Categories
Greinar

Loftslagsvænn landbúnaður

Deila grein

23/06/2016

Loftslagsvænn landbúnaður

sigrunmagnusdottir-vefmyndÁ dögunum skrifuðu undirrituð og Björn Þorsteinsson, rektor Landbúnaðarháskóla Íslands (LBHÍ) á Hvanneyri, undir tvo samninga um verkefni sem eru hluti af sóknaráætlun Íslands í loftslagsmálum. Annar samningurinn snýr að því að fá yfirlit og upplýsingar um losun gróðurhúsalofttegunda og bindingu koldíoxíðs í gróðri og jarðvegi. Hinn samningurinn lýtur að útreikningum á kolefnislosun í landbúnaði. Upplýsingar og gögn frá þessum verkefnum munu gagnast við gerð vegvísis, þar sem stefna og markmið um að útfæra minnkun í losun frá landbúnaði er mótuð í samvinnu við Bændasamtökin.

Það skiptir miklu máli að bæta tölulegar upplýsingar varðandi þátt landbúnaðar og landnotkunar í kolefnislosun og -bindingu hér á landi. Samningarnir við LBHÍ eru þýðingarmikið skref í því að auka vísindaþekkingu innan skólans á þessu sviði um leið og þeir styrkja þessa mikilvægu stoð í stefnu Íslands í loftslagsmálum.

Samvinna
Sóknaráætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum er til þriggja ára og samanstendur af 16 fjölbreyttum verkefnum sem unnin verða í samstarfi við atvinnulífið og stofnanir. Ekki hefur áður verið lagt jafn mikið fé til sérstakra aðgerða í loftslagsmálum hérlendis. Sóknaráætlunin miðar að því að virkja atvinnulíf og stofnanir því loftslagsmál tengjast nær öllum atvinnugreinum. Því þarf samstillt átak til að takast á við þær áskoranir sem eru samfara þeim auk þess sem loftslagsmál hafa gríðarleg áhrif á efnahagslífið.

Mikilvægt er að allir beri ábyrgð í loftlagsmálum, en mikil vakning hefur orðið í samfélaginu um að finna raunhæfar lausnir. Til að vel megi takast og standa undir væntingum þeirra kynslóða sem á eftir okkur koma þarf því að örva og virkja samfélagið, fyrirtæki sem og einstaklinga til þátttöku og aukinnar vitundar. Sóknaráætlunin tekur mið af þess konar samvinnu og má nefna eflingu innviða fyrir rafbíla á landsvísu, átak gegn matarsóun, vegvísi í sjávarútvegi, endurheimt votlendis og loftslagsvænan landbúnað.

Kolefnisútreikningar
Landbúnaður og landnotkun hefur vissulega áhrif á losun gróðurhúsalofttegunda en þar eru jafnframt tækifæri til að binda koldíoxíð úr andrúmslofti með skógrækt, landgræðslu og fleiri aðgerðum. Nauðsynlegt er að fá betri kortlagningu og útreikninga á hvernig losunin dreifist innan geirans og hvar tækifæri í bindingu liggja svo markmið og áætlanir um samdrátt í losun nái fram að ganga.

Bestu vörslumenn landsins
Bændur gegna miklu hlutverki varðandi endurheimt landgæða og hafa verið ötulir talsmenn þess að græða landið frá fjöru til fjalla. Ríkisstjórnin hefur veitt aukið fjármagn til skógræktar, landgræðslu og endurheimtar votlendis. Fyrr í vor setti ég af stað verkefni um endurheimt votlendis í samræmi við sóknaráætlun í loftslagsmálum og fól Landgræðslu ríkisins framkvæmdina. Verkefnin verða unnin í náinni samvinnu við landeigendur en margir sjá aukna möguleika fyrir svæði sem ekki eru nýtt til búskapar og geta með endurheimt haft aukið útivistargildi, m.a. í fjölbreyttara fuglalífi og fiskgengd.

Þá er skógrækt viðurkennd mótvægisaðgerð gegn uppsöfnun gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu. Margir bændur eiga land sem ekki nýtist við búskapinn og gæti hentað vel til skógræktar. Með skógræktaráætlun skapast möguleikar á nýrri skógarauðlind og sjálfbærni í nýtingu lands samhliða bættri ímynd.

Minna kolefnisfótspor
Framundan eru áskoranir í loftslagsmálum sem þarf að mæta með breyttu og jákvæðu hugarfari. Fjöldi þeirra 175 ríkja sem skrifuðu undir Parísarsamkomulagið styrkir okkur í þeirri trú að þjóðir heims hafi tekið ákvörðun um að hefjast handa við að sporna gegn loftslagsbreytingum. Tillaga um fullgildingu samningsins af Íslands hálfu verður lögð fram á Alþingi að loknu sumarfríi – efndir munu fylgja orðum. Markmiðum Íslands verður fylgt eftir, kolefnisfótsporið þarf að minnka og mun stefna Íslands í loftslagsmálum leiða okkur að loftslagsvænum lausnum og nýsköpun.

Sigrún Magnúsdóttir

Grein birtist í Fréttablaðinu 23. júní 2016.

Categories
Greinar

Ísland njóti bestu kjara

Deila grein

23/06/2016

Ísland njóti bestu kjara

Lilja Dögg Alfreðsdóttir03Bretar ákveða í þjóðaratkvæðagreiðslu í dag hvort þeir yfirgefi Evrópusambandið eða verði þar áfram. Viðhorfskannanir gefa til kynna að úrslitin verði tvísýn og þjóðin virðist skiptast í tvo jafn stóra hópa, þar sem annar vill aukið efnahagspólitískt sjálfstæði en hinn halda Evrópusamstarfinu áfram.

Bretland er eitt mikilvægasta viðskiptaland Íslands. Íslendingar fluttu út vörur og þjónustu til Bretlands fyrir meira en 120 milljarða króna á síðasta ári. Á móti fluttum við inn vörur og þjónustu frá Bretlandi fyrir 90 milljarða. Bretar eru um 19% erlendra ferðamanna á Íslandi og eru fjölmennastir í hópi þeirra sem sækja okkur heim. Flugferðir milli landanna voru um 6.400 talsins á síðasta ári og um 2.200 Íslendingar eru skráðir með lögheimili í Bretlandi.

Grundvallast á EES–samningnum
Samskipti Íslands og Bretlands grundvallast að miklu leyti á EES-samningnum. Hann kveður á um frelsi í viðskiptum og fjárfestingum, frjálsa búsetu fólks og samstarf á ýmsum sviðum. Samningurinn helst óbreyttur ef Bretar velja sér áframhaldandi veru í Evrópusambandinu. Ef Bretar segja skilið við sambandið munu þeir þurfa að semja um viðskiptakjör og ýmis samskipti sín við aðrar þjóðir, þar með taldar aðildarþjóðir EES-samningsins. Engar breytingar yrðu þó á samskiptum Íslands og Bretlands í a.m.k. tvö ár frá ákvörðun um úrsögn, samkvæmt sáttmálum ESB. Með samhljóða ákvörðun allra aðildarríkjanna má lengja þann tíma.

Í startholunum
Íslensk stjórnvöld hafa fylgst náið með þróun mála undanfarna mánuði og búið sig undir niðurstöðuna, hver sem hún kann að verða. Í báðum tilvikum er markmiðið það sama; að tryggja festu og stöðugleika í samskiptum landanna, að viðskiptakjör verði framvegis a.m.k. jafn góð og hingað til og frelsi íbúanna til ferða og búsetu í hvoru landi fyrir sig haldist óbreytt. Leiðirnar að því markmiði hafa verið kortlagðar og við erum í startholunum, ef á þarf að halda.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir

Grein birtist í Fréttablaðinu 23. júní.

Categories
Greinar

19. júní – „betur má ef duga skal“

Deila grein

19/06/2016

19. júní – „betur má ef duga skal“

Anna-Kolbrun-ArnadottirÞað er við hæfi að líta um öxl á þessum degi. Árið 1911 samþykkti Alþingi með miklum meirihluta frumvarp um algert jafnrétti kynjanna til skólagöngu, námsstyrkja og embætta. Árið 1915, 19. júní, staðfesti konungur stjórnarskrána með réttindum kvenna, sem þær síðan hafa haft. Þessu ber að fagna og minnast, jafnvel rúmum 100 árum seinna. Í dag mun Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra afhenda styrki úr Jafnréttissjóði Íslands en sjóðurinn var stofnaður árið 2015, í tilefni af 100 ára afmæli kosningaréttar íslenskra kvenna.
Ísland er vissulega í fararbroddi á sviði jafnréttismála í alþjóðlegum samanburði, en betur má ef duga skal. Nú nýlega birtist mynd af Þjóðhagsráði Íslands en í ráðinu sitja sitja forsætisráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra og forsvarsmenn Samtaka atvinnulífsins, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Seðlabanka Íslands. Vissulega getur það reynst flókið að huga að kynjajafnrétti í slíku ráði en þó ætti það ekki að vera svo flókið ef betur er að gáð. Forsætisráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra sitja í ráðinu stöðu sinnar vegna, en svo er tiltekið að forsvarsmenn SA, SÍS og SÍ eigi sæti í ráðinu og þar er vel hægt, ef vilji er fyrir hendi, að huga að kynjajafnrétti þar sem stjórnir þessara samtaka og stofnana eru skipaðar bæði körlum og konum. Að þessu sögðu er hægt að horfa til þeirra viðbragða við skipan ráðsins sem birtust í samfélaginu og óhætt er að draga þá ályktun að okkur hefur miðað áfram, fólk tók eftir þessari skökku mynd og benti á hið augljósa, að Þjóðhagsráð ætti að sjálfsögðu að vera skipað körlum og konum.

Um leið og við minnumst dagsins innanlands er gott að við hugum einnig að konum utan landsteinanna. Það eru enn verkefni sem við þurfum að vinna að, alltaf þarf að standa jafnréttisvaktina og við þurfum að beita öllum tiltækum ráðum. Við þurfum að líta til annarra landa og sjá hvernig við getum verið sú fyrirmynd sem við viljum vera. Við lesum um konur á flótta, konur sem eru eru barnshafandi og dreymir um að fæða börn sín inn í sanngjarnan heim en talið er að 12% kvenna sem ferðast yfir Miðjarðarhafið séu með barni. Margar eru með börn á brjósti eða ferðast með ungabörn með sér. Gríðarleg aukning hefur orðið á mæðradauða á meðal flóttakvenna síðastliðin ár. Þær hætta lifi sínu til að eiga börn sín í friðsælum aðstæðum og leita meðal annars til Evrópu. Þær ferðast fótgangandi oft að næturlagi í afskekktum héruðum fjarri lögreglu, á óupplýstum leiðum og ómalbikuðum vegum, halda til í niðurníddum lestum á nóttunni, eiga ekki í nein hús venda og búa við stöðugt öryggisleysi.
Margar konur eiga því börn sín á flótta og í flóttamannabúðum.
Konur eins og við.

Innilega til hamingu með daginn – höldum áfram að vera þær fyrirmyndir sem formæður okkar allra voru.

Anna Kolbrún Árnadóttir, Formaður Landssambands Framsóknarkvenna.

Categories
Greinar

Síld og fiskur

Deila grein

11/06/2016

Síld og fiskur

Lilja Dögg Alfreðsdóttir03Hinn 1. ágúst kemur til framkvæmda nýr samningur milli Íslands og Evrópusambandsins (ESB) sem felur í sér verulega aukningu á tollfrjálsum innflutningskvótum til ESB á íslenskum humri, heilfrystri síld, ferskum karfaflökum og niðursoðinni lifur. Samningurinn er afrakstur vinnu sérfræðinga utanríkisráðuneytisins, sem daglega vinna markvisst að því að tryggja viðskiptahagsmuni Íslands á erlendri grundu. Með nýja samningnum verður stór hluti viðskipta með humar í raun tollfrjáls auk þess sem niðursoðin lifur er nú í fyrsta skipti hluti af samningi af þessu tagi við ESB.

Með EES-samningnum árið 1994 var íslenskum fisk­útflytjendum tryggður greiðari aðgangur að evrópskum mörkuðum. Tollar af ferskum þorsk- og ýsuflökum féllu niður, sem skapaði grundvöll fyrir aukinni vinnslu á ferskum afurðum hérlendis fyrir stóran erlendan markað. Fyrir vikið er meira magn en áður unnið hér á landi fyrir Evrópumarkað og verðmætið er mun meira. Mikilvægi þessa fyrir þjóðarhag hefur verið ótvírætt á undanförnum tveimur áratugum, enda eru um 2/3 hlutar allra útfluttra sjávarafurða frá Íslandi seldir til Evrópu.

Tollaákvæðum í samningum milli Íslands og ESB hefur nokkrum sinnum verið breytt. Með breytingunum hefur aðgengið að innri markaði Evrópu aukist og samkeppnisstaða Íslands verið bætt. En betur má ef duga skal. Enn eru til staðar hindranir í viðskiptum við ESB í formi tolla á ýmsar tegundir sjávarafurða. Við hljótum að stefna að því að skapa forsendur fyrir frekara tollaafnámi, enda er mikilvægt fyrir íslenskt efnahagslíf að afrakstur af sjávarauðlindinni sé sem mestur. Að sem minnst af verðmætinu fari í greiðslu tolla í viðskiptum milli landa.

Talsverður vöxtur hefur verið í útflutningi á vöru og þjónustu síðastliðin ár. Aukningin hefur að mestu verið á sviði þjónustu og því er sérstaklega ánægjulegt að nú skapist tækifæri til aukins vöruútflutnings.

Íslenskur útflutningur hvílir nú á fleiri stoðum en áður. Auk sjávarútvegs og stóriðju hafa ferðaþjónusta og hugverkaiðnaður skapað gjaldeyristekjur sem stuðla að sjálfbærum viðskiptajöfnuði. Það er staða sem allar þjóðir sækjast eftir.

Lilja Alfreðsdóttir

Þessi grein birtist í Fréttablaðinu 11. júní 2016.

Categories
Greinar

Séreign frekar en sérskuld

Deila grein

07/06/2016

Séreign frekar en sérskuld

Eygló HarðardóttirAllt þetta kjörtímabil hefur ríkisstjórnin lagt áherslu á að hjálpa heimilum að skulda minna. Í upphafi kjörtímabilsins var farið í skuldaleiðréttingu hjá heimilunum. Mikilvægur þáttur hennar var séreignarsparnaðarleiðin. Með henni var heimilum gert kleift að nýta séreignarsparnað til að niðurgreiða húsnæðislán sín umfram höfuðstólslækkunina, eða spara fyrir útborgun í íbúð eða búseturétti.

Árangurinn er mikill. Í fjármálastöðugleikariti Seðlabankans segir að fara þurfi aftur til 1999 til að finna jafn lágt skuldahlutfall heimilanna og um síðustu áramót. Skuldir heimilanna höfðu lækkað um 70 milljarða á árunum 2014 og 2015, bæði vegna beinnar niðurfærslu og vegna heimildar til nýtingar séreignarsparnaðar.

Því til viðbótar má áætla að 22-24 milljarðar hafi komið inn á húsnæðislánin vegna þeirrar fjárhæðar sem lögð var inn í byrjun árs til að lækka höfuðstól og vegna heimildar til að ráðstafa séreignarsparnaði inn á lánin.

Í nýrri könnun um stöðu leigjenda og eigenda á húsnæðismarkaði kom fram að stór hluti heimila safnar fé í séreignarsjóði. Af leigjendum eru 52,8% að greiða í séreignarsparnað, þar af 61% þeirra sem eru á aldrinum 25-44 ára og af eigendum voru það 66,0%, þar af 83% þeirra sem eru á aldrinum 35-44 ára. Tæplega helmingur aðspurðra eigenda nýtti sér heimild til að ráðstafa séreignarsparnaðinum inn á húsnæðislánin sín, eða 47,9%.

Af leigjendum höfðu 38,8% mjög mikinn eða frekar mikinn áhuga á því að nýta séreignarsparnað til að kaupa húsnæði.

Töluverð umræða hefur verið um framtíðarfyrirkomulag séreignarsparnaðar. Í yfirlýsingu stjórnvalda í tengslum við kjarasamninga var því lofað að hvetja til húsnæðissparnaðar, t.d. þannig að tímabundin heimild til að nýta séreignarsparnað sem eiginfjárframlag til kaupa á íbúðarhúsnæði yrði gerð varanleg. Það yrði til viðbótar við meiri stuðning við leigjendur, sem gefur þeim meira svigrúm til sparnaðar.

Nýtt fyrirkomulag myndi einnig létta greiðslubyrðina við töku óverðtryggðra lána. Áfram verði heimilunum hjálpað að spara, leggja fyrir og borga niður skuldir.

Eygló Harðardóttir

Greinin birtist í Fréttablaðinu 7. júní 2016.

Categories
Greinar

Bættur hagur heimilanna

Deila grein

30/05/2016

Bættur hagur heimilanna

Silja-Dogg-mynd01-vefUm þessar mundir birtast margar jákvæðar fréttir af lífskjörum þjóðarinnar. Engum dylst að horfur í efnahagslífinu á Íslandi eru bjartar um þessar mundir og gangi spá hagdeildar ASÍ eftir verður samfelldur hagvöxtur hér á landi í átta ár.

Vöxturinn hvílir á styrkum stoðum í hagkerfinu og við sjáum birtingarmynd þess í því að kaupmáttur launa hefur aukist verulega á síðustu misserum. Laun hafa hækkað mikið um leið og verðbólga hefur haldist lág. Almenningur finnur áhrifin í auknum ráðstöfunartekjum samfara lækkandi skuldum.

Lækkun skulda
Skuldir heimilanna hafa þannig lækkað mikið á síðustu árum og námu um 84% af landsframleiðslu í lok síðasta árs, en þær urðu hæstar um 125% í árslok 2009. Veðsetningarhlutfall heimilanna hefur einnig lækkað mikið á heildina litið.

Augljóst er að skuldalækkunaraðgerðir ríkisstjórnarinnar hafa tekist mjög vel og styrkt stöðu heimilanna í landinu eins og að var stefnt. Hagur heimilanna hefur sjaldan verið betri en nú, miðað við stöðu og þróun helstu hagvísa fyrir heimilin, að því er kemur fram í riti Seðlabankans, Fjármálastöðugleika 2016/1. Skuldir heimila og fyrirtækja lækkuðu heilt yfir árið 2015 og í lok árs voru þær svipaðar og um aldamótin. Þetta er einstakur árangur.

Styrk fjármálastjórn
Fjármálastefna og fjármálaáætlun fyrir hið opinbera til fimm ára, sem lagðar voru fram á Alþingi 29. apríl, fela í sér að hægt verði á næstu árum að búa enn frekar í haginn fyrir komandi kynslóðir með því að greiða niður opinberar skuldir, draga úr álögum á fólk með lægri og sanngjarnari sköttum, byggja upp samfélagslega innviði og treysta til muna grunnþjónustu ríkisins með hækkun bóta, eflingu heilbrigðiskerfisins og auknum gæðum menntunar.

Vegna þessara umskipta verður unnt að auka svigrúm fyrir áherslumál á málasviðum ráðuneytanna um 42 milljarða króna á tímabilinu, en 14 milljarðar renna til verkefna strax á árinu 2017.

Uppbygging heilbrigðiskerfisins
Það sem af er kjörtímabilinu hefur 40 milljörðum króna verið varið til heilbrigðismála, meðal annars með því að stórbæta kjör heilbrigðisstéttanna. Í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir að framlög til heilbrigðismála verði aukin verulega á næstu árum þannig að þau verði orðin ríflega 30 milljörðum króna hærri árið 2021 og verði þar með orðin ríflega 200 milljarðar króna á ári. Það svarar til þess að framlögin verði aukin um 18% að raunvirði yfir tímabilið.

Sú aukning er fyrir utan allar launahækkanir sem munu bætast við á tímabilinu auk annarra verðlagsbreytinga. Þá nema framlög til kaupa á tækjabúnaði fyrir LSH og FSA fimm milljörðum á árunum 2016-2021 og 2,5 milljörðum verður varið til styttingar á biðlistum á sama tímabili. Nú hillir undir að frumvörp húsnæðismálaráðherra, Eyglóar Harðardóttur, verði afgreidd á Alþingi og þar með verði lagður grunnur að nýju húsnæðiskerfi, sem er vel. Okkur gengur vel á Íslandi í dag og því full ástæða til bjartsýni. Það er gott að fara með þær upplýsingar inn í sumarið.

Silja Dögg Gunnarsdóttir

Greinin birtist í Fréttablaðinu 30. maí 2016.

Categories
Greinar

Bregðumst af þunga við sívaxandi þörf fyrir mannúðaraðstoð

Deila grein

23/05/2016

Bregðumst af þunga við sívaxandi þörf fyrir mannúðaraðstoð

Lilja Alfreðsdóttir

Aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna hefur boðað til fundar leiðtoga heimsins um mannúðarmál í Istanbúl 23.-24. maí. Leiðtogafundurinn er haldinn í kjölfar samráðs við breiðan hóp hagsmunaaðila, allt frá ríkisstjórnum til staðbundinna hjálparsamtaka. Við erum sammála um að bregðast þurfi við því ástandi sem hefur skapast í heiminum en við stöndum frammi fyrir því að æ fleiri eru háðir mannúðaraðstoð og sviptir mannlegri reisn. Við getum aðeins breytt þessu ástandi með alþjóðlegri samvinnu og sameiginlegu átaki.

Mannúðaraðstoð Norðurlandanna hefur í áranna rás hjálpað milljónum fórnarlamba náttúruhamfara og hamfara af mannavöldum. Á síðasta ári nam þessi aðstoð tæpum 150 milljörðum íslenskra króna, sem skipar Norðurlöndunum á sess með stærstu veitendum mannúðaraðstoðar í heiminum. Við munum halda áfram að veita þeim aðstoð sem mest þurfa á henni að halda og grundvalla hana á meginreglum um mannúðaraðstoð: sjálfstæði, óhlutdrægni, hlutleysi og mannúð. Jafnframt verðum við að finna nýjar leiðir til að draga úr þörfinni. Ekki er réttlætanlegt að fólk sé háð neyðaraðstoð áratugum saman án vonar um betri tíð; við höfum orðið vitni að grafalvarlegum afleiðingum þess á síðasta ári í Asíu, Afríku og einnig í Evrópu. Leiðtogafundurinn á að senda afgerandi skilaboð þar sem kallað er eftir pólitískri forystu til að leysa neyðarástand. Í dag eru átök orsök 80% af þörfinni fyrir mannúðaraðstoð og átök verða einungis leyst á pólitískum vettvangi.

Sameinuðu þjóðirnar geta aðeins fjármagnað u.þ.b. tvo þriðju hluta árlegs kostnaðar við mannúðaraðstoð. Brýna nauðsyn ber til að breikka og styrkja grundvöll aðstoðarinnar. Framlög til margra ára, sem eru ekki mörkuð tilteknum verkefnum, gera hjálparstofnunum kleift að auka sveigjanleika og bregðast skjótt við óvæntum aðstæðum og neyðarástandi sem ekki ratar í fréttir. Betri viðbrögð byggjast ekki eingöngu á auknum fjárveitingum heldur einnig á skilvirkni og ábyrgðarskyldu. Við höfum skuldbundið okkur til þess að láta mannúðaraðstoð, sem við fjármögnum, ná til fleira fólks á skilvirkari hátt með því að taka tillit til þarfar á hverjum stað. Við erum sannfærð um að konur geti og eigi að gegna veigameira hlutverki í skipulagningu og framkvæmd þróunarverkefna, að taka eigi meira tillit til fólks með sérþarfir og að einkageirinn gegni mikilvægu hlutverki við að finna nýstárlegar og hagkvæmari leiðir til hjálpar þar sem neyðarástand ríkir. Við eigum einnig að brúa bilið milli mannúðaraðstoðar og langtímaþróunarsamvinnu.

Ekki er með öllu hægt að koma í veg fyrir neyðartilvik en unnt er að draga verulega úr neikvæðum áhrifum þeirra með því að auka áfallaþol samfélaga, einkum á svæðum þar sem búast má við jarðskjálftum, flóðum og öðrum náttúruhamförum. Slíkt verkefni á að skipuleggja á landsvísu og taka tillit til á öllum stigum í ferlinu. Við erum reiðubúin að styðja þessa viðleitni í samstarfi við þróunarríkin.

Núverandi ástand, þar sem 60 milljónir manna hafa þurft að flýja heimkynni sín, er óviðunandi. Engu að síður neitum við að gefast upp. Aldrei hafa jafn margir nauðstaddir notið mannúðaraðstoðar. Þúsundir hjálparstarfsmanna um allan heim vinna baki brotnu dag hvern oft við erfiðar og hættulegar aðstæður. Þeir eiga skilið stuðning okkar og viðurkenningu og við getum öll lagt okkar af mörkum, hvert á sinn hátt, hver sem við erum og hvar sem við erum. Það er ábyrgð okkar og til marks um virðingu fyrir mannlegum grunngildum.

Lilja Alfreðsdóttir, Isabella Lövin, Lenita Toivakka, Børge Brende og Kristian Jensen.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 23. maí 2016.

Categories
Greinar

Skref í rétta átt gegn einelti á vinnustöðum

Deila grein

22/05/2016

Skref í rétta átt gegn einelti á vinnustöðum

Eygló HarðardóttirNýlega stóð Vinnueftirlit ríkisins ásamt velferðarráðuneytinu fyrir morgunverðarfundi um skref til framfara við að uppræta einelti, áreitni og ofbeldi á vinnustöðum. Eitt slíkt var setning reglugerðar um þessi mál árið 2004 og endurskoðun hennar á liðnu ári. Í samræmi við reglugerðina hafa mörg fyrirtæki og stofnanir unnið aðgerðaáætlanir og tekið á málum af alvöru. Þó þarf að gera betur og muna að þetta er viðvarandi verkefni sem aldrei má vanrækja.

Jöfnum höndum þarf aðgerðir til að fyrirbyggja einelti og efla faglega getu til að bregðast við eineltismálum. Skilningur á þessu er alltaf að aukast. Vonandi kemur að því að virkar eineltisáætlanir á vinnustöðum verði jafn sjálfsagðar og öryggisskór og heyrnarhlífar.

Rannsóknir hafa sýnt alvarlegar afleiðingar eineltis á þá sem fyrir því verða. Þekktar afleiðingar eru andleg og líkamleg vanlíðan og heilsubrestur. Aukin fíkniefna- og áfengisneysla þolenda er einnig þekkt og enn skuggalegri hlið er sú að sjálfsvígshætta eykst.

Hérlendar kannanir meðal nokkurra starfshópa gefa til kynna að um 8-20 prósent starfsmanna telja sig hafa upplifað einelti á vinnustað. Samkvæmt könnun meðal opinberra starfsmanna frá árinu 2008 sögðust tíu prósent hafa upplifað einelti á sl. tólf mánuðum, um þriðjungur þeirra sagði eineltið hafa varað í tvö ár eða lengur.

Vinnueftirlitið tekur við kvörtunum þeirra sem telja sig hafa orðið fyrir einelti eða annarri ótilhlýðilegri háttsemi á vinnustað og telja sig ekki hafa fengið lausn sinna mála. Árin 2004-2015 bárust yfir 200 slíkar kvartanar. Kvörtunum fer fjölgandi sem bendir til að þekking á málaflokknum hafi aukist og sömuleiðis kröfur um að tekist sé á við mál sem þessi. Ekki síst segir þetta okkur að þörf er á frekara starfi á þessu sviði.

Vegna þessa ákvað ég á þessu ári að veita tíu milljónir króna til Vinnueftirlitsins vegna verkefna sem tengjast félagslegum þáttum í vinnuumhverfi fólks.

Vinnum að því markmiði að allir vinnustaðir verði góðir og öruggir staðir þar sem fólki líður vel og fær notið sín til fulls við bestu aðstæður.

Eygló Harðardóttir.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 20. maí 2016.

Categories
Greinar

Höldum áfram að gera vel… saman

Deila grein

21/05/2016

Höldum áfram að gera vel… saman

Anna kolbrúnSGM18.maí árið 1976 voru samþykkt á Alþingi ný lög, þá voru Íslendingar strax komir í forystusveit um jafnréttismál, en þau hétu „lög um jafnrétti kvenna og karla“.

Þegar þingskjöl Alþingis eru lesin frá þessum tíma er ljóst að flestir voru sammála um innihald frumvarpsins. Þó eru alltaf einn eða tveir þingmenn sem reyni að draga hina í skemmtilega þrætukenndar umræður um innihaldið útfrá pólitískri hugsjón í hreinasta formi sínu og einfaldaðri mynd. Hér varð engin undantekning þegar stigið var í pontu og frumvarpið sagt „stuðla að nokkurs konar lögregluríki“.

Frumvarpið var afurð mikillar umræðu innan og utan landssteinanna. Sameinuðu þjóðirnar höfðu boðað árið 1975 sem sérstakt kvennaár til að flýta jafnréttisþróun og lagt til framkvæmdaáætlun til 10 ára á ráðstefnu í Mexíkó. Umræða á vettvangi norðurlandanna ýtti svo enfremur við Íslendingum sem og íslenskar konur sjálfar.

Sagt var eftir á að lögin hefðu ekki verið nægjanlega framsækin en þau voru þó með mörg nýmæli bundin í lög sem ekki höfðu sést áður og þykja sjálfsögð i dag í flestum hlutum heimsins. Önnur atriði höfðu verið samþykkt áður sem hluti af öðrum lögum eins og ákvæði um almennan launajöfnuð kvenna og karla árið 1961 en opinberir starfsmenn höfðu áður verið fyrsta starfsstéttin sem hlaut lögverndað launajafnrétti árið 1954.

Þessi munur milli kynjanna í launum var þó viðvarandi og erum við ennþá að vinna að minnkun kynbundins launamunar. Tiltók flutningsmaður nefndarálitsins og þingmaður Framsóknar, Gunnlaugur Finnson það sérstaklega að aðstöðumunur milli kynjanna væri um að kenna þegar ungt fólk væri að vinna á sumrinn fyrir sínum skólakostnaði að það væri „ekki óalgengt að sumartekjur stúlkna séu rétt um það bil helmingurinn af því sem sumartekjur pilta eru“. Gunnlaugur velti einnig upp framtíðarhugleiðingum um stöðu kynjanna og þakkaði bændasamtökunum fyrir að hafa komið sterk til leiks á kvennaári Sameinuðu Þjóðanna 1975 en samtökin riðu á vaðið á aðalfundi sínum að samþykkja að opna aðild sína þannig að hjón ættu þar jafnan rétt.

Með samþykkt frumvarpsins var bundið í lög m.a. fræðsla um jafnrétti í skólum og öðrum menntastofnunum, að óheimilt væri að mismuna starfsfólki eftir kynferði og að störf laus til umsóknar væru opin bæði kynjum. Þingmenn af báðum kynjum studdu tillöguna og ræddu þá afstöðu í ræðustólnum en einnig var tekið fram að „Íslenskar konur hafa veríð mjög samhentar í því að þoka sínum málum áleiðis og ég hygg að þetta frv. sé einn árangurinn af þeirri samvinnu“.

Annarsstaðar í heiminum er staðan ekki sú sama. 52 ríki eru ekki með jafnrétti í sinni stjórnarskrá líkt og kveðið er á um í 65. gr. íslensku stjórnarskrárnar, 26 ríki veita kynjunum ekki jafna stöðu þegar kemur að erfðarétt og 60% af þeim sem skortir grunnmenntun á borð við lesskilning í heiminum eru konur.

Halda verður áfram að gera betur, í að útrýma kynbundnum launamun en einnig víðast hvar annarsstaðar í heiminum þar sem eru stærri og minni jafnréttisverkefni. Við Framsóknarkonur erum mjög stoltar af því hversu vel jafnréttisumræðan endurspeglast í markmiðum Íslands bæði innanlands og í utanríkisstefnu Íslands. Höldum áfram að gera vel… saman.

Grein eftir Önnu Kolbrúnu Árnadóttur, formann Landssambands Framsóknarkvenna  og Sunnu Gunnars Marteinsdóttur, varaformann Landssambands Framsóknarkvenna

Categories
Greinar

Stóraukið framboð á leigumarkaði

Deila grein

18/05/2016

Stóraukið framboð á leigumarkaði

Elsa-Lara-mynd01-vefurÁnægjulegt er að segja frá því að mikil uppbygging er framundan á leigumarkaði. Reyndar er um að ræða eina þá mestu uppbyggingu sem verið hefur frá árinu 1965 eða frá því Breiðholtið var byggt.

Eitt af fyrstu verkum félags – og húsnæðismálaráðherra, Eyglóar Harðardóttur, var að skipa Verkefnastjórn um framtíðarskipan húsnæðismála. Stjórnin hafði það verkefni að koma með tillögur að bættu húsnæðisumhverfi á Íslandi, m.a. hvernig ætti að stuðla að uppbyggingu á leigumarkaði. Verkefnastjórnin skilaði af sér og nú hafa verið lögð fram frumvörp þessa efnis. Eitt þeirra er frumvarp um almennar leiguíbúðir sem felur í sér uppbyggingu á 2300 leiguíbúðum. Búið er að mæla fyrir málinu í annarri umræðu í þinginu og innan skamms verður frumvarpið að lögum. Þessar íbúðir sem hér um ræðir verða byggðar með stofnframlagi ríkis og sveitarfélaga og ætlaðar einstaklingum og fjölskyldum í tveimur lægstu tekjufimmtungunum. Markmið þessara aðgerða er að leiguverð verði ekki hærra en 20 – 25 % af ráðstöfunartekjum þeirra sem í kerfinu búa. Með þessum aðgerðum er stuðlað að félagslegri blöndun innan kerfisins.

Helstu atriðin sem frumvarpið felur í sér eru:

– Uppbygging á 2300 leiguíbúðum.
– Einstaklingar þurfa að tilheyra tveimur lægstu tekjufimmtungunum þegar flutt er inn í kerfið. Ef laun hækka umfram það þá má búa áfram í kerfinu og borga hóflegt álag á leigu.
– Markmið að leigugreiðslur fari ekki yfir 20 – 25% af ráðstöfunartekjum. Þá er miðað við að frumvarp um húsnæðisbætur nái fram að ganga.
– 18% stofnframlag frá ríki og 12% frá sveitarfélögum. Stofnframlag sveitarfélaga geta t.d. verið í formi lóða eða afsláttar af gatnagerðagjöldum.
– Heimilt að veita 6% viðbótarstofnframlag frá ríki og 4% frá sveitarfélögum vegna íbúða á svæðum þar sem skortur er á leigu­húsnæði og bygging íbúða hefur verið í lágmarki eða sérstök vandkvæði á því að fá fjármögnun á al­mennum markaði.
– Heimilt að veita 4% viðbótarstofnframlag til leiguíbúða á vegum sveitarfélaga eða til íbúðarhúsnæðis sem er ætlað námsmönnum eða öryrkjum.
– Sveitarfélög og fyrirtæki geta tekið sig saman og byggt upp leigufélög.

Viltu vera með?
Það er Íbúðarlánasjóður sem mun halda utan um stofnframlög ríkisins og meta umsóknir. Ég hvet sveitarfélög um land allt að kynna sér málið, fá upplýsingar og meta hvort þörf er á og eða áhugi á að taka þátt.

Elsa Lára Arnardóttir

Greinin birtist í Fréttablaðinu 17. maí 2016.