Categories
Fréttir

Starfshópur um vindorkuver skipaður

Deila grein

25/05/2016

Starfshópur um vindorkuver skipaður

sigrunmagnusdottir-vefmyndSigrún Magnúsdóttir umhverfis- og auðlindaráðherra hefur skipað starfshóp sem fara mun yfir regluverk varðandi starfsemi vindorkuvera og framkvæmdir vegna þeirra. Greining starfshópsins mun einnig ná til löggjafar á málefnasviði atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins er varðar leyfisútgáfu og eftirlit með starfsemi vindorkuvera.
Áhugi fyrir starfsemi vindorkuvera hefur aukist verulega á síðustu árum og er hópnum ætlað að kanna hvort umfjöllun um þau sé nægileg í íslenskum lögum. Í starfshópnum sitja:

  • Steinunn Fjóla Sigurðardóttir, formaður, umhverfis- og auðlindaráðuneyti,
  • Herdís Helga Schopka, sérfræðingur, umhverfis- og auðlindaráðuneyti,
  • Ottó Björgvin Óskarsson, lögfræðingur, tilnefndur af Skipulagsstofnun,
  • Sveinn Þorgrímsson, sérfræðingur, tilnefndur af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti,
  • Agnar Bragi Bragason, lögfræðingur, tilnefndur af Umhverfisstofnun,
  • Margrét Arnardóttir, verkefnastjóri, tilnefnd af Samorku,
  • Vigdís Ósk Häsler Sveinsdóttir, lögfræðingur, tilnefnd af Sambandi íslenskra sveitarfélaga,
  • Jóhann Ólafsson, sviðsstjóri, tilnefndur af Mannvirkjastofnun,
  • Laufey Hannesdóttir, verkfræðingur, tilnefnd af frjálsum félagasamtökum.

Starfshópnum er ætlað að skila greinargerð til ráðuneytisins um þau atriði sem starfshópurinn telur að þarfnist breytinga í viðkomandi lögum og reglugerðum eigi síðar en 1. september 2016.

Heimild: www.umhverfisraduneyti.is

Categories
Fréttir

Tillaga um móttöku flóttafólks samþykkt á fundi ríkisstjórnar

Deila grein

24/05/2016

Tillaga um móttöku flóttafólks samþykkt á fundi ríkisstjórnar

Eygló HarðardóttirRíkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun tillögu Eyglóar Harðardóttur félags- og húsnæðismálaráðherra um móttöku flóttafólks síðar á þessu ári. Tillagan er í samræmi við niðurstöðu flóttamannanefndar um að líkt og síðast verði tekið á móti sýrlensku flóttafólki sem staðsett er í Líbanon. Gert er ráð fyrir að þrjú sveitarfélög; Reykjavík, Hveragerði og Árborg, annist móttöku fólksins.
Stríðsátökin í Sýrlandi hafa verið viðvarandi frá ársbyrjun 2011 með skelfilegum afleiðingum fyrir sýrlenska borgara. Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur skráð yfir 4,8 milljónir sýrlendinga sem flóttafólk og eru flestir þeirra staðsettir í nágrannaríkjum Sýrlands. Mikil spenna hefur skapast ríkjunum þar sem flóttamannastraumurinn er hvað þyngstur og óttast alþjóðasamfélagið að átökin í Sýrlandi dreifist til fleiri ríkja.
Á fundi flóttamannanefndar 6. maí sl. samþykkti flóttamannanefnd að leggja til að áfram yrði tekið á móti sýrlensku flóttafólki frá  Líbanon þar sem fjöldinn er mikill og innviðir landsins til að aðstoða slíkan fjölda eru takmarkaðir.
Flóttamannanefnd leggur jafnframt til að Reykjavík, Hveragerði og Árborg verði næstu móttökusveitarfélögin. Þessi sveitarfélög höfðu frumkvæði að viðræðum um samstarf vegna móttöku á kvótaflóttafólki á haustmánuðum. Í þeim öllum eru virkar og öflugar Rauðakrossdeildir og náið samstarf er á milli Rauðakrossdeildanna í Hveragerði og Árborg. Við val á sveitarfélögum horfði flóttamannanefnd til þess áhuga sem sveitarfélögin höfðu sýnt móttöku flóttafólks og einnig atvinnuástands, félagsþjónustu, húsnæðis-, heilbrigðisþjónustu og menntunarmöguleika á svæðunum.
Reykjavíkurborg hefur áratugareynslu að móttöku flóttafólks og þar á meðal hefur borgin tekið á móti flóttafólki frá Sýrlandi en árið 2015 komu þrettán Sýrlendingar sem kvótaflóttamenn til Reykjavíkur því að þá var sérstök áhersla á flóttafólk með heilbrigðisvanda.
Hveragerði og Árborg hafa ekki tekið áður á móti kvótaflóttafólki en mat flóttamannanefndar er að sveitarfélögin séu vel í stakk búin til að taka á móti flóttafólki, þar sem öll nærþjónusta er til staðar og einnig er horft sérstaklega til þess að Vinnumálastofnun hefur aðsetur í Árborg.
Flóttamannanefnd telur mikilvægt að þekking á málefnum flóttafólks aukist í sveitarfélögunum og því er lagt til að þegar tekið er á móti flóttafólki þá komi að því bæði sveitarfélög sem hafa þekkingu á móttökunni, sem geti þá miðlað af reynslu sinni, sem og sveitarfélög sem eru að taka á móti fólki í fyrsta sinn. Það er því talinn mikill styrkur að Reykjavík taki á móti hópi núna ásamt tveimur nýjum sveitarfélögum.
Kostnaður við móttökuna nemur um 200 m.kr. og er gert ráð fyrir fjármagninu í fjárlögum ársins 2016.

Heimild: www.velferdarraduneyti.is

Categories
Fréttir

Stuðningi Íslands við niðurstöður leiðtogafundar heitið

Deila grein

24/05/2016

Stuðningi Íslands við niðurstöður leiðtogafundar heitið

LiljaAlfreðsdóttir-utanríkisráðuneyti02Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra hét í dag stuðningi Íslands við meginniðurstöður leiðtogafundar um mannúðarmál, sem haldinn er í Istanbúl í Tyrklandi. Í ávarpi á þessum fyrsta leiðtogafundi sinnar tegundar lagði hún jafnframt áherslu á mikilvægi kynjajafnréttis og sagði fátt betur til þess fallið að koma í veg fyrir átök og leysa deilumál en aðkoma kvenna. Meginniðurstöður leiðtogafundarins, sem hefur verið í bígerð í fjögur ár, miðast að því að umbreyta fyrirkomulagi neyðar- og mannúðaraðstoðar í heiminum, þannig að hún skili betri árangri. Tilefnið er ærið, þar sem mannkynið stendur frammi fyrir miklum áskorunum af völdum ófriðar, náttúruhamfara, sárrar fátæktar og áhrifa loftlagsbreytinga.
Utanríkisráðherra segir Íslendinga þekkja vel mikilvægi samstöðu þegar tekist er á við erfið verkefni. ,,Þess vegna hefur Ísland lagt til umtalsvert fjármagn á þessu ári og því síðasta til að aðstoða þá verst stöddu vegna átakanna í Sýrlandi. Og af sömu ástæðu styður Ísland allar meginniðurstöður leiðtogafundarins,” sagði Lilja.
Ráðherra hét auknum stuðningi við Neyðarsjóð SÞ (CERF) á næstu árum en framlög til neyðar- og mannúðarmála hafa á undanförnum árum numið að jafnaði um 200 milljónir króna. Til viðbótar við þetta kemur aukaframlag ríkisstjórnar upp á 250 milljónir árið 2015 og 500 milljónir árið 2016 vegna neyðarástandsins sem skapast hefur vegna stöðunnar í Sýrlandi.
Meginniðurstöður fundarins fela í sér stuðning við fimm markmið: sterkari pólitíska forystu til að koma í veg fyrir og binda enda á átök; að höfð verði í heiðri gildi sem standa vörð um mannúð og mannréttindi; að enginn gleymist; að í stað þess að fólk í neyð hljóti neyðaraðstoð verði ráðist að rótum vandans og sjálfri þörfinni fyrir neyðaraðstoð eytt; og að fjárfest verði í því sem gerir okkur mannleg; menntun, þekkingu o.s.frv.
Utanríkisráðherra notaði tækifærið á fundinum í Istanbúl til að hitta ýmsa ráðamenn og nokkra af forystumönnum stofnana Sameinuðu þjóðanna. Hún hitti m.a. yfirmann neyðar- og mannúðaraðstoðar SÞ í Líbanon, Philippe Lazzarini. Ísland veitti á síðasta ári 98 milljónum ísl. króna til sérstaks sjóðs OCHA til handa Líbanon, en fjármunir úr honum eru nýttir til að veita sýrlensku flóttafólki nauðsynlega aðstoð. Ísland hefur sem kunnugt er þegar tekið á móti 48 sýrlenskum flóttamönnum, á grundvelli samkomulags við Flóttamannastofnun SÞ (UNHCR) og von er á fleiri flóttamönnum síðar á þessu ári.
Ráðherra fundaði einnig með Pierre Krahenbuhl, framkvæmdastjóra Palestínuflóttamannahjálpar SÞ (UNRWA), en Ísland hefur um árabil stutt við UNRWA og veitti nýverið fimmtíu milljónum ísl. króna til fjársöfnunar UNRWA í þágu Palestínumanna sem eiga um sárt að binda vegna átakanna í Sýrlandi.

Heimild: www.utanrikisraduneyti.is

Categories
Fréttir

Byggir menntakerfið og menntastefnan á öryggi en ekki sköpun

Deila grein

19/05/2016

Byggir menntakerfið og menntastefnan á öryggi en ekki sköpun

Hjálmar Bogi Hafliðason„Hæstv. forseti. Það mætti ætla að við hv. þm. Björt Ólafsdóttir hefðum sammælst um að ræða um spekilekann. Engar áhyggjur af spekilekanum? Þessi spurning var einmitt fyrirsögn í leiðara Kjarnans fyrir skömmu og ástæða til að staldra aðeins við. Hér er gott efnahagsástand, lítið atvinnuleysi og almennur uppgangur víða í samfélaginu. Þá og einmitt þá er ástæða til að meta stöðuna og setja okkur það markmið að gera enn betur. En samkvæmt tölum Hagstofunnar, eins og hv. þm. Björt Ólafsdóttir kom inn á, hafa tæplega 8 þús. fleiri einstaklingar, Íslendingar, flutt úr landi en til þess frá árinu 2009. Við erum fámennt samfélag og litlar breytingar hafa mikil áhrif, sérstaklega til lengri tíma. En á hátíðarstundum státum við okkur af frábærum skólum og hversu miklum fjármunum við verjum í skólakerfið sem hefur skapað okkur hagsæld. Þá veltum við því fyrir okkur: Er innstæða fyrir þessu?
Þegar uppgangur er í samfélaginu og fólk flyst úr landi er ástæða til að kanna menntun þeirra sem kjósa að flytja úr landi. Hvers vegna segi ég þetta? Getur verið að þessi uppgangur hér heima stuðli ekki að menntuðum störfum? Erum við að stuðla að ójafnvægi til lengri tíma? Því að á sama tíma fjölgar þeim sem stunda nám á háskólastigi.
Það er ekki bara kerfið sem þarf að breyta heldur þarfnast stefnan í hinu stóra samhengi endurskoðunar, þótt vissulega þurfi reglulega að endurmeta menntakerfi þjóðarinnar frá leikskóla og upp í háskóla. Menntakerfið miðar hins vegar að því að þeir sem inn í það fara verði háskólaprófessorar. Ef ekki, fara þeir að vinna.
Er menntakerfið okkar og -stefnan veikburða risi í samfélaginu? Erum við að stuðla að láglaunasamfélagi til lengri tíma þar sem ójöfnuður og misskipting eykst og láglaunastörfum fjölgar? Erum við of upptekin af því að skapa öryggi í menntakerfinu og gleymum þess vegna stefnunni? Til þess að ná fram samfélagsbreytingum er árangursríkast að breyta menntakerfinu og rétta menntastefnuna af, að stuðla að nýsköpunar- og tæknimenntun, að hefja verknám til vegs og virðingar. Spurningin sem ég ætla þá að skilja eftir á Alþingi er þessi: Byggir menntakerfið og menntastefnan á öryggi en ekki sköpun, sem leiðir til þess að það er spekileki úr samfélaginu sem ýtir þar af leiðandi undir ójöfnuð?“
Hjálmar Bogi Hafliðason í störfum þingsins 18.05.2016.

 

Categories
Fréttir

20% launamunur enn til staðar á milli kynjanna

Deila grein

19/05/2016

20% launamunur enn til staðar á milli kynjanna

flickr-Elsa Lára Arnardóttir„Hæstv. forseti. Frá árinu 1976 höfum við Íslendingar talið okkur vera í forustusveit jafnréttismála en það ár samþykkti Alþingi lög um jafnrétti kvenna og karla, nr. 78/1976. Í dag eru því 40 ár síðan fyrstu lög um jafnrétti kynjanna voru samþykkt. Í ljósi þessa er áhugavert að rifja upp orð Gunnlaugs Finnssonar, fyrrum hv. þingmanns Framsóknar. Hann var þingmaður Vestfirðinga en samkvæmt núverandi kjördæmaskipan norðvesturkjördæmis. Í umræðum um jafnréttislögin vakti hann máls á þeim launamun sem var á milli kynjanna. Með leyfi forseta langar mig að vitna í ræðu hans, en hann sagði:
„Mér finnst ástæða til þess líka að vekja athygli á því að þessi aðstöðumunur kvenna og karla í atvinnulífinu er e.t.v. mestur og verstur hjá því unga fólki sem að sumri til er að vinna fyrir sínum skólakostnaði. Þar kemur að sjálfsögðu margt til. Sumt af því er hefðbundið. Það er ekki tekið tillit til þess í úthlutunarreglum lánasjóða eða annarri fyrirgreiðslu, en það mun ekki óalgengt að sumartekjur stúlkna séu rétt um það bil helmingurinn af því sem sumartekjur pilta eru.“
Virðulegur forseti. Síðan þessi orð voru sögð hefur mikið vatn runnið til sjávar og margt breyst. Lögunum hefur verið breytt fjórum sinnum og þar hefur verið unnið með nýjar áherslur, ný málefni og nýjar leiðir. Þrátt fyrir það er enn þá of mikill munur á stöðu kynjanna og talið er að það sé allt að 20% launamunur enn til staðar á milli kynjanna. Það er of mikið og við verðum að halda áfram að finna leiðir til að vinna gegn þeim mismun. Ég vona að við Íslendingar verðum þeirrar gæfu aðnjótandi að ná að jafna þennan launamun sem allra fyrst.“
Elsa Lára Arnardóttir í störfum þingsins 18.05.2016.

Categories
Fréttir

Vinna þarf að jafnara náms- og starfsvali kynjanna

Deila grein

19/05/2016

Vinna þarf að jafnara náms- og starfsvali kynjanna

flickr-Líneik Anna Sævarsdótir„Virðulegi forseti. Í dag eru 40 ár frá því að fyrstu jafnréttislögin voru samþykkt. Síðan þá hafa þau verið endurskoðuð fjórum sinnum með nýjum áherslum, nýjum málefnum og nýjum leiðum. Margt hefur áunnist en af nógu er að taka.
Í því ljósi er það fagnaðarefni að í gær lagði hv. félags- og húsnæðismálaráðherra Eygló Harðardóttir fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára fyrir árin 2016–2019. Þetta er í sjötta sinn sem slík áætlun er lögð fram og er markmið hennar að tilgreina þau verkefni sem brýnust eru talin á sviði kynjajafnréttis.
Að mínu áliti er eitt af mikilvægustu verkefnunum fram undan að vinna að jafnara náms- og starfsvali kynjanna. Ég tel að þar liggi lykillinn að árangri á fjölmörgum öðrum sviðum til jafnréttis.
Þetta verkefni er sérstaklega hrópandi þessa dagana þegar nemendur á öllum skólastigum eru að velja sér námsleiðir fyrir næsta ár og næstu ár. Verkefnum sem ætlað er að stuðla að jafnara náms- og starfsvali falla undir mörg málefnasvið og eru á verksviði margra ólíkra aðila.
Ég tel því ákaflega mikilvægt að í tengslum við endurskoðun framkvæmdaáætlunar í jafnréttismálum verði sett skýr markmið í þeim efnum. Við gætum t.d. byrjað á því að setja okkur markmið um kynjahlutföll í ákveðnum greinum árið 2019. Hvernig væri að byrja á því að setja markmið varðandi kynjahlutfall innritaðra í kennaranám og nokkrar iðngreinar? Þá væri hægt að beita viðeigandi hvötum.
Í öllu falli er mikilvægt að hafa skýr markmið um mælanleg skref þegar fjöldi aðila þarf að vinna saman til þess að árangur náist.“
Líneik Anna Sævarsdóttir í störfum þingsins 18.05.2016.

Categories
Fréttir

Íslensk verslun hefur ekki skilað tollalækkunum

Deila grein

19/05/2016

Íslensk verslun hefur ekki skilað tollalækkunum

Þorsteinn-sæmundsson„Hæstv. forseti. Það eru tvær nýlegar fréttir, ekki beint tengdar, og þó, sem verða til þess að ég tek til máls í dag. Önnur fréttin er sú að samkvæmt verðlagsvakt ASÍ hafa þeir ágætu menn og konur fundið út að íslensk verslun hefur ekki skilað til neytenda þeim tollalækkunum sem urðu á fatnaði og skóm um síðustu áramót. Þetta kemur í viðbót við það sem áður hefur komið fram, m.a. í ræðum þess sem hér stendur, að verslunin hefur heldur ekki staðið skil á því að íslenska krónan hefur styrkst. Þess er skemmst að minnast að síðustu tólf mánuði hefur íslenska krónan styrkst að meðaltali um 6% gagnvart helstu viðskiptamyntum.
Þessar staðreyndir sýna fram á lítið siðferðisþrek hjá verslunarmönnum, að þeir skuli seilast í það sem ríkið lætur eftir í stað þess að skila því til neytenda. Það er satt að segja forkastanlegt að það hafi ekki gerst.
Hin fréttin sem er þessu tengd, og þó kannski ekki, er sú að þegar Hagar hf., sem er eitt stærsta fyrirtæki í verslun á Íslandi, skilaði ársreikningum um daginn kom í ljós að fyrirtækið er nánast skuldlaust eftir fimm ára starfsemi. Til fyrirtækisins var stofnað árið 2011 með endurskipulagningu sem kostaði bankakerfið í kringum 35–40 milljarða kr., síðan selt dugmiklum mönnum sem í samstarfi við lífeyrissjóðina, þ.e. sjóði íslenskra erfiðismanna, reistu fyrirtækið upp með þessum hætti. Nú er það sem sagt orðið skuldlaust eða skuldlítið eftir fimm ára starf.
Þessi þróun er í boði lífeyrissjóða landsmanna. Nú held ég að menn ættu að hugsa sig verulega vel um, sérstaklega þeir sem sitja í stjórnum fyrirtækja fyrir hönd lífeyrissjóða, (Forseti hringir.) eða að lífeyrissjóðir fái menn í stjórn í samræmi við sitt eignarhald til að hægt sé að koma böndum á þessi mál á Íslandi.“
Þorsteinn Sæmundsson í störfum þingsins 18.05.2016.

Categories
Fréttir

40 ár frá fyrstu lögum um jafnrétti

Deila grein

19/05/2016

40 ár frá fyrstu lögum um jafnrétti

Jóhanna María - fyrir vef„Hæstv. forseti. Í dag eru 40 ár frá því að fyrstu lög um jafnrétti á Íslandi voru samþykkt. Þó höfðu áður verið samþykkt atriði sem hluti af öðrum lögum, eins og ákvæði um almennan launajöfnuð kvenna og karla árið 1961, en opinberir starfsmenn voru fyrsta starfsstéttin sem hlaut lögverndað launajafnrétti árið 1954. Það er frekar sorglegt til þess að hugsa hversu langt er liðið frá lagasetningu um launajöfnuð og að við skulum samt ekki vera komin lengra með málið.
Íslenskar konur hafa verið mjög samhentar þegar kemur að því að þoka jafnréttismálum áfram. En núna er markmiðið sett hærra og er mikilvægt að kynin komi saman til að vinna að jafnréttismálum, hagsmunamálum sem varða báða aðila, og að flestir séu með í átakinu HeForShe sem UN Women á Íslandi og aðilar víða í heiminum standa að.
Virðulegi forseti. Ég vil nota þetta tækifæri til að hvetja alla karlmenn til þátttöku. Það er ekki einungis efnahagslegt mál að kynin standi jöfn heldur einnig samfélagslegt. Það snýr líka að því að karlmenn fái tækifæri til að sinna öllu því sem er þeim hugleikið án fyrir fram mótaðra kynjahlutverka. Það er ekkert samfélagslega samþykkt nema við leyfum það. Við skulum ekki láta önnur 40 ár líða áður en við náum árangrinum sem við stefnum að.“
Jóhanna María Sigmundsdóttir í störfum þingsins 18.05.2016.

Categories
Fréttir

Íslendingar hafa náð árangri á sviði jafnréttis

Deila grein

19/05/2016

Íslendingar hafa náð árangri á sviði jafnréttis

Silja-Dogg-mynd01-vef„Virðulegi forseti. Í dag eru liðin nákvæmlega 40 ár frá samþykkt laga um jafnrétti kvenna og karla. Í lögunum var tekið fram að tilgangur þeirra væri að stuðla að jafnrétti og jafnri stöðu kvenna og karla. Lögin beindust fyrst og fremst að stöðu kynjanna á vinnumarkaði, ekki síst hvað varðaði launajafnrétti. Einnig voru ákvæði um jafnréttisfræðslu í skólum og kveðið var á um að auglýsendum væri óheimilt að birta auglýsingar sem orðið gætu öðru kyninu til minnkunar eða lítilsvirðingar.
Á þessum tímamótum er rétt að minnast þess að þótt 40 ár séu frá setningu þessara laga eru enn til staðir í heiminum sem ekki veita konum rétt á jafnri stöðu á við karlmenn. 52 ríki eru ekki með jafnrétti í sinni stjórnarskrá líkt og kveðið er á um í 65. gr. íslensku stjórnarskrárinnar. 26 ríki veita kynjunum ekki jafna stöðu þegar kemur að erfðarétti og 60% af þeim sem skortir grunnmenntun í heiminum, á borð við lesskilning, eru konur. Kynbundið ofbeldi er stórkostlegt vandamál um heim allan. Sums staðar tíðkast enn að gifta barnungar stúlkur eldri karlmönnum. Konur eru víðast hvar í minni hluta þegar kemur að stjórnun fyrirtækja, þær eru í minni hluta í flestöllum ef ekki öllum þjóðþingum heims og svo mætti lengi telja — árið 2016.
Hluti utanríkismálanefndar Alþingis heimsótti japanska þingið fyrir skömmu. Á nánast öllum fundum var að frumkvæði gestgjafanna rætt um jafnrétti en japanska ríkisstjórnin leggur nú áherslu á að bæta jafnrétti í landinu. Jafnrétti snýst nefnilega ekki bara um mannréttindi fólks, heldur hefur jafnrétti afar jákvæð efnahagsleg og samfélagsleg áhrif.
Íslendingar hafa náð árangri á sviði jafnréttis. Við getum miðlað af reynslunni og haldið áfram að vera góð fyrirmynd fyrir þjóðir sem eru skemmra á veg komnar en við, en við megum samt sem áður ekki sofna á verðinum.
Dagur sem þessi minnir okkur á það.“
Silja Dögg Gunnarsdóttir í störfum þingsins 18.05.2016.

Categories
Fréttir

Sigurður Ingi í heimsókn í Washington og heim aftur í vorverkin

Deila grein

18/05/2016

Sigurður Ingi í heimsókn í Washington og heim aftur í vorverkin

Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra og Barack Obama Bandaríkjaforseti áttu samtal í Hvíta húsinu, nánar til tekið í Oval skrifstofunni á föstudaginn. Í lok samtalsins bauð forsætisráðherra Obama að sækja Ísland heim hvenær sem kynni að henta.
13254470_10153747704951676_1613145335636541279_n
Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra lagði blómsveig við minnisvarða óþekkta hermannsins við athöfn í Arlington kirkjugarði á laugardagsmorgun. Hinir leiðtogar Norðurlandanna gerðu slíkt hið sama.
13239390_10153749884291676_122712198475944898_n13260048_10153749884191676_4216659426221677602_n
Er heim var komið tóku vorverkin við og þau jafnvel langt komin. Allavegana búið að slóðadraga.
13237857_1359496554065417_4132788992749140287_n13087490_1359496550732084_3959209235002197607_n