Categories
Greinar

Sveitarstjórnarstigið til framtíðar

Deila grein

28/09/2018

Sveitarstjórnarstigið til framtíðar

Sveitarstjórnarfólk um allt land er í óða önn að leggja línur fyrir starfsemi síns sveitarfélags á yfirstandandi kjörtímabili. Næstu fjögur ár verða notuð til að búa í haginn og styrkja þjónustu við íbúanna, skapa grundvöll fyrir bætt lífsskilyrði og búsetu hvar sem er á landinu. Takast á við gamlar sem nýjar áskoranir.

Áskoranir
Og þessar áskoranir eru margar og sumar flóknar. Íbúar gera eðlilega kröfu um góða þjónustu og góðu mannlífi. Rafræn stjórnsýsla ryður sér til rúms og fjórða iðnbyltingin er hafin – fer á ógnarhraða þar sem gervigreind, sjálfkeyrandi bílar, drónar verða brátt hluti af daglegu lífi. Þá leggur ný löggjöf auknar kröfur á stjórnsýslu sveitarfélaga, eins og ný sveitarstjórnarlög, upplýsingalög og nú síðast lög um persónuvernd.

Stærð og geta sveitarfélaganna
Á sama tíma stöndum við frammi fyrir því að mörg sveitarfélög eru fámenn. Sú spurning gerist áleitnari hvort þau séu nægjanlega vel í stakk búin til að takast á við umfangsmiklar áskoranir. Meira en helmingur sveitarfélaga er með færri en eittþúsund íbúa, það er að segja 39 af 72!

Á landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga, sem nú stendur yfir á Akureyri, setti ég fram tillögu um að mótuð yrði sameiginleg stefna um að fækka og efla sveitarfélögin. Það mætti t.d. byrja á átaki þar sem sveitarfélög hafa tiltekin tíma, segjum fjögur til átta ár, til að ná tilteknum markmiðum í frjálsum sameiningum. Samhliða yrði fjárhagslegur stuðningur Jöfnunarsjóð sveitarfélaga við sameiningar og til skuldalækkunar stóraukin. Ég gæti séð það fyrir mér að um 15 milljarðar færu í slíkan stuðning á tímabilinu.

Eftir að þessu tímabili lyki tæki við ákvæði sveitarstjórnarlaga um lágmarksíbúafjölda. Þau sveitarfélög sem ekki hefðu nýtt tímann til að ná settu markmiði þyrftu þar með að sameinast nágrannasveitarfélagi.

Ég veit að sjónarmiðin verða ólík og áherslurnar mismunandi. En verkefnið er skýrt – að móta eina stefnu fyrir íslensk sveitarfélög, fyrir framtíðina. Stærð sveitafélaga og geta þeirra til að sinna lögbundnum verkefnum og styðja við umbreytingar og framþróun samfélagsins verður hluti af þeirri stefnumörkun.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 28. september 2018.

Categories
Greinar

Efling iðnnáms á Íslandi

Deila grein

26/09/2018

Efling iðnnáms á Íslandi

Það er frábært að heimsækja íslenska framhaldsskóla. Á ferðum mínum undanfarna mánuði hef ég komið inn í ófáa slíka og hitt þar metnaðarfullt skólafólk og öfluga nemendur. Þar er unnið geysilega fjölbreytt og mikilvægt uppbyggingarstarf alla daga. Framhaldsskólastigið er brúin milli bernskunnar og fullorðinsáranna bæði hvað varðar nám og þroska.

Á fjárlögum þessa árs kom inn umtalsverð hækkun framlaga til framhaldsskólanna, alls um 1,2 milljarðar kr., og í nýju frumvarpi til fjárlaga ársins 2019 sést að sú fjárveiting til skólanna mun halda sér á næsta ári. Heildarútgjöld til framhaldsskólastigsins eru áætluð tæpir 33 milljarðar kr. á næsta ári en þar undir er rekstur á yfir 30 skólum úti um allt land. Í þessum skólum eru um 18.000 nemendur. Auknir fjármunir sem runnið hafa til skólanna að undanförnu gera þeim kleift að efla sitt skólastarf enn frekar, meðal annars með því að bæta námsframboð, styrkja stoðþjónustu og endurnýja búnað og kennslutæki.

Forgangsröðun í verki 

Fjárlagafrumvarp næsta árs ber þess merki að ríkisstjórnin forgangsraðar í þágu verk-, iðn- og starfsnáms. Við viljum að nemendur í öllum landshlutum hafi aðgengi að fjölbreyttu starfsnámi, ekki síður en bóknámi, sem uppfyllir kröfur næsta skólastigs og atvinnulífsins. Í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir 224 milljóna kr. hækkun til reksturs framhaldsskóla og er lögð sérstök áhersla á að hækka verð reikniflokka starfs- og verknáms. Einnig eru framlög tryggð til að efla kennsluinnviði fyrir verk- og starfsnám, t.d. bætta verknámsaðstöðu í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti og Borgarholtsskóla. Enn fremur er unnið að þróun rafrænna ferilbóka fyrir nemendur í starfsnámi og einföldun í skipulagi námsins.

Það er mikilvægt að hver og einn nemandi geti fundið nám við sitt hæfi. Slíkt eykur ekki aðeins ánægju nemenda heldur dregur einnig úr líkum á brotthvarfi. Umfangsmikil verkefni sem við vinnum að á framhaldsskólastiginu eru meðal annars að sporna gegn brotthvarfi, stuðla að bættri líðan nemenda og styðja betur við nemendur sem hafa annað móðurmál en íslensku.

Á réttri leið 

Á undanförnum mánuðum höfum við séð jákvæð teikn á lofti í menntamálum. Nemendum sem innritast á ákveðnar verk- eða starfsnámsbrautir framhaldsskóla fjölgaði umtalsvert í haust, eða hlutfallslega um 33% á milli ára. Við viljum halda áfram á þessari vegferð og sækja fram fyrir allt menntakerfið okkar. Það mun skila sér í ánægðari nemendum og samkeppnishæfara hagkerfi.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 26. september 2018.

Categories
Greinar

Kjarasamningar – Áskorun til okkar allra

Deila grein

24/09/2018

Kjarasamningar – Áskorun til okkar allra

Nánast allir kjarasamningar á almenna vinnumarkaðnum renna út í lok árs auk þess sem samningar á opinberum vinnumarkaði verða lausir í mars. Margir segja að undiraldan nú sé ekkert frábrugðin því sem alltaf gerist í aðdraganda kjarasamninga. Hins vegar er margt sem bendir til þess að umræðan nú sé þyngri heldur en verið hefur í langan tíma. Stöðugleiki efnahagslífsins og aukinn jöfnuður í samfélaginu getur farið saman í komandi kjarasamningum en til þess að svo geti orðið verða allir að leggja sitt af mörkum. Við setningu Alþingis fyrr í mánuðinum hvatti ég til þess að sýnd væri ábyrgð við þessar aðstæður og allir yrðu að líta í eigin barm.

Þyngra hljóð í atvinnurekendum 

Það er margt sem bendir til þess að svigrúm til launahækkana sé ekki mikið um þessar mundir. Áætlanir gera því miður ráð fyrir því að atvinnuleysi fari vaxandi á næsta ári. Ferðaþjónustan hefur verið talsvert í umræðunni og flugfélögin glíma við rekstrarerfiðleika. Hljóðið í atvinnurekendum kringum landið er þyngra nú en verið hefur í 2-3 ár. Það eiga allir að geta verið sammála um að það versta við þessar aðstæður væru hækkanir sem í framhaldinu myndu verða étnar upp af verðbólguskoti.

Hækkanir í efstu lögum verður að stöðva 

Árin fyrir fall bankanna blöskraði mörgum hvernig toppar samfélagsins voru komnir á himinhá laun með risa kaupaukum/bónusum. Í sumum tilfellum voru árslaun einstaklinga hærri heldur en verkamaður getur látið sig dreyma um á heilli starfsævi. Eftir fall bankanna tóku allir á sig byrðar til að rífa upp efnahagslífið og það tókst með undraverðum hætti. Nú hafa margir á tilfinningunni að í gangi sé launaskrið hjá efstu lögum samfélagsins og með tali um ábyrgð í efnahagsmálum megi skilja sem svo að þar sé talað til millistéttarinnar og þeirra sem hafa lægri tekjur.

Íslenskt samfélag byggist á jöfnuði og þeirri grunnhugsun að við viljum tryggja öllum jafna möguleika. Jafnvel þó að við séum búin að tryggja öllum ákveðinn grunn verðum við líka að horfa til þess að jöfnuður snýst um raunverulegan samanburð. Því snýst þetta ekki bara um hækkanir í prósentum, heldur hvort við getum leyft börnum okkar það sama óháð efnahag.

Á sama tíma eigum við að hvetja fólk til framsækni í námi og vinnu og að þeir sem mennti sig eða leggi meira á sig fái hærri laun. Sé farið of langt í þessa átt stuðlum við að ójöfnuði.

Endurtekin áskorun – Náum samstöðu um breytingar 

Ég fagna því að fara í samtal við aðila vinnumarkaðar um það hvernig við getum aukið jöfnuð í opinbera kerfinu líkt og kallað hefur verið eftir. Hinsvegar verða bæði verkalýðshreyfingin og atvinnurekendur að fara yfir óeðlilegar hækkanir og kaupaukakerfi hjá forystufólki þeirra fyrirtækja sem eru að stórum hluta í eigu lífeyrissjóða. Það gengur ekki að fyrirtæki í almannaeign séu að greiða himinháa bónusa ofan á laun sem fyrir eru hærri en þekkjast annars staðar í samfélaginu. Ég trúi því ekki að skattkerfið sé eina leiðin til að ná tökum á þessari óheilbrigðu stefnu.

Ég vil endurtaka áskorun mína til forystumanna lífeyrissjóða, til verkalýðshreyfingarinnar og til samtaka atvinnulífsins að endurskoða launakerfi og kaupauka hjá toppum þeirra fyrirtækja sem þeir eru í forystu fyrir. Það er mögulegt hjá okkur sem höfum hæstar tekjur að taka nú höndum saman og sýna að það sé vilji allra í samfélaginu til að auka jöfnuð og leggja þannig okkar af mörkum til að tryggja stöðugleika í íslensku efnahagslífi. Það verða allir að taka á sig byrðar ef við ætlum að halda stöðugleika á vinnumarkaði.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 22. september 2018.

Categories
Greinar

Fjárfest í háskólastiginu

Deila grein

24/09/2018

Fjárfest í háskólastiginu

Hagvöxtur hér á landi verður í framtíðinni fremur drifinn áfram af hugviti en auðlindum. Með því fæst meira jafnvægi í þjóðarbúskapinn og minni líkur eru á sveiflukenndum vexti í efnahagslífinu. Til þess að stuðla að slíku jafnvægi og umhverfi þar sem nýsköpun blómstrar og verkvit þróast er mikilvægt að fjárfesta í háskólastiginu og hvetja til öflugs samstarfs þess við atvinnulífið. Fjárlög ársins 2019 sem kynnt voru á dögunum bera þessari áherslu stjórnvalda glöggt vitni.

Heildarfjárframlög háskólastigsins munu nema tæpum 47 milljörðum kr. á næsta ári en að meðtöldum launa- og verðlagsbreytingum er það hækkun um 2,2 milljarða eða um 5% milli ára. Þetta eru háar fjárhæðir en sýnt er að hver króna sem fer í fjárfestingu á háskólastiginu skilar sér áttfalt til baka til samfélagsins.

Sem dæmi um hækkanir innan málefnasviðs háskólastigsins eru fjárveitingar til reksturs háskóla og rannsóknastofnana sem hækka um 245 milljónir kr. milli ára og framlög til fræða- og þekkingarsetra sem hækka um 50 milljónir kr. Í fjárlagafrumvarpinu er einnig fylgt eftir áherslum um nýliðun kennara með sérstöku 50 milljóna kr. framlagi til endurskoðunar á kennaranámi.

Stuðningur við námsmenn eykst um 3,5% milli ára, heildarfjárheimild þess málaflokks fyrir árið 2019 er áætluð 8,2 milljarðar kr. og hækkar um tæpar 282 milljónir kr. frá fjárlögum þessa árs vegna aukins framlags til Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Vinnu við endurskoðun á LÍN miðar vel áfram og er stefnt að því að frumvarp þess efnis fari í opið samráð á fyrri hluta ársins 2019.

Markmiðið með auknum framlögum til kennslu og rannsókna á háskólastigi er fyrst og fremst að auka gæði náms. Sé miðað við nýjasta meðaltal Efnahags- og framfarastofnunarinnar (e. OECD) um framlag á hvern háskólanemanda stefnir í að árið 2020 hafi Ísland náð því markmiði eins og ráðgert er í sáttmála ríkisstjórnarinnar. Menntun er forsenda samkeppnishæfni okkar til framtíðar og því þurfa fjárfestingar okkar að taka mið af.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 24. september 2018.

Categories
Greinar

Við upphaf þingvetrar

Deila grein

17/09/2018

Við upphaf þingvetrar

Nú styttist í að Alþingi vereði sett að nýju. Hvaða mál verða þá helst til umræðu. Við hjá Suðurnesjablaðinu heyrðum í Silju Dögg Gunnarsdóttur úr Suðurkjördæmi.

Hvaða mál verða helst til umræðu þegar Alþingi kemur saman eftir sumarhlé?

Fjárlögin verða auðvitað stóra málið, eins og alltaf. Það er staðreynd að við Suðurnesjamenn höfum ekki fengið það sem okkur ber við úthlutun fjármuna og því ætlum við okkur að breyta. Þó að skilningur hafi aukist innan embættismannakerfisins á aðstæðum hér suður með sjó, þá er hann enn ekki nægur. Við stöndum ekki bara frammi fyrir mestu fólksfjölgun sem sögur fara af, heldur erum við einnig með sérstaka íbúasamsetningu, þar sem fjórðungur íbúa er af erlendu bergi brotinn. Einnig er ekki horft nægilega til þess hversu margir fara um flugstöðina á hverjum sólarhring sem hefur t.a.m. stóraukið álag á löggæslu og sjúkraflutninga. Í fimm ára fjármálaáætlun (sem er ramminn fyrir málasvið ráðuneyta í fjárlögum ár hvert)  sem samþykkt var í vor er eftirfarandi texti:

„Fordæmalaus fjölgun íbúa á Suðurnesjum og fjölgun ferðamanna um land allt kallar á skoðun á því hvort fjárveitingar geti í ríkari mæli færst á milli svæða. Meiri hlutinn beinir því til heilbrigðisráðherra að gera endurskoðun fjárveitinga gagnsærri en verið hefur og upplýsa um þá þætti sem ráða úthlutun fjármuna. Þar þarf sérstaklega að horfa til íbúaþróunar á Suðurnesjum þar sem heilbrigðisframlög á íbúa eru lægri en annars staðar á landinu.“

Að fá þessar setningar samþykktar í fjármálaáætlun var ákveðinn sigur fyrir okkur hér á svæðinu. En við þurfum að halda vel á spöðunum og gæta hagsmuna íbúa á Suðurnesjum.

Áhersla á umferðaröryggi

Hitt stóra málið verður án efa samgönguáætlun, sem verður lögð fram í haust. Umferðaröryggi verður að tryggja sem best og hefur auknu fjármagni verið veitt til ýmissa úrbóta til að flýta vegabótum. Fjármagn til viðhalds og lagfæringa á vegum var 5,5 milljarðar 2016 og í ár er það 12 milljarðar. Auknir fjármunir hafa verið settir í vegaþjónustu og viðhald víðsvegar um landið. Fyrr í sumar var fjórum milljörðum bætt við gildandi áætlun þessa árs til að verja vegakerfið fyrir frekari skemmdum í kjölfar stóraukins umferðarþunga. Þá er í fjármálaáætlun gert ráð fyrir sérstöku 5,5 milljarða árlegu framlagi sem bætist við til næstu þriggja ára. Í heildina er gert ráð fyrir að 160 milljörðum verði varið í viðhald og framkvæmdir í vegakerfinu á næstu 5 árum (2019-2023). Viðhald á vegakerfinu hefur aldrei verið meira en nú.

Hvað mál munt þú helst leggja áherslu á?

Mannréttindi, félagslegt réttlæti og þá sérstaklega réttindi barna, eru mér afar hugleikin. Ég mun endurflytja þingmálin mín sem ekki voru samþykkt sl. vor, þ.e. þingsályktun um réttindi barna til að þekkja uppruna sinn, frumvarp um breytingar á lögum barnalífeyri (börn sem hafa misst foreldri), frumvarp um bótarétt fanga, þ.e. að þeir sem stunda vinnu og/eða nám á meðan á afplánun stendur geti unnið sér inn rétt til atvinnuleysisbóta, breytingar á lögum um fæðingarorlof, þ.e. að fólk sem þarf að fara að heima til að fá fæðingarþjónustu fái þann tíma bættan með lengra fæðingarorlofi, frumvarp um aukið eftirlit með dæmdum barnaníðingum sem og frumvarp um bann við ónauðsynlegum aðgerðum á kynfærum drengja (umskurðarfrumvarpið).

Þingveturinn framundan verður án efa spennandi og  skemmtilegur. Ég vona að hann verði einnig árangursríkur, okkur öllum til hagsbóta.

Silja Dögg Gunnarsdóttir, alþingismaður.

Greinin birtist fyrst í Suðurnesjablaðinu 6. september 2018.

Categories
Greinar

Bókaþjóðin les og skrifar

Deila grein

17/09/2018

Bókaþjóðin les og skrifar

Ein bók, einn penni, eitt barn eða einn kennari geta breytt heiminum.« Orð þessi eru höfð eftir Malölu Yousafzai, ungri pakistanskri konu sem barist hefur fyrir réttindum barna og þá ekki síst stúlkna til þess að fá að ganga í skóla. Bækur breyta heiminum á hverjum degi; þær eru einn farvegur hugsana okkar, ímyndunarafls, skoðana og sagna og í fjölbreytileika sínum auðga þær tilveru okkar, fræða og skemmta.

Staðreyndin er þó sú að læsi barnanna okkar hefur hrakað í alþjóðlegum samanburði. Að auki hefur bóksala í landinu dregist verulega saman eða um 36% á síðustu 10 árum. Ástæður þess má einna helst rekja til breyttrar samfélagsgerðar og örrar tækniþróunar því aukið framboð lesefnis og myndefnis á netinu hefur leitt til þess að lestur bóka á íslensku hefur minnkað verulega. Þessi þróun skapar ógn við tungumálið.

Á dögunum var kynnt heildstæð aðgerðaáætlun til stuðnings íslenskunni og þar á meðal eru aðgerðir til stuðnings íslenskri bókaútgáfu. Með nýju frumvarpi, sem lagt verður fram nú á haustþingi, verður sett á laggirnar nýtt stuðningskerfi sem felur í sér 25% endurgreiðslu vegna beins kostnaðar við útgáfu íslenskra bóka. Áætluð framlög eru um 400 milljónir kr. frá og með árinu 2019. Að auki verður stofnaður sérstakur barna- og unglingabókasjóður en yngri kynslóðin hefur bent ötullega á að auka þurfi framboð af slíkum bókum.

Mikilvægi bókaútgáfu er óumdeilt fyrir varðveislu íslenskunnar. Það er ekki síst á herðum íslenskrar bókaútgáfu að bregðast við þessum breyttum aðstæðum. Rithöfundar hafa sannarlega fundið fyrir þeim samdrætti sem orðið hefur í sölu íslenskra bóka og þeirra hagsmunir eru samofnir árangri útgefenda.

Markmiðið með þessum aðgerðum er að auka lestur og efla bókaútgáfu í landinu. Ég er sannfærð um að þessar aðgerðir eru til þess fallnar að auka framboð, fjölbreytni og sölu á íslenskum bókum til framtíðar. Þær munu stuðla að lækkun á framleiðslukostnaði bóka og auka þannig svigrúm til kaupa á vinnu og þjónustu. Þessar aðgerðir eiga fyrirmynd í endurgreiðslum vegna kvikmyndagerðar og hljóðritunar hér á landi en þær hafa reynst vel á þeim vettvangi og haft jákvæða keðjuverkun í för með sér.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 17. september 2018.

Categories
Greinar

Eflum íslenskt mál

Deila grein

14/09/2018

Eflum íslenskt mál

Á dögunum voru kynntar aðgerðir sem miða að því að styrkja stöðu íslenskrar tungu. Þær snerta ólíkar hliðar þjóðlífsins en markmið þeirra allra ber að sama brunni; að tryggja að íslenska verði áfram notuð á öllum sviðum íslensks samfélags. Heildstæð nálgun okkar til stuðnings íslenskunni tengist meðal annars íslenskum fjölmiðlum og þeirra hlutverki í framþróun tungumálsins okkar; þeir spegla sögu okkar og sjálfsmynd.

Aðgerðir stjórnvalda til styrktar einkareknum fjölmiðlum á Íslandi marka ákveðin vatnaskil en við ráðgerum að verja um 400 milljónum í beinar aðgerðir þeim til stuðnings frá og með næsta ári. Þar mun mestu muna um ritstjórnarsjóð sem veita mun endurgreiðslur vegna hluta ritstjórnarkostnaðar einkarekinna fjölmiðla. Skilyrði fyrir slíkum endurgreiðslum verða skýr og einföld og styrkveitingar hans fyrirsjáanlegar og óháðar tæknilegum útfærslum. Frumvarp þess efnis mun fara í opið samráð síðar í vetur og verður síðan lagt fyrir í ársbyrjun 2019.

Annað brýnt efni sem við höfum kynnt til þess að jafna hlut íslenskra fjölmiðla er að samræma gjaldtöku við kaup á auglýsingum svo íslenskir fjölmiðlar standi jafnfætis erlendum netmiðlum. Til skoðunar er að skattleggja kaup á erlendum netauglýsingum til þess að jafna stöðu innlendra fjölmiðla og erlendra vefmiðla sem taka til sín ört stækkandi hluta auglýsingamarkaðar. Í þessu horfum við til nágrannalanda okkar og Evrópuríkja sem einnig hafa sambærileg mál til skoðunar.

Aukinheldur munum við styðja betur við textun, talsetningu og táknmálstúlkun í myndmiðlum þar sem einkareknir fjölmiðlar munu geta sótt um endurgreiðslur til að mæta kostnaði vegna lögbundinnar textunar og talsetningar. Sérstök áhersla verður þar lögð á efni sem ætlað er börnum og ungmennum.

Þetta er í fyrsta sinn sem stjórnvöld grípa til beinna aðgerða til að styðja við rekstur einkarekinna fjölmiðla en slíkt hefur þekkst á Norðurlöndunum um áratuga skeið. Það er von mín og vissa að þessar aðgerðir muni breyta miklu fyrir rekstrarumhverfi þeirra strax á næsta ári.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 14. september 2018.

Categories
Greinar

Menntun er tækifæri fyrir alla

Deila grein

07/09/2018

Menntun er tækifæri fyrir alla

Það er mikilvægt að allir hafi jöfn tækifæri til menntunar og geti fundið nám við sitt hæfi. Við viljum tryggja öllum börnum og ungmennum slík tækifæri og er það leiðarljósið við gerð nýrrar menntastefnu fyrir Ísland til ársins 2030. Markmiðið er einfalt; íslenskt menntakerfi á að vera framúrskarandi og byggja undir samkeppnishæfni hagkerfisins til langrar framtíðar. Liður í því er að halda áfram með þróa menntun fyrir alla eða menntun án aðgreiningar sem reynst hefur vel að mörgu leyti.

Íslenskir skólar mæta fjölbreyttum þörfum nemenda sinna og innan þeirra er unnið frábært starf. Við vitum hins vegar að hægt er að gera betur þegar kemur að samþættingu skólastiga. Þannig er raunin að fötluðum ungmennum sem útskrifast af starfsbrautum framhaldsskóla bjóðast fáir mennta- eða starfskostir að því námi loknu. Þessi staða var rædd á nýlegum fundi Þroskahjálpar með aðstandendum fatlaðra ungmenna á opinskáan og uppbyggilegan hátt og komu þar margar athyglisverðar hugmyndir fram.

Árið 2016 fullgiltu stjórnvöld samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og var það mikið framfaraskref. Samningurinn er leiðarvísir að því hvernig tryggja skuli fötluðum mannréttindi og tækifæri til jafns við aðra en í 24. grein hans er sérstaklega fjallað um menntun. Það er mikilvægt að við leitum allra færra leiða til að uppfylla þær alþjóðlegu skuldbindingar sem við höfum undirgengist í þessum efnum.

Það er miður að útskrifuðum nemendum af starfsbrautum framhaldsskóla bjóðist ekki fjölbreyttari atvinnu- eða menntatækifæri að námi loknu og að því munum við keppa. Þegar hefur verið hrint af stað vinnu á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytisins þar sem fram munu koma tillögur til úrbóta um aðgengi fatlaðs fólks að námi og/eða störfum að loknum framhaldsskóla. Mikilvægt verður að stilla saman strengi þeirra sem að þurfa að spila saman í þessum efnum m.a. með velferðarráðuneytinu, sveitarfélögum sem og öðrum hagsmunaaðilum. Ljóst er að bætt yfirsýn, upplýsingagjöf og aukin áhersla á samstarf og samfellu í skóla- og velferðarmálum mun hjálpa okkur að mæta þeim áskorunum sem bíða okkar og stuðla að betra samfélagi og tækifærum fyrir okkur öll.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 7. september 2018.

Categories
Greinar

Fræðslumál í forgrunni

Deila grein

07/09/2018

Fræðslumál í forgrunni

Stór verkefni eru framundan í fræðslumálum á Akureyri. Eitt það viðamesta er að brúa bilið á milli fæðingarorlofs og leikskóla en Alþingi þarf einnig að koma að því verkefni með lengingu fæðingarorlofs. Meirihluti bæjarstjórnar hefur gert það að markmiði sínu að taka yngri börn inn á leikskóla og koma þannig betur til móts við barnafólk á Akureyri. Þar til búið verður að fjölga leikskólaplássum mun barnafjöldi í hverjum árgangi ráða för um hversu mörg börn verður hægt að innrita í leikskólana á hverju hausti en um leið og svigrúm gefst verða þessi mikilvægu skref tekin.

Nýr leikskóli við Glerárskóla
Hafin er vinna við hönnun á nýjum leikskóla á lóð Glerárskóla en þar er gert ráð fyrir rými fyrir 140-150 börn. Þar mun verða sérstaklega búin ungbarnadeild fyrir börn á aldrinum 1-2 ára.  Áætlað er að skólinn verði tekinn í notkun árið 2021. Um leið og það verður að veruleika leggst af starfsemi í efra húsinu á Pálmholti. Húsið er komið til ára sinna og hefur sinnt hlutverki sínu vel. Neðra húsið verður áfram í notkun en með þessu fyrirkomulagi fjölgar leikskólaplássum um 90. Það er að mörgu að hyggja við uppbyggingu leikskóla, s.s. að greina íbúaþörf og aldurssamsetningu í hverfum bæjarins.  Fræðslusvið mun vinna að því verkefni í samvinnu við skipulagssvið en út frá þeim gögnum verður hægt að taka ákvarðanir um næstu skref í uppbyggingu leikskóla.

Enn laust hjá dagforeldrum á Akureyri
Um leið og 12-18 mánaða börnum fjölgar í leikskólum þarf að breyta aðbúnaði og aðstöðu innandyra sem og aðlaga skólalóðir að þeirra þörfum. Með uppbyggingu leikskólans við Glerárskóla og mögulegri stækkun á Naustatjörn eða Lundarseli, mun okkur takast að stíga skref í þá átt að bjóða yngri börnum en nú er gert leikskólavist.

Samhliða þessu er vilji til að styrkja starfsumhverfi dagforeldra því þó svo að leikskólaplássum fjölgi verður áfram þörf fyrir þjónustu þeirra. Nú eru starfandi 25 dagforeldrar á Akureyri og fyrirséð að  a.m.k. 3 nýir bætist í hópinn á haustmánuðum.

Nemendafjöldi í leikskólum Akureyrarbæjar skólaárið 2018-2019 verður um 980. Nýir nemendur verða 276 en þar af eru 53 börn fædd í janúar–mars 2017. Stefnt er að því á næsta ári að bjóða börnum sem fædd eru fyrir 30. apríl 2018 leikskólapláss eða mánuði yngri börnum en áður hefur verið. Nemendafjöldi í leikskólum skólaárið 2018-2019 er áætlaður um 980.

Faglærðir eru 90% í leikskólum bæjarins
Mikil umræða hefur verið um mönnun starfsfólks í leikskólum á landinu og sveitarfélögunum gengur misjafnlega vel að ráða faglært starfsfólk.  Á Akureyri hefur verið gengið frá ráðningum fyrir nýhafið skólaár og er hlutfall leikskólamenntaðra sem starfa með börnunum rúmlega 90% sem er með því hæsta sem gerist á landinu. Hlutfall kennara og annarra háskólamenntaðra starfsmanna við kennslu grunnskóla er um 99%.

Akureyrarbær er stoltur af því starfi sem fram fer í skólum bæjarins og forystufólk í bæjarstjórn horfir björtum augum til framtíðar þar sem vandaðir starfshættir og fagmennska eru í fyrirrúmi.

Ingibjörg Isaksenformaður fræðsluráðs og bæjarfulltrúi á Akureyri.

Greinin birtist fyrst á visir.is 5. september 2018.

Categories
Greinar

Samgöngur – úrbætur í sjónmáli

Deila grein

03/09/2018

Samgöngur – úrbætur í sjónmáli

Góðar og greiðar samgöngur eru undirstaða hagvaxtar og velmegunar þjóðfélaga. Ríkisstjórnin ætlar á næstu árum að bæta enn við þau fjárframlög til vegaframkvæmda og veitir ekki af og taka á uppsöfnuðum vanda hringinn í kringum landið. Áherslan er á umferðaröryggi því eitt slys er einu slysi of mikið.

Slitnir vegir

Vegakerfi okkar samfélags er yfir 12 þúsund kílómetrar að lengd. Umferð hefur stóraukist, ekki síst vegna komu ferðamanna sem flestir fara út á vegina yfir sumarið. Árið 2010 kom hingað um hálf milljón ferðamanna, sjö árum seinna voru þeir 2,2 milljónir. Á síðustu tíu árum hefur umferðin aukist um 30% á hringveginum. Á sama tíma hefur vegakerfið liðið fyrir stórfelldan niðurskurð fjármuna. Það er því víða laskað og þörf á viðhaldi og þjónustu afar aðkallandi.

Fækkum slysum

Við eigum ekki að sætta okkur við að banaslys sé eðlilegur hluti af samgöngukerfinu. Fyrir utan mannlegan harmleik sem umferðarslys valda hleypur kostnaður þeirra á tugum milljarða. Í nýrri samgönguáætlun verður forgangsraðað í þágu öryggis og viðhalds þar sem metnaðarfull og skilvirk markmið verða sett um öryggi samgangna og gerðar skilvirkar öryggisáætlanir fyrir samgöngur á landi, á sjó og í lofti. Framtíðarmarkmiðið er að lágmarka og draga úr alvarleika umferðarslysa.

Auknir fjármunir

Umferðaröryggi verður að tryggja sem best og hefur auknu fjármagni verið veitt til ýmissa úrbóta til að flýta vegabótum. Fjármagn til viðhalds og lagfæringa á vegum var 5,5 milljarðar 2016 og í ár er það 12 milljarðar. Auknir fjármunir hafa verið settir í vegaþjónustu og viðhald víðsvegar um landið. Fyrr í sumar var fjórum milljörðum bætt við gildandi áætlun þessa árs til að verja vegakerfið fyrir frekari skemmdum í kjölfar stóraukins umferðarþunga. Þá er í fjármálaáætlun gert ráð fyrir sérstöku 5,5 milljarða árlegu framlagi sem bætist við til næstu þriggja ára. Í heildina er gert ráð fyrir að 160 milljörðum verði varið í viðhald og framkvæmdir í vegakerfinu á næstu 5 árum (2019-2023). Viðhald á vegakerfinu hefur aldrei verið meira en nú. Við forgangsröðun fjármuna verður litið til ólíkrar stöðu svæða, ferðaþjónustu og öryggissjónarmiða. Slík vinna stendur nú sem hæst og mun birtast í samgönguáætlun sem verður lögð fram á Alþingi nú í haust.

Framkvæmdir á Suðurlandi

Sunnlendingar finna verulega fyrir aukinni umferð enda er fjölmargar náttúruperlur og sögustaði að finna í fjórðungnum. Meðal framkvæmda í sumar er styrking, breikkun og sementsfestun á kafla Laugarvatnsvegar, sementsfestun á Biskupstungnabraut, brú yfir Fullsæl og vegtenging brúar (Biskupstungnabraut-Reykjavegur og Laugarvatnsvegur), endursteypa á gólfi brúar yfir Ölfusá, miklar framkvæmdir við Suðurlandsveg, undirgöng og nærliggjandi vegtengingar milli Selfoss og Hveragerðis, svo eitthvað sé nefnt. Austar í fjórðungnum má nefna nýjar brýr yfir Brunná, Stigá, Hverfisfljót, Hólá og Kvíá sem og byrjun framkvæmda við Hornafjarðarfljót en í sumar stendur til við að ljúka vegtengingu við Hólm. Að lokum má nefna vegtengingu við gestastofu Vatnajökulsþjóðgarðs á Kirkjubæjarklaustri.

Framkvæmdalistinn er ekki tæmandi, en gefur engu að síður sterklega til kynna áherslu ríkisstjórnarinnar að bæta skuli samgöngukerfi landsins og þar með umferðaröryggi.

Silja Dögg Gunnarsdóttir, alþingsmaður Framsóknar

Greinin birtist fyrst í Suðra 30. ágúst 2018.