Categories
Fréttir

Mikilvægt er að horfa á heildarsamhengi húsnæðismála

Deila grein

10/02/2016

Mikilvægt er að horfa á heildarsamhengi húsnæðismála

flickr-Elsa Lára Arnardóttir„Hæstv. forseti. Mig langar að byrja ræðu mína á að þakka hv. þingmönnum, þeim Elínu Hirst og Þorsteini Sæmundssyni, fyrir góðar ræður hér gær í störfum þingsins. Ég verð að segja að ég er hjartanlega sammála því sem þau höfðu fram að færa.
En nú kem ég að því sem ég ætla að fjalla um, þ.e. heildarsamningi húsnæðismála. Samkvæmt nýrri Hagsjá Landsbankans kemur fram að tvöfalt fleiri voru að kaupa fyrstu íbúð á árinu 2015 samanborið við árið 2008. Á árinu 2008 voru fyrstu kaup innan við 10% allra viðskipta með fasteignir á landinu öllu. Árið 2015 voru rúmlega 22% allra viðskipta fyrstu kaup eða um 2.600 íbúðir af um 11.700 íbúðaveltu.
Jákvætt er að sjá að svo virðist sem unga fólkið eigi auðveldara með að kaupa sér húsnæði nú en áður. Samt sem áður er mikilvægt að endurskoðun á skilyrðum greiðslumats eigi sér stað. Nauðsynlegt er að horft sé til skilvísi einstaklinga. Það er ekki hægt að horfa lengur upp á þá sem borga himinháa leigu komast ekki í gegnum greiðslumat þrátt fyrir að greiðslubyrðin mundi lækka um tugi þúsunda.
Það er samt svo að alltaf verður einhver hluti á leigumarkaði, bæði tímabundið og ótímabundið. Þess vegna er mikilvægt að frumvörp hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra er varða nauðsynlegar húsnæðisumbætur á leigumarkaði nái fram að ganga.
Flestar gestakomur vegna málanna er lokið í hv. velferðarnefnd þingsins og þar hefur vinnan gengið vonum framar. Á næstu vikum verður nefndarálit unnið og afar líklegt er að húsnæðisfrumvörpin verði að lögum innan fárra vikna.
Mikilvægt er að horfa á heildarsamhengi húsnæðismála. Þegar leigumarkaðsmálin hafa verið afgreidd þá taka verðtryggingarmálin við. Í því samhengi þarf að horfa til vaxtabyrði lána og greiðslubyrði fólks af húsnæðislánum. Festa þarf í sessi hvata til húsnæðissparnaðar, t.d. í formi séreignarsparnaðar, og eins og ég nefndi fyrr í ræðu minni þarf að endurskoða þau úrræði sem sett eru fram með greiðslumatið.“
Elsa Lára Arnardóttir í störfum þingsins 3. febrúar 2016.

Categories
Fréttir

Breytingar á jöklum sé augljósasta birtingarform á loftslagsbreytingum

Deila grein

10/02/2016

Breytingar á jöklum sé augljósasta birtingarform á loftslagsbreytingum

flickr-Þórunn Egilsdóttir„Hæstv. forseti. Það er ánægjulegt og ástæða til að vekja máls á því að umræðan í þingsal í síðustu viku einkenndist að miklu leyti af umfjöllun um umhverfismál. Þau mál taka yfir vítt svið og snerta okkur öll.
Loftslagsbreytingar af mannavöldum eru einn mesti vandi sem mannkynið stendur frammi fyrir. Ef ekki tekst að koma böndum á losun gróðurhúsalofttegunda er hætta á stórfelldri röskun á lífríki jarðar og lífsskilyrðum komandi kynslóða. Vandinn verður mestur í framtíðinni eftir tugi ára en krefst aðgerða nú. Verkefnið kallar á fjárfestingar og nýsköpun sem styður við umhverfisvæna tækni. Með því að leggja fram aðgerðaáætlun í loftslagsmálum sýnir ríkisstjórnin vilja sinn í verki.
Hæstv. forseti. Íslensk stjórnvöld hafa nú í fyrsta skipti ráðstafað fjármagni sérstaklega til heildstæðrar áætlunar um aðgerðir í loftslagsmálum. Á fjárlögum 2016 fara til dæmis rúmlega 30 milljónir til Vatnajökulsþjóðgarðs og Veðurstofunnar til að forma verkefni, bæta vöktun og setja upp lifandi kennslustofur um loftslagsbreytingar sem gefa almenningi kost á að sjá áhrif þeirra á jökla landsins.
Segja má að breytingar á jöklum sé augljósasta birtingarform á loftslagsbreytingum en óvíða í Evrópu er aðgengi að jöklum eins gott og hér á landi. Vel mætti hugsa sér að ferðamenn hefðu áhuga á að sjá slíkar breytingar og upplifa hve mikið jöklar hafa bráðnað hér á landi síðastliðin ár. Á auðveldan hátt gætum við gefið fólki kost á að sjá niðurstöður úr vöktun jökla á áhrifaríkan hátt, við Vatnajökul, Snæfellsjökul og ef til vill Drangajökul, sem sýnir breytileikann. Þar með væri kominn vísir að aðdráttarafli fyrir ferðamenn, vísindamenn og fleiri sem stuðlar að dreifingu ferðamannastraums og styrkingar byggðar.
Hæstv. forseti. Með skynsamlegri nálgun getum við samþætt ferðamennsku og rannsóknir með áherslu á aukna umhverfisvitund.“
Þórunn Egilsdóttir í störfum þingsins 3. febrúar 2016.

Categories
Fréttir

Fánamálið kallað til nefndar

Deila grein

10/02/2016

Fánamálið kallað til nefndar

Villlum„Hæstv. forseti. Síðastliðinn mánudag var á dagskrá þingfundar 3. umr. og atkvæðagreiðsla um frumvarp um breytingu á lögum um þjóðfána Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið, um notkun fánans í markaðssetningu vöru og þjónustu.
Þá bar svo við að málið var tekið af dagskrá og sem framsögumaður málsins ætla ég að útskýra stuttlega hvers vegna.
Samtök iðnaðarins hafa eðlilega látið sig málið varða og við vinnslu málsins hjá nefndinni sendu samtökin inn ágætisumsögn um málið og fylgdu þeirri umsögn eftir með gagnlegum ábendingum. Fulltrúar samtakanna höfðu svo samband á ögurstundu fyrir 3. umr. á Alþingi og höfðu athugasemdir og hugmyndir um útfærslu og breytingar á málinu.
Sú ákvörðun var tekin að bregðast við og gefa Samtökum iðnaðarins færi á að fylgja þessari útfærslu eftir og upplýsa nefndina frekar um hugmyndir sínar og því var málið tekið af dagskrá.
Samtök iðnaðarins komu svo fyrir nefndina í gærmorgun og fóru yfir málið og útskýrðu sjónarmið sín og breytingartillögur fyrir nefndinni. Minnisblað þess efnis liggur þegar fyrir á vef Alþingis um málið og þar geta áhugasamir kynnt sér tillögurnar. Í stuttu máli snúa þær að því að þar sem fáninn er í eðli sínu upprunamerking er mikilvægt að tryggja frekar að neytendur geti gengið að því sem vísu að upplýsingar um uppruna séu skýrar, eins og þegar fáninn er notaður í markaðssetningu á vöru og þjónustu verði stuðst við fyrirliggjandi upprunareglur samnings Evrópska efnahagssvæðisins, bókun 4.
Í öllu falli var hratt brugðist við og þykir mér full ástæða til að þakka hv. formanni stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og hæstv. forseta fyrir skjót viðbrögð. Það er von mín að málið tefjist ekki fram úr hófi og að þessi snúningur verði til bóta.“
Willum Þór Þórsson í störfum þingsins 3. febrúar 2016.

Categories
Fréttir

Flugöryggi á Akureyri

Deila grein

10/02/2016

Flugöryggi á Akureyri

thingmadur-hoskuldur„Virðulegi forseti. Í morgun í umhverfis- og samgöngunefnd var haldinn fundur sem bar yfirskriftina Flugöryggi á Akureyri.
Þannig er mál með vexti að Isavia hefur tekið ákvarðanir um að fækka flugumferðarstjórum og taka upp hina svokölluðu AFIS-þjónustu sem ég skil ekki öðruvísi en svo að þar verði einstaklingar sem eru með minna nám á bakinu og mun minni reynslu og hafa ekki heimild til þess að stýra hinum mjög svo mikilvæga radar sem er nauðsynlegur út af legu Akureyrarflugvallar.
Í rauninni er þetta skrýtið í því ljósi að stjórnvöld hafa lýst yfir miklum áhuga á að styrkja millilandaflug til Akureyrar og hafið aðgerðir í þá áttina. Við horfum upp á það núna, sem er gleðiefni, að efni sem kemur til úr Vaðlaheiðargöngum er sett til þess að undirbúa byggingu nýs flughlaðs. Þess vegna veltir maður fyrir sér í hvaða átt Isavia sé í rauninni að fara.
Fram komu fullyrðingar um að þetta væri eingöngu tímabundin aðgerð sem væri nauðsynleg út af manneklu, en þegar áhöld eru um að gerður verði nýr þjónustusamningur þar sem Isavia mun leggja til að AFIS-þjónusta geti viðgengist þá hefur maður á tilfinningunni að svo verði ekki.
Ég vil beina því til innanríkisráðuneytis og allra þeirra sem málið varða að tryggja að áfram verði sama þjónusta og verið hefur á Akureyrarflugvelli frá árinu 1960. Það skiptir gríðarlegu máli að þjónustan sé ekki bara sú sama heldur líka öryggið. Við höfum (Forseti hringir.) heyrt sömu vangaveltur áður. Þeim var hafnað út af öryggissjónarmiðum. Ég vona að svo verði líka núna og Isavia hverfi frá þessum hugmyndum hið snarasta.“
Höskuldur Þór Þórhallsson í störfum þingsins 3. febrúar 2016.

Categories
Fréttir

Sigrún með erindi hjá U3A um Rannveigu

Deila grein

07/02/2016

Sigrún með erindi hjá U3A um Rannveigu

Sigrún Magnúsdóttir 006Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, mun flytja erindi hjá U3A á þriðjudaginn, 9. febrúar, um þingkonuna Rannveigu Þorsteinsdóttur. Erindið er í röðinni um fimm fyrstu konurnar sem tóku sæti á Alþingi. Rannveig Þorsteinsdóttir sat á þingi 1949-1953.
Erindið fer fram í Félagsmiðstöðinni að Hæðargarði 31 í Reykjavík og hefst kl. 17:15.
Nánar um erindið.
Hvað er U3A?
U3A Reykjavík, The University of the Third Age Reykjavík, eru samtök fólks á þriðja æviskeiðinu, árunum eftir fimmtugt, sem vill afla sér og miðla þekkingu eins lengi og það vill og getur. Samtökin eru hluti af alþjóðlegri hreyfingu U3A sem er til í 30 – 40 löndum víða um heim með hundruðum þúsunda meðlima.
Starf U3A Reykjavík fer fram með námskeiðum, fyrirlestrum, hópastarfi, kynnisferðum og ferðalögum. Engin skilyrði eru fyrir þátttöku og engin próf eru tekin.

Categories
Fréttir

Ekki saknæmt athæfi að vera fávís eða illa upplýstur

Deila grein

03/02/2016

Ekki saknæmt athæfi að vera fávís eða illa upplýstur

24671716596_29475601b0Hæstv. forseti. Það er fagnaðarefni að heyra að Bankasýsla ríkisins skuli ætla að kanna sölu Landsbankans á Borgun. Sá sem hér stendur sendi Bankasýslunni formlegt erindi í fyrra þar sem farið var fram á það að söluverð hlutarins í Borgun yrði metið en Bankasýslan treysti sér þá ekki til að verða við erindinu.

Það veitir ekki af því að taka þetta mál og athuga það vegna þess að ljóst er að forustumenn Landsbankans hafa orðið margsaga í þessu máli. Upphaflega sagði bankastjórinn að landsbankamenn hefðu ekki getað metið hlut Borgunar almennilega en gat þess samt að söluverðið væri hagstætt. Seinna í ferlinu lét hann það flakka að Samkeppniseftirlitið hefði herjað mjög á Landsbankann um að selja þennan hlut en það hefur komið í ljós að það er ekki rétt.

Nú halda landsbankamenn því fram að þeir hafi ekki getað vitað um svokallaðan hvalreka, eða á ensku „windfall“, sem varði það að Visa Inc. keypti evrópska hluta Visa.

Nú er það ekki saknæmt athæfi að vera fávís eða illa upplýstur, en hitt er annað mál að í þessu tilfelli er það rándýrt fyrir almenning í landinu. Það bárust nefnilega vísbendingar snemma árs 2014 á opinberum fréttamiðlum um þennan hvalreka sem væntanlegur var. Þá var líka getið um áhrif af sölu Visa Europe til Visa Inc. í árshlutareikningum og upplýsingum Visa Inc. þar sem þetta kemur fram.

Hafi menn í Landsbankanum ekki vitað af þessu bendir það til þess að þeir séu ekki mjög vel starfi sínu vaxnir og ættu að finna sér eitthvað annað að gera. Hafi þeir hins vegar búið yfir þessum upplýsingum og látið hjá líða að nýta þær er sama niðurstaða auðfengin. Stjórn Landsbankans á að víkja út af þessu máli.

Þorsteinn Sæmundsson — í störfum þingsins 2. febrúar 2016.

 

Categories
Fréttir

Er ferðamannastraumurinn bóla sem gæti sprungið?

Deila grein

03/02/2016

Er ferðamannastraumurinn bóla sem gæti sprungið?

Sigurður Páll Jónsson 005Hæstv. forseti. Ferðamennska hefur stóraukist hér á landi undanfarin ár og er það ánægjuleg þróun þó að sumum þyki nóg um. En staðreyndin er sú að um 30% af landsframleiðslu kemur úr ferðamannageiranum. Auknum ferðamannastraumi fylgir aukið álag á alls konar þætti, suma fyrirséða og aðra ófyrirséða. Aukið álag á landsvæði hefur þegar komið í ljós og hafa stjórnvöld brugðist við að hluta til með breytingum á lögum um náttúruvernd. Álag á vegi landsins hefur aukist og kemur það aðallega niður á umferðaröryggi sem meðal annars hefur birst í auknum fjölda umferðarslysa hjá ferðamönnum sem ekki eru vanir íslensku gatnakerfi með of mörgum einbreiðum brúm, mjóum vegum auk malarvega og fleira.
Álag á vegi jókst einnig til muna eftir að strandsiglingar ríkisins voru aflagðar og þungaflutningar voru færðir á gatnakerfið. Það mætti að mínu mati taka snúning á því í umræðunni hvort flutningur á þungavöru um strendur landsins væri betur kominn sjóleiðis til að minnka álag á vegi. Dreifing ferðamanna um landið þyrfti að vera meiri og koma ferðafólks hefur nær eingöngu verið í gegnum Keflavík sem stýrir fólki meira um suðvesturland.
Egilsstaðaflugvöllur er kostur sem gera á tilraun með í vor með móttöku ferðamanna í sex mánuði fyrst í stað og ætti það að dreifa álaginu á landið og auka umsvifin fyrir austan og norðan. Það verður spennandi að sjá hvernig það gengur.
Koma farþegaskipa hefur aukist, en stærri hafnir landsins eru betur í stakk búnar að taka á móti þeim. Þó hefur minni farþegaskipum fjölgað og er ágætisreynsla að skapast í hringferðum slíkra skipa í kringum landið með viðkomu á ýmsum stöðum. Er ferðamannastraumurinn bóla sem gæti sprungið? Spyr sá sem ekki veit. Gakktu hægt um gleðinnar dyr, segir einhvers staðar, en þó örugglega og glaðlega.
Sigurður Páll Jónsson — í störfum þingsins 2. febrúar 2016.

 

Categories
Fréttir

Umsögn Seðlabankans jákvæð

Deila grein

03/02/2016

Umsögn Seðlabankans jákvæð

Elsa-Lara-mynd01-vefurHæstv. forseti. Þessa dagana vinnur hv. velferðarnefnd þingsins með húsnæðisfrumvörp hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra. Í gær birti Seðlabankinn umsögn sína vegna þessara mikilvægu mála. Það er skoðun bankans að áhrif frumvarpanna verði í samræmi við þau markmið sem frumvörpunum er ætlað að ná, þ.e. að koma til móts við húsnæðiskostnað leigjenda. Það er skoðun bankans að áhrif frumvarpanna verði í samræmi við markmið þeirra að lækka húsnæðiskostnað þeirra sem eru á leigumarkaði með auknum húsnæðisbótum og auknu framboði á húsnæði fyrir efnaminni leigjendur. Um frumvarp um húsnæðisbætur segir í umsögn Seðlabankans, með leyfi forseta:
„Það felur í sér að þær fjölskyldur sem njóta kostnaðarþátttöku ríkisins samkvæmt frumvarpinu munu með tímanum þurfa að ráðstafa nokkru minni hluta tekna sinna en ella til húsnæðis og þar af leiðandi hafa meira til ráðstöfunar í aðrar neysluvörur og sparnað.“
Í umsögn Seðlabankans um almennar íbúðir fyrir efnaminni leigjendur segir, með leyfi forseta:
„Með frumvarpinu er lagt til að verulegum fjárhæðum verði varið til uppbyggingar á leiguhúsnæði sem verði ráðstafað til tekjulágra og annarra sem tilgreindir eru í frumvarpinu. Að öðru óbreyttu mun slíkt leiða til þess að leiguverð á slíkum íbúðum lækkar.“
Þessi umsögn er í samræmi við það sem ráðgjafarfyrirtækið Analytica benti á í umsögn sinni þegar umrædd frumvörp voru til vinnslu innan velferðarráðuneytisins. Ríkið hefur sett verulega fjármuni í húsnæðismál undanfarin ár eða frá árinu 2008 en þar er um að ræða útgjöld til Íbúðalánasjóðs, útgjöld í vaxtabætur, sérstakar vaxtabætur og útgjöld til niðurfellingar á verðtryggðum húsnæðislánum heimilanna. Sá hópur sem umrædd frumvörp eiga að ná til og eru í vinnslu innan hv. velferðarnefndar hefur ekki fengið úrbætur í húsnæðismálum. Því er mikilvægt að þessi frumvörp nái fram að ganga. Allir hv. þingmenn verða að hafa það í huga að umrædd frumvörp eru tengd kjarasamningum og hluti þess að kjarasamningar tókust á almennum vinnumarkaði síðasta vor.
Elsa Lára Arnardóttir — í störfum þingsins 2. febrúar 2016.

Categories
Fréttir

Aðildarríkjum EES ber að leyfa innflutning á fersku kjöti

Deila grein

03/02/2016

Aðildarríkjum EES ber að leyfa innflutning á fersku kjöti

líneikVirðulegi forseti. Ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins sem skilað var í gær veldur mér áhyggjum. Samkvæmt áliti dómstólsins kveður EES-samningurinn á um að aðildarríkjum hans beri að leyfa innflutning á fersku kjöti svo framarlega sem það hefur staðist heilbrigðiseftirlit í heimalandinu. Ekki sé heimilt að gera þá kröfu að afurðirnar verði frystar eins og íslenskt stjórnvöld hafa alltaf krafist. Ég vil þó árétta það að álitið er ráðgefandi og afnemur ekki sjálfkrafa gildandi reglur á Íslandi.
Í gegnum árin hafa dýralæknar og aðrir sérfræðingar sem best þekkja til á þessu sviði varað við innflutningi á fersku kjöti. Með leyfi forseta langar mig að vitna í orð Vilhjálms Svanssonar, dýralæknis við Tilraunastöð Háskóla Íslands að Keldum, í Fréttablaðinu þar sem hann segir þessa niðurstöðu sorgartíðindi fyrir þá sem bera líf og dýraheilsu fyrir brjósti:
„Innflutningur á hráu kjöti til Íslands er bannaður vegna varna gegn dýrasjúkdómum og voru fyrstu lög í þá átt sett 1882. Staða Íslands með tilliti til dýrasjúkdóma er einstæð í heiminum og hana ber að varðveita með öllum tiltækum ráðum. Tilgangur bannsins er margþættur og er meðal annars að tryggja sem heilnæmasta innlenda matvöru, stuðla að dýravelferð, varðveita erfðafjölbreytileika eða erfðaauðlindir, draga úr lyfjakostnaði, vernda lýðheilsu og fleira. Liður í velferð dýra er að stuðla að góðu heilsufari dýra í landinu með því að koma í veg fyrir að nýir smitsjúkdómar berist til landsins. Um leið er lagður grunnur að því að áfram verði framleiddar heilnæmar búfjárafurðir í landinu, lausar við afleiðingar tiltekinna sjúkdóma eða lyfjaleifar þeim tengdum. Þar fyrir utan mætti svo auðvitað ræða æskileg umhverfisáhrif af flutningi kjöts, en það er annað mál.“
Líneik Anna Sævarsdóttir — í störfum þingsins 2. febrúar 2016.

Categories
Fréttir

Allir séu á sömu blaðsíðunni um öryggi og mikilvæga þjónustu

Deila grein

03/02/2016

Allir séu á sömu blaðsíðunni um öryggi og mikilvæga þjónustu

ÞórunnHæstv. forseti. Í liðinni viku barst þingmönnum Norðausturkjördæmis bréf frá flugrekstrarstjóra Norlandair og þjálfunarstjóra Mýflugs sem hafa aðsetur á Akureyrarflugvelli. Innihald bréfsins er þess efnis að það vekur áhyggjur því að leiddar eru líkur að því að hugmyndir Isavia um skert þjónustustig leiði einnig til skertra öryggishagsmuna notenda þjónustunnar.
Akureyrarflugvöllur er þriðji stærsti flugvöllur landsins á eftir Reykjavík og Keflavík. Þrátt fyrir erfiðar aðstæður frá náttúrunnar hendi og mikla flugumferð hefur flugumferðarstjórum tekist að halda uppi háum öryggisstuðli. Sá árangur grundvallast á radarstöð sem staðsett er við hlið flugbrautarinnar og stjórnast af flugumferðarstjórum í flugturni. Af ýmsum ástæðum stefnir í að flugumferðarstjórum fækki úr sex í þrjá. Ekki fyrr en nýlega hafa verið gerðar ráðstafanir til nýráðninga og þjálfunar á nýjum flugumferðarstjórum. Vitað er að þjálfun þeirra tekur tíma og hafa starfandi flugumferðarstjórar boðist til að dekka tímabilið með skipulagningu vakta, líkt og þeir hafa reyndar gert fram að þessu samkvæmt upplýsingum mínum.
Hæstv. forseti. Stefnan virðist vera sú að manna vaktir með starfsmönnum sem hafa einungis brot af þeirri menntun, starfsþjálfun og réttindum sem flugumferðarstjórar hafa. Þessir starfsmenn hafa til dæmis ekki réttindi til að veita radarþjónustu og því er það öryggi sem sú stöð veitir ekki til staðar þegar þeir verða á vakt.
Í ljósi mikillar flugumferðar um Akureyrarflugvöll og þess að hann er miðstöð sjúkraflugþjónustu sýnist mér afar mikilvægt að þessi þjónusta sé ekki skert. Ekki má gleyma því að flugvöllurinn er mikilvægur varaflugvöllur fyrir bæði innanlands- og utanlandsflug allan sólarhringinn. Mikilvægi þess að veita þjónustu með radarleiðsögn hafa dæmin sannað, en ekki gefst tími til að telja þau upp hér. Ágreiningur virðist um túlkun á því hvað skert þjónusta er. Það gengur ekki. Menn verða að vera á sömu blaðsíðunni þegar mál sem varða öryggi og mikilvæga þjónustu eru rædd. Ég efast ekki um að innanríkisráðherra skoðar þetta mál vel og treysti því að farsæl lausn finnist.
Þórunn Egilsdóttir — í störfum þingsins 2. febrúar 2016.