Categories
Fréttir

Þingflokki Framsóknarmanna afhent falleg gjöf

Deila grein

07/10/2015

Þingflokki Framsóknarmanna afhent falleg gjöf

20151006_142340Þingflokki Framsóknarmanna var afhent falleg gjöf í gær. Willum Þór afhenti mikin skjöld er hagleikssmiður í Kópavogi, Hallgrímur Pétursson, skar út úr linditré en um er að ræða íslenska skjaldamerkið.
Lýðveldisskjaldarmerkið
Þegar leið að endurreisn lýðveldisins 1944, fól þáverandi forsætisráðherra dr. juris Björn Þórðarson þremur ráðuneytisstjórum (Vigfúsi Einarssyni, Agnari Kl. Jónssyni og Birgi Thorlacius) ásamt dr. Matthíasi Þórðarsyni þjóðminjaverði, sem hafði verið ráðunautur um gerð skjaldarmerkisins 1919, að athuga og gera tillögur um breytingu á ríkisskjaldarmerkinu. Breyting var í öllu falli nauðsynleg vegna þess að kóróna var yfir skildinum, en hún hlaut að hverfa við afnám konungdæmisins. Við, sem fengum þetta verkefni ræddum nokkuð um breytingar á sjálfu skjaldarmerkinu, og þá einkum, hvort taka bæri upp á ný fálka á bláum skildi. Niðurstaðan varð þó sú, að gera ekki tillögur um breytt skjaldarmerki og hverfa ekki frá landvættahugmyndinni að því er skjaldbera varðaði. Vorum við allir sammála um þetta og ræddum málið á fundi með forsætisráðherra og féllst hann á þessa skoðun. Var gerð ný teikning af skjaldarmerkinu, þar sem kórónan var felld burtu og lögun skjaldarins breytt. Skjaldberarnir voru teiknaðir með öðrum hætti en áður og einnig undirstaðan, sem skjöldurinn hvíldi á. Tryggvi Magnússon listmálari gerði teikninguna. Frummyndin er í Þjóðminjasafninu, nr. 15026.
RGB_til_smakkunarEkki vorum við ánægðir með teikninguna. Kom til orða síðar að leita til skjaldarmerkjafræðinga í páfagarði í þessu sambandi, en þeir voru þá svo önnum kafnir við gerð skjaldamerkja fyrir nýútnefnda kardinála að þeir máttu ekki vera að því að sinna öðrum verkefnum. – Við gerð undirstöðunnar, sem skjöldurinn hvílir á, var haft í huga „kirkjugólfið” á Kirkjubæjarklaustri.
Á fundi Alþingis, sem haldinn var 17. júní 1944 á hinum forna þingstað Þingvöllum við Öxará, var lýst yfir því að lýðveldi væri endurreist á Íslandi. Síðan kaus Alþingi fyrsta forseta lýðveldisins til eins árs, en eftir það skyldi hann þjóðkjörinn. Á ríkisráðsfundi, sem haldinn var sama dag á Þingvöllum, gaf hinn nýkjörni forseti, Sveinn Björnsson, út forsetaúrskurð um skjaldarmerki lýðveldisins og hljóðar hann þannig:
„Skjaldarmerki Íslands er silfurlitur kross í heiðbláum feldi, með eldrauðum krossi innan í silfurlita krossinum. Armar krossanna skulu ná alveg út í rendur skjaldarins á alla fjóra vegu. Breidd krossmarksins skal vera 2/9 af breidd skjaldarins, en rauði krossinn helmingi mjórri, 1/9 af breidd skjaldarins. Efri reitirnir skulu vera rétthyrndir, jafnhliða ferhyrningar og neðri reitirnir jafnbreiðir efri reitunum, en þriðjungi lengri.
Skjaldberar eru hinar fjórar landvættir, sem getur í Heimskringlu: Griðungur, vinstra megin skjaldarins, bergrisi, hægra megin, gammur, vinstra megin, ofan við griðunginn, og dreki, hægra megin, ofan við bergrisann. Skjöldurinn hvílir á stuðlabergshellu.”
Landvættirnar fjórar koma eins og áður sagði úr Heimskringlu Snorra Sturlusonar. Þar segir frá Haraldi konungi sem sendi mann til Íslands til að kanna aðstæður. Hann fór til Íslands í hvalslíki, synti í kringum landið og rakst á leið sinni á margar furðuverur. Við Vopnajörð blasti við honum dreki mikill, með orma, pöddur og eðlur í kringum sig, við Eyjafjörð tók á móti honum fugl svo stór og mikill að vængirnir náðu á milli tveggja fjalla. Á Breiðafirði rakst hann á griðung mikinn sem fór að gella ógurlega að honum en er hann kom suður fyrir Reykjanes tók á móti honum bergrisi sem bar höfuðið hærra en fjöllin öll. Sendimaðurinn komst því hvergi að landi og fór til baka og sagði konungi fréttirnar.Þessar fjórar yfirnáttúrulegu furðuverur standa vörð um hvern landsfjórðung fyrir sig og sem skjaldberar skjaldarmerkisins standa þær sem slíkar. Skjaldarmerkið sjálft sem er auðkenni stjórnvalda ríkisins er skjöldurinn með íslenska fánanum og hægt er að nota það með eða án skjaldberanna.

Categories
Fréttir

„Á góðan félagsfund í framsóknarfélaginu fyrir norðan“

Deila grein

29/09/2015

„Á góðan félagsfund í framsóknarfélaginu fyrir norðan“

Þorsteinn-sæmundsson„Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að óska landsmönnum öllum til hamingju með frétt sem hefur farið lítið fyrir um lyktir Icesave-málsins sem lauk með fullnaðarsigri okkar Íslendinga nú fyrir nokkrum dögum. Það er sannarlega fagnaðarefni að hér skyldi vera vaskur hópur manna á sínum tíma sem barðist fyrir því að þessi niðurstaða næðist. Það var ekki þrautalaust og ýmislegt reynt til þess að koma í veg fyrir að svo gerðist. Ég sé að þetta hlægir nokkra þingmenn og ég gleðst yfir því því að við erum náttúrlega í pólitík til þess að gleðja fólk og þessi málalok hafa sannarlega glatt hug og hjörtu þjóðarinnar. Ég sé það bara á hv. þingmönnum hér á aftasta bekk að þær gleðjast yfir þessum málalyktum.
Erindi mitt hér í dag var annars að þakka hv. þm. Bjarkeyju Gunnarsdóttur fyrir ræðuna sem hún flutti áðan. Mér fannst ég vera kominn á góðan félagsfund í framsóknarfélaginu fyrir norðan vegna þess að ég hefði getað tekið undir flest það sem hún sagði varðandi tollalækkanir sem hér hafa verið gerðar. Asinn var nú ekki meiri en sá í þessu máli að viðræðurnar hófust, eins og kom fram hér áðan, fyrir nokkuð mörgum árum en voru sem sagt til loka leiddar núna um daginn.
Það sem er hins vegar nauðsynlegt að gera nú þegar þessum áfanga er náð — og nota bene, hann hefði náttúrlega aldrei náðst ef við hefðum verið búin að fella hér niður alla tolla einhliða, við höfðum skiptimynt — er að koma á einhverjum sáttmála um það hvernig þetta verður framkvæmt. Það verður í fyrsta lagi að vera alveg kristalklárt að þessar lækkanir nái alla leið til neytenda. Það þarf að upplýsa núna um hvernig verðmyndun á Íslandi er. Við búum við frjálsa álagningu og til þess að neytendur geti tekið upplýsta ákvörðun verður að opna á það hvernig verðmyndun á vöru er hér alls staðar á markaði.“
Þorsteinn Sæmundssoní störfum þingsins 22. september 2015.

Categories
Fréttir

Undirskrift þjóðarsáttmála um læsi

Deila grein

29/09/2015

Undirskrift þjóðarsáttmála um læsi

Elsa-Lara-mynd01-vefur„Hæstv. forseti. Í morgun átti ég kost á því að vera viðstödd undirskrift þjóðarsáttmála um læsi. Undirskriftin átti sér stað á Akranesi en þar komu saman fulltrúar frá Akranesi, Hvalfjarðarsveit, Skorradalshreppi og fulltrúi frá Heimili og skóla, auk menntamálaráðherra. Á samkomuna kom jafnframt fjöldi grunnskólakennara frá Akranesi og nærsveitum og auk þess nokkrir nemendur grunnskólanna.
Eins og hefur komið fram í þinginu og í sérstakri umræðu í síðustu viku er markmiðið með þjóðarsáttmálanum meðal annars það að að minnsta kosti 90% nemenda á Íslandi geti lesið sér til gagns árið 2018. Í dag sýna tölurnar okkur að 30% drengja og 12% stúlkna geta ekki lesið sér til gagns við lok grunnskóla.
Ég vil samt leyfa mér að benda á eitt þótt ég hafi verulegar áhyggjur af þessum tölum og þær þurfi að taka alvarlega að í aðalnámskrá grunnskóla kemur skýrt fram að nemendur eiga að fá kennslu í samræmi við getu og þarfir hvers og eins. Í skólum landsins er unnið með margvíslegar kennsluaðferðir sem hafa það að markmiði að koma til móts við þessar mismunandi þarfir og getu nemenda. Síðan koma kannanir sem mæla margar hverjar með mismunandi hætti afmarkaða þætti og nemendur fá aðeins nokkrar klukkustundir til að klára og dagsform þeirra getur haft mikil áhrif á niðurstöður. Það sem ég ætlaði að segja hér í ræðu minni og kom skýrt fram á þessari stund í morgun að markmiðið með átakinu er frábært og mjög virðingarvert. Það er hins vegar mjög mikilvægt að hver skóli fái að halda sínu sjálfstæði í vali á kennsluaðferðum og vinna að því hvað hæfir nemendum þeirra best og hefur reynst vel.“
Elsa Lára Arnardóttirí störfum þingsins 22. september 2015.

Categories
Fréttir

Framsóknarflokknum að þakka!

Deila grein

28/09/2015

Framsóknarflokknum að þakka!

líneikBjörgvin Stefán Pétursson, leikmaður Leiknis Fáskrúðsfirði og fyrirliði, var valinn bestur í 2. deildinni á lokahófi Fótbolta.net. Hann raðaði inn mörkum í sumar en þau voru ein 12 og hjálpaði Leiknismönnum að tryggja sér sæti í 1. deildinni á næsta tímabili. Leiknir spilar á Reyðarfirði, í Fjarðabyggðarhöllinni, sem var reist fyrir um sex árum síðan og þakkar Björgvin Stefán því að þessi árangur náist nú. Gerfigraskynslóðin nái einnig til þeirra og geti því æft eins og Reykjavíkurfélögin.
Eins og allir vita þá eru Framsóknarmenn þekktir á Fáskrúðsfirði, og það er auðvitað þingmaður frá Fáskrúðsfirði, Líneik Anna Sævarsdóttir, og er hún eiginkona formanns Leiknis á Fáskráðsfirði, Magnúsar Björns Ásgrímssonar. Segist því Björgvin Stefán verða að segja að þetta sé „Framsóknarflokknum að þakka“.
Viðtal við Björgvin Stefán, á fótbolti.net, má sjá í heild sinni hér.
Framsókn óskar Fáskrúðsfirðingum til hamingju!

Categories
Fréttir

Sigmundur Davíð ávarpar leiðtogafund Sameinuðu þjóðanna um ný heimsmarkmið

Deila grein

27/09/2015

Sigmundur Davíð ávarpar leiðtogafund Sameinuðu þjóðanna um ný heimsmarkmið

SDG---26_09_2015---11.31.08Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, ávarpaði í gær leiðtogafund aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna (SÞ) þar sem samþykkt voru ný heimsmarkmið allra 193 aðildarríkja SÞ um sjálfbæra þróun. Forsætisráðherra fagnaði samþykkt nýrra heimsmarkmiða og kvað þau vera til marks um kraft alþjóðlegrar samvinnu. Í ávarpi sínu lagði forsætisráðherra m.a. áherslu á jafngildi markmiðanna og að árangur á einu sviði gæti liðkað fyrir árangri á öðru sviði. Lagði hann m.a. áherslu á mikilvægi endurnýjanlegrar orku, stöðvun landeyðingar, sjálfbæra nýtingu og verndun hafsins, jafnrétti kynjanna og framfarir í lækningu sjúkdóma og skaða á taugakerfinu. Forsætisráðherra kom inn á mikilvægi þess að heimsmarkmiðin fjalli einnig um margvíslegar ástæður fólksflutninga og þörf alþjóðlegrar samvinnu því tengdu. Þá gerði forsætisráðherra grein fyrir fyrirætlunum Íslands í samstarfi við Evrópusambandið og Noreg um að draga úr losun gróðurhúsaloftegunda um 40%. Sjá nánar í meðfylgjandi ávarpi forsætisráðherra.
Heimsmarkmiðin eru sautján með 169 undirmarkmiðum. Þau taka gildi árið 2016 og gilda til ársins 2030. Markmiðin, ásamt pólitískri yfirlýsingu, áætlun um framkvæmd og eftirfylgni ná yfir afar vítt svið. Með samþykkt þeirra er stefnt að því að útrýma fátækt, tryggja velmegun, mannréttindi og jafnrétti um allan heim – með hliðsjón af umhverfi okkar. Enginn verður skilinn eftir – er rauður þráður markmiðanna.
Ný heimsmarkmið um sjálfbæra þróun 
SDG_UN

Categories
Fréttir

Ekki farið eftir jafnréttislögum

Deila grein

24/09/2015

Ekki farið eftir jafnréttislögum

logo-lfk-gluggiFramkvæmdastjórn landssambands framsóknarkvenna gerir athugasemd við það að ekki hafi verið farið eftir jafnréttislögum við skipan dómnefndar sem fjallar um hæfi umsækjenda um embætti hæstaréttardómara. Þá hafi ekki hafi komið fram málefnalegar ástæður fyrir frávikinu.
Samkvæmt 15. grein jafnréttislaga þar sem fjallað er um þátttöku í nefndum, ráðum og stjórnum á vegum hins opinbera segir að við skipanir í þau skuli þess gætt að hlutfall kynjanna sé sem jafnast og ekki minna en 40 prósent þegar um fleiri en þrjá fulltrúa er að ræða. Þar segir ennfremur að tilnefna skuli bæði karl og konu. Tilnefningaraðila er heimilt að víkja frá skilyrði 1. málsl. þegar hlutlægar ástæður leiða til þess að ekki er mögulegt að tilnefna bæði karl og konu. Skal tilnefningaraðili þá skýra ástæður þess.
Framkvæmdastjórn landssambands framsóknarkvenna bendir á að aðeins skorti vilja til þess að uppfylla skyldur laganna um jafnan hlut kynjanna.

Categories
Fréttir

Upplýsingar um stöðuna á húsnæðismarkaði

Deila grein

23/09/2015

Upplýsingar um stöðuna á húsnæðismarkaði

Leiguverð á húsnæðismarkaði hefur hækkað um 40,2% frá ársbyrjun 2011 til loka júlí 2015. Á sama tíma hefur verð á íbúðarhúsnæði hækkað um 41,8%. Árið 2008 til 2010 var hlutfall fyrstu íbúðakaupa lægra en 10% en frá þeim tíma hefur kaupsamningum fjölgað og samhliða hefur hlutfall fyrstu íbúðakaupa hækkað verulega. Hlutfall þeirra sem voru að kaupa sína fyrstu íbúð af heildarfjölda húsnæðiskaupenda var komið yfir 20% af öllum kaupsamningum á fyrsta ársfjórðungi 2015.
Í eftirfarandi samantekt sem byggð er á minnisblaði sem Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra kynnti á fundi ríkisstjórnar í gær má sjá ýmsar upplýsingar um stöðuna á íslenskum húsnæðismarkaði og þróun síðustu ára.

Almenni leigumarkaðurinn í kjölfar efnahagshrunsins.

Stöðug fjölgun var á hinum almenna leigumarkaði frá árinu 2007. Árið 2007 voru um 17% íslenskra heimila á leigumarkaði og var hlutfallið nær 27% árið 2013. Mest var fjölgunin meðal fólks á aldursbilinu 25 til 34 ára sem og tekjulágum og einstæðum foreldrum. Í kjölfar efnahagshrunsins gjörbreyttist staðan á almennum leigumarkaði, markaðsaðstæður versnuðu og verulega dró úr aðgengi að lánsfjármagni þannig að aukinn fjöldi þeirra sem komu nýir inn á húsnæðismarkað leituðu á leigumarkaðinn.
Mynd 1. Hlutfall heimila á leigumarkaði frá 2004 til 2013.

Mynd 1. Hlutfall heimila á leigumarkaði frá 2004 til 2013.

Byrði húsnæðiskostnaðar hækkaði hjá leigjendum eftir efnahagshrun en lækkaði hjá fólki sem bjó í eigin húsnæði eins og sjá má af mynd 2. Samkvæmt greiningardeild Arion banka þarf það samt sem áður ekki að endurspegla hækkun húsnæðiskostnaðar, heldur gæti samsetning hópanna hafa breyst þannig að hlutfall fólks með lágar tekjur hafi hækkað meðal leigjenda. Þrátt fyrir þessa sýn er ljóst að leiguverð hefur hækkað talsvert umfram hækkun kaupverðs frá byrjun árs 2012. Þessi mikla hækkun er talin vera tilkomin vegna mun meiri eftirspurnar eftir leiguhúsnæði í kjölfar efnahagshrunsins og að mjög hægði á fjölgun íbúða þar sem verulega dró úr íbúðaframkvæmdum.
Íslenskum heimilum á leigumarkaði fjölgaði um 13.000 frá árinu 2007 til 2013. Á sama tímabili fjölgaði heimilum um rúmlega 6.000, svo fjölgun heimila á leigumarkaði umfram fjölgun heimila var 7.000. Ekki liggur fyrir með ákveðinni vissu hvað olli þessari þróun en líkur eru á að fjölgun ferðamanna, strangari lánsskilmálar og erfið skuldastaða heimilanna í kjölfar efnahagserfiðleikanna haustið 2008 hafi haft samverkandi áhrif. Á árinu 2015 hefur dregið úr þessari miklu eftirspurn á leigumarkaði og hefur leiguverð einungis hækkað um 0,6% frá janúar til júlí 2015.
Mynd 2. Miðgildi hlutfalls húsnæðiskostnaðar af ráðstöfunartekjum eftir stöðu á fasteignamarkaði frá 2004 til 2013.

Mynd 2. Miðgildi hlutfalls húsnæðiskostnaðar af ráðstöfunartekjum eftir stöðu á fasteignamarkaði frá 2004 til 2013.

Þróun leiguverðs og íbúðaverðs.

Frá ársbyrjun 2011 til og með júlí 2015 hefur leiguverð hækkað um 40,2%, á meðan íbúðarhúsnæði hefur hækkað um 41,8% í verði. Á sama tímabili hækkaði launavísitalan um 36,5% en almennt verðlag án húsnæðis aðeins um 15,1%. Framan af hækkaði leiguverð talsvert umfram verð á íbúðarhúsnæði en sú þróun snerist við á fyrri hluta ársins 2015. Af mynd 3 má sjá hvernig húsnæðiskostnaður hefur hækkað töluvert umfram almennt verðlag, en ekki svo langt umfram almenn laun.
Mynd 3. Þróun leiguverðs, íbúðaverðs, launa og verðlags frá janúar 2011 til og með júlí 2015.

Mynd 3. Þróun leiguverðs, íbúðaverðs, launa og verðlags frá janúar 2011 til og með júlí 2015.
Heimild: Hagstofa Íslands og Þjóðskrá Íslands.
Að undanförnu hefur leiguverð íbúðarhúsnæðis verið að gefa eftir eins og sjá má af mynd 4. Frá janúar til og með júlí 2015 hefur íbúðaverð hækkað um 3,9%, laun hafa hækkað um 5%, verðlag án húsnæðis hefur hækkað um 2,3% en leiguverð einungis um 0,6%. Hækkun íbúðaverðs umfram leiguverð gefur vísbendingu um aukna eftirspurn eftir kaupum á íbúðarhúsnæði, ekki hvað síst hjá fyrstu kaupendum.

Mynd 4. Þróun leiguverðs, fasteignaverðs, launa og verðlags frá janúar til júlí 2015.

Mynd 4. Þróun leiguverðs, fasteignaverðs, launa og verðlags frá janúar til júlí 2015.
Heimild: Hagstofa Íslands og Þjóðskrá Íslands.

Heildarfjöldi kaupsamninga árið 2004 til 2014 var um 129.000. Mun fleiri kaupsamningar voru gerðir á árunum fyrir efnahagshrun og náðu þeir hámarki árið 2004 þegar gerðir voru 18.602 samningar. Fæstir kaupsamningar voru gerðir árið 2009 eða tæplega 6.000. Síðan þá hefur þinglýstum kaupsamningum fjölgað og hafa verið gerðir fleiri en 10.000 samningar á ári frá árinu 2012 eins og sjá má af mynd 5.
Þjóðskrá Íslands tók saman, að beiðni velferðarráðuneytisins, gögn um fjölda þeirra sem keyptu sitt fyrsta húsnæði frá árinu 2008 til mars 2015. Alls voru gerðir 66.444 kaupsamningar á tímabilinu og voru 9.040 vegna fyrstu íbúðakaupa, eða 13,6% allra samninga. Árið 2008 til 2010 var hlutfall fyrstu íbúðakaupa lægra en 10%, eins og sjá má af mynd 5, en frá þeim tíma hefur kaupsamningum fjölgað og samhliða hefur hlutfall fyrstu húsnæðiskaupa hækkað verulega og var komið yfir 20% af öllum kaupsamningum á fyrsta ársfjórðungi 2015. Frá maí 2012 hefur eftirspurn eftir minni íbúðum jafnframt verið að aukast og hefur verð fasteigna í fjölbýli hækkað um 31% frá þeim tíma en verð sérbýlis um 20% eins og sjá má af mynd 6. Frá janúar til og með júlí 2015 hefur hefur íbúðaverð í fjölbýli hækkað um 4,6% á meðan verð sérbýlis hefur einungis hækkað um 1,5%.
Mynd 5. Fjöldi kaupsamninga og hlutfall fyrstu íbúðakaupa af öllum kaupsamningum frá 2008 til mars 2015.

Mynd 5. Fjöldi kaupsamninga og hlutfall fyrstu íbúðakaupa af öllum kaupsamningum frá 2008 til mars 2015.

Mynd 6. Þróun fasteignaverðs í fjölbýli og sérbýli frá janúar 2011 til júlí 2015.

Mynd 6. Þróun fasteignaverðs í fjölbýli og sérbýli frá janúar 2011 til júlí 2015.
Heimild: Þjóðskrá Íslands.
 

Nýbyggingar.

Ljóst er að eftirspurn eftir húsnæði mun halda áfram að aukast út frá lýðfræðilegri þróun, þar sem bæði Íslendingum er að fjölga og fleiri eru farnir að flytja til landsins en frá því. Fólksfjölgun og nýbyggingar íbúða á höfuðborgarsvæðinu hafa fylgst nokkuð vel að til lengri tíma eins og sjá má af mynd 7.
Frá árinu 2003 og allt til ársins 2008 var verulegur hvati til nýbygginga, bæði í byggingu fjölbýlis og sérbýlis. Veruleg offjárfesting var í íbúðarhúsnæði á tímabilinu. Þrátt fyrir að framboð íbúða á höfuðborgarsvæðinu hafði aukist talsvert hægði ekkert á verðhækkunum. Í kjölfar fjármálakreppunnar árið 2008 lækkaði fasteignaverð aftur á móti hratt á meðan byggingarkostnaður hélt áfram að hækka.
Þessi þróun leiddi til stöðnunar í byggingariðnaði og nánast ekkert var um að framkvæmdir hæfust á nýju íbúðarhúsnæði á árunum 2010 og 2011. Á árinu 2012 virðist sem einhver hvati hafi skapast til að hefja framkvæmdir að nýju. Þá var hafist handa við byggingu 457 nýrra íbúðarhúsa á höfuðborgarsvæðinu og var fjöldinn kominn í 570 á árinu 2014.
Mynd 7. Mannfjöldi og húsnæðismarkaður á höfuðborgarsvæðinu frá 1999 til 2015.

Mynd 7. Mannfjöldi og húsnæðismarkaður á höfuðborgarsvæðinu frá 1999 til 2015.
Heimild: Hagstofa Íslands.
 

Byggingarkostnaður.

Hár byggingarkostnaður hefur haldið aftur af framboði nýs íbúðarhúsnæðis undanfarið, en svo virðist sem hækkun fasteignaverðs í fjölbýli umfram byggingarskostnað hafa þó ýtt við framkvæmdaraðilum að einhverju leyti. Frá ársbyrjun 2014 hefur kostnaður við nýbyggingar haldist nokkuð stöðugur og frá þeim tíma til júlí 2015 hækkaði verð íbúðarhúsnæðis í fjölbýli um 16% á meðan byggingarkostnaður hækkaði einungis um 4%. Það sem af er ári 2015 hefur byggingarkostnaður hækkað um 2,4% en kaupverð í fjölbýli um 4,6%.
Mynd 8. Þróun vísitölu byggingarkostnaðar og vísitölu íbúðarhúsnæðis frá janúar 2003 til ágúst 2015.

Mynd 8. Þróun vísitölu byggingarkostnaðar og vísitölu íbúðarhúsnæðis frá janúar 2003 til ágúst 2015.
Heimild: Hagstofa Íslands og Þjóðskrá Íslands.
 

Samanburður á leiguverði og kaupverði íbúðarhúsnæðis.

Eftirfarandi dæmi setti greiningardeild Arion banka upp þann 17. desember 2014. Þá var hægt að fá tveggja herbergja 75 m2 íbúð leigða fyrir um 145-185 þús. kr. á mánuði að meðaltali en þriggja herbergja 100 m2 íbúð fyrir um 165-215 þús. kr. á mánuði á höfuðborgarsvæðinu. Lægst var meðalleiguverð tveggja herbergja 75 m2 íbúðar í Breiðholti, en ódýrustu þriggja herbergja 100 m2 leiguíbúðirnar var að finna í Kópavogi að meðaltali.
Mynd 9. Meðalleiguverð íbúða á höfuðborgarsvæðinu árið 2014.

Mynd 9. Meðalleiguverð íbúða á höfuðborgarsvæðinu árið 2014.

Miðað við Verðsjá fasteigna hjá Þjóðskrá var á sama tíma hægt að festa kaup á 75 m2tveggja herbergja íbúð í Reykjavík fyrir um 25,6 m. kr., en greiða þurfti nær 29,5 m.kr. fyrir 100 m2 þriggja herbergja íbúð eins og sjá má af mynd 10.
Mynd 10. Meðalkaupverð á höfuðborgarsvæðinu árið 2014.

Mynd 10. Meðalkaupverð á höfuðborgarsvæðinu árið 2014.

Categories
Fréttir

Stóreflum uppbyggingu íþróttamannvirkja og sjálfboðastarf

Deila grein

23/09/2015

Stóreflum uppbyggingu íþróttamannvirkja og sjálfboðastarf

VilllumDreift hefur verið á Alþingi frumvarpi um breytingu á lögum er varða uppbyggingu og viðhald íþróttamannvirkja. Lagt er til að íþrótta-, ungmenna- og æskulýðsfélögum verði endurgreiddur allur virðisaukaskattur sem greiddur hefur verið af vinnu manna við nýbyggingu, endurbyggingu og viðhaldi við íþróttamannvirki, en einnig af þjónustu vegna hönnunar, eftirlits eða viðhalds þeirra. Frumvarpið gerir ráð fyrir að þjónusta og vörusala sem stunduð er til að afla fjár fyrir hefðbundna starfsemi íþróttafélaga verði undanþegnar virðisaukaskatti. Tímabilið í frumvarpinu er eitt ár, frá 1. janúar 2016 til 1. janúar 2017.
Willum Þór Þórsson, þingmaður Framsóknarflokksins, er fyrsti flutningsmaður málsins en aðrir meðflutningsmenn eru þingmennirnir: Ásmundur Einar Daðason, Páll Jóhann Pálsson, Haraldur Einarsson, Silja Dögg Gunnarsdóttir og Ásmundur Friðriksson.
„Árangurinn í íþróttum undanfarnar vikur sýnir mikilvægi innviðauppbyggingar í íþróttum. Löggjafinn þarf að hvetja til uppbyggingar á íþróttamannvirkjum og þetta frumvarp er lykilatriði í mínum huga,“ segir Willum Þór Þórsson, alþingismaður Framsóknarflokksins.
Willum segir jafnframt að að sjálfboðaliðastarf hafi lengi verið grunnurinn að öflugu íþróttastarfi á Íslandi og markmiðið frumvarpsins sé að styðja við allt sjálfboðaliðastarf innan íþróttahreyfingarinnar hér á landi.

Categories
Fréttir

Páll Jóhann: „Verið sé að reyna hið ómögulega“

Deila grein

23/09/2015

Páll Jóhann: „Verið sé að reyna hið ómögulega“

Páll Jóhann Pálsson„Virðulegi forseti. Ég er eflaust ekki einn um það að hafa áhyggjur af samgöngum til Vestmannaeyja og reyndar vægi samgangna yfirleitt í nýju fjárlagafrumvarpi. Þrátt fyrir hátt í 10 milljarða veiðigjöld af sjávarauðlindinni, sem eðli málsins samkvæmt nýtist ekki án nothæfra fiskihafna, er þeim ekki gert kleift að fara í eðlilegt viðhald. Reyndar er bætt í sanddælingu við Landeyjahöfn og er það vel.
Það vakti athygli mína að ekki er gert ráð fyrir fjármagni í smíði nýs Herjólfs í þessu fjárlagafrumvarpi þrátt fyrir að sagt sé að búið sé að hanna skip sem hentar Landeyjahöfn. Það voru reyndar blendnar tilfinningar hjá mér og ef ég á að vera heiðarlegur var ég reyndar svolítið feginn. Það sem meira er, ekki ber mikið á mótmælum frá Vestmannaeyingum sem þó eru þekktir fyrir að láta heyra í sér telji þeir fram hjá sér gengið. Ég hef heyrt í mörgum Vestmannaeyingum sem eru sama sinnis, þeir eru sammála því að verið sé að reyna hið ómögulega, þ.e. að hanna grunnrista ferju sem stenst öldur Atlantshafsins. Það að virtur íslenskur skipaverkfræðingur, sem var í starfshópi um hönnun nýs Herjólfs, skuli hafa sagt sig frá málinu styrkir mig í þeirri skoðun.
Ég tek ofan fyrir hæstv. innanríkisráðherra fyrir að hafa kjark til að staldra við, flana ekki að neinu, stíga eitt skref í einu og láta reyna á það hvernig gengur að dæla sandi yfir Landeyjahöfn að vetrarlagi með öflugra dæluskipi.
Vestmannaeyingar eiga skilið að hafa öruggar samgöngur á alvöruskipi til Þorlákshafnar á meðan Landeyjahöfn er ekki örugg heilsárshöfn. Fyrirsjáanleiki og stöðugleiki er atvinnulífinu mikilvægur, atvinnuöryggi er hluti af gæðum fiskvinnslunnar og ekki síður í ferðaþjónustu.
Við sem höfum verið til sjós vitum að stundum þurfum við að breyta um stefnu þegar við náttúruöflin er að etja.“
Páll Jóhann Pálsson – í störfum þingsins 16. september 2015.

Categories
Fréttir

Nýir samningar við ESB um viðskipti með landbúnaðarvörur

Deila grein

18/09/2015

Nýir samningar við ESB um viðskipti með landbúnaðarvörur

SIJNýir samningar Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur náðust á samningafundi sem staðið hefur sl tvo daga í Reykjavík. Samningarnir munu stuðla að auknu vöruúrvali og lægra vöruverði á Íslandi til hagsbóta fyrir neytendur. Jafnframt fela samningarnir í sér veruleg ný tækifæri fyrir útflytjendur. Vonir standa til að samningarnir geti tekið gildi í árslok 2016 eða byrjun árs 2017, að fenginni staðfestingu stofnana ESB og Íslands.
„Það er mjög ánægjulegt að hafa náð samningum um gagnkvæma niðurfellingu tolla sem mun hafa mjög jákvæðar áhrif fyrir neytendur og mikil sóknarfæri til aukins útflutnings,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Samningarnir fela í sér að Ísland fellir niður tolla á yfir 340 nýjum tollskrárnúmerum og lækkar tolla á yfir 20 öðrum. Almennt gerir ESB slíkt hið sama. Niðurstaðan felur í sér að allir tollar á unnar landbúnaðarvörur eru felldir niður nema á jógúrt. Sem dæmi munu tollar falla niður á súkkulaði, pizzum, pasta,  bökunarvörum o.fl. Auk þessa eru tollar felldir niður eða lækkaðir á óunnum landbúnaðarvörum eins og t.d. villibráð, frönskum kartöflum, útiræktuðu grænmeti o.fl.
Jafnframt er samkomulag um að báðir aðilar auki verulega tollfrjálsra innflutningskvóta m.a. fyrir ýmsar kjöttegundir og osta sem munu koma til framkvæmda á tilteknum aðlögunartíma. Á móti fær Ísland verulega hækkun tollfrjálsra innflutningskvóta fyrir skyr, smjör og lambakjöt auk nýrra kvóta fyrir alifugla- og svínakjöt og ost.
Samhliða var lokið samningi milli Íslands og ESB um gagnkvæma viðurkenningu á heitum afurða sem vísa til uppruna. Í meginatriðum felur samningurinn í sér að íslensk stjórnvöld skuldbinda sig til að vernda á yfirráðasvæði sínu heiti afurða sem vísa til uppruna og njóta verndar innan ESB.
„Þetta er fagnaðarefni fyrir íslenska neytendur sem munu sjá þess stað í lækkuðu matvöruverði og útflytjendur sem munu vafalaust nýta sér þá möguleika sem í þessum samningum felast,“ segir Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra.
Formlegar viðræður hófust árið 2012. Nýjum samningum er ætlað að koma í stað samninga frá 2001 um viðskipti með unnar landbúnaðarvörur og 2007 um viðskipti með óunnar landbúnaðarvörur.
Samningarnir munu nú fara í lögfræðilega yfirferð og lokafrágang og verða lagðir fyrir til formlegs samþykkis ESB og íslenskra stjórnvalda.