Categories
Fréttir

,,Hækkun skatta á eldsneyti og ferðaþjónustu mun bitna mest á landsbyggðinni"

Deila grein

14/09/2017

,,Hækkun skatta á eldsneyti og ferðaþjónustu mun bitna mest á landsbyggðinni"

,,Hæstv. forseti. Góðir landsmenn. Hér situr ríkisstjórn sem ætlaði ekki að hækka skatta. Nú er hins vegar útlit fyrir að ríkisstjórnin, undir forystu Sjálfstæðisflokksins, ætli sér að setja Íslandsmet í skattahækkunum. Já, svo bregðast krosstré sem önnur tré. Hæstv. forsætisráðherra Bjarni Benediktsson skautaði fimlega frá þeirri skattstefnu í ræðu sinni hér fyrr í kvöld eins og hans er von og vísa. Honum varð tíðrætt um góðar horfur í efnahagsmálum en hafði þó töluverðar áhyggjur af stöðugleikanum vegna fyrirséðra kjaraviðræðna.
Sú sem hér stendur var sammála ráðherra að sumu leyti, m.a. því að við þurfum að sýna þolinmæði varðandi uppbyggingu innviða og, jú, það er mikilvægt að halda stöðugleikanum því að það er okkur öllum fyrir bestu. Að öðru leyti þótti mér ræðan heldur innihaldsrýr og alls ekki innblásin af þeim metnaði og þeirri ástríðu sem maður teldi að forsætisráðherra í svo til nýrri ríkisstjórn ætti að hafa við afgreiðslu sinna fyrstu sameiginlegu fjárlaga.
Eftir að hafa lesið fjárlagafrumvarpið og farið yfir tillögur fjármálaráðherra í skattamálum, t.d. varðandi hækkun skatta á eldsneyti og hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustu sem ég tel að muni koma sér sérlega illa fyrir dreifðari byggðir og minni fyrirtæki, skil ég vel hvers vegna hæstv. forsætisráðherra er ekki í essinu sínu hér í kvöld. Ég skil líka vel að hans fólki í þingflokki Sjálfstæðisflokksins líði hreint ekki vel þegar það reynir að ímynda sér hvernig verður að sitja í þingsalnum eftir nokkrar vikur og ýta á græna takkann þegar atkvæðagreiðslur um fjárlög 2018 fara fram. Sannleikurinn er nefnilega sá að fólk hefur ekki þá sannfæringu sem til þarf svo hægt sé að fylgja slíkri efnahagsstefnu eftir.
Skattahækkanir voru ekki það sem kjósendum Sjálfstæðisflokksins var lofað. Var kjósendum Viðreisnar lofað skattahækkunum? Hvað með kjósendur Bjartrar framtíðar? Vissu þau að skattar yrðu hækkaðir og það á sama tíma og ríkissjóður skilar 44 milljörðum í afgang, 19 milljörðum meira en gert var ráð fyrir?
Hæstv. fjármálaráðherra: Vantar okkur í alvöru pening miðað við allan þennan afgang? Hvernig ætla menn sér að réttlæta þessar gríðarlegu skattahækkanir, vísitöluhækkanir í kjölfarið og kaupmáttarskerðingar sem fram undan eru ef þessi stefna verður samþykkt? Hvernig ætlar ríkisstjórnin að lifa af heilan þingvetur? Og ég spyr þrátt fyrir að hafa ekki enn nefnt risastór ágreiningsmál innan ríkisstjórnar, eins og framtíð krónunnar, Evrópusambandið, framtíð sauðfjárbúskapar í landinu og matvælaframleiðslu almennt.
Hæstv. forseti. Góðir áheyrendur. Mig langar að vitna í viðtal sem birtist á mbl.is í dag við Runólf Ólafsson, framkvæmdastjóra FÍB. Hann bendir á að miðað við fyrirhugaðar skattbreytingar hækki dísilolían um 21 kr. á lítra og bensín um 9 kr. á lítra. Miðað við venjulega notkun á fjölskyldubíl aukast útgjöld á fjölskyldu sem á einn bíl um 30.000–60.000 kr. Vegna slíkra útgjalda þarf að vinna sér inn u.þ.b. 50.000–90.000 kr. í tekjur til að eiga fyrir hækkuninni. Miðað við þessar tölur fer hækkun til örorku- og ellilífeyrisþega fyrir lítið þar sem gert er ráð fyrir að lágmarksfjárhæð á einstakling sem býr einn hækki úr 280.000 í 300.000 kr., 20.000 kr. viðbót. Ég geri einnig ráð fyrir að skattahækkanirnar eigi eftir að hafa verulega neikvæð áhrif á kjaraviðræðurnar.
Samkvæmt frumvarpinu eiga tekjurnar af skattahækkunum eldsneytis ekki að renna til uppbyggingar á samgöngum. Nei, ríkisstjórnin gæti hins vegar vel hugsað sér vegtolla.
Eldsneyti vegur einnig mjög þungt í vísitölunni. Það þýðir að húsnæðislánin okkar allra munu hækka. Kaupmáttaraukningin virðist ætla að fara fyrir lítið sem og stöðugleikinn með þessari glórulausu stefnu.
Virðulegi forseti. Er þetta í alvöru sú leið sem almenningur taldi sig vera að samþykkja í síðustu alþingiskosningum? Eða er þetta allt saman einn hrikalegur misskilningur?”
Silja Dögg Gunnarsdóttir í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra, 13. september 2017.

Categories
Forsíðuborði Fréttir

„Stóru málin liggja í láginni hjá ríkisstjórninni“

Deila grein

13/09/2017

„Stóru málin liggja í láginni hjá ríkisstjórninni“

„Frú forseti. Góðir landsmenn. Ekki er hægt að segja að sú ríkisstjórn sem nú situr við völd sé líkleg til mikilla afreka.
Stjórnarsáttmálinn er sem kunnugt er þunnur þrettándi. Lítið hefur til ríkisstjórnarinnar spurst í sumar, hún er lítt sýnileg og flýtur sofandi að feigðarósi á meðan málin stór og smá bíða afgreiðslu og úrlausnar.
Árangur og horfur í efnahagmálum eru sannarlega góðar en koma ekki af sjálfu sér. Árangur næst með samvinnu, samstöðu, markvissri vinnu og úthaldi og á fyrri ríkisstjórn mikinn þátt í þeim árangri sem náðst hefur. Fyrirséð er að áfram verði vöxtur í þjóðarframleiðslu og því þarf að nýta tímann vel til að uppbyggingar, fyrir almenning, fyrir fólkið í landinu.
Það er rétt sem kom fram hjá hæstv. forsætisráðherra að það þarf þolinmæði til að byggja upp innviði. Ef ekki núna, hvenær þá? Að mati okkar framsóknarmanna er tækifærið núna að efla grunnþjónustu og byggja upp.
Grunntónn í ræðu hæstv. forsætisráðherra gefur ekki beinlínis til kynna að það eigi að nýta nokkra tugi milljarða afgang á ríkissjóði til að búa heilbrigðis-, mennta- og samgöngukerfið í haginn fyrir framtíðina.
Heilbrigðisstofnanir og skólar þurfa öfluga uppbyggingarstefnu ekki stöðnun.
Landsmenn vilja fjölbreytta þjónustu í takt við þarfir á hverjum tíma óháð búsetu, og aðgengi má ekki takmarka út frá efnahag fólks.
Til að takast á við áskoranir framtíðarinnar er lykilatriði að menntun sé fjölbreytt og ýtt sé undir nýsköpun þannig að okkar stærsta auðlind, mannauðurinn fái að njóta sín. Byggja þarf þekkingarbrú á milli skóla og atvinnulífs á öllum skólastigum.
Ríkisstjórnin virðist heldur ekki ætla að nota ríkulegan afgang til að fjárfesta í samgöngum sem er ein mikilvægasta fjárfesting sem við stöndum frammi fyrir sem þjóð, en vegakerfið er víða bágborið.
Stöðu aldraða þarf að bæta áfram og nýta þá vinnu sem unnin var á síðasta kjörtímabili. Þau sem ruddu brautina fyrir okkur sem yngri erum eiga að njóta virðingar, jafnræðis og sanngirni. Við framsóknarmenn viljum að þeim sé gert auðveldara að taka virkan þátt í samfélaginu með því að taka strax upp sveigjanleg starfslok og að hækka frítekjumörk.
Þá eiga nýlegar lagabreytingar í húsnæðismálum að leiða til byltingar og vera aðstoð við kaup á fyrstu fasteign og tryggja ódýrara leiguhúsnæði. Boltinn er m.a. hjá sveitarfélögunum.
Gallinn er hins vegar sá að stærsta sveitarfélagið Reykjarvíkurborg virðist aðeins hafa áform um að byggja nýjar íbúðir gegnum glærusýningar.
Þó staða efnahagsmála sé góð, er að mati okkar framsóknarmanna, ein stærsta áskorun okkar í efnahagsmálum okurvextir og óeðlilegar sveiflur í gengi. Rannsaka þarf samspil hárra vaxta og gengis til að koma í veg fyrir óeðlilegar sveiflur og fyrirbyggja skaðleg áhrif á útflutningsatvinnugreinar. Agi og samvinna þarf að ríkja á milli nýrrar peninga- og fjármálastefnu til að tryggja þann stöðugleika sem grunnur var lagður að í tíð síðustu ríkisstjórn.
Við viljum einnig sjá uppstokkun á bankakerfinu. Bankakerfið á að þjónusta heimili og fyrirtæki. Hinn almenni neytandi þarf að geta treyst því að eftirlitið sé virkt og aðhald sé gagnvart fjármálastofnunum. Margt hefur áunnist í að endurvekja traust, en þónokkuð er í land.
Þessu tengt þá sendi, sá sem hér stendur, fyrirspurn til hæstv. forsætisráðherra um eignasafn Seðlabankans, og fékk til baka frekar fátækleg svör um hverjir hafi sinnt þjónustu fyrir bankann og keyptu eignir.
M.ö.o. almenningur fær ekki að vita hverjir keyptu, á hversu mikið, né hvernig þær voru greiddar.
Á sama tíma opna ráðuneytin bókhaldið. Er eðlilegt að Seðlabankinn geti skýlt sér á bak við bankaleynd þegar hann höndlar með eigur almennings?
En stærstu málin um ókomna framtíð eru án efa loftslagsmálin. Ríkisstjórnin vinnur nú að Sóknaráætlun sem lögð var fram í tíð síðustu ríkisstjórnar á grunni Parísarsamkomulagsins. Mikilvægt er að styðja vel við nýsköpun, fjárfestingar og þróa áframhaldandi þekkingu til að flýta fyrir nauðsynlegum tæknibreytingum á endurnýjanlegri orku.
Virðulegir forseti. Það dylst engum að hæstv. forsætisráðherra á í verulegum vanda með að hafa stjórn á litlu samstarfsflokkunum. Eins og stóri bróðir leyfir hann þeim að stökkva fram með yfirlýsingar en slær svo á puttana afleiðingin er óljós stefna, óskýr skilaboð.
Björt Framtíð sem virðist vera verkfælin varð þó ekki latari en svo í sumar að umhverfisráðherra notaði þingsal í auglýsingaskyni fyrir einkafyrirtæki og braut siðareglur ráðherra. Síðasta ríkisstjórn setti siðareglur til þess að eftir þeim yrði farið. Heilbrigðisráðherra sem á að stýra einu viðamesta ráðuneytinu, gleymdi að taka iðjusama íkornann og útsjónarsemi hans sér til fyrirmyndar.
Fjármálaráðherra – sem stundum hefur verið sagður í hagsmunagæslu fyrir fjármálaöflin – gerði tilraun til að auka tekjur kortafyrirtækja og banka með því að afnema tíu þúsund króna seðilinn. Rök fjármálaráðherra voru þau að koma átti í veg fyrir að almenningur sviki undan skatti. Á sama tíma keppast ráðherrar og þingmenn Viðreisnar um að tala niður krónuna og vilja taka upp evru en þar er stærsti seðilinn 500 evrur eða um 65 þús. kr.
Góðir landsmenn. Það er engu líkara en ríkisstjórnin sé á sjálfstýringu. Stefnu- og ráðaleysið er algert og þegar tillögur eða aðgerðir koma fram þá er undir hælinn lagt hvar þær lenda. Stóru málin liggja í láginni hjá ríkisstjórninni.
Það er okkar stjórnmálamannanna að berjast fyrir breytingum til að hlúa að undirstöðuatvinnugreinum og fjölga störfum með nýsköpun og menntun.
Ég fæ ekki betur séð en að landbúnaðarráðherra sé að þrengja svo að íslenskri matvælaframleiðslu og að það stefni í algjört hrun í greininni og afleiddum störfum víðsvegar um land.
Sjálfstæðisflokkurinn samþykkir þegjandi og hljóðalaust en ber ábyrgðina!
Svipaða sorgarsögu er að segja af nýlegri skýrslu ráðherra í fiskeldismálum, þar sem niðurstaðan er sett fram án fullnægjandi greiningar og störfum beinlínis sópað undir teppið. Auðvitað eigum við að fara varlega og tryggja með öllum ráðum hlut villtra laxastofna eins og við höfum áður gert t.a.m. árið 2004 með lokun allra helstu fjarða og flóa og árið 2015 með því að setja ýtrustu kröfur inn í ný lög og reglur um fiskeldi.
Góðir landsmenn. Við framsóknarmenn teljum að staðan sé víða mjög góð og mikil tækifæri í að hér haldi áfram skynsamlegur vöxtur. Hins vegar þarf aðra stjórnarstefnu.
Við höfum efni á því að búa betur að þeim sem minna mega sín í samfélaginu.
Þá eru tækifæri til uppbyggingar víða um land þrátt fyrir þenslu, en nýleg skýrsla Byggðastofnunar sýnir að hagvöxtur er mjög mismunandi eftir landshlutum. Á Vestfjörðum var hann t.d. neikvæður um 6% á árunum 2008-2015, á meðan hann var jákvæður í öllum öðrum landshlutum mismikið þó.
Með sömu þjónustu og aðstæðum, alls staðar á landinu okkar, er samfélagið Ísland sterkara.
Við eigum að treysta sveitarfélögunum fyrir því að byggja upp sjálfbær samfélög. T.a.m. er umræðan á Vestfjörðum skiljanleg og væntanlegur íbúafundur þann 24. september liður í því að sá landshluti segi: „Við viljum hafa það í okkar höndum að byggja upp sjálfbæra atvinnu, samgöngur og hafa aðgang að rafmagni“.
Okkur framsóknarmönnum virðist að þar segi ríkisstjórnin pass.
Í öllum landshlutum fer nú fram slík umræða af því ríkisstjórnin er áhugalaus, aðgerðalaus og stefnulaus um að byggja upp allt landið.
Þessu þarf að breyta. Einkunnarorð ríkisstjórnarinnar, jafnvægi og framsýni, eru fögur orð á blaði, en fjarri raunveruleikanum því hún beinir sjónum sínum að þeim sem fjármagnið eiga. Því kemur það ekki á óvart að stuðningur við ríkisstjórnina sé sögulega lítill.
Því segjum við framsóknarmenn tökum nú saman höndum tryggjum hag þeirra sem verst standa nýtum tímann og góðan efnahag í að byggja upp án þess að auka þensluna. Það er hægt.
Góðar stundir.“
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar, í umræðu á Alþingi um stefnuræðu forsætisráðherra 13. september 2017.

Categories
Forsíðuborði Fréttir

Þingflokkur Framsóknarflokksins við upphaf 147. löggjafarþings

Deila grein

12/09/2017

Þingflokkur Framsóknarflokksins við upphaf 147. löggjafarþings



Myndin af þingflokknum var tekin 12. september 2017 í Alþingisgarðinum fyrir aftan Alþingishúsið. Garðurinn er elsti íslenski almenningsgarðurinn sem hefur varðveist í upprunalegri mynd.
Á myndinni eru frá hægri: Eygló Harðardóttir, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Elsa Lára Arnardóttir, Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður, Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður, Þórunn Egilsdóttir, þinflokksformaður, Gunnar Bragi Sveinsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson

Categories
Forsíðuborði Fréttir

Framsókn á Fundi fólksins

Deila grein

10/09/2017

Framsókn á Fundi fólksins

Framsóknarflokkurinn stóð fyrir viðburði á Fundi fólksins sem fram fór um helgina í Hofi á Akureyri. Viðburðurinn bar yfirskriftina Framtíðarmenntunin. Hvernig vinnum við með vélmennum? Líflegar og góðar umræður áttu sér stað og sneru um að finna leiðir til að efla nemendur til að takast á við framtíðina, en á næstu árum munu fjölmörg störf hverfa á meðan ný koma að einhverju leyti í staðinn.
Fyrirsjáanlegt er að tækniþróunin verði hröð og því þarf hugarfarsbreytingu um hvernig við getum stuðlað að menntun og nýsköpun í takt við þarfir framtíðar. Á fundinum kom fram að mikilvægt er að menntun taki breytingum með þróun atvinnulífs og starfsgreina að leiðarljósi. Róbert Guðfinnsson, frumkvöðull flutti áhugavert erindi um rannsóknir, vöruþróun og fjárfestingar. Þá var Inga Eiríksdóttir kennari við Menntaskólann á Tröllaskaga með fróðlegt erindi um nýtt fag sem er kennt við skólann og ber þann dularfulla titil vélmennafræði þar sem kennd er samsetning og forritun á hinum ýmsum vélmennum.
Þá voru í pallborði Soffía Gísladóttir forstöðumaður Vinnumálastofnunar á Norðurlandi og Jón Þór Sigurðsson umsjónarmaður FAB Lab smiðju í VMA. Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins flutti síðan lokaorð og samantekt. Fundarstjóri var Þórunn Egilsdóttir, þingflokksformaður.

Categories
Forsíðuborði Fréttir

Stjórnmálaskóli fyrir konur af erlendum uppruna – A Class in Politics, for Immigrant Women

Deila grein

06/09/2017

Stjórnmálaskóli fyrir konur af erlendum uppruna – A Class in Politics, for Immigrant Women

Langar þig að bjóða þig fram til Alþingis eða kynnast íslenskum stjórnmálum? Viltu kynnast öðrum konum af erlendum uppruna sem hafa áhuga á stjórnmálum?

Vertu velkomin á námskeið Kvenréttindafélags Íslands fyrir konur af erlendum uppruna um stjórnmál og pólitískt starf.
Á námskeiðinu verður farið yfir starf og stefnumál helstu stjórnmálaflokka og hagsmunasamtaka, farið yfir „óskrifaðar reglur“ stjórnmálanna, framsaga og ræðuhöld kennd og unnið að tengslamyndun þátttakenda. Í lok námskeiðsins gengur þú út með áætlun um hvernig þú getur breytt samfélaginu!
Námskeiðið tekur 7 vikur og kennt er á mánudagskvöldum. Þátttökugjald er EKKERT.
2. október 2017
Kynning
9. október 2017
Pólitík í víðari skilningi. Hvar er hægt að bjóða sig fram og hafa áhrif, t.d. í félagsstarfi, stéttarfélögum, hverfastarfi, o.s.frv.
16. október 2017
Heimsókn frá stjórnmálaflokkum I. Kynning á stærstu flokkum landsins og flokkastarfi
23. október 2017
Heimsókn frá stjórnmálaflokkum II. Kynning á stærstu flokkum landsins og flokkastarfi
30. október 2017
Framsaga, ræðuhöld og sjálfsstyrking
6. nóvember 2017
Rætt við konur af erlendum uppruna sem hafa tekið þátt í pólitík
13. nóvember 2017
Lokakvöld. Þátttakendur ræða framtíðaráform sín.
Kennt er á íslensku, en hægt er að taka þátt í umræðum á ensku.
Tímabil: 2. október til 13. nóvember 2017
Staður og tími: Hallveigarstaðir, Túngata 14, 101 Reykjavík, mánudaga kl. 19:00–21:00.
Umsjón: Sabine Leskopf, varaborgarfulltrúi
Skráðu þig: https://kvenrettindafelag.is/politik
Námskeiðið má einnig finna sem viðburð á facebook á íslensku, ensku og pólsku
Námskeiðið er styrkt af Þróunarsjóði innflytjendamála
***
Do you want to run for Parliament or just find out more about how politics in Iceland work? Do you want to meet other immigrant women who are interested in politics?
Join us at training course in politics hosted by the Icelandic Women’s Rights Association.
This course will introduce you to the largest political parties and associations in Iceland and teach you how to quickly start working within your chosen party. You will learn the inner workings and “unwritten rules” of Icelandic politics, practice how to speak clearly and publicly, and get the opportunity to meet other women who share your interests in politics. By the end of the course, you will have a concrete plan on how you can change society!
The course lasts seven weeks and classes are taught on Monday evenings.
This course is FREE.
2 October 2017
Introduction
9 October 2017
Spheres of influence in Iceland. Running for office at the country and local levels and in boards of labor unions and other associations
16 October 2017
Visits from representatives from Iceland’s political parties I. Introducing the policies and inner workings of different parties, and how to join
23 October 2017
Visits from representatives from Iceland’s political parties II. Introducing the policies and inner workings of different parties, and how to join
30 October 2017
Public speaking and self confidence
6 November 2017
Meeting with immigrant women who are active in politics
13 November 2017
Final class. Discussing future plans of participants.
Classes are taught in Icelandic, but you can join the discussion in English as well.
Time Period: 2 October to 13 November 2017
Place and Time: Hallveigarstaðir, Túngata 14, 101 Reykjavík, Mondays at 7 p.m. to 9 p.m.
Moderator: Sabine Leskopf, deputy city councillor in Reykjavík
Register here: https://kvenrettindafelag.is/politik
The class can also be found as a Facebook event in icelandic, english and polish.
The class is funded by Þróunarsjóður innflytjendamála

Categories
Fréttir

Vegleg gjöf til Framsóknarflokksins

Deila grein

29/08/2017

Vegleg gjöf til Framsóknarflokksins

Hér er mynd af Eggerti B. Ólafssyni, syni Ólafs H. Bjarnasonar, fóstursonar Þorsteins Jónssonar er starfaði sem kaupfélagsstjóri í Hermes á Búðareyri við Reyðarfjörð á árunum 1917-61.
Á heimili Ólafs var Tíminn alltaf keyptur. Ólafur hóf svo að binda blöðin inn í kringum árið 1970. Við flutninga í minna húsnæði ákvað Eggert B. Ólafsson að færa Framsóknarflokknum þetta að gjöf.
Við afhendingu í morgun sagði Eggert að sárt væri að láta þetta af hendi, en að gott væri að vita af þessu í öruggum höndum.
Framsóknarflokkurinn þakkar Eggerti og fjölskyldu kærlega fyrir þessa myndarlegu gjöf.

Categories
Fréttir

Vinnuhópur tekur að sér stefnumótun í ferðaþjónustu

Deila grein

13/07/2017

Vinnuhópur tekur að sér stefnumótun í ferðaþjónustu

Framkvæmdarstjórn Framsóknarflokksins hefur sett af stað vinnuhóp við að móta tillögur til stefnumótunar fyrir sjálfbæra ferðaþjónustu. Hópurinn er tilkominn vegna ályktunar á vorfundi miðstjórnar flokksins.
Hópinn skipa fulltrúar og ferðaþjónustuaðilar með víðtæka reynslu úr ferðaþjónustu vítt og breitt um landið. Tilgangur hans er að móta tillögur sem miða að því að bæta framleiðni í greininni, tryggja sjálfbærni, auka skilvirkni, nýsköpun og þjálfun.
Það er fagnaðarefni að fá svona öflugt fólk, með reynslu úr ferðaþjónustu og er eða hefur verið í miklum samskiptum við ferðamanninn sjálfan, til að takast á við þetta brýna verkefni. Ríkisstjórninni hefur ekki auðnast að taka mikilvægar ákvarðanir tengdar greininni sem miða að því að skapa umhverfi sem gefur möguleika á vel launuðum störfum. Þá liggur fyrir að taka þarf ákvarðanir um dreifingu ferðamanna um landið og hvernig eigi að standa að gjaldtöku“, segir Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins.
Ör vöxtur og stefnuleysi í ferðaþjónustu getur auðveldlega haft neikvæð áhrif á efnahags- og umhverfislega þætti. Brýnt er því að móta framtíðarstefnu sem byggir á sérstöðu landsins, náttúrunni, sameiginlegri sögu og menningu.
Vandamálin eru fjöldamörg. Auknar líkur eru á því að arðsemi minnki og fleiri láglaunastörf verði til í landinu ef ferðamönnum fjölgar meira en hægt er að sinna með góðu móti. Við ofnýtingu auðlinda er hætt við því að einsleit ferðamennska fylgi í kjölfarið með ferðamönnum sem hafa lægri kaupmátt en ella. Sérhæfingu og fjölbreytni starfa yrði ógnað í ferðaþjónustu sem og öðrum útflutningsgreinum.
Ef ferðamönnum fækkar þá óhjákvæmilega fækkar störfum sem kemur verst niður á landsbyggðinni.
Ákvarðanir um einstök mál hafa setið á hakanum of lengi. Til að mynda hvernig hægt er að ná meiri dreifingu ferðamanna um landið og hvort taka eigi gjald á ferðamannasvæðum eða ekki.
Framsóknarflokkurinn hefur talað fyrir komugjöldum. Þau hafa ekki áhrif á hvort ferðamaðurinn stoppar t.d. í þrjá daga eða þrjár vikur. Fyrirvaralausar álögur eins og lagðar voru fram nú í vor hefðu án efa komið harðast niður á landsbyggðinni sem hefur oftar en ekki þurft að horfa á eftir störfum yfir í þéttari byggðir. Þess vegna er svo brýnt að fjölga ferðamönnum á austurlandi, norðurlandi og vesturlandi því þar er sannarlega þörf á nýjum viðskiptavinum í verslun og þjónustu.
Hópurinn mun m.a. horfa til eftirfarandi atriða:
• Hvernig getur ferðaþjónustan viðhaldið samkeppnishæfni sinni betur borið saman við önnur lönd og skapað aukin verðmæti?
• Hvernig getur landsbyggðin búið sér til atvinnutæki og fjölgað heilsársstörfum í ferðaþjónustunni?
• Hvaða innviði þarf að styrkja í ferðþjónustu svo greinin geti vaxið og dafnað á heilsársvísu og orðið blómleg atvinnugrein til lengri tíma?
Hópinn skipa:
Formaður: Einar Freyr Elínarson, ferðaþjónustubóndi
Einar G. Bollason, fyrrum framkvæmdarstjóri
Fjóla Hrund Björnsdóttir, stjórnmálafræðingur, starfar við ferðaþjónustu
Gréta Björg Egilsdóttir, vararborgarfulltrúi
Karl Garðarsson, framkvæmdarstjóri
Lilja Sigurðardóttir, sjávarútvegsfræðingur
Pétur Snæbjörnsson, landeigandi og hótelstjóri
Sigurlaug Gissurardóttir, ferðaþjónustubóndi
Snorri Eldjárn Hauksson, sjávarútvegsfræðingur
Sólborg L. Steinþórsdóttir, hótelstjóri
Viggó Jónsson, framkvæmdarstjóri skíðadeildar
Þórður Ingi Bjarnason, ferðamálafræðingur
Þórey Anna Matthíasdóttir, sérfræðingur í ferðaþjónustu og leiðsögumaður

Categories
Fréttir

Hátíðarræða formanns 17. júní 2017

Deila grein

20/06/2017

Hátíðarræða formanns 17. júní 2017

Kæru sveitungar og gestir – gleðilega þjóðhátíð!
Það er margt sem gaman væri að tala um hér í dag. Á stundum sem þessum horfum við gjarnan um öxl og vegum og metum, hvort við höfum gengið götuna áfram til góðs í gegnum árin og áratugina. Á því er engin vafi, í mínum huga, að nú um stundir er velsæld þjóðarinnar, mæld á efnahagslega mælistiku, meiri en nokkru sinni áður á lýðveldistímanum. Þeim árangri má þakka mörgu og mörgum.  Ekki síst þeim kynslóðum sem á undan okkur fóru og skópu jarðveginn fyrir það nútíma Ísland sem við þekkjum í dag. Á þjóðhátíðardaginn minnumst við þeirra sem börðust í sveita síns andlits við að búa okkur betra samfélag. Skuld okkar við þau verður aldrei að fullu greidd.  Næst því komumst við helst með því að rækja þá skyldu okkar að skila landi og samfélagi ekki verr, og helst nokkru bættara til komanda kynslóða og að ala upp í börnum okkar og barnabörnum, virðingu fyrir landinu okkar, samfélaginu og hvert öðru. Það eru vissulega áskoranir framundan í efnahagsmálum og ýmis verkefni óleyst, en þau eru öll þess eðlis að í augum fyrri kynslóða myndu þær áskoranir kallast lúxusvandamál. Það er samt mikilvægt að takast á við þau verkefni, eins og að stöðug styrking krónunnar mun að lokum koma okkur í koll ef ekki verður unnið að því að finna jafnvægi og það sem fyrst. Ísland er auðugt land, land sem býr við gnægð auðlinda og mannauð mikinn. Þann auð ber okkur að nýta til að tryggja sem best að á Íslandi þurfi enginn að líða skort. Það er stórt verkefni sem ekki verður leyst í einu vetfangi, og það verður aðeins leyst þannig að við leggjumst öll á árar – saman.
Allt eru þetta mikilvæg mál og reyndar mörg fleiri.
En það er tvennt sem mig langar mest til að tala um hér í dag. Annars vegar þá lukku að hafa fæðst og alist upp í þessu samfélagi okkar hér, kosti þess og galla. Hinsvegar að hvetja allt unga fólkið okkar til dáða, vegna þess að það, eins og ég, er svo heppið að fá að alast upp í þessu umhverfi.  Oft hef ég haft það á orði að lítil samfélög, á landsbyggðinni eins og okkar samfélag hér í Hrunamannahreppi, eða jafnvel í uppsveitunum öllum og öllum sambærilegum samfélögum, að slík samfélög kalli margt það besta fram í okkur mannfólkinu.  Vegna fámennis verður hver og einn stærri og einstaklingurinn finnur að hann verður að taka þátt – jafnvel í mörgu. Því ef við í fámenninu viljum hafa sterkt félagslíf, menningarlíf, íþróttalíf og ekki síst atvinnulíf þá vitum við að skyldur okkar til að taka þátt eru meiri en þar sem fleiri búa og einstaklingurinn getur falið sig á bakvið fjöldann. Við einfaldlega eigum allt undir að hér sé allt það sem mannlegt eðli óskar sér. Frumþarfir eru atvinnulíf, góðir skólar, öflug heilsugæsla og þak yfir höfuðið. Hitt er ekki síður mikilvægt að eiga fjölbreytt og öflugt íþrótta- og æskulýðsstarf, menningarstarf, starfsemi hagsmunafélaga, líknar- og mannúðarfélaga og svo mætti lengi telja.
Og, já ég reyndi að telja. Í þeirri talningu er auðvelt að fara yfir tuttugu mismunandi félög og jafnvel mun hærra ef allar deildir mismunandi félaga eru taldar sér. Nokkrar þær helstu má nefna. Sveitarstjórn með sínar stofnanir og nefndir, UMFH með sitt öfluga starf í mörgum deildum, Kvenfélagið, Björgunarsveitin Eyvindur og Vindur, Landgræðslufélag, hagsmunafélög-hrossabænda, nautgripabænda , sauðfjárbænda, garðyrkjubænda, allir kórarnir og svo framvegis. Við eigum sannarlegan öflugan mannauð í 800 manna samfélagi. En það gerist ekki af sjálfu sér, það þarf fólk til að taka þátt. Það er einmitt það jákvæða við okkar samfélag, fólk tekur þátt og það eru tækifæri til að láta til sín taka.
Í senn er það bæði þroskandi og gefandi að axla skyldur sínar í lýðræðislegu samfélagi, en ekki einungis krefjast réttinda sinna. Um leið er það undirstaða lýðræðisins sjálfs sem við fögnum hér í dag. Af þeim ástæðum tel ég það hafa verið mín forréttindi að hafa alist upp hér. Fengið haldgóða menntun á heimaslóð, tekið þátt í starfi UMFH, sveitarfélagsins, kirkju og kóra ásamt mörgu öðru sem samfélagið hér hefur gefið mér, fyrir það er ég og verð ævinlega þakklátur. Á stundum er talað um að gallar séu á litlum samfélögum að allir viti allt um alla. En ég spyr – er það ekki ein útgáfan á náungakærleik að vilja fylgast með og geta gripið inní eða þá létt undir ef eitthvað bjátar að hjá einhverjum?
Við finnum vel og þekkjum öll samstöðuna, stuðninginn og styrkinn sem maður fær þegar áföll dynja yfir, sorgin ber að dyrum. Sá stuðningur sem nærsamfélagið veitir er ómetanlegur, trúið mér – hér talar maður af reynslu. Vissulega eru gallar á fámennum samfélögum, til að mynda minni fjölbreytni meðal annars í atvinnulífi. Afl fjöldans er veikara, en eins og ég nefndi fyrr í ræðu minni þá eru á móti kostirnir þeir að hver einstaklingur er og verður að vera stærri til að vega slíkt upp, það er áskorunin við að búa í smærri samfélögum.
Kæru þjóðhátíðargestir,
það sem ég vildi segja að lokum og um leið beina orðum mínum til unga fólksins, ungu fólki á öllum aldri. Við búum í samfélagi jöfnuðar þar sem allir eiga jafnt tilkall til sömu tækifæra, til menntunar, til starfsframa, til heilbrigðs lífs. Vissulega er það svo að sumir þurfa að hafa meira fyrir því en aðrir, en það er hægt. Hver er sinnar gæfu smiður. Við stjórnmálamenn eigum að tryggja að slíkt samfélag þróist áfram í þá átt. Á Íslandi á að vera meiri jöfnuður en víðast. Við erum fá, þekkjum öll hvert annað eða erum skyld eða tengd. Auðlindir okkar eru gjöfular, þannig að 340 þúsund manna þjóð getur öll haft það gott á Íslandi.
En veldur hver á heldur. Hver og einn þarf að setja sér markmið og vinna að þeim. Þess vegna er gott að alast upp, búa og starfa í okkar samfélagi. Hér eru tækifærin til að hafa mikil áhrif, bæði á sína eigin framþróun en einnig á nærsamfélagið. Það er mín reynsla, að óháð fæðingarstað og búsetu getum við íbúar Íslands náð markmiðum okkar. Aðalatriðið er að vera virkur samfélagsþegn og hafa gaman að vinna að uppbyggingu samfélagsins okkar.  Þannig tryggjum við lýðræðið og getum haldið upp á þjóðhátíðardaginn 17. júní um ókomna framtíð.
Góðar stundir.

Categories
Fréttir

Ingveldur Sæmundsdóttir ráðin aðstoðarmaður formanns

Deila grein

15/06/2017

Ingveldur Sæmundsdóttir ráðin aðstoðarmaður formanns

Ingveldur Sæmundsdóttir hefur verið ráðin aðstoðarmaður Sigurðar Inga Jóhannssonar, formanns Framsóknarflokksins.
Ingveldur var áður aðstoðarmaður Sigurðar Inga þegar hann var umhverfis- og auðlindaráðherra og síðar Sigrúnar Magnúsdóttur umhverfis- og auðlindaráðherra þangað til í janúar sl.
Þá var Ingveldur kosningastjóri Framsóknarflokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður og suður fyrir alþingiskosningarnar 2013.
Hún er með B.Sc. próf frá Copenhagen Business School og diploma í alþjóðlegri markaðshagfræði frá Business Academy Copenhagen North. Þá stundar hún MBA nám við Háskóla Íslands.
„Ég hlakka til að vinna með öllu því kraftmikla og góða fólki sem er í flokknum okkar hringinn í kringum landið“, segir Ingveldur.

Categories
Fréttir

Sumarferð Framsóknar 10. júní

Deila grein

06/06/2017

Sumarferð Framsóknar 10. júní

Kæri félagi!
– Laugardagur 10. júní 2017 –
Nú er viðburðarríkum vetri lokið og því rétt að „slútta“ starfsárinu með viðeigandi hætti. Laugardaginn 10. júní ætlum við að heimsækja sveitarfélagið Ölfus en þar er B–listi Framfarasinna með hreinan meirihluta. Sveitarfélagið er í miklum vexti og verður áhugavert að fá kynningu á þessu samfélagi.
Það eina sem þú þarft að hafa með þér er góða skapið og 2.000 kr. sem öll herlegheitin kosta. Skipulagningar vegna er brýnt að þú skráir þig í síðasta lagi þriðjudaginn 6. júní. Skráning er birkirjon@gmail.com
 
 
Dagskrá ferðarinnar:
11:00 Brottför í rútu frá Bæjarlind 14-16 í Kópavogi
12:00 Strandarkirkja. Sr. Baldur Kristjánsson segir merka sögu kirkjunnar
12:40 Hádegisnæring í Þorlákshöfn, smurt brauð, kaffi, gos og öl.
13:30 Hátíðarhöld vegna sjómannadagsins á hafnarsvæðinu. Sveitarfélagið Ölfus kynnt – dagskrá í höndum heimamanna.
15:30 Hrossabúið að Sunnuhvoli heimsótt.
16:30 Heimsókn til Haraldar Einarssonar, fv. alþingismanns, á Urriðafossi. Fossinn skoðaður undir leiðsögn heimamanna.
17:40 Áætluð ferðalok í Bæjarlindinni
Við lofum skemmtilegri ferð þar sem gleðin verður í fyrirrúmi. Við munum gera vel við okkur í mat og drykk þennan dag. Allir félagar í Suðvesturkjördæmi eru hvattir til að taka þátt í þessari ferð. Ef einhverjar frekari upplýsingar vantar þá er velkomið að hringja í okkur.
Sumarkveðja,
Birkir Jón (s. 898-2446), Halldóra Magný (s. 617-7764) og Sigrún Aspelund (s. 894-3007)