Categories
Greinar

Áfengi er engin venjuleg neysluvara

Deila grein

31/07/2014

Áfengi er engin venjuleg neysluvara

Silja-Dogg-mynd01-vefFrelsi eins getur haft í för með sér ófrelsi annars. Hlutverk stjórnmálamanna er að tryggja almannahag og öryggi borgaranna- bæta samfélagið. Með lýðræðislegum kosningum veitum við þeim forræði í ákveðnum málaflokkum sem snúa að samfélagsmótun og framtíðarsýn.

Efnislega mikilvæg vara

Að mínu mati væri frjáls sala áfengis í matvöruverslunum EKKI framfaraspor fyrir íslenska þjóð. Í mörgum löndum er framleiðsla og sala á áfengi tekjulind fyrir bændur, framleiðendur, auglýsingastofur, rekstraraðila fjölmiðla og fjárfesta. Áfengi er einnig atvinnuskapandi, það aflar gjaldeyristekna vegna útflutnings og ríkissjóður hagnast vegna álagningar áfengisgjalds. Áfengi er því efnahagslega mikilvægt. En ábatinn af sölu og framleiðslu á áfengi er samfélaginu afar dýrkeyptur. Það er einkum þrennt sem leiðir til þess að áfengi veldur svo miklu líkamlegu, andlegu og félagslegu tjóni: 1) eitrun í líkamanum, 2) víma og 3) ánetjun (fíkn).

Gríðarlegt heilsutjón af völdum áfengis

Tengsl milli áfengisvímu og skaða eru þó skýr og greinileg, sérstaklega hvað varðar ofbeldi, umferðarslys eða önnur slys. Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni mátti á árinu 2000 rekja 4,0% allra dauðsfalla og örorku í heiminum til áfengis („The Global Burden of Disease“). Áfengi reyndist því fimmti skaðlegasti áhættuþátturinn af 26 sem kannaðir voru. Áfengi veldur álíka miklu heilsutjóni og tóbak.

Stefna Norðurlandaþjóða

Velferðarnefnd Norðurlandaráðs fór í vandaða og umfangsmikla vinnu í þessum málaflokki fyrir ekki löngu þar sem skoðuð voru m. a. gögn frá vísinda- og rannsóknaraðilum. Tillagan varð opinber stefna Norðurlandaráðs og er þess vænst að norræn ríki fylgi henni. Þar er ótvírætt sýnt fram á að aðgengi skiptir miklu máli hvað varðar neyslu, þ.m.t. neyslu ungmenna. Einnig er talið að forvarnir skipti því miður minna máli en menn hafa haldið almennt.  Það sem er sagt skipta mestu máli er þetta:

  1. Álagning/skattar á áfengi
  2. Áfengisverslun ríkisins
  3. Aldurstakmörk
  4. Takmarkað aðgengi þ.e. takmark á fjölda útsölustaða/opnunartíma
  5. Bann við beinni og óbeinni markaðssetningu
  6. Mörk gagnvart akstri undir áhrifum 0,5 eða 0,2 prómill og sýnilegt og  óvænt/tilfallandi eftirlit.
  7. Ráðgjöf í heilsugæslunni og öflugri meðferð þeirra sem eru háðir áfengi

Verum fyrirmynd annarra þjóða með ábyrgri stefnu í áfengismálum!

 

Silja Dögg Gunnarsdóttir

 

Heimildir: https://www.landlaeknir.is/servlet/file/store93/item10424/Afengi_engin_venjuleg.pdf og tillaga Velferðarnefndar Norðurlandaráðs um norræna lýðheilsustefnu í áfengis- og tóbaksmálum.

 

Greinin birtist í Fréttablaðinu 28. júlí 2014.

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Greinar

Bútateppið

Deila grein

31/07/2014

Bútateppið

Silja-Dogg-mynd01-vefHver einstaklingur er einstakur og fólkið sem vill búa á Íslandi kemur alls staðar að úr heiminum. Einstaklingar með ólíkan litarhátt, menningu, trúarbrögð og hugmyndir. En þetta fólk á það sameiginlegt að vera manneskjur sem vilja búa á Íslandi og eignast gott líf. Nýtt tækifæri.

Góðir starfskraftar

Þegar Íslendingar rekja ættir sínar með aðstoð Íslendingabókar þá kemur í ljós að við erum meira og minna skyld í a.m.k. 8. ættlið. Síðan gerist það fyrir nokkrum áratugum síðan að hópar fólks fara að koma hingað til lands. Víetnamar, Filipseyjingar og nú síðustu ár hefur fjöldi Pólverja flutt hingað, svo eitthvað sé nefnt. Ég get fullyrt að „nýju Íslendingarnir“ hafa staðið sig feykilega vel í að aðlagast og leggja sitt af mörkum til þjóðfélagsins. Fólkið er almennt vinsælir starfskraftar og margir hverjir hafa stofnað eigin fyrirtæki hér á landi.

Kærleikurinn

Kærleikurinn er inntak allra trúarbragða. Afbökun trúarbragða hefur hins vegar átt sér stað öldum saman og misnotkun þeirra. Kristin trú og kristnir trúarleiðtogar er þar síður en svo undanskyldir. Almennt eru Íslendingar umburðalyndir og vilja vel. Því miður eru alltaf einhverjir sem ala á ótta, hatri og nærast á neikvæðri umræðu. Uppbyggileg og málefnaleg umræða er það sem við þurfum, hvort sem það er um innflytjendamál, trúarbrögð eða annað. Mótun samfélagsins og sú stefna sem við viljum taka í þeim efnum er okkur öllum mikilvæg.

Litríkara og skemmtilegra

Nágrannaþjóðir okkar hafa mun lengri reynslu en við að málefnum innflytjenda. Þessar þjóðir hafa þegar mótað sér stefnu eða eru í þeirri vinnu. Eitthvað hefur betur mátt fara en einnig er margt sem vel hefur verið gert. Það er kominn tími til að við skoðum vandlega hvað nágrannar okkar hafa verið að gera og nýtum okkur þeirra reynslu til frekari uppbyggingar samfélags okkar. Fjölbreytni er af hinu góða. Hún eykur hagvöxt og gerir samfélagið litríkara og fallegra, eins og stórkostlegt bútateppi sem prýði er af. Ég ætla að beita mér fyrir því á næsta þingi að hafist verði handa við þetta aðkallandi og mikilvæga verkefni.

Silja Dögg Gunnarsdóttir

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Greinar

Ertu ekki örugglega búin(n) að sækja um skuldaleiðréttingu?

Deila grein

18/07/2014

Ertu ekki örugglega búin(n) að sækja um skuldaleiðréttingu?

Þorsteinn SæmundssonLesandi góður! Nú styttist óðum sá tími sem ætlaður er til að sækja um leiðréttingu á verðtryggðum neytendalánum en frestur til að sækja um rennur út 1. september n.k.

Aðgerðin er hin stærsta sem gripið hefur verið til í því augnamiði að rétta hlut skuldara nokkurs staðar. Hún er almenn og byggir á jöfnuði og réttlæti. Skuldaleiðréttingin felst annarsvegar í beinni niðurfærslu skulda en hinsvegar í því að skuldarar geta nýtt viðbótarlífeyrissparnað sinn til niðurgreiðslu húsnæðislána í þrjú ár.

Aðgerðin nýtist best þeim sem hafa minni- eða meðaltekjur og eiga íbúð af hóflegri stærð. Þannig koma um 60% upphæðarinnar sem ætluð er til beinnar skuldalækkunar í hlut þeirra heimila sem hafa samtals 8 milljónir króna eða minna í tekjur á ári. Það samsvarar t.d. meðallaunum tveggja einstaklinga sem taka laun samkvæmt kjarasamningi BSRB.

Aðgerðin beinist að þeim sem urðu fyrir forsendubresti í verðbólguholskeflunni sem reið yfir í kjölfar hrunsins árin 2009 og 2010. Markmiðið með aðgerðinni er að rétta hlut þessa hóps nokkuð og gefa honum færi á að ná vopnum sínum aftur.

Aðgerðin mun lækka greiðslubyrði þeirra sem rétt eiga á leiðréttingu og leiða til aukins kaupmáttar. Séreignarsparnaðarhluti aðgerðarinnar gagnast einnig þeim sem ekki eiga íbúð en freista þess að leggja fyrir og mynda þannig grunn að húsnæðiskaupum. Einnig má segja að notkun hluta séreignasparnaðar til lækkunar húsnæðisskulda sé ein besta fjárfesting sem völ er á nú um stundir. Þann 1. júlí s.l. var hægt að hefja nýtingu séreignasparnaðar til lækkunar húsnæðislána eða til að byggja upp sjóð til fasteignakaupa síðar.

Það er mikilvægt að allir sem telja sig eiga rétt á leiðréttingu sækist eftir henni. Fljótlega eftir 1. september n.k. mun ljóst verða hver leiðrétting hvers og eins verður. Þá fá íslensk heimili ný tækifæri til sóknar.

Þorsteinn Sæmundsson

Greinin birtist í DV þriðjudaginn 15. júlí 2014

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Greinar

Hugleiðingar vegna landnáms Costco á Íslandi

Deila grein

15/07/2014

Hugleiðingar vegna landnáms Costco á Íslandi

Þorsteinn SæmundssonNýlega bárust fregnir af því að bandaríska risaverslunarkeðjan Costco hygði á landvinninga á Íslandi. Að vanda fór samfélagsumræðan út um víðan völl af þessu tilefni, ekki síst fyrir tilstuðlan fjölmiðla. Mátti halda í byrjun að nú yrði slakað til fyrir verslunarrisann með lagasetningum sem væru til þess fallnar að breyta rekstrarskilyrðum verslunar stórlega, m.a. með tilslökunum í sölu áfengis og innflutnings á hráu kjöti.

Nú þegar umræðan hefur róast virðist svo sem Costco hafi áhuga á að hasla sér völl á Íslandi á þeim forsendum og innan þess regluverks sem íslensk stjórnvöld setja. Því ber að fagna. Sá sem hér ritar hefur haldið því fram bæði í ræðu og riti að helsta von Íslendinga um samkeppni sé fólgin í innflutningi á kaupmönnum og fagnar því hugmyndum Costco um rekstur á Íslandi.

Núverandi fákeppni hefur verið og er ein mesta ógnin við íslenska neytendur og afkomu þeirra. Verstu einkenni fákeppninnar hafa undanfarin misseri kristallast í því að innflutt vara hefur lækkað mjög óverulega þrátt fyrir allnokkra styrkingu íslensku krónunnar. Þessi staðreynd hefur ekki komist á dagskrá því kaupmönnum hefur tekist að snúa allri umræðu um verslun á Íslandi að landbúnaðarkerfinu, vörugjöldum og tollum. Í þeirri umræðu er öllu blandað saman og menn velja sér rök hverju sinni líkt og af hlaðborði. Hvergi minnast kaupmenn á að samkvæmt erlendum könnunum er ofmönnun í íslenskri verslun allt að 20% og að óvíða eru jafn margir fermetrar í verslun á íbúa og hér á Íslandi auk þess sem ótakmarkaður afgreiðslutími eykur kostnað og hækkar þar með vöruverð.

Verði tilkoma Costco á íslenskan markað til þess að auka samkeppni og hagkvæmni í verslun ber að fagna komu fyrirtækisins til Íslands. Nauðsynlegt er þó að svara nokkrum spurningum sem vakna við komu fyrirtækisins. Hverjir eru innlendir samstarfsaðilar Costco og hugsanlegir meðeigendur? Sérstaka athygli hafa vakið hófstillt viðbrögð forstjóra Haga, sem hefur yfirgnæfandi markaðshlutfall hér á landi, við yfirvofandi samkeppni. Getur verið að Hagar eða aðilar þeim tengdir eigi aðild að fyrirhugaðri verslun Costco? Svör við þessum spurningum og fleiri slíkum verða að liggja fyrir áður en hægt er að fagna komu Costco til Íslands.

Þorsteinn Sæmundsson

Greinin birtist í Morgunblaðinu 15. júlí 2014.

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Greinar

Styrking landsbyggðar – sterkari höfuðborg?

Deila grein

08/07/2014

Styrking landsbyggðar – sterkari höfuðborg?

Þórunn EgilsdóttirByggðaþróun- og byggðamál hafa verið ofarlega í umræðunni undanfarin ár. Samþjöppun byggðar og tilflutningur á störfum hefur orðið til þess að minni samfélög út um landið standa frammi fyrir því að atvinnulíf verður einhæft og stoðirnar veikjast.

Árum saman hefur verið talað um að þessari þróun verði að snúa við, en hægt hefur gengið. Hið opinbera hefur til þess þrjár leiðir; efla starfsemi á þess vegum á viðkomandi stað, flytja verkefni eða stofnanir.

Menn hafa séð á bak opinberum störfum sem flutt hafa verið suður. Þetta hefur gerst án mikillar umræðu eða athygli. Samfélagið er að breytast, störf breytast og þróast. En svo öfugsnúið sem það nú er þá hefur eðlisbreyting og nútímavæðing starfa ekki orðið til þess að þau haldist frekar út um landið heldur hefur þeim fjölgað á höfuðborgarsvæðinu.

Með tilkomu netsins og nýrrar tækni hefur þjónusta breyst en mörg störf má allt eins vinna utan höfuðborgarsvæðisins eins og þar.

Í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar stendur: »Mikilvægt er að stuðla að fjölbreyttum atvinnutækifærum um allt land, m.a. með dreifingu opinberra starfa.«

Það þarf því ekki að koma á óvart þegar ráðherrar ríkisstjórnarinnar tilkynna ákvarðanir um flutning starfa líkt og gerðist í liðinni viku. Við getum haft allskonar skoðanir á því hvernig er að málum staðið og ekki skal vanmeta stöðu þeirra sem nú standa frammi fyrir breytingum á starfsumhverfi.

En við hljótum að geta verið sammála um það að til að byggja hér upp sterkt samfélag þurfa innviðirnir að vera sterkir um allt land. Sterk höfuðborg þarf styrka landsbyggð og við þurfum öll að vinna saman að því að nýta tækifæri framtíðarinnar með því að stuðla að jafnvægi byggðar. Við þurfum hvert á öðru að halda.

Starfshópi, sem skipaður hefur verið, eru ætlaðir 18 mánuðir til að vinna að undirbúningi og skipulagningu þessa verkefnis. Í honum sitja tveir starfsmenn ráðuneytisins og þrír starfsmenn Fiskistofu. Verkefnið felst ekki í því að flytja alla starfsemina. Stefnt er að því að tölvudeild Fiskistofu verði áfram rekin á höfuðborgarsvæðinu og reiknað er með að þar verði starfsstöð sem þjónar suðvestursvæðinu.

Það er von mín að starfsemi á öllum starfsstöðvum stofnunarinnar, þ.e. í Vestmannaeyjum, Stykkishólmi, á Akureyri, Ísafirði, Höfn og í Reykjavík farnist vel og þær komi enn sterkari út úr þessi ferli.

Að flytja höfuðstöðvar Fiskistofu til Akureyrar er áskorun og vil ég óska öllum þeim sem að því verkefni koma góðs gengis.

Þórunn Egilsdóttir

Greinin birtist í Morgunblaðinu 8. júlí 2014

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Greinar

COSTCO – Kostir og gallar

Deila grein

07/07/2014

COSTCO – Kostir og gallar

sigrunmagnusdottir-vefmyndFréttir berast um að bandaríska verslunarkeðjan COSTCO vilji hasla sér völl hér á landi. Vonandi verða þau tíðindi til þess að vitræn umræða skapist um matvörumarkaðinn á Íslandi, samkeppni, hreinleika vöru, gæði íslenskra afurða og fleira.

Lengi hafa ákveðin fyrirtæki á matvælamarkaði haft markaðsráðandi stöðu á Íslandi og ráða því miklu um vöruverð og vörugæði. Margoft hefur verið reynt að hafa áhrif á lyfjafyrirtæki til lækkunar lyfjaverðs – en lítið hefur áunnist. Þá hefur olíufélögunum verið legið á hálsi fyrir samráð og fákeppni. Ef umræða um hugsanlega komu COSTCO hingað til lands verður þess valdandi að við tökum til á þessum sviðum er það vel.

Hins vegar óttast undirrituð sjúkdómahættu af óheftum innflutningi á hráu kjöti frá löndum sem við vitum að meðhöndla dýr með allt öðrum hætti en gert er hér á landi. Vitað er að þau eru sumstaðar sprautuð með lyfjum til að auka afurðirnar, m.a. með hormónum. Dæmi um búfjársjúkdóma hræða.

Heilbrigði matvara
Langlífi okkar Íslendinga er talið ekki síst koma til af fæðu okkar og umhverfi, hreinleika og gæðum. Nýverið birtist það álit virtra erlendra sérfræðinga að við værum með einstakt heilsufæði fólgið í fiskinum, kjötinu og mjólkinni. Heilsufæði sem hefur áhrif á að við lifum lengur en flestar aðrar þjóðir.

Meðan ég var matvörukaupmaður og varaformaður Kaupmannasamtakanna lagðist ég eindregið gegn sölu áfengis í matvöruverslunum. Ég er enn sömu skoðunar. Þá velti ég vöngum yfir hvaða áhrif lausasölulyf í almennum hillum stórmarkaða myndu hafa.

Það er gott ef umræðan um komu verslunarrisans COSTCO til landsins verður til þess að við kryfjum til mergjar matvöru- og olíumarkaðinn, sem og áfengissölu í almennum matvöruverslunum. Sama gildir um lyfjamarkaðinn. Jafnframt er til bóta að hófstillt en opinská umræða fari fram um innflutning á hráu kjöti og hugsanlegar afleiðingar þess. Mikilvægast er að við mótum sjálf heildstæða verslunarstefnu byggða á reynslu okkar en með vitneskju 21. aldar í farteskinu, en látum ekki aðra stjórna för.

Sigrún Magnúsdóttir

Greinin birtist í Morgunblaðinu 7. júlí 2014

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Greinar

Til hagsbóta fyrir heimilin

Deila grein

01/07/2014

Til hagsbóta fyrir heimilin

Gunnar Bragi SveinssonÍ dag, 1. júlí, tekur gildi fríverslunarsamningur Íslands og Kína. Felur samningurinn í sér sóknarfæri fyrir Íslendinga og íslensk fyrirtæki.

Mikið hefur verið rætt um tækifæri til útflutnings vegna samningsins en hann mun ekki síður gagnast heimilunum. Á undanförnum misserum hefur t.d. netverslun frá Kína stóraukist og er nú meira flutt til Íslands frá vefsíðunni Aliexpress en Ebay. Með samningnum fellur niður 15 prósenta tollur af fatnaði og skótaui framleiddu í Kína, sem ætti að skila sér í lækkuðu vöruverði.

Samningurinn hefur þegar fært okkur forskot í atvinnusköpun en forsvarsmenn Silicor Material segja hann hafa verið eina helstu ástæða þess að Ísland varð fyrir valinu fyrir staðsetningu sólarkísilverksmiðju á Grundartanga.

Nú þegar starfa um 20 íslensk fyrirtæki í Kína og segja þau fjölda tækifæra fyrir okkur að miðla því sem við gerum best, t.d. íslenskum matvælum og þekkingu á nýtingu hreinnar orku.

Ekki dugar að gera einn samning. Framsóknin á vettvangi EFTA heldur áfram í fjölgun fríverslunarsamninga. Góð og traust viðskipti við sem flestar þjóðir þarf að tryggja enda felast í því hagsmunir Íslands. Það er stefna ríkisstjórnarinnar.

Gunnar Bragi Sveinsson

Greinin birtist í Fréttablaðinu 1. júlí 2014

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Greinar

Jafnrétti tryggir konum og körlum meiri lífsgæði

Deila grein

19/06/2014

Jafnrétti tryggir konum og körlum meiri lífsgæði

Eygló HarðardóttirTil hamingju með kvenréttindadaginn, íslenskar konur og karlar. Þann 19. júní 1915 fengu konur 40 ára og eldri kosningarétt og kjörgengi til jafns við karla. Jafn kosningaréttur og kjörgengi kynja var einn mikilvægasti áfangi lýðræðisþróunar á Norðurlöndum því í þeim felast þau grundvallarmannréttindi að geta haft áhrif og þau endurspegla sýn okkar á réttlætis- og jafnréttismál.

Á næsta ári fögnum við 100 ára afmæli kosningaréttar íslenskra kvenna og mikilvægt er að nýta þessi tímamót til að horfa um öxl og ígrunda hvernig þær miklu breytingar sem orðið hafa á sviði jafnréttismála hafa átt sér stað. Í raun er ótrúlega stutt síðan að það þótti sjálfsagt að konur nytu ekki sömu grunnréttinda og karlar. Jafnréttismálin eru ein birtingarmynd þeirra miklu framfara sem við Íslendingar höfum upplifað á skömmum tíma, framfara sem við sem þjóð vinnum að í sameiningu en getum einnig þakkað því að einstaklingar og hópar hafi haft þann kjark sem þurfti til að berjast fyrir samfélagi jafnréttis og lýðræðis. Saga íslensku kvennahreyfingarinnar er dæmi um slíka sögu. Hún er saga um samtakamátt kvenna og á sama tíma saga einstaklinga sem á sínum tíma unnu ótrúleg þrekvirki.

Um leið og við þökkum þeim sem ruddu brautina skulum við hafa hugfast að rótgróin viðhorf breytast seint og að enn eigum við mikið verk að vinna hvað varðar jafnrétti kvenna og karla.

Meira jafnrétti

Við ætlum okkur meiri framfarir á sviði jafnréttismála. Ekki eingöngu vegna þess að jafnrétti er grundvöllur lýðræðis og mannréttinda heldur einnig vegna þess að við eigum að fjárfesta í mannauði karla og kvenna sem best við getum.

Í síðustu viku sótti ég sameiginlegan stórfund norrænna kvennahreyfinga, Nordiskt Forum. Mörg þúsund manns sóttu fundinn en þetta var í þriðja skipti sem boðað er til allsherjarfundar kvenna og jafnréttissinna á Norðurlöndunum. Markmið Nordiskt Forum var að þessu sinni að greina áskoranir og möguleika Norðurlandaþjóðanna til að hrinda markmiðum Peking-áætlunarinnar frá 1995 í framkvæmd þannig að hægt verði að tryggja raunverulegt jafnrétti, þróun og frið í samræmi við markmið Sameinuðu þjóðanna. Fundurinn bar vott um mikla grósku í málaflokknum og var vettvangur samræðna og skoðanaskipta stjórnmálanna og frjálsra félagasamtaka sem er forsenda framfara í málaflokknum. Ánægjulegt var að sjá að mun fleiri karlar tóku virkan þátt en dæmi eru um frá fyrri fundum.

Í dag mælist kynjajafnrétti hvergi meira en á Norðurlöndunum en erfið verkefni bíða úrlausnar stjórnmálanna. Helst ber að nefna kynbundið náms- og starfsval, launamun kynja, kynbundið ofbeldi og nauðsyn þess að virkja betur karla og drengi til þátttöku á sviði jafnréttismála. Uppræta þarf staðlaðar kynjaímyndir sem hafa áhrif á náms- og starfsval kvenna og karla og styrkja nýjan hugsunarhátt um karla og karlmennsku.

Á Nordiskt Forum vakti ég máls á að breytingar á íslensku fæðingarorlofslöggjöfinni hafa haft margvísleg áhrif á stöðu jafnréttismála á Íslandi. Rannsóknir Guðnýjar Eydal og Ingólfs V. Gíslasonar sýna að karlar taka virkari þátt í heimilisstörfum og umönnun ungra barna. Þá hafa lögin breytt samkeppnisstöðu ungra foreldra á vinnumarkaði en síðast en ekki síst hafa þau haft áhrif á hugsunarhátt okkar um karlmennsku. Í dag þykir það flott og eðlilegt að karlar hugsi um ung börn, það þykir töff að vera góður pabbi.

Ný framkvæmdaáætlun

Ég mun á komandi löggjafarþingi leggja fram nýja framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum til næstu fjögurra ára. Í henni mun í fyrsta skipti vera sérstakur kafli um karla og jafnrétti en þannig vil ég bregðast við tillögum starfshóps um karla og jafnrétti sem lauk störfum árið 2013. Tillögur hópsins fjalla um leiðir til að auka þátttöku karla í umræðu um jafnréttismál og að stefnumótun taki í auknum mæli mið af breyttu hlutverki karla og feðra í samfélaginu. Dæmi um málaflokka sem tillögurnar taka til eru karlar og umönnunarstörf; karlar, menntun og kynskiptur vinnumarkaður; karlar sem gerendur og þolendur í ofbeldismálum og klám og vændiskaup. Mikilvægt er að hafa jafnréttismál að leiðarljósi við alla stefnumótun og bæði kynin þurfa að koma að mótun málaflokksins. Í þessu starfi eru fæðingarorlofsmálin okkur hvatning, þau kenna okkur að líta ekki á jafnréttismálin sem einangrað fyrirbæri enda gott dæmi um hvernig opinber stefnumótun sem tekur tillit til kynjajafnréttis getur aukið lífsgæði okkar allra í samfélaginu.

Eygló Harðardóttir

Greinin birtist í Fréttablaðinu 19. júní 2014

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Greinar

Af mörgu er að taka

Deila grein

18/06/2014

Af mörgu er að taka

Elsa-Lara-mynd01-vefurNú er um eitt ár frá því ég settist inn á þing sem þingmaður Framsóknarflokksins. Þetta fyrsta ár mitt á þingi, hefur liðið hratt og verið einstaklega viðburða – og lærdómsríkt. Í starfinu hef ég fengið að kynnast mörgu sem ég hefði líklega ekki fengið að kynnast, hefði ég ekki gefið kost á mér til þessara starfa. Í starfinu er tekist á við hin ýmsu verkefni og marg oft þarf að hoppa út fyrir þægindarammann við vinnslu verkefna, það hefur gert mér gott.

Skuldamálin komumst í gegn

Verkefnin sem ég tókst á við í þinginu s.l. vetur var m.a. að tala fyrir aðgerðum er varða skuldavanda íslenskra heimila með verðtryggð húsnæðismál. Afar ánægjulegt var að sjá þetta helsta mál framsóknarmanna komast í gegnum þingið og sjá þann fjölda sem nú þegar hefur sótt um leiðréttingu sinna mála. Það er augljóst að aðgerðin virðist skipta fólk miklu máli miðað við fjölda umsókna og því ber að fagna. Aldrei mun ég samt skilja hvers vegna stór hluti þingmanna stjórnarandstöðunnar greiddu atkvæði gegn þessum aðgerðum.

Unnið er að úrbótum á leigumarkaði

Í vetur sat ég í Verkefnisstjórn um framtíðarskipan húsnæðismála. Þar var m.a. unnið að úrbótum á leigumarkaði og komið fram með tillögur þess efnis. Þar má m.a. nefna lækkun skatta á leigutekjur með það að markmiði að fjölga íbúðum á leigumarkaði. Vitað er til þess að talsverður hluti húsnæðis er í svartri leigu til ferðamanna. Ef við náum að auka framboð þá eru nokkrar líkur á að leiguverð lækki. Jafnframt eru hugmyndir uppi um að taka upp stofnstyrkjakerfi í stað niðurgreiðslu vaxta við uppbyggingu leigufélaga. Samkvæmt útreikningum ætti það að geta lækkað leiguverð um allt að 20 %. Nú þegar er hafin vinna við að koma þessum tillögum, sem og öðrum frá Verkefnisstjórninni, í vinnslu og vonir standa til að þær verði orðnar að frumvörpum eigi síðar en í lok október á þessu ári.

Hvað er framundan?

Af mörgu er að taka, en það eru mörg mikilvægt verkefni sem bíða. Nú vinn ég að málum sem lögð verða fram þegar þing kemur saman í haust. Eitt þeirra er skrifleg fyrirspurn sem ég lagði reyndar fram á lokadögum vorþingsins en náði ekki fram að ganga. Fyrirspurnin fjallar um skráningu viðskiptasögu einstaklinga hjá fjármálastofnunum. En margir höfðu samband síðasta vetur og sögðu að erfitt væri að fá upplýsingar hver staða þeirra væri gagnvart fjármálastofnunum, eftir að hafa klárað greiðsluaðlögunarsamninga.

Að mínu mati er afar þarft að endurskoða neysluviðmið og hver þau þurfa að vera að lágmarki.Vinna þarf að nýjum útreikningum og hafa þar inn í allan húsnæðiskostnað. Það  er staðreynt að stór hluti af tekjum okkar fer í að borga af húsnæði, sama hvort um eign eða leiguhúsnæði er um að ræða. Mikilvægt er að allir hluteigandi aðilar vinni saman að þessu verkefni.

Auk þessa eru fjölda mörg verkefni sem vinna þarf að. Nýta þarf sumarið vel, vinna þingmál og byggja brýr. Láta vita hver ég er og ég sé í starfinu til að vinna fyrir alla þá sem hér búa. Það er mitt markmið í sumar.

 

Elsa Lára Arnardóttir

Greinin birtist í DV 17. júní 2014

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

 

Categories
Greinar

Tálsýnir og veruleikinn

Deila grein

28/05/2014

Tálsýnir og veruleikinn

Silja-Dogg-mynd01-vefUndirrituð hefur átt sæti í atvinnu-og hafnaráði Reykjanesbæjar sl. fjögur ár. Samstarfið í ráðinu hefur verið til fyrirmyndar. Fyrsta árið okkar fór í ná nauðasamningum við kröfuhafana því eins og flestir vita þá skuldar hafnarsjóður nú ríflega sjöþúsund milljónir króna. Stærstur hluti þeirrar upphæðar er tilkominn vegna framkvæmda við Helguvík, sumir segja ótímabærra en ég læt það liggja á milli hluta hvort svo hafi verið. Nú berast fregnir að því að kísilfyrirtækið United Silicon hyggist hefja lóðaframkvæmdir í Helguvík í dag; er allt að fara af stað? Vonandi.

Lóðaframkvæmdir og hvað svo?

Síðasti fundur hafnarráðs var haldinn í sl. viku. Við vorum sammála að margt hefði gerst á þessum fjórum árum í atvinnumálum, t.a.m. atvinnuuppbygging á Reykjanesi, stækkun Flugstöðvarinnar og gróskumikið starf á Ásbrú. En á hinn bóginn hefðu við öll viljað sjá atvinnulífið í Helguvík verða að veruleika á þessum tíma, en svo varð því miður ekki.

Nú berast fréttir af því að United Silicon, sem er eitt þeirra fyrirtækja sem hafa fest sér lóð á svæðinu, ætli að hefja jarðvegsframkvæmdir í dag, 28. maí. Hafnarstjóri sendi starfsmönnum hafnarráðs þann 27. maí tölvupóst þar sem segir: „United Silicon hafa tilkynnt að þeir muni byrja að jarðvegsskipta inn á lóð sinni sem þeir keyptu 2012. ÍAV hf. munu trúlega byrja á morgun við framkvæmdirnar. Reykjaneshöfn mun ekki semja við ÍAV við holræsalagnir í Helguvík fyrr en greiðsla berst frá U.S. eins og við ræddum um á síðasta stjórnarfundi.“

Veruleikinn- Staðan er óbreytt

Ég verð að viðurkenna að ég veðraðist aðeins upp við þessar framkvæmdafréttir fjölmiðla. Það skyldi þó ekki vera að nú væru hlutirnir að fara að gerast, þremur dögum fyrir kosningar? Þegar betur er að gáð þá er staðan óbreytt í Helguvík. United Silicon á eftir að greiða Reykjaneshöfn 100 milljónir, sem er fyrsta afborgun. Greiðslan er ekki gjaldfallin en eigendur United Silicon munu ekki greiða þessa upphæð fyrr en raforkusamningur við Landvirkjun hefur verið fullgildur. Menn stefna á að það verði gert fyrir júnílok.

Látum verkin tala

Við vonum svo sannarlega öll að atvinnuuppbygging í Helguvík fari af stað sem fyrst. Enn sem komið er eru samningar ekki í höfn. Reynsla sl. 4 ára í atvinnu-og hafnaráði hefur kennt mér að viljayfirlýsingar og yfirlýsingar almennt hafa lítið gildi. Það borgar sig ekki að hlaupa upp til handa og fóta um leið og einhver segist vera með hugmynd eða hafa áhuga. Það sem skiptir raunverulega máli eru undirritaðir samningar og að menn greiði hafnarsjóði það sem þeim ber. Aðeins þá trúi ég að verkefnin verði að veruleika.

Spörum ótímabærar yfirlýsingar og látum verkin tala. X-B fyrir breytingar í Reykjanesbæ!

 

Silja Dögg Gunnarsdóttir, fulltrúi Framsóknar í atvinnu-og hafnarráði og alþingismaður.