Hvers vegna tók forsætisráðherrann Seðlabankann með sér þegar kassarnir voru fluttir úr Arnarhvoli niður í Stjórnarráð
,,Virðulegur forseti. Góðir landsmenn. Nú höfum við lesið stjórnarsáttmálann. Við höfum hlustað á stefnuræðuna. En við erum engu nær um það til hvers þessi ríkisstjórn var mynduð. Var það bara vegna þess að hún var talin ívið skárri kostur en áframhaldandi óvissuástand, áframhaldandi stjórnarkreppa, sem fylgdi hinum undarlegustu kosningum síðari áratuga? Hver eru markmiðin, ég tala nú ekki um aðferðirnar? Við vitum það ekki og erum engu nær eftir umræðuna í kvöld.
Það var mjög lýsandi að þegar nýr forsætisráðherra var spurður að því í fjölmiðlum fyrir fáeinum dögum hvaða mál stæðu upp úr hjá nýrri ríkisstjórn á fyrsta þingi hennar þá kom honum ekki annað til hugar en að nefna ríkisfjármálaáætlun, það væri líklega ríkisfjármálaáætlun sem stæði upp úr. Þetta er lögbundið plagg sem fjármálaráðherra leggur fram á hverju ári og það stendur upp úr hjá þessari ríkisstjórn á fyrsta þingi hennar. Ráðherrann hefði allt eins getað fylgt þessu eftir með því að segja að svo yrði líklega kosið í nefndir og síðan mætti vænta þess að það yrðu eldhúsdagsumræður einhvern tíma undir lokin. Það væri það sem stæði upp úr. Ekkert nýtt, engin stefna, engin sýn.
Þegar ríkisstjórn tók við árið 2013 var til staðar sýn en ekki aðeins sýn heldur líka stefna um það hvernig menn ætluðu að hrinda þeirri sýn í framkvæmd. Það var strax hafist handa við undirbúning og einungis sex mánuðum eftir að ríkisstjórnin tók við var ráðist í framkvæmd á risastórum breytingum. Hér segja menn okkur, svona í bland við einhverja frasa, að fyrsta árið fari í að meta stöðuna, meta heilbrigðiskerfið, peningastefnuna, kalla til fjölflokkasamráð, og líklega fjölþjóðlegt samráð líka, og svo sjái menn hvað komi út úr því.
En auðvitað ættum við að gleðjast, virðulegur forseti, yfir því sem er kannski einna mikilvægast við myndun þessarar ríkisstjórnar og það er að tvíhöfða flokkurinn Viðreisn/BF skuli hafa gefið eftir nánast öll megináhersluatriði sín úr kosningabaráttunni þegar stjórnin var mynduð, a.m.k. á pappírnum. En hvað gerist á bakvið tjöldin? Formaður Viðreisnar/BF er alræmdur plottari að eigin mati. Hann tekur að sér að plotta, ekki einungis fyrir sjálfan sig heldur aðra líka. Hvaða plott bjó að baki þegar þessi ríkisstjórn var mynduð? Hvert var viðeigandi plott, svo ég noti orð formanns Viðreisnar, þegar ríkisstjórnin var mynduð? Hvað þurfti t.d. Sjálfstæðisflokkurinn að gefa eftir til þess að endurheimta Viðreisn og fylgitungl þess flokks og fá þá til fylgilags við sig?
Reyndar vakti athygli mína að nýr fjármálaráðherra sá ástæðu til að setja ofan í við nýjan forsætisráðherra þegar á kynningarfundi þar sem verið var að kynna ríkisstjórnina og sagði honum að hann ætti að passa sig að eyða ekki of miklu úr kassanum sem hann myndi halda utan um. Það er kannski ekki svo skrýtið því að ég hef aldrei áður heyrt formann Sjálfstæðisflokksins státa sig sérstaklega af því hversu mikið honum hafi tekist að auka útgjöld ríkissjóðs milli ára. Það held ég að hafi ekki gerst áður í sögu þess annars ágæta flokks fyrr en nú.
En hvað með allt hitt? Hvað með kröfur samtaka sem urðu til undir nöfnum á borð við Áfram Icesave og Já ESB? Hvert verður viðeigandi plott í samstarfi við þá flokka? Hvert verður viðeigandi plott þegar kemur að því að fara í gegnum hvers konar fjármálakerfi við ætlum að hafa í landinu, endurmeta það? Hvert verður viðeigandi plott í samskiptum við Evrópusambandið?
Nýr forsætisráðherra tók reyndar Seðlabankann með sér þegar kassarnir voru fluttir úr Arnarhvoli niður í Stjórnarráð. Hvers vegna gerði hann það? Það hlýtur að vera einhver ástæða fyrir því. Hvað ætlar nýr forsætisráðherra sér með Seðlabankann? Það var reyndar nefnt að skoða ætti peningastefnuna, en hvernig? Sjálfstæðisflokkurinn vill, held ég, sjálfstæða peningastefnu, annar stjórnmálaflokkur myntráð og sá þriðji ganga í ESB og leysa málin þannig. Hvernig verður þetta leyst og hvernig verður tekist á við okurvextina og verðtrygginguna?
Að sögn vann núverandi forsætisráðherra að því árum saman, eða frá því snemma á síðasta kjörtímabili, að meta í fjármálaráðuneytinu hvernig staðið yrði að því að vinna sig út úr kerfi verðtryggingar. Skyldu þau blöð og sú vinna hafa fylgt í kössunum þegar flutt var úr Arnarhvoli í Stjórnarráðið eða skyldi sú vinna öll hafa farið í pappírstætarann? Það verður tíminn að leiða í ljós, virðulegi forseti. Tími minn er nánast á þrotum svo áform mín um að hrósa nokkrum ráðherrum — ekki mörgum — eru þar með farin út um þúfur í bili, en það vinnst tími til þess síðar.
Aðalatriðið er þetta: Með örfáum undantekningum er þetta ríkisstjórn með óljósa sýn, takmarkaða stefnu og engar leiðir til að hrinda henni í framkvæmd. En á meðan þessir flokkar eru í ríkisstjórn verðum við líklega að vonast til þess að það verði þannig áfram.”
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra 24. janúar 2017.