Categories
Fréttir

Lítill stuðningur við ríkisstjórnina er vitnisburður um að það vanti samfélagslega sátt

Deila grein

25/01/2017

Lítill stuðningur við ríkisstjórnina er vitnisburður um að það vanti samfélagslega sátt

lilja____vef_500x500,,Virðulegi forseti. Góðir landsmenn. Efnahagsleg endurreisn Íslands hefur gengið afar vel. Lánshæfi ríkissjóðs hefur hækkað í A-flokk, m.a. vegna lækkandi skulda ríkissjóðs, mikils innstreymis gjaldeyris og góðrar ytri stöðu þjóðarbúsins. Þá hafa stöðugleikaframlög slitabúanna gert það að verkum að heildartekjur ríkissjóðs eru við 1.000 milljarða á fjárlögum síðasta árs. Ég er því ekki alveg viss um að þetta tengist nýlegri skipan hæstv. fjármála-og efnahagsráðherra eins og hann virðist jafnvel halda því að hækkun lánshæfismats ríkissjóðs er langhlaup og hann er bara nýbúinn að hefja störf.
Algjör grundvallarbreyting hefur orðið frá fyrri tímum þar sem hrein erlend staða þjóðarbúsins er nú jákvæð í fyrsta sinn síðan mælingar hófust. Seðlabankinn hefur brugðist við þessu mikla innflæði með auknum kaupum á gjaldeyri. Gjaldeyrisforðinn er orðinn rúm 40% af landsframleiðslu, en kostnaður við hann að sama skapi er umtalsverður. Eitt stærsta verkefni hagstjórnarinnar verður að bregðast við þeim breytingum sem hafa átt sér stað á viðskiptajöfnuðinum.
Góðir landsmenn. Einn liður í því væri að setja á laggirnar stöðugleikasjóð Íslands. Slíkur sjóður hefði það eitt af meginmarkmiðum að stuðla að sveiflujöfnun í hagkerfinu. Þjóðir sem eru ríkar að auðlindum líkt og Ísland hafa sett upp svipaða sjóði til að ná betur utan um hagstjórnina. Norski olíusjóðurinn er eitt besta dæmið um slíkan sjóð.
Ýmsar hugmyndir hafa komið fram um stofnun sjóðs með svipað hlutverk. Til að mynda er getið um slíkan sjóð í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar og tel ég það vera afar jákvætt. Almennt er gengið út frá því að auðlindagjöld standi undir sjóðnum, bæði stofnframlagi og vexti hans. Slíkt er vissulega mögulegt en það tæki langan tíma að byggja upp myndarlegan höfuðstól til ávöxtunar. Skilvirkara væri að nota hluta af stöðugleikaframlögunum sem höfuðstól stöðugleikasjóðsins, kaupa upp hluta af gjaldeyrisforða Seðlabankans og stækka sjóðinn svo smám saman með tekjum af auðlindum landsins, þ.e. sjávarútvegi, orkugeiranum og ferðaþjónustu.
Ég held að flestum landsmönnum sé ljóst að efnahagslegri endurreisn sé vel á veg á komið. Hins vegar hefur vantað upp á samfélagslega sátt í þjóðfélaginu. Má segja að lítill stuðningur við ríkisstjórnina sé vitnisburður um slíkt. Okkur stjórnmálamönnunum ber að hlusta gaumgæfilega eftir því hver voru skilaboðin í síðustu kosningum.
Góðir landsmenn. Við í Framsóknarflokknum teljum að brýnasta verkefnið fram undan sé að fjármunum sé forgangsraðað í þágu heilbrigðismála. Íslenska heilbrigðiskerfið á að standast samanburð við það sem best gerist í heiminum. Við viljum fjárfesta enn frekar í innviðum kerfisins og stíga markviss skref svo allir fái notið góðrar þjónustu án tillits til efnahags. Við munum því leggja til á þingi að fela heilbrigðisráðherra að hefja vinnu við heildstæða heilbrigðisáætlun fyrir Ísland. Heilbrigðisáætlun skal vinna í samráði við fagfólk í heilbrigðisstéttum þar sem m.a. þarf að taka tillit til þeirra miklu tækniframfara sem eru að eiga sér stað í heilbrigðismálum. Við viljum að Ísland sé þar fremst í flokki og geti boðið upp á eina tæknivæddustu heilbrigðisþjónustu sem völ er á. Þjóðin kallar eftir því að heilbrigðismálum sé sinnt betur og við verðum að axla þá ábyrgð.
Samkeppnishæfi Íslands skiptir okkur öll máli. Einn liður í því er að menntakerfi okkar undirbúi framtíð þjóðarinnar. Í alþjóðlegum samanburði hafa skólarnir okkar verið að gefa eftir. Við verðum að bregðast við þeirri þróun. Menntakerfið er ein af grunnstoðum samfélagsins og framtíðin byggir á styrk þess. Við í Framsóknarflokknum leggjum ríka áherslu á að efla menntun í landinu með jöfnum tækifærum og hagsmunum þjóðarinnar að leiðarljósi. Við viljum fjárfesta í menntakerfinu þannig að Ísland nái meðaltali OECD-ríkjanna er varðar fjármögnun háskólastigsins árið 2020.
Góðir landsmenn. Vandi fylgir vegsemd hverri. Kjöraðstæður eru í íslensku efnahagslífi og mikilvægt að rétt sé haldið á málum. Við stöndum frammi fyrir einstöku tækifæri til að gera vel og forgangsraða vel. Brýnt er að þingið vinni vel saman að góðum málum.
Ég óska nýrri ríkisstjórn velferðar og tel að henni farnist best með virku og öguðu aðhaldi frá minni hlutanum. — Eigið góðar stundir.”
Lilja Dögg Alfreðsdóttir í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra 24. janúar 2017. 

Categories
Fréttir

Hvers vegna tók forsætisráðherrann Seðlabankann með sér þegar kassarnir voru fluttir úr Arnarhvoli niður í Stjórnarráð

Deila grein

25/01/2017

Hvers vegna tók forsætisráðherrann Seðlabankann með sér þegar kassarnir voru fluttir úr Arnarhvoli niður í Stjórnarráð

sigmundur_vef_500x500,,Virðulegur forseti. Góðir landsmenn. Nú höfum við lesið stjórnarsáttmálann. Við höfum hlustað á stefnuræðuna. En við erum engu nær um það til hvers þessi ríkisstjórn var mynduð. Var það bara vegna þess að hún var talin ívið skárri kostur en áframhaldandi óvissuástand, áframhaldandi stjórnarkreppa, sem fylgdi hinum undarlegustu kosningum síðari áratuga? Hver eru markmiðin, ég tala nú ekki um aðferðirnar? Við vitum það ekki og erum engu nær eftir umræðuna í kvöld.

Það var mjög lýsandi að þegar nýr forsætisráðherra var spurður að því í fjölmiðlum fyrir fáeinum dögum hvaða mál stæðu upp úr hjá nýrri ríkisstjórn á fyrsta þingi hennar þá kom honum ekki annað til hugar en að nefna ríkisfjármálaáætlun, það væri líklega ríkisfjármálaáætlun sem stæði upp úr. Þetta er lögbundið plagg sem fjármálaráðherra leggur fram á hverju ári og það stendur upp úr hjá þessari ríkisstjórn á fyrsta þingi hennar. Ráðherrann hefði allt eins getað fylgt þessu eftir með því að segja að svo yrði líklega kosið í nefndir og síðan mætti vænta þess að það yrðu eldhúsdagsumræður einhvern tíma undir lokin. Það væri það sem stæði upp úr. Ekkert nýtt, engin stefna, engin sýn.

Þegar ríkisstjórn tók við árið 2013 var til staðar sýn en ekki aðeins sýn heldur líka stefna um það hvernig menn ætluðu að hrinda þeirri sýn í framkvæmd. Það var strax hafist handa við undirbúning og einungis sex mánuðum eftir að ríkisstjórnin tók við var ráðist í framkvæmd á risastórum breytingum. Hér segja menn okkur, svona í bland við einhverja frasa, að fyrsta árið fari í að meta stöðuna, meta heilbrigðiskerfið, peningastefnuna, kalla til fjölflokkasamráð, og líklega fjölþjóðlegt samráð líka, og svo sjái menn hvað komi út úr því.

En auðvitað ættum við að gleðjast, virðulegur forseti, yfir því sem er kannski einna mikilvægast við myndun þessarar ríkisstjórnar og það er að tvíhöfða flokkurinn Viðreisn/BF skuli hafa gefið eftir nánast öll megináhersluatriði sín úr kosningabaráttunni þegar stjórnin var mynduð, a.m.k. á pappírnum. En hvað gerist á bakvið tjöldin? Formaður Viðreisnar/BF er alræmdur plottari að eigin mati. Hann tekur að sér að plotta, ekki einungis fyrir sjálfan sig heldur aðra líka. Hvaða plott bjó að baki þegar þessi ríkisstjórn var mynduð? Hvert var viðeigandi plott, svo ég noti orð formanns Viðreisnar, þegar ríkisstjórnin var mynduð? Hvað þurfti t.d. Sjálfstæðisflokkurinn að gefa eftir til þess að endurheimta Viðreisn og fylgitungl þess flokks og fá þá til fylgilags við sig?

Reyndar vakti athygli mína að nýr fjármálaráðherra sá ástæðu til að setja ofan í við nýjan forsætisráðherra þegar á kynningarfundi þar sem verið var að kynna ríkisstjórnina og sagði honum að hann ætti að passa sig að eyða ekki of miklu úr kassanum sem hann myndi halda utan um. Það er kannski ekki svo skrýtið því að ég hef aldrei áður heyrt formann Sjálfstæðisflokksins státa sig sérstaklega af því hversu mikið honum hafi tekist að auka útgjöld ríkissjóðs milli ára. Það held ég að hafi ekki gerst áður í sögu þess annars ágæta flokks fyrr en nú.

En hvað með allt hitt? Hvað með kröfur samtaka sem urðu til undir nöfnum á borð við Áfram Icesave og Já ESB? Hvert verður viðeigandi plott í samstarfi við þá flokka? Hvert verður viðeigandi plott þegar kemur að því að fara í gegnum hvers konar fjármálakerfi við ætlum að hafa í landinu, endurmeta það? Hvert verður viðeigandi plott í samskiptum við Evrópusambandið?

Nýr forsætisráðherra tók reyndar Seðlabankann með sér þegar kassarnir voru fluttir úr Arnarhvoli niður í Stjórnarráð. Hvers vegna gerði hann það? Það hlýtur að vera einhver ástæða fyrir því. Hvað ætlar nýr forsætisráðherra sér með Seðlabankann? Það var reyndar nefnt að skoða ætti peningastefnuna, en hvernig? Sjálfstæðisflokkurinn vill, held ég, sjálfstæða peningastefnu, annar stjórnmálaflokkur myntráð og sá þriðji ganga í ESB og leysa málin þannig. Hvernig verður þetta leyst og hvernig verður tekist á við okurvextina og verðtrygginguna?

Að sögn vann núverandi forsætisráðherra að því árum saman, eða frá því snemma á síðasta kjörtímabili, að meta í fjármálaráðuneytinu hvernig staðið yrði að því að vinna sig út úr kerfi verðtryggingar. Skyldu þau blöð og sú vinna hafa fylgt í kössunum þegar flutt var úr Arnarhvoli í Stjórnarráðið eða skyldi sú vinna öll hafa farið í pappírstætarann? Það verður tíminn að leiða í ljós, virðulegi forseti. Tími minn er nánast á þrotum svo áform mín um að hrósa nokkrum ráðherrum — ekki mörgum — eru þar með farin út um þúfur í bili, en það vinnst tími til þess síðar.

Aðalatriðið er þetta: Með örfáum undantekningum er þetta ríkisstjórn með óljósa sýn, takmarkaða stefnu og engar leiðir til að hrinda henni í framkvæmd. En á meðan þessir flokkar eru í ríkisstjórn verðum við líklega að vonast til þess að það verði þannig áfram.”

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra 24. janúar 2017.

Categories
Fréttir

Upptaka samræmdrar vísitölu neysluverðs

Deila grein

24/01/2017

Upptaka samræmdrar vísitölu neysluverðs

elsa_vef_500x500Elsa Lára Arnardóttir, alþingismaður Framsóknar, hefur lagt fram þingmál er varðar samræmda vísitölu neysluverðs.
Í tillögunni segir að Alþingi álykti að fela fjármála- og efnahagsráðherra að skipa starfshóp óháðra sérfræðinga sem greini kosti og galla þess að gera breytingar á útreikningi verðbólgu og verðtryggingar þannig að framvegis verði notuð samræmd vísitala neysluverðs í stað vísitölu neysluverðs.
Við greiningarvinnuna verði sérstaklega horft til þess hvernig verðbólga er mæld í helstu viðskiptalöndum Íslands og metið hvaða áhrif breytingin hefði á launakjör, lánakjör, stöðu verðtryggðra lána og vexti. Ráðherra flytji Alþingi skýrslu með helstu niðurstöðum eigi síðar en í september 2017.

Heimild: www.althingi.is 

Categories
Fréttir

Elsti stjórnmálaflokkur landsins

Deila grein

20/12/2016

Elsti stjórnmálaflokkur landsins

flickr-Þórunn Egilsdóttir,,Hæstv. forseti. Framsóknarflokkurinn á afmæli á morgun og því fögnum við Framsóknarmenn með veglegri hátíð í Þjóðleikhúsinu og hátíðum víða um land næstu daga. Þangað eru að sjálfsögðu allir velkomnir. Framsóknarflokkurinn er 100 ára, hefur starfað með þjóðinni í 100 ár, heila öld. Það er í sjálfu sér ekki langur tími, svona í eilífðinni, en vissulega langur tími í pólitík. Framsóknarflokkurinn, elsti starfandi stjórnmálaflokkur landsins, hefur átt aðild að ríkisstjórn í 62 ár. Eðli málsins samkvæmt höfum við komið mörgum framfaramálum til leiðar og haft afgerandi áhrif á þróun samfélagsins sem breyttist á þessum tíma úr einföldu bændasamfélagi í tæknivætt nútímasamfélag með rödd meðal þjóða heimsins. Auðvitað gerðum við þetta ekki ein því að stjórnmálin snúast um samvinnu og samtal. Gildi samvinnustefnunnar falla aldrei úr gildi.
Upphaf flokksins má rekja til Seyðisfjarðar haustið 1916. Þá voru þingmenn af Norður- og Austurlandi á leið til þings sem hafði verið kallað saman í desember því að þá átti, líkt og nú, að mynda ríkisstjórn. En skipunum seinkaði og menn höfðu tíma til að ráða ráðum sínum og ákváðu þingmennirnir að stofna þingflokk. Þegar þeir komu loks til Reykjavíkur höfðu þeir samband við fleiri þingmenn og úr varð að stofnendur flokksins urðu alls átta. Fyrsta fundargerð hins nýja flokks var bókuð 16. desember 1916 og telst það því stofndagur hans.
Stofnanir flokksins standa á gömlum merg. Á öðru flokksþingi Framsóknarflokksins árið 1931 var miðstjórn og framkvæmdaráð stofnað, árið 1933 voru flokksfélögin orðin 52. Samband ungra Framsóknarmanna var stofnað 1938 og Landssamband Framsóknarkvenna var stofnað 1981. Þetta er dýrmætt. Við höfum ramma til að starfa eftir, getum leitað í söguna, um allt land höfum við sterka grasrót sem byggir á gömlum merg, fólk sem hefur hugsjónir og vill vinna að þeim. Það eru forréttindi að fá að starfa í slíkum flokki.
Hæstv. forseti. Verkefni stjórnmálanna er að vinna að framfaramálum hvers tíma, hafa áhrif og vinna samfélaginu gagn. Það ætlum við Framsóknarmenn að gera áfram og hlökkum til.”
Þórunn Egilsdóttir í störfum þingsins 15. desember 2016. 

Categories
Fréttir

Ávarp Sigurðar Inga Jóhannssonar, formanns Framsóknarflokksins

Deila grein

17/12/2016

Ávarp Sigurðar Inga Jóhannssonar, formanns Framsóknarflokksins

Ávarp Sigurðar Inga Jóhannssonar, formanns Framsóknarflokksins, í Þjóðleikhúsinu 16. desember 2016.
****
Kæra framsóknarfólk – ágæta samkoma.
Saga Framsóknarflokksins er löng og í dag fögnum við 100 ára afmæli flokksins sem stofnaður var 16. desember 1916. Enginn íslenskur stjórnmálaflokkur á sér lengri sögu.
Eins og vænta má hafa verkefnin verið mörg og misjöfn og verið í takt við þau baráttumál sem íslenska þjóðin hefur þurft að takast á við í þennan tíma. Höfum það í huga að 1916 var Ísland ekki sjálfstætt ríki – baráttuhugur aldamótakynslóðarinnar var farinn að skila árangri og frelsiskyndlar hugsjónamanna loguðu skært – ekki síst hjá ungmennafélögum og samvinnufélögum sem að verulegu leyti kusu Framsóknarflokkinn sem málsvara sinn. Við höfðum eignast Stjórnarráð, Háskóla og okkar eigið skipafélag og stutt var í sjálfstæðið.
Eins og vænta mátti var ekki alltaf einhugur meðal landsmanna um leiðir þótt markmiðin væru oftast þau sömu. Framsóknarflokkurinn haslaði sér völl á miðju stjórnmálanna – ekki af því að þar væri helst atkvæða að leita – heldur vegna þess að veröldin er ekki í svörtu og hvítu. Eindregnar skoðanir til hægri og vinstri hafa aldrei heillað Framsóknarfólk, né nokkuð í þá veru að afsala sjálfstæði landsins og réttindum í hendur annarra þjóða.
Fyrir stefnu sína var oft vegið að flokknum – hann sagður opinn í báða enda – stefna hans væri miðjumoð og allt þar fram eftir götunum. Þetta má alveg hafa í huga í dag þegar flokkar keppast við að skilgreina sig á miðjunni í þeirri von að þar sé helst fylgis að vænta. Hér er ekki tími til að rekja nákvæmlega sögu flokksins, en Framsóknarflokkurinn hefur átt því láni að fagna að hafa alltaf haft á að skipa dugmiklum stjórnendum – forystufólki sem markað hefur spor í Íslandssöguna.
Góðir gestir.
Framsóknarflokkurinn átti erindi við þjóðina fyrir hundrað árum  og hann á enn  erindi við þjóðina. Baráttan fyrir félagslegu jafnrétti, þar sem hverjum manni er gert kleift að njóta sín í félagi manna, mun alltaf verða til staðar og á því sviði vitnar sagan um að Framsóknarflokkurinn stendur heill að störfum. Vissan um að samvinna manna skili okkur betur fram á veg, en hver fyrir sig, er grunnstefið í okkar starfi sem og einkunnarorðin sígildu; manngildi ofar auðgildi.
Samfylgd með þjóðinni í hundrað ár segir sína sögu. Kannski fyrst og fremst þá, að Framsóknarflokkurinn hefur alla tíð verið mikilsvert afl á vettvangi íslenskra stjórnmála. Framsóknarflokkurinn hefur notið trausts landsmanna og sannað gildi sitt og það sem hann stendur fyrir.
Árin frá stofnun flokksins hafa verið, hvert með sínu sniði, áhugaverð. Áskoranir verið margvíslegar og sigrarnir margir.  Okkur, sem uppi erum núna og lifum og hrærumst í augnablikinu, finnst kannski að merkilegustu tímar allra tíma, séu einmitt núna. En saga lands og þjóðar á 20. öldinni, er saga gríðarlegra breytinga í heiminum öllum. Sama hvar drepið er niður fæti.
Hvað gerðist í tíð ríkisstjórnar Framsóknarflokksins sem settist að völdum árið 1927 undir forystu Tryggva Þórhallssonar, sem lýst var sem mótunarmanni Íslendinga sem sjálfstæðrar þjóðar? Meðal helstu verka var að stórauka stuðning við landbúnað, ný jarðræktarlög voru sett, Búnaðarbankinn var stofnaður og samgöngur stórbættar. Ríkisfyrirtæki voru stofnuð og má þar nefna, Síldarbræðslu ríkisins á Siglufirði, Skipaútgerð ríkisins, Landsmiðjuna, Ríkisútvarpið, Gutenberg ríkisprentsmiðjuna, og Útvegsbanka Íslands. Landhelgisgæslan var efld og hafin bygging Þjóðleikhússins, hvar við nú erum saman komin.
Menntamál hafa ætíð verið flokknum hugleikin. Enda segir svo í Stefnuskrá til bráðabirgða fyrir Framsóknarflokkinn sem samþykkt var 12. janúar 1917:
„Alþýðumenntunina, sem flokkurinn telur hyrningarstein allra þjóðþrifa, vill
hann stefnumarka og styðja, einkum með aukinni kennaramenntun og eflingu
ungmennaskóla í sveitum og lýðskólum fyrir karla og konur í landsfjórðungi
hverjum. Hina æðri menntun vill flokkurinn einnig láta til sín taka og halda hinu vísindalega merki Íslands hátt á lofti …“
Vandséð er að annar flokkur hafi unnið meira átak í skólamálum en unnið var undir forystu flokksins, á tímum Jónasar, þegar héraðsskólar landsins risu hver á fætur öðrum og gáfu þúsundum landsmanna kost á góðri menntun. Og var ekki Framsóknarflokkurinn í forystu um eflingu Háskóla Íslands og stofnun Háskólans á Akureyri? Jú, svo sannarlega.
Það er því sérlega gaman að geta þess að í dag samþykkti forysta flokksins að setja á stofn sérstakan starfshóp sem falið verður að skrifa menntastefnu. Það er verðugt verkefni sem verður undir forystu Sæunnar Stefánsdóttur.
Góðir gestir
Það er hægt að deila um marga hluti, en það verður ekki deilt um hlutdeild Framsóknarflokksins í uppbyggingu Íslands á undanförnum 100 árum. Það var unnið af heiðarleik og festu undir merkjum samvinnu. Og verkefninu, að búa til betra og vænlegra samfélag, lýkur aldrei.
Og enn stöndum við frammi fyrir áskorunum. Ný ríkisstjórn að loknum kosningum í október hefur ekki enn verið mynduð, önnur staða er uppi á Alþingi en við höfum átt að venjast. Úrslit kosninganna eru vísbending um að mynduð verði ríkisstjórn með breiða skírskotun til hægri og vinstri. Milli jaðranna vinstri og hægri í stjórnmálum er miðjan, þungamiðjan. Þar erum við og þar verðum við.
Ágætu framsóknarmenn!
Í umróti innan flokksins í ár, var mér falin sú ábyrgð að setjast í sæti formanns. Fyrir það er ég þakklátur og segi það eitt að þið megið trúa því að ég mun hvergi hvika og leggja allt það fram til að gera veg flokksins okkar sem mestan til hagsbóta fyrir land og þjóð.
„Maðurinn einn er ei nema hálfur – með öðrum er hann meiri en hann sjálfur“ sagði þjóðskáldið okkar Einar Benediktsson. Til að ná árangri er ómögulegt nema hafa samhent fólk á bæði borð og ég veit að svo er. Saman munum við enn og aftur sýna og sanna að Framsóknarflokkurinn er burðarás íslenskra stjórnmála.
Saga Framsóknarflokksins staðfestir að við höfum gengið götuna til góðs. Megi svo verða næstu hundrað ár.
Til hamingju með daginn og megi þið njóta þessa afmælisfagnaðar.

Categories
Fréttir

Bæta þarf veginn um Kjalarnes

Deila grein

14/12/2016

Bæta þarf veginn um Kjalarnes

elsa_vef_500x500,,Hæstv. forseti. Flest ef ekki öll viljum við bættar samgöngur og víða er mikilla úrbóta þörf, hvort sem það er á hringveginum eða annars staðar. Í því kjördæmi sem ég starfa hefur verið mikið ákall um bættar vegasamgöngur á Vestfjörðum enda löngu kominn tími til. Flestir ef ekki allir þingmenn kjördæmisins hafa staðið saman í þeirri baráttu að bregðast við því ákalli. Núna loksins glittir í að verulegar samgönguumbætur á Vestfjörðum verði að veruleika, en hins vegar er mikið ákall um bættar samgöngur á landinu öllu og get ég vel skilið það.

Í þessari stuttu ræðu langar mig að ræða vegarkafla sem er reyndar ekki oft í umræðunni, það er vegurinn um Kjalarnes. Nauðsynlegt er að tryggja að mikilvægar vegaumbætur um Kjalarnes fari af stað ekki síðar en árið 2018, en gert er ráð fyrir þeim framkvæmdum í samgönguáætlun sem hæstv. innanríkisráðherra lagði fram á Alþingi og samþykkt var fyrir nokkrum vikum. Dag hvern fara um 6 þúsund bílar um Kjalarnes. Stór hluti þeirra sem fara um Kjalarnesið er fólk sem fer daglega til og frá vinnu og býr í sveitarfélögum norðan megin ganganna. Ég og margir þessara aðila höfum verulegar áhyggjur af stöðunni og umferðaröryggi þeirra sem fara þennan veg. Nú er það svo að komnar eru mjög djúpar rásir í veginn. Í miklu vatnsveðri eins og hefur verið í haust og vetur eru þessar rásir mjög varasamar. Þeir sem fara um veginn í slíku veðri verða helst að keyra út í vegarkanti til að hafa almennilega stjórn á bílnum. Einnig er það svo að á of stórum köflum vegarins vantar merkingar og jafnframt er leiðin mjög dimm. Skyggni getur verið erfitt og liggur oft við slysum í þeim umferðarþunga sem er þarna dag hvern.

Ég vil nýta þetta stutta tækifæri hér í störfum þingsins og minna á mikilvægi þessa þó að ég geri mér fulla grein fyrir því að víða sé þörfin mikil.”

Elsa Lára Arnardóttir í störfum þingsins 13. desember 2016. 

Categories
Fréttir

Menntakerfið er okkar fjöregg

Deila grein

14/12/2016

Menntakerfið er okkar fjöregg

silja_vef_500x500,,Hæstv. forseti. Okkur verður tíðrætt um heilbrigðismál og samgöngumál í umræðunni um fjárlög, en í þessari stuttu ræðu minni í dag langar mig til að tala um menntakerfið. Menntakerfið er okkar fjöregg og að því verðum við að hlúa betur en við höfum gert hin síðari ár. Góð menntun er lykill okkar að framtíðinni og í raun gulls ígildi. Við segjum þetta nánast daglega við börnin okkar, hvetjum þau til að gera betur í skólanum, höldum reglulega „leiðinlega“ fyrirlestra um gildi menntunar, að það skipti máli að klára eitthvert nám til að eiga betri framtíðarmöguleika á vinnumarkaði. Á sama tíma getum við ekki leyft skólunum okkar að drabbast niður og kennurum að flýja starf sitt vegna lakra kjara. Við verðum að sýna í verki að góð menntun skipti okkur öll máli.

Þjóðhagslega skiptir gott menntunarstig verulegu máli og hefur jafnvel úrslitaþýðingu hvað varðar samkeppnisforskot okkar á alþjóðlegum markaði. Það er áhyggjuefni hversu illa grunnskólabörn okkar koma út úr mælingum. Þau dragast aftur úr jafnöldrum sínum í samanburðarlöndum. Ég vil þó nota tækifærið hér til að óska grunnskólum Reykjanesbæjar sérstaklega til hamingju með miklar framfarir í samræmdum prófum. Þann góða árangur má þakka samræmdu átaki heimila og skóla í Reykjanesbæ, þannig að góðir hlutir eru nú líka að gerast í skólakerfinu.

En góðir skólar verða ekki til án góðra kennara. Kjarabarátta grunnskólakennara er einnig á erfiðum stað og ekki fyrirséð hvar hún endar. Í því samhengi verðum við að ræða tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Við getum ekki fært stóra og dýra málaflokka yfir til sveitarfélaga, eins og grunnskóla og málefni fatlaðra, án þess að endurskoðun á tekjuskiptingu fari fram á sama tíma. Þar höfum við ekki staðið okkur.”

Silja Dögg Gunnarsdóttir í störfum þingsins 13. desember 2016.

Categories
Fréttir

Afmælishátíð Framsóknarmanna

Deila grein

13/12/2016

Afmælishátíð Framsóknarmanna

Afmælishátíð Framsóknarmanna verður haldin í Þjóðleikhúsinu föstudaginn 16. desember á 100 ára afmæli Framsóknarflokksins og hefst kl. 18.00.
Plakat

Categories
Fréttir

Pistill frá ritara

Deila grein

01/12/2016

Pistill frá ritara

jon-bjorn-hakonarsonKæru félagar!
Ég vill byrja á því að þakka ykkur öllum kærlega fyrir ykkar framlag til nýliðinnar kosningarbaráttu fyrir flokkinn okkar. Þrátt fyrir að úrslit þeirra hafi ekki verið eins og við hefðum helst kosið fyrir flokkinn þá er það þannig að slíkt á bara að efla okkur og hvetja til frekari dáða og horfa til framtíðar. Þannig hefur Framsóknarflokkurinn alltaf gert í hundrað ára sögu sinni.
Þann 16. desember næstkomandi höldum við einmitt upp á þau merku tímamót þegar flokkurinn okkar fagnar formlega 100 ára afmæli sínu. Slíkt er einstakt í sögu flokks og þjóðar að stjórnmálaflokkur nái slíkum áfanga og sé enn meginstoð í lýðræðislegu kerfi lands-og sveitarstjórna á Íslandi. Hafi fylgt þjóðinni í gegnum tíma mikilli umbrota í sögu hennar og verið við stjórnvölinn stóran hluta þess tíma og tekið þátt í að leggja þannig grunn að því góða samfélagi sem við eigum hér á Íslandi. Slíkt hefði ekki verið hægt nema fyrir þann mikla félagsauð sem Framsóknarflokkurinn hefur alltaf átt í sínum flokksmönnum sem staðið hafa með flokknum sínum í gegnum þykkt og þunnt. Það er máttur hinna mörgu.
Þessum tímamótum ætlum við að fagna þann 16.desember næstkomandi annarsvegar með hátíðardagskrá í Þjóðleikhúsinu og hinsvegar leitum við nú til ykkar, flokksmanna, með að gera þessa helgi 16.-18.desember sem glæsilegasta. Er það ósk okkar í forystu flokksins að félögin og kjördæmasamböndin um allt land taki höndum saman og haldi upp á 100 ára afmælið heima í sínum héröðum og landsfjórðungum. Þekkjandi þann kraft sem býr í framsóknarfólki veit ég að slíkt verður gert með glæsibrag. Skrifstofa flokksins er boðinn og búinn til aðstoðar og vona ég að samkomurnar verði sem flestar.
Megi svo aðventan verða ykkur öllum notalegur og góður tími í aðdraganda jóla.
Bestu kveðjur,
Jón Björn Hákonarson, ritari Framsóknarflokksins

Categories
Fréttir

Opnað fyrir umsóknir um húsnæðisbætur

Deila grein

23/11/2016

Opnað fyrir umsóknir um húsnæðisbætur

husbot-isVinnumálastofnun opnaði 21. nóvember sl. Greiðslustofu húsnæðisbóta og upplýsinga- og umsóknarvefinn www.husbot.is  þar sem leigjendur geta sótt um húsnæðisbætur samkvæmt nýjum lögum um húsnæðisbætur sem taka gildi 1. janúar 2017.
Lög nr. 75/2006 um húsnæðisbætur voru samþykkti á Alþingi sl. sumar og taka gildi 1. janúar næstkomandi. Á sama tíma falla úr gildi lög um húsaleigubætur og hlutverk sveitarfélaganna varðandi útgreiðslu húsnæðisstuðnings til leigjenda flyst til Greiðslustofu húsnæðisbóta.
Markmið laga um húsnæðisbætur  er að lækka húsnæðiskostnað efnaminni leigjenda með greiðslu húsnæðisbóta vegna leigu á íbúðarhúsnæði og draga úr aðstöðumun á húsnæðismarkaðnum.
Vinnumálastofnun annast framkvæmd húsnæðisbótakerfisins sem er fjármagnað að fullu úr ríkissjóði. Við útreikning húsnæðisbóta er tekið mið af fjölda heimilismanna óháð aldri, leigufjárhæð, öllum tekjum og nettó eign, þ.e. eignum að frádregnum skuldum.
Inni á nýja vefnum www.husbot.is er að finna allar upplýsingar sem varða húsnæðisbætur og umsóknarferlið sjálft auk þess sem þar er að finna reiknivél sem hjálpar leigjendum að átta sig á upphæð mögulegra húsnæðisbóta.
Fyrstu greiðslur samkvæmt lögum um húsnæðisbætur verða greiddar út 1. febrúar 2017.

Heimild: www.velferdarraduneyti.is