Categories
Fréttir

Höfum alla burði til að framleiða eigið rafeldsneyti úr innlendri endurnýjanlegri orku

Deila grein

13/03/2024

Höfum alla burði til að framleiða eigið rafeldsneyti úr innlendri endurnýjanlegri orku

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður, var málshefjandi í sérstakri umræðu um rafeldsneytisframleiðslu á Alþingi í vikunni. Sagði hún að spara mætti gjaldeyri og auka orkusjálfstæði Íslendinga enn frekar og skapa ákveðið forskot. Það verði þó ekki gert nema með skýrum „áherslum stjórnvalda varðandi rafeldsneytisframleiðslu á Íslandi, svo sem varðandi þýðingu eða vægi hennar í orkuskiptum, hver áætluð innanlandsþörf er, stefnu um framleiðslu umfram innanlandsþörf og öflun eða framboð orku til framleiðslunnar og mögulega samstarfsaðila og eignarhald.“ Rafeldsneyti getur t.d. verið vetni, ammoníak, metanól eða metan.

„Við verðum að horfa til framtíðar og til allra þátta orkuskiptanna. Rafmagn notast ekki beint til orkuskipta á stærri farartækjum, stórum flutningabílum, vinnuvélum, stærri skipum eða í millilandaflugi.

Í stað rafmagns á rafgeymum þarf eldsneyti til að knýja þessi farartæki. Þess vegna þarf að tryggja aðgengi að eldsneyti ef full orkuskipti eiga að nást í samgöngumál á Íslandi og til og frá landinu,“ sagði Líneik Anna.

„Íslendingar ættu að hafa alla burði til að framleiða eigið rafeldsneyti úr innlendri endurnýjanlegri orku, spara þannig gjaldeyri og auka orkusjálfstæði enn frekar. Raunar má segja að Íslendingar gætu haft ákveðið forskot inn á þennan markað, en ekkert gerist af sjálfu sér.“

Fjöldi álitaefna þarf að ræða

„Framleiðsla af þessu tagi yrði stórframleiðsla raforku á alþjóðasamkeppnismarkaði og framleiðslan félli því í flokk stórnotenda eins og stóriðja. Þá er ljóst að viðskipta- og tækniumhverfið er býsna flókið. Framleiðsla er eitt og notkun innan lands annað og það er ekkert sem segir að framleiðsla og innleiðing notkunar innan lands haldist í hendur í upphafi, hvorki hvað varðar magn né tegund eldsneytis,“ sagði Líneik Anna og hélt áfram, „[þ]ví velti ég fyrir mér hvort fram hafi farið greining á ávinningi af því að framleiða rafeldsneyti á Íslandi og hvaða áskoranir og tækifæri kunni að fylgja slíkri framleiðslu í ljósi sjálfbærni og skuldbindinga Íslands í loftslagsmálum.

  • Hafa stjórnvöld látið greina innanlandsþörfina og hvort innanlandsþörf ein geti staðið undir hagkvæmri framleiðslu?
  • Ef grundvöllur framleiðslunnar kallar á framleiðslu til útflutnings samhliða, hversu mikla endurnýjanlega orku úr íslenskri náttúru erum við sem samfélag tilbúin að nota til framleiðslu eldsneytis til útflutnings?“

Ræða Líneikar Önnu í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra fyrir að koma hér til að ræða um rafeldsneytisframleiðslu. Sumum kann að þykja sérstakt að setja þessa umræðu í forgang í ljósi stöðu á raforkumarkaði þessi misserin. En það verður að segjast eins og er að fátt bar hærra í kjördæmaviku okkar þingmanna í Norðausturkjördæmi en raforkuskortur sem sett hefur fyrirtæki í þá stöðu að auka olíunotkun eða draga úr framleiðslu þannig að við verðum af gjaldeyristekjum alla daga. Þrátt fyrir þessa stöðu, sem auðvitað er afleit, vil ég leggja á það áherslu að samhliða því að greiða úr viðfangsefnum dagsins í dag verðum við að horfa til framtíðar og til allra þátta orkuskiptanna. Rafmagn notast ekki beint til orkuskipta á stærri farartækjum, stórum flutningabílum, vinnuvélum, stærri skipum eða í millilandaflugi. Í stað rafmagns á rafgeymum þarf eldsneyti til að knýja þessi farartæki. Þess vegna þarf að tryggja aðgengi að eldsneyti ef full orkuskipti eiga að nást í samgöngumál á Íslandi og til og frá landinu.

Ýmsar áskoranir fylgja því að binda orkuna í rafeldsneyti. Þar er t.d. mikilvægt að sem minnst orka tapist í vinnsluferlinu, eldsneyti taki ekki of mikið pláss, sé auðvelt í flutningi og framleiðslan valdi ekki mengun eða óafturkræfum umhverfisáhrifum. Rafeldsneyti getur t.d. verið vetni, ammoníak, metanól eða metan. Íslendingar ættu að hafa alla burði til að framleiða eigið rafeldsneyti úr innlendri endurnýjanlegri orku, spara þannig gjaldeyri og auka orkusjálfstæði enn frekar. Raunar má segja að Íslendingar gætu haft ákveðið forskot inn á þennan markað, en ekkert gerist af sjálfu sér. Þess vegna er mikilvægt að ræða þennan þátt orkuskiptanna hér í þingsal og í umræðunni kalla ég eftir áherslum stjórnvalda varðandi rafeldsneytisframleiðslu á Íslandi, svo sem varðandi þýðingu eða vægi hennar í orkuskiptum, hver áætluð innanlandsþörf er, stefnu um framleiðslu umfram innanlandsþörf og öflun eða framboð orku til framleiðslunnar og mögulega samstarfsaðila og eignarhald.

Ég geri mér ljóst að fjöldi álitaefna kunni að vera uppi en það eru einmitt þau sem við þurfum að ræða. Framleiðsla af þessu tagi yrði stórframleiðsla raforku á alþjóðasamkeppnismarkaði og framleiðslan félli því í flokk stórnotenda eins og stóriðja. Þá er ljóst að viðskipta- og tækniumhverfið er býsna flókið. Framleiðsla er eitt og notkun innan lands annað og það er ekkert sem segir að framleiðsla og innleiðing notkunar innan lands haldist í hendur í upphafi, hvorki hvað varðar magn né tegund eldsneytis. Því velti ég fyrir mér hvort fram hafi farið greining á ávinningi af því að framleiða rafeldsneyti á Íslandi og hvaða áskoranir og tækifæri kunni að fylgja slíkri framleiðslu í ljósi sjálfbærni og skuldbindinga Íslands í loftslagsmálum. Hafa stjórnvöld látið greina innanlandsþörfina og hvort innanlandsþörf ein geti staðið undir hagkvæmri framleiðslu? Ef grundvöllur framleiðslunnar kallar á framleiðslu til útflutnings samhliða, hversu mikla endurnýjanlega orku úr íslenskri náttúru erum við sem samfélag tilbúin að nota til framleiðslu eldsneytis til útflutnings?

Það liggur fyrir að erlendir fjárfestar sem hafa sérþekkingu á framleiðslu rafeldsneytis telja framleiðslu fýsilega hér á landi og hafa töluverðan áhuga á að fjárfesta, bæði í orkuöflun og innviðum til framleiðslu. Þessir sömu aðilar búa líka yfir mikilvægri þekkingu á framleiðslunni og a.m.k. sumir hafa yfirsýn um framtíðarþörf og uppbyggingu markaða á heimsvísu. Í því ljósi álít ég mikilvægt að við ræðum kosti og galla erlendra fjárfestinga á þessu sviði og hvort og þá hvernig stjórnvöld hvetji til fjárfestinga í rafeldsneytisframleiðslu. Ef rafeldsneytisframleiðsla á að verða að veruleika þarf meiri orku og hefur verið horft til nýtingar vindorkunnar í því sambandi. Nýting vindorku kallar á jöfnunarraforku frá vatnsafli. Það er því ljóst að lög og reglur varðandi virkjun vindsins og sátt um afgjald vegna orkuframleiðslu til nærsamfélaga mun hafa áhrif á áform um framleiðslu rafeldsneytis.

Að lokum vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Er eitthvað í núverandi lagaumgjörð sem stendur í vegi fyrir rafeldsneytisframleiðslu hér á landi og hvaða ákvarðanir þurfa stjórnvöld og löggjafinn að taka til þess að slík framleiðsla gæti hafist?“

Categories
Fréttir

„Mér fannst umræðan ná nýrri lægð síðustu vikurnar“

Deila grein

13/03/2024

„Mér fannst umræðan ná nýrri lægð síðustu vikurnar“

Brynja Dan Gunnarsdóttir, varaþingmaður, fór í störfum þingsins yfir mikilvægi aðgerðaráætlunar gegn hatursorðræðu og að sveitarfélög búi yfir skýru verklagi og viðbragði við rasisma.

„Á síðasta þingi var lögð fram aðgerðaáætlun gegn hatursorðræðu sem náði því miður ekki fram að ganga en það þýðir ekki að ráðuneytin og sveitarfélögin geti ekki farið í fræðslu fyrir sína starfsmenn um þessi mál. Þess vegna hef ég lagt fram fyrirspurnir til innviðaráðherra um fræðslu hjá sveitarfélögum og til allra ráðherra um fræðslu innan þeirra ráðuneyta,“ sagði Brynja Dan.

„Ég vil einhvern veginn aldrei vera viðkvæm eða setja sjálfa mig inn í þessa jöfnu en það er víst þannig að minn veruleiki er að vissu leyti annar en ykkar flestra og ég á til að mynda önnur samtöl við barnið mitt en þið flest sem hér inni sitja,“ sagði Brynja Dan og hélt áfram, „[é]g bý við forréttindastöðu þegar kemur að mörgu en ég finn sterkt í ýmsum aðstæðum að ég er oft ein eða ein af mjög fáum með annan húðlit. Ísland hefur verið einstaklega einsleitt samfélag en það er sem betur fer að breytast. Það væri svo frábært ef öll sveitarfélög væru með verklag, forvarnir og aðgerðaáætlun þegar upp kemur rasismi í skólum, leikskólum, innan íþróttahreyfingarinnar eða annars staðar í samfélaginu. Það myndi veita öryggi, traust og utanumhald fyrir jaðarsetta hópa.“

„Ég hvet því allar sveitarstjórnir til að taka þessu alvarlega, að setja af stað einhvers konar aðgerðaáætlun sem unnin er með fagfólki, taka af skarið og vera leiðandi. En staðreyndin er sú að þeir sem eru af erlendu bergi brotnir búa við annan veruleika og það þarf að hafa skýrt verklag og viðbragð við rasisma.

Að því sögðu vil ég nota tækifærið og hrósa Menntaskólanum að Laugarvatni fyrir afdráttarlausa afstöðu og vönduð vinnubrögð í síðustu viku þegar mál af þessum toga kom upp,“ sagði Brynja Dan að lokum.

***

Ræða Brynju Dan í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegi forseti. Á síðasta þingi var lögð fram aðgerðaáætlun gegn hatursorðræðu sem náði því miður ekki fram að ganga en það þýðir ekki að ráðuneytin og sveitarfélögin geti ekki farið í fræðslu fyrir sína starfsmenn um þessi mál. Þess vegna hef ég lagt fram fyrirspurnir til innviðaráðherra um fræðslu hjá sveitarfélögum og til allra ráðherra um fræðslu innan þeirra ráðuneyta. En af hverju er ég að tala um þetta núna? Jú, því að mér fannst umræðan ná nýrri lægð síðustu vikurnar. Ég vil einhvern veginn aldrei vera viðkvæm eða setja sjálfa mig inn í þessa jöfnu en það er víst þannig að minn veruleiki er að vissu leyti annar en ykkar flestra og ég á til að mynda önnur samtöl við barnið mitt en þið flest sem hér inni sitja. Ég bý við forréttindastöðu þegar kemur að mörgu en ég finn sterkt í ýmsum aðstæðum að ég er oft ein eða ein af mjög fáum með annan húðlit. Ísland hefur verið einstaklega einsleitt samfélag en það er sem betur fer að breytast. Það væri svo frábært ef öll sveitarfélög væru með verklag, forvarnir og aðgerðaáætlun þegar upp kemur rasismi í skólum, leikskólum, innan íþróttahreyfingarinnar eða annars staðar í samfélaginu. Það myndi veita öryggi, traust og utanumhald fyrir jaðarsetta hópa. Ég hvet því allar sveitarstjórnir til að taka þessu alvarlega, að setja af stað einhvers konar aðgerðaáætlun sem unnin er með fagfólki, taka af skarið og vera leiðandi. En staðreyndin er sú að þeir sem eru af erlendu bergi brotnir búa við annan veruleika og það þarf að hafa skýrt verklag og viðbragð við rasisma.

Að því sögðu vil ég nota tækifærið og hrósa Menntaskólanum að Laugarvatni fyrir afdráttarlausa afstöðu og vönduð vinnubrögð í síðustu viku þegar mál af þessum toga kom upp.“

Categories
Fréttir Greinar

Sam­staða um aukna vel­sæld

Deila grein

13/03/2024

Sam­staða um aukna vel­sæld

Skrifað hefur verið undir langtíma kjarasamning milli Samtaka atvinnulífsins og SGS, Eflingar og Samiðnar – breiðfylkingar stéttarfélaga á almennum vinnumarkaði. Það er rétt að hrósa samningsaðilum fyrir þeirra góðu vinnu og þann metnað sem lagður var í það verkefni að ná saman. Samningarnir skipta okkur sem samfélag gríðarlega miklu máli, sér í lagi í baráttunni við að ná niður verðbólgu. Hér hefur fólk ákveðið að standa bak í bak með það að markmiði að bæta lífskjör hér á landi, lækka vexti, minnka verðbólgu og auka kaupmátt.

Á samningstímanum verða lagðir allt að 80 milljarðar í aðgerðir sem eiga að m.a. að stuðla að heilbrigðari húsnæðismarkaði og fjölskylduvænna samfélagi samhliða. Með þessum aðgerðum munu ráðstöfunartekjur fjölskyldna aukast verulega á samningstímanum, eða um allt að 500 þúsund krónur á ári.

Mikill ávinningur

Ríkisstjórnin og Samband íslenskra sveitarfélaga lögðu lóð á vogarskálarnar við gerð þessara samninga með aðgerðum til næstu fjögurra ára. Hér vilja allir leggjast á eitt við að auka velsæld. Almennt má segja að kjarasamningarnir samrýmist þeim spám sem hafa komið út nýlega og gera ráð fyrir áframhaldandi markverðri lækkun verðbólgu í ár sem tryggja á lækkun vaxta.

Mikill ávinningur er af lækkun á vaxtastigi hvort sem er fyrir heimilin í landinu, fyrirtæki, ríki og sveitarfélög. Fyrir heimili sem skuldar 40 m.kr. húsnæðislán er 1% lækkun um 400 þús. kr. á ári. Ef við horfum til sveitarfélaganna má gera ráð fyrir að 1% lækkun á vöxtum samsvari um 5,7-6,0 milljörðum króna. Þá er rétt að það komi fram að skuldir ríkissjóðs eru með föstum kjörum. Það þýðir að vaxtalækkun hefur eingöngu áhrif á nýjar lántökur. Fyrir hvern 1 milljarð sem ríkið tekur að láni þýða 1% lægri vextir 10 m.kr. lægri vaxtagjöld á ári. Það er fljótt að safnast saman við hverja prósentulækkun og til mikils að vinna.

Öruggt heimili fyrir alla

Aukinn stöðugleika á húsnæðismarkaði og vinna gegn auknum kostnaði almennings vegna húsnæðis er forgangsmál og nú þegar er búið að fjármagna þær aðgerðir. Heilbrigður húsnæðismarkaður er mikilvæg kjarabót fyrir almenning í landinu. Til að mæta auknum vaxtakostnaði heimila nú um stundir verða á árinu 2024 greiddir út allt að 7 milljarðar króna í sérstakan vaxtastuðning til heimila með íbúðalán. Stuðningurinn tekur mið af vaxtagjöldum ársins 2023 og kemur til viðbótar almennum vaxtabótum. Þessu til viðbótar og til að daga úr íþyngjandi húsnæðiskostnaði leigjenda verða húsnæðisbætur hækkaðar frá 1. júní nk. og munu grunnfjárhæðir húsnæðisbóta til leigjenda hækka um 25%, auk þess sem tillit verður tekið til fjölskyldustærðar þannig að greiddar verða húsnæðisbætur fyrir allt að sex heimilismenn í stað fjögurra áður.

Fyrir fjölskyldurnar í landinu

Sérstök áhersla er lögð á stuðla að fjölskylduvænna samfélagi með aðgerðum sem miða að því að auka velsæld barnafjölskyldna. Auka á framlög til barnabóta um 18 milljarða króna á samningstímanum. Barnabætur verða hækkaðar og dregið verður úr tekjuskerðingum sem mun fjölga þeim foreldrum sem fá stuðning um 10.000. Þá verður útfærð leið til að skólamáltíðir grunnskólabarna verði gjaldfrjálsar frá og með ágúst 2024. Þessum lið fögnum við sérstaklega enda mikilvægt að öll börn eigi kost á hollum og staðgóðum skólamáltíðum. Hér er um lýðheilsu- og jafnréttismál að ræða. Við í Framsókn höfum í gegnum árin lagt mikla áherslu á að bæta fæðingarorlofskerfið og með þeim aðgerðum sem hér hafa verið lagðar til verða hámarksgreiðslur úr Fæðingarorlofssjóði hækkaðar í þremur áföngum á næstu tveimur árum. Þá munu stjórnvöld og sveitarfélögin taka höndum saman og vinna með markvissum hætti að því að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla á samningstímanum með því að tryggja öllum börnum leikskólavist.

Markvisst er unnið að því að draga úr kostnaði við að sækja heilbrigðisþjónustu fjarri heimabyggð. Á síðasta ári bætti heilbrigðisráðherra við þriðju flugferðinni og með þessum aðgerðum eru þær nú orðnar fjórar. Þá á að gera breytingar á lögum um Menntasjóð námsmanna sem lúta að því að létta vaxtabyrði og draga úr skyndilegum og ófyrirséðum hækkunum vegna verðbólgu og vaxta á afborganir námslána. Þá líkt og lengi hefur verið kallað eftir á að afnema ábyrgðarmannakerfi námslána. Fleiri aðgerðir eru hér lagðar til og um þær má lesa á vef Stjórnarráðsins, en allar miða þær að sama marki; styðja með öflugum hætti við fólkið í landinu og lækkun verðbólgu og vaxta.

Mál málanna

Allt of lengi höfum við verið að berjast við að ná niður verðbólgunni og vaxtakostnaður hefur rokið upp úr öllu valdi með tilheyrandi hækkunum og þar með minnkandi ráðstöfunartekjum. Með þessum samningum og sér í lagi loforðum ríkis og sveitarfélaga um að halda aftur að gjaldskrárhækkunum er verið að bregðast við með markvissum hætti. Við höfum áður rætt um hvað einkennir gott samfélag, það er að standa saman og rétta fram hjálparhönd. Um þessar mundir reynir á að sýna samstöðu og samfélagslega ábyrgð í því verkefni að ná niður verðbólgu. Því vil viðbótar köllum við eftir að hin „breiðu bök“ standi nú með þjóðinni á vegi til aukinnar velsældar.

Fyrir þetta stendur Framsókn – framtíðin ræðst á miðjunni.

Ágúst Bjarni Garðarsson, þingmaður Framsóknar

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar

Þórarinn Ingi Pétursson, þingmaður Framsóknar

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmaður Framsóknar 

Ingibjörg Isaksen, þingmaður Framsóknar

Greinin birtist fyrst á visir.is 13. mars 2024.

Categories
Fréttir

„Sameiginlegt markmið að ná niður verðbólgu og vaxtastigi í landinu“

Deila grein

12/03/2024

„Sameiginlegt markmið að ná niður verðbólgu og vaxtastigi í landinu“

„Nú er það í annað sinn sem ríkisstjórn sem er skipuð Framsókn, Sjálfstæðisflokki og Vinstri hreyfingunni- Grænu framboði nær samtali við aðila vinnumarkaðarins og ég held að það sé engin tilviljun. Það var einnig gert í Lífskjarasamningunum á sínum tíma og þá var einnig horft til kjarasamnings til nokkurra ára,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra og formaður Framsóknarflokksins, í þættinum Silfrinu á RÚV í gær.

„Nú þegar við erum að horfa til fjögurra ára þá getur ríkið og sveitarfélög komið fram með þetta sameiginlega markmið, sem er aðalatriðið, að ná niður verðbólgu og vaxtastigi í landinu. Og ef allir einblíndu á það, þá gátum við miðað okkar aðgerðir að því og höfðað til þess að fleiri kæmu að borðinu í kjölfarið og það höfum við verið að sjá nú þegar.“

Aðrir þátttakendur í pallborðinu voru Elliði Vignisson bæjarstjóri í Ölfusi, Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar og Hanna Katrín Friðriksson alþingismaður. Var helsta umræðuefni þáttarins um kjarasamningana á almenna vinnumarkaðnum og tugmilljarða aðkomu ríkisins.

Categories
Fréttir

Fundað með fulltrúum smærri fyrirtækja í Grindavík

Deila grein

11/03/2024

Fundað með fulltrúum smærri fyrirtækja í Grindavík

Þingflokkur Framsóknar fundaði síðastliðinn föstudag með fulltrúum smærri fyrirtækja í Grindavík. Fundurinn var fjölmennur og einkenndist af hreinskiptnu samtali og góðum umræðum.

Þær áskoranir sem blasa við Grindvíkingum eru stórar og margvíslegar. Mikill kraftur hefur einkennt atvinnulífið í Grindavík og verðmætasköpun fyrirtækja í Grindavík skiptir þjóðarbúið verulegu máli.

Samstaða fólksins er aðdáunarverð þrátt fyrir allt sem við blasir og þá óvissu sem ríkir enn um sinn. Á fundinum kom fram skýrt ákall um stuðning og aukinn fyrirsjáanleika.

Categories
Fréttir

„Rétt næring er liður í forvörnum og lýðheilsu“

Deila grein

11/03/2024

„Rétt næring er liður í forvörnum og lýðheilsu“

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður, tók undir ályktun sveitarstjórnarráðs Framsóknar, í störfum þingsins, um að sveitarfélög tryggi gjaldfrjálsar skólamáltíðir í grunnskólum líkt og að ríkisstjórnin hafi þegar samþykkt. Sú áhersla væri enda í anda Framsóknar að setja fjölskyldufólk í forgang.

Sagði hún miklvægt að þjóðarsátt sé um slíkar áherslur, enda „liður í átt að markmiðum okkar um að ná niður verðbólgu og vöxtum í landinu enda myndu allir vinna með því, bæði heimili og sveitarfélög,“ sagði Halla Signý.

„Mikilvægi skólamáltíða fyrir skólastarfið sjálft er mikið. Góð næring er nauðsynleg fyrir skóladaginn og mikilvægur liður í því að jafna kjör og aðstæður barna að öll börn eigi kost á hollum og staðgóðum skólamáltíðum. Það er ekki aðeins brýnt til að draga úr ójöfnuði heldur einnig heilsufarslegt og uppeldislegt atriði. Næring er þýðingarmikil fyrir þroska nemenda og starfsorku og rétt næring er liður í forvörnum og lýðheilsu.“

„Börnin búa við misjöfn kjör og koma úr misjöfnum aðstæðum en þegar þau setjast við morgunhressinguna í skólanum koma þau öll að sama borði. Börn í Reykjavík greiða að jafnaði 12.836 kr. á mánuði fyrir skólamáltíð og eru það um 115.000 kr. yfir veturinn fyrir barnið. Foreldrar greiða þó ekki nema fyrir tvö börn og fá frítt fyrir það þriðja. Þótt þetta sé ekki há upphæð þá getur munað um 230.000 kr. yfir veturinn.“

„Mörg sveitarfélög bjóða nú upp á gjaldfrjálsar skólamáltíðir, t.d. Fjarðabyggð og Vogar, og enn fleiri sveitarfélög hafa lagt mikið kapp á það á undanförnum árum að niðurgreiða skólamáltíðir í grunnskólum. Nú er hins vegar tímabært að taka af skarið og stíga skrefið til fulls,“ sagði Halla Signý að lokum.


Ræða Höllu Signýjar í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegi forseti. Ég er sammála ályktun sveitarstjórnarráðs Framsóknar sem kemur inn á að sveitarfélög tryggi gjaldfrjálsar skólamáltíðir í grunnskólum, eins og ríkisstjórnin hefur samþykkt, enda er það í anda Framsóknar að setja fjölskyldufólk í forgang. Kjarasamningar eru í vinnslu og þessi aðgerð myndi greiða fyrir gerð þeirra. Það er mikilvægt að þjóðarsátt náist um jafn mikilvægt mál, öllum til heilla. Það væri liður í átt að markmiðum okkar um að ná niður verðbólgu og vöxtum í landinu enda myndu allir vinna með því, bæði heimili og sveitarfélög. Mörg sveitarfélög í landinu eru skuldug og finna því áþreifanlega fyrir hærri verðbólgu og því vaxtastigi sem nú ríkir í landinu. Mikilvægi skólamáltíða fyrir skólastarfið sjálft er mikið. Góð næring er nauðsynleg fyrir skóladaginn og mikilvægur liður í því að jafna kjör og aðstæður barna að öll börn eigi kost á hollum og staðgóðum skólamáltíðum. Það er ekki aðeins brýnt til að draga úr ójöfnuði heldur einnig heilsufarslegt og uppeldislegt atriði. Næring er þýðingarmikil fyrir þroska nemenda og starfsorku og rétt næring er liður í forvörnum og lýðheilsu. Börnin búa við misjöfn kjör og koma úr misjöfnum aðstæðum en þegar þau setjast við morgunhressinguna í skólanum koma þau öll að sama borði. Börn í Reykjavík greiða að jafnaði 12.836 kr. á mánuði fyrir skólamáltíð og eru það um 115.000 kr. yfir veturinn fyrir barnið. Foreldrar greiða þó ekki nema fyrir tvö börn og fá frítt fyrir það þriðja. Þótt þetta sé ekki há upphæð þá getur munað um 230.000 kr. yfir veturinn.

Virðulegi forseti. Mörg sveitarfélög bjóða nú upp á gjaldfrjálsar skólamáltíðir, t.d. Fjarðabyggð og Vogar, og enn fleiri sveitarfélög hafa lagt mikið kapp á það á undanförnum árum að niðurgreiða skólamáltíðir í grunnskólum. Nú er hins vegar tímabært að taka af skarið og stíga skrefið til fulls.“

Categories
Fréttir

„Það skiptir mjög miklu máli að vera í góðu sambandi“

Deila grein

11/03/2024

„Það skiptir mjög miklu máli að vera í góðu sambandi“

„Það er okkur flestum eðlislægt að hringja eða svara símanum. Hér á landi eru aftur og aftur á móti margir sem geta það ekki heima hjá sér eða á svæðinu í kringum heimili sitt sökum lélegs símasambands,“ sagði Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, alþingismaður, í störfum þingsins.

Benti hún á að fólk nái ekki að virkja rafræn skilríki, enda þurfi símasamband til. Fólk hafi því þann einn kost að ferðast frá heimili sínu til að reka erindi sem felstum örðum þykir sjálfsagt að gera heima hjá sér.

„Það að vera í góðu símasambandi snýst ekki einungis um hentugleika heldur er þetta fyrst og fremst öryggismál, bæði innan sem utan heimilis. Það er ekki einungis mikilvægt að huga að góðu símasambandi á heimili fólks því á vegum landsins eru líka margir staðir þar sem er lítið eða ekkert símasamband og það hefur margoft skapað mjög erfiðar aðstæður vegna slysa eða annarra vandræða sem koma upp,“ sagði Lilja Rannveig.

„Það var því mjög gott að sjá fréttir vikunnar þar sem samið var um að byggja upp 24 fjarskiptasenda við stofnvegi á Vestfjörðum. Sú aðgerð skiptir miklu máli fyrir öryggi fólks á vegum landsins sem og þeirra sem búa í nágrenni við sendana. Meðan við fögnum því höldum við samt áfram að þrýsta á frekari uppbyggingu við stofnvegi um allt land sem og tengivegi og heimili fólks. Sjálf hefði ég viljað að áherslan hefði fyrst verið lögð á að byggja upp símasamband við heimili fólks en ég fagna þó öllum þeim framförum sem eiga sér stað í fjarskiptamálum á Íslandi því að það skiptir mjög miklu máli að vera í góðu sambandi,“ sagði Lilja Rannveig að lokum.


Ræða Lilju Rannveigar í heild sinni á Alþingi:

„Hæstv. forseti. Það er okkur flestum eðlislægt að hringja eða svara símanum. Hér á landi eru aftur og aftur á móti margir sem geta það ekki heima hjá sér eða á svæðinu í kringum heimili sitt sökum lélegs símasambands. Þau lenda t.d. í vandræðum með að virkja rafræn skilríki því það krefst þess að viðkomandi sé í símasambandi og því þurfa þau að ferðast frá heimili sínu til að vinna að ýmsu sem mörg okkar telja sjálfsagt. Það að vera í góðu símasambandi snýst ekki einungis um hentugleika heldur er þetta fyrst og fremst öryggismál, bæði innan sem utan heimilis. Það er ekki einungis mikilvægt að huga að góðu símasambandi á heimili fólks því á vegum landsins eru líka margir staðir þar sem er lítið eða ekkert símasamband og það hefur margoft skapað mjög erfiðar aðstæður vegna slysa eða annarra vandræða sem koma upp. Það var því mjög gott að sjá fréttir vikunnar þar sem samið var um að byggja upp 24 fjarskiptasenda við stofnvegi á Vestfjörðum. Sú aðgerð skiptir miklu máli fyrir öryggi fólks á vegum landsins sem og þeirra sem búa í nágrenni við sendana. Meðan við fögnum því höldum við samt áfram að þrýsta á frekari uppbyggingu við stofnvegi um allt land sem og tengivegi og heimili fólks. Sjálf hefði ég viljað að áherslan hefði fyrst verið lögð á að byggja upp símasamband við heimili fólks en ég fagna þó öllum þeim framförum sem eiga sér stað í fjarskiptamálum á Íslandi því að það skiptir mjög miklu máli að vera í góðu sambandi.“

Categories
Fréttir Greinar

Kjarasamningar fyrir börn og barnafjölskyldur

Deila grein

11/03/2024

Kjarasamningar fyrir börn og barnafjölskyldur

Í sam­fé­lagi nú­tím­ans hef­ur mik­il­vægi þess að skapa styðjandi vinnu­um­hverfi fyr­ir fjöl­skyld­ur aldrei verið meira. Sem mennta- og barna­málaráðherra er ég stolt­ur stuðnings­maður þeirr­ar mik­il­vægu vinnu sem áunn­ist hef­ur með ný­und­ir­rituðum kjara­samn­ing­um breiðfylk­ing­ar­inn­ar og sam­taka at­vinnu­lífs­ins, með öfl­ugri aðkomu rík­is og sveit­ar­fé­laga. Þeir samn­ing­ar sem hér um ræðir eru ekki aðeins lög­fræðileg skjöl; þeir eru vitn­is­b­urður um skuld­bind­ingu of­an­greindra aðila við að byggja sam­fé­lag sem met­ur vel­ferð hverr­ar fjöl­skyldu og hvers barns.

Fram­ganga sveit­ar­stjórn­ar­fólks Fram­sókn­ar á þess­ari veg­ferð hef­ur fyllt mig stolti. Enn frem­ur er full ástæða til að hrósa aðilum vinnu­markaðar og þá sér­stak­lega breiðfylk­ing­unni og verka­lýðshreyf­ing­unni í heild fyr­ir að taka skýra af­stöðu með börn­um og fjöl­skyld­um þeirra, en ekki síður að hafa tekið af full­um þunga þátt í því að skapa grund­völl fyr­ir vel­sæld og stöðug­leika í land­inu.

Ég er full­viss um að af­drátt­ar­laus aðkoma rík­is og sveit­ar­fé­laga að samn­ing­un­um hafa í för með sér fram­fara­skref fyr­ir þjóðina og er það á ábyrgð okk­ar allra nú að leggj­ast á eitt til að ná þeim mark­miðum sam­an. Um­fram allt er það mikið fagnaðarefni að í aðgerðapakka stjórn­valda sé skýr áhersla á að fjár­festa í börn­um og barna­fjöl­skyld­um. Það hef­ur aldrei verið brýnna að for­gangsraða í þágu jafnra tæki­færa og lífs­gæða þess hóps, sam­hliða því sem við sjá­um auk­in merki þess að efn­is­leg­ur skort­ur og ójöfnuður meðal barna sé að aukast.

Aðgerðapakki stjórn­valda mun stuðla að aukn­um lífs­gæðum og jöfnuði meðal barna- og fjöl­skyldna. Ein af stærri áhersl­um aðgerðapakk­ans er breyt­ing­ar á barna­bóta­kerf­inu. Barna­bæt­ur verða hækkaðar, sam­hliða því sem dregið verður úr tekju­skerðingu þeirra. Um 10.000 fleiri for­eldr­ar og for­sjáraðilar munu fá greidd­ar barna­bæt­ur.

Öllum börn­um á grunn­skóla­aldri verða tryggðar gjald­frjáls­ar skóla­máltíðir. Reynsla ná­granna­ríkja á borð við Finn­land hef­ur sýnt að hér er um að ræða risa­stórt skref í átt að aukn­um jöfnuði fyr­ir öll börn. Skóla­kerfið er lang­öflug­asta jöfn­un­ar­tækið okk­ar og með því að fjár­festa í gjald­frjáls­um skóla­máltíðum efl­um við það enn frek­ar. Það er gam­an að geta þess að þessi aðgerð er einnig í sam­ræmi við eitt af áherslu­atriðum Barnaþings. Barnaþings­menn síðustu ára hafa lagt ríka áherslu á að komið verði á gjald­frjáls­um skóla­máltíðum, með jöfnuð að leiðarljósi.

Þá verða fæðing­ar­or­lofs­greiðslur hækkaðar í þrem­ur áföng­um yfir samn­ings­tím­ann, til að treysta mark­miðið um sam­vist­ir barna við báða for­eldra. Þá er samstaða allra samn­ingsaðila um að vinna sam­an að mót­un aðgerða til að brúa bilið milli fæðing­ar­or­lofs og leik­skóla á samn­ings­tím­an­um. Það er okk­ur sem sam­fé­lagi lífs­nauðsyn­legt og þar ber sér­stak­lega að hrósa sveit­ar­fé­lög­un­um fyr­ir vilja þeirra til að ráðast í það verk­efni.

Kjara­samn­ing­ar eru að mörgu leyti horn­steinn þess að hægt sé að skapa sam­fé­lag á Íslandi sem gef­ur svig­rúm fyr­ir jafn­vægi í lífi vinn­andi for­eldra og for­sjáraðila. Þeir eru rammi utan um þá þætti sem stuðla að aukn­um lífs­gæðum, sveigj­an­leika vinnu­tíma og sam­vist­um for­eldra og barna. Slík­ar ráðstaf­an­ir gera for­eldr­um kleift að taka virk­ari þátt í lífi barna sinna, allt frá því að mæta á skóla­at­b­urði og að geta verið viðstödd þau augna­blik sem mestu máli skipta.

Kjara­samn­ing­ar eru að mörgu leyti upp­skrift að því hvernig sam­fé­lag varðveit­ir gildi sín um það sem skipt­ir mestu máli fyr­ir lífs­gæði og vel­sæld. Það þarf ekki að fara mörg­um orðum hversu stóru hlut­verki slík­ur sam­fé­lags­sátt­máli gegn­ir í lífi barna og fjöl­skyldna. Þegar við horf­um fram á veg­inn skul­um við halda áfram að vinna sam­an – ríkið, sveit­ar­fé­lög­in, at­vinnu­lífið og verka­lýðsfé­lög – til að móta sam­fé­lag sem end­ur­spegl­ar sam­eig­in­leg gildi og von­ir okk­ar. Með þann hugs­un­ar­hátt að leiðarljósi erum við ekki aðeins að auka lífs­gæði nú­ver­andi kyn­slóða, held­ur einnig að ryðja veg­inn fyr­ir framtíð þar sem hvert barn á Íslandi get­ur dafnað.

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barna­málaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 9. mars 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Stöðugleikakjarasamningar í þágu þjóðar

Deila grein

11/03/2024

Stöðugleikakjarasamningar í þágu þjóðar

Hag­sæld þjóða bygg­ist á sam­spili fjöl­margra þátta sem huga þarf að og stilla sam­an. Þar spila kjara­samn­ing­ar meðal ann­ars veiga­mikið hlut­verk. Íslenska hag­kerfið er þrótt­mikið og sag­an kenn­ir okk­ur að það á til að bregðast hratt við þegar áföll ríða yfir. Viðspyrna hag­kerf­is­ins í fram­haldi af heims­far­aldr­in­um er eng­inn und­an­tekn­ing. Hag­vöxt­ur hef­ur verið meiri en víða í ná­granna­ríkj­un­um frá því að draga tók úr áhrif­um heims­far­ald­urs­ins á ár­inu 2022.

Sam­kvæmt end­ur­skoðuðum töl­um Hag­stof­unn­ar mæld­ist hag­vöxt­ur 8,9% árið 2022 og 4,1% 2023. Þess­ar töl­ur voru tals­vert hærri en jafn­vel nýj­ustu spár gerðu ráð fyr­ir og hef­ur hag­vöxt­ur hér á landi verið með hæsta móti hjá OECD-ríkj­um.

Ísland var fljótt að jafna sig eft­ir heims­far­ald­ur­inn vegna þess þrótt­ar sem er í ís­lensku efna­hags­lífi. Að sama skapi virkuðu stuðningsaðgerðir stjórn­valda vel, eða eins og efna­hags­leg loft­brú. Ný­leg­ar leiðrétt­ing­ar Hag­stof­unn­ar á mann­fjölda­töl­um sýna jafn­framt að hag­vöxt­ur á mann hef­ur verið mik­ill og meiri en fyrstu töl­ur gerðu ráð fyr­ir, eða um 5,9% á ár­inu 2022 og 2,1% á ár­inu 2023, þannig að þær umræður sem urðu um að hag­vöxt­ur á mann væri lít­ill áttu sér ekki stoð í raun. Hag­kerfið hef­ur því í raun verið mun heit­ara en bú­ist var við.

Ný­leg­ar hag­töl­ur benda hins veg­ar til þess að jafn­vægi sé að nást, en sam­kvæmt nýj­ustu töl­um Seðlabanka Íslands var af­gang­ur á viðskipta­jöfnuði við út­lönd eft­ir nokk­urra ára hlé og hag­kerfið virðist vera að kólna hratt ef horft er til einka­neyslu. Auk­inn þjón­ustu­út­flutn­ing­ur, sem skýrist aðallega af fram­lagi ferðaþjón­ustu, hélt uppi hag­vexti á síðasta ári. Á síðustu vik­um og mánuðum hafa verið teikn uppi um að mögu­lega sé að hægja á starf­semi ferðaþjón­ustu og má einkum rekja það til áhrifa af elds­um­brot­un­um a Reykja­nesi. Þrátt fyr­ir þetta eru verðbólga og verðbólgu­vænt­ing­ar áfram þrálát­ar. Það er ljóst að það mun hægj­ast á hag­vexti á kom­andi miss­er­um eins og víða í ná­granna­lönd­un­um. Til að byggja und­ir al­menna hag­sæld er nauðsyn­legt að fara í aðgerðir sem snúa að hag­vexti til framtíðar og orku­skipt­un­um. Hag­kerfið býr yfir mun meiri fjöl­breytni en á árum áður og þarf ekki að vera áhyggju­efni þótt dragi tíma­bundið sam­an í hag­vexti. Hins veg­ar til að byggja und­ir al­menna hag­sæld fer að verða tíma­bært að hefja sam­tal um að huga að aðgerðum sem snúa að hag­vexti til framtíðar.

Lang­tíma kjara- samn­ing­ar í höfn

Nýir kjara­samn­ing­ar á al­menn­um vinnu­markaði sem und­ir­ritaðir voru til fjög­urra ára skipta hag­kerfið miklu máli. Með þeim er leiðin fram á við mörkuð í átt að bætt­um lífs­kjör­um, en stærsta verk­efni hag­stjórn­ar­inn­ar er að ná niður verðbólgu og þar með vöxt­um, sem mun skila sér í aukn­um kaup­mætti fólks. Eina raun­hæfa leiðin til þess að ná því mark­miði er sam­stillt átak hins op­in­bera, vinnu­markaðar­ins og pen­inga­stefn­unn­ar í land­inu. Það er já­kvætt að sam­komu­lag hafi náðst til fjög­urra ára en tíma­lengd samn­ing­anna stuðlar að aukn­um fyr­ir­sjá­an­leika á vinnu­markaði. Aðgerðir sem stjórn­völd kynntu til að greiða fyr­ir gerð kjara­samn­ing­anna eru margþætt­ar og er mark­mið þeirra að stuðla að vax­andi vel­sæld í land­inu. Um er að ræða um­fangs­mikl­ar aðgerðir sem nema allt að 80 millj­örðum króna á samn­ings­tím­an­um. Þannig hafa stjórn­völd tekið ákvörðun um að for­gangsraða fjár­mun­um rík­is­ins með skýr­um hætti í þágu stöðug­leika á vinnu­markaði næstu árin. Á sama tíma er mik­il­vægt að ríkið rýni í eig­in rekst­ur, til dæm­is með því að nýta fjár­muni bet­ur, stuðla að auk­inni hag­kvæmni hjá hinu op­in­bera og tryggja sam­keppn­is­hæfa um­gjörð um at­vinnu­lífið til þess að standa und­ir verðmæta­sköp­un fyr­ir sam­fé­lagið.

Veru­leg­ur stuðning­ur á hús­næðismarkaði

Aðgerðir stjórn­valda snerta lífs­kjör fólks með bein­um hætti. Þannig er aðgerðunum ætlað að auka ráðstöf­un­ar­tekj­ur fjöl­skyldna um að allt 500 þúsund krón­ur á ári. Þannig verður sjö millj­örðum varið í ár í sér­stak­an vaxt­astuðning til heim­ila með íbúðalán til að koma til móts við auk­inn vaxta­kostnað, en stuðning­ur­inn kem­ur til viðbót­ar al­menn­um vaxta­bót­um. Gert er ráð fyr­ir að sér­stak­ur vaxt­astuðning­ur greiðist beint inn á höfuðstól hús­næðisláns en heim­ilt verði að óska eft­ir að nýta hann til lækk­un­ar á af­borg­un­um í til­tek­inn tíma. Að sama skapi verður dregið úr íþyngj­andi hús­næðis­kostnaði leigj­enda með hærri hús­næðis­bót­um en grunn­fjár­hæðir hús­næðis­bóta til leigj­enda hækka um 25% þann 1. júní næst­kom­andi og aukið til­lit verður tekið til fjöl­skyldu­stærðar þannig að greidd­ar verða hús­næðis­bæt­ur fyr­ir allt að 6 heim­il­is­menn í stað 4 áður. Kostnaður vegna þessa er um 2,5 millj­arðar króna á árs­grund­velli. Að sama skapi verður hús­næðis­ör­yggi leigj­enda aukið og skýr­ari rammi sett­ur um ákvörðun og fyr­ir­sjá­an­leika leigu­fjár­hæðar með breyt­ing­um á húsa­leigu­lög­um auk bættr­ar ráðgjaf­ar og upp­lýs­inga til leigj­enda. Að sama skapi verður sett­ur enn meiri kraft­ur í upp­bygg­ingu íbúðar­hús­næðis á samn­ings­tím­an­um með stofn­fram­lög­um og hlut­deild­ar­lán­um til upp­bygg­ingu 1.000 íbúða á ári. Sveit­ar­fé­lög­in munu leggja til bygg­ing­ar­hæf­ar lóðir og stofn­fram­lög til að mæta upp­bygg­ing­arþörf og líf­eyr­is­sjóðum verða veitt­ar rýmri heim­ild­ir til fjár­fest­inga í íbúðar­hús­næði.

Stutt við barna­fjöl­skyld­ur

Ráðist verður í um­fangs­mikl­ar aðgerðir til þess að styðja bet­ur við barna­fjöl­skyld­ur á samn­ings­tím­an­um. Þannig verða barna­bæt­ur hækkaðar og dregið verður úr tekju­skerðing­um, sem mun fjölga þeim for­eldr­um sem fá stuðning um 10.000. Fram­lög til barna­bóta verða auk­in um 18 millj­arða króna á samn­ings­tím­an­um. Þá verða há­marks­greiðslur úr Fæðing­ar­or­lofs­sjóði hækkaðar í þrem­ur áföng­um á næstu tveim­ur árum, þann 1. apríl 2024 úr 600.000 þúsund krón­um á mánuði í 700.000 kr., frá og með 1. janú­ar 2025 í 800.000 kr. og frá og með 1. janú­ar 2026 í 900.000 kr. Það er um tíma­bæra breyt­ingu að ræða sem mun ýta und­ir aukn­ar sam­vist­ir barna með báðum for­eldr­um. Ráðist verður í sam­hent átak til að brúa bilið milli fæðing­ar­or­lofs og leik­skóla með það að mark­miði að tryggja öll­um börn­um pláss á leik­skól­um. Þá verða skóla­máltíðir grunn­skóla­barna gerðar gjald­frjáls­ar frá og með ág­úst 2024 til loka samn­ings­tím­ans.

Sam­fé­lag er sam­vinnu­verk­efni

Heim­sókn nó­bels­verðlauna­haf­ans Jós­efs Stig­litz í síðustu viku minnti okk­ur á hvað sú efna­hags­skip­an sem við búum við á Íslandi hef­ur reynst gæfu­rík. Þó að okk­ur greini á um ýmis mál varðandi stjórn efna­hags­mála og skipt­ingu gæða höf­um við sem þjóðfé­lag náð sam­stöðu um fjár­fest­ingu í al­manna­gæðum, mennt­un, sjúkra­trygg­ing­um og fé­lags­lega kerf­inu og með sam­vinnu náð að skapa grund­völl fyr­ir fram­sækið markaðshag­kerfi þar sem frelsi ein­stak­lings­ins er í for­grunni.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 9. mars 2024.

Categories
Fréttir

Stórátak á húsnæðismarkaði, lægri verðbólga og umbætur fyrir launafólk

Deila grein

07/03/2024

Stórátak á húsnæðismarkaði, lægri verðbólga og umbætur fyrir launafólk

Ríkisstjórnin og Samband íslenskra sveitarfélaga hafa sameiginlega lagt fram aðgerðir til að greiða fyrir kjarasamningum á vinnumarkaði til næstu fjögurra ára. Fram kemur í fréttatilkynningu ríkisstjórnarinnar að:

Aðgerðirnar styðja við sameiginlegt markmið stjórnvalda og samningsaðila um að leggja grundvöll að vaxandi velsæld, með auknum kaupmætti og stuðla að lækkun verðbólgu og vaxta.

Heildarumfang aðgerðanna er allt að 80 milljarðar króna á samningstímanum. Í þeim er lögð sérstök áhersla á að stuðla að heilbrigðari húsnæðismarkaði og fjölskylduvænna samfélagi samhliða því að stuðla að lækkun verðbólgu og vaxta. Aðgerðirnar munu auka ráðstöfunartekjur fjölskyldna verulega á samningstímanum, eða um allt að 500 þúsund krónur á ári.

Heilbrigðari húsnæðismarkaður

Alls nema aðgerðir er lúta að húsnæðismarkaðnum um 50 milljörðum króna á samningstímanum, en meðal aðgerða má nefna uppbyggingu 1.000 íbúða með stofnframlögum og hlutdeildarlánum, sérstakan vaxtastuðning ásamt auknum stuðningi við leigjendur.

Fjölskylduvænt Ísland

Fram kemur að sérstök áhersla er lögð á fjölskylduvænna samfélag með aðgerðum sem miða að velsæld barnafjölskyldna. Meðal aðgerða má nefna hækkun barnabóta, gjaldfrjálsar skólamáltíðir, hærri greiðslur í fæðingarorlofi og samstöðu allra um að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla. Einnig er lögð áhersla á aðgerðir gegn kynbundnum launamun, bætt aðgengi að heilbrigðisþjónustu óháð búsetu og umbætur á menntasjóði námsmanna. Þá verður hámarksábyrgð úr Ábyrgðarsjóði launa hækkuð í þremur skrefum og tækifæri til starfsþjálfunar aukin.

Lægri verðbólga

Til að stuðla að verðstöðugleika munu ríki og sveitarfélög halda aftur af gjaldskrárhækkunum og munu gjaldskrár ríkis almennt ekki hækka umfram 2,5% á árinu 2025. Einnig lýsa sveitarfélögin yfir vilja til að hækka ekki gjaldskrár fyrir árið 2024 umfram 3,5% og að endurskoða gjaldskrár ársins hafi þær hækkað meira með sérstakri áherslu á barnafjölskyldur og fólk í viðkvæmri stöðu.

Lesa má ítarlega um tillögurnar í fréttatilkynningu ríkisstjórnarinnar: