Categories
Fréttir Greinar

Út­lendingar í eigin landi

Deila grein

29/10/2024

Út­lendingar í eigin landi

Undanfarna mánuði hafa málefni útlendinga verið mikið í deiglunni og heilu stjórnmálaflokkarnir blásið þennan heildar málaflokk sem vandamál. Það er nýnæmi í stjórnmálaumræðu á Íslandi að flokkar ætla að keyra kosningabaráttu út frá þessari umræðu. Miðflokkurinn nær þarna nokkru flugi og nýstofnaður Lýðveldisflokkur ætlar sérstaklega að kasta veiðifærum sínum á þessi mið. Það er sama hver beitan er, allt er gert í þeirri von að kjósendur bíti á agnið. Sjálfstæðisflokkurinn sér þarna tækifæri og ekki kemur heldur Flokkur Fólksins á óvart.

Við eigum að varast það að frambjóðendur til Alþingis nýta sér upplýsingaóreiðu og afvegaleiða umræðuna til að næla sér í atkvæði, grugga vatnið og henda svo færinu út. Við þurfum átta okkur á að t.d. innflytjendur og hælisleitendur eru tveir ólíkir hópar, þó svo að sumir vilja samsama þá tvo í einn stóran hóp og gera hann tortryggilegan. Að stunda slíka pólitík hefur neikvæð áhrif á alla sem eru af erlendu bergi brotnu. Þar erum við að tala um fólk sem kemur hingað til lands til að vinna, borga skatta og taka virkan þátt í samfélaginu og börn þeirra, sem hafa jafnvel búið hér allt sitt líf.

Að ná atkvæðum með upplýsingaóreiðu og að búa til ímyndaðan óvin þjóðar er vafasamur heiður sem fæst á kostnað fólks sem kemur hingað í góðri trú og stuðlar að velmegun samfélags.

Vöxtur og velferð

Íslenska hagkerfið hefur á undanförnum árum og áratugum sýnt fram á að það þarf á erlendu vinnuafli að halda til að mæta vaxandi þörfum atvinnulífsins. Þetta hefur ekki síst komið fram í greinum eins og ferðaþjónustu, byggingariðnaði, heilbrigðisþjónustu og landbúnaði, þar sem umframeftirspurn eftir vinnuafli hefur verið við líði hér á landi. Við þurfum fjölbreytni og sveigjanleika á vinnumarkaði til að viðhalda hagvexti og efnahagslegum stöðugleika.

Ein helsta ástæða þess að Ísland treystir á erlent vinnuafl er að fjölgun landsmanna nær ekki að fylgja hraða vaxandi atvinnugreina. Við búum í litlu landi með takmörkuðum mannfjölda, og vinnuafl innanlands hefur ekki dugað til að fullnægja þörfum margra atvinnugreina. Erlendir starfsmenn hafa því komið til landsins til að fylla þau störf sem annars væru ómönnuð, og þar með stuðlað að áframhaldandi hagvexti og framþróun. Árið 2004 voru erlendir ríkisborgar hér á landi 7% af mannfjölda en í dag eru það 21%. Það var á ofanverðri síðustu öld sem það jókst að fólk fór að flytja hingað til lands til að vinna aðallega við íslenskan sjávarútveg. Alveg síðan hefur hlutfall íbúa sem eru að erlendu bergi brotnir hefur aukist jafn og þétt um landið. Til dæmis á Vestfjörðum er þriðja kynslóð þeirra að vaxa úr grasi og taka virkan þátt í okkar samfélagi og atvinnulífi.

Aukin samkeppnishæfni okkar

Erlent vinnuafl hefur einnig haft mikil áhrif á samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs. Það hefur gefið fyrirtækjum tækifæri til að auka framleiðslugetu sína og svara eftirspurn á mörgum sviðum. Án erlends vinnuafls gæti íslenskt hagkerfi staðið frammi fyrir alvarlegri stöðnun, þar sem fyrirtæki myndu ekki geta nýtt tækifærin sem fylgja vaxandi ferðaþjónustu og vexti á öðrum sviðum.

Rétt skal vera rétt

Við megum ekki láta afvegaleiða okkur í umræðunni. Við verðum að vera vakandi fyrir auknum rasisma og þá eru öll þjóðarbrot undir. Helsta þrætueplið er hælisleitendakerfið, sem hefur vaxið og mikilvægt er að ná jafnvægi í því. Við í ríkisstjórninni höfum náð fram lagabreytingum sem styrkja lagaumhverfið og stuðla að því að innviðir okkar ráði við aukið magn hælisleitenda. Við erum hluti af alþjóðlegum samningum eins og flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna og Ísland gerðist aðili að Dyflinnarsamningnum árið 2001.

Fjöldi samþykktra umsókna hælisleitenda hér á landi hefur lengst af verið undir evrópumeðaltali, en sú aukning sem hefur orðið á síðustu árum er að langstærstum hluta frá Úkraínu og Venesúela. Rétt ber að nefna að um er að ræða hópa sem allir flokkar á Alþingi samþykktu að taka skilyrðislaust á móti. Við höfum þó náð talsverðum breytingum á heildarsýn í málefnum útlendinga og síðan þá hefur dregið verulega úr samþykktum á umsóknum hælisleitenda.

Rykinu blásið upp

Það er ástæða til að óttast að nú í kosningabaráttunni verði rykinu blásið upp og útlendingaandúð muni vaxa. Við horfum hneyksluð til Bandaríkjanna, þar sem umræður um sama málefni fá óhindrað að lifa í kosningabaráttunni um Hvíta Húsið.. Þar er ekki hikað við að beita röngum staðhæfingum eins og gæludýraáti og aukinni glæpatíðni til að sópa til sín atkvæðum á kostnað allra innflytjenda. Slík barátta hugnast okkur í Framsókn ekki.

Sýnum skynsemi og lítum okkur nær. Hvar eru útlendingar að þvælast fyrir á þessu landi? Er það í innsta hring fjölskyldna okkar eða á hjúkrunarheimilum þar sem þeir annast foreldra okkar?

Kjósum með fjölbreytileikanum og munum að hann ber heilu landsvæðin uppi.

Halla Signý Kristjánsdóttir, situr í þriðja sæti á lista Framsóknar í Norðvesturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á visir.is 29. október 2024.

Categories
Greinar

Fjárfest í framtíð íslenskunnar

Deila grein

24/10/2024

Fjárfest í framtíð íslenskunnar

Mik­il­vægt skref hef­ur verið stigið í átt að því að tryggja betri aðlög­un og inn­gild­ingu er­lendra íbúa í Mýr­dals­hreppi og vinna mark­visst að efl­ingu ís­lenskukunn­áttu. Sveit­ar­stjórn hef­ur ákveðið að setja fjár­magn í ráðningu verk­efna­stjóra ís­lensku og inn­gild­ing­ar í fjár­hags­áætl­un næsta árs. Mark­miðið er að bæta stöðu þess fjölda íbúa sveit­ar­fé­lags­ins sem hafa annað móður­mál en ís­lensku og stuðla að sterk­ari sam­fé­lags­legri teng­ingu. Fjár­veit­ing­in í stöðu verk­efna­stjóra er beint fram­hald af öfl­ugu starfi ensku­mæl­andi ráðs sveit­ar­fé­lags­ins og er mik­il­vægt skref til að efla stöðu er­lendra íbúa og auka sam­fé­lags­lega virkni.

Mik­il­vægi ís­lensk­unn­ar

Íslensk­an er lyk­ill­inn að sam­fé­lag­inu og for­senda þess að íbú­ar geti tekið full­an þátt í dag­legu lífi og störf­um inn­an sveit­ar­fé­lags­ins. Sér­stak­lega er öfl­ug og mark­viss ís­lensku­kennsla mik­il­væg þegar kem­ur að því að tryggja fjöltyngd­um börn­um jöfn tæki­færi á við aðra til framtíðar litið. Sveit­ar­fé­lagið vinn­ur um þess­ar mund­ir að mót­un inn­gild­ing­ar­stefnu og hef­ur með þessu markað þá stefnu að fjár­fest verði í mannauði til þess að fylgja henni eft­ir og vinna mark­visst að efl­ingu ís­lensk­unn­ar. Einnig er mik­il­vægt að mótuð verði mál­stefna og henni fylgt eft­ir til þess að styðja við og hvetja sem flesta til að efla ís­lenskukunn­áttu sína.

Viðbragð við breyt­ing­um

Sam­fé­lagið í Vík og ná­grenni hef­ur tekið mikl­um breyt­ing­um á síðustu árum. Mik­il­vægt er að hið op­in­bera sé sveigj­an­legt til þess að bregðast við slík­um breyt­ing­um og sveit­ar­fé­lagið hef­ur eft­ir fremsta megni lagt sig fram um að gera það með hag allra íbúa að leiðarljósi.

Sam­hliða er ekki síður mik­il­vægt að ríkið haldi áfram að þróa og bæta sína þjón­ustu. Þjón­ustu­stig af hálfu rík­is­ins hef­ur staðið í stað eða dreg­ist sam­an á sama tíma og sam­fé­lagið vex. Sú staða er eng­an veg­inn ásætt­an­leg og mik­il­vægt að ríkið rétti af kúrsinn og vinni með sveit­ar­fé­lög­um að efl­ingu þjón­ustu í sam­ræmi við vöxt á öðrum sviðum.

Framtíðar­sýn

Mýr­dals­hrepp­ur er staðráðinn í að vera sveit­ar­fé­lag sem tek­ur vel á móti öll­um íbú­um sín­um, óháð þjóðerni og bak­grunni. Með þess­ari fjár­fest­ingu í framtíð ís­lensk­unn­ar er mörkuð skýr framtíðar­sýn um að öll­um íbú­um séu tryggð jöfn tæki­færi til að taka full­an þátt í sam­fé­lag­inu.

Einar Freyr Elínarson, sveit­ar­stjóri Mýr­dals­hrepps.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 24. október 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Höfnum gamal­dags að­greiningu

Deila grein

24/10/2024

Höfnum gamal­dags að­greiningu

Árið 1974 var fyrst talað um í lögum að skólinn væri fyrir öll börn. Allar götur síðan hafa íslenskir stjórnmálamenn, að mestu, sammælst um þá framtíðarsýn. Í umræðum undanfarið hafa verið settar fram hugmyndir um að aðgreina eigi skóla eftir uppruna barna. Jafnframt hefur því verið fleygt fram að skynsamlegt sé að gera slíkt varðandi fleiri hópa barna. Þetta er ekki bara gamaldags hugsunarháttur, þetta eru líka hættulegar hugmyndir sem munu ekki gera neitt annað en að ýta undir ójöfnuð í okkar samfélagi.

Rannsóknir á Norðurlöndunum hafa sýnt fram á að börn með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn ná oft bestum námsárangri í sínum hverfisskóla. Með því að efla stuðning og nám fyrir börn af erlendum uppruna innan hefðbundins skólakerfis og í sínu nærumhverfi næst mun betri árangur, fyrir hvert barn, og þar með fyrir samfélagið í heild. Aðgreining með sérstökum móttökuskólum er ekki endilega sú leið sem skilar mestum árangri. Auk þess er þetta ekki raunhæf af þeim augljósu ástæðum að landið er dreifbýlt.

Það er hins vegar hárrétt að við höfum alls ekki stutt nógu vel við kennara og skólasamfélagið í að taka á móti fjölbreyttari hópi barna, ekki síst hvað varðar börn með erlendan tungumála- og menningarbakgrunn. Í nýrri úttekt OECD, sem var birt í byrjun september, kemur skýrt fram að það sé mikilvægt að forgangsraða fjármunum í inngildingu innflytjenda. Þarna felast tækifæri til framfara. Ekki í aukinni aðgreiningu og stéttaskiptingu. Mikilvægast er að forgangsraða fjármagni þannig að það mæti fjölbreyttum þörfum barna. Þetta hafa kennarar og skólastjórnendur meðal annars bent á og þetta hef ég lagt áherslu á sem menntamálaráðherra.

Aðgerðir okkar í menntamálum sýna að við þorum að setja menntun allra barna í forgang – þau eiga það skilið! Í maí var undirritað samkomulag um þróunarverkefnið MEMM. Þar er markmiðið að koma á samræmdu verklagi um móttöku og menntun barna með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn á landsvísu; í leikskólum, grunnskólum, framhaldsskólum og frístundastarfi. Reykjavíkurborg, Reykjanesbær og fleiri sveitarfélög hafa meðal annars þróað fjölbreyttar leiðir til að mæta ólíkum þörfum nýkominna barna, til dæmis með því að setja upp íslenskuver og með því að bjóða upp á markvissan stuðning, bjargir og starfsþróun þegar kemur að vinnu með málaflokkinn í skóla- og frístundastarfi. Með því að þróa lausnir sem mæta íslenskum veruleika og byggja á leiðum sem hafa reynst árangursríkar náum við bestu niðurstöðinni, bæði fyrir börnin og samfélagið.

Leiðin fram á við er ekki að boða gamaldags hugmyndafræði aðgreiningar sem lausn á áskoruninni. Þannig stuðlum við ekki að betri samfélagsgerð. Börnin sem hingað koma eru á okkar ábyrgð og okkar verkefni er að þau sem eru með erlendan tungumála- og menningarbakgrunn verði ekki sjálfkrafa jaðarsett. Að aðgreina börn enn frekar gerir ekkert annað en að ýta þeim lengra út á jaðarinn. Um þetta snúast þær breytingar sem nú er unnið að í íslensku menntakerfi; að ná betur utan um þessi börn.

Aflið og hraðinn á breytingunum ræðst hins vegar af því hvort við sem samfélag erum tilbúin að forgangsraða fjármagni í þágu þessara aðgerða. Við þurfum að viðurkenna það sem skólasamfélagið hefur sagt og það sem OECD sagði: Við þurfum að vera tilbúin að fjárfesta í börnunum!

Við skuldum þeim sem vinna með börnum í okkar samfélagi betri bjargir, stuðning og ráðgjöf til að mæta þessum hröðu samfélagsbreytingum. Við skuldum þeim líka að störf þeirra séu metin að verðleikum.

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra.

Greinin birtist fyrst á visir.is 24. október 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Þing­menn verða að vita að Lilja segir satt

Deila grein

23/10/2024

Þing­menn verða að vita að Lilja segir satt

Frjáls og virk skoðanaskipti eru grundvöllur hins sterka lýðræðisþjóðfélags sem við búum í. Í gær birtist einmitt áhugaverð skoðanagrein eftir Björn B. Björnsson kvikmyndagerðarmann undir yfirskriftinni Þingmenn verða að vita að Lilja segir ekki satt. Björn fer þar mikinn í umræðunni um Kvikmyndasjóð og meintrar ,,slátrunar‘‘ undirritaðar á sjóðnum þar sem hann rekur hvernig framlög ríkisins til Kvikmyndasjóðs hafa lækkað að undanförnu. Um er að ræða lækkun sem skýrist að stærstum hluta af því að tímabundin framlög sem sett voru í sjóðinn vegna Covid heimsfaraldurs, á grundvelli kvikmyndastefnu fyrir Ísland 2020-2030, eru fallinn niður, líkt og önnur slíkt Covid framlög í öðrum málaflokkum.

Tímabundin framlög eru tímabundin

Björn virðist ekki meðtaka það að tímabundin framlög vegna heimsfaraldurs eru tímabundin framlög ef marka má orð hans: ,,Lilja segir að þessi niðurskurður sé vegna þess að framlög í sjóðinn á árunum 2020 og 2021 hafi verið tímabundin framlög vegna covid. En þetta er því miður ekki satt. Aukin framlög í kvikmyndasjóð á þessum árum komu til vegna nýrrar kvikmyndastefnu sem ætlað var að stórefla greinina – eins og Lilja sagði margoft á þessum tíma í ræðum og riti. Hvergi sagði hún einu orði að þessi framlög væru tímabundin og vegna kóvid – og hvergi er stafkrókur um slíkt í opinberum skjölum.‘‘

Það er hinn eðlilegasti hlutur að berjast fyrir hagsmunum sínum í ræðu og riti, en það hlýtur að vera sanngjörn krafa að fara ekki með staðlausa stafi á þeirri vegferð – sér í lagi áður en menn fara að ásaka aðra um slátranir og lygar. Má ég því til með að benda Birni á þessa fréttatilkynningu frá ráðuneyti mínu þann 8. október 2020 svo dæmi sé tekið, þar sem farið var yfir hluta af fjárfestingarátaki ríkisstjórnarinnar til að sporna gegn niðursveiflu í efnahagslífinu í kjölfar heimsfaraldurs. Þar stendur skýrum stöfum:

,,Samkvæmt nýrri Kvikmyndastefnu verður 412 milljónum kr. varið til að efla kvikmynda- og sjónvarpsþáttagerð en alls nema framlög vegna nýrrar kvikmyndastefnu 550 milljónum kr. í frumvarpinu. Framlagið er liður í tímabundnu fjárfestingarátaki ríkisstjórnarinnar.‘‘

Birni hefði verið í lófa lagið að nenna að leita stundarkorn eftir staðreyndum áður en hann reisti hús sitt á sandi, nema hann hafi einfaldlega kosið að líta fram hjá staðreyndum málsins. Leiðréttist þessi misskilningur og yfirsjón Björns hér með.

Hefur eitthvað verið gert fyrir kvikmyndagerð á Íslandi?

Af lestri greina eins og Björn ritar mætti halda að íslensk menning væri í dauðateygjunum. Því fer víðsfjarri. Staðreynd málsins er sú að mjög margt hefur áunnist á síðastliðnum árum til þess að efla kvikmyndagerð á Íslandi og er ég verulega stolt af því. Raunar er staðan sú að mörgum af þeim aðgerðum sem kynntar voru í kvikmyndastefnu fyrir Ísland 2020-2030 hefur verið hrint til framkvæmdar, og enn eru 6 ár eftir af líftíma hennar. Hér eru nokkur dæmi um það sem hefur verið áorkað.

  • 1,3 milljarði króna, eitt þúsund og þrjú hundruð milljónum króna, hefur verið veitt í tímabundin viðbótarframlög í kvikmyndasjóð frá árinu 2020.
  • Endurgreiðsluhlutfall í kvikmyndagerð var hækkað úr 25% í 35%
  • Velta í kvikmyndagerð hefur stóraukist
  • Fyrstu kvikmyndadeild landsins á háskólastigi við Listaháskóla Íslands var komið á laggirnar. Þar er nú boðið upp á 180 eininga BA nám með kjörsvið í leikstjórn, handritsgerð, framleiðslu, kvikmyndatöku, klippingu eða hljóðtækni.
  • Framlög til náms í kvikmyndagerð á framhaldsskólastigi voru hækkuð
  • Starfslaunasjóður kvikmyndahöfunda verður að veruleika á næsta ári eftir breytingar á lögum um starfslaun listamanna
  • Löggjöf um nýjan fjárfestingarsjóð sjónvarpsefnis ( framleiðslustyrki til lokafjármögnunar) var kláruð
  • Frumvarp um menningarframlag sem unnið hefur verið að er á lokametrunum. Með því yrði lögfest ný skylda á hendur streymisveitum til að greiða fjárframlag, sem rennur til Kvikmyndasjóðs (áætlað allt að 260 m.kr. á ári) eða skyldu til að fjárfesta með beinum hætti í framleiðslu í innlendu hljóð- og myndefni.
  • Efnahagslegt mikilvægi kvikmyndagerðar á Íslandi kortlagt, sbr. úttekt Olsberg
  • Stutt hefur verið sérstaklega við að varðveislu og stafvæðingu á íslenskum kvikmyndaarfi
  • Stutt hefur verið myndarlega við sjálfsprottin verkefni eins og kynningu á íslenskum myndum erlendis, innlendar kvikmyndahátíðir og menningarleg kvikmyndahús
  • Stutt hefur Kvikmyndatengda fræðslu, til dæmis fyrir ungt fólk
  • Sjálfbærni í kvikmyndagerð hefur verið stutt með gerð handbókar þar um

Rúmir 7 milljarðar áætlaðir til kvikmyndamála árið 2025

Heildarframlög til kvikmyndamála á málefnasviðum menningar- og viðskiptaráðuneytisins 2016-2025.

Áætluð fjárframlög til þeirra kvikmyndatengdu mála sem heyra undir menningar- og viðskiptaráðuneytið eru áætluð rúmir 7 milljarðar á næsta ári. Fellur þar undir, Kvikmyndasjóður, Kvikmyndamiðstöð, Kvikmyndasafn Íslands og endurgreiðslukerfi kvikmynda. Endurspeglar upphæðin þau auknu umsvif sem orðið hafa í kvikmyndagerð hér á landi á undanförnum árum, sem birtast meðal annars í hækkun á endurgreiðslum. Á undanförnum árum hafa upphæðir úr þeim skipst nokkuð jafnt á milli innlendra og erlendra verkefna.

Lægri verðbólga stærsta forgangsmál samfélagsins

Lækkun verðbólgu og þar með vaxta er stærsta hagsmunamál heimila og fyrirtækja. Jákvæð teikn eru á lofti þar en til að ná markmiði um lækkun verðbólgu þarf aðhald í ríkisfjármálum. Fyrir næsta ár birtist þetta meðal annars í sértæku aðhaldi á samkeppnissjóði hjá öllum ráðuneytum. Kvikmyndasjóður er var þar ekki undanskilinn, en hann er einn af 14 sjóðum á sviði menningarmála. Framlög í hann á næsta ári munu nema rúmum milljarði en áform um menningarframlag streymisveita er meðal annars ætlað að efla hann inn til framtíðar.

Þróun framlaga í Kvikmyndasjóð 2016-2025. Eftirstöðvum fjárfestingaráttaksins var dreift inn á árið 2024. Árið 2023 var sérstak 250 m.kr aukaframlag sett í sjóðinn til að standa undir fjármögnun verkefna sem þegar höfðu hlotið vilyrði eða sjóðurinn var skuldbundinn gagnvart með samningi.

Þegar til framtíðar er litið, og þegar efnahagsástand og fjármál hins opinbera leyfa, hljótum við að líta til þess að bæta í Kvikmyndasjóð að nýju, enda er sjóðurinn einn af burðarásum íslenskrar menningar. Ég sé fyrir mér að fyrirsjáanleiki í fjármögnun sjóðsins yrði aukin, til að mynda með samkomulagi til fjögurra ára í senn. Slíkt yrði þó alltaf háð fjárveitingu hvers árs.

Kvikmyndagerð orðin heilsárs atvinnugrein

Meiri háttar breyting sem hefur orðið á kvikmyndagerð hér á landi er að hún er orðin heilsársatvinnugrein og verkefnum, stórum sem smáum, hefur fjölgað. Hér hefur byggst upp dýrmæt sérþekking á öllum sviðum kvikmyndagerðar, hvort sem það snýr að listræna þættinum eða hinum tæknilega og umsóknum í kvikmyndasjóð hefur fjölgað verulega. Í úttekt breska ráðgjafafyrirtækisins Olsberg kom til að mynda fram að 4.200 bein, óbein og afleidd störf hefðu verið til vegna kvikmyndagerðar hér á landi árið 2022 og að heildaratvinnutekjur þeirra sem störfuðu við kvikmyndaverkefni hér á landi hafi numið 48,9 milljörðum króna á árunum 2019 -2022Þá er gríðarlega ánægjulegt að sjá stór verkefni í kvikmyndagerð raungerast á landsbyggðinni sem styrkir stoðir greinarinnar og smærri byggðir á landinu. Þá hafa upphæðir úr endurgreiðslukerfinu skipst nokkuð jafnt á milli innlendra og erlendra verkefna undanförnum árum, eins og rakið er í úttekt Olsberg.

Skipting endurgreiðslna í kvikmyndagerð

Ég hef lagt mig alla fram við að efla menningarlífið á Íslandi og umhverfi kvikmyndagerðar þar á meðal. Í virkilega góðu samráði við haghafa greinarinnar höfum við náð að stíga stór framfaraskref skömmum tíma. Ég vil meina að ekki hefur jafnmikið gerst á jafn stuttum tíma frá því að Kvikmyndasjóður var settur á laggirnar árið 1979 og endurgreiðslukerfinu í kvikmyndagerð var komið á fót árið 1999. Til gamans má geta var hvorug tveggja komið á fót af ráðherrum úr Framsóknarflokknum, sem segir kannski ákveðna sögu. Það breytir því ekki að við viljum sjá enn frekari árangur, og kvikmyndasjóð eflast út líftíma kvikmyndastefnunnar til ársins 2030 og enn lengra inn framtíðar. Íslensk kvikmyndagerð getur treyst því að undirrituð verði áfram góður liðsmaður í því verkefni, sama hvað rangfærslum Björns B. Björnssonar líður.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar

Greinin birtist fyrst á visir.is 23. október 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Bleikur dagur

Deila grein

23/10/2024

Bleikur dagur

Í dag, 23. október, er Bleikur dagur, sem er hluti af októberátakinu. Á þessum degi fögnum við styrknum og seiglunni sem einkennir baráttuna gegn brjóstakrabbameini. Það er tilefni til að íhuga mikilvægi forvarna, klæðast bleikum litum til stuðnings, og hvetja konur til að mæta í skimun. Október er tími umhyggju þar sem við minnumst samstöðu og sýnum stuðning í baráttunni gegn þessum alvarlega sjúkdómi.

Lægri kostnaður

Krabbamein er eitt helsta heilsufarsvandamál okkar tíma, og sérstaklega brjóstakrabbamein, sem er algengasta krabbameinið meðal kvenna. Rannsóknir hafa leitt í ljós að regluleg skimun getur lækkað dánartíðni brjóstakrabbameins um allt að 20%. Skimun auðveldar greiningu á sjúkdómnum á fyrri stigum, sem býður upp á betri meðferðarúrræði og auknar lífslíkur.

Til að auka aðgengi að skimun hefur heilbrigðisráðherra Willum Þór Þórsson ákveðið að lækka kostnað við brjóstaskimun niður í 500 krónur. Þetta er mikilvægur áfangi í því að tryggja að þátttaka í skimanir verði ekki háð fjárhagslegri stöðu, og sömuleiðis að fleiri konur sjái sér fært að taka þátt.

Sveigjanleiki atvinnurekenda

Stuðningur atvinnurekenda er einnig ómetanlegur í þessari baráttu. Með átakinu „Skrepp í skimun“ er hvatt til þess að konur njóti sveigjanleika á vinnustöðum til að sækja þessa mikilvægu þjónustu. Það þarf skýra stefnu í að mynda svigrúm fyrir konur svo þær geti nýtt sér skimun sem oft gefst aðeins möguleiki á úti á landsbyggðinni í nokkra daga í einu.

Við höfum öll hlutverk að gegna í því að hvetja konur í okkar nærumhverfi – í vinnunni, innan fjölskyldur og í vinahópum – til að nýta sér skimun. Með hvatningu og samstöðu sýnum við ekki bara stuðning okkar, heldur tökum þátt í að tryggja heilsu fyrir framtíðina.

Tökum þátt, sýnum kærleik og vitund – skreppum í skimun.

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar. 

Greinin birtist fyrst á visir.is 23. október 2024.

Categories
Greinar

Byggjum upp landsbyggðina

Deila grein

21/10/2024

Byggjum upp landsbyggðina

Ísland er fámenn þjóð á stóru landi og þótt margt hafi áunnist á sviði framfara hefur byggðastefna okkar klikkað þegar kemur að jafnvægi milli höfuðborgarsvæðisins og landsbyggðarinnar. Þróunin hefur orðið sú að æ meiri mannfjöldi safnast saman á höfuðborgarsvæðinu, þar sem innviðir eru undir miklu álagi og lóðaskortur og umferðarvandi sívaxandi vandamál. Á sama tíma er víða á landsbyggðinni nóg pláss og mikil tækifæri. Það er tími til kominn að stokka spilin upp á nýtt og horfa til landsbyggðarinnar sem raunhæfs kosts til framtíðaruppbyggingar.

Það er einfaldlega ekki sjálfbært fyrir þjóðina að ætla öllum að búa á sama stað. Þegar aðeins einn landshluti er lagður undir mikla fólksfjölgun verður álag á innviði og þjónustu honum ofviða, á meðan landsbyggðin stendur frammi fyrir fólksfækkun og hnignandi atvinnumöguleikum. Við þurfum nýja stefnu sem lítur til þess að efla og styrkja byggðir landsins – bæði með því að fjölga opinberum störfum á landsbyggðinni og byggja upp fjölbreytt atvinnulíf í samvinnu við heimamenn.

Samvinnuhugsjónin – leiðin að sjálfbærri uppbyggingu

Samvinnuhugsjónin er lykillinn að því að byggja upp sjálfbær samfélög á landsbyggðinni. Í stað þess að fylgja eingöngu markaðsdrifnum ákvörðunum byggist samvinnuhugsjónin á því að fólkið sjálft komi að stjórnun, þróun og nýtingu þeirra auðlinda sem fyrir hendi eru. Þetta þýðir að arðurinn af starfseminni er endurfjárfestur í samfélaginu og skapar þannig langtímaáhrif.

Með því að fjölga samvinnufélögum á sviðum eins og ferðaþjónustu, nýsköpun, matvælaframleiðslu og grænum iðnaði getum við byggt upp sjálfbæra atvinnuvegi sem nýta sér sérstöðu hvers svæðis. Í þessum félögum eiga allir jafnan hlut, sem skapar meiri hvata til að þróa verkefni sem eru bæði arðbær og samfélagslega gagnleg.

Opinber störf út á land

Það er einnig nauðsynlegt að ríkisvaldið axli ábyrgð á þessari þróun. Með því að færa fleiri opinber störf út á landsbyggðina má dreifa fólksfjölda á skilvirkari hátt og stuðla að fjölbreytni í starfsemi á landsvísu. Nú þegar hafa fjölmörg tæknileg framfaraskref, eins og aukin fjarvinna, sýnt að margt af því sem áður þótti ómögulegt getur nú orðið raunverulegt. Ekki er lengur þörf á því að öll stjórnsýslan sé miðlæg í Reykjavík – hún getur virkað jafnvel á landsbyggðinni.

Að færa opinber störf út á landsbyggðina hefur þann ávinning að þau verða mikilvægur grunnur fyrir atvinnulíf á svæðunum, en einnig styðja þau við alla aðra starfsemi sem reiðir sig á öfluga innviði. Það er lífsnauðsynlegt að þessi dreifing eigi sér stað til að jafna álagið og skapa betri lífsskilyrði um land allt.

Nóg pláss og næg tækifæri á landsbyggðinni Landsbyggðin býr yfir miklum möguleikum sem ekki hafa verið nýttir til fulls. Hvort sem litið er til grænna orkumöguleika, sjálfbærrar ferðaþjónustu eða framleiðslu á hreinum íslenskum matvælum, þá eru tækifærin fyrir hendi. Það er nóg pláss á landsbyggðinni fyrir ný fyrirtæki, nýjar hugmyndir og nýtt fólk. Við þurfum bara að nýta þau skynsamlega.

Samvinnuhugsjónin gefur okkur tækifæri til að endurvekja gömlu gildin um að standa saman og byggja sameiginlega framtíð. Með slíkri nálgun getum við stutt við uppbyggingu innviða, skapað stöðugleika í atvinnulífi og tryggt að verðmæti verði eftir í samfélögunum sjálfum.

Byggjum upp framtíð fyrir allt landið

Það er ljóst að höfuðborgarsvæðið getur ekki eitt borið framtíðarþróun landsins. Við verðum að dreifa álaginu og byggja upp sterk samfélög um allt land. Samvinnuhugsjónin er verkfæri sem getur hjálpað okkur að ná þessu markmiði – með því að stuðla að sameiginlegri ábyrgð, fjölbreytni í atvinnulífi og sjálfbærri nýtingu auðlinda.

Með skýrri byggðastefnu sem lítur til framtíðar getum við tryggt jafnvægi milli landshluta og skapað betra og fjölbreyttara Ísland fyrir komandi kynslóðir. Það er tími til að taka af skarið og byggja upp landsbyggðina – til að styrkja landið í heild.

Anton Guðmundsson, oddviti Framsóknarflokksins í Suðurnesjabæ.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 16. október 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Rödd skyn­seminnar

Deila grein

20/10/2024

Rödd skyn­seminnar

Stjórnvöld og ákvarðanir þeirra spegla þann tíðaranda sem er uppi hverju sinni, enda samsett fólki sem er þverskurður samfélagsins. Það er mikilvægt að líta um öxl og horfa gagnrýnum augum á þær ákvarðanir sem stjórnvöld hafa tekið í tilraun til þess að tryggja að ákvarðanir framtíðarinnar séu hafnar yfir persónulegar kreddur, vanþekkingu, fordóma og óöryggi. Stjórnvöld verða að tryggja það að hagsmunir heildarinnar eru hafðir að leiðarljósi um leið og staða þeirra verst settu í samfélaginu er sett á oddinn og bætt með öllum þeim leiðum sem okkur framast er unnt.

Langar mig í framhaldinu að minna á að Ísland á ekki fegurstu söguna þegar kemur að framkomu gagnvart konum og stúlkum. Í því samhengi nefni ég ástandið en bókin Kynlegt stríð eftir Báru Baldursdóttur kom út nýverið og varpar ljósi á tvö lykilskjalasöfn sem varpa algjörlega nýju ljósi á efnið sem við töldum okkur öll þekkja þokkalega vel. Íslensk stjórnvöld stunduðu á þeim tíma miklar persónunjósnir gagnvart konum og börnum og beittu stúlkur ofbeldi og frelsisviptingu vegna mögulegra samneyta þeirra við erlenda karlmenn.

Við verðum að læra af sögunni og vinna markvisst að því að hún endurtaki sig ekki, að við stöndum ekki vörð um kerfi sem eru mannanna verk og verja sérhagsmuni eða halda ákveðnum hópum samfélagsins í fjárhagslegri eða félagslegri gíslingu.

Bakslag um allan heim í stöðu jafnréttismála er einnig merkjanlegt í íslensku samfélagi og jafnréttisparadísin Ísland rétt slefar í það sæti. Við höfum dregist aftur úr okkar helstu viðlíkjendum hvað varðar t.d. heilsu og menntun kvenna og annarra jaðarsettra hópa hér á landi. Við þurfum í okkar stefnu að beina sjónum okkar að því sem viðheldur bágri stöðu kvenna og annarra jaðarsettra hópa.

Eru það þá helst vinnumarkaðstengdir þættir og í fyrsta lagi má nefna lágt virðismat kvennastétta.

Ég verð hér að benda á kjarabaráttu kennara, einnar stærstu kvennastéttarinnar. Það virðist vera „landlægur andskoti“ að kennarar þurfi að sætta sig við lág laun og krefjandi vinnuaðstæður af því að þeir eru svo lánsamir að „fá að kenna“ eins og formaður Samtaka Atvinnulífsins komst svo skemmtilega að orði í fjölmiðlum í vikunni.

Í öðru lagi og tengist einnig vinnumarkaði eru hlutastörf – en þriðjungur kvenna er í hlutastörfum til að geta axlað frekar þau umönnunarstörf sem falla til innan sem utan heimilisins.

Í þriðja lagi og það sem kemur á óvart að er ekki einu sinni breyta í jafnréttismælingum er kynbundið ofbeldi. Við gætum tekið langa stund til að telja upp nýleg atvik sem snúa að kynbundnu ofbeldi þar sem ljótasta birtingarmyndin eru kvenna- og barnamorð.

Bakslag hvað stöðu jafnréttis varðar er svo sannarlega greinanlegt hér á landi. Tölfræðin er svört þegar við skoðum fjölda kvenna sem starfa eða starfað hafa á Alþingi bæði sem kjörnir fulltrúar og sem starfsmenn þingsins og hafa orðið fyrir kynbundinni áreitni eða ofbeldi í starfi eða 80%. Það eru svimandi háar tölur.

Þetta er ekki fasti, þetta er menning sem þarf að uppræta.

Þessar tölur birtast á sama tíma og við þurfum að hvetja konur til að taka aukinn þátt í stjórnmálum svo jafnrétti verði hér náð. En þátttaka kvenna í stjórnmálum er grundvöllur jafnréttis.

Í stjórnmálum höfum við val um stefnu og strauma. Við höfum valið að setja skynsemina á oddinn og tala af yfirvegun og gegn þeirri pólun sem hefur átt sér stað í stjórnmálunum. Nú sem aldrei fyrr er mikilvægt að rödd skynseminnar nái í gegnum falsfréttir og popúlisma og komist alla leið inn að ríkisstjórnarborðinu á ný.

Hjördís Guðný Guðmundsdóttir, kennari og formaður Kvenna í Framsókn.

Greinin birtist fyrst á visir.is 20. október 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Stærsta hagsmunamálið

Deila grein

19/10/2024

Stærsta hagsmunamálið

Það er ábyrgðahluti að sitja í rík­is­stjórn Íslands. Á und­an­förn­um árum höf­um við í Fram­sókn ein­beitt okk­ur að því að horfa fram á veg­inn, vera á skófl­unni og vinna vinn­una í þágu ís­lenskra hags­muna. Við höf­um haldið okk­ur fyr­ir utan reglu­legt hnútukast milli annarra stjórn­mála­flokka og reynt að ein­blína frek­ar á verk­efn­in og finna á þeim hag­felld­ar lausn­ir fyr­ir land og þjóð.

Ég er stolt af þeim ár­angri sem náðst hef­ur á ýms­um sviðum þjóðlífs­ins á und­an­förn­um árum. Margt hef­ur áunn­ist þótt það séu fjöl­mörg tæki­færi til þess að gera bet­ur. Þannig er gang­ur lífs­ins.

Lægri verðbólga og lækk­un vaxta eru stærsta hags­muna­mál heim­ila og fyr­ir­tækja um þess­ar mund­ir. Það voru já­kvæð tíðindi þegar Seðlabank­inn lækkaði vexti nú í byrj­un mánaðar. Slíkt ger­ist ekki af sjálfu sér. Lyk­il­atriði á næstu vik­um er að tryggja að at­b­urðarás­in á næst­unni verði ekki til þess að tefja vaxta­lækk­un­ar­ferlið. Fram­sókn mun ekki láta sitt eft­ir liggja í þing­inu til að tryggja að skyn­sam­leg fjár­lög verði samþykkt, líkt og boðað er í því fjár­laga­frum­varpi sem fjár­mála- og efna­hags­ráðherra hafði mælt fyr­ir fyrr í haust. Leiðarljós þess eru að ná niður verðbólgu og bæta þannig kjör heim­ila og fyr­ir­tækja. Það er skoðun okk­ar að traust sam­spil pen­inga­stefnu Seðlabanka Íslands, op­in­berra fjár­mála og aðila vinnu­markaðar­ins sé lyk­il­for­senda þess að stuðla að stöðugu verðlagi og skapa skil­yrði fyr­ir lækk­un verðbólgu og vaxta. Í þágu þessa þarf for­gangs­röðun í op­in­ber­um fjár­mál­um sem kall­ast á við aðgerðir stjórn­valda í þágu lang­tíma­kjara­samn­inga á vinnu­markaði, sem snúa að því að fjár­festa í fólki.

Það eru áhuga­verðir tím­ar í ís­lensk­um stjórn­mál­um um þess­ar mund­ir. Það er skylda okk­ar sem störf­um á þeim vett­vangi að tak­ast á við stöðuna af ábyrgð og festu enda er til mik­ils að vinna að ná mjúkri lend­ingu í hag­kerf­inu. Það er heiður að starfa í umboði kjós­enda lands­ins og vinna í þágu ís­lenskra hags­muna. Í kom­andi kosn­ing­um munu flokk­arn­ir óska eft­ir end­ur­nýjuðu umboði til þess að sitja á Alþingi Íslend­inga. Við í Fram­sókn erum klár í bát­ana og vél­arn­ar hafa verið ræst­ar, til­bú­in til að leggja okk­ur öll áfram fram til þess að gera sam­fé­lagið betra en það var í gær.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 19. október 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Á ríkið að svíkja samninga?

Deila grein

14/10/2024

Á ríkið að svíkja samninga?

Í vik­unni birt­ist frétt í Morg­un­blaðinu um til­lög­ur Viðskiptaráðs, en þær hafa það að mark­miði að spara rík­inu ákveðnar fjár­hæðir. Það sem þar kem­ur aðallega á óvart er að marg­ar til­lög­ur snú­ast um það að ríkið eigi að virða skuld­bind­ing­ar sín­ar að vett­ugi og draga úr mik­il­væg­um aðgerðum fyr­ir fólkið í land­inu.

Að eiga aðild að samn­ing­um er ábyrgð sem ber að sinna af heiðarleika og heil­ind­um og það er eng­um til heilla ef ríkið á að draga til baka lof­orð, skuld­bind­ing­ar og und­ir­ritaða samn­inga. Slík rík­is­stjórn myndi varla vera traust­vekj­andi í aug­um þjóðar­inn­ar, hvað þá ein­stak­linga sem binda mikl­ar von­ir við þær aðgerðir sem ríkið hef­ur skuld­bundið sig til.

Að sjálf­sögðu á ríkið að vera með ábyrga og skyn­sam­lega hag­stjórn. Við sjá­um að aðhald og aðgerðir nú­ver­andi rík­is­stjórn­ar eru far­in að hafa áhrif á lækk­un verðbólgu og vext­ir eru byrjaðir að lækka.

Aðkoma að kjara­samn­ing­um

Það er um­hugs­un­ar­vert að svo virðist sem að Viðskiptaráð beri ekki mikla virðingu fyr­ir rót­gró­inni meg­in­reglu samn­inga­rétt­ar um að samn­inga skuli halda. Það er rétt að skipt­ar skoðanir eru á því hvort ríkið hefði átt að stíga inn í síðustu kjaraviðræður. Einnig er rétt að það er mik­il­vægt að við tök­um þátt í slík­um samn­ingaviðræðum af var­færni, eins og Viðskiptaráð hef­ur bent á. En þegar búið er að gefa fyr­ir­heit, þá er mik­il­vægt að standa við það sem lagt hef­ur verið fram.

Und­ir­rit­un kjara­samn­inga í mars sl. á al­menn­um markaði var mik­il­væg skref. Aðilar al­menna vinnu­markaðar­ins sýndu með þess­um samn­ing­um mikla ábyrgð og fram­sýni. Aðkoma stjórn­valda, bæði rík­is og sveit­ar­fé­laga, skipti sköp­um í þeirri samn­inga­gerð. Þær aðgerðir, sem ríkið skuld­batt sig til, eru til þess falln­ar að auka ráðstöf­un­ar­tekj­ur heim­ila með sér­stakri áherslu á hús­næðis­upp­bygg­ingu, tryggja hús­næðisstuðning og stór­efla stuðning við barna­fjöl­skyld­ur. Þetta er stuðning­ur við þau sem standa höll­um fæti á hús­næðismarkaði og hafa orðið fyr­ir auk­inni byrði vegna hús­næðis­kostnaðar. Aðgerðir til að auka fram­boð íbúðar­hús­næðis stuðla að auknu jafn­vægi á hús­næðismarkaði og lægri hús­næðis­kostnaði.

Er Viðskiptaráð virki­lega að leggja til að auka byrði barna­fjöl­skyldna og auka byrði hús­næðis­kostnaðar þeirra sem síst geta? Það að svíkja skuld­bind­ing­ar sín­ar og láta þann hóp bera auk­inn kostnað get­ur haft langvar­andi áhrif þó svo að það myndi spara rík­is­sjóð ein­hverj­ar fjár­hæð í dag.

Mik­il­væg­ar aðgerðir rík­is­ins í hús­næðismál­um

Hvað varðar til­lögu Viðskiptaráðs um lækk­un vaxta­bóta­kerf­is­ins og hlut­deild­ar­lána er nauðsyn­legt að ít­reka að ríki og sveit­ar­fé­lög hafa aðkomu að þriðjungi af bygg­ingu hús­næðis ár hvert. Það er ekki nýtt að ríkið gangi til aðgerða á hús­næðismarkaði með það að mark­miði að grípa viðkvæma hópa og jafna aðgengi að markaðnum.

Tíma­bilið 2019-2024 hef­ur verið mesta upp­bygg­ing­ar­tíma­bil Íslands­sög­unn­ar, en það hef­ur þó ekki dugað til. Eft­ir­spurn eft­ir hús­næði hef­ur auk­ist um­tals­vert á stutt­um tíma sam­hliða mik­illi fólks­fjölg­un hér á landi. Því erum við að byggja und­ir áætlaðri íbúðaþörf, en ekki vegna aðgerðal­eys­is í hús­næðismál­um.

Við í Fram­sókn höf­um lagt höfuðáherslu á að auka aðgengi að hús­næði, sér­stak­lega fyr­ir ungt fólk, fyrstu kaup­end­ur og leigj­end­ur. Þetta ger­um við m.a. með hlut­deild­ar­lán­un­um, sem hafa reynst þess­um hóp­um vel og reynst mik­il­væg aðgerð í hús­næðismál­um.

Hlut­deild­ar­lán fyr­ir fyrstu kaup­end­ur eru kom­in til að vera og rík­is­stjórn­in hef­ur nú þegar samþykkt að veita 4 millj­arða til hlut­deild­ar­lána á þessu ári. Ann­ars veg­ar til að styðja við fyrstu kaup­end­ur og til að hvetja fram­kvæmdaaðila til að halda áfram að byggja. Eins var þetta til þess að fram­kvæmdaaðilar lækkuðu verð til að passa inn í viðmið hlut­deild­ar­lána. Hlut­deild­ar­lán­in stuðluðu bein­lín­is að því að halda fast­eigna­verði niðri, þvert á orð Viðskiptaráðs.

Við stönd­um við það sem segj­um

Til að mæta aukn­um vaxta­kostnaði heim­il­anna síðustu miss­eri var á ár­inu 2024 greidd­ur út sér­stak­ur vaxt­astuðning­ur til heim­ila með íbúðalán. Grunn­fjár­hæðir hús­næðis­bóta og eigna­skerðinga­mörk í hús­næðis­bóta­kerf­inu hækka 1. júní 2024 auk þess sem aukið til­lit verður tekið til fjöl­skyldu­stærðar og munu fram­lög til hús­næðis­bóta aukast um 2,5 ma.kr. á árs­grund­velli vegna þessa.

Áfram verður dregið úr tekju­skerðing­um barna­bóta þannig að mun fleiri for­eldr­ar njóta stuðnings. Barna­bæt­ur hækka því ríf­lega og unnið verður að því í sam­starfi rík­is og sveit­ar­fé­laga að skóla­máltíðir grunn­skóla­barna verði gjald­frjáls­ar frá og með hausti 2024. Þá verða há­marks­greiðslur úr Fæðing­ar­or­lofs­sjóði hækkaðar í þrem­ur áföng­um á næstu tveim­ur árum. Þegar breyt­ing­ar á fram­lagi til Fæðing­ar­or­lofs­sjóðs verða að fullu komn­ar til fram­kvæmda árið 2027 nem­ur upp­söfnuð hækk­un um 5,7 ma.kr. á árs­grund­velli.

Við í Fram­sókn leggj­um mikla áherslu á hag ís­lensku þjóðar­inn­ar í heild m.a. með nauðsyn­legri íhlut­un rík­is­ins á hús­næðismarkaði. Við höld­um áfram með aðgerðir til að tryggja stöðug­leika og draga úr nei­kvæðum áhrif­um á hag­kerfið og vilj­um stuðla að því að áfram verði unnið með þann grund­völl sem þegar hef­ur verið lagður.

Ingibjörg Isaksen, þing­flokks­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 12. október 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Ísland verður leiðandi í gervigreind og máltækni

Deila grein

14/10/2024

Ísland verður leiðandi í gervigreind og máltækni

Þegar reyn­ir á stoðir tungu­máls okk­ar og menn­ing­ar finn­um við til ábyrgðar. Mál­efni tungu­máls­ins hafa sjald­an verið eins áber­andi í umræðunni og síðustu ár. Íslensk­an skipt­ir okk­ur öll máli og okk­ur þykir öll­um raun­veru­lega vænt um tungu­málið okk­ar. Því í tungu­mál­inu býr menn­ing okk­ar, merk og alda­göm­ul saga; sjálf þjóðarsál­in. Mál­tækni­áætl­un stjórn­valda og at­vinnu­lífs hef­ur skilað undra­verðum ár­angri fyr­ir tungu­málið svo eft­ir er tekið um all­an heim. Enn frek­ari aðgerða er þörf á því sviði og ég mun beita mér fyr­ir því að komið verði á fót gervi­greind­ar- og mál­tækni­miðstöð á Íslandi, í áfram­hald­andi sam­vinnu við at­vinnu­lífið.

Mik­il­vægi ís­lensk­unn­ar

Hæfni barna í móður­mál­inu ræður oft för um tæki­færi þeirra til framtíðar. Ég finn vel fyr­ir áhyggj­um Íslend­inga af framtíð tungu­máls­ins. Í minni ráðherratíð, sem ráðherra menn­ing­ar­mála, er þetta lík­lega það mál sem ég er tíðast brýnd til að beita mér fyr­ir. Fólk gef­ur sig á tal við mig úti á götu með áhyggj­ur af stöðu barn­anna okk­ar sem hrær­ast í ensku mál­um­hverfi, í sím­un­um og allt of oft í sjálf­um skól­un­um þar sem sí­fellt fleiri starfs­menn og sam­nem­end­ur þeirra tala litla sem enga ís­lensku. Þegar fólk geng­ur um miðbæ Reykja­vík­ur blasa við því upp­lýs­inga­skilti, aug­lýs­ing­ar og mat­seðlar á ensku. Er­lendu af­greiðslu­fólki fjölg­ar sí­fellt sem tal­ar enga ís­lensku. Nýj­ustu tækni­lausn­ir hafa síðasta ára­tug aðeins verið aðgengi­leg­ar á ensku. Ég leyfi mér þó að horfa bjart­sýn­um aug­um til framtíðar og segja að okk­ur sé að tak­ast að snúa þess­ari þróun við.

Íslensk­an er víða í sókn

Fjöld­inn all­ur af lausn­um sem aðstoða inn­flytj­end­ur við að læra ís­lensku hef­ur birst á síðasta ári, sem all­ar njóta veru­legra vin­sælda. Ég nefni þar sem dæmi RÚV ORÐ, sem kenn­ir fólki ís­lensku í gegn­um afþrey­ing­ar­efni RÚV, og Bara tala, for­rit með sér­sniðinni ís­lensku­kennslu eft­ir orðaforða úr mis­mun­andi starfs­grein­um á Íslandi. Þetta gerðist ekki af sjálfu sér. Upp­lýs­inga­skilti í Leifs­stöð gera nú loks­ins ís­lensku hærra und­ir höfði en ensku, líkt og eðli­legt er á ís­lensk­um flug­velli eins og ég hef bent á ít­rekað und­an­far­in ár. Þetta gerðist ekki af sjálfu sér.

Stærstu mállíkön heims hafa á síðasta ári lært því sem næst lýta­lausa ís­lensku. Nýj­ustu fyr­ir­tækjalausn­ir, sem flest­ar eru byggðar ofan á þau líkön, eru því not­hæf­ar á ís­lensku. Áhrifa­mesta gervi­greind­ar­fyr­ir­tæki heims gum­ar af hæfni mállík­ans síns í tungu­máli sem um 350 þúsund manns tala, ís­lensku. Ekk­ert af þessu gerðist af sjálfu sér.

Sam­vinna at­vinnu­lífs og stjórn­valda skil­ar ár­angri

Far­sælt sam­starf stjórn­valda og at­vinnu­lífs í þróun á nýj­ustu tækni fyr­ir tungu­málið hef­ur sannað sig. Um­fangs­mik­il fjár­fest­ing stjórn­valda í þess­ari þróun, sem hófst árið 2018 með fyrstu mál­tækni­áætl­un, hef­ur borgað sig. Með söfn­un á gríðarlegu magni gagna á ís­lensku og þróun á gervi­greind­ar­tækni á ís­lensku hef­ur Ísland orðið leiðandi afl meðal smáþjóða í heimi mál­tækni og gervi­greind­ar. Fjár­fest­ing og þróun á tækni­leg­um innviðum sem þess­um í nafni tungu­máls og menn­ing­ar­arfs heill­ar þjóðar hef­ur vakið at­hygli út fyr­ir land­stein­ana. OpenAI, eitt stærsta gervi­greind­ar­fyr­ir­tæki heims, hef­ur viljað vinna náið með Íslandi á þess­um for­send­um: við deil­um áhuga með fyr­ir­tæk­inu á tungu­mál­inu og ger­um okk­ur grein fyr­ir að stærsta tækni­bylt­ing síðustu ára­tuga, gervi­greind­ar­bylt­ing­in, grund­vall­ast á sam­spili mann­legs tungu­máls og tölvu­tækni.

Áfram sækj­um við fram

Við erum hvergi af baki dott­in. Ég er þess full­viss að tækn­in muni á næstu árum, jafn­vel mánuðum, færa okk­ur lausn­ir við mörg­um af helstu vanda­mál­um sem nú ógna tungu­máli okk­ar. Tækni sem þýðir og tal­set­ur barna­efni með eins rödd­um og í upp­haf­legri út­gáfu þess er rétt hand­an við hornið. Fleiri tækni­lausn­ir sem auðvelda inn­flytj­end­um að læra ís­lensku eiga eft­ir að koma út. Nýj­ustu lausn­ir frá Microsoft og Google og fleiri tækn­iris­um verða aðgengi­leg­ar á ís­lensku. iP­ho­ne-sím­inn þinn mun á end­an­um geta talað ís­lensku. Ég er viss um það. En þetta ger­ist hins veg­ar ekki af sjálfu sér.

Við verðum að tryggja áfram­hald­andi þróun í ís­lenskri mál­tækni og gervi­greind og að mála­flokk­ar þess­ir tali sam­an. Um síðustu mánaðamót hrinti menn­ing­ar- og viðskiptaráðuneytið ann­arri mál­tækni­áætl­un af stað, sem fel­ur í sér mikla fjár­fest­ingu og áfram­hald­andi sókn í mál­tækni. Þar er áhersl­an á hag­nýt­ingu þeirra innviða sem við höf­um smíðað síðustu ár og lausn­ir á ís­lensku sem gagn­ast al­menn­ingi og tungu­mál­inu.

Gervi­greind­ar- og mál­tækni­set­ur

Sýn okk­ar er að Ísland verði að koma á fót öfl­ugri ein­ingu, helst í sam­starfi stjórn­valda og at­vinnu­lífs, sem færi með mál­efni bæði gervi­greind­ar og mál­tækni. Slík ein­ing myndi vinna stöðugt að efl­ingu þess­ara greina á Íslandi, tryggja ný­sköp­un inn­an þeirra, hag­nýt­ar rann­sókn­ir há­skóla sem gagn­ast ís­lensk­um fyr­ir­tækj­um og vera leiðandi afl á þessu sviði meðal smærri þjóða. Ísland hef­ur alla burði til að standa und­ir slíku starfi. Græn orka og nátt­úru­leg­ar aðstæður eru full­komn­ar fyr­ir fram­leiðslu á reikniafli, sem get­ur um­bylt tækniiðnaði og rann­sókn­ar­starfi á Íslandi. Íslenskt hug­vit og tækni geta staðið stolt á meðal fremstu þjóða heims, og efl­ing þessi verður reist á grund­velli menn­ing­ar og tungu­máls Íslend­inga. Við höf­um lagt til að ráðast í sam­starf við há­skóla-, iðnaðar- og ný­sköp­un­ar­ráðuneytið um að gera þessa framtíðar­sýn að veru­leika og ég von­ast til að við get­um hafið þessa upp­bygg­ingu á allra næstu mánuðum. Mín von er að slík gervi­greind­ar- og mál­tækni­miðstöð yrði rek­in í sam­vinnu stjórn­valda og at­vinnu­lífs með ekki ósvipuðu fyr­ir­komu­lagi og Íslands­stofa. Hægt væri að sam­eina ýms­ar smærri stofn­an­ir og ein­ing­ar í mál­tækni, gervi­greind og ný­sköp­un und­ir ein­um hatti og auka hagræði í mála­flokk­un­um báðum á sama tíma og starf inn­an þeirra yrði eflt.

Bók­mennta­arf­ur Íslands þykir eitt af undr­um ver­ald­ar og er sann­ar­lega fram­lag okk­ar til heims­bók­mennt­anna. Að sama skapi hef­ur Ísland alla burði til að vera ein öfl­ug­asta gervi­greind­ar- og mál­tækniþjóð í heimi.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 13. október 2024.