Categories
Fréttir

Efnislegur skortur barna á Íslandi

Deila grein

28/01/2016

Efnislegur skortur barna á Íslandi

líneik„Virðulegi forseti. Ég vil, eins og fleiri þingmenn hafa gert, ræða nýja skýrslu Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna um efnislegan skort barna á Íslandi sem kynnt var í síðustu viku. Niðurstöðurnar vekja mig virkilega til umhugsunar. Ég tel að við eigum að taka þessar niðurstöður alvarlega og ígrunda vel ástæður skortsins og hvernig bregðast megi við.
Rannsókn sem gerð var árið 2014 leiðir í ljós að alls 9,1% barna á Íslandi á aldrinum 1–15 ára líður efnislegan skort, eða rúmlega 6.000 börn. Þar af eru um 1.600 börn sem skortir fleiri en þrenn af þeim gæðum sem spurt var um. Fjöldinn hefur tvöfaldast frá árinu 2009 þegar sams konar rannsókn var gerð. Skorturinn mælist mestur þegar kemur að húsnæði og á Íslandi eru mestar líkur á því að þau börn líði skort sem eiga foreldra sem eru í hálfu starfi eða í lægra starfshlutfalli, þar með talin eru börn þeirra sem eru atvinnulausir. Næst á eftir koma börn foreldra sem eru yngri en 30 ára og síðan börn foreldra sem eru í leiguhúsnæði.
Fyrstu viðbrögð mín voru að það er afskaplega mikilvægt að í vinnu velferðarnefndar þessa dagana verði hugað sérstaklega að því að þær breytingar á húsnæðiskerfinu sem nú er unnið að komi þessum hópum til góða. Nefndin verður að fara vel yfir það. Ég er líka mjög hugsi yfir skorti hvað varðar félagslíf barna en niðurstöðurnar sýna að 5,1% barna líður skort á sviði félagslífs eða um 3.400 börn. Algengasta ástæðan er sú að barnið getur ekki boðið vinum heim til að borða eða leika. Félagsleg einangrun barna er alvarlegt mál. Stafar hún af skorti á efnislegum gæðum, ófullnægjandi heilbrigðisþjónustu við fjölskyldur, viðhorfum í samfélaginu eða einhverju öðru? Eru þetta sömu börnin og ekki geta tekið þátt í tómstundastarfi? Regluleg gagnaöflun um stöðu barna er mikilvæg og okkur ber stöðugt að vinna að velferð og tryggja réttindi þessa hóps.“
Líneik Anna Sævarsdóttir — í störfum þingsins 26. janúar 2016.

Categories
Fréttir

Dísilvélar keyrðar vegna skorts á rafmagni

Deila grein

28/01/2016

Dísilvélar keyrðar vegna skorts á rafmagni

Sigurður Páll Jónsson 005„Hæstv. forseti. Íslensk náttúra býr yfir mikilli fegurð, um það eru allir sammála, og er gríðarlega auðlindarík, bæði til sjávar og sveita. Af auðlindunum hefur þjóðin lifað frá því öndvegissúlur Ingólfs Arnarsonar ráku á land og jafnvel eitthvað fyrr. Ein er sú auðlind sem við Íslendingar höfum verið bæði þakklátir og stoltir af, en það eru fallvötnin sem með krafti sínum framleiða rafmagn þegar þau streyma í gegnum rafala sem komið hefur verið fyrir í byggingum virkjana vítt og breitt um landið á síðustu rúmum 100 árum. Virkjanamál okkar eru mikið mál sem flestir hafa skoðun á og ekki síst sú hlið sem kölluð er sjónmengun. Önnur mengun er minni vegna þess hreinleika sem í kröftunum er og framleiða rafmagnið, þ.e. vatninu. Hveravirkjanir eru nokkrar, vindorkuvirkjanir einhverjar, en sjávarfalla- og ölduvirkjanir að mestu enn á þróunarstigi. Eitthvað er um sólarrafhlöðuvirkjun, en þó aðallega til heimabrúks.
Þegar kemur að sjónmengun þykja loftlínur og þau stauravirki sem halda línunum uppi ekki mikil prýði og allra síst ef minnst er á að leggja þær yfir hálendið. Jarðstrengir er kostur sem byrjað er að nota í auknum mæli í háspennulögnum, en er þó dýrari í framkvæmd, en á móti kemur minni viðhaldskostnaður auk þess sem ísing og foktjón heyra sögunni til.
Þjónustuöryggi er sagt verulega ábótavant sakir flutningsgetu raflína annars vegar og mikils álags og aldurs lína hins vegar. Heyrt hef ég að á mestu annatímum á loðnuveiðum og -vinnslu séu vinnslur keyrðar á dísilvélum á sumum stöðum vegna skorts á rafmagni. Er þetta ekki eitthvað sem gæti verið í lagi ef rétt væri á málum haldið? Mitt álit er að umræða um virkjanamál sé ekki á góðum stað á Alþingi og því Alþingi ekki til sóma.“
Sigurður Páll Jónsson — í störfum þingsins 26. janúar 2016.
 

Categories
Fréttir

Skortur á efnislegum gæðum

Deila grein

28/01/2016

Skortur á efnislegum gæðum

Silja-Dogg-mynd01-vef„Hæstv. forseti. Á vef Hagstofunnar má finna skýrslu sem gefin var út í júlí 2015 um laun, tekjur og vinnumarkaðinn. Í skýrslunni er verið að mæla lífskjör fólks og bera saman hópa út frá skorti á efnislegum gæðum. UNICEF-skýrslan sem nokkrir þingmenn hafa rætt um nú þegar er að hluta til byggð á upplýsingum úr þessari skýrslu um félagsvísa. Í skýrslu Hagstofunnar kemur meðal annars fram að hlutfall fólks sem skorti efnisleg gæði á Íslandi lækkaði á milli áranna 2013 og 2014. Árið 2013 var þetta hlutfall á Íslandi það fimmta lægsta í Evrópu. Þegar skortur er greindur eftir atvinnustöðu skera öryrkjar sig úr, en fjórðung þeirra skorti efnisleg gæði. Hlutfallið er mun lægra meðal atvinnulausra, 12,5%, sem er samt líka of hátt. Skortur á efnislegum gæðum er tíðari meðal einstæðra foreldra og barna þeirra en á meðal annarra heimilisgerða. Þá var hlutfallið nokkuð hátt á meðal einstaklinga undir 65 ára sem búa einir, eða 15,1%.
Það sem kemur verulega á óvart í skýrslunni er staða eldri borgara, en þeir eru sá hópur sem skortir síst efnisleg gæði. Þar var hlutfallið aðeins 2,3%. Sá hópur kemur meira að segja betur út en fólk í fullri vinnu, en þar mælist skorturinn örlítið meiri, eða 3,2%. Með þessu er ég ekki að segja að allir eldri borgarar hafi það stórfínt, alls ekki. Enginn ætti að líða skort á Íslandi. Og á bak við hverja einustu prósentu er einstaklingur.
Virðulegi forseti. Umræðan um almannatryggingar hefur verið hávær að undanförnu. Við erum sammála um að við eigum að gæta okkar minnsta bróður. Þess vegna er mikilvægt að við byggjum á öruggum upplýsingum og beinum aðstoðinni til þeirra sem þurfa mest á henni að halda.“
Silja Dögg Gunnarsdóttir — í störfum þingsins 26. janúar 2016.

Categories
Fréttir

Framtíðarskipan húsnæðismála

Deila grein

28/01/2016

Framtíðarskipan húsnæðismála

Elsa-Lara-mynd01-vefur„Hæstv. forseti. Mig langar að fjalla í örstuttu máli um þingsályktunartillögu sem Alþingi samþykkti á sumarþingi 2013. Um var að ræða aðgerðaáætlun í tíu liðum þar sem meðal annars átti að taka á skuldavanda heimila, auka stöðugleika og gagnsæi á húsnæðislánamarkaði og vinna að framtíðarskipan húsnæðismála, þar á meðal úrbótum á leigumarkaði.
Liður tillögunnar númer 4 fjallaði um að hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra mundi skipa verkefnisstjórn um framtíðarskipan húsnæðismála. Verkefnisstjórnin hafði meðal annars það hlutverk að koma með tillögur að nýju húsnæðislánakerfi með það í huga að tryggja virkan leigumarkað og skilvirk félagsleg úrræði fyrir þá sem slíkt þyrftu.
Verkefnisstjórnin skilaði af sér tillögum árið 2014 og út frá þeirri vinnu komu síðan frumvörp og núna er unnið að þeim frumvörpum í velferðarnefnd. Um er að ræða fjögur frumvörp sem öll varða leigumarkaðsmál hér á landi. Margar umsagnir hafa borist um málin og flestar jákvæðar. Því ber að þakka því viðamikla samráði sem málin fóru í gegnum við vinnslu þeirra. Unnið er hratt og vel að því að klára þessi mál svo þau komist til umræðu og atkvæðagreiðslu í þingsal.
Eins og fram hefur komið í umræðu og kynningu þá eru frumvörpin fjögur:
Frumvarp til laga um almennar íbúðir fyrir efnaminni leigjendur sem felur í sér að byggja samtals 2.300 íbúðir á þessu ári og næstu þremur árum.
Frumvarp til laga um húsnæðisbætur sem felur í sér stóraukinn stuðning fyrir leigjendur. Þar eru frítekjumörk hækkuð og stuðningur miðast við fjölskyldustærð. Verið er að jafna stuðning milli ólíkra búsetuforma svo einstaklingar og fjölskyldur hafi raunverulegt val um búsetuform.
Auk þess er frumvarp um breytingu á lögum um húsnæðissamvinnufélög þar sem verið er að styrkja þau félög og auka íbúalýðræði, og frumvarp um breytingu á húsaleigulögum sem felur í sér aukin réttindi leigjenda og leigusala.
Í framhaldi af þessari vinnu taka svo verðtryggingarmálin við og úrlausnir í því hvernig við ætlum að auðvelda fólki að kaupa sér húsnæði. Þar þarf meðal annars að horfa til hvata til sparnaðar og þeirra skilyrði sem sett eru um greiðslumat.“
Elsa Lára Arnardóttir — í störfum þingsins 26. janúar 2016.

Categories
Fréttir

„Frekjukalla- og frekjukellingapólitík á ekki heima í þingsal.“

Deila grein

25/01/2016

„Frekjukalla- og frekjukellingapólitík á ekki heima í þingsal.“

Silja-Dogg-mynd01-vef„Hæstv. forseti. Kannanir sýna að fólk ber almennt ekki traust til Alþingis. Ef það er vilji þingmanna að auka traust almennings til Alþingis þá verðum við að greina hvar vandinn liggur og vera heiðarleg gagnvart sjálfum okkur í þeim efnum. Stalla mín, hv. þm. Brynhildur Pétursdóttir, hefur verið óþreytandi við að koma upp í þessa pontu og tala fyrir breyttum og bættum vinnubrögðum. Ég er oft sammála henni. Hæstv. forseti Einar Kr. Guðfinnsson hefur einnig talað fyrir bættum vinnubrögðum og auðvitað fleiri þingmenn hér. Ég vona að raunverulegur vilji sé að baki orðum okkar og að þau hafi áhrif.
Okkur varð lítið úr verki fyrir áramót, að hluta til vegna þess að málin komu seint inn frá ríkisstjórn en einnig vegna þess að þau sem rötuðu inn í sal Alþingis voru flestöll tekin í málþóf. Örfá þingmannamál komust á dagskrá þingsins fyrir áramót þar sem umræðan um þau strandaði á einu umdeildu máli, áfengisfrumvarpinu. Ég er til dæmis ekki hlynnt því frumvarpi en ég mun samt ekki standa að því að tefja að það komist til atkvæðagreiðslu.
Tilgangur umræðunnar í þingsalnum er að menn skiptist á skoðunum og dragi fram ólík sjónarmið. Síðan fara mál til nefnda þar sem umsagnir eru yfirfarnar og málin greind nánar. Til að bæta ásýnd þingsins sæi ég fyrir mér litla breytingu, t.d. að þingflokkar legðu aukna áherslu á að ná samkomulagi sín á milli um fjölda þingmanna sem taka þátt í umræðu hverju sinni. Þannig væri hægt að áætla þann tíma betur sem fer í umræðurnar og skipuleggja störf þingsins betur. Að auki þarf að afgreiða ákveðnar breytingar í þingskapanefnd, eins og komið hefur fram. Við getum ekki haldið áfram að haga okkur eins og við gerum. Frekjukalla- og frekjukellingapólitík á ekki heima í þingsal. Ábyrgðin er okkar.“
Silja Dögg Gunnarsdóttir — Í störfu þingsins 20. janúar 2016.

Categories
Fréttir

Urðum vitni að forsjálni, dugnaði og hugrekki björgunarsveita

Deila grein

21/01/2016

Urðum vitni að forsjálni, dugnaði og hugrekki björgunarsveita

líneik„Virðulegi forseti. Eins og kunnugt er gekk aftakaveður tvisvar yfir Austurland í lok síðasta árs, annars vegar óhemju úrkoma samfara miklum leysingum þann 28. desember og hins vegar hvassviðri samfara óvenjulágum loftþrýstingi og hárri sjávarstöðu þann 30. desember. Í bæði skiptin varð verulegt tjón á mannvirkjum og mikið rof á landi. Tjón varð á fasteignum, lausafé, samgöngumannvirkjum og vatns- og fráveitum vegna vatnsflóða og skriðufalla þann 28. desember víða um Austurland, m.a. tugmilljóna króna tjón á vegum. Þann 30. desember varð einnig tjón á fasteignum, lausafé, t.d. bílum og vélum, fráveitum, vegum, flugvöllum og hafnarmannvirkjum, vegna sjávarflóða og foks, einkum á svæðinu frá Djúpavogi á Eskifjörð.
Í þessu veðri urðum við vitni að forsjálni, dugnaði og hugrekki björgunarsveita og fjölda annarra sem forðuðu því að tjónið yrði meira en raun varð á. Margir unnu í kapp við veður og vatn til að forða tjóninu og á nokkrum stöðum komu síðan íbúar saman eftir veðrið og hreinsuðu umhverfið. Allt þetta fólk á miklar þakkir skildar.
Þá vil ég líka vekja athygli á því að forsætisráðherra kallaði strax saman viðbragðshóp ráðuneyta vegna ástandsins á Austurlandi sem hefur haft það hlutverk að afla upplýsinga til að fá yfirýn yfir það tjón sem varð. Sveitarfélögin, Viðlagatrygging, Minjastofnun og fleiri hafa unnið að öflun upplýsinga um tjónið á síðustu vikum og komið þeim áfram til ráðuneytisins. Á næstu dögum ættu því að liggja fyrir heildarupplýsingar um tjónið og að hversu miklu leyti þeir sem urðu fyrir því eiga rétt á bótum. Þá verður farið sérstaklega yfir það tjón sem fellur utan hefðbundinna trygginga og metið hvort og að hvaða marki yrði hugsanlega hægt að bæta það.“
Líneik Anna Sævarsdóttir — Í störfum þingsins miðvikudaginn 20. janúar 2016.

Categories
Fréttir

Auðlindagjaldið kom harðast niður á litlum og meðalstórum útgerðum

Deila grein

21/01/2016

Auðlindagjaldið kom harðast niður á litlum og meðalstórum útgerðum

sigurdur.pall„Hæstv. forseti. Fiskveiðikerfinu núverandi, núverandi kvótakerfi, var komið á 1983 og tók gildi 1984, um það leyti er sá er hér stendur að hefja sína trillumennsku, fyrir rúmum 30 árum. Um tíu árum seinna var þorskur kvótasettur á smábáta og seinna ýsa, steinbítur og aðrar tegundir. Neikvæð umræða í þjóðfélaginu um kvótakerfið og það að kvótinn sé að færast á fáar hendur kemur illa við litlar og meðalstórar og oftast skuldsettar útgerðir. Ein meginástæða þess að útgerðin er að færast á fáar hendur er að mínu mati þessi neikvæða umræða. Menn selja þeim stóru og hugsa sér að komast frá þessu áður en kerfið verður tekið af, en þeir stóru vita að áfram verður veiddur og verkaður fiskur. Þeir hafa tækin, tólin og þekkinguna.
Ef aflaheimildir verða boðnar upp af ríkinu sem sumir hafa lagt til mun stórútgerðin bjóða hæst. Þegar auðlindagjaldið var sett á í tíð síðustu ríkisstjórnar kom það harðast niður á litlum og meðalstórum útgerðum og stefndu margar í gjaldþrot þess vegna. Stórútgerðin hafði bolmagn í þessar aðgerðir þótt vissulega tæki það í.
Það er mín skoðun að kvótakerfið hafi reynst bæði stórum og smáum vel, og eins þjóðarbúinu í heild. Ef menn gætu séð inn í framtíðina í stað endalausrar óvissu vegna títtnefndrar neikvæðrar umræðu og gert áætlanir um fyrirtæki sín yrði reksturinn mun heilbrigðari vegna minni óvissu og nýliðun yrði þá álitlegur kostur fyrir unga útgerðarmenn, og konur að sjálfsögðu.
Sjálfbærar fiskveiðar okkar Íslendinga þar sem Hafró gefur út stofnstærðarmat sitt á fiskstofnum eftir undanfarnar rannsóknir og síðan veiðiráðgjöf til stjórnvalda sem farið hefur verið eftir í meginatriðum síðustu árin eru heilbrigðisvottorð um þá umgengni við fiskveiðar sem umheimurinn sættir sig við.“
Sigurður Páll Jónsson — Í störfum þingsins miðvikudaginn 20. janúar 2016.

Categories
Fréttir

„Og auðvitað bara plain aumingjar, ég vil ekkert að þeir séu fátækir heldur.“

Deila grein

21/01/2016

„Og auðvitað bara plain aumingjar, ég vil ekkert að þeir séu fátækir heldur.“

Þorsteinn-sæmundsson„Hæstv. forseti. Mig langar til að eiga orðastað við hv. þm. Helga Hrafn Gunnarsson. Kveikjan er viðtal við hv. þingmann í Viðskiptablaðinu í haust, 17. september, þar sem yfirskriftin er: Ekki réttlætismál að jafna tekjur. Þar segir hv. þingmaður að það sé einkaskoðun hans þar sem Píratar hafa ekki beina afstöðu til málsins. Hann segir sjálfur að það að jafna tekjur sé ekki réttlætismarkmið í sjálfu sér.
Nú langar mig til að spyrja hv. þingmann hvort þetta sé eitthvað sem hann hyggist færa inn í stefnu Pírata, t.d. fyrir næstu kosningar, að það sé ekki réttlætismál að jafna tekjur.
Síðan er hér önnur lína sem ég staldraði við. Nú vitna ég beint í þingmanninn, þ.e. ef Viðskiptablaðið hefur rétt eftir honum, með leyfi forseta:
„Mér finnst líka mikilvægt að enginn sé fátækur, það er ekki staðan í dag. Fullt af fólki er fátækt, sérstaklega öryrkjar, ellilífeyrisþegar og svo framvegis. Og auðvitað bara plain aumingjar, ég vil ekkert að þeir séu fátækir heldur.“
Ég geri ráð fyrir að þessi skoðun hans byggist á einhverri ákveðinni greiningu og nú langar mig að spyrja þingmanninn: Hversu stór er þessi síðastnefndi hópur? Fer hann stækkandi? Er hann kynbundinn? Eru fleiri konur en karlar þarna? Er hann svæðabundinn? Eru fleiri í þessum hópi á höfuðborgarsvæðinu eða úti á landsbyggðinni?
Þá hlýt ég líka að spyrja hvort hv. þingmaður hyggist beita sér fyrir því innan píratahópsins að eitthvað verði sérstaklega gert fyrir þennan hóp og þá hvað ef Píratar hafa ekki stefnu í þessu máli heldur.
Mig langar því til að hv. þingmaður svari fyrir mig og þjóðina þeim tveim spurningum sem ég lagði hérna fyrir hann.“
Þorsteinn Sæmundsson — Í störfum þingsins miðvikudaginn 20. janúar 2016.

Categories
Fréttir

Jafnrétti til búsetu um land allt!

Deila grein

21/01/2016

Jafnrétti til búsetu um land allt!

Þórunn„Hæstv. forseti. Ég vil hefja mál mitt á því að óska okkur öllum gleðilegs árs og fagna því að þing skuli vera komið saman á ný. Þá vil ég nota tíma minn í dag til að vekja athygli á fundi sem atvinnu- og byggðamálaráðherra og Byggðastofnun buðu þingmönnum til í gær. Tilefni fundarins var að nú er að hefjast vinna við gerð nýrrar byggðaáætlunar. Sú vinna byggir á lögum um byggðaáætlun og sóknaráætlanir frá 30. júní 2015. Með tilkomu þeirra laga verður sú breyting helst að gildistími byggðaáætlunar er nú sjö ár í stað fjögurra og einnig að hún nær líka til höfuðborgarsvæðisins. Með setningu þessara laga var verið að lögfesta vinnulag sem menn hafa verið að þróa og vinna áfram um nokkurt skeið. Í raun má rekja forsögu þessa allt til þjóðfundarins sem haldinn var í Laugardalshöll 2009 og sambærilegra funda í öllum landshlutum árið 2010. Með tilkomu sóknaráætlana hafa aukin völd og ábyrgð á útdeilingu fjármagns á sviði byggða- og samfélagsþróunar verið flutt til þeirra sem nær standa verkefnum og þekkja best til aðstæðna.
Til að gera langa sögu stutta er staðan sú að nú hafa þrír farvegir verið sameinaðir í einn, þ.e. framlög til sóknaráætlana, vaxtarsamninga og menningarsamninga, og við erum með heildarlög um byggðaáætlun og sóknaráætlanir. Þessu formi sem nú er búið að lögfesta er ætlað að bæta verklag við gerð stefnumótunar og áætlanagerðar á sviði byggðamála.
Ólíkt því sem tíðkast í nágrannalöndum okkar voru byggðamál áður eingöngu á hendi ríkisins og höfuðborgin stóð utan byggðamála. Það að líta á landið sem eina heild og öll byggðarlög sem mikilvægan hlekk í öflugu samfélagi okkar tel ég grunn að farsæld. Byggðaáætlun er á ábyrgð okkar allra og mikilvægt að sem flestir komi að gerð hennar. Ég fagna því að nú skuli áætlanir ná til lengri tíma. Það veitir meiri kjölfestu og er ekki háð dægursveiflu stjórnmálanna, heldur gefur okkur tækifæri til að móta stefnu til framtíðar svo hér megi áfram dafna byggð um allt land sem byggir á jafnrétti til búsetu. Munum að setja upp gleraugu byggðasjónarmiða í allri okkar vinnu og höldum áfram að ræða byggðamál því að þessi málaflokkur snertir okkur öll.“
Þórunn Egilsdóttir — Í störfum þingsins miðvikudaginn 20. janúar 2016.

Categories
Fréttir

Málþóf skapar erfiðan vinnuanda

Deila grein

21/01/2016

Málþóf skapar erfiðan vinnuanda

Elsa-Lara-mynd01-vefur„Hæstv. forseti. Hér í upphafi þingsins kem ég upp til að ræða störf þingsins. Mig langar að segja að ég tel að í upphafi þings sé okkur hv. þingmönnum öllum hollt að líta í eigin barm og skoða hvað við getum gert betur í störfum okkar.
Þetta segi ég af því að á síðustu vikum og dögum haustþings var erfiður vinnuandi og hlutirnir gengu verulega hægt vegna þess að hægt er að nota málþóf sem tæki til að reyna að koma málum sínum á framfæri og til að reyna að mótmæla öðrum þáttum.
Ég vil segja að ég tel mjög mikilvægt að sú nefnd sem nú er að störfum í þinginu, þingskapanefnd, fundi og reyni að finna lausn á þessum málum og komi fram með ramma sem væri til þess að auka virðingu þingsins og okkar sem hér störfum með betra vinnulagi. Það er afar brýnt að sú nefnd skili af sér störfum sem allra fyrst.
Í ræðu minni langar mig jafnframt til að hrósa hv. velferðarnefnd þingsins en þar er mikið álag þessa dagana þar sem stór og viðamikil velferðarmál eru til vinnslu er varða húsnæðismál. Þar eru fjögur húsnæðismál til umræðu. Nefndin hefur fyrir upphaf þings verið með aukafundi með lengdri fundarveru og mig langaði að nýta þetta tækifæri, því að þetta er mikið álag, til að þakka hv. þingmönnum sem eiga sæti í þeirri nefnd fyrir það verk.
Ég vona að við höldum áfram þeirri góðu samvinnu sem er í nefndinni um málin og reynum eftir fremsta megni að klára þau eins hratt og vel og hægt er.“
Elsa Lára Arnardóttir — Í störfum þingsins miðvikudaginn 20. janúar 2016.