Categories
Fréttir

Fjórir forsætisráðherrar frjálslyndra systurflokka hittast á Íslandi

Deila grein

02/11/2015

Fjórir forsætisráðherrar frjálslyndra systurflokka hittast á Íslandi

norden (35 of 35)Á þingi Norðurlandaráðs á Íslandi í vikunni sem leið hittust fjórir forsætisráðherrar frjálslyndra systurflokka. Hefð er fyrir því að forsætisráðherrar Norðurlanda fundi með kollegum sínum í Eystrasaltsríkjunum í tengslum við Norðurlandaráðsþing og í ár vill svo til að helmingur þeirra, Juha Sipilä forsætisráðherra Finnlands, Taavi Roivas forsætisráðherra Eistlands, Lars Løkke Rasmussen forsætisráðherra Danmerkur og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra Íslands koma úr frjálslyndum miðjuflokkum.
Sigmundur Davíð segir að það sé gaman að sjá að frjálslyndisstefnan skuli eiga upp á pallborðið í þessum heimshluta.
„Já, það er gaman að því að frjálslyndisstefnan skuli vera við stjórnvölinn í þetta mörgum löndum á þessu svæði. Það er að sjálfsögðu löng hefð fyrir þessum fundum og eins og Lars nefndi í ræðu sinni við upphaf Norðurlandaráðsþings þá eru fundir forsætisráðherra Norðurlandanna svolítið líkir fjölskylduboði því að þessi ríki eru tengd svo sterkum böndum. En ég finn fyrir því að það er ekki síður góð og jákvæð stemming þegar Eystrasaltsríkin bætast í hópinn því að þar fara ríki sem eiga mjög margt sameiginlegt með norðurlöndunum í ýmsu sem viðkemur gildum og viðhorfum til dæmis gagnvart samfélags- og efnahagsmálum. Mér finnst þau tengsl vera að styrkjast mjög,“ sagði Sigmundur Davíð.
„Það er svo alltaf sérstaklega skemmtilegt að sjá þegar systurflokkar Framsóknarflokksins ná árangri, bæði á Norðurlöndum og í Eystrasaltsríkjunum, en ekki síður vestanhafs í Kanada þar sem frjálslyndir unnu góðan kosningasigur fyrir skömmu. Frjálslynd miðjustefna er stefna skynsemi og rökhyggju og það eykur ætíð tækifæri til uppbyggingar og framsýni í stjórn ríkja þegar slík stefna ræður för.“
Að loknu Norðurlandaráðsþingi tóku forsætisráðherrarnir átta ásamt David Cameron forsætisráðherra Bretlands þátt í ráðstefnunni Northern Future Forum. Hún var haldin í Reykjavík að þessu sinni, en þar koma árlega saman forsætisráðherrar og sérfræðingar frá þessum níu ríkjum til að skiptast á hugmyndum og ræða lausnir fyrir áskoranir framtíðarinnar.
The Northern Future Forum (NFF)

Categories
Fréttir

Nýr formaður KFNA

Deila grein

30/10/2015

Nýr formaður KFNA

GunnarÁ 15. Kjördæmisþingi Framsóknarmanna í Norðausturkjördæmi (KFNA) á Akureyri 17. október var Gunnar Þór Sigbjörnsson kjörinn nýr formaður KFNA. Gunnar Þór er 49 ára Héraðsbùi ættaður frá Möðrudal á fjöllum í mòðurætt en föðurætt er frá Fögruhlíð í Jökulsárhlíð.
„Eiginkona mín heitir Helga Þórarinsdóttir, en ég fann hana á Djúpavogi 1983 þegar ég fór þangað á vertíð 17 ára gamall til að fjármagna bílakaup sem ég skellti mér í,“ segir Gunnar Þór í samtali við tíðindamann.
„Á Djúpavogi kynntist ég undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar sjávarútvegnum í landi og á sjó en ég var svo heppinn að fá pláss á togarnum Sunnutindi SU59 þetta sama ár 1983 og var það mikil og þroskandi lífsreynsla fyrir ungling af landabúnaðarsvæðinu Fljótsdalshéraði. Ég snéri síðan heim í Egilsstaði sumarið 1983 með Helgu með mér og tveim árum seinna eða 26. ágúst 1985 fluttum við í okkar fyrstu íbúð sem við innréttuðum sjálf með með aðstoð góðra manna, og svo í desember það sama 1985 ár giftumst við Helga 19 ára að aldri, og hér erum við núna nánast 30 árum síðar og tveim börnum ríkari, Þórarinn Arnar 21 árs og  Þórlaug Alda 27 ára.
Ég er með Diplóma frá Bifröst i verslunarrekstri, Póstmeistari frá Póst og símaskólanum, nám í stjórnun frá Háskólanum í Reykjavík og vottun í vátryggingamiðlun frá Háskólanum í Reykjavík.
Hef starfað innan Framsóknarflokksins í rúm 25 ár og hef setið í ýmsum nefndum á vegum Framsóknar í sveitarstjórn á Héraði.
Mínar áherslur munu snúa að auknum samskiptum innan svæðis, ég vill sjá vægi pólitískra umræðu aukast á okkar samkomum með mögulega breyttu fyrirkomulagi á þingum sambandsins.  Einnig mun èg beita mér fyrir því að koma á tíðari samskiptum við kjörna fulltrúa með því að nýta betur möguleika sem felast í nútíma fjarskiptalausnum.
Ég vill sjá öflugt samstarf milli austur og norðurhluta með því að byggja á því góða starfi sem fór fram í síðustu kosningabaráttu en sú samheldni og sú stemming sem þá var sköpuð  skilaði flokknum glæsilegum sigri í kjördæminu og um land allt. Verkefni KFNA næstu tvö ár verður smyrja og gangsetja það afl sem býr í félögunum í kjördæminu og mæta til leiks í næstu kosningar í einni stórri samvinnuhreyfingu gamlir, ungir og miðaldra, konur og karlar. Allir fyrir einn og einn fyrir alla,“ sagði Gunnar Þór að lokum.

Categories
Fréttir

Níu forsætisráðherrar og 80 sérfræðingar ræða skapandi greinar og nýsköpun í opinberum rekstri

Deila grein

28/10/2015

Níu forsætisráðherrar og 80 sérfræðingar ræða skapandi greinar og nýsköpun í opinberum rekstri

Sigmundur-davíðForsætisráðherrar Norðurlandanna, Eystrasaltsríkjanna og Bretlands koma saman í Reykjavík nú í vikunni, í boði Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra. Leiðtogarnir munu taka þátt í sameiginlegu málþingi þjóðanna, Northern Future Forum, þar sem rætt verður um vöxt og viðgang skapandi greina og nýsköpun í opinberum rekstri í þeim tilgangi að auka gæði opinberrar þjónustu.
Ásamt forsætisráðherrunum níu munu ríflega 80 sérfræðingar frá Íslandi, Danmörku, Finnlandi, Eistlandi, Lettlandi, Litháen, Noregi, Svíþjóð og Bretlandi taka þátt í umræðum og skoðanaskiptum. Meðal íslensku sérfræðinganna eru Hilmar Veigar Pétursson, forstjóri CCP, Ingi Rafn Sigurðsson, forstjóri Karolina Fund, Vala Halldórsdóttir, tekjustjóri Plain Vanilla, Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, framkvæmdastjóri á Landspítalanum og Ingi Steinar Ingason, verkefnastjóri hjá embætti Landlæknis.
northernfutureforumÞeir sem stýra munu umræðunum á fundinum eru Ragnhildur Arnljótsdóttir, ráðuneytisstjóri í forsætisráðuneytinu, Kristján Leósson, framkvæmdastjóri Efnis-, líf- og orkutæknisviðs Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, Hilmar Bragi Janusson, forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands, Halla Tómasdóttir, stofnandi og framkvæmdastjóri Sisters Capital, Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, Guðfinna S. Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri LEAD Consulting, Ragnhildur Hjaltadóttir, ráðuneytisstjóri innanríkisráðuneytisins, Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík, og Dóra Ísleifsdóttir; prófessor við Listaháskóla Íslands.
Frekari upplýsingar um málþingið, dagskrá þess, sendinefndir ríkjanna, sérfræðinga og umræðustjóra má nálgast á vef nff2015.is .
Hægt verður að fylgjast með viðburðum fimmtudaginn 29. október, s.s. opnunarræðum lokaumræður og fréttamannafundi á vef málþingsins. Opnunarávörp verða send út beint á vefnum milli 08.30–08.50 sem og lokaumræður og fréttamannafundur milli 13:00–14.00. Þá verður hægt að fylgjast með umræðum á twitter: @NFForum2015 og #NFForum2015.

Categories
Fréttir

Lækka skal verð í samræmi við styrkingu krónunnar!

Deila grein

23/10/2015

Lækka skal verð í samræmi við styrkingu krónunnar!

Þorsteinn-sæmundsson„Forseti. Mig langar að gera að umtalsefni greiningu sem Arion banki gaf út á netinu í gær. Þeir búast við 0,1% hækkun á vísitölu um næstu mánaðarmót, sem þýðir 1,1% verðbólgu á ársgrundvelli. Það minnir okkur á að Seðlabankinn þjófstartaði hér hressilega eftir gerð fyrstu kjarasamninga í vor með því að hækka stýrivexti að þarflausu. Reyndar hefur hann séð að sér vegna þess að nú streymir hér inn erlent fé sem vill njóta þeirra vaxtabóta sem seðlabankastjóri hefur komið á. En það veitti líka fyrirtækjum afsökun í vor til þess að nýta sér 7% hækkun launa, t.d. eins og í verslun, og nota bene, launakostnaður hjá versluninni er svona holt og bolt um 18%, þannig að þessi 7% hækkun á 18% kostnaði varð mönnum tylliástæða til þess að hækka hér vöruverð um allt að 10–15%. Síðan heldur seðlabankastjóri áfram að kynda undir kostnaðarverðbólgunni sem hann kom á með því að segja eins og um daginn þegar hér lækkaði vísitala milli mánaða: Hún kemur nú samt. Það eru akkúrat skilaboðin sem maður þarf að heyra frá seðlabankastjóra einnar þjóðar, er það ekki?
En það eru allar kringumstæður nú til þess að halda áfram að lækka vöruverð. Krónan hefur styrkst og nokkur fyrirtæki hafa blessunarlega lækkað vöruverð, t.d. Ikea, Myllan og nú síðast Bónus um 5%. En það þarf meira til. Það er innstæða fyrir meiru vegna þess að styrking krónunnar er meiri en þessu nemur. Og það þarf fleiri til þess að hoppa á þennan vagn. Ef það verður gert er okkur ekkert að vanbúnaði að halda þeim stöðugleika í verðlagi sem hér hefur verið blessunarlega síðastliðin missiri.
Þess vegna vil ég nota þetta tækifæri og skora á alla þá sem koma að verðmyndun í landinu að taka sér þessi fyrirtæki til fyrirmyndar og lækka verð í samræmi við styrkingu krónunnar.“
Þorsteinn Sæmundssoní störfum þingsins, 21. október 2015.

Categories
Fréttir

Útvíkka þarf starfsemi náttúruhamfarasjóða

Deila grein

23/10/2015

Útvíkka þarf starfsemi náttúruhamfarasjóða

haraldur_SRGB„Hæstv. forseti. Forsætisráðherra boðar hugsanlegar breytingar á ofanflóðasjóði og Bjargráðasjóði, hvort skynsamlegt sé að sameina þessa tvo sjóði og útvíkka hlutverk þeirra í hamfarasjóð. Ég tel mikilvægt að reyna að útvíkka starfsemi náttúruhamfarasjóða þannig að þeir nái til flóða líkt og á Siglufirði, en við fengum fréttir um það í morgun að bæta á tjónið þar, en einnig yfir sjávarföll sem herja á margar byggðir.
Þingmenn Suðurkjördæmis þekkja vel ágang á fjörur við Vík í Mýrdal og grynnslin utan við Hornafjörð þar sem Atlantshafið er að henda sandi til og frá. Eftir mikil óveður getur innsiglingin í höfnina á Hornafirði lokast. Þar ætti náttúruhamfarasjóður að bregðast við með fjármagni til þess að rúmlega 2 þús. manna sveitarfélag verði ekki að brothættri byggð. Svo mikilvægur er sjávarútvegur og höfnin á svæðinu.“
Haraldur Einarssoní störfum þingsins, 21. október 2015.

Categories
Fréttir

„Karlinn eiginlega hálfgerður vitleysingur“

Deila grein

23/10/2015

„Karlinn eiginlega hálfgerður vitleysingur“

Sigurjón Kjærnested„Hæstv. forseti. Ég var nýlega á ferðinni í Suður-Ameríkuríki þar sem ástandið í jafnréttismálum er því miður mun slakara en hérna á Íslandi. Þar er ástandið því miður þannig að allt of oft er ætlast til þess að konan sé heima og sjái um heimilið og karlinn sé sá sem vinnur úti. Mér er sérstaklega minnisstæð ein hjón sem við hittum á þeirri ferð þar sem konan hafði aldrei fengið tækifæri til að vinna úti, það var ætlast til þess að hún væri heima en karlinn vann aftur á móti úti. Málið með þessi hjón var þegar við töluðum við þau að konan var alveg stórkostlega frambærileg og snjöll en karlinn eiginlega hálfgerður vitleysingur.
Ef horft er á þetta tilvik þá er þetta klárlega ekki skynsamlegasta leiðin fyrir samfélagið til að skipta með sér verkum. Ef þetta dæmi er endurtekið í gegnum samfélagið nokkrum milljón sinnum þá hlýtur það að leiða af sér mun verri niðurstöðu. Ef horft er á samfélagið í heild sinni sem verkfræðilegt kerfi, sem ég held að sé mjög gagnlegt að gera, segi ég sem verkfræðingur, þá hlýtur svona skipulag að leiða af sér mun verri niðurstöðu, hvort sem kemur að hagvexti, þegar kemur að sköpun nýrra starfa, nýsköpun o.s.frv. Þetta er ekki skynsamlegt. Ójafnrétti er í grunninn óskynsamlegt og órökrétt þegar kemur að skipulagi samfélagsins.
Þess vegna er áhugavert að skoða hvar við stöndum hér á Íslandi. Þótt við séum komin langt í jafnréttismálum þá eru mörg verkefni enn þá fram undan. Ef horft til launamunar kynjanna er enn þá stórt verkefni fram undan. Ef horft er á réttindi innflytjenda þá er gríðarlega stórt verkefni fram undan. Innflytjendur búa enn þá við alls konar mismunun og gengur t.d. illa að fá menntun sína metna og að geta nýtt hæfileika sína á sem bestan hátt. Það má einnig skoða fæðingarorlofið þar sem við höfum fengið fréttir af því að feður nýti í minna mæli fæðingarorlof. Ég vil hvetja þingheim til að taka vel í þá nefnd sem er starfandi sem mun leggja til betra skipulag á fæðingarorlofi.“
Sigurjón Kjærnestedí störfum þingsins, 21. október 2015.

Categories
Fréttir

„Tími athafna er kominn“

Deila grein

23/10/2015

„Tími athafna er kominn“

Elsa-Lara-mynd01-vefur„Hæstv. forseti. Í störfum þingsins í gær ræddi ég meðal annars afnám verðtryggingar af neytendalánum. Ég ræddi mikilvægi þess hver næstu skref ættu að vera í málinu og nauðsyn þess að þau skref yrðu tímasett á allra næstu dögum. Núna þarf að fá svör við þessum spurningum: Á að afnema verðtrygginguna? Á að setja þak á verðtryggð húsnæðislán? Á að auka hvata til töku á óverðtryggðum lánum? Hver er staðan og hvernig standa málin?
Erfitt er að átta sig á því hvað veldur því að verðtryggingarmálin hafi ekki enn komið inn í þingið. Það er hægt að varpa fram þessum spurningum: Er verið að bíða eftir niðurstöðum úr þeirri húsnæðisvinnu sem er í gangi innan velferðarráðuneytisins? Eða er kannski verið að bíða eftir niðurstöðum í máli Hagsmunasamtaka heimilanna er varðar lögmæti verðtryggingarinnar? Ef svo er þá er nauðsynlegt að það mál fái flýtimeðferð sem lögin kveða á um. Eða er kannski ástæðan bara allt, allt önnur?
Eins og fram kom í ræðu minni í gær eru verðtryggingarmálin á borði hæstv. fjármálaráðherra. Það má ekki gleyma því sem vel er gert. Forsætisráðherra hefur skipað starfshóp til að finna leiðir til að sporna gegn því að sjálfvirkar hækkanir á vöru og þjónustu og tenging ýmissa skammtímasamninga við vísitölu neysluverðs kyndi undir verðbólgu. Þessi hópur hefur núna skilað af sér niðurstöðum.
Í lok ræðu minnar langar mig að minnast á þann þjóðfund sem var hér í morgun sem þrír hæstv. ráðherrar stóðu fyrir. Hann var afar vel sóttur, hátt í 300 manns tóku þátt og ræddu húsnæðismál, ræddu m.a. hvernig ætti að fara að því að byggja hratt upp vandað og hagkvæmt húsnæði og hvernig auka ætti framboð af húsnæði hratt og vel. Tími athafna er kominn. Þessi ríkisstjórn ætlar að láta verkin tala. Í því samhengi verðum við að afnema verðtryggingu.“
Elsa Lára Arnardóttirí störfum þingsins, 21. október 2015.

Categories
Fréttir

Háskólamenntun fólks á landsbyggðinni

Deila grein

22/10/2015

Háskólamenntun fólks á landsbyggðinni

fjola-hrund-ha-upplausn„Mig langar til að nýta tækifærið hér í dag undir liðnum störf þingsins til að ræða menntun og þá helst háskólamenntun fólks á landsbyggðinni. Ég er mikil áhugamanneskja um að allir fái að stunda nám óháð búsetu og efnahag. Það er gríðarlega mikilvægt að fólk geti stundað nám óháð búsetu og efnahag. Til að það sé hægt þurfa nokkrir hlutir að spila saman. Gott framboð náms sem kennt er í fjarnámi verður að vera til staðar, nettenging þarf að vera góð og skráningargjöld þurfa að lækka.
Eins og staðan er í dag bjóða opinberir háskólar upp á fjarnám. Þó vantar mikið upp á úrvalið. Skólarnir standa misframarlega hvað það varðar og bjóða upp á mismikið fjarnám í náminu. Það er mikilvægt að einstaklingar hafi kost á að stunda það nám sem þeir hafa áhuga á og geti stundað nám heiman frá sér. Til að það sé hægt er nauðsynlegt að ljósleiðaravæða Ísland. Það er úrelt hugmynd að fólk þurfi að flytja landshorna á milli til að sækja nám í ákveðnum deildum sem einungis er kennt í staðnámi. Við eigum að gera það sem í okkar valdi stendur til að hvetja fólk til að mennta sig. Við viljum ekki missa menntað fólk frá landsbyggðinni.
Hv. þm. Líneik Anna Sævarsdóttir lagði fram þingsályktunartillögu á síðasta löggjafarþingi sem fjallar um fjarnám á háskólastigi. Ég fagna þeirri þingsályktunartillögu og hvet hv. þingmann til að leggja tillöguna fram aftur.“
Fjóla Hrund Björnsdóttirstörf þingsins,  21. október 2015.

Categories
Fréttir

Um 40% landsmanna á aldrinum 20–29 ára enn í foreldrahúsum

Deila grein

22/10/2015

Um 40% landsmanna á aldrinum 20–29 ára enn í foreldrahúsum

Karl_SRGB„Samkvæmt tölum sem Hagstofan birti fyrir skömmu búa fjórir af hverjum tíu landsmönnum á aldrinum 20–29 ára enn í foreldrahúsum, um 40%. Til samanburðar er hlutfallið um 10% í Danmörku. Ástæður þess að svo margir búa í foreldrahúsum fram undir þrítugt eru eflaust margvíslegar. Margir á þessum aldri eru í háskólanámi og það getur verið erfitt að fjármagna nám samhliða því að borga leigu, hvað þá að kaupa húsnæði. Það vita allir.
Ég minnist hins vegar á þetta mál vegna þess að á fjölmennum og áhugaverðum þjóðfundi í morgun sem þrír ráðherrar blésu til var fjallað um möguleika á nýjum og ekki síst ódýrari leiðum á húsnæðismarkaði. Þetta er gott framtak.
Þessa dagana er m.a. talað um Ikea-íbúðir, stáleiningahús frá Kína o.s.frv. Auðvitað þarf að skoða alla kosti og fara síðan fýsilegustu leiðina. Tími til athafna er kominn. Við getum ekki setið lengur hjá. Félagsmálaráðherra hefur lagt fram ákveðnar hugmyndir sem eru skref í rétta átt. Til að ná utan um húsnæðismál ungs fólks og finna viðunandi lausnir þurfa hins vegar fjölmargir að koma að borðinu og það má enginn vera stikkfrí. Í morgun komu umhverfisráðherra og iðnaðar- og viðskiptaráðherra líka að þessu stóra verkefni.
Staðreyndin er sú að heil kynslóð ungs fólks hefur ekki efni á þaki yfir höfuðið nema með aðstoð foreldra. Þetta unga fólk getur hvorki keypt né leigt. Það er einföld staðreynd. Þetta vandamál er ekki nýtt, það hefur verið viðvarandi í langan tíma. Við getum breytt reglugerðum, barið niður lóðaverð og líka byggingarkostnað en fjármagnskostnaðurinn er öllu venjulegu fólki ofviða. Ódýrt fjármagn er ekki til á Íslandi. Verðtryggingin er allt að drepa í þessu landi og hér mun ekkert breytast fyrr en hún fer.“
Karl Garðarssonstörf þingsins,  21. október 2015.

Categories
Fréttir

Stjórnmálaályktun kjördæmisþings framsóknarmanna í Norðausturkjördæmi

Deila grein

21/10/2015

Stjórnmálaályktun kjördæmisþings framsóknarmanna í Norðausturkjördæmi

logo-framsokn-gluggiKjördæmisþing Framsóknarmanna í Norðausturkjördæmi haldið á Akureyri 17. október 2015 fagnar þeim árangri sem ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar hefur náð í ríkisrekstri. Undir forystu Framsóknarflokksins hefur hagsæld aukist og lífsgæði batnað. Liður í því er leiðrétting húsnæðislána sem ber að fagna.
Þingið telur að afnema beri verðtryggingu af neytendalánum og þak sett á vexti.
Þingið styður áform ríkisstjórnarinnar um að fjölgun hagkvæmra og ódýrra íbúða á leigumarkaði. Sérstaklega verður að huga að úrræðum fyrir þá sem hyggja á kaup á sinni fyrstu fasteign.
Reykjavíkurflugvöllur skal vera í Vatnsmýrinni í núverandi mynd. Tryggja verður fjármuni í viðhald og rekstur innanlandsflugvalla. Þingið lýsir ánægju með vinnu við að opna fleiri fluggáttir inn í landið. Þannig skapast grundvöllur fyrir vöxt í ferðaþjónustu með dreifingu ferðamanna um landið.
Góðar samgöngur eru grunnur að samfélagsþróun. Aukið viðhald og endurbætur malarvega í kjördæminu eru sérlega brýn ásamt áframhaldandi uppbyggingu vegakerfisins. Þær stórframkvæmdir sem nú standa yfir við Norðfjarðar- og Vaðlaheiðargöng eru fagnaðarefni og hvatt er til þess að vinnu við Norðfjarðargöng verði flýtt. Nauðsynlegt er að halda áfram undirbúningsrannsóknum vegna Fjarðaheiðaganga.
Tryggja þarf fjárveitingar í áframhaldandi þróun almenningssamgangna á landi. Mikilvægt er að litið verði á innanlandsflug sem einn lið í almenningssamgöngum. Efla þarf Hafnabótasjóð vegna nýframkvæmda og viðhalds.
Þingið leggur áherslu á að þeirri vinnu sem unnin hefur verið á vegum ríkisstjórnarinnar varðandi ljósleiðaravæðingu dreifbýlisins verði fylgt eftir með framkvæmdaáætlun og fjárveitingum.
Þingið hvetur til aukinna framlaga til heilsugæslu og sjúkrahúsa. Vinna þarf markvisst að áætlun um uppbyggingu hjúkrunarrýma og þróun öldrunarþjónustu sem tekur mið af aðstæðum á hverjum stað.
Þingið leggur áherslu á sjálfstæði Háskólans á Akureyri og að hann haldi faglegum og fjárhagslegum styrk til að þjóna hlutverki sínu, m.a. á sviði málefna Norðurslóða.
Þingið leggur áherslu á mikilvægi framhaldsskóla fyrir þróun samfélagsins. Jafnframt er bent á nauðsyn eflingar starfsnáms vegna fjölbreyttrar atvinnuuppbyggingar s.s. í ferðaþjónustu og iðnaði. Þingið lýsir yfir miklum áhyggjum af fjársvelti til framhaldsskóla í kjördæminu og leggur áherslu á að þeir fái tækifæri til að þróast og móta samstarf í takt við nærsamfélagið. Þingið undirstrikar hlutverk LÍN til að tryggja jafna möguleika til náms óháð efnahag og búsetu.
Þingið fagnar jöfnun raforkusverðs til húshitunar enda er það liður í jafnrétti til búsetu.
Þingið bendir á mikilvægi þess að flutningur á raforku sé tryggður til atvinnuuppbyggingar.
Þingið lýsir yfir ánægju með tillögu ríkisstjórnarinnar um aukna fjárveitingu til móttöku flóttafólks og hvetur til þess að áfram verði unnið að því að auka skilvirkni í málefnum hælisleitenda. Þá er hvatt til þess að ríki og sveitarfélög vinni saman við móttöku flóttafólks.
Þingið hvetur til þess að unnið verði í samræmi við löggæsluáætlun á hverjum tíma sem felur m.a. í sér aukið öryggi íbúa.
Þingið fagnar fyrirætlunum Íslands um að draga úr losun gróðurhúsaloftegunda um 40% í samvinnu við Noreg og Evrópusambandið og hvetur ríkisstjórnina til að setja sér skýr markmið varðandi innleiðingu endurnýjanlegra orkugjafa í samgöngum og sjálfbærrar landnýtingar og verndar. Skipulagi þarf jafnframt að fylgja fjármagn til fyrirbyggjandi aðgerða og uppbyggingu auðlindanna.
Hækka ber lífeyrisgreiðslur til aldraðra og öryrkja til samræmis við lágmarkslaun. Lyfjakostnaður verði lækkaður. Styðja þarf betur einstaklinga sem lenda í langtímaatvinnuleysi og fjölga úrræðum.
Þingið beinir því til ríkisstjórnarinnar að nýgerður samningur um innflutning á búvörum skerði ekki innlenda framleiðslu, hreinleika hans og heilbrigði.
Endurskoða verður tekjuskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga þannig að fjármagn fylgi verkefnum.