Categories
Fréttir

Nýr samstarfsvettvangur í útflutningsþjónustu

Deila grein

19/04/2016

Nýr samstarfsvettvangur í útflutningsþjónustu

Lilja Dögg Alfreðsdóttir03Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra segir að auka þurfi útflutningsverðmæti vöru og þjónustu til ársins 2030 til að Íslandi haldi efnahagslegum styrk. Hún boðaði samstarfsvettvang stjórnvalda og atvinnulífs og að stefnumótun í útflutningsþjónustu yrði skerpt til langs tíma, í ræðu sem hún hélt á aðalfundi Íslandsstofu í dag. Aðgerðirnar eru byggðar á tillögum starfshóps sem skipaður var árið 2013.
„Ég legg áherslu á náið og sterkt samstarf stjórnvalda og atvinnulífs og að vettvangur þess verði áfram Íslandsstofa. Jafnframt að atvinnulífið verði áfram hinn mótandi drifkraftur í starfinu,“ sagði utanríkisráðherra.  Á næstunni  verði  skipuð ný stjórn Íslandsstofu sem hafi það meginhlutverk að hrinda tillögunum í framkvæmd  og efla enn frekar hið góða starf Íslandsstofu og á mörkuðum.
Lílja sagði að skýra verði rekstrarform Íslandsstofu, gera nýjan þjónustusamning við ríkið og setja fastari mælikvarða á árangur.  Setja verði á fót samstarfsvettvang stjórnvalda og atvinnulífs, útflutnings- og markaðsráð, til að móta með Íslandsstofu langtímastefnu sem miði að því að auka útflutningsverðmæti á næstu 15 árum.
„Markmiðið með öllu þessu er að gera starf Íslandsstofu öflugra, styrkja stefnumótun og að breikka sóknarleik landsliðs Íslands á erlendum mörkuðum. Ég hvet menn til að sjá þetta ekki sem íþyngjandi heldur miklu fremur sem tækifæri til að efla starfið,“ sagði Lilja.
Hún vakti einnig athygli á nýlegri umsögn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um stöðu og horfur á Íslandi  sem segði að ótvíræður árangur hefði náðst í efnahagslífinu. „Fyrir utan helstu stoðir atvinnulífsins á Íslandi þá liggur hér til grundvallar sú mikla fjölgun ferðamanna sem við höfum séð á undanförnum árum. Þetta styður við hagvöxtinn og skapar gjaldeyristekjur,“ sagði Lilja. „Við erum á beinni leið en því fylgir líka ábyrgð. Eins og dæmin sanna er auðvelt að misstíga sig í uppsveiflunni. Það væri til einskis sáð ef við ekki gætum að rótunum og förum að öllu með gát.“
Þá nefndi hún einnig þær áskoranir sem stjórnvöld stæðu frammi fyrir, m.a. vegna lokunar markaða í Rússlandi og Nígeríu. Það hefði valdið búsifjum og miklum vanda í einstökum byggðarlögum sem stjórnvöld hafi reynt að mæta með stöðugu samtali við stjórnvöld og hagsmunaaðila í ríkjunum um leið og kannaðir væru mögulegar leiðir til að draga úr neikvæðum áhrifum fyrir íslenska útflytjendur.

Heimild: www.utanrikisraduneyti.is

Categories
Fréttir

Fjölmörg mál sem þarf að klára

Deila grein

14/04/2016

Fjölmörg mál sem þarf að klára

flickr-Elsa Lára Arnardóttir„Hæstv. forseti. Undanfarna daga hefur verið hávær krafa um kosningar til Alþingis, um að þær eigi að fara fram strax. Þessa kröfu hefur meðal annars mátt sjá í mótmælum hér á Austurvelli undanfarna daga og í ræðu og riti hv. þingmanna stjórnarandstöðunnar.
Í síðustu viku lögðu hv. þingmenn stjórnarandstöðu fram vantraust á núverandi ríkisstjórn og tillögu um þingrof. Skemmst er frá því að segja að sú tillaga var felld með miklum meiri hluta hér á Alþingi.
Nokkrir hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa haldið því fram að við sem greiddum atkvæði gegn vantrausti og þingrofi séum heilaþvegin og kúguð. Því hefur jafnframt verið haldið fram hér í ræðustól Alþingis að hv. stjórnarliðar séu ekki að fylgja sannfæringu sinni með þessum gjörðum.
Þeir sem halda þessu fram hafa rangt fyrir sér. Það var með glöðu geði sem ég ákvað að fella þessa tillögu stjórnarandstöðunnar. Ástæðan er meðal annars sú að nú liggja fjöldamörg mál fyrir þinginu sem brýnt er að klára. Þar má nefna afnám hafta, húsnæðismálin, afnám verðtryggingar og samhliða því er mikilvægt að taka á því vaxtaumhverfi sem við búum við. Það þarf að koma fram með þingmál sem hjálpar ungu fólki að kaupa sér fasteign og festa þar með í sessi hvata til húsnæðissparnaðar og laga til regluverk í kringum þau skilyrði sem sett eru fram um greiðslumat.
Sendinefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins telur það jafnframt jákvætt fyrir efnahagslífið að pólitískur óstöðugleiki síðastliðinnar viku hefði ekki sett allt í stopp. Töldu beinlínis að þingrof hefði getað haft neikvæð áhrif.
Að lokum vil ég taka undir orð hv. þm. Karls Garðarssonar samherja míns um að ríkisstjórnin standi sterk þrátt fyrir fullyrðingar um annað. 38 þingmenn greiddu atkvæði gegn vantrausti á föstudaginn. Samkvæmt nýjustu skoðanakönnun hafa stjórnarflokkarnir ekki einu sinni tapað fylgi þrátt fyrir umrót síðustu daga. Þetta eru staðreyndir þrátt fyrir öll stóru orðin.“
Elsa Lára Arnardóttir  í störfum þingsins 13. apríl 2016.

Categories
Fréttir

Landsbankinn verður að endurheimta traust

Deila grein

14/04/2016

Landsbankinn verður að endurheimta traust

Þorsteinn-sæmundsson„Hæstv. forseti. Á morgun fer væntanlega fram aðalfundur Landsbanka Íslands. Mig langar aðeins til að drepa á niðurstöðu Bankasýslu ríkisins sem fram kom fyrir nokkrum vikum síðan en hefur fallið í skuggann af bæði páskahaldi og öðrum atburðum. Ég ætla að vitna hér og þar í þetta bréf, með leyfi forseta, en þar segir meðal annars:
„Í tilfelli sölunnar á Borgun telur stofnunin“ — þ.e. Bankasýslan — „hins vegar rökstuðning bankans ófullnægjandi. Þannig bendir margt til þess að bankinn hafi dregið rangar ályktanir af samskiptum sínum við Samkeppniseftirlitið varðandi mögulega fresti og svigrúm til að selja eignarhlut sinn í félaginu.“
Aðeins seinna segir:
„Telur Bankasýsla ríkisins jafnframt að Landsbankinn sem stærsta fjármálafyrirtæki landsins geti ekki borið fyrir sig grandleysi annarra kaupenda á eignarhlutum í Borgun.
Bankasýslan telur það jafnframt gagnrýnisvert að bankinn skuli hafa komið sér í þá stöðu að eini viðsemjandinn hafi verið hópur fjárfesta sem innihélt meðal annars stjórnendur Borgunar. Jafnframt verði að gera þá kröfu til bankans að viðhafa sérstaka aðgæslu við mat á rekstraráætlunum, sem gerðar eru af aðilum innan kaupendahópsins“, eins og fram kemur í svarbréfi bankans.
„Að síðustu hafa svör bankans við gagnrýni sem salan hefur hlotið ekki verið sannfærandi.“
Svo segir í lokin, með leyfi forseta:
„Mikilvægt er að Landsbankinn endurheimti traust eigenda sinna, viðskiptavina og fjárfesta sem og almennings í landinu.“
Og það segir hér:
Eftir athugun Bankasýslu ríkisins á sölumeðferð Landsbankans á eignarhlut í Borgun er það niðurstaða stofnunarinnar að sölumeðferðin hafi varpað verulegum skugga á árangur Landsbankans og að fagleg ásýnd bankans og stjórnenda hans hafi beðið hnekki. Með vísan til þess telur Bankasýsla ríkisins að bankaráð Landsbankans verði að grípa til viðeigandi ráðstafana til að endurheimta það traust og þann trúverðugleika sem þessi sölumeðferð á hlutum í Borgun hefur kostað bankann.
Þetta segir það að Bankasýsla ríkisins hefur sagt A. Ég treysti því að á morgun segi þeir bankaráðsmenn sem Bankasýsla ríkisins hefur skipað Landsbankanum til stjórnar B og það verði skipt um yfirstjórn bankans.“
Þorsteinn Sæmundsson í störfum þingsins 13. apríl 2016.

Categories
Fréttir

Hávaxtastefnan á Íslandi gæti fremur ýtt undir sveiflur

Deila grein

14/04/2016

Hávaxtastefnan á Íslandi gæti fremur ýtt undir sveiflur

þingmaður-WillumÞór-05„Hæstv. forseti. Fyrst vil ég fagna því að hefðbundin þingstörf séu hafin að nýju. Í ljósi ummæla hv. þingmanns sem talaði hér á undan mér, hv. þm. Katrínar Jakobsdóttur, treysti ég því að það komi bara jákvæðir hlutir út úr samtali forustumanna ríkisstjórnarinnar og stjórnarandstöðunnar. Þeir eru að tala saman og þangað til einbeitum við okkur að því sem við erum að gera hér og erum ráðin til.
En í orrahríð atburða síðustu viku á vettvangi stjórnmálanna fór margt athyglisvert fyrir ofan garð og neðan og ég ætla að koma aðeins inn á það. Ég nefni sem dæmi ársfund Samtaka atvinnulífsins sem oft áður hefur fengið meiri athygli en þar voru haldin mörg athyglisverð erindi.
Ég vil vekja athygli á erindi prófessors Jóns Daníelssonar, prófessors í hagfræði við Lundúnarháskóla. Hagfræðingurinn kom þar inn á að hávaxtastefnan á Íslandi gæti fremur ýtt undir sveiflur en dregið úr þeim og hvatt til aukins vaxtamunar viðskipta, svona í ljósi þeirrar framvindu sem við horfum til um losun fjármagnshafta.
Hann sagði vaxtahækkanir í raun ganga gegn meginmarkmiði sínu um að slá á þenslu og virka þveröfugt og auka fremur verðbólgu og þenslu í hagkerfinu. Það er því skoðun hagfræðingsins að reyna eins og unnt er að vera sem næst vaxtastigi nágrannaþjóða okkar. Til þess að eiga við eftirspurnaraukninguna megi beita öðrum tækjum.
Ég vona, virðulegur forseti, að Seðlabankinn taki þessum athugasemdum hagfræðingsins vel og hafi til hliðsjónar nú og í samhengi aflandskrónuútboða og losunar hafta sem fram undan er.“
Willum Þór Þórsson í störfum þingsins 13. apríl 2016.

Categories
Fréttir

AGS segir að útlit sé fyrir áframhaldandi góðan árangur í efnahagslífinu

Deila grein

14/04/2016

AGS segir að útlit sé fyrir áframhaldandi góðan árangur í efnahagslífinu

Karl_SRGB„Virðulegur forseti. Í allri umræðunni um að allt sé í kaldakoli er rétt að fara lauslega yfir niðurstöður sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem dvalið hefur hérlendis síðustu vikurnar og kynntar voru í gær. Þar segir að ótvíræður árangur hafi náðst í efnahagslífinu, viðlíka hagvöxtur hafi ekki mælst síðan fyrir bankakreppu en hvíli nú á mun styrkari stoðum. Til grundvallar liggi fjölgun ferðamanna sem styðji við hagvöxt og skapi gjaldeyristekjur.
Afnám hafta af slitabúum gömlu bankanna var nýlega framkvæmt af leikni, eins og AGS orðar það, þar sem tókst að verja gjaldeyrisvarasjóðinn, lágmarka lögfræðilega áhættu og skapa um leið hvalreka fyrir ríkissjóð. Kjöraðstæður hafi skapast fyrir ný skref í afnámi fjármagnshafta.
AGS segir að útlit sé fyrir áframhaldandi góðan árangur í efnahagslífinu og að hagvöxtur stefni í 2,5% til meðallangs tíma. Mesta áhættan gæti verið önnur kollsteypa eftir ofþenslu. Þannig er eindregið varað við auknum útgjöldum ríkissjóðs þrátt fyrir þrýsting fjölmargra hópa í þjóðfélaginu þar um. Það geti leitt til vaxtahækkana og skaðað samkeppnishæfni landsins.
AGS bendir á að heildstæð lög um opinber fjármál komi á heppilegum tíma til að viðhalda aga í ríkisfjármálunum. Ekki má hvika frá ákvörðun um að leggja til hliðar framlög slitabúanna. Yfirlýsing Alþjóðagjaldeyrissjóðsins staðfestir það sem stjórnarflokkarnir og ráðherrar þeirra hafa alltaf haldið fram, staða þjóðarbúsins hefur sjaldan verið betri, verðbólga er í sögulegu lágmarki, atvinnuleysi er mjög lítið, skuldastaða ríkissjóðs hefur ekki verið betri í hálfa öld og hagvöxtur er meiri en í flestum vestrænum löndum.
Ríkisstjórnin stendur sterk þrátt fyrir fullyrðingar um annað. 38 þingmenn greiddu atkvæði gegn vantrausti á föstudag. Samkvæmt nýjustu skoðanakönnun Félagsvísindastofnunar frá 8. apríl sem er nýjasta könnunin sem gerð hefur verið hafa stjórnarflokkarnir ekki einu sinni tapað fylgi síðustu viku, þ.e. frá því að stóra málið kom upp. Þvert á móti hafa stjórnarflokkarnir aukið við fylgi sitt. Það eru staðreyndir málsins.“
Karl Garðarsson í störfum þingsins  13. apríl 2016.

Categories
Fréttir

Ísland stóð við skuldbindingar á fyrsta tímabili Kýótó bókunarinnar

Deila grein

11/04/2016

Ísland stóð við skuldbindingar á fyrsta tímabili Kýótó bókunarinnar

sigrunmagnusdottir-vefmyndUppgjöri á losunarheimildum fyrir fyrsta viðskiptatímabil Kýótó-bókunarinnar, sem gilti fyrir árin 2008– 2012 er nú lokið. Ísland stóð við skuldbindingar sínar á tímabilinu og hefur skrifstofa Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna nú staðfest það.
Samkvæmt bókuninni skuldbundu um 40 þróuð ríki sig til þess að halda útstreymi sex gróðurhúsalofttegunda á árunum 2008-2012 innan losunarheimilda, sem voru samtals 5% lægri en losun þessara ríkja var árið 1990. Ísland fékk þó svigrúm til aukinnar losunar eða 10%.
Að auki samdi Ísland um sérákvæði, ákvörðun 14/CP.7, en það heimilar að koldíoxíðútstreymi frá nýrri stóriðju eða stækkun stóriðjuvers, sem hefur starfsemi eftir 1990 og leiðir til meira en 5% aukningar í útstreymi á fyrsta skuldbindingartímabili bókunarinnar (2008–2012), verði haldið utan við losunarheimild bókunarinnar eftir að útstreymisheimildir viðkomandi ríkis hafa verið fullnýttar.
Ísland stóð við skuldbindingar sínar, gerði upp losunarheimildir sínar og skilaði Umhverfisstofnun skýrslu þess efnis þann 18. desember 2015. Skrifstofa Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna fór yfir skýrsluna og hefur nú skilað staðfestingu á að uppgjörið hafi farið fram skv. settum reglum og að Ísland hafi staðið við skuldbindingar sínar.
Heildarlosun Íslands á tímabilinu var 23.356.071 tonn af CO2-ígildum. Gerðar voru upp 20.098.931 losunarheimildir og 3.257.140 heimildir voru tilkynntar sérstaklega undir íslenska ákvæðinu, eða 55,1% af þeim heimildum sem í boði voru vegna ákvæðisins.
Upplýsingar um uppgjör Íslands sem og annarra ríkja á heimasíðu Loftslagssamningsins.
Frekari upplýsingar um Kýótó-bókunina á heimasíðu Umhverfisstofnunar .

Categories
Fréttir

Ráðuneyti Sigurðar Inga Jóhannssonar tekur við

Deila grein

07/04/2016

Ráðuneyti Sigurðar Inga Jóhannssonar tekur við

rikisstjorn-sijÁ fundi ríkisráðs á Bessastöðum í dag féllst forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, á tillögu forsætisráðherra, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, um að veita ráðuneyti hans lausn frá störfum.
Á öðrum fundi ríkisráðs féllst forseti Íslands á tillögu Sigurðar Inga Jóhannssonar um skipun fyrsta ráðuneytis hans og gaf út úrskurð um skiptingu starfa ráðherra.
Í nýrri ríkisstjórn Sigurðar Inga Jóhannssonar eru 10 ráðherrar.
Ráðherrar nýju ríkisstjórnarinnar eru:

  • Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra
  • Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra
  • Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra
  • Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra
  • Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra
  • Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra
  • Gunnar Bragi Sveinsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra
  • Ólöf Nordal, innanríkisráðherra
  • Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra
  • Lilja Dögg Alfreðsdóttir, utanríkisráðherra

rikisstjorn-sij

Categories
Fréttir

LFK fagnar skipun Lilju D. Alfreðsdóttur

Deila grein

07/04/2016

LFK fagnar skipun Lilju D. Alfreðsdóttur

logo-lfk-gluggiLandssamband Framsóknarkvenna (LFK) fagnar skipun Lilju D. Alfreðsdóttur í embætti ráðherra. Þetta er í fyrsta skipti sem meirihluti ráðherra Framsóknarflokksins er kvenkyns. LFK fagnar þessari samþykktu tillögu formanns Framsóknarflokksins til þingflokks Framsóknar og þakkar honum fyrir þá áherslu sem hann hefur lagt á jafna stöðu kynjanna meðan hann gengdi stöðu Forsætisráðherra.
Lilja D. Alfreðsdóttir er þriðja konan sem kölluð er til starfa sem utanþingsráðherra og sjöundi kvenkynsráðherra Framsóknar.
LFK óskar Lilju velgengni í embætti.
Framkvæmdastjórn LFK, 7 apríl 2016

Categories
Fréttir

Leynd aflétt

Deila grein

30/03/2016

Leynd aflétt

ásmundurÁ fundi þingflokks framsóknarmanna sem var að ljúka rétt í þessu var einróma samþykkt að þingflokkurinn í heild sinni leggi fram frumvarp um afnám 110 ára reglunnar er varðar aðgang að gögnum sem varða ákvarðanir stjórnsýslunnar.
Að sögn Ásmundar Einars Daðasonar, þingflokksformanns Framsóknar, hefur alltaf verið mikilvægt að allt sé uppi á borðum varðandi uppgjör við hrunið og eftirleik þess.
„Það er nauðsynlegt að fara ofan í öll þessi þjóðfélagslega mikilvægu mál, m.a. þau sem snúa að uppgjöri þrotabúa föllnu bankanna og það er fagnaðarefni að nú séu uppi umræður í samfélaginu að skoða þessi mál frá hruni til dagsins í dag,“ segir Ásmundur Einar.

Categories
Fréttir

Átaksverkefni um allt að 260 sumarstörf fyrir námsmenn

Deila grein

30/03/2016

Átaksverkefni um allt að 260 sumarstörf fyrir námsmenn

EÞHEygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, hefur ákveðið að tillögu stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs að verja um 130 milljónum kr. úr sjóðnum í átaksverkefni til að fjölga tímabundnum störfum fyrir námsmenn í sumar.
Þetta er í sjöunda sinn sem efnt er til átaksverkefnis af þessu tagi og hefur Vinnumálastofnun ávallt annast skipulagið. Svo verður einnig að þessu sinni og hefur stofnunin sent forstöðumönnum opinberra stofnana, bæjarstjórum og tengiliðum þeirra bréf þar sem verkefnið er kynnt.
Atvinnuástand meðal ungs fólks hefur batnað mikið undanfarið og telur Vinnumálastofnun ljóst að flestir geti fengið sumarstarf af einhverju tagi án atbeina verkefnis af þessu tagi. Aftur á móti hafa námsmenn á háskólastigi átt erfitt með að fá störf sem tengjast námi þeirra og hefur hlutfall háskólamenntaðra atvinnuleitenda aukist. Marga þeirra skortir því reynslu á sínu fagsviði og er markmiðið með átaksverkefninu að bæta þar úr og styrkja stöðu þannig námsmanna til framtíðar. Er horft til góðrar reynslu hvað þetta varðar á undanförnum árum.
Vinnumálastofnun hvetur stofnanir ríkis og sveitarfélaga til að hefja undirbúning að átakinu og móta störf og verkefni sem geta fallið að því. Vonast er til að með átakinu verði til allt að 260 störf fyrir námsmenn á háskólastigi sem skiptast á milli opinberra stofnana og sveitarfélaga.
Störfin verða auglýst á vef Vinnumálastofnunar og með auglýsingu um átakið í fjölmiðlum og er stefnt að því að birta auglýsingarnar um miðjan apríl.