Categories
Fréttir

„Við þurfum ekki að vaða bæjarlækinn til að sækja vatnið“

Deila grein

24/09/2019

„Við þurfum ekki að vaða bæjarlækinn til að sækja vatnið“

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi, segir að smávirkjanir séu „ein leið til að styrkja dreifikerfi landsins og lækka kostnað við rekstur þess. Með einföldun leyfis- og skipulagsmála smávirkjana er opnað á leið til að ná niður dreifikostnaði raforku í dreifbýli og það er leið að frekari jöfnun á raforkukostnaði og að jafna tækifæri til atvinnu og stuðla að sjálfbærri þróun byggða um allt land,“ sagði Halla Signý í störfum þingsins á Alþingi í dag.
„Flutningskerfi raforku er í sameign þjóðar en landsmenn sitja ekki við sama borð þegar kemur að flutningi á raforku til síns heima. Það fer nefnilega eftir því hvar þeir búa hvað þeir greiða. Dreifikostnaður raforku hefur hækkað meira í dreifbýli en þéttbýli á undanförnum árum og ljóst er að stöðugt dregur í sundur. Núverandi jöfnunargjald er langt frá því að jafna þennan mun,“ sagði Halla Signý.
En erum við að fara yfir lækinn til að sækja vatnið?
„Smávirkjanir eru skilgreindar svo að þær séu minni en 10 mW. Þeim hefur fjölgað á undanförnum árum og eru kostir þeirra margir. Þarna flæðir umhverfisvæn orka og bæði mannvirki og náttúrurask eru oft að fullu afturkræfar framkvæmdir. Smávirkjanir tengjast kerfinu um dreifiveitur landsins og styrkja þannig þær flutningsleiðir auk þess sem þær lækka flutningstap raforku og lækka rekstrarkostnað dreifiveitna. Virkjunarkostir fyrir smávirkjanir hér á landi eru margir og um allt land, sérstaklega þar sem styrkja þarf dreifikerfið, en skipulags- og leyfismál smávirkjana eru flókin og reglugerðir íþyngjandi. Ferlið frá hugmynd að tengingu er kostnaðarsamt og tímafrekt og langt frá samsvarandi ferli framkvæmda, t.d. í landbúnaði, þar sem framkvæmdir bæði á landi og mannvirkjum geta kostað umtalsvert rask.
Ljóst er að smávirkjanir eru ein leið til að styrkja dreifikerfi landsins og lækka kostnað við rekstur þess. Með einföldun leyfis- og skipulagsmála smávirkjana er opnað á leið til að ná niður dreifikostnaði raforku í dreifbýli og það er leið að frekari jöfnun á raforkukostnaði og að jafna tækifæri til atvinnu og stuðla að sjálfbærri þróun byggða um allt land. Já, við þurfum ekki að vaða bæjarlækinn til að sækja vatnið.“

Categories
Fréttir

Hvernig miðar vinnu við mótun framtíðarsýnar embætti sýslumannanna?

Deila grein

23/09/2019

Hvernig miðar vinnu við mótun framtíðarsýnar embætti sýslumannanna?

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi, vakti máls, í umræðu á Alþingi, á dögunum, að rafræn stjórnsýsla geti „leitt til fleiri starfa án staðsetningar og hún getur líka aukið jafnrétti óháð búsetu. Hún bætir þjónustu við atvinnulífið og svo mætti lengi telja.“
„Í mars sl. skilaði Ríkisendurskoðun skýrslu um sýslumenn, samanburði milli embætta. Við umfjöllun stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar um skýrsluna upplýsti dómsmálaráðuneytið að unnið væri að framtíðarsýn fyrir sýslumannsembættin og í henni fælist m.a. efling rafrænnar stjórnsýslu og miðlægrar vinnslu mála, en þar kom líka fram að þó að upplýsingatæknin væri vissulega lykill að umbótum eru mörg verkefna sýslumanna þannig að þau krefjast ávallt nálægðar við borgarana og einstaklingarnir þurfa að geta haft þau mannleg samskipti,“ sagði Líneik Anna.
„Í þessari umfjöllun um embætti sýslumannanna kemur líka fram að það vantar nákvæmar og greinargóðar upplýsingar um umfang verkefna stjórnvalda sem sýslumönnum er ætlað að sinna svo hægt sé að útfæra þau með skilvirkum og árangursríkum hætti og samræma betur þjónustuna sem embættin veita á landsvísu.“
Ég vil hvetja ráðherrann til að hraða þeirri vinnu og sé þess merki í fjárlögum að verið er að vinna þetta verkefni áfram. En ég vil spyrja hvernig miði vinnu við mótun framtíðarsýnar fyrir embættið,“ sagði Líneik Anna.

Categories
Fréttir

Okkur mun takast að móta kerfisbreytingar sem gera öllum fjölskyldum kleift að eignast húsnæði

Deila grein

18/09/2019

Okkur mun takast að móta kerfisbreytingar sem gera öllum fjölskyldum kleift að eignast húsnæði

Ásmundur Einar Daðason, félags-og barnamálaráðherra, segir í yfirlýsing í dag að „[e]itt af meginmarkmiðum Framsóknar er að gera ungu fólki og tekjulágum fjölskyldum kleift að kaupa sínu fyrstu íbúð. Í tengslum lífskjarasamninga var sérstaklega fjallað um þessar aðgerðir.“ Hér að neðan má sjá yfirlýsingu Ásmundar Einars.

Á fundum í Skotlandi hefur Ásmundur Einar, ásamt fulltrúum frá Alþýðusambandi Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Íbúðalánasjóði, átt fundi með Kevin Stuart, húsnæðismálaráðherra Skotlands og sömuleiðis vinnufund með skoskum embættismönnum þar sem húsnæðismál voru rædd með sérstakri áherslu á stuðning við ungt fólk og tekjulága við að komast inn á fasteignamarkaðinn.
Ásmundur Einar segir að vinna sé í gangi við frumvarp „til að innleiða sérstök hlutdeildarlán að skoskri fyrirmynd. Samhliða því vinnur ríkisstjórnin að því að veitt verði heimild til að nýta hluta lífeyrissparnaðar til fasteignakaupa (Svissneska leiðin).
Er sannfærður um að með góðu samstarfi við aðila vinnumarkaðar o.fl. mun okkur takast að móta kerfisbreytingar sem gera öllum fjölskyldum kleift að eignast húsnæði,“ sagði Ásmundur Einar.

Ásmundur Einar Daðason, félags-og barnamálaráðherra, átti í gær fund með Kevin Stuart, húsnæðismálaráðherra Skotlands. Hann sat sömuleiðis vinnufund með skoskum embættismönnum þar sem húsnæðismál voru rædd með sérstakri áherslu á stuðning við ungt fólk og tekjulága við að komast inn á fasteignamarkaðinn. Í för með ráðherra voru fulltrúar frá Alþýðusambandi Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Íbúðalánasjóði.
Markmið fundanna var að kynnast því með hvaða hætti stjórnvöld í Skotlandi hafa innleitt og unnið með svokölluð hlutdeildarlán sem hafa hjálpað íbúðakaupendum að festa kaup á sinni fyrstu eign. Bæði Englendingar og Skotar hafa valið þann kost að veita hlutdeildarlán (Equity Loans) til þess að styðja við tekjulægri íbúðakaupendur og stuðla að hagkvæmum nýbyggingum þar sem þess er þörf.
Þegar kemur að stöðugleika á húsnæðismarkaði eru þrjár stoðir sem skipta mestu máli; kaupendur, byggingaraðilar og lánveitendur. Hlutverk stjórnvalda  er að tryggja að skipulag og umgjörð húsnæðismarkaðarins sé með þeim hætti að það ríki stöðugleiki, að byggingaraðilar geti tryggt jafnt og viðeigandi framboð, að almenningur hafi aðgang að lánsfé og að viðkvæmustu hópar samfélagsins og dreifðar byggðir njóti sérstaks stuðnings. Hlutdeildarlánin eru eitt púsl í þessa heildarmynd. (Þetta kemur fram á vef Stjórnarráðsins.)


Með Ásmundi Einari Daðasyni félags- og barnamálaráðherra í för eru (frá vinstri) Hermann Jónasson, forstjóri Íbúðalánasjóðs, Karl Björnsson, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga, Gunnhildur Gunnarsdóttir, skrifstofustjóri skrifstofu húsnæðis- og lífeyrismála hjá félagsmálaráðuneytinu, Arnar Þór Sævarsson, aðstoðarmaður félags- og barnamálaráðherra, Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR og Rún Knútsdóttir, deildarstjóri á húsnæðissviði Íbúðalánasjóðs. (Ljósmynd af vef Stjórnarráðsins)

Categories
Fréttir

Eru Sjúkratryggingar Íslands á „annarri bylgjulengd“ en venjulegt fólk?

Deila grein

18/09/2019

Eru Sjúkratryggingar Íslands á „annarri bylgjulengd“ en venjulegt fólk?

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi, spyr sig hvort það geti verið að Sjúkratryggingar Íslands séu á „annarri bylgjulengd“ en venjulegt fólk. eða hvort stofnunin sé undanþegin samþykktum og reglugerð framkvæmdavaldsins.

„Börn sem fæðast með skarð í vör eða gómi þarfnast margvíslegrar heilbrigðisþjónustu, meðal annars tannréttinga. Árið 2010 var gerð breyting á reglugerð sem varð til þess að þessi börn með skarð í vör eða gómi féllu ekki lengur undir greiðsluþátttöku vegna tannréttinga, nema í allra alvarlegustu tilfellunum,“ segir í frétt á visir.is í dag.

„Um áramótin tók gildi breyting á reglugerð sem átti að tryggja að þessi börn fengju styrk frá Sjúkratryggingum vegna tannréttinga. Þrátt fyrir þetta hefur stofnunin haldið áfram að synja umsóknum, segir Halla Signý.
„Þessu þarf auðvitað að kippa í liðinn,“ segir Halla Signý.

Categories
Fréttir

„Bossinn horfir bara á tölfræði“

Deila grein

18/09/2019

„Bossinn horfir bara á tölfræði“

Þórarinn Ingi Pétursson, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi, sagði í umræðum um störf þingsins í gær að yfirfara yrði mál embættis rískislögreglustjóra „frá öllum hliðum með það að markmiði að skapa traust innan lögreglunnar og umdæma hennar. Umdæmi lögreglunnar eru níu á landsvísu. Umdæmin eru fjölbreytt hvað stærð og íbúafjölda varðar. Sem dæmi má nefna að umdæmi lögreglunnar á Norðurlandi eystra eru 23.300 km² með liðlega 30.000 íbúa.“
„Starf lögreglumanna úti á landi er töluvert frábrugðið því starfi sem lögreglumenn á höfuðborgarsvæðinu sinna. Að þeirra sögn skortir verulega á skilning ríkislögreglustjóra á þeim fjölbreytileika sem starfið hefur upp á að bjóða hverju sinni. Eins og einn ágætur lögreglumaður sagði, með leyfi forseta: Bossinn horfir bara á tölfræði.“
„Nú legg ég traust mitt á dómsmálaráðherra. Endurskoðunar er þörf,“sagði Þórarinn Ingi.

Ræða Þórarins Inga Péturssonar á Alþingi 17. september 2019:


„Virðulegi forseti. Undanfarna daga og vikur hefur embætti ríkislögreglustjóra mikið verið í umræðunni og sitt sýnist hverjum. Það er mikilvægt að skoða málið frá öllum hliðum með það að markmiði að skapa traust innan lögreglunnar og umdæma hennar. Umdæmi lögreglunnar eru níu á landsvísu. Umdæmin eru fjölbreytt hvað stærð og íbúafjölda varðar. Sem dæmi má nefna að umdæmi lögreglunnar á Norðurlandi eystra eru 23.300 km² með liðlega 30.000 íbúa. Eðlilega starfa flestir lögreglumenn á höfuðborgarsvæðinu þar sem flestir íbúar landsins búa en á móti kemur að landsvæðið er ekki stórt miðað við stærð landsbyggðarumdæmanna. Starf lögreglumanna úti á landi er töluvert frábrugðið því starfi sem lögreglumenn á höfuðborgarsvæðinu sinna. Að þeirra sögn skortir verulega á skilning ríkislögreglustjóra á þeim fjölbreytileika sem starfið hefur upp á að bjóða hverju sinni. Eins og einn ágætur lögreglumaður sagði, með leyfi forseta: Bossinn horfir bara á tölfræði.
Notkun ökutækja er einn af lykilþáttum í framkvæmd löggæslu úti á landi. Þegar vel er að gáð er óhætt að segja að þau mál sé vert að endurskoða. Því hefur dómsmálaráðuneytið ákveðið að leggja niður bílamiðstöð ríkislögreglustjóra í núverandi mynd. Skipaður hefur verið starfshópur sem á að skoða framtíðarmöguleika í bílamálum lögregluembættanna um allt land. Ríkislögreglustjóri hefur rekið bílamiðstöð lögreglunnar og borið ábyrgð á rekstri, viðhaldi og endurnýjun allra ökutækja lögreglu ásamt öllum búnaði en lögregluembættin hafa leigt bílana af ríkislögreglustjóra.
Virðulegi forseti. Nú legg ég traust mitt á dómsmálaráðherra. Endurskoðunar er þörf.“

Categories
Fréttir

Breytum samfélaginu og fækkum gerendum sem virða ekki mörk

Deila grein

18/09/2019

Breytum samfélaginu og fækkum gerendum sem virða ekki mörk

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi, sagði í umræðum um störf þingsins í gær að nú væru „tvö ár frá því að byltingin hófst á samfélagsmiðlum þegar konur um allan heim greindu frá kynbundnu og kynferðislegri áreitni og ofbeldi sem fólk hafði löngum leitt hjá sér, hunsað eða þaggað niður. Á Íslandi birtu konur í stjórnmálum áskorun til stjórnmálanna undir yfirskriftinni #ískuggavaldsins og í kjölfarið létu hinir ýmsu hópar kvenna í sér heyra. Þar afhjúpaðist kynbundin og kynferðisleg áreitni og ofbeldi í öllum starfsstéttum, öllum aldurshópum og öllum landshlutum. Það er sannkallað þjóðfélagsmein.“
„Umræðan um kynferðislega áreitni og ofbeldi er opnari og frásögnum er frekar trúað. Nýjasta dæmið er tilkynning frá þjóðkirkjunni um bætta málsmeðferð slíkra mála og stöðu með þolendum.“
„Tilgangur umræðunnar er að halda áfram að breyta samfélagi og fækka gerendum sem virða ekki mörk,“ sagði Líneik Anna.

 Ræða Líneikar Önnu Sæavarsdóttur á Alþingi 17. september 2019:


„Virðulegi forseti. Í dag hefst í Hörpu þriggja daga alþjóðleg ráðstefna um #metoo undir yfirskriftinni „Moving Forward“ eða #églíka: Höldum áfram. Yfir 800 manns eru skráð til þátttöku og um 80 fyrirlesarar úr röðum fræðafólks, aktívista, stjórnmálamanna og sérfræðinga. Nú eru tvö ár frá því að byltingin hófst á samfélagsmiðlum þegar konur um allan heim greindu frá kynbundnu og kynferðislegri áreitni og ofbeldi sem fólk hafði löngum leitt hjá sér, hunsað eða þaggað niður. Á Íslandi birtu konur í stjórnmálum áskorun til stjórnmálanna undir yfirskriftinni #ískuggavaldsins og í kjölfarið létu hinir ýmsu hópar kvenna í sér heyra. Þar afhjúpaðist kynbundin og kynferðisleg áreitni og ofbeldi í öllum starfsstéttum, öllum aldurshópum og öllum landshlutum. Það er sannkallað þjóðfélagsmein.
Samkvæmt nýlegri rannsókn hefur ýmislegt breyst en margt er óunnið. Fyrirtæki hafa sett stefnu um að áreitni og einelti sé ekki liðið og verkferlar hafa verið skýrðir svo markvisst megi taka á málum. Á vinnustöðum hefur verið leitað til fagfólks, kannanir gerðar og haldin námskeið. Stjórnmálaflokkarnir settu á laggirnar samstarfsvettvang og hafa haldið fræðsluerindi og sameiginlega ráðstefnu.
Umræðan um kynferðislega áreitni og ofbeldi er opnari og frásögnum er frekar trúað. Nýjasta dæmið er tilkynning frá þjóðkirkjunni um bætta málsmeðferð slíkra mála og stöðu með þolendum. Á meðan umræðunni er haldið á lofti, og það verðum við að gera, er það ekki einungis hvatning um að koma fram og skila skömminni heldur um að bæta stöðugt vinnubrögð við úrlausn mála og setja og skýra viðmið í samskiptum.
Tilgangur umræðunnar er að halda áfram að breyta samfélagi og fækka gerendum sem virða ekki mörk.“

Categories
Fréttir

Áhersla á að greiða niður skuldir og minnka vaxtabyrði og þar með styrkja stöðu ríkissjóðs

Deila grein

17/09/2019

Áhersla á að greiða niður skuldir og minnka vaxtabyrði og þar með styrkja stöðu ríkissjóðs

Willum Þór Þórsson, alþingismaður Framsóknar í Suðvesturkjördæmi og formaður fjárlaganefndar, fór yfir, í 1. umræðu um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2020 á Alþingi, að í heildarmyndinni í samhengi hagstjórnar þá sé fjármálastefna og peningamálastefna að spila saman, alla vega séu „sterkari vísbendingar um slíkt samspil, að ríkisfjármálin og peningastefnan leggist á sömu sveif um að umgjörðin og breytingar sem við höfum gert á henni, þá er ég að tala um lög um opinber fjármál, sé til þess fallin í þessu tilviki, horfandi á þetta frumvarp, að mæta hjaðnandi hagvexti eða samdrætti, eftir því hvernig það fer. Það liggur fyrir og staðfestist í frumvarpinu,“ sagði Willum Þór.
Í vaxtaákvörðunum Seðlabankans í samspili við peningastefnuna sést að ábyrgir kjarasamningar hafa skapað þær forsendur að hægt sé að lækka vexti eins og Seðlabankinn hefur gert.
„Það má spyrja sig hvort ekki væri sama togstreitan uppi og fyrr varðandi ríkisfjármálastefnu og peningastefnu ef ekki væri fyrir skynsamlega ráðstöfun ríkisfjár, aukinn aga og fyrirsjáanleika, hvort slíkt samspil væri til staðar sem við sjáum í vaxtalækkunarferli Seðlabankans,“ sagði Willum Þór.
„Nú þegar dregur úr hagvexti hefði slíkt samspil auðvitað ekki verið mögulegt nema fyrir skynsamlega ríkisfjármálastefnu, markvissar áætlanir og fjárlög sem uppfylla grunngildi ríkisfjármála með áherslu á að greiða niður skuldir og minnka vaxtabyrði og þar með styrkja stöðu ríkissjóðs. Mér finnst þetta vera stóra myndin. Mér finnst þetta vera skilaboðin. Og þetta er mikilvægt í samhengi hagstjórnar,“ sagði Willum Þór.
***

Fjárlög 2020 – ræða Willum Þórs Þórssonar, alþingismanns og formanns fjárlaganefndar:


„Hæstv. forseti. Við fjöllum hér í 1. umr. um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2020. Frumvarpið hefur, held ég að megi segja, aldrei verið kynnt fjárlaganefnd og fjölmiðlum jafn snemma, þ.e. áður en það kemur á dagskrá þingsins. Það er að einhverju marki til marks um bætt vinnubrögð, skilvirkara ferli í öllu falli. Það hefur auðvitað þá kosti að þingmenn hafa meiri tíma til að kynna sér frumvarpið, sem er eðli máls viðamikið og spannar allt sviðið.
Þrátt fyrir að hafa haft meiri tíma en áður til að fara yfir helstu svið og flokka finnst mér við hæfi í 1. umr. að skoða heildarmyndina eins og hún birtist í formi gjalda og tekna og einnig áhrif og hlutverk ríkisfjármálastefnunnar í samhengi hagstjórnar, og mér finnst umræðan hafa verið svolítið þar í dag, hingað til alla vega, og máta hana við efnahagslega þróun í okkar hagkerfi, sem er að vissu marki háð því sem annars staðar gerist í okkar helstu viðskiptalöndum. Í greinargerð í kafla 2.3 með frumvarpinu er fjallað allítarlega um hagþróun í helstu viðskiptalöndum okkar. Eins finnst mér það eðlileg nálgun í umræðunni að tengja hana þeirri mynd sem við skildum við í umfjöllun um ríkisfjármálaáætlun fyrir tímabilið 2020–2024.
Í umfjöllun um fjármálaáætlun og samþykkt fjármálaáætlunar fórum við samhliða í breytingar á fjármálastefnu þar sem óvissusvigrúm var byggt inn í stefnuna. Það er til þess fallið að auka áreiðanleika þess að áætlanir haldi, sem skilar sér síðan inn í fjárlagafrumvarpið. Þetta er mikilvægt og fjármálaráð hefur margoft bent á það. Á þeim tíma var uppi óvissa í ferðaþjónustu um afdrif flugfélagsins WOW air og um loðnuveiðar og má segja að við höfum á þeim tíma sem við fjölluðum um málið, og hagspár voru að breytast hratt, upplifað skelli á framboðshliðinni.
Í samþykktri ríkisfjármálaáætlun er boðað að halda sig við fyrri áform um uppbyggingu og útgjöld og gefa eftir fyrirhugaðan afgang frá fyrri stefnu. Þetta fjárlagafrumvarp er í raun staðfesting á þeim áformum, sem er gríðarlega mikilvægt þegar við horfum til árangurs og hagstjórnar. Það hefur lengi verið gagnrýnt að fjármálastefna og peningamálastefna spili ekki saman. En nú sjáum við það gerast, alla vega eru sterkari vísbendingar um slíkt samspil, að ríkisfjármálin og peningastefnan leggist á sömu sveif um að umgjörðin og breytingar sem við höfum gert á henni, þá er ég að tala um lög um opinber fjármál, sé til þess fallin í þessu tilviki, horfandi á þetta frumvarp, að mæta hjaðnandi hagvexti eða samdrætti, eftir því hvernig það fer. Það liggur fyrir og staðfestist í frumvarpinu. Í þriðja lagi horfum við á sama tíma til vaxtaákvarðana Seðlabankans í samspili við peningastefnuna og sjáum að í raun hafa ábyrgir kjarasamningar skapað þær forsendur að hægt sé að lækka vexti eins og Seðlabankinn hefur gert. Meginvextir Seðlabankans hafa ekki verið lægri áður eins og fram hefur komið í umræðunni. Það má spyrja sig hvort ekki væri sama togstreitan uppi og fyrr varðandi ríkisfjármálastefnu og peningastefnu ef ekki væri fyrir skynsamlega ráðstöfun ríkisfjár, aukinn aga og fyrirsjáanleika, hvort slíkt samspil væri til staðar sem við sjáum í vaxtalækkunarferli Seðlabankans. Nú þegar dregur úr hagvexti hefði slíkt samspil auðvitað ekki verið mögulegt nema fyrir skynsamlega ríkisfjármálastefnu, markvissar áætlanir og fjárlög sem uppfylla grunngildi ríkisfjármála með áherslu á að greiða niður skuldir og minnka vaxtabyrði og þar með styrkja stöðu ríkissjóðs. Mér finnst þetta vera stóra myndin. Mér finnst þetta vera skilaboðin. Og þetta er mikilvægt í samhengi hagstjórnar.
Ég verð að taka fram hér mikilsvert framlag vinnumarkaðarins með ábyrgum kjarasamningum. Það samtal sem þeir aðilar áttu við ríkisstjórnina um framlag til þeirra samninga birtist nú í algjörlega nýrri hugsun og útfærslu á tekjuskatti einstaklinga með nýju grunnþrepi og innbyggðum neysluverðs- og framleiðniviðmiðum, þannig að launþegar munu njóta þess hagvaxtar þegar fram í sækir. Þessar aðgerðir létta skattbyrðinni mest af lægri tekjuhópum og millitekjuhópum. Það er mjög fróðlegt að líta aðeins á þá mynd hvernig þetta fer eftir mismunandi launum. Það er augljóst að skattbyrðin rénar í rúmlega 900.000 kr., frá lægstu launum. Mest lækkar hún í lægri tekjum og millitekjum. Það er mjög mikilvægt að horfa á raundæmi þar.
Þá má ekki gleyma hinni hlið vinnumarkaðarins, rekstrargrundvelli fyrirtækja. Þar er atvinnustigið undir og tryggingagjaldið vegur þungt í því efni. Það verður lækkað um 0,25 prósentustig, um sama hlutfall og á þessu ári. Þessar aðgerðir og fleiri til — það má nefna aðgerðir til lengingar fæðingarorlofs, hækkun barnabóta og hækkun skerðingarmarka barnabóta, aðgerðir í húsnæðismálum, uppbyggingu félagslegs húsnæðis, aukinn stuðning við fyrstu kaupendur, stuðningur við húsnæðisuppbyggingu á köldum svæðum — gera meira en að bæta hag og lífskjör. Allar eru þær til þess fallnar að jafna kjör og auka jöfnuð, sem við Framsóknarmenn leggjum mikla áherslu á í okkar stefnu og birtist svo um munar í þessu fjárlagafrumvarpi. Þetta er að finna einnig í sáttmála og aðgerðum ríkisstjórnarinnar.
Nú gefur ríkisstjórnin eftir, eins og ég kom að, fyrirhugaðan afgang frá fyrri stefnu, frá því að vera 0,9% af vergri landsframleiðslu, u.þ.b. 30 milljarðar, og skilar ríkissjóði í jafnvægi og getur á sama tíma haldið áfram að uppfylla loforð stjórnarsáttmála um auknar innviðafjárfestingar. Ég segi haldið áfram vegna þess að fjárfestingar hafa verið auknar allt kjörtímabilið frá ári til þess næsta, hlutfallslega mest til samgöngu– og fjarskiptainnviða. Áfram er áhersla á heilbrigðismál og efling velferðarmála er í forgangi, aukinn kraftur settur í uppbyggingu nýs meðferðarkjarna Landspítalans, en 8,5 milljarðar eru settir í verkefnið 2020. Það er mikilvægt við svo stóra framkvæmd að við fylgjumst vel með og að þær tefjist ekki vegna þess að allar tafir á slíku stórverkefni geti orðið kostnaðarsamar.
Hæstv. ríkisstjórn leggur áherslu á umhverfis- og loftslagsmál og leggur kapp á að koma í veg fyrir áhrif loftslagsbreytinga á lífríki og lífríki hafsins. Þar gegna rannsóknir lykilhlutverki og smíði nýs hafrannsóknarskips er mikilvægt framlag til að efla rannsóknir á því sviði. Ríkisstjórnin fylgir þessu eftir með raunverulegum aðgerðum, með uppbyggingu innviða, með grænum sköttum. Auðvitað eru slíkir skattar ávallt umdeildir en þeir eru hluti af því ef árangur á að nást. Þá dugar ekkert minna en raunverulegar aðgerðir og hvatar í þá veru og sameiginlegt átak. En þessum sköttum er ekki beinlínis ætlað að afla tekna heldur að vera hvati til þess að ná fram hraðari orkuskiptum í samgöngum.
Um leið og það er ánægjulegt að sjá áherslur stjórnarsáttmálans raungerast í fjármálaáætlun og svo fjárlagafrumvarpi í þeim verkefnum sem ég hef komið inn á í minni ræðu, forgangi og eflingu heilbrigðis- og velferðarþjónustu, heilbrigðisstefnu og þjónustu við landsmenn í forgrunni má auðvitað nefna margt annað. Hækkun á frítekjumarki atvinnutekna aldraðra þessu tengt, styrkingu heilsugæslunnar, aukin framlög til að draga úr tannlæknakostnaði aldraðra, átaki í samgönguframkvæmdum og stóraukin framlög til málaflokksins. Aukin framlög til byggðamála um uppbyggingu innviða, fjárfestingar ýmiss konar þessu tengdar, til löggæslu og landhelgisgæslu, þyrlukaup, aðgerðir á sviði umhverfis- og loftslagsmála. Og ég vil koma að lokum inn á nýsköpun, rannsóknir og menntamál þar sem við erum að leggja verulega til. Þar horfum við auðvitað til eflingar mannauðs, atvinnulífs og framtíðar hagvaxtar. Mikil sókn er í menntamálum og farið í raunverulegar aðgerðir til að hlúa að kennarastarfinu, fjármagna aðgerðir fyrir umgjörð lánasjóðsins til að auka aðgengi og jöfnuð námsmanna, aðgerðaáætlun fyrir tungumálið, stuðningur við bókaútgáfu og breytingar á rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla. Sjaldan eða bara aldrei fullyrði ég er menntun og menningu jafn sterkt á dagskrá og nú. Það er verið að auka framlög útgjöld til þessara mála í samræmi við sáttmála og áætlanir allt tímabilið og er aukning heildarútgjalda mismunandi eftir málaflokkum en 4,9% að raunvirði. Ef við skoðum málefnasviðin er hlutfallsleg aukning á tímabili ríkisstjórnarinnar mest til samgöngu– og fjarskiptamála.
Að lokum, virðulegi forseti, þetta: Með jafnvægi í ríkisfjármálum er stuðlað að áframhaldandi efnahagslegum stöðugleika og sjálfbærni ríkisfjármála.“

Categories
Fréttir

Kynning á sveitarstjórnarfólki Framsóknar – Díana Hilmarsdóttir

Deila grein

16/09/2019

Kynning á sveitarstjórnarfólki Framsóknar – Díana Hilmarsdóttir

Í Reykjanesbæ var Díana Hilmarsdóttir, forstöðumaður og bæjarfulltrúi, í öðru sæti á framboðslista Framsóknar í sveitarstjórnarkosningunum 2018. Díana er fædd á Skaganum, bjó fyrstu níu árin í Ólafsvík á Snæfellsnesi og lauk síðustu grunnskólaárunum í Garðabæ. Hún gekk í Kvennaskólann í Reykjavík en skellti sér svo til Bandaríkjanna í ár sem au pair. Díana bjó í höfuðborginni þegar hún kynntist manninum sínum, þau fluttu saman til Keflavíkur árið 2000. Díana er gift Önundi Jónassyni, véltæknifræðingi og Keflvíkingi og á þrjú börn, fædd 1997, 2003 og 2005. „Sá yngsti er í Heiðarskóla, dóttir mín fædd 2003 byrjaði í framhaldsskóla í haust og valdi Fjölbrautaskólann í Garðabæ. Elsti sonur minn er í námi í sálfræði við Delta State University í Cleveland í Missisippi í Bandaríkjunum auk þess að spila fótbolta og er hann á þriðja ári.“
Díana er forstöðumaður Bjargarinnar, geðræktarmiðstöðvar Suðurnesja. Þau hjónin skelltu sér í nám í Danmörku árin 2005 til 2009 þar sem Díana hóf nám í félagsráðgjöf og lauk því svo hér heima og er með BA-gráðu í félagsráðgjöf frá Háskóla Íslands. Díana lauk námi, vorið 2018, í fjármálum og rekstri frá endurmenntun Háskóla Íslands. Hún er í dag í diplómanámi í opinberri stjórnsýslu í fjarnámi við HÍ.

Hvers vegna stjórnmál?

Díana brennur fyrir velferðarmálum og þá sérstaklega geðheilbrigðismálum og vill þar sjá bætta þjónustu og auknar forvarnir. Hún vill einnig sjá gagngera endurskoðun á rekstri HSS og aðkomu heimamanna að starfseminni. Málefni aldraðra skipta Díönu miklu máli, fjölgun hjúkrunarrýma og að hjón geti verið saman út ævikvöldið þrátt fyrir mismunandi heilsufar. Díana er fjárhaldsmaður fyrir sjö einstaklinga skipuð af sýslumanni og hefur sinnt því frá árinu 2015.
„Ég hef alltaf talið mig ópólitíska en áttaði mig svo á því að ég væri mjög pólitísk, ég var með skoðanir á hinu og þessu og sérstaklega velferðarmálum, en taldi mér trú um að mitt álit skipti ekki máli og að ég gæti ekki haft áhrif á eitt eða neitt enda bara ein manneskja og hver ætti svo sem að hlusta? Svo er það – ég veit ekki hvað nákvæmlega gerðist en ég áttaði mig einn daginn: „Af hverju ekki ég, frekar en einhver annar?“ Ég er með reynslu og þekkingu á velferðarmálum og hef unnið í þeim málaflokki frá árinu 2010 – „teningunum er kastað“.“

„Tel mig hafa þá þekkingu og reynslu sem þarf“

„Ég er dugleg og brenn fyrir því sem ég geri. Ég er baráttumanneskja og ég er þrjósk en líka diplómatísk og réttsýn. Ég er ekki mikið fyrir rifrildi og leðjuslagi, ég vil að fólk og ólíkir hópar geti unnið saman með hagsmuni bæjarins að leiðarljósi. Ég er ný í pólitík og tel það mikinn kost þar sem ég er ómörkuð, ef svo má að orði komast. Mér þykir vænt um bæinn minn og ég vil taka þátt í að byggja hann upp og gera hann blómlegan og tel mig hafa þá þekkingu og reynslu sem þarf til þess. Við Framsóknarfólk erum trú okkur, fylgjum hjartanu og vinnum af heilindum. Við erum raunsæ og lofum ekki upp í ermina á okkur. Við komum til dyranna eins og við erum klædd.“
Díana vill einnig sjá sem best haldið utan um aðlögun íbúa af erlendum uppruna svo að þeir komist vel og örugglega inn í samfélagið.
Díana hefur endurvakið þverfaglegt teymi fagaðila í velferðarþjónustu og heilbrigðisþjónustu á Suðurnesjum. Með því að hafa sameiginlegan vettvang til umræðna geta þessir aðilar sinnt skjólstæðingum sínum betur. Meðal þeirra sem að teyminu koma eru félagsþjónusturnar á svæðinu, félagsleg heimaþjónusta, Björgin, geðteymi og fleiri deildir innan HSS.
Ásamt aðila frá Rauða krossinum er Díana að vonast til að geta hafist handa von bráðar hér á Suðurnesjum með „Frú Ragnheiði“ verkefni, líkt og starfrækt er í Reykjavík. Frú Ragnheiður er verkefni sem hefur skaðaminnkun að leiðarljósi og nær til jaðarhópa í samfélaginu eins og heimilislausra og vímuefnaneytenda. Ungu fólki í harðri neyslu fer því miður fjölgandi á Suðurnesjum en meðal þess sem Frú Ragnheiður gerir er að veita heilbrigðisráðgjöf, nálaskiptaþjónustu og skaðaminnkandi ráðgjöf um öruggari leiðir í sprautunotkun og smitleiðir á HIV og lifrarbólgu.

Áherslumál Framsóknar í Reykjanesbæ

Stjórnsýslan er lykilatriði til árangurs á öllum sviðum. B-listinn vill sérstaklega sjá meira samtal við bæjarbúa, meira gegnsæi og meiri samvinnu. • Við þurfum að tryggja að íbúar okkar njóti góðs af nálægð við alþjóðaflugvöllinn. • Við ætlum að efla ímynd svæðisins og laða að okkur fjölbreyttari atvinnurekstur, ekki síst sem veitir góð störf fyrir fólk með menntun. • Við viljum sjá stóreflingu ferðaþjónustu á Reykjanesinu öllu en ekki síst tryggja hagsmuni Reykjanesbæjar í þessum málaflokki. • Gildi íþrótta þegar kemur að forvörnum fyrir börn og unglinga er margsannað, auk þess sem öflugt íþróttastarf veitir öllum bæjarbúum innblástur til heilsueflingar og heilbrigðs lífsstíls. • Reykjanesbær er menningarbær og við getum verið stolt af frábærum verkefnum, hátíðum og árlegum viðburðum í þeim málaflokki. Við viljum efla það góða menningarstarf enn frekar. • Reykjanesbær hefur náð góðum árangri í menntamálum og mjög mikilvægt að það góða starf festi sig í sessi. Í Reykjanesbæ starfa hæfir og áhugasamir kennarar, sú auðlind verður seint metin til fjár. • Líkamlegt og andlegt heilbrigði er undirstaða hamingjuríks lífs og við megum ekki gleyma til hvers allt þetta er: svo við getum notið lífsins með þeim sem okkur þykir vænt um.

Fréttir og greinar

„Fátt skemmtilegra en að ferðast“

Díana segist vera þessi klassíski dugnaðarforkur og alltaf að. „Ég veit fátt skemmtilegra en að ferðast. Hann Önundur minn er ættaður úr Dölunum og förum við árlega í leitir og réttir með stórfjölskyldunni sem er alveg dásamlegt. Ég æfði einnig fótbolta á yngri árum og finnst gaman að fylgjast með fótbolta í dag, fer á leiki og held með Liverpool í enska boltanum. Það hefur verið draumur hjá mér í mörg ár að fara út í sjálfboðastarf sem hefur smitast yfir til dóttur minnar og stefnum við að því  að láta þann draum rætast og fara í lágmark 6 vikur þegar hún útskrifast út framhaldsskóla.
Sá litli frítími sem gefst fer í að lesa góðar bækur, ræktina og sund en fyrst og fremst í að njóta tíma með fjölskyldunni heima fyrir. Svo er ég nammigrís og finnst fátt betra en snakk, bland í poka og góð mynd á laugardagskvöldi.
Hreindýrakjöt og humar er uppáhaldsmaturinn minn.“

Categories
Fréttir

Leiðarljósið verður samvinna og samfélagsleg ábyrgð

Deila grein

16/09/2019

Leiðarljósið verður samvinna og samfélagsleg ábyrgð

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi, segir leiðarljósið vera samvinnu og samfélagslega ábyrgð í verkum Þingflokks Framsóknarmanna á Alþingi í vetur. Unnið verði að bættum hag fjölskyldna af festu svo þær njóti skilvirkari þjónustu og farsælla samfélags. Lykillinn að árangri sé samvinna. Þetta kemur fram í grein hennar í Morgunblaðinu á dögunum.
„Fé­lags- og barna­málaráðherra vinn­ur að um­bót­um á fæðing­ar­or­lofs­kerf­inu til að auka rétt for­eldra með leng­ingu or­lofs, hækk­un á mánaðarleg­um há­marks­greiðslum og end­ur­skoðun á for­send­um greiðslna,“ segir Líneik Anna.
„Heild­stæðar aðgerðir mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra hafa skilað sér í stór­auk­inni aðsókn að kenn­ara­námi sem und­ir­bygg­ir enn öfl­ugra mennta­kerfi til framtíðar. Í haust verður lagt fram frum­varp sem mun um­bylta lánaum­hverfi náms­manna.“

Categories
Fréttir

„Við höfum tækifæri til að verða sjálfbærari með orku“

Deila grein

16/09/2019

„Við höfum tækifæri til að verða sjálfbærari með orku“

Silja Dögg Gunnarsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Suðurkjördæmi, hefur lagt fram á Alþingi þingsályktun um að mótaðir verði efnahagslegir hvatar til ræktunar orkujurta á Íslandi. Þetta kemur fram í yfirlýsingu hennar í dag.
„Við höfum tækifæri til að verða sjálfbærari með orku. Gætum jafnvel knúið stóran hluta fiskiskipaflotans með lífdíselolíu unna úr íslenskum orkujurtum. Einnig verða til hliðarafurði af jurtunum sem nýtast sem fóður og áburður. Umhverfisáhrif af ræktun orkujurta er einnig verulega jákvæð, ekki síst vegna þess að með ræktun þeirra gætum við fækkað kolefnisfótsporum með því að minnka innflutning á fóðri, díselolíu og áburði,“ segir Silja Dögg.