,,Hæstv. forseti. Góðir landsmenn. Hér situr ríkisstjórn sem ætlaði ekki að hækka skatta. Nú er hins vegar útlit fyrir að ríkisstjórnin, undir forystu Sjálfstæðisflokksins, ætli sér að setja Íslandsmet í skattahækkunum. Já, svo bregðast krosstré sem önnur tré. Hæstv. forsætisráðherra Bjarni Benediktsson skautaði fimlega frá þeirri skattstefnu í ræðu sinni hér fyrr í kvöld eins og hans er von og vísa. Honum varð tíðrætt um góðar horfur í efnahagsmálum en hafði þó töluverðar áhyggjur af stöðugleikanum vegna fyrirséðra kjaraviðræðna.
Sú sem hér stendur var sammála ráðherra að sumu leyti, m.a. því að við þurfum að sýna þolinmæði varðandi uppbyggingu innviða og, jú, það er mikilvægt að halda stöðugleikanum því að það er okkur öllum fyrir bestu. Að öðru leyti þótti mér ræðan heldur innihaldsrýr og alls ekki innblásin af þeim metnaði og þeirri ástríðu sem maður teldi að forsætisráðherra í svo til nýrri ríkisstjórn ætti að hafa við afgreiðslu sinna fyrstu sameiginlegu fjárlaga.
Eftir að hafa lesið fjárlagafrumvarpið og farið yfir tillögur fjármálaráðherra í skattamálum, t.d. varðandi hækkun skatta á eldsneyti og hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustu sem ég tel að muni koma sér sérlega illa fyrir dreifðari byggðir og minni fyrirtæki, skil ég vel hvers vegna hæstv. forsætisráðherra er ekki í essinu sínu hér í kvöld. Ég skil líka vel að hans fólki í þingflokki Sjálfstæðisflokksins líði hreint ekki vel þegar það reynir að ímynda sér hvernig verður að sitja í þingsalnum eftir nokkrar vikur og ýta á græna takkann þegar atkvæðagreiðslur um fjárlög 2018 fara fram. Sannleikurinn er nefnilega sá að fólk hefur ekki þá sannfæringu sem til þarf svo hægt sé að fylgja slíkri efnahagsstefnu eftir.
Skattahækkanir voru ekki það sem kjósendum Sjálfstæðisflokksins var lofað. Var kjósendum Viðreisnar lofað skattahækkunum? Hvað með kjósendur Bjartrar framtíðar? Vissu þau að skattar yrðu hækkaðir og það á sama tíma og ríkissjóður skilar 44 milljörðum í afgang, 19 milljörðum meira en gert var ráð fyrir?
Hæstv. fjármálaráðherra: Vantar okkur í alvöru pening miðað við allan þennan afgang? Hvernig ætla menn sér að réttlæta þessar gríðarlegu skattahækkanir, vísitöluhækkanir í kjölfarið og kaupmáttarskerðingar sem fram undan eru ef þessi stefna verður samþykkt? Hvernig ætlar ríkisstjórnin að lifa af heilan þingvetur? Og ég spyr þrátt fyrir að hafa ekki enn nefnt risastór ágreiningsmál innan ríkisstjórnar, eins og framtíð krónunnar, Evrópusambandið, framtíð sauðfjárbúskapar í landinu og matvælaframleiðslu almennt.
Hæstv. forseti. Góðir áheyrendur. Mig langar að vitna í viðtal sem birtist á mbl.is í dag við Runólf Ólafsson, framkvæmdastjóra FÍB. Hann bendir á að miðað við fyrirhugaðar skattbreytingar hækki dísilolían um 21 kr. á lítra og bensín um 9 kr. á lítra. Miðað við venjulega notkun á fjölskyldubíl aukast útgjöld á fjölskyldu sem á einn bíl um 30.000–60.000 kr. Vegna slíkra útgjalda þarf að vinna sér inn u.þ.b. 50.000–90.000 kr. í tekjur til að eiga fyrir hækkuninni. Miðað við þessar tölur fer hækkun til örorku- og ellilífeyrisþega fyrir lítið þar sem gert er ráð fyrir að lágmarksfjárhæð á einstakling sem býr einn hækki úr 280.000 í 300.000 kr., 20.000 kr. viðbót. Ég geri einnig ráð fyrir að skattahækkanirnar eigi eftir að hafa verulega neikvæð áhrif á kjaraviðræðurnar.
Samkvæmt frumvarpinu eiga tekjurnar af skattahækkunum eldsneytis ekki að renna til uppbyggingar á samgöngum. Nei, ríkisstjórnin gæti hins vegar vel hugsað sér vegtolla.
Eldsneyti vegur einnig mjög þungt í vísitölunni. Það þýðir að húsnæðislánin okkar allra munu hækka. Kaupmáttaraukningin virðist ætla að fara fyrir lítið sem og stöðugleikinn með þessari glórulausu stefnu.
Virðulegi forseti. Er þetta í alvöru sú leið sem almenningur taldi sig vera að samþykkja í síðustu alþingiskosningum? Eða er þetta allt saman einn hrikalegur misskilningur?”
Silja Dögg Gunnarsdóttir í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra, 13. september 2017.
14/09/2017
,,Hækkun skatta á eldsneyti og ferðaþjónustu mun bitna mest á landsbyggðinni"