Categories
Forsíðuborði Greinar

Bókaþjóðin vaknar

Deila grein

28/09/2017

Bókaþjóðin vaknar

Íslendingar eru bókaþjóð. Bækur eru vettvangur nýsköpunar og grundvöllur símenntunar alla ævi. Bækur eru snar þáttur í málþroska barna. Þær gegna lykilhlutverki í menntakerfinu og miðla sögu og menningu okkar til komandi kynslóða.

Menntun, skólar og bækur eru lykill að framförum og því mikilvægt að efla allt er viðkemur skapandi skrifum, lestri og útgáfu. Læsi er forsenda þekkingar og lykill að sjálfsvirðingu. Íslensk tunga á undir högg að sækja. Öflug útgáfa á frumsömdu og þýddu fræðslu- og kennsluefni á öllum skólastigum er nauðsynleg til að styrkja innlent fræðastarf og auðga íslenska tungu af hugtökum og íðorðum á öllum sviðum. Niðurstöður PISA-rannsóknar frá 2015 sýna að Ísland kemur lakast út á Norðurlöndunum í stærðfræðilæsi, lesskilningi og vísindalæsi og er auk þess undir OECD-meðaltali. Ljóst er að þessi árangur í PISA-rannsókninni er óásættanlegur.

Bóksala hefur dregist saman um rúm 31% frá árinu 2008 og má segja að um hrun sé að ræða. Þegar svona aðstæður koma upp, þá ber stjórnvöldum að nýta stjórnvaldstæki sín, eins og skattkerfið, og bregðast við. Ein leið er að afnema bókaskatt og því lagði ég fram frumvarp á lokadegi þingsins þess efnis. Þverpólitísk sátt hefur myndast í þinginu um málið, þar sem fulltrúar allra stjórnmálaflokka eru meðflutningsmenn. Bækur eru almennt í lægra skattþrepi meðal þjóða heims.

Fimm Evrópuþjóðir hafa afnumið virðisaukaskatt á bókum til að efla læsi og vernda menningu sína og tungu, þ.e. Norðmenn, Færeyingar, Bretar, Írar og Úkraínumenn. Meðaltal virðisaukaskatts á bókum í Evrópu er 7%.

Þrjátíu lönd í Evrópu eru með lægri virðisaukaskatt á bókum en hér á landi. Sænsk stjórnvöld lækkuðu virðisaukaskatt á bókum árið 2002 úr 25% niður í 6%. Sala bóka jókst um 16% fyrsta árið og áhrifin voru viðvarandi. Ekki þurfti lengur að styðja sérstaklega við bóksölu í jaðarbyggðum og fleiri fjölbreyttari bókaútgáfur spruttu upp.

Það er afar ánægjulegt að þverpólitísk sátt hefur myndast um að afnema bókaskatt og því á að vera auðvelt að hrinda því í framkvæmd á næsta þingi. Bókaþjóðin mun standa undir nafni með afnámi bókaskattsins.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður og alþingismaður

Greinin birtist í Fréttablaðinu, 28. september 2017

Categories
Forsíðuborði Greinar

Framsókn aftur í ríkisstjórn

Deila grein

23/09/2017

Framsókn aftur í ríkisstjórn

Nú stöndum við frammi fyrir því, örfáum dögum eftir þingsetningu að stjórnin er sprungin og nýjar kosningar til Alþingis eftir örfáar vikur. Sú sem þetta ritar bjóst ekki við að ríkisstjórnin yrði langlíf. En það að komast ekki í gegnum fyrstu umræðu á sameiginlegum fjárlögum er örugglega heimsmet. Staða Framsóknarflokksins hefur styrkst síðustu mánuði en árið 2016 var verulega erfitt. Framsóknarflokkurinn var skilinn útundan í stjórnarmyndunarviðræðum og lítil eftirspurn var eftir samstarfi. Nú hefur staða flokksins snúst við.

Samvinna og stöðugleiki

Við vitum auðvitað ekki hvernig næstu kosningar fara en ég tel að Framsóknarflokkurin gæti orðið í lykilstöðu við myndun næstu ríkisstjórnar. Flokkurinn er orðinn aldargamall og byggir á sterkum innviðum. Ég held að það sé eftirsóknarvert nú í ljósi þess umróts sem verið hefur að undanförnu í íslenskum stjórnmálum. Fólk vill stöðugleika og traust fólk við stjórnvölinn. Það er ekki hægt að bjóða þjóðinni upp á að þurfa að ganga til kosninga árlega.

Áherslumál okkar Framsóknarmanna verða fyrst og fremst heilbrigðismálin, málefni eldri borgara, menntamál og síðast en ekki síst byggðamál og samgöngur.

Vitlaust gefið

Hvað mig sjálfa varðar þá hyggst ég gefa aftur kost á mér og mun leggja mig alla fram um að vekja athygli á og reyna þar með að leiðrétta þá misskiptingu sem Suðurnesjafólk á að gjalda frá ríkisvaldinu. Það er auðvitað ekki í lagi að samfélag sem telur á þriðja tug þúsund íbúa, glímir við íbúafjölgun sem er fordæmalaus og er með alþjóðlega flugstöð á síðu svæði sem er einnig í örum vexti, fái enn aðeins lítinn hlut af kökunni. Íbúum á Suðurnesjum hefur fjölgað um tæp 20% á sl. þremur árum. Óréttlætið er æpandi þegar litið er til þess að heilbrigðisstofnunin okkar, HSS, fær  næst lægst framlög frá ríkinu af öllum heilbrigðisstofunum landsins. Minnst framlög fær heilbrigðisstofnun Vestfjarða. Þar eru um 8 þúsund íbúar og fólksfækkun um árabil. Það er vitlaust gefið og því þarf að breyta.

Sjö mál

Ég ætla að leggja fram að nýju fjögur frumvörp og þrjár þingsályktunartillögur. Að auki er ég að vinna að nýrri þingsályktunartillögu er lítur að sjúkraflutningum. Ég mun leggja áherslu á breytingar á fæðingarorlofi sem mitt fyrsta mál.

Frumvörpin:

  1. Atvinnuleysistryggingar (bótaréttur fanga) . Frumvarpið fjallar um að breyta lögum á þann hátt að þeir fangar sem stunda vinnu innan fangelsis og/eða nám ávinni sér rétt til atvinnnuleysisbóta. Þannig að þegar þeir ljúka afplánun þá hafa þeir eitthvað að hverfa að á meðan þeir leita sér að atvinnu. Ég tel að slík lagabreytingin sé hvetjandi fyrir þá sem lokið hafa afplánun til að nýta tímann í fangelsinu til betrunar og að þeir leiðist síður til þess að brjóta af sér þar sem þeir hafa einhverja afkomu.
  1. Brottnám líffæra (ætlað samþykki) . Þetta frumvarp hefur verið lengi í umræðunni og meira að segja verið afgreitt í þinginu. Afgreiðslan var á þann veg að ráðherra skipaði starfshóp til að skoða málið betur. Ég leiddi þann starfshóp og við skiluðum skýrslu til ráðherra 2015. Samt sem áður hefur ekkert gerst. Ég er mjög hissa á að ráðherra hefur ekki sjálfur lagt fram frumvarp með lagabreytingu þannig að ég mun halda áfram að berjast fyrir þessu máli.
  2. Fæðingar- og foreldraorlof (fæðingarhjálp). Frumvarp um að breyta lögum þannig að það fólk sem þarf að fara um langan veg til að fæða barn, t.d. íbúar í Vestmannaeyjum og á Höfn, fái viðbótarfæðingarorlof sem nemur þeim tíma sem þau þurfa að bíða fæðingar fjarri heimili. Lagabreyting sem snýr að jafnræði búsetu.
  3. Þjóðfáni Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið (fánatími). Að fáninn megi vera uppi yfir hásumarið og við opinberar byggingar, ef upplýstur.

Og þingsályktunartillögur:

  1. Fjarfundir á vegum ráðuneyta og notkun fjarfundabúnaðar. Að farið verði í allsherjar stefnumótun innan stjórnarráðsins á nýju verklagi varðandi fjarfundi. Væri mun skilvirkara ef sveitastjórnarfólk þyrfti ekki að fara langar leiðir í öllum veðrum á fundi í ráðuneytum. Tæknin er til staðar og við eigum að nýta hana betur og bæta þar með aðgengi að stjórnsýslunni.
  1. Flutningur Landhelgisgæslunnar til Reykjanesbæjar. Þetta mál þekkja allir Suðurnesjamenn.
  2. Réttur barna til að vita um uppruna sinn. Að börn sem getin eru með tæknifrjóvgunum eigi rétt á að vita um uppruna sinn. Byggir á sænsku fordæmi sem ég tel að við þurfum að ræða og móta stefnu í.

Silja Dögg Gunnarsdóttir, alþingismaður.

Greinin birtist á eyjan.is 23. september 2017.

Categories
Forsíðuborði Greinar

Betra samfélag

Deila grein

12/09/2017

Betra samfélag

Íslenskt samfélag hefur tekið umtalsverðum breytingum til hins betra frá því að Alþingi hlaut löggjafarvald í ýmsum sérmálum með stjórnarskránni árið 1874. Fyrir það fyrsta, þá var Ísland enn hluti af danska konungsveldinu og átti stjórnmálabaráttan eftir að litast af þeirri stöðu. Þjóðartekjur á mann voru með því lægsta í Evrópu á þessum tíma. Að sama skapi voru allir þingmenn þjóðarinnar 36 talsins karlmenn. Ljóst er að samfélagsleg þróun hefur verið okkur Íslendingum hagstæð þegar litið er til vaxtar þjóðartekna og að þingið í dag endurspeglar mun betur samfélag sitt, til að mynda er hlutfall kvenna og karla á þingi jafnt.

Áskoranirnar sem við stöndum frammi fyrir í dag eru að öðrum toga en viðfangsefnið er alltaf hið sama, þ.e. hvernig bætum við íslenskt samfélag. Hvernig tryggjum við að gæði velferðarsamfélagsins séu á meðal þess besta sem gerist í veröldinni? Vinna þarf betur að ýmsum málum. Leyfi ég mér að nefna þrennt sem ætti að vera forgangsmál á komandi þingvetri: efla þarf heilbrigðisþjónustu og minnka þarf greiðsluþátttöku sjúklinga, bæta þarf stöðu eldri borgara og styðja verður betur við menntakerfið. Við munum hins vegar ekki bera gæfu til þess að ná árangri nema að við tryggjum að grunnatvinnuvegir þjóðarinnar séu samkeppnishæfnir. Stöðugt hagkerfi og traust efnahagsstjórn er lykilforsenda þess.

Áhrif þingsins og þverrandi traust á það hefur verið til umræðu undanfarin misseri. Þetta er stórvarasöm þróun því að hún grefur undan þrískiptingu valdsins í lýðræðisþjóðfélögum. Ef löggjafarvaldið er veikburða hefur það áhrif á alla stjórnmálaþátttöku, þ.e. áhugi á stjórnmálum sem hreyfiafli fer dvínandi og áhrif þess eru ófyrirséð. Hvað er til ráða? Að mínu mati er framvindan í höndum þingmanna þjóðarinnar. Þingmenn hafa það í valdi sínu að koma fram með umbótamál og vinna þeim fylgi. Efling löggjafarvaldsins liggur fyrst og síðast hjá okkur þingmönnum. Þeir þingmenn sem reyna að varpa ábyrgðinni á aðra eru á villigötum. Allur þingheimur þarf að huga að því mun betur hvernig megi auka traust og ásýnd þingsins. Það verður best gert með málefnalegri framgöngu og leita leiða til að bæta samfélagið okkar.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, þingmaður og varaformaður Framsóknarflokksins

Greinin birtist í Fréttablaðinu 12. september 2017

Categories
Forsíðuborði Greinar

Af samgöngum, eldi og virkjunum á Vestfjörðum

Deila grein

11/09/2017

Af samgöngum, eldi og virkjunum á Vestfjörðum

Mikið er rætt og ritað um uppbyggingu á Vestfjörðum þessa dagana. Eftir margra ára varnarbaráttu samfélaganna fyrir vestan hafa nú í nokkurn tíma verið vonir og væntingar um uppbyggingu með bættum innviðum og fjölbreyttara atvinnulífi. Þrátt fyrir að mikið hafi áunnist á undanförnum árum vantar herslumuninn uppá að fjórðungurinn sé á pari við aðra hvað varðar innviði. Einkum eru það þrjú mál sem eru í brennidepli í dag, veglagning um Teigskóg, virkjanir á norðanverðum Vestfjörðum og laxeldi en að mínu viti þarf aðkomu okkar þingmanna kjördæmisins að öllum þessum málum.

Teigskógur- lagasetning eina leiðin

Nú þegar er vinna er hafin við Dýrafjarðargöng og undirbúningur fyrir nýjan veg um Dynjandisheiði er langt kominn, er aðeins einn kafli eftir í stóru samgönguæðum Vestfirðinga sem er ekki boðlegur en það er vegurinn um Ódrjúgsháls og Hjallaháls. Teigskógur er með þekktari “skógum” á landinu þrátt fyrir að vera að mestu kjarr sem finna má víða á Íslandi. Í raun er með ólíkindum að landeigendur sem búsettir eru á höfuðborgarsvæðinu skuli geta komið í veg fyrir að Vestfirðingar njóti samgangna, öryggis og betri lífsgæða. Nýr vegur um Teigskóg hefur þvælst í stjórnkerfinu alltof lengi og þau svör sem við þingmenn höfum fengið hafa aldrei staðist þegar við höfum ýtt á eftir málinu. Í ljósi nýjustu frétta um mögulegar seinkanir er aðeins eitt í boði, að alþingi samþykki lög um Teigskóg svo framkvæmdir geti hafist. Annað er ekki boðlegt. Mun ég flytja slíkt mál geri aðrir það ekki.

Fiskeldi – beita verður mótvægisaðgerðum og opna Djúpið

Í minni sjávarútvegsráðherratíð síðasta haust setti ég af stað starfshóp sem vinna átti stefnumótun í fiskeldi og skilaði hópurinn niðurstöðu nú í lok ágúst. Fiskeldi eða eldi hverskonar er vaxandi um allan heim enda ljóst að fæðuþörf heimsins verður ekki annað með hefðbundnum búskap eða fiskveiðum. Íslendingar hafa ekki fylgt þeirri þróun eldismála sem skyldi og eflaust eru margar skýringar á því. Nú er staðan önnur, eldi er komið til að vera á Íslandi. Fiskeldi er einn helsti vaxtarbroddur atvinnulífs á Vestfjörðum og sóknarfærin einnig mikil fyrir austan. Niðurstöður starfshópsins ullu mér nokkrum vonbrigðum. Ég hafði vonast eftir skýrari markmiðum og sýn fyrir greinina á næstu árum líkt og fiskeldisþjóðirnar í kringum okkur hafa sett sér. Megin verkefnið var að gera tillögur um umgjörð greinarinnar og átta sig á þjóðhagslegu mikilvægi hennar, þar er lykillinn að meta félagslega og efnahagslega þætti en ekki var gerð tilraun til þess. Þrátt fyrir margt ágætt í vinnu hópsins virðist mér að hann hafi villst frá meginmarkmiðum vinnunnar. Áherslan á „sátt“ milli eldis og veiðiréttarhafa, gjaldtöku af greininni ásamt uppboðsleið Viðreisnar virðist hafa tekið megin tíma hópsins. Ég sakna þess hve lítið er gert með jákvæð áhrif fiskeldis á efnahagslífið, samfélagsþróunina (þrátt fyrir úttekt Byggðastofnunar) sem og hvernig við ætlum að mennta allt það fólk sem greinin þarfnast eða búa um frekari innviði sem fylgja uppbyggingunni.
Viðreisn nær að koma hugmyndum sínum um uppboðsleið þarna inn sem er athyglisvert í ljósi þess að ætlaður forystuflokkur ríkisstjórnarinnar hefur verið andsnúinn þeirri leið í sjávarútvegi. Maður veltir því fyrir sér hvort þetta eigi að vera tilraunaverkefni fyrir sjávarútveginn.
Lagt er til að lögfesta lokun Ísafjarðardjúps fyrir laxeldi á grundvelli áhættumats Hafrannsóknarstofnunar sem er hálfs árs gamalt. Til viðmiðunar má benda á að það tók Hafró langan tíma að þróa aflaráðgjöfina sem þokkaleg sátt hefur myndast um og á hverju ári er niðurstaðan rýnd af ICES, í tilfelli áhættumats á fiskeldi fer vísindalega rýnin fer fram eftir að búið er að loka Djúpinu. Áhættumat Hafrannsóknarstofnunar er nýtt og frumraun stofnunarinnar á þessum vettvangi. Ljóst er að of margar spurningar eru uppi um aðferðarfræði, gögn og annað er liggur til grundvallar matinu að hægt sé að nýta það til ákvarðanatöku á þessu stigi. Á fundi þingflokks- og landsstjórnar Framsóknarflokksins á Vopnafirði nú fyrir skömmu sagði ég mikilvægt að erlendir aðila yrðu fengnir til að rýna vinnu Hafrannsóknarstofnunar og formaður Framsóknarflokksins hefur tekið undir það í grein er hann ritaði. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að setja eigi á fót sérstaka rannsóknarstofnun við t.d. Háskólann á Hólum eða Auðlindadeild Háskólans á Akureyri sem hafi m.a. það hlutverk að rýna rannsóknir annarra í sjávarútvegi og fiskeldi þar á með talið Hafrannsóknarstofnunar. Með þessu er ég ekki að kasta rýrð á vísindamenn stofnunarinnar heldur myndi slík rýni væntanlega staðfesta og þannig renna enn styrkari stoðum undir þeirra vinnu.
Ennfremur er ekki tekið tillit til mótvægisaðgerða en bæði einstaka framkvæmdaraðili og Hafró hafa komið fram með mótvægisaðgerðir sem þýða að hægt sé að fara af stað strax í Djúpinu undir eftirliti þannig að hvorki lífræn mengun né erfðablöndun ógni nokkrum stofnum í Djúpinu. Reyndar kom fram á sameiginlegum fundi Atvinnuvega- og Umhverfis- og samgöngunefndar sl. miðvikudag að innan hópsins hafi illa gengið að ná saman og því haldinn sérstakur fundur þar sem leitað var sátta milli “deiluaðila”.
Skýrsluna um fiskeldi þurfum við þingmenn að gaumgæfa mjög vel á komandi dögum í þinginu þannig að náist ásættanleg niðurstaða fyrir samfélögin og náttúruna. Þannig er því ekki farið í dag og verður ekki fyrr en fiskeldi fer af stað í Ísafjarðardjúpi.

Uppbygging raforkukerfisins – hringtenging Vestfjarða

Ég hef sett mig vel inní áform um virkjanir á norðanverðum Vestfjörðum og heimsótti fyrirhuguð virkjanarsvæði á Ófeigsfjarðarheiði síðastliðið sumar. Ég ætla hinsvegar að láta það vera í bili að fjalla um skrif læknisins sem veit hvað Vestfirðingum er fyrir bestu.
Til þess að bæta raforkuöryggi Vestfirðinga þarf hringtengingu (n-1 tengingu). Fyrir liggja þrjú skref svo slíkt verði að veruleika.
1.skref: Öflun raforkunnar: Finna þarf skynsamleg mörk milli nýtingu á fallvötnum, milli þess að friða og nýta. Pólitíkin hefur komið sér upp mjög viðamiklu ferli til þess enda geta þessi skynsamlegu mörk verið mjög á reiki, það ferli kallast rammaáætlun. Ég hef gagnrýnt það ferli enda alls ekki fullkomið. Hins vegar er það ferlið sem við miðum við í dag og nýtum til ráðgjafar. Bæði Hvalá og Austurgilsvirkjun á norðanverðum Vestfjörðum eru í nýtingarflokki rammaáætlunar sem er lykilatriði.

2. skref: Tengipunktur: Virkjunaraðilar þurfa að geta afhent framleiðslu sína til Landsnets svo hægt sé að miðla henni. Horft hefur verið til þess að tengipunktur fyrir Hvalárvirkjun, Austurgilsvirkjun og hugsanlega Skúfnavatnavirkjun verði innarlega í Ísafjarðardjúpi, mögulega við Nauteyri. Annar áfangi af hringtenginu Vestfjarða er því að koma slíkum tengipunkti fyrir. Landsnet hyggst leggja þaðan línu suður í Kollafjörð þar sem línan myndi tengjast við “landsnetið”. Við þetta annað skref er ekki komin hringtenging en raforkuöryggi batnar samt sem áður þar sem bilanir austan við Kollafjörð hætta að hafa áhrif á Vestfirðinga. Á línunni frá Kollafirði að Gilsfirði eru margir staðir með mikilli ísingarhættu og bilanir tíðar eins og sést á myndinni hér fyrir neðan frá Landsneti. Endapunktinum er þó ekki náð með þessu skrefi.


Græna línan er möguleg tenging úr Djúpi í Kollafjörð.Fjölmargir ísingarhættustaðir, merktir gulir, appelsínugulir og rauðir frá Kollafirði í Gilsfjörð detta út við 2. skref að hringtengingu Vestfjarða.

3. skref: Hringtenging raforku: Bent hefur verið á að Landsnet hafi ekki gefið út að til standi að leggja út línu út Djúp. Í mínum huga er það ekki einkamál Landsnets hvernig raforkukerfi Vestfirðingar búi við, ekki frekar en það sé einkamál Skipulagsstofnunar hvernig veglagningu á landinu er háttað. Hringtenging raforku á Vestfjörðum er pólitísk ákvörðun, það má benda á að síðastliðið haust var samþykkt í ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, tillögur Vestfjarðarnefndar en ein af tillögunum þar var að fela Orkustofnun að finna út hagkvæmustu tengingu frá Nauteyri til Ísafjarðar. Frá ríkisstjórnarskiptum hefur þessi tillaga ekki fengið framgang frekar en aðrar tillögur nefndarinnar sem núverandi stjórnarflokkarnir sýna engan áhuga. 
Málið er einfalt í mínum huga, Orkustofnun verði falið líkt og Vestfjarðarnefndin lagði til að finna hagkvæmustu tengingu frá Nauteyri til Ísafjarðar og Alþingi gefi út stefnumarkandi ákvörðun um að ráðist verði í hringtengingu sem fyrst.
Skora ég á Þórdísi Reykfjörð Gylfadóttur ráðherra raforkumála og þingmann Norðvesturkjördæmis að fela Orkustofnun að hefja þá vinnu.

Þrátt fyrir að kostnaður við slíka tengingu gæti virst þónokkur er ávinningurinn mikill, hægt er að slökkva á olíkyndingu og olíuvarafli sem væri í takt við umhverfisskuldbindingar Íslands, raforkuöryggi Vestfirðinga stórbatnar og loks verður til staðar raforka fyrir minni iðnað. Einnig má benda á að til rannsóknar eru minni virkjanir í Djúpinu sem gætu tengst inná þá línu og lækkað kostnaðinn. Aðrir kostir við að hringtengja rafmagn á Vestfjörðum eins og að tvöfalda Vesturlínu eru líka mjög dýrir en í mínum huga er miklu físilegari leið að að virkja fallvötnin við Djúp og í Hvalá til hagsbóta fyrir samfélögin þar vestra og stuðla að bættu raforkuöryggi í leðinni.

Ef að þingmenn koma sér saman að gera fyrrnefnd þrjú atriði að veruleika er ég sannfærður um að eftir standi kröftug sjálfbær samfélög á Vestfjörðum.

Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Framsóknarflokksins

Greinin birtist á bb.is, 11. september 2017

Categories
Forsíðuborði Greinar

Lambakjötið

Deila grein

10/09/2017

Lambakjötið

Vandi sauðfjárbænda er augljós og hefur verið sýnt framá hve gríðarlegur tekjumissir bænda verður ef allt fer á versta veg. Hann verður 2.400 milljónir króna á tveimur árum. Bændur hafa síðan í vetur reynt að fá stjórnvöld til að opna augun fyrir vandanum með litlum árangri. Útspil ríkisstjórnarinnar kom seint og um síðir án þess að taka á vandanum í heild. Vandi greinarinnar er í raun ekki framleiðsluvandi heldur markaðsvandi. Víða í verslunum er erfitt eða ekki hægt að kaupa læri eða hryggi. Birgðavandinn er því væntanlega að mestu í öðrum vörum. Ef framleiðslan verður minnkuð um 20% líkt og ríkisstjórnin virðist stefna að þá verður augljóslega enn frekari vöntun á þessum vörum á næsta ári. Mun þá koma fram krafa frá Félagi atvinnurekenda um að fá að flytja inn lambakjöt í stórum stíl? Framleiðendur og verslanir hafa um árabil ekki sinnt markaðnum sem skyldi og metnaðarleysi verið þar ráðandi. Meðan fiskur, kjúklingur, svín ofl. var hanterað fyrir markaðinn var lítill metnaður í lambakjötinu. Það hefur þó breyst síðustu ár m.a. hefur Krónan boðið uppá nútímalegar sölueiningar. Þróunin er því á réttri leið, en það er heilmikið óunnið. Landbúnaðurinn þarf að verða mun meira markaðsdrifinn – ekki framleiðsludrifinn. Það er það sem verður að breytast.

Undirritaður beitti sér fyrir því sem landbúnaðarráðherra að 100 milljónir króna voru settar í markaðsmál fyrir erlenda markaði til að létta á birgðavandanum. Markaðssóknin verður að vera markviss og hafa það að markmiði að auka verðmæti hverrar einingar. Þrír aðilar þurfa að koma að málum, stjórnvöld, afurðastöðvar og bændur. Nefni ég hér örfá dæmi um hvað stjórnvöld geta gert:

1. Nú þegar á að taka upp sveiflujöfnun sem bændur hafa kallað eftir þannig að hægt sé að losa nú þegar um þær birgðir sem safnast hafa upp. Skv. hugmyndum bænda hefði ráðherra vald til að stöðva útflutning sé hætta á skorti á innanlandsmarkaði og því væri það að hans valdi að jafna sveiflur á markaðnum.
2. Á fundi þingflokks Framsóknarflokksins sl. mánudag kynnti ég þingmál sem ég hyggst leggja fram. Að sveiflujöfnunin yrði fest í lög og að undanþága frá samkeppnislögum yrði lögfest fyrir landbúnaðinn í heild. Það er mjög mikilvægt að okkar litli landbúnaður geti unnið sem ein heild t.d. er kemur að útflutningi en í dag er það ekki hægt. Fyrirkomulagið í mjólkurframleiðslu hefur reynst vel fyrir neytendur og framleiðendum tekist vel að tryggja gæðavörur á hagstæðu verði. Ef framþróun í útflutningi á að eiga sér stað verða framleiðendur að geta unnið saman.
3. 500 milljónum króna verði varið til markaðs og vöruhönnunar átaks þar sem áherslan verður lögð á nútímalegar vörur fyrir innanlandsmarkað og útflutning.
4. 100 milljónum króna verði varið í að styrkja frumkvöðlastarf í gegnum Landbúnaðarklasann.
5. Bændur sem hafa verið að þróa “beint frá býli” og/eða netsölu á framleiðslu sinni fái sérstakan stuðning.

Það er engin framtíðarsýn sem ríkisstjórnin er að bjóða með því að hvetja ungt fólk til að snúa baki við sauðfjárframleiðslu. Hér hef ég ekki rætt áhrif þess á samfélagið ef bændur bregða búi í stórum stíl en þau áhrif gætu orðið mikil.

Það er vel hægt að styrkja stöðu sauðfjárbænda til framtíðar en þá þarf að bregðast við strax og lykilatriðin liggja á borðum ríkisstjórnarinnar.

Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Framsóknarflokksins

Greinin birtist í Morgunblaðinu, 9. september 2017

Categories
Forsíðuborði Greinar

Sóknarfærin eru á Skaganum

Deila grein

07/09/2017

Sóknarfærin eru á Skaganum

Akranes er gott samfélag sem er að mínu mati í þægilegri fjarlægð frá Reykjavík og þangað er því auðvelt að sækja m.a. vinnu og háskóla. Fasteignaverð á Akranesi er einnig talsvert lægra en í höfuðborginni Reykjavík, þó fasteignaverð hafi hækkað umtalsvert á síðustu misserum. Á Skaganum eru einnig góðir leik- og grunnskólar og önnur öflug grunnþjónusta sem er vel mönnuð fagfólki á hinum ýmsu sviðum.

Því er ekki annað en hægt að velta fyrir sér, hvers vegna íbúafjölgun á Akranesi er mun lægri en í öðrum nágrannasveitarfélögum höfuðborgarinnar. Í nýlegum fréttum kom fram að íbúum á Akranesi hefur fjölgað um 1,7% á undanförnu ári á meðan fjölgunin er 3,5% í Árborg og 8,5% í Reykjanesbæ.

Reyndar vitum við að skortur hefur verið á íbúðarhúsnæði á Akranesi. En nú eru uppi áform um að koma inn með um 650 íbúðir, til að koma á móts við þann skort sem verið hefur. Það er nauðsynleg aðgerð og í því samhengi þarf að horfa til ýmissa þátta eins og uppbyggingar á félagslegu húsnæði, húsnæði fyrir aldraða og auk þess þarf aukið framboð inn á hinn almenna markað.

En geta aðrir þættir haft áhrif á þessa þróun? Getur verið að fólk í fasteignahugleiðingum horfi frekar til sveitarfélaga eins og t.d. Árborgar og Reykjanesbæjar? Getur verið að Akranes líði fyrir að vera eina sveitarfélagið, úr dæminu sem tekið var fyrir í fréttum, þar sem fólk þarf að greiða veggjöld á leið sinni til og frá Reykjavík?

Í þrígang hef ég lagt fram þingsályktunartillögu á Alþingi um skattaafslátt vegna ferða til og frá vinnu. Sú tillaga hefur einhverra hluta vegna fengið dræmar undirtektir og því ekki náð fram að ganga. Tillagan fjallar um að fólk sem greiða þarf ákveðna upphæð vegna ferða til og frá vinnu eða skóla fá skattaafslátt á móti. Gæti verið ef hún hefði náð fram að ganga, að hún hefði haft áhrif á þessa íbúaþróun?

Það verður ekki litið fram hjá því að Skagamenn og aðrir íbúar Vesturlands búa við ójafnræði hvað varðar kostnað vegna ferða til og frá vinnu. Sumir segja að við höfum val um aðra leið sem er Hvalfjörðurinn. Því er ég ekki sammála.

Við verðum að fara í verulegar vegabætur á Vesturlandsvegi og ráðast sem fyrst í lagningu Sundabrautar. Þá fyrst förum við að tala um raunverulegt val. Skaginn á svo sannarlega sóknarfæri. Ódýrara húsnæði og meiri gæðastundir með fjölskyldunni. Það er þess virði.

Elsa Lára Arnardóttir, þingmaður Framsóknarflokksins

Greinin birtist á Skessuhorni, 7. september 2017

Categories
Forsíðuborði Greinar

Skemmri skírn

Deila grein

05/09/2017

Skemmri skírn

Töluvert vantar upp á tillögur þær sem landbúnaðarráðherra birti í gær til að leysa vanda sauðfjárbænda. Tillögurnar eru ágætar svo langt sem þær ná. Þær eru hins vegar skemmri skírn og plástur á sár sem ekki grær. Stjórntæki vantar til að taka á birgðavandanum og engar skuldaaðgerðir eru í augsýn fyrir unga bændur. Lækkun á afurðum sem bændur eiga nú von á setur því allar áætlanir sauðfjárheimila í loft upp.

Umframmagn af kjöti er ennþá til staðar og sláturtíðin hafin. Heimili í sauðfjárrækt munu ekki fá tekjur fyrir útlögðum kostnaði sem fór í að kaupa aðföng. Allt stefnir í mikla kauplækkun á meðan laun annarra stétta í þjóðfélaginu hafa hækkað um 30-35%. Afkoman verður neikvæð EBITDA og á þá eftir að greiða vexti, verðbætur og afskriftir.

Hafa áhrifin verið greind? Hefur landbúnaðarráðuneytið upplýsingar um áhrif tillagnanna á tekjur fólks sem stundar sauðfjárbúskap, á unga bændur, á samfélög? Hver verður staða bænda eftir eitt ár? Hver verður staða heimila á svæðum brothættra byggða, þar sem nú eru rúmlega 200 heimili sem lifa af sauðfjárbúskap?

Afleiðingarnar geta orðið fjöldagjaldþrot hjá ungum bændum með börn sem um leið sjá fram á að missa heimili sín, þar sem þau eru veðsett. Offramboð á jörðum, afleidd störf í matvælaframleiðslu munu hverfa og byggðirnar tæmast.

Ríkisstjórnin verður að hlusta á lausnir til að leysa birgðarvandann.

Sandkassaleik ráðherra Viðreisnar með landbúnaðarráðherra í broddi fylkingar verður að stöðva. Forsætisráðherra sem hefur sagt að í gildi sé búvörusamningur, og það standi ekkert annað til en að stjórnvöld standi við þann samning, verður að stíga fram og tryggja stuðning ríkisstjórnarinnar sem allra fyrst.

Nágrannalöndin verja sína landbúnaðarframleiðslu. Evrópusambandið losar bændur við umframbirgðir, s.s. mjólkurduft, smjör og kjöt og setur í frysti eða selur út fyrir svæðið. Ríkisstjórnin getur ekki skorast undan ábyrgð nema ráðherra Viðreisnar ætli sér að leggja íslenska matvælaframleiðslu niður og þúsundir starfa.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins

Greinin birtist í Fréttablaðinu, 5. september 2017

Categories
Greinar

Störfum sópað undir teppið

Deila grein

31/08/2017

Störfum sópað undir teppið

Ráðherra fiskeldismála lét þau orð falla að laxeldið væri komið til að vera. Gott og vel, en umhverfisráðherra er ekki viss. Aftur á móti útilokar skýrsla ráðherra fiskeldismála bein og óbein störf á Vestfjörðum – reyndar á Austfjörðum líka. Störf sem gætu annars rennt stoðum undir blómlega uppbyggingu svæðisins.

Fólkið flýr
Það er sorglegt til þess að vita að ekki hafi verið gerð nein tilraun til þess að meta hin efnahags- og félagslegu áhrif af laxeldi í sjó, en á sama tíma er markmið skýrslunnar að hafa sjálfbæra þróun að leiðarljósi. Það er tómt mál að tala um sjálfbært fiskeldi og ná sátt um greinina án þess að meta alla þrjá þættina. Það liggur ljóst fyrir. Mikil tækifæri felast í uppbyggingu og starfsemi fiskeldis á þeim svæðum sem við höfum áður tekið ákvörðun um. Umbylting hefur orðið þar sem áður voru skilgreindar brothættar byggðir landsins og laða þær nú til sín störf og þjónustu. Hugsanleg byggðarleg áhrif af 30 þús. tonna leyfum, eins og áform gerðu ráð fyrir, í Ísafjarðadjúpinu fela í sér að um 1700 íbúar gætu haft aðkomu að fiskeldi með einum eða öðrum hætti. Það gæti þýtt 30% fjölgun íbúa á norðurhluta Vestfjarða. Þá fyrst væri hægt að tala um sjálfbært atvinnusvæði. Það er áhyggjuefni að enn þann dag í dag erum við að horfa upp á fólksfækkun, einhæft atvinnulíf og ótryggar samgöngur á Vestfjörðum. Fiskeldi eitt og sér dregur til sín mörg önnur afleidd störf, s.s. sérfræðistörf og hærra menntunarstig. Nauðsynlegir þættir, sem við fyrir sunnan teljum sem sjálfsagðan hlut, fylgja í kjölfarið. Samgöngur batna, þróun byggðar verður upp á við, unga fólkið er þá líklegra til að setjast að, ferðamönnum fjölgar og uppbygging stærstu atvinnugreinar landsins, ferðaþjónustan nær sér á strik þar sem hennar er beðið með óþreyju. Aðgerðaleysi ríkisstjórnar og skilningsleysi á sjálfbærni atvinnulífs landsbyggðar getur valdið því að veruleg hætta sé á að byggð þurrkist út innan fárra áratuga, en slík þróun átti sér stað t.d. þegar byggð lagðist af á norðurströndum og í Jökulfjörðum.

Nýsköpun ýtt út af borðinu
Við megum ekki gera lítið úr þeirri áhættu sem laxeldið hefur í för með sér og aukið sjókvíaeldi felur í sér miklar áskoranir sem og að ákvarðanir þurfa að grundvallast á vísindalegum rannsóknum og bestu fáanlegu tækni (BAT). Því sætir það furðu að ekki sé tekið tillit til mótvægisaðgerða sem þarf að þróa, sé vilji fyrir hendi.

Sáttaleið
Það er sorglegt til þess að vita að starfshópurinn hafi ekki geta komið sér saman um að taka tillit til mótvægisaðgerða. Tvennt þarf að koma til, til að sátt náist.

1. Ein hugmynd af mörgum, snýst um að hindra beinlínis för eldisfisks í laxveiðiár. Íslenskt nýsköpunarfyrirtæki þróar slíka tækni.
2. Rýna þarf alþjóðlega, vísindalegt áhættumat áður en það er lagt eitt og sér til grundvallar fyrir ákvarðanatöku um sjálfbært samfélag.
Vinnum að sátt að sjálfbærri atvinnugrein sem skapar viðvarandi og fjölbreytt störf.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins

Greinin birtist í Morgunblaðinu, fimmtudaginn 31. ágúst 2017

Categories
Greinar

Traust á fjármálakerfinu og endurskoðun peningastefnu

Deila grein

30/08/2017

Traust á fjármálakerfinu og endurskoðun peningastefnu

Áskoranir íslenskrar hagstjórnar eru margvíslegar og hverfa ekki þótt vel ári. Það er erfitt að hafa áhrif á ýmsa þætti hagstjórnar hér á landi, til að mynda hversu smátt hagkerfið okkar er eða að útflutningurinn er að mestu byggður á náttúruauðlindum og því sveiflukenndari en ella. Hins vegar eru ákveðin verkefni sem stefnumótandi aðilar hafa á sínu valdi sem mikilvægt er að ráðast í til að styrkja umgjörð hagkerfisins og viðnámsþrótt þess. Annars vegar að efla traust á fjármálakerfinu og hins vegar endurskoðun peningastefnunnar. Til að stefnumótunin sé farsæl, þá þarf að tvinna þessa tvo þræði saman.

Sameina þarf fjármálaeftirlit
Um áratug fyrir hina alþjóðlegu fjármálakreppu var starfsemi fjármálaeftirlits og seðlabanka aðskilin í mörgum ríkjum, m.a. vegna þess að skynsamlegt þótti að aðskilja eftir­lit með öryggi innstæðueigenda og fjármálastöðugleika. Bankaeftirlitið var aðskilið Seðlabanka Íslands árið 1999 og Fjármálaeftirlitið stofnað. Í fjármálakreppunni komu fram miklir vankantar á þessari útfærslu, þar sem heildarsýn á áhættuþætti fjármálakerfisins skorti hjá Seðlabankanum sem lánveitanda til þrauta­vara.

Fram hafa komið sterk rök hjá sérfræðingum á þessu sviði í þá veru að bankaeftirlit eigi heima hjá seðlabönkum. Þróunin hefur verið sú hjá þeim ríkjum sem lentu í miklum erfiðleikum í fjármálakreppunni að þau hafa verið að veita seðlabönkum auknar heimildir á sviði þjóðhagsvarúðar og má nefna Holland og Írland. Sum ríki, líkt og Bretland, hafa sameinað eftirlit með fjárhagsstöðu lánastofnana á nýjan leik innan Englandsbanka. Það er brýnt að fara gaumgæfilega ofan í saumana á því hver ávinningurinn af sameinuðu fjármálaeftirliti á Íslandi sé.

Skortir skýrt umboð
Mikil umræða hefur lengi verið á Íslandi um gjaldmiðlamál og tilfinningalegt samband þjóðarinnar við krónuna er oft lævi blandið. Stundum mætti halda að hún væri upphaf og endir alls. Það er hins vegar ekki svo, því gjaldmiðillinn er fremur eins og hitamælir hagkerfisins. Ef hagstjórnin er styrk og framsýn, þá má draga úr sveiflum á gjaldeyrismarkaði. Það gefur augaleið að það er meiri áskorun í litlu opnu hagkerfi, en ef samspil peningastefnu og ríkisfjármála er rétt og regluverk á fjármálamarkaði skilvirkt, þá er hægt að ná árangri.

Til að auka traust og trúverðugleika, þá þarf að halda áfram að styrkja umgjörð peningastefnunnar. Ráðist hefur verið í margar aðgerðir á undan­förum misserum. Meðal annars að innleiða stýritæki til að tempra fjármagnsinnstreymi og breyta reglum um laust fé og gjaldeyrisjöfnuð bankanna. Hins vegar þarf að horfa til fleiri hagstjórnartækja en stýrivaxta ef árangur á að nást í peningastefnunni og fyrirbyggja þarf að kerfisáhætta byggist upp í fjármálakerfinu. Til auka líkurnar á því að markmið um efnahagslegan stöðugleika náist, þá verður að leggja meiri áherslu á að samtvinna framkvæmd peninga- og þjóðhagsvarúðarstefnu. Þetta er best gert með því að sameina fjármálaeftirlit á Íslandi til að hámarka styrk af kerfinu.

Allt sem þarf er samvinna
Stefnumótandi aðilar á Íslandi verða að skilja að þetta gerist í samvinnu Alþingis og lykilstofnana. Ef ekki er farið af stað í slíka vegferð með því hugarfari, þá skortir vegferðina umboð. Endurskoðun peningastefnunnar á að einblína á þessa þætti og bind ég miklar vonir við þá vinnu sem nú stendur yfir. Hins vegar er mjög bagalegt þegar forystumenn ríkisstjórnarinnar eru stöðugt að senda misvísandi skilaboð um umboð nefndarinnar og verkefni. Þetta verklag er ekki líklegt til að skila tilætluðum árangri og dregur úr trausti á getu stjórnvalda til að sigla í höfn þjóðfélagslega mikilvægum verkefnum.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, þingmaður og varaformaður Framsóknarflokksins

Greinin birtist fyrst í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál

Categories
Forsíðuborði Greinar

Lagasetning kemur til greina

Deila grein

30/08/2017

Lagasetning kemur til greina

Enn og aftur er vegalagning um Teigsskóg komin í uppnám. Það er óásættanlegt með öllu og staða sem þessi getur ekki gengið lengur.

Í nýlegu svari sem ég fékk frá samgönguráðherra kemur fram að ráðherra sé ekki að skoða sérstaka lagasetningu til að liðka fyrir vegaframkvæmdum um Teigsskóg (https://www.althingi.is/altext/146/s/1070.html). Því er það ábyrgðarhlutverk þingmanna í Norðvesturkjördæmi að taka málið í sínar hendur, því lagasetning hlýtur að koma til greina þegar staðan er enn og aftur orðin þessi. Sérstaklega þar sem þær áætlanir sem settar voru fram árið 2014, hafa ekki gengið upp.

Haustið 2014 funduðu þingmenn Norðvesturkjördæmis m.a. með þáverandi samgönguráðherra um mikilvægi þess að nýr vegur yrði lagður um Teigsskóg. Ýmsar leiðir voru lagðar á borðið til að finna aðgerð sem yrði til þess að hægt væri að byrja vegalagningu sem fyrst. Flestir þingmenn kjördæmisins, ef ekki allir, vildu fara í lagasetningu til að höggva hnút á þá stjórnsýsluflækju sem nýr vegur um Teigsskóg er. Samkvæmt þeim svörum sem þingmenn fengu á fundinum þá átti endurupptaka á fyrra umhverfismati að vera stysta leiðin í átt að settu markmiði. Það ferli tæki innan við 18 mánuði og vegaframkvæmdir gætu hafist á árinu 2016 (https://www.visir.is/g/2014141019455). Núna árið 2017 erum við enn á byrjunarreit og ekkert staðist sem rætt var á fundinum þarna um árið.

Í öllu þessu ferli, hef ég sem þingmaður Norðvesturkjördæmis sett fram ýmsar fyrirspurnir um málið, m.a. um áfangaskiptingu verkefnisins, eyrnamerkt fjármagn til verkefnisins og fyrirspurn um lagasetningu eða aðrar aðgerðir til að koma verkefninu af stað. Allar þessar fyrirspurnir, sem og aðrar má finna hér: https://www.althingi.is/altext/cv/is/fyrirspurnir/?nfaerslunr=1161

Við virðumst enn og aftur vera á byrjunarreit. Áætlanir hafa ekki gengið upp og því virðist lagasetning vera orðin eina færa leiðin. Það er ábyrgðarhlutverk okkar þingmanna Norðvesturkjördæmis að ganga í málið og koma þessu mikilvæga samgönguverkefni áfram. Þetta getur ekki gengið svona lengur.

Elsa Lára Arnardóttir

Greinin birtist á bb.is 29. ágúst 2017.