Categories
Fréttir

Úthlutun til sértækra verkefna á sóknaráætlunarsvæðum

Deila grein

08/07/2019

Úthlutun til sértækra verkefna á sóknaráætlunarsvæðum

Sigurður Ingi Jóhannssonsamgöngu– og sveitarstjórnarráðherra, hefur úthlutað styrkjum sem er ætlað að efla byggðir landsins. Úthlutað var til sértækra verkefna á sóknaráætlunarsvæðum fyrir árið 2019 í samræmi við stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2018-2024.
Úthlutað var styrkjum að upphæð 71,5 milljónum króna til sjö verkefna á vegum sex landshlutasamtaka sveitarfélaga. Alls bárust 19 umsóknir um styrki að fjárhæð rúmar 278 m.kr. fyrir árið 2019. Þriggja manna valnefnd fór yfir umsóknir og gerði tillögur til ráðherra. Byggðastofnun annast umsýslu verkefnastyrkjanna.
Verkefnin sem hljóta styrk árið 2019 eru:

Gestastofa Snæfellsness. Verkefnið er styrkt um 10.000.000 kr. á árinu 2019, en hlaut 15 m.kr. styrk úr sama sjóði árið 2018.
Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi fær styrk til að efla Gestastofu Snæfellsness. Gestastofan gegnir lykilhlutverki við eflingu ferðaþjónustu á sunnanverðu nesinu. Þar verður miðlað upplýsingum og þekkingu um svæðið til ferðamanna. Styrkurinn nýtist til endurbóta á húsnæði og lagfæringa á umhverfi þess.
Þekkingarsetur í Skaftárhreppi. Verkefnið er styrkt um 17.500.000 kr. á árinu 2019 og um 25.000.000 kr. árlega árin 2020-2021, samtals kr. 67.500.000 kr.
Samtök sunnlenskra sveitarfélaga fá styrk til að undirbúa hönnun á þekkingarsetri á heimavist Kirkjubæjarskóla. Breyta á heimavistarálmu, ljúka hönnun og gera útboðsgögn fyrir nýbyggingu Erróseturs.
Sköpunarmiðstöðin á Stöðvarfirði. Verkefnið er styrkt um 17.500.000 kr. á árinu 2019 og 20.000.000 kr. árlega árin 2020-2021, samtals kr. 57.500.000 kr. Verkefnið hlaut 5 m.kr. styrk úr sama sjóði árið 2018.
Samtök sveitarfélaga á Austurlandi hljóta styrk fyrir tilraunaverkefni um byggðaþróun á sviði menningar, menntunar og atvinnusköpunar. Ráðast þarf í endurbætur á húsnæðinu Sköpunarmiðstöðvarinnar og nýtist styrkurinn til þessa þáttar.
Orkuskipti og bætt orkunýting í Grímsey. Verkefnið er styrkt um 5.200.000 kr. á árinu 2019.
Eyþing hlýtur styrk til að skoða fýsileika orkuskipta fyrir Grímsey. Markmiðið er að hætta brennslu jarðefnaeldneytis í Grímsey, framleiða rafmagn og hita með lífdísli, vind- og sólarorku.
Strandakjarni – undirbúningur og verkefnisstjórn. Verkefnið er styrkt um 4.300.000 kr. á árinu 2019.
Fjórðungssamband Vestfirðinga hlýtur styrk til að undirbúa þjónustumiðstöðvarinnar Strandakjarna er hugsuð fyrir fjölbreytta starfsemi undir sama þaki. Markmið verkefnisins er að standa undir þjónustu við íbúa með rekstri verslunar og annarri grunnþjónustu.
Vestfirðir á krossgötum – uppbygging innviða og atvinnulífs. Verkefnið er styrkt um 12.000.000 kr. á árinu 2019.
Fjórðungssamband Vestfirðinga hlýtur styrk til að taka saman gögn til að byggja á ákvarðanatöku og stefnumótun varðandi þær breytingar sem framundan eru vegna samgöngubóta og breytinga í atvinnulífi, t.d. fiskeldi. Gera á viðhorfskönnun og greiningu á samfélagslegum áhrifum samgöngubóta og á áhrifum fiskeldis.
Hitaveituvæðing Óslandshlíðar, Viðvíkursveitar og Hjaltadals. Verkefnið er styrkt um 5.000.000 kr. á árinu 2019.
Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra hlýtur styrk til að leggja stofnlögn hitaveitu og tengja borholu í Fljótum. Þannig verður miðsvæði Skagafjarðar tengt hitaveitu árið 2021, en það er eina svæðið í sveitarfélaginu sem ekki hefur hitaveitu.

Alls hafa 363,5 m.kr. verið ráðstafað til verkefnanna fyrir árin 2018-2021 en markmiðið með framlögunum er að tengja sóknaráætlanir landshluta við byggðaáætlun og færa heimafólki aukna ábyrgð á ráðstöfun fjármuna. Áhersla er lögð á að styrkja svæði þar sem er langvarandi fólksfækkun, atvinnuleysi og einhæft atvinnulíf.
Verkefni sem hljóta styrk skulu nýtast einstökum svæðum eða byggðarlögum innan landshlutans, eða landshlutanum í heild. Íbúaþróun, samsetning atvinnulífs og atvinnustig og meðaltekjur var meðal þess sem lagt til grundvallar við mat á umsóknum.

Categories
Fréttir

Hér er verið að brjóta lög um dýravelferð!

Deila grein

08/07/2019

Hér er verið að brjóta lög um dýravelferð!

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður, vekur athygli á því að nú sé dýralæknalaust í fimm sveitarfélögum á Vestfjörðum, Súðavík, Ísafjarðarbæ, Bolungarvík, Tálknafjarðarhreppi og Vesturbyggð (svæði 3 skv. reglugerð 846/2011 um dýralæknaþjónustu í dreifðum byggðum). Dýralæknir sá er hefur sinnt þessu svæði hefur sagt upp eftir farsælt starf um árabil oft við erfiðar aðstæður. Þetta kemur fram í grein Höllu Signýjar í Bæjarins besta 4. júlí sl.
Dýralæknir er forsenda þess að bændur og dýraeigendur geti haldið dýravernd. Eftirliti með dýravelferð og dýralækningum í dreifðum byggðum er sinnt með verktakasamningum. Dýravelferð og eftirlit er á hendi héraðsdýralæknis. Héraðsdýralæknir fyrir vesturumdæmi situr í Borgarnesi og sinnir svæðinu frá Hvalfjarðarbotni að Hrútafirði að með töldum Vestfjörðum. Dýralæknar er starfa einir á stóru svæði, án afleysinga, allt árið um kring eru undir miklu álagi.
„MAST hefur á liðnum vikum tvívegis auglýst eftir dýralækni til að taka við þjónustusamningi á svæði 3 en engin viðbrögð hafa verið. Segir það kannski mikið um hvernig þessir samningar eru byggðir upp.“
„Það er tímabært að skoða þessi mál heildstætt og um allt land. Dýralækningar og eftirlit með dýravelferð á að vera hægt að vinna saman, skapa þannig eftirsótt störf og ákjósanleg starfsskilyrði fyrir dýralækna að sækja í. Vinna þarf að lausn í þessum málum og tryggja þannig dýravelferð um allt land,“ segir Halla Signý.

 

Categories
Fréttir

Börn eru í leit að alþjóðlegri vernd á Íslandi!

Deila grein

05/07/2019

Börn eru í leit að alþjóðlegri vernd á Íslandi!

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, segir það „ánægjulegt að forsætisráðherra muni formlega leggja það fyrir ríkisstjórnina að þingmannanefnd um útlendingamál verði falið víðtækara hlutverk en nú er,“ í yfirlýsingu í dag.
„Þá fagna ég frumkvæði dómsmálaráðherra og tek af heilum hug undir mikilvægi þess að meiri áhersla verði lögð á að skoða framkvæmd laganna með tilliti til barna og að fulltrúi minn fái sæti við það borð,“ segir Ásmundur Einar.
„Undanfarna daga hafa málefni barna á flótta verið mikið til umræðu í þjóðfélaginu og ekki að ástæðulausu. Börn hafa sérstöðu í velflestum málaflokkum og þurfa á því að halda að við, hin fullorðnu, verndum þau svo best sem okkur er mögulegt. Með það að markmiði hef ég einmitt lagt áherslu í embætti á endurskoðun á þjónustu við öll börn á Íslandi. Í því samhengi skiptir uppruni barna ekki máli. Börn eru börn, hvaðan sem þau koma,“ segir Ásmundur Einar.
„Börn á flótta eru sérstaklega viðkvæmur hópur en í síðustu viku afhenti UNICEF á Íslandi mér skýrslu um verkefnið „HEIMA: móttöku barna í leit að alþjóðlegri vernd frá sjónarhóli barnsins“. Þar koma fram ýmsar athugasemdir um móttöku og þjónustu við börn í leit að alþjóðlegri vernd á Íslandi, m.a. að bæta þurfi verkferla.
Það virðist sem við getum gert betur að þessu leyti og í því, eins og í öllu er varðar börn skal ávallt haft í huga hvað sé barni fyrir bestu.“

Categories
Fréttir

Til hamingju Ísland – Vatnajökulsþjóðgarður samþykktur á heimsminjaskrá UNESCO

Deila grein

05/07/2019

Til hamingju Ísland – Vatnajökulsþjóðgarður samþykktur á heimsminjaskrá UNESCO

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður, fagnar frábærri viðurkenningu að Vatnajökulsþjóðgarður hafi verið samþykktur á heimsminjaskrá UNESCO í yfirlýsingu í dag.
„Til hamingju Ísland,“ segir Líneik Anna, „þetta er einn af stóru sigrunum og frábær viðurkenning.“
„Vatnajökulsþjóðgarður varð ekki til á einni nóttu – í jafn umfangsmiklu verkefni verða óhjákvæmilega sigrar og töp. Undirbúningur umsóknar til UNESCO hófst á árinu 2016,“ segir Líneik Anna.

Categories
Fréttir

Ekki sparka í þann sem hefur hingað til hugsað um landið

Deila grein

04/07/2019

Ekki sparka í þann sem hefur hingað til hugsað um landið

Þórarinn Ingi Pétursson, alþingismaður og bóndi á Grund í Grýtubakkahreppi, var í viðtali í morgunútvarpi Rásar 1 í gær og ræddi þar við Ágúst Ólafsson, fréttamann á Akureyri, m.a. um uppreksturinn en Þórarinn Ingi er einn þeirra sem reka fé sitt úr Höfðahverfi í eyðibyggðina í Fjörðum.
Í viðtalinu var komið inn á umræðu um landgæði og ofbeit á sumum landsvæðum, í kjölfar skýrslu Ólafs G. Arnalds, prófessors við Landbúnaðarháskóla Íslands, er ber heitið Á röngunni – alvarlegir hnökrar á framkvæmd landnýtingarþáttar gæðastýringar í sauðfjárrækt.
Ólafur G. Arnalds segir að skoðun gagna um umhverfisáhrif sauðfjárbeitar leiði í ljós að margt hafi farið úrskeiðis um framkvæmd gæðastýringar í sauðfjárrækt og þá einkum landnýtingarþátt verkefnisins. Gæðastýringin er liður í samningum sauðfjárbænda um stuðning við atvinnugreinina.
Fram kom hjá Þórarin Inga að landgæði væru ljómandi góð heilt yfir í Fjörðum. „Við höfum verið í verkefni í yfir tuttugu ár á heiðinni sem slíkri, á Leirdalsheiðinni, sem hefur skilað miklum árangri, en vissulega er þetta ekki þungamiðja í okkar beitarsvæði. Þarna erum við að græða upp landið, sem er einmitt það sem bændur gera alls staðar hringinn í kringum landið. Bændum er umhugað um það land sem er verið að nýta og gera sér grein fyrir því að ef gengið er of langt í beit eru menn að skerða rétt framtíðarinnar til að nýta landið.“
Þórarinn Ingi segir að sauðfé sé ekki sleppt eitthvað út í buskan og að það sé ekki ofbeit vegna núverandi búskaparhátta. „Landið er víða uppblásið af öðrum völdum en vegna sauðkindarinnar. Það eru gríðarlegir hópar af gæsum, það ganga hreindýr laus o.s.frv. Við búum í landi þar sem veður eru válynd, svo ég tali ekki um allar þessar náttúruhamfarir, það er ekki bara sauðkindin sem á sök á því hvernig er fyrir komið. Vissulega var það hér áður fyrr að menn voru ekki að heyja það magn sem gert er í dag, búfjáreign var einnig miklu meiri, fé er núna um 450.000, en það voru milljón kindur hér upp úr 1980. Síðan er beitartími orðinn allt annar og mér gremst yfirleitt þessi umræða hjá þessum mönnum sem ég veit að eiga að vita betur. Staðan er ekki svona og það er á sumum stöðum alltaf farið á þetta svo kallaða „gosbelti“ og þar er verið að ráðast á bændur sem eiga það einfaldlega alls ekki skilið, vegna þess að þetta eru þeir bændur sem hafa staðið sig hvað allra best í að græða upp landið.“
„Það er ekki vænlegt til árangurs að sparka í þann sem hefur hingað til hugsað um landið,“ segir Þórarinn Ingi.
„Við sjáum árangur víða um land þar sem bændur hafa verið að græða upp landið og þeir sem vilja sjá það – sjá það. Það er búið að vinna þrekvirki heilt yfir á vegum bænda hringinn í kringum landið þar sem að á hefur þurft að halda í gegnum árin og fullyrði ég að það er þrekvirki, menn hafa lagt á sig ómældan tíma og vinnu í gegnum árin til þess að endurheimta það sem hefur farið í burtu vegna þeirra áhrifa sem nefnd voru hér að framan. Ekki eingöngu vegna sauðkindarinnar og þetta snýst ekki um það að græða upp fyrir beit – það er alls ekki þannig – menn eru að græða upp landið til þess að reyna að loka því,“ segir Þórarinn Ingi.
Áætlað er að á hverju ári séu 18.000-19.000 hektarar undir í uppgræðsluverkefnum  og eins er búið að friða mikið af landi í gegnum tíðina. „Þannig að menn skulu spara stóru orðin þegar er verið að ráðast á bændur og vinna málin frekar í sátt og samlyndi enda skilar það okkur árangri. Það skilar engum árangri að vera með upphrópanir og læti og dæma síðan heila stétt, heilt yfir um landið. Vissulega er það alltaf þannig að eitthvað má betur fara og við tökum að sjálfsögðu alltaf við ábendingum og viljum gera betur,“ segir Þórarinn Ingi, „og það má ekki gleyma því heldur að sum ár gengur ofboðslega vel, það er þá vegna þess að tíðarfarið hefur verið mjög hagstætt. Svo koma þurrkar, líkt og hefur verið núna og þá gengur þetta hægar og veðurfarið getur jafnvel eyðilagt margra ára starf.“

  • Morgunvaktin — Sauðfjárbændur um allt land eru þessa dagana að reka lambfé sitt á fjall til sumarbeitar. Þá þurfa sumir að fara tugi kílómetra á meðan öðrum dugir að reka kindur og lömb rétt út úr fjárhúsgirðingunni. Það er mikil útgerð sem fylgir upprekstrinum og oft þarf að kalla til auka mannskap, enda taka svona ferðir gjarnan einhverja daga. Þórarinn Pétursson, bóndi á Grund í Grýtubakkahreppi, er einn þeirra sem reka fé sitt úr Höfðahverfi í eyðibyggðina í Fjörðum – viðtalið hefst á 1:24:25 mínútu
Categories
Fréttir

Jarðgöng yfir í Gufunes eða lágbrú sem þverar hafnarsvæðið við Kleppsvík?

Deila grein

03/07/2019

Jarðgöng yfir í Gufunes eða lágbrú sem þverar hafnarsvæðið við Kleppsvík?

Starfshópur um Sundabraut á vegum ríkisins og Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu hefur lokið störfum og skilað skýrslu til samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. Sundabraut hefur verið til skoðunar um árabil og í skýrslunni eru nokkrir valkostir vegnir og metnir. Í niðurstöðum hópsins eru tveir valkostir taldir koma til greina; jarðgöng yfir í Gufunes og lágbrú sem þverar hafnarsvæðið við Kleppsvík. Hvorki botngöng né hábrú yfir Kleppsvík voru taldir fýsilegir kostir.
„Sundabrautin myndi tengja uppsveitir borgarinnar betur saman milli Kjalarnes, greiða fyrir umferð fólks og vöruflutninga í gegnum höfuðborgarsvæðið og vera öryggisatriði ef kæmi til þess að rýma þyrfti stóran hluta borgarinnar á skömmum tíma,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.
„Með hliðsjón af öllu ofangreindu leggur starfshópurinn til að unnið verði að frekari undirbúningi Sundabrautar í jarðgöngum. Leitað verði leiða til að lækka kostnað við göngin, endurskoða tengingar þeirra við hafnarsvæðið, Sæbraut og Gufunes til að hámarka þann fjölda sem myndi aka göngin í stað annarra leiða. Jafnframt verði unnið að undirbúningi þess að leggja Sæbraut í stokk við Vogabyggð sem að mati hópsins er eðlilegur undanfari Sundabrautar,“ segir í skýrslu starfshópsins.

Categories
Fréttir

Stórkostleg tækifæri felast í aukinni nýtingu íslenskra orkujurta

Deila grein

02/07/2019

Stórkostleg tækifæri felast í aukinni nýtingu íslenskra orkujurta

Silja Dögg Gunnarsdóttir, alþingismaður, skrifar um mjög áhugaverða grein í Bændablaðið í liðinni viku. Þar rekur Silja Dögg þær breytingar sem séu fyrirsjáanlegar varðandi framleiðslu jarðefnaeldsneytis, en að innan nokkurra áratuga muni sú framleiðsla dragast verulega saman. Stillir hún fram möguleikum um að framleiða nýja orkugjafa á Íslandi sem séu endurnýjanlegir og umhverfisvænir. „Að framleiða eigið eldsneyti í stað þess að flytja það inn til landsins eiga að kalla á umfangsmikla greiningu á þeim hagræna ávinningi sem mun skapast fyrir þjóðarbúið, bændur og framleiðendur og ekki síst út frá umhverfislegum markmiðum,“ segir Silja Dögg.
Í rannsóknum hefur komið fram að bíódísill úr repjuolíu geti komið í staðinn fyrir jarðefnaeldsneyti, bíódísill er lífræn dísilolía og endurnýjanlegur orkugjafi og telst einn umhverfishlutlausasti orkugjafinn sem getur komið í stað jarðdísilolíu á bíla, skip og flugvélar.
„Repjuræktun og framleiðsla á eldsneyti úr repjuolíu er sjálfbær leið til að sjá fiskiskipaflotanum fyrir eldsneyti sem ekki veldur koltvísýringsútblæstri. Við brennslu á bíódísil, sem framleiddur hefur verið úr repjuolíu, er talið að um rúmlega 70% minni mengun sé að ræða en þegar jarðdísill er notaður. Repjuræktun felur í sér tvöfalda kolefnisjöfnun með tilliti til útblásturs á koltvísýringi þar sem ræktunin tekur til sín tvöfalt meira af koltvísýringi en brennsla olíunnar gefur frá sér við útblástur,“ segir Silja Dögg.
„Undirbúa þarf sem fyrst og með kostgæfni notkun bíódísils á aðalvélar íslenskra skipa með hagkvæmni og umhverfislegan ávinning að leiðarljósi. Byrja mætti í minni skipum og síðan auka sviðið jafnt og þétt. Einnig mætti byrja á lágu íblöndunarhlutfalli bíódísils í jarðdísil eins og til dæmis 5% og hækka síðan hlutfallið jafnt og þétt með aukinni repjuræktun og framleiðslu á bíódísil.“
Silja Dögg hefur lagt fram skriflega fyrirspurn á Alþingi til samgönguráðherra varðandi ræktun og nýtingu íslenskra orkujurta fyrir fiskiskipaflotann. „Það verður áhugavert að sjá hver næstu skref verða í þeim efnum, þar sem stórkostlega tækifæri felast í aukinni nýtingu íslenskra orkujurta, ekki síst fyrir umhverfið og orkuöryggi þjóðarinnar.“

Categories
Fréttir

Búa nemendur undir lífið – takast á við tilveruna

Deila grein

02/07/2019

Búa nemendur undir lífið – takast á við tilveruna

„Skapandi og gagnrýnin hugsun, læsi og þátttaka í lýðræðissamfélagi verður áfram undirstaða íslenska skólakerfisins. Á dögunum samþykkti Alþingi frumvarp sem festir í sessi faglega umgjörð um starfsemi lýðskóla. Til þessa hefur ekki verið nein löggjöf í gildi um slíka skóla,“ segir Silja Dögg Gunnarsdóttir, alþingismaður í grein í Dagskránni Fréttablaði Suðurlands á dögunum.
„Hlutverk lýðskóla er fyrst og fremst að búa nemendur undir lífið, gera þá að fjölhæfum einstaklingum og reiðubúna til að takast á við tilveruna. Fjölbreytni er menntakerfinu mikilvæg, nemendur hafa ólíkar þarfir og þeir þurfa að hafa val um sitt nám. Meðal ástæðna brotthvarfs úr framhaldsskólunum okkar er ákveðin einsleitni í námsvali og það að nemendur finna sig ekki í námi. Það er vel að fjölbreytni námsframboðs hér á landi hefur aukist, ekki síst á framhaldsskólastiginu og að fleiri nemendur séu opnir fyrir námskostum t.d. á sviði verk- og tæknigreina,“ segir Silja Dögg.

Categories
Fréttir

Ný fjögurra ára framkvæmdaáætlun í barnaverndarmálum – til mikils að vinna fyrir samfélagið

Deila grein

01/07/2019

Ný fjögurra ára framkvæmdaáætlun í barnaverndarmálum – til mikils að vinna fyrir samfélagið

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, segir að ný fjögurra ára framkvæmdaáætlun í barnaverndarmálum verði til þess að ný úrræði og þjónusta standi börnum til boða. Gunnvinnsla barnaverndarmála á fyrstu stigum verður efld, stuðlað að snemmtækri íhlutun og samvinna ríkis og sveitarfélaga aukin átt að því að skapa heildarsýn og samfellu í þeirri þjónustu og í þeim úrræðum sem standa börnum og foreldrum til boða. Þetta kemur fram í grein Ásmundar Einars í Fréttablaðinu á dögunum.
„Eitt af meginmarkmiðunum er að koma fyrr að vanda barna. Rannsóknir sýna að börn sem verða fyrir áföllum eða búa við vanrækslu í æsku eru líklegri til að leiðast út af braut í lífinu. Þeim er jafnframt hættara við ýmsum sjúkdómum. Það er því til mikils að vinna fyrir samfélagið allt að koma þeim sem á þurfa að halda til hjálpar með gagnreyndum úrræðum – og það sem fyrst,“ segir Ásmundur Einar.
„Það hefur verið gefandi að taka þátt í að móta ofangreinda framkvæmdaáætlun og verkefnið nú er að fylgja henni eftir af festu. Þessi framsækna áætlun sýnir að okkur er alvara þegar við segjumst ætla að gera betur fyrir börnin okkar.“

Categories
Fréttir

„Enginn fróðleikur er þannig meðfæddur að ekki þurfi að læra hann“

Deila grein

28/06/2019

„Enginn fróðleikur er þannig meðfæddur að ekki þurfi að læra hann“

Einar Freyr Elínarson, oddviti Mýrdalshrepps, flutti hátíðarávarp á þjóðhátíðardaginn, 17. júní, í Vík. Ræða Einars Freys hefur vakið nokkra athygli, enda eftirtektarvert að heyra oddvita lítils sveitarfélags ræða þá miklu uppbyggingu er hefur átt sér stað í ferðaþjónustu á svæðinu og mikilvægi viðbragða samfélagsins sjálfs með nýja íbúa af ýmsum þjóðernum er starfa við ferðaþjónustuna og hafa þar skipt sköpum. Einar Freyr minnti á að á fyrri hluta síðustu aldar var það og samtakamáttur samfélagsins er hreyfði við málum. Að fengin var vörubifreið til að aka afurðum og aðföngum til og frá Vík. Ánægjan hafi verið almenn með breytinguna nema kannski hjá sem áður höfðu séð um flutningana með hestvögnum. En til staðar verða að vera dugnaðarforkar sem standa fyrir framförum í samfélaginu og að samtakamáttur fólksins geti auðveldað og hvatt til framfara.
„Þjóðhátíðardagurinn 17. júní skipar margs konar sess í hugum okkar. Hann er dagur til að gleðjast yfir því sem vel hefur tekist við uppbyggingu samfélagsins, dagur til að minnast þeirra brautryðjenda sem fyrr á tíð skópu framtíð þjóðarinnar með baráttu sinni og dagur til að virkja samtakamátt okkar og setja markmiðin enn hærra en áður til heilla fyrir framtíðarkynslóðir landsins,“ sagði Einar Freyr.
„Það hefur verið skemmtilegt að verða vitni að aðdáun fólks af hinum ýmsu þjóðernum, bæði ferðamanna og þeirra sem dvelja hér langdvölum fyrir íslenskri náttúru og áhuga þeirra á íslenskri menningu og siðum. Það er ástæða til að við minnum okkur sjálf á mikilvægi þess að við hlúum að og berum virðingu fyrir okkar menningararfi. Á sama tíma og við eigum að vera þakklát fyrir það að búa í opnu og frjálslyndu samfélagi sem leggur áherslu á umburðarlyndi er rétt að við munum eftir því að það er ekki sjálfsagður hlutur. Það er ef til vill ástæðan fyrir því að við komum saman á hverju ári og höldum hátíðlegan þennan dag. Til að minna okkur á það að við erum frjáls til þess að ákveða hvernig samfélag við viljum búa,“ segir Einar Freyr.
„Enginn fróðleikur er þannig meðfæddur að ekki þurfi að læra hann“
„Ég stend mig margoft að því sjálfur að vera einfaldlega upptekinn við að vera upptekinn. Því vil ég hvetja okkur sem hér eru komin til þess að gefa ykkur stund af og til og fræðast um nærumhverfið og íslenska sögu. Fyrir okkur sem ölum upp börn er mikilvægt að muna að enginn fróðleikur er þannig meðfæddur að ekki þurfi að læra hann. Það er á ábyrgð okkar að komandi kynslóðir búi yfir nægilegri þekkingu á landi og þjóð svo þau geti orðið þjóðræknir Íslendingar.“