Categories
Greinar

Dagur íslenskrar náttúru

Deila grein

16/09/2015

Dagur íslenskrar náttúru

Sigrún Magnúsdóttir_001Flest eigum við uppáhaldsstaði í íslenskri náttúru. Fjölbreytileiki náttúrunnar er margslunginn og landslagið síbreytilegt hvort sem er uppi til fjalla, niður til sjávar eða í fallegum dal.

Undirstaða alls gróðurs og lífs er að finna í því sem í daglegu tali nefnist mold og Steinn Steinarr nefndi, „Drottningu lífsins, móður og lífgjafa allra lifandi“. Jarðvegur á Íslandi er um margt einstakur og breytilegur. Það má til sanns vegar færa að moldin líkt og maðurinn mótast af umhverfi og atlæti.

Uppgræðsla hér á landi er saga um ótrúlega elju og eldmóð þeirra sem hafa starfað að vernd jarðvegs og gróðurs í meira en heila öld. Að þessu hafa vísindamenn og bændur unnið af mikilli natni og nákvæmni, leitað leiða til að hefta sandfok, lagað og grætt til að nýta landið á sjálfbæran og vistvænan hátt og skapað verðmæti í þágu samfélagsins alls. Það þekkir enginn betur landið en sá sem yrkir jörðina samkvæmt bestu mögulegu þekkingu og varðveitir auðlindina fyrir komandi kynslóðir. Sá sem hlustar á hjartslátt jarðarinnar, þekkir sitt nánasta umhverfi og vill virkja þann kraft sem býr í náttúrunni, er hinn sanni náttúruverndarsinni.

Sjálfbær nýting lands felur í sér að ekki sé gengið á auðlind heldur að gróður og náttúra viðhaldist og eflist. Ánægjulegt er að erlendir gestir sýna óspilltri íslenskri náttúru mikinn áhuga en um leið hefur umferð ferðamanna talsverð áhrif. Sé þess gætt að virða og verja má á sama tíma njóta og nýta. Stefna í ferðaþjónustu þarf því að haldast í hendur við náttúruvernd til að nýting lands til ferðamennsku sé sjálfbær. Við markaðssetningu áfangastaða er brýnt að hafa í huga viðkvæma náttúru og stuðla að samfélagslegri ábyrgð til að upplifun verði eins og lagt var af stað með.

Ánægður ferðamaður deilir gjarnan sögum og myndum þegar heim er komið. Íslendingar eiga þó ekki síður efni til að deila um íslenska náttúru. Í tilefni dagsins hvet ég sem flesta til að deila með hverjum öðrum hugmyndum sínum, ljóðum og myndum af náttúrunni og nota myllumerkin #stadurinnminn og #DÍN. Til hamingju með daginn.

Sigrún Magnúsdóttir

Greinin birtist í Fréttablaðinu 16. september 2015.

Categories
Greinar

Húsnæðismál í brennidepli

Deila grein

15/09/2015

Húsnæðismál í brennidepli

haraldur_SRGBTil að unnt væri að klára kjarasamninga sl. vor gaf ríkisstjórnin út yfirlýsingu m.a. um aðgerðir í húsnæðismálum. Þær aðgerðir beinast að því að í fyrsta lagi að fjölga hagkvæmum og ódýrum íbúðum, í öðru lagi að auka framboð húsnæðis og lækka byggingarkostnað, í þriðja lagi að styðja við almennan leigumarkað og í fjórða lagið að styðja við kaup á fyrstu íbúð. Í yfirlýsingunni segir að miðað sé við að þau frumvörp sem nauðsynleg eru til að markmiðin nái fram að ganga verði afgreidd fyrir áramót á Alþingi. Frumvörpin, sem yfirlýsingin byggist á, verða væntanleg fjögur. Því blasir við að húsnæðismál verða í brennidepli Alþingis á næstu mánuðum og er það tilhlökkunarefni.

Létt á byggingarreglugerð
Aðgerðarkaflinn um aukið framboð húsnæðis og lækkun byggingarkostnaðar segir svo »Af hálfu hins opinbera verður á allan hátt greitt fyrir að hægt verði að taka upp sem hagkvæmastar aðferðir við íbúðabyggingar í því skyni að lækka byggingarkostnað. Endurskoðun á byggingareglugerð er þar á meðal og skipulagslög.Við endurskoðun byggingareglugerðar verði tekinn inn nýr flokkur mannvirkja sem undanþeginn verði ákvæðum reglugerðar um altæka hönnun. Þar verði einkum horft til smærri og ódýrari íbúða.« Þessar áherslur eru í takt við þingsályktunartillögu sem ég lagði fram síðasta vor ásamt Elsu Láru Arnardóttur, alþingismanni. Markmið þingsályktunarinnar var að lækka byggingarkostnað með því að endurskoða lög og létta á byggingareglugerð sem nú er um 170 blaðsíður að lengd. Umhverfisráðherra skipaði starfshóp þann 1. september í þessum tilgangi, og fagna ég mjög þessum áherslum.

Stuðningur við fyrstu kaup
Í yfirlýsingunni er fjallað um sparnaðarleiðir og sagt »Hvatt verður til sparnaðar með því að þeir sem sparað hafa tilgreint hámarkshlutfall af tekjum í tiltekinn tíma geti tekið sparnaðinn út skattfrjálst, t.d. þannig að ungu fólki verði heimilt að nýta séreignasparnað sem eiginfjárframlag við kaup á fyrstu íbúð. Mikilvægt er að upphæð vaxtabóta og skerðingarákvæði aðstoði einkum fjölskyldur undir meðaltekjum.« Á þennan hátt verður komið til móts við þá sem kaupa sína fyrstu íbúð, en þeir eru oft ungt barnafólk og einmitt sá hópur sem að flestra mati er mikilvægt að hlúa að.

Haraldur Einarsson

Greinin birtist í Morgunblaðinu 15. september 2015.

Categories
Greinar

Íbúðir fyrir alla

Deila grein

15/09/2015

Íbúðir fyrir alla

Silja-Dogg-mynd01-vefÍ velferðarþjóðfélagi eins og Íslandi eiga allir að eiga kost á húsnæði við hæfi. Fjölbreytt framboð húsnæðis verður að vera tryggt og verðlag í samræmi við meðallaun. Því miður er húsnæðiskerfið á Íslandi ennþá vanþroskað og því er mikilvægt að við lítum til nágrannalanda okkar og lærum af því sem þau gera vel á þessu sviði.

Samvinnan
Aðgerðir til úrbóta í húsnæðismálum landsmanna eru forgangsverkefni. Í fjárlögum 2016 er gert ráð fyrir að 2,64 milljörðum króna verði samtals varið til uppbyggingar á félagslegu húsnæði og í nýtt húsnæðisbótakerfi.

Þann 28. maí sl. sendi ríkisstjórnin út yfirlýsingu í tengslum við kjarasamninga á almennum markaði. Í henni kemur fram að ríkið skuldbindi sig, ásamt ASÍ, BSRB, BHM og fleiri samtökum, til að skapa bætt skilyrði fyrir uppbyggingu á húsnæðismarkaði. Stefnt verður að því að fjölga hagkvæmum og ódýrari íbúðum til að tryggja tekjulágum fjölskyldum leiguhúsnæði til lengri tíma.

Fleiri íbúðir-lægra verð
Samkvæmt yfirlýsingunni verður félagslega leigukerfið fjármagnað með stofnframlögum ríkis og sveitarfélaga sem nema um 30% af stofnkostnaði. Framlag ríkis og sveitarfélaga, auk annarra þátta ættu að jafnaði að leiða til þess að leiga einstaklings með lágar tekjur nemi ekki hærra hlutfalli en um 25 % af tekjum viðkomandi. Dæmi: Manneskja með 300 þús. kr. í laun greiðir þá að hámarki 65 þús.kr. í húsaleigu.

Gert er ráð fyrir að byggðar verði 2.300 íbúðir á næstu fjórum árum, max. 600 á ári. Sumum þykir sú upphæð sem ætluð er í þetta verkefni á árinu 2016 lág en þegar rýnt er í forsendur þá kemur í ljós að útreikningar gera m.a. ráð fyrir breytingum á byggingarreglugerð og lækkun lóða og gatnagerðargjalda. Það mun skila sér í lægri byggingarkostnaði. Með þessum hætti verður mögulegt að veita tekjulágum fjölskyldum, sem hingað til hafa ekki átt kost á íbúðum í félagslegu kerfi sveitarfélaganna, aðgang að ódýru og öruggu leiguhúsnæði.

Nú þurfum við að taka höndum saman, leggja pólitíkina til hliðar og byggja upp fjölbreytt húsnæðiskerfi.

Silja Dögg Gunnarsdóttir

Greinin birtist í Fréttablaðinu 15. september 2015.

Categories
Greinar

Á bjargi byggði hyggin maður hús, á sandi byggði …

Deila grein

14/09/2015

Á bjargi byggði hyggin maður hús, á sandi byggði …

Páll Jóhann PálssonÉg hef frekar haldið mig til hlés í umræðunni um Landeyjarhöfn í þeirri von að betur horfði í þessu mikilvæga samgöngumáli Vestmannaeyja. Ég get ekki lengur á mér setið að setja nokkrar línur á blað. Samkvæmt vef Vegagerðarinnar á að opna tilboð í sanddælingu í og við Landeyjarhöfn þann 11 ágúst nk. Þar er gert ráð fyrir að dæla 750 þúsund rúmmetrum af sandi á næstu þremur árum en fyrri áætlanir um magn í sanddælingu hafa ekki staðist. Áætlað var í upphafi að dæla 30 þúsund rúmmetra á ári en það hefur engan veginn staðist og ég óttast að sama verði uppi á teningnum að þessu sinni. Ég hef lagt mig eftir því að hlusta á þær raddir sem best þekkja aðstæður af eigin raun, raddir þeirra sem þekkja vel til ferjusiglinga og þeirra sem mikla reynslu hafa af hafnargerð. Því miður hafa spár þeirra og reynsla af Landeyjarhöfn orðið að staðreynd en höfnin og innsiglingin virka ekki sem sú samgöngubót fyrir Vestmannaeyinga eins og til var ætlast nema hluta úr árinu.

Rétt eins og fyrisjáanleika þarf í sjávarútvegi og stöðuleika í atvinnulífi þá þarf stöðuleika í samgöngumál og örugga tengingu við flutningskerfi landsins bæði innanlands og ekki síður fyrir útflutning hvort heldur sem er við millilandasiglinar eða alþjóða flugvöllinn í Keflavík þar sem útflutningur á ferskum fiskafurðum fer ört vaxandi.

Afhendingaröryggi er hluti af gæðum fiskvinnslunnar í landinu og stjórnun veiða og vinnslu í samráði við kaupendur á erlendum ferskfiskmörkuðum lykillinn að aukinni verðmætasköpun í greininni. Samgöngur eru því hluti að gæðakerfi vinnslunnar en yfir helmingur af allri fiskvinnslu á landinu er innan við 100 kílómetra frá Keflavíkurflugvelli. Landeyjarhöfn er veikur hlekkur í þeirri virðiskeðju fyrir Vestmannaeyinga.

Ekki er það síður mikilvægt fyrir ferðaþjónustuna í Vestmannaeyjum að hafa öruggar samgöngur þar sem hægt er bjóða upp á reglulegar ferðir allt árið þegar ferðatímabilið er sífellt að lengjast og teygja sig fram á veturinn.

Endurskoðum verkefnið frá upphafi til enda, möguleika hafnarinnar og hvernig ferjur standa sig best í þeim aðstæðum sem eru við Landeyjarhöfn. Það er hægt að leigja ferjur sem geta hjálpað til við að endurskoða verkefnið frá grunni. Stöldrum við í því að moka sandi fram og til baka í Landeyjunum og einbeitum okkur að því sem við þekkjum og reynsla manna um allan heim hefur kennt okkur. Við þurfum ekki að eyða opinberum fjármunum í að finna upp hjólið. Allar hugsanlegar ferjutegundir eru til af öllum stærðum og gerðum sem reynsla er komin á.

Við sem höfum verið til sjós vitum að stundum verður að breyta um stefnu þegar við náttúruöflin er að etja og því fyrr sem horfst er í augu við það því betra. Ég tel að sá tími sé kominn í Landeyjahöfn. Landeyjarhöfn mun nýtast fyrir grunnristar farþegaferjur sem verða fljótar á milli lands og Eyja þegar veður leyfir meðan vöruflutningar verða með alvöru skipum til Þorlákshafnar. Lausleg könnun á Internetinu segir mér að ferja sem væri stærri og öflugri og gengi helmingi hraðar en Herjólfur kosti um 3 milljarða. Jafnvel þótt hún kosti meira en það þá yrði það mikil samgöngubót og varanleg fjárfesting.

Mikil fjárþörf liggur fyrir hjá mörgum höfnum landsins og ekki síst hér á Suðurlandi og má þar nefna Grindavík, Sandgerði og Hornarfjörð og í Þorlákshöfn en þar er áætlað að bæta og breyta innviðum hafnarinnar fyrir 2,2 milljarða á næstu árum. Aflagjöld standa engan veginn undir öðru en rétt reglulegum rekstri fiskihafna í dag og Hafnarbótasjóður sem á að styðja við bakið á þessum höfnum hefur verið sveltur í mörg ár. Faxaflóahafnir standa mjög vel og hyggja á milljarðafjárfestingar á sínu svæði enda bæði með meginhlutann af inn og útflutningi landsmanna. Við Íslendingar erum rétt um 330 þúsund eða eins og mjög lítið sjávarþorp í Evrópu. Er ekki kominn tími til að hugsa málin heildstætt í stað þess að vera að berjast hver í sínu horni og dreifa litlum fjármunum á of marga staði?

Faxaflóamótelið hefur reynst mjög vel og er ekki að sjá að Akranes hafi farið halloka í því samstarfi. Því spyr ég hvort ekki megi skoða þann möguleika að taka Þorlákshöfn og hafnir á Reykjanesi inn í Faxaflóahafnir. Faxaflóahafnir hafa það afl sem þarf til að byggja Þorlákshöfn upp sem viðkomustað stærri millilandaskipa ef horft yrði til lengri tíma. Því er það freistandi að samnýta mannvirkin fyrir öfluga Vestmannaeyjaferju sem færi vel með farþega í 90 mín. siglingu til Þorlákshafnar þó slæmt væri í sjóinn og örugga tengingu vöruflutninga við önnur flutningskerfi hvort sem er flug eða sjófragt.

Ég veit að þeir sem mesta trú hafa á því að sérfræðingar viti hvernig Landeyjarhöfn verði breytt svo hún verði sú lífhöfn sem hún þarf að vera, vilja vel. Bæjarstjóri Vestmannaeyja sem er mjög öflugur málsvari Vestmannaeyja er sannfærður um að sérfræðingar og stjórnvöld geti staðið við fyrri loforð sín um heilsárshöfn í Landeyjum og er duglegur að koma því á framfæri. Kannski ætti bæjarstjórinn að líta sér nær og hlusta meira á sitt eigið fólk og í þessu tilfelli á þaulreynda skipstjóra og sjómenn sem þekkja suðurströndina og sjólagið þar af eigin raun.

Fróðlegt verður að sjá tilboðstölur í væntanlega sanddælingu við Landeyjahöfn, en hverjir treysta sér til að dæla sandi við þessar erfiðu aðstæður allt árið um kring. Því miður er ég þeirrar skoðunar að það verði erfitt verkefni og ég er þess fullviss að minna skip en núverandi Herjólfur er ekki framtíðarlausn fyrir Eyjamenn.

Páll Jóhann Pálsson

Greinin birtist í sunnlenska.is 7. ágúst 2015.

Categories
Greinar

Fjölgum hagkvæmum og ódýrum íbúðum

Deila grein

11/09/2015

Fjölgum hagkvæmum og ódýrum íbúðum

Elsa-Lara-mynd01-vefurHver getur ekki nefnt dæmi um einstætt foreldri á leigumarkaði sem nær ekki endum saman og ræður ekki við að borga háa leiguna eða námsmanninn sem kemst ekki inn á stúdentagarða vegna langra biðlista og leigir því herbergi úti í bæ og borgar þar himin háa leigu.

Því miður er hægt að nefna mörg önnur dæmi sama eðlis. Ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar gerir sér grein fyrir að bregðast þarf við þessum vanda og í Fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2016 má sjá fyrstu aðgerðirnar í þeim efnum. Þar er gert ráð fyrir að 2,6 milljörðum króna verði varið til húsnæðismála. Þar af 1,5 milljarði í stofnframlög vegna uppbyggingar á félagslegu leiguhúsnæði og 1,1 milljarði í húsnæðisbætur.

Nauðsynlegt er að sátt náist um þessi mikilvægu mál í þinginu og að pólitískum klækjaleikjum verði ýtt til hliðar. Sameinumst nú við þessar þörfu aðgerðir fyrir íslensk heimili.

Fjölgum leigufélögum, lækkum leiguverð
Í frumvarpi um stofnstyrki sem lagt verður fram á haustþingi, er lagður grunnur að nýju félagslegu leiguíbúðakerfi. Lögð er áhersla á að fjölga hagkvæmdum og ódýrum íbúðum til að tryggja tekjulágum fjölskyldum leiguhúsnæði til lengri tíma.

Félagslega leigukerfið verður fjármagnað með stofnframlögum ríkis og sveitarfélaga og með beinum vaxtaniðurgreiðslum. Þessi framlög auk annarra aðgerða eins og auknar húsnæðisbætur og endurskoðun á byggingareglugerð, eiga að leiða til þess að einstaklingur með lágar tekjur, borgi ekki meira en 20 – 25 % af tekjum sínum í leigu.

Byggjum 2300 íbúðir á 4 árum
Samkvæmt frumvarpinu geta sveitarfélög og félög eða félagasamtök sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni, byggt og rekið félagslegt húsnæði.

Þau verða að hafa það að langtímamarkmið að byggja, eiga og hafa umsjón með rekstri leiguhúsnæðis sem eingöngu er ætlað leigjendum undir ákveðnum tekju – og eignamörkum. Stefnt er að því að byggja 2300 íbúðir á næstu fjórum árum, þó að hámarki 600 íbúðir á ári. Í Fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2016 eru fyrstu skrefin stigin og fjármagni veitt í stofnframlög fyrir 400 íbúðir.

Búsetuöryggi á leigumarkaði
Samkvæmt frumvarpinu verður tekjulágum fjölskyldum, sem hingað til hafa ekki átt kost á íbúðum í félagslegu kerfi sveitarfélaganna, veittur aðgangur að ódýru og öruggu leiguhúsnæði.

Ekki er gert ráð fyrir breytingum á núverandi forgangsröðun sveitarfélaganna gagnvart skjólstæðingum félagsþjónustunnar eða forgangsröðun gagnvart námsmannaíbúðum. En við frekari forgangsröðun við úthlutun húsnæðis til fólks á vinnumarkaði verður horft sérstaklega til barnafjölskyldna og heimila í verulegum fjárhagsvanda.
Það er óhætt að segja að unnið sé í þágu heimilanna. Það höfum við gert og við höldum ótrauð áfram.

Elsa Lára Arnardóttir

Greinin birtist á visir.is 11. september 2015.

Categories
Greinar

Stöndum með heimilunum

Deila grein

06/09/2015

Stöndum með heimilunum

Elsa-Lara-mynd01-vefurÁstandið á leigumarkaðnum er slæmt. Mikil eftirspurn er eftir húsnæði, framboð of lítið og í flestum tilvikum er leiguverð mjög hátt. Margir sem búa á leigumarkaði búa jafnframt við mikið óöryggi, þar sem erfitt getur verið að fá langtímaleigusamninga. Undanfarin misseri hefur mikil og góð vinna farið fram í ráðuneyti félags – og húsnæðismálaráðherra við undirbúning að framlagningu húsnæðisfrumvarpa. Stefnt er að því að leggja þau fram á haustþingi. Auk þess er vinna hafin víðar innan ráðuneytanna til að vinna hratt og örugglega í samræmi við yfirlýsingu stjórnvalda frá 28. maí s.l. en hún varðar kjarasamninga á almennum vinnumarkaði. Hér á eftir er gerð grein fyrir þeim hluta yfirlýsingarinnar sem snýr að húsnæðismálum.

Fjölgum hagkvæmum og ódýrum íbúðum

Frumvarp um stofnstyrki er væntanlegt í þingið á haustþingi. Markmið frumvarpsins er að leggja grunn að nýju félagslegu leiguíbúðakerfi. Lögð er áhersla á að fjölga hagkvæmdum og ódýrum íbúðum til að tryggja tekjulágum fjölskyldum leiguhúsnæði til lengri tíma. Félagslega leigukerfið verður fjármagnað með stofnframlögum ríkis og sveitarfélaga og með beinum vaxtaniðurgreiðslum ríkisins. Þessi framlög eiga að leiða til þess að einstaklingur með lágar tekjur, borgi ekki hærra hlutfall af tekjum í leigu en 20 – 25 %.

Samkvæmt frumvarpinu geta sveitarfélög og félög eða félagasamtök sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni, byggt og rekið félagslegt húsnæði. Þau verða að hafa það að langtímamarkmið að byggja, eiga og hafa umsjón með rekstri leiguhúsnæðis sem eingöngu er ætlað leigjendum undir ákveðnum tekju- og eignamörkum. Stefnt er að því að byggja 2300 íbúðir á næstu fjórum árum, þ.e. frá 2016 – 2019, þó að hámarki 600 íbúðir á ári.

Samkvæmt frumvarpinu verður tekjulágum fjölskyldum, sem hingað til hafa ekki átt kost á íbúðum í félagslegu kerfi sveitarfélaganna, veittur aðgangur að ódýru og öruggu leiguhúsnæði. Ekki er gert ráð fyrir breytingum á núverandi forgangsröðun sveitarfélaganna gagnvart skjólstæðingum félagsþjónustunnar eða forgangsröðun gagnvart námsmannaíbúðum, en við frekari forgangsröðun við úthlutun húsnæðis til fólks á vinnumarkaði verður horft sérstaklega til barnafjölskyldna og heimila í verulegum fjárhagsvanda.

Aukum framboð og lækkum byggingarkostnað

Til að hægt verði að auka framboð á leiguíbúðum og lækka byggingarkostnað, þá er mikilvægt að taka upp sem hagkvæmastar aðferðir við íbúðarbyggingar, með það að markmiði að lækka byggingarkostnað.  Því þarf að endurskoða byggingarreglugerð og skipulagslög. Við endurskoðun byggingareglugerðar er stefnt að því að taka inn nýjan flokk mannvirkja sem verður undanþeginn ákvæðum um altæka hönnun. Það á eingöngu við um smærri og ódýrari íbúðir. Einnig á að skoða gjaldtöku sveitarfélaga vegna lóða – og gatnagerðargjalda, til að lækka byggingarkostnað. Nauðsynlegt er að vinna þessa vinnu hratt en vel.

Aukum húsnæðisbætur

Frumvarp um húsnæðisbætur kemur inn í þingið á fyrstu vikum þess, núna í haust. Það hefur það að markmiði að lækka húsnæðiskostnað efnaminni leigjenda og því verða húsnæðisbætur hækkaðar á árinu 2016 og 2017. Grunnfjárhæð bótanna verður hækkuð og einnig frítekjumark. Bæturnar munu taka mið af fjölda heimilismanna. Auk þessa er unnið að tillögum um að lækka skatta á leigutekjur með það að markmiði að lækka leiguverð og auka framboð leiguíbúða.

Varanlegur húsnæðissparnaður

Eins og margir muna eflaust, fór ríkisstjórnin í skuldaaðgerð fyrir íslensk heimili með verðtryggðar húsnæðisskuldir. Aðgerðirnar snérust annars vegar um beina niðurfærslu lána og hins vegar heimild til skattfrjálsrar ráðstöfunar iðgjalda séreignasparnaðar inn á húsnæðislán eða til húsnæðiskaupa. Nú er heimildin til skattfrjálsrar ráðstöfunar tímabundin, það er fimm ár þegar um er að ræða húsnæðissparnað. Kallað hefur verið eftir því að húsnæðissparnaðurinn verði gerður að varanlegu sparnaðarformi. Nú er vinna hafin við að skoða möguleika þess efnis. Eins og sparnaðurinn er byggður upp í dag, þá er hann ætlaður þeim sem eru að kaupa sína fyrstu eign.

Unnið verður að framangreindum markmiðum í samráðshópi ríkis, sveitarfélaga og heildarsamtaka aðila á vinnumarkaði með hliðsjón af fyrirliggjandi vinnu stjórnvalda við umbætur á húsnæðismarkaði  og hugmyndum sem komið hafa upp í samráðshópnum. Óhætt er því að segja að ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar standi með heimilum í landinu.

 Elsa Lára Arnardóttir

Greinin birtist í DV 4. september 2015.

Categories
Greinar

Prófessorinn Stefán og sannleikurinn

Deila grein

03/09/2015

Prófessorinn Stefán og sannleikurinn

Vigdís HauksdóttirAð mínu frumkvæði sem formanns fjárlaganefndar, var haldinn fundur í fjárlaganefnd þann 24. ágúst s.l. Á dagskrá var útgjaldaauki ríkissins sem varðar þann málaflokk sem snýr að örorkulífeyri. Frá árinu 2000 hefur öryrkjum fjölgað um tæp 80%. Útgjöld ríkissins voru árið 2005 rúmir 11 milljarðar en eru nú tæpir 30 milljarðar. Það er hækkun um 165% á 10 árum. Fjöldi þeirra sem þáðu öryrkjalífeyrir árið 2005 voru rúmir 13.000 einstaklingar en árið 2015 eru þeir rúmlega 17.000 sem er fjölgun um 29%. Forstjóri Tryggingastofnunar lagði fram gögn úr gagnagrunni stofnunarinnar, sem studd eru með áliti ríkisendurskoðunar til Alþingis frá því í febrúar 2013 sem ber heitið „EFTIRLIT TRYGGINGASTOFNUNAR MEÐ BÓTAGREIÐSLUM“

Formaður stjórnar Tryggingastofnunar, Stefán Ólafsson prófessor hefur farið mikinn í fjölmiðlum í liðinni viku og telur mig fara með staðlausa stafi. Ég hef ekki viljað tjá mig um orð prófessorsins og fara niður á sama plan og hann. Í pistli sem hann birti á heimasíðu sinni og ber heitið „Rangfærslur Vigdísar Hauks um öryrkja“ eru hvorki meira né minna sex staðreyndavillur varðandi fjölda öryrkja og samanburð við Norðurlöndin. Prófessorinn fór síðan í viðtal á Bylgjuna og þar opinberaði hann algjörlega vanþekkingu sína á málaflokknum og ruglar saman bótasvikum og uppgjöri í stargreiðslukerfi lífeyristrygginga. Hann telur bótasvik vera alvarlegt mál „en þegar menn eru að slá því fram að bótasvik gætu verið hér um 4 milljarðar á ári, þá eru það tölur sem eru ekki ígrundaðar heldur yfirfærðar frá Danmörku og séu í reynd umdeildar tölur í Danmörku.“ Hann telur jafnframt að inní í þessari upphæð séu líka rangar greiðslur á þann hátt að „menn“ gætu fengið of mikið eða of mikið lítið miðað við tekjur sem síðan sé leiðrétt þegar skatturinn kemur í ágúst á hverju ári, og síðan segir prófessorinn að „þessi frávik frá skattinum eru ekki bótasvik.“ Í árlegum endurreikningi og uppgjöri í staðgreiðslukerfis lífeyristrygginga er ekki litið svo á að um bótasvik sé um að ræða. Árlegur endurreikningur og uppgjör í staðgreiðslukerfis lífeyristrygginga er eðlilegur þáttur þess og hefur ekkert með bótasvik eða starfsemi eftirlitseiningar Tryggingastofnunar að gera. Þar er einungis verið að gera upp árið og tryggja að allir fái þann lífeyri sem þeir eiga rétt á lögum samkvæmt. Algerlega sambærilegt við árlega álagningu skatta. Afar alvarlegt er að gera hér ekki greinarmun á. Í raun er það eins og að fullyrða að allir sem fá einhverja leirðréttingu við álagningu skatta séu til meðferðar vegna hugsanlegra skattsvika. Ég er því afar hugsi yfir framgöngu formanns stjórnar Tryggingastofnunar, Stefáns Ólafssonar í þessu máli.

Vigdís Hauksdóttir

Greinin birtist á vigdish.is 3. september 2015.

Categories
Greinar

Kjarasamningar og stjórnvöld

Deila grein

31/08/2015

Kjarasamningar og stjórnvöld

ÞórunnMikill órói var á vinnumarkaði síðastliðið vor, þar sem hart var tekist á í viðræðum um kjarasamninga. Tekist var á um hve háa upphæð hver og einn ætti að fá í launaumslagið. Eins og oftast áður var ekki unnt að klára samninga einungis með því að einblína á launa­umslag hvers og eins, heldur þurftu stjórnvöld einnig að koma að borðinu með ýmis framfaramál fyrir okkar þjóðfélag.

Yfirlýsing stjórnvalda frá 28. maí varð til þess að púsluspilið gekk upp og því lykillinn að því að langtímakjarasamningar tókust. Yfirlýsingin er því grundvallarplagg sem unnið verður eftir. Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar vegna kjarasamninganna eru ellefu liðir sem lúta að ýmsum sviðum skatta-, velferðar- og húsnæðismála sem og úrbótum á sviði hagstjórnar og opinberra fjármála. Þar má nefna að með aðgerðunum mun lækkun á tekjuskatti einstaklinga nema allt að 16 milljörðum króna á kjörtímabilinu. Það samsvarar tæpum 13% af tekjum ríkissjóðs af tekjuskatti einstaklinga miðað við áætlun fjárlaga 2015. Ríkisstjórnin skuldbindur sig einnig til að skapa bætt skilyrði fyrir uppbyggingu á húsnæðismarkaði. Þannig verði stuðlað að fjölgun ódýrra og hagkvæmra íbúða með það að markmiði að tryggja tekjulágum fjölskyldum leiguhúsnæði til lengri tíma og ráðist í átak um byggingu 2.300 félagslegra íbúða á tímabilinu 2016-19.

Einnig verður stuðlað að lækkun byggingarkostnaðar, meðal annars með endurskoðun byggingarreglugerðar og gjaldtöku sveitarfélaga. Húsnæðisbætur verða hækkaðar til að styðja við almennan leigumarkað og lækka húsnæðiskostnað efnaminni leigjenda og skattlagningu breytt í þeim tilgangi að lækka leiguverð og auka framboð á leigumarkaði. Þá verður komið sérstaklega til móts við þá sem kaupa sína fyrstu íbúð, m.a. með því að ungu fólki verði heimilt að nýta séreignarsparnað til þess. Fleiri aðgerðir, s.s. vegna lækkunar á kostnaði sjúklinga og aukinna framlaga til starfsmenntunar, eru í yfirlýsingunni en hana má finna á vef forsætisráðuneytisins.

Margar þessara aðgerða krefjast nokkurrar vinnu á Alþingi vegna lagabreytinga. Við framsóknarmenn munum greiða fyrir framgangi þeirra.

Þórunn Egilsdóttir

Greinin birtist í Fréttablaðinu 31. ágúst 2015.

Categories
Greinar

Látum hendur standa fram úr ermum

Deila grein

26/08/2015

Látum hendur standa fram úr ermum

Elsa-Lara-mynd01-vefurHaustið nálgast óðfluga og rútínan sem margir bíða eftir, er rétt handan við hornið. Þessa dagana eru skólarnir í startholunum og margir hafa snúið til baka til vinnu eftir sumarfrí. Þar á meðal  þingmenn sem undirbúa nú komandi þingvetur, með því að útbúa ýmis þingmál sem stefnt er að því að klára á næsta þingi. Jafnframt eru margir þingmenn á ferðalagi um landið, láta sjá sig og heyra hvað brennur á landsmönnum. Á þessum ferðalögum um landið má heyra að það eru mörg mikilvæg mál sem landsmenn vilja sjá fyrir endan á. Þar má m.a. nefna húsnæðisfrumvörp félags – og húsnæðismálaráðherra, verðtryggingarfrumvörpin og mörg önnur mikilvæg þingmál sem bíða afgreiðslu. Þessi þingmál, sem og mörg önnur er stefnt að því að klára á næsta þingi, sem hefst þann 8. september.

Höfum val og aukum öryggi
Óhætt er að segja að mikil og góð vinna hefur farið fram í ráðuneyti félags – og húsnæðismálaráðherra í allt sumar. Þar hafa allir lagst á eitt við að undirbúa frumvörp sem hafa það að markmiði að efla hér húsnæðismarkaðinn. Frumvörp sem taka á húsnæðissamvinnufélögum, húsaleigulögum, húsnæðisbótum og stofnstyrkjum til leigufélaga. Þessi frumvörp verða lögð fram á fyrstu vikum þingsins og kláruð á haustþingi. Afar mikilvægt er að þessi frumvörp fái skjóta afgreiðslu í meðferð þingsins og að samstaða ríki um þau. Þessi frumvörp tengjast samkomulagi um kjarasamninga á almennum vinnumarkaði. Auk þessa er mikil vinna í gangi sem snýr að stuðningi við þá sem eru að kaupa sína fyrstu íbúð. Unnið er að útfærslu varðandi skattaívilnanir fyrir þá sem leigja íbúðir til langtímaleigu og auk þessa er unnið að endurbótum á lánaumhverfi íbúðarlána, þar sem hagur neytandans er hafður í forgrunni. Öll þessi vinna hefur það að markmiði að auka húsnæðisöryggi landsmanna og vera með raunhæft val á húsnæðismarkaði. Það er val um hvort fólk vilji kaupa húsnæði, leigja eða fara millileiðina og búa í búsetuíbúðum.

Burt með verðtryggingu
Mikilvægt er að afnema verðtryggingu af húsnæðislánum til að minnka vægi verðtryggingar á lánamarkaði. Það er nauðsynlegt til að stöðva þá eignatilfærslu sem verður frá íslenskum heimilum til fjármálastofnana, þegar verðbólgan hækkar. Það verður að ganga til þessara verka, um er að ræða mikið hagsmuna – og réttlætismál, fyrir heimili landsins.

Það er nú svo að skýrsla sérfræðihóps um afnáms verðtryggingar af neytendalánum var birt í lok janúar 2014. Meirihluti sérfræðihópsins lagði til að frá og með 1. janúar 2015 yrðu stigin veigamikil skref í átt að fullu afnámi verðtryggingar nýrra neytendalána, en vinna við áætlun um fullt afnám yrði hafin eigi síðar en á árinu 2016. Mikil vinna hefur farið fram í ráðuneytunum þar sem tillögur minni- og meirihluta séfræðingahópsins eru hafðar til grundvallar.  Unnið er að frumvörpum sem hafa það að markmiði að óheimilt verði að bjóða verðtryggð lán með jöfnum greiðslum til lengri tíma en 25 ára, að lágmarkstími nýrra verðtryggðra neytendalána verði lengdur í allt að 10 ár og að takmarkanir verði gerðar á veðsetningu vegna verðtryggðra íbúðalána. Fjármálaráðherra hefur umsjón með þessum hluta verkefnisins. Vegna umfangs aðgerðarinnar þá hefur verkefnið tekið lengri tíma en áætlað var. Það þýðir aðeins eitt að núna er enn mikilvægara að láta hendur standa fram úr ermum og klára þetta stóra verkefni.

Elsa  Lára Arnardóttir

Greinin birtist í DV 21. ágúst 2015.

Categories
Greinar

Byggjum 2300 leiguíbúðir

Deila grein

25/08/2015

Byggjum 2300 leiguíbúðir

EÞHÍ yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um húsnæðismál í tengslum við kjarasamninga í lok maí sl. kemur fram að ráðist verði í átak með byggingu allt að 2300 félagslegra leiguíbúða á árunum 2016-2019, þó að hámarki 600 íbúðir á ári.  Í sumar hefur verið unnið að frumvörpum og fjármögnun þessara loforða í samstarfi við aðila vinnumarkaðarins, Samband íslenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborg og hlutaðeigandi ráðuneyta enda yfirlýsing stjórnvalda ein lykilforsenda langtíma kjarasamninga á vinnumarkaði.

Átak í uppbyggingu íbúða skiptir miklu máli núna, enda var góð samstaða um það og er gert ráð fyrir þessu í fjárlagafrumvarpinu, líkt og fjármálaráðherra upplýsti í nýlegu Morgunblaðsviðtali og mun stuðla að stöðugleika til framtíðar.

Karens-Minde

Bygging íbúðanna verður fjármögnuð með stofnframlögum ríkis og sveitarfélaga og með beinum vaxtaniðurgreiðslum ríkisins sem nema núvirt 30% af stofnkostnaði.  Slíkt framlag ríkis og sveitarfélaga auk aukins stuðnings með hækkun húsnæðisbóta á árunum 2016 og 2017 á að leiða til þess að leiga einstaklings með lágar tekjur nemi ekki hærra hlutfalli en 20-25% af tekjum.  Miðað verður við að tekjur íbúa verði í lægstu tveimur tekjufimmtungum þegar flutt er inn í húsnæðið.  Þannig verði tekjulágum fjölskyldum, sem hingað til hafa ekki átt kost á íbúðum í félagslegu kerfi sveitarfélaganna, veittur aðgangur að ódýru og öruggu leiguhúsnæði.

BB_2

Ríkisstjórnin hefur einnig skuldbundið sig til að styðja við almenna leigumarkaðinn með hækkun húsnæðisbóta á árunum 2016 og 2017.  Grunnfjárhæð og frítekjumörk verða hækkuð með hliðsjón af þeim tillögum sem komnar eru fram.  Húsnæðisbætur og frítekjumörk munu taka mið af fjölda heimilismanna.  Skattlagning tekna af leigu íbúða í eigu einstaklinga verður einnig breytt til að lækka leiguverð og auka framboð leiguíbúða á almenna leigumarkaðnum.

BB_3

Gert er ráð fyrir að stofnframlög verði skilyrt þannig að þeir lögaðilar einir geti sótt um stofnframlög sem hyggja á rekstur með félagsleg markmið að leiðarljósi.  Þeir lögaðilar sem munu geta sótt um stofnframlög verða ekki rekin í hagnaðarskyni, og geta verið sjálfseignastofnanir, húsnæðissamvinnufélög eða hlutafélög.

Ofangreindar lausnir tryggja meira öryggi í húsnæðismálum og eru unnar í góðu og miklu samstarfi við aðila vinnumarkaðarins og Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborg og fleiri sveitarfélög þar sem byggt er á tillögu verkefnisstjórnar um framtíðarskipan húsnæðismála og samvinnuhóps um húsnæðismál.

Nánari upplýsingar:

Yfirlýsing stjórnvalda um húsnæðismál frá 28. maí sl. í tengslum við kjarasamninga á almennum vinnumarkaði

Tillögur verkefnisstjórnar um framtíðarskipan húsnæðismála

Vefsvæði verkefnisstjórnar og samvinnuhóps um húsnæðismál

Tillögur teymis um virkan leigumarkað sem hluti af samvinnuhópi um húsnæðismál

Eygló Harðardóttir

Greinin birtist á blog.pressan.is/eyglohardar 24. ágúst 2015.