Categories
Greinar

Gagnsæi er forsenda trúverðugleika

Deila grein

24/03/2017

Gagnsæi er forsenda trúverðugleika

Miklar breytingar hafa átt sér stað á íslensku fjármálakerfi frá því að bankakerfið hrundi á einni viku eins og spilaborg. Regluverk hefur verið stórbætt í þeim tilgangi að auka traust á bankakerfinu og draga úr áhættu kerfisins. Stærð bankakerfisins hefur minnkað og er rúm 150% af landsframleiðslu. Eigið fé bankanna er ríflegt, vanskil hafa minnkað verulega og kjör á erlendri markaðsfjármögnun hafa batnað mikið. Fyrsti áfanginn í endurreisn bankakerfisins hefur að mörgu leyti tekist vel eins og helstu kennitölur bankanna bera með sér. Í næsta áfanga þarf að huga að framtíðarskipan bankakerfisins, þ.e. hvernig það á að vera uppbyggt til að það þjóni heimilunum og fyrirtækjunum í landinu á bæði hagkvæman og sanngjarnan hátt.

Erlendir vogunarsjóðir keyptu tæp 30% í Arion banka í upphafi þessarar viku. Ráðamenn þjóðarinnar fögnuðu þessum viðskiptum og sögðu að nú væru vogunarsjóðirnir að veðja með Íslandi. Þrátt fyrir traustsyfirlýsingar ráðamanna, þá hafa margir goldið varhug við þessari þróun. Eignarhald þessara sjóða liggur ekki fyrir. Fréttir hafa borist af vafasamri fortíð eins sjóðanna sem nú er hluthafi í Arion banka. Einnig leit út fyrir að eigendur sjóðanna væru að stytta sér leið fram hjá leikreglunum til þess að flýta fyrir söluferlinu, þ.e. keyptur var 9.99% hlutur í Arion banka en þannig urðu sjóðirnir ekki virkir eigendur strax í upphafi ferlisins.

Gagnsætt eignarhald er forsenda þess að skapa traust og tiltrú á íslensku bankakerfi. Það er slæm byrjun á næsta áfanga í endurreisn bankakerfisins ef ekki fást skýrar upplýsingar um eigendurna og fyrirætlanir þeirra um íslenskt bankakerfi. Ef gagnsæið verður ekki aukið, mun næsti áfangi í endurreisn fjármálakerfisins misheppnast. Stjórnvöld verða að tryggja að svo verði ekki. Samfélagið allt hefur lagt mikið af mörkum í endurreisnina og því er brýnt að vandað verði til verks í næstu skrefum. Það tekur mörg ár að byggja upp trúverðugleika en hann getur glatast hratt ef ekki er rétt á málum haldið.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir

Greinin birtist 24. mars í Fréttablaðinu.

Categories
Greinar

Traust, siðferði og leyndarhyggja

Deila grein

21/03/2017

Traust, siðferði og leyndarhyggja

Það þarf vart að fara mörgum orðum um það að erlendir fjárfestar, svo kallaðir vogunarsjóðir, hafa nú náð yfirhöndinni í því kerfislega mikilvægri fjármálastofnun á Íslandi; það er Arion banka. Eitt af því sem nefnt hefur verið sem vandamál við að vogunarsjóðir séu kjölfestufjárfestar í bönkum, er að þeir eru kvikir fjárfestar. Það þýðir að þeir leita tækifæra frá einum degi til annars; eru ekki langtímafjárfestar.

Engar upplýsingar, lokaði almenningi
Gylfi Magnússon, dósent við hagfræðideild Háskóla Íslands, segir á Vísindavefnum um vogunarsjóði að: „Yfirleitt eru vogunarsjóðir lokaðir almenningi, það er einungis tilteknum fjárfestum er gefinn kostur á að kaupa sig inn í þá. Ein skýring á því er að nokkuð ríkar kröfur eru gerðar um upplýsingagjöf til sjóða sem seldir eru almenningi og það hentar vogunarsjóðum illa, enda vilja þeir halda spilunum þétt að sér.“ Fyrrverandi forstjóri Straums fjárfestingarbanka, Pétur Einarsson, tekur í sama streng í samtali við Morgunblaðið. Hann segir að vogunarsjóðir séu í eðli sínu lokaður klúbbur og ekki eftirlitsskyldir eins og bankar. Þeirra eignarhald og starfsemi sé ekki opinber. Þá telur hann einnig vogunarsjóði óheppilega eigendur banka. Þeir séu ekki langtímafjárfestar og hafi ekki áhuga á rekstri.
Það má því með nokkurri vissu fullyrða að leyndarhyggja sé eitt leiðarstefið í starfsemi vogunarsjóða.

Traustið við frostmark
Traust á fjármálastofnunum er í lágmarki og hefur svo verið allt frá því að bankarnir hrundu haustið 2008. Mælingar hafa staðfest það. Fyrir rúmu ári birtust fréttir af því að um sex og hálft prósent landsmanna bera mikið traust til bankakerfisins. Rúmlega 70% sögðust bera lítið traust til þess. Það eru sem sagt sjóðir sem sveipaðir eru leyndarhyggju sem er falin umsjá á kerfislega mikilvægum banka á Íslandi, á tímum þegar traust á bankakerfinu er við frostmark. Forsætisráðherra segir að þetta séu sannarlega góðar fréttir og fjármálaráðherrann er sáttur; segja má að vogunarsjóðirnir eigi þarna hauka tvo í horni. Og það þrátt fyrir það að í hópi vogunarsjóða sé einn sem staðinn hefur verið að stórfelldum mútugreiðslum í Afríku og þurft að gjalda fyrir það með gríðar háum sektum.

Langtímafjárfestar …?
Einhverra hluta vegna telur forsætisráðherra það sýna traust á aðstæðum hér á landi, ef: „…hingað vilja koma öflugir erlendir aðilar sem eru tilbúnir að gerast langtímafjárfestar í íslenskum fjármálafyrirtækjum.“ Það er athyglivert að forsætisráðherra telji að vogunarsjóðir séu langtímafjárfestar. Hingað til hafa vogunarsjóðir ekki verið taldir tilheyra þeim hópi. Einn af forystumönnum þeirra vogunarsjóða sem var að festa sér Arion banka segir í samtali við Morgunblaðið: „Ég veit ekki hve lengi við höldum þessu [fjárfestingunni í Arion banka]. Það fer eftir því hvað markaðurinn er lengi að meðtaka virði og horfur bankans,…“.

Traust og siðferði
Tvennt er það sem veldur mér sérstöku hugarangri vegna sölu á ráðandi hlut í Arion banka. Fyrst ber að nefna að salan er í mínum huga langt frá því að stuðla að endurnýjuðu trausti á fjármálakerfinu í hugum íslensks almennings; það er, viðskiptavina bankanna. Í annan stað finnst mér það vægast sagt merki um daufa siðferðiskennd að sjóður sem staðinn hefur verið að glæpsamlegri starfsemi skuli boðinn hingað sérstaklega velkominn; og það bæði af forsætisráðherra og efnahags- og fjármálaráðherra. Sérstaklega kemur forsætisráðherra mér á óvart með sínum málflutningi, fjármálaráðherrann þekki ég mun síður.

Sigurður Ingi Jóhannsson

Categories
Greinar

Hálfnað verk þá hafið er?

Deila grein

21/03/2017

Hálfnað verk þá hafið er?

Á síðustu árum hefur mikill meirihluti foreldra sem hafa skilið eða slitið samvistum, eða 85 – 95 % samið um sameiginlega forsjá. Er þá oft um að ræða að barn sé viku hjá föður og viku hjá móður. Foreldrar barns ala það upp í sameiningu og deila allri ábyrgð. Jöfn búseta barns hjá foreldrum krefst þó mikilla samskipta og málamiðlana og rannsóknir hafa sýnt fram á að góð foreldrasamvinna skili meiri sátt og því meiri vellíðan fyrir barnið. Sömu rannsóknir sýna að ágreiningur milli foreldra hefur neikvæðari áhrif á líðan barnsins.

Þrátt fyrir þessar staðreyndir og þau spor sem stigin hafa verið í átt að því að jafna stöðu foreldra, þá er kerfið enn að þvælast fyrir og það þarf að laga. Vegna þessa lagði ég fram fyrirspurn til dómsmálaráðherra og óskaði eftir umræðu um málið. Ég óskaði eftir umræðu um hvort unnið sé að lagabreytingu, byggða á skýrslu innanríkisráðherra um jafnt búsetuform barna sem búa á tveimur heimilum. Skýrslu sem lögð var fram á Alþingi í september 2015. Ég spurði dómsmálaráðherra einnig, hvenær frumvörp um málið yrðu lögð fram?

Þessar umræður áttu sér stað inni á Alþingi, núna í byrjun mars. Þar kom fram hjá dómsmálaráðherra að nú þegar hafi verkefnastjórn um málið, skoðað hvaða lögum og reglugerðum þurfi að breyta. Þar kom fram að m.a. þurfi að gera breytingar á barnalögum sem heimili foreldrum, sem fara sameiginlega með forsjá barns og ala það upp á tveimur heimilum, að skipta búsetu barns ef ákveðin skilyrði eru uppfyllt.

Samkvæmt orðum dómsmálaráðherra komst verkefnastjórnin að því, að ekki var nóg að breyta lögum og reglugerðum, heldur kallaði vinnan jafnframt á umfangsmiklar kerfisbreytingar. Það hafi því verið mikilvægt að upplýsa þá aðila sem málið snertir um þetta verkefni, ásamt því að fá ábendingar og álit. Vegna þessa var kallað eftir tengiliðum frá mennta – og menningarmálaráðuneytinu, ríkisskattstjóra, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Sjúkratryggingum Íslands, Tryggingastofnun og Barnaverndarstofu.

Í umræðunni við dómsmálaráðherra kom fram að verkefnastjórnin eigi að ljúka vinnu sinni núna í mars. Í vor mun því undirbúningur að lagafrumvörpum eiga sér stað. Frumvarpi um breytingu á barnalögum, ásamt bandormi með breytingum á ýmsum öðrum lögum. Einnig kom fram að gera þurfi breytingar á reglugerðum. Þessi vinna verður á ábyrgð nokkurra ráðuneyta og er þar um að ræða innanríkisráðuneytið, fjármála – og efnahagsráðuneytið, mennta – og menningarmálaráðuneytið og velferðarráðuneytið.

Nú er mars senn á enda og verkefnastjórnin ætti að fara skila af sér. Verkefninu verður þó alls ekki lokið. Því er nauðsynlegt að fylgjast áfram með vinnslu þessa máls og kalla eftir upplýsingum þegar verkefnastjórnin skilar af sér. Fá upplýsingar um hvaða verkefni hvert ráðuneyti fær og hver tímalínan er varðandi framgang málsins. Því mun ég fylgjast með.

Elsa Lára Arnardóttir

Greinin birtist á visir.is 21. mars 2017.
Categories
Greinar

Þolmörk og sóknarfæri í ferðaþjónustunni

Deila grein

21/03/2017

Þolmörk og sóknarfæri í ferðaþjónustunni

Til okkar streyma ferðamenn og fjöldi þeirra eykst frá ári til árs. Sá straumur skapar hagvöxt og atvinnutækifæri sem er gott. Hin hliðin á peningnum er ekki eins fögur. Ákveðin svæði eru komin að þolmörkum hvað varðar álag og fjölda, á meðan önnur geta vel tekið á móti fleira fólki. Helstu verkefnin felast í að auka landvörslu, bæta vegakerfið okkar og gera innanlandsflug að raunverulegum valkosti. Að auki þurfum við að endurskipuleggja skiptingu tekna af ferðamanni, þ.e. á milli ríkis og sveitarfélaga.

Ójöfn skipting tekna
Ferðaþjónustan er orðin ein meginstoð í gjaldeyrisöflun þjóðarinnar. En það er umhugsunarefni hvernig við ætlum að haga tekjudreifingu. Eins og staðan er nú þarf að hefjast handa við að tryggja réttlátari skiptingu tekna á milli ríkis og sveitarfélaga. Á vettvangi Sambands íslenskra sveitarfélaga hefur ítrekað verið rætt um mikilvægi þess að sveitarfélögin fái auknar tekjur af komu ferðamanna til landsins. Eins og staðan er í dag fá sveitarfélög tekjur af útsvari þeirra sem vinna við ferðaþjónustu auk fasteignaskatta af mannvirkjum sem tilheyra ferðaþjónustunni. Þær tekjur renna af mismiklum þunga til sveitarfélaga og telja sum sig vera nokkuð afskipt vegna þess. Þau telja útgjaldaþrýsting vera fyrir hendi en litlar sem engar tekjur í augsýn til að standa undir nauðsynlegum kostnaði við uppbyggingu og fleira.

Réttlátari skipting tekna
Við Framsóknarmenn höfum talað fyrir því að beinum tekjum sem ríkið fær af ferðamönnum verði deilt þannig að 1/3 renni beint til ríkisins, 1/3 til sveitarfélaga og 1/3 í uppbyggingarsjóð. Þannig er hægt að dreifa peningunum þangað sem tekjurnar eru minnstar og þörfin mest þannig að kerfið haldi áfram að stækka og dreifa ferðamönnum skipulega um landið. Ef við ætlum í raun að dreifa álaginu þurfum við að ráðstafa tekjum ríkisins þar sem sóknarfærin eru minnst fyrir einkaaðila. Hið opinbera þarf að standa undir því að byggja upp grunninnviði vítt og dreift um landið til að styrkja heimamenn í uppbyggingu og skapa grundvöll til tekjuöflunar. Það er góð leið til að jafna tækifæri og styrkja jafnrétti til búsetu. Ein leið til tekjuöflunar fyrir sveitarfélögin væri að láta gistináttagjaldið renna óskipt til þeirra. Ég hef einnig þá skoðun að gistináttagjaldið eigi ekki að vera föstu krónutala, eins og nú er (300 kr) heldur ákveðið hlutfall af gjaldi. Annað býður upp á ranglæti gagnvart þeim sem eru bjóða ódýra gistingu.

Laskað orðspor áhyggjuefni
Töluvert hefur verið gert úr því að aukin gjaldtaka á ferðamenn hafi fælandi áhrif og geti dregið úr ásókn þeirra til landsins. Starfshópur á vegum Sambands íslenskra sveitarfélaga sem telur það vera óþarfa áhyggjur þar sem alvanalegt er að fólk greiði fyrir aðgang að ferðamannastöðum annars staðar og ýmsir skattar og gjöld séu á gistingu. Gjöldin eru ekki það sem ferðamenn athuga fyrst þegar ákvörðun um ferðalag er tekin. Aftur á móti eru meiri líkur á að aðgerðaleysi varðandi nauðsynlega uppbyggingu geti laskað orðspor landsins og haft skaðleg áhrif á markaðssetningu Íslands sem ferðamannalands. Við eigum að vera ófeimin við frekari gjaldtöku en Framsóknarflokkurinn vill t.d. auka tekjur ríkissjóðs með því að leggja á komugjald. Það væri a.m.k. skynsamlegra en að leggja á vegatolla, eins og núverandi samgönguráðherra hefur talað fyrir.

Fleiri fluggáttir-betri dreifing
Í tíð síðustu ríkisstjórnar var hafin markviss vinna við að opna fleiri gáttir inn í landið. Einnig hefur verið talað fyrir því að hefja innanlandsflug frá Keflavíkurflugvelli þannig að erlendir ferðamenn getir haldið för sinni óhindrað áfram og heimsótt aðra landshluta á einfaldan máta. Tengiflug innanlands frá Keflavíkurflugvelli hófst nú í febrúar og það verður spennandi að sjá hvernig það verkefni muni ganga. Ef það gengur vel þá er sjálfsagt að bjóða upp á fleiri flugleiðir innlands, eins og til Egilstaða og Ísafjarðar. Fleiri gáttir og einföldun á fyrirkomulagi innanlandsflugs mun án efa auka dreifingu ferðamanna um landið, minnka álag á viðkvæm svæði og draga verulega úr álagi á vegakerfið okkar, sem er í slæmu ásigkomulagi, en það verkefni er efni í aðra grein.

Silja Dögg Gunnarsdóttir

Greinin birtist í Suðra 19. mars 2017.

Categories
Greinar

Bréf frá formanni

Deila grein

17/03/2017

Bréf frá formanni

Ágætu framsóknarmenn á hundrað ára afmælisdegi Tímans!

Það þarf vart að fara mörgum orðum um það að daginn er tekið að lengja og birta og aukin bjartsýni sest að í hugum og hjörtum okkar framsóknarmanna, sem og vonandi landsmönnum öllum. Störfin á Alþingi ganga sinn vanagang, þótt vissulega megi segja að fátt sé um fína drætti, þegar kemur að málum ríkisstjórnarinnar. Þau eru fá. Þingmannafrumvörp eru nokkuð fyrirferðarmikil og við framsóknarmenn höfum látið til okkar taka og vinnum af samviskusemi.

Stærsta mál ríkisstjórnarinnar til þessa, er eftirgjöf til vogunarsjóðanna, sem skyndilega fá nú meira fyrir aurinn en áður var búið að ákveða. Það má með sanni segja, að þarna birtist munurinn á Framsóknarflokknum og ístöðulausri ríkisstjórn; við framsóknarmenn sóttum peninga í þrotabúin og færðum Íslendingum, núverandi ríkisstjórn tekur pening frá Íslendingum og færir útlendingum.

En hvernig sem nú allt veltist í þingsal, breytir það ekki grunnstefinu í starfsemi Framsóknarflokksins. Gildin halda sínu gildi, að öðrum kosti væru þau ekki góð. Baráttan fyrir félagslegu jafnrétti, þar sem manngildi er sett ofar auðgildi, er aldrei lokið. Ég fæ ekki betur séð en herða þurfi róðurinn í þá átt enn frekar, nú þegar ein hægrisinnaðasta ríkisstjórn sem sést hefur, ræður ríkjum. Hvernig ætti annað að vera, þegar tveir hreinræktaðir hægriflokkar, tengdir traustum ættarböndum, skipta völdunum á milli sín með atbeina flokks sem virðist ekki vita fyrir hvað hann á að standa.

Ríkisstjórnin virðist ætla sér að setja einhvers konar met í óvinsældum. Þriðjungur landsmanna styður hana; fylgi Viðreisnar er 5,5%, Bjartrar framtíðar 5,0%. Það verður að segjast alveg eins og er, að ríkisstjórnin virðist ekki ná að endurspegla niðurstöðu síðustu kosninga.

Þessi staða ætti að verða okkur í Framsóknarflokknum ástæða til að ná betri fótfestu. Til að ræða stöðuna á Alþingi og almennt um stjórnmálaástandið og flokkinn okkar, hyggst ég nú leggja land undir fót og halda fundi með ykkur á komandi dögum og vikum. Ég hlakka til að sjá ykkur sem flest.

Flokkurinn er fólkið sem í honum er, sama hvaða flokksmaður á í hlut.

Góða helgi.

Sigurður Ingi Jóhannsson

Bréf til formanni 17. mars 2017.

Categories
Greinar

Notandi eða skapandi

Deila grein

14/03/2017

Notandi eða skapandi

Staðan er þessi: Við erum á barmi nýrrar iðnbyltingar. Við vitum að atvinnulíf framtíðarinnar verður ólíkt því sem það er í dag, þ.e. aukin áhersla á róbótavæðingu í ýmsum geirum atvinnulífsins og á gervigreind. Þess vegna verðum við að velta vandlega fyrir okkur og taka ákvarðanir sem fyrst, þ.e. hvaða hlutverk við ætlum að spila í framtíðinni. Ætlum við einungis að vera notendur nýrrar tækni eða ætlum við að skapa hana og byggja upp lífvænleg nýsköpunarfyrirtæki á þeim grunni?

Með því að skapa nýja tækni þá búum við til tekjur fyrir Ísland til framtíðar. Ekki bara með tekjuskatti vegna þeirra starfa sem skapast, heldur líka tekjur af vörunum sem við seljum á alþjóðlegum mörkuðum. Hér á landi eru fjölmörg sprotafyrirtæki sem og stærri nýsköpunarfyrirtæki eins og CCP, Marel og Össur, sem eru stöðugt að þróa framúrstefnuleg verkefni á heimsmælikvarða. Jarðvegurinn hér er frjór, flóran er til staðar en garðyrkjumaðurinn verður að vinna vinnuna og rækta garðinn sinn. Það er hlutverk okkar stjórnmálamanna.

Lög um nýsköpunarfyrirtæki sem voru sett í apríl á síðasta ári voru afar jákvætt skref en þau eru takmörkuð þar sem skattaívilnandi þakið er of lágt, en í Bretlandi t.d. er ekkert þak á skattaívilnanir til þróunarverkefna. Nú er staðan þessi að stærri nýsköpunarfyrirtæki þurfa sum hver að færa þróunarverkefni sín til annarra landa, ef þau hafa tækifæri til þess, þar sem það er mun hagkvæmara fyrir þau. Ef við ætlum að verða samkeppnishæf þá verðum við að beita sértækum aðgerðum og stuðningi þar sem gengissveiflur eru íslenskum fyrirtækjum erfiðar, við erum langt frá mörkuðum og það er oft erfitt að fá hæft starfsfólk í þau störf sem um ræðir.

Lagaumhverfið í dag hamlar vexti nýsköpunarfyrirtækja, bæði stórra og smárra, og við það verður ekki búið. Að mínu mati eigum ekki að líta á skattaívilnanir sem kostnað heldur leið til að auka tekjur okkar til framtíðar. Það er mín skoðun, að ef við förum ekki þá leið, þá verði róðurinn of þungur fyrir íslensk nýsköpunarfyrirtæki og þau MUNU sitja eftir í alþjóðlegri samkeppni og ríkissjóður verður af miklum tekjum.

Silja Dögg Gunnarsdóttir

Greinin birtist í Fréttablaðinu 13. mars 2017.

Categories
Greinar

Fæðingarþjónusta og jafnræði

Deila grein

08/03/2017

Fæðingarþjónusta og jafnræði

Fæðingarstöðum á Íslandi hefur fækkað hin síðari ár. Í svo fámennu og dreifbýlu landi sem Ísland er, er skiljanlegt að erfitt sé að halda úti fæðingarþjónustu á hverjum stað. Engu að síður verðum við að tryggja jöfnuð á milli þegna landsins og því verður kerfið að vera skipulagt á þann hátt, að komið sé til móts við fólk sem ekki á kost á fæðingarþjónustu í heimabyggð. Ein leið væri til dæmis sú að breyta núverandi löggjöf um fæðingarorlof.

Löng bið
Verðandi foreldrar á landsbyggðinni sem búa fjarri fæðingarþjónustu eða/og búa við þær landfræðilegu aðstæður að samgöngur eru ótryggar, þurfa yfirleitt að fara að fara að heiman nokkru fyrir áætlaðan fæðingardag. Þetta á t.d. við um íbúa í Vestmannaeyjum og Höfn í Hornafirði. Yfirleitt er miðað við 38. viku meðgöngu nema að um áhættumeðgöngu sé að ræða. Börnin koma þegar þeim hentar þannig að foreldrar geta lent í því að bíða fæðingar í allt að 4 vikur, fram að 42. viku en þá eru konur yfirleitt gangsettar.

Breytingar á lögum
Núverandi kerfi felur í sér óásættanlegan ójöfnuð á milli landshluta. Verðandi foreldrar á landsbyggðinni þurfa t.d. oft að hefja töku fæðingarorlofs fyrr, af ofangreindum ástæðum og þá dregst sá tími, þ.e. biðtíminn eftir barninu, frá orlofinu. Þannig að barn og foreldrar njóta styttri samveru þegar barnið kemur loksins í heiminn. Með því að breyta lögum um fæðingarorlof gætum við tryggt rétt barna til að njóta jafnlangs tíma með foreldrum sínum eftir fæðingu eins og þau börn sem eiga heima í nágrenni við fæðingarþjónustu.

Réttur barnsins
Vegna þessa augljósa ójafnræðis sem fólk býr við varðandi aðgengi að fæðingarþjónustu lagði undirrituð, ásamt fleiri þingmönnum, fram frumvarp með breytingu á lögum um fæðingarorlof. Með frumvarpinu er lagt til að réttur foreldra til fæðingarorlofs eða fæðingarstyrks framlengist sem nemur þeim tíma sem þeir þurfa að dveljast fjarri heimili til að vera í öruggri nálægð við fæðingarhjálp. Sú breyting yrði til þess að öllum börnum yrði tryggður jafn réttur til að njóta samvista við foreldra sína fyrstu mánuði lífsins. Slík breyting yrði einnig í samræmi við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins sem veitt hefur verið lagagildi hérlendis með lögum nr. 19/2013. Málið hefur fengið umfjöllun á Alþingi og er nú í vinnslu hjá Velferðarnefnd.

Silja Dögg Gunnarsdóttir.

Greinin birtist á www.dfs.is 5. mars.

Categories
Greinar

Hvers vegna að halda upp á alþjóðlegan baráttudag kvenna 8. mars?

Deila grein

08/03/2017

Hvers vegna að halda upp á alþjóðlegan baráttudag kvenna 8. mars?

Það er í fyrsta lagi réttlætismál. Við viljum væntanlega flest öll að að mæður okkar, konur, systur og dætur hafi sömu möguleika og karlar. En ekki nóg með það, við viljum einnig nýta allra krafta og eins og oft hefur verið sagt áður þá er jafnréttisbaráttan ekkert einkamál kvenna, langt í frá.

Nú um stundir er mikið rætt um Jafnlaunavottun og þau sjálfsögðu réttindi að borga körlum og konum sambærileg laun fyrir sömu vinnu. Árið 2005 var haldið málþing á vegum jafnréttisráðs en Jafnréttisþing sem nú er haldið annað hvert ár hefur leyst það að hólmi. Þá, árið 2005, var farið að fjalla um nauðsyn þess að innleiða kerfi eða staðal og unnið var með módel frá Staðlaráði. Í ræðu sem þáverandi Velferðarráðherra, Árni Magnússon hélt sagði hann kynbundinn launamun ekki vera náttúrulögmál og hann sagði ennfremur að æskilegast væri að innleiða gæðavottunarkerfi til þess að ná fram markmiðum, eða til þess að eyða kynbundnum launamun. Hann rökstuddi mál sitt með því að nefna umhverfisvottun sem hafði virkað vel og þannig yrði árangur fyrirtækja og stofnana í jafnréttismálum eftirsóknarverður og hvati til aðgerða. Ráðherra benti einnig á að þá þegar var hafin í félagsmálaráðuneytinu vinna við útfærslu íslensks jafnlaunavottunarkerfis og að unnið hafi verið að því nánu samráði við Jafnréttisráð og Jafnréttisstofu sem og fulltrúa vinnuveitenda og launafólks.

Allar götur síðan hefur farið fram markviss vinna í átt að því að innleiða Jafnlaunastaðalinn, hugsa allar leiðir til þess að hvetja fyrirtæki og stofnanir til þess að taka skrefin til enda. Árið er 2017 og jöfn laun fyrir sömu vinnu er jafn sjálfsögð krafa og hún var árið 2005 þegar fyrstu hugmyndir ráðherra Framsóknar um jafnlaunavottun komu fram. En það er ekki sama hvernig verkið er unnið, allir þurfa að vanda sig, réttu hvatarnir þurfa að vera til staðar þannig að við þurfum ekki að bíða áfram í 12 ár til þess að sjá þau sjálfsögðu réttindi að borga körlum og konum sambærileg laun fyrir sömu vinnu. Til hamingju með daginn – öll sem eitt.

Anna Kolbrún Árnadóttir, formaður LFK, og Sunna Gunnars Marteinsdóttir, varaformaður LFK.

Categories
Greinar

Brýnasta velferðarmálið

Deila grein

06/03/2017

Brýnasta velferðarmálið

Um allangt skeið hafa vextir á Íslandi verið mun hærri en gerist og gengur í öðrum vestrænum ríkjum.

Almennt séð hljóta háir vextir að rýra lífskjör almennings sem og samkeppnisstöðu atvinnulífsins og langvarandi vaxtamunur við útlönd, óháð hagsveiflum, hlýtur því að fela í sér töluvert velferðartap fyrir landið. Það ætti því enginn að velkjast í vafa um það að lækkun vaxta sé eitt brýnasta velferðarmálefni sem nú blasir við landsmönnum.

Of háir, of lengi

Vaxtamunur við útlönd hefur gjarnan verið rakinn til þess að verðbólga hér hefur verið hærri en erlendis. Það leiðir til hærri verðbólguvæntinga, sem svo hlýtur að leiða til hærri nafnvaxta. Jafnframt að sparnaðarhneigð sé fremur lítil meðal almennings og því þurfi tiltölulega hátt raunvaxtastig til þess að halda innlendri eftirspurn í skefjum á uppsveiflutímum. Þessi rök eru í sjálfu sér góð og gild. Hins vegar er staðan sú að verðbólga og verðbólguvæntingar hafa verið vel neðan við skilgreind verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands undanfarin þrjú ár. Jafnframt er ljóst að einkaneysla hefur þrátt fyrir allt vaxið hægar en ráðstöfunartekjur á sama tíma, samhliða því að skuldir heimilanna hafa lækkað sem hluti af landsframleiðslu. Virðist því sem að tengslin á milli sparnaðar og vaxta hafi breyst eftir bankahrun. Allan þennan tíma, frá ársbyrjun 2014, hefur Seðlabankinn spáð hærri verðbólgu en raunin hefur orðið og miðað stýrivexti sína við þær spár. Má af því leiða að bankinn hefur haldið vöxtum of háum allan þennan tíma.

Alþingi og Seðlabankinn

Vart verður um það deilt að sjálfstæði seðlabanka er einn af hornsteinum hans. Pólitísk afskipti af bankanum ættu að vera sem minnst. Það breytir þó ekki þeirri staðreynd að lög um markmið Seðlabankans, og bankana að öðru leyti, eru samin af löggjafanum, Alþingi, og eru því í eðli sínu pólitísk. Þá má ekki gleyma því að Seðlabanki Íslands er banki ríkissjóðs. Útgjöld sem ákveðin eru af Alþingi og framkvæmd af ráðherrum eru greidd af Seðlabankanum þar sem helsti viðskiptareikningur ríkissjóðs er til staðar.

Seðlabankinn getur ekki neitað ríkissjóði um bankaþjónustu á borð við útgreiðslu gjalda sem Alþingi hefur samþykkt að skuli eiga sér stað jafnvel þótt Seðlabankinn geti gert athugasemd um hagræn áhrif slíkra útgjalda, sem hann oft gerir. Þá sér Seðlabankinn um að gefa út ríkisskuldabréf á markaði. Starfsemi Seðlabankans er við kemur þjónustu við pólitíska aðila er því töluverð þótt Seðlabankinn sé sjálfstæður þegar kemur að beitingu stýritækja sinna.

Lokkandi stýrivextir

Eitt af helstu stýritækjum Seðlabankans til að tryggja verðbólgumarkmið, eru svo kallaðir stýrivextir, sem eru grundvöllur að vaxtastiginu í landinu. Eftir því sem vextir Seðlabankans eru hærri, því hærri eru vextir á markaði. Það er ekki óalgengt að svo kölluð vaxtamunaviðskipti (e. carry-trade) séu stunduð á mörkuðum smárra mynta, eins og íslensku krónunnar. Þá taka fjárfestar lán á lágum vöxtum og fjárfesta þar sem hærri vextir bjóðast.

Það blasir við að vaxtastefna Seðlabankans átti stóran þátt í því hversu mikið fjármagn kom til landsins í aðdraganda hrunsins; hinir háu vextir lokkuðu fjárfesta hingað. Þess má geta að vextir í mörgum Evrópulöndum eru nú í kringum 0,0%, en á Íslandi eru þeir 5,0%. Staðan um þessar mundir á Íslandi er svo sú, að íslenskir fjárfestar hafa búið við gjaldeyrishöft frá haustinu 2008 og vegna þeirra hefur byggst upp ójafnvægi milli núverandi vægis eigna í eignasöfnum þeirra þegar kemur að innlendum og erlendum eignum. En m.a. vegna hárra vaxta á Íslandi minnkar hvati lífeyrissjóða – og annarra íslenskra aðila – til að dreifa áhættu fjárfestinga sinna milli Íslands og umheimsins. Vægi hins óstöðuga íslenska hagkerfis verður of mikið miðað við erlend hagkerfi í eignasöfnum lífeyrissjóða sem dregur úr styrk þeirra til að mæta efnahagslegum áföllum. Þessi staða getur ekki talist heppileg.

Svara þarf …

Nú hefur verið lögð fram á Alþingi, af þingflokki Framsóknar, tillaga til þingsályktunar um að fela forsætisráðherra að skipa þverpólitíska nefnd óháðra sérfræðinga til að rannsaka með greinargóðum og nákvæmum hætti: Áhrif af breytingum á gengi íslensku krónunnar á innlenda neysluhegðun; áhrif af gengissveiflum á samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja og atvinnugreinaskiptingu landsins; tengsl stýrivaxta Seðlabanka Íslands og gengis íslensku krónunnar; áhrif af innstreymi gjaldeyris á innlenda vexti, bæði langtíma og skammtímavexti; hvort 3,5% uppgjörskrafa lífeyrissjóða stuðli að háum langtímavöxtum á Íslandi; hvort vaxtastefna Seðlabanka Íslands stuðli að háum vaxtakostnaði fyrir ríkissjóð.

Svör við þessum spurningum eru afar mikilvæg til að tryggja samkeppnishæfni landsins, stöðugleika og almenna velferð.

Sigurður Ingi Jóhannsson

Greinin birtist í Morgunblaðinu 6. mars 2017.

Categories
Greinar

Efnahags- og viðskiptanefnd kemur að borðinu

Deila grein

04/03/2017

Efnahags- og viðskiptanefnd kemur að borðinu

Fjármálakerfið á að styðja við hagsmuni heimila og fyrirtækja í landinu, en ekki vera eingöngu til fyrir sjálft sig. Stjórnvöld eru í einstakri stöðu til að búa svo um hnútana að fjármálakerfið tryggi hagsæld í landinu. Ekki aðeins getur ríkisvaldið mótað lagaumgjörð fjármálafyrirtækja, heldur geta stjórnvöld gripið til beinna aðgerða í ljósi umfangsmikils eignarhalds á stærstu fjármálafyrirtækjum landsins.

Fjármála- og efnahagsráðherra birti nýverið drög að eigendastefnu fyrir fjármálafyrirtæki í eigu ríkisins. Í henni er aðallega fjallað um vilja hins opinbera til að selja hlut sinn, en engin framtíðarsýn er sett fram fyrir fjármálakerfið í heild. Ríkissjóður ráðgerir að eiga 34-40% eignarhlut í Landsbankanum hf. til langframa, en selja allan eignarhlut sinn í Íslandsbanka og Arion banka þegar aðstæður leyfa.

Hér þarf að staldra við, því áður en kerfislega mikilvæg fjármálafyrirtæki verða selda þurfum við að meta hvernig fjármálakerfi hentar best íslenskum aðstæðum. Við eigum að; 1) skoða heildarstærð bankakerfisins, hvort hægt sé að hagræða og þá lækka þjónustugjöld og vaxtakostnað, 2) meta hversu stór eignarhlutur ríkissjóðs á að vera í fjármálafyrirtækjum til skemmri og lengri tíma litið, 3) meta hvort og þá með hvaða hætti eigi að skilja að viðskiptabanka- og fjárfestingabankastarfsemi, 4) meta hvort dreift eignarhald eða samþjappað þjóni hagkerfinu best til lengri tíma litið og 5) skoða hvernig bankakerfið geti miðlað erlendri lánsfjármögnun í samkeppni við erlenda banka. Í þessari mikilvægu vinnu er brýnt að líta til alþjóðlegrar þróunar og taka mið af reynslu annarra þjóða.

Í umræðum á Alþingi í upphafi vikunnar lagði ég áherslu á mikilvægi þess að ráðast í heildarendurskoðun á fjármálakerfinu áður en sala ríkiseigna hæfist. Víðtæk sátt virðist vera um slíka endurskoðun innan efnahags- og viðskiptanefndar er samstaða um að taka málið að sér og vinna vegvísi að framtíðarskipan íslensks fjármálamarkaðar. Það er fagnaðarefni að löggjafinn hafi tekið að sér það mikilvæga hlutverk á fyrstu stigum málsins. Fólkið í landinu á skilið að vandað verði til verka.

Lilja Alfreðsdóttir.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 4. mars 2017.