Categories
Fréttir

Ferskvatn og loftslagsbreytingar

Deila grein

14/07/2016

Ferskvatn og loftslagsbreytingar

sigrunmagnusdottir-vefmyndLoftslagsbreytingar og áhrif þeirra á vatnsbúskap voru í brennidepli á fundi evrópskra umhverfisráðherra í Bratislava í Slóvakíu 11.-12. júlí. Sigrún Magnúsdóttir umhverfis- og auðlindaráðherra sótti fundinn fyrir Íslands hönd. Ráðherra sagði að hröð rýrnun jökla væri áhyggjuefni, en hún gæti meðal annars haft áhrif á vatnsbúskap og nýtingu vatnsorku.
Umhverfis- og auðlindaráðherra sagði að Ísland ætti gnægð af ferskvatni og ekki væri fyrirsjáanlegur vandi hvað það varðar. Loftslagsbreytingar hefðu þó áhrif á vatnsbúskap á Íslandi, því vísindamenn spá að jöklar landsins gætu horfið að mestu leyti á einni eða tveimur öldum ef ekki tekst að koma böndum á losun gróðurhúsalofttegunda. Jöklar Íslands væru sýnileg birtingarmynd loftslagsbreytinga og unnið sé að verkefni til að fræða þá sem heimsækja þjóðgarða um samspil jökla og loftslags.
Ráðherra sagði að skoða þyrfti votlendi sérstaklega í samhengi við ferskvatn og loftslagsmál. Endurheimt votlendis gæti haft jákvæð áhrif með því að draga úr losun koldíoxíðs.
Ráðherra vakti athygli á rannsóknum og nýsköpun í loftslagsvænum lausnum á Íslandi. Nýjar niðurstöður úr tilraunaverkefni sýndu að niðurdæling koldíoxíðs og binding þess í steindum væri raunhæfur kostur í baráttu gegn loftslagsbreytingum. Tilraunaverkefni varðandi græna skipatækni væru líka að skila árangri. Ísland hefði áhuga á samstarfi við önnur ríki á þessum og fleiri sviðum.

Þurrkar, flóð og flóttamannavandi

Fram kom á fundinum að búist væri við miklum breytingum á úrkomu og vatnafari í Evrópu á þessari öld vegna loftslagsbreytinga. Tjón vegna bæði flóða og þurrka myndu aukast. Spár gera ráð fyrir aukinni úrkomu í norðanverðri Evrópu, en minni úrkomu í sunnanverðri álfunni. Sérstaklega er óttast að þurrkar á sumrum verði mikill vandi í suður-Evrópu þegar líður á öldina. Í lok 21. aldar gæti úrkoma þar verið svipuð og er í norður-Afríku nú. Þetta kallar á miklu betri nýtingu vatns, ekki síst í landbúnaði til að viðhalda fæðuframleiðslu.
Horfur varðandi ferskvatn væru slæmar í mörgum heimshlutum vegna aukinna þurrka og álags vegna fólksfjölgunar. Hætta væri á þurrkum og vatnsskorti í Miðausturlöndum og stórum hlutum Afríku, sem gæti stóraukið á flóttamannavanda.
Fundinn í Bratislava sóttu umhverfisráðherrar ríkja Evrópusambandsins og EFTA, auk Tyrklands og Albaníu.

Heimild: www.umhverfisraduneyti.is

Categories
Fréttir

Aukin atvinnutækifæri og fjölbreyttari störf fyrir fólk með fötlun

Deila grein

07/07/2016

Aukin atvinnutækifæri og fjölbreyttari störf fyrir fólk með fötlun

 
eyglooggissurEygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra hefur veitt Vinnumálastofnun sjö milljóna króna framlag í verkefni sem hefur þann tilgang að fjölga starfstækifærum fyrir fólk með fötlun og auka fjölbreytni starfstilboða. Féð er veitt á grundvelli framkvæmdaáætlunar í málefnum fatlaðs fólks.
Eygló Harðardóttir og Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunar, hafa undirritað samning um verkefnið en Vinnumálastofnun ber ábyrgð á framkvæmd þess. Byggt er á þeirri áherslu að nýta vinnuframlag sem flestra og vinna þannig gegn félagslegri einangrun og útilokun fatlaðs fólks frá vinnumarkaði og virkri samfélagsþátttöku. Sérstök áhersla verður lögð á atvinnutækifæri fyrir ungt fatlað fólk sem lokið hefur námi á starfsbrautum framhaldsskólanna eða diplómanámi frá Háskóla Íslands. Stefnt er að því að hlutaðeigandi fái starf og stuðning til að sinna því til lengri tíma.
Leitast verður við að þróa ráðgjöf og stuðning við atvinnuleitendur með fötlun sem eru í atvinnuleit, m.a. með valdeflingu og fræðslu og starfsþjálfum á vinnustöðum. Einnig verður efnt til fræðslu fyrir atvinnurekendur til að kynna tækifæri og áskoranir sem felast í því að ráða fatlað fólk til vinnu.
Markmið að til verði 30 ný störf fyrir fatlað fólk
Skipulag og undirbúningur verkefnisins hefst 1. september en verklok eru áætluð 1. september 2017. Stefnt er að því að í lok tímabilsins hafi orðið til 30 ný störf fyrir fötluð ungmenni sem lokið hafa námi á starfsbrautum eða diplómanámi frá Háskóla Íslands.
Samstarfsaðilar Vinnumálastofnunar í verkefninu verða Festa – miðstöð um samfélagslega ábyrgð, Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins og opinberar stofnanir og sveitarfélög sem tekið hafa virkan þátt í verkefninu Virkjum hæfileikana.

Heimild: www.velferdarraduneyti.is

Categories
Fréttir

Ferð þú í framboð?

Deila grein

06/07/2016

Ferð þú í framboð?

Kjördæmasamband Framsóknarfélaganna í Reykjavík (KFR) óskar eftir framboðum á lista flokksins í komandi alþingiskosningum. Röðun á lista flokksins í Reykjavík fer fram á tvöföldu kjördæmaþingi í Reykjavík laugardaginn 27. ágúst 2016.
Kosið er um fimm efstu sætin í hvoru kjördæmi í Reykjavík.
Frambjóðendur verða að hafa verið skráðir í Framsóknarflokkinn a.m.k. frá 27. júlí 2016. Það á einnig við um fulltrúa á kjördæmaþinginu sem valdir eru á félagsfundi félaganna í Reykjavík.
Framboðum skal skila á netfangið frambod-reykjavik@framsokn.is eigi síðar en föstudaginn 12. ágúst 2016, kl. 12:00.
Framboð-Reykjavík
 

Categories
Fréttir

Skýrsla starfshóps um Friðland að fjallabaki

Deila grein

02/07/2016

Skýrsla starfshóps um Friðland að fjallabaki

sigrunmagnusdottir-vefmyndStarfshópur sem Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, skipaði hefur skilað skýrslu sinni um Friðland að Fjallabaki. Í skýrslunni eru ýmsar tillögur um hvernig megi styrkja innviði friðlandsins, efla stjórnun og starfsemi auk þess sem hópurinn telur áhugavert og unnt að skapa skilyrði til stækkunar svæðisins.
Friðland að Fjallabaki, sem friðlýst var árið 1979 og í raun Suðurhálendið allt, er einstakt svæði og hefur hátt verndargildi á heimsvísu. Innan Friðlandsins eru Landmannalaugar, eitt af mest sóttu ferðamanna og útivistarsvæðum á hálendi Íslands og þaðan liggur ein vinsælasta gönguleið landsins, Laugavegurinn, sem er gönguleið milli Landmannalaugar og Þórsmerkur. Á þessu svæði eru því bæði merk og viðkvæm náttúruverðmæti, en jafnframt mikið og ört vaxandi álag vegna ferðaþjónustunnar.
Ráðherra skipaði starfshópinn í lok júlí 2015 og fól honum með því að leita leiða til að styrkja stöðu svæðis, efla rekstur þess og kanna hvort tækifæri væru til að stækka svæðið.
Í starfshópnum sátu fulltrúar umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, forsætisráðuneytisins, Umhverfisstofnunar og Náttúrufræðistofnunar auk þeirra sveitarfélaga sem friðlandið nær til. Í niðurstöðum starfshópsins er bent á fjölmörg umbótaverkefni sem nýtast ráðuneytinu og Umhverfisstofnun við forgangsröðun verkefna og að leita leiða til að efla starfssemi og stjórnun á svæðinu. Í sumar hefur verið aukið við landvörslu á svæðinu og eins er unnið að ýmsum verkefnum á svæðinu sem falla vel að tillögum skýrslunnar. Umhverfisstofnun vinnur nú jafnframt að gerð verndaráætlunar fyrir svæðið og munu  niðurstöður skýrslunnar nýtast við þá vinnu.
Þá mun skýrsla starfshópsins með hugmyndum um stækkun friðlandsins gagnast við vinnunefndar  sem kanna á forsendur fyrir stofnun þjóðgarðs innan svokallaðrar miðhálendislínu, en þar er ætlað að draga saman helstu sjónarmið og fyrirliggjandi þekkingu er varðar nýtingu og vernd miðhálendisins.
Friðland að Fjallabaki – Skýrsla starfshóps (pdf)

Heimild: www.umhverfisraduneyti.is

Categories
Fréttir

Norrænir jafnréttisvísar

Deila grein

30/06/2016

Norrænir jafnréttisvísar

fæðingarorlofsdagar hjá feðrumÁ vef Norrænu ráðherranefndarinnar, www.norden.org, eru aðgengilegar margvíslegar tölfræðiupplýsingar sem varpa ljósi á líf og aðstæður fólks á Norðurlöndunum og gera mögulegan samanburð milli landa. Jafnréttisvísar eru hluti þessara upplýsinga en um þá segir á vef ráðherranefndarinnar: „Jafnrétti kvenna og karla er grundvallargildi á Norðurlöndum. Söfnun og notkun tölfræðiupplýsinga um jafnrétti kynjanna er lykilþáttur í því að stuðla að jafnrétti kynjanna í samfélaginu. Samstarf Norðurlanda um jafnrétti kynjanna, meðal annars hvað varðar tölfræðiupplýsingar, hefur stuðlað að því að gera Norðurlönd að þeim heimshluta þar sem jafnrétti kynjanna er mest.“
Sem dæmi um jafnréttisvísa má nefna vísa sem varpa ljósi á heilsu karla og kvenna, menntun, atvinnuþátttöku, fjárhag og tekjur, fjölskyldu og umönnun, áhrif og völd.

Íslenskir og sænskir feður taka flesta fæðingarorlofsdaga

Ef skoðaðar eru t.d. upplýsingar um fæðingarorlof  kemur fram að fæðingarorlof á Norðurlöndunum er lengst í Svíþjóð en styst á Íslandi. Danmörk er eina landið þar sem ekki er sérstakur feðrakvóti og feðrakvótinn er lengstur á Íslandi. Feður á Íslandi og í Svíþjóð taka flesta fæðingarorlofsdaga, eins og sést á myndinni hér að ofan. Hlutur feðra í fæðingarorlofi hefur aukist hjá öllum Norðurlandaþjóðunum hefur aukist og sömuleiðis fjöldi fæðingarorlofsdaga á hvert barn á árabilinu 2000 – 2013.

Meðalaldur kvenna við fæðingu fyrsta barnsForeldrar eignast börn æ síðar á ævinni

Karlar og konur eignast börn síðar á ævinni en fyrri kynslóðir og meðalaldur við fæðingu fyrsta barns hækkar stöðugt. Árið 1961 var meðalaldur íslenskra kvenna 22 ár þegar þær eignuðust sitt fyrsta barn en árið 2013 var meðalaldurinn rúm 27 ár. Meðalaldur íslenskra karla sem eignuðustu sitt fyrsta barn var 30 ár árið 2013. Íslenskir foreldrar eru að meðaltali nokkru yngri þegar þeir eignast sitt fyrsta barn en foreldrar annars staðar á Norðurlöndunum, líkt og jafnréttisvísarnir sýna .

Vísar sem varða heilsu karla og kvenna

Í jafnréttisvísunum má m.a. skoða kyngreindar upplýsingar um lífslíkur við fæðingu, daglegar reykingar, dánartíðni vegna krabbameins og vegna sjúkdóma í blóðrásarkerfi, sjálfsvíg, fjarvistir frá vinnu vegna veikinda, fóstureyðingar o.fl. Þar kemur t.d. fram að á Norðurlöndunum veldur krabbamein um fjórðungi allra dauðsfalla og að dánartíðni er hærri hjá körlum og konum á Norðurlöndunum að Færeyjum og Grænlandi undanskildum.

Categories
Fréttir

Náið samráð EFTA-ríkja vegna ákvörðunar Breta

Deila grein

27/06/2016

Náið samráð EFTA-ríkja vegna ákvörðunar Breta

utanríkisráðherrar norðurlandannaEFTA-ríkin munu eiga með sér náið samráð til að viðhalda nánum efnahags- og viðskiptatengslum við Bretland, samkvæmt ákvörðun ráðherrafundar EFTA sem haldinn er í Bern í Sviss. Lilja Alfreðsdóttir, utanríkisráðherra, situr fundinn fyrir hönd Íslands.
Á fundinum var í dag rætt um þá stöðu sem upp er komin í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslu í Bretlandi, þar sem meirihluti kjósenda var fylgjandi úrsögn úr Evrópusambandinu.
EFTA-ríkin munu leita lausna samhliða viðræðum Breta við Evrópusambandið, eftir því sem frekast er unnt, til að koma í veg fyrir lagalegt tómarúm þegar útgöngusamningur Breta við ESB tekur gildi. Að svo stöddu telja þau hins vegar ótímabært að staðhæfa hvaða leiðir skili EFTA-ríkjunum bestum árangri.
Á fundinum ræddi Lilja um mikilvægi góðs viðskiptasambands Íslands við Bretland og fagnaði áhuga EFTA-ríkjanna á að ráðfæra sig við hvert annað til að tryggja sem bestan árangur.
Ísland í forystu EFTA og EES
Ísland tekur við forystu í EFTA þann 1. júlí. Samband aðildarríkjanna við Bretland verður efst á baugi í formennskutíð Íslands, en að auki bíður það samtakanna að halda áfram og ljúka fríverslunarviðræðum sem eru í gangi við lönd utan EFTA. Þá lýsti utanríkisráðherra því yfir, að setning jafnréttisstefnu fyrir EFTA verði meðal forgangsverkefna í formennskutíð Íslands og er undirbúningur þess þegar hafinn. Rætt var um þá fyrirætlan Íslands á fundinum í dag og ákveðið að hefja undirbúning að gerð slíkrar stefnu.
Samhliða forystu í EFTA gegnir Ísland forystu í EES frá 1. júlí, sem skapar góð tækifæri til samræmingar í áherslum.
Ráðherrafundinum lýkur í kvöld.

Categories
Fréttir

Sigurður Ingi fundar með aðstoðarframkvæmdastjóra OECD

Deila grein

21/06/2016

Sigurður Ingi fundar með aðstoðarframkvæmdastjóra OECD

sij hja oecdSigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra,  átti í dag fund með Mari Kiviniemi, fyrrverandi forsætisráðherra Finnlands, sem nú gegnir stöðu aðstoðarframkvæmdastjóra Efnahags- og framfarastofnunarinnar í París (OECD). Meðal þess sem rætt var um voru  staða og horfur í efnahagsmálum á Íslandi, losun fjármagnshafta, staðan á vinnumarkaði og sjávarútvegsmál. Fram kom í máli fulltrúa OECD að þrátt fyrir jákvæða efnahagslega þróun á Íslandi undanfarin ár, væru ýmsar áskoranir sem þyrfti að takast á við, eins og til dæmis að auka framleiðni í ýmsum greinum. Fram kom í máli fulltrúa OECD að íslenskur sjávarútvegur væri í fremstu röð á heimsvísu og aðrar þjóðir hefðu margt að læra af Íslendingum í þeim efnum.
,,Fundurinn var uppbyggilegur og ljóst að á vettvangi OECD er mikil þekking sem kemur Íslendingum vel,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra. Þá segir forsætisráðherra ánægjulegt að heyra að mjög sé litið til Íslands þegar kemur að sjávarútvegsmálum og nýtingu auðlinda hafsins.

Heimild: www.forsaetisraduneyti.is

Categories
Fréttir

Hátíðarræða Sigurðar Inga forsætisráðherra á 17. júní

Deila grein

17/06/2016

Hátíðarræða Sigurðar Inga forsætisráðherra á 17. júní

Sigurður Ingi JóhannssonGóðir landsmenn, gleðilega hátíð.
Við sem jörðina gistum erum reglulega minnt á að samtíminn virðist stundum hafa harla lítið forspárgildi um framtíðina. Það er nefnilega þannig að hraði samtímans býður sjaldnast upp á að staldrað sé við og gaumgæft. Enda veltur tímans hjól fram veginn, en ekki aftur.
Líf okkar byggist á því sem áður hefur gerst. Hið liðna bærist með okkur í dag og mótar okkur og stýrir. Um leið reynum við að læra af þeirri þekkingu sem fortíðin hefur fært okkur og nýta hana til framtíðarverka. Staðan sem við Íslendingar erum í er summan af því sem liðið er. Væntanlega má halda því fram að land og þjóð hafi þokast fram veginn í ýmsum efnum þegar litið er eitt hundrað ár eða svo aftur í tímann.
Sú kynslóð sem stóð í stafni árið 1900 hafði aðrar væntingar og vonir en aldamótakynslóðin árið 2000. En vinna og þrautseigja hinnar fyrri lagði grunninn að því samfélagi sem við lifum í. Hún skilaði af sér góðu búi og það er sú skylda sem hvílir á okkur öllum, sama hvaða tíma við lifum, að skila af okkur góðu búi.
Upp úr síðustu aldamótum fór hér allt að ganga vel, jafnvel svo að undrum sætti. Gengu þá margir heldur rösklegar um gleðinnar dyr en hollt gat talist. Því fór sem fór og margir efuðust um að Íslendingar gætu verið þjóð meðal þjóða, svo beygð sem hún var. Fáir munu halda því fram í dag að framtíðin sé dökk. Nú er sannarlega lag að bæta kjör allra og færa til betri vegar ýmislegt sem miður fór.
Stjórnmálamönnum, sá er hér stendur er þar ekki undanskilinn, er tamt að tala um tækifæri, alls konar tækifæri sem bíða þess að verða gripin og nýtt til hins ýtrasta til hagsbóta fyrir land og þjóð. Það er rétt að tækifæri Íslands eru mörg og mikil, þjóðin ung og framtakssöm og þekking á atvinnuháttum góð. En við erum fá sem búum hér. Fámennið hefur gert það að verkum að „allir þekkja alla“, eins og sagt er. Það er því mikilvægt þegar við nýtum það sem landið hefur upp á að bjóða að sem flestir njóti með einum eða öðrum hætti.
Ísland er auðugt land, land sem býr við gnægð auðlinda og mannauð mikinn. Þann auð eigum við að nýta til að tryggja sem best að á Íslandi þurfi enginn að líða skort. Það er stórt verkefni sem ekki verður leyst í einu vetfangi, og það verður aðeins leyst þannig að við leggjumst öll á árar – saman.
Fólk gerir ekki kröfu um að allir séu jafnsettir, en fólk hefur ekki þol fyrir óréttlátri skiptingu þar sem sumir fá að njóta á meðan aðrir gera það ekki. Sérstaklega á þetta við þegar tilfinning fólks er sú að sumir fái fleiri og betri tækifæri en aðrir. En gleymum því ekki heldur að hver er sinnar gæfu smiður.
17. júní komum við saman og gleðjumst með fjölskyldu og vinum, hefjum fánann á loft og minnumst þess sem sameinar okkur sem þjóð, sem saman fetar veginn í gleði og sorg, leik og starfi. Margir hafa kosið að flytjast hingað til lands og leggja vinnu sína og örlög í faðm Íslands og þannig auðgað íslenskt þjóðlíf. Enda er landið okkar gjöfult fyrir þá sem vilja gera það að heimili sínu.
Landar okkar dreifast nú líka enn meira um jarðarkringluna en áður. Svo virðist sem sífellt fleiri líti á heiminn allan sem sína fósturjörð. Og möguleikar til starfa og góðrar framtíðar liggja að sjálfsögðu víðar en hér á Íslandi. Það er sú samkeppni sem blasir við og þeirri samkeppni eigum við að fagna – en einnig að taka alvarlega.
Munum um leið að það að vera hluti af þjóð er að eiga heimili. Hvar í veröldinni sem við Íslendingar kjósum að búa og starfa erum við tengd landinu okkar órofa böndum og vitum að hér eigum við ætíð samastað hvert sem lífið leiðir okkur.
Helgi Tómasson orðaði einmitt þessa hugsun á dögunum þegar hann sagðist vera kominn „heim“ með San Francisco-ballettinn. Hann hefur búið erlendis öll sín fullorðinsár en fyrir honum er Ísland ætíð „heima“. Það ætti að vera okkur keppikefli að sem flestum Íslendingum sem búa og starfa erlendis, um lengri eða skemmri tíma, sé eins innanbrjósts.
Kæru landsmenn.
Við stöndum hér á Austurvelli undir vökulu augliti þeirra Ingibjargar H. Bjarnason og Jóns Sigurðssonar. Líf og starf þeirra beggja minna okkur Íslendinga á að barátta fyrir málstað og umbótum í samfélaginu hefst með þrotlausri vinnu, einurð og þrautseigju. Þau minna okkur einnig á að þau réttindi sem við teljum í dag eðlileg og sjálfsögð eru alls ekki sjálfgefin. Fyrir þeim var unnið, þau voru sótt af harðfylgi og færð okkur af þeim kynslóðum sem á undan okkur gengu.
Lágmynd Einars Jónssonar hér á stallinum – Brautryðjandinn – er okkur til ævarandi áminningar um þetta.
Á þjóðhátíðardaginn minnumst við þeirra sem börðust og strituðu í sveita síns andlitis við að búa okkur betra samfélag. Skuld okkar við þau verður aldrei að fullu greidd. Næst því komumst við með því að rækja þá skyldu okkar að skila því ekki verr, og helst nokkru bættara, til komandi kynslóða, og að ala upp í börnum okkar og barnabörnum virðingu fyrir landinu okkar, samfélaginu og hvert öðru.
Þannig getum við tryggt að Ísland verði ætíð áfram heimili þeirra og samastaður í síbreytilegri veröld, hvert sem lífið kann að leiða þau að öðru leyti. Þannig getum við í sameiningu haldið á lofti vinnu og draumum feðra okkar og mæðra.
Allt er breytingum undirorpið og nýjar kynslóðir þurfa að takast á við ný verkefni með nýrri hugsun og nýjum aðferðum. Það er óvarlegt að ætla að kynslóð hinna eldri sé, þrátt fyrir reynslu, betur til þess fallin að ákveða hvað er unga fólkinu fyrir bestu.
Á sama hátt er ekki sjálfgefið að þeir sem yngri eru viti best hvað hinum eldri er fyrir bestu. Því samfélag ersamvinnuverkefni þar sem best niðurstaða fæst þegar hver og einn leggur til reynslu sína, hugmyndir og vinnu.
Samtalið milli kynslóða þarf að vera lifandi og virðing ríkja fyrir stöðu fólks á hverjum stað á lífsleiðinni. Öllum á að líða vel, hvar sem þeir kjósa að vera, og ég tel að við Íslendingar höfum ekki staðið okkur verr í þessum efnum en aðrar þjóðir. Við erum kannski ekki „best í heimi“ eins og stundum er sagt, en við erum sannarlega góð.
Það er sameiginlegt verkefni okkar allra að sjá til þess að samfélagið okkar og landið sé ætíð samkeppnishæft við það besta sem gerist í heiminum; að sjá til þess að heimili okkar, Ísland, sé ætíð verðugur, friðsæll og góður samastaður. Það er verkefni sem ég veit að við getum öll unnið að í sameiningu af heilum hug.
Kæru landsmenn.
Af ýmsu er að taka þegar tækifæri gefst til þess að ávarpa þjóðina 17. júní, svo margs sem vert væri að geta. Vart verður hjá því komist að minnast á glæsilegan árangur íþróttafólksins okkar sem hefur staðið sig frábærlega að undanförnu. Má þar nefna knattspyrnulandsliðin okkar í fremstu röð í Evrópu, sundmenn á verðlaunapalli, frjálsíþróttafólk að setja met og svo handboltalandsliðin okkar.
Það yljar óneitanlega um hjartarætur þegar fulltrúar okkar ná svo langt á alþjóðlegum vettvangi. Það er sannarlega eitt mesta stolt lítillar þjóðar að eiga svo margt íþróttafólk og listamenn og vísindamenn í fremstu röð í heiminum. Á þjóðhátíðardaginn eigum við leyfa okkur að rækta það stolt, gleðjast yfir afrekum landa okkar og því góða sem landið og samfélagið hafa gefið okkur. Betri hvatningu fyrir litla þjóð sem við ysta haf unir við hátign jökla og bláan sæ, hvatningu til að vinna að enn betri árangri á grunni þess sem þegar er unnið, er vart hægt að hugsa sér.
Vormenn Íslands, vorsins boðar,
vel sé yður, frjálsu menn!
Morgunn skóga’ og rósir roðar,
rækt og tryggð er græðir senn.
Notið, vinir, vorsins stundir,
verjið tíma’ og kröftum rétt,
búið sólskært sumar undir
sérhvern hug og gróðurblett!

Categories
Fréttir

Tvö íslensk smáforrit tilnefnd til umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs

Deila grein

15/06/2016

Tvö íslensk smáforrit tilnefnd til umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs

Tvö íslensk smáforrit eru tilnefnd til umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs í ár. Annars vegar er um að ræða smáforritið e1 sem tengir saman rafbílaeigendur og eigendur hleðslustöðva og hins vegar Strætó-appið, en með því geta farþegar keypt farmiða í strætó og fylgst með ferðum hans.
Þema umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs í ár er stafræn nýsköpun sem ýtir undir sjálfbæran lífsstíl. Verðlaunin verða veitt norrænu fyrirtæki, samtökum eða einstaklingi ýtir undir sjálfbæran lífsstíl með skapandi stafrænum lausnum.
Auk íslensku smáforritana voru þrjú verkefni frá Danmörku tilnefnd til verðlaunanna, tvö frá Finnlandi, eitt frá Svíþjóð og eitt frá Svíþjóð og Noregi sameiginlega.
Verðlaunaféð er 350.000 danskar krónur en verðlaunin verða afhent við hátíðlega athöfn í Kaupmannahöfn þann 1. nóvember næstkomandi.
umhverfisverðlaun norðurlandaráðs 2016
Ljósmynd: norden.org
Frétt Norðurlandaráðs af tilnefningunum

Heimild: www.umhverfisraduneyti.is

Categories
Fréttir

Þjóðhagsráð kemur saman

Deila grein

09/06/2016

Þjóðhagsráð kemur saman

SIJFulltrúar ríkisstjórnar Íslands, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Samtaka atvinnulífsins og Seðlabanka Íslands komu saman í morgun á fyrsta fundi Þjóðhagsráðs. Stofnun Þjóðhagsráðs er í samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá því í maí í fyrra, en hún var gefin út til að greiða fyrir gerð kjarasamninga. Einnig er kveðið á um stofnun Þjóðhagsráðs í rammasamkomulagi aðila á vinnumarkaði frá því í október. Forsætisráðherra stýrir fundum Þjóðhagsráðs:
„Það er mikilvægt að til sé vettvangur til að skiptast á skoðunum um hvert við stefnum á vinnumarkaði. Hlutverk ráðsins verður að greina stöðuna í efnahagsmálum og ræða samhengi ríkisfjármála, peningastefnu og vinnumarkaðar í tengslum við helstu viðfangsefni hagstjórnar hverju sinni. Þetta er mikilvægur hlekkur í því sem nefnt hefur verið SALEK samkomulagið á vinnumarkaði“, segir Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra.
Ráðið skal beina umfjöllun sinni sérstaklega að þáttum þar sem samhæfingu er helst ábótavant. Þjóðhagsráð tekur ekki ákvarðanir í efnahags- eða kjaramálum og stofnun þess breytir ekki lögbundnum hlutverkum þeirra aðila sem að ráðinu standa.
thjothhagsrath-01
Í Þjóðhagsráði sitja forsætisráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra og forsvarsmenn Samtaka atvinnulífsins, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Seðlabanka Íslands. Heildarsamtök launafólks sem aðild eiga að rammasamkomulaginu hverju sinni geta gerst aðilar að Þjóðhagsráði.
Starfsemi Þjóðhagsráðs skal tekin til endurskoðunar fyrir árslok 2018. Jafnframt er heimilt að endurmeta starfsemi ráðsins ef rammasamkomulagi aðila á vinnumarkaði er slitið. Fundargerðir Þjóðhagsráðs verða öllum aðgengilegar.
Ljósmyndin er frá fyrsta fundi Þjóðhagsráðs. Talið frá vinstri: Már Guðmundsson Seðlabankastjóri, Halldór Halldórsson formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Þorsteinn Víglundsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

Heimilid: www.forsaetisraduneyti.is