Categories
Fréttir Greinar

Dreifingu fjölpósts hætt

Deila grein

09/01/2024

Dreifingu fjölpósts hætt

Íslandspóstur ákvað að hætta alfarið að dreifa fjölpósti við upphaf árs 2024. Fyrir fjórum árum var hætt að dreifa fjölpósti á suðvesturhorni landsins. Íbúar á því svæði urðu þó ekki varir við það enda er þar virk samkeppni um verkefnið og önnur fyrirtæki tóku að sér að dreifa fjölpósti. Það má hins vegar ætla að víða í dreifbýli og á minni þéttbýlisstöðum muni enginn grípa boltann. Því muni íbúum ekki lengur berast fjölbreytt efni sem hingað til hefur verið dreift með fjölpósti.

Pósturinn segir í tilkynningu að þessi ákvörðun sé í takt við umhverfisstefnu Póstsins og þar með sé verið að draga úr sóun og losun koltvísýrings. Vissulega er það þannig að þeim fækkar sem senda frá sér fjölpóst en nýta þess í stað rafræna miðla til að koma upplýsingum á framfæri. Það er þó erfitt að koma auga á umhverfisábata þar sem landpóstar munu eftir sem áður keyra um dreifbýlið tvisvar í viku.

Sparnaður á kostnað íbúa í dreifbýli eða tekjutap póstsins?

Það er ekki nóg að vísa til umhverfisstefnu þegar kemur að slíkri þjónustuskerðingu á landsbyggðinni. Í nóvember fóru fulltrúar Framsóknar í umhverfis og samgöngunefnd Alþings fram á að nefndin óskaði eftir frekari upplýsingum um forsendur ákvörðunar Íslandspóst, um að hætta alfarið dreifingu fjölpósts þann 1. janúar 2024. Nefndin óskaði í framhaldi eftir upplýsingum um hvað þessi ákvörðum myndi spara félaginu, annars vegar við að hætta dreifingu fjölpósts í dreifbýli og hins vegar í þéttbýli með 1000 eða færri íbúum. Svarið sem barst var að fyrirtækið sjái ekki ástæðu til að taka saman þær upplýsingar sem beðið var um og vísar til þess að um sé að ræða upplýsingar sem Alþingi eigi ekki rétt á þar sem fyrirtækið væri nú opinbert hlutafélag.

Í tengslum við fyrirspurnina bendir Íslandpóstur á að dreifing fjölpósts fellur ekki undir alþjónustu, sem Íslandspósti er skylt að veita um land allt skv. lögum. Ákvörðun um hvort dreifa eigi fjölpósti eða ekki, hvort sem er á höfuðborgarsvæðinu, þéttbýli eða dreifbýli á landsbyggðinni er því í öllum tilvikum rekstrarleg ákvörðun sem tekin er af stjórn og stjórnendum félagsins. Þessi ákvörðun félagsins sætir því engri sérstakri ytri skoðun, og gildir þá einu hvort um er að ræða Byggðastofnun eða Alþingi.

Dreifum gleðinni

Eitt að slagorðum Íslandspósts er „Dreifum gleðinni“ og hlutverk hans er að tengja fólk, fyrirtæki og samfélög. Samkvæmt lögum veitir Íslandspóstur viðskiptavinum alhliða póstþjónustu, óháð staðsetningu og framtíðarsýnin er að vera fyrsta val viðskiptavina með því að veita framúrskarandi þjónustu. Íslandspóstur er opinbert fyrirtæki og starfar undir lögum um póstþjónustu. Skylda Póstsins er að veita alþjónustu sem nær til bréfa allt að 2 kg og pakka allt að 10 kg innan lands. Þannig að dreifing fjölpósts fellur ekki þar undir. Eftir breytingarnar verður eftir sem áður hægt að senda markpóst, t.d. bæklinga og auglýsingarefni, sem almennt bréf en hann mun þá lúta skilmálum bréfa varðandi verðskrá, dreifingarplan og nafnamerkingu og kostar því bæði meira að undirbúa sendingar og dreifa þeim. Íslandspóstur dreifir því „fjölpósti“ en gjaldskráin hefur hækkað að því marki að það borgar sig varla að nýta sér þá þjónustu þar sem kostnaðurinn eykst um allt að 600%.

Gleðin daprast þegar ákvörðunin kemur sannarlega niður á þeirri þjónustu sem Pósturinn hefur veitt s.s. við dreifingu héraðsfréttamiðla og Bændablaðsins. Það fer að þrengjast um rekstur slíkra miðla þegar það svarar engan veginn kostnaði að dreifa þeim til lesenda og ólíklegt að þeir nýti póstinn til þess áfram. Hvort skyldi ríkisjóður nú þurfa að greiða minna eða meira með rekstri Íslandspósts eftir þessa ákvörðun?

Dreifum menningu og upplýsingum

Það er staðreynd að bréfapósti hefur fækkað mikið en það má ekki koma niður á þeirri þjónustu sem er þó enn nýtt. Það er mikilvægt hlutverk póstsins að tengja fólk, fyrirtæki og samfélög og veita þjónustu óháð staðsetningu. Að tengja saman fólk og samfélög er að miðla upplýsingum og fréttum það er m.a. gert með svæðisbundnum miðlum. Félagssamtök gefa einnig út blöð og bæklinga og svo ekki sé talað um blöðunga sem er dreift fyrir kosningar. Þar eru mikilvægar upplýsingar sem þurfa að komast til fólks.

Það er mikilvæg að dreifa gleðinni, upplýsingum og fréttum. Pósturinn hefur staðið sig vel í því hlutverki í aldir og það er mikilvægt að missa ekki sjónar af því. Pósturinn þarf líka að svara því hvað þessi ákvörðun skiptir miklu í rekstrarlegu tilliti og hvað sparast í útblæstri við ákvörðunina. Við hin getum alveg reiknað út hvað þetta þýðir í þjónustuskerðingu fyrir hinar dreifðu byggðir.

Halla Signý Kristjánsdóttir og Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmenn Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 9. janúar 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Lægri vextir eru stærsta kjarabótin

Deila grein

09/01/2024

Lægri vextir eru stærsta kjarabótin

Það hef­ur ekki dulist nein­um að há verðbólga og vext­ir hafa komið illa við fólk og fyr­ir­tæki á síðustu miss­er­um. Það er því til mik­ils að vinna að ná verðbólg­unni niður og skapa þannig skil­yrði fyr­ir lækk­un vaxta. Há verðbólga gerði vart við sig í kjöl­far heims­far­ald­urs­ins í fjöl­mörg­um ríkj­um með til­heyr­andi áskor­un­um fyr­ir hag­stjórn. Ísland fór ekki var­hluta af þeirri þróun í heims­bú­skapn­um þar sem hnökr­ar í aðfanga­keðjum, aukn­ar höml­ur og viðskipta­hindr­an­ir í alþjóðaviðskipt­um ásamt stríðsátök­um hafa fram­kallað mikl­ar áskor­an­ir fyr­ir stjórn efna­hags­mála og enn sér ekki fyr­ir end­ann á þeim.

Hér hef­ur há verðbólga hins veg­ar reynst þrálát­ari en í lönd­un­um í kring­um okk­ur, þó svo að hún hafi fram­an af mælst sú næst­lægsta í Evr­ópu.

Það er göm­ul saga en ekki ný að há verðbólga bitn­ar verst á þeim sem síst skyldi; þeim efnam­inni. Helsta keppikefli efna­hags­stjórn­ar­inn­ar hér­lend­is er að ná tök­um á verðbólg­unni. Hún hef­ur vissu­lega lækkað frá því að hún mæld­ist hæst 10,2% í fe­brú­ar­mánuði 2023, en í dag mæl­ist hún 7,7%. Sterk­ar vís­bend­ing­ar eru um að háir stýri­vext­ir Seðlabank­ans séu farn­ir að bíta en á ár­inu 2023 slógu þeir á inn­lenda eft­ir­spurn á sama tíma og mik­ill kraft­ur var í þjón­ustu­út­flutn­ingi, sem skýrðist aðallega af um­svif­um í ferðaþjón­ustu. Þá var sam­drátt­ur í einka­neyslu á þriðja árs­fjórðungi eft­ir nokkuð kröft­ug­an vöxt árs­fjórðung­ana þar á und­an. Hag­kerfið kom af mikl­um krafti út úr far­aldr­in­um og mæld­ist hag­vöxt­ur ríf­lega 7% á ár­inu 2022 og fór viðskipta­jöfnuður úr skorðum. Á þessu ári er spáð meira jafn­vægi í þess­um efn­um með tæp­lega 3% hag­vexti og já­kvæðum viðskipta­jöfnuði.

Næstu vik­ur skipta höfuðmáli í glím­unni við verðbólg­una en ör­lög verðbólguþró­un­ar­inn­ar eru nú að stór­um hluta í okk­ar eig­in hönd­um. Þar er stóra breyt­an kom­andi kjara­samn­ing­ar sem nú er unnið að. Þar mun ábyrgð, raun­sæi og góð sam­vinna rík­is og sveit­ar­fé­laga, Seðlabanka Íslands og aðila vinnu­markaðar­ins ráða úr­slit­um. Rík­is­stjórn­in stóð fyr­ir aðhalds­söm­um fjár­lög­um, þar sem Stjórn­ar­ráðið tek­ur á sig hvað mest aðhald. Það sama má segja um launa­hækk­un æðstu emb­ætt­is­manna rík­is­ins sem lækkuð var niður í 2,5%, sem kall­ast á við verðbólgu­mark­mið Seðlabank­ans og gjald­skrár­hækk­an­ir taka­markaðar við 3,5%. Með þessu vilja stjórn­völd leiða með góðu for­dæmi. Það hef­ur einnig verið já­kvætt að sjá fleiri sveit­ar­fé­lög draga úr boðuðum gjald­skrár­hækk­un­um, nú síðast Hvera­gerðis­bær sem mun hækka gjald­skrár um 2,5% í stað 8% eins og boðað hafði verið.

Í þessu verk­efni verða all­ir að leggja sitt af mörk­um enda mikið í húfi. Það er samt sem áður til­efni til bjart­sýni í ljósi þess já­kvæða tóns sem kveður við í samn­ingaviðræðum aðila vinnu­markaðar­ins. Það er mik­il­vægt að vinna áfram í þeim anda og stuðla að því að skrifað verði und­ir lang­tíma­kjara­samn­inga sem skapa hag­felld skil­yrði fyr­ir lækk­un verðbólgu og vaxta, en í því felst stærsta kjara­bót­in fyr­ir okk­ur öll.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 9. janúar 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Sam­vinnu­verk­efni um lægri verð­bólgu og vexti

Deila grein

08/01/2024

Sam­vinnu­verk­efni um lægri verð­bólgu og vexti

Jákvæður tónn var sleginn í kjaraviðræðum Samtaka atvinnulífsins og stærstu stéttarfélaga á almennum vinnumarkaði þegar sameiginleg yfirlýsing var send út nú rétt fyrir áramót. Í yfirlýsingunni er sérstaklega tiltekið mikilvægi þess að semja til lengri tíma svo auka megi fyrirsjáanleika og stöðugleika í efnahagslífinu. Þessi yfirlýsing er skynsamlegt innlegg í okkar mikilvægasta verkefni sem er að ná niður verðbólgu og háum vöxtum og hefur hvarvetna fengið jákvæð viðbrögð. Mesta kjarabótin fyrir fólk og fyrirtæki í landinu er óumdeilt að ná niður vöxtum.

Það er svo sannarlega ánægjulegt að finna hversu rík samstaða er á meðal aðila vinnumarkaðsins í þessu stóra verkefni því hér er enginn eyland ef svo má segja, heldur þurfa allir aðilar að taka þátt, allt samfélagið og þá gildir einu hvort horft sé til aðildarfyrirtækja SA, ríkis eða sveitarfélaga; allir þurfa að ganga í takt og sameinast um þetta mikilvæga verkefni svo vel takist til. Þetta finna allir og með jákvæðu viðhorfi til verkefnisins eru auknar líkur á að markmið okkar takist. Haldi þessi taktur áfram er nokkuð víst að við munum ná tökum á vöxtum og verðbólgu á þessu ári.

Hvað þarf til?

Það er til mikils að vinna að lenda farsælum langtímakjarasamningum. Þó svo að ríkisstjórnin eigi ekki formlega aðkomu að kjarasamningsgerðinni hafa aðilar vinnumarkaðarins kallað eftir því að stjórnvöld liðki fyrir gerð kjarasamninga. Verkalýðshreyfingin krefst þess að ríkið auki útgjöld sín til barna-, húsnæðis- og vaxtabóta um 20-25 milljarða króna. Stjórnvöld hafa líkt og áður ríkan vilja til þess að koma að kjaraviðræðum með einhverjum hætti. Horfa má til þess að ríkisstjórnin hefur nú þegar komið inn með aðgerðir á húsnæðismarkaði þegar kemur að almennum íbúðum og veitingu hlutdeildarlána til kaupa á hagkvæmu húsnæði, en aðra hópa þarf nú að taka inn. Stjórnvöld hafa markvisst verið að auka framboð af húsnæði fyrir tekju- og eignaminni fjölskyldur og einstaklinga ásamt því að hækka húsaleigubætur. Þá hafa barnabætur hækkað og unnið er að fyrirkomulagi á greiðslu samtíma barnabóta.

Þessu til viðbótar er nauðsyn á samstilltu átaki þegar kemur að verð- og gjaldskrárhækkunum í samfélaginu en þar hefur ríkið stigið nokkuð varfærin skref á meðan sveitarfélögin mörg hver stigu stærri og verri skref. Það er þó jákvætt að heyra síðustu daga forystufólk hinna ýmsu sveitarfélaga taka jákvætt í þátttöku í þessu mikilvæga samvinnuverkefni og boða gjaldskrárlækkanir sem innlegg í gerð skynsamlegra langtímakjarasamninga. Gerum þetta saman, það er allra hagur.

Ágúst Bjarni Garðarsson, þingmaður Framsóknar í Suðvesturkjördæmi og 1. varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis.

Greinin birtist fyrst á visir.is 7. janúar 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Horfur í heimsbúskapnum 2024 og íslenska hagkerfið

Deila grein

06/01/2024

Horfur í heimsbúskapnum 2024 og íslenska hagkerfið

Heims­bú­skap­ur­inn stend­ur á mik­il­væg­um tíma­mót­um um þess­ar mund­ir eft­ir tals­verðan darraðardans und­an­far­in fjög­ur ár. Mikl­ar vend­ing­ar hafa orðið í alþjóðahag­kerf­inu á þeim tíma sem á einn eða ann­an hátt hafa snert öll ríki í heim­in­um. Heims­far­ald­ur, hnökr­ar í aðfanga­keðjum, aukn­ar höml­ur og viðskipta­hindr­an­ir í alþjóðaviðskipt­um ásamt stríðsátök­um hafa þannig fram­kallað stór­ar áskor­an­ir fyr­ir stjórn efna­hags­mála og enn er ekki séð fyr­ir end­ann á þeim. Þrátt fyr­ir þetta eru góð teikn á lofti með hækk­andi sól.

Já­kvæð þróun í heims­bú­skapn­um …

Það er ánægju­legt að sjá vís­bend­ing­ar um að áhrif fyrr­nefndra at­b­urða séu í rén­un. Þannig hef­ur verg heims­fram­leiðsla tekið bet­ur við sér en bú­ist var við og mæld­ist á þriðja árs­fjórðungi 2023 rúm­lega 9% meiri en fyr­ir heims­far­ald­ur, sam­kvæmt alþjóðlegri sam­an­tekt Fitch Rat­ings.

Það er einkum þrennt sem skýr­ir þessa þróun. Í fyrsta lagi hef­ur hin alþjóðlega aðfanga­keðja náð betra jafn­vægi eft­ir heims­far­ald­ur­inn, ásamt því að fyr­ir­tæki í Evr­ópu hafa getað brugðist bet­ur við verðhækk­un­um á orku frá Rússlandi en leit út fyr­ir í fyrstu.

Í öðru lagi hef­ur verðbólga hjaðnað hraðar en fyrstu spár bentu til. Verðbólga á heimsvísu var 8,9% í fyrra og spáð er að hún verði kom­in niður í 5,1% í árs­lok 2024. Hrávara hef­ur verið að lækka en óstöðugt orku­verð held­ur áfram að vera áskor­un. Verðbólga í mat­væl­um, allt frá hveiti til eld­unar­ol­íu, hef­ur hjaðnað.

Í þriðja lagi hafa vænt­ing­ar markaðsaðila verið mikl­ar um að alþjóðleg­ir vext­ir fari að lækka, sem myndi óneit­an­lega létta und­ir með heim­il­um og fyr­ir­tækj­um. Þetta er að ger­ast þrátt fyr­ir fall svæðis­bund­inna banka í Banda­ríkj­un­um og fall Cred­it Suis­se sem vakti áhyggj­ur um fjár­mála­stöðug­leika. Á und­an­förn­um vik­um hafa fjár­mála­markaðir tekið veru­lega við sér. Þannig voru helstu vísi­töl­ur ná­lægt eða náðu nýj­um met­hæðum í lok árs 2023 og birt­ist það jafn­framt í sterkri stöðu skulda­bréfa­markaða.

Í Banda­ríkj­un­um eru all­ar lík­ur á að hag­kerfið nái mjúkri lend­ingu á þessu ári. Þannig tók banda­ríska hag­kerfið kröft­ug­lega við sér og virðist lítið lát þar á þrátt fyr­ir um­tals­verðar vaxta­hækk­an­ir, en vinnu­markaður og eft­ir­spurn í land­inu fór fram úr vænt­ing­um. Þannig voru hag­töl­ur fyr­ir þriðja árs­fjórðung vest­an­hafs mun sterk­ari en flest­ir markaðsaðilar gerðu var ráð fyr­ir, en um mitt síðasta ár var það ein­róma skoðun sér­fræðinga að vaxta­hækk­an­ir myndu leiða til stöðnun­ar á þessu ári.

Í Evr­ópu hef­ur vöxt­ur­inn verið minni, en þar setti orkukreppa strik í reikn­ing­inn. Þar hef­ur þó ríkt nokk­ur upp­gang­ur þrátt fyr­ir vaxta­hækk­an­ir. Hins veg­ar hafa ný­leg­ar töl­ur bent til stöðnun­ar eða sam­drátt­ar m.a. í Þýskalandi og er það áhyggju­efni fyr­ir evru­svæðið. Ný­markaðsríki og fá­tæk­ari lönd virðast koma bet­ur und­an áföll­um síðustu ára en nokk­ur þorði að vona, en bú­ist var við greiðslu­erfiðleik­um í kjöl­far far­ald­urs­ins og vaxta­hækk­ana í Banda­ríkj­un­um.

… en blik­ur halda áfram að vera á lofti

Alþjóðlega efna­hags­kerfið stend­ur engu að síður á mik­il­væg­um tíma­mót­um. Heims­bú­skap­ur­inn mót­ast af sam­spili stjórn­mála­legra og efna­hags­legra áhrifa. Síðustu miss­eri hafa ein­kennst af spennu á milli stór­velda og al­var­leg­um svæðis­bundn­um átök­um í Úkraínu, Mið-Aust­ur­lönd­um og Afr­íku. Í sam­skipt­um stór­velda skap­ar umrót á banda­lög­um áhættu fyr­ir heims­bú­skap­inn. Meðal helstu svæða sem horft er til eru Aust­ur-Evr­ópa, Mið-Aust­ur­lönd og Suður-Kína­haf, þar sem at­b­urðir á þess­um svæðum gætu mögu­lega raskað aðfanga­keðjum á ný, haft áhrif á viðskipta­stefnu og grafið und­an efna­hags­leg­um stöðug­leika í heims­bú­skapn­um.

Hag­vöxt­ur í Kína hef­ur verið und­ir vænt­ing­um eft­ir los­un covid-hafta og kunna þar að vera á ferðinni kerf­is­læg vanda­mál eft­ir mik­inn vöxt und­an­farna ára­tugi. Það er áhyggju­efni fyr­ir heims­bú­skap­inn þar sem Kína er með stærstu ríkj­um. Á sama tíma þarf að fást við lýðfræðileg­ar breyt­ing­ar í stór­um lönd­um þar sem ald­ur íbúa fer vax­andi. Á síðasta ári spratt fjórða iðnbylt­ing­in fram í öllu sínu veldi meðal ann­ars með gervi­greind­inni. Í því fel­ast gríðarleg tæki­færi en að sama skapi áskor­an­ir sem ríki heims verða að ná utan um í sam­ein­ingu. Þessu tengt er staða fjöl­miðla áfram erfið og hætta á að upp­lýs­inga­óreiða kunni að hafa áhrif á fram­vindu stjórn­mála og lýðræðis.

Síðustu vik­ur hafði ríkt bjart­sýni um að verðbólga væri í rén­un og að vext­ir yrðu lækkaðir hratt beggja vegna Atlantsála sem eins og áður seg­ir mátti greina á mikl­um upp­gangi skulda- og hluta­bréfa­markaða. Á allra síðustu dög­um hafa von­ir um hraða lækk­un vaxta hins veg­ar dvínað og má bú­ast við því að ekki hafi verið full inn­stæða fyr­ir þeirri bjart­sýni sem ríkt hef­ur á mörkuðum og lengri tíma gæti tekið að ná verðbólg­unni í mark­mið en markaðsaðilar hafa reiknað með, og gæti það sett strik í reikn­ing­inn varðandi hag­vöxt á þessu ári. Stjórn­völd og seðlabank­ar standa því enn frammi fyr­ir þeirri áskor­un að tak­ast á við að skapa jafn­vægi í ein­stök­um lönd­um í kjöl­far far­ald­urs­ins.

Þró­un­in hér­lend­is í okk­ar eig­in hönd­um

Ísland hef­ur ekki farið var­hluta af fyrr­nefnd­um darraðardansi í heims­bú­skapn­um. Hér hef­ur há verðbólga hins veg­ar reynst þrálát­ari en í lönd­un­um í kring­um okk­ur, þó svo að hún hafi fram­an af mælst sú næst­lægsta í Evr­ópu. Hef­ur þetta meðal ann­ars birst okk­ur í hækk­andi stýri­vöxt­um sem eru helsta stjórn­tæki Seðlabanka Íslands gagn­vart verðbólgu.

Á ár­inu 2023 slógu hækk­andi stýri­vext­ir á inn­lenda eft­ir­spurn á sama og mik­ill kraft­ur var í þjón­ustu­út­flutn­ingi, sem skýrðist aðallega af um­svif­um í ferðaþjón­ustu. Sam­drátt­ur varð í einka­neyslu á þriðja árs­fjórðungi eft­ir nokkuð kröft­ug­an vöxt árs­fjórðung­ana þar á und­an. Spáð er að jafn­vægi ná­ist í viðskipt­um við út­lönd sem sag­an kenn­ir okk­ur að sé mik­il­vægt fyr­ir þjóðarbúið. Það skipt­ir miklu máli að út­flutn­ings­grein­arn­ar verði ekki fyr­ir frek­ari áföll­um, en jarðhrær­ing­ar á Reykja­nesskaga fela vissu­lega í sér áskor­un. Gríðarleg­ar út­flutn­ings­tekj­ur eru skapaðar í Grinda­vík og ná­grenni! Hag­vaxt­ar­horf­ur sam­kvæmt spám eru ásætt­an­leg­ar eft­ir mik­inn vöxt 2022 og 2023. Brýn­asta hags­muna­mál þjóðfé­lags­ins er að ná niður verðbólgu og vöxt­um en það er mesta kjara­bót­in fyr­ir fólk og fyr­ir­tæki í land­inu. Þó svo að Ísland sé ekki ónæmt eyríki í alþjóðahag­kerf­inu hvíla ör­lög verðbólguþró­un­ar­inn­ar nú að stór­um hluta í okk­ar eig­in hönd­um. Þar mun ábyrgð, raun­sæi og góð sam­vinna rík­is og sveit­ar­fé­laga, Seðlabanka Íslands og aðila vinnu­markaðar­ins ráða úr­slit­um.

Rík­is­stjórn­in hef­ur kynnt aðhalds­samt fjár­laga­frum­varp, þar sem Stjórn­ar­ráðið tek­ur á sig hvað mest aðhald. Það sama má segja um launa­hækk­un æðstu emb­ætt­is­manna rík­is­ins sem lækkuð var niður í 2,5%, sem kall­ast á við verðbólgu­mark­mið Seðlabank­ans og gjald­skrár­hækk­an­ir tak­markaðar við 3,5%. Með þessu vilja stjórn­völd leiða með góðu for­dæmi. Hag­felld­ir kjara­samn­ing­ar til langs tíma munu ráða miklu um þróun verðbólg­unn­ar.

Það gleður mig að sjá þá breiðu sam­stöðu og þann já­kvæða tón sem kveður við í samn­ingaviðræðum aðila vinnu­markaðar­ins, enda er mikið í húfi fyr­ir okk­ur öll. Sé rétt haldið á spil­un­um er ég bjart­sýn á að við mun­um sjá verðbólgu og vexti lækka tals­vert á ár­inu 2024, sem mun gera okk­ur bet­ur í stakk búin til þess að halda áfram þeirri lífs­kjara­sókn sem við vilj­um sjá í land­inu.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 6. janúar 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Við höfum öll þörf fyrir að tjá okkur

Deila grein

05/01/2024

Við höfum öll þörf fyrir að tjá okkur

Táknmál er talað af fólki um víða veröld og er mál þeirra sem heyra illa eða ekkert og geta þess vegna ekki átt í samskiptum með hljóðum.

Táknmál er ekki alþjóðlegt heldur eru mörg táknmal til í heiminum. Þau eru mjög lifandi og hafa þróast hvert og eitt með sínum hætti rétt eins og raddmál hafa gert.

Íslenskt táknmál er fyrsta mál þeirra sem þurfa að reiða sig á það til tjáningar og samskipta og barna þeirra. Þannig er íslenskt táknmál er eina hefðbundna minnihlutamálið á Íslandi og eina málið sem á sér lagalega stöðu utan íslenskrar tungu, líkt og kemur fram í lögum um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls. Á Íslandi er orðið döff notað um heyrnarlaust fólk sem talar táknmál, en það að vera döff er það að er að líta á táknmál sem sitt fyrsta mál og tilheyra samfélagi heyrnarlausra.

Það er skylda íslenskra stjórnvalda að hlúa að íslensku táknmáli og styðja við það, en hver sem hefur þörf fyrir táknmál skal eiga þess kost að læra og nota íslenskt táknmál, jafnskjótt sem máltaka hefst eða frá þeim tíma sem heyrnarleysi eða heyrnarskerðing hefur greinst. Sama rétt eiga nánustu aðstandendur.

Í gær kynnti ég þingsályktun og aðgerðaáætlun í málstefnu íslensks táknmáls sem unnið hefur verið að í ráðuneyti menningarmála og boðuð var í þingsályktun frá árinu 2019 um að efla íslensku sem opinbert mál á Íslandi. Málstefnan, sem er sú fyrsta fyrir íslenskt táknmál, tekur til sex meginstoða sem skipta máli fyrir málstefnu minnihlutamálsins og áhersluþætti innan hverrar meginstoðar, en þær eru: máltaka táknmálsbarna, rannsóknir og varðveisla, jákvætt viðhorf, fjölgun umdæma íslensks táknmáls og lagaumhverfi. Meðfylgjandi aðgerðaáætlun inniheldur aðgerðir sem miðast við að koma þurfi til framkvæmda á næstu þremur árum og hafa stjórnvöld nú þegar tryggt fjármuni til að fylgja þeirri áherslu eftir.

Ég er stolt af þessum áfanga og þakklát öllum þeim sem tóku þátt í vinnunni, en í starfshóp sem vann drög að málstefnu íslensks táknmáls áttu sæti áttu sæti fulltrúar Málnefndar um íslenskt táknmál, Félags heyrnarlausra og Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra sem áttu í samráði við táknmálssamfélagið. Íslenskt táknmál er órjúfanlegur hluti af samfélaginu okkar enda höfum við öll þörf fyrir að eiga í samskiptum og tjá okkur um lífið og tilveruna, hvort sem um er að ræða heyrnarlausa eða heyrandi. Ég hlakka til að vinna enn frekar að því að efla íslenskt táknmál og tryggja stöðu þess til framtíðar.

Hér má finna táknmálstúlkun á þingsályktun um málstefnu íslensks táknmáls 2024-2027 og aðgerðaáætlun henni tengdri.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar

Greinin birtist fyrst á visir.is 5. janúar 2024.

Categories
Greinar

Fjölskylduvænt samfélag

Deila grein

02/01/2024

Fjölskylduvænt samfélag


Þann 13. desember sl. var samþykkt á bæjarstjórnarfundi Suðurnesjabæjar fjárhagsáætlun fyrir árið 2024.

Sjá má skýrt að áhersla er lögð á stuðning við barnafjölskyldur og er það í samræmi við þau markmið sem Framsókn hefur lagt upp með frá kosningum. Mikilvægt er að hér sé vænlegt að búa og er stuðningur við barnafjölskyldur þáttur í því að laða að fjölskyldufólk í sveitarfélagið. Mikilvægt skref sem var tekið þegar niðurgreiðsla á máltíðum nemenda í grunnskólum Suðurnesjabæjar var aukin úr 50% í 60% ásamt því að innleiddur var fjölskylduafsláttur sem þýðir að gjaldfrjálst verður fyrir börn frá sömu fjölskyldu umfram tvö börn. Það gerir börnum kleift á jafnari aðgang að heitri máltíð í hádeginu. Heit máltíð í hádeginu tryggir m.a. að börn fái mikilvæga næringu og orku, en holl og góð næring er grunnþáttur í þroska barna og ungmenna og mikilvæg fyrir vöxt og þroska. Þannig er verið að lækka greiðslubyrði á fjölskyldur er kemur að kostnaði vegna hádegismatar fyrir börn sem gefur aukið svigrúm fyrir fjölskyldur til að ráðstafa fé sínu í annað sem nýtist þeim.
Einnig má nefna að hækkaðar hafa verið umönnunarbætur fyrir foreldra sem ekki nýta dagvistun hjá dagforeldrum. Sú upphæð hækkar úr 45 þúsund krónum upp í 100 þúsund krónur fyrir hvern mánuð.

Greiðslunum er háttað með þeim hætti að fyrsta greiðsla er að loknum réttindum til fæðingarorlofs og greiddar þar til barn fær inngöngu í leikskóla eða verður tveggja ára. Hér er skref tekið til að brúa bilið sem oft kemur til eftir að fæðingarorlofi lýkur og þar til að barn fær inngöngu í leikskóla. Mikilvægt er að gera foreldrum kleift á að vera heima með börnum sínum fyrstu tvö árin ef þess er kosið og er þetta mikil framför í þeim efnum. Þá er niðurgreiðsla dagvistunargjalda hjá dagforeldrum hækkuð.

Eftir að barn hefur náð 18 mánaða aldri er niðurgreiðsla hækkuð úr 80 þúsund í 112 þúsund á mánuði m.v. átta klst. vistun þar til að barni verður boðin innganga í leikskóla. Allt eru þetta mikilvægir þættir í því að styðja við barnafjölskyldur og á sama tíma eins og hefur komið fram brúa bilið sem oft reynist erfitt eftir að fæðingarorlofi lýkur.

Við í Framsókn erum gríðarlega stolt af þessum breytingum og munum halda áfram að styðja við og stuðla að því að í Suðurnesjabæ er gott að búa.

Úrsúla María Guðjónsdóttirbæjarfulltrúi Fram­sókn­ar í Suður­nesja­bæ og formaður fræðsluráðs.

Categories
Fréttir Greinar

Jarðvegur fyrir framfarir

Deila grein

30/12/2023

Jarðvegur fyrir framfarir

Kæri lesandi.

Í hillu norður í Reykjadal rakst ég á kvæði eftir Huldu, Unni Benediktsdóttur Bjarklind. Kvæðið heitir Mold og birtist í bókinni Segðu mér að sunnan sem kom út árið 1920. Þetta er afar fallegt kvæði, lofsöngur um mold og líf, sem á vel við að rifja upp á þessum kaldasta tíma ársins þegar sól er byrjuð að hækka á lofti á ný.

Þú dökka, raka, mjúka mold,

sem mildi sólar hefur þítt.

Hve ann ég þér, hve óska ég mér,

að um þig streymi sumar nýtt.

Við þekkjum öll mikilvægi moldarinnar, ekki síst við sem búum í sveitum landsins. Moldin er tákn mildi og umhyggju og um leið tákn um vöxt.

Öflugt starf að umbótum

Hlutverk stjórnvalda er ekki síst fólgið í því að skapa frjóan jarðveg til að upp fólk geti nýtt hæfileika sína til að skapa sér og samfélaginu verðmæti. Þau verðmæti geta bæði verið veraldleg og andleg. Oft eru þau hvort tveggja eins og við sjáum á þeirri miklu sókn sem íslensk list er í, bæði hér á landi og erlendis. Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra hefur lagt mikla áherslu á að skapa list og menningu góða umgjörð auk þess sem hún hefur unnið að framtíðarstefnu fyrir ferðaþjónustu og undirstrikað mikilvægi neytendamála. Willum Þór Þórsson, heilbrigðisherra hefur lagt áherslu á að styrkja heilbrigðiskerfið og meðal annars náð samningum við sérfræðilækna og með aðstoð einkaframtaksins náð að lina þjáningar þeirra sem beðið hafa eftir liðskiptum og aðgerðum vegna endómetríósu. Ásmundur Einar Daðson hefur haldið áfram góðum störfum sínum í þágu barna auk þess að hlúa að íþróttastarfi, ekki síst með nýrri afreksstefnu. Þær umbætur sem orðið hafa á vakt þessara dugmiklu ráðherra eiga það sameiginlegt að skapa aðstæður til aukins vaxtar, aðstæður sem gera fólki kleift að springa út.

Nýtt ráðuneyti sannar sig

Innviðaráðuneytið á tveggja ára afmæli um næstu mánaðamót. Með nýju ráðuneyti voru sameinuð undir einum hatti svið samgangna, sveitarstjórnarmála, byggðamála, húsnæðismála og skipulagsmála. Með þessu viðamikla ráðuneyti hefur náðst betri sýn yfir þessa mikilvægu málaflokka og síðast en ekki síst meiri samhæfing. Fyrr í haust lagði ég fyrir þingið stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga sem hefur verið samþykkt. Auk þess lagði ég fyrir þingið samgönguáætlun, landsskipulagsstefnu og húsnæðisstefnu sem allar eru til umfjöllunar í nefndum þingsins. Það sem af er þingi hafa sex frumvörp innviðaráðherra orðið að lögum, þar á meðal lög sem hafa í för með sér nauðsynlega úrbætur í brunavörnum og lög um hagkvæmar íbúðir.

Hlúa þarf að landbúnaði

Landbúnaður er ekki aðeins mikilvæg atvinnugrein fyrir okkur á Íslandi. Landbúnaður er hluti af menningu okkar og varðveitir stofna búfjár og gróðurs og er samtvinnaður menningu okkar frá landnámi. Landbúnaðurinn hefur átt undir högg að sækja vegna aukinnar samkeppni við ódýrar afurðir sem fluttar eru hingað um langan veg frá löndum sem búa oft við lægri laun. Óhagstætt vaxtaumhverfi sem aukin verðbólga hefur leitt af sér hefur einnig lagst þungt á bændur. Ungir bændur hófu upp öfluga raust sína á haustmánuðum til að benda á þessar erfiðu aðstæður. Ríkisstjórnin brást við með aðgerðum sem leggja áherslu á nýliðun og kynslóðaskipti með aðstoð við yngri bændur. Það er þó ekki nóg. Við þurfum að horfa til framtíðar og rífa greinina upp úr hjólförum sem mótuð eru af afskiptaleysi og skort á skilningi á ákveðnum sviðum í íslensku samfélagi.

Lægri vextir eru stórt hagsmunamál

Árið 2023 hefur ekki verið dans á rósum. Við höfum þurft að takast á við verðbólgu sem hefur í för með sér hærri vexti sem leggjast illa á heimili og fyrirtæki. Við sjáum þó að aðgerðir stjórnvalda eru farin að hafa áhrif nú í lok árs. Ábyrg fjárlög skipta þar miklu máli. Einnig er ánægjulegt að sjá að aðilar vinnumarkaðarins ganga fram með það að markmiði að verðbólga lækki. Það er ljóst að stærsta hagsmunamál heimila og fyrirtækja er að vextir lækki og gott að náðst hafi samstaða þar um. Ríkisstjórnin mun leggja sitt a f mörkum til að skapa umgjörð sem stuðlar að skynsamlegum kjarasamningum en þó leggja áherslu á að kjarasamningar eru á ábyrgð samningsaðila.

Við stöndum með Grindvíkingum

Þær hamfarir sem dunið hafa yfir í næsta nágrenni Grindavíkur eru þó sá atburður sem er mér efst í huga á þeim tímamótum sem áramót eru. Enginn er ósnortinn af þeirri hugprýði og því æðruleysi sem Grindvíkingar hafa sýnt við erfiðar aðstæður. Það er erfitt að gera sér í hugarlund tilfinninguna að þurfa að yfirgefa heimili sitt um lengri tíma vegna umbrota í náttúrunni. Oft er sagt að óvissan sé versti óvinurinn og það er svo sannarlega satt þegar horft er til Grindavíkur. Vísindin og okkar öfluga fólk sem þau stunda eru okkur mikil stoð þegar kemur að hamförum eins og þeim sem dunið hafa yfir en meira að segja þau geta ekki sagt með fullri vissu til um hvað framtíðin ber í skauti sér.

Innviðaráðuneytið hefur lagt sitt af mörkum til að tryggja húsnæði fyrir sem flesta Grindvíkinga, meðal annars með kaupum Bríetar leigufélags á 80 íbúðum sem grindvískar fjölskyldur hafa nú þegar fengið lyklana að eða fá á næstu dögum. Samvinna stjórnarráðsins við yfirvöld í Grindavík hefur verið þétt frá byrjun og verður það áfram svo lengi sem þörf er á.

Fimmtíu ár eru síðan íbúar heils byggðarlags þurftu að yfirgefa heimili sín. Við þessar aðstæður er skylda okkar sem samfélags að standa þétt við bakið á Grindvíkingum. Vonandi getum við brátt séð lengra fram í tímann svo daglegt líf lifni að nýju í Grindavík, þessu öfluga bæjarfélagi.

Þörf fyrir græna uppbyggingu

Náttúran getur verið grimm en hún er einnig gjöful. Það vitum við á Íslandi sem byggt höfum velsæld okkar á gæðum náttúrunnar, hvort sem það er í landbúnaði, sjávarútvegi, ferðaþjónustu eða með orkunni sem veitir heimilum okkar yl og ljós. Við gerum okkur betur ljós fyrir mikilvægi orkuvinnslu þegar hætta steðjar að. Reistir hafa verið varnargarðar um Svartsengi vegna þeirrar mikilvægu starfsemi þar sem fer fram og tryggir Reykjanesinu öllu hita og birtu. Ísland væri ansi fátækt og mannlífið fátæklegt ef ekki væri fyrir framsýni fyrri kynslóða með raf- og hitaveituvæðingu. Við stöndum framar flestum þjóðum þegar kemur að grænni orku. Það er þó ljóst að ráðast verður í skynsamlega virkjanakosti til að viðhalda lífsgæðum á Íslandi, virkjanakosti sem ganga ekki um of á stórkostlega náttúru okkar. Ábyrg uppbygging verður að eiga sér stað á næstu árum.

Kæri lesandi.

Síðustu áramót voru yfirskyggð af stríði í Úkraínu. Það stríð geisar enn. Ári síðar kveðjum við árið 2023 í skugga annars skelfilegs stríðs fyrir botni Miðjarðarhafs. Hjörtu okkar Íslendinga hafa lengið fundið til með Palestínumönnum. Steingrímur Hermannsson hneykslaði einhverja ráðamenn á Vesturlöndum þegar hann átti fund með Yasser Arafat, leiðtoga Palestínumanna, fyrir margt löngu en vakti með því athygli á aðstæðum þeirra. Ísland varð síðar eitt fyrsta ríkið til að viðurkenna sjálfstætt ríki Palestínu. Við hljótum öll að sameinast í bæn um frið.

Við sem búum á Íslandi getum verið þakklát fyrir friðinn sem ríkir á Íslandi. Þakklát fyrir þá samheldni sem einkennir okkur þegar á bjátar. Þakklát fyrir þann jarðveg sem við erum sprottin upp úr. Ég óska ykkur öllum gleðilegs árs og farsældar á árinu 2024 og lýk þessum pistli á orðum Huldu:

Þú byrgir hjörtu, hljóð og köld,

við hjarta þitt, sem fallin strá.

Þér fólu eilíf, óþekkt völd

að endurskapa jarðlíf smá.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 30. desember 2023.

Categories
Greinar

Þakkir fyrir liðið ár

Deila grein

30/12/2023

Þakkir fyrir liðið ár

Það er ávallt sérstök stund í lok árs hvers árs að setjast niður og hugsa um árið sem er að líða, má segja að árið í ár hafi verið viðburðaríkt og verkefnin fjölbreytt.

Stóra áskorunin hefur verið og verður áfram að vinna að auknum stöðugleika með því að vinna bug á verðbólgu og ná niður vaxtastigi. Má segja að takist það náist mesta kjarabótin fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu.

Framsókn hefur alltaf lagt áherslu á jöfnun búsetuskilyrða um land allt og þar spila samgöngumál mikilvægt hlutverk. Góðar samgöngur eru forsenda byggðar, hvort sem um er að ræða aukið öryggi á vegum, styttingu vegalengda eða tengingu atvinnusvæða.

Við missum ekki sjónar á mikilvægi heilbrigðiskerfisins okkar en efling þjónustu á landsbyggðinni vegur þungt þegar kemur að lífsgæðum og hagsæld. Samningar við sérfræðilækna, stytting biðlista fyrir liðskipti, aðgerðir vegna endómetríósu og hækkun framlags ríkisins til tannréttinga barna eru á meðal nýrra áfanga sem náðust á árinu.

Fjölmörg tækifæri

Fjárlög komandi árs gefa góða mynd af stöðu efnahagsmála, en þau miða að því að auka fjármagn til tiltekinna verkefna á sama tíma og gætt er aðhalds til þess að auka ekki frekar við þenslu og verðbólgu.

Við höfum fjölmörg tækifæri til að búa okkur gott samfélag, við búum við lítið atvinnuleysi, höfum öflug atvinnulíf. Engu að síður verður að halda að byggja upp innviði, fjölga íbúðum og tryggja húsnæðisöryggi.

Efling ferðaþjónustunnar hér á Norðurlandi eystra hefur verið mikil enda tækifærin fjölmörg.  Mikilvægt er að halda áfram uppbyggingu flugvallanna á Akureyri og Egilsstöðum. Nú líður að því að tekin verður í notkun bætt aðstaða innan flugvallarins á Akureyri sem innviðaráðherra Sigurður Ingi hefur unnið ötullega að undanfarin ár, að ógleymdri stækkun flughlaðsins auk þess sem unnið er að því að bæta aðflug og tengingu við svokallað EGNOS kerfi.

Koma EasyJet til Akureyrar hefur opnað möguleika á svæðinu, aukið lífsgæði íbúa og má því segja að það sé bjart framundan hvað varðar frekari uppbyggingu ferðaþjónustu í kjördæminu. Í þessu samhengi má ekki gleyma þeirri braut sem Niceair ruddi.

Öflugri þjónusta

Við í Framsókn höfum lagt ríka áherslu á að grunnþjónusta heilsugæslunnar sé efld enn frekar og sjáum við nú fram á opnun nýrrar heilsugæslustöðvar sem og fjölgun hjúkrunarrýma í bænum. Þá höfum við tækifæri til þess að styrkja heilbrigðisþjónustu á svæðinu með því að efla enn frekar Sjúkrahúsið á Akureyri. Sjúkrahúsið hefur kallað eftir frekari verkefnum tengdum háskólasjúkrahúsi enda hefur starfsfólkið þar dýrmæta þekkingu og getu til að miðla áfram. Ef af verður opnast frekari tækifæri fyrir öflugt starf innan SAk, sem er leitt áfram af einstöku fagfólki.  

Áframhaldandi umbætur

Í desember var til umræðu í þinginu frumvarp sem á að tryggja forgang raforku til heimila og lítilla fyrirtækja sem er afar brýnt og ég hef ítrekað rætt á undanförnum árum. Umfjöllun um málið verður haldið áfram á nýju ári.  

Huga þarf að nýtingu flutningskerfis raforku svo hægt sé að nýta betur þá orku sem þegar er til í landinu en einnig þurfum við að ákveða hversu mikillar orku við áætlum að þjóðin þurfi m.t.t. fjölgunar, meiri framleiðslu og ekki síst vegna orkuskipta og setja fram áætlun um hvernig við ætlum að afla þeirrar orku.

Bændur hafa kallað eftir framtíðarsýn í landbúnaði og aðgerðum til að bregðast við stöðu atvinnugreinarinnar. Með bráðaaðgerðum í lok árs voru lagðar inn 2.3 milljarðar í greinina, til þeirra er verst standa. Við í Framsókn höfum talað fyrir því að meira þurfi til. Möguleikar á endurfjármögnun lána til langs tíma, hlutdeildarlán til nýliða, endurskoðun tolla, raforkuverð og fleira til að skapa bændum möguleikann á sjálfbærum atvinnurekstri.

Samtal lykill að samstöðu

Á komandi ári eru mikilvægar kjaraviðræður þar sem framtíðarsýn og aðkoma margra aðila er nauðsynleg svo að tilætlaður árangur náist, aukin hagsæld og fjármálaöryggi fyrir landsmenn alla.  Það er mikilvægt að allir standi saman að auknum stöðugleika, finni jafnvægi í þeim mikilvægu samræðum sem fram undan eru.

Að lokum vil ég þakka fyrir samtöl og samstarfið á árinu. Það eru forréttindi að fá að starfa fyrir kjördæmið, það geri ég best með því að eigi í opnum og góðum samskiptum við ykkur öll.  

Með þökkum fyrir liðin ár óska ég ykkur öllum gæfu og góðs gengis á nýju ári.

Ingibjörg Isaksen, fyrsti þingmaður Norðausturkjördæmis og þingflokksformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á vikubladid.is 29. desember 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Kvennakraftur í Framsókn

Deila grein

29/12/2023

Kvennakraftur í Framsókn

Það er ánægjulegt að líta yfir árið sem senn er að líða og sjá og finna hve hópur Kvenna í Framsókn er vel skipaður og öflugur. Fjölbreytt fræðslukvöld og viðburðir á vegum félagsins á árinu 2023 hafa verið vel sóttir, gagnlegir og samveran gefandi. Mikil virkni og kraftur er meðal Kvenna í Framsókn og aldrei hafa fleiri konur leitt lista flokksins og setið í sveitarstjórnum á landsvísu. Þennan góða árangur kvenna sem náðst hefur má þakka góðri liðsheild og trausti. Við vitum að framlag okkar og frammistaða muni leiða til árangurs fyrir heildina og það skiptir höfuðmáli.

Sameiginleg markmið

Hvati kvenna til að starfa innan Framsóknar er sprottinn af áhuga og eldmóð fyrir velferð fólks, betri lífskjörum og öflugu atvinnulífi í samfélögum um allt land. Konur í Framsókn starfa á ólíkum vettvangi um allt land og það er ánægjulegt að verða vitni að því hversu vakandi þær eru gagnvart ólíkum hugmyndum og sjónarmiðum og skilja mikilvægi þess að geta sett sig í spor annara. Við hlustum og vinnum málin áfram með það að markmiði að gera gott samfélag betra fyrir alla. Öll höfum við eitthvað fram að færa og þannig höfum við í gegnum tíðina náð sameiginlegum markmiðum og skapað traust. Getan til þess að hlusta og sjá að við erum ekki einsleitur hópur er gríðarlega mikilvægur þáttur í stjórnmálastarfi.

Hlutdeild kvenna í stjórnmálum er enn aðeins um 20% á heimsvísu og örfáir þjóðhöfðingjar heims eru konur. Þrátt fyrir að umhverfi stjórnmálanna sé almennt talið karllægt þá höfum við náð ákveðnum árangri með að brjótast úr því umhverfi hér á landi og mikilvægt er að okkur fari ekki aftur í þeim efnum. Því skiptir máli að raddir kvenna heyrist alla daga. Þá er reynsla kvenna úr stjórnmálum jafnframt besti vitnisburðurinn um stöðuna hér á landi og hvatning og innblástur fyrir næstu kynslóðir kvenna. Sérhver kona sem eitt sinn var stúlka kannast við að hafa speglaði sig í kvenfyrirmyndum. Það eru fyrirmyndirnar sem geta skipt sköpum þegar stígið er inn á svið stjórnmálanna. Heilsteyptar fyrirmyndir með gott siðferði og dómgreind skapa jarðveg fyrir komandi kynslóðir kvenna.

Það búa ekki allir við sömu forréttindi

Einn eftirminnilegasti dagur ársin var 24. október s.l. þegar um hundraðþúsund manns mættu á Arnarhól og samkomur um allt land til þess að taka þátt í Kvennaverkfallsdeginum. Þar varð þjóðinn og heimurinn vitni að stórkostlegri samstöðu fyrir réttlátu samfélagi á baráttudegi fyrir betra samfélagi. Undirrituð telur afar mikilvægt að fólk í forréttindastöðu gleymi ekki mikilvægi baráttunnar því henni er ekki enn lokið. Enn eru konur sem þurfa að sæta óréttlæti, kynbundnu ofbeldi og smánun á hverjum degi. Líkt og kom fram í kynningu fyrir Kvennaverkfallið þá er staðan enn að „Þrátt fyrir áratugalanga baráttu búum við enn í samfélagi þar sem langlífasti og útbreiddasti faraldurinn sem við eigum við að etja er kynbundið ofbeldi, ásamt því að framlag kvenna til samfélagsins er gróflega vanmetið “ Hjörtu okkar slógu í takt þann 24. október 2023. Þvílík stemmning og baráttuandi, höldum áfram að gera betur.

Hvetjum konur til þátttöku í stjórnmálum

Síðust ár hefur þeim konum fjölgað sem hafa gengið til liðs við Framsókn. Konur sem hafa skynjað samvinnukraftinn, viljann og framtakssemina sem einkennir Framsókn. Konur sem hafa upplifað og vita að rödd þeirra hefur áhrif. Konur í Framsókn takk fyrir ykkar framlag, samtölin, innblásturinn og samveruna á árinu sem er að líða. Ég óska ykkur öllum farsældar á komandi ári og hlakka til að ganga inn í nýtt ár með Framsókn.

Guðveig Lind Eyglóardóttir, formaður Kvenna í Framsókn.

Categories
Fréttir Greinar

Orkuuppbygging er nauðsynleg til framtíðar

Deila grein

29/12/2023

Orkuuppbygging er nauðsynleg til framtíðar

„Nú árið er liðið í ald­anna skaut og aldrei það kem­ur til baka“ seg­ir í texta Valdi­mars Briem. Um ára­mót höf­um við til­hneig­ingu til þess að horfa til baka yfir far­inn veg og velta fyr­ir okk­ur hvernig við höf­um staðið okk­ur í leik og starfi. Á sama tíma horf­um við fram á við á þær áskor­an­ir sem blasa við okk­ur. Lífið líður áfram og það verður aldrei þannig að öll­um verk­efn­um sé lokið. Þessi miss­er­in eru áskor­an­ir í orku­mál­um þjóðar­inn­ar eitt af þeim stóru verk­efn­um sem brýn þörf er á að leysa. Það er afar mik­il­vægt að við sem störf­um á Alþingi náum giftu­ríkri niður­stöðu í þeim mál­um á kom­andi mánuðum.

Eft­ir­spurn um­fram fram­boð

Einn af helstu kost­um þess að búa á Íslandi er gott aðgengi að orku­auðlind­inni og höf­um við borið gæfu til þess að vera fram­sýn í fram­leiðslu á end­ur­nýj­an­legri orku. Öll framtíðar­hag­kerfi eru háð góðu aðgengi að orku. Íslensk heim­ili og at­vinnu­líf hafa getað treyst á gott og hag­kvæmt aðgengi orku og hef­ur það verið lyk­ill­inn að góðum lífs­kjör­um á Íslandi.

For­stjóri Lands­virkj­un­ar skrifaði grein í Morg­un­blaðið þann 27.12. 2023 með yf­ir­skrift­inni „Rán­dýr leki fyr­ir (næst­um) alla“. Í grein­inni er farið vel yfir þær áskor­an­ir sem blasa við orku­vinnslu­fyr­ir­tækj­um og neyt­end­um stór­um sem smá­um, á markaði þar sem eft­ir­spurn eft­ir grænni orku vex en því er ekki að heilsa hvað fram­boð varðar. Í grein­inni kem­ur m.a. fram að pant­an­ir á orku fyr­ir heild­sölu­markaðinn (þ.e. fyr­ir heim­ili og smærri fyr­ir­tæki) á næsta ári séu 25% meiri en sem nem­ur al­menn­um vexti í sam­fé­lag­inu og vek­ur það spurn­ing­ar um hvert ork­an sé að fara.

Al­menn­ing­ur og smærri fyr­ir­tæki á Íslandi hafa hingað til búið við þann munað að hafa haft óheft­an aðgang að grænni orku á hóf­legu verði. En nú eru blik­ur á lofti. Með vax­andi eft­ir­spurn stærri not­enda sem eru til­bún­ir að greiða mun hærra verð fyr­ir raf­orku en geng­ur og ger­ist er hætta á að breyt­ing­ar verði á raf­orku­markaðnum til framtíðar, það er að segja ef ekk­ert verður að gert. Með óbreyttu ástandi skap­ast hætta á að heim­ili í land­inu þurfi að fara að greiða mun hærra verð fyr­ir raf­orku en við höf­um van­ist hingað til. Ég hef litla trú á því að það sé póli­tísk­ur vilji í land­inu að stefna á þá leið að hækka raf­orku­verð til al­menn­ings með þess­um hætti, það er alla­vega ekki minn vilji né vilji okk­ar í Fram­sókn.

Frum­varp at­vinnu­vega­nefnd­ar

Á nýliðnu haustþingi lagði at­vinnu­vega­nefnd Alþing­is að beiðni um­hverf­is-, orku- og lofts­lags­ráðherra fram frum­varp til laga um breyt­ing­ar á raf­orku­lög­um nr. 65/​2003. Þetta frum­varp varð ekki til í ein­hverju tóma­rúmi held­ur er mark­miðið með því að tryggja raf­orku­ör­yggi heim­ila og minni fyr­ir­tækja í land­inu í sam­ræmi við stefnu stjórn­valda. Nái frum­varpið fram að ganga mun það tryggja að heim­ili og minni fyr­ir­tæki hafi ávallt aðgang að svo­kallaðri for­gangsra­f­orku í kerf­inu. Málið fékk efn­is­lega um­fjöll­un inn­an nefnd­ar­inn­ar og fór í gegn­um aðra umræðu. Við þriðju umræðu var það ein­róma niðurstaða at­vinnu­vega­nefnd­ar að fresta af­greiðslu máls­ins fram á nýtt ár 2024.

Ekki vilji til að hækka raf­orku­verð til al­menn­ings en úr­bóta er þörf

Það er mik­il­vægt að lög­festa aðgang al­menn­ings og smærri not­enda að for­gangsra­f­orku tíma­bundið, meðan leitað er allra leiða til frek­ari orku­öfl­un­ar, ork­u­nýt­ing­ar og efl­ing­ar á flutn­ings- og dreifi­kerfi raf­orku. Annað er ekki í boðlegt. Verk­efn­inu er hvergi nærri lokið.

Við í Fram­sókn leggj­um of­urá­herslu á fjöl­breytta þróun á end­ur­nýj­an­legri orku en að sama skapi að horft verði til hag­kvæmra kosta. Ljóst er að ork­u­nýt­ing hef­ur auk­ist til muna ár frá ári og því miður er staðan sem upp er kom­in fyr­ir­sjá­an­leg. Stjórn­völd verða að vera meira af­ger­andi og fram­sýnni í raf­orku­mál­um og mun at­vinnu­vega­nefnd sann­ar­lega leggja sitt af mörk­um í þeirri veg­ferð. Við í at­vinnu­vega­nefnd höld­um áfram þar sem frá var horfið fyr­ir jól og það er mín trú að við náum sam­an góðri og far­sælli niður­stöðu.

Með von í hjarta óska ég þess að bjart­ir og orku­mikl­ir tím­ar bíði okk­ar á nýju ári. Gleðilegt nýtt ár.

Þórarinn Ingi Pétursson, þingmaður Fram­sókn­ar og formaður at­vinnu­vega­nefnd­ar Alþing­is.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 29. desember 2023.