Meðan rætt er um hvernig eigi að skipta kökunni er Frosti með hugmyndir um að stækka hana
Frosti Sigurjónsson, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, leggur til að stýrivextir verði lækkaðir um eitt prósentustig, að lagt verði ríkisábyrgðargjald á bankana og að hætt verði við að bæta lífolíu í eldsneyti. Með þessum og fleiri aðgerðum sé hægt að spara 20-30 milljarða án þess að skerða þjónustu eða hækka skatta á einstaklinga.
Í ræðu sem Frosti hélt í umræðu um fjárlög lagði hann til aðgerðir í sex liðum um 20-30 milljarða króna sparnað eða tekjuauka fyrir ríkið. Meðal annars vill hann ekki selja hlut í Landsbankanum, sem skili 4-5 milljörðum meira í tekjuafgang, hætta við að kaupa hlut í Asíska innviðafjárfestingabankanum, sem spari 100 milljónir og fresta blöndun lífolíu í bensín sem spari 700 milljónir.
Stærsti tekjuaukinn er hins vegar sérstakt ríkisábyrgðargjald á bankanna. Frosti segir bankana í raun njóta ríkisábyrgðar þar sem þeir megi ekki falla og ríkið komi til bjargar ef þeir lenda í vandræðum. „Þessir bankar eru óumflýjanlega með ríkisábyrgð á innistæðum sínum en borga ekkert ríkisábyrgðargjald og þess vegna vildi ég vekja athygli á því að kannski væri þetta óeðlileg staða.“
Ræða Frosta Sigurjónssonar.
„Virðulegi forseti. Við ræðum hér um fjárlög fyrir árið 2016 og þá ræðum við tekjur ríkissjóðs og hvernig þeim er ráðstafað. Tekjurnar eru ævinlega takmarkaðar og því þarf ævinlega að taka erfiðar ákvarðanir og forgangsraða til brýnustu verkefna. Um þetta geta skapast deilur og verið miklar tilfinningar. Það væri vissulega betra ef við hefðum örfáa tugi milljarða til viðbótar til ráðstöfunar svo við gætum gert betur við lífeyrisþega, bætt lífsgæði öryrkja og ég tala nú ekki um Landspítalann og önnur þjóðþrifamál sem okkur þingmönnum eru öll hugleikin.
Hér hafa verið fluttar margar góðar ræður þar sem færð hafa verið góð rök fyrir því hvernig ráðstafa skuli takmörkuðum tekjum ríkissjóðs til brýnna verkefna. Mér finnst sú umræða almennt hafa verið mjög gagnleg og upplýsandi. Það er eðlilegt og í raun æskilegt að þingmenn hafi mismunandi og ólíkar áherslur í þessum efnum og vonandi komumst við á þingi að ásættanlegri niðurstöðu sem felur í sér að þau málefni sem mikilvægust eru fyrir þjóðina fái nauðsynlegt fjármagn, að ríkið geti mætt öllum skyldum sínum gagnvart fólkinu í landinu og að þjónusta ríkisins geti tekið framförum milli ára. Í þessari ræðu minni um fjárlög ársins 2016 ætla ég ekki að ræða um hvernig við ætlum að skipta kökunni, heldur reyna að finna svör við þeim spurningum hvort við getum stækkað hana, hvort við getum stækkað þann afgang sem er til ráðstöfunar um tugi milljarða án þess að draga úr þjónustu ríkisins og án þess að auka skattlagninguna.
Er það mögulegt? Já, það er mögulegt. Í þessari stuttu ræðu minni sem verður 20–30 mínútur hef ég einsett mér að útskýra hvernig við getum sparað 20–30 milljarða. Þeir þingmenn sem eru í salnum og gefa sér tíma til að hlusta á ræðu mína munu þá fá hugmyndir um það hvernig hægt er að spara 1 milljarð á mínútu í ræðunni. Það er markmið mitt hér í dag í þessari stuttu ræðu. Ég vona að þingmenn sýni þessu hugarflugi dálítinn áhuga því að það er á færi okkar þingmanna að hrinda í framkvæmd öllum þeim hugmyndum sem hér verða reifaðar.
Hvernig aukum við tekjurnar og drögum úr gjöldunum án þess að hækka skattana og án þess að skera niður í ríkisþjónustu? Ég bið menn í hliðarsal að loka dyrunum, ef menn ætla að missa af því hvernig á að auka afgang ríkisins um milljarð á mínútu ættu þeir endilega að halla hurðinni.
Vindum okkur í þetta.
Liður 1. Við gætum bætt afkomu ríkissjóðs á næsta ári og árunum eftir það líklega um 4–5 milljarða á ári með því að selja ekki 30% hlut í Landsbankanum. Það er einfalt og það er einfaldlega vegna þess að arðurinn af hlutnum, þessum 30% hlut, er 4–5 milljörðum meiri en vextirnir af skuldinni sem við mundum nota reiðuféð til að lækka skuldir ríkissjóðs um. Ef við erum að reyna að auka afgang ríkissjóðs er því mjög skynsamlegt að eiga þennan 30% hlut lengur. Eitt sem ég vil koma inn á um leið og ég ræði lið 1 er að í upprunalegum drögum að fjárlögum ríkisins og líka eftir að meiri hluti fjárlaganefndar hefur farið höndum sínum um þau er áætlað að arður ríkissjóðs af Landsbankanum verði rétt rúmir 7 milljarðar en meiri hluti fjárlaganefndar víkur að því í áliti sínu á bls. 3 að hugsanlega verði þetta eitthvað meira. Þetta er eins og við mundum segja á góðri ensku „understatement of the year“, afsakið, herra forseti, að ég skuli sletta. Ég veit ekki hvernig á að segja þetta breska máltæki á íslensku en það er erfitt að komast að þeirri niðurstöðu að þetta verði 7 milljarðar. Það er nær því að ríkið fái 17 eða 20 milljarða í arð af þessum banka. Mér fyndist betri bragur að sýna líklegustu niðurstöðu en að tala um einhverja ofurvarkárni. Auðvitað er eðlilegt að hafa uppi varúðarsjónarmið þegar verið er að áætla arð ríkisins af hinum og þessum fyrirtækjum en hérna er ríkissjóður aðalhluthafinn og ræður því að mestu leyti hvort greiddur verður út arður eða ekki, þ.e. þeir stjórnarmenn sem skipaðir eru. Það er engin ástæða til að greiða ekki út arð í Landsbankanum. Eigið fé er orðið 30%, held ég, og langt yfir viðmiðunarmörkum Fjármálaeftirlitsins, svo hátt yfir að hann gæti greitt út aukaarð sem hugsanlega næmi hátt í 10–20 milljörðum, bara til að komast inn á venjulegt bil hvað varðar kröfur Fjármálaeftirlitsins. Hann væri samt vel yfir 20% þótt hann gerði það.
Við skulum ekki ræða það. Arðgreiðslugeta þessa banka er gríðarleg á næstu árum og ég legg til að við seljum ekki þessi 30%. Annað sem leggst á þær árar er að í rauninni er erfiður tími til þess að fá gott, sanngjarnt og réttlátt verð fyrir eignarhlut í banka þegar tveir aðrir bankar eru til sölu. Það er eiginlega alveg sama hversu arðsamur þessi banki er, það er takmörkuð kaupgeta hjá fjárfestum, það eru alltaf ákveðin takmörk á því hve mikil eftirspurnin er og þegar framboðið er ótakmarkað hefur það áhrif á verðið. Við fengjum sem skattgreiðendur of lítið fyrir bankann við núverandi aðstæður og eins og aðstæðurnar munu fyrirsjáanlega þróast næstu tvö, þrjú, fjögur árin. Þess vegna er algjör óþarfi að vera með eitthvert óðagot í sölu á þessum hlut í bankanum. Það liggur ekkert á að selja hann og ég ítreka að með því að leggja þau áform á hilluna verður afgangur á næsta ári 4–5 milljörðum meiri en ella yrði.
En þetta er ekki allt. Nú er komið að lið 2. Við gætum líka sparað 100–200 milljónir á ári. Ég veit að 100–200 milljónir eru mjög lágar tölur en hérna hafa menn verið í miklum tilfinningasveiflum yfir 50 milljónum. Ég ætla líka að taka tölur eins og 100–200 milljónir. Það getum við gert með því að hætta við kaupin á hlutnum í Asíska innviðafjárfestingarbankanum. Asíski innviðafjárfestingarbankinn er ríkisbanki einhvers staðar langt í burtu og ég skil ekki hvernig okkur dettur í hug að vera á sama tíma með þá stefnu að selja alla ríkisbanka sem eru nálægt okkur en kaupa í þeim sem eru langt í burtu og skipta okkur engu máli. Ég veit til dæmis að Bandaríkjamenn og Japanir ætla ekki að taka þátt í þessum asíska innviðabanka. Þeir sjá engan tilgang með því, enda hafa þeir lýst áhyggjum af því að þeir viti ekki hvort hann muni uppfylla kröfur um umhverfismál eða mannréttindi, hvaða stefnu hann muni móta sér í þeim efnum. Höfuðstöðvar þessa banka eru í Kína. Ávinningur á Íslandi af þátttöku er algjörlega óljós. Það er ýjað að því að íslensk orkuráðgjafarfyrirtæki gætu hugsanlega fengið betri aðgang að innviðaverkefnum í Asíu — sem væri vissulega gott mál — en trúa menn því virkilega að það skipti einhverju máli þó að Ísland ætti 0,2% í bankanum? Annaðhvort er tækni, ráðgjöf og þekking Íslands góð eða ekki. Það er það sem ræður úrslitum um það hvort hún á erindi til Asíu, ekki það hvort við eigum 0,2% í asískum innviðabanka. Hvaða rugl er þetta? Ég hef megnið af ævinni staðið í útflutningi á þekkingu. Ég veit að þetta virkar ekki svona. Ef þekkingin er í lagi og á erindi selst hún eftir að hún hefur farið í gegnum nálaraugað og keppt við aðra þekkingu. Annars ekki. Þarna eru hagsmunirnir þeir að velja rétta þekkingu og ég hef fulla trú á þekkingu íslenskra orkufyrirtækja. Ég hef ekki heyrt að þessi orkufyrirtæki hafi óskað eftir því að almenningur legði þeim til 100–200 milljónir með auknum skattbyrðum eða með því að leggja minna í þörf þjóðþrifamál til að hjálpa þeim í útrás sinni með því að kaupa hlut í asíska innviðabankanum. Þá eru öll ferðalög embættismanna á fundi fjárfestingarbankans órakin. Með hvaða rökum ættu skattgreiðendur að bera kostnaðinn af útrás þessara einkafyrirtækja? Ég sé þau ekki, ég sé ekki að það sé hlutverk ríkisins að fjárfesta í þessu apparati og ég legg til að við spörum okkur 100–200 millj. kr. á ári með því að binda ekki 2,5 milljarða í erlendum gjaldmiðli í hlutabréfum banka sem er langt í burtu.
Liður 3. Við getum sparað 700 milljónir á ári í gjaldeyri með því að fresta blöndun lífolíu í bensín á bifreiðum á Íslandi. Haustið 2013 vakti ég athygli þingsins á því að það mætti spara ríkissjóði 6 milljarða fram til ársins 2020 með því að fresta gildistöku ákvæðisins um íblöndun lífdísils í eldsneyti. Nú hef ég með fleiri þingmönnum lagt fram frumvarp þess efnis að fresta þessu en því miður hefur það ekki komist á dagskrá þingsins. Ef það yrði að lögum mundi ríkið spara um 700 milljónir á ári sem það þarf að bæta olíufélögunum sem þurfa að kaupa dýra lífdísilolíu erlendis. Sú olía er ræktuð á ökrum sem áður hefðu getað nýst til matvælaframleiðslu. Framleiðsla á þessum lífdísil er mengandi og hér höfum við miklu betri orkugjafa, rafmagn, sem við ættum að nota. Ef við ætlum að gera eitthvað ættum við að nota þessa peninga til að hraða innleiðingu á rafmagnsbílum á Íslandi. Allt önnur staða er uppi í Evrópusambandinu þar sem þessar tilskipanir eiga rót sína. Ég hef heyrt ávæning af því að jafnvel þeir sem stóðu að þessari lagagerð í Evrópusambandinu séu orðnir efins um að það sé rétt að krefjast íblöndunar á lífolíu, það séu miklu hagkvæmari leiðir til að ná þeim árangri að vernda umhverfið en að fórna ökrum sem annars gætu farið í að metta svanga munna.
Virðulegi forseti. Þeir þrír sparnaðarliðir sem ég hef nú talið upp skila samtals hátt í 6 milljörðum á ári án þess að auka skatta eða skerða þjónustu ríkisins á nokkurn hátt. En tækifærin eru enn stærri og ég tel hægt að bæta niðurstöðuna alls um 20–30 milljarða eins og nú verður rakið.
Víkjum þá að stórum lið sem er vaxtagjöld ríkissjóðs. Eins og þið sjáið í fjárlögunum er gert ráð fyrir að samkvæmt nýjustu spám fari 72 milljarðar í vaxtagjöld af skuldum ríkisins. Einn af áhrifaþáttum þess hve mikla vexti ríkissjóður greiðir er stýrivextir Seðlabankans. Stýrivextir Seðlabankans eru sannarlega orðnir mjög háir, 5,75%. 1% lækkun þeirra mundi leiða til þess að ríkissjóður mundi spara beint 3–4 milljarða í lægri vaxtagjöld af skuldum sínum. Ég held að hægt sé að lækka stýrivexti á Íslandi um 1% án þess að það leiði til þenslu, óðaverðbólgu eða nokkurra vandamála, ef við færum Seðlabankanum fleiri stýritæki til að fást við þau vandamál, fleiri stýritæki sem eru jákvæðari og hafa ekki jafn neikvæðar aukaverkanir og stýrivextirnir. Eins og öllum er kunnugt laða stýrivextir til landsins svokallað kvikt fjármagn þegar þeir fara upp yfir ákveðin mörk og það fjármagn getur rokið úr landi hvenær sem er. Það hefur óæskileg áhrif á gengi krónunnar og veldur hér óstöðugleika. Það er orðið vandamál í sjálfu sér. Auk þess bitna háir stýrivextir aðallega á þeim sem skulda. Það er einkennileg stefna að vinna hér að — fyrirgefið, forseti, gæti ég fengið hljóð í salnum? Það er svo mikið pískur.
(Forseti (ÞorS): Forseti biður um hljóð í salinn.)
Takk fyrir. Ég er að rekja hérna tiltölulega flókin atriði sem við þurfum öll mikla einbeitingu við, 1 milljarður á mínútu er í húfi, og ég bið þingmenn að einbeita sér gríðarlega. Ég tel ekki til mikils mælst að temja athyglisbrestinn — og þetta er bráðskemmtilegt líka. Nú er ég að tala um það hvernig við gætum lækkað stýrivexti og hvers vegna það er mikilvægt að lækka þá um 1% til að skilja 3–4 milljörðum meira eftir hjá ríkissjóði til að skipta á milli okkar.
Þarna hafa þó skapast vandamál í því að þegar stýrivextir eru hækkaðir bitna þeir á röngum aðilum. Þetta stýritæki, stýrivextirnir, bitnar aðallega á þeim sem skulda. (Gripið fram í.) Hv. þingmenn vilja endilega hlusta á þetta. Stýrivaxtahækkanir bitna aðallega á þeim sem skulda og þá spyr maður sig: Af hverju ættu þeir einir sem skulda að taka þátt í því að stuðla hér að stöðugu verðlagi? Af hverju bara þeir, af hverju ekki allir í landinu? Til þess er til tækið breytilegur séreignarsparnaður. Fyrir peningastefnunefndina væri gagnlegt að geta sagt, í staðinn fyrir að hækka eilíflega stýrivextina á þá sem skulda, að öll þjóðin ætti núna í góðærinu að leggja í séreignarsparnað til mögru áranna sem munu sannarlega koma einhvern tímann í framtíðinni. Í staðinn fyrir að moka ráðstöfunartekjum okkar til fjármálafyrirtækjanna, til lánastofnana þar sem við sjáum þær ekki aftur, ættum við að setja þá í séreignarsjóði okkar til mögru áranna þegar við sjálf verðum fyrir áföllum eða þegar samfélagið þarf á því að halda að við getum haldið uppi kaupmætti okkar þótt á móti blási.
Aðrar þjóðir eru farnar að skoða þetta. Nýja-Sjáland sem fann upp stýrivaxtatækið er nú orðið langþreyttast allra þjóða á því tæki og er farið að ræða um að taka upp fleiri tæki. Ég hvet þingmenn til að kynna sér þetta. Með því að við færðum peningastefnunefndinni þetta tæki væri að mínu mati hægt að lækka stýrivextina um 1% og spara ríkissjóði 3–4 milljarða. Eigum við ekki að vinna að því?
Það er líka hægt að minnka kostnað Seðlabankans sérstaklega. Það er hægt að minnka kostnað Seðlabankans sjálfs af stýrivöxtum um 4 milljarða. Eins og þið vitið er Seðlabankinn hluti af ríkinu og hann greiðir afganginn af rekstri sínum í ríkissjóð. Ég tel hægt að sýna fram á að afgangur hans gæti verið á hverju ári 4 milljörðum meiri en hann er með því að hætta að greiða fulla stýrivexti á bindiskyldar fjárhæðir. Frá 2008 hefur Seðlabankinn greitt bönkunum ríflega 40 milljarða í stýrivexti. — Eruð þið að hlusta? Seðlabankinn hefur greitt bönkunum ríflega 40 milljarða í stýrivexti til að stýra vöxtum í landinu af því að bankarnir eiga svo mikið laust fé. Þeir eiga peninga í Seðlabankanum. Seðlabankinn þarf ekki að lána þeim neina peninga. Flestir seðlabankar í heiminum eru með jafnvægi á milli þessara liða. Bankakerfið er í viðskiptum við Seðlabankann og fær fyrirgreiðslu þar sem og ávaxtar peninga þar eftir því í hvaða stöðu bankarnir eru. Það er hlutverk Seðlabankans. Seðlabanki Íslands er í þeirri stöðu að hann tapar á viðskiptum sínum við bankana, búinn að gera það alveg frá hruni, 4–13 milljörðum á ári. Ég hef í tvö, þrjú ár bent ítrekað á að hann gæti dregið úr þessu tapi sínu með því að beita vaxtalausri bindiskyldu. Meiri hluti allra seðlabanka í heiminum beitir því tæki. Ég hef talað fyrir daufum eyrum. Að sjálfsögðu er peningastefnunefndin sjálfstæð í sínum verkum en ef hún mundi ákveða að beita þessu að einhverju marki tel ég að skaðlausu hægt að minnka vaxtakostnað Seðlabankans sjálfs af viðskiptum við bankana um 4 milljarða á ári og auka þá arðgreiðslu hans í ríkissjóð um það sama.
Þá erum við komin að lið 6. Við erum búin að nefna sparnaðarhugmyndir sem ég held að séu komnar vel á annan tug milljarða. Tilfellið er að við erum með ríkisábyrgð á innstæðum í viðskiptabönkum. Viðskiptabankar eru með ríkisábyrgð. Menn greinir á um hvort hún sé yfirlýst, hvort hún sé óbein, en ég hef haldið því fram að hún sé óhjákvæmileg og það sé alveg eins gott að taka hausinn úr sandinum, horfast í augu við þetta og láta þá borga ríkisábyrgðargjald eins og önnur fyrirtæki sem fá ríkisábyrgð á sína fjármögnun. Innstæður í bönkum eru fjármögnun á útlánum bankanna. Mér finnst stórfurðulegt að bankar skuli ekki greiða neitt ríkisábyrgðargjald. Það eru lög í landinu sem segja að þeir sem njóti ríkisábyrgðar á fjármögnun sína skuli greiða gjald sem nemur allt að 4% af þeim lánum sem menn taka. En hvers vegna greiða bankar ekki ríkisábyrgðargjald? Það er af því að við erum með einhvern hókus pókus, einhverja sýndarmennsku um að hérna sé einhver innstæðutryggingarsjóður sem getur brugðist við ef banki rúllar. Hér á landi eru bankar með þúsund milljarða í innstæðum. Bara einn banki er með 200–300 milljarða í innstæðum. Vitið þið hver innstæðan er í innstæðutryggingarsjóðnum? Það myndast engin tryggingafræðileg áhrif þar sem þrír bankar eru. Það þarf þúsund banka til að svona sjóður virki. Hann er frábær hugmynd í Bandaríkjunum. Hann er mjög slæm hugmynd á Íslandi. Þegar banki rúllar eða er í hættu á að rúlla þarf ríkið alltaf að styðja einn af þessum stóru bönkum. Þeir eru of stórir til að falla, það er viðurkennt. Við verðum að opna augun, horfast í augu við bankana og draga þá til ábyrgðar sem raunverulega valda hættu í kerfinu og bjóða þeim að greiða til dæmis 4% af öllum innstæðum í bönkunum. Ef við tækjum af 400 milljörðum eru þetta 16 milljarðar á ári. Nú erum við komin upp í 20–30 milljarða. Er ég ekki búinn að tala í 20 mínútur?
Þetta kunna að vera byltingarkenndar hugmyndir að mati einhverra. Ef mönnum líst illa á að leggja ríkisábyrgðargjald á bankana, finnst það einum of bratt og óttast að það muni leiða til aukins vaxtakostnaðar hjá almenningi og eitthvað slíkt, það má alveg ræða það, er til önnur leið. Hún er sú að hætta að fela bönkunum það verkefni að starfrækja hér gjaldmiðilinn. Seðlabankinn býr til pappírspeningana, látum hann líka búa til rafmagnspeningana. Pappírspeningar eru bara 10% af þeim peningum sem hagkerfið þarf til að snúast. Hagkerfið okkar veltir 2.200 milljörðum á ári sem er ríflega verg landsframleiðsla ef ég man rétt. Svoleiðis hagkerfi þarf 300–400 milljarða í lausu fé á hverjum tíma. Það rúllar í gegn nokkrum sinnum á ári. Það er lánafrestur, greiðslufrestur, við viljum hafa eitthvert laust fé undir koddanum, alls konar sjóðir sem við viljum hafa aðgengilega.
Seðlabankinn ætti að uppfylla þá mikilvægustu skyldu ríkisins að útbúa þetta fé. Þetta er grunnfé sem hagkerfið þarf. Hann býr til 50 milljarða í seðlum, kannski 45, en við erum ekki að nota seðla í daglegum viðskiptum nema að litlu leyti eins og þið sjáið. Viðskipti okkar eru að megninu til rafræn. Seðlabankinn hefur ekki fylgt þróun tímans, hann hefur látið einkafyrirtækjum eftir að starfrækja gjaldmiðilinn. Það ætti ekki að vera neitt vandamál, ég er ekki á móti einkavæðingu, en við þurfum að ræða það. Viljum við einkavæða krónuna? Hún er búin að vera einkavædd alveg frá því að bankarnir voru einkavæddir fyrst. Meðan þetta voru ríkisbankar önnuðust þeir þetta. Núna er tilfellið að þegar bankarnir voru einkavæddir einkavæddum við um leið starfrækslu lögeyrisins í landinu, krónunnar. Það er gríðarlegur hvati að búa til peninga úr engu. Það eru þau forréttindi sem bankar hafa. Svo erum við með seðlabanka og fjármálaeftirlit til að hafa eftirlit með því að þeir búi ekki til of mikið. Það eftirlit brást í aðdraganda hrunsins og nú teljum við að við höfum búið betur um hnútana. Ég held ekki.
Kostnaðurinn af því fyrir ríkissjóð að fela einkaaðilum að búa til peninga úr engu er 20 milljónir á ári og við fáum slaka þjónustu. Við getum gert það betur sjálf og ódýrara með Seðlabankanum. Vill einhver hérna stinga upp á að Landsbankinn, Arion banki og Íslandsbanki fái að prenta peningaseðla líka? Viljum við fara alla leið? Hafið þið tekið eftir því að söngurinn er sá að það eigi að leggja niður peningaseðla? Það er til þess að við notum bara einkavædda peninga sem gefnir eru út af einkaaðilum. Það er algjör einkavæðing gjaldmiðilsins. Sá er söngurinn.
Ég legg til að þau verkefni sem ríkið tekur að sér séu þau verkefni sem það getur gert best og eru nauðsynleg. Aðkoma ríkisins að því að búa til gjaldmiðil er algjörlega óhjákvæmileg. Við sjáum meira að segja að þegar bankar sem starfrækja gjaldmiðilinn eru orðnir tæpir þarf ríkið alltaf að koma til bjargar. Fyrst það er svoleiðis hvort sem er og við erum farin að láta þá borga ríkisábyrgðargjald má spyrja hvort þá sé ekki betra að við horfumst í augu við þetta og segjum að það sé best að Ísland taki skrefið sem þjóðirnar eru farnar að horfa á.
Núna er þjóðaratkvæðagreiðsla í Sviss um það hvort seðlabankinn í Sviss eigi að taka þetta verkefni af bönkunum, að taka alfarið upp þjóðpeninga í Sviss. Það mál komst á dagskrá þingsins vegna þess að þar er beint lýðræði. Fólkið getur safnað undirskriftum. Ég held að það þurfi 2% kjósenda og þá er hægt að koma því máli á dagskrá þingsins að þingið ræði hvort taka skuli upp þjóðpeningakerfi. Ég held að hér þurfi að ræða það og ég hef ásamt fleiri þingmönnum úr öllum flokkum nema einum lagt til að hér verði stofnuð nefnd til að kanna þetta mál, kosti og galla þess að við séum með einkavæddan gjaldmiðil eða hvort við ættum kannski að taka upp ríkisrekstur á gjaldmiðlinum. Ég er enginn sérstakur talsmaður ríkisrekstrar í öllum málum en veit að hér eru talsmenn slíks rekstrar og taka vel undir. Það er ekki af því að ég telji að ríkisrekstur sé bestur, ég er bara ekki með þær kreddur að hann sé alltaf verstur. Ég held að mögulega séu tilvik þar sem hann er langbestur og jafnvel óumflýjanlegur. Eitt það mikilvægasta sem við þingmenn þurfum að gera er að ræða þessi mál.
Ég hef tæpt á nokkrum atriðum. Ég ætla ekki að lengja ræðu mína vegna þess að þá fækkar milljörðum á mínútu. Ég setti mér að vera með milljarð í sparnað á mínútu í ræðunni [fusion_builder_container hundred_percent=”yes” overflow=”visible”][fusion_builder_row][fusion_builder_column type=”1_1″ background_position=”left top” background_color=”” border_size=”” border_color=”” border_style=”solid” spacing=”yes” background_image=”” background_repeat=”no-repeat” padding=”” margin_top=”0px” margin_bottom=”0px” class=”” id=”” animation_type=”” animation_speed=”0.3″ animation_direction=”left” hide_on_mobile=”no” center_content=”no” min_height=”none”][Hlátur í þingsal.] þar sem ég er að tala um að auka afganginn af ríkisrekstrinum um 20–30 milljarða, a.m.k. ná að útskýra það á 20–30 mínútum, og það yrði gert án þess að skerða þjónustu ríkisins og án þess að auka skattheimtu.
Þetta er á færi okkar þingmanna. Þetta er ekki byltingarkennt. Þetta er það sem við getum gert með þeim tækjum sem við höfum, löggjafarvaldinu. Ég er handviss um að margir þingmenn hafa skýrar hugmyndir um hvernig við gætum ráðstafað þessum 20–30 milljörðum til mjög brýnna verkefna. Ég veit að þeir verða allir fúsir að hjálpa til við það en nú skora ég á þingmenn að hjálpa sjálfum sér að koma sér í þá stöðu að útdeila þessum 20–30 milljörðum. Þjóðin reiðir sig á það.“[/fusion_builder_column][/fusion_builder_row][/fusion_builder_container]