Categories
Fréttir

Þegar markaðurinn fer allur í eina átt ber okkur að staldra við

Deila grein

15/03/2016

Þegar markaðurinn fer allur í eina átt ber okkur að staldra við

Karl_SRGB„Virðulegur forseti. Ég er sammála síðasta ræðumanni um að við eigum ekki að tala illa um ferðaþjónustuna. „Þegar allir horfa í sömu átt standa líkur til að hætta sé á ferðum.“ Þessi orð eru tekin upp úr athyglisverðri grein í Morgunblaðinu í morgun. Þar er viðtal við Gunnar Gunnarsson, forstöðumann áhættustýringar Creditinfo, sem bendir á hið augljósa, að margir séu að veðja á ferðaþjónustuna í dag. Hótel spretta upp eins og gorkúlur um land allt, þjónusta tengd ferðamennsku dreifir úr sér eins og lúpína.
Gunnar segir að slík hjarðhegðun geti kallað á áhættu sem menn verði að hafa í huga. Þegar markaðurinn fer allur í eina átt ber okkur að staldra við. Fyrir hrun var áhættan tengd lánum í erlendri mynt á meðan menn höfðu tekjur í íslenskum krónum. Núna er áhættan ekki síst tengd gríðarlegum vexti og uppbyggingu í ferðaþjónustu þó að það kunni að hljóma undarlega. Hér má til dæmis nefna gríðarlega mikla fjölgun hótela. Það þarf ekki annað en að fara í smágöngutúr um miðborgina til að sjá hvað er að gerast. Fjölgun ferðamanna er fagnaðarefni en hvað gerist og hver fær reikninginn að lokum ef illa fer í uppbyggingu?
Fyrir hrun var ekki nægilegur fókus á áhættuþættina. Það sama gildir núna. Forstöðumaður áhættustýringar Creditinfo segir að til dæmis verði að leggja mat á áhrif mögulegrar fækkunar ferðamanna á fasteignaverð hérlendis. Þar liggi áhætta, bæði hjá bönkum og lífeyrissjóðum. Það er full ástæða til að taka undir þessi orð, þeir sem starfa í ferðaþjónustunni, bankar, lífeyrissjóðir og aðrir verða að staldra við. Rauðu ljósin fara brátt að blikka ef menn halda svona áfram. Vonandi hafa menn lært eitthvað af því sem gerðist hér árið 2008. Setjum ekki öll eggin í sömu körfuna.“
Karl Garðarsson í störfum þingsins 15. mars 2016.

Categories
Fréttir

Krafa að bankaráð Landsbankans bregðist við með viðeigandi hætti

Deila grein

15/03/2016

Krafa að bankaráð Landsbankans bregðist við með viðeigandi hætti

þingmaður-WillumÞór-05„Hæstv. forseti. Í gær kom Bankasýsla ríkisins fyrir hv. fjárlaganefnd og staðfesti það sem fram kemur í bréfi sem stílað er á hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra, að forsvarsmönnum bankans hafi ekki tekist að svara gagnrýni og að fagleg ásýnd bankans hafi beðið hnekki. Bankasýslan gerir þá kröfu á bankaráð Landsbankans að bregðast við með viðeigandi hætti.
Ég ætla ekki að ráða í það hér hvaða ráðstafanir bankaráðs eru viðeigandi svo traust megi endurheimta. Það er sannarlega vandmeðfarið, eins og segir í grein í Kjarnanum um þetta verkefni, en þar segir jafnframt að við stjórnmálamenn verðum líka að líta í eigin barm þegar kemur að uppbyggingu fjármálamarkaðarins. Þar segir jafnframt að þrátt fyrir að margt hafi tekist mjög vel, meðal annars við uppbyggingu Landsbankans, verðum við stjórnmálamenn að taka til okkar þá ábyrgð sem við berum á traustari ramma, jafnræði og lagaskyldum og opnu og gagnsæju söluferli á eignum og afskriftum skulda. Höfum við gert nóg eða gætt nægjanlega að þeim sjónarmiðum? Um það verðum við að spyrja okkur. Svar Kjarnans við því er: Nei.
Því miður er Borgunarmálið staðfesting á því. Það er augljóst að við verðum að læra og gera betur. Nýlegt dæmi um slíkt viðfangsefni og ábyrgð er sú lagalega umgjörð sem nauðsynlegt er að búa umsýslu fjár og eigna sem komið er til vegna stöðugleikaframlags fjármálafyrirtækja. Þar hefur hv. efnahags- og viðskiptanefnd lagt sig í líma við að tryggja skýra lagalega umgjörð og áréttar að þar skuli stofnað fyrirhugað félag undir fjármála- og efnahagsráðuneyti við fullnustu og sölu verðmæta sem leggi áherslu á gagnsæi, hlutlægni, jafnræði og hagkvæmni þar sem ákvæði stjórnsýslu- og upplýsingalaga liggja til grundvallar og í fullu samræmi við 45. gr. laga um opinber fjármál. Sýnir það dæmi að við erum meðvituð um þá ábyrgð og viljum gera betur.“
Willum Þór Þórsson  í störfum þingsins 15. mars 2016.

Categories
Fréttir

Umhverfisráðherra býður til morgunverðar á Hallveigarstöðum

Deila grein

15/03/2016

Umhverfisráðherra býður til morgunverðar á Hallveigarstöðum

sigrunmagnusdottir-vefmyndUmhverfis- og auðlindaráðherra, Sigrún Magnúsdóttir, býður til morgunarverðarfundar fimmtudaginn 17. mars undir yfirskriftinni „Saman gegn sóun“
Á fundinum verður stefna ráðherra um úrgangsforvarnir, Saman gegn sóun,  kynnt ásamt námsefni um úrgangforvarnir. 
Matarsóun verður í forgangi fyrstu tvö ár stefnunnar og verða ýmsar aðgerðir á því sviði kynntar á fundinum, m.a. ný vefgátt um matarsóun og nýtt kerfi strikamerkja sem stuðlað getur að minni sóun. 
Fundurinn verður haldinn á Hallveigarstöðum, Túngötu 14, frá kl. 8.30-10:00 og verður boðið upp á morgunverð
Vinsamlegast skráið þátttöku með því að senda tölvupóst til thorunn.elfa@uar.is  

Categories
Fréttir

Hátíðarkvöldverður SUF og LFK á Akureyri

Deila grein

15/03/2016

Hátíðarkvöldverður SUF og LFK á Akureyri

logo-suf-forsidalogo-lfk-gluggiÍ tilefni Sambandsþings SUF og Landsstjórnarfundi LFK á Akureyri þann 19. mars nk verður hátíðarkvöldverður í Lionssalnum, Skipagötu 14.
Hátíðarkvöldverðurinn hefst kl. 19.00 með fordrykk. Í aðalrétt er lambalæri með kartöflugratíni, sósu og salati og í eftirrétt er marengsterta. Verðið fyrir kvöldverðinn er kr. 5.500,-
Hægt er að skrá sig í kvöldverðinn til kl. 17.00 þann 16. mars með því að senda tölvupóst á suf@suf.is eða hafa samband við skrifstofu flokksins í síma 540-4300.
Allir eru velkomnir!
Stjórn SUF

Categories
Fréttir

Þörf á aukinni umræðu um NATO

Deila grein

02/03/2016

Þörf á aukinni umræðu um NATO

Silja-Dogg-mynd01-vef„Virðulegi forseti. Umræðan um viðskiptabann Rússa gagnvart Íslendingum vakti upp háværar umræður hér á landi um utanríkismál. Tónninn var og er stundum sá að þátttaka okkar í viðskiptabanni vestrænna þjóða gegn Rússum sé hreinlega óþarfi. Við þurfum aukna almenna umræðu um utanríkismál og þá sérstaklega varnar- og öryggismál svo að við náum að átta okkur betur á samhengi hlutanna, að sameiginlegur skilningur sé til staðar á milli almennings og á milli stjórnmálamanna.
Ég tel að það sé til dæmis þörf á aukinni umræðu um NATO þar sem ég gæti best trúað að fjölmargir Íslendingar, þá helst kannski í yngri aldurshópunum, viti ekki hvað NATO stendur fyrir og hvers vegna við erum þátttakendur í því varnarsamstarfi. Við erum herlaus þjóð og friðelskandi og ætlum okkur að vera það áfram. Eigum við þá ekki bara að sleppa öllu varnarsamstarfi? Er NATO ekki eitthvað úrelt og óþarft kaldastríðsfyrirbæri? Nei, svo er ekki. Öryggisumhverfi í Evrópu er reyndar gjörbreytt frá því sem áður var þegar Atlantshafsbandalagið var stofnað árið 1949. En markmiðin eru þau sömu, þ.e að tryggja öryggi og frið í álfunni. Auk varnar- og öryggisþáttarins gegnir NATO lykilhlutverki sem pólitískt bandalag 28 lýðræðisríkja beggja vegna Atlantshafsins. Og NATO á í margvíslegu samstarfi við ríki og ríkjabandalög utan NATO, t.d. bandalag Afríkuríkja.
Meginstoðir í stefnu Íslands í öryggis- og varnarmálum eru þátttaka Íslands í starfi Atlantshafsbandalagsins, virkt samstarf við grannríki á sviði öryggismála og varnarsamningurinn við Bandaríkin.
Við hér uppi á hinu friðsæla og yndislega Íslandi getum ekki leyft okkur að sleppa því að taka umræðuna um varnar- og öryggismál. Við þurfum að vera meðvituð og upplýst vegna þessa að afstaða okkar Íslendinga skiptir máli. Við höfum hlutverki að gegna í samfélagi þjóðanna og eigum að axla okkar ábyrgð þar.“
Silja Dögg Gunnarsdóttir í störfum þingsins 1. mars 2016.

Categories
Fréttir

Afhending á skýrslu Pétursnefndar

Deila grein

02/03/2016

Afhending á skýrslu Pétursnefndar

Þorsteinn-sæmundsson„Hæstv. forseti. Það var ánægjulegt að geta nú í hádeginu afhent hæstv. félags- og húsnæðisráðherra skýrslu nefndar um endurskoðun laga um almannatryggingar, svokallaðrar Pétursnefndar sem heitir í höfuðið á Pétri heitnum Blöndal, þeim mikla sómamanni sem gegndi lengi forustu í þeirri nefnd.
Fjölmargir hafa komið að þessari vinnu. Samvinna í nefndinni var yfir höfuð góð þó að nokkuð drægi úr henni á síðustu metrunum, því miður. En þó er ljóst að niðurstöður skýrslunnar eru ávísun á mestu breytingar sem gerðar hafa verið á almannatryggingakerfinu á Íslandi í áratugi ef af verður. Breytingarnar snúa að einföldun almannatryggingakerfisins, sveigjanlegum starfslokum og upptöku starfsorkumats í stað örorkumats.
Það er næsta víst að þó að tillögurnar séu flestar mjög góðar sem fram koma í skýrslunni er enn þá margt ógert. Enn skortir á að við höfum greint nægilega vel vandamál einstakra hópa innan þessara stóru hópa, aldraðra og öryrkja. Það er ekki hægt að tala um þessa hópa sem eitt mengi vegna þess að aðstaða þeirra er mjög mismunandi. Það er núna verk okkar í framhaldi af skýrslunni að vinna enn betur að því að kanna sérstaklega stöðu þeirra sem verst standa innan þessara hópa og grípa þá til sérstakra ráða til þess að þeir megi búa við betri lífskjör.
Heilt yfir er ekki laust við að maður geti verið ánægður með að skýrslan skuli nú loksins vera fram komin. Ég vona sannarlega að í framhaldinu muni fylgja frumvörp frá hendi ráðherra sem uppfylla það sem hér er sett fram.“
Þorsteinn Sæmundsson í störfum þingsins 1. mars 2016.

Categories
Fréttir

Mun reyna á styrka og staðfasta hagstjórn

Deila grein

02/03/2016

Mun reyna á styrka og staðfasta hagstjórn

Villlum„Hæstv. forseti. Ég ætla að ræða þá stöðu sem er teiknast upp hér í þjóðarbúskapnum samhliða jákvæðum samfélagslegum tíðindum. Kaupmáttur hefur aukist til muna og skuldir landsmanna minnkað. Á sama tíma eru að berast mjög jákvæðar fréttir sem lesa má úr Félagsvísum sem Hagstofan birtir og finna má á vef velferðarráðuneytisins; mikilvægur gagnagrunnur, upplýsingar um velferð, vellíðan, heilbrigði og þarfir, gögn fyrir bætta stefnumótun og samfélagslegar aðgerðir þar sem þörfin er mest aðkallandi.
Margt má lesa úr þessu og meðal annars þá afar jákvæðu þróun að börn og unglingar verja nú í auknum mæli tíma með foreldrum sínum og þeim fjölgar sem taka þátt í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi. Það er besta forvarnarstarfið, virðulegi forseti, og ber að huga að og vísbendingu þessa efnis má einnig finna í minni neyslu áfengis og vímuefna. Það er mikilvægt að við verjum það mikilvæga sjálfboðastarf sem unnið er á vettvangi æskulýðs-, ungmenna- og íþróttafélaga. Þetta er þróun sem við ættum með öllum mætti að verja og styðja enn frekar.
Tekjujöfnun er æskileg, ekki bara út frá félagslegum heldur einnig út frá hagstjórnarlegum sjónarmiðum. Því eru það afar mikilvæg tíðindi, sem lesa má úr þessum Hagvísum, að jöfnuður er sannarlega að aukast og er óvíða meiri. Skuldaleiðrétting, séreignarsparnaðarleið, mildar skattalækkanir, afnám vörugjalda og ýmissa tolla, kjarasamningar og verðstöðugleiki ásamt öðrum félagslegum og hagstjórnarlegum aðgerðum hafa því stuðlað að auknum kaupmætti, auknum jöfnuði, aukinni velferð.
Nú berast tíðindi um það að við siglum hratt inn í þensluskeið og það er verkefni sem við höfum oft klúðrað. Því mun reyna á styrka og staðfasta hagstjórn ef okkur á að takast að halda áfram á sömu braut, horfa til jöfnuðar, kaupmáttar, stöðugleika og móta það velferðarþjóðfélag sem við viljum búa í.“
Willum Þór Þórsson í störfum þingsins 1. mars 2016.

Categories
Fréttir

Fjármálastofnanir sýni neytendum sóma

Deila grein

02/03/2016

Fjármálastofnanir sýni neytendum sóma

flickr-Elsa Lára Arnardóttir„Hæstv. forseti. Þessa dagana heyrum við fréttir af gríðarlegum hagnaði viðskiptabankanna þriggja. Samanlagt tóku þeir inn 80 milljarða króna hagnað á síðasta ári og er hagnaður þeirra þriggja frá hruni 370 milljarðar. Þessi hagnaður kemur á sama tíma og þessir sömu viðskiptabankar hafa verið að bæta við þjónustugjöldum og í mörgum tilfellum að hækka þau þjónustugjöld sem fyrir voru. Má þar meðal annars nefna úttektargjald, hraðbankagjald, svargjald bankaþjónustu, greiðslugjald, kortagjald og svona er hægt að telja áfram. Þessir gjaldaliðir eru um 30 talsins og hv. þm. Framsóknarflokksins Karl Garðarsson gerir ágætlega grein fyrir þeim í færslu á Eyjunni. Í færslu hans kemur jafnframt fram að fólki blöskri og það sé búið að fá nóg. Það er ekki annað hægt en að taka heils hugar undir þau orð hans þegar kemur að þessum þáttum í bankakerfinu. Við þurfum að skapa nýtt og heiðarlegra bankakerfi.
Herra forseti. Hér þarf að aðgreina á milli fjárfestingar- og viðskiptabanka. Hér þarf að afnema verðtryggingu og taka um leið á því vaxtaumhverfi sem við búum við. Í því samhengi gæti líka verið afar gagnlegt að líta til hugmynda hv. þm. Frosta Sigurjónssonar um breytt peningakerfi. Á meðan sú vinna er í gangi eiga forsvarsmenn þessara fjármálastofnana að sýna sóma sinn í því að leyfa neytendum landsins að finna fyrir þeim gríðarlega hagnaði sem fjármálastofnanirnar hafa náð. Það ættu þeir að geta gert með því að kalla til baka þær hækkanir sem orðið hafa á þjónustugjöldum eða fækka þeim þjónustuliðum sem rukkað er fyrir og að lækka vexti. Það gæti orðið gríðarleg kjarabót fyrir heimili landsins.“
Elsa Lára Arnardóttir í störfum þingsins 1. mars 2016.

Categories
Fréttir

Vaxandi atvinnuþátttaka eldra fólks – styttri vinnudagur

Deila grein

29/02/2016

Vaxandi atvinnuþátttaka eldra fólks – styttri vinnudagur

EÞHHlutfall kvenna á vinnumarkaði hefur hækkað úr 76,5% árið 2004 í 78,5% árið 2014 en hlutfall karla á vinnumarkaði hefur lækkað lítillega, samkvæmt nýjum Félagsvísum. Hlutfall eldra fólks á vinnumarkaði hefur hækkað á sama tímabili, úr 63,3% í 67,2%. Meðalfjöldi vinnustunda á viku hefur lækkað bæði hjá konum og körlum og í öllum aldurshópum.
Í nýuppfærðum Félagsvísum sem voru birtir fyrir skömmu má lesa ýmsar upplýsingar um atvinnuþátttöku fólks, eftir kyni, aldri og menntunarstigi.
Ef atvinnuþátttaka hér á landi er skoðuð í norrænum samanburði, líkt og gert er í nýlegri skýrslu Nososko (norræn samanburðartölfræði á sviði félagsmála), má sjá að fleiri eru virkir á vinnumarkaði á Íslandi en annars staðar á Norðurlöndunum og auk þess eru Íslendingar virkir lengur fram eftir árum. Það er ekki fyrr en við 65 ára aldur íslenskra karlmanna að atvinnuþátttaka þeirra fer niður fyrir 80%. Þessi skil verða miklu fyrr hjá hinum Norðurlandaþjóðunum, eða við 53 ára aldur í Danmörku og Finnlandi en við 60 ára aldur í Noregi og Svíþjóð. Atvinnþátttaka kvenna hérlendis er einnig meiri en á hinum Norðurlöndunum og þær vinna lengur fram eftir ævinni en norrænar stallsystur þeirra.
Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra segir ánægjulegt að sjá hve atvinnuþátttaka hér á landi er mikil og að eldra fólk skuli í vaxandi mæli vera virkt á vinnumarkaði fram eftir aldri. ,,Það væri áhugavert að vita hvað veldur þar mestu en þarna kunna að skipta máli þættir eins og bætt heilsa eldra fólks og félagslegir og efnahagslegir þættir. Sú staðreynd að vinnustundum fækkar held ég að sé mjög jákvæð. Það hefur lengi verið bent á þörfina fyrir aukið jafnvægi milli vinnu og einkalífs og það er ótvírætt liður í því að fjölga samverustundum foreldra og barna. Þeim stundum hefur fjölgað eins og sést í Félagsvísunum og kostir þess eru ótvíræðir.”

Categories
Fréttir

Færri glíma við verulega íþyngjandi húsnæðiskostnað

Deila grein

29/02/2016

Færri glíma við verulega íþyngjandi húsnæðiskostnað

EÞHÞeim sem lægstar tekjur hafa og glíma við verulega íþyngjandi húsnæðiskostnað hefur fækkað jafnt og þétt á undanförnum árum. Hlutfall þeirra er nú u.þ.b. 25% en var 30% árið 2011. Þessi tiltekni félagsvísir tilgreinir húsnæðiskostnað þeirra 20% landsmanna sem lægstar hafa tekjurnar. Tekjulágir með verulega íþyngjandi húsnæðiskostnað voru fæstir árið 2008 en gögnin taka til tímabilsins 2004 til 2014. Húsnæðiskostnaður telst verulega íþyngjandi ef hann nemur yfir 40% af ráðstöfunartekjum heimilis.
Aðeins 2,2% tekjuhæstu heimilanna búa við íþyngjandi húsnæðiskostnað. Í félagsvísum er staðan greind eftir heimilisgerð og má þar sjá að algengast er að  fullorðnir karlmenn búi við íþyngjandi húsnæðiskostnað en þessi staða er fátíðust hjá tveimur fullorðnum með eitt eða tvö börn.
Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra fjallaði m.a. um þetta á Fasteignaráðstefnunni í Hörpu í síðustu viku þar sem húsnæðismarkaðurinn í nútíð og framtíð var til umræðu: „Það er fagnaðarefni að hópur hinna tekjulægstu sem eiga í vandræðum með húsnæðiskostnað sé að minnka. Hann er hins vegar enn allt of stór að mínu mati. Þær breytingar á opinberum stuðningi við húsnæðismál, sem nú eru til umfjöllunar á Alþingi og koma fram í frumvörpum sem ég hef mælt fyrir, munu vonandi stuðla að því að færri þurfi að glíma við húsnæðiskostnað sem gleypir bróðurpartinn af ráðstöfunartekjum þeirra“ segir Eygló Harðardóttir.

Um félagsvísa

Megintilgangur félagsvísa er að birta á einum stað safn tölulegra upplýsinga til að auðvelda stjórnvöldum og almenningi að fylgjast með þróun og breytingum í samfélaginu. Á þriðja tug sérfræðinga frá Háskóla Íslands, Rannsóknum og greiningu, Tryggingastofnun ríkisins, Barnaverndarstofu, Ríkislögreglustjóra, Hagstofu Íslands, velferðarráðuneyti, efnahags- og viðskiptaráðuneyti, mennta- og menningarmálaráðuneyti, Velferðarsviði Reykjavíkurborgar, Félagsvísindastofnun, Ríkisskattstjóra, Alþýðusambandi Íslands, umboðsmanni skuldara, embætti landlæknis, Vinnumálastofnun og Þjóðskrá Íslands tóku þátt í vinnu við gerð félagsvísa.