillagan eins og hún liggur fyrir núna er niðurstaða þess samtals. Þolendur heimilisofbeldis veigra sér oft við því að tilkynna lögreglu um ofbeldið enda er gerandinn oft einstaklingur sem er nákominn þolanda. Í smærri sveitarfélögum þar sem íbúar þekkja flestir hver annan getur það ekki síður verið þungbært að tilkynna um heimilisofbeldi. Því er mikilvægt að þau stjórnvöld sem starfa náið með íbúum hafi víðtækar heimildir til að eiga frumkvæði að því að grípa inn í og eiga samstarf við önnur stjórnvöld um viðbrögð við slíkum brotum,“ sagði Silja Dögg.
„Markmiðið með þingsályktunartillögu þessari er að núverandi kerfi verði endurskoðað með það fyrir augum að einfalda félagsmálayfirvöldum, heilbrigðisyfirvöldum og menntamálayfirvöldum að miðla upplýsingum sín á milli og til lögreglu,“ sagði Silja Dögg.

Categories
Fréttir

Tæki 40 ár að uppfylla fyrirliggjandi samninga

Deila grein

10/10/2019

Tæki 40 ár að uppfylla fyrirliggjandi samninga

Þórarinn Ingi Pétursson, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi, benti á í störfum þingsins í gær, að umræða um loftslagsmál og bindingu kolefnis hafi varla farið fram hjá íbúum þessa lands.
„Að rækta skóg er einn af þeim þáttum sem horft er til er binda á kolefni. Blásið hefur verið til sóknar í skógrækt og landgræðslu af hálfu stjórnvalda, en einhver brotalöm er á því ferli því að frá árinu 2008 hefur orðið meira en 40% samdráttur í fjárveitingum og umsvifum í skógrækt á lögbýlum. Ríkið stendur ekki við samninga við bændur, og þrátt fyrir að í þeim sé gert ráð fyrir að það taki tíu ár að gróðursetja á hverju lögbýli tæki það 40 ár að uppfylla fyrirliggjandi samninga miðað við fjárveitingar 2019,“ sagði Þórarinn Ingi.
„Markmið skógræktar á bújörðum, eins og það er skilgreint í lögum nr. 95/2006, um landshlutaverkefni í skógrækt, er að skapa skógarauðlind á Íslandi, rækta fjölnytjaskóga og skjólbelti, treysta byggð og efla atvinnulíf. Í hverju landshlutaverkefni skal stefnt að ræktun skóga á a.m.k. 5% af flatarmáli láglendis neðan 400 m yfir sjávarmáli,“ sagði Þórarinn Ingi.
Uppfylla markmið Parísarsáttmálans í loftslagsmálum
„Mögulegt er að auka kolefnisbindingu skóga mjög hratt með því að standa við þegar gerða samninga og vinna samkvæmt áætlun og skipulagi sem tilbúið er. Þar næðist árangur hratt án þess að bæta þyrfti við innviðum eða umgjörð við framkvæmdina.
Fjármagn sem varið væri til verkefnisins gæti skilað sér beint í ræktun. Í skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands eftir Brynhildi Davíðsdóttur, frá febrúar 2017, kemur fram að með því að fjórfalda aðgerðahraða í skógrækt væri hægt að auka kolefnisbindingu úr 369.000 tonnum í allt að 535.000 tonn árið 2030,“ sagði Þóarinn Ingi.

Categories
Fréttir

„Á biðtímanum gerist oft afar lítið og vandinn vex“

Deila grein

10/10/2019

„Á biðtímanum gerist oft afar lítið og vandinn vex“

Silja Dögg Gunnarsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Suðurkjördæmi, sagði í störfum þingsins í gær að fyrir liggji „að börn fá ekki aðstoð tímanlega, bið eftir greiningum er allt of löng og á biðtímanum gerist oft afar lítið og vandinn vex. Aðkallandi er að meiri samfella og samtenging sé á milli opinberra þjónustuaðila en staðan í dag er sú að þeir aðilar sem veita börnum þjónustu tala ekki endilega saman. Dæmi eru um að tiltekin svið sveitarfélaga séu ekki með formlega ferla sín á milli og enginn með skilgreinda ábyrgð. Ef samfella þjónustu er ekki til staðar fær barnið ekki eins góða þjónustu og mögulegt er að veita.“
„Réttindi barna og bætt þjónusta við börn og barnafjölskyldur eru meðal áhersluatriða ríkisstjórnarinnar og birtist með skýrum hætti í stjórnarsáttmálanum. Alþingi samþykkti á dögunum tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun á sviði barnaverndar til fjögurra ára. Henni er ætlað að efla grunnvinnslu barnaverndarmála á fyrstu stigum, stuðla að snemmtækri íhlutun, auka samvinnu ríkis og sveitarfélaga og fjölga gagnreyndum úrræðum. Gert er ráð fyrir 600 millj. kr. fjáraukningu til að byggja upp og þróa úrræði og þjónustu í málaflokknum,“ sagði Silja Dögg.
„Mig langar að vekja athygli á þingsályktunartillögu, sem ég hef mælt fyrir og hefur verið send til umsagnar af velferðarnefnd, sem fjallar um rétt barna til að þekkja uppruna sinn. Í henni felst að dómsmálaráðherra verði falið að semja lög sem tryggi þeim börnum sem getin eru með kynfrumugjöf sjálfstæðan rétt til að þekkja líffræðilegan uppruna sinn. Þetta er í fimmta sinn sem Alþingi fjallar um málið. Nágrannaríki okkar, þau sem við berum okkur helst saman við, hafa þegar tryggt þessi réttindi barna með lögum og ég vona að það fari að koma að því að við gerum það líka,“ sagði Silja Dögg.

Categories
Fréttir

Byggðaáætlun og heilbrigðisstefna tryggja framsækna þjónustu

Deila grein

10/10/2019

Byggðaáætlun og heilbrigðisstefna tryggja framsækna þjónustu

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi, benti á í störfum þingsins í gær að þar sem segir í stefnumótandi byggðaáætlun að Ísland verði í fararbroddi með nútímainnviði, framsækna þjónustu og nýjustu tækni sem tengi byggðir saman að þá sé mjög ánægjulegt sjá að Landspítali hafi komið á samstarfi við Heilbrigðisstofnun Vestfjarða um bætt aðgengi að sérfræðilæknum.
„Verkefnið er í samræmi við markmið heilbrigðisstefnu um að jafna aðgengi landsmanna að heilbrigðisþjónustu um landið og byggðaáætlun eins og fyrr er vísað til. Þarna er verið að spara tíma, löng ferðalög og dýr, svo að ekki sé talað um vinnutap. Einnig er mjög mikilvægt að verið er að styrkja gagnkvæma faglega ráðgjöf milli heilbrigðisstarfsmanna,“ sagði Halla Signý.
„Þörf lækna og hjúkrunarfræðinga á landsbyggðinni fyrir aðstoð og ráðleggingar frá sérfræðingum Landspítala er mikil og getur skipt sköpum við meðferð sjúklinga. Bætt samskipti eru ávinningur, flækjustigið er minnkað og það getur sparað tíma og stytt bataferli. Mest af slíkum samskiptum fer fram með símtölum og tölvupóstum eins og staðan er í dag,“ sagði Halla Signý.
„Það er því mjög ánægjulegt að sjá að nýsamþykkt byggðaáætlun og heilbrigðisstefna eru farnar að vinna í rauntíma,“ sagði Halla Signý.

Categories
Fréttir

„Við framræslu votlendis á Íslandi voru gerð margvísleg mistök“

Deila grein

09/10/2019

„Við framræslu votlendis á Íslandi voru gerð margvísleg mistök“

„Framræst votlendi getur losað mikið af gróðurhúsalofttegundum, þegar gróðurleifar rotna hraðar í þurru landi en blautu. Gleymum samt ekki að náttúran stendur aldrei í stað, hún breytist sífellt eftir árstíðum og með tímanum og lengd grafinna skurða er ekki mælikvarði á losun,“ sagði Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi, í störfum þingsins á dögunum.
„Þannig hefur náttúran nú þegar leyst vandann sums staðar og er búin að bleyta upp í landi sem áður var ræst. Annars staðar er hún á góðri leið með það. Þá er töluvert til af skurðum sem breyttu aldrei neinu því að náttúran lék bæði á mælingarmennina og gröfumennina.“

Flestir skurðir á Íslandi voru grafnir milli 1950 og 1970. Síðan hafa skurðir vegna landbúnaðar einkum verið grafnir til að viðhalda eða bæta framræslu á áður þurrkuðu landi. Það tekur lífrænt efni, mólag, sem er einn metri á þykkt meira en 100 ár að rotna. Á meðan losna gróðurhúsalofttegundir. Lífrænt efni í mýrum er hins vegar mjög misþykkt. Sumt framræst votlendi losar enn mikið en annað gerir það ekki. Rotnun losar líka um næringarefni sem aftur getur aukið grasvöxt og þar með bindingu í hringrás árstíðanna en auk þess getur losunin dregið úr áburðarþörf í landbúnaði.
Endurheimt verður að ígrunda vel, gæta þess að opna ekki land fyrir jarðvegsrofi og muna að allt votlendi þarf afrennsli. Snögg umbreyting getur líka veikt gróðurþekju og mótstöðu vistkerfa. Ef mögulegt er leyfum votlendi sem ekki er notað að blotna upp vegna verkunar náttúrunnar sjálfrar, leyfum skurðum að síga saman og breytast aftur í læki. Notum sem minnst inngrip.

„Við framræslu votlendis á Íslandi voru gerð margvísleg mistök. Dettum ekki í sömu gryfju við endurheimtina. Henni verður ekki best sinnt með gulum gröfum út um allar flár og flóa. Notum skynsemina og vísindin og nýtum fjármagn til endurheimtar vistkerfa vel. Það verður að taka út hvert svæði áður en endurheimt hefst,“ sagði Líneik Anna.