Categories
Fréttir

Aukið samstarf milli Íslands og Grænlands

Deila grein

10/05/2016

Aukið samstarf milli Íslands og Grænlands

Lilja Dögg Alfreðsdóttir03Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra og Vittus Qujaukitsoq, utanríkisráðherra Grænlands, voru sammála um að efla enn samstarf landanna, á símafundi, sem þau áttu 6. maí sl. Ráðherrarnir ræddu um samstarfið á grundvelli viljayfirlýsingar landanna frá árinu 2013, en í henni er kveðið á um aukið samstarf á sviðum sjávarútvegs, heilbrigðismála, ferðamála, viðskipta og heilbrigðisreglna við innflutning. Þau samþykktu að koma á fót vinnuhópi skipuðum sérfræðingum landanna á sviði flugmála til að kanna möguleika á að uppfæra loftferðasamning landanna sem og á nánara samstarfi í því skyni að tryggja aukið öryggi í flugi og auka samvinnu flugvalla- og tollyfirvalda.
Á fundinum upplýsti Lilja einnig um að íslensk stjórnvöld hefðu að undanförnu skoðað fyrirkomulag varðandi flutning grænlenskra ferðamanna á kjötvörum vegna áframhaldandi ferðalaga til annarra landa. Þess væri að vænta að leiðbeiningar yrðu gefnar út á næstunni. Jafnframt samþykktu ráðherrarnir að gefa út bækling með leiðbeiningum til grænlenskra ferðamanna um þær reglur sem gilda hér á landi um innflutning ferðamanna á matvælum.
Að lokum staðfestu ráðherrarnir gagnkvæman vilja til að efla enn frekar samstarf milli landanna, sem meðal annars getur falist í því að miðla sérfræðiþekkingu milli landanna. Löndin tvö eiga sameiginlegra hagsmuna að gæta á norðurslóðum og náin samvinna um málefni norðurslóða er til þess fallin að styrkja stöðu beggja landa. Jafnframt má telja að aukin viðskipti milli landanna yrðu báðum ríkjum hagfelld.

Heimilid: www.utanrikisraduneyti.is

Categories
Fréttir

Samtal stjórnmála og aðila vinnumarkaðarins um nýtt vinnumarkaðslíkan

Deila grein

05/05/2016

Samtal stjórnmála og aðila vinnumarkaðarins um nýtt vinnumarkaðslíkan

SIJSigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra, boðaði leiðtoga stjórnmálaflokka sem fulltrúa eiga á Alþingi og forsvarsmenn ASÍ, BSRB, SA og Sambands íslenskra sveitarfélaga á fund í morgun í Ráðherrabústaðnum til að ræða samspil stjórnmála og aðila vinnumarkaðarins og vinnu við þróun nýs vinnumarkaðslíkans.
Í upphafi fundarins kynnti fjármála- og efnahagsráðherra forgangsröðun ríkisstjórnarinnar eins og hún birtist í fjármálastefnu og fjármálaáætlun sem lögð hefur verið fram á Alþingi. Að því loknu voru umræður um stöðu mála á vinnumarkaði, lífeyrismál, SALEK-samstarfið og um forgangsröðun í velferðarmálum og fjármögnun þeirra. Ákveðið var að þessi hópur kynnti sér betur þróun nýs vinnumarkaðslíkans á fundi í maí með Steinar Holden, prófessor við Oslóarháskóla, sem SALEK-hópurinn hefur ráðið til að gera úttekt á íslenska kjarasamninga- og vinnumarkaðslíkaninu.
„Fundurinn var jákvæður og í góðum anda. Þetta samtal er að þróast í rétta átt. Þróun á vinnumarkaði er mjög mikilvæg fyrir efnahagslegan stöðugleika. Við þurfum að nýta sérstaklega góðar aðstæður nú til að greiða niður skuldir og tryggja stöðugleikann á sama tíma og við byggjum upp innviði og bætum velferðarkerfið. Vinnumarkaðurinn skiptir miklu máli við þessa uppbyggingu,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra, að loknum fundinum.

Heimild: www.forsaetisraduneyti.is

Categories
Fréttir

Debat við Seðlabankastjóra

Deila grein

05/05/2016

Debat við Seðlabankastjóra

Þorsteinn-sæmundsson„Hæstv. forseti. Ég sat fund efnahags- og viðskiptanefndar um daginn þar sem hluti peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands kom í heimsókn með seðlabankastjóra í forgrunni.
Þeim fundi er ágætlega lýst í lítilli grein á visir.is sem heitir „Starfsviðtali klúðrað“. Þar kemur fram að seðlabankastjóri hafi verið krafinn svara á fundinum af nefndarmönnum um það hvers vegna Seðlabankinn hefur ofáætlað verðbólgu hér á landi nú í nokkur missiri, hvers vegna húsnæðiskostnaður er reiknaður inn í vísitölu hér en hvergi annars staðar í OECD-ríkjunum, hvers vegna stýrivextir hér á Íslandi eru 5,75%, eða í raun 6,5% ef marka má erlendar auglýsingar Seðlabankans, á meðan þeir eru -0,25% í Svíþjóð. Þessi lönd, Ísland og Svíþjóð, búa við svipaða verðbólguþróun, þ.e. ef hún er eins mæld, þ.e. án húsnæðiskostnaðar.
Í stuttu máli sagt var fátt um svör hjá þeim ágæta seðlabankastjóra sem við höfum, nema það að hann sagði þegar hann var spurður að því hvers vegna margir málsmetandi hagfræðingar væru ósammála peningamálastefnu Seðlabankans, af hverju þeir væru ósammála því að stýrivextir væru svona háir. Þá sagði hann: Ja, við erum bara einfaldlega ósammála þessum mönnum og viljum gjarnan taka við þá debat.
Nú vil ég hvetja hv. efnahags- og viðskiptanefnd til þess að boða til opins fundar þar sem að málsmetandi hagfræðingar eins og Ólafur Margeirsson, Jón Daníelsson, Marinó G. Njálsson og fleiri geta verið í símaviðtali við seðlabankastjóra þannig að þeir geti tekið þetta debat í áheyrn þjóðarinnar.
Ég held að það væri mjög fróðlegt fyrir allan almenning og það væri kjörið tækifæri fyrir seðlabankastjóra til þess að útskýra fyrir þjóðinni það sem hann ekki getur útskýrt fyrir okkur alþingismönnum, þ.e. hvers vegna stýrivextir Seðlabankans eru með þeim hætti sem þeir eru.“
Þorsteinn Sæmundsson í störfum þingsins 3. maí 2016.

Categories
Fréttir

Tekjujöfnuður hefur aldrei verið meiri

Deila grein

05/05/2016

Tekjujöfnuður hefur aldrei verið meiri

Silja-Dogg-mynd01-vef„Hæstv. forseti. Það er svo uppörvandi að fylgjast með umræðunni þessa dagana vegna þess að okkur gengur vel á Íslandi. Við höfum verið heppin og fengið góð spil á hendi. En það er ekki nóg að fá góð spil, t.d. eins og vöxt ferðaþjónustunnar og makrílgöngur við landið. Það verður að spila skynsamlega úr þeim. Ég verð að segja að ríkisstjórnin hefur spilað vel úr sínum spilum. Það sést vel á öllum efnahagslegum mælikvörðum.
Í gær þegar ég var á leiðinni heim úr vinnunni hlustaði ég á viðtal við Henný Hinz, hagfræðing ASÍ. Hún sagði að kaupmáttur heimilanna hefði vaxið mikið og hagvöxturinn virtist byggður á traustum grunni. Alþýðusamband Íslands metur stöðuna sem svo að einkaneyslan muni aukast áfram vegna bættrar fjárhagsstöðu heimilanna. Sambandið spáir nærri 5% hagvexti í ár og 3,8% hagvexti að jafnaði næstu tvö árin. Verðbólgu er spáð lágri í ár og 6% vexti í einkaneyslu.
Við þekkjum góðæri og höfum vonandi lært eitthvað af hruninu, þ.e. að ganga hægt um gleðinnar dyr. Afar mikilvægt er nú að stjórnvöld nái því að viðhalda þeim efnahagslegum stöðugleika sem náðst hefur síðustu ár. Leiðrétting húsnæðislána hefur haft afar jákvæð áhrif á skuldastöðu heimilanna og áætlun um afnám hafta hefur verið vel tekið. Hvort tveggja hefur haft góð áhrif á þjóðarbúið. Við skulum því halda því til haga.
Tekjujöfnuður hefur aldrei verið meiri á Íslandi en árið 2014 en þá bjó ekkert Evrópuríki við jafn mikinn tekjujöfnuð og á Íslandi samkvæmt tölum frá Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins.
Hæstv. forseti. Þó að allt gangi vel nú um stundir þá verðum við að hafa það hugfast að hlúa betur að þeim sem minna mega sín og halda áfram að byggja upp mikilvæga innviði samfélagsins, eins og heilbrigðiskerfið.
Sú áhersla endurspeglast berlega í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar 2018–2021 en þar sjáum við um 19% hækkun á þeim liðum sem falla undir heilbrigðismál.
Við hljótum að geta samglaðst yfir þeim góðu fréttum.“
Silja Dögg Gunnarsdóttir í störfum þingsins 3. maí 2016.

Categories
Fréttir

Excel-glaðir embættismenn

Deila grein

05/05/2016

Excel-glaðir embættismenn

Páll„Virðulegi forseti. Í gær hófust strandveiðar í blíðskaparveðri í flestum fjórðungum og alls staðar var fullur sjór af fiski. Í morgun var hvasst á Suðurnesjum þegar smábátar héldu til veiða út í hvítfyssandi öldurnar, brenndir af þeirri staðreynd að brælur síðustu tvö vor kostuðu svæðið 200 tonna minni úthlutun á þessu ári.
Kerfið var fyrst sett upp þannig að með svæðaskiptingu væri komið í veg fyrir að þrálátar brælur á einu svæði yrðu til þess að potturinn yrði ekki veiddur á öðru svæði, en í dag er greinilega breytt áhersla. Við getum farið í excel-leik og tekið síðustu fjögur ár í stað síðustu tveggja, eins og embættismenn virðast hafa gert. Meðalafli á svæði D sem nær frá Borgarfirði að vestan og að Hornafirði að austan síðustu fjögur ár var 1.418 tonn og mest voru veidd 1.550 tonn en úthlutun á þessu ári er 1.300 tonn. Júlíafli í fyrra var 450 tonn en úthlutun á þessu ári er 195 tonn. Í ágúst í fyrra var aflinn 177 tonn en í ár er úthlutun 130 tonn. Meðalafli á bát var minnstur á svæði D árið 2015, þ.e. 171 tonn, meðan hann var um 300 tonn og upp í 400 tonn á hinum svæðunum. Meðalveiði á bát var einnig minnst á svæði D, 11,3 tonn, á meðan hún var 12,6 og upp í 15,8 tonn á öðrum svæðum.
Þrátt fyrir miklu meiri fiskigengd og 400 tonna aukningu á strandveiðipotti eru í nýrri úthlutun tekin 200 tonn á svæði D og áfram gert ráð fyrir 11,3 tonna meðalveiði á bát en 15,1 og upp í 15,8 tonn á hinum svæðunum. Svo virðist sem enn séu bláeygðir stjórnmálamenn að stimpla inn hráar tölur sem excel-glaðir embættismenn leggja á þeirra borð.“
Páll Jóhann Pálsson í störfum þingsins 3. maí 2016.

Categories
Fréttir

Já, þetta er mjög kraftmikill vöxtur

Deila grein

04/05/2016

Já, þetta er mjög kraftmikill vöxtur

flickr-Þórunn Egilsdóttir„Hæstv. forseti. Nú er mikið rætt um framboð og því fylgja þá eðlilega umræður um eftirspurn. Þeir sem hyggja á framboð telja klárlega vera eftirspurn eftir kröftum þeirra og það er í flestum tilvikum gott. Í samtölum mínum við fólk, almenning í landinu, þjóðina sem er kölluð finn ég fyrir mikilli eftirspurn eftir uppbyggilegu og jákvæðu samtali sem leiðir okkur fram á veginn og styrkir okkur sem samfélag.
Hæstv. forseti. Ég ætla því að leyfa mér að vera á jákvæðum nótum hér í dag og benda á hagspá Alþýðusambands Íslands. Þar kemur fram að kaupmáttur heimilanna hefur vaxið mikið og svo ég vitni í orð Hennýjar Hinz, hagfræðings ASÍ, með leyfi forseta:
„Já, þetta er mjög kraftmikill vöxtur. Það jákvæða er að hann virðist byggður á traustum grunni. Enn sem komið er byggir hann á bættri fjárhagsstöðu. Við sjáum ekki enn merki um að skuldsetning sé að aukast.“
Hæstv. forseti. Þetta eru verulega góð tíðindi fyrir heimilin í landinu og hefði verið gaman ef forustumenn ASÍ hefðu haft tök á að minnast á þau við hátíðarhöldin 1. maí. Það skiptir máli hve mikið við fáum fyrir kaupið okkar.
Innihald þessarar spár á svo sannarlega erindi við okkur öll því að þar er spáð nærri 5% hagvexti í ár og 3,8% hagvexti að jafnaði næstu tvö árin. Þá er áfram spáð lágri verðbólgu. En spáin á líka erindi við okkur því að hún bendir einnig á atriði sem við verðum að standa vörð um og hópa sem við þurfum að verja. Reyndin er sú til dæmis að staða fólks á leigumarkaði er mjög þröng. Mikil hækkun fasteignaverðs hvetur mjög til þess að byggðar verði nægilega margar íbúðir til að hér rjúki ekki fasteignaverð upp úr öllu valdi. Það er því gríðarlega mikilvægt að við náum samstöðu um afgreiðslu húsnæðisfrumvarpa sem nú liggja fyrir þinginu.
Hæstv. forseti. Þessari góðu stöðu fylgja miklar áskoranir því að tryggja þarf að hagstjórn næstu ára viðhaldi efnahagslegum stöðugleika. Það er því ánægjulegt að hér á eftir verður lögð fram glæsileg fjármálastefna og fjármálaáætlun til næstu fimm ára sem fela það í sér að hægt verður að búa enn betur í haginn fyrir komandi kynslóðir.“
Þórunn Egilsdóttir í störfum þingsins 3. maí 2016.

Categories
Fréttir

Þingið brugðist við með öflugum hætti

Deila grein

04/05/2016

Þingið brugðist við með öflugum hætti

þingmaður-WillumÞór-05„Hæstv. forseti. Undanfarna þingfundi höfum við rætt um skattaskjól og aflandsfélög. Ég vil segja það að sú umræða hefur verið afar gagnleg og uppbyggileg. Við höfum rætt um að meta umfang og áhrif af starfsemi slíkra félaga og úrræði og tillögur til úrbóta. Í gær ræddum við síðan róttækari tillögu sem snýr að því að beita ríki sem bjóða upp á slík skattaskjól viðskiptaþvingunum. Það er nú gjarnan með svona róttækari tillögur að þær draga fram ýtrustu sjónarmið, en markmiðin eru auðvitað þau sömu, að uppræta notkun aflandsfélaga og þá iðju að koma peningum í skjól undan sköttum. Nú er verið að vinna að samantekt í hv. efnahags- og viðskiptanefnd af opnum fundum með skattrannsóknarstjóra og ríkisskattstjóra, Seðlabanka og Fjármálaeftirliti, og draga fram tillögur að úrbótum sem komu fram á þeim fundum. Mér finnst mikilvægt að koma að þessu vegna þess að í öllu pólitísku umróti liðinna vikna og þeirri umfjöllun um Panama-lekann sem hefur svo sannarlega hrist upp í samfélagi okkar hefur þingið brugðist við með öflugum og faglegum hætti. Nú er það auðvitað verkefni að vinna úr þessari umræðu, gögnum og tillögum og samhæfa aðgerðir.
Þess vegna er mjög ánægjulegt að nú hefur hæstv. ríkisstjórn brugðist við og ákveðið að tillögu hæstv. fjármálaráðherra að skipa sérstakan starfshóp sem hefur það meginverkefni að gera tillögur að breytingum á lögum, reglugerðum og verklagsreglum og það í samvinnu við embætti skattyfirvalda.
Ég lít svo á að sú vinna og tillögur og umræða sem hefur átt sér stað í þinginu um þessi mál og þetta skref hæstv. ríkisstjórnar muni hraða raunverulegum úrbótum á vettvangi löggjafans.“
Willum Þór Þórsson í störfum þingsins 3. maí 2016.

Categories
Fréttir

Þeir munu varast vinstri slysin

Deila grein

04/05/2016

Þeir munu varast vinstri slysin

Karl_SRGB„Virðulegur forseti. Stuðningur við ríkisstjórnina og báða ríkisstjórnarflokkana eykst samkvæmt könnun Gallup sem birt var í gærkvöldi. Það þarf ekki að koma á óvart í ljósi þess efnahagsárangurs sem náðst hefur á yfirstandandi kjörtímabili. Fjármálastefna og fjármálaáætlun sem verða til umræðu á eftir staðfesta þau risaskref sem tekin hafa verið og það góðæri sem hér er. Ef menn vilja ekki hlusta á stjórnvöld og telja allt ómögulegt sem frá þeim kemur skulum við vitna í nýja hagspá ASÍ. Alþýðusambandið spáir samfelldum hagvexti hérlendis í átta ár, hann verði 4,9% á þessu ári sem er einn mesti hagvöxtur í vestrænu ríki og að jafnaði 3,8% á næsta og þarnæsta ári. Þetta helst í hendur við lítið atvinnuleysi og verðbólgu sem er undir 2%. Hagur heimilanna hefur batnað og ASÍ telur að einkaneysla muni vaxa um 6% á þessu ári sem er það mesta frá 2007. Því má bæta við að hvergi í Evrópu er jafn mikill tekjujöfnuður og á Íslandi samkvæmt nýjum tölum frá Eurostat, Hagstofu Evrópusambandsins.
Við þurfum ekki að líta lengra en til Reykjavíkur til að sjá hvað mun gerast ef Samfylkingin, Vinstri grænir, Björt framtíð og Píratar komast til valda. Rekstur borgarinnar er í fullkomnum ólestri. Þannig var rekstrarniðurstaða Reykjavíkurborgar á síðasta ári 12 milljörðum kr. lakari en áætlanir gerðu ráð fyrir. Niðurstaðan er neikvæð um tæpa 5 milljarða en gert hafði verið ráð fyrir um 7,3 milljarða kr. afgangi.
Þetta er einstakt afrek stjórnarandstöðuflokkanna. Slakur rekstur er síðan afsakaður með því að borgin þurfi að standa við skuldbindingar. Almenningur þarf líka að standa við sínar skuldbindingar, hvort sem það eru lán eða annað.
Í næstu alþingiskosningum verður kosið á milli flokka sem sýna ráðdeild og ábyrgð í fjármálum og þeirra sem kunna ekki að fara með fjármuni. Kjósendur eru sem betur fer skynsamir. Þeir munu varast vinstri slysin.“
Karl Garðarsson í störfum þingsins 3. maí 2016.

Categories
Fréttir

Sveigjanleiki aukinn í byggingarreglugerð

Deila grein

03/05/2016

Sveigjanleiki aukinn í byggingarreglugerð

sigrunmagnusdottir-vefmyndSigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, hefur undirritað reglugerð um breytingu á byggingarreglugerð sem hefur það að markmiði að lækka byggingarkostnað vegna íbúðarhúsnæðis. Breytingarnar lúta einna helst að aðkomu, umferðarleiðum og innri rýmum mannvirkja sem og stjórn mannvirkjamála hvað varðar minniháttar framkvæmdir sem undanþegnar eru byggingarleyfi.
Með reglugerðinni eru kröfur um lágmarksstærðir rýma í íbúðum felldar brott en í stað þess sett inn markmið, sem veitir ákveðið frelsi við útfærslu hönnunar. Breytingarnar miða fyrst og fremst að því að auka sveigjanleika við gerð íbúðarhúsnæðis. Þannig getur lágmarksstærð íbúðar, sem er eitt herbergi, minnkað verulega. Ef gert er ráð fyrir að geymsla og þvottaaðstaða sé í sameign og ekki gert ráð fyrir anddyri getur slík íbúð verið um 20 m2, fyrir utan sameign. Lágmarksstærð íbúðar, sem er með einu litlu svefnherbergi, getur minnkað samsvarandi.
Breytingarnar lúta einnig að því að minniháttar framkvæmdum sem undanþegnar eru byggingarleyfi fjölgar og verða þær í stað þess tilkynningarskyldar.  Þá eru gerðar ákveðnar breytingar varðandi bílastæði fyrir hreyfihamlaða við íbúðarhúsnæði, rýmisstærðir í íbúðarhúsnæði, sorpgeymslur og loftræstingu íbúða.
sigrun-byggingarreglugerd-undirritun
Í ráðuneytinu er hafinn undirbúningur að gerð frumvarps til laga um breytingu á lögum um mannvirki nr. 160/2010 og skipulagslögum, nr. 123/2010, þar sem áhersla verður lögð á einföldun stjórnsýslu byggingarmála með lækkun byggingarkostnaðar vegna íbúðarhúsnæðis að leiðarljósi.
Gert er ráð fyrir að reglugerðin taki gildi við birtingu að undanskildum breytingum er varða minniháttar framkvæmdir sem eru tilkynningarskyldar, en þær taka gildi 15. júní nk.
Helstu breytingar á byggingarreglugerðinni eru þessar:

  • Í 2.3.5. gr. er fjölgað minniháttar framkvæmdum sem undanþegnar eru byggingarleyfi en sumar þeirra verða tilkynningarskyldar. Helstu breytingarnar varða viðbyggingar og lítil hús á lóð allt að 40 m2 sem eru í samræmi við deiliskipulag og innan byggingarreits sem og smáhýsi veitna.
  • Bætt er við 2.3.6 gr. sem fjallar um málmeðferð vegna tilkynntra framkvæmda.
  • Felldar eru brott gr. 4.10.3 til og með gr.4.10.10 sem fjalla um verksvið iðnmeistara. Gert er ráð fyrir að ábyrgðarsvið þeirra sé í samræmi við gildandi hæfniskröfur og námskrár til meistaraprófs í viðkomandi iðngrein á hverjum tíma, sbr. 4. mgr. 4. 10.1. gr. og að Mannvirkjastofnun gegni leiðbeinandi hlutverki í því sambandi.
  • Í gr. 6.2.4 er breytt kröfum til bílastæða fyrir hreyfihamlaða við íbúðarhúsnæði og jafnframt dregið úr kröfum um lágmarksfjölda þeirra.
  • Í gr. 6.4.2 er breytt kröfum til inngangsdyra og nú kveðið á um hindrunarlaus umferðarmál.
  • Í gr. 6.4.4 eru gerðar breytingar á kröfum til breidda á göngum og svalagöngum.
  • Í gr. 6.4.8 er dregið úr kröfum um breidd stiga í íbúðarhúsnæði ef til staðar er lyfta sem tekur sjúkrabörur.
  • Í gr. 6.5.1 er heimilað að víkja frá kröfu um handrið beggja vegna við stiga í íbúðarhúsum ef lyfta er í húsinu og stigi liggur að vegg.
  • Kafli 6.7 sem fjallar um íbúðir hefur verið endurskoðaður í heild.  Helstu breytingar eru þær að öll ákvæði um stærðir rýma eru felld brott en eftir sem áður gilda sömu ákvæði um algilda hönnun.  Þá eru ákvæði um svalir að mestu færð í 9. hluta reglugerðarinnar sem fjallar brunaöryggi.
  • Í gr. 6.12.6 og 6.12.8 er dregið úr kröfum varðandi sorpgeymslur og m.a. aukið svigrúm til að vera með sorplausnir utan lóðar.
  • Í gr. 9.5.3 er bætt við ákvæðum um svalir vegna brottfalls ákvæða í kafla 6.7 sem fjallar um íbúðarhúsnæði.
  • Í gr. 10.2.5 er aukinn sveigjanleiki varðandi loftræsingu íbúða og tengdra rýma með því að færa hluta af ákvæðum greinarinnar í viðmiðunarreglur.

Reglugerð nr. 360/2016 um (4.) breytingu á byggingarreglugerð,nr. 112/2012

Heimild: www.umhverfisraduneyti.is

Categories
Fréttir

Einar Gunnar nýr framkvæmdastjóri Framsóknar

Deila grein

03/05/2016

Einar Gunnar nýr framkvæmdastjóri Framsóknar

einarFramkvæmdastjórn Framsóknar samþykkti í dag að ráða Einar Gunnar Einarsson sem framkvæmdastjóra flokksins.
Einar Gunnar er fæddur í Hafnarfirði 13. febrúar 1970. Foreldar eru Einar Kr. Jóhannesson (fæddur 23. mars 1927, dáinn 28. október 1997), yfirvélstjóri og Unnur Magnúsdóttir (fædd 14. febrúar 1936, dáin 1. febrúar 2002), hárskerameistari. Einar Gunnar er í sambúð með Agnesi Ástu Woodhead.
Einar Gunnar hefur starfað á skrifstofu Framsóknar frá árinu 2002 og nú síðast sem skrifstofustjóri.