Categories
Greinar

Vaxandi ógn

Deila grein

08/02/2018

Vaxandi ógn

Net- og tölvuárásir eru vaxandi ógn sem veldur fjárhagslegum og tilfinnanlegum skaða hjá einstaklingum, fyrirtækjum og stofnunum. Varlega er áætlað að kostnaður af völdum netglæpa hér á landi hlaupi á hundruðum milljóna króna og gæti jafnvel numið milljörðum. Skaðinn er mikill – skortur á netöryggi skerðir trúverðugleika ríkja og þar með samkeppnisstöðu þeirra á ýmsum sviðum.

Fjallað hefur verið um ýmiss konar netvá í fjölmiðlum undanfarið og ekki að ástæðulausu. Netöryggi er eitt brýnasta mál allra ríkja í okkar heimshluta þegar kemur að uppbyggingu samfélagsins. Á sama tíma og netið gerir okkur kleift að nýta tölvutæknina með fjölbreyttum hætti þá fylgir notkun þess ýmsar ófyrirséðar áskoranir sem við verðum að takast á við og getum ekki lokað augunum fyrir. Æ algengara er að veilur í netkerfum og tölvubúnaði séu nýttar skipulega til afbrota, njósna eða einfaldlega til að valda tjóni. Skaðsemi slíkra árása getur verið mikil en umræðan fer jafnan ekki hátt.

Eins og staðan er í dag sjá öll lönd fram á skort á sérfræðingum á þessu sviði en nú stendur yfir átak á vegum ráðuneytisins til að efla menntun í netöryggismálum. Viðræður við Tækniháskólann í Noregi (NTNU) hafa leitt til þess að sérfræðingar frá skólanum koma hingað til lands síðar í þessum mánuði og munu þeir kynna nám á framhaldsstigi á sviði netöryggis sem hentar einstaklingum sem lokið hafa grunnprófi í tölvunarfræði. Þessi heimsókn er í samvinnu við Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík. Auk þessarar kynningar verður rætt um mögulegt samstarf skólanna þriggja á þessu sviði.

Bætt netöryggi

Þó að ýmislegt hafi verið gert til að efla net- og upplýsingaöryggi hér á landi er brýnt að halda áfram eftir því sem tækninni fleygir fram. Ein brýnasta aðgerð til að bæta netöryggi er mótun frumvarps um heildarlöggjöf um net- og upplýsingaöryggi en jafnframt er unnið  að endurskoðun á stefnu um netöryggi og nýrri aðgerðaáætlun.

Markmiðið með frumvarpinu er að ná til þeirra sem veita nauðsynlega stafræna þjónustu, s.s. orkuveitur, bankaþjónustu, fjármálamarkaði, heilbrigðisþjónustu, vatnsveitur og stafræn grunnvirki. Mikilvægt er að tryggja að slíkir aðilar geti veitt þessa þjónustu þvert á landamæri með samræmdum öryggiskröfum og þar með aukið samkeppnishæfni og dregið úr óþarfa kostnaði vegna mismunandi krafna og lagaumgjörðar. Gildissvið fyrirhugaðrar löggjafar er umfangsmikið og samráð er hafið við hagsmunaaðila, auk þess sem farið verður í opið samráð á netinu. Miðað er við að leggja umrætt frumvarp fram á komandi haustþingi og að það taki gildi um næstu áramót.

 

Samkvæmt NIS-tilskipuninni sem frumvarpið byggist á ber netöryggissveit að vera starfandi í hverju ríki sem tilskipunin nær til. Netöryggissveit Póst- og fjarskiptastofnunar, sem er ein af stofnunum ráðuneytisins,  greinir netvá og á að sinna ýmsum samhæfingarverkefnum innanlands og jafnframt að taka virkan þátt í samstarfi evrópskra netöryggissveita. Efling Netöryggissveitarinnar er því mikilvæg. Stórum áfanga var nýverið náð þegar undirritaður var þjónustusamningur sveitarinnar við stjórnsýsluna um netöryggisþjónustu. Þetta er fyrsti þjónustusamningurinn sem hefur verið undirritaður og munu aðrir væntanlega fylgja í kjölfarið. Samningur Netöryggissveitarinnar við orkugeirann er t.d. langt kominn.

Markmið samningsins við stjórnsýsluna er að verjast öryggisatvikum og takast á við netárásir og hliðstæðar ógnir. Hann er til marks um aðgerðir sem samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið hefur beitt sér fyrir til að efla netöryggi.

 

Ábendingar frá Oxford

Auk tæknilegra þátta þarf einnig að huga að þeim samfélagslegu. Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið fékk Háskólann í Oxford til að gera skýrslu um stöðu netöryggis á Íslandi sem skilað var nýlega. Í skýrslunni eru ýmsar ráðleggingar til úrbóta og er verið að vinna að mótun aðgerða byggðum á ráðleggingunum. Skýrslan, ásamt tillögum um aðgerðir, verður bráðlega kynnt opinberlega.

Ljóst er að mikil þróun er nú í öllu skipulagi netöryggismála hjá grannríkjum okkar og sér ekki fyrir endann á því. Víðtæk innleiðing nettækni hefur róttæk áhrif á samfélög okkar sem bregðast verður við. Ráðuneytið hefur fylgst náið með þessum breytingum og átt gott samstarf við grannríki okkar, ekki síst Norðurlönd. Nýja persónuverndarreglugerðin (GDPR) hefur verið mikið til umræðu undanfarið, nú mun NIS-tilskipunin bætast við og fleiri breytingar á stjórnskipun netöryggismála eru fyrirsjáanlegar. Með efldu netöryggi byggðu á góðu samstarfi getum við öll nýtt þau tækifæri sem netnotkun getur boðið upp á, styrkt samkeppnisstöðu okkar og bætt lífsgæði í vinnu og einkalífi.

 

Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra

Categories
Greinar

Byggðum blæðir

Deila grein

08/02/2018

Byggðum blæðir

Skiptir ekki máli þótt að einn og einn kall fari

Í frumbernsku vegagerðar hér á landi var mikil áhersla lögð á að ná vegasambandi á milli byggðalaga og ákafinn mikill á að hraða þeim framkvæmdum. Þá eins og nú greindi mönnum á um vegstæði. Í einu byggðalagi var ákafur og duglegur maður sem vildi fara skemmstu leið um klettótta hlíð að næsta áfangastað. Honum var bent á að þetta væri hættuleg framkvæmd og þeir sem ynnu að framkvæmdinni yrðu lagðir í stórhættu, auk þess sem vegfarendur yrðu í hættu á ferðalögum sínum. „ Það er í lagi að það fari einn og einn kall ef við fáum veginn,“ var svarið.

Þessi saga rifjaðist upp fyrir mér þegar ég hlustaði á orð Loga Einarssonar formanns Samfylkingar í ræðustól Alþingis um daginn, þegar hann ræddi um veiðigjöldin. Hann talaði fyrir því að hækka auðgjaldið og því þyrfti að hraða til að ná inn auknum tekjum í þjóðarbúið. Rökin hans fólu m.a. í sér þessa fullyrðingu: „Er ekki allt í lagi þó að eitthvað af útgerðarfyrirtækjunum fari á hausinn og við leitum í hagkvæmasta reksturinn þannig að þjóðin fái á endanum afgjaldið? Aðalatriðið er að byggðunum blæði ekki.“

Byggðum blæðir

Það er staðreynd að byggðum er farið að blæða nú þegar. Veiðigjöldin margfölduðust á sl. ári og eru þegar til útgerðarfyrirtæki sem hafa gefist upp og nokkur eru að hugsa sér til hreyfings.  Sú reikniregla sem viðgengst kemur illa niður á því árferði sem núna er hjá bolfiskfyrirtækjum. Reiknireglan miðast við afkomu sjávarútvegsfyrirtækja fyrir tveimur árum og veiðigjöld þessa fiskveiðiárs er því tengd afkomu greinarinnar árið 2015 sem var verulega betri en afkoma sl. árs. Því veldur styrking krónunnar og lækkun á hráefnisverði.

Lítil og meðalstór fyrirtæki eiga mörg hver í verulegum erfileikum og ekki er útséð hve mörgum tekst að klára árið. Þarna erum við ekki einungis að tala um að einstökum byggðalögum blæði, heldur fjórðungum. Lítum til Vestfjarða. Þar eru einungis lítil og meðalstór sjávarútvegsfyrirtæki. Ennþá er það svo að sjávarútvegurinn er aðalatvinnuvegur fjórðungsins. Það er því mikið í húfi. Okkur tekst ekki á skömmum tíma að byggja upp eða styrkja aðrar atvinnugreinar til að mæta þeim skelli sem gæti orðið ef þessi stoð væri skorin niður. Samþjöppun fyrirtækja? Viljum við að eitt stórt fyrirtæki sem hefur enga tengingu við samfélagið reki allan sjávarútveg?

Hraða aðgerðum

Fyrirtæki í sjávarútvegi hafa ekki mótmælt því að greiða gjald af auðlindinni, enda hreyfðu þau ekki mótmælum þegar vel gekk. En gjaldið þarf að vera sanngjarnt og taka mið af afkomu nær í tíma og af fleiri þáttum í rekstri, eins tíðkaðist með afslætti vegna vaxta og framkvæmda. Þjóðin græðir ekki á afgjöldum af auðlindinni ef að það kostar okkur rótgróin fyrirtæki.

Við verðum að hraða aðgerðum. Litróf sjávarútvegsfyrirtækja í landinu má ekki verða einsleitt. Það er öllum byggðarlögum hollt að rekin séu sterk og fjölbreytt fyrirtæki sem fylgja hjarta samfélagsins.

Halla Signý Kristjánsdóttir

þingmaður Framsóknarflokksins í NV kjördæmis.

Categories
Forsíðuborði Greinar

Fæðingarþjónusta og jafnræði

Deila grein

25/01/2018

Fæðingarþjónusta og jafnræði

Fæðingarstöðum á Íslandi hefur fækkað hin síðari ár. Í svo fámennu og dreifbýlu landi sem Ísland er, er skiljanlegt að erfitt sé að halda úti fæðingarþjónustu á hverjum stað. Engu að síður verðum við að tryggja jöfnuð á milli þegna landsins og því verður kerfið að vera skipulagt á þann hátt, að komið sé til móts við fólk sem ekki á kost á fæðingarþjónustu í heimabyggð. Ein leið væri til dæmis sú að breyta núverandi löggjöf um fæðingarorlof.

Löng bið
Verðandi foreldrar á landsbyggðinni sem búa fjarri fæðingarþjónustu eða/og búa við þær landfræðilegu aðstæður að samgöngur eru ótryggar, þurfa yfirleitt að fara að fara að heiman nokkru fyrir áætlaðan fæðingardag. Þetta á t.d. við um íbúa í Vestmannaeyjum og Höfn í Hornafirði. Yfirleitt er miðað við 38. viku meðgöngu nema að um áhættumeðgöngu sé að ræða. Börnin koma þegar þeim hentar þannig að foreldrar geta lent í því að bíða fæðingar í allt að 4 vikur, fram að 42. viku en þá eru konur yfirleitt gangsettar.

Breytingar á lögum
Núverandi kerfi felur í sér óásættanlegan ójöfnuð á milli landshluta. Verðandi foreldrar á landsbyggðinni þurfa t.d. oft að hefja töku fæðingarorlofs fyrr, af ofangreindum ástæðum og þá dregst sá tími, þ.e. biðtíminn eftir barninu, frá orlofinu. Þannig að barn og foreldrar njóta styttri samveru þegar barnið kemur loksins í heiminn. Með því að breyta lögum um fæðingarorlof gætum við tryggt rétt barna til að njóta jafnlangs tíma með foreldrum sínum eftir fæðingu eins og þau börn sem eiga heima í nágrenni við fæðingarþjónustu.

Réttur barnsins
Vegna þessa augljósa ójafnræðis sem fólk býr við varðandi aðgengi að fæðingarþjónustu lagði undirrituð, ásamt öðrum þingmönnum Framsóknarflokksins, fram frumvarp með breytingu á lögum um fæðingarorlof. Frumvarpið er nú til meðferðar hjá Velferðarnefnd Alþingis. Með frumvarpinu er lagt til að réttur foreldra til fæðingarorlofs eða fæðingarstyrks framlengist sem nemur þeim tíma sem þeir þurfa að dveljast fjarri heimili til að vera í öruggri nálægð við fæðingarhjálp. Sú breyting yrði til þess að öllum börnum yrði tryggður jafn réttur til að njóta samvista við foreldra sína fyrstu mánuði lífsins. Slík breyting yrði einnig í samræmi við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins sem veitt hefur verið lagagildi hérlendis með lögum nr. 19/2013.

Hár húsnæðis-og ferðakostnaður
Umrædd lagabreyting yrði stórt skref í átt til þess að jafna búsetuskilyrði milli landshluta. Að auki þurfum við að skoða hvernig ríkið gæti tekið aukinn þátt í húsnæðiskostnaði verðandi foreldra vegna dvalar við fæðingarstað. Það eru ekki allir með aðgang að ódýru húsnæði á vegum starfsmanna- eða verkalýðsfélaga eða eiga fjölskyldur og vini sem hafa pláss til að hýsa aðkomufólk. Ferðakostnaður getur einnig orðið töluverður, sérstaklega ef um áhættumeðgöngur er að ræða og mæður þurfa að fara reglulega í sérstakt eftirlit á fæðingarstað. Í þessu er fólginn gríðarlegur aðstöðumunur á milli landshluta sem þarf að jafna enn frekar.

Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist í Suður 25. janúar 2018.

Categories
Forsíðuborði Greinar

Sigrar fatlaðs fólks

Deila grein

22/01/2018

Sigrar fatlaðs fólks

Vitnisburður þjóða á 21. öldinni ræðst meðal annars af hvernig búið er að fötluðu fólki. Eitt af því sem gerir Ísland og hin löndin á Norðurlöndum að öflugum þjóðum er samfélagslegur sáttmáli um að veita einstaklingum jöfn tækifæri til menntunar og að sækja sér heilbrigðisþjónustu. Góður árangur Norðurlandanna er ótvíræður. Þjóðartekjur á mann eru með því hæsta í veröldinni og félagslegur hreyfanleiki er einnig sá mesti. Þetta er mikill og lofsverður árangur sem náðst hefur enda er mjög eftirsóknarvert að búa í þessum ríkjum.

Menntun eykur lífsgæði 

Menntun fatlaðs fólks er mikilvæg og eykur lífsgæði og tækifæri til muna. Aðgengi og fjölbreytt námsúrval hefur verið að aukast á Íslandi á síðustu árum. Mjög gott dæmi um slíka framþróun er sérnámsbraut við Fjölbrautaskólann í Ármúla sem er fyrir nemendur með fötlunargreiningu. Hlutverk og markmið brautarinnar er að nemendur fái tækifæri til að stunda nám við hæfi innan félagsheildar fjölbrautaskóla. Þannig viðhalda þeir og auka þekkingu sína og færni til að takast á við viðfangsefni daglegs lífs. Lögð er áhersla á að nemendur á brautinni einangrist ekki heldur séu þeir hluti af skólaheildinni. Í heimsókn minni í skólann var ánægjulegt að sjá nemendur og fagfólk vinna vel saman. Það er ríkur vilji hjá stjórnvöldum að halda áfram á þessari braut og auka tækifæri til menntunar þannig að allir einstaklingar fái notið sín.

Öflugt íþróttastarf til fyrirmyndar 

Mikil gróska hefur einkennt íþróttastarf fatlaðra á Íslandi og mikill metnaður er lagður í umgjörð þess. Okkar fatlaða íþróttafólk hefur unnið hvert afrekið á fætur öðru á alþjóðlegum stórmótum. Ég varð þeirrar ánægju að njótandi á fyrstu dögum ársins að vera gestur á nýárssundmóti Íþróttasambands fatlaðra. Öll umgjörð og aðbúnaður á mótinu var til fyrirmyndir og gleðin skein úr andlitum þátttakenda. Það starf sem Íþróttasamband fatlaðra hefur unnið í gegnum árin er lofsvert. Með því að leggja kapp á fagmennsku og sterka umgjörð er gott aðgengi tryggt og skilyrði fyrir afreksfólk gerð betri.

Margir áfangasigrar hafa orðið er varðar réttindi fatlaðs fólks á Íslandi. Haustið 2016 fullgilti Ísland samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Samningurinn er leiðarvísir að því hvernig tryggja skal fötluðu fólki mannréttindi og tækifæri til jafns við aðra og gera því þannig kleift að vera virkir þátttakendur í samfélaginu. Í 24. grein sáttmáls er lögð áhersla á að allir hafi jöfn tækifæri til menntunar á öllum skólastigum án aðgreiningar. Það er von mín og vilji að stjórnvöld nái að vinna enn frekar að framgangi þessa mikilvæga málaflokks enda höfum við undirgengist skuldbindingar þessa efnis.

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 22. janúar 2018.

Categories
Forsíðuborði Greinar

Efling iðnnáms

Deila grein

13/01/2018

Efling iðnnáms

Tæknibyltingin er í senn mikið tækifæri fyrir samfélög en um leið áskorun. Þess er krafist af okkur að við tileinkum okkur ákveðna færni til að leysa vandamál á nýjan hátt og með skilvirkari leiðum en við þekkjum fyrir. Þess vegna er brýnt að menntakerfið okkar sé í fremstu röð til að geta sýnt þá framsýni sem nauðsynlegt er til að styrkja samkeppnishæfni þjóðarinnar. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er kveðið á um að efla eigi iðn-, verk- og starfsnám í þágu fjölbreytni og öflugra samfélags og til að takast á við þær breytingar sem eru fram undan á vinnumarkaðnum. Stefna hefur verið mörkuð í þessum tilgangi og má skipta henni upp í þrjá meginþætti. Í fyrsta lagi er horft til uppbyggingar náms og hvernig megi efla það. Í öðru lagi á að styrkja allt utanumhald með verk- og starfsþjálfun. Í þriðja lagi á að bæta og einfalda aðgengi nemenda að verk- og starfsnámi.

Rafræn ferilbók er mikilvægur liður í því að einfalda utanumhald og auka gæði í verk- og starfsþjálfun. Rafræn ferilbók er hugbúnaður sem leysir af hólmi ferilbækur í pappírsformi. Ávinningurinn af því að innleiða rafræna ferilbók er mikill. Fyrir nemendur, þá mun hún auka fjölbreytni náms og námsmats í starfsþjálfun. Ferilbókin á að tryggja að nemandinn fái þjálfun í þeim verkþáttum sem hæfnikröfur gera ráð fyrir. Að auki mun þetta styrkja réttindi starfsnámsnemenda, þar sem ætlunin er að nemasamningar verði vistaðir í ferilbókinni. Fyrir atvinnulífið, er ábatinn sá að samskiptin við skólakerfið verða skilvirkari og einfaldari. Þetta mun auka gæði námsins, þar sem nemandinn fær viðeigandi þjálfun í öllum hæfniþáttum. Útkoman verður öflugra nám, sem styrkir atvinnulífið og fjölgar iðnmenntuðum í landinu.

Til að innleiðing rafrænnar ferilbókar takist sem best þarf að koma til samstillt átak atvinnulífs, ráðuneytis og skóla. Þessi aðgerð endurspeglar tækniþróun og nýsköpun hjá hinu opinbera. Það er ánægjulegt að veita þessu máli brautargengi, þar sem þetta er í samræmi við það markmið stjórnvalda að efla iðnnám í landinu.

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra

Greinin birtist í Fréttablaðinu 12. janúar 2018.

Categories
Forsíðuborði Greinar

Menntun í öndvegi

Deila grein

06/01/2018

Menntun í öndvegi

Öflugt menntakerfi er forsenda framfara og leggur grunninn að áframhaldandi velsæld þjóðarinnar. Í sáttmála ríkisstjórnarinnar er boðað til stórsóknar í menntamálum þar sem skapandi og gagnrýnin hugsun, læsi og þátttaka í lýðræðissamfélagi verður áfram undirstaða íslenska skólakerfisins. Í fjárlögum þessa árs má sjá skýr merki þess að sóknin sé hafin og munu nemendur og starfsfólk skólanna verða vör við á komandi misserum.

Yfir 4 milljarða hækkun milli ára
Fjárveitingar til framhalds- og háskólastigsins hækka um tæpa 4,2 milljarða króna miðað við fjárlög 2017 eða um 5,8%. Það er veruleg og kærkomin innspýting í báða málaflokka. Aukin framlög til menntamála bæta samkeppnishæfni þjóðarinnar til lengri tíma litið og styðja við uppbyggingu fjölbreyttara hagkerfis. Ísland er auðlindadrifið hagkerfi og því er mikilvægt að renna fleiri stoðum undir það, stoðum sem byggjast á hugviti og nýsköpun. Nýsköpun á sér stað í öllum atvinnugreinum og er drifin áfram af færni, þekkingu og getu til þess að þróa nýjar hugmyndir og hrinda þeim í framkvæmd. Skólakerfið þarf að taka mið af þessu og undirbúa nemendur fyrir að leysa flókin viðfangsefni. Þannig gerum við Ísland að gildandi þátttakanda í þeirri tækniþróun sem á sér stað um heim allan og hefur áhrif á daglegt líf fólks.

Tökum á brotthvarfi
Um 18.000 nemendur stunda nám við rúmlega 30 framhaldsskóla um land allt. Ríkisstjórnin vill tryggja framhaldsskólum frelsi og fjármagn til eigin stefnumótunar innan ramma framhaldsskólalaga. Framlög til þessara stofnana hækka um 1.290 milljónir króna miðað við fjárlög 2017, eða 4,4%. Okkur er full alvara með því að efla framhaldsskólastigið og með auknum fjárveitingum er lögð meiri áhersla á að ná markmiðum um fjármögnun framhaldsskólastigins og takast á við þær áskoranir sem helst er við að etja eins og brotthvarf úr námi. Þannig rennur aukningin að stórum hluta í að auka þjónustu við nemendur sem búa yfir lítilli hæfni í íslensku og stærðfræði við lok grunnskóla og til þess að hækka hlutfall þeirra sem ljúka námi til stúdentsprófs á tilsettum tíma í 60% á árinu 2018. Í mennta- og menningarmálaráðuneytinu er þegar hafin vinna við kortlagningu framhaldsskólakerfisins og ítarlega greiningu á stöðu og þróun framhaldsskólanna. Þá verður unnin aðgerðaráætlun til að sporna enn frekar gegn brotthvarfi.

Öflugra háskólastig
Hver króna sem sett er í háskólastigið skilar sér áttfalt til baka. Því leggur ríkisstjórnin mikla áherslu á að efla háskólastigið og að fjármögnun þess nái meðaltali OECD-ríkjanna fyrir árið 2020 og Norðurlandanna árið 2025 í samræmi við áætlanir vísinda- og tækniráðs. Mikilvægt skref í þessa átt er stigið í fjárlögum ársins 2018 þar sem framlög til háskólastigsins eru aukin um tæpa 2,9 milljarða eða 6,9% miðað við fjárlög 2017. Með þessari hækkun er ætlunin að efla bæði kennslu og rannsóknir svo bæta megi þjónustu við nemendur og styrkja alþjóðlegt samstarf. Ég get glöð tekið undir það sem kom fram í bókun háskólaráðs Háskóla Íslands um að hér sé stigið áþreifanlegt skref í átt að sambærilegri fjármögnun Háskóla Íslands og háskóla annars staðar á Norðurlöndum. Þannig er stuðlað að því að háskólar á Íslandi standi jafnfætis nágrannaríkjunum að gæðum háskólamenntunar og rannsókna. Framlög til rannsókna eru einmitt aukin með 136 m.kr hækkun til rannsóknarstofnanna á háskólastigi eða 11,8%, með 390 m.kr aukningu í Aldarafmælissjóð Háskóla Íslands en það jafngildir tæplega 56% hækkun. Markmið með þeim sjóði er að efla rannsóknir og nýsköpun sem munu efla atvinnulífið og auka verðmætasköpun fyrir þjóðarbúið.

Listaháskólinn kominn á dagskrá
Liður í því að styðja við hugverkadrifið og skapandi hagkerfi er að hlúa að listum og öðrum skapandi greinum. Listaháskóli Íslands gegnir mikilvægu hlutverki í að varða þá leið og mennta nemendur í listskapandi greinum. Á þessu ári munu framlög til skólans hækka um tæpar 73 m.kr eða 6,7%. Er hækkuninni m.a. ætlað að efla rannsóknarstarf við skólann og koma til móts við bráðavanda skólans í húsnæðismálum. Að auki verður 30 m.kr varið til þarfagreiningar og hönnunarsamkeppni um nýtt hús fyrir Listaháskólann. Í dag er skólinn í fimm mismunandi byggingum í borginni og er ástand þeirra misgott. Það er því ánægjulegt en ekki síður mikilvægt að unnið sé að varanlegri lausn sem mun efla skólann til framtíðar.

Stórsókn í menntamálum
Ríkisstjórnin hefur hafið stórsókn í menntamálum líkt og ofangreind yfirferð sýnir svart á hvítu. Á yfirstandandi kjörtímabili verða fleiri skref stigin til þess að efla menntun í landinu. Þessi vinna mun skila sér í öflugra samfélagi og betri lífskjörum fyrir þjóðina. Ég hlakka því til að leiða þá vinnu í samstarfi við hagsmunaaðila menntakerfisins. Tækifærin eru fjölmörg, það er okkar að nýta þau.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra

Greinin birtist í Morgunblaðinu 6. janúar 2017.

Categories
Forsíðuborði Greinar

Menntun, menning og vísindi í kjölfar Brexit

Deila grein

03/01/2018

Menntun, menning og vísindi í kjölfar Brexit

Breska þjóðin ákvað í þjóðaratkvæðagreiðslu á síðasta ári að ganga úr Evrópusambandinu og því mun framtíðarskipulag Evrópu taka breytingum. Til að tryggja vandaðan undirbúning af hálfu íslenskra stjórnvalda fyrir viðræður um framtíðarsamskipti Íslands og Bretlands skipaði utanríkisráðherra fimm vinnuhópa um Brexit sl. sumar. Mennta- og menningarmálaráðuneytið tekur þátt í þremur þessara vinnuhópa. Hér verður farið yfir nokkur af þeim brýnu málum eins og gagnkvæma viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi, samstarfsáætlanir á sviði mennta- og menningarmála og vísinda ásamt hugverka- og höfundaréttindum.

EES-samningurinn tryggir gagnkvæma viðurkenningu á menntun og hæfi á sameiginlega vinnumarkaðnum. Einstaklingi sem hefur aflað sér faglegrar menntunar og hæfis til starfs í einu af aðildarríkjum EES-samningsins er heimilt að starfa hvar sem er innan Evrópska efnahagssvæðisins með sömu réttindum og skyldum og heimamenn. Við útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu verða bresk stjórnvöld ekki skuldbundin til að viðurkenna menntun sem aflað er á Íslandi til að gegna þeim lögvernduðu störfum. Á sama hátt verður íslenskum stjórnvöldum ekki skylt að viðurkenna menntun sem aflað hefur verið í Bretlandi. Eitt meginmarkið íslenskra stjórnvalda er að tryggja að áfram verði hægt að viðhalda skilvirkni núverandi viðurkenningarkerfis og komast að gagnkvæmu samkomulagi.

Bókun 31 við EES-samninginn um samvinnu á sérstökum sviðum utan marka fjórþætta frelsisins gerir Íslandi kleift að taka þátt í samstarfsáætlunum Evrópusambandsins á sviði mennta-, menningar- og vísindamála. Þátttakan hefur skilað miklu fyrir bæði einstaklinga og mennta-, menningar- og vísindakerfið í landinu. Hinn 8. desember sl. náðist samkomulag um þátttöku Breta í samstarfsáætlunum ESB á sviði mennta-, menningar- og vísindamála til ársins 2020. Íslensk stjórnvöld telja að mikill ávinningur hafi náðst í þessu samstarfi og leggja ríka áherslu á að svo verði áfram í framtíðinni.

EES-samningurinn hefur að geyma reglur um hugverkaréttindi og óskráð réttindi á borð við höfundarétt. EES-samningurinn felur í sumum tilfellum í sér aukna vernd hugverka- og höfundaréttinda umfram alþjóðasamninga á því sviði og á öðrum sviðum auðveldar samningurinn skráningu og skilvirka vernd slíkra réttinda á Evrópska efnahagssvæðinu. Íslenskir höfundar njóta þannig aukinnar verndar á verkum sínum umfram það sem gengur og gerist í ýmsum alþjóðlegum samningum. Brýnt er að tryggja hagsmuni þessu tengda í framtíðinni. Íslensk stjórnvöld munu halda áfram að sinna hagsmunagæslu vegna Brexit og fylgjast náið með framvindu úrsagnarferlisins. Það er mikilvægt að viðhalda góðum og nánum samskiptum við Breta, sem eru okkar helsta viðskiptaþjóð, og efla þau til framtíðar.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra

Greinin birtist í Morgunblaðinu, 3. janúar 2018

Categories
Forsíðuborði Greinar

Íþróttir skipa mikilvægan sess í íslensku þjóðlífi

Deila grein

03/01/2018

Íþróttir skipa mikilvægan sess í íslensku þjóðlífi

Allt frá upphafi byggðar á Íslandi hefur íþróttaiðkun fylgt þjóðinni og verið mikilvæg bæði fyrir sýn Íslendinga á heilbrigði og hreysti en ekki síður gefið þjóðinni gleðistundir þegar att hefur verið kappi við aðrar þjóðir í hinum ýmsu greinum íþrótta.

Sterk umgjörð íþróttastarfs skilar árangri
Umgjörð íþróttastarfs á Íslandi þróaðist að mestu frá miðri 19. öld og fram að miðja 20. öldina. Stofnun íþrótta- og ungmennafélaga í byrjun 20. aldar leiddi fljótlega til stofnunar heildarsamtaka Ungmennafélags Íslands (UMFÍ) árið 1907 og síðan Íþróttasambands Íslands (ÍSÍ) árið 1912. Íþrótta- og ungmennafélögin höfðu mikil áhrif á útbreiðslu og fjölda íþróttagreina á hér á landi. Það er merkilegt að elstu íþróttafélög landsins hafa starfað lengur en stjórnmálaflokkarnir og hefur grunnskipulag í kringum þau verið að mestu óbreytt og starfsemin gegnir nú sem fyrr mikilvægu og fjölbreyttu samfélagslegu hlutverki. Vissulega hefur orðið breyting á hvernig horft er á þetta hlutverk og má segja að í dag sé hlutverk íþrótta margþættara en áður. Hinir fjölmörgu sjálfboðaliðar sem starfa innan íþróttahreyfingarinnar eiga mikið lof skilið fyrir framlagi sitt í þágu íþróttahreyfingarinnar.

Íþróttir gera samfélagið öflugra
Rannsóknir hér á landi hafa sýnt að íþróttir eru mikilvægar í uppeldi barna okkar og unglinga. Þjóðin er einhuga um að hlúa vel að íþróttastarfi og efla það enn frekar. Stuðningur ríkis, sveitarfélaga, og atvinnulífs við uppbyggingu aðstöðu og grasrótarstarfs íþróttahreyfingarinnar leggja grunninn að því að öflugt íþróttastarf haldi áfram að vaxa og dafna. Forvarnargildi skipulagðs íþróttastarfs hefur sannað gildi sitt. Rannsóknir hafa sýnt að skipulagt íþróttastarf þar sem aðstaða er góð og unnið er undir handleiðslu ábyrgra og vel menntaðra þjálfara og leiðbeinenda hefur meira forvarnargildi þegar kemur að ýmiskonar áhættuhegðun. Einnig eru sterkar vísbendingar og fleiri rannsóknir sem sýna fram á sterkt samband á milli aukinnar hreyfingar og frammistöðu í námi. Því skiptir miklu máli að áfram verði haldið á þeirri braut að efla umgjörð og gæði í starfi skipulagðs íþróttastarfs.

Jafnt aðgengi að íþróttastarfi mikilvægt
Íþrótta- og tómstundastarf er oft á tíðum dýrt. Brýnt er að aðgengi að slíku starfi sé öllum börnum fært, sérstaklega í ljósi þess hversu mikið lífsgæði barna aukast. Sveitarfélög hafa stigið mikilvægt skref í þá átt að gera börnum og unglingum kleift að stunda íþróttir með frístundakortum. Þetta virkar sem ákveðið jöfnunartæki þegar kemur að aðgengi að skipulögðu íþróttastarfi. Á sama tíma er mikilvægt að íþróttahreyfingin efli enn frekar áherslur sínar á faglega umsjón með iðkendum með vel menntuðum og hæfum þjálfurum og öruggri umgjörð að öðru leyti.

Afreksíþróttir og stórmót framundan
Á undanförnum árum hefur afreksfólk okkar Íslendinga náð einstökum árangri. Fyrst og fremst er það afreksfólkið sjálft sem hefur lagt á sig þrotlausar æfingar til þess að ná því markmiði að geta keppt við besta íþróttafólk veraldar. En hitt skiptir einnig miklu að sköpuð séu skilyrði fyrir afreksfólk til þess að hægt sé að ná langt. Þátttaka Íslands í stórum íþróttamótum hefur ávallt verið talin mikilvæg og gríðarlegur metnaður er til staðar hjá íþróttafólki að standa sig vel í alþjóðlegum samanburði. Stjórnvöld hafa með nýlegum samningum við íþróttahreyfinguna lagt til aukinn stuðning til afreksstarfs til þess að styðja betur við þessa þróun og efla árangur afreksíþróttafólks enn frekar. Mörg stórmót eru framundan á árinu. Íslenska karlalandsliðið í handknattleik heldur í byrjun næsta árs til Króatíu og tekur þátt í Evrópukeppninni. Vetrarólympíuleikarnir í PyeongChang í Suður-Kóreu eru í febrúar og svo er heimsmeistaramótið í knattspyrnu karla næsta sumar. Án efa munu margir Íslendingar leggja leið sína á þessi mót til þess að styðja okkar fólk.

Íþróttamaður ársins
Kjör á íþróttamanni ársins fer fram í dag. Þessi viðburður á sér sögu frá árinu 1956 þegar nokkrir starfandi íþróttafréttamenn stofnuðu Samtök íþróttafréttamanna til þess að vinna að betri aðstöðu fyrir störf sín á vettvangi. Aðalhvatamenn voru þeir Atli Steinarsson, Hallur Símonarson og Sigurður Sigurðsson.

Síðan þá hafa samtökin staðið fyrir þessu kjöri sem orðið er að mikilvægri hefð í íslensku íþróttalífi þar sem hvert ár er gert upp. Íþróttafólk ársins í öllum greinum kemur saman og tekur við viðurkenningum fyrir góðan árangur á árinu sem er að líða. Íþróttamaður ársins er kjörinn úr hópi sem að mati íþróttafréttamanna eru taldir hafa skarað fram úr á árinu. Eftir að samtökin tóku upp samstarf við ÍSÍ, þar sem öllum íþróttagreinum eru gerð skil áður en íþróttamaður ársins er kjörinn úr hópi 10 efstu íþróttamanna, hefur viðburðurinn stækkað talsvert.

Kjöri íþróttamanns ársins hefur í áranna rás verið lýst í beinni útsendingu í sjónvarpi og þannig öðlast fastan sess í jólahaldi landsmanna. Sitt sýnist þó hverjum um valið hverju sinni, sem er til merkis um þá ástríðu sem Íslendingar hafa fyrir íþróttum. Að lokum óska ég öllum gleðilegrar hátíðar og farsældar á nýju ári.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra

Greinin birtist í Morgunblaðinu 28. desember 2017

Categories
Forsíðuborði Greinar

Fjölbreytt og kröftugt atvinnulíf

Deila grein

31/12/2017

Fjölbreytt og kröftugt atvinnulíf

Jól og áramót er tími samverustunda með fjölskyldum og vinum. Þá lítum við gjarnan yfir farinn veg, rifjum upp helstu viðburði og metum hvernig árið hefur verið fyrir okkur og þeim sem standa okkur næst. Sumum breytingum fögnum við, öðrum ekki eins og gengur. Óhætt er að segja að árið sem senn er á enda hefur verið viðburðaríkt og lærdómsríkt á hinu pólitíska sviði.

Kosningabaráttan á árinu var gefandi og skemmtileg og er ég gríðarlega þakklátur fyrir þann stuðning og traust sem kjósendur sýndu okkur. Óeigingjörn vinna frá sterku baklandi skilaði sér þegar á brattann var að sækja allt fram á síðustu stundu. Dýrmætt og ómetanlegt var að finna einlæga gleði frá sameinuðum og sterkum hóp flokksmanna.

Þetta rifjar upp þá samstöðu og þann baráttuvilja sem ríkti meðal bænda sem komu saman til fundar að Þjórsártúni fyrir meira en hundrað árum síðan og vildu berjast fyrir jákvæðari byggðaþróun og uppbyggingu landsins. Framsóknarflokkurinn er umbótaflokkur og vill beita aðferðum vísinda og þekkingar til að ryðja framþróuninni braut. Um allt land var verk að vinna, rétt eins og nú. Sé litið til síðustu 100 ára hafa tæknibreytingar á öllum sviðum fært okkur úr stöðnuðum heimi fortíðar inn í nútímann sem frjáls og fullvalda þjóð.

Á öllum sviðum hefur þjóðin náð að nýta sjálfstæði sitt til framfara og þróunar. Vegir, hafnir, brýr, flugvellir, allt þetta varð að byggja frá grunni. Í því sambandi má minnast þess að þegar fyrir lá að Friðrik VIII Danakonungur heimsækti landið fyrir rúmri öld síðan réðust landsmenn í að byggja veg til að þjóðhöfðinginn gæti ferðast um Suðurland og séð áhugaverðustu ferðamannastaðina. Engir bílfærir vegir voru á landinu svo heitið gæti enda hafði fyrsti bíllinn komið til landsins einungis þremur árum áður.

Sterkt samfélag
Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan fyrsti ferðamannavegurinn var lagður. Atvinnuhættir þar sem áherslur hafa breyst frá landbúnaði yfir í sjávarútveg og síðan yfir í þjónustu og tæknistörf hafa tekið miklum stakkaskiptum. Tæknibreytingar og vélvæðing hafa leitt til fækkunar einhæfra starfa og margar blómlegar byggðir eiga undir högg að sækja, oft vegna skorts á öruggum samgöngum, raflögnum og nettengingum. Nú er svo komið að í einstökum byggðarlögum heyrir föst búseta jafnvel til undantekninga og sveitarfélög eiga í erfiðleikum með að halda uppi grunnþjónustu sem er hverju samfélagi nauðsynleg.

Núverandi ríkisstjórnarsamstarf þriggja stærstu þingflokkanna á Alþingi byggist á sameiginlegri sýn ólíkra flokka og hafa það sameiginlega markmið að vinna að ákveðnum lykilverkefnum sem koma Íslandi í fremstu röð. Þar skiptir mestu að auka samkeppnishæfni landsins til að unga fólkið okkar velji Ísland til búsetu. Efling atvinnulífs og nýsköpun þarf að vera í forgangi svo að Ísland verði í fararbroddi í verðmætasköpun, menntun og lífsgæðum um land allt. Einstaka svæði eiga í vök að verjast og leita þarf leiða til að snúa við vítahring íbúafækkunar og einhæfs atvinnulífs hjá fámennum byggðarlögum. Liður í því er að virkja námslánakerfið til að efla búsetu á þeim svæðum sem lið í uppbyggingu. Samgöngur og fjölbreyttir atvinnumöguleikar þurfa að haldast hönd í hönd og verka á hvert annað til að styrkja innviði samfélagsins. Sterk vinnusóknarsvæði með skilvirkum samgöngum sem tengja saman byggðakjarna þar sem landsmenn hafi jafnan aðgang að ásættanlegri heilbrigðisþjónustu og möguleikum til að afla sér menntunar, atvinnutækifærum og lífskjörum er forsenda þess að byggð haldist um landið.

Traust á tækninni
En samgöngur eru ekki einungis flutningur fólks og varnings eftir vegum, á láði eða í lofti. Þeim hefur jafnan fylgt flutningur upplýsinga og hugmynda. Á sama hátt og þær tengja svæði þarf að tryggja að landið sé tengt öðrum löndum með sæstrengjum sem búa yfir mikilli getu til gagnaflutninga. Ljósleiðartenging til allra landsmanna sem verður lokið innan þriggja ára mun skipa okkur í fremstu röð upplýsinga- og tæknisamfélaga. Atvinnutækifærum landsmanna fjölgar og velferð fólks eykst.

Að því sögðu mun tækniþróunin sem slík ekki hljóta framgang ef öryggi og traust á henni er ekki til staðar. Á sama hátt og við erum stöðugt að efla öryggi samgangna, sem er lykillinn að framförum að okkar samfélagi og lífsgæðum fólks, þurfum við að geta treyst því að upplýsingarnar fari eftir öruggum leiðum í netheimum. Án trausts á tækninni nýtum við ekki fjarskiptamöguleikana til samskipta, viðskipta eða öflunar fróðleiks. Örugg upplýsingatækni  mun jafnframt hafa mikil áhrif á samgöngur framtíðarinnar. Í því sambandi má nefna að auknir möguleikar til eftirlits og sjálfsstýringar geta dregið úr slysum í samgöngum, sem er ekki einungis mannlegur harmleikur, heldur einnig beinn og óbeinn þjóðfélagslegur kostnaður.

Tölum íslensku
Þó að tæknin og sjálftæknivæðing geti ýtt undir verðmætasköpun þá megum við ekki slá af kröfum til varðveislu tungumálsins okkar. Íslenskan og fjarlægð þess voru okkur áður viss vörn gegn mörgum ógnum en svo er ekki lengur. Varðveisla tungumálsins sem sameinar okkur sem þjóð og stöðu hennar í hinum starfræna heimi er verkefni sem okkur ber stöðugt að vinna að. Aðgerðaráætlun um máltækni hefur nú verið hrundið fram og fyrstu skref tekin í áttina að því að íslenskan verði hluti af stafrænum heimi framtíðarinnar. Við þurfum að tryggja að hægt sé að nota íslensku í samskiptum við tæki og í allri upplýsingavinnslu til að varðveita hana eins og best verður á kosið, eins og okkur sem búum hér, er falið að gera.

Góðir landsmenn.
Við sem búum hér hundrað árum eftir að fyrsti bíllinn kom til landsins stöndum frammi fyrir einstöku tækifæri í samgöngumálum. Loftslagsbreytingar og tækninýjunar munu hafa áhrif á þróun samgangna, uppbyggingu þeirra í þéttbýli og í allri byggðaþróun. Tryggja þarf örugga raforku fyrir alla landsmenn til að flutnings- og dreifikerfið mæti betur þörfum atvinnulífs og almennings.

Með skýrri stefnu í samgöngumálum getum við náð forskoti á aðrar þjóðir í innleiðingu tækninýjunga í orkuskiptum. Við forgangsröðun í samgöngum verður litið til ólíkra stöðu svæða, ferðaþjónustu og öryggisjónarmiða. Við þurfum að spyrja okkur hvernig við getum sem best tryggt að byggð haldist um landið og þjónað íbúum og ferðamönnum við að komast á öruggan hátt á milli svæða.

Innanlandsflug þarf að vera mikilvægari hluti af almenningssamgöngum sem við þurfum að tengja betur við alla landshluta og verða hagkvæmari kostur fyrir íbúa landsbyggðanna. Samgöngunetið þarf að tvinnast saman, verða ein heild og hver hluti tengjast öðrum í byggðarkjörnum svo hér fái allir sem jafnasta þjónustu. Ákvarðanir um staðsetningu flugvalla hljóta alltaf að þurfa að taka mið af hvað sé best fyrir landsmenn til lengri tíma.

Já, skrefin eru vissulega mörg og sum munu taka lengri tíma en  önnur. Það sem skiptir mestu máli er að þetta séu verkefni sem skipta velferð íbúa landsins miklu. Það mun hjálpa til séum við öll sammála um hvert við erum að fara. Það er hægt og þá mun okkur farnast vel um ókomna framtíð.

Ég óska ykkur öllum gleðilegs nýs árs.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 31. desember 2017.

Categories
Forsíðuborði Greinar

Áramótakveðja formanns

Deila grein

28/12/2017

Áramótakveðja formanns

Kæru vinir og félagar!

Nú er árið að renna sitt skeið og vart ofmælt að það hafi verið viðburðarríkt. Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar tók við í ársbyrjun eftir langar og strangar viðræður, formlegar og óformlegar, milli allra flokka. Staðan var flókin. Öll þekkjum við framhaldið, kosið var á ný í október 2017. Að þeim loknum töluðum við Framsóknarmenn fyrir mikilvægi þess að mynda sterka stjórn með breiða skírskotun frá hægri til vinstri um miðjuna. Enda varð ekki annað lesið úr skilaboðum kjósenda, en að spurn væri eftir slíkri stjórn. Og svo virðist sem kannanir staðfesti þetta mat okkar.

Í aðdraganda stjórnarmyndunar unnum við af heilindum og komum hreint fram í öllum samskiptum. Samtöl voru góð og uppbyggileg og skýrðu stöðuna og verkefnið vel, sem fram undan var. Markmið allra flokka er að búa þannig um hnúta að hér á landi verði gott að lifa og starfa fyrir unga sem aldna. Auðvitað er það svo að ólíkir flokkar hafa ólíka sýn á það hvernig nálgast skuli verkefnið. En þrátt fyrir það, er það frumskylda stjórnmálamanna að koma til móts við óskir kjósenda og axla ábyrgð á stjórn landsins, öllum til heilla. Í þriggja flokka samstarfi þarf að gefa eftir og sammælast um lausnir. Það var gert við myndun nýrrar stjórnar, en ég held að okkur hafi tekist að halda gildum Framsóknarflokksins vel til haga.

Saman og sameinuð
Framsóknarflokkurinn er ekki einn maður, hann samanstendur ekki bara af kjörnum fulltrúum. Nei, kæru félagar, við erum öll Framsóknarflokkurinn. Í gegnum 101 árs sögu höfum við sýnt styrk, kjark og þor í umróti tímans; þetta hefur sameinað okkur, hert okkur og í mínum huga leikur enginn vafi á því að hlutverk Framsóknarflokksins í framförum og farsæld þjóðarinnar er enn veigamikið. Ég hef sagt það áður og segi enn að baráttan fyrir félagslegu jafnrétti, þar sem manngildi er sett ofar auðgildi, lýkur aldrei.

Við göngum bjartsýn og sameinuð til móts við árið 2018. Þingflokkurinn mun í upphafi nýs árs fara í fundarferð um landið. Ég hlakka til að hitta ykkur sem flest. Framundan eru sveitarstjórnarkosningar og undirbúningur þeirra er hafinn. Markmiðið er að byggja á þeim góða árangri sem við höfum náð á undanförnum mánuðum og árum, bæði inn á við og út á við, og vinna sigur í komandi sveitarstjórnarkosningum. „Getum við ekki öll verið sammála um það?“

Kæru vinir
Um leið og ég þakka ykkur kærlega fyrir samstarfið og samveruna á liðnu ári óska ég þér og þínum gleðilegs nýs árs með von um að það verði árangurs- og gleðiríkt. Sannkallað Framsóknarár.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins